Efnisyfirlit

Deila sögu ASÍ

Tímabilið fram til 1940

Sjómenn á fiskiskútu kringum aldamótin 1900. Ef til vill hafa einhverjir þeirra verið félagar í einhverri deilda Bárufélaganna á Suðvesturlandi. Sem sjá má eru flestir sjómannanna ungir að árum og sumir kornungir.

Verkalýðshreyfing verður til

Saga ASÍ: Í samtök › Tímabilið fram til 1940

Verkalýðshreyfing verður til

Verkalýðsfélag eða stéttarfélag er félagsskapur sem vinnur að því að bæta kjör og verja hagsmuni verkafólks. Í slíkum félögum eru eingöngu þeir sem selja vinnuafl sitt, þ.e. ef félagið stendur undir nafni.1 Slík félög verða fyrst til þegar verkafólk eða hluti þess er komið með vitund um að það tilheyri ákveðinni stétt, tilvist stéttarinnar sem slíkrar var ekki nægileg, eins og Karl Marx lýsti á sínum tíma.2 Skipulag þessara félaga getur verið með ýmsum hætti, en aðalatriði er að þar eru ákvarðanir teknar lýðræðislega um stefnu á almennum félagsfundum. Hér á landi var algengast að verkalýðsfélögin væru bundin við tilteknar starfsgreinar á stærri stöðum en við staðinn þar sem var fámennara. Algengt var einnig að verkalýðsfélög væru kynbundin, a.m.k. á Íslandi og í nokkrum fleiri löndum, en svo er ekki lengur.

Um skilgreiningu á stéttarfélagi, sjá m.a. Lára V. Júlíusdóttir
1995, 24.
Sjá m.a. Christensen, Lars K.; Kolstrup, Søren; Hansen,
Anette Eklund 2007, 32.

Sagt frá stofnun Verzlunarmannafélags Reykjavíkur í Þjóðviljanum 26. febrúar 1891. Félagið var þó ekki stéttarfélag launafólks heldur sameiginlegt félag verslunareigenda og verslunarþjóna. Það varð ekki að stéttarfélagi fyrr en meira en 60 árum síðar.

Áður en fyrstu stéttarfélögin komu til sögu hér á landi höfðu verið starfandi félög handiðnaðarmanna en Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík var t.d. stofnað árið 1867. Líka hafði verið komið á fót sjómannaklúbbi (1875) en hvorugt þessara félaga telst til stéttarfélaga. Gildi, eða samfélög sjálfstæðra iðnaðarmanna, höfðu ekki starfað hér á landi á sama hátt og í nágrannalöndunum; gildin settu m.a. reglur um verð og laun og útdeildu verkefnum og í raun gátu iðnmeistarar ekki staðið utan þeirra.3 Nokkur félög sjálfstæðra iðnaðarmanna voru þó stofnuð hérlendis undir lok 19. aldar, t.d. bæði félag járnsmiða og skósmiða. Markmið þessara félaga var m.a. að lagfæra viðskiptahætti, draga úr nýliðun í stéttina (skósmiðir) og gæta hagsmuna félagsmanna á annan hátt.4 Þessi félög urðu þó skammlíf. Verzlunarmannafélag Reykjavíkur, stofnað 1891, var ekki stéttarfélag heldur sameiginlegt félag verslunarþjóna og kaupmanna, og í fyrstu eingöngu karla.5 Hið sama gildir um Skipstjóra- og stýrimannafélagið Ölduna. Markmið þess var fræðsla og skemmtun, ekki hagsmunabarátta. Fremur má líta á Hið íslenska kennarafélag sem stéttarfélag en það var stofnað árið 1889.6

Sjá m.a. Christensen, Lars K.; Kolstrup, Søren; Hansen,
Anette Eklund 2007, 16.
Ólafur R. Einarsson 1970, 44−45. − Sumarliði R. Ísleifsson
1987, 41−42.
Lýður Björnsson 1992, I, 26−27, 35, 38.
Jón Gunnar Grjetarsson 1993, 227−229.

Fyrsta stéttarfélagið hér á landi, sem fellur undir þau skilyrði sem nefnd eru hér að ofan, var Prentarafélagið, stofnað árið 1887. Félagið starfaði þó stutt.7 Prentarar fóru hér að dæmi prentara víða um lönd sem oftar en ekki urðu fyrstir allra starfsstétta til að stofna stéttarfélög. Þeir voru í fararbroddi í baráttu fyrir margvíslegum réttinda- og hagsmunamálum verkafólks, enda komust þeir vegna starfa sinna manna fyrstir í kynni við nýja hugmyndastrauma.

Ólafur R. Einarsson 1970, 36−43.

Miðbær Reykjavíkur og Tjörnin um aldamótin 1900; skautasvell er á Tjörninni og börn bregða á leik. Lengst til vinstri sést Bárubúð í byggingu en hún var í eigu Bárufélagsins. Til hægri við hana blasir Alþingis húsið við. Þá er Góðtemplarahúsið eða Gúttó í eigu Góðtemplarareglunnar en lengst til hægri er Iðnó sem Iðnaðarmannafélagið lét reisa. Fulltrúaráð verkslýðsfélaganna í Reykjavík eignaðist síðan húsið árið 1929. Þessi þrjú hús, Bárubúð, Gúttó og Iðnó gegndu mikilvægu hlutverki í félags- og menningarlífi Reykvíkinga og verkalýðshreyfingarinnar.

Í kringum aldamótin 1900 var sú hugmynd að stofna verkalýðsfélag flestum framandi. Slík tíðindi gerðust enn aðallega erlendis.8 Flest verkafólk var upprunnið úr sveitum landsins og leit á sig sem hjú sem bæri að fara að óskum húsbænda sinna. Endurgjaldið fyrir vinnuna var ákveðið samkvæmt hefð sem ekki hafði breyst mikið um langan aldur og helst átti fólk að vera sem lengst hjá hverjum húsbónda í stað þess að ráða sig þar sem kaupin gerðust best. Því var erfitt að fá verkafólk til þess að skilja að það ætti ef til vill einhvern rétt til þess að taka þátt í að ákveða hversu mikið það ætti að fá greitt fyrir vinnu sína.9

Sjá m.a. Christensen, Lars K.; Kolstrup, Søren; Hansen,
Anette Eklund 2007, 57.
Sjá m.a. Skúli Þórðarson 1967, 22−23.

Árið 1894 gerðust þó þau tíðindi að sjómenn tóku sig til og stofnuðu félagið Báruna í Reykjavík og hefur rauður þráður verkalýðshreyfingarinnar hér á landi verið óslitinn síðan. Nokkru fyrr sama ár höfðu útvegsmenn stofnsett Útgerðarmannafélagið við Faxaflóa og setti félagið einhliða reglur um ráðningarskilyrði sjómanna. Það fór ekki fram hjá sjómönnum og óánægja varð með þessar nýju reglur. Þess vegna var félagið stofnað. Félög af þessu tagi spruttu síðan upp víða á Suðvesturlandi, t.d. í Hafnarfirði 1896, á Akranesi 1902, Eyrarbakka árið eftir og ekki löngu síðar á Stokkseyri, í Keflavík og Garðinum. Þessi félög voru að verulegu leyti skipulögð í samræmi við starfshætti innan Góðtemplarareglunnar sem þá var langöflugust frjálsra félagasamtaka hér á landi. Barátta gegn áfengisneyslu varð líka eitt af viðfangsefnum Bárufélaganna. Þegar á þessum árum mynduðust því sterk bönd á milli verkalýðshreyfingar og bindindishreyfingar, samband sem átti eftir að standa í áratugi.10 Helsti forsvarsmaður félaganna varð ungur sjómaður úr Reykjavík, Ottó N. Þorláksson, sem mestan hlut átti að stofnun fyrsta félagsins, Bárunnar í Reykjavík. Hann átti síðar eftir að láta mikið að sér kveða í verkalýðsbaráttunni. En samvinnan við bindindishreyfinguna var náin eins og Ottó lýsti síðar:

Ottó N. Þorláksson 1986, 92−94. − Pétur G. Guðmundsson
1930, 4. − Ólafur R. Einarsson 1970, 53−58.

Verbúð við Þorlákshöfn kringum aldamótin 1900. Sjóvettlingar til þerris á stafninum. Miðað við sumar lýsingar virðast aðstæður hafa verið fremur góðar í þessari verbúð en þröngt hefur verið um mannskapinn.

Ottó N. Þorláksson, einn helsti forsvarsmaður og frumkvöðull að stofnun Bárufélaganna.

Satt að segja þá varð það einskonar samningsmál milli okkar í „Bárunni“ og Sigurðar Eiríkssonar regluboða, að við skyldum stofna þessar stúkur og vinna þannig að bindindi meðal sjómanna, en hann skyldi á ferðum sínum hins vegar stofna „Báru“félög. Og það gerði hann. Hann stofnaði Báru-félögin í Keflavík, Garðinum, Eyrarbakka, og Stokkseyri. – Það var ágæt samvinna báðum aðiljum til góðs.11

Þjóðviljinn 23. október 1940, 4.

Ottó varð þó ekki formaður félagsins í Reykjavík heldur Jón real Jónsson, nefndur real því hann var gagnfræðingur frá Flensborg í Hafnarfirði og stundaði kennslu á vetrum en var þess utan á skútu.12

Ottó N. Þorláksson 1986, 94.

Bárufélögin unnu að bættum kjörum sjómanna, m.a. með því að gera kröfu um að aflahlutur sjómanna væri keyptur á markaðsvirði, og a.m.k. hluti kaups yrði greiddur í peningum; þegar á fyrsta starfsári sínu gekk félagið í Reykjavík frá slíku samkomulagi.13 Félögin höfðu með sér samband og var það kallað Stórdeild í anda reglunnar og þar var Ottó í forsvari. Félögin náðu allgóðri útbreiðslu og var t.d. á sjötta hundrað meðlima í þeim árið 1903 og samkomustaðurinn í Reykjavík var í Bárubúð.14 Eftir stofnun Verkamannafélagsins Dagsbrúnar í Reykjavík árið 1906 dró úr starfsemi Bárunnar í Reykjavík og var hún lögð niður 1911. Deildum í Hafnarfirði, Keflavík og á Akranesi var breytt í annars konar félagsskap. Á tveimur fyrrnefndu stöðunum breyttust þær í kaupfélög en á Akranesi sameinaðist félagið deild úr Fiskifélaginu en það var bæði félag sjómanna og útgerðarmanna.15 Deildir á Stokkseyri og Eyrarbakka störfuðu áfram sem verkalýðsfélög.16 Verkalýðsfélagið Báran er enn til þótt í breyttu formi sé; í ársbyrjun 2000 sameinuðust Verkalýðsfélagið Þór á Selfossi og Verkalýðs- og sjómannafélagið Báran á Eyrarbakka, og tveimur árum síðar gekk Verkalýðs- og sjómannafélagið Bjarmi á Stokkseyri til liðs við þau. Hið nýja félag tók upp nafn Bárunnar á Eyrarbakka og er, eftir því sem best er vitað, eina félagið sem hefur haldið nafngift frá árdögum verkalýðshreyfingarinnar.17

Skúli Þórðarson 1967, 24. − Ólafur R. Einarsson 1970, 55.
Ottó N. Þorláksson 1986, 97.
Stefán Hjálmarsson 2004, 17.
Alþýðublaðið 14. nóvember 1934, 2. Viðtal við Ottó N.
Þorláksson. − Vinnan I, 14−18.
Sjá vef Bárunnar, stéttarfélags, http://www.baran.is/default.
asp; sótt í júlí 2010.

Bakarasveinar í Reykjavík voru fljótir til að stofna stéttarfélag þó að þeir væru ekki margir. Þessir bakarar hafa þó ekki notið þess, enda bjuggu þeir í Vestmannaeyjum, en eftir því sem útgerðarstaðir efldust víða um land fjölgaði þeim starfsstéttum sem þar gátu haslað sér völl.

Skútur á miðunum við Ísland.

Prentarar endurlífguðu samtök sín árið 1897 og stofnuðu Hið íslenska prentarafélag. Þeim tókst að ná viðurkenningu atvinnurekenda með skriflegum kjarasamningi árið 1906; helstu forgöngumenn félagsins höfðu dvalið við störf erlendis og höfðu reynslu af starfi innan verkalýðshreyfingarinnar þar. Það málefni sem ekki hvað síst hreyfði við prenturum var nemendafjöldinn en það mun hafa verið tíðkað að segja fullnuma prenturum upp eftir að þeir höfðu lokið námi og ráða nýja lærlinga í þeirra stað, en þeim þurfti ekki að greiða laun.18

Ingi Rúnar Eðvarðsson 1994, 388−389.

Daglaunamenn á Akureyri og Seyðisfirði stofnuðu einnig hagsmunafélög um sama leyti en þau urðu ekki langlíf. Verkamannafélag Akureyrarkaupstaðar var stofnað 1894 og voru helstu mál þess barátta gegn skulda- og lánsverslun þar sem viðskiptavinir urðu háðir tilteknum kaupmanni, og barátta fyrir tíu stunda vinnudegi og hækkuðu kaupi. Sennilega var fyrstnefnda atriðið mikilvægasti hvatinn að stofnun félagsins. Einn helsti hvatamaður að tilurð þess var Jóhannes Sigurðsson sem hafði dvalið um skeið í Bandaríkjunum og kynnst þar starfi verkalýðsfélaga. Félagið lifði þó skamma hríð, sennilega bara tvö ár, og var formlega leyst upp fáum árum síðar.19 Félagið á Seyðisfirði, Verkamannafélag Seyðisfjarðar, var stofnað 1896 eða 1897. Brautryðjendur þar höfðu aðgang að Bergsveini M. Long sem einnig hafði búið um skeið í Norður-Ameríku og tekið þar þátt í starfsemi verkalýðsfélaga. Hann var seyðfirskum verkamönnum innan handar við að semja lög félagsins en auk þess nutu þeir stuðnings Þorsteins Erlingssonar skálds sem þá bjó á Seyðisfirði og var ritstjóri blaðsins Bjarka og mikill verkalýðssinni. Helstu markmið félagsins voru að setja kauptaxta fyrir félagsmenn, takmarka vinnutíma og vinna að því að þeir hefðu forgang til vinnu. Félagið starfaði þó aðeins fá ár.20 Kröfur félagsins voru birtar og tiltekin þar daglaun fyrir tíu stunda vinnudag, svo og tímalaun og hversu mikið skyldi greiða fyrir eftirvinnu.21 Forysta félagsins tók það ráð að fá hina norsku atvinnurekendur á staðnum til þess að fallast fyrst á hin auglýstu kjör, á undan hinum íslensku, enda höfðu þeir „vanist … tímakaupi í sínu ættlandi“.22 Á þennan hátt var algengast að verkalýðsfélög þessa tíma færu að í kjarabaráttu sinni, taxtinn var auglýstur og látið reyna á hvort atvinnurekendur féllust á hann. Stundum gekk það en stundum þurfti að fara millileið.23

Ólafur R. Einarsson 1970, 72−76. − Jón Hjaltason 2004,
332−335.
Gunnlaugur Jónasson 27. apríl 1937, 3−4. − Vinnan I, 18−20. −
Ólafur R. Einarsson 1970, 60−70.
Gunnlaugur Jónasson 27. apríl 1937, 3−4.
Jóhannes Oddsson 1937, 2.
Sjá m.a. Sigurður Pétursson 2011, 123−124.

Saltfiskverkun í fjörunni í Hafnarfirði snemma á 20. öld. Verið er að breiða fiskinn í blíðunni. Bæði karlar og konur gátu átt aðild að Verkamannafélaginu Hlíf sem var stofnað árið 1907.

Ýmis fleiri dæmi voru um að brautryðjendur við stofnun verkalýðsfélaga, t.d. á Eskifirði, hefðu dvalið erlendis og þess má geta að þegar árið 1890 hafði verið stofnað íslenskt verkalýðsfélag í Winnipeg í Kanada og starfaði það um nokkurra ára skeið. Hafa fréttir af þessari starfsemi trúlega borist heim til Íslands.24 Ýmsir nutu líka reynslu manna sem höfðu búið á Norðurlöndunum eða voru þaðan. Til dæmis var ein ástæða þess að bakarasveinar stofnuðu stéttarfélag þegar árið 1908, á undan mörgum öðrum handiðnaðarmönnum, sú að í röðum þeirra var danskur bakarasveinn sem hafði starfað í stéttarsamtökum sínum í Danmörku og kveikti „eld áhugans“ með hérlendum kollegum sínum.25 Erlend tengsl skiptu því máli og verkalýðshreyfingin átti kannski greiðari aðgang að stöðum þar sem slík tengsl voru fyrir hendi, t.d. á Austfjörðum.

Sigurður Jóhannesson 1945, 215. − Ólafur R. Einarsson 1970,
27−29.
Hannibal Valdimarsson 1958, 5−6 (Vinnan XV (1958), 1.−2.
tbl.).

Vörður

  • 1887 Prentarafélagið stofnað.
  • 1894 Stofnun fyrsta Bárufélagsins.
  • 1894 Verkamannafélag Akureyrarkaupstaðar stofnað. Lagðist af en var endurvakið 1906.
  • 1896 (eða 1897) Verkamannafélag Seyðisfjarðar stofnað.
  • 1897 Hið íslenska prentarafélag stofnað.

Næsti kafli

Verkalýðshreyfingin festir sig í sessi