Hallgrímur Helgason stjórnar Söngfélagi verkalýðssamtakanna á ASÍ-þingi árið 1958.
Eftir skipulagsbreytingar Alþýðusambandsins árið 1941 fjölgaði mjög í sambandinu og tekjur þess jukust. Sóknar hugur var í mönnum og var ákveðið að hefja útgáfu mánaðarrits sem fékk nafnið Vinnan. Fyrsti ritstjóri hennar var Friðrik Halldórsson, en í ritnefnd sátu Stefán Ögmundsson, sem var sósíalisti, og Sæmundur Ólafsson sem studdi Alþýðuflokkinn. Í leiðara fyrsta tölublaðsins sem kom út árið 1942 var svo skýrt frá tildrögum að stofnun blaðsins að ekki væri vansalaust að svo fjölmennt samband hefði ekki málgagn. Vinnan ætti að geta gegnt því mikilvæga hlutverki „sem henni var falið af sambandsþinginu … að varðveita þá einingu innan verkalýðssamtakanna almennt, sem allir sannir verkalýðssinnar hafa þráð á undanförnum árum“.1 Vinnan var þó ekki fyrsta málgagn Alþýðusambandsins eða hins faglega hluta þess því að árið 1939 hóf verkamálaráð sambandsins að gefa út Sambandstíðindi og var þeirri útgáfu fram haldið allt til ársins 1941. Enn fyrr, árið 1928, stóð ASÍ að útgáfu Sambandsblaðs, en ekki varð framhald á þeirri útgáfu.
Vinnan var gefin út af krafti næstu sex ár og kom yfirleitt út mánaðarlega. Blaðið flutti fregnir úr verkalýðsbaráttunni og birtar voru lengri og skemmri greinar um stjórnmál og verkalýðsmál. Ljóð, þýdd og frumsamin, voru í hverju blaði og framhaldssögur, oftast þýddar. Þá var í hverju blaði yfirlit yfir kauptaxta alls staðar á landinu og svo vitaskuld fregnir af vettvangi Alþýðusambandsins. Einnig var fyrstu sex árin lögð áhersla á að birta greinar um söguleg efni sem tengdust verkalýðshreyfingunni, ekki síst frásagnir af tilurð og starfi einstakra félaga og helstu stéttaátaka. Eftir að slitnaði upp úr samstarfi verkalýðsflokkanna innan Alþýðusambandsins árið 1944, og sósíalistar náðu undirtökum í sambandinu, var allt einingarhjal látið lönd og leið og ekki spöruð skotin á Alþýðuflokkinn.
Þegar sósíalistar misstu meirihluta í Alþýðusambandinu 1948 höfðu þeir séð fyrir hvert stefndi og áður en þeir létu af stjórn ASÍ gerðu þeir samning við fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Reykjavík um að það tæki að sér útgáfu blaðsins. Það átti að eiga tvo þriðju hluta þess en Alþýðusambandið einn þriðja. Þá var jafnframt stofnað útgáfufélagið Vinnan um útgáfu blaðsins og gaf það út 12. tölublað af 6. árgangi Vinnunnar 1948.2 En það gerði einnig hin nýja forysta Alþýðusambandsins sem lét eins og samningur við fulltrúaráðið í Reykjavík, sem sósíalistar höfðu undirtökin í, væri ekki til og gaf einnig út sína Vinnu, 12. tbl. 1948. Bæði tölublöðin voru vitaskuld með áframhaldandi blaðsíðutali. Þessi staða var svolítið snúin og hin nýja stjórn ASÍ mótmælti því að heimild fengist fyrir því að skrásetja Útgáfufélagið Vinnuna. En einkum mótmælti hin nýja stjórn því að fyrri stjórn hafði látið afhenda Útgáfufélagi Vinnunnar „kaupendaskrár, adressuvél, allar prentmyndir ritsins frá fyrstu tíð o.s.frv.“ En sambandsstjórnin nýja lét ekki þessi vandkvæði á sig fá, endurréð ritstjórann, Karl Ísfeld, og hélt áfram útgáfunni eins og ekkert hefði í skorist þó að aðgerðir fyrri sambandsstjórnar hefðu „að vísu torveldað nokkuð starfið við útgáfu ritsins fyrst í stað“, eins og getið var um í greinargerð frá miðstjórn.3 Endurskoðandi ASÍ lýsti vandkvæðunum í bréfi til Jóns Sigurðssonar framkvæmdastjóra þegar hann var að reyna að koma einhverjum reiðum á fjármál Vinnunnar:
Þá má geta þess, og taka tillit til við mat útist. skulda, að auk þess sem blaðið hefur ekki komið út síðan í október, hefur annað blað með líku nafni, svipuðu efni, sömu framhaldssögu og ritstjóra komið í kjölfar þess og verið sent til hinna sömu kaupenda. Er ekki
við öðru að búast en að hið nýja blað, sem sagt er að sé sama blaðið en þó ekki sama blaðið, geri mikinn rugling og rýri mjög verðmæti útistandandi skulda hins eldra og torveldi mjög innheimtuna.4
ÞÍ. Jón Brynjólfsson til Jóns Sigurðssonar 11. janúar 1951.
Sögus. verkal. A01: 40/2. Stofnanir innan ASÍ. Vinnan.
Árið 1950 misstu sósíalistar meirihluta í fulltrúaráði verkalýðsfélaganna í Reykjavík og ákvað nýja ráðið að afhenda ASÍ öll gögn um blaðið og hætta útgáfunni.5 Svar sósíalista var að stofna Útgáfufélag alþýðu og breyta heiti blaðsins í Vinnan og verkalýðurinn (frá 1951). Var það gefið út í nokkur ár (til 1957).
Í framhaldinu komu svo út tveir árgangar Vinn-unnar þar sem svipaður kraftur var í útgáfunni, enda naut blaðið þá erlends fjárstuðnings, sem fyrr getur. Samkeppnin við sósíalista var þó erfið, eins og einn útsölumanna lýsti: „Annað atriðið sem gerir dreifingu og sölu þessa rits mjög erfiða, er það að það kemur aldrei hingað fyrr en löngu á eftir að kommar eru búnir að dreifa sínu riti hér um allt. Þá finna menn að því, að ritið sé miklu lélegra en það áður var og flytji lítið af fræðandi greinum um baráttu launþega fyrir bættum lífskjörum“.6 Hinir róttæku reyndust betur skipulagðir, eins og stundum áður, og því fór svo að árið 1951 kom aðeins út eitt tölublað, þrjú árið eftir, en árið 1953 lá útgáfan niðri og aðeins eitt tölublað kom út árið 1954. Í því tölublaði kvartar forseti ASÍ yfir því að fjárhagsörðugleikar hamli útgáfunni en einnig má vera að ástæðan hafi verið sú að mikil ólga var innan Alþýðuflokksins um þær mundir sem einnig kraumaði innan Alþýðusambandsins.7
Árið 1954 var skipt um forystu ASÍ. Hannibal Valdimarsson tók við stjórnartaumum af Helga Hannessyni, gömlum samherja sínum frá Ísafirði. Með valdaskiptunum færðist að nýju líf í Vinnuna. Þá var líka gerð mikil breyting á efnisskipan blaðsins með það að leiðarljósi að það væri fyrst og fremst málgagn ASÍ. Uppistaða efnisins voru fréttir úr kjarabaráttunni, stefnuyfirlýsingar stjórnar og fregnir frá sambandsfélögunum. Efni á borð við sögur og ljóð og almennan fróðleik, sem mikið hafði verið af í Vinnunni undir ritstjórn Karls Ísfelds, hvarf að mestu. Jafnframt fóru á ný að birtast greinar um verkalýðsríkin í austri í vinsamlegum anda.
Hannibal varð ritstjóri Vinnunnar og jafnvel eftir að hann var orðinn ráðherra hélt hann ritstjórninni í sínum höndum. Hann ritstýrði síðan Vinnunni um áratugsskeið og komu að jafnaði út fjögur tölublöð á ári til 1964 (yfirleitt þrjú til sjö á ári), en árið 1965 féll útgáfan niður og einungis eitt tölublað kom út árið 1966 sem afmælisblað Alþýðusambandsins.8 Hannibal skrifaði að jafnaði stóran hluta blaðsins, tók viðtöl og ritaði greinar sögulegs efnis. Ástæður þess að hlé varð á útgáfunni um miðjan sjöunda áratuginn og til 1973 hafa verið margvíslegar. Fjárhagur Vinnunnar hafði alltaf verið þröngur og yfirleitt tap á blaðinu, enda tókst ekki að afla blaðinu nægilega stórs kaupendahóps til þess að það gæti staðið undir sér.9 Líka má velta fyrir sér hvort slíkt hafi yfirhöfuð verið mögulegt með tímarit af þessu tagi.
Á aukaþingi ASÍ árið 1937 var ákveðið að stofna Menningar- og fræðslusamband alþýðu (MFA) og hóf það störf árið eftir. Formaður sambandsins var Ármann Halldórsson magister en fyrsti starfsmaður Halldór Halldórsson magister.10 Sambandinu var fyrst og fremst ætlað að standa fyrir „fyrirlestrum, námsskeiðum, námsfélögum, útgáfu bóka og ritlinga, útvarpserindum og annarri fræðslu og menningarstarfsemi“. Standa átti undir starfseminni með því að hvert verkalýðsfélag legði fram tiltekið gjald fyrir hvern félaga.11 Fyrstu bækur MFA komu út 1938, en síðla árs 1940 voru félagar í sambandinu orðnir á fimmta þúsund. Býsna blómleg bókaútgáfa var næstu misserin, fræðibækur, einkum bækur um verkalýðshreyfinguna, og fagurbókmenntir, mest þýddar. Stefnan var sú að hafa á boðstólum „læsilegar og skemmtilegar bækur, helst beinlínis „spennandi“, ef mögulegt er – án þess þó að telja það ókost á bókum, að þær fræði menn og vekji til umhugsunar um vandamál síns tíma jafnvel pólitísk, en um leið að varast flokkspólitísk áróðursrit“.12 Forystu Alþýðusambandsins var vel kunnugt um það öfluga fræðslustarf sem verkalýðshreyfingin á Norðurlöndunum stóð fyrir. Um þetta leyti bauð systurstofnun MFA í Danmörku árlega einum nemanda til dvalar við danskan alþýðuháskóla, en slíkar stofnanir voru víða þar í landi.13 En forystu Alþýðusambandsins var líka vel kunnugt hversu góðum árangri Mál og menning, sem sósíalistar leiddu, hafði náð og hversu öflug bókaútgáfa þeirra var og áhrifamikil.
Menningar- og fræðslusambandið stóð einnig fyrir námskeiðum fyrir ungt fólk í verkalýðshreyfingunni. Fyrsta námskeiðið var haldið árið 1939 í tengslum við Alþýðuskólann sem hafði verið starfræktur þá um nokkurra ára skeið sem kvöldskóli fyrir ungt fólk úr alþýðustétt. Hugsunin með námskeiðshaldinu var sú að það væri aðeins fyrsta skrefið í þá átt að koma upp „fullkomnum lýðháskóla í þjóðfélagsfræðum, í líkingu við þá fyrirmyndarskóla, sem á síðustu árum hafa risið upp á Norðurlöndum fyrir atbeina verkalýðssamtakanna“. Þetta fyrsta námskeið var ekki hugsað sem „flokksskóli“ heldur sem almenn fræðsla í móðurmáli, sögu og félagsfræði, þó vissulega með áherslu á þau málefni sem vörðuðu sérstaklega verkalýðshreyfinguna.14 Þegar skilið var á milli Alþýðu flokks og Alþýðusambands fylgdi Menningar- og fræðslusambandið Alþýðuflokknum og rofnuðu þar með tengslin við ASÍ. Alþýðuflokkurinn tók ábyrgð á bókaútgáfu MFA eftir það.15
Á 17. þingi ASÍ 1942 var samþykkt ályktun þess efnis að sambandsstjórnin stæði fyrir því að skipuleggja fræðslustarf á vegum sambandsins í framtíðinni. Eftirfarandi þætti átti að hafa í huga við þá skipulagningu: 1) fyrirlestra í stéttarfélögum og í útvarpi um málefni samtakanna; 2) að fulltrúaráð hefði forgöngu um fræðslu hvert á sínum stað; 3) bréfaskóla yrði komið á fyrir meðlimi sambandsins; 4) boðið yrði upp á að fyrirlesarar héldu erindi í þeim félögum sem eftir því óskuðu; 5) fræðslunámskeið yrðu haldin fyrir starfsmenn stéttarsamtaka; 6) styrkt yrði útgáfa rita sem ættu erindi til verkafólks; 7) komið yrði upp lestrarstofu fyrir verkalýðsfélögin; 8) sýndar yrðu fræðslukvikmyndir.
ASÍ sótti um styrk til Alþingis til fræðslustarfseminnar 1942 og var veittur stuðningur að upphæð átta þúsund krónur. Ákveðið var að honum skyldi varið á þann hátt að koma á fót námskeiðum í Reykjavík sem stæðu yfir í einn og hálfan til tvo mánuði. Þar áttu einkum að vera til umfjöllunar „saga vinnu og framleiðslu, vinnulöggjöf, alþýðutryggingar, praktiskt starf innan verkalýðsfélaganna o.s.frv.“ Með því var einkum átt við þjálfun í félagsstörfum og flutning erinda. Jón Sigurðsson hvatti félagsmenn eindregið til þess að taka þátt í námskeiðunum, enda væri „ljóst, að því betri sem þekking meðlima félaganna er, því meira og betra verður starfið“.16
Meðal kennara var Sverrir Kristjánsson sem fjallaði um sögu verkalýðssamtakanna. Nafnarnir Jón Sigurðsson og Jón Rafnsson fjölluðu um félagsstarf, Einar Olgeirsson um alþýðu- og þjóðernisbaráttu, Finnur Jónsson um verkalýð og millistéttir og Stefán Ögmundsson um stórveldastefnu og styrjaldir. Þá fjölluðu Björn Fransson og Gylfi Þ. Gíslason um sögu vinnu og framleiðsluhátta. Námskeiðum af þessu tagi var haldið áfram næstu árin, en þó eitthvað stopult og til dæmis féllu námskeið niður árið 1952 vegna ónógrar þátttöku.17
Þess má geta að ýmis verkalýðsfélög stóðu einnig fyrir fræðslustarfsemi, t.d. var Dagsbrún með svipuð námskeið og ASÍ stóð fyrir og einnig Hlíf í Hafnarfirði. Í október 1943 stóð félagið til dæmis fyrir tveimur fyrirlestrum; annars vegar fjallaði Jón Rafnsson um verkalýðshreyfinguna en Sigurgeir Sigurðsson biskup flutti erindi sem hann kallaði „Á vegum Krists og kirkju“. Í framhaldinu voru svo mánaðarlega fyrirlestrar fram á vor.18 Verkakvennafélögin stóðu einnig fyrir námskeiðum en þau fólust einkum í því að kenna konum hannyrðir og fatasaum.19 Þar kom hvort tveggja fram sem var svo ríkt í fólki á þessum árum, að vera sjálfbjarga og kosta eins litlu til og unnt var til allrar neyslu. En þetta er líka dæmi um hversu kvenfélagahugmyndin átti sterkar rætur innan verkalýðshreyfingarinnar, bæði meðal karla og kvenna, og sú skoðun að hlutverk verkakvennafélaganna væri einnig að efla konur sem húsmæður.20
Á sjötta áratugnum voru uppi hugmyndir um að koma á fót svonefndum verkalýðsskólum, svipað og bændaskólunum, og var forseti Alþýðusambandsins, Hannibal Valdimarsson, mjög áfram um að þeir yrðu að veruleika. Hannibal hafði lengi haft áhuga á þessu efni og beitti sér fyrir því að Alþýðusamband Vestfjarða tók þessa hugmynd upp á sína arma. Hannibal hafði sjálfur sótt námskeið fyrir verkamenn í Hindsgavl-höll í Danmörku árið 1933 ásamt tveimur öðrum Íslendingum.21 Fyrirmyndin var því sótt til hinna Norðurlandanna sem öll stóðu fyrir öflugri fræðslustarfsemi í sérstökum verkalýðsskólum um langt skeið; sérstaklega var starfið í Danmörku öflugt.22 Frumvarp þessa efnis var flutt á Alþingi árið 1954 á vegum Hannibals og nokkrum sinnum síðar. Gert var ráð fyrir að þar yrði kennsla í almennum greinum en auk þess fjallað um atvinnulífið og samtök á þeim vettvangi svo og félagsmálalöggjöf og félagsmálastarf. Árið 1963 fluttu Eggert G. Þorsteinsson og Friðjón Skarphéðinsson svipað frumvarp. Skóli af þessu tagi varð þó ekki að veruleika með samþykktum Alþingis.23