Samstarf og samhjálp verkalýðsins einkenndi stefnu og störf verkalýðshreyfingarinnar í Vestur-Evrópu, einnig hér á landi. Bæði jafnaðarmenn og kommúnistar lögðu ríka áherslu á þennan þátt á millistríðsárunum. Hér sést kröfuganga á 1. maí, líklega á fjórða áratugnum. Kommúnistar og bandamenn þeirra leiða greinilega þessa göngu og þar má sjá slagorðið „Öreigar allra landa sameinist“. Einnig má sjá myndir af Karli Marx og Jósef Stalín.
… en það þykist jeg sjá í hendi minni, að verkmannasamtökum og verkmannablaði eða alþýðumanna getur því að eins orðið lífs auðið og framgángs, að þau snúi sjer með fullri djörfúng og heils hugar að þeirri stefnu, sem heimurinn kallar Sósíalismus og nú er aðalathvarf verkmanna og lítilmagna hins svokallaða mentaða heims.1
Þorsteinn Erlingsson 1906, 10.
Verkalýðshreyfingin er afkvæmi kapítalismans, kannski ekki óskabarn en hvorugur aðilinn getur þó án hins verið. Því er ekki að undra að rætur hreyfingarinnar í Evrópu liggi í Englandi þar sem iðnbylting og kapítalismi tóku fyrst út þroska. Þegar á þriðja og fjórða áratug 19. aldar spruttu þar upp verkalýðsfélög sem unnu að bættum aðbúnaði á vinnustöðum og styttum vinnutíma.2 Árið 1868 héldu félög faglærðra verkamanna ráðstefnu, Trade Union Congress, og voru heildarsamtök verkalýðsfélaga í Bretlandi stofnuð í kjölfarið. Sósíalísk hreyfing í Bretlandi fór að taka á sig mynd á ofanverðri 19. öld, m.a. undir forystu hins þekkta rithöfundar, hönnuðar og Íslandsvinar, William Morris. Nokkur þessara samtaka tóku höndum saman um aldamótin 1900 í tengslum við þingkosningar og mynduðu fáum árum síðar (1906) breska Verkamannaflokkinn en aðild að honum áttu bæði verkalýðsfélög og stjórnmálafélög. Á meginlandinu varð þróunin í Þýskalandi mjög mótandi fyrir gang mála í Norður-Evrópu. Fyrstu sósíalísku samtökin voru stofnuð þar um miðja 19. öld. Jafnaðarmannaflokkur Þýskalands kom til sögu árið 1875 en þýska alþýðusambandið árið 1890. Flokkur og hreyfing voru aðskilin en jafnaðarmenn gegndu forystuhlutverki í verkalýðshreyfingunni og var flokkurinn hlutfallslega öflugri en verkalýðshreyfingin, ólíkt Bretlandi þar sem verkalýðsfélögin gegndu stærra hlutverki en flokkurinn. Þýska hreyfingin fylgdi stefnu Karls Marx í fyrstu, stefnu stéttabaráttu og byltingar sem átti að leiða til stéttlauss samfélags kommúnismans í fyllingu tímans. Endurbótastefna í anda Eduards Bernsteins varð þó fljótt ráðandi í flokknum. Þrátt fyrir að flokkurinn væri bannaður um árabil á ofanverðri 19. öld efldist hann hratt og var hann orðinn einn af stærstu flokkum Þýskalands um aldamótin 1900.3
Verkalýðshreyfingin á Norðurlöndum mótaðist mjög af þróuninni í Þýskalandi.4 Þýska hreyfingin byggði á hugmyndum um stéttaandstæður, sósíalisma og sérstakt skipulag á verkalýðshreyfingunni, stjórnmálaflokk sem leiddi baráttuna og verkalýðsfélög sem sameinuðu verkafólk. Þessi skipan var ólík „breska“ skipulaginu sem lagði meiri áherslu á hina faglegu hreyfingu en hina stjórnmálalegu og félagslegar umbætur fremur en framtíðarsýn sósíalismans.5
Rekja má rætur hreyfingarinnar í Danmörku aftur til miðrar 19. aldar en þekktasti forgöngumaður hennar fyrsta skeiðið var Louis Pio. Hann hafði frumkvæði að því að koma á fót í Danmörku deild úr Fyrsta alþjóðasambandi verkalýðsins árið 1871 en það var stofnað í London árið 1864. Samtökin fengu þegar umtalsverðan stuðning í Danmörku og beittu sér fyrir verkfalli meðal múrara í Kaupmannahöfn árið 1872. Verkfallinu lauk með átökum (Slaget på Fælleden) og voru leiðtogar verkamanna kærðir og dæmdir til margra ára fangelsisvistar og samtök þeirra bönnuð.6 Þrátt fyrir þetta áfall voru á næstu árum stofnuð stéttarfélög í einstökum borgum og bæjum sem gerðu fljótlega bandalag sín á milli og höfðu sameiginlega miðstjórn. Boðað var til fyrsta þings þessara samtaka 1876 og var Det Socialdemokratiske Forbund stofnað tveimur árum síðar. Á þinginu var samþykkt fyrsta stefnuskrá danskra jafnaðarmanna sem var nánast orðrétt þýðing á stefnuskrá þýskra sósíaldemókrata. Hreyfingu jafnaðarmanna og verkalýðs í Danmörku var fljótlega skipt í tvennt, annars vegar pólitískan hluta sem sá um stjórnmálabaráttuna og hins vegar stéttarfélög sem einbeittu sér að baráttu fyrir bættum kjörum og aðstæðum verkafólks, en sambandið var þó náið allt til loka 20. aldar.7 Á níunda áratugi 19. aldar efldist verkalýðshreyfingin mjög í landinu og þegar um aldamótin 1900 var staðan sú að verkamenn í helstu iðngreinum höfðu skipulagt sig í stéttarfélögum. Í stjórnmálum styrktu jafnaðarmenn stöðu sína er leið að aldarlokum og fengu átta þingmenn í kosningunum 1895.8 Alþýðusamband Danmerkur, De samvirkende fagforbund, var svo stofnað árið 1898, tveimur árum eftir að þarlendir atvinnurekendur stofnuðu sín samtök.9
Íslensk verkalýðshreyfing og forystumenn hennar leituðu mjög fyrirmynda í Danmörku. Einn þeirra var Þorsteinn Erlingsson. Í erindi sem hann hélt fyrir Dagsbrúnarmenn á fundi milli jóla og áramóta 1912 lýsti hann því fagnandi hvernig hann hefði haft
12 ára persónulega kynningu af þessum bardaga, eins og hann hefir verið háður í Danmörku. Eg hefi séð þar sjálfur hvernig jafnaðarmenn hafa brotist í gegn um skort og vandræði, háð og hatur, og eru nú orðnir … meiri hluti í bæjarstjórn Kaupmannahafnar, öflugur flokkur á þingi, og að þeir hafa stofnsett eitt stærsta bakarahús bæjarins og spornað við hækkun brauðverðs, svo að þeir hafa sparað borgarbúum – fátækum og ríkum – óefað nokkur hundruð þúsunda krónur á ári, og auk þess fyrir ölgerð, kjötverzlun og fl. o. fl.
Þá væri blað jafnaðarmanna víðlesið og rekið með góðum hagnaði.10 Þorsteinn var í fámennum hópi menntamanna sem höfðu kynnt sér jafnaðarstefnu kringum aldamótin 1900 og komu boðskap sínum á framfæri í blöðum þess tíma, án þess þó að fá miklar undirtektir.11
En athygli íslenskra verkalýðssinna um og eftir aldamótin 1900 beindist einnig mikið að Noregi, enda störfuðu margir Norðmenn á Íslandi á ofanverðri 19. öld og fram á hina 20. Þar í landi hafði verkalýðshreyfingin þegar látið að sér kveða um og upp úr miðri 19. öld með verkamannaleiðtogann Marcus Thrane í broddi fylkingar. Svipað og í Danmörku var mjög þrengt að hreyfingunni í Noregi á upphafsárum hennar og leiðtogar hennar fangelsaðir svo árum skipti. Engu að síður efldist hreyfingin. Norski Verkamannaflokkurinn var stofnaður árið 1887 en landssamtök stéttarfélaga, Arbeidernes Faglige Landsorganisasjon, árið 1899.12
Í flestum tilvikum var það þannig að þeir sem gengu í verkalýðsfélag gengu þar með einnig í Verkamannaflokkinn norska, þ.e. stéttarfélög áttu iðulega aðild að flokknum í fyrstu. Það var þó ekki skylda og ekki gengu öll félög eða félagasambönd í Verkamannaflokkinn.
Tengslin voru svo styrkt enn frekar með því að Verkamannaflokkurinn átti fulltrúa í stjórn norska alþýðusambandsins og öfugt svo að böndin voru afar náin.13 Þetta samband var lengi við lýði, bæði fjárhagslega og á annan hátt, og var ekki afnumið fyrr en á landsþingi norska Verkamannaflokksins árið 1992 (breytingin tók gildi fjórum árum síðar). Þessi máti hafði þó verið gagnrýndur bæði oft og lengi. Þegar breytingin var gerð hafði þó dregið mjög úr mikilvægi þessa fyrirkomulags fyrir Verkamannaflokkinn frá því sem áður var og má geta þess að árið 1991 hafði ríflega fimmtungur félaga í Verkamannaflokknum gengið í hann fyrir milligöngu stéttarfélags. Þessi tengsl voru líka orðin verkalýðshreyfingunni fjötur um fót. Margir vildu einfaldlega ekki styðja Verkamannaflokkinn en voru samt til í að vera í verkalýðsfélagi.14
Í Svíþjóð (Sveriges socialdemokratiska arbetareparti var stofnaður árið 1889) var sameiginleg aðild að flokki og verkalýðsfélagi heimil en hún var afnumin árið 1990. Það leiddi til þess að mjög fækkaði í sænska jafnaðarmannaflokknum, enda hafði um þriðjungur félaga gengið í hann fyrir milligöngu stéttarfélags.15 Tengsl flokks og verkalýðshreyfingar voru þó áfram náin.