Fulltrúar á stofnþingi Alþýðusambands Norðurlands í maí 1947. Aftast á upphækkun f.v. eru: Björn Önundarson, óþekktur, óþekktur, óþekktur, Óskar Garibaldason, Hreiðar Guðnason, óþekktur, Haraldur Þorvaldsson, Stefán Snæbjörnsson. Standandi á gólfi: Guðmundur Guðmundsson, Lórenz Halldórsson, óþekktur, Björn Arngrímsson, Kristinn Jónsson, Jón Ingimarsson, Gunnar Jóhannsson, Höskuldur Egilsson, Arnór Kristjánsson, Albert Jóhannsson, Jón Rafnsson, Ólafur Guðmundsson, óþekktur, Aðalgeir Þorgrímsson, Hermann Guðmundsson, Rósberg G. Snædal, Gísli Sigurðsson, Guðmundur Vigfússon, Sigurður Stefánsson, Björn Jónsson. Sitjandi við borðið eru: óþekktur, Ásta Ólafsdóttir, Sigríður Sigurðardóttir, Elísabet Eiríksdóttir, Guðrún Guðvarðardóttir, Anney Jónsdóttir. Á vegg eru þrjár myndir; lengst til vinstri er Lenín, þá Jón Sigurðsson og til hægri líklega Rósa Lúxembúrg. Þjóðernishyggja og sósíalismi fóru einkum saman hjá róttækari hluta verkalýðshreyfingarinnar.
Verkalýðssambönd Norðurlanda höfðu lengi haft með sér samráð, sem fyrr getur, og Alþýðusambandið tók einnig þátt í því starfi. Strax á lokaári styrjaldarinnar hittust fulltrúar sambandanna í Svíþjóð í júlí 1945 og var þáverandi forseti ASÍ, Hermann Guðmundsson, fulltrúi Íslands ásamt Eggerti Þorbjarnarsyni. Á fundinum var m.a. rætt um nýtt alþjóðlegt samband verkalýðsfélaga sem stofna átti í París þá um haustið.1 Samstarf Íslendinga við norrænu verkalýðssamböndin var þó stopult næstu árin, enda litu norrænir sósíaldemókratar íslenska verkalýðshreyfingu hornauga eftir valdatöku sósíalista árið 1944 og höfðu lítinn áhuga á að vinna með þeim. Til dæmis var ekki óskað eftir nærveru fulltrúa Alþýðusambandsins á fundum samvinnunefndar norrænu sósíaldemókrataflokkanna og alþýðusambanda þessara landa á árunum 1944–1948 og var það gert fyrir tilstuðlan Alþýðuflokksins.2
Stundum voru málin leyst þannig, þegar ASÍ barst boð um þátttöku í þingum alþýðusambanda hinna Norðurlandanna, að stúdentar sem voru í námi erlendis eða aðrir Íslendingar sem voru búsettir þar voru fengnir til þess að mæta á þau. Einar Bragi rithöfundur var stundum í þessu hlutverki og árið 1946 var Ingvar Hallgrímsson fulltrúi ASÍ á þingi norska Alþýðusambandsins. Stundum svöruðu Íslendingar heldur ekki boðum, t.d. boði á faglegan fund norrænu verkalýðssambandanna árið 1946: „Fra Island har vi ikke mottatt noe svar, og en må vel gå ud fra at det ikke kommer noen fra den islandske landsorganisasjon.“3 En valdahlutföllin breyttust innan ASÍ árið 1948 og þá var þráðurinn tekinn upp að nýju, m.a. var fundur norrænu samvinnunefndarinnar haldinn í Reykjavík um mitt ár 1949. Á þeim vettvangi var m.a. rætt um afstöðu til Marshall-áætlunarinnar og um aukið samstarf landanna.4 Jafnfram bauðst Íslendingum að senda ungt fólk til náms í verkalýðsskólum á Norðurlöndunum – það hafði raunar lengi tíðkast í einhverjum mæli – en um og eftir 1950 hafði skólavistin fengið nýja merkingu. Þeim sem voru sendir var ætlað að „[lede] kampen imot kommunisterne innenfor „Dagsbrún“-foreningen, og det ville være vigtigt for dem at få lidt nærmere at kende jeres arbeide af samme slags før de beginner denne kamp heroppe“.5
Alþjóðasamband verkalýðsfélaga (WFTU) var stofnað í stríðslok árið 1945 í París.6 ASÍ tók þátt í undirbúningi fyrir stofnun þess. Björn Bjarnason, ritari ASÍ, og Stefán Ögmundsson, varaforseti sambandsins, voru fulltrúar ASÍ á stofnfundinum. Sá fyrrnefndi ritaði langa grein í Vinnuna um stofnfundinn og kvað miklar vonir bundnar við að brátt yrði „allur hinn skipulagði verkalýður veraldarinnar kominn í sambandið“.7 Björn tók jafnframt sæti í miðstjórn Alþjóðasambandsins sem fulltrúi Íslands, en 18. þing ASÍ ákvað að gerast stofnaðili að sambandinu. Samhliða var Amsterdamsambandið svokallaða, IFTU, lagt niður. 8En friðurinn stóð ekki lengi innan WFTU. Eitt af því sem olli ágreiningi var hvort taka ætti þátt í Marshall-áætluninni svonefndu og var málið rætt á fundi Alþjóðasambandsins í París árið 1947.9 Breska Alþýðusambandið og samböndin í Beneluxlöndunum svokölluðu boðuðu til ráðstefnu árið 1948 og buðu þangað verkalýðssamböndum víða í Evrópu til þess að ræða áætlunina í samvinnu við Bandaríska verkalýðssambandið, AFL, American Federation of Labour. Mörg sambönd þekktust þetta boð, en það gerði Alþýðusamband Íslands ekki.10 Björn Bjarnason, annar fulltrúa ASÍ í WFTU, hélt því fram að þetta tilboð og allt atferli AFL miðaði að því að kljúfa verkalýðssamböndin í Evrópu. Það hefði sums staðar tekist með aðstoð erindreka bandarísku verkalýðssamtakanna sem hefðu jafnvel borið fé á einstök félög og forystumenn. Björn benti á að óþarft væri að halda sérstaka ráðstefnu um Marshall-áætlunina þar sem WFTU hefði þegar boðað til ráðstefnu um endurreisn Evrópu.11 Þessi afstaða Alþýðusambandsforystunnar var harðlega gagnrýnd í fjölmiðlum hér á landi.12 Eftir að nýr meirihluti „lýðræðissinna“ tók við völdum í ASÍ 1948 var breytt um stefnu og Marshall-áætluninni fagnað, og árið 1951 þáði forysta ASÍ boð Efnahagssamvinnustofnunar Evrópulandanna um að senda nefnd í kynnisför til Bandaríkjanna.13
Eftir einungis fjögurra ára starf var því farið að kvarnast úr WFTU, t.d. gengu breska Alþýðusambandið og hið bandaríska CIO úr því árið 1948. Í kjölfarið fylgdu flest sambönd í Vestur-Evrópu, t.d. bæði norsku og dönsku heildarsamtökin, og stofnuðu Alþjóðasamband frjálsra verkalýðsfélaga árið 1949, ICFTU.14
Miðstjórn ASÍ samþykkti úrsögn úr WFTU árið 1949 eftir að hafa fjallað um erindi frá bresku, bandarísku og hollensku verkalýðssamtökunum þar sem skýrðar voru ástæður þess að samböndin gengu úr WFTU. Árið eftir gekk ASÍ til liðs við nýju samtökin og gekk þar með í lið hinna norrænu samtakanna.15 Samstarfi Íslendinga við WFTU var þó ekki lokið því samhliða úrsögn Alþýðusambandsins tók fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Reykjavík upp tengsl þangað, enda laut það forystu sósíalista.16 Þrátt fyrir að ASÍ væri ekki lengur í sambandinu leituðu einstök félög, og síðar ASÍ, eftir fjárstuðningi til þess þegar kjaradeilur stóðu hér á landi. Stundum kom fyrir að fjárstuðningur frá WFTU væri notaður sem röksemd fyrir því að krefja Alþjóðsamband frjálsra verkalýðsfélaga um styrk og þá nefndar ótrúlega háar upphæðir sem hitt sambandið hefði veitt, jafnvel 100.000 dollarar. Síðar kom þó í ljós að staðhæfingar um slíkar upphæðir voru ekki á rökum reistar.17
Eftir að sósíalistar og stuðningsmenn Hannibals Valdimarssonar náðu völdum í ASÍ árið 1954 varð enn nokkur breyting og kólnuðu samskipti ASÍ í vesturátt, en þegin voru heimboð frá verkalýðssamtökum Sovétríkjanna. Fóru fulltrúar ASÍ þangað í maí 1955 og oft síðar. Nefna má einnig að alþýðusambönd Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar veittu ASÍ umtalsverðan styrk að loknu verkfallinu 1955.18
Íslensk verkalýðshreyfing þáði einnig ferðir til fleiri „verkalýðsríkja“ í Austur-Evrópu og var fjallað vinsamlega um þessi lönd í blaði ASÍ, Vinnunni, og móttökur lofaðar. Af gestalistunum má sjá að því fór fjarri að aðeins æðsta forysta sambandsins færi í slíkar ferðir. Algengara var að ferðalangarnir væru úr forystusveit einstakra stéttarfélaga og oft fólk sem ekki hafði átt „þess kost fyrr að sigla út fyrir pollinn“.19 Frásagnir af slíkum ferðum voru jafnan birtar á síðum Vinnunnar.20 Þá voru fulltrúar frá Verkalýðssambandi Sovétríkjanna gestir ASÍ, t.d. bæði 1956 og 1961. Hins vegar gerðist það að boð barst frá Bandaríkjunum, fyrir milligöngu Iðnaðarmálastofnunar árið 1955, um að senda sendinefnd manna úr verkalýðshreyfingunni þangað. Boðið var þó ekki sent ASÍ heldur Alþýðuflokki, Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki og sendu flokkarnir þangað sjö manna sendinefnd.21
Systursamtök Alþýðusambandsins erlendis höfðu áhyggjur af þróun mála á Íslandi og velti forystufólk þeirra fyrir sér hvert stefndi undir forystu Hannibals. Sérstaklega vakti áhyggjur frumkvæði Alþýðusambandsins að því að mynda bandalag vinstri aflanna þar sem kommúnistar væru einnig innan borðs. Alfred Skar, ritstjóri og framámaður hjá norska Alþýðusambandinu, ritaði Hannibal bréf þess efnis í áminningartón og benti honum á að slíkt bandalag væri einmitt í anda síðustu samþykkta sovéska Kommúnistaflokksins. Það hefði vitaskuld vakið athygli í Noregi að Alþýðusamband Íslands væri fremst í flokki við að framfylgja þeirri stefnu. Skar var fyrrverandi kommúnisti en hafði yfirgefið norska kommúnistaflokkinn árið 1933. Fyrir og eftir 1950 höfðu norskir jafnaðarmenn staðið í harðri baráttu við kommúnista og tóku m.a. þátt í víðtækri skráningu og upplýsingaöflun um kommúnista, starfsemi þeirra og fólk sem var grunað um að styðja þá. Í þessari baráttu var flest talið leyfilegt. Upplýsingarnar runnu síðan til norsku leyniþjónustunnar.22 Jafnvel kom til tals að víkja Alþýðusambandinu úr Alþjóðasambandi frjálsra verkalýðsfélaga árið 1956, en af því varð þó ekki þrátt yfir að sósíalistar styrktu mjög tök sín á sambandinu á Alþýðusambandsþingi það ár.23
Alþýðusambandið hafði því bæði tengsl í austur og vestur, eitt fárra slíkra sambanda í Evrópu. Að sumu leyti svipaði stöðu íslensku verkalýðssamtakanna til finnsku hreyfingarinnar sem hafði tengsl „í báðar áttir“. Þegar mikil verkföll stóðu yfir sumarið 1961 var leitað eftir aðstoð til beggja alþjóðasambandanna og alþýðusambandanna á Norðurlöndum, í Bretlandi og Sovétríkjunum. Í framhaldi af því barst stuðningur frá þessum aðilum.24
Þegar lagt er mat á alþjóðatengsl Alþýðusambandsins á þessum tíma verður augljóst hversu pólitísk þau voru. Deilurnar um þessi tengsl fólust fyrst og fremst í því að vera í réttu liði í kalda stríðinu, ekki að alþjóðatengslin skiptu svo miklu máli fyrir faglegt starf hérlendis. Það gerðu þau ekki og hérlend verkalýðshreyfing hafði ekki mikið frumkvæði á þessum tíma í baráttumálum verkafólks í öðrum löndum nema þau tengdust pólitík á einhvern hátt.