Fiskverkakonur á Akureyri snemma á öldinni matast í vinnuhléi. Þær eru vel búnar, í gúmmístígvélum með vandaða svuntu, og virðast báðar vera með hitabrúsa fyrir kaffið.
Á fyrstu áratugum 20. aldar var íslenskt verkafólk fátækt, eignalaust og réttlítið. Fæstir höfðu fasta vinnu og tryggt húsnæði til langframa. Afkoman byggðist á dugnaði, góðri heilsu og góðu árferði og dugði þó ekki alltaf til. Hún var sæmileg ef allt þetta fór saman en ef eitthvað fór úrskeiðis gat tilveran hrunið, fjölskyldur sundrast og hungur og sjúkdómar lagt fólk að velli.
Verkalýðshreyfingin vildi bregðast við þessu með því að koma á fót tryggingum sem væru fjármagnaðar af hinu opinbera. Andstæðingar hennar töldu það ekki rétta leið, enda drægi það úr sjálfsbjargarviðleitni fólks. Sumir vildu fara leið félagslegrar frjálshyggju sem byggði í raun á ábyrgðartilfinningu hvers og eins í samfélagsmálum. Þeir sem fylgdu þessari leið töldu æskilegast ef neyð stæði fyrir dyrum að kalla til samborgarana og hvetja þá til þess að aðstoða þá sem verst væru settir og styðja þá til sjálfshjálpar.
Þeir sem erfiðast áttu gátu snúið sér til hjálparsamtaka. Í Reykjavík var félagsskapurinn Samverjinn starfandi en frumkvæði að því starfi áttu góðtemplarar. Þannig stóð Samverjinn fyrir matargjöfum til bágstaddra í Reykjavík að vetrarlagi um margra ára skeið frá 1914, en forstöðumenn félagsskaparins voru menn úr röðum góðtemplara, m.a. Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason og Flosi Sigurðsson. Sigurbjörn, sem var formaður félagsins, stóð einnig framarlega í kristilegu mannúðarstarfi á fyrri hluta 20. aldar.1
Fleiri líknarfélög, kvenfélög og söfnuðir létu líka til sín taka, t.d. Hjúkrunarfélagið Líkn, sem bauð ókeypis hjúkrun í heimahúsum, Thorvaldsensfélagið og Hvíta bandið.2 Auk þess kom stundum fyrir að athafnamenn og efnafólk legðu sitthvað af mörkum. Það gerðist til dæmis árið 1915 þegar stóratvinnurekandinn Thor Jensen gaf mikið af matvælum til bágstaddra í Reykjavík. Sú ráðstöfun sætti reyndar gagnrýni, t.d. Ólafs Friðrikssonar sem kvað verkafólk vilja réttlæti en ekki ölmusu og varð þá sennilega bæði hugsað til kjaradeilu sem útvegsmenn áttu í við háseta í Reykjavík og þess hversu réttlaust verkafólk var sem átti í erfiðleikum.3
Áhersla var lögð á að færa sjúkum og ungbörnum mat en síðar hófust matargjafir til hóps barna í barnaskólanum; Bandalag kvenna útbýtti fötum og fataefni fyrir bágstadda árið 1918.4 Veturinn 1919 stóð Samverjinn fyrir matargjöfum í 71 dag og úthlutaði þá að meðaltali 230 máltíðum daglega. Af þessu má marka hversu mikla þýðingu þessi aðstoð hefur haft. Bæði einkaaðilar og bæjarsjóður Reykjavíkur studdu félagsskapinn og gekk yfirleitt vel að afla nauðsynja. Síðar tók Mötuneyti safnaðanna við þessari starfsemi og síðla árs 1932 fengu um 200 manns daglega mat í mötuneytinu, þar af um 60 börn. Auk þess rak Mötuneytið prjónastofu, stóð fyrir því að úthluta mjólk til barna og safnaði fötum handa bágstöddum.5 Á fjórða áratugnum og síðar veitti svo Vetrarhjálpin, sem var arftaki Samverjans, mörgu bágstöddu fólki aðstoð. Vetrarhjálpin var rekin af nefnd á vegum Dómkirkju- og Fríkirkjusafnaðanna. Til dæmis fengu á sjöunda hundrað fjölskyldur aðstoð veturinn 1938 og næstu áratugi veitti Vetrarhjálpin bágstöddu fólki margvíslega aðstoð.6
Einstakir menn gegndu líka mikilvægu hlutverki á þessu sviði. Þegar spænska veikin gekk yfir í Reykjavík harðindaveturinn 1918–1919 gekkst Thor Jensen fyrir því að koma á fót eldhúsi fyrir fólk sem var í nauðum statt og útvegaði þau matvæli sem þurfti til reksturs þess, m.a. með því að láta einn togara sinna veiða í soðið handa bæjarbúum. Mörg hundruð manns nutu þessarar aðstoðar. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Thor tók slíkt frumkvæði.7
Afstaða verkalýðshreyfingarinnar til góðgerðastarfsemi af þessu tagi var tvíbent. Annars vegar studdu verkalýðshreyfingin og verkalýðssinnar við þess háttar starfsemi, til dæmis var Laufey Valdimarsdóttir í forystusveit Mæðrastyrksnefndar sem veitti fátækum konum margvíslega og mikilvæga aðstoð. Kvenréttindafélagið, sem Laufey veitti forystu, stóð einmitt fyrir stofnun nefndarinnar ásamt allmörgum kvenfélögum. Tilefni stofnunar félagsins var hörmulegt sjóslys í febrúar 1928 þar sem 15 skipverjar fórust.8 En verkalýðssinnar bentu einnig á að góðgerðastarfsemi væri ekki lausn, í besta falli tímabundin lausn, og hún bætti ekki úr „böli fátæktarinnar“.9 Það yrði að gera á annan hátt, með því að breyta þjóðfélaginu til meiri jafnaðar. Jafnaðarmenn höfðu því að nokkru leyti aðrar hugmyndir en þeir sem mest létu að sér kveða í góðgerðastarfsemi á fyrstu áratugum 20. aldar.
Þegar fyrstu stéttarfélögin voru stofnuð í upphafi 20. aldar voru félagsleg réttindi fólks vegna slysa, veikinda, atvinnuleysis eða annarra áfalla lítil eða engin. Sá eða sú sem veiktist eða slasaðist var á eigin ábyrgð. Fyrstu stéttarfélögin reyndu af veikum mætti að koma til móts við félagsmenn sína hvað þetta varðaði, t.d. prentarar. Þeir stofnuðu sjúkrasamlag árið 1897, fljótlega eftir tilurð félags síns, og var það starfrækt allt til þess er alþýðutryggingalögin tóku gildi. Samlagið greiddi fyrir sjúkrahúsvist, dagpeninga í veikindum og kostnað vegna lyfja og læknisaðstoðar. Þessi réttindi giltu einnig fyrir eiginkonur og börn félagsmanna. Áður (1867) höfðu þó verslunarmenn í Reykjavík stofnað sjúkrasamlag sem starfaði í áratugi.10 Þá stofnaði Verkamannafélagið Dagsbrún styrktarsjóð fyrir verkamenn þegar á fyrsta starfsári sínu, 1906. En hann varð aldrei öflugur, enda aðild að honum frjáls. Því var sú leið iðulega reynd ef fyrirvinna slasaðist eða lést að farið var af stað með samskot til styrktar þeim sem fyrir áfallinu höfðu orðið.11 Verkamannafélagið Hlíf stofnaði einnig styrktarsjóð á fyrsta starfsári sínu.12
Prentarar höfðu atvinnuleysisstyrktarsjóð sem studdi atvinnulausa prentara og komu honum á laggirnar árið 1909. Síðar komu til ellistyrktarsjóður (1929), lánasjóður og lífeyrissjóður.13 Mörg fleiri félög tóku prentara sér til fyrirmyndar og stofnuðu slíka styrktarsjóði, t.d. Bók bindarafélagið og Bakarasveinafélagið. Járnsmiðir stofnuðu sjúkrasjóð árið 1921.14 Alþýðusambandið gekkst fyrir stofnun Styrktarsjóðs verkamanna- og sjómannafélaga í Reykjavík en sjóðurinn tók til starfa árið 1920 og var undir stjórn ASÍ. Aðeins skyldu þeir sem voru í verkalýðsfélögum sem greiddu iðgjöld til sjóðsins fá bætur. Stofn sjóðsins í upphafi var gjald sem Alþingi hafði samþykkt að lagt yrði á þá togaraeigendur sem seldu skip sín úr landi háu verði árið 1917 og nam sú upphæð 100 þúsund kr.15 Þegar frá leið urðu greiðslur úr sjóðnum umtalsverðar en þó voru ekki nema ríflega 100 manns sem fengu bætur úr sjóðnum árið 1933.16 Alþýðusambandið hvatti einstök aðildarfélög á þingi sínu 1926 til þess að koma á fót styrktarsjóðum til að aðstoða þá félagsmenn sem lentu í vandræðum. Rætt var um eftirtalda sjóði: verkfallsjóði, atvinnuleysissjóði, sjúkrasjóði, félagssjóði og menningarsjóði. Félögin voru hvött til að hækka félagsgjöld til þess að ná þessum markmiðum en sú leið reyndist torsótt.17 Þess má geta að Verkakvennafélagið Framsókn kom upp styrktar- og sjúkrasjóði árið 1920 og var fjár til hans aflað á ýmsa vegu, með því að halda basar, hlutaveltur og skemmtanir.18
Tryggingar alþýðu af ýmsu tagi á vegum hins opinbera voru nýjung hér á landi á öndverðri 20. öld en ekki í nágrannalöndunum. Það var íslenskum verkalýðssinnum vel ljóst.19 Þeir vissu að slíkar tryggingar höfðu lengi verið við lýði í Þýskalandi en þegar á níunda áratug 19. aldar var komið á lögum um sjúkratryggingar, slysatryggingar og ellitryggingar þar í landi. Var því svo komið fyrir að hið opinbera greiddi umtalsvert fé í þá sjóði sem voru stofnaðir af þessu tilefni en atvinnurekendur og hinir tryggðu greiddu þó stærstan hluta kostnaðar með iðgjöldum sínum. Brátt fetuðu fleiri ríki í fótspor Þjóðverja og komu á ýmsum félagslegum tryggingum. Á þetta benti Þorsteinn Erlingsson skáld í erindi sem hann hélt á fundi hjá Verkamannafélaginu Dagsbrún árið 1912. Þar staðhæfði hann að í Danmörku, Sviss, Frakklandi og Englandi væri búið að koma á ellistyrk fyrir gamalt fólk; þessi styrkur væri umtalsverður en ekki „ósóminn og ranglætið sem hér er verið að burðast með“. Víða væri einnig búið að koma á slysatryggingum, sagði Þorsteinn, „jafnvel á Rússlandi“, svo og veikindatryggingu og meira að segja atvinnuleysistryggingum.20 Þorsteinn hafði alveg rétt fyrir sér. Þannig höfðu Danir fengið almennan ellilífeyri þegar árið 1891 og Svíar árið 1913. Þetta gerðist þó mun síðar í Noregi og Finnlandi, ekki fyrr en á fjórða áratugnum. Yfirleitt skiptust tryggingarnar í almennan grunnlífeyri og viðbótartryggingar sem þó komu víðast löngu síðar.21
Hér á landi hafði ekki margt gerst í þessum málum um aldamótin 1900. Þó höfðu verið sett lög um „styrktarsjóði handa heilsubiluðu og ellihrumu alþýðufólki“ árið 1890 og átti samkvæmt þeim að 10 árum liðnum að greiða styrk þeim sem þess voru taldir verðugir. Fyrstu almennu lög um ellistyrk voru samþykkt á Alþingi árið 1909. Samkvæmt þeim var gert ráð fyrir að styrktarsjóðir fyrir ellihruma væru starfræktir í öllum sveitarfélögum og framlög til þessara sjóða aukin frá því sem verið hafði. Auk þess var, samkvæmt lögunum, heimilt að veita heilsubiluðu fólki undir sextugu styrki ef brýnar ástæður væru til. Bætur af þessu tagi komu vissulega að gagni en takmarkanir voru á styrkúthlutunum og bótaupphæðir voru lágar. Samanborið við önnur lönd voru upphæðir þær sem voru greiddar í ellistyrki eiginlega hlægilega lágar eða 1–2% af verkamannalaunum á árabilinu 1911–1930 miðað við t.d. 17% í Þýskalandi árið 1910. Árið 1911 voru svo sett lög um sjúkrasamlög.22 Hugmyndir af þessu tagi birtust einnig í þingsályktunartillögu sem Skúli Thoroddsen lagði fram á Alþingi árið 1915. Í tillögunni, sem var samþykkt, var skorað á stjórnvöld að kanna „verkamanna-löggjöfina í þeim löndum, þar sem hún er fullkomnust, svo sem um slysa-ábyrgð verkamanna, um sjúkra-, atvinnuleysis- og elli-styrk verkamanna, um gjörðardóma í ágreiningsmálum verkamanna og vinnuveitenda, um vinnu barna og kvenna í verksmiðjum“. Þetta átti að gera með það í huga að leggja fram á Alþingi frumvörp til laga um þessi efni.23
Ekki gekk eftir hugmynd Skúla sem raunar varðaði mun fleira en tryggingamál alþýðu. En málum miðaði þó áfram um nokkur hænufet. Alþýðusambandið stuðlaði að því að sett voru lög um slysatryggingu sjómanna árið 1917 og var það fyrsta skref sambandsins á sviði alþýðutrygginga. Sjómenn á þilskipum höfðu fengið slysatryggingu að nokkru samkvæmt lögum frá 1903 um lífsábyrgð fyrir sjómenn en einu bæturnar sem voru greiddar voru dánarbætur. Gildissvið þessara laga var svo víkkað nokkuð árið 1909 á þann hátt að tryggingin skyldi ná til allra sjómanna, en svo hafði ekki verið. Með lögum frá 1917 um þessi efni og breytingum árið 1921 var stigið heldur stærra skref, dánarbætur hækkaðar, tryggingaskyldan einnig látin ná til sjómanna á minni bátum og farið að greiða örorkubætur, en engir dagpeningar voru greiddir.24
Almennar slysatryggingar voru síðan leiddar í lög árið 1925. Rökin voru ekki síst þau að með „auknum iðnaði og vaxandi notkun vjela hefir þörfin orðið brýnni með ári hverju og kröfurnar háværari“, en Héðinn Valdimarsson alþingismaður vann ötullega að því að koma þessu máli fram.25 Lög um slysatryggingu sjómanna voru felld inn í lögin og varð því til slysatrygging fyrir fólk sem vann áhættusöm störf þó að hún næði ekki til alls vinnandi fólks og bótagreiðslur væru lágar, t.d. miðað við það sem tíðkaðist í Danmörku. Atvinnurekanda bar að greiða iðgjöldin að fullu og var þeim skylt að tryggja starfsmenn sína.26 Lögin voru ófullkomin en engu að síður til bóta. Samkvæmt þeim átti að greiða hinum slasaða, ef hann hafði ekki náð bata innan fjögurra vikna, dagpeninga í allt að sex mánuði. Auk þess bar samkvæmt lögunum að greiða dánarbætur, bætur fyrir meiðsli og örorkubætur. Lögunum var svo breytt árið 1928. Þeim var enn breytt árið 1930 á þann hátt að bætur voru hækkaðar umtalsvert og biðtími eftir greiðslu dagpeninga styttur.27 28 Árið 1920 voru greiddar bætur fyrir slys orðnar verulegar og námu t.d. rúmlega 100.000 kr. það ár en voru komnar yfir 400.000 árið 1933 og voru svipaðar næstu árin.
Lög um launagreiðslur, eða greiðslu verkkaups, eins og það var orðað í lögunum, voru samþykkt árið 1927. Þau voru mikilvæg réttarbót en Héðinn Valdimarsson var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins. Þau voru viðauki við lög frá 1902 um greiðslu verkkaups í peningum sem Skúli Thoroddsen barðist fyrir að fá samþykkt á Alþingi, sem fyrr getur.29 Þrátt fyrir þá lagasetningu var stundað víða um land að greiða laun ekki út í reiðufé.
Starfsstúlka hjá Gránufélaginu á Akureyri á fyrstu áratugum 20. aldar sagði að þar hefðu laun aldrei verið greidd í
peningum heldur hafði starfsfólk Gránufélagsins reikning í versluninni. Var sá reikningur gerður upp einu sinni á ári … Sumir voru svo forsjálir að skrifa hjá sér allar úttektir og þegar þeir báru saman sinn útreikning við uppgjör félagsins munaði oft miklu … og svo var vöruverð hærra í Gránuverslun en annars staðar.30
ÞÞ A: 5945. kvk 1902.
Samkvæmt nýju lögunum átti að greiða daglaunafólki kaup sitt vikulega, nema öðruvísi væri um samið. Meginástæða fyrir lagasetningunni var sú að þess voru mörg dæmi að útvegsmenn greiddu ekki kaup fyrr en við lok vertíðar og þá vildi stundum verða erfitt að standa skil á greiðslum ef sala afurða stóðst ekki væntingar. Heimildarákvæði þess efnis að semja mætti um að hafa annan hátt á mun þó hafa dregið úr gildi laganna, enda opnaði það leið fyrir atvinnurekendur að gera að skilyrði fyrir vinnu að þurfa ekki að greiða í reiðufé.31
Hér á landi er tryggingarlöggjöfin harla ófullkomin og fábreytt. Lögboðnar alþýðutryggingar eru hér engar í raun og veru nema slysatryggingin ein. Engin ellitrygging. Að eins 30 króna styrkja-kák til fáeinna gamal menna, sem kallað er að nafnbót ellistyrkur. Eng in lögboðin sjúkratrygging. Engin örorkutrygging, nema að því litla leyti, sem slysatryggingarlögin ná til. Eng in mæðratrygging eða framfærslutrygging barna, sem missa fyrirvinnu. Þeim er að eins ætlað að „fara á sveitina“. Atvinnutryggingar eru heldur engar til í íslenzkri löggjöf.32
Alþýðublaðið 1. mars 1930, 2−3.
Árið 1929 var samþykkt þingsályktunartillaga á Alþingi að undirlagi þingmanna Alþýðuflokksins um að skipa nefnd til þess að undirbúa lagasetningu um almannatryggingar.33 Þá hafði þetta mál verið eitt af megin málum Alþýðuflokksins um margra ára skeið. Til dæmis var krafan um sjúkra-, slysa- og atvinnuleysistryggingar, auk öryrkjaframfærslu, eitt af helstu málum á stefnuskrá flokksins frá 1923.34 Árið 1931 lagði Haraldur Guðmundsson, þingmaður flokksins, fram frumvarp til laga um slíkar tryggingar sem byggði á þessum tillögum. Ekki hlaut það brautargengi og var lagt fram að nýju ár eftir ár en ekki fékkst stuðningur hinna þingflokkanna við málið. Markmiðið með frumvarpinu var að setja nýjar reglur sem kæmu bæði í stað laga um sjúkrasamlög frá fyrstu áratugum 20. aldar (þau byggðu á frjálsri þátttöku fólks eða félagasamþykktum) og líka eldri laga um ellitryggingar. Tryggingar samkvæmt þessum eldri lögum höfðu þó takmarkað gildi. Bætur samkvæmt þeim voru mjög lágar, svo lágar að þær gátu varla talist annað en „jólaglaðningur“, eins og komist var að orði.35
Með fyrstu verkum ríkisstjórnar hinna vinnandi stétta sem tók við stjórnartaumum árið 1934 var að skipa nefnd til þess að semja frumvörp til laga um almannatryggingar og um framfærsluskyldu. Var nefndinni ætlað að afla víðtækra upplýsinga um stöðu mála á þessu sviði. Nefndin lagði síðan fram tvö frumvörp sem vörðuðu áðurgreinda þætti og skiptu bæði höfuðmáli fyrir alþýðufólk.
Stjórnarfrumvarp um alþýðutryggingar var lagt fram á Alþingi árið 1935 og var fyrirmynda leitað til Danmerkur, eins og algengast var við setningu laga á Alþingi er vörðuðu almenn mál, en þar í landi og í Noregi höfðu verið í gildi lög um þessi efni í áratugi.36 Í umræðum um þessi mál var einnig bent á að almannatryggingar hefðu lengi verið við lýði í Þýskalandi, og Bretar og Frakkar hefðu líka sett lög um víðtækar almannatryggingar. Yfirleitt væri svo komið að „öll ríki hér í álfu, að Íslandi undanteknu, hafi komið á meira og minna fullkominni tryggingar löggjöf“.37
Endanlegu gerðina sem varð að lögum, um „slysa-, sjúkra-, elli-, örorku- og atvinnuleysistryggingar“, sömdu Sigfús Sigurhjartarson, Þórður Eyjólfsson og Brynjólfur Stefánsson, en Jónas Guðmundsson og Páll Hermannsson sömdu frumvarp til framfærslulaga. Þá samdi Vilmundur Jónsson frumvarp til laga um framfærslu þeirra sem voru haldnir langvinnum sjúkdómum.38 Staðhæft hefur verið að með þessari löggjöf hafi orðið „algerð bylting í íslenzkri alþýðutryggingalöggjöf og framkvæmd hennar“.39 Það var kannski fullmikið sagt en með löggjöfinni var tekið stórt skref.
Ekki varð mikill ágreiningur á Alþingi um setningu laganna en þó lýsti stjórnarandstaðan yfir áhyggjum sínum af hinum mikla kostnaði sem af þeim hlytist, „hvort við Íslendingar, sem erum svo fátæk og fámenn þjóð, getum risið undir þessu tryggingabákni“,40 þjóðarbúskapurinn þyldi ekki álögur af þessu tagi. Einnig mæltu stjórnarandstæðingar gegn atvinnuleysistryggingum, enda væri vinna árstíðabundin í landinu og ekki unnt að komast hjá tímabundnu atvinnuleysi. Jafnvel álitu þeir að slík ákvæði gætu stuðlað að atvinnuleysi, þ.e. að atvinnuleysisbætur drægju úr sjálfsbjargarviðleitni fólks. Þá væri hætt við að slíkar tryggingar gætu átt þátt í að „ginna til kaupstaðanna ennþá fleira fólk úr sveitum landsins, en það sem forsjárlaust og fyrirhyggjulaust hefir flutzt á undanförnum árum hingað á mölina“.41 En þessar mótbárur komu fyrir ekki og frumvörpin voru samþykkt. Alþýðuflokkurinn var á hinn bóginn á þeirri skoðun að margt í frumvörpunum væri „mjög á annan veg og öll fjárframlög meira af skornum skamti heldur en Alþýðuflokkurinn hefði lagt til, ef hann hefði verið einn í ráðum, og þyrfti ekki að vera í samvinnu við annan þingflokk“.42
Í alþýðutryggingalögunum voru fjórir meginþættir: slysatryggingar, sjúkratryggingar, elli- og örorkutryggingar og loks atvinnuleysistryggingar.43 Ákvæði um slysa tryggingar voru að mestu sniðin eftir gildandi slysa tryggingarlögum og var svo komið árið 1940 að um 40% þjóðarinnar voru slysatryggð sem var sambærilegt við það besta sem þá gerðist.44 Með lögunum voru sjúkrasamlög lögboðin fyrir stóran hluta landsmanna og bar að stofna sjúkrasamlög í öllum kaupstöðum landsins en auk þess í þeim sveitarfélögum þar sem samstaða næðist um slíkt.45 Með lögunum var einnig „lagður grundvöllur að almennri elli- og örorkutryggingu“. Einnig voru ákvæði um atvinnuleysistryggingar en síðar kom á daginn að þau ákvæði höfðu litla þýðingu í reynd, enda var aðeins um að ræða heimildaákvæði fyrir stéttarfélögin um stofnun slíkra sjóða. Þessi ákvæði voru þó í samræmi við svipuð ákvæði á hinum Norðurlöndunum en þó var þar gengið skrefi lengra og gert ráð fyrir að flestir eða allir væru tryggðir án þess að lög kvæðu á um það (á við Danmörku og Svíþjóð).46 Stuðningsmenn laganna á Alþingi voru sér meðvitandi um að ákvæði um atvinnuleysistryggingar gengju skammt, enda hafa menn séð fyrir að erfitt yrði að koma atvinnuleysistryggingasjóðum á legg ef hinir tryggðu ættu eingöngu að standa undir sjóðmynduninni; hinn kosturinn að láta ríki og atvinnurekendur standa undir gjaldinu hefur að líkindum ekki þótt fær við þær aðstæður sem voru: erfiðleikar í ríkisfjármálum og atvinnuvegir á brauðfótum.
Samkvæmt alþýðutryggingalögunum var ætlunin að stofna Lífeyrissjóð Íslands og áttu allir tryggingaskyldir landsmenn að borga í sjóðinn, að vísu með nokkrum undantekningum. Þá áttu ellistyrktarsjóðir og lífeyrissjóðir embættismanna og barnakennara frá 1919 og 1921 að renna inn í Lífeyrissjóð Íslands. Í sjóðinn átti að greiða iðgjöld, mismikil eftir búsetu; að auki átti hver skattþegn að greiða 1% af tekjum í sjóðinn og svo bar ríkissjóði að leggja fé í sjóðinn næstu 50 árin. Sjóðurinn átti að fara að greiða lífeyri að 12 árum liðnum. Gert var ráð fyrir misháum greiðslum með hliðsjón af búsetu en sömu greiðslum til karla og kvenna. Einnig var gert ráð fyrir að lífeyririnn væri tekjutengdur. Það var því greinilega stefnt að jöfnuði með þessu kerfi, þeir sem greiddu mikið nutu þess ekki umfram þá sem greiddu lítið. Miðað var við að greiðslur lífeyris gætu hafist við 67 ára aldur.47
Svo fór þó að lífeyrissjóðurinn tók ekki til starfa. Ástæður þess voru m.a. þær að miklar verðlagsbreytingar höfðu orðið síðan lögin voru sett um Lífeyrissjóð Íslands og ekki annað fyrirsjáanlegt en að auka yrði tekjur sjóðsins verulega ef hann ætti að duga til að greiða lífeyri sem yrði fólki að einhverju gagni. Á þessum tíma álitu menn einnig að ekki væri skynsamlegt að byggja upp söfnunarsjóði vegna verðbólgu. Loks urðu ákvæði í almannatryggingalögunum frá 1945 til þess að hætt var við að byggja upp sjóðinn.48 Þá má geta þess að alþýðutryggingalögunum var breytt árið 1937 þess efnis að hætt var við að leggja niður lífeyrissjóði barnakennara og embættismanna heldur áttu þeir starfa áfram í umsjá Tryggingastofnunar. Samhliða var veitt heimild til að aðrir eftirlaunasjóðir störfuðu áfram og þar með að vissu leyti gefinn tónninn fyrir þá þróun mála sem síðar varð.49
Samhliða lagasetningunni 1936 var Tryggingastofnun ríkisins stofnuð undir hatti félagsmálaráðuneytisins og átti hún að hafa með höndum yfirstjórn alþýðutrygginganna og opinberra lífeyrissjóða. Upphaflega var ætlunin að stofnunin starfaði í fjórum deildum, slysatryggingadeild, sjúkratryggingadeild, elli- og örorkutryggingadeild og atvinnuleysistryggingadeild, en síðastnefnda deildin tók ekki til starfa. Slysatryggingadeildin var sjálfstæð eining innan stofnunarinnar og var starfsemi hennar fjármögnuð með iðgjöldum atvinnurekenda en þeim var gert skylt að greiða iðgjöld fyrir alla þá sem voru tryggingaskyldir. Sjúkratryggingadeildin hafði yfirstjórn á sjúkrasamlögum í landinu og sá um greiðslur til þeirra, en samkvæmt alþýðutryggingalögunum var öllum kaupstöðum í landinu gert skylt að stofna sjúkrasamlag.50
Alþýðutryggingalöggjöfin var ekki fullkomin en hafði þó í för með sér miklar breytingar frá því ástandi sem verið hafði. Þegar árið 1939 voru greiddar bætur fyrir rúmlega fjórar milljónir króna.51 Petrína Jónsdóttir lýsti því síðar hversu miklu alþýðutryggingarnar skiptu. Hún hafði orðið ekkja á Akranesi með níu börn árið 1935 og ekki annað fyrirsjáanlegt en leysa þyrfti upp heimilið. En með harðfylgi og mikilli vinnu tókst henni að koma í veg fyrir það. Miklu skipti líka þegar hún fór að fá greiddar tryggingabætur með börnunum, „17 kr. á mánuði með hverju barni, það munaði nú um minna“.52
Vel má setja þessi lög í samhengi við það sem tíðkaðist í nágrannalöndunum með hliðsjón af elli- og örorkutryggingum. Með samþykkt alþýðutryggingalaganna og síðar almannatryggingalaganna 1946 stórjókst það hlutfall aldraðra sem naut ellistyrks og varð svipað eða jafnvel betra en í nágrannalöndunum. Hins vegar voru bæturnar sem voru greiddar mjög lágar sem hlutfall af verkamannalaunum, raunar með því allra lægsta, í samanburði við helstu Vestur-Evrópulönd árið 1939 og ástandið var lítið betra árið 1950 (9% og 13%).53
Alþýðuflokkurinn flutti þing eftir þing frumvörp þess efnis að „fátækraflutningurinn yrði úr lögum numinn, enginn missti mannréttindi sín vegna fátæktar og landið alt yrði eitt framfærsluhérað, ef að lögum yrði“. Væri þetta gert taldi flokkurinn að „einn allra svartasti bletturinn á löggjöf þessa lands“ mundi hverfa og „skriffinska og nagg sveitastjórna út af fátækramálum að vera úr sögunni“.54
Þess voru mörg dæmi að fólk ætti ekki annars úrkosti en að segja sig til sveitar vegna fjárhagsörðugleika og vera sent „eins og skepnur á framfærslusveit sína“, stundum með hörmulegum afleiðingum.55 Ef fólk var atvinnulaust og bjargarlaust var þetta eitt af þeim ráðum sem sveitarfélög höfðu til þess að komast hjá útgjöldum. Héðinn Valdimarsson rakti dæmi þessa í ræðu á Alþingi á útmánuðum 1927 þegar rætt var um breytingar á fátækralöggjöfinni. Hann greindi m.a. frá því að maður nokkur hefði orðið atvinnulaus árið 1923 um stundarsakir:
Hann átti 2 ung börn, konu og stálpaðan dreng. Konan fékk læknisvottorð, en þrátt fyrir það var lögreglan fengin til að hafa upp á fólkinu, því það flutti hús úr húsi til að forðast flutning. Loksins sá maðurinn ekki annað ráð en að senda börnin í ýmsar áttir. 1924 var hér maður, sem giftist konu, sem hann hafði búið með í nokkur ár og átt með henni 6 börn. Hann deyr 2 mánuðum síðar, en konan og börnin eru flutt á hans framfærslusveit, sem þau höfðu aldrei komið í áður né þektu þar neinn mann, og var þeim sundrað sínu á hvert heimilið nema 2 börnum, sem konan hélt af náð. Sama ár er hér maður atvinnulaus. Hann átti vísa vinnu hjá Eimskipafélaginu, þegar siglingar ykjust. Hann átti 4 börn. Fjölskyldan var öll flutt norður í land, konan og maðurinn sett niður sitt á hvorn bæinn og börnunum skipt niður á ýmsa bæi. Þó að þeim væri komið fyrir á ódýra staði, reyndist þetta samt sveitinni of dýrt, og fjölskyldan var send til Reykjavíkur um haustið.56
Alþýðublaðið 7. mars 1927, 2.
Þess voru jafnvel dæmi að lögreglan væri látin vakta hús þar sem talið var að væri fólk sem átti að flytja nauðungarflutningi til þess að það slyppi ekki. Líka þekktist að fólk færi hreinlega huldu höfði til þess að komast hjá því að vera sent á staði sem það vildi alls ekki fara á, og jafnvel að læknisvottorð væru ekki tekin gild og fólk flutt í heimasveit engu að síður. Ekki var heldur nein trygging fyrir því að fjölskyldum væri ekki sundrað þó að lögum samkvæmt ættu mæður rétt á því að hafa börn sín hjá sér. Óskuðu yfirvöld eftir annars konar fyrirkomulagi fengu þau yfirleitt vilja sínum framgengt og þurfti hörku til að standast slíka raun.57
Staða kvenna var enn verri en karla með tilliti til þessara laga, en giftar konur fengu sveitfesti þar sem eiginmaðurinn var eða hafði verið heimilisfastur. Ef eiginmaður féll frá eftir stuttan hjúskap gat því svo farið að konu væri vísað á heimasveit eiginmannsins, þar sem hún hafði aldrei komið, ef hjónin höfðu ekki búið nógu lengi á sama stað til þess að fá þar sveitfesti og framfærsluréttindi. Aðstæður sem þessu fólki voru búnar eftir slíka flutninga voru líka stundum slæmar, jafnvel hættulegar, ekki síst þar sem „samviskulitlar hreppsnefndir“ sáu um málin.58
Það þótti auk þess skömm að segja til sig sveitar og fólk missti mikilvæg mannréttindi, þar á meðal kosningarétt (afnumið 1933 með breytingu á kosningalögum).59 Eftirlitið sem var haft með þeim sem þannig var komið fyrir var einnig niðurlægjandi. Fátækrafulltrúarnir fóru „heim til styrkbeiðendanna, skoðuðu hvern kopp og kirnu, snuðruðu í matarskápum og í geymslum, handfjötluðu fataræflana og skoðuðu hverja flík, leituðu í matargeymslum, jafnvel hvort kjöttunnur stæðu undir húsvegg“. Skylt er þó að taka fram að þetta átti alls ekki við um alla fátæktarfulltrúa. Sumir þeirra voru tillitssamir og reyndu að koma til móts við skjólstæðinga sína, en staða þeirra var einnig erfið.60
Með lögum um framfærsluskyldu sem samþykkt voru á Alþingi árið 1935 var hverjum manni veittur réttur til „lífsframfærslu“ svo fremi að hann gæti ekki aflað sér hennar sjálfur. Framfærslunefnd eða sveitarstjórn bar að meta hversu hár styrkur ætti að vera. Frumvarp þessa efnis var samþykkt athugasemdalítið á Alþingi og féllu þá úr gildi fátæktarlögin frá 1907. Samkvæmt lögunum mátti þó áfram leysa upp fjölskyldur, þ.e. taka börn frá foreldrum, en samþykki foreldra þurfti til. Einnig mátti aðskilja hjón „um stundarsakir“ vegna atvinnu, og jafnvel mátti fangelsa menn ef þeir með hegðan sinni juku „sveit sinni sýnileg þyngsli“. Við framkvæmd laganna var einnig gert ráð fyrir að ætti gamalt fólk bjargálna börn væru börnin framfærsluskyld, og fengi það þá ekki styrk. Voru þess jafnvel dæmi að fólk hefði verið „flutt nauðugt á milli barna sinna“.61 Lög um framfærslu sjúkra manna og örkumla voru samþykkt árið 1936 en samkvæmt þeim átti sjúkt fólk og öryrkjar rétt á styrk samkvæmt mati, ekki síst til að kosta sjúkrahúsvist eða dvöl á viðeigandi stofnun.62
Alþýðutryggingalöggjöfin var mikilvæg en hún var þó aðeins skref í áttina. Vægi hennar mátti ekki síst marka af því að yfir 90% íslensku þjóðarinnar töldust eignalaus, þ.e. áttu ekki eignir yfir 5.000 kr. árið 1937. Stærstur hluti fólks átti því ekki annað en eigið vinnuafl og ljóst að ekkert mátti út af bregða hvað varðaði langstærstan hluta þjóðarinnar.63 Útgjöld hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, til félagsmála jukust mikið á millistríðsárunum. Hjá sveitarfélögunum tvöfölduðust þau á árunum 1921–1938 og voru þá orðin 34% heildarútgjalda. Þau voru orðin tæpur fjórðungur af útgjöldum ríkisins árið 1940 samanborið við 14% árið 1921.64 Alþýðutryggingalögin voru endurskoðuð 1937 og 1940 og að verulegu leyti árið 1946, svo sem síðar verður reifað.
Íbúð þessi er svo rakafull, að varla finnst þur blettur á gólfi né veggjum og eru myglublettir í báðum herbergjunum, og allur fatnaður fjölskyldunnar liggur undir skemdum af þessum ástæðum. Auk þess liggja skolpleiðslupípur hússins gegn um annað íbúðarherbergið, og eru þær svo óþéttar, að úr þeim seytlar, og er af því hinn megnasti óþefur í íbúðinni. Að mínu áliti myndi það taka langan tíma að gera svo vel við íbúð þessa, að hún geti talist íbúðarfær, og vil ég því fara fram á það við hina háttvirtu fátækranefnd, að hún hlutist til um að (nafnið) verði þegar í stað útveguð önnur íbúð, þar sem þessi vistarvera hlýtur að verða fjölskyldunni til heilsutjóns í bráð og lengd, ef hún á að hafast þar við lengur.65
Alþýðublaðið 30. júlí 1925, 2. Ágúst Jósefsson ritaði skýrsluna
en hann skoðaði íbúðina samkvæmt ósk Matthíasar Einars-
sonar læknis.
Húsnæðismál verkafólks hafa frá öndverðu verið eitt mikil vægasta málefni verkalýðshreyfingarinnar. Ófremdar ástand ríkti í þessum málum á fyrstu áratugum 20. aldar, ekki síst vegna þess að fólki í þéttbýli fjölgaði hratt en byggingar á íbúðarhúsnæði voru ekki í takt við þær breytingar. Húsnæðisvandamál verkafólks voru einkum af þrennum toga: há húsaleiga, þröng og slæm húsakynni og loks öryggisleysið. Dæmi voru um að fjölskyldur, 6–8 manns, byggju í eins herbergis íbúðum þar sem upphitun var lítil eða engin og saggi í hverju horni; þetta herbergi var þá allt í senn, „borðstofa, setustofa, eldhús, svefnherbergi og geymsluklefi“.66 Sumar fjölskyldur bjuggu jafnvel í kofum sem voru ekki nema 5–6 fermetrar og lofthæðin var ekki nema 1,7 metrar. Á Ísafirði bjó fólk árið 1922 „í skúrum og útihúsum, sem ekki eru einu sinni fokheldir og konur ala þar börn sín í hríð og vetrarveðrum“.67 Í öðrum tilvikum mígláku húsakynnin eins og Alþýðublaðið lýsti í grein í upphafi árs 1922:
Konan og börnin voru háttuð í rúm sem stóð í polli á gólfinu, því kofinn lak og áttu þau fult í fangi með að halda sængurfötunum þurrum í þessu eina rúmi, sem þarna var inni, því strigapokar voru breiddir yfir það. Og í þessu eina rúmi svaf öll fjölskyldan, fimm manns, því fleiri rúm hefðu ekki komist fyrir í kofanum.68
Alþýðublaðið 26. janúar 1922, 1. − Sjá einnig Alþýðublaðið 23.
janúar 1922, 2−3.
Fyrir kompur af þessu tagi gat þurft að greiða hátt verð, enda eftirspurn iðulega miklu meiri en framboð í ört vaxandi bæ. Þar við bættist óöryggið, að þurfa að flytja eftir skamman tíma og hafa þá kannski ekki í nein hús að venda, og „það kom fyrir, að við stóðum á götunni yfir börnunum og dótinu okkar – og vissum ekkert hvert við ættum að halda“, sagði einn fjölskyldufaðir síðar um þennan tíma:69
Við áttum heima í Suðurpól, í Selbúðum, í Lágholti, suður í Skildinganesi. Ég þekki öll stig húsnæðisvandræðanna. Ég þekki það að liggja á gólfinu með börnin, að hafast við í einu ofnlausu herbergi, að skjálfa af kulda í fletinu og reyna af öllum mætti að hlúa að börnunum. Ég gleymi aldrei vist okkar í Skildinganesi. … Um nóttina þegar ég vaknaði var hvítt af snjó á koddanum, en þetta var svo sem ekki einsdæmi. Það er furðulegt að nær allur hópurinn minn skyldi lifa.70
Vilhjálmur S. Vilhjálmsson 1957, 113−114.
Utandyra var ástandið ekki skárra, a.m.k. þar sem hinir efnaminni bjuggu. Sorptunnur voru óvíða „og askan og annar óþverri, liggur vikum og jafnvel mánuðum saman fyrir framan húsin, án þess að húseiganda detti í hug að hreinsa“.71 Lífið á þessum stöðum var einn samfelldur burður eins og Tryggvi Emilsson lýsti síðar. Bera þurfti inn mat, vatn og kol en út blautan þvott, skólp og ösku. Sérstaklega var vatnsburðurinn erfiður, enda gat verið langt að sækja gott vatn. Salerni voru í besta falli útikamar.72
Forysta verkalýðshreyfingarinnar hafði miklar áhyggjur af ástandinu. Þegar árið 1913 lagði Pétur G. Guðmundsson fram tillögu í bæjarstjórn Reykjavíkur þess efnis að bærinn tæki lán til þess að byggja hús fyrir verkafólk.73 Ýmsir bentu á að slæm húsakynni væru að miklu leyti ástæða þess hve margt ungt fólk lést af völdum berkla.74 Meðal annars hafði kvennadeild jafnaðarmannafélagsins í Reykjavík frumkvæði að því að láta gera skýrslur um húsnæðismál borgarinnar veturinn 1923. Voru um 100 íbúðir skoðaðar og skýrslur um þær afhentar bæjarstjórninni.75 Segja má að þessi áhugi hafi verið mjög í takt við tímann. Víða í Evrópu beindu verkalýðssinnar augum að húsnæðismálum eftir styrjöldina en ástandið var víða geigvænlegt. Sums staðar tengdust þessi stefnumið baráttu gegn róttækum sósíalistum en umbætur á þessu sviði voru þá einnig hugsaðar til þess að draga úr byltingarólgu eftirstríðsáranna.76 Eftirtektarvert var hvernig tekið var á þessum vanda í Bretlandi og Austurríki en í Vín höfðu jafnaðarmenn frumkvæði að því að byggðar voru íbúðir á félagslegum grunni. Þetta vissu jafnaðarmenn víða annars staðar í álfunni og hér á landi var mörgum kunnugt um að ekki þyrfti að fara lengra en til Kaupmannahafnar til þess að sjá húsnæði fyrir almenning sem var í miklu betra horfi en hér á landi.77
Í Reykjavík brást bæjarfélagið m.a. við þessu ástandi með því að láta byggja nokkrar íbúðir fyrir fátækt fólk, svokallaða Póla, sem áttu að vera neyðarúrræði til skamms tíma. En þessar íbúðir þóttu ekki góðar og önnuðu hvergi nærri eftirspurn; og ekki þóttu betri margar leiguíbúðirnar sem bærinn hafði á sínum snærum.78 Svo slæm þóttu þessi húsakynni og fleiri hús í eigu bæjarins að um þau var ort:
Slæmt er í Pólunum ástandið enn.
Ilt er, að þurfi að búa þar menn.
Það eru sannkölluð hegningar-hús.
Hungruð á veggjunum skríður þar lús.79Alþýðublaðið 7. apríl 1923, 2.
Þegar íbúðirnar voru skoðaðar í janúar 1930 var svo kalt þar að „börn gátu ekki haldist við nema liggja í rúmunum. Tvær af konunum gátu þess, að þær verði oft að klæða börnin á nóttunni til þess að unt sé að halda á þeim hita“. Hvorki var þar rennandi vatn né frárennsli innanhúss.80
Að mati verkalýðshreyfingarinnar þurfti að gera átak í húsbyggingum fyrir alþýðufólk. Til dæmis fékk Verkamannafélagið Dagsbrún Guðmund Hannesson lækni til að flytja fyrirlestur um þessi mál snemma árs 1919 og sama ár gaf fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Reykjavík út bókina Um byggingafélög með samvinnusniði eftir Norðmanninn Christian Gierlöff þar sem hann fjallaði um nýja kosti í byggingamálum alþýðufólks.81 Fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Reykjavík hafði einnig frumkvæði að stofnun Byggingarfélags Reykjavíkur árið 1919.82 Markmiðið átti að vera:
Byggja, byggja, og byggja svo, að komi að notum, fullum notum. Byggja til þess að tryggja líf og heilsu manna, ekki til þess að drepa og þrautpína. Byggja til þess að menn geti átt heimili, ekki til þess að varna mönnum að eignast það, eins og nú á sér stað um alla þá, sem leigja og geta átt á hættu að vera reknir út með stuttum fyrirvara. Byggja hús til þess að búa í, ekki til þess að braska með. Byggja hús til þess að menn geti fengið íbúð fyrir sanngjarna leigu, ekki til þess að okra.83
Dagsbrún 21. júní 1919, 1.
Fyrsti formaður Byggingarfélagsins var Jón Baldvinsson, forseti ASÍ, en framkvæmdastjóri var Þorlákur Ófeigsson. Ári eftir að félagið tók til starfa risu alls sex hús á vegum félagsins við Bergþórugötu í Reykjavík, þrjú úr steini, sambyggð, og þrjú úr timbri. Samtals var rými fyrir 28 fjölskyldur í húsunum. Var frágangur sagður vera fyrsta flokks „og ekkert til sparað til að gera íbúðirnar sem bestar og fullkomnastar“. Bæði Landsbankinn og Íslandsbanki lánuðu fé til byggingar húsanna gegn ábyrgð bæjarsjóðs. Bæjarsjóður og landssjóður veittu Byggingarfélaginu auk þess 18 þúsund kr. styrk, sem var ríflega 5% af byggingarkostnaðinum, og verður að segjast að ekki hefur félagsskapurinn fengið slæmar móttökur hjá stjórnvöldum. Gert var ráð fyrir að húsaleiga yrði miklu lægri en á almennum markaði.84 Síðar byggði félagið fleiri hús við Bergþórugötu og Barónsstíg. En rekstur þess gekk illa, enda hafði dýrtíð verið mikil þegar húsin voru byggð. Svo fór að félagið varð gjaldþrota árið 1933.85 Fleiri aðilar stóðu fyrir því að byggð voru hús fyrir launafólk á þessum grunni. T.d. lét Landsbankinn reisa húsnæði fyrir starfsmenn sína á fyrri hluta þriðja áratugarins.86
Þrátt fyrir viðleitni til umbóta var ófremdarástand í þessum málum á millistríðsárunum víða um land þó að nokkuð rættist úr sums staðar. Könnun sem gerð var á húsnæðismálum árið 1928 leiddi í ljósi að ástandið var mun verra en í sumum nágrannalöndum Íslands. Samkvæmt henni kom í ljós að 40% allra íbúða í Reykjavík voru annaðhvort í kjallara eða undir súð, þar af rúm 15% í kjallara. Um 5% íbúa bæjarins bjuggu í heilsuspillandi eða vafasömu húsnæði, þar á meðal mörg hundruð börn og einmitt þau sem „fá lélegast fæði og fatnað og minnst mótstöðuafl hafa“. Einni slíkri íbúð var lýst þannig: „Meðallagi björt, rakasöm, köld, lélegu standi, afar-súgmikil, rennblaut í rigningum, rottugangur“. Hér má benda á að þessi íbúð var þó bara talin vafasöm en ekki ótvírætt heilsuspillandi.87 Þá höfðu 14% allra íbúða hvorki eldhús né aðgang að eldhúsi. Fjórðungur íbúðanna var aðeins eitt herbergi. Í einu herbergi án eldhúss bjuggu mest sjö manns, í einu herbergi með aðgangi að eldhúsi bjuggu mest níu og í einu herbergi með eldhúsi mest ellefu. Að meðaltali bjuggu þrír í hverri eins herbergis íbúð. Samkvæmt mælikvarða þessa tíma var álitið að tæpur helmingur íbúa Reykjavíkur byggi við „þröngbýli“ og um sjöundi hluti í „alvarlegu þröngbýli“. Stór hluti þessara íbúða var leiguíbúðir. Jafnframt kom í ljós að hlutfallslega hæst var leigan fyrir minnstu og lökustu íbúðirnar.88 Margar þeirra íbúða sem töldust slæmar eða heilsuspillandi voru í eigu eða umsjón borgarinnar og þótti ýmsum skjóta skökku við.
Fjöldi kjallaraíbúða og afleitt ástand margra þeirra leiddi til þess að sett voru sérstök lög (1929) um kjallaraíbúðir sem lögðu bann við því að gerðar væru íbúðir í kjöllurum nema því aðeins að sérstök skilyrði væru uppfyllt. Auk þess var lagt bann við því að búið væri í þeim íbúðum sem verstar voru. Flutningsmaður frumvarpsins, Ingibjörg H. Bjarnason, kvað „jarðhúsaíbúðir“ af þessu tagi bera vitni um „menningarskort“ og væru þær mjög „spillandi fyrir heilbrigði manna, og sje því óhætt að segja, að þær sjeu bæði til skaða og skammar“.89 Reyndin mun þó hafa orðið sú að þrátt fyrir lögin hélt kjallaraíbúðum áfram að fjölga þó að sumar lökustu íbúðirnar hafi verið teknar úr notkun.90
Forysta verkalýðshreyfingarinnar fylgdist með hvernig þessum málum var háttað í grannlöndum Íslands og vissi að þar var ýmislegt að gerast. Jónas Guðmundsson, helsti forsvarsmaður verkalýðshreyfingarinnar á Austurlandi, fjallaði um þessi mál í grein í Alþýðublaðinu árið 1928. Hann nefndi þá þrjá kosti sem einkum var rætt um að gætu leyst úr húsnæðisvandræðum verkafólks. Fyrst væru tillögur „íhaldsmanna“ sem segðu einfaldlega að hinir húsnæðislausu ættu að „byggja yfir sig sjálfir“. Slíkar tillögur tók Jónas ekki alvarlega. Í öðru lagi væru tillögur samvinnumanna á þá leið að koma upp byggingarsamvinnufélögum sem höfðu mjög rutt sér til rúms í Danmörku. Sú leið fæli í sér að íbúi greiddi lága upphæð til félagsins en síðan lága leigu. Ef staðið væri í skilum endaði með því að íbúðin yrði eign leigjandans. En þessu fyrirkomulagi fylgdu þeir ókostir að mati Jónasar að yfirleitt væru húsin mikil bákn og lítið rými fyrir frumkvæði íbúa við að bæta umhverfi sitt og auka verðgildi eignarinnar. Þriðji kosturinn væri svo að hið opinbera aðstoðaði fólk við að koma þaki yfir höfuðið og mætti hafa það á ýmsa vegu: stórbyggingar eins og húsnæðissamvinnufélögin byggðu yfirleitt eða minni hús, aðeins fyrir eina fjölskyldu, með litlum reit til að rækta. Kvað Jónas algengt að sá háttur væri hafður á í Svíþjóð, enda var hann staddur þar er hann ritaði greinina. Á þennan hátt gæfist fólki kostur á að bæta umhverfi sitt, rækta garðinn. Fólki væri síðan gert kleift að eignast þessi hús á þann hátt að það greiddi einn tíunda kostnaðarverðs en eftirstöðvar á 40 árum.91 Svipaðar fréttir bárust frá Englandi en þar dáðust Íslendingar að hverfum sem höfðu verið byggð í útjaðri Lundúna, svokölluð „garden cities“, en það voru hverfi sérstæðra húsa fyrir alþýðu manna og fylgdi lítill garður hverju húsi. Fordæmin voru því næg.92
Héðinn Valdimarsson, formaður Dagsbrúnar og varaforseti ASÍ, lagði fram frumvarp á Alþingi 1928 þess efnis að byggðir skyldu verkamannabústaðir og var markmiðið að útrýma smám saman á þann hátt heilsuspillandi húsnæði. Samkvæmt frumvarpi Héðins var til þess ætlast að hið opinbera styrkti byggingu húsa fyrir alþýðu manna. Að mati verkalýðshreyfingarinnar var málið þó ekki eingöngu „fjárhagsmál. Það er jafnframt menningar- og uppeldismál og síðast, en ekki síst, heilbrigðismál“.93
Samkvæmt frumvarpi Héðins var gert ráð fyrir að ríkissjóður styrkti byggingu verkamannabústaða með því að leggja fram tíunda hluta byggingarkostnaðar en viðkomandi bæjarfélag byggði húsin. Áttu íbúðir að öðru jöfnu að vera tveggja herbergja með eldhúsi og lóðarbletti og seldar verkafólki þannig að það greiddi sjálft 20% kaupverðs en fengi lán til 45 ára með 5% vöxtum fyrir eftirstöðvum. Söluverð átti að miðast við byggingarkostnað að frádregnum ríkissjóðsstyrknum. Ákveðnar hömlur voru lagðar á endursölu og mátti ekki selja nema byggingarfélaginu væri áður gefinn kostur á að kaupa, fyrir utan að söluverð mátti ekki vera hærra en síðasta kaupverð, að viðbættu virðingarverði vegna endurbóta.94
Eftir að frumvarpinu hafði verið breytt umtalsvert, meðal annars dregið úr framlagi ríkis og sveitarfélaga, og Framsóknarflokkurinn hafði fallist á að styðja það, var það samþykkt árið 1929. Ýmsum jafnaðarmönnum þótti það þó skjóta skökku við þegar ljóst var að mun meira fé var lagt til byggingar- og landnámssjóðs bænda.95 Andstaða við frumvarpið hafði verið töluverð innan Framsóknarflokksins og töldu margir úr þeim hópi að verkamannabústaðir gætu hvatt til aukins flutnings fólks úr sveitunum. Sjálfstæðisflokkurinn áleit sömuleiðis að lög af þessu tagi væru slæm, enda drægju þau úr sjálfsbjargarviðleitni fólks.96 Ólafur Thors alþingismaður fullyrti t.d. að lög um þessi efni yrðu almenningi aðeins til skaða, frumvarpið væri „ekki aðeins vita gagnslaust heldur beint skaðlegt og aðeins flutt til að sýnast“.97
Aðrar breytingar frá upprunalegu frumvarpi lutu einkum að því að byggingarfélög verkamanna, sem stofnuð væru á samvinnugrundvelli, ættu að jafnaði að byggja húsin og réttur til að fá íbúð á þessum kjörum væri bundinn við ákveðið tekjuhámark. Áður hafði verið gert ráð fyrir að sveitarfélögin stæðu fyrir byggingunum. Þessi breyting átti eftir að hafa töluverð áhrif á gang húsnæðismála í landinu, ekki síst á sjötta áratugnum.98 Samkvæmt lögunum var bæjarfélögum einnig gert skylt að útrýma heilsuspillandi húsnæði. Framlag ríkisins til byggingarsjóðanna átti að nema einni krónu á íbúa, auk fasts framlags (var hækkað í tvær krónur með breytingu á lögunum frá 1931) í viðkomandi kaupstað eða kauptúni og bar viðkomandi sveitarfélagi að leggja fram sömu upphæð, en byggingarsjóðirnir áttu síðan að lána byggingarfélögum eða bæjarfélögum til húsbygginga fyrir verkafólk. Ákvæði um hækkun framlags hins opinbera kom þó ekki til framkvæmda vegna fjárhagsörðugleika ríkissjóðs á þessum árum. Þó munu fjárframlög hafa verið aukin til verkamannabústaðanna eftir að stjórn hinna vinnandi stétta var komin til valda árið 1935.99
Eftir að lögin höfðu verið samþykkt var gengið í að stofna Byggingarfélag verkamanna í Reykjavík (1930) og urðu félagsmenn fljótlega á þriðja hundrað; nafni félagsins var breytt árið 1935 í Byggingarfélag alþýðu. Gert var ráð fyrir að stofnendur félagsins skyldu hafa forgang við úthlutun íbúða en síðan félagsmenn í þeirri röð sem þeir hefðu skráð sig í félagið. Þó varð þau skilyrði að félagsmaður mátti ekki eiga yfir 4000 kr. í eign og ekki hafa haft yfir 4000 kr. árstekjur að meðaltali síðustu þrjú árin. Þá varð viðkomandi að geta greitt 15% af kaupverði íbúðarinnar.100 Fyrstu íbúðirnar í Reykjavík voru teknar í notkun árið 1932, ríflega 50 talsins, og voru þær allar tveggja og þriggja herbergja, og árið 1935 var fyrirhugað að byggja 60–70 í viðbót, en miklu færri fengu en vildu.101 Fæstir þeirra sem fluttu inn í fyrstu íbúðirnar höfðu búið í íbúðum sem gátu talist sæmandi. Meðal þeirra voru hjón með fjögur ung börn sem höfðu áður búið í „kjallara, tvö herbergi mjög lítil og eldhús, götubrúnin skamt frá gluggum, nemur við rúmlega miðjar gluggarúðurnar. Dyrnar liggja út í moldargarð. Vatn kemur upp um gólfið á vetrum, slagi. Börnin hafa flest verið veik í kirtlum í brjóstinu“.102 Íbúðunum í verkamannabústöðunum var á hinn bóginn lýst svo:
Hverri íbúð fylgir: eldhús, baðherbergi með keri og „W.C.“ og þvottaskál, enn fremur fataskápur í ganginum og geymsla í kjallara. Innri forstofa er og í hverri íbúð. Þvottahús og þurkherbergi (með hitaþurkun) er í kjallara og er það sameiginlegt fyrir hvert hús … Í öllum eldhúsunum er heitt og kalt vatn.103
103 Alþýðublaðið 9. maí 1932, 2.
Þessi húsakynni breyttu viðmiðunum verkafólks og kröfum enda var fyrstu mánuðina stöðugur gestagangur. Gestirnir þurftu að fá að sjá vatnssalerni og baðkar og líka eldhúsið. Og svo var algengt að gestir kæmu í „verkó“ til að fá að fara í bað, enda margir ekki með aðgang að baði.104
Árið 1937 bættust rúmlega 70 íbúðir við þær sem þegar voru komnar. Byggingarfélag verkamanna í Reykjavík reisti svo 40 íbúðir í Rauðarárholti sem voru teknar í notkun árið 1940.105 Eftir samþykkt laga um verkamannabústaði var komið upp fleiri byggingarsjóðum í helstu kaupstöðum landsins, en árið 1935 voru þeir sameinaðir í einn sjóð, Byggingarsjóð verkamanna. Á Siglufirði var stofnað byggingarfélag árið 1932 og voru byggðir átta verkamannabústaðir þar í bænum sem voru teknir í notkun árið 1936, „mesta og glæsilegasta stórhýsi bæjarins“.106 Einnig voru byggðar íbúðir á Akureyri (byggingarfélag var stofnað 1929) og í Hafnarfirði.107
Athyglisvert er að fólki gafst ekki kostur á að leigja íbúðir í verkamannabústöðunum. Það átti að kaupa þær. Þess má geta að árið 1920 var staða mála þannig að í þéttbýli bjó rétt tæplega helmingur fólks í eigin húsnæði sem var mikið samanborið við nágrannalöndin; í Ósló voru t.d. aðeins um 5% fólks í eigin húsnæði og um 10% í Bretlandi. Svo sjálfsagt þótti þetta hérlendis að stefnumörkun um eignaríbúðir var vart rædd á Alþingi. Hins ber þó að geta að markaður var vart virkur með þetta húsnæði, enda strangar hömlur á sölu þess, svo sem fyrr er getið. Þessi stefna varð afdrifarík. Þar með voru hinir verst settu útilokaðir, enda voru það einkum betur settir verkamenn sem gátu keypt íbúðir í verkamannabústöðunum.108 Þó voru uppi hugmyndir um að byggja leiguhúsnæði en þær komust ekki í framkvæmd.109 Jón Rúnar Sveinsson hefur kallað þetta „íslensku eignastefnuna“ sem „tengist þeirri sjálfseignarhugsun sem allsráðandi hefur verið í húsnæðismálum okkar“. Víðast annars staðar var lögð áhersla á að bjóða leiguíbúðir í félagseigu, t.d. í Danmörku og Hollandi, eða í eigu sveitarfélaga, t.d. í Bretlandi og Svíþjóð.110 Þess má loks geta að árið 1932 voru sett lög um byggingarsamvinnufélög sem áttu eftir að hafa mikla þýðingu. Slík félög létu mikið að sér kveða á fimmta og sjötta áratugnum.111
Pólitíkin var ekki langt undan í þessum málum fremur en öðrum. Sjálfstæðismenn sökuðu Byggingarfélag alþýðu í Reykjavík um að útiloka þá sem hefðu „aðrar pólitískar skoðanir en forsprakkarnir sjálfir“.112 Bæjarfulltrúar sjálfstæðismanna í Reykjavík beittu sér því fyrir stofnun nýs byggingarfélags til þess að koma upp íbúðarhúsum samkvæmt lögum um verkamannabústaði. Félagið var stofnað árið 1934 og var ætlunin að það stæði fyrir því að byggja „smá sjerhús“. Þeir sem óskuðu að skrá sig í þessi félög gátu gert það á listum sem lágu frammi á skrifstofum Morgunblaðsins, Vísis og Varðarfélagsins í Reykjavík.113 Undirtektir reyndust góðar og gengu á fimmta hundrað manns í félagið sem var kallað Byggingarfélag sjálfstæðra verkamanna. Formaður félagsins var kosinn Bjarni Benediktsson sem þá var prófessor við Háskóla Íslands. Markmið félagsins var að koma upp „hagkvæmum og hollum íbúðum fyrir hina efnaminni borgara“ og vildi félagið gera þeim kleift að „búa hver út af fyrir sig í sínu eigin húsi“.114 Sambærilegt félag var einnig stofnað í Hafnarfirði.115 Þeim varð þó ekki að ætlan sinni. Ríkisstjórnarflokkarnir breyttu lögum um verkamannabústaði þannig að einungis mátti veita „lán til eins byggingarfélags í hverjum kaupstað eða kauptúni og skal félagið reist á samvinnugrundvelli“. Þar með var enginn grundvöllur fyrir starfsemi félagsins og fannst stuðningsmönnum þess illt ef ætti með „harðvítugri löggjöf að fara að eyðileggja þetta félag“. Samhliða voru einstakir byggingarsjóðir sameinaðir í einn byggingarsjóð fyrir allt landið, sem fyrr getur.116
Árið 1939 var lögum um verkamannabústaði breytt að tilhlutan Stefáns Jóhanns Stefánsson félagsmálaráðherra. Svo mikið lá reyndar á að sett voru bráðabirgðalög um efnið í fyrstu. Breytingin var þess efnis að félagsmálaráðherra bar að skipa formann byggingarfélaga en félagsmenn í félögunum áttu að kjósa aðra stjórnarmenn. Formaður Byggingarfélags alþýðu var þá Héðinn Valdimarsson, formaður Sósíalistaflokksins en fyrrverandi varaforseti ASÍ. En auk þess voru vextir lækkaðir af lánum vegna húsnæðiskaupanna.117 Svo fór að Byggingarfélag alþýðu var ekki reiðubúið til þess að breyta samþykktum sínum í samræmi við nýju lögin og var það þar með útilokað frá frekari lánveitingum úr Byggingarsjóði verkamanna. Í kjölfarið var Byggingarfélag verkamanna í Reykjavík stofnað og skipaði félagsmálaráðherra náinn samstarfsmann sinn, Guðmund Í. Guðmundsson, formann þess. Á næstu 10 árum byggði félagið um 40 hús með 160 íbúðum í Reykjavík. Þess má geta að Byggingarfélag verkamanna og Byggingarsamvinnufélag Reykjavíkur beittu sér fyrir því árið 1946 að stofna Samband íslenskra byggingarfélaga og var tilgangurinn að koma á fót samstarfsgrunni allra byggingarfélaga sem störfuðu á samvinnugrunni.118 Þegar Byggingarfélag verkamanna var 15 ára leit þáverandi borgarstjóri Reykvíkinga, Bjarni Benediktsson, yfir farinn veg. Hann benti á að mönnum hefði litist „misjafnlega“ á lögin en reynslan hefði sýnt að lagasetning um verkamannabústaði hefði „komið að mjög góðu gagni, en þó hvergi nærri nægt til að leysa húsnæðisþörfina fyrir allan almenning, að minnsta kosti í svo ört vaxandi bæ sem Reykjavík“.119 En eins og Jón Rúnar Sveinsson hefur bent á varð engin bylting í húsnæðismálum verkafólks með þessu framtaki, enda lítið byggt. Alls voru byggðar rúmlega 200 íbúðir af þessu tagi til 1940 sem samsvaraði aðeins um 4% af heildarfjölda nýbygginga á þessu tímabili. Hann hefur þó einnig getið þess að bæði stjórnmáladeilur og efnahagskreppa hafi átt þátt í að svo fór.120
Verkamannabústaðirnir voru mikilvægt framlag til húsnæðismála alþýðu á millistríðsárunum en leystu alls ekki allan vanda. Allt of lítið var byggt og fjöldi manna bjó í óviðunandi húsnæði undir lok fjórða áratugarins. Árið 1940 voru á tólfta hundrað kjallaraíbúðir í notkun í Reykjavík. Var um þriðjungur þeirra talinn ónothæfur og hafði það lítið breyst allan fjórða áratuginn; í þeim verstu var lofthæð ekki nema 1,8 m., þar var rottugangur, jafnvel flæðihætta og ekkert frárennsli.121 Eftir hernámið batnaði ástandið ekki. Mjög dró úr húsbyggingum. Gripið var til margvíslegra neyðarráðstafana. Innréttuð voru íbúðarherbergi á Korpúlfsstöðum og sumarbústaðir í grennd við bæinn voru teknir í notkun sem íbúðarhúsnæði.122 Er leið á stríðsárin tóku svo húsnæðismálin nýja stefnu sem síðar verður rædd.
Í ýmsum nágrannalöndum Íslands þar sem iðnvæðing var lengst komin voru sett lög sem takmörkuðu vinnu barna og kvenna þegar á fyrri hluta 19. aldar.123 Hér á landi var einnig til löggjöf frá 19. öld sem tryggði að nokkru rétt verkafólks, einkum vinnuhjúa gegn vinnuþrælkun. Í ýmsum öðrum lögum frá ofanverðri 19. öld og fyrri hluta 20. aldar var einnig að finna ákvæði sem var ætlað að gæta réttar og hagsmuna verkafólks, t.d í lögum um iðnaðarnám og lögum um eftirlit með þilskipum. Einnig má nefna lög er vörðuðu takmörkun vinnutímans, einkum ákvæði sem bönnuðu vinnu á helgidögum.124
Litlar sem engar takmarkanir voru á lengd vinnutíma í frumbernsku verkalýðshreyfingarinnar hér á landi og voru unnir allt að 14–16 tímar á sólarhring þegar vinnu var að hafa. Má segja að þar hafi ráðið arfur bændasamfélagsins sem gerði ráð fyrir löngum vinnutíma þegar annir voru miklar, jafnvel 16–18 klukkustundum. Vinnutími kvenna var jafnvel enn lengri en karla.125
Takmörkun vinnutíma hafði lengi verið á dagskrá verkalýðshreyfingarinnar í Vestur-Evrópu, sem fyrr getur, og var til dæmis fjallað um þetta efni í samþykkt á fyrsta þingi Annars alþjóðasambands verkamanna árið 1889. Er Dagsbrún var stofnuð var gert ráð fyrir að unnið væri í 12 stundir, frá sex að morgni til sex að kvöldi. Gengið var út frá því að matmálstími væri klukkutími og tvö stutt kaffihlé þannig að virkur vinnutími væri um tíu og hálf stund.126 Í fyrsta kjarasamningi Verkamannafélagsins Hlífar í Hafnarfirði var um svipað leyti gert ráð fyrir að unnið væri frá því kl. 6 á morgnana til kl. 7 á kvöldin en tveir tímar voru reiknaðir fyrir matmálstíma þannig að vinnutími sem greitt var fyrir var 11 stundir.127 Þá má geta þess að prentarar sömdu um níu stunda vinnudag árið 1908. Þeir gengu þar með langt á undan öðrum starfsstéttum hvað þetta varðaði og var það ekki í fyrsta skipti. Bakarar sömdu um 11 stunda vinnudag í sínum fyrsta kjarasamningi árið 1908 og skyldi unnið sex daga vikunnar. Tvívegis mátti gera launalaust hlé í hálftíma til þess að matast og hvílast.128 Verkakvennafélagið Framsókn samdi um tólf stunda vinnudag árið 1917, frá kl. 6 til 18, án ákvæða um matar- og kaffitíma.129
Í frumvinnslugreinunum, landbúnaði og fiskveiðum, og iðulega líka við fiskverkun, gegndi öðru máli en í almennri verkamannavinnu. Stúlkur sem réðu sig í vist á sveitaheimilum kringum aldamótin 1900 gátu búist við að þurfa að vera að frá því klukkan sjö að morgni til klukkan níu að kvöldi. „Þar fyrir utan var okkur stúlkunum ætlað að þjóna karlmönnunum í okkar hvíldartímum, í svefntíma okkar og á sunnudögum“ og var þá einkum átt við lagfæringar og þvott á fatnaði.130 Í fiskvinnslu gat álagið verið enn meira. Þar var unnið meðan eitthvað var til að vinna úr, eða svo gott sem, t.d. við síldarsöltun kringum 1920, eins og verkakona frá Akureyri lýsti:
Þegar bátur eða skip kom með síld, þá var drengur sendur til að ræsa allt starfsfólkið, en það gat verið á hvaða tíma sólarhrings sem var, og fólkið jafnvel nýkomið heim úr söltun. Síðan var hamast við þangað til búið var að salta alla síldina sem barst að landi í það skiptið. Vinnutíminn var því mjög óreglulegur, hvort það var morgun eða mið nótt, sunnudagur eða virkur dagur skipti ekki máli, þegar síld barst að landi var saltað, þess á milli var frí. Síldin var eingöngu veidd yfir sumarið og oft var meira unnið um nætur en daga. Fólkið vann sleitulaust meðan það stóð í fæturna.131
ÞÞ A: 5946. kvk 1899.
Á öðrum áratug 20. aldar var farið að takmarka vinnutímann meira en verið hafði og krefjast hærri greiðslu utan dagvinnutímans. Til dæmis var vinnutíminn megin mál í verkfalli við hafnargerðina í Reykjavík 1913 en í kjölfar þess var samið um 10 stunda vinnudag vegna vinnunnar þar og sérstakt álag vegna eftir- og helgidagavinnu.132 Verkalýðshreyfingin barðist einnig fyrir því að takmarka helgidagavinnu og leitaði þá m.a. stuðnings kirkjunnar vegna þess að það hlyti líka að vera kappsmál hennar að hvíldardagurinn væri haldinn heilagur. Aðalfundur Prestafélagsins samþykkti til dæmis árið 1932 ályktun þess efnis að verkafólk ætti „skýlausan rjett til hvíldar á öllum helgidögum þjóðkirkjunnar“.133 Samhliða þessum óskum var farið fram á að tekinn væri frá sérstakur tími vegna matmáls- og kaffitíma.
En verkafólk og verkalýðshreyfingin hafði einnig hug á að takmarka vinnu umfram það sem skilgreint var sem dagvinna, bæði næturvinnu og helgidagavinnu. Fulltrúar hreyfingarinnar lögðu fram frumvörp á Alþingi um bann við næturvinnu, enda stæði Ísland langt að baki öðrum löndum hvað þetta varðaði. Hér tíðkaðist, eins og Sigurjón Á. Ólafsson, formaður Sjómannafélagsins í Reykjavík, staðhæfði á Alþingi, að menn ynnu meðan þeir gætu „staðið á fótunum, og sýnast atvinnurekendur kunna því ekki illa. Slíkt er hættulegt öllum mönnum, og ekki síst gömlum mönnum og lasburða og heilsuveilum, og skaði fyrir þjóðfélagið ef það á að haldast uppi“.134
Slík sjónarmið hlutu þó ekki hljómgrunn á Alþingi undir lok þriðja áratugarins og fulltrúar atvinnurekenda á Alþingi, t.d. Ólafur Thors, töldu reglusetningu af þessu tagi með öllu þarflausa. Hann staðhæfði að hverjum verkamanni væri það í sjálfsvald sett „hve lengi hann vinnur, vegna þess, að það eru frekar fleiri en færri, sem sækjast eftir vinnu. Það er því alveg óþarfi, að vinnuveitandi leggi að nokkrum verkamanni um næturvinnu, ef hann kýs hana ekki sjálfur“.135 Málið var þó kannski ekki svona einfalt. Neituðu menn að vinna var hættan sú að ekki yrði leitað til þeirra næst þegar þörf var fyrir verkafólk. Einstök verkalýðsfélög reyndu því á þriðja áratugnum að fá fram viðurkenningu atvinnurekenda á því að greiða skyldi hærra verð fyrir næturvinnu en dagvinnu og þingmenn Alþýðuflokksins unnu að því að Alþingi samþykkti lög sem takmörkuðu næturvinnu. Rökin voru ekki síst þau að ef dregið væri úr vinnuþrælkun yrðu færri slys, heilsu verkamanna væri síður hætta búin og afköst verkamanna almennt meiri. En skilningur á þessum sjónarmiðum var lítill og slík frumvörp hlutu ekki brautargengi á Alþingi.136
Prentarar náðu því ákvæði fram í kjarasamningum í kjölfar verkfalls árið 1920 að dagvinnutími yrði ekki lengri en átta klukkustundir.137 Þar með var baráttan fyrir átta stunda vinnudegi komin á dagskrá hérlendis. Athyglisvert er að það gerðist aðeins ári eftir gerð svokallaðs Washingtonsamnings frá 1919 um átta stunda vinnudag. Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) hafði frum kvæði að gerð hans. Stofnunin var sett á laggirnar samhliða stofnun Þjóðabandalagsins en því var ætlað að tryggja frið í kjölfar styrjaldarinnar 1914–1918. Hugsunin var sú að félagslegt réttlæti væri ein helsta forsenda friðar, svo sem styttri vinnutími, lágmarkshvíld, afnám barnavinnu og að karlar og konur fengju sömu laun fyrir sömu vinnu.138 Þegar um þetta leyti höfðu allmörg lönd í Evrópu fengið lög um átta stunda vinnudag, t.d. Noregur, Svíþjóð og Danmörk, eða þar verið knúðir fram kjarasamningar sem tryggðu stórum hluta launþega þessi réttindi.139
En hérlendis var meira á brattann að sækja fyrir flesta aðra en prentara. Dagsbrún knúði fram vinnutímastyttingu árið 1930 þannig að ekki yrði unnið meira en ellefu stundir á dag. Þar af var ein klukkustund matartími sem ekki var greitt fyrir en tveir 30 mínútna langir kaffitímar væru taldir til vinnutímans.140 Verkakvennafélagið Fram sókn gerði einnig sams konar samninga á þeim tíma. Um svipað leyti náðu járnsmiðir samningum um 53 stunda vinnuviku yfir sumarmánuðina og 49 stundir á viku yfir veturinn. Fyrir eftirvinnu átti að greiða með 50% álagi en með 100% álagi í næturvinnu.141 Á Ísafirði var tekinn upp átta stunda vinnudagur í bæjarvinnu um miðjan fjórða áratuginn, ef til vill í kjölfar þess að átta stunda vinnudagur var tekinn upp á Siglufirði árið 1931 hjá því verkafólki sem vann hjá bænum.142 Þá náði stöku stéttarfélag fram ákvæðum um átta stunda vinnudag á fjórða áratugnum, t.d. Iðja, félag verksmiðjufólks í kjarasamningum árið 1935, og var þá miðað við sex daga vinnuviku. Járnsmiðir náðu líkum ákvæðum fram um svipað leyti.143
Þrátt fyrir það sem hér hefur verið sagt má almennt segja um vinnutíma á millistríðsárunum að tíð, afli og skipakomur hafi ráðið miklu, jafnvel mestu um lengd hans og á það við langt fram eftir 20. öld. Vinnutíminn var langur á vertíðinni þegar vel aflaðist en skemmri þegar minni afli var og langur til sveita þegar var þurrkur en styttri þegar ekki var þurrt. Brýnt var líka að nota góða tíð þegar byggð voru hús og koma verkum eins langt og mögulegt var áður en vetraði. Þegar skipin komu var lögð áhersla á að losa þau sem fyrst. Slíkri törn lýsti verkamaðurinn og rithöfundurinn Tryggvi Emilsson þegar hann vann við löndun á kolum árið 1926:
Ég hafði vakað og unnið hálfan þriðja sólarhring stanslaust og því var æði lágt á mér risið þegar ég dróst inn úr dyrunum heima, svartur af kolaryki innst sem yst og jafn illa haldinn á sálinni og líkamanum. Ekkert séð eða heyrt hafði þrótt til að þrengja sér inn í heilabúið hvað þá lengra og matarlystin hafði stirðnað utan tungu og tanna og því hné allt líkamshreysið að einum vilja, að hvílast.144
144 Tryggvi Emilsson 1977, 114.
Vinnutíminn var einnig langur hjá þeim sem unnu þjónustustörf. Starfsstúlkur á sjúkrahúsum unnu t.d. allt að 14 tíma á dag um miðjan fjórða áratuginn og þær sem voru vistráðnar í heimahúsum jafnvel enn lengur. Almennt fékkst ekki viðurkenning á átta stunda vinnudegi hjá verkafólki fyrr en árið 1942 en þá hafði ASÍ ályktað alloft á þingum sínum um nauðsyn þessa en sérstaklega á þeim vinnustöðum þar sem mest var erfiðið, t.d. við höfnina.145 Sem fyrr er getið höfðu sum bæjarfélög þar sem jafnaðarmenn og sósíalistar höfðu meirihluta tekið upp átta stunda vinnudag hjá viðkomandi bæjarfélagi en áhrif þessa virðast hafa verið takmörkuð, enda aðstæður á vinnumarkaði erfiðar.146
Nokkuð aðrar reglur giltu um sjómenn en landverkafólk og á fyrstu árum togaraútgerðar í landinu voru litlar sem engar takmarkanir á vinnutíma. Eftir að veiðar voru hafnar var unnið meðan stætt var ef afli var góður, í allt að einn og hálfan sólarhring eða lengur. Eftir það gafst tími til smáhvíldar, síðan tóku aftur við sólarhringstarnir með stuttri hvíld á milli þar til skipið var fullhlaðið. Meðan á þessu stóð voru matmálstímar ekki nema 10–20 mínútur. Einum slíkum matmálstíma, eigin ástandi og félaganna lýsti einn sjómannanna síðar og Jón Baldvinsson alþingismaður greindi þingheimi á Alþingi frá:
[Þ]að var á vertíðinni 1916. Skipshöfnin hafði vakað í liðuga tvo sólarhringa við veiðar, en hætti þá að toga, til þess að gera að fiski, sem var mikill óaðgerður á þilfari. Eins og venja er til, voru skipverjar um nóttina kallaðir niður í káetu til að fá sjer kaffi og brauðbita. En sá, sem segir frá, varð seinni til en hinir, fyrir þá sök, að hann fór fram í hásetaklefa til að ná þar í eitthvað. En þegar hann kom niður í káetuna, þá höfðu fjelagar hans, ásamt stýrimanninum, raðað sjer hringinn í kring um borðið og voru allir steinsofandi, sumir með nefið niðri í kaffikrukkunni, aðrir með hálftugginn bita í munninum, og voru líkari vofum en mönnum. Sögumaður fjekk sjer kaffi líka og smurði sjer brauðsneið, en fór á sömu leið og hinir og valt út af sofandi. Þannig liðu 3 klukkustundir, þar til stýrirmaður rumskaði og vakti þá hina. Vinna var hafin á ný, en gekk tregt, því allir voru enn úrvinda af svefni og þreytu.147
147 Alþt. B 1921, 1891.
Engin frí voru í höfnum heldur urðu menn að vinna við viðgerðir á veiðarfærum og öðru sem til féll. Greiðslur vegna slysa eða veikinda þekktust vart.148 Þess voru þó dæmi á þessum tíma að einstöku skipstjórar sæju kosti þess að hvíla áhöfnina reglulega með lágmarkshvíld á hverjum sólarhring og voru þau dæmi einmitt notuð sem rök gegn því að lög um þessi efni væru sett á Alþingi en ekki gengið frá málum í kjarasamningum útgerðarmanna og sjómanna.149
Vinnutími sjómanna var með fyrstu málum sem hin skipulagða verkalýðshreyfing fór að beina sjónum sínum að og var oft vísað til þess að víða um heim færi fram barátta fyrir styttri vinnutíma og að reglur væru nú settar um þessi efni í mörgum nágrannalöndum.150 Ekki voru þó settar fram kröfur um að samið yrði um vinnutíma í kjarasamningum. Það gerði Hásetafélagið ekki, enda mun það hafa verið stefna forystumanna þess að heppilegra væri að löggjafinn setti reglur um hvíldartímann.151 Blaðið Dagsbrún, sem var nátengt Hásetafélaginu, krafðist þess til dæmis í grein árið 1915 að bráður bugur yrði undinn að því að setja lög um þessi efni, enda væri engin skynsemi í því að standa svona að málum, það væri skaðlegt fyrir heilsu sjómannanna og yrði breyting af þessu tagi hreint ekki íþyngjandi fyrir útgerðina.152 Greinilega hefur verið litið svo á að tryggara væri að lagareglur yrðu haldnar heldur en ef um væri að ræða ákvæði kjarasamnings. Þess ber einnig að gæta að á þessum tíma var umtalsverður hluti verkafólks utan verkalýðshreyfingarinnar og ákvæði samninga náðu ekki til þess. Loks höfðu menn í huga að í nágrannalöndum Íslands hafði sú leið víða verið farin að setja lög um þessi efni.153 Og ef til vill hafa sjómenn séð fram á að kröfur um hvíldartíma gætu leitt til þess að þeir yrðu að slá af öðrum kjara- og réttindakröfum sínum og því talið vænlegt að fá fremur lagasetningu um þessi efni en samningsákvæði.154
Vökulögin, sem voru samþykkt á Alþingi árið 1921 að frumkvæði Alþýðuflokksins, skiptu afar miklu máli.157 Frumvarp í þessa veru var fyrst lagt fyrir Alþingi 1919 af þingmanni Alþýðuflokksins, Jörundi Brynjólfssyni. Þar var reyndar gert ráð fyrir átta stunda samfelldri hvíld. Í greinargerð með frumvarpinu sagði að frá sjómönnum hefðu borist áskoranir svo hundruðum skipti auk þess sem ekki væri hægt að véfengja frásagnir um „„misbrúkun“ á heilsu sjómanna á botnvörpuskipunum“.156
Lögin fengust samþykkt þrátt fyrir harða andstöðu sumra þingmanna. Morgunblaðið staðhæfði að kröfur af þessu tagi væru nú orðnar „þjóðarmein í flestum löndum“ og gæti valdið „kollvörpun þeirrar þjóðfélagsskipunar, er margra alda framþróun og menning hefir verið um að skapa“. Vitaskuld væri mikil vinna á togarasjómönnum en taka bæri tillit til þess að þegar lítill afli væri þá gætu þeir hvílst vel. Þeir bæru það heldur ekki með sér,
sjómennirnir á botnvörpungunum hérna, að þeir séu útslitnir. Og sorglegt er að vita til þess að, að menn sem eru í landi, og aldrei hafa á botnvörpung komið og þekkja ekkert til vinnu þar, skuli gera sér það að atvinnu að kveikja sundurlyndi og óánægju og gera tilraun til að drepa niður þann atvinnuveginn, sem Reykjavík lifir eingöngu á …157
Morgunblaðið 25. júlí 1919, 2.
Barátta fyrir lágmarkshvíldartíma togarasjómanna var því álitin vera tilræði við lífsgrundvöll bæjarins. Hún var einnig talin vera andstæð „eðli“ íslenskra sjómanna. Það væri allt of mikið „konungseðli í íslenskum sjómönnum til þess, að þeir þurfi að láta skipa fyrir um það með lögum, hvernig þeir í þessu efni haga störfum sínum á sjónum“, sagði Pétur Ottesen alþingismaður.158 Sumir andstæðingar frumvarpsins óttuðust líka að lagaákvæði um hvíldartíma sjómanna gætu auk þess „sýkt“ frá sér, að farið yrði að gera svipaðar kröfur í öðrum greinum atvinnulífsins.159 En þessar skoðanir voru í minnihluta á Alþingi. Meirihlutinn studdi hugmyndir um vinnuvernd þegar frumvarpið var lagt fram í annað sinn, nú af Jóni Baldvinssyni, og samþykkt á þinginu 1921.
Með lögunum var fallist á að hvíldartími sjómanna yrði ekki skemmri en sex stundir á sólarhring þannig að þrír af hverjum fjórum ynnu í senn en einn fjórði hefði hvíld á meðan, þannig að hver háseti gæti hvílst að minnsta kosti sex klukkustundir samfleytt.160 Hvíldartíminn var svo lengdur upp í átta stundir með lagabreytingu árið 1928, m.a. eftir að áskoranir höfðu borist frá mörg hundruð sjómönnum þess efnis. Rökin fyrir lengingu hvíldartímans voru m.a. þau að sjómennirnir þyrftu einnig tíma til að þrífa sig, borða og þvo vinnufatnað þannig að hinn reglulegi hvíldartími yrði ekki nema fjórar til fimm stundir miðað við sex stunda hvíld.161 Slíkum mótbárum hafnaði Ólafur Thors í svari sínu til Héðins Valdimarssonar:
Heldur hann máske, að sjómennirnir raki sig og þvoi sjer vandlega og fari í sparifötin áður en þeir matast? Nei, þeir þvo sjer í einum hvelli, eta í skyndi og henda sjer svo út af og sofna. Það er auðheyrt, að hv. þm. (HjV) skortir kunnugleik á þessu máli og að hann hefir allar upplýsingar frá öðrum, enda hefir farið fyrir honum eins og alltaf vill verða, er svo stendur á, að hann fer rangt með margt.162
162 Alþt. C 1927, 288.
Lögin voru afar mikilvægur liður í að vernda heilsu sjómanna gegn ofþrælkun en líka áríðandi framlag til þess að draga úr slysatíðni. Örþreyttu fólki er mun hættara við slysum en þeim sem fá viðunandi hvíld. Einn sjómannanna orðaði það svo síðar að í raun hefði allt þvargið um þessi efni ekki staðið um hagsmuni heldur vitsmuni enda hvíldin hagsmunamál beggja, bæði atvinnurekenda og sjómanna. Það áttu sumir í hópi hinna fyrrnefndu erfitt með að skilja.163
Í íslenska bændasamfélaginu var almennt gert ráð fyrir því að börn hjálpuðu til við heimilisstörf, bæði innan stokks og utan, um leið og þau væru komin nokkuð á legg. Þessi viðhorf voru algeng langt fram eftir 20. öld þó að samfélagið hefði gjörbreyst. Almennt var gert ráð fyrir að börn og unglingar ynnu. Kona fædd 1919 sagði síðar um æsku sína að sér fyndist að hún hefði „alltaf verið vinnandi, bera inn vatn áður en það var lagt inn, út með skólp, bera inn eldivið, út með öskuna, uppþvottur … Svo voru margir snúningar, færa mat og kaffi fólki sem var úti við ýmsa vinnu“.164
Algengt var að börn færu að létta undir með foreldrum sínum kringum fimm til sex ára aldurinn. Um fermingu þótti sjálfsagt að þau færu að vinna eins og fullorðið fólk, „annað hefði þótt ómennskuháttur“. Frá þeim aldri áttu þau að ganga í öll störf til sjós, við fiskverkun og almenn störf í landbúnaði.165 Mörg dæmi voru þó um að yngri börn ynnu við margvísleg störf, t.d. að „hnýta á öngla eða stokka upp lóðir“ eða að beita. Verkakona lýsti því að hún hefði byrjað að beita þegar hún var sex ára og þurfti að setja stamp undir hana til þess að hún næði í bjóðið.166 Önnur börn söltuðu síld:
Á aldrinum 6–7 ára byrjaði ég að pækla síld á plani og fékk einhvern smáaur fyrir. Beitning 8–9 ára og ég þurfti að standa á stampi til að ná ofan í balann. Þá kom greiðsla fyrir bjóðið og sá peningur fór í heimilið. Átta ára fór ég í sveit á sumrum til 14 ára aldurs. Þar var ég kúasmali, mokaði flórinn og fór með mat á engjar. Laun voru uppihald og þrjú síðustu sumrin kaup. 100 kr. var borgað fyrir fyrsta sumarið og síðan 150 krónur. Ég keypti 5 lömb á hverju sumri sem kostuðu 15 kr. stykkið. Þeim var síðan slátrað á Eskifirði og fóru til heimilishalds.167
167 ÞÞ A: 11301. kk 1922.
Stelpur pössuðu börn og voru kannski fengnar til að aðstoða við afgreiðslu í verslunum. Margir krakkar fóru í sveit og unnu þar, og fengu kannski lamb eða lömb að launum um haustið.168 Meðan saltfiskur var enn aðalútflutningsvara Íslendinga fram yfir miðjan fjórða áratuginn voru konur og börn uppistaða vinnuaflsins við fiskþurrkunina, þau sáu um að vaska fiskinn og þurrka frá vertíðinni. Börn byrjuðu jafnvel að vinna á fiskreitunum um sjö ára gömul og fengu einhverja viðurkenningu fyrir þegar gagnið fór að verða umtalsvert.169 Þá voru dæmi um að drengir niður í tíu ára aldur væru sendir í vegavinnu í tíu tíma á dag, yfirleitt sem „kúskar“, þ.e. að teyma kerruhesta, en oftast voru þeir þó eldri.170
Á fyrstu áratugum 20. aldar fengu krakkar í Reykjavík, þó aðallega strákar, líka vinnu við að bera út og selja blöð, og svo voru margir sendisveinar en flestar verslanir höfðu sendisveina og sendu vörurnar heim til fólks.171 Eftir 1930 höfðu þeir sitt eigið stéttarfélag, Sendisveinafélag Reykjavíkur.172
Í iðnaði kom ungt fólk ekki síst til starfa sem lærlingar, iðulega á aldrinum 14–15 ára, og var aðbúnaður eins misjafn og vinnuveitendur voru margir.173 Víða voru gerðar miklar kröfur til þeirra og meiri en æskilegt gat talist, t.d. á járnsmíðaverkstæðunum, enda iðulega lítill skilningur á hvaða afleiðingar það gæti haft að ofgera ungu fólki. Dæmi voru um það á verkstæðunum að lærlingunum,
ungum og óþroskuðum … [væri] beitt á hvað eina, sem hendi var næst, svo sem að fara um borð í vondu veðri til að vinna í skipskötlum, slá á með þungri sleggju, hita nagla í vondu veðri, frosti og byl, skýlislítið uppi á skipsdekki, sendir niður í skipsbotna til þess að hreinsa kjalsog og vatnskassa, komið þaðan rennvotir og sveittir með föt sín rifin í tætlur, orðið svo að vinna úti á eftir …174
174 Alþýðublaðið 9. janúar 1933, 3.
Þegar mikil eftirspurn var eftir vinnuafli mátti gera ráð fyrir að fleiri börn væru ráðin til vinnu. Þetta gerðist einmitt á stríðsárunum síðari þegar mikill skortur var á vinnuafli. Þá var til dæmis nokkuð um að drengir á aldrinum 13–15 ára ynnu við skurðgröft vegna hitaveitunnar.175
Sett voru lög um vernd barna og unglinga sem tóku gildi árið 1947. Í þeim lögum voru ákvæði um að ekki mætti „ofþjaka“ börnum með erfiðisvinnu eða með óhóflega löngum vinnutíma og ekki mátti ráða börn til starfa í verksmiðjum sem væru yngri en 15 ára, og lærlingar í iðnnámi áttu að vera orðnir 16 ára.176 Áður hafði verkalýðshreyfingin, að minnsta kosti sums staðar, fengið þau ákvæði inn í kjarasamninga að börn undir 15 ára aldri mættu ekki vinna næturvinnu.177
Frítími var kannski ekki óþekkt hugtak á fyrstu áratugum 20. aldar en það stappaði nærri. Margir höfðu frí á sunnudögum, á stórhátíðum og kannski einhverjar stundir á kvöldin. Hvernig notaði fólk þessar frístundir?
Læsi var almennt hjá íslensku verkafólki á fyrri hluta 20. aldar og eitt helsta tómstundagaman að lesa. Verkakona, fædd 1902, sem bjó á Akureyri lýsti því svo að hún hafi verið sílesandi á yngri árum, las „Íslendingasögurnar, herlækningasögurnar“ og átti talsvert af bókum. Svo keypti hún blaðið Verkamanninn á Akureyri alla tíð og las hann og stundum líka Þjóðviljann hjá nágrannanum.178 Margar aðrar heimildir geta um hið sama. Lestur var mikill og almennur. Önnur verkakona á Akureyri lýsti því t.d. svo: „Áður en hún fór að sofa las hún alltaf eitthvað, en þau voru mikið fyrir bækur, maðurinn hennar og hún og lásu mikið. Maðurinn hélt mest upp á Íslendingasögurnar og átti þær allar, en hún var alæta á bækur, las allt sem hún náði í … Þau keyptu alla tíð [blaðið] Dag“. Svo saumaði hún líka mikið út.179 Kæmu gestir í heimsókn var gripið í spil og spjallað.180 Til veitinga var oftast „boðið upp á kaffi og með þá einhvers konar bakkelsi, kleinur, jólakökur o.þ.h.“181Fólk tók sér sjaldan frí á þessum tíma.182 Sum fyrirtæki, t.d. Kaupfélag Eyfirðinga, buðu fólki þó að gera sér dagamun einu sinni á sumri, eins og Sigurrós Þorleifsdóttir lýsti. Þá lagði fyrirtækið til
vörubíl með húsi og trébekkjum og gaf gosdrykkjakassa og starfsfólkið fór í ferðalag. Voru þetta dagsferðir og farið á sunnudegi. Eitt sinn var farið vestur að Hraunsvatni í Öxnadal. Voru þessar ferðir mikil skemmtun og upplyfting og oft eina skemmtun sem fólkið fékk yfir sumarið.183
183 ÞÍ. Viðtal við Sigurrósu Þorleifsdóttur, tekið 1983. Sögus.
verkal., B23: A/1. Stefán Hjartarson. Viðtöl.
Á öndverðri 21. öld finnst flestum starfsstéttum sjálfsagt að fá orlof í nokkrar vikur frá starfi sínu. En þau réttindi áttu sér langan aðdraganda. Á þessu sviði eins og mörgum öðrum voru prentarar í fararbroddi. Í kjarasamningum um áramót 1910–1911 höfðu prentarar fengið þeirri kröfu framgengt að þeir mættu taka sér þriggja daga launalaust orlof og í kjarasamningum 1914 náðist sá árangur að samið var um þriggja daga orlof á launum. Sex árum síðar var orlofið lengt um helming.184
Hjá öðrum verkalýðsfélögum gerðist lítið í þessum málum fyrr en á fjórða áratugnum. Árið 1930 voru járnsmiðir búnir að ná samningum um viku orlof á fullum launum fyrir þá sem starfað höfðu hjá sama atvinnurekanda í eitt og hálft ár.185 Samið var um 12 daga orlof í samningum Iðju 1935 en þá þegar höfðu prentarar náð þeim árangri, og á þingi sínu árið 1936 beindi ASÍ því til aðildarfélaga sinna að þau ynnu að því hið fyrsta að koma ákvæðum í kjarasamninga sína þess efnis að þeir launamenn sem væru í föstum störfum fengju sumarfrí á fullu kaupi í tvær vikur og þeir sem störfuðu í hálft ár hjá sama atvinnurekanda fengju samsvarandi einnar viku frí á launum.186 Þess má geta að á öllum hinum Norðurlöndunum höfðu verið samþykkt ný lög um orlof fyrir verkafólk skömmu áður en stríðið skall á. Á næstu árum sömdu fleiri verkalýðsfélög um að félagsmenn þeirra hefðu rétt til að taka orlof í tiltekinn tíma árlega, til dæmis var algengt að orlof væri frá sex til fjórtán dögum árið 1939 hjá mörgum stéttarfélögum, og var orlofið mislangt eftir því hversu lengi fólk hafði unnið hjá sama vinnuveitanda.187 Og þess var ekki langt að bíða að stórt skref væri stigið á þessu sviði með lögum um orlof sem tóku gildi árið 1943.188 Um þá lagasetningu verður fjallað síðar.
Fyrir marga, sem ekki höfðu vanist því að vera í „fríi“, hefur það verið sérkennileg tilfinning að þurfa ekki að mæta í vinnu þó virkur dagur væri og ekki laust við að sumir ættu í vandræðum með sig. Það var kannski heldur ekki margra kosta völ hvernig átti að nota frí á þessum árum. Sumir fóru þó í heimsóknir til vina eða ættingja úti um land og dvöldu þar um tíma, kannski viku, og tóku gjarnan eitthvað með sér úr kaupstaðnum, „flík eða þess háttar. Því margt fæst í Reykjavík“.189 Utanbæjarfólk endurgalt síðan þessar heimsóknir þegar það átti erindi til Reykjavíkur eða í aðra bæi sem voru fjarri heimabyggð og hafði þá ef til vill eitthvað matarkyns með sér.
En það er þó á þessum tíma sem íslenskur almenningur er að uppgötva þann möguleika að njóta frís, t.d. með því að ferðast, oftast unga fólkið. Ferðafélag Íslands skipulagði t.d. margvíslegar ferðir á millistríðsárunum og hið sama gerði Ferðaskrifstofa ríkisins. Þá var einnig vinsælt að fara í stuttar ferðir, t.d. með tjald til Þingvalla fyrir þá sem bjuggu í Reykjavík eða í Vaglaskóg fyrir þá sem bjuggu á Akureyri. Stundum hélt fólk til á þessum stöðum í nokkra daga og gisti þá í tjöldum.190 Það gerði t.d. Bríet Ísleifsdóttir og fjölskylda hennar um 1940, en fjölskyldan hafði eignast gamlan bíl svo að hægt var að komast í skóginn. Þar voru þau svo í tjaldi og sváfu í svefnpokum sem maður Bríetar hafði saumað.191
Ingivaldur Nikulásson lýsti vinnuaðstæðum verkamanna á Bíldudal á fyrri hluta 20. aldar m.a. svo:
Vinna var yfirleitt örðug mjög. Var það bæði af því að vinnuáhöld öll voru þunglamaleg og urðu oftast til þess að þreyta menn ennþá meira en verk þau sem með þeim voru unnin. Þannig var það t.d. venja að skipa kolum í kössum sem tækju um skippund (160 kg.), og voru kassarnir tómir um 70–80 pd. að þyngd, og voru því um 400 pd. fullir. Kassar þessir voru bornir af tveimur eins og börur upp í háan kolahlaða, og þótti flestum það örðugt verk til lengdar þegar um stórar uppskipanir var að ræða. Margir gáfust upp við það, og þurfti oft að skipta um menn. … Önnur vinna var mest grjótvinna … var grjót það tekið upp fyrir utan Jaðar og keyrt inneftir á vögnum. Var vinna sú bæði erfið og hættuleg, en ekki á þeirri tíð mikið hugsað um öryggi verkamanna né slysatryggingar. … Við þessa vinnu moluðust margir vagnar og mörg tré áður en steinninn var kominn á sinn stað í skansinum. … Nærri má geta að líkamleg líðan manna í slíkum þrældómi hafi ekki ætíð verið sem best. Hefði það þó verið sök sér ef hin andlega líðan hefði verið öllu betri, en það var nú síður en svo. Alltaf á hverju augnabliki mátti búast við skömmum og eftirrekstri af hendi verkstjóra, og annaðhvort að bera það með þögn og auðmýkt eða að lenda í hörkurifrildi eða brottrekstri.192
192 Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson. Bréf IV. Handrit
Ingivalds Nikulássonar um verkalýðshreyfinguna í Bíldudal.
Tímabilið 1890−1932, 3.
Hugtakið vinnuvernd var sennilega ekki til í íslensku máli fyrr en á síðari hluta 20. aldar. Hugmyndin um það að verkafólk og vinnufólk almennt ætti rétt á sæmilegum aðbúnaði hefur þó verið kunn og ýmsir þættir sem nú falla undir þetta hugtak komust snemma á dagskrá hjá verkalýðshreyfingunni. Á fyrstu áratugum hennar var tækni til vinnuhagræðingar skammt á veg komin, eins og Ingivaldur lýsti hér að ofan. Grjótnám, sem var algeng vinna karlmanna, reyndi vitaskuld mikið á verkamennina og mátti auk þess lítið út af bera til að ekki yrðu stórslys. Sömuleiðis var það mjög slítandi fyrir konur, sem voru jafnvel ekki komnar af unglingsárum, að bera þungavöru. Á ofanverðri 19. öld varð æ algengara að konur væru fengnar í mikla erfiðisvinnu, t.d. uppskipun, eins og lýst var í Ísafold árið 1890:
Það er íhugunarverð sjón að sjá myndarlegar unglingsstúlkur, máske nýfermdar, vera að rogast með 200 pd. poka á börum í böndum um axlir og herðar, eða skekktar undir stórtrjám á öxlunum, eða tvo hrausta karlmenn standa við að lyfta á einn kvenmann kola- eða salt-hálftunnu er hún síðan skal skjögrast með upp í geymsluhús kaupmanna, hvíldarlaust allan liðlangan daginn, kiknuð í herðum, með hjólbogna, bólgna og bláa fætur af áreynslunni, sem þær verða iðulega að væta í sjónum til að slökkva verkjarbrunann í þeim.193
193 Ísafold 15. febrúar 1890, 54.
Fiskþvottur í öllum veðrum fór heldur ekki vel með verkakonur, jafnvel þótt þær klæddu sig sem best þær gátu, því kuldinn var bítandi og hann fór illa með þær í fótunum. Fiskverkakona lýsti því síðar að hún hefði unnið við að vinna karfa í miklum kulda, þá þrettán ára gömul. Engin aðstaða var til að ylja sér en unnt að halda kaffi heitu á miðstöðvarofni.194 Oftast voru eldri börnin látin gæta þeirra yngri, en sumar kvennanna komu með börnin í vinnuna og létu þau leika sér í mölinni. Ein konan sem var nýbúin að eignast barn kom með barnavagninn með sér og gaf barninu brjóst á vinnustaðnum.195 Margar verkakonur þurftu auk þess að sinna um eigið heimili, þær voru því oftast fyrstar á fætur og fóru síðast í háttinn.
Alveg fram á fjórða áratug 20. aldar þurfti að krefjast þess að konur sem ynnu við fiskþvott fengju skýli við vinnuna „fyrir stormi“ og að til staðar væri hlýtt herbergi þar sem unnt væri að skipta um föt, borða og þvo sér. Ef þennan aðbúnað skorti gat það leitt til alvarlegra sjúkdóma.196 Síldarstúlkur máttu einnig bíða eftir því að fá söltunarhús og varð sú breyting óvíða fyrr en eftir miðja öldina.197
Vinnuslys voru tíð hér á landi á fyrri hluta 20. aldar, miklu algengari en í nálægum löndum. Dauðaslys voru líka hlutfallslega miklu algengari hérlendis en í löndunum í kringum okkur. Þar skiptir máli hversu hátt hlutfall vinnuaflsins voru sjómenn.198
Meiðsli og sár voru tíð við hin einfaldari störf. Á sjó voru einkum algengar „ígerðir í höndum og úlfliðum og er það mjög eðlilegt, þar sem menn eru dag eftir dag með heita og sloruga vetlinga og þess á milli í koltjöru (úr netunum)“.199 Theódór Friðriksson segir að sér hafi blöskrað hvað hann sá „marga menn í Vestmannaeyjum með vafða fingur og hendur í fatla. En það þótti linkuháttur að gefast upp, fyrr en í fulla hnefana, en frægð að geta skrúfað sig sem mest“.200
Ein fiskverkakvenna lýsti fiskþvotti svo á öndverðri 20. öld:
Ég réðist í fiskverkunarstöðina á Innra-Kirkjusandi. Þarna var ákvæðisvinna. Við fórum á fætur kl. 6 að morgni og hættum kl. 6 síðdegis. Matmálstími var kl. 2–3. Þá var nær alltaf soðning. Við hömuðust allan daginn við að þvo fiskinn, rennblautar af ísköldu vatninu upp að olnboga og kengbognar yfir körunum.201
201 Gylfi Gröndal 1980, 64.
Fólk sem vann við þessi störf eða t.d. við að beita í miklum kuldum fékk oft „bólgu í hendurnar, sérstaklega í fingurna, síðan duttu sár á fingurkögglana sem kölluð voru kuldapollar og gekk illa að gróa“.202 Ekki var óalgengt að fiskverkunarfólk og sjómenn gætu ekki stundað vinnu svo vikum skipti vegna handarmeina og misstu þar með af hábjargræðistímanum.203 Síldarstúlkur urðu t.d. handlama „hópum saman“ vegna sára og ígerðar og stöðvaðist jafnvel söltun af þessum sökum. Ástæðan var iðulega áta í síldinni, en þegar þannig stóð á þurfti ekki nema smágat á vettlingi til að „valda fleiðrum og sárum á viðkvæmri húð. Þegar salt, síldarkrydd og saltpétur kemur í fleiðrin verður sársaukinn illþolandi og sárin dýpka og stækka“. Það var ekki fyrr en um miðja öldina sem farið var að útvega síldarstúlkum gúmmívettlinga þeim að kostnaðarlausu og þá batnaði ástandið. Fram að því voru heimasaumaðir vettlingar iðulega notaðir og sviðafeiti og tólg notuð til þess að verja hendurnar, jafnvel líka lýsi.204
Slys við vélar voru yfirleitt alvarleg og ef til vill tíðari fyrir þá sök að oft skorti þekkingu og þjálfun við notkun á búnaði atvinnutækja sem skyndilega birtist hérlendis á fyrstu áratugum 20. aldar.205 Þá var vélabúnaður oft vanbúinn og reynsluleysi bagaði við uppsetningu búnaðar og tækja. Nefna má að alvarlegt slys varð við hafnargerðina í Reykjavík árið 1913. Þá hrundi brú sem búið var að gera út í sjó fyrir járnbrautina sem flutti stórgrýti í hafnargerðina, „lá þar allt í einni kös, stórgrýti, vagnar, staurar og menn. Hrukku gildustu bjálkar í sundur í smábúta sem lakkstengur væri“. Betur fór þó en á horfðist, enginn lét lífið en menn voru þrekaðir og „marðir til stórskemmda sumir“.206
Slys við óvarðar drifreimar voru algeng, jafnvel banaslys. Alvarleg slys urðu til dæmis í verksmiðjunni Gefjunni á Akureyri á fjórða áratugnum vegna þess að verka menn lentu í slíkum reimum. Sumir þeirra áttu stórar fjölskyldur.213 Ekki var eingöngu um að kenna að vinnuveitendur hirtu ekki um þessi mál heldur var vanþekking almenn og oft sinnuleysi hjá almenningi um eigið heilsufar og aðbúnað. Það var því ekki vanþörf á að sinna þessum efnum betur og á þingi sínu árið 1934 krafðist Alþýðusambandið þess að sett yrðu ný lög um öryggi verkafólks á vinnustað.207
Það miðaði hægt í þessum efnum og svo virtist lengi vel sem lög um eftirlit með verksmiðjum og vélum sem voru sett árið 1928 og ný lagasetning um sama efni frá árinu 1935 hefði ekki mikið að segja. Samkvæmt fyrrnefndu lögunum áttu vinnustaðir þar sem notaðar voru vélar og unnu að minnsta kosti þrír starfsmenn að vera eftirlitsskyldir, gerðar voru kröfur um lágmarkslofthæð, upphitun og loftræstingu, auk þess sem starfsmenn áttu að geta neytt „matar síns undir þaki“ og ef hollustuhættir krefðust þess var skylt að láta þeim í té til þess annað húsnæði en vinnustaðinn sjálfan. Þá voru ákvæði um að reimar og vélahjól væru varin, og um reglulega skoðun á tækjum og búnaði og ráðningu eftirlitsmanns.209
Í kjölfar lagasetningarinnar 1928 var fljótlega ráðinn sérstakur eftirlitsmaður á vegum hins opinbera til að kanna ástand véla og verkstæða með hliðsjón af öryggi verkafólksins. Samþykktur var viðauki við lögin árið 1935, einkum að því er varðaði hafnarvinnu og um vinnupalla, en eldri lög tóku ekki nema að litlu leyti til þessara atriða. Flutningsmenn frumvarps þessa efnis voru þeir Héðinn Valdimarsson og Emil Jónsson og kváðu þeir ástæður fyrir lagasetningunni vera tíð slys, t.d. hefðu „nú frá nýári orðið tvö stórslys í Reykjavík vegna lélegs útbúnaðar við uppskipun. Þá eru og slys á vinnupöllum alltíð“.210 Þrátt fyrir þetta regluverk voru þær skoðanir settar fram að eftirlitið hefði lítið gildi og væri það vegna þess að eftirlitsmenn sem ættu að hafa eftirlit með því að farið væri eftir lögunum væru svo hlédrægir að þeir kynnu illa við að „gagnrýna það sem miður fer og svo það, hversu öll vélanotkun og verksmiðjuvinna er tiltölulega á byrjunarstigi hjá okkur“.211 Staðhæft var að lögunum hefði verið „framfylgt með seinagangi og semingi, ýmist vegna skeytingarleysis eða tregðu við að leggja í kostnað vegna öryggisbúnaðar“. Þó ýtti verkalýðshreyfingin eitthvað á að þau væru virt.212 Var því lýst svo að eftirlitsmaðurinn gerði vart annað en að telja vélarnar á verkstæðunum sem hann kæmi á og fengi hann þau svör að vélafjöldinn hefði ekkert breyst gerði hann engar athugasemdir og færi á brott, jafnvel þó að viðkomandi verkstæði vantaði
húsnæði fyrir helming af sínum mönnum og enga kompu … til að matast í, eða hvernig hefir þetta gengið til í Slippnum? Hefir eftirlitsmaðurinn nokkursstaðar séð vinnupalla líka þeim, sem þar eru notaðir? – Mundi hann ekki standa agndofa af undrun, ef hann sæi mennina hrapa niður af þeim hænsnatrjám og beinbrjóta sig? Þar er enginn matsalur fyrir fólkið og tvö ár hefir það tekið að setja þar upp salerni, þrátt fyrir mjög ítrekaðar áminningar. Hefir eftirlitsmaðurinn komið í Stálsmiðjuna, þegar verið er að vinna þar með stóran koxeld á miðju gólfi og allur reykurinn fer út í húsið? Dettur honum í hug að loftið sé heilsusamlegt?213
Alþýðublaðið 25. janúar 1937, 3.
En starfsskilyrði eftirlitsmannsins voru líka erfið. Samkvæmt lögunum var honum sjálfum gert að annast um innheimtu gjalda af eftirlitinu og af þeim átti að borga launin hans.
Einstök félög tóku upp þessi mál, t.d. Verkamannafélagið Dagsbrún, sem setti ýmist sjálft reglur um þessi efni eða samdi um þau í kjarasamningum við atvinnurekendur. Árið 1933 voru til dæmis settar reglur um að bifreiðar til mannflutninga yrðu að vera yfirbyggðar og einnig voru settar reglur um upp- og útskipun.214 Hið sama gerði Hlíf í Hafnarfirði og urðu þeir sem unnu við vindur við affermingu að hafa viðurkenningu frá félaginu þess efnis að þeir mættu vinna þessi störf.215 Félag járniðnaðarmanna beitti sér einnig í þessum málum um miðjan fjórða áratuginn og krafðist umbóta á vinnuaðstöðu í Slippnum í Reykjavík.216 Verkalýðsfélag Húsavíkur fékk inn ákvæði í kjarasamninga árið 1943 þess efnis að vinnuvélar og áhöld yrðu ævinlega að vera í góðu lagi og sjúkrakassi á vinnustað, auk þess sem salerni og hreinlætisaðstaða ætti að vera til staðar „ef við verður komið“.217 Ekki voru kröfurnar nú meiri. Verkalýðshreyfingin reyndi einnig að hafa áhrif á aðbúnað farandverkafólks, einkum á stærri stöðum (Siglufirði) þar sem Jón Sigurðsson, erindreki ASÍ, hafði afskipti af íbúðabröggum aðkomufólksins. Sumir þeirra voru jafnvel óhreingerðir þegar verkafólkið flutti inn en höfðu þó iðulega verið notaðir sem geymslur fyrir „allskonar drasl“ veturinn áður.218
Öryggismál á sjó komu vitaskuld einnig til athugunar. Á 17. þingi ASÍ árið 1942 voru þessi efni rædd mikið, enda höfðu sjóslys verið tíð á stríðsárunum og greint var frá mörgum dæmum þess hversu óaðgæsla, glannaskapur og fífldirfska hefði nær valdið stórslysum, t.d. ofhleðsla skipa og vanræksla á viðhaldi. Þess var krafist að reglur um þessi efni yrðu hertar verulega, lögum breytt, eftirlitsstofnanir styrktar og viðurlög hert ef út af væri brugðið.219
Emil Jónsson ráðherra skipaði nefnd árið 1947 til að endurskoða lög um eftirlit með verksmiðjum og vélum, enda var bent á að lögin væru nú orðin úrelt eftir tveggja áratuga gildistíma. Í greinargerð með frumvarpinu sagði m.a. að engar skýrslur væru til um tíðni slysa, enda slys ekki skráð nema um væri að ræða dauðaslys eða þeir sem slösuðust yrðu óvinnufærir lengur en í 10 daga. Á árabilinu 1944–1946 voru slík slys í kringum 700 á ári.220 Með síaukinni vélvæðingu og nýrri tækni varð þörfin æ brýnni fyrir nýjar reglur og aukið eftirlit. Rafsuða breiddist til dæmis hratt út. Henni fylgdi mikið óloft en sjaldan var brugðist við með því að koma upp loftræstibúnaði. Sömuleiðis var lítið hirt um að lofta út þó að í gangi væru bensín- eða olíuvélar innanhúss, og jafnvel þótti ókarlmannlegt að vernda heyrn fyrir miklum hávaða á vinnustöðum málmiðnaðarmanna.221
Ný lög voru sett um öryggisráðstafanir á vinnustöðum og tóku þau gildi árið 1952. Hafði þá verið fjallað um frumvörp þess eðlis á hverju þinginu á eftir öðru án þess að þau fengju afgreiðslu. Þar var meðal annars gert ráð fyrir auknu hlutverki trúnaðarmanna við að fylgjast með því að allur öryggisbúnaður væri í góðu lagi. Þá var einnig komið á fót nýju embætti, öryggismálastjóra. Átti stofnun hans að hafa yfirumsjón þessara mála með höndum og var til þess ætlast að eftirlit með vinnustöðum yrði stóraukið.222
Theódór Friðriksson hefur lýst aðbúnaði vermanna kringum aldamótin 1900:
Svo var talið, að vermönnum væri öllum lögð til sængurföt og þjónusta. En um sængurfötin er það að segja, að ekki voru þau annað en gamlar og grútskítugar ábreiðudruslur og heydýnur. Allt var þetta sundurrifið í áflogum og troðið í svaðið. Menn voru látnir liggja ýmist þrír eða fjórir saman í básum … Svo migu menn í stórar hlandfötur, heltu úr þeim á skítug gólfin, og var það stundum gert að íþrótt að renna sér fótskriðu í slabbinu.223
223 Theódór Friðriksson 1977, 476.
Hér er dregin upp mynd af því þar sem ástandið hefur verið verst, sums staðar hefur það verið betra, en ljóst er að víða var aðbúnaður af þessu tagi slæmur. Fyrir verkalýðshreyfingu sem var að verða til var því mikið verk framundan á þessu sviði.
Annar aðbúnaður á vinnustöðum, svo sem hreinlætis aðstaða, aðstaða til að matast, vinnufatnaður og annað slíkt var einnig viðfangsefni verkalýðshreyfingarinnar en þó sinnti hún þessum efnum kannski miklu síður en við hefði mátt búast. Til dæmis fékk fólk ekki sérstakan vinnufatnað hjá atvinnurekanda fyrr en langt var liðið á 20. öld. Fram að því notuðu margir föt sem voru úr sér gengin. Á öndverðri 20. öld var klæðnaði við útivinnu að vetrarlagi lýst svo:
Sökum kulda varð maður að klæða sig mikið. Hlífðarföt eða sérstök vinnuföt voru engin til, en þess í stað notaði maður gömul föt, sem búið var að fleygja burt sem ónothæfum, og tróð sér í þau utan yfir. Þessi þröngu föt og margfaldi klæðnaður gerði manni mjög erfitt fyrir með allar hreyfingar. Fótabúnaðurinn var þannig: tvennir sokkar, snjósokkar og skór úr íslensku leðri með hælþvengjum og ristarböndum.224
224 Hér eftir Helgi Guðmundsson 2005, 60−61.
Þessi frásögn er mjög í takt við þekkta lýsingu Halldórs Laxness á klæðnaði íslensks verkafólks sem hann birti í Alþýðubókinni árið 1929. Þar segir hann að klæði þess sé
tíðum áþekkari tötrum ölmusumanna, flakkara eða galeiðuþræla en frjálsra manna, – sín druslan úr hverri áttinni, ýmist rifnar eða fáránlega stagaðar, sniðlausar, haldlausar og skjóllausar, ef ekki aflóga spariföt. Ekki er fátítt að sjá íslenska alþýðumenn þannig klædda við vinnu sína að útgángurinn minnir fremur á skrípatrúð á fjölleikahúsi eða fuglahræðu en frjálsborna sonu hinnar horsku framleiðslustéttar.225
225 Halldór Laxness 1955, 80.
Á þriðja og fjórða áratugnum fór þó vaxandi að verkafólk klæddist sérstökum vinnufatnaði og á því tímabili var farið að framleiða slík föt hér á landi.226 Þá voru konur sem unnu við fiskvask á ofanverðum millistríðsárunum farnar að hafa aðgang að klæðnaði sem hæfði betur störfum þeirra, pilsi, svuntu og ermum úr olíubornum dúki.
Skófatnaður sem fólk notaði við störf sín var margvíslegur; stundum skór sem áður höfðu verið betri skór. Gúmmístígvélin voru mikil bót þegar þau fóru að ryðja sér til rúms á öðrum og þriðja áratugnum. Að geta verið þurr í fæturna var mikilvægara en flest annað. Á kreppuárunum, þegar bílaöld var gengin í garð, var vinsælt að nota bíldekk og slöngur til þess að búa til gúmmískó. Slíkt nýttist bæði börnum og fullorðnum.227
Bygging verkamannaskýlis við höfnina í Reykjavík árið 1923 var mikið framfaraskref. Skýlið var upphitað, þar var snyrting fyrir verkamennina og unnt að kaupa kaffi og léttar veitingar. Svipað skýli reis síðar á Akureyri.228 Víða gekk þó treglega að fá skýli til að matast í. Helga Níelsdóttir lýsti aðstæðum fiskverkakvenna um 1920:
Vinnan hófst klukkan sex að morgni og stóð óslitið til klukkan tíu. Þá var fimmtán mínútna kaffihlé – og kaffið drukkið kalt, því að hitabrúsar voru þá ekki komnir til sögunnar. Matartími var frá klukkan tólf til eitt. Loks fengum við stundarfjórðungs kaffihlé um miðjan daginn. Kaffistofan var ekki í nothæfu ásigkomulagi. Við urðum því að sætta okkur við að halla okkur upp að fiskstöflunum á matmálstímum eða tylla okkur á þá.229
229 Gylfi Gröndal 1977, 97. − Margrét Guðmundsdóttir 1983, 54.
Verkamannafélag Húsavíkur samdi um það árið 1931 að heimilt væri að taka 20 mínútna kaffitíma tvisvar á dag og var sá tími ekki dreginn af launum. Hins vegar var ekki samið um það fyrr en 12 árum síðar þar á staðnum að verkamenn hefðu rétt á að hafa aðgang að „sæmilegri“ kaffistofu.230 Á Hvammstanga fengu verkamenn því hins vegar framgengt í kjarasamningum um áramótin 1933–1934 að komið var upp „skýli niður við höfnina, með bekkjum og upphitun og er það mikil framför“.231 Atriði þessu tengd voru einnig tíunduð við samningsgerð Verkakvennafélagsins Framsóknar árið 1937 en lengi vel hafði félagið lítið skipt sér af þessum málum; kaupið var það sem gilti. Margrét Guðmundsdóttir telur að þar hafi frumkvæði kommúnista, sem gáfu út Fiskstöðvablaðið um miðjan fjórða áratuginn, haft áhrif en þar var lakur aðbúnaður fiskverkakvenna gagnrýndur.232 Samkvæmt samningunum var sérstaklega tekið fram að atvinnurekanda bæri skylda til að sjá til þess að ekki stafaði slysahætta af útbúnaði eða tækjakosti á vinnustað. Líka var tekið fram að lyfjakassa bæri að hafa á vinnustaðnum. Einnig voru í samningnum skýr ákvæði um matar- og kaffitíma og upphitað herbergi til að matast og drekka kaffi í.233 Annars urðu ekki verulegar breyrtingar á þessum málum fyrr en eftir seinna stríð. Fram að því hafði fólk með sér „brauð í pakka og kaffi á flösku“. Stúlkurnar sem unnu á Gefjun á Akureyri höfðu það þannig meðan ekki var kaffistofa að þær settust á „kassa eða ullarpoka og gerðu sér margt til gamans. Hlógu og flissuðu og ræddu um það sem þar var að gerast. Stundum fóru þær með gátur“.234
Langt fram eftir 20. öld var á mörgum vinnustöðum engin hreinlætisaðstaða, ekki einu sinni til að ganga örna sinna. Kringum 1920 voru þó komnir kamrar við Reykjavíkurhöfn, „skúr með fjórum sambyggðum kömrum og þar var maður sem sá um að halda þeim hreinum“.235 Á Akureyri á millistríðsárunum gátu fiskverkunarkonur notað útikamar, en, eins og ein þeirri lýsti því síðar, „þar var sjórinn upp undir kroppnum á manni, þannig að það var pissað þar sem hægt var að komast í skjól, upp við hús eða eitthvað. Strigatuska var notuð til að þurrka sér um hendurnar. Eftirlit með hollustuháttum var ekkert“.236 Ástandinu hjá fiskverkafólki sem stóð í beitningu í Sandgerði árið 1949 var þannig lýst:
Engar þvottaskálar, rennandi vatn, og salerni. Einn kamar var niður á bryggju til afnota fyrir verkafólkið en hann fór í sjóinn í einum útsynnings ruddanum í vetur og munaði minnstu að vermaður nokkur yrði honum samferða. Síðan hefur ekkert náðhús verið til afnota fyrir sjómenn og ráðskonur þeirra.237
237 Sæmundur Ólafsson 1949, 41−43.
Lengi vel var lítill skilningur hjá verkalýðshreyfingunni á því að þarna væri úrbóta þörf og m.a. af þeim sökum dróst víða úr hömlu að tekið væri á málum.238 Verkalýðshreyfingin beitti sér meira í beinum kjaramálum og stjórnmálum á millistríðsárunum en vinnuverndar- og velferðarmálum. Þór Indriðason hefur staðhæft, eftir að hafa farið yfir gögn verkalýshreyfingarinnar á Húsavík, að félagið hafi „nær undantekningalaust“ látið vera að álykta um slík málefni, en fjallaði þess meira um dýrtíð og atvinnumál.239 Margt bendir því til að verkalýðsfélögin hafi litið svo á að stjórnmálaflokkunum bæri að sinna þessum verkefnum. Verkefni verkalýðsfélaganna væru hins vegar að sinna kjaramálunum, atvinnumálum heima í héraði og að hafa áhrif á hver hefði völdin í samfélaginu og réði þar með því hvernig væri haldið á félagsmálunum.240
Hjá almennu verkafólki var yfirleitt ekki matur í boði á vinnustöðum fyrr en langt var liðið á 20. öld og raunar ekki aðstaða til að matast heldur. Um sjómenn gegndi þó öðru máli. Þeir urðu vitaskuld að fá sinn mat á vinnustað. Vikuskammtur skútusjómanns gat verið svona samansettur kringum aldamótin 1900:
1,5 pund af smjöri (margaríni seinni árin).
1,0 pund af sykri.
0,5 pund af kaffi.
0,25 pund af kaffibæti.
2,0 pund af kjöti.
3,0 pund af kartöflum.
Auk þess var rúgbrauð.241 Við þennan lista voru ýmisleg tilbrigði. Fæstir sjómenn lofuðu fæðið sem var á skútunum þó að vitaskuld hafi það verið misjafnt. Kjötið hefði oft verið „illræmdur óþverri“ og brauðmetið lítið skárra. Þá hefði kosturinn iðulega skemmst vegna þess hversu matargeymslur voru slæmar. Þó reyndu margir að halda til dæmis brauði óskemmdu með því að grafa það í salt.242 Þá vildi vatnið sem var á boðstólum verða afar slæmt, sérstaklega þegar það var geymt í tréámum sem sjaldan eða aldrei voru þrifnar og kom jafnvel fyrir að rottur drukknuðu í ámunum. Þetta lagaðist þó heldur eftir að farið var að nýta kassa úr járni fyrir vatnið.243 Ekki var óalgengt að sjómenn spöruðu við sig kostinn og tækju hluta af honum með sér heim þegar túrnum var lokið.244
Landverkafólk hafði með sér bita í vinnuna eða fékk nesti sent, nokkrar brauðsneiðar og kaffi á flösku, þeir sem áttu stutt að fara skutust heim í hádeginu. Og þær sem áttu stutt heim flýttu sér sem mest þær máttu til að matbúa fyrir fjölskylduna. Þegar fólk mataðist í vinnunni tyllti það sér þar sem þægilegast var, „í skipinu, í flæðarmálinu eða hímandi undir húshlið – og hvernig sem veðrið var“.245 Sums staðar var þó heldur meira viðhaft. Hjá verkamönnum á Akranesi sem voru í byggingarvinnu á „Breiðinni“ á millistríðsárunum var komið upp „skýli undir grjótvegg og reft yfir með járni og striga. Þar var skriðið undir“. Eiginkona, börn eða aðrir ættingjar færðu verkamönnunum síðan matinn í „færslufötum. Þær voru tvíhólfa. Grautur í öðru hólfinu og kjöt og fiskur í hinu. Kaffi var á flösku, sem geymd var í sokkbol, en með því helst það lengur heitt.“246Ólafur G. Einarsson verkamaður lýsti því hversu fæði hans og systkina hans var af skornum skammti þegar hann var að alast upp í Reykjavík undir lok 19. aldar. Hann segir að börnin hafi varla smakkað mjólk á uppvaxtarárum sínum og tæpast kjöt, enda hefði fátæktin verið skelfileg. Helsta tilbreytingin var þegar faðir þeirra kom af sjónum með hluta af þeim kosti sem honum hafði verið ætlaður þar, „beinakex, rúgbrauð og margarín“, auk fiskjar. Gott vatn varð jafnvel munaðarvara.247
Svipaða sögu var að segja annars staðar af landinu. Á minni stöðum gat þó verið auðveldara að fá nýjan fisk. Maður, fæddur árið 1907, lýsti síðar hvernig fæðið var þegar hann var barn, en þá bjó hann í Hnífsdal:
Hafragrautur kl. 9; hádegi kaffi eða soðið vatn, ein rúgbrauðssneið með smjörlíki ofan á. Kl. 3–4 soðinn fiskur, nýr eða siginn. Kl. 7–8, hertur fiskur, hálf brauðsneið með smjörlíki. 3 daga vikunnar var hafður „súr“ út á hafragrautinn. Oft var fisklifur höfð sem viðbit. Hrogn úr fiski, mikið á útmánuðum og stundum brætt lýsi úr lifrinni. Þegar gaf á sjó var yfirleitt nóg fæða, en ef ís eða veður hömluðu sjósókn í viku eða upp í mánuð, þá var hungur. Aðeins hafragrautur og rúgbrauð. Ekkert kjöt, mjólk eða smjör. Stundum var af og til slátur fram að jólum …248
248 ÞÞ A: 11403. kk 1908.
Mjólk var sjaldséð og taldist jafnvel munaðarvara, ólíkt kaffi sem allir drukku, eins og sést á þessari lýsingu frá Bíldudal á öndverðri 20. öld. Þar borðaði fólk:
rúgbrauð, smjérlíki og tros, og lítilsháttar af keti og slátri á haustin. Vatnsgrauta með sykri gátu menn haft, en mjólk var lúxusvara, sem þó var að mestu ófáanleg, nema eitthvað lítilsháttar handa ungbörnum. Svart kaffi var því aðaldrykkurinn daglega. – Gæti einhver náð í mjólkurflösku hjá bændum fyrir hátíðar, þótti það mikil veislubót.249
249 Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson. Bréf IV. Handrit
Ingivalds Nikulássonar um verkalýðshreyfinguna í Bíldudal.
Tímabilið 1890−1932, 2.
Hjá verkafólki sem hafði fasta vinnu og þar sem hæst laun voru greidd var betra fæði. Haustið 1919 lá fyrir að gera þurfti nýjan kjarasamning á milli atvinnurekenda og Dagsbrúnar, en auk þess var ætlunin að reyna að koma á einhvers konar vísitölugrunni eða reglum „fyrir því hvernig … kaup skyldi hækka eða lækka eftir því, sem verðlag nauðsynja breyttist“.250 Í þessu skyni var gerð könnun á neyslu meðal „ýmsra reyndra og greindra manna og kvenna úr verkamannahóp“ og gerð skrá yfir neyslu 30 vörutegunda miðað við fimm manna fjölskyldu, hjón með þrjú börn, tveggja, sjö og tólf ára. Ársneysla á þessum grunni var talin sem hér segir:
rúgbrauð 456,25 kg. (1/4 kg. á mann á dag), hveitibrauð 226 kg. (1/8 kg. á mann á dag) hveiti 60 kg., hrísgrjón 30 kg., sagógrjón 10 kg., haframjöl 70 kg., kartöflumjöl 5 kg., baunir 5 kg., kartöflur 250 kg., gulrófur 50 kg., rúsínur 7,5 kg., sveskjur 7,5 kg., sykur 187,5 kg., kaffi, óbrennt, 25 kg., kaffibætir, 12,5 kg., kakao 5 kg., smjörlíki 125 kg., tólg 20 kg., kæfa 25 kg., mjólk 365 lítrar, saltkjöt 25 kg., nýtt kjöt 75 kg., nýr fiskur 750 kg., trosfiskur 250 kg., steinolía 300 l., kol 10 skpd., húsnæði eitt herbergi, stórt og eldhús eða tvö herbergi minni og eldhús.251
Pétur G. Guðmundsson 1922, 1.
Þessi listi sýnir neyslu hjá verkamannafjölskyldum sem bjuggu við allgóðar aðstæður, heilsan var í lagi og fyrirvinnan hafði vinnu. Neysluskrá einstæðrar móður með fjögur börn hefði ekki litið svona út. Listinn er athyglisverður fyrir margra hluta sakir. Hann sýnir t.d. hversu hátt hlutfall innfluttra vara hefur verið í neyslu almennings á þessum tíma. Athyglisvert er einnig hversu mikil fiskneyslan er samanborið við kjötneyslu sem ekki nær einum sjöunda af fiskneyslunni. Mjólkurneysla hefur einnig verið lítil eða aðeins um þriðjungur úr lítra á hvert barn á dag, miðað við að börnin hafi fengið alla mjólkina sem tæpast hefur verið. Neysla á fersku grænmeti og ávöxtum hefur verið lítil en töluverð á soðnum garðávöxtum. Þessi staða var ólík því sem var í flestum nágrannalandanna þar sem neysla á korni og grænmeti var mun meiri en hér en kjöt- og fiskneysla minni.252
Á ofanverðum millistríðsárunum var gert átak í að auka neyslu garðávaxta, ekki síst á þann hátt að fólk kæmi sér sjálft upp garðholu og ræktaði að minnsta kosti kartöflur, en einnig ýmsar aðrar tegundir.253 Verkalýðshreyfingin víða um land stuðlaði að því að auka slíka ræktun sem hefur skipt miklu fyrir afkomu viðkomandi heimila. Á Djúpavogi höfðu t.d. á þessum tíma svo að segja „öll heimili í þorpinu … kú og hænsni og nægilegt af jarðeplum. Margir eiga kindur, og margur málsverðurinn fæst með byssunni, annaðhvort rjúpa eða sjófugl“.254 Drengur frá Dalvík (fæddur um 1930) sagði síðar frá því að „hann gæti ekki borðað neitt á tveim fótum eftir að hann fór fullorðinn að heiman, hann hefði verið svo leiður orðinn á fuglinum sem faðir hans skaut sýnkt og heilagt þegar … [hann] var að alast upp“.255 Annars var sjórinn drýgstur og ástæða þess að „við vorum aldrei svöng og enginn sem ég þekkti til“, sagði kona (f. 1932) um æsku sína. Hún var sjómannsdóttir frá Dalvík.256 Sjálfsþurftin var lykillinn að sæmilegu lífi, eins og þessi kona lýsti:
Foreldrar mínir höfðu alltaf kartöflugarð í sandinum austan við þorpið [Dalvík]. Hin síðari ár voru ræktaðar rófur og kál í garðinum við húsið og kjallarinn undir því var hreint þarfaþing. Þar voru kartöflurnar geymdar allt árið, rófurnar, hrærð bláber, bláberja- og rabarbarasulta, hvítkálið hengt upp í bitana í loftinu og geymdist þannig um nokkurn tíma. Sláturtunnan stóð í einu horninu … Keyptur var hálfur hrossskrokkur að hausti og saltaður niður, einnig var stór tunna af söltuðu kindakjöti, þetta var geymt út í sjóhúsi sem kallað var, en þar var líka tunna af söltuðum bútungi, sem var hreint sælgæti. Annars konar saltfiskur var þar líka og siginn fiskur … Sumar konurnar í mínu ungdæmi tíndu hundrað potta yfir berjatímann, mest aðalbláber. Þessi ber voru að mestu unnin til matar, sulta, saft, hrærð ósæt saft sem notuð var í grauta og súpu … Fjallagrös tíndum við ekki en móðir mín fékk þau í vinnuskiptum …257
257 ÞÞ A: 12334. kvk 1932.
Svipað var í stærri bæjum, til dæmis á Akureyri. Margir voru með einhverja ræktun og jafnvel skepnur. Það gilti ekki eingöngu um fátæka. Efnað fólk gerði þetta líka.
Klæðnaður var líka að mestu heimafenginn, að minnsta kosti hversdagsföt. Þau voru víða saumuð á heimilum, oft úr innlendum efnum. „Gefjunarefni“ var til dæmis talið „sérstaklega gott“. Gömul föt voru líka endurnýtt, annaðhvort látin til annarra eða nýtt sem efni í annars konar klæðnað. Og sum verkalýðsfélög héldu námskeið fyrir konur í hannyrðum og klæðagerð. Saumavél þótti mikið þarfaþing á þessum árum.258