Efnisyfirlit

Deila sögu ASÍ

Tímabilið fram til 1940

Inngangur

Saga ASÍ: Í samtök

Inngangur

Þegar ég var hálfþrítugur stúdent í sagnfræði við Háskóla Íslands upp úr 1980 var saga verkalýðshreyfingarinnar eitt þeirra námskeiða sem ég sótti. Námskeiðið kenndi Ólafur R. Einarsson, sonur hins nafntogaða verkalýðsleiðtoga og sósíalista, Einars Olgeirssonar, sem þá þegar var orðinn annálaður. Það var engin tilviljun að ég sótti þetta námskeið, enda hafði ég haft áhuga á verkalýðsmálum og sögu verkalýðshreyfingarinnar allt frá unglingsárum og skrifaði til dæmis lokaritgerð í Menntaskólanum á Akureyri um þessi efni.

Námskeið Ólafs var til marks um þann mikla áhuga sem var á þessum efnum um þetta leyti. Þau umbrot sem höfðu orðið í Vestur-Evrópu um áratug fyrr voru öllum enn í fersku minni. Fólk spurði nýrra spurninga og velti fyrir sér hlut verkalýðshreyfingarinnar í samfélagsþróuninni. Sagan var því í brennidepli.

Ólafur var þó ekki fyrstur manna til þess að velta fyrir sér og rita um sögu íslenskrar verkalýðshreyfingar. Þegar á fyrstu áratugum Alþýðusambandsins (ASÍ) kom þessi áhugi fram. Pétur G. Guðmundsson hvatti t.d. eindregið til þess á þingi ASÍ árið 1934 að gerð yrði „gangskör að því, að safna í eitt öllum fáanlegum gögnum, sem lúta að sögu Alþýðusambandsins og verkalýðssamtakanna á Íslandi“. Að hans mati var æskilegt að slíkt yfirlit lægi fyrir á næsta sambandsþingi árið 1936 og sjálfur lýsti Pétur yfir vilja til að taka saman slíkt verk. Sú saga gat að mati Péturs orðið „hin fullkomnasta menningarsaga þjóðarinnar á þessu tímabili, og gæti orðið mjög merkileg, samanborið við samtakasögu annara þjóða“.1 Ekkert varð þó úr aðgerðum, enda voru þá róstutímar í starfsemi Alþýðusambandsins. Þó var slík saga verkalýðshreyfingarinnar væntanleg árið 1940 en frestaðist af því að „nokkur félög hafa ekki sent söguágrip“. Voru þau félög áminnt um að gera skil hið fyrsta til þess að unnt væri að ljúka verkinu. Ekki varð þó af því.2

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 12. sambandsþing 1934,
73−74. − ÞÍ. Sögus. verkal. A01 20/2. Almenn skrifstofa.
Bréfaskipti 1935−1939.
Sambandstíðindi júní 1941, 2.

Eftir að ASÍ hóf útgáfu blaðs síns, Vinnunnar, árið 1943 var mjög hvatt til þess í leiðara fyrsta tölublaðsins að þeir sem ættu í fórum sínum efni um sögu hreyfingarinnar sendu það til blaðsins.3 Vinnan sinnti því af kostgæfni fyrstu árin að birta slíkt efni. En einnig var hvatt til þess að einstök félög sendu ASÍ ýmis söguleg gögn til varðveislu, svo sem gamlar fundargerðabækur, enda væri von til þess að þau varðveittust fremur en ella á þann hátt. Var það hugsað sem liður í því að rita sögu verkalýðshreyfingarinnar, að byrja á því að safna efni skipulega. Stefán Ögmundsson, sem þá var í forystu sambandsins og ritstjórn Vinnunnar, staðhæfði að ef þetta yrði gert yrði „saga verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi án efa ein markverðasta bók, sem þjóðin hefur eignazt“.4 ASÍ sótti tvívegis um styrk til Alþingis árin 1945–1946 til söguritunar um sambandið, að upphæð 12.000 kr. í hvort skiptið, og var styrkurinn veittur. Forysta sambandsins taldi skynsamlegast að nýta hann til þess að afla gagna um sögu hreyfingarinnar fremur en að ráða einhvern í söguritunina.5 Árið 1948 var þó ákveðið að hefjast handa við skrif og réð Alþýðusambandið þá Sverri Kristjánsson sagnfræðing og Skúla Þórðarson magister til þess að annast söguritunina. Gerðist þetta skömmu fyrir Alþýðusambandsþing árið 1948. En þegar ný stjórn hafði tekið við völdum í Alþýðusambandinu vildi hún ekki nýta sér þjónustu þeirra tvímenninganna og sagði þeim upp störfum, enda hefði miðstjórn sambandsins strax gert sér „ljóst, hvern blæ „sagan“ myndi hafa ef Sverrir Kristjánsson ætti að vera aðalsöguritarinn“.6 Sverrir var róttækur sósíalisti en nýja sambandsstjórnin var undir forystu alþýðuflokksfólks. Þess í stað var ákveðið að fá Loft Guðmundsson til þess að gera kvikmynd um sögu íslenskrar verkalýðshreyfingar til 1950 en það verkefni virðist heldur ekki hafa verið leitt til lykta.7

Vinnan I (1943), 5.
Stefán Ögmundsson 1943, 196.
Vinnan V (1947), 101.
Skýrsla miðstjórnar Alþýðusambands Íslands 1950, 11.
ÞÍ. Samningur ASÍ við Loft Guðmundsson 20. desember
1950. Sögus. verkal. A01: 22/5. Skrifstofa. Ýmis menningarmál.

Greint frá flutningi á skrifstofu ASÍ í svokallað Edinborgarhús í Hafnarstræti í Reykjavík í maí árið 1931.

Um 1960 var mikill hugur í mönnum að efla rannsóknir á sögu verkalýðshreyfingarinnar. Hannibal Valdimarsson lýsti þeim áhuga í bréfi árið 1959 þannig að hann hefði að undanförnu „skrifað öllum félögum í sambandinu og beðið þau að safna öllum sögulegum gögnum, sem þeim sé kunnugt um varðandi sögu þeirra, og sérstaklega að láta sambandið fá eintak af öllum prentuðum ritum um sögu þeirra“.8 Hugmyndin var sú að koma upp safni um sögu verkalýðshreyfingarinnar þar sem varðveitt væru skjöl og annað efni sem tengdist hreyfingunni. Stefnt var að því að fá til samstarfs skáld, listamenn, lækna og sagnfræðinga til þess að gera slíkt safn sem best úr garði. Auk skjala átti að vinna að því að afla „frásagna úr baráttusögunni á segulband“. Einnig að útvega ljósmyndir „af forystufólki og af atburðum, sem snerta söguna“ og safna „þeim söngvum í tónum og ljóðum, sem hljómað hafa á dögum baráttunnar“.9 Samkvæmt ályktuninni var litið svo á að það væri afar mikilvægt verkefni fyrir verkalýðshreyfinguna að

ÞÍ. Hannibal Valdimarsson til Finnboga Bernódussonar 20.
júlí 1959. Sögus. verkal. A01: 33/7. Sambönd og félög á Vest-
fjörðum.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 27. sambandsþing 1960, 75.

undirbyggja þá fræðigrein í íslenzku fræðslukerfi, sem lítið hefur verið sinnt fram að þessu, en það er fræðsla um innri mál verkalýðssamtakanna, þróun þeirra og tilgang, – fræðigrein, sem hefur stórsögulegt og hámenningarlegt gildi fyrir íslenzkt alþýðufólk – sem á að miða manndóm sinn við fullkomnasta mannlíf – sem byggist á öryggi, friði og mennt.10

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 27. sambandsþing 1960, 74.

Síðar verður fjallað um hvernig Alþýðusambandið stóð að því að sinna þessu mikla verkefni.

Enn var hugað að söguritun Alþýðusambandsins um miðjan sjöunda áratuginn er Skúli Þórðarson sagnfræðingur var fenginn til að rita langa afmælisgrein í Vinnuna árið 1966 þegar ASÍ varð fimmtugt.11 Í greininni fjallar hann um sögu sambandsins frá öndverðu og greinir frá helstu stefnumálum þess og í hverju baráttan hafi einkum verið fólgin. Þá var Gunnar M. Magnúss rithöfundur fenginn til þess að taka saman bókina Ár og dagar. Upphaf og þróun alþýðusamtaka á Íslandi 1875–1934 og var til þess ætlast að bókin væri í svipuðu formi og bókaflokkurinn Öldin okkar, þar sem stiklað væri á stóru í sögu alþýðusamtakanna. Bókin kom út árið 1967 og varð ekki framhald á.12 Þeir sem helst létu að sér kveða við söguritun um verkalýðshreyfinguna um og eftir miðja 20. öld fyrir utan Skúla voru Einar Olgeirsson, sem skrifaði mikið um hreyfinguna í tímarit sitt Rétt, og Sverrir Kristjánsson sagnfræðingur, sem einnig skrifaði í Rétt og sömuleiðis í Vinnuna. Þá fjallaði Pétur G. Guðmundsson einnig nokkuð um þessi efni og vitaskuld urðu ýmsir fleiri til þess að stinga niður penna.

Skúli Þórðarson 1966, 16−31.
ÞÍ. ASÍ til allra sambandsfélaga 31. október 1967. Sögus.
verkal. A01: 22/5. Skrifstofa. Ýmis menningarmál.

Sem fyrr getur tók Ólafur R. Einarsson upp merki föður síns og hóf að fjalla um sögu verkalýðshreyfingarinnar, þó ekki sem stjórnmálamaður heldur fræðimaður, enda var hann menntaður sem sagnfræðingur frá háskólanum í Ósló. Helstu rannsóknir hans á þessu sviði birtust í riti hans Upphaf íslenskrar verkalýðshreyfingar 1887–1901 árið 1970 (áður birt í Tímaritinu Sögu). Síðar birti Ólafur ýmsar greinar um þessi mál en brautryðjandastarf hans kom þó ekki síst fram í háskólakennslu hans um sögu verkalýðshreyfingarinnar um nokkurra ára skeið. Ferill Ólafs varð þó ekki langur. Hann féll frá langt fyrir aldur fram og þar með datt háskólakennsla á þessu sviði að mestu leyti niður.

Fleiri fræðimenn sinntu þó rannsóknum á þessu sviði á ofanverðri 20. öld. Svanur Kristjánsson gaf t.d. út ritið Íslensk verkalýðshreyfing 1920–1930 (1976) en það byggðist á doktorsritgerð hans. Þá fjallaði Þór Whitehead um vinstri arm verkalýðshreyfingarinnar í bók sinni Komm-únistahreyfingin á Íslandi 1921–1934 (1979). Aðrir sem létu að sér kveða á áttunda og níunda áratugi 20. aldar voru m.a. Magnús S. Magnússon en doktorsritgerð hans, Iceland in Transition. Labour and Socio-Economic Change before 1940, frá 1985 varpaði m.a. ljósi á það samfélag sem verkalýðshreyfingin varð til í á fyrri hluta 20. aldar. Hér má einnig nefna doktorsritgerð Stefáns Hjartarsonar frá 1989, Kampen om fackföreningsrörelsen, sem fjallar einkum um deilur kommúnista og jafnaðarmanna í verkalýðshreyfingunni á Norðurlandi á fjórða áratugnum. Ýmis verk háskólastúdenta frá níunda áratugnum fjölluðu einnig um sögu verkalýðshreyfingarinnar, þ. á m. kver Ingólfs Á. Jóhannessonar um sögu ungra kommúnista, Úr sögu Kommúnistaflokks Íslands (1980), og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, Vinstri and-staðan í Alþýðuflokknum (1980). Hér má einnig geta um BA-ritgerð Margrétar Guðmundsdóttur, „Konur hefja kjarabaráttu“ (1983). Áhugi á sögu verkalýðshreyfingarinnar birtist einnig í stofnun Félags áhugafólks um verkalýðssögu (1986), sem var starfandi um tíma, og Sögusafns verkalýðshreyfingarinnar (1974–2002) sem hafði að markmiði að safna og varðveita frumgögn um sögu hreyfingarinnar. Safnið er nú í vörslu Þjóðskjalasafns og hefur hætt sjálfstæðri starfsemi.

Höfundur heldur ræðu á 1. maí, skömmu fyrir 1980, á útifundi hjá Baráttueiningu 1. maí sem róttækir hópar stóðu að.

Eftir 1990 dró úr áhuga á sögu verkalýðshreyfingarinnar innan háskólasamfélagsins. Fyrir því voru ýmsar ástæður. Háskólakennsla á þessu sviði féll niður sem fyrr getur, auk þess sem dró úr þeim mikla áhuga á félagssögu sem ríkti á áttunda og fram eftir níunda áratugnum. Þá dró almennt úr áhuga á málefnum verkalýðshreyfingarinnar á þessum tíma, þegar nýfrjálshyggja ruddi sér til rúms og varð brátt ráðandi hugmyndakerfi í samfélaginu.

Rit um sögu verkalýðshreyfingarinnar eftir 1990 hafa einkum varðað sögu einstakra stéttarfélaga og hefur verið ráðist í gerð þeirra að ósk viðkomandi félags. Svo er t.d. um Bjarma nýrrar tíðar (1994) eftir Ingólf V. Gíslason þar sem ítarlega er fjallað um sögu Iðju, félags verksmiðjufólks, frá stofnun félagsins og fram til 1990. Smári Geirsson ritaði bókina Saga norðfirskrar verkalýðs-hreyfingar, sem kom út árið 1993, og Helgi Guðmundsson ræddi um vinstri hreyfinguna í Neskaupstað í riti sínu Þeir máluðu bæinn rauðan (1990). Hér má einnig nefna rit Benedikts Sigurðssonar, Brauðstrit og barátta, sem kom út í tveimur bindum árið 1989 og 1990, en þar fjallar höfundur um verkalýðshreyfinguna á Siglufirði frá upphafi vega. Gísli Sverrir Árnason fjallaði um verkalýðshreyfinguna á Hornafirði í tveimur bindum, Þó hver einn megni smátt. Saga Atvinnufélags Hafnarverkalýðs á Hornafirði 1929–1942 (1994) og Kolalausir kommúnistar á Hornafirði. Saga Verkalýðsfélagsins Jökuls 1942–1999 (1999). Þór Indriðason fjallaði ítarlega um sögu verkalýðshreyfingarinnar á Húsavík í þremur bindum: Fyrir neðan bakka og ofan. Saga verkalýðshreyfingar, atvinnulífs og stjórnmála á Húsavík 1885–1985 (1996). Frá árinu 1999 er Trésmiðafélag Reykjavíkur 100 ára eftir þá Eggert Þór Bernharðsson og Helga M. Sigurðsson.

Loks hefur komið út fjöldi afmælisrita um einstök félög, þar sem blandað hefur verið saman ýmsum upprifjunum og sögulegri umfjöllun. Í flestum þessara rita er rík áhersla lögð á að samtvinna þróun atvinnulífs á viðkomandi stað við sögu verkalýðsfélaganna þannig að skil á milli atvinnuþróunarsögu og verkalýðssögu eru ekki glögg.

Í upphafi þessarar aldar hafa síðan birst nokkur rit er varða sögu verkalýðshreyfingarinnar. Þar má geta um rit Helga Guðmundssonar, Ef félagseining stendur sterk. Tré-smiðafélag Akureyrar – Félag byggingamanna Eyjafirði 100 ára (2005). Við brún nýs dags (2007) eftir Þorleif Friðriksson fjallar um sögu Verkamannafélagsins Dagsbrúnar frá stofnun til 1930. Í því riti kveður nokkuð við annan tón en í eldri ritum um sögu hreyfingarinnar þar sem mikil áhersla er lögð á lífshætti og kjör verkafólks og sagan fremur sögð út frá sjónarhóli verkafólksins en hreyfingarinnar. Þá má einnig geta um sögu Atvinnuleysistryggingasjóðs, Öryggissjóður verkalýðsins (2007) eftir Þorgrím Gestsson, en þar er fjallað um sögu atvinnuleysistrygginga frá öndverðu til samtímans. Einnig hefur verið stuðst við ritið Frá kreppu til þjóðarsáttar. Saga Vinnuveitenda-sambands Íslands 1934–1999 eftir Guðmund Magnússon sem kom út árið 2005. Þar fjallar Guðmundur um sögu samtaka vinnuveitenda á 20. öld. Loks skal svo tilgreind bók Ragnheiðar Kristjánsdóttur, Nýtt fólk: þjóðerni og verkalýðsstjórnmál 1901–1944, sem kom út árið 2008. Þar ræðir Ragnheiður m.a. um hvernig orðræðan um íslenska verkalýðsstétt verður til sem hugmynd og hvernig sú orðræða þroskast og þróast.

Hvers konar rit á saga ASÍ að vera? Margar leiðir eru færar við að rita sögu af þessu tagi, t.d. að taka fyrir afmarkaða þætti, þróun kjaramála, skipulagsmála eða rita almennt um breytingar á lífsháttum fólks á 20. öld og þátt ASÍ í þeim breytingum. Þegar spurt er hvert sé umfjöllunarefnið er því fyrst til að svara að hér verður rætt um sögu verkalýðs á Íslandi. Með verkalýð eða verkafólki er átt við fólk sem byggir afkomu sína á launavinnu og starfar við framleiðslu eða lætur í té þjónustu af einhverju tagi. Litið er á verkafólk sem stétt sem skilur sig frá öðrum vegna afstöðu sinnar til framleiðslutækjanna. Þetta fólk lifir af að selja vinnuafl sitt en hefur engin eða takmörkuð áhrif á stjórnun, rekstur eða framleiðslu að öðru leyti.13

Sjá m.a. Christensen, Lars K.; Kolstrup, Søren; Hansen,
Anette Eklund 2007, 10.

Í þessu verki verður sjónum einkum beint að þróun hreyfingarinnar í samanburði við nágrannalöndin, uppbyggingu hennar hérlendis og skipulagi, og áherslum verka lýðshreyfingarinnar á Íslandi, t.d. að því er varðar bæði kjaramál og velferðarmál. Leitast verður við að svara því hvernig verkalýðshreyfingin stóð að helstu baráttumálum sínum og hvernig henni gekk að ná þeim fram, t.d. kjaramálum, húsnæðismálum, tryggingamálum o.s.frv. Þá koma jafnréttismál og ólík staða karla og kvenna innan hreyfingarinnar til athugunar. Stjórnmál og stjórnmálaátök hljóta líka að verða rædd, enda voru Alþýðusambandið og Alþýðuflokkurinn ein skipulagsleg eining til ársins 1940 og stjórnmálaflokkarnir börðust um áhrif innan hreyfingarinnar langt fram eftir 20. öld. Þá verður einnig litið til félagslegra málefna hreyfingarinnar og breytinga á lífsháttum, félagslegum aðstæðum og viðhorfum alþýðufólks.

Á undanförnum áratugum hefur töluvert verið fjallað um sögu verkalýðshreyfingarinnar, sem fyrr getur, þannig að saga ASÍ verður að nokkru leyti byggð á þeim heimildum. Fyrri rannsóknir eru vitaskuld mikilvægar og hefur verið leitað þar fanga við samningu þessa verks. Ritið var þó einnig byggt á frumrannsóknum, eftir því sem tök voru á, en tímaramminn setti ítarlegum rannsóknum nokkrar skorður.

Heimildaöflun vegna verksins hefur aðallega byggst á eftirfarandi þáttum: Fyrir utan fræðirit og samantektir um sögu verkalýðshreyfingarinnar má geta um margvíslegt útgáfuefni á vegum hennar, t.d. þingtíðindi og blöð. Einnig má nefna dagblöð, tímarit og skýrslur er varða efni sem tengist málefnum verkalýðshreyfingarinnar. Allmargar æviminningar hafa verið kannaðar og stuðst hefur verið við viðtöl við félaga og forystufólk úr verkalýðshreyfingunni. Þá var Sögusafn verkalýðshreyfingarinnar á Þjóðskjalasafni kannað en ekki reyndist unnt að kanna önnur skjalasöfn sem varðveita gögn sem tengjast verkalýðshreyfingunni.

Ritun þeirrar sögu sem hér birtist hefur staðið hátt á fimmta ár. Það hafa verið forréttindi að fá að vinna þetta verk, að fjalla um öflugustu félagshreyfingu þjóðarinnar, um þátt hennar í að breyta samfélaginu, um sigra hennar og ósigra, um samheldni og sundurlyndi, en umfram allt um þátt hennar í að gera Ísland að betra samfélagi fyrir alþýðu manna.

Þegar farið var af stað með verkefnið var efnisramminn mótaður í samstarfi við ritnefnd. Í ritnefndinni sátu Halldór Grönvold formaður og þau Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir, Guðmundur Jónsson, Auður Styrkársdóttir og Þorleifur Hauksson. Öllu þessu fólki þakka ég gott og ánægjulegt samstarf og sérstaklega formanninum sem hefur leitt þetta verkefni. Líka vil ég þakka Grétari Þorsteinssyni fyrrverandi forseta ASÍ og svo núverandi forseta, Gylfa Arnbjörnssyni, fyrir samstarfið, svo og öðru starfsfólki ASÍ sem ég hef iðulega þurft að leita til. Þá var Guðmundur Brynjólfsson mér innan handar við heimildaöflun og myndasöfnun og Þorgrímur Gestsson rithöfundur tók fjölda viðtala sem nýttust við gerð verksins. Mestan hluta starfstíma míns við þetta verkefni var ég í ReykjavíkurAkademíunni, hafði tækifæri til þess að kynna verkefnið þar og naut þess að hafa aðgang að Bóksafni Dagsbrúnar sem er þar til húsa. Það var ómetanlegt.

Fjölmargir hafa lagt þessu verkefni lið, lesið yfir handrit og veitt margvíslegar upplýsingar. Ritnefndin las það oft yfir og margt fólk sem hefur tengst verkalýðshreyfingunni. Ókleift er að geta þeirra allra en ég vil þó nefna sérstaklega þá Ásmund Stefánsson, Helga Guðmundsson og Ólaf Hannibalsson. Ég ber þó vitaskuld ábyrg á þeim misfellum sem kunna að vera á verkinu en ómetanlegt var að geta fengið aðstoð frá fólki sem lengi átti samleið með hreyfingunni.

Sem sjá má eru myndir mikilvægur hluti þessa verks. Þær eru fengnar frá helstu varðveislusöfnum ljósmynda í landinu, Ljósmyndasafni Reykjavíkur, Þjóðminjasafni, Þjóðskjalasafni, Minjasafninu á Akureyri, Héraðsskjalasafni Austfirðinga, Ljósmyndasafninu á Ísafirði, myndasafni Eflingar á Akureyri og fleiri söfnum, að ógleymdu myndasafni ASÍ. Öllum þeim sem voru innan handar við öflun mynda færi ég bestu þakkir. Starfsfólki Forlagsins færi ég einnig bestu þakkir fyrir gott samstarf við vinnslu þessa verks. Oft ráðfærði ég mig við Þóru Sigurðardóttur konu mína varðandi myndefni og hafa ekki aðrir fylgst nánar með gangi verksins.

Saga ASÍ er framlag til umræðu en ekki endanleg niðurstaða. Það er von höfundar að verkið hvetji til aukinnar umræðu um verkalýðshreyfinguna og vaxandi rannsókna á þessu sviði. Gerist það er tilganginum náð.

Næsti kafli

Verkalýðshreyfingin í nágrannalöndunum á ofanverðri 19. öld og í upphafi 20. aldar