Efnisyfirlit

Deila sögu ASÍ

Tímabilið fram til 1940

Kröfuganga á Akureyri um miðjan fjórða áratuginn, en kommúnistar réðu ríkjum í verkalýðshreyfingunni þar á þeim tíma.

Pólitískar deilur innan verkalýðshreyfingarinnar

Saga ASÍ: Í samtök › Tímabilið fram til 1940

Pólitískar deilur innan verkalýðshreyfingarinnar

Um 1920 var hreyfing jafnaðarmanna svo ung og veikburða hér á landi að ekki voru efni til þess að hún greindist í fleiri kvíslar að sinni. Um það leyti hafði þó þegar verið sáð þeim fræjum sem síðar leiddu til sundrungar. Ungir íslenskir jafnaðarmenn vissu vel um klofning hreyfingarinnar í nágrannalöndunum og fylgdust grannt með.1 Þegar árið 1919 birti Dagsbrún viðtal við íslenskan „bolsivíka“ sem staðhæfði að Alþýðuflokkurinn hefði getað gert miklu meira gagn ef hann hefði „ekki notað sér bardaga-aðferð jafnaðarmanna, heldur Bolsivíka“. Hann staðhæfði að þeir síðarnefndu færu brátt að láta til skarar skríða.2

T.d. Alþýðublaðið 13. desember 1919, 3.
Dagsbrún 3. maí 1919, 39.

Sumarið 1920 birtist grein í Alþýðublaðinu sem nefndist Alþjóðasambönd jafnaðarmanna. Þar er gerð söguleg grein fyrir þróun jafnaðarstefnunnar í Vestur-Evrópu og Rússlandi. Einnig var greint frá helstu meginstefnum sem voru ráðandi innan hreyfingarinnar og horfum varðandi alþjóðastarf jafnaðarmanna. Þriðja alþjóðasambandið (kommúnista), Komintern, var stofnað 1919 og sama ár og umrædd grein birtist sóttu íslenskir kommúnistar annað þing Komintern sem haldið var í Pétursborg.3 Af umfjöllun greinarhöfundar má glögglega sjá hvar samúð hans liggur. Hann er sannfærður um að það samband muni eflast og jafnaðarmenn víða um álfuna gangi til liðs við það. Greinarhöfundur er jafnframt á þeirri skoðun að „milli hægri jafnaðarmanna öðrum megin og miðflokksins og vinstrimanna hinum megin er nú staðfest það djúp, er vart verður brúað á þann veg, að þeir geti skipað sér undir sameiginlegan alþjóðafána“.4 Þetta er það sjónarmið sem á þessum árum var ráðandi innan alþjóðahreyfingar kommúnista og birtist m.a. í hinum svonefndu „Moskvutesum“ frá þingi Komintern árið 1920. Samkvæmt þeim bar að slíta öllu samstarfi við jafnaðarmenn, enda væru þeir ekki annað en útsendarar auðvaldsins. Þessi sjónarmið giltu raunar einnig um þá sem tóku sér stöðu á milli fylkinganna beggja. Kommúnistum bar því í samræmi við þetta að stefna að því að byggja upp eigin flokk en hætta starfi innan flokka sem ekki væru kommúniskir.5 Þetta skref var stigið í Danmörku árið 1921.6 Það var án efa einnig framtíðarmarkmið íslenskra kommúnista. Sömu sjónarmiða gætti iðulega í Alþýðublaðinu meðan Ólafur Friðriksson var ritstjóri þess.7

Þór Whitehead 1979, 10. − Óskar Guðmundsson 1987, 13.
Alþýðublaðið 24. júní 1920, 2.
Maurseth, Per 1987, 142−151.
Tørnehøj, Henning 1998, 229.
Sjá m.a. Alþýðublaðið 22. júlí 1921, 2.

Snemma á þriðja áratugnum urðu atburðir sem leiddu til aukins ágreinings innan hreyfingarinnar. Tildrögin voru þau að Ólafur Friðriksson og Ársæll Sigurðsson sóttu þriðja þing Komintern sem haldið var í Moskvu árið 1921, ekki þó sem formlegir fulltrúar ASÍ. Þingið hafði mikil áhrif á þá og líka sérstakar afleiðingar. Í Rússlandi kynntist Ólafur munaðarlausum dreng að nafni Nathan Friedman og tók hann með sér til Íslands. Hann var með augnsjúkdóm sem yfirvöld óttuðust að væri smitandi og urðu um þetta harðar deilur. Meðan á deilunum stóð kom þó á daginn að svo var ekki. En yfirvöld voru ákveðin í að hafa sitt fram, settu á stofn sérstaka liðssveit undir forystu fyrrverandi sjóliðsforingja í sjóher Dana og gerðu áhlaup á hús Ólafs. Ólafur varð að láta í minni pokann og drengurinn var fluttur úr landi. Ólafur og nokkrir stuðningsmenn hans voru dæmdir til fangelsisvistar en þó náðaðir árið eftir.8

Pétur Pétursson 1983, 114−118. − Morgunblaðið 24. nóvember
1921, 1. − Þorleifur Friðriksson 2007, 272−273. − Þór White-
head 1979, 9−11. − Vinnan XVIII (1961), 10.−12. tbl., 22.

Lenín, stytta varðveitt á Iðnaðarsafninu á Akureyri. Styttan fannst í höfninni á Akureyri eftir komu rússnesks kolaskips og náðist þegar hafnarverkamennirnir slæddu botninn þar sem skipið hafði legið til þess að ná sér í kol sem fallið höfðu um borð við löndunina.

Forysta ASÍ kvað upp þann úrskurð að deilur Ólafs og stjórnvalda væru einkamál hans en ekki málefni hreyfingarinnar. Morgunblaðið fagnaði þeirri niðurstöðu og væri þetta til marks um breytta tíma hjá íslenskum jafnaðarmönnum þar sem ljósari yrði ágreiningur hinna byltingarsinnuðu og jafnaðarmanna. Blaðið benti á að í Danmörku væri þessi greinarmunur þegar orðinn skýr og hefðu jafnaðarmenn þar útilokað samstarf við kommúnista. Tími væri til kominn að slíkt gerðist einnig hér og mætti búast við breytingum, enda hefði Alþýðublaðið „nú síðustu misserin oft komið fram sem hreint bolsjevikamálgagn“.9

Morgunblaðið 24. nóvember 1921, 1.

Morgunblaðið hafði rétt fyrir sér. Deilan og viðbrögð Alþýðusambandsforystunnar leiddu til þess að andstæður á milli hinna róttækari og hinna hægfara innan Alþýðusambandsins skerptust mjög en þegar í ársbyrjun 1921 voru ungir íslenskir kommúnistar farnir að undirbúa samtök í samvinnu við Ólaf. Að „hvíta stríðinu“ loknu stofnuðu þeir svo Áhugalið alþýðunnar og síðar Félag ungra kommúnista (1922).10 Ólafur hafði jafnframt beitt sér fyrir stofnun Jafnaðarmannafélags Reykjavíkur þar sem hann og stuðningsmenn hans höfðu tögl og hagldir, og sendi félagið fulltrúa sína á þing Alþjóðasambands kommúnista, Komintern, árið 1922. Hægfara jafnaðarmenn í félaginu sættu sig ekki við yfirráð hinna róttæku og stofnuðu nýtt félag, Jafnaðarmannafélag Íslands, árið 1922.11 Óeining Ólafs og forystu sambandsins leiddi til þess að Ólafur var settur af sem ritstjóri Alþýðublaðsins 1922 og deilur urðu á sambandsþingi sama haust um val í forystu þess. Í kjölfar samkomulags andstæðra fylkinga fengu Ólafur og félagar fjóra af níu mönnum í sambandsstjórn og segir það nokkuð um styrk þeirra.12 Jafnframt var Ólafur ráðinn erindreki flokksins og mun það hafa verið hugsað sem sárabót fyrir brottrekstur úr ritstjórastólnum og var hluti samkomulags sem leiðandi menn í flokknum gerðu í því skyni að lægja öldur og ná sáttum.14

Óskar Guðmundsson 1987, 13. − Þorleifur Friðriksson 1987,
20−21. − Þór Whitehead 1979, 12.
Þór Whitehead 1979, 14−15.
Sjá m.a. Sigurður Pétursson 1990, 230−236. − Einnig Stefán
Hjartarson, handrit, 186−189.
Alþýðublaðið 10. nóvember 1924, 1.

Ungir kommúnistar í Áhugaliði alþýðunnar árið 1921. Frá vinstri eru í aftari röð: Kristmann Guðmundsson, Ásgeir Guðjónsson, Friðrik Arason Hólm, Hjalti Gunnlaugsson, Sveinn Sveinsson, Markús Jónsson, Ólafur Friðriksson, Sveinn Guðmundsson, Jónas Magnússon, Jafet Ottósson, Friðrik Jóhannsson og Pálmi H. Jónsson. Í fremri röð eru: Jón Brynjólfsson, Lárus Jóelsson, Einar Jórmann Jónsson, óþekktur og Hendrik Ottósson. Jafet og Hendrik voru synir Ottós N. Þorlákssonar og Carolíne Siemsen.

Árið 1922 var Félag ungra kommúnista sett á laggirnar og töldust í því 70 félagsmenn um mitt sumar 1923. Alþýðublaðið kvað félaga alla vera „unga og áhugasama menn úr alþýðustétt“. Þá þegar hafði félagið hafið útgáfu og var fyrsta rit þess Ávarp til ungra alþýðu-manna. Árið eftir sótti það um inngöngu í ASÍ en var hafnað með verulegum mun eftir allsherjaratkvæðagreiðslu á þingi sambandsins 1924 á þeirri forsendu að félagið fylgdi annarri stefnu en ASÍ „með því að vera í þriðja alþjóðasambandi jafnaðarmanna … er Alþýðuflokkurinn stæði ekki í sambandi við“.14 Þá var einnig samþykkt tillaga þess efnis að útgáfa blaðsins Rauði fáninn væri „hættuleg fyrir starfsemi Alþýðuflokksins“ og bæri að víkja þeim félögum sem hlut ættu að máli úr sambandinu.15 Á sömu leið fór er Jafnaðarmannafélagið Sparta, sem kommúnistar höfðu stofnað, knúði dyra hjá Alþýðusambandinu árið 1926.

Alþýðublaðið 10. nóvember 1924, 1.
ÞÍ. Sjötta þing ASÍ. Skýrsla um skipun þess og störf. Sögus.
verkal. B09: A1/10. Skjalasafn Þorsteins Péturssonar. Skjöl
varðandi ASÍ og landshlutafélög.

Krytur héldu áfram og sauð upp úr öðru hverju, t.d. vegna aðildar ASÍ að Alþjóðasambandi jafnaðarmanna í árslok 1926. Sú ákvörðun var tekin ekki síst með hliðsjón af bágri fjárhagsstöðu sambandsins, auk þess sem ætla má að forysta danskra sósíaldemókrata, sem ASÍ hafði náið samstarf við, hafi hvatt til að svo yrði gert.16

Þorleifur Friðriksson 1987, 25.

„Hvíta stríðið“ í nóvember árið 1921. Varalið lögreglunnar með hvíta borða stendur í götunni en mannfjöldi fylgist með úr fjarlægð. Myndin er tekin skömmu áður en ráðist var inn í Suðurgötu 14, heimili Ólafs.

Líka var tekist á innan Dagsbrúnar árin 1926 og 1927, en kommúnistar höfðu þá náð meirihluta í stjórn félagsins. Alþýðusambandsforystan náði þó aftur undirtökum þar 1927. Og enn hörðnuðu deilurnar er Alþjóðasamband kommúnista, Komintern, markaði enn frekar þá stefnu 1928 og 1929 að jafnaðarmenn væru höfuðstoð auðvaldsins og því helsti andstæðingur kommúnista, fyrir utan auðvaldið sjálft. Í raun væru þeir sósíalfasistar.17 En þrátt fyrir allt voru kommúnistar umbornir innan Alþýðusambandsins. Þeir áttu þó að halda sig á mottunni og flestir jafnaðarmenn á þriðja áratugnum vonuðu að ekki kæmi til klofnings. En kommúnistar stefndu leynt og ljóst að því að stofna eigin flokk, enda til þess ætlast af þeim af Komintern, og þegar árið 1929 stofnuðu þeir óopinbert landssamband.18 Þess gat því ekki verið langt að bíða að látið yrði til skarar skríða og stofnaður kommúnískur flokkur á Íslandi sem hæfi opinskáa baráttu gegn jafnaðarmönnum.

Þorleifur Friðriksson 2007, 282−283. − Einnig Bergholm,
Tapio 2003.
Sjá m.a. Helgi Skúli Kjartansson 1987, 15. − Þorleifur Frið-
riksson 1987, 26−27.

Deilt um tengsl ASÍ og Alþýðuflokks á þriðja áratugnum

Alþýðusambandið var frá upphafi bæði samband stéttarfélaga og stjórnmálaflokkur, Alþýðuflokkur, hinn eini sinnar tegundar hér á landi sem sameinaði starf „frjálsra“ félagasamtaka og stjórnmálaflokks. Slíkir flokkar voru einnig vandfundnir erlendis þó að víða væru náin tengsl á milli stjórnmálaflokka jafnaðarmanna og verkalýðshreyfingar. Mikið samband var líka á milli Framsóknarflokksins og samvinnufélaga bænda en þau tengsl voru ekki formleg og því annars eðlis. Hefði svo verið hefði Framsóknarflokkurinn og Samband íslenskra samvinnufélaga verið ein og sama skipulagsheildin. En svo var ekki þó að tengslin væru náin.

Þessi skipan mála innan Alþýðusambandsins hafði bæði kosti og galla. Séð frá sjónarhóli stjórnmálaflokksins var stór kostur að samtvinna stjórnmálabaráttuna og kjarabaráttuna. Vænta mátti að á þann hátt yrði auðveldara að afla flokknum traustra fylgismanna og koma boðskap jafnaðarmanna á framfæri. Út frá sjónarhóli stéttarfélagsins gat þetta líka haft umtalsverða kosti, að njóta forystu þeirra sem lögðu mest kapp á að vinna að brýnustu hagsmunum alþýðufólks á stjórnmálavettvangi. En fyrirkomulagið hafði líka galla. Verkafólk hafði ekki allt sömu stjórnmálaskoðanir og því var hætta á að einhverjir vildu ekki ganga í stéttarfélögin af stjórnmálaástæðum.

Forystumenn Alþýðusambandsins voru sér vel meðvitandi um að staða þeirra í skipulagsmálum var sérstök. Á þingi ASÍ árið 1926 benti forseti sambandsins einmitt á að í nágrannalöndunum væri

yfirstjórn verklýðsmála og stjórnmála aðgreind. Þar hafa sjerstakar stjórnir verklýðsmálin til meðferðar og verklýðsfjelögin hafa sjerstök þing til þess að ræða hin eiginlegu verklýðsmál. Og á sama hátt eru háð sjerstök þing jafnaðarmanna, þar sem rædd eru löggjafarmálin og þar sem mörkuð er stefnan í dagskrármálum alþýðuflokkanna.19

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 7. sambandsþing 1926, 10.

Í framhaldinu ræddi Jón Baldvinsson um að nauðsynlegt væri að gera eitthvað í skipulagsmálunum, enda hefði svo mikið hlaðist á sambandsstjórnina að hún annaði því varla að sjá bæði um stjórnmálabaráttuna og málefni kjarabaráttunnar. Forsetinn velti þeirri hugmynd jafnvel fyrir sér að fjórðungssamböndin tækju að sér umsjón kjaramálanna.20 Hér viðraði forseti Alþýðusambandsins með öðrum orðum þá tilhögun að fjórðungssamböndin gætu að mestu leyti séð um kjaramálin en landssambandið um stjórnmálin. Hann orðaði það líka að óheppilegt væri að yfirstjórn verkalýðs- og stjórnmála væri á sömu hendi. Þessi ágalli var m.a. talinn birtast í því að mikill tími gæti farið í deilur um aðferðir í stjórnmálabaráttunni á þingum Alþýðusambandsins og jafnvel á félagsfundum einstakra stéttarfélaga, svo að kjaramálin gætu orðið útundan.21

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 7. sambandsþing 1926, 15.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 7. sambandsþing 1926,
17−18.

Um þessi mál varð harður ágreiningur á þingi Alþýðusambandsins árið 1926. Þeir sem lengst vildu ganga lögðu fram tillögur um stofnun sérstaks verkalýðssambands sem samanstæði af fjórðungssamböndunum en þau ættu síðan aðild að Alþýðusambandinu.22 En þessi tillaga hlaut ekki náð hjá forystu Alþýðusambandsins heldur var ákveðið að halda verkalýðsmálaráðstefnu árið eftir og ræða þar m.a. breytingar á skipulagi samtakanna. Ráðstefnan var haldin í júní 1927 og var þá kosin þriggja manna nefnd til þess að móta tillögur fyrir næsta þing sambandsins. Í nefndinni sátu Einar Olgeirsson, Haraldur Guðmundsson og Jón Baldvinsson. Meirihluti nefndarinnar, þeir Haraldur og Jón, lagði til að ekki yrðu gerðar meginbreytingar á stjórn og skipulagi sambandsins. En þó væri rétt að taka ákveðin skref í þá átt með stofnun verkamálaráðs sem í sætu þrír menn. Þetta ráð eða stjórn ætti að hafa yfirumsjón verkalýðsmála í samvinnu við sambandsstjórnina. Þá ætti verkamálaráðið að boða til ráðstefnu um verkalýðsmál annað hvert ár. Þangað yrðu boðaðir fulltrúar fjórðungssambanda, framkvæmdastjórn fulltrúaráðsins í Reykjavík, auk þess fulltrúar allmargra stéttarfélaga og svo vitaskuld forysta Alþýðusambandsins. Ekki bæri að hrófla við tengslum stjórnmála og verkalýðsmála innan sambandsins og einstök félög yrðu að gera upp við sig innan þriggja ára frá samþykktinni hvort þau vildu ganga í ASÍ eða ekki. Gerðu þau það ekki yrðu þau einnig að hverfa úr viðkomandi fjórðungssambandi.23 Einar var ekki sáttur við þessa niðurstöðu og taldi að stofna bæri óháð samband.

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 7. sambandsþing 1926,
18−19.
Skúli Þórðarson 1966, 23−24.

Á sambandsþingi ASÍ 1928 og á aukaþingi sambandsins árið 1929 voru þessi mál enn rædd af kappi og hvort skynsamlegt væri að aðgreina pólitíska baráttu og meðferð verkalýðsmála. Kommúnistar, sem létu æ meir að sér kveða, kröfðust þess að stofnað yrði óháð verkalýðssamband, enda væri svo komið að allmörg verkalýðsfélög stæðu fyrir utan Alþýðusambandið, til dæmis á Norðurlandi. Því ætti kjörorðið að vera: „Meiri samtök! Allir verkamenn í óskiptum samtökum“, enda tíðkaðist slíkt fyrirkomulag yfirleitt þar sem verkalýðshreyfingin hefði komist til þroska.24

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 8. sambandsþing 1928, 20.

Niðurstaða umræðna á aukaþinginu 1929 varð sú að að skipuð var nefnd til þess að ræða þetta efni nánar og sátu í henni fulltrúar Alþýðusambandsins og fulltrúar fjórðungssambanda. Tillögur nefndarinnar átti að leggja fyrir verkalýðsmálaráðstefnu og einnig bjóða til hennar fulltrúum félaga sem stæðu utan ASÍ.25 Verkalýðsmálaráðstefnan varð að veruleika árið eftir, átaka- og veisluárið mikla, í nóvember 1930, skömmu fyrir þing ASÍ. Eins og við mátti búast lá ekki fyrir neitt sameiginlegt nefndarálit. Kommúnistar og stuðningsmenn þeirra óskuðu eindregið eftir því að komið yrði á fót óháðu verkalýðssambandi og að sambandið starfaði „á grundvelli stefnuskrár rauða-alþjóða-verklýðssambandsins og í náinni samvinnu við byltingarsinnaða verklýðshreyfingu“. Ekki féll þessi stefna í kramið hjá forystu ASÍ sem var í miklum meirihluta á verkalýðsmálaráðstefnunni. Forystan taldi þessa tillögu „árás á starfsemi Alþýðuflokksins og foringja hans“. Á ráðstefnunni voru ríflega 70 fulltrúar frá 28 félögum. Af þeim voru 20 félög innan ASÍ. Stuðningsmenn forystu ASÍ voru í miklum meirihluta og lögðu þeir til að ekki yrði skilið á milli flokks og hreyfingar. Það varð og niðurstaða ráðstefnunnar að hrófla ekkert við þessum tengslum og ekki nóg með það: Einnig var samþykkt á þingi ASÍ 1930 að skylt væri að vera í Alþýðuflokknum og engum öðrum flokki til þess að vera kjörgengur „í fulltrúaráð, á fjórðungsþing sambandsins og aðrar ráðstefnur innan sambandsins, svo og í opinberar trúnaðarstöður fyrir sambandsins eða flokksins hönd“. Bæri öllum viðkomandi að undirrita stefnuskrá Alþýðuflokksins og heita því að starfa samkvæmt henni. Þetta ákvæði var þó ekki mikil nýjung því að þegar á þingi ASÍ árið 1924 hafði verið ákveðið að einungis þeir sem undirrituðu stefnuskrá Alþýðusambandsins/flokksins, og skuldbyndu sig til þess að starfa samkvæmt henni, fengju samþykkt kjörbréf. Breytingin var einkum í því fólgin að nú áttu þessar reglur einnig að gilda fyrir fjórðungssamböndin. Þar með var vegið að sjálfstæði þeirra en hingað til hafði ekki verið spurt um flokksaðild innan þeirra. Á þessa grein reyndi m.a. árið 1926 þegar Carolíne Siemsen var hafnað sem fulltrúa Verkakvennafélagsins Framsóknar á ASÍ-þing af forystu félagsins af þeim sökum að hún teldi sig vera kommúnista. Á þinginu 1930 var einnig aukin miðstýring innan hreyfingarinnar með því að draga úr valdi fjórðungssambanda.26

Alþýðublaðið 28. nóvember 1929, 2.
Alþýðublaðið 21. nóvember 1930. − Þingtíðindi Alþýðusambands
Skúli Þórðarson 1966, 24−25.

Kommúnistar og stuðningsmenn þeirra voru ósáttir. Þeir bentu á að um þetta leyti stæðu að minnsta kosti 20 verkalýðsfélög utan ASÍ sem ekki óskuðu eftir að ganga þar inn að öllu óbreyttu. Þeir héldu því þeirri kröfu sinni til streitu að stofna bæri óháð verkalýðssamband, samband sem óhjákvæmilega hlyti að vera pólitískt en þó án þess að vera háð stefnuskrá einstakra flokka.

Nú var látið sverfa til stáls. Fyrst var reyndar haldin „generalprufa“ þegar þing Sambands ungra jafnaðarmanna var haldið á Siglufirði árið 1929. Þar tókust á fulltrúar kommúnista og jafnaðarmanna og voru kommúnistar mun fleiri. Fundinum lyktaði svo að forseti sambandsins lýsti þingið óstarfhæft og fór af þinginu ásamt 11 fulltrúum. Eftir sátu 32 rauðliðar sem héldu þingstörfum áfram, samþykktu áskorun um stofnun kommúnistaflokks og sóttu um aðild að Alþjóðasambandi ungra kommúnista. Það mátti því ljóst vera hvert stefndi.27

Þór Indriðason 1990, 137.

Fregnmiði kommúnista vegna Borðeyrardeilunnar árið 1934. Ekki eru spöruð stóryrðin í garð jafnaðarmanna og ASÍ og þeir kallaðir svikarar, sem var í anda stefnu kommúnista á þessum tíma.

Á Alþýðusambandsþinginu 1930 var lesin upp tilkynning 17 þingfulltrúa þar sem þeir lýsa því yfir að þeir muni stofna kommúnistaflokk jafnframt því sem þeir fordæma starfsemi og stefnu meirihlutans sem bræðings- og stéttasamvinnustefnu. Þá neiti meirihlutinn að segja skilið við Annað alþjóðasambandið og hafi gert sig sekan um að veita „inntöku í sambandið félagi verkfallsbrjóta og flokkssvikara úr Vestmannaeyjum, en bolað hinu gamla, trausta jafnaðarmannafél. burt“.28 Þar með var hafið opið stríð á milli jafnaðarmanna og kommúnista eða hinna róttæku, stríð sem átti eftir að standa í áratugi, hafa meiri áhrif en flest annað á íslenska verkalýðshreyfingu og marka djúp spor í stjórnmál landsins.

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands og verklýðsráðstefna. 10.

Kommúnistar, staða þeirra og starfsemi

Finnbogi Rútur Valdimarsson lýsti íslenskum kommúnistum svo í bréfi til Hannibals bróður síns árið 1929:

Mennirnir eru Marxistar, einhliða lesnir í ritum Marx og blöðum kommúnista, og í einu orði sagt kommúnistar, eins og þeir gerast meðal námsmanna og menntamanna í stórborgum erlendis. Menn, sem eru hreint og beint „trúaðir“, „religiósir“ í þessum skoðunum, og hafa öll einkenni, góð og vond ofstækisfullra trúmanna. Hvaða jarðveg hafa þessir menn í pólitík á Íslandi? Það verður að geta þess að mennirnir eru um marga hluti glæsilegustu menn, og hins, að hingað til hefir það ráðið fullt eins miklu á Íslandi og skoðanir manna, um pólitíska velgengni a.m.k.29

Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson. Bréf C−G. Bréf Finn-
boga Rúts Valdimarssonar til Hannibals Valdimarssonar
1. desember 1929.

Stofnun Kommúnistaflokksins hafði í raun verið lengi í undirbúningi, eins og að framan greinir, og voru liðsmennirnir að uppfylla kröfu sem til þeirra var gerð frá Komintern. Samkvæmt samþykktum þess bar þeim að stofna kommúnískan flokk um leið og tækifæri væri til þess. Það er engin tilviljun að á sama tíma og flokkurinn var stofnaður voru hér á landi fulltrúar frá Alþjóðasambandinu.30

Morgunblaðið 28. nóvember 1930, 2. − Þór Whitehead 1979, 54.

Á meðan Kommúnistaflokkurinn var starfandi á árunum 1930−1937 var hann alla tíð litli bróðir Alþýðuflokksins, baldinn og yfirleitt óþolandi að mati flestra forystumanna Alþýðuflokksins. Flokkurinn var harðsnúinn, félagar fullir eldmóðs og gagnrýni þeirra var óvægin. Forystumaður verkalýðsfélagsins á Sauðárkróki, sem var stuðningsmaður Alþýðuflokksins, lýsti því svo – og gætir nokkurs vonleysis í frásögn hans – að kommúnistar mættu eiga það að þeir væru

duglegir að afla stefnu sinni fylgis, því karlar og kerlingar, sem bölvuðu þeim í sand og ösku í fyrra, eru nú ýmist orðin kommúnistar eða mjög nærri þeim í skoðunum. – Og samheldnin þeirra er mjög góð, svo að heita má að þeir séu sem einn maður á fundum og gætu kratar og aðrir lært af þeim á því sviði; en þeir eru nú ekki neitt ákaflega námfúsir og því fer nú sem fer að 20 menn ráða meiru í verkamannafél. en 70–80 …31

Alþýðublaðið 24. janúar 1933, 3.

Við kosningarnar 1934 fékk Alþýðuflokkurinn ríflega fimmtung atkvæða á landsvísu en Kommúnistaflokkurinn 6% án þess þó að ná manni á þing. Kosningalöggjöfin var báðum þessum flokkum í óhag þar sem hún hyglaði dreifbýli á kostnað þéttbýlis. Staða kommúnista var þó sums staðar furðu sterk. Til dæmis fékk flokkurinn um þriðjung atkvæða á Akureyri í þessum sömu kosningum en Alþýðuflokkurinn aðeins rúmlega tíunda hluta. Á Siglufirði og Húsavík komst Kommúnistaflokkurinn einnig til verulegra áhrifa og yfirleitt var staða hans sterk á Norðurlandi. Sama mátti segja um Vestmannaeyjar og nokkra fleiri staði. Fylgi hans var hins vegar mun minna í Reykjavík og einnig lítið á Vesturlandi, Vestfjörðum og Austurlandi þó að flokksmenn létu vissulega að sér kveða.32

Þór Indriðason 1996 II, 86. − Þór Whitehead 1979, 71−78.

Áhrif flokksins voru einnig meiri en fylgið sagði til um. Blaðakostur hans var öflugur. Verklýðsblaðið var málgagn flokksins, vikublað á árunum 1930−1936, en eftir það Þjóðviljinn sem var dagblað, og segir það sitt um styrk útgefendanna. Á Akureyri gáfu kommúnistar út blaðið Verkamanninn og Einar Olgeirsson gaf út tímaritið Rétt (frá 1926). Liðsmenn kommúnista voru ákafir í baráttu sinni og ötulir við að treysta böndin við verkafólk þar sem þeir störfuðu, ekki síst víða á Norðurlandi fyrir milligöngu Verklýðssambands Norðurlands, VSN, þar sem þeir höfðu tögl og hagldir. Þar var í forystu Einar Olgeirsson, sem sannarlega varð spámaður í sínu föðurlandi. Á Akureyri þekktu allir alla og vissu að Einar var sonur Olgeirs Júlíussonar bakara, sem hafði verið í stjórn fyrsta verkalýðsfélagsins á Akureyri, og konu hans Solveigar Gísladóttur. Einar sneri heim frá Berlín 22 ára gamall árið 1924, en þar hafði hann verið í þrjú ár. Hann hóf þegar að láta til sín taka og gekkst fyrir stofnun jafnaðarmannafélags í bænum.33

Jón Hjaltason 2004, 336−337.

Kommúnistar voru skjótir til að grípa til aðgerða stæðu einhver félög höllum fæti. Það sannaðist skýrt þegar hin svonefnda Krossanesdeila stóð yfir sumarið 1930. Deilan stóð um kjör verkamanna og forgangsrétt til vinnu. Þegar ekki samdist setti Verkalýðsfélag Glerárþorps fyrirvaralaust á verkfall, en Krossanes við Akureyri var á félagssvæði þess. Verkfallið skall á þegar verið var að reisa háan stromp við verksmiðjuna og var verkið í miðjum klíðum þegar það var stöðvað. Verkalýðsfélagið fékk liðsinni Verklýðssambands Norðurlands og komu forsvarsmenn þess á staðinn, bæði Erlingur Friðjónsson og Einar Olgeirsson. Sá fyrrnefndi var í forystu jafnaðarmanna á Akureyri, en Einar var leiðtogi hinna róttæku og framkvæmdastjóri Síldareinkasölu ríkisins á Siglufirði. Hann geystist þaðan með liðsafla á „lystibát“ fyrirtækisins, sem Morgunblaðið nefndi svo! Deilan varð því áður en Kommúnistaflokkurinn var stofnaður, en kommúnistar réðu ferðinni og verkfallsmenn beittu baráttuaðferðum kommúnista, enda var verkfallið þaulskipulagt, stöðugur vörður haldinn á Krossanesi og þess gætt að bæði félagsbundið fólk og ófélagsbundið hefði áhrif á framgang mála. Jón Rafnsson sagði að stuðst hefði verið við kennisetningar „Strassborgarráðstefnunnar frægu frá 1928“ en í þeim var fjallað ítarlega um undirbúning og skipulagningu verkfalla og hvernig nýta mætti verkföll til þess að efla byltingarsinnaða vitund verkafólks.34 Mörg önnur dæmi mætti taka um deilur þar sem kommúnistar gengu vasklega fram. Til dæmis þegar Verkalýðsfélag Hríseyjar átti í deilu árið 1934 sem snerist um samningsrétt félagsins. Verklýðssambandið setti þá þegar afgreiðslubann á skip frá Hrísey og verkalýðsfélagið fékk sínu framgengt.35 Sumir hefðu jafnvel sagt að kommúnistar hefðu verið lagnir við að nýta sér ástandið, deilur sem ella hefðu gleymst sem smáskærur urðu að hörðum og þekktum stéttaátökum í meðförum þeirra.

Jón Rafnsson 1957, 82−88. − Benedikt Sigurðsson 1989,
221−226. − Sjá einnig Morgunblaðið 10. júlí, 3, og 19. júlí, 2,
1930. Um Strassborgarráðstefnuna og samþykktir hennar, sjá
Tryggvi Emilsson 1977, 291−293.

Þýska skipið Diana í Reykjavíkurhöfn, en þar urðu áflog á milli kommúnista og lögreglu eftir að kommúnistum tókst að skera hakakrossfána niður. Lögreglan náði fánanum þó að nýju og hér sést lögregluvörður við skipið.

Nafnkunn deila, Borðeyrardeilan svonefnda frá árinu 1934, er eitt dæmi þessa. Deilan stóð um viðurkenningu á Verkalýðs- og smábændafélagi Hrútfirðinga og um taxta sem verkalýðsfélagið setti við skipavinnu. Þegar ekki samdist leitaði félagið til VSN eftir aðstoð. Verka lýðssambandið setti afgreiðslubann á skipið, sem hafði verið afgreitt í óþökk félagsins á félagssvæði þess, og leiddi það til harðra átaka á milli verkfallsvarða annars vegar og lögreglu og „hvítliða“ hins vegar víða á Norðurlandi. Harðast var deilt á Siglufirði vegna þessa þar sem forsvarsmenn Verklýðssambandsins bönnuðu afgreiðslu á Dettifossi en almennt bann hafði verið sett á skip Eimskipafélagsins. Fjöldi manna var ákærður og fangelsaður fyrir þátt sinn í deilunni. Lengstu dómarnir voru óskilorðsbundið fangelsi í fimm mánuði. Dómunum var þó aldrei fullnægt og urðu þrír hinna dæmdu síðar alþingismenn.36 Mat forystumanna Alþýðusambandsins var hins vegar að Borðeyrardeilan hefði verið „tilefnislítil“ og með henni hefði birst hversu „vitlaus og ábyrgðarlaus pólitík var rekin af kommúnistum, og varð þessi deila í og með til þess, að frekar skarst í odda en áður“.37

Tryggvi Emilsson 1977, 300−305. − Jakob Árnason 1946,
222−225. − Benedikt Sigurðsson 1989, 395−426.
Jón Sigurðsson 1937, 31. − Þór Whitehead 1979, 82−83.

Kommúnistar náðu með öðrum orðum víða góðum árangri vegna góðrar skipulagningar og mikils baráttuvilja. Það hafði í för með sér að fólk, a.m.k. sums staðar á landinu, leit til þeirra sem mikilvægra bandamanna í baráttunni fyrir bættum kjörum. Á Norðurlandi höfðu þeir einnig á að skipa úrvals forystumönnum með Einar Olgeirsson í broddi fylkingar. Einar beitti sér mjög í verkalýðsbaráttunni á Norðurlandi kringum 1930 og varð vel ágengt.38

Sjá m.a. Þór Indriðason 1996 I, 236, 243, 369−371. − Þór
Indriðason 1996 II, 86−91.

Flokksmönnum Kommúnistaflokksins tókst einnig að ná góðu sambandi við forystufólk í ýmsum stéttarfélögum í Reykjavík, ekki síst í félögum sem voru stofnuð á fjórða áratugnum. Aðalheiður Hólm, sem var fyrsti formaður Starfsstúlknafélagsins Sóknar, hefur lýst því svo að félagið hafi fengið meiri stuðning frá kommúnistum en forystu ASÍ. En það mátti ekki láta á því bera að félagið hefði samráð við þá, það gat haft í för með sér að Alþýðusambandið snerist gegn því.39

Starfsstúlknafélagið Sókn 40 ára, 8.

Baráttan um verkalýðshreyfinguna

Næstu ár verkalýðsbaráttunnar einkenndust af hörðum deilum jafnaðarmanna og kommúnista, svo hörðum að hendur voru jafnvel látnar skipta, krati varð skammaryrði í röðum hinna róttækustu og komminn fyrirlitinn af jafnaðarmönnum. Framan af var Alþýðuflokkurinn sterki aðilinn í þeirri baráttu, en hann varð engu að síður fyrir miklu áfalli við stofnun Kommúnistaflokksins. Þegar á þingi Alþýðusambandsins árið 1932, hinu fyrsta eftir stofnun Kommúnistaflokksins, reyndi á breytt lög þess. Þá var hafnað kjörbréfum þriggja félaga, Verkamannafélagsins Árvakurs á Eskifirði, Verkamannafélags Akureyrar og Hins íslenska prentarafélags. Sakir tveggja fyrrnefndu félaganna voru að skulda skatt, fyrir utan að ekkert þeirra var tilbúið til þess að undirrita yfirlýsingu þess efnis að fulltrúar þeirra væru ekki í öðrum flokki en Alþýðuflokknum.40 Svo hörð var baráttan og óvægin að áður en yfir lauk höfðu báðir aðilar tekið upp samvinnu við sjálfstæðismenn innan verkalýðshreyfingarinnar í því skyni að klekkja á andstæðingnum, jafnaðarmenn á kommúnistum og öfugt.

Alþýðublaðið 15. nóvember 1932, 2.

Kommúnistar höfðu það á stefnu sinni að starfa innan ASÍ. Þessa stefnu nefndu þeir einingarstefnu. Samkvæmt henni bar að viðhalda einingu verkalýðsins, án tillits til þess hvar fólk stæði í flokki. Þeir voru því andstæðir því að kljúfa verkalýðsfélög vegna stjórnmálaágreinings og sagan sýnir að þeir höfðu ekki frumkvæði að því að stofna kommúnísk félög til höfuðs starfandi félagi.41 Þessi stefna byggði á þeirri afstöðu kommúnista að verkalýðsfélögin væru

Stefán Hjartarson, handrit, 539−540.

allsherjarsamtökin og skólinn til pólitísks þroska. Flokkurinn hinsvegar hin þrengri samtök þroskaðasta hluta stjettarinnar. Þessi tvö skipulagsform geta því ekki fallið saman, þar sem óhugsandi er, að öll verkalýðsstjettin samanstandi af ákveðnum jafnaðarmönnum.

Þeir bentu auk þess á máli sínu til stuðnings að alls staðar hefði verið skilið á milli flokks og hreyfingar í nágrannalöndum Íslands, þó að vissulega væri náið samband þar á milli.42 Þeir töldu einnig að „kosninga- og þingstarfsemi Alþýðusambandsins [hefði] óneitanlega dregið geysilega úr og drepið að heita má verklýðsfjelaga- og verkfallastarfsemi sambandstjórnarinnar“.43

Réttur 4. hefti, 15. árg. 1930, 372−373.
Réttur 4. hefti, 15. árg. 1930, 375.

Svo sem að framan hefur verið greint voru kommúnistar allsráðandi innan Verklýðssambands Norðurlands. Árið 1933 var lögum sambandsins breytt undir forystu kommúnista. Breytingin fólst í því að hlutverk sambandsins ætti að vera að „safna saman öllum norðlenskum verkalýð, án tillits til stjórnmálaskoðana eða annara ágreiningsefna, til baráttu fyrir stéttahagsmunum sínum, gegn atvinnurekendastéttinni“.44 Þarna töldu kommúnistar sig vera að ganga á undan með góðu fordæmi og þeir voru þess fullvissir að útilokunarstefna Alþýðusambandsforystunnar yrði á endanum til þess að sambandið yrði illa starfhæft.45 Samkvæmt samþykkt þeirra skyldi svo staðið að málum:

Stefán Hjartarson, handrit, 514.
Þór Indriðason 1996 II, 92−93.

Sje um fjelög að ræða, sem standa utan Alþýðusambandsins, og ný fjelög, sem stofnuð eru, þá berjumst við eindregið á móti því að þau gangi í Alþýðusambandið … Hvað snertir þau fjelög, sem í sambandi eru, þá berjumst við ekki fyrir því, að þau segi sig úr sambandinu, heldur vísi á bug öllum afskiftum kratabroddanna, neiti að greiða skatt, nema allir fjelagar þess njóti fullra pólitískra rjettinda, þ.e. að útilokunarákvæðið sje afnumið. Sje hreyfing um að ganga úr Alþýðusambandinu, þá leggjumst við ekki á móti, heldur styðjum við hana, gegn krötunum, en reynum jafnframt að koma fjelögunum í skilning um að hitt sje heppilegri leið, að vera kyr í sambandinu þar til kratarnir hrekja fjelagið burtu með einræðislögum sínum. Við verðum að leggja áherzlu á að þetta sje eina rjetta leiðin. Þá kemur greinilega í ljós, að þeir eru klofningsmennirnir.46

Stefán Hjartarson, handrit, 497. Bréfið er frá miðstjórn KFÍ,
líklega til deilda flokksins vorið 1933, að sögn Stefáns. Úr
Skjalasafni Jóns Bjarnasonar, að líkindum í vörslu Stefáns.

Stefnan var því fólgin í því að halda áfram að vinna innan þeirra félaga þar sem jafnaðarmenn höfðu meirihluta. Stefnan var í orði kveðnu sú að halda einingu Alþýðusambandsins en kommúnistar hörmuðu ekki, þótt annað kæmi fram í málflutningi þeirra, þó að kvarnaðist úr Alþýðusambandinu. Og ekki vildu þeir að skattur yrði greiddur til sambandsins nema reglum þess yrði breytt, en það jafngilti úrsögn. „Einingarstefna“ kommúnista var ekki sjálfri sér samkvæm; í raun var hún yfirskin.

Krafa kommúnista um breytt skipulag verkalýðshreyfingarinnar kom fram um svipað leyti og mörg verkalýðsfélög voru að fá viðurkennd ákvæði um forgangsrétt til vinnu. Við það fjölgaði mjög í félögunum og gengu þá inn í þau meðal annars þeir sem ekki höfðu viljað gera það til þessa vegna þess að þeir voru ósammála stefnu Alþýðuflokksins. Nú varð þetta fólk fjölmennt í verkalýðsfélögunum og óánægja með valdaeinokun Alþýðuflokksins óx. Þetta átti sér til dæmis stað hjá Verkamannafélaginu Hlíf í Hafnarfirði þar sem t.d. margir verkamenn sem studdu Sjálfstæðisflokkinn gengu inn í félagið.47 Barátta kommúnista fyrir „óháðu“ verkalýðssambandi átti því mikinn hljómgrunn og vaxandi eftir því sem fjölgaði í hreyfingunni.

Ólafur Þ. Kristjánsson 1977, 38.

Verklýðssamband Norðurlands hvetur ASÍ til samstarfs árið 1932, en með skilyrðum sem ljóst var að ASÍ mundi hafna.

Gegn byltingarstefnu kommúnista lagði Alþýðusambandið/Alþýðuflokkurinn fram stefnu sem byggðist á hægfara umbótum og því að samþætta kjarabaráttu verkalýðsfélaga og stjórnmálabaráttu. Og þar var ekki rúm fyrir kommúnista. Forseti ASÍ og formaður Alþýðuflokksins lýsti stefnu jafnaðarmanna svo árið 1936:

Alþýðuflokkurinn hefir bygt upp starfsemi sína með það fyrir augum, að það, sem ynnist á hverjum tíma verkalýðnum til handa, tapaðist ekki, heldur væri stigið skref af skrefi áfram að settu marki. Starfsemi flokksins í verkalýðsfélögunum og á Alþingi sýnir þetta frá fyrstu tíð. Við höfum tekið það, sem hægt var að ná á hverjum tíma. Við höfum bætt við þegar tækifæri gafst. Við höfum lagt grundvöll að margs konar löggjöf og umbótum, menningarlegum og verklegum, alþýðunni til handa. Og á þeim grundvelli ætlum við að halda áfram að starfa og láta haldast í hendur pólitíska starfsemi flokksins og starfsemi verkalýðsfélaganna, svo ekki tapist það, sem verkalýðsfélögin kunna að vinna í bættum kjörum vinnandi fólki til handa, með stjórnmálalegum aðgerðum hins pólitíska valds í landinu.48

Skýrsla Jóns Baldvinssonar forseta, flutt á 13. þingi Alþýðusam-

Baráttuaðferð Alþýðusambandsins gegn framgöngu kommúnista varð ljós þegar nokkrum mánuðum eftir stofnun Kommúnistaflokksins, það átti að ganga á milli bols og höfuðs á þeim. Árið 1931 fór Alþýðusambandið að beita sér fyrir stofnun nýrra félaga þar sem kommúnistar höfðu yfirhöndina. Byrjað var á Siglufirði þar sem stofnað var nýtt verkakvennafélag sem fékk þegar aðild að ASÍ og varð fljótlega stærra en það verkakvennafélag sem fyrir var. Þar á staðnum reyndist líka nauðsynlegt að stofna nýtt verkamannafélag árið 1934!49 Fyrir norðan var líka reynt að stofna nýtt fjórðungssamband í stað Verklýðssambands Norðurlands en það tókst ekki. Ekki var stofnað nýtt fjórðungssamband á Norðurlandi fyrr en árið 1947, Alþýðusamband Norðurlands.50

Alþýðublaðið 18. maí 1934, 1.
Benedikt Sigurðsson 1989, 101. − Þingtíðindi Alþýðusambands
1990, 479−483.

Í Vestmannaeyjum hafði forysta ASÍ einnig forgöngu um að stofna ný verkalýðsfélög karla og kvenna og kom Jón Sigurðsson, einn helsti verkalýðsfrömuður Alþýðuflokksins, erindreki ASÍ og um skeið framkvæmdastjóri þess, þar mjög við sögu. Þannig var Verkakvennafélagið Snót stofnað árið 1932 til höfuðs Verkakvennadeild Drífanda sem þó starfaði með ágætum. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir tókst ekki að sameina félög verkakvenna í Eyjum fyrr en 1937 að konur í Verkakvennafélagi Vestmannaeyja (áður Verkakvennadeild Drífanda) lögðu félag sitt niður. Þær gengu síðan allar í Snót sem vakti trúlega lítinn fögnuð forystu ASÍ, enda náðu hinar róttæku konur fljótt meirihlutanum í sínar hendur og snerust gegn forystu heildarsamtakanna. Svipað varð uppi á teningnum á Siglufirði nokkrum árum síðar (1939) og þá í andstöðu við hörðustu stuðningskonur Alþýðuflokksins sem höfðu lengi getað varið vígi sitt með því að í lögum félags þeirra voru ákvæði þess efnis að kommúnistar mættu ekki vera í félaginu.51 Slík ákvæði voru þó í andstöðu við lög ASÍ.

Benedikt Sigurðsson 1990, 176−177.

Einar Olgeirsson, annar frá vinstri, heimsækir félaga sína á Sauðárkróki, trúlega á fyrri hluta fjórða áratugarins.

Þess má geta að um þetta leyti var mikið rætt um sameiningu verkalýðsflokkanna og voru kommúnistar mjög áfram um slíka sameiningu en alþýðuflokksfólk miklu síður, eins og annars staðar er fjallað um um í ritinu. Þegar þessi sameiningaralda gekk yfir tókst víða að sameina félög sem áður höfðu klofnað af pólitískum ástæðum.52 Klofningnum var þó ekki lokið í Eyjum því árið 1939 beitti forysta ASÍ sér fyrir því að stofna nýtt verkalýðsfélag til höfuðs Drífanda, sem var verkamannafélagið í Eyjum. Jón Sigurðsson, erindreki sambandsins, fór þangað í árslok 1939 þess erindis að „vinna þar að betri skipulagningu á verkalýðshreyfingunni“.53

M.a. Vinnan IV (1946), 286−289. − Einnig Afmælisrit Alþýðu-
einnig Þórunn Magnúsdóttir 2002, 119−120.
Alþýðublaðið 11. desember 1939, 1.

Þar sem hreyfingin var klofin kepptust félögin um að hafa frumkvæði við gerð kjarasamninga og vinna hylli verkafólksins. Oftast var samið á svipuðum nótum en minni háttar atriði gátu verið með ólíkum hætti.54 Yfirleitt var þó staða þeirra félaga sem voru innan Alþýðusambandsins sterkari en hinna sem voru utan þess, enda viðurkenndi Alþýðusambandið ekki gjörninga sem félög utan þess gerðu. Sums staðar héldu félög utan ASÍ þó frumkvæðinu í sínum höndum, t.d. á Akureyri, en þar náði verkalýðsfélagið sem var innan ASÍ aldrei verulegri hylli meðal verkafólks.

Benedikt Sigurðsson 1990, 34−35.

Ýmis dæmi voru um að forystumönnum kommúnista væri vikið úr einstökum stéttarfélögum, t.d. á Norðfirði, þar sem þeir voru reknir úr verkalýðsfélaginu eftir að hafa gagnrýnt forystu verkalýðsfélagsins harðlega. Þeim var þó hleypt aftur inn í félagið síðar, enda gilti brottvikningin bara í eitt ár. Jónas Guðmundsson, formaður félagsins, lýsti kommúnistum sem „mannhrökum“ og kvaðst ekki hafa kynnst ennþá neinum kommúnista sem ekki væri „ódrengur“. Að hans mati höfðu verkalýðsfélögin tekið allt of vægt á „sundrungarstarfi kommúnista, og munu þau gjalda þess öll áður en lýkur“, sagði Jónas. Deilur kommúnista og jafnaðarmanna á Norðfirði voru reyndar með eindæmum harðar og áttu þátt í að Jónas flutti um síðir úr bænum.55

Jónas Guðmundsson 1932, 2. − Smári Geirsson 1993, 96−97.

Ýmis fleiri dæmi voru um slíka brottrekstra, t.d. úr Dagsbrún í Reykjavík og Baldri á Ísafirði.56 Á Ísafirði voru fjórir kommúnistar reknir úr Baldri árið 1934. Ástæðan var sögð sú að „félagsmálefni komust ekki að og fengust ekki rædd af gætni og stillingu vegna vaxandi uppvöðslu og ofsa þessara manna. Þetta varð og til að draga úr fundarsókn, því eldra fólk margt kvaðst ekki þola að sitja fundi, ef slíkt héldi áfram“. Ekki var eining innan félagsins um brottrekstur fjórmenninganna en hann var þó samþykktur með miklum meirihluta atkvæða.57 Slíkir brottrekstrar munu ekki síst hafa tíðkast þegar harðlínustefna kommúnista var hvað hömlulausust, á árum 1931–1934. Eggert Þorbjarnarson, síðar áhrifamaður í Alþýðusambandinu, var einn þeirra sem voru reknir úr Dagsbrún árið 1931 og mun það hafa verið fyrir meintar óspektir á fundi sem fólust í því að hann og félagar hans töldu sig þurfa að ónáða Ólaf Friðriksson sem þá stýrði fundi í Dagsbrún. Það gerðu þeir með því að fara að syngja byltingarsöngva í hvert sinn sem Ólafur ætlaði að taka til máls, enda var ekki lengur bandalag á milli Ólafs og hinna róttæku þegar hér var komið sögu!58 Slíkan ungæðishátt róttæklinganna þoldu menn ekki og ráku Eggert úr félaginu.

M.a. Þórunn Magnúsdóttir 2002, 234.
Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, ýmis gögn 1924−1939.
Starfsemi verklýðsfélagsins „Baldur“ á Ísafirði 1934.
Alþýðublaðið 18. apríl 1931, 2.

Jón Sigurðsson, erindreki ASÍ á fjórða ártugnum, harðskeyttur baráttumaður jafnaðarmanna. Jón ferðaðist um og stofnaði verkalýðsfélög, einnig á stöðum þar sem slík félög voru starfandi undir forystu kommúnista. Hér er Jón staddur á Siglufirði á fjórða áratugnum.

Svo fór víða um land að starfrækt voru fleiri en eitt almennt verkalýðsfélag fyrir sama svæði og fólk úr sömu starfsgreinum, ekki síst á Norðurlandi þar sem Alþýðusambandið annars vegar og Verklýðssamband Norðurlands hins vegar tókust á um hylli einstakra félaga. Þau kepptust um að vera fyrst á staði þar sem ekki hafði enn verið stofnað verkalýðsfélag og gangast fyrir stofnun félags. Þannig má segja að samkeppni þessara afla hafi orðið til þess á vissan hátt að efla hreyfinguna. Verkalýðsfélög voru stofnuð á stöðum þar sem litlar líkur eru til að hennar hefði notið við ella.59 Svo hafði þetta „ástand“ enn einn flöt sem ekki hefur oft verið nefndur: deilurnar gátu haft skemmtanagildi. „Fyrir þá sem höfðu gaman af alls konar nautaati var það viss skemmtun að koma á félagsfundi og hlusta á þær pólitísku deilur sem þar fóru oft fram á þessum árum. Ansi snarpar deilur á stundum,“ sagði Björn Bjarnson, sem lengi var formaður Iðju, og hann bætti við: „Það kemur fyrir að ég sakna þessara tíma.“60Þetta „ástand“ hafði mikil áhrif á verkalýðshreyfinguna. Stundum var það jákvætt þegar Alþýðusambandið og Verklýðssamband Norðurlands kepptust við að styðja ákveðin félög sem áttu í kjaradeilu, og má ætla að þessi samkeppni hafi ýtt mjög undir að Alþýðusambandið liðsinnti þeim félögum betur sem voru fjarri höfuðstaðnum. En áhrifin voru líka á hinn veginn og leiddu til þess að verkalýðsbaráttan á þessum stöðum einkenndist af tortryggni, úlfúð og illindum.61

Stefán Hjartarson, handrit, 508−511.
Vinnan XXIX (1979), 1. tbl., 7.
Sjá m.a. Alþýðublaðið 14. maí 1934. − Smári Geirsson 1993,
197−198.

Árið 1931 hafði Alþýðusambandið sjálft staðið í svipuðum sporum og hin róttæka andstaða í verkalýðshreyfingunni. Málavextir voru þeir að gerð var tilraun til þess að stofna nýtt verkakvennafélag í Hafnarfirði sem yrði „ópólitískt“, eins og það var kallað. Verkamálaráð Alþýðusambandsins staðhæfði að um væri að ræða eina af „árásum íhaldsins á samtök verkalýðsins“. Það varaði verkakonur í Hafnarfirði eindregið við því að taka þátt í stofnun slíks félags og sagði svo í erindi sínu:

Jónas Guðmundsson, helsti foringi jafnaðarmanna á Norðfirði á millistríðsárunum.

Eins og ykkur er kunnugt, á það sér hvergi stað og myndi hvergi vera látið viðgangast, að fleiri en eitt verklýðsfélag sé fyrir hverja starfsgrein fyrir sig á sama staðnum, enda er engin minsta ástæða fyrir stofnun slíks félags, þar sem fólk úr öllum pólitískum flokkum hefur jafnan rétt til að ganga í verklýðsfélögin. Stofnun þessa félags mundi því eingöngu verða til sundrungar og tjóns fyrir hafnfirskan verkalýð einmitt nú, þegar honum, eins og verkalýð alls staðar annars staðar á landinu, ríður hvað mest á að standa saman sem ein órjúfandi heild utan um kröfur sínar.62

Alþýðublaðið 31. janúar 1931, 2.

Ekki varð úr stofnun félagsins og munu forystumenn Alþýðuflokksins hafa komið á stofnfundinn.63 Forystu Alþýðusambandsins var því vel ljóst hvaða afleiðingar það hafði að hafa forgöngu um að kljúfa verkalýðshreyfinguna og verður stefna hennar ekki skýrð á annan hátt en þann að hún hafi vanmetið styrk kommúnista og annarra andófsafla innan hreyfingarinnar. Margt bendir einnig til að hún hafi ekki séð fyrir hversu mikla andúð það vakti að einungis alþýðuflokksfólk gæti gegnt trúnaðarstörfum innan hreyfingarinnar og verið fulltrúar á þingum Alþýðusambandsins.

Morgunblaðið 11. nóvember 1939, 3−4.

Einna hörðust urðu átökin á milli hreyfinganna tveggja á Akureyri í tengslum við svonefnda Nóvudeilu árið 1933. Þannig var að bæjarstjórn Akureyrar hafði samþykkt að koma á atvinnubótavinnu við tunnusmíði en vildi bjóða lægra kaup en taxti Verkamannafélags Akureyrar sagði til um. Á það vildi Verkamannafélagið ekki fallast en hins vegar féllst nýstofnað Verkalýðsfélag Akureyrar, undir forystu jafnaðarmanna, á tilboð bæjarins. Í kjölfarið urðu geysiharðar deilur á Akureyri þar sem Verkamannafélagið setti uppskipunarbann á skipið Nóvu sem flutti tunnuefnið til Akureyrar. Átökunum lauk með sigri stuðningsmanna Verkamannafélagsins. Í raun stóðu deilurnar ekki nema að litlum hluta um kaupgreiðslur í atvinnubótavinnunni heldur um það hvort Verkamannafélagið, undir forystu kommúnista, héldi viðurkenningu á því að það væri samningsaðili verkamanna á Akureyri, undir forystu Verklýðssambands Norðurlands, en ekki hið nýstofnaða Verkalýðsfélag Akureyrar, undir forystu jafnaðarmanna sem Alþýðusambandið studdi. Alþýðusambandið hafði lýst því yfir að deilan væri í óþökk hennar. Fleiri svipaðar deilur, þó ekki eins harðar, urðu á þessum tíma. Til dæmis átti Sjómannafélagið á Akureyri í deilum við útvegsmenn vegna kauptryggingar árið 1935. Í miðri deilu gerði Verkalýðsfélag Akureyrar samning við útvegsmenn, að undirlagi Alþýðusambandsins, til þess að klekkja á Sjómannafélaginu. Sjómannafélagið stóðst þó raunina og tókst að halda samningsréttinum í sínum höndum en dæmið sýnir hversu óheppileg áhrif pólitískar deilur verkalýðsflokkanna gátu haft á kjarabaráttuna.64

Benedikt Sigurðsson 1990, 284−287.

Þegar Alþýðublaðið ræddi við Jón Sigurðsson, erindreka Alþýðusambandsins, snemma árs 1937 var hann nýkominn úr ferð um Norðurland þar sem hann hafði „ferðast á milli alþýðufélaganna, haldið fundi, flutt erindi, sýnt Alþýðuflokkskvikmyndir“. Jón staðhæfði að nú væri búið „að yfirvinna allar afleiðingar klofningsins“, þ.e. að vinna sigur á kommúnistum, enda væru nú yfir 20 félög á Norðurlandi í Alþýðusambandinu og í þessum félögum um 2500 manns. Jón áleit að Verklýðssamband Norðurlands væri orðið áhrifalaust og það gegndi engu hlutverki lengur. Jón bar sig vel í viðtalinu, enda hafði hann unnið ötullega á Norðurlandi að því að styrkja Alþýðusambandið og fengið í lið með sér Hannibal Valdimarsson frá Vestfjörðum, en Vestfirðingar höfðu sýnt að þeir kunnu tökin á kommúnistum og þar voru „Alþýðuflokkurinn og verkalýðssamtökin voldug og sterk“ en kommúnistar „með öllu áhrifalausir“.65 Jón hafði rétt fyrir sér í því að Verklýðssamband Norðurlands var búið að missa máttinn, ekki síst í kjölfar þess að Þróttur á Siglufirði sameinaðist Verkamannafélagi Siglufjarðar, reyndar í nafni samfylkingar verkalýðsins.

Alþýðublaðið 18. febrúar 1937, 1.

Frá Nóvudeilunni á Akureyri árið 1933. Sjá má sýslumanninn með embættishúfu sína í hópi fólk í forgrunni. Fjær sjást „hvítliðar“ lögreglunnar með kaðal strengdan sín í milli og hugðust þeir ryðja bryggjuna.

Þar með var eitt helsta félagið horfið úr röðum VSN og starfsemi þess lagðist að mestu af. Blaðið Verkamanninn lét það í hendur Sósíalistafélags Akureyrar árið 1939 og var það einn af síðustu gjörningum þess.66 Það tókst sem sagt á endanum að ráða niðurlögum VSN en á það hafði Jón lagt megináherslu eftir að hann tók við erindrekastarfi Alþýðusambandsins árið 1934. Hann var eftir það langdvölum á Siglufirði og búsettur þar 1936–1938.67 Jón bar sig vel 1937. En hefði hann vitað hvað var fram undan hefði hann sennilega ekki verið svona borginmannlegur.

Benedikt Sigurðsson 1989, 103−104.
Benedikt Sigurðsson 1990, 29−30.

Víða náðu kommúnistar og sjálfstæðismenn saman í deilunum um Alþýðusambandið, t.d. á Siglufirði árið 1936, þar sem almennur borgarafundur krafðist þess að stofnað yrði „ópólitískt landssamband verkamanna“.68 Kunnust er þó hörð deila í Hafnarfirði árið 1939 er sósíalistar og sjálfstæðismenn í sameiningu náðu meirihluta í Verkamannafélaginu Hlíf. Þeir höfðu fengið nóg af því, eins og Helgi Sigurðsson formaður Hlífar orðaði það, að allir félagsmenn hefðu „jafnar skyldur, en Alþýðuflokksmenn einir fullan rétt innan félagsins“. Ný stjórn sat ekki auðum höndum heldur vísaði tólf félagsmönnum úr félaginu og voru ástæður sagðar þær að þeir væru ekki verkamenn heldur atvinnurekendur.69 Þar mun átt við Bæjarútgerð Hafnarfjarðar og fleiri fyrirtæki tengd bæjarfélaginu sem Alþýðuflokkurinn stjórnaði, en Hafnarfirði hafði Alþýðuflokkurinn ráðið frá árinu 1926 og látið mikið að sér kveða í atvinnulífinu. Þeir menn sem vikið var úr félaginu voru allir helstu máttarstólpar Alþýðuflokksins í bænum, höfðu verið áhrifamenn í stjórn Hlífar og fulltrúar félagsins á þingum ASÍ. Meðal þeirra var verkfræðingurinn Emil Jónsson, sem var vitamálastjóri um þetta leyti, og Kjartan Ólafsson sem gegndi starfi útibússtjóra Áfengisverslunarinnar í Hafnarfirði.

Morgunblaðið 18. mars 1936, 3.
Alþýðublaðið 13. febrúar 1939.

Þessir atburðir leiddu til þess að Alþýðusambandið rak Hlíf úr sambandinu en Alþýðublaðið staðhæfði að hin nýja forysta félagsins væri ekki annað en „heimskingjar og froðusnakkar“.70 Sambandið stóð þess í stað fyrir stofnun nýs félags í Hafnarfirði, Verkamannafélags Hafnarfjarðar, og gengu á annað hundrað félagsmenn úr Hlíf í nýja félagið. Í kjölfarið gerði það kjarasamninga við fyrirtæki í Hafnarfirði sem alþýðuflokksmenn stjórnuðu. En stjórn Hlífar undi þessu ekki og bannaði að félagsmenn Hlífar ynnu með félagsmönnum Verkamannafélagsins. Félagið lét stöðva vinnu við skip Bæjarútgerðarinnar og urðu hörð átök við höfnina er reynt var að landa úr togaranum Júní. Meðal annars kom mikill liðssafnaður frá Reykjavík til Hafnarfjarðar undir forystu Héðins Valdimarssonar og varð ekkert af löndun úr skipinu. Málinu var skotið til félagsdóms sem dæmdi samninga við Verkamannafélag Hafnarfjarðar ólöglega. Eftir það lognaðist Verkamannafélag Hafnarfjarðar út af og brotthlaupsmenn gengu flestir aftur í sitt gamla félag.71

Alþýðublaðið 13. febrúar 1939, 1, 4.
Gils Guðmundsson 1957, 38−46. − Ólafur Þ. Kristjánsson
1977, 41−42. − Einnig Hulda Sigurborg Sigtryggsdóttir, 35−45.
− Benjamín Eiríksson 1939, 2−3.

Ætla má að þessi niðurstaða hafi komið Alþýðusambandinu á óvart og ljóst var að í kjölfar vinnulöggjafarinnar og viðurkenningar á rétti verkalýðsfélaganna var ekki eins rakið og áður að stofna ný verkalýðsfélög þar sem önnur voru starfandi fyrir. Með vinnulöggjöfinni var tilveruréttur verkalýðsfélaganna viðurkenndur og forgangur félagsmanna þeirra til vinnu. Hún hafði því í för með sér að óráðlegt var fyrir verkafólk að standa utan hreyfingarinnar vegna þess að það hafði þá einfaldlega minni rétt en ella. Afleiðingin varð sú að þeir sem stóðu utan hreyfingarinnar af stjórnmálaástæðum gengu inn í félögin en gerðu um leið kröfu um að þeir nytu sama réttar og aðrir félagsmenn, þ.e.a.s. að þeir væru líka kjörgengir en ekki einungis alþýðuflokksfólk hefði þann rétt.

Í þessari deilu treystust mjög böndin á milli verka manna sem studdu Sjálfstæðisflokkinn og stuðningsmanna sósíalista. Staðhæft var að foringjar Alþýðu flokksins hefðu litið á verkamenn sem studdu Sjálf stæðis flokkinn sem „óæðri manntegund“. Í þessari deilu vakti athygli ungur verkamaður að nafni Hermann Guðmundsson og sýndi hann þá í fyrsta sinn „forystu hæfileika sína í verkalýðssamtökunum á opinberum vettvangi“. Hermann studdi Sjálfstæðisflokkinn um þetta leyti, var félagi í Málfundafélaginu Þór, og átti síðar eftir að verða forseti ASÍ með stuðningi sósíalista.72

Jón Bjarnason 1946, 255−260.

Á Norðfirði náðu þessir aðilar einnig saman um ráðningu bæjarstjóra árið 1938 enda bárust jafnaðarmenn og sósíalistar á banaspjót þar í bæ og gátu alls ekki komist að sameiginlegri niðurstöðu um bæjarstjóraefni þrátt fyrir að þeir hefðu saman mikinn meirihluta í bæjarstjórninni.76 Svipuð atburðarás varð því á Norðfirði og í Hafnarfirði. Þar höfðu „sameiningarmenn“ náð yfirhöndinni í verkalýðsfélaginu en forystumenn Alþýðuflokksins dregið sig út úr starfi þess. En síðla árs 1939 mætti Jón Sigurðsson á staðinn og gekkst fyrir stofnun nýs félags ásamt forystumönnum Alþýðuflokksins þar. Um 60 manns gengu í félagið og var það tekið inn í ASÍ í ársbyrjun 1940. En félagið náði aldrei flugi og sameinaðist eldra félaginu árið 1942.74

Morgunblaðið 14. janúar 1939, 5.
Smári Geirsson 1993, 197−200.

Helstu forystumenn kommúnista á Norðfirði ári 1937. Frá vinstri eru Lúðvík Jósepsson, Jóhannes Stefánsson og Bjarni Þórðarson.

Deilur alþýðuflokksmanna og kommúnista/sósíalista áttu sinn þátt í að fleiri stjórnmálaöfl komust til áhrifa innan verkalýðshreyfingarinnar, sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn, en verkamenn úr hans röðum í Reykjavík stofnuðu Málfundafélagið Óðin árið 1938 og Málfundafélagið Þór í Hafnarfirði ári síðar. Þeir lögðu áherslu á að stéttarfélögin ættu að vera „ópólitísk“ og tóku undir þá kröfu sósíalista að aðgreina ætti Alþýðusambandið frá Alþýðuflokknum. Auk þess væri fráleitt að skattur sambandsfélaganna gengi til þess að greiða fyrir stjórnmálabaráttu Alþýðuflokksins.75

Um Óðin, sjá Sigurður Halldórsson 1943, 5−6.

Sjálfstæðisverkamenn buðu fram lista til stjórnar Verkamannafélagsins Dagsbrúnar árið 1939 og má taka undir þau orð Morgunblaðsins að fyrir „nokkrum árum hefði þetta þótt mikil tíðindi, jafnvel óeðlilegt“.76 Í þetta skipti gátu verkamenn því valið á milli þriggja lista, lista sjálfstæðisverkamanna, lista alþýðuflokksmanna og loks lista sósíalista og stuðningsmanna Héðins Valdimarssonar. Síðastnefndi listinn sigraði með nokkrum atkvæðamun en listi sjálfstæðismanna fékk fleiri atkvæði en listi Alþýðuflokksins. Þó að sjálfstæðismenn næðu ekki stjórnartaumum í félaginu má hiklaust segja að þeir hafi verið sigurvegarar kosninganna, en úrslitin hljóta jafnframt að hafa verið mikið áfall fyrir Alþýðuflokkinn. Morgunblaðið lýsti því yfir að þessi úrslit sýndu

Morgunblaðið 14. janúar 1939, 5.

hve geysimikla þýðingu það hefir að allir þeir verkamenn, sem fylgja Sjálfstæðisflokknum að málum, hafi með sjer fjelagsskap, því víst er að þetta framboð Sjálfstæðismanna er fyrst og fremst að þakka fjelagsskap þeirra hjer í bæ, málfundafjelaginu „Óðni“.77

Morgunblaðið 24. janúar 1939, 3, 6.

Í framhaldi af þessum góða árangri ákváðu fulltrúaráð Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík og Málfundafélagið Óðinn að standa fyrir hátíðahöldum 1. maí 1939, enda væri Sjálfstæðisflokkurinn „mesti verkalýðsflokkur landsins“. Þessi hátíðahöld fóru fram undir kjörorðinu „stétt með stétt“.78 Síðar á árinu voru einnig stofnuð „málfundafélög“ á nokkrum stöðum á Vestfjörðum.79 Árið 1940 var svo Landssamband sjálfstæðisverkamanna stofnað og sóttu það fulltrúar 12 félaga. Hermann Guðmundsson var kjörinn forseti sambandsins. Sambandið stóð m.a. fyrir útgáfu mánaðarblaðs sem hét Lýðfrelsið og kom það út um nokkurt skeið. Síðar (1947) var farið að helga sambandinu og málefnum sjálfstæðisverkamanna eina síðu í Morgunblaðinu.80

Morgunblaðið 27. apríl, 3, og 1. maí, 1−3, 1939.
Morgunblaðið 28. nóvember 1939, 3.
Morgunblaðið 11. júní 1940, 4, 6, og 1. maí 1947, 5. − Stétt með

Almennt má segja að Alþýðuflokknum hafi tekist fremur illa upp í baráttunni við kommúnista, nema á Vestfjörðum, þó að vissulega héldi flokkurinn alla tíð forystuhlutverki sínu. Flokknum tókst ekki að knésetja kommúnista í hinum pólitísku deilum á milli flokkanna, aðeins á Ísafirði tókst þeim að ráða við kommúnista þannig að þeir voru nánast áhrifalausir. Árið 1933 gat Alþýðusamband Vestfirðingafjórðungs sent Alþýðusambandinu eftirfarandi skeyti: „Vottum sambandinu þökk fyrir samvinnuna undanfarið. Hér ríkir eining um ákveðna og hiklausa baráttu fyrir málum alþýðunnar undir merki Alþýðusambands Íslands.“ Stoltið leynir sér ekki í þessum línum og kannski líka viss skammtur af stærilæti.81

Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, ýmis gögn 1924−1939.
Þingtíðindi 4. þings Alþýðusambands Vestfirðingafjórðungs.

Annars staðar tókst kommúnistum að verða mikilvægt stjórnmálaafl sem ekki var hægt að líta fram hjá.82 Sennilega hefði vígstaða Alþýðuflokksins innan verkalýðshreyfingarinnar orðið betri ef ljáð hefði verið máls á því að hleypa öðrum sjónarmiðum að innan Alþýðusambandsins og takast á við þau öfl þar fremur en að gefa andstæðingunum svo auðveldan höggstað á sér. Á hinn bóginn var skiljanlegt að þessi leið skyldi farin, svipað og í Danmörku og Svíþjóð og síðar í Noregi, en í öllum þessum löndum urðu flokkar kommúnista áhrifalausir smáflokkar.83 Að því stefndu alþýðuflokksmenn einnig hér á landi og ætluðu að fara að ráðum Thorvalds Stauning sem sagði í viðtali við Alþýðublaðið í júlí 1939 að hér á landi „væri ekki barist nógu ákveðið á móti kommúnismanum“. Þrátt fyrir að mikið væri reynt til að fylgja þeirri fyrirmynd náðu jafnaðarmenn á Íslandi ekki sama árangri. Þeir höfðu einfaldlega ekki nægilegan styrk til þess að vinna sigur, svipað og í nágrannalöndunum, enda voru aðstæður aðrar hér á landi.84

Sjá m.a. Þór Indriðason 1996 II, 100.
Sjá m.a. Alþýðublaðið 31. júlí 1939.
Sjá Alþýðublaðið 31. júlí 1939, 3.

Er leið á fjórða áratuginn breyttist stefna kommúnista og þeir fóru að leggja áherslu á samstarf gegn fasisma, líkt og kommúnstahreyfingin gerði almennt. Þessar áherslur sjást hér í þessari 1. maí-göngu, líklega árið 1936. Varnarlið verkalýðsins í forgrunni.

Samfylkingin

Frá stofnun Kommúnistaflokksins og fram til 1933 hafði afstaða kommúnista til jafnaðarmanna verið hörð og ósveigjanleg; sósíaldemókratar voru taldir höfuðstoð auðvaldsins, „svívirðilegustu verkalýðssvikarar og verkalýðnum margfalt hættulegri en römmustu íhaldssálir“, eins og einn andstæðingur þeirra lýsti stefnu þeirra.85 Þessi stefna var vitaskuld erfið í framkvæmd, enda logaði Kommúnistaflokkurinn í illdeilum og framámenn í flokknum sem ekki voru dús við stefnuna voru reknir fyrir ýmsar yfirsjónir eða þeim hótað brottrekstri, til dæmis Einari Olgeirssyni. Einar slapp þó, en konu hans, Sigríði Þorvarðardóttur, var vikið úr flokknum, svo og mörgum öðrum, t.d. Ottó N. Þorlákssyni. Sumir sluppu þó með ítarlega sjálfsgagnrýni sem birtist í Verklýðs-blaðinu. Óskar Guðmundsson segir að flokkurinn hafi verið „á góðri leið með að fyrirfara sér í þessu pólitíska ofstæki“.90 Frá þessu skýrði Alþýðublaðið skilmerkilega og hefur greinilega haft tengiliði innan flokksins.87 En um þetta leyti breytti Alþjóðasamband kommúnista, Komintern, um stefnu. Í stað baráttu gegn jafnaðarmönnum skyldi nú leggja höfuðáherslu á samfylkingu gegn fasisma en taka upp samvinnu við jafnaðarmenn og aðra lýðræðissinna.88

Alþýðublaðið 24. janúar 1933, 3.
Þór Indriðason 1996 II, 97−104.
Alþýðublaðið 22. maí 1934, 1.
Um þessi efni, starfsemi kommúnista, líkur á byltingu og
tengslin við Sovétríkin, sjá einnig Þór Whitehead 2010, Jón
Ólafsson 2010 og Kjartan Ólafsson 2011.

Frá miðjum fjórða áratugnum var því unnið að því af hálfu kommúnista að auka samstarf verkalýðsflokkanna í samræmi við samfylkingarlínu Komintern sem kom eins og „himnasending“ fyrir Kommúnistaflokkinn.89 Þessi stefna hafði hljómgrunn innan verkalýðshreyfingarinnar og beggja flokkanna, ekki síst meðal almennra flokksmanna og innan einstakra deilda flokkanna. Svo var til dæmis á Húsavík en þar tókst samvinna kommúnista, jafnaðarmanna og jafnvel framsóknarmanna á fjórða áratugnum í sveitarstjórnarmálefnum.90 Svipað gerðist einnig í Vestmannaeyjum þar sem jafnaðarmenn og kommúnistar hófu samstarf síðla árs 1935, og á Eskifirði tóku jafnaðarmenn og kommúnistar einnig upp samvinnu í árslok 1935. Í upphafi árs 1936 var tekin upp sams konar samvinna á Sauðárkróki.91 Og í forystu Iðju, félags verksmiðjufólks í Reykjavík, var hnökralítil samvinna kommúnistans Björns Bjarnasonar og jafnaðarmannsins Runólfs Péturssonar um miðjan fjórða áratuginn. Félagið tók jafnvel þátt í ráðstefnum og þingum beggja fylkinga um svipað leyti.92

Óskar Guðmundsson 1987, 21.
Þór Indriðason 1996 II, 97−104.
Stefán Hjálmarsson 1978, 7−9.
Sjá m.a. Ingólfur V. Gíslason 1994, 103−108.

Innan Alþýðuflokksins/sambandsins vildi forystan ekkert með kommúnista hafa.93 Hún taldi fullskammt liðið frá því að jafnaðarmenn voru nefndir sósíalfasistar, þrælar borgarastéttarinnar og „leiguþý breska heimsveldisins“, en þar hafði verið átt við Héðin Valdimarsson.94 Margt benti til að gengi kommúnista færi þverrandi. Þeim vegnaði ekki vel í kosningunum 1934 og allt logaði í illdeilum og ofstæki innan flokksins. Því bæri ekki að taka tillit til tillagna kommúnista.95 Auk þess taldi forysta Alþýðusambandsins kommúnista vinna gegn hagsmunum verkafólks, jafnvel með höfuðandstæðingunum í stjórnmálum, sjálfstæðismönnum og þjóðernissinnum.96 Þó voru skiptar skoðanir innan forystu flokksins og ljóst að meiningarmunur var á milli varaformanns og formanns, Héðins Valdimarssonar og Jóns Baldvinssonar. Héðinn gaf kost á samvinnu við kommúnista, a.m.k. stundum, en það gerði Jón ekki. Á milli þeirra tveggja hefur einnig verið valdabarátta sem kom m.a. fram á þingi ASÍ árið 1932 þegar kosið var á milli Héðins og Jóns til forseta sambandsins; fékk Héðinn 28 atkvæði en Jón sigraði með miklum mun og fékk 47 atkvæði.97 Afstaða forystunnar til kommúnista var í stuttu máli sú að þeir væru ekkert annað en sundrungarafl sem aðeins bæri í brjósti „pólitíska stundarhagsmuni þeirrar fámennu klíku, sem nefnir sig K.F.Í., en metur að engu þær stórfeldu hagsbætur sem verkalýðurinn hefur náð“.98

ÞÍ. Stjórn ASÍ til félaga 22. apríl 1933. Sögus. verkal. A01:
22/5. Skrifstofa. Ýmis félagsmál. Stjórnmál 1916−1976.
Alþýðublaðið 17. nóvember 1935, 2−3. − Morgunblaðið 28.
nóvember 1930, 2. − Sjá einnig Þór Whitehead 1979, 60−61.
Benedikt Sigurðsson 1990, 28−29.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 13 sambandsþing 1936, 56.
Stefán Jóhann Stefánsson 1966, 126.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 12. sambandsþing 1934, 60.

Þegar Verklýðssamband Norðurlands samþykkti tilboð til Alþýðusambandsins á þingi sínu í mars 1936 um sameiningu við ASÍ á þeim grundvelli að allir meðlimir hefðu sömu réttindi urðu undirtektir því litlar.99 Í stefnuyfirlýsingu frá þingi ASÍ síðar sama ár var samstarfi við kommúnista hafnað með öllu. Ekki væri hægt að treysta flokki sem stefndi að flokkseinræði, flokki sem ekki væri „sjálfur ráðandi gerða sinna og stefnu, en er stjórnað af miðstöð í erlendu einræðisríki“.100 Í því ríki, þ.e. Sovétríkjunum, væri ástandið skelfilegt, búið væri að „þurka út – senda í útlegð og lífláta – flesta aðalfrömuði byltingarinnar 1917, og yfirleitt þá mennina, sem helzt hafa kynni af Vestur-Evrópumálum“.101

Stefán Hjálmarsson 1978, 9.
100 Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 13. sambandsþing 1936, 117.
101 Skýrsla Jóns Baldvinssonar forseta, flutt á 13. þingi Alþýðusam-

Jón Baldvinsson hafði á orði á þingi Alþýðusambandsins árið 1936 að einstöku maður í Alþýðuflokknum hefði „hallast að því, að taka beri samfylkingarboði kommúnista“.102 Stuðningsmenn samstarfs úr Alþýðuflokknum stóðu m.a. fyrir útgáfu blaðsins Samfylking í apríl 1936 þar sem hvatt var til samstarfs flokkanna. Slíkt frumkvæði var þó ekki vel séð, enda kvaðst forseti ASÍ vera sannfærður um að samfylkingarhjal kommúnista væri eingöngu gert til þess að „smjúga inn til alþýðuflokkanna, til þess að taka sér þar bólfestu … [og] ná fólkinu frá alþýðuflokkunum yfir til kommúnista“.103 Forsvarsmönnun þessa framtaks var gert að taka pokann sinn og yfirgefa flokkinn. Þeir sem þar voru í brúnni voru m.a. hinn margreyndi Pétur G. Guðmundsson og Árni Ágústsson sem þá var ritari Dagsbrúnar. Þegar þetta gerðist var varaforseti ASÍ, Héðinn Valdimarsson, ekki enn genginn hugmyndum um samfylkingu á hönd og stóð hann m.a. að brottrekstri þeirra félaga.104

102 Skýrsla Jóns Baldvinssonar forseta, flutt á 13. þingi Alþýðusam-
103 Skýrsla Jóns Baldvinssonar forseta, flutt á 13. þingi Alþýðusam-
104 Stefán Hjálmarsson 1978, 9. − Þór Indriðason 1996 II, 128. −
Sjá einnig Alþýðublaðið 13. janúar 1937.

Héðinn Valdimarsson heldur ræðu á 1. maí árið 1936.

Kommúnistaflokkurinn lét sem frávísanir Alþýðuflokksins kæmu honum ekki við og hvatti sífellt til samstarfs, m.a. fyrir alþingiskosningarnar 1937. Meðal annars eggjaði flokkurinn stuðningsmenn sína í kjördæmum þar sem hann hafði lítið fylgi til þess að styðja annaðhvort frambjóðendur Alþýðuflokksins eða Framsóknarflokksins og reyna þar með að hindra að fulltrúar „Breið fylkingarinnar“, bandalags Sjálfstæðisflokksins, Bænda flokksins og þjóðernissinna, næðu árangri.105 Þessi „taktík“ kommúnista og málflutningur þeirra um samstarf og samfylkingu hafði án efa áhrif á marga alþýðuflokksmenn sem ekki voru einarðir í andstöðu sinni við kommúnista, enda kom ágreiningur verkalýðsflokkanna mörgu verkafólki spánskt fyrir sjónir. Það taldi að meira sameinaði þá en sundraði og skildi ekki um hvað var eiginlega deilt.106

105 Stefán Hjálmarsson 1978, 6.
106 Sjá m.a. Alþýðublaðið 15. mars 1938, 3.

Í kosningum til Alþingis 1937 komst Kommúnistaflokkurinn á blað í fyrsta sinn. Hann fékk kjörna þrjá þingmenn og 8,5% atkvæða og var þá „dregið rautt strik þvert um Íslandssöguna“, sagði kommúnistinn Tryggvi Emilsson.107 Fyrir aðra verkalýðssinna, jafnaðarmennina, voru þessar kosningar ekki gleðiefni. Alþýðuflokkurinn tapaði töluverðu fylgi, ekki síst í höfuðborginni þar sem flokkurinn fékk tæplega 1000 atkvæðum minna fylgi en í kosningunum 1934 (19% í stað 21,7%) og átta þingmenn alls.108 Þá höfðu einnig gerst þau stórtíðindi að öflugasta verkalýðsfélag landsins, Verkamannafélagið Dagsbrún, hafði samþykkt að skora á verkalýðsflokkana tvo

107 Tryggvi Emilsson 1977, 308.
108 Alþýðublaðið 21. júní 1937, 1.

að ganga nú þegar til endanlegra samninga um tafarlausa sameiningu flokkanna í einn sameinaðan alþýðuflokk, er starfi á lýðræðisgrundvelli, án innbyrðis flokkadrátta og í einu stjórnmálafélagi í hverju kjördæmi, að sigri og valdatöku alþýðunnar. Nú þegar verði því skipulagi komið á hin faglegu og pólitísku samtök alþýðunnar, að þau verði sem styrkust í baráttunni og engum háð, nema meðlimum þeirra, íslenzkri alþýðu.109

109 Alþýðublaðið 16. júlí 1937, 1.

Forgöngu um samþykkt tillögunnar hafði formaður Dagsbrúnar og varaforseti ASÍ, Héðinn Valdimarsson.110

110 Þorleifur Friðriksson 1987, 36−37.

Um þetta leyti hafði versnað mjög samkomulag stjórnarflokkanna, Alþýðuflokks og Framsóknarflokks, en vinstri armur Alþýðuflokksins, með Héðin Valdimarsson í broddi fylkingar, áleit heppilegast fyrir flokkinn að vera í stjórnarandstöðu.111 Á sambandsþingi ASÍ 1936 höfnuðu þingfulltrúar tillögum um sameiningu flokkanna en ákveðið var að halda aukaþing Alþýðusambandsins árið 1937 um þetta efni og stjórnarsamvinnuna við Framsóknarflokkinn. Svo fór að meirihluti sambandsstjórnar ASÍ ákvað, líklega nauðugur viljugur, að rétt væri að láta reyna á sameiningu við kommúnista. Var meginefni aukaþingsins sameiningarmálið, en þingið var haldið fyrstu dagana í nóvember. Forysta Alþýðusambandsins hefur greinilega talið óráðlegt að skella skollaeyrum við víðtækum kröfum innan verkalýðshreyfingarinnar um samvinnu og samstarf verkalýðsflokkanna og átti sú krafa m.a. rætur í vaxandi ótta við uppgang og sigra fasismans víða í Evrópu, t.d. í einu helsta viðskiptalandi Íslendinga, Spáni.

Skúli Þórðarson 1966, 25.

Sumarið 1937 höfðu báðir flokkar skipað fulltrúa í viðræðunefnd um hugsanlega sameiningu. Alþýðublaðið hvatti til sameiningar þá um haustið, enda væri verkalýðurinn farinn að skilja „hvílík ógæfa það hefir verið að fylkja liði sínu í tveimur sveitum“. Þar mætti til dæmis læra af ógæfu Þýskalands. Þá hafi kommúnistar lýst sig fylgjandi lýðræðinu.112 Helstu ágreiningsmál flokkanna vörðuðu hversu hratt skyldi unnið að sameiningu – Alþýðuflokkurinn vildi ganga frá þessum málum með hraði en Kommúnistaflokkurinn vildi fara hægar í sakirnar, a.m.k. í fyrstu, og láta reyna fyrst á samvinnu flokkanna.113 Í viðræðum á milli þeirra styttist bilið á ýmsum sviðum en annars staðar gekk miður. T.d. munu kommúnistar hafa reynt að fá einhverja tryggingu fyrir því að þeir yrðu ekki beittir meirihlutavaldi, enda hefðu þeir orðið í umtalsverðum minnihluta innan hins nýja flokks. Þess konar „tryggingu“ mátti alþýðuflokksforystan ekki heyra nefnda og túlkaði þá beiðni á þann hátt að kommúnistar krefðust þess að fá neitunarvald innan flokksins. Auk þess voru ýmis önnur stór mál sem ágreiningur var um, t.d. hvernig ætti að orða að flokkurinn starfaði á lýðræðisgrundvelli. Líka var ágreiningur um flokksforystuna, ritstjórn Alþýðublaðs-ins, skipulagsmál ASÍ og afstöðuna til Sovétríkjanna.114 Á aukaþingi ASÍ var samþykkt ný stefnuskrá Alþýðuflokksins sem af hans hálfu var hugsuð sem grundvöllur ef kæmi til sameiningar flokkanna tveggja. Við gerð hennar var m.a. höfð hliðsjón af róttækri stefnuskrá Verkamannaflokksins norska.

Alþýðublaðið 2. september 1937, 3.
Stefán Hjartarson, handrit, 587−589.
Sjá m.a. Alþýðublaðið 1. nóvember 1937, 1, 3. − Alþýðublaðið 4.
október 1937, 1. − Hvers vegna var Héðni Valdimarssyni vikið

Frá fundi þjóðernissinna, trúlega á 1. maí, um miðjan fjórða áratuginn, undir kjörorðinu „Íslendingar allra stétta sameinist“. Flokksmenn eru einkennisklæddir og hafa greinilega fjölda áheyrenda.

Bollaleggingar um sameinaðan verkalýðsflokk voru komnar svo langt að komið var nafn á hann, Alþýðuflokkur Íslands (sósíalistaflokkur Íslands). Átti að leggja félög og deildir flokkanna niður en stofna ný í þeirra stað. Hin nýja stefnuskrá og samfylkingarstefnan var samþykkt með miklum meirihluta atkvæða á aukaþingi ASÍ. „Já“ sögðu 138 fulltrúar og höfðu þeir rúm 9000 atkvæði á bak við sig, en „nei“ sögðu aðeins fjórir sem höfðu um 250 atkvæði á bak við sig. Skilyrði af hálfu þingsins fyrir sameiningu voru þau að Kommúnistaflokkurinn féllist í aðalatriðum á „sameiningarstefnuskrá“ Alþýðusambandsins, að sameiningin færi fram að loknu flokksþingi Kommúnistaflokksins og ekki síðar en 1. desember, og loks að í stjórn hins nýja flokks sætu 17 fulltrúar Alþýðuflokks en átta frá Kommúnistaflokknum. Við val í trúnaðarstöður átti almennt að gilda hlutfallið 5:11. Þá átti að sameina blöð og tímarit flokkanna.115 Alþýðublaðið lýsti því yfir að æskilegt væri að sameiningin tækist sem fyrst, ekki síst vegna bæjar- og sveitarstjórnarkosninganna sem fram undan voru, og héðan af ætti ekkert „að geta tafið sameininguna“. Næstu vikurnar hvatti blaðið kommúnista eindregið til að taka af skarið og samþykkja sameiningu.116

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 14. sambandsþing
Alþýðublaðið 11. og 17. nóvember 1937.

Hluti af sameiningarferlinu voru sameiginleg framboð vegna sveitarstjórnarkosninga sem fara áttu fram í janúar 1938. Sameiginlegir listar jafnaðarmanna og kommúnista voru víða um land, t.d í Reykjavík, á Ísafirði, Siglufirði, Hafnarfirði, Norðfirði og Patreksfirði, en auk þess með framsóknarmönnum í Keflavík, Borgarnesi, á Sauðárkróki og Eyrarbakka. Þessi tilraun gekk þó misjafnlega. Í Reykjavík fékk sameiginlegi listinn heldur færri atkvæði en listar beggja flokkanna í næstu kosningum á undan, enda tæplega að undra vegna þess að sumir helstu forystumenn Alþýðuflokksins beittu sér gegn framboðinu og lýstu því yfir tveimur dögum fyrir kjördag að fulltrúar þeirra á listanum mundu ekki starfa með fulltrúum kommúnista. Stefán Jóhann Stefánsson sagði að „samvinnan“ hefði verið „ömurleg“, enda hefði hún verið knúin fram „með offorsi“. Annars staðar vegnaði þessum framboðum víða vel og náðu sum þeirra jafnvel hreinum meirihluta þó að á ýmsu ylti með samstarfið í kjölfar kosninganna. Sums staðar fór þó allt í bál og brand að kosningum loknum.117

Sjá m.a. Héðinn Valdimarsson 1938, 117−118, 128−130. −
1938, 1. − Alþýðublaðið 3. janúar 1939, 2−3. − Þorleifur Frið-
riksson 1987, 42−43. − Skúli Þórðarson 1966, 25. − Þingtíðindi
Hjartarson, handrit, 599−601.

En flokkarnir náðu ekki saman fyrir tilsettan tíma. Kommúnistaflokkurinn óskaði þó eftir áframhaldandi viðræðum við Alþýðuflokkinn um nokkur meginmál sem samstaða yrði að nást um: stefnuskráratriði sem enn væri ágreiningur um, starfsskrá og afstöðu til ríkisstjórnar, skipulagsform og tryggingu fyrir „raunhæfu“ samstarfi flokkanna, þ.e. að Alþýðuflokkurinn „misbeiti ekki því meirihlutavaldi, er þeir fengju gagnvart kommúnistum í stjórn hins sameinaða flokks“.118 Þegar þetta svar lá fyrir áleit meirihluti sambandsstjórnar ASÍ/Alþýðuflokks að þýðingarlaust væri að halda viðræðum áfram. Að tillögu Héðins Valdimarssonar voru þó settar niður nefndir til þess að ræða helstu ágreiningsmálin. Eftir að málin höfðu verið rædd í þessum nefndum var það niðurstaða fulltrúa Alþýðuflokksins að þýðingarlaust væri að halda viðræðum áfram og var Ingimari Jónssyni og Finnboga Rúti Valdemarssyni falið að gera drög að bréfi til að tilkynna kommúnistum um þá niðurstöðu Alþýðuflokksins að öllum viðræðum yrði hætt.119

Hvers vegna var Héðni Valdimarssyni vikið úr Alþýðuflokkn-
Hvers vegna var Héðni Valdimarssyni vikið úr Alþýðuflokkn-

Helstu forystumenn Alþýðuflokksins hafa vafalaust andað léttar eftir að sú ákvörðun hafði verið tekin, enda sannfærðir um að sameiningarviðleitni kommúnista væri ekki annað en blekkingarleikur sem kæmi í veg fyrir samstarf við þann flokk sem alþýðuflokksforystan áleit standa sér næst, Framsóknarflokkinn.120

120 Valdimar Unnar Valdimarsson 1984, 48−49.

Héðinn var ekki sáttur við þá ákvörðun að slíta viðræðum við kommúnista og hélt þeim áfram á eigin spýtur, og einhverjar þreifingar voru áfram á milli flokkanna. Í ársbyrjun 1938 studdi forysta Alþýðuflokksins enn sameiginlega lista flokkanna en ljóst mátti vera að Héðinn var á hraðri leið frá fyrri félögum og hann gagnrýndi andstæðinga sína innan forystu Alþýðuflokksins opinskátt. Jafnframt sagði hann sig frá ábyrgðum fyrir Alþýðublaðið eftir að blaðið hafði neitað að birta eftir hann grein um sameiningarmálin. Greinin birtist síðar sem viðtal í Þjóðviljanum. Það var svo í fyrri hluta febrúar 1938 sem Héðni var tilkynnt að sambands stjórnin hefði ákveðið að víkja honum úr flokknum fyrir þær sakir að brjóta samþykktir sambandsþings, standa fyrir klíkustarfsemi innan flokksins, birta árásir á flokkinn í blaði andstæðinganna (Þjóðviljanum) og loks fyrir að reyna að gera Alþýðublaðið og Alþýðuprentsmiðjuna gjaldþrota með uppsögn ábyrgða vegna fyrirtækjanna. Meirihluti sambandsstjórnar staðhæfði að ljóst væri að „sameiningaráhugi H.V. … [væri] fyrst og fremst sprottinn af persónulegum valdatilhneigingum hans sjálfs. Hann sá í þeim tækifæri til að losna við Jón Baldvinsson og aðra í Alþýðuflokknum, sem hann var óánægður með“.121

Hvers vegna var Héðni Valdimarssyni vikið úr Alþýðuflokkn-
Þorleifur Friðriksson 1987, 42−43.

Jón Baldvinsson, forseti ASÍ, stóð í harðri baráttu innan flokks síns eftir miðjan fjórða áratuginn um það hvort hefja ætti samstarf við kommúnista. Jón var því mótfallinn en deilurnar leiddu til þess að flokkurinn klofnaði. Jón lést eftir veikindi 17. mars 1938 og hafði þá verið forseti ASÍ í tæp 22 ár.

Stefán Jóhann Stefánsson, forseti ASÍ 1938–1940.

Það hlýtur að hafa verið erfið ákvörðun að standa að brottrekstri Héðins, og ekki bara hans; félög sem studdu sameiningu flokkanna, t.d. Jafnaðarmannafélag Reykjavíkur með mörg hundruð félagsmönnum, voru einnig rekin en í stað þess stofnað Alþýðuflokksfélag Reykjavíkur.122 Þessar brottvikningar voru staðfestar á þingi ASÍ haustið 1938 en stuðningsmenn Héðins sem höfðu verið kjörnir til setu á þinginu, ríflega 80 talsins, ákváðu að taka þar ekki sæti og var raunar meinaður aðgangur að þingstaðnum með aðstoð lögreglu að undirlagi meirihluta sambandsstjórnarinnar þegar þeir ætluðu að ganga fylktu liði inn í þingsalinn.123

122 Héðinn Valdimarsson 1938, 143−144. − Alþýðublaðið 21.
febrúar 1938, 1.
Héðinn Valdimarsson 1938, 162−163. Ítarleg umfjöllun um
þetta mál er í Hulda Sigurborg Sigtryggsdóttir 1991, 26−32. −
Benedikt Sigurðsson 1990, 78.

Héðinn Valdimarsson hafði um langt árabil verið einn helsti leiðtogi Alþýðuflokksins og formaður eins stærsta stéttarfélags landsins. Hann naut einnig lýðhylli sem fulltrúi hinna róttæku innan Alþýðuflokksins og nafn hans var nátengt verkamannabústöðunum í Reykjavík sem voru í senn tákn fyrir nýtt og betra líf verkafólks. Meirihlutanum í sambandsstjórn ASÍ hlýtur að hafa verið ljóst að Héðinn mundi ekki láta þar við sitja heldur ganga til samstarfs við kommúnista um myndun nýs flokks og að margir alþýðuflokksmenn mundu fylgja honum. Sú varð einmitt raunin og í kjölfarið fylgdu mikil átök sem voru bæði Alþýðuflokki og -sambandi erfið. Til dæmis beitti Héðinn, og stuðningsmenn hans, sér fyrir því að Jóni Baldvinssyni, forseta ASÍ, var hótað brottrekstri úr Dagsbrún. Héðinn staðhæfði reyndar að aldrei hefði orðið af honum, enda var Jón orðinn veikur um þessar mundir.124 Jón Baldvinsson lést í mars 1938 en Stefán Jóhann Stefánsson tók við sem forseti Alþýðusambandsins, en hann hafði áður verið ritari þess.125

124 Héðinn Valdimarsson 1938, 139.
Alþýðublaðið 17. mars 1938, 1.

Þegar litið er yfir þessi málefni löngu síðar virðist að í raun hafi ekki borið mikið á milli í stefnu flokkanna.126 Hins vegar mun forysta Alþýðuflokksins hafa óttast að afar erfitt yrði fyrir hinn nýja flokk að halda uppi ríkisstjórnarsamstarfi við Framsóknarflokkinn, sem var talinn hinn eðlilegi bandamaður Alþýðuflokksins, og Héðinn Valdimarsson var sakaður um að hafa unnið gegn samstarfi flokkanna. Helstu forystumenn Alþýðuflokksins töldu að sameining flokkanna mætti ekki koma í veg fyrir að slík samvinna gæti haldið áfram, enda væri hún forsenda fyrir þátttöku Alþýðuflokksins í ríkisstjórn.127 Þó má nefna að á nokkrum stöðum á landinu tókst einmitt samstarf fulltrúa þessara þriggja flokka, sem fyrr er getið.128

126 Sjá Þorleifur Friðriksson 1987, 37 og áfram.
127 Sjá m.a. Ingimar Jónsson 1938, 3.
128 Sjá m.a. Héðinn Valdimarsson 1938, 117, 136.

Aðgöngumiði á þing ASÍ árið 1938.

Þær urðu lyktir þessara deilna að Kommúnistaflokkur Íslands var lagður niður í október 1938 og Sameiningarflokkur alþýðu − Sósíalistaflokkurinn stofnaður á grunni hans í samvinnu við sameiningarsinna úr Alþýðuflokki. Samkvæmt lögum flokksins átti hann að standa utan allra alþjóðasambanda. Héðinn Valdimarsson varð formaður hins nýja flokks. Þann stól vermdi hann þó ekki lengi. Rúmu ári síðar yfirgaf hann flokkinn vegna ágreinings um afstöðu til finnsk-rússneska stríðsins og griðasamnings Sovétríkjanna og Þýskalands. Í þeirri deilu tóku kommúnistar og stuðningsmenn þeirra afstöðu með Sovétríkjunum. Héðni fylgdu nokkrir gamlir félagar, m.a. Pétur G. Guðmundsson, en aðrir róttækir jafnaðarmenn héldu áfram störfum innan Sósíalistaflokksins. Þar með yfirgaf Héðinn vettvang stjórnmálanna að mestu og hafði þá verið einn litríkasti og umdeildasti stjórnmálamaður og verkalýðsleiðtogi landsins í tvo áratugi, formaður Verkamannafélagsins Dagsbrúnar og varaforseti ASÍ um langt árabil. Eftir þetta einbeitti hann sér að rekstri fyrirtækis síns, Olíuverslunar Íslands.

Eftir öll þessi átök voru samskipti Alþýðuflokksins og Sósíalistaflokksins afleit, svo afleit að árið 1940 samþykkti þing Alþýðusambandsins ályktun þess efnis að taka ætti „upp fullkomið eftirlit með þeim mönnum og samtökum, sem aðhyllast erlendar ofbeldisstefnur, og gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir þjóðhættulega starfsemi“. Bæri í því skyni að setja lög á Alþingi „til verndunar lýðræðinu í landinu og öryggi ríkisins“.129 Ekki leikur vafi á að þessari ályktun var aðallega beint gegn sósíalistum, enda staðhæfði Alþýðublaðið að við „kommúnista“ þýddu „engar aðferðir nema þær sem gera þá óskaðlega“.130

129 Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 16. sambandsþing 1940, 62.
130 Alþýðublaðið 14. nóvember 1940, 3.

Skilið á milli

Eftir að Héðinn Valdimarsson hafði endanlega verið rekinn úr Alþýðusambandinu síðla árs 1938 og Sósíalistaflokkurinn settur á stofn hörðnuðu enn átök innan margra verkalýðsfélaga. Verkamannafélagið Dagsbrún sagði sig úr Alþýðusambandinu snemma árs 1938, enda gæti það ekki verið meðlimur „stofnunar þeirrar sem Stefán Jóhann Stefánsson er forseti fyrir og nefnir sig Alþýðusamband Íslands“.131 Félagið hafði frumkvæði að samstarfi verkalýðsfélaga sem voru utan heildarsamtakanna. Fulltrúum Dagsbrúnar og fleiri verkalýðsfélaga hafði verið meinað að taka þátt í þingi ASÍ árið 1938.132 Félögin óskuðu eftir því að Alþýðusambandið hæfi við þau viðræður um hvernig breyta mætti ASÍ þannig að það yrði óháð stjórnmálaflokkum. Ekki varð sambandið við því og leiddi það til stofnunar Landssambands íslenskra stéttarfélaga í nóvember árið 1939 (fyrst nefnt Varnarbandalag verkalýðs- og iðnfjelaga eða Vináttubandalag verkalýðsfélaganna) og var Þorsteinn Pétursson þar í forsvari. Um 20 verkalýðsfélög stóðu að því. Auk Dagsbrúnar tóku félög eins og Hlíf í Hafnarfirði, Félag járniðnaðarmanna í Reykjavík, Verkamannafélagið á Akureyri og Verkakvennafélagið Eining þar í bæ þátt í stofnun sambandsins, einnig félögin í Vestmannaeyjum, á Siglufirði og Norðfirði. Um 5000 manns voru félagar í þessum stéttarfélögum. Starfsmaður sambandsins var Benjamín H. J. Eiríksson, hagfræðingur.133

Þjóðviljinn 31. janúar 1938, 3.
Þjóðviljinn 21. og 22. október 1938.
ÞÍ. Bréf Varnarbandalagsins til félaga. Sögus. verkal., A53:
24/1. Sveinafélag húsgagnasmiða. Skrifstofa. Bréfasafn. −
196. − Tryggvi Emilsson 1977, 310−311. − Héðinn Valdimars-
son 1938, 167−168. − Sjá einnig Hulda Sigurborg Sigtryggs-
dóttir 1991, 32−34. − Þorleifur Friðriksson 1987, 73.

En nú var farið að styttast í breytingar hjá Alþýðusambandinu. Hlífardeilan, sem fyrr er getið, sýndi forystu Alþýðuflokksins að staðan var tvísýn, jafnvel töpuð, og staða Alþýðuflokksins innan verkalýðshreyfingarinnar fór hríðversnandi; brotthvarf Dagsbrúnar sýndi líka að skákin var töpuð þó að ekki gerðu sér allir grein fyrir því. Dagsbrún hafði ætíð verið flaggskip ASÍ og verkalýðshreyfingarinnar. ASÍ reyndi að leita sér nýrra bandamanna og alþýðuflokksforystan hóf því baráttu fyrir því að leiða sjálfstæðismenn frá villu síns vegar og reyna að fá þá til að hætta öllu samstarfi við kommúnista innan verkalýðshreyfingarinnar. Slíkt samstarf hefði í för með sér „vöxt byltingarhættunnar í landinu“ og hættu á að það láglaunafólk, sem áður hafði fylgt Sjálfstæðisflokknum að málum, gengi í lið með kommúnistum. Jafnframt var reynt að sannfæra sjálfstæðismenn um að útilokunarákvæðin sem voru sett 1930 hefðu eingöngu verið sett vegna kommúnistanna og hefðu verið „nauðvörn þess hluta verkalýðsins, sem vildi starfa á lýðræðisgrundvelli“. Útilokunarákvæðunum hefði því ekki verið beint gegn sjálfstæðismönnum, enda hefði ríkt „fullkomin vinsemd og jafnrétti með Alþýðuflokksmönnum og Sjálfstæðismönnum“.134 Sjálfstæðismenn yrðu því að velja hvort þeir vildu starfa með alþýðuflokks- og framsóknarmönnum og hafna með öllu samstarfi við kommúnista eða halda slíku samstarfi áfram og eyðileggja verkalýðshreyfinguna.135

134 Finnur Jónsson 1939, 3.
Jónas Guðmundsson, 1939, 3 (Sjálfstæðisflokkurinn og „tog-
steitan“ um verkalýðsfélögin).

Vorið 1939 mynduðu Framsóknarflokkur, Alþýðuflokkur og Sjálfstæðisflokkur saman ríkisstjórn, hina svonefndu þjóðstjórn. Í sambandi við stjórnarmyndunina samdi forysta Alþýðuflokksins við Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn um að tengslin milli Alþýðuflokks og Alþýðusambands yrðu endurskoðuð. Þá var komið fram frumvarp á Alþingi þar sem gert var ráð fyrir skilnaði á milli flokks og hreyfingar og mátti ætla að meirihluti væri á Alþingi fyrir því að skilja Alþýðuflokk og Alþýðusamband að með breytingum á vinnulöggjöfinni.136 Tillaga flutningsmanns, Bjarna Snæbjörnssonar, var svohljóðandi: „Að allir fjelagsmenn skuli hafa jafnan rjett til allra trúnaðarstarfa í [verkalýðs]fjelaginu og stjettarsamböndum án tillits til stjórnmálaskoðana.“137 Sjálfstæðismenn lýstu því þó yfir að þeir væru tilbúnir til þess að draga frumvarpið til baka ef samningar tækjust við Alþýðuflokkinn um að gera breytingar á skipulagi Alþýðusambandsins.138 Svo fór að frumvarpið var afgreitt með rökstuddri dagskrá en í henni kom fram sá vilji Alþingis að skipulagi sambandsins yrði breytt. Í þessu ljósi verður að líta á skipun milliþinganefndar Alþýðusambandsins vorið 1939 sem hafði það hlutverk að fara yfir skipulagsmál sambandsins undir forystu Ingimars Jónssonar skólastjóra.139

136 Alþt. A 1939, 590−592.
Morgunblaðið 9. nóvember 1939, 3.
138 Morgunblaðið 21. nóvember 1939, 3.
139 Morgunblaðið 13. nóvember 1940, 3. − Alþýðublaðið 4. maí
1939, 3.

Benjamín Eiríksson, starfsmaður Landssambands íslenskra stéttarfélaga og síðar bankastjóri.

Aðildarfélög í Landssambandi íslenskra stéttarfélaga og félagafjöldi, mun færri voru þarna á skrá en í ASÍ á sama tíma; árið 1940 voru á fjórtánda þúsund félaga í ASÍ.

Í tengslum við þetta samkomulag var einnig samið um að „lýðræðisflokkarnir“, Alþýðuflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, skyldu vinna að því að ná Dagsbrún úr höndum sósíalista. Það tókst við stjórnarkosningar árið 1940, sem fyrr getur.140 Sigruðu þeir sameiginlegan lista „Moskóvíta“, eins og Morgunblaðið nefndi sósíalista og stuðningsmenn Héðins Valdimarssonar, en samstarf tókst með þessum aðilum þrátt fyrir nýafstaðinn klofning vegna vetrarstríðsins í Finnlandi.141 Í kjölfar þessa sagði Dagsbrún sig úr Landssambandi íslenskra stéttarfélaga sem félagið hafði verið burðarás í og lýsti því yfir að um sinn mundi félagið standa utan stéttarsambanda. Þetta varð til þess að Landssambandið varð fljótlega lítt starfhæft en Dagsbrún gekk þó ekki í ASÍ.142 Þessi stjórn varð þó ekki farsæl, enda gerði formaður hennar sig sekan um stórfelldan fjárdrátt síðar á árinu.143 Hlíf í Hafnarfirði sagði sig hins vegar ekki úr Landssambandinu þó að sjálfstæðismenn væru þar í meirihluta, enda höfðu þeir haft um árabil náið samband við kommúnista en átt í afar hörðum deilum við Alþýðuflokkinn, og þau sár voru langt frá því að vera gróin.

140 Alþýðublaðið 9., 13., 15. og 22. janúar 1940.
Sjá m.a. Alþýðublaðið 11. janúar 1940, 3.
142 Alþýðublaðið 27. janúar 1940, 1. − Alþýðublaðið 19. desember
1940, 1. − Benedikt Sigurðsson 1990, 82. − Réttur, 15. árg.
(1940), fyrra hefti, 32.
143 Alþýðublaðið 30. ágúst 1940, 1.

Milliþinganefnd Alþýðusambandsins vann sitt verk og 12. nóvember 1940, eða sama dag og Alþýðusambandsþing átti að hefjast, skýrði Alþýðublaðið frá stefnubreytingu í skipulagsmálunum. Það sagði að í seinni tíð hefði þeim röddum farið stöðugt fjölgandi sem teldu „nauðsynlegt, að skipulagslegur aðskilnaður væri gerður milli Alþýðusambandsins og Alþýðuflokksins á sama hátt og búið er að gera milli alþýðusambandanna og alþýðuflokkanna hjá nágrannaþjóðum okkar á Norðurlöndum“.144 Áður hefði slík „samtvinnun“ einnig þekkst „víða annars staðar, þar á meðal í nágrannalöndum okkar Noregi og Svíþjóð, á byrjunarstigi verkalýðshreyfingarinnar, en allsstaðar verið frá henni horfið, þegar fram í sótti, og samband stéttarfélaganna verið skipulagslega aðskilið frá stjórnmálaflokki verkalýðsins“.145 Bent var á að reynslan sýndi að nauðsynlegt væri að gera breytingar af þessu tagi og hefði það ekki síst komið í ljós eftir 1930, „eftir að samtökin voru að verða fjöldasamtök, en þó kom þetta enn skýrar í ljós, þegar löggjafarvaldið viðurkenndi verkalýðssamtökin með vinnulöggjöfinni og gerði þar með öllum verkalýð að skyldu að vera í verkalýðsfélögum“.146 Samhliða þessu gekkst forysta Alþýðusambandsins fyrir því á árunum 1939–1940 að breyta helstu fyrirtækjum flokksins, Alþýðubrauðgerðinni og Alþýðuprentsmiðjunni, í hlutafélög og var m.a. tekið lán hjá sænska Alþýðusambandinu til að koma því í kring.147

144 Alþýðublaðið 12. nóvember 1940, 3.
145 Alþýðublaðið 18. nóvember 1940, 3.
146 Alþýðublaðið 15. nóvember 1940, 1.
147 Þorleifur Friðriksson 1987, 73.

Sigurjón Ólafsson, forseti ASÍ 1940–1942 og lengi formaður Sjómannafélags Reykjavíkur.

Alþýðusambandsþing árið 1940 samþykkti með miklum meirihluta atkvæða að skilja á milli stjórnmálaflokksins og verkalýðssambandsins.148 Þó má ætla að þessar breytingar hafi verið forystu Alþýðusambandsins/Alþýðuflokksins þvert um geð – þær voru ill nauðsyn. Í raun litu jafnaðarmenn ekki svo ólíkt kommúnistum á hlutverk stéttarfélaganna, eins og sjá má af grein sem birtist í Sambandstíðindum, málgagni Alþýðusambandsins í september 1940: „Félögin eiga að vera tæki til þess að ala upp verkalýðinn og gjöra hann hæfan í baráttunni fyrir velferðarmálum sínum. Félögin út af fyrir sig eru ekki takmarkið, en þau eru öruggasta tækið til að ná settu marki.“149 Eftir að samþykkt hafði verið á þingi ASÍ að gera breytingar á skipulagi þess hvatti Landssamband íslenskra stéttarfélaga aðildarfélög sín til þess að ganga í ASÍ.150

148 Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 16. sambandsþing 1940,
51−52. – Ingólfur V. Gíslason 1994, 121−124.
149 Sambandstíðindi september 1940, 25.
150 Þjóðviljinn 17. desember 1940, 1.

Ekki urðu breytingar á starfi Alþýðusambandsins fyrr en tveimur árum síðar því að síðasta „hreina“ jafnaðarmannastjórn Alþýðusambandsins sat til ársins 1942 og var Sigurjón Á. Ólafsson forseti ASÍ á þeim tíma. Framkvæmdastjóri var ráðinn Jón Sigurðsson, en ungur maður vestan af fjörðum var ráðinn erindreki sambandsins, Björgvin Sighvatsson að nafni.151 Hann var kennaramenntaður og átti eftir að vera lengi í forystu verkalýðshreyfingarinnar fyrir vestan. Jafnaðarmenn töldu að með skipulagsbreytingum Alþýðusambandsins væri nú „tryggt, að þau stéttarfélög, sem farið hafa úr Alþýðusambandinu síðustu árin, gangi nú aftur í það, – þannig að öll stéttarfélög verkalýðsins verði innan skamms sameinuð í því á ný“.152 En svo fór ekki. Andstæðingar jafnaðarmanna hvöttu til að boðað yrði til nýs þings sambandsins hið fyrsta þar sem öllum verkalýðsfélögum væri heimilt að senda fulltrúa, en því hafnaði hin nýja forysta sambandsins.153 Það leiddi meðal annars til þess að Verkamannafélagið Dagsbrún, sem „lýðræðissinnar“ stjórnuðu, ákvað eftir atkvæðagreiðslu innan félagsins að ganga ekki að sinni í Alþýðusambandið. Ekki fagnaði forysta Alþýðusambandsins þeirri niðurstöðu, eins og skýrt kom fram í grein sem Jónas Guðmundsson skrifaði í Alþýðublaðið um þessi mál og sakaði hann sjálfstæðismenn um svik. Í greininni sagði Jónas m.a.:

Alþýðublaðið 28. nóvember 1940, 1.
Alþýðublaðið 18. nóvember 1940, 3.
Sjá m.a. Alþýðublaðið 23. nóvember 1940. − Einnig Morgun-

Á Alþingi 1939, þegar gengið var til samstarfs þess, sem síðan hefir haldizt í stjórnmálum landsins, var, með mörgu öðru, um það rætt að gera þær breytingar á Alþýðusambandi Íslands, að allir meðlimir þess hefðu sama rétt til þingsetu á sambandsþinginu. Voru þá nýliðnir atburðir þeir í Hafnarfirði, sem mesta athygli vöktu, er Sjálfstæðismenn og kommúnistar gengu í fyrsta sinn opinberlega til samstarfs undir merkjum ofbeldis og uppreisnar.154

154 Jónas Guðmundsson, 1940, 1, 4 (Samstarfið í verkalýðsfélög-
unum).

Síðan segir Jónas að deilurnar í Hafnarfirði hafi verið þess eðlis að ætlun sósíalista og sjálfstæðismanna hafi verið sú að reyna að fella ríkisstjórnina með því að valda sem mestum usla og óróa. Þetta hafi nærri tekist enda hafi nánast verið „hernaðarástand“ í Hafnarfirði í nokkra daga. En Alþýðuflokkurinn „sló undan“ segir Jónas „og barg því að til stórvandræða kæmi“, – og sjálfstæðismenn komust í stjórn. Síðan greinir Jónas nánar frá því samkomulagi sem var gert:

Ég var einn þeirra, sem nokkurn þátt tók í umræðunum um … breytinguna á Alþýðusambandinu. Við Alþýðuflokksmenn héldum því fram, að ef það sýndi sig, að af heilum hug væri gengið til samstarfs um ríkisstjórn og önnur þjóðfélagsleg vandamál, og það reyndist svo á næstu mánuðum, að Sjálfstæðismenn í verkalýðsfélögunum vildu af heilhug og undanbragðalaust vinna með okkur í verkalýðsmálum, – þ. á m. hætta öllu samstarfi við kommúnista, – mundum við beita okkur fyrir því, að lögum Alþýðusambandsins yrði breytt þannig, að allir hefðu þar sama rétt.Samkvæmt þessu, og sem fyrsta tilraun, var gert samkomulag um stjórnarkosningu í Dagsbrún, og náðist þar sæmilegt samstarf. En hvorki í Hafnarfirði né annars staðar þar, sem Sjálfstæðismenn og kommúnistar höfðu tekið höndum saman, varð nokkur breyting.155

Jónas Guðmundsson, 1940, 1, 4 (Samstarfið í verkalýðsfélög-
unum).

Þá segir Jónas að þrátt fyrir að ýmislegt hafi bent til að sjálfstæðismenn væru ekki af heilum hug í samstarfi með jafnaðarmönnum hafi verið ákveðið að skilja Alþýðusambandið skipulagslega frá Alþýðuflokknum. En í kjölfar þess hafi sjálfstæðismenn enn brugðist og neitað að stuðla að því að Dagsbrún gengi í ASÍ vegna þess að ekki hafi verið boðað þegar til nýs þings í kjölfar aðskilnaðar Alþýðusambands og Alþýðuflokks þar sem öllum verkalýðsfélögum í landinu væri boðið að taka þátt.156 Meirihluti sjálfstæðismanna í stjórn Dagsbrúnar stóð fyrir því, sem fyrr getur, að félagsmenn væru spurðir í atkvæðagreiðslu hvort þeir vildu að félagið gengi aftur í ASÍ. Enginn vafi var á að sjálfstæðismenn vildu bíða með aðild og stuðningsmenn Héðins Valdimarssonar voru einnig þeirrar skoðunar, en sósíalistar skiluðu auðu. En minnihluti stjórnarinnar, sem fylgdi Alþýðuflokknum, hvatti til þess að félagsmenn styddu Alþýðusambandsaðild. Eindrægni var því ekki mikil innan stjórnar Dagsbrúnar og alþýðuflokksmenn sökuðu sjálfstæðismenn um óheilindi og ódrengskap.157 Hinir síðarnefndu svöruðu fullum hálsi og vísuðu slíkum staðhæfingum til föðurhúsanna og fullyrtu að innan Alþýðusambandsins ríkti flokkseinræði.158 Auk þess væri mikil óánægja með hvernig eignum Alþýðusambandsins hefði verið ráðstafað og hefðu þær verið dregnar undir „náðarvæng“ Alþýðuflokksins með „skyndibrögðum“.159 Svo fór að Málfundafélagið Óðinn og Málfundafélag verkamanna, þar sem saman voru komnir stuðningsmenn Héðins Valdimarssonar, tóku höndum saman við stjórnarkosningar í Dagsbrún árið 1941 og unnu sigur á hinum listunum tveimur, alþýðuflokksmanna og sósíalista, en fengu þó færri atkvæði en hinir listarnir tveir til samans.160 Héðinn Valdimarsson varð enn á ný formaður Dagsbrúnar, nú í skjóli verkamanna sem studdu Sjálfstæðisflokkinn, og það var hluti af samkomulagi félaganna tveggja að standa utan Alþýðusambandsins þar til það gæti með „fulltrúakosningu haft áhrif á stjórn þess“.161 Staðhæfa má að ekki hefur sú niðurstaða hugnast alþýðuflokksmönnum.

156 Jónas Guðmundsson, 1940, 1, 4 (Samstarfið í verkalýðsfélög-
unum).
Jónas Guðmundsson, 1940, 3−4 (Skrípaleikurinn í Dagsbrún).
Sjá m.a. Bjarni Snæbjörnsson 1940, 5. − Morgunblaðið 18.
desember 1940, 5.
159 Morgunblaðið 21. janúar 1941, 5.
160 Morgunblaðið 1. febrúar 1941, 3.
Morgunblaðið 18. janúar 1941, 6.

Breytingar á Alþýðusambandinu komu að fullu til framkvæmda árið 1942 og hafði þá alveg verið skilið á milli flokks og hreyfingar. Jafnframt hafði þá verið gengið frá málum sem vörðuðu eignir flokks og Alþýðusambands og svo búið um hnúta, sem fyrr er nefnt, að þær runnu að mestu til Alþýðuflokksins. Um var að ræða miklar eignir, einkum Alþýðuhúsið við Hverfisgötu og Alþýðubrauðgerðina. Alþýðubrauðgerðinni var breytt í hlutafélag síðla árs 1940 á þann hátt að félagið varð að meirihluta í eigu verkalýðsfélaganna í Reykjavík. Auk þess keyptu einstakir félagar í fulltrúaráði verkalýðsfélaganna í Reykjavík hluti fyrir 17.000 krónur og Alþýðuflokkurinn eignaðist tíunda hluta hlutafjárins eða 4500 krónur. Heildarhlutafé var 45.000 kr. Alþýðuflokkurinn og einstaklingar nánir honum áttu því rétt tæpan helming hlutafjár og voru því engar líkur til að þessir aðilar yrðu í minnihluta innan fyrirtækisins, enda var því beinlínis lýst yfir að þessar ráðstafanir væru til þess ætlaðar að koma í veg fyrir að „kommúnistar nái nokkurn tíma tangarhaldi á þessum fyrirtækjum“.162 Harðar deilur urðu um þessa málsmeðferð. Fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Reykjavík höfðaði mál til riftunar á sölunni árið 1944.163 Dómstólar dæmdu gerninginn þó lögmætan. Einnig urðu deilur vegna annarra eigna, ekki síst Alþýðuhússins.164

162 Alþýðublaðið 25. nóvember 1940, 3.
163 Morgunblaðið 14. maí 1944, 2.
164 Sjá m.a. Ingólfur V. Gíslason 1994, 154. − Héðinn Valdi-
marsson 1938, 141, 146. − Sjá einnig Þorleifur Friðriksson
1988, 117−122, en hann fjallar ítarlega um deilur vegna eigna
Alþýðuflokks/Alþýðusambands.

Lengi litu alþýðuflokksmenn með saknaðaraugum til þess tíma þegar Alþýðuflokkur og Alþýðusamband voru eitt, og lengi litu alþýðuflokksmenn svo á að Alþýðusambandið væri í raun þeirra samband. Löngu síðar sættu þeir sig þó við hvernig mál höfðu þróast. Þegar Jón Sigurðsson, einn helsti forkólfur Alþýðuflokksins í verkalýðsmálum, leit yfir farinn veg árið 1982 sagði hann að sambúð flokks og sambands hefði mælst „orðið illa fyrir og … var úlfúðin orðin slík að ákveðið var að skilja þarna á milli“.165 Þetta mátti Jón þekkja flestum mönnum betur.

165 Vinnan XXXII (1982), 3. tbl., 7.

Vörður

 • 1921 Ólafur Friðriksson sækir þing Alþjóðasambands kommúnista.
 • 1921 „Hvíta stríðið“.
 • 1922 Félag ungra kommúnista.
 • 1924 Einungis þeir sem undirrita stefnuskrá Alþýðusambandsins/flokksins fá samþykkt kjörbréf.
 • 1928 Harðlína Alþjóðasambands kommúnista, Komintern.
 • 1930 ASÍ gerir flokksaðild að skilyrði fyrir kjörgengi.
 • 1930 Tilkynning um stofnun kommúnistaflokks á Alþýðusambandsþingi.
 • 1930 Verklýðsblaðið, málgagn kommúnista.
 • 1930 Krossanesdeilan.
 • 1931 Alþýðusambandið fer að beita sér fyrir stofnun nýrra verkalýðsfélaga þar sem kommúnistar höfðu yfirhöndina.
 • 1933 Nóvudeilan.
 • 1934 Komintern breytir um stefnu gagnvart jafnaðarmönnum. Áhersla á samfylkingu gegn fasisma.
 • 1936 Verklýðssamband Norðurlands samþykkir tilboð til Alþýðusambandsins um sameiningu við ASÍ.
 • 1936 Útgáfa blaðsins Samfylking.
 • 1937 Kommúnistaflokkurinn fær kjörna þrjá þingmenn.
 • 1937 Viðræðunefnd um hugsanlega sameiningu verkalýðsflokkanna.
 • 1937 Aukaþing Alþýðusambandsins samþykkir nýja og róttæka stefnuskrá.
 • 1938 Héðni Valdimarssyni vikið úr Alþýðuflokknum.
 • 1938 Kommúnistaflokkur Íslands lagður niður og Sósíalistaflokkurinn stofnaður.
 • 1938 Sjálfstæðisverkamenn í Reykjavík stofna Málfundafélagið Óðin.
 • 1939 Hlífardeilan.
 • 1939 Listi sjálfstæðisverkamanna til stjórnar Verkamannafélagsins Dagsbrúnar.
 • 1939 Málfundafélagið Óðinn með hátíðahöld á 1. maí.
 • 1939 Landssamband íslenskra stéttarfélaga.
 • 1940 Fyrirtækjum ASÍ/Alþýðuflokks breytt í hlutafélag.
 • 1940 Landssamband sjálfstæðisverkamanna stofnað.
 • 1940 Alþýðusambandsþing samþykkir að skilja á milli flokks og verkalýðssambands.
 • 1941 Héðinn Valdimarsson lætur af afskiptum af verkalýðsmálum.

Næsti kafli

Baráttan um verkalýðshreyfinguna