Efnisyfirlit

Deila sögu ASÍ

Tímabilið fram til 1940

Verkfall á Siglufirði árið 1934 og hefur fjöldi fólks safnast saman. Sumir hafa komið sér fyrir uppi á tunnustaflanum. Verkalýðshreyfingin á Siglufirði var róttæk og mörgum fyrirmynd í kjarabaráttunni.

Kjarabarátta og samningar

Saga ASÍ: Í samtök › Tímabilið fram til 1940

Kjarabarátta og samningar

Var gagn að því að vera í stéttarfélagi? Margir þeirra sem voru í verkalýðsfélögum á fyrstu áratugum 20. aldar hafa spurt sig þessarar spurningar og líka hinir sem stóðu utan þeirra. Þegar leitað var svara voru þau bæði jákvæð og neikvæð. Hægt var að benda á mörg dæmi þess að barátta verkalýðsfélaganna skilaði árangri, að kjörin bötnuðu og réttindi ykjust en allt fram yfir 1930 voru líka mörg dæmi þess að aðild að stéttarfélagi kæmi niður á fólki vegna þess að það fékk síður vinnu en hinir ófélagsbundnu: „Þeir ófélagsbundnu fengu bara miklu meiri vinnu og því hærri tekjur yfir sumarið í heild. Var oft mikil óánægja út af þessu og margir hræddir við að ganga í verkalýðsfélag út af þessu.“1 En smám saman jókst styrkur verkalýðshreyfingarinnar og þá breyttust þessi viðhorf.

ÞÞ A: 5945. kvk 1902.

Árið 1920 höfðu Dagsbrúnarmenn 1,30 kr. á klst. í kaup en járnsmiðir kr. 1,25. Dagsbrún var öflugasta verkalýðsfélag landsins en járnsmiðir voru enn utan stéttarfélaga um þetta leyti; þeir stofnuðu þó félag sitt einmitt þetta sama ár. Að öllu eðlilegu hefði kaup þeirra átt að vera mun hærra en verkamannanna.2 Um miðjan fjórða áratuginn voru laun blikksmíðasveina einungis um helmingur til þrír fjórðu af launum annarra iðnaðarmanna, enda stóðu þeir utan stéttarfélaga. Árið 1935 stofnuðu þeir stéttarfélag, fóru í verkfall þegar á fyrsta starfsárinu og náðu bæði fram verulegri launahækkun og styttingu vinnuvikunnar.3

Snorri Jónsson 1945, 89.
Ásgeir Matthíasson 1945, 262−263.

Haustið 1923 var stofnað verkalýðsfélag á Hellissandi. Fyrir stofnun þess voru greiddir 80 aurar á tímann fyrir „almenna vinnu“ þar í plássinu en 40 aurar fyrir „jarðabótavinnu“. Eftir stofnun félagsins voru launin hækkuð upp í 1,25 kr. fyrir erfiðustu störfin og 1,50 kr. fyrir eftirvinnu en skyldu vera 1,00 kr. við önnur störf. Á þessum slóðum tíðkaðist enn um þetta leyti að greiða fyrir vinnu og framleiðslu í vöruúttekt hjá kaupmönnum, en eftir stofnun verkalýðsfélagsins var gengið í að panta vörur beint og selja félagsmönnum, annaðhvort frá Reykjavík eða erlendis frá. Þannig tókst að lækka vöruverð umtalsvert en hækka fiskverð verulega, sem skipti miklu máli því að margir verkamenn stunduðu líka sjóinn. En einu gleymdi þó verkalýðsfélagið, það var að vinna að því að fá kaup verkakvennanna hækkað. Þær voru ekki með í félaginu og höfðu enn sama lága kaupið, 50 aura á tímann. Alþýðublaðið, sem greindi frá þessum tíðindum, kvaðst vona að verkakonurnar fylgdu brátt dæmi karlmannanna og stofnuðu félag. Ef til vill hefði erindreki ASÍ einnig átt að huga að málefnum þessa hóps en hann átti stóran hlut að því að stofna félagið.4

Alþýðublaðið 7. maí 1924, 2.

Ekki má þó vanmeta framlag verkalýðshreyfingarinnar til bættrar stöðu kvenna fyrstu áratugina. Það var víða henni að þakka að verstu þrælkuninni á verkakonum var hætt – að láta þær vinna við verstu og erfiðustu störfin við uppskipun. Þegar Alþýðublaðið ræddi við Guðmund frá Narfeyri í október 1920, helsta forsprakka verkalýðsfélagsins í Stykkishólmi og „forstjóra Kaupfélags verkamanna“ þar í bænum, innti blaðamaður hann m.a. eftir því hvort enn eigi sér stað:

Við slátrun á Hellissandi á millistríðsárunum. Verulegur munur var á launum fólks á milli staða og yfirleitt voru lægri laun þar sem ekki var starfandi verkalýðsfélag eða félagið hafði veika stöðu. Það átti við um ýmis minni pláss á landinu, t.d. Hellissand.

Konur í uppskipun í Stykkishólmi kringum aldamótin 1900, enda fengu þær mun lægri laun er karlarnir. Um 1920 var að mestu hætt að fá konur í uppskipunarvinnu.

að kvenfólk vinni að því að bera þungavöru við uppskipun? „Nei það er sama sem hætt.“ „Hvað hefir valdið þeirri breytingu?“ „Ja, það mun nú aðallega að þakka verkamannafélaginu. Það hefir sem sé sett hámarksverð á vinnu kvenfólks, en eftir að það var komið, þótti enginn akkur í að nota kvenfólk við uppskipun.“5

Alþýðublaðið 19. október 1920, 2.

Fram yfir fyrsta fjórðung 20. aldar mátti þó enn finna dæmi um þrældóm af þessu tagi, einkum á stöðum þar sem verkalýðshreyfingin var ekki starfandi eða stóð höllum fæti.

Félag afgreiðslustúlkna í brauð- og mjólkurbúðum, ASB, gerði sinn fyrsta kjarasamning við Mjólkursamsöluna árið 1935. Samningarnir fólu í sér allt að 100% hækkun hjá sumum afgreiðslukonum, enda höfðu kjör þessarar starfsstéttar verið með því lakasta sem þekktist og staðhæft að atvinnurekendur hefðu komist upp með að greiða þeim í kaup nærri hvað sem var.6 Félagið stóð reyndar í stappi við Alþýðubrauðgerðina á þessum tíma vegna þess að treglega gekk að fá hana til að gera samninga við félagið. Ítrekaðar beiðnir til Alþýðusambandsins skiluðu litlum árangri í fyrstu og fleiri ágreiningsmál komu upp á milli Alþýðubrauðgerðarinnar og félagsins. Þegar verkalýðshreyfingin var komin með atvinnurekstur var því hætta á hagsmunaárekstrum.7 Tveimur árum síðar gerði félagið samning við félag bakarameistara í fyrsta skipti og viðurkenndu bakarameistarar nú félagið sem samningsaðila. Samið var um þriggja mánaða uppsagnarfrest og greiðslur vegna veikinda, en samkvæmt þeim ákvæðum bar að greiða full laun fyrsta mánuðinn en hálft kaup þann næsta. Þá var samið um að sumarfrí skyldi greitt í 14 virka daga á fullu kaupi og frí vera annan hvern helgidag en fullur vinnudagur teljast átta klukkustundir.8

Vinnan XV (1958), 1.−2. tbl., 8−9. − Vinnan. Afmælishefti 1966,
63−64.
ÞÍ. ASB til ASÍ 4. nóvember 1935. Sögus. verkal. A01: 31/1.
Sambönd og félög í Reykjavík.
Alþýðublaðið 10. maí 1937, 3.

Taka mætti fjölmörg önnur dæmi sama eðlis: stofnun verkalýðsfélags hafði yfirleitt í för með sér að kjör verkafólksins og aðstæður stórbötnuðu, og langmest við upphaf félagsins. Þá var yfirleitt gert átak til að ná fram nokkrum af allra brýnustu hagsmunamálum þess: launagreiðslum í peningum, a.m.k. að hluta til, bættum verslunarkjörum, styttri vinnutíma og bættum vinnuaðstæðum. Þá gátu samhjálparsjóðir einstakra félaga kom ið að gagni, fyrir utan vitundina um að eiga sér bakhjarl í félagi ef eitthvað bjátaði á. Alþýðublaðið hélt því fram í grein árið 1926 að reynslan hefði sýnt að þar sem væri dugandi verkalýðsfélag væri kaup fjórðungi til þriðjungi hærra en þar sem ekkert félag væri. Svo væru líka miklu færri á sveitinni þar sem stöndugt félag væri því að þar hrykki kaupið fremur fyrir nauðsynjum en annars staðar og færri þyrftu að gerast bónbjargarfólk.9

Alþýðublaðið 26. janúar 1926, 1.

Samið um kjörin og samninga gætt

Árið 1936 lýsti Alþýðublaðið því yfir að reynslan sýndi að „þau verkalýðsfélög, sem eru í Alþýðusambandinu, vinna næstum allar kaupdeilur“.10 Það var mikið til í þessu um miðjan fjórða áratuginn. En áður en lengra er haldið lítum þá nánar á hvernig samningagerð var háttað á fyrsta skeiði verkalýðshreyfingarinnar. Þegar fyrstu verkalýðsfélögin unnu að því að bæta kjör félagsmanna sinna var yfirleitt þannig staðið að málum að félögin gerðu samþykktir um taxta félaganna sem síðan var auglýstur og látið reyna á hvort kröfurnar næðust fram. Þetta gerði Verkamannafélag Seyðisfjarðar þegar skömmu eftir að það var stofnað 1897, sem fyrr getur, og tiltók þar daglaun fyrir tíu stunda vinnudag og tímalaun, hvort um var að ræða kauptaxta að sumri eða vetri og hversu mikið ætti að greiða fyrir eftirvinnu.11 Hið sama gerði einnig Verkamannafélag Akureyrar, til dæmis árin 1913 og 1915, og einnig Verkalýðsfélagið Árvakur á Eskifirði sem var stofnað árið 1914.12 Taxti síðastnefnda félagsins var 95 aurar árið 1922 og var þá ort:

Alþýðublaðið 4. nóvember 1936, 3.
Gunnlaugur Jónasson 1937, 3.
Einar Bragi Sigurðsson 1983, 23, 55.

Verkamenn hjá Espólín-bræðrum á Akureyri, trúlega tunnusmiðir eða beykjar. Nauðsynlegt var að vera vel birgur af tunnum fyrir síldarvertíðina.

Hann Árvakur er okkur sóma til,
allir játa svona hér um bil;
er út af launum eggjahríð varð grimm,
hann upp þau dreif í 95.13

Einar Bragi Sigurðsson 1983, 58.

Samningsrétturinn var hjá hverju félagi fyrir sig og breytti stofnun ASÍ engu þar um. Kæmi upp deila við friðsamlegar aðstæður ræddu menn saman og reyndu að finna lausn. Oft tókst það en stundum kastaðist í kekki. Meðan málum var þannig háttað voru tengsl félagsmanna og félags náin, milliliðir voru engir og auðvelt að koma skilaboðum áleiðis. Ef deilur urðu um túlkun á kjarasamningi eða einstök félög töldu að brotið væri á sér gripu þau einfaldlega til aðgerða gegn viðkomandi atvinnurekanda, þ.e. ef þau höfðu til þess styrk og aðstæður voru hagfelldar. Ef ekki reyndist unnt að ná samkomulagi og staða félagsins var veik var leitað til ASÍ eða landshlutasamtaka, ekki síst ef félagið var lítið eða nýstofnað. Oft studdu líka einstök félög hvert annað með stuðningsaðgerðum. Skriflegir samningar voru sjaldan gerðir á fyrstu árum verkalýðshreyfingarinnar og mun eitt af fyrstu dæmunum vera eftir verkfall Verkamannafélagsins Dagsbrúnar við höfnina árið 1913. Milligöngumenn voru heldur engir til fyrr en sett voru lög um sáttasemjara árið 1925. Þess voru þó dæmi að opinberir fulltrúar reyndu að ganga á milli í vinnudeilum, bæði embættismenn borgaryfirvalda í Reykjavík og ríkisstjórnarinnar.

Verkamannafélagið Dagsbrún var annað tveggja öflugustu stéttarfélaga landsins á fjórða áratugnum. Í skýrslu formanns félagsins, Héðins Valdimarssonar, fyrir árið 1933 var afskiptum félagsins af kjaradeilum og taxtabrotum m.a. lýst svo:

Kauptaxti Verkamannafélags Akureyrar frá 1924. Sem sjá má er taxtinn samþykktur á fundi og auglýstur en ekki um hann samið eins og brátt varð venjan.

Fregnmiði frá ASÍ um sigur í deilu járnsmiða við atvinnurekendur árið 1933. Járnsmiðir gengu í ASÍ meðan á deilunni stóð, enda virtist hún komin í hnút.

Í aprílmánuði bárust kvartanir yfir því, að mjög lágt kaup væri víða greitt á fiskstöðvum, og að þar ynnu utanfélagsmenn. Stjórnin gekk í málið, lýsti menn í verkbann ef þeir ynnu án þess að vera í félaginu, og eftir stuttan tíma samþykti félagið taxta, og atvinnurekendur, sem fiskstöðvar höfðu, undirrituðu samninga um að fastamönnum, er trygð væri 6 mánaða samfleytt vinna, yrði trygt í kaup 325 kr. á mánuði fyrir venjulega dagvinnu, auk aukavinnu, að öðrum yrði greiddur venjulegur taxti félagsins, að félagsmenn sætu fyrir allri þessari vinnu. Við byggingarvinnu hefir nokkrum sinnum verið kvartað um s.l. sumar að ekki væri greitt taxtakaup við einstök hús, og hefir stjórnin gengið í málin og lagfært kaupgreiðslurnar.14

Alþýðublaðið 30. janúar 1934, 3.

Hér talar sá sem valdið hefur. Dagsbrún var orðið öflugt og viðurkennt félag og sinnti vel um hagsmuni félagsmanna sinna. Félagið tók þá ákvörðun árið 1933 að stofna vinnudeilusjóð en áður hafði Sjómannafélag Reykjavíkur komið á fót slíkum sjóði. Verkakvennafélagið Framsókn kom einnig upp slíkum sjóði um svipað leyti. Vitaskuld var mikilvægt fyrir félagsmenn að hafa slíkan stuðning, enda reyndu verkföll mjög á hag félagsmanna.15

Alþýðublaðið 30. janúar 1934, 3. − Alþýðublaðið 28. febrúar
1934, 3.

En ekki voru öll verkalýðsfélög eins öflug og Dagsbrún sem ekki þurfti liðsinni ASÍ. Járnsmiðir í Reykjavík áttu t.d. í kjaradeilu árið 1933, en þeir voru ekki í Alþýðusambandinu, enda voru kommúnistar áhrifamiklir þar á bæ. Eftir nokkurra vikna verkfall ákvað félagið að ganga í ASÍ og lét sambandið þá þegar það boð út ganga að aðildarfélög þess skyldu ekki afgreiða skip í höfnum landsins sem unnið hefði verið við af verkfallsbrjótum. Deilan leystist fáum dögum síðar og varð til álitsauka fyrir sambandið sem þar með taldi sig geta sýnt fram á gildi aðildar að því. Sama ár átti Alþýðusambandið þátt í að leysa kjaradeilu á Hesteyri við Ísafjarðardjúp og einnig á Akranesi.16 Verkalýðsfélagið á Blönduósi átti í kjaradeilu og verkfallsátökum árið 1934. Í kjölfarið setti Alþýðusambandið bann á skipaafgreiðslu á Blönduósi og hótaði jafnframt að vinna yrði stöðvuð á viðkomandi skipum hvar sem væri ef reynt væri að brjóta bannið. Lauk deilunni svo að verkalýðsfélagið náði flestum af sínum kröfum fram. Flutningsbannið reyndist áhrifaríkasta vopn verkalýðshreyfingarinnar.

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 12. sambandsþing 1934,
15−18. − Sjá einnig Friðrik G. Olgeirsson 2010, 54−55.

Viðlíka gangur var hjá mörgum fleiri verkalýðsfélögum árið eftir.17 Árið 1935 átti Alþýðusambandið þátt í að aðstoða einstök aðildarfélög og leysa úr deiluefnum við atvinnurekendur hjá um 40 verkalýðsfélögum. Tókst víða að fá launin hækkuð og auk þess að fá viðurkenndan forgangsrétt til vinnu.18 Stundum tókust samningar án verkfalls en í öðrum tilvikum urðu deilur ekki leystar án átaka. Til dæmis voru húsgagnasmiðir í 73 daga verkfalli vegna deilna um kaup og kjör árið 1935. Meðan á deilunni stóð fengu smiðirnir margvíslegan stuðning frá ASÍ og fjárhagsaðstoð frá öðrum aðildarfélögum sambandsins.19

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 12. sambandsþing 1934,
18−21.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 13. sambandsþing 1936,
25−27.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 13. sambandsþing 1936,
52−53.

Iðja, félag verksmiðjufólks, var stofnað haustið 1934, m.a. með stuðningi Alþýðusambandsins. Félagið hóf kjarabaráttu sína árið 1935 og var svo skýrt frá henni í þingtíðindum Alþýðusambandsins:

Um vorið 1935 hóf svo félagið samningatilraunir við verksmiðjueigendur; tókust fyrst samningar við eigendur smjörlíkisverksmiðjanna, og voru þeir samningar stórsigur fyrir félagið og miklar kjarabætur fyrir verkafólkið. Tókust samningar án þess að til verkfalls kæmi, en gert var síðar verkfall við eina smjörlíkisverksmiðjuna vegna vanefnda á samningnum. Var þá snúið sér að því, að semja við atvinnurekendur alment. Framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins, Jón Axel Pétursson og 3 menn úr stjórn Iðju höfðu samningana með höndum fyrir Iðju, en 6 manna nefnd frá Félagi ísl. iðnrekenda fyrir þeirra hönd. Stóðu stöðugar samningatilraunir yfir meiri hluta sumars og fram á haust; voru haldnir mjög margir og langir samningafundir og óteljandi „uppköst“ og miðlunartillögur lagðar fram. Loks 10. okt. tókust svo samningar. Helztu atriðin eru þessi: Kaup hækkaði mjög verulega alment og í sumum iðngreinum um og yfir 50 kr. á mánuði. Vinnutími ákveðinn 8 stundir á dag; var víða áður 10 og 11 stundir. Eftir vinna þriðjungi til helmingi hærri en dagvinna. Sumar frí 10 virkir dagar fyrir þá, sem unnið hafa eitt ár og 5 virkir dagar fyrir þá, sem unnið höfðu skemur; var áður 3 til 6 dagar og sums staðar ekkert. Félagið viðurkent sem samningsaðili og alt fólk, sem vinnur í verksmiðjunum, skal vera félagsbundið í „Iðju“. Kaup fyrir 120 veikindadaga. Auk þess ýms fleiri hlunnindi, sem verkafólk hafði ekki áður haft. Samningarnir voru í heild sinni stórkostlegur ávinningur fyrir verkafólk og einn stærsti sigur Alþýðusambandsins á árinu.20

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 13. sambandsþing 1936,
51−52.

Hér hafði sem sagt vel tekist til með atfylgi Alþýðusambandsins. Árið eftir átti Iðja enn í deilu og nú við iðnrekandann Sigurjón á Álafossi. Félagið taldi að hann setti upp allt of hátt gjald fyrir fæði og húsnæði. Þegar ekki tókust samningar sneri félagið sér enn til ASÍ. Verkfall hófst í nóvemberbyrjun sem stóð í fjórar vikur. Þá tókust samningar fyrir milligöngu Félags íslenskra iðnrekenda og Alþýðusambandsins fyrir hönd Iðju.21

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 15. sambandsþing 1938,
44−45.

Mörg önnur svipuð dæmi má taka. Á Hólmavík stóð yfir kjaradeila árið 1937 eftir að verkalýðsfélagið hafði sagt upp samningum

og feingum við hækkað kaup, enda var það mjög látt 75 aur á kls. En er nú Kr. 1,00 á kls í dagv fyrir karlm. … [Þá fengust að auki] íms smá fríðindi sem ekki voru áður, samkomulag náðist ekki fyr en Jón Sigurðsson erindreki kom, og sáum við eins og víða annastaðar, að án félagslegra samtaka erum við máttlausir gagnvart íhaldsöflunum, og verðum við að vera vel á verði að sá máttur sje ekki rírður á einn eða annan hátt.22

Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, bréf VII. Bréf Guð-
mundar Jónssonar á Hólmavík til Hannibals Valdimarssonar
26. febrúar 1937.

Sambandið hafði því allt aðra aðstöðu en einstök félög til þess að knýja fram niðurstöðu og ná samningum, enda var yfirleitt samið fljótlega þar sem Alþýðusambandið beitti sér.

Aðalheiður Hólm, fyrsti formaður Sóknar, vakti athygli á því að félagið hefði náð fram mikilsverðum kjarabótum án verkfalla á fyrstu starfsárum sínum. Hún greindi frá því að Sókn hefði sjaldan eða ekki farið í verkfall, hótaði því reyndar, en náði samt fram kröfum sínum. Karlarnir fóru hins vegar í verkföll. Niðurstaða Aðalheiðar var sú að barátta þeirra hefði einkennst af því að vera „kvenleg“: „Við stilltum okkur um að slást, heldur töluðum um fyrir öðrum og náðum smám saman réttarbótum með endalausum viðræðum, löngum útreikningum og röksemdafærslum. Þetta var eins og að bródera lítið listaverk í stramma og telja vandlega út fyrir hverju spori.“23 Þær aðferðir sem Aðalheiður lýsti hér urðu þó ekki almennar. Hinar karllægu aðferðir og átök réðu oftar ferðinni.

Þorvaldur Kristinsson 1994, 71.

Afskipti ASÍ af kjaradeilum á þessum tíma einkenndust því af eftirtöldum atriðum: Að aðstoða við samningsgerð ef samningar voru komnir í hnút og engar líkur á gerð samninga að óbreyttu; að stuðla að gerð samninga hjá nýjum og óreyndum stéttarfélögum og fá fram viðurkenningu á þeim. Að koma fram sem samningsaðili ef mörg stéttarfélög voru aðilar að tiltekinni deilu. Dæmi um slíkt var t.d. vinna við virkjun Sogsins um miðjan fjórða áratuginn, en mörg félög voru þá aðilar að kjaradeilu við verktakann sem Alþýðusambandið tók að sér að leysa.24

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 13 sambandsþing 1936,
32−40.

Verksmiðjur Sambands íslenskra samvinnufélaga á Akureyri á millistríðsárunum en þær voru einn stærsti vinnuveitandi í bænum um þetta leyti.

Iðulega kom fyrir að frammistaða ASÍ við samningsgerð á fjórða áratugnum væri gagnrýnd, með réttu eða röngu, og gátu þá aðrir hagsmunir komið við sögu. Dæmi þess er m.a. hin svokallaða Iðjudeila á Akureyri á árinu 1937. Iðja á Akureyri var þá nýlega stofnuð og hafði gengið erfiðlega að ná kjarasamningum við iðnrekendur á Akureyri, einkum SÍS og KEA. Svo fór að Iðja vísaði kjaradeilu sem það átti í við þessa atvinnurekendur til ASÍ árið 1936, enda hefði félaginu ekki tekist að ná árangri fram að því. En heilt ár leið án þess að samningar næðust þrátt fyrir að almennt væri viðurkennt að kaup iðnverkafólks á Akureyri væri mun lægra en í Reykjavík. Skriður komst þó á málið 1937 og var Jón Sigurðsson, erindreki sambandsins, sendur norður til þess að vinna að samningsgerðinni.

En samningar tókust ekki enn og þá boðaði Iðja verkfall. Mikil samstaða var með félagsfólki í Iðju og öðru verkafólki á Akureyri en þegar leið á deiluna fór að bera á því að mati forystumanna Iðju að forysta ASÍ vildi leysa deiluna með samningi sem gengi skemmra en verkafólkið sætti sig við, og sem fæli í sér lakari kjör en tíðkuðust í Reykjavík. Forsvarsmenn Iðju töldu að ástæðan væri stjórnarsamstarf Alþýðuflokksins við Framsóknarflokkinn og gerði síðarnefndi flokkurinn kröfu um að Alþýðusambandið beitti sér fyrir því að verkafólk í Iðju á Akureyri gæfi eftir.25 Forsvarsmenn Alþýðusambandsins töldu hins vegar að vel hefði verið að verki staðið, enda hefði kaup iðnverkafólks á Akureyri hækkað verulega við gerð þessa samnings.26 Hér verður ekki lagður dómur á þetta einstaka mál en á næstu áratugum, kom oft fyrir að verkalýðshreyfingin hefði í huga hverjir sátu í ríkisstjórn og hverjir ekki og tæki tillit til þess í stefnumörkun sinni.

Steingrímur Aðalsteinsson 1946, 205−211.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 15. sambandsþing 1938, 53.

Við sútun og önnur störf í gæruverksmiðju SÍS á Akureyri á millistríðsárunum, um 1930. Sem sjá má er starfsmaðurinn til hægri lítt varinn gegn þeim sterku efnum sem voru notuð við vinnsluna.

Jöfnun launa milli svæða

Þegar verkafólk víða um land stóð í launabaráttu þurfti það að taka afstöðu til þess hvaða kröfugerð bar að setja fram. Fyrstu ár og áratugi verkalýðshreyfingarinnar voru slíkar kröfur yfirleitt staðbundnar og tóku tillit til aðstæðna á hverjum stað og baráttustöðu viðkomandi félags enda voru kauptaxtar afar ólíkir víða um land. Samanburður við aðra hópa hefur örugglega tíðkast en mest á milli staða sem höfðu nánust samskipti, t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Þegar líða tók á fjórða áratuginn fór þessi samanburður að verða algengari og hafa meira vægi. Ástæður þessa voru ekki síst þær að verkalýðshreyfingin lagði æ meiri áherslu á jöfnun launa og skýrt var frá því opinberlega hversu mikill munurinn væri á milli landssvæða í málgögnum hennar. Þessi mál komu iðulega til umræðu á ofanverðum þriðja áratugnum á þingum ASÍ og eftir það var ályktað um þessi mál á hverju þingi sambandsins næstu áratugi.27

Sjá m.a. Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands og verklýðsráð-

Eftir að Alþýðuflokkurinn var kominn í stjórn hinna vinnandi stétta árið 1934 var komið á fót milliþinganefnd um launamál. Nefndin fór í saumana á þessu efni og kannaði mun á launum fólks víða um land. Ekki þarf að koma á óvart að hæst var kaupið á stærstu stöðunum og þar sem mest var vinnan, í Reykjavík og á Siglufirði. Laun á þeim stöðum þar sem kaupið var lægst (t.d. Bolungarvík) voru einungis um tveir þriðju af launum þeirra sem bjuggu í Reykjavík eða á Siglufirði. Einnig kom í ljós að enn meiri munur var á milli raunlauna fólks á þessum stöðum af því að verðlag var víða hærra á minni stöðum en í Reykjavík, en þó gat verið dýrara að komast af í Reykjavík en á stöðum þar sem sjálfsþurftarbúskapur var enn stundaður.28 Enn fremur var mikill munur á reglum um greiðslur fyrir eftir-, nætur- og helgidagavinnu. Sums staðar var enginn greinarmunur gerður þarna á og átti það einkum við þar sem verkalýðshreyfingin var veik. Þar sem voru öflug félög var umtalsverður munur á töxtum fyrir dagvinnu annars vegar og á töxtum utan þess tíma hins vegar.29 Þegar niðurstöður þessa samanburðar urðu ljósar hafði það mikil áhrif. Fólk krafðist meiri jafnaðar launa á milli svæða. Á Akranesi var til dæmis farið fram á það árið 1937 að kaup verkafólks yrði hækkað um 40% til þess að það fengi sama kaup og var greitt í Reykjavík, svo mikill var munurinn á milli þessara nágrannabæja.30 Sá áfangi náðist þó ekki en eftir harða deilu – og sorglegt slys við höfnina þar – minnkaði bilið þó verulega og samskipti verkafólks og atvinnurekenda á Akranesi færðust í betra horf en verið hafði.31

Sjá Stefán Hjartarson, handrit, 352−354.
Stefán Hjartarson, handrit, 397.
Stefán Hjálmarsson 2004, 21.
Herdís Ólafsdóttir 1978, 158−165.

Árið 1943 voru lágmarkslaun karla yfirleitt hæst á Siglufirði (mars 1943, 6,34 kr.) en lægst á Drangsnesi, kr. 4,45 eða um þriðjungsmunur. Á suðvesturhorninu voru laun yfirleitt svipuð um þetta leyti eða kr. 5,50.32

Vinnan I (1943), 25, 97.

Siglufjörður hélt þeirri stöðu lengi að vera iðulega með hæst lágmarkskaup á landinu, eða allt fram um 1950, og hefur þar örugglega skipt sköpum sterk staða verkafólks vegna síldarvinnunnar, en eftirspurn eftir verkafólki var oft mikil á staðnum þó að brugðið gæti til beggja vona. Um 1950 var þó almennt kominn á jöfnuður í launum karla á stærri stöðum á landinu.33 Jöfnun launa á milli kynja var á hinn bóginn vart komin á dagskrá verkalýðshreyfingarinnar um það leyti.

Sjá Hagskinna 1997, 612.

Alþýðusambandið gat á sinn hátt stuðlað að því að vinna að jöfnuði þegar það átti þátt í kjarabaráttu einstakra stéttarfélaga en samningsumboð hafði sambandið ekki nema það fengi slíkt umboð frá aðildarfélögum sínum. Mikilvægur liður í þessari baráttu var að hafa áhrif á hvaða kaup væri greitt fyrir verkefni sem unnið var að á landsvísu á vegum hins opinbera; einkum átti þetta við um kaup í vegavinnu. Þó að störfin væru hin sömu og vinnuveitandinn hinn sami hafði tíðkast að greiða mishátt kaup eftir því hvar unnið var á landinu. Átak var gert í þessu efni árið 1934 og ákveðið að láta sverfa til stáls ef ekki næðust samningar.

Við fiskþvott á Siglufirði um 1930. Að jafnaði voru laun verkafólks einna hæst á Siglufirði samanborið við aðra staði á landinu um þetta leyti.

Sendir voru menn frá ASÍ um allt land þar sem voru vegaframkvæmdir og rætt við vegavinnumenn. Undirtektir voru misjafnar, sums staðar voru þær dræmar, enda margir í þessum störfum ófélagsbundnir „og verkstjórar margir óvinveittir“. Aðrir tóku sendimönnum ASÍ fegins hendi. Verkfall hófst 6. júní 1934, hið fyrsta „við opinbera vinnu“. Þátttaka í verkfallinu var sums staðar góð en annars staðar lakari. Sumir vildu ekki taka þátt nema stutt og staðhæfði Morgunblaðið að minna en fimmtungur hefði tekið þátt í verkfallinu.34 Alþýðusambandið var því á hálum ís en fékk vilyrði fyrir því að stóru verkalýðsfélögin í Hafnarfirði og Reykjavík færu í samúðarverkfall ef hvorki gengi né ræki í deilunni. Niðurstaða málsins varð sú að kaupið þokaðist í samræmingarátt, en þó án þess að fullt samræmi næðist. Það hækkað nokkuð en ekki eins mikið og farið hafði verið fram á.35 Það var mikilvægt verkefni ASÍ fram á sjötta áratuginn að ná því fram að sama kaup væri greitt fyrir opinbera vinnu um allt land. Á þann hátt voru einstök sambandsfélög víðs vegar um landið einnig hvött til þess að ná fram hækkun á almennu kaupi til samræmis við það sem best gerðist.36

Morgunblaðið 7. júní, 2, og 10. júní, 2, 1934.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 12. sambandsþing 1934,
21−24.
Vinnan IV (1946), 198.

Við brúargerð á millistríðsárunum. ASÍ vann að jöfnun launa á milli landsvæða og beitti sér einkum fyrir því að sem mestur jöfnuður næðist í launum þeirra sem voru í vegavinnu og svipuðum störfum víðs vegar um landið.

Kjaraþróun

Alþýðusamband Íslands var stofnað á tímum dýrtíðar í miðri fyrri heimsstyrjöldinni. Verðlag hækkaði gífurlega á þessum árum vegna verðhækkana erlendis og hækkunar á flutningskostnaði, og var áætlað að það hefði meira en þrefaldast á tímabilinu 1914–1919. Kaupmáttur snarminnkaði því og var árið 1918 einungis ríflega helmingur þess sem hann hafði verið um fjórum árum fyrr, sé miðað við dagvinnutímakaup verkafólks í Reykjavík.37 Ljóst er að þessi kaupmáttarrýrnun hafði mikil áhrif og lífskjör verkafólks stórversnuðu á þessum tíma samfara auknu atvinnuleysi. Eftir stríðið hækkuðu laun þó umtalsvert á árunum 1919–1920 enda veitti ekki af eftir kaupmáttarrýrnun undanfarinna ára. Er hér miðað við kjaraþróun hjá Dagsbrúnarmönnum í Reykjavík.38

Hagskinna 1997, 610.
Hagskinna 1997, 610. − Skúli Þórðarson 1966, 20.

Kjörin bötnuðu hratt í stuttan tíma eftir stríðið. En vegna efnahagskreppunnar 1920–1921 reyndu atvinnurekendur að lækka launin að nýju og sóttu það af kappi vegna þess að verðhjöðnun var hafin. Kjarabaráttan næstu misserin einkenndist því af því að verjast launalækkun. Innan verkalýðshreyfingarinnar gátu skoðanir verið skiptar á því hvort launalækkun væri réttlætanleg. Hafa verður í huga að á þessum tíma var margt verkafólk enn utan verkalýðssamtakanna, víða mikill meirihluti, og þau voru ekki orðin svo öflug að þau hefðu fengið framgengt kröfunum um forgang til vinnu. Væri taxti einstakra félaga „of hár“ gat því farið svo að atvinnurekendur réðu fyrst og fremst til sín fólk sem stæði utan verkalýðsfélagsins. Þar með var orðið óhagræði að því að vera í verkalýðsfélaginu og hætta á að félagarnir gengju úr því. Um þessi mál var rætt á fundum Verkamannafélags Akureyrar árið 1921. Formaður félagsins, Halldór Friðjónsson, vildi lækka launin vegna atvinnuástandsins en sumir aðrir félagsmenn voru andvígir því. Þeir höfðu betur í fyrstu en er vetraði voru launin lækkuð um fimmtung.39 Árið 1923 kröfðust prentsmiðjueigendur þess að laun prentara yrðu lækkuð um fimmtung. Ekki var gengið svo langt en launin þó lækkuð nokkuð.40 Járnsmiðir urðu einnig að fallast á að lækka laun sín eftir miðjan þriðja áratuginn að kröfu smiðjueigenda.41

Jón Hjaltason 2004, 340−341. − Sjá einnig Sigurður Pétursson
2011, 209−210.
Vinnan. Afmælishefti 1966, 37.
Friðrik G. Olgeirsson 2010, 36.

Togarasjómenn í aðgerð, líklega á þriðja áratug 20. aldar. Þilfarið er fullt af fiski. Sjómenn í Reykjavík áttu í harðri kjaradeilu árið 1923.

Útgerðarmenn kröfðust þess að laun sjómanna yrðu lækkuð árið 1923 en sjómenn höfnuðu kröfum þeirra og boðuðu verkfall. Svonefndur Blöndahlsslagur var í tengslum við þessa deilu en Magnús Th. Blöndahl var framkvæmdastjóri útgerðarfyrirtækis þess sem í hlut átti. Svo hörð voru átökin að verkfallsmenn annars vegar en verkfallsbrjótar og lögregla hins vegar tókust harkalega á og lauk þeim slag með sigri verkfallsmanna. Í kjölfarið kom nokkurra vikna verkfall sem lauk með því að sjómenn féllust á einhverja launalækkun.42

Skúli Þórðarson 1967, 43−47.

Þess voru mörg dæmi á næstu árum að atvinnurekendur þverskölluðust við að semja við einstök verkalýðsfélög eða settu óaðgengileg skilyrði. Dæmi um það er krafa atvinnurekenda á Akranesi árið 1924 þess efnis að ekki yrði samið við félagið nema það gengi úr Alþýðusambandi Íslands, svo sem þegar hefur verið minnst á.43

Verkalýðsfélag Akraness 50 ára, 5−6.

Laun voru einnig lækkuð hjá verkakonum víða á landinu á þriðja áratugnum, ekki síst í kjölfar gengishækkunarinnar árið 1926. Norður á Akureyri kröfðust atvinnurekendur þess t.d. að launin yrðu lækkuð um það leyti, fiskverð væri svo lágt. Verkakvennafélagið Eining vildi ekki fallast á það og skall á verkfall í júlí sem stóð í þrjár vikur. Þegar samningar náðust var farið bil beggja þannig að launin lækkuðu eitthvað.44

Jón Hjaltason 2004, 341−343.

Stéttarsystur Einingarkvenna í Verkakvennafélaginu Framsókn stóðu í svipuðu stappi á sama tíma. Atvinnurekendur vildu lækka kaupið meira en félagið gat fallist á og vísaði það deilunni þá til sambandsstjórnar ASÍ. Að tíu dögum liðnum var samið og fengu atvinnurekendur sitt að mestu fram, þrátt fyrir að Dagsbrún hefði gengið í lið með verkakonum og stöðvað uppskipun við höfnina. Verkakonum þótti stuðningur karlanna þó hafa verið hálfvolgur og að Alþýðusambandið hefði mátt standa sig betur, enda viðurkenndi Jón Baldvinsson að hann væri ekki vel að sér um kjör verkakvenna.45 Jóhanna Egilsdóttir sagði að eftir þetta hefðu þær aldrei vísað „vinnudeilu alfarið til Alþýðusambandsins“. Síðar voru launin svo lækkuð enn meira hjá Framsóknarkonum. Algeng laun fiskverkakvenna í Reykjavík lækkuðu um meira en þriðjung árið 1926 og var það miklu meiri lækkun en tíðkaðist hjá verkamönnum. Félaginu tókst ekki að gera skriflega samninga við atvinnurekendur aftur fyrr en 11 árum síðar.46

Alþýðublaðið 16. mars 1926, 1. − Morgunblaðið 18. mars 1926,
3. − Margrét Guðmundsdóttir 1983, 35−41.
Svava Jónsdóttir 1945, 8−11. − Gylfi Gröndal 1980, 139−143.
− Einnig Þórunn Magnúsdóttir 2002, 33−36. − Margrét
Guðmundsdóttir 1983, 41, 62. − Þorleifur Friðriksson 2007,
322−331.

Svipað ferli varð í Hafnarfirði á sama tíma. Samið var við hafnfirska verkamenn án mikilla vandkvæða en verkakonur í bænum áttu í langvinnri deilu um kjör sín áður en þeim tókst að ná samningum.47 Það virðist hafa verið algengt að atvinnurekendur hafi fremur látið reyna á kauplækkun hjá verkakonum heldur en körlum, enda voru samtök þeirra veikari en verkakarlanna. Til marks um þetta er hinn svonefndi garnaslagur árið 1930, kjaradeila verkakvenna í Reykjavík við Samband íslenskra samvinnufélaga sem rak garnahreinsunarstöð í Reykjavík. Sambandið vildi greiða lægra kaup en almennt tíðkaðist en á það féllst Verkakvennafélagið Framsókn ekki og leitaði ásjár hjá verkamálaráði Alþýðusambandsins. Tók það nú röggsamlega á málinu og fóru helstu forystumenn þess, Héðinn Valdimarsson, sem var formaður ráðsins, Ólafur Friðriksson og Jón Axel Pétursson, með forystukonum Framsóknar og stöðvuðu vinnu í garnastöðinni. Harðar deilur urðu um þetta og fléttaðist versnandi samkomulag Alþýðuflokksins og Framsóknarflokksins um þetta leyti inn í deiluna sem varð illvígari eftir því sem lengra leið og var sett flutningsbann á garnastöðina. Verkfallið leystist eftir nokkrar vikur með sigri verkakvenna og viðurkenningu á taxta Framsóknar.48 En með þessari deilu breyttist ímynd Sambands íslenskra samvinnufélaga í augum margra verkalýðssinna. Fram til þessa tíma höfðu margir þeirra álitið samvinnuhreyfinguna „betri“ vinnuveitanda en aðra vinnuveitendur. En nú breyttist það álit snarlega. Síðar áttu mörg fyrirtæki samvinnumanna eftir að standa í hörðum kjaradeilum við verkafólk, t.d. Kaupfélag Eyfirðinga í svonefndri sláturhúsdeilu á Akureyri árið 1932 og raunar oft síðar eftir því sem atvinnurekstur samvinnuhreyfingarinnar efldist.49 Undir lok þriðja áratugarins hækkuðu laun þó töluvert aftur, enda var þá góðæri í íslensku atvinnulífi og flestir höfðu næga atvinnu. Laun verkafólks hækkuðu verulega frá árinu 1927, oftast án verkfalla.50 Ekki var það þó alltaf. Til dæmis áttu togarasjómenn í harðri kjaradeilu árið 1929 sem lauk með sigri þeirra í kjölfar langs verkfalls og afskipta forsætisráðherra.51

Ásgeir Guðmundsson 1985, 17−20.
Þórunn Magnúsdóttir 2002, 36−37. − Jón Rafnsson 1957, 89. −
Gylfi Gröndal 1980, 144−151.
Tryggvi Emilsson 1977, 262−266. − Jón Rafnsson 1957,
144−148.
Skúli Þórðarson 1966, 20.
Skúli Þórðarson 1967, 50−51.

Á fjórða áratugnum seig á ógæfuhliðina með heimskreppunni. Verðlag á flestum vörum lækkaði og var það vitaskuld til hagsbóta fyrir almenning. Á móti kom að verð á afurðum íslenskra framleiðenda lækkaði einnig mikið og stundum voru framleiðsluvörur vandseldar. Atvinnurekendur reyndu því að lækka kostnað sem mest þeir gátu, sögðu upp fólki og reyndu að lækka laun en verkalýðshreyfingin beitti sér gegn launalækkunum til samræmis við verðlagslækkanir. Sums staðar tókst að ná fram launahækkunum á þessum tíma en það var þá einkum á stöðum þar sem unnið var að því að ná fram samræmi við aðra staði á landinu. Sem fyrr tókust tilraunir til þess að lækka kaup hjá Dagsbrúnarmönnum lítt eða ekki. Dagsbrún var sterkasta stéttarfélag landsins og beitti sér af mikilli hörku gegn öllum tilraunum í þá átt, eins og svonefndur Gúttóslagur frá 1932 er m.a til vitnis um. Þegar miðað er við kaup Dagsbrúnarmanna, má því segja að tekist hafi furðanlega að koma í veg fyrir kauplækkanir. Reyndar jókst kaupmáttur kauptaxta verulega á þessu tímabili vegna verðhjöðnunar. Til dæmis var vísitala kaupmáttar tímakaups Dags brúnarmanna 100 árið 1920. Árið 1930 var kaupmáttarvísitalan 181; hæst komst hún í 208 árið 1933 en var árið 1940 183 stig. Af þessu má sjá að kaupmáttur Dagsbrúnarverkamanna óx hratt á þriðja áratugnum og hélst svipaður allan fjórða áratuginn. Sömu sögu er að segja af verkakonum sem þáðu laun samkvæmt töxtum Verkakvennafélagsins Framsóknar.52

Hagskinna 1997, 610. − Sjá einnig Jón Blöndal 1942, 69−70.

Kauptaxti Verkakvennafélags Siglufjarðar árið 1937. Ákvæði eru um hvenær kaup skuli greitt og jafnvel tekið fram að taxtinn eigi að hækka ef gengi krónunnar lækki.

Verkamenn í Reykjavík við grjótmulningsvél kringum 1930. Mjög var reynt að lækka launataxta Dagsbrúnarmanna á fjórða áratugnum en tókst ekki, enda var félag þeirra öflugt.

Kauptaxtar Dagsbrúnar eða annarra stórra félaga segja þó ekki allt, enda var ekki sömu sögu að segja frá ýmsum öðrum hópum og stöðum. Til dæmis gat munað umtalsvert í launum hvort um var að ræða ráðningu til skamms tíma eða hvort um var að ræða langtímaráðningu; vinnusamningur til langs tíma var talinn til hlunninda og því greitt lægra kaup, t.d. til verksmiðjufólks, sem yfirleitt hafði föst mánaðarlaun, heldur en til þeirra sem voru daglaunamenn eða höfðu ekki trygga vinnu nema stutt í senn. Þá máttu mörg önnur stéttarfélög, einkum úti um land og verkakvennafélögin, sem höfðu ekki sama styrk og Dagsbrún, sætta sig við launalækkanir.

Þess utan var ekki hróflað við þeim múr sem var á milli launa karla og kvenna, en algengast var að konur fengju um það bil þrjá fimmtu til tvo þriðju af launum karla fyrir sömu störf, eða sömu laun og unglingar yngri en 18 ára. Svo var til dæmis innan Iðju, félags verksmiðjufólks.53 Sums staðar höfðu konur jafnvel lægri laun en piltar 15–16 ára, t.d. á Þingeyri, en samkvæmt kjarasamningum sem þar voru gerðir árið 1939 höfðu konur 75 aura á klukkustund en drengir á aldrinum 15–16 ára 10 aurum meira.54 Svipað var á Bolungarvík. Þar voru laun kvenna hin sömu og 14–15 ára drengja, 70 aurar á tímann í dagvinnu. Karlar höfðu krónu.55 Þess voru jafnvel dæmi að verkalýðsfélög verkakarla (Dagsbrún) gerðu kjarasamninga þar sem gert var ráð fyrir að kaup kvenna yrði ekki hærra en tveir þriðju af kaupi karla.56 Svipuð viðhorf og hjá verkakörlum voru raunar einnig ríkjandi meðal fjölda verkakvenna fram eftir 20. öld og sagði ein verkakonan að engum hefði dottið í hug að konur ættu að fá sömu laun og karlar fyrir sömu vinnu.57 Margrét Guðmundsdóttir staðhæfir að Jóhanna Egilsdóttir hafi orðið einna fyrst til þess að bera fram þann boðskap innan Verkakvennafélagsins Framsóknar kringum 1930 að munur af þessu tagi ætti ekki rétt á sér. Slíkar raddir höfðu þó heyrst áður.58

Ingólfur V. Gíslason 1994, 372−373. − Einnig Margrét Guð-
mundsdóttir 1983, 59.
Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, ýmis gögn 1924−1939.
Kauptaxti milli vinnuveitenda á Þingeyri og Verkalýðsfélags-
ins Brynju á Þingeyri 20. janúar 1939.
ÞÍ. Kaupgjaldssamningur Verkalýðsfélags Bolungarvíkur
5. júní 1937. Sögus. verkal. A01: 33/7. Sambönd og félög á
Vestfjörðum.
Þórunn Magnúsdóttir 2002, 29−32, 67.
Verkakonan 1945, 14.
Margrét Guðmundsdóttir 1983, 70−71.

Einnig þarf að hafa í huga að margir voru án vinnu og þeir höfðu úr litlu eða engu að spila. Það má því segja að þeir karlar sem höfðu fasta vinnu á millistríðsárunum hafi verið allvel settir, en hópar fólks höfðu enga vinnu og enn fleiri höfðu stopula vinnu og afar lág laun (ekki síst konur) og þessir hópar voru illa settir.

Það verður því að líta á kjarabaráttu þessara ára svo: markmiðið var yfirleitt ekki að hækka kaup nema kannski á stöðum og hjá hópum sem enga kjarasamninga höfðu haft eða mjög laka samninga, samanborið við það sem annars staðar tíðkaðist. Markmiðið var að halda því sem hafði áunnist og hindra launalækkanir. Einnig var reynt að tryggja önnur lágmarksréttindi verkafólksins og koma í veg fyrir óhóflega vinnuþrælkun. Þá var ekki síður mikilsvert að sinna þörfum og kröfum hinna atvinnulausu og reyna að tryggja kjör þeirra sem höfðu litla eða stopula vinnu.

Vinnulöggjöf og samskipti aðila á vinnumarkaði

Sérkenni kjarabaráttu verkafólks hér á landi, miðað við nágrannalöndin, var að einstök félög báru kjarabaráttuna uppi en ekki Alþýðusambandið, sem fyrr getur, þó að það kæmi víða við. Til dæmis gerðu mörg verkalýðsfélög kjarasamninga árin 1933–1934 „án þess til kasta Alþýðusambandsins kæmi beinlínis“.59 Þegar Verkamannafélagið Dagsbrún sneri sér til Vinnuveitendafélagsins og óskaði eftir samningum á öndverðum fjórða áratugnum fékk það engin svör. Vinnuveitendur sneru sér þess í stað til Alþýðusambandsins og spurðust fyrir um hvort ekki væri eðlilegt að það fengi samningsumboð fyrir Dagsbrún. Í framhaldinu gætu heildarsamtökin tvö svo leyst málin. En þeirri málaleitan svaraði ASÍ ekki og formaður Dagsbrúnar áleit að félaginu væri sýnd lítilsvirðing.60 Annars staðar á Norðurlöndunum var kjarabaráttan mun miðstýrðari og yfirleitt heildarsamtök sem sömdu fyrir stóra hópa launþega.61 Segja má að það hafi veikt stöðu sambandsins gagnvart bæði ríkisvaldinu og atvinnurekendum hversu takmarkað umboð þess var. Atvinnurekendur óskuðu þess að samningamálum hér á landi væri hnikað í átt til meiri miðstýringar og að heildarsamtökin hefðu meira vægi í þessum efnum, enda töldu þeir að óreiða væri á samningamálum.

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 12. sambandsþing 1934, 18.
Guðmundur Magnússon 2004, 28−29.
Sjá einnig Jón Gunnar Grjetarsson 1993, 258.

Tilkynning frá Verkamannafélaginu Hlíf í Hafnarfirði um launataxta árið 1940. Tilkynningar sem þessar voru gjarnan hengdar upp á vinnustöðum.

Ýmsar tilraunir höfðu verið gerðar til þess að setja ítarleg lög um vinnudeilur. Þegar árið 1915 höfðu verið sett lög sem bönnuðu starfsfólki hjá hinu opinbera að fara í verkfall. Öllum þeim sem unnu við „sýslan í þarfir landsins, Landsbankans, spítala, sveitar, sýslu eða kaupstaðar“ var bannað að fara í verkfall og varðaði háum sektum ef út af var brugðið.62 Tilefni lagasetningarinnar var verkfallsboðun símamanna árið 1915, en þeir höfðu krafist mikillar launahækkunar vegna dýrtíðar á þeim tíma.63 Á þriðja áratugnum voru nokkrum sinnum lögð fram frumvörp til einhvers konar laga um lausn kjaradeilna. Til dæmis komu ítrekað fram frumvörp til laga um gerðardóm í kaupdeilum verkafólks og atvinnurekenda, m.a. bæði 1923 og 1925. Bjarni Jónsson, alþingismaður frá Vogi, hafði frumkvæði að þeirri tillögugerð í fyrstu en síðar fleiri alþingismenn.64

Alþt. 1915 A, 1395−1396.
Morgunblaðið 26. ágúst, 2, og 27. ágúst, 1, 1915.
Álit vinnulöggjafarnefndar 1938, 6−7. − Gylfi Dalmann Aðal-
steinsson 2008, 186.

Árið 1925 voru sett lög um sáttatilraunir í vinnudeilum. Þau voru samin eftir dönskum lögum um sama efni og var samkvæmt meginefni þeirra skylt að skipa sáttasemjara sem hefði það hlutverk að leita sátta í kjaradeilum. Samkvæmt lögunum átti að skipa einn sáttasemjara fyrir allt landið til þriggja ára í senn.65 Ákvæði laganna gerðu m.a. ráð fyrir að hann hefði vald til þess að leggja fram miðlunartillögu sem deiluaðilar urðu að taka afstöðu til að aflokinni atkvæðagreiðslu innan viðkomandi félags. Samhliða kom fram frumvarp um stofnun gerðardóms í „kaupdeilumálum“ sem tæki við deilumálum ef sáttatilraunir tækjust ekki. En ekki varð þó af því að frumvarp þess efnis yrði lögfest, m.a. vegna andstöðu Alþýðusambandsins. Í umsögn sinni kvað sambandið reynsluna af slíkum gerðardómum ekki hafa verið góða, enda hefðu þeir verið lagðir niður þar sem gerðar hefðu verið tilraunir með þá.66 Ekki mun hafa reynt mikið á sáttasemjara fyrstu árin.67 Skýrt var líka tekið fram í lögum um sáttasemjara að hann ætti því aðeins að hafa afskipti af vinnudeilu að „hún hefði óheppileg áhrif á atvinnulífið og samningaumleitunum deiluaðila hefði verið slitið“. Sáttasemjari virðist hafa litið svo á að sér bæri ekki að hafa afskipti af vinnudeilum nema brýn þörf væri á og óskað væri eftir því, enda var starfið í mótun og aðeins hlutastarf.68

Lára V. Júlíusdóttir 1995, 228.
Alþt. A 1925, 300−302, 808−814.
Ingólfur V. Gíslason 1994, 94.
Guðmundur Magnússon 2004, 33−34.

Í Danmörku höfðu lengi verið reglur um hvernig samskiptum atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar skyldi háttað eða allt frá verkbanninu mikla sem svo var kallað árið 1899, en þá var einungis liðið ár frá stofnun alþýðusambandsins danska. Er samningar tókust í framhaldi af því var mikilvægur hluti þeirra um samskiptareglur verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda, hið svokallaða „septemberforlig“ eða septembersætt. Samkvæmt þessum reglum áttu báðir aðilar að viðurkenna rétt hins til samninga og til að hefja vinnudeilu. Einnig voru settar reglur um hvernig að slíku bæri að standa, hafa ætti t.d. hálfsmánaðar fyrirvara á verkfallsboðun og þrjá fjórðu greiddra atkvæða þyrfti á fundi til þess að boða verkfall. Hluti samkomulagsins var um að heildarsamtökin bæru ábyrgð á aðgerðum einstakra félaga/aðila og var því réttur einstakra aðildarfélaga til aðgerða skertur mjög frá því sem verið hafði. Ákvarðanataka var því miðstýrð, sem kallaði á gagnrýni af hálfu ýmissa aðildarfélaga og -samtaka sem jafnvel sögðu skilið við heildarsamtökin af þessum sökum. Forystumenn danska Alþýðusambandsins mátu það hins vegar svo, miðað við stöðu mála í samfélaginu, að réttlætanlegt væri að gera þessa málamiðlun og þessar meginreglur urðu ráðandi í samskiptum aðila vinnumarkaðarins án þess þó að það væri bundið í lög.69 Auk þessa var komið á dómstóli árið 1910, samkvæmt lögum frá danska þinginu, til þess að skera úr um deilumál á milli atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar, einkum varðandi samningsbrot og túlkanir á samningum á milli aðila, eins konar Félagsdómi. Í réttinum sátu jafnmargir frá báðum aðilum en formaður réttarins var skipaður af stjórnvöldum. Þessar reglur höfðu mikil áhrif á samskipti aðila vinnumarkaðarins í Danmörku en urðu þó ekki til þess að koma með öllu í veg fyrir deilur og verkföll.70

Sjá m.a. Christensen, Lars K.; Kolstrup, Søren; Hansen,
Anette Eklund 2007, 79−81. − Christiansen, Niels Finn 1990,
142−143. − Hannibal Valdimarsson, 1958, 3 (Alþýðusamband
Danmerkur sextugt). − Tørnehøj, Henning 1998, 24−25. − Sjá
einnig Guðmundur Magnússon 2004, 39−40.
Christiansen, Niels Finn 1990, 150−152. − Álit vinnulöggjafar-

Eftir stofnun Vinnuveitendafélags Íslands árið 1934 komst hreyfing á umræður um hvaða reglur ættu að gilda um samskipti aðila vinnumarkaðarins. Framkvæmdastjóri þess um langt skeið og helsti málsvari atvinnurekenda, Eggert Claessen, kynnti sér hvernig þessum málum væri háttað í Danmörku og hafði forgöngu um að semja lagafrumvarp um þau efni. Í kjölfarið lögðu þingmenn Sjálfstæðisflokksins fram frumvörp á Alþingi um vinnulöggjöf á árunum 1936–1938. Vinnuveitendur höfðu því mikinn áhuga á að skýra og setja reglur um samskipti aðila á vinnumarkaði sem þeir töldu að væru allt of laus í reipum. Sjálfir höfðu þeir sett félagsmönnum sínum skýrar reglur svo að þeim var óheimilt að semja um kaup og kjör án atbeina forystu samtaka þeirra og vildu svipaðar reglur hjá viðsemjendunum.71 Jafnframt tók Vinnuveitendafélagið upp viðræður við Alþýðusambandið og fór fram á samstarf. Var því vel tekið í fyrstu en síðar hafnað.72 Tillögur Eggerts voru síðar nefndar „þrælalagafrumvarp Eggerts Claessens“; þær væru samsuða úr því sem verst væri í vinnulöggjöf Norðurlandanna.73 Þing Alþýðusambandsins samþykkti síðar ályktun sem Héðinn Valdimarsson lagði fram þar sem sagði m.a. að sambandið væri

Alþt. B 1938, 812−813. − Guðmundur Magnússon 2004, 32.
Morgunblaðið 23. júlí 1939, 9.
Alþýðublaðið 19. júní 1937, 2.

mótfallið hverskonar nýrri vinnulöggjöf, nema því að eins að með henni fáist full lagaviðurkenning fyrir rétti Alþýðusambands Íslands og sambandsfélaga þess til verkfalla, auðveld og skjót málssókn vegna samningsrofa af hálfu atvinnurekenda og að öðru leyti verulega aukin réttindi fyrir alþýðusamtökin frá því sem nú er. … Þingið er sérstaklega andvígt lögákveðnum gerðardómum um kaupgjald og önnur vinnukjör …74

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 13. sambandsþing 1936,
120−121.

Margt mun hafa valdið þessum mótbyr frá ASÍ, m.a deilur innan sambandsins og mótstaða áhrifamikilla forystumanna eins og Héðins Valdimarssonar. Þá sættu forystumenn ASÍ stöðugum árásum af hálfu kommúnista fram eftir fjórða áratugnum sem sökuðu þá um undanlátssemi við stéttarandstæðinginn. Að ljá máls á því að setja löggjöf um samskipti aðila gat því reynst dýrkeypt, a.m.k. að sinni.75 Á hinn bóginn má ætla að margir forystumanna Alþýðusambandsins hafi verið hlynntir því að auka völd þess og gera hlut sambandsins meiri en verið hafði við gerð kjarasamninga.

Sjá einnig Ingólfur V. Gíslason 1994, 94−95. − Guðmundur
Magnússon 2004, 40−48.

Eggert Claessen, einn helsti forsvarsmaður vinnuveitenda um árabil. Honum voru yfirleitt ekki vandaðar kveðjurnar í málgögnum verkalýðsflokkanna, kallaður verkalýðsböðull og fleira í þeim dúr.

Í stað viðræðna við atvinnurekendur lagði þing ASÍ og Alþýðuflokkur til að skipuð yrði nefnd til þess að kanna þessi mál frekar og skipaði hvor stjórnarflokkur tvo menn í nefndina í árslok 1936 (ríkisstjórnin var samstjórn Framsóknarflokks og Alþýðuflokks undir forsæti hins fyrrnefnda). Því má segja að Alþýðusambandið hafi haft helming nefndarmanna en samtök atvinnurekenda engan, þó að því undanskildu að einn nefndarmanna var starfsmaður Sambands íslenskra samvinnufélaga. Nefndin leitaði upplýsinga um hvernig þessum málum væri háttað í nágrannalöndunum og leitaði álits samtaka verkafólks og atvinnurekenda.76 Ekki náðist þó sátt í nefndinni um frumvarp að sinni.

Álit vinnulöggjafarnefndar 1938, 5−6.

Svo fór að frumvarp um vinnulöggjöf var samþykkt á Alþingi 1938. Haustið 1936 hafði Alþýðuflokkurinn fallist á að taka þátt í nefnd með fulltrúum frá Framsóknarflokknum til þess að reyna að finna lausn á málinu, enda væri heppilegra að flokkurinn reyndi „að taka þátt í því með Framsóknarflokknum að ráða fram úr málinu í þeim tilgangi að fá sem hagstæðasta löggjöf fyrir verkalýðssamtökin“.77 Sátt náðist á milli Alþýðuflokks og Framsóknarflokks um að afgreiða frumvarp þessa efnis en áður höfðu framsóknarmenn lagt fram frumvörp um vinnulöggjöf á eigin vegum. Alþýðuflokkurinn taldi niður stöðuna ásættanlega og væri hætta á að ef verkalýðshreyfingin hafnaði frumvarpinu tækju Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sig saman og kæmu í gegn frumvarpi sem væri verkafólki miklu óhagstæðara.78

ÞÍ. Álitsgerð frá ASÍ, ódagsett. Sögus. verkal. A01: 22/1.
Skrifstofa. Ýmis félags-, réttinda- og menningarmál.
Vinnulöggjöf 1936−1976.
Sjá m.a. Þórunn Magnúsdóttir 2002, 128.

Vinnuveitendafélagið tilkynnir ASÍ um stofnun félagsins árið 1935.

Lögin voru í fjórum köflum og byggðu að miklu leyti á löggjöf hinna Norðurlandanna: a) um réttindi stéttarfélaganna; b) um vinnudeilur; c) um sáttatilraunir í vinnudeilum; d) um félagsdóm. Í fyrstu grein laganna er viðurkenndur réttur til að stofna stéttarfélög og þau því viðurkennd lögformlega. Þau ættu að vera opin öllum sem fullnægðu inngönguskilyrðum.79 Samningar skyldu vera skriflegir og tilgreindur gildistími. Verkföll urðu lögleg leið í kjarabaráttunni, þó þannig að sjö sólarhringar áttu að líða frá boðun vinnustöðvunar þar til hún tæki gildi. Verkfallsbrot voru óheimil. Bann var lagt við því að gera samninga við einstaklinga á lakari kjörum en giltu samkvæmt kjarasamningum og heimilt varð að skipa trúnaðarmenn á vinnustöðum, svo nokkur atriði séu nefnd úr lagabálki um stéttarfélög og vinnudeilur. Nokkur félög höfðu þó beitt sér fyrir því áður og fengið um það ákvæði í samninga að trúnaðarmenn bæri að skipa á vinnustöðum, t.d. Félag járniðnaðarmanna árið 1937. Samkvæmt vinnulöggjöfinni bar viðkomandi verkalýðsfélagi að tilnefna tvo menn en atvinnurekandi átti síðan að velja annan þeirra. Reyndin varð þó sú að félögin völdu yfirleitt trúnaðarmanninn.80

Stjt. 1938 A, 130−139. − Lára V. Júlíusdóttir 1995, 25.
ÞÍ. Erindi haldið í Félagsmálaskóla Hannesar Jónssonar í
mars 1966, sennilega eftir Snorra Jónsson. Sögus. verkal. A01:
22/13. Skrifstofa. Ýmis félagsmál. Námskeiðsgögn o.fl.

Deilur um kjarasamning bar að leiða til lykta með úrskurði félagsdóms en ekki með verkföllum eða verkbönnum. Ítarlegur kafli er um sáttatilraunir í vinnudeilum. Landinu var skipt í fjögur sáttaumdæmi og sáttasemjari átti að vera í hverju þeirra. Ríkissáttasemjari átti þó að vera staðsettur í Reykjavík. Í alvarlegum deilum mátti skipa sérstaka sáttanefnd. Ákvæði voru um að sáttasemjari mætti bera fram miðlunartillögu og taka varð afstöðu til hennar í skriflegri atkvæðagreiðslu. Einnig voru ákvæði um félagsdóm sem átti að skera úr um ágreining vegna kjarasamninga. Í dóminum áttu að vera fimm menn, tveir skipaðir af Hæstarétti, einn af ASÍ, einn af Vinnuveitendafélaginu og einn af félagsmálaráðherra.81

Guðmundur Í. Guðmundsson 1942, 249−256. − Stjt. 1938,
130−139.

Afstaða til vinnulöggjafarinnar fór eftir flokkslínum. Hinir róttækustu, kommúnistarnir og vinstri armur Alþýðuflokksins, ýmist mótmæltu eða fordæmdu lögin. Þau atriði sem óánægjan beindist einkum að voru ákvæði er vörðuðu verkfallsboðanir, en samkvæmt þeim átti að tilkynna sáttasemjara og atvinnurekanda um fyrirhugaða vinnustöðvun með viku fyrirvara, sem fyrr greinir. Hinir róttækustu innan verkalýðshreyfingarinnar töldu að þetta ákvæði drægi mjög úr möguleikum til þess að beita verkfallsvopninu. Má það til sanns vegar færa því að eftir samþykkt ákvæðisins var ekki heimilt að gera verkfall fyrirvaralaust eins og tíðkast hafði; kæmi upp ágreiningur um túlkun kjarasamnings eða önnur atriði hafði iðulega verið gripið til skyndiverkfalla. Verkalýðshreyfingin hafði beitt þessari aðferð víða um land með góðum árangri og kommúnistar sérstaklega þegar þeir voru að skjóta rótum innan verkalýðshreyfingarinnar. Þeir lýstu því yfir að þeim hefði „tekist á mjög skömmum tíma að fá kröfum sínum fullnægt með því að leggja niður vinnuna fyrirvaralaust“. Kommúnistar vildu því geta beitt þessari aðferð hér eftir sem hingað til.82 Skyndiverkföllin voru líka það atriði sem atvinnurekendur og málgögn þeirra lögðu hvað mesta áherslu á að yrði að stöðva.83 Ákvæði um miðlunartillögu fóru einnig fyrir brjóstið á andstæðingum frumvarpsins, en samkvæmt þeim urðu a.m.k. 35% félagsmanna að taka afstöðu til miðlunartillögu til þess að einfaldur meirihluti réði úrslitum. Ef færri en 20% greiddu atkvæði taldist miðlunartillaga samþykkt. Yfirleitt voru kommúnistar og sósíalistar mjög andstæðir lögunum og kölluðu þau „þrælalög“. Alþýðuflokkurinn taldi lögin að flestu leyti til bóta og hefði í þeim verið tekið upp það besta sem í gildi var um þessi mál á hinum Norðurlöndunum, ólíkt því sem verið hefði í frumvarpi þingmanna Sjálfstæðisflokksins, sem fyrr er nefnt. Jón Axel Pétursson rökstuddi afstöðu sambandsins m.a. á þann hátt að framundan væri allt annar tími

Vinnulöggjöf. Ráðabrugg um að taka verkfallsréttinn af verka-
Sjá m.a. Morgunblaðið 19. maí 1935, 2.

en sá, sem liðinn er. Nú skipuleggja atvinnurekendur starfsemi sína, áður stóðu þeir dreifðir. Með hverju ári verða samtök þeirra voldugri að því er sýnt þykir. Er því alveg ljóst, að með tilliti til viðureignar verkalýðsfélaganna og baráttu þeirra við félög atvinnurekenda í framtíðinni var það öllum bezt að um þau giltu önnur lög en þau, er þeir sem baráttuna háðu í þetta eða hitt skiptið, settu sér sjálfir eins og verið hefir.84

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 15. sambandsþing 1938,
57. − Um þessar deilur sjá einnig Hulda Sigurborg Sigtryggs-
dóttir 1991, 22−24.

Alþýðublaðið kvað kommúnista hafa treyst því að tekist hefði að gera

alla vinnulöggjöf svo hataða af verkalýðnum, að nægilegt sé að stimpla frumvarp milliþinganefndarinnar sem „vinnulöggjöf“ og bannfæra það þar með algerlega. Slík málafærsla er algert vindhögg og dæmir sig sjálf og upphafsmenn hennar. Enginn skyni borinn verkamaður getur haft á móti löggjöf um þessi efni, sem treystir og eykur réttindi verkalýðsfélaganna og meðlima þeirra.85

Alþýðublaðið 16. febrúar 1938, 3.

Vinnulöggjöfin væri einmitt liður í því að koma íslensku samfélagi skrefi nær því marki sem náðst hefði annars staðar á Norðurlöndunum þar sem tekist hefði að tryggja miklu meiri samfélagslegar umbætur verkafólki til handa en hér á landi, varðandi vinnutíma, orlof og almenn kjör. Þess má geta að um svipað leyti var samskiptareglum aðila á vinnumarkaði breytt í Noregi. Breytingarnar voru að mörgu leyti svipaðar og á Íslandi en munurinn var þó sá að ekki voru sett lög um þessi efni í Noregi heldur náðust um það samningar á milli aðila vinnumarkaðarins árið 1935; meginbreytingin var kannski friðarskyldan, þ.e. eftir að gerðir höfðu verið samningar áttu þeir að gilda, en óheimilt var að grípa til aðgerða sem væru á skjön við ákvæði samninganna. Þar með taldi forysta verkalýðshreyfingarinnar í Noregi að komið hefði verið í veg fyrir að sett væru lög um þessi efni.86

Olstad, Finn 2009, 423.

Þegar litið er á þessi mál úr fjarlægð gat verkalýðshreyfingin vissulega hrósað sigri og mörg verkalýðsfélög tóku löggjöfinni vel en andstaðan var líka mikil.87 Þrátt fyrir nokkrar takmarkanir var setning vinnulöggjafarinnar fagnaðarefni fyrir verkalýðshreyfinguna og verkafólk almennt. Hún fékk tilveru sína, baráttuaðferðir og margvísleg grundvallarréttindi viðurkennd með lögum og hafði því sterkari stöðu gagnvart andstæðingum sínum en verið hafði. Staða hreyfingarinnar á vinnustöðum efldist einnig með tilkomu trúnaðarmanna sem áttu að gæta þess að samningar væru haldnir, auk þess sem viðkomandi var tengiliður við stéttarfélagið.88 En lögin kváðu jafnframt skýrt á um að félögin yrðu að vera öllum opin og þar með hlaut að verða erfiðara að viðhalda þeirri reglu að aðrir en alþýðuflokksmenn mættu ekki gegna trúnaðarstörfum innan heildarsamtakanna eða sitja á þingum Alþýðusambandsins, eins og Morgunblaðið benti á.89

Stefán Hjartarson, handrit, 562−565.
Sambandstíðindi júní 1939. − Hannibal Valdimarsson, Al-
þýðusamband Íslands 40 ára, 1956, 11. − Ingólfur V. Gíslason
1994, 94−100. − Sjá einnig Guðmundur Magnússon 2004,
46−48.
Morgunblaðið 4. febrúar 1939, 5.

Vörður

  • 1915 Bann við verkföllum hjá starfsfólki hjá hinu opinbera.
  • 1925 Lög um sáttasemjara.
  • 1938 Vinnulöggjöfin.

Næsti kafli

Atvinnuleysi og stéttaátök