Efnisyfirlit

Deila sögu ASÍ

Tímabilið fram til 1940

Á skrifstofu ASÍ árið 1948 eða fyrr. Lengst til vinstri er Jón Rafnsson framkvæmdastjóri en á móti honum situr Guðmundur Vigfússon erindreki. Lengst til hægri er Jóna Benónýsdóttir sem vann um árabil á skrifstofu ASÍ. Verið er að ganga frá blaði ASÍ, Vinnunni, til útsendingar.

Skipulagsmál verkalýðshreyfingarinnar eftir stríð

Saga ASÍ: Í samtök › Tímabilið frá 1940 og fram um 1960

Skipulagsmál verkalýðshreyfingarinnar eftir stríð

Skipulag Alþýðusambandsins

Stórt skref var stigið í skipulagsmálum Alþýðusambandsins þegar ákveðið var árið 1940 að aðskilja Alþýðuflokk og Alþýðusamband, sem fyrr hefur verið fjallað um. Á endanum urðu flestir sammála um að nauðsynlegt væri að gera þessa breytingu þó að margir gengju nauðugir til þess leiks og sæju lengi eftir sambúð flokks og hreyfingar. Eftir þetta stóra stökk var hægt að reyna að fara að átta sig á skipulagi hreyfingarinnar að öðru leyti. Var það í tengslum við samtímann eða hreyfingunni kannski fjötur um fót?

Þessi málefni voru m.a. til umræðu á 17. þingi ASÍ árið 1942 og var þar hvatt til þess að skipulag verkalýðshreyfingarinnar yrði tekið til gagngerðrar endurskoðunar. Í fyrsta lagi var hvatt til þess að „sameina smáfélög í skyldum starfsgreinum eða iðngreinum á hverjum stað í félög eða sambönd“. Í öðru lagi var hvatt til að „sameina fámenn félög á sama stað í eitt verkalýðsfélag með deildaskiptingu, samanber Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðsfélagið Baldur á Ísafirði, Verkamannafélagið Þróttur á Siglufirði og Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur o.fl.“ Loks var hvatt til þess að sameina félög þar sem væru fleiri en eitt félag í sömu starfsgrein á sama stað. Nefnd voru ýmis dæmi þar sem vel mætti sameina ýmis félög. Til dæmis væru járniðnaðarmenn í Reykjavík í fjórum félögum og væru aðeins 14 félagar í því fámennasta, Félagi blikksmiða. Þá mætti vel sameina starfsfólk í prentiðnaði og í húsgagnaiðnaði, og loks hin mörgu verkakvennafélög í Reykjavík.1

Sæmundur Ólafsson 1943, 219−220. − Sjá einnig Þingtíðindi

Sæmundur Ólafsson, einn forystumanna Sjómannafélags Reykjavíkur, fjallaði um þetta efni í grein í Vinnunni og benti á að eðlilegast væri að í Reykjavík væru aðeins þrjú félög ófaglærðs fólks, sjómannafélag, verkakvennafélag og verkamannafélag. Einungis sjómenn væru saman í einu félagi. Þar væru samankomnir óbreyttir sjómenn, vélstjórar og matsveinar, lifrarbræðslumenn og stýrimenn. Þetta þætti sjómönnum í Reykjavík sjálfsagt, enda hefði félag þeirra „náð betri árangri með baráttu sinni en nokkurt annað félag, eða félög, í landinu, eins og kunnugt er, og á hin órjúfanlega sameining stéttarinnar sinn þátt í því“. Greinarhöfundur hvatti til þess að allir verkamenn í Reykjavík yrðu í einu félagi, enda væri t.d. mjög misráðið að ófaglærðir iðnverkamenn væru í Iðju en ekki í Dagsbrún. Eins væri eðlilegast að allar verkakonur í Reykjavík væru í Framsókn í stað þess að vera klofnar í mörg félög, þ.e. Framsókn, Sókn, Iðju (þar sem meirihluti félaga voru konur), Sjöfn, félag starfsstúlkna í veitingahúsum, Freyju, félag þvottakvenna og ASB, félag afgreiðslustúlkna í brauðsölubúðum, enda hefðu sum þessara félaga verið magnlítil.2

Sæmundur Ólafsson 1943, 219−220.

Athyglisvert er að greinarhöfundur minnist ekki á þann möguleika að sameina félög kvenna og karla.

Jóna Benónýsdóttir á skrifstofu ASÍ fyrir 1950.

Almennt virðist hafa verið gengið út frá því vel fram yfir miðja 20. öld að eðlilegra væri að hafa félög karla og kvenna aðskilin. Ekki er síður athyglisvert að grein Sæmundar skyldi birt í Vinnunni, enda var efast um tilverurétt margra stéttarfélaga. Þessi sjónarmið höfðu stuðning forystu ASÍ, og kom til kasta sambandsins þegar veikburða félög áttu í erfiðleikum en lítið varð þó úr framkvæmdum.3 Sambandið beindi þeim tilmælum til félaga og sambanda að unnið væri að sameiningu þeirra, einkum að „sameina smáfélög í skyldum starfsgreinum á hverjum stað í félög eða sambönd“ og að sameina „fámenn félög á sama stað í eitt verkalýðsfélag með deildaskiptingu“. Í þessu sambandi hvatti miðstjórn ASÍ t.d. til þess að Bakarasveinafélag Hafnarfjarðar, sem hafði aðeins níu meðlimi, sameinaðist Bakarasveinafélagi Íslands. Þá hefði sameining verið rædd á ýmsum smástöðum úti um land. Þessi tilmæli skiluðu þó litlu enn sem komið var.4

Skýrsla miðstjórnar Alþýðusambands Íslands 1944, 42.
ÞÍ. ASÍ til aðildarfélaga 7. febrúar 1944. Sögus. verkal. A01:
31/1. Sambönd og félög í Reykjavík.

Þegar þessi mál voru borin upp við forystukonur í verkakvennafélögunum árið 1944 kom í ljós að flestar þeirra voru fylgjandi því að sameina félögin. Til dæmis áleit Jóhanna Egilsdóttir, formaður Framsóknar, að einungis ætti að vera eitt félag verkakvenna í Reykjavík. Aðalheiður Hólm, formaður Sóknar, fullyrti að félögin væru „alltof máttlaus sitt í hverju lagi“. Ef þau sameinuðust væri hægt að vera með fasta skrifstofu og launaðan starfskraft. En jafnframt voru flestar þessara forystukvenna þeirrar skoðunar að konur ættu að hafa sérfélög en ekki að vera í félögum með körlum, því að þær „láta svo lítið á sér bera, þegar karlmenn eru annars vegar og kasta allri ábyrgðinni yfir á þeirra herðar“.5

Melkorka 1. árg., 1. tbl., 1944, 20−21.

Þessi umræða virðist þó hafa orðið endaslepp, enda hafði forysta verkalýðshreyfingarinnar um annað að hugsa næsta áratuginn: deilur um völd í hreyfingunni af hálfu pólitískra fylkinga yfirskyggðu allt annað eftir sameiningarþingið 1942 og leiddu til þess að þessi mál voru lítið rædd aftur fyrr en um miðjan sjötta áratuginn. Svo fór að þróunin gekk jafnvel í þveröfuga átt með því að fjöldi smáfélaga gekk í samtökin. Einkum var um að ræða félög til sveita og bílstjórafélög. Stofnun sumra þessara félaga mun jafnvel hafa verið liður í valdabaráttu um sambandið. Flest þessara félaga voru mjög fámenn, með um eða innan við 20 félagsmenn. Árið 1952 gengu til dæmis í Alþýðusambandið eftirtalin félög:

Frá Vopnafirði um miðja öldina þar sem lífið byggðist aðallega á fiski, eins og svo víða í þorpum og bæjum. Árið 1948 voru 92 félagar í Verkamannafélagi Vopnafjarðar, allt karlar, svo að nafn félagsins hefur verið við hæfi.

Félag íslenskra nuddkvenna, Reykjavík, Félag sýningarmanna við kvikmyndahús, Reykjavík, Verkalýðs- og bílstjórafélagið Skjöldur í Borgarfirði, Verka lýðsfélag Norðdælinga, Mýrasýslu, Verkalýðsfélag Hvítársíðu og Hálsasveitar, Borgarfirði, Verkalýðsfélag Þingeyinga, Suður Þingeyjarsýslu, Verkalýðs- og bílstjórafélag Egilsstaðahrepps, Suður-Múlasýslu, Verkalýðsfélag Geithellnahrepps, Suður-Múlasýslu, Verkalýðsfélag Beruneshrepps, Suður-Múlasýslu, Verkalýðs- og bílstjórafélag Nesjahrepps, Austur-Skaftafellssýslu, Verkalýðs- og bílstjórafélag Lónsmanna, AusturSkaftafellssýslu, Verkalýðs- og bílstjórafélagið Samherjar, Vestur-Skaftafellssýslu, Verkalýðsfélagið Íri, Grafningi, Árnessýslu, Bifreiðastjórafélagið Fylkir, Keflavík.

Þess má geta að á tímabilinu 1950–1952 fjölgaði félögum í sambandinu um 14 en félagsmönnum hins vegar aðeins um tæp 300, úr 24.579 í 24.866. Mörg þessara litlu félaga störfuðu þó aðeins í fá ár, enda vart við öðru að búast af svo fámennum einingum.6 Eitt fjölmennt félag sótti einnig um aðild á sama tíma. Það var Verzlunarmannafélag Reykjavíkur.7

Skýrsla miðstjórnar Alþýðusambands Íslands 1950−1952, 68. −
Þorleifur Friðriksson 1987, 100−101.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 23. sambandsþing 1952,
31−32.

Á þingi Alþýðusambandsins 1952 var tekin ákvörðun um að halda ekki áfram á þessari braut, að „ekki skuli tekin fleiri hreppafélög í sambandið en orðið er, enda eigi launþegar innkvæmt í næsta starfandi sambandsfélag innan sömu sýslu“.8 Þær skoðanir komu fram að takmarka ætti réttindi þessara félaga á þingum Alþýðusambandsins, enda gæti verið um að ræða félög sem ekki hefðu „neinna hagsmuna að gæta, varðandi kaup og kjör“, og var þá átt við bílstjórafélögin sem yfirleitt voru félög sjálfseignarbifreiðaeigenda.9 Inn í þessi mál fléttuðust einnig forgangsréttarmál til vinnu og mun sumum verkalýðsfélögum hafa þótt nóg komið af smástéttarfélögum í kringum sig í sveitunum, félögum sem sátu þá jafnframt fyrir um vinnu á viðkomandi svæði.

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 23. sambandsþing 1952, 60.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 23. sambandsþing 1952,
72−73.

Sýningarmaður að störfum í Tónabíói kringum 1960. Í Félagi sýningarmanna voru 65 manns árið 1958, aðal- og aukafélagar álíka margir. Félagið var eitt af mörgum smáfélögum innan ASÍ.

Húsgagnabólstrarar að störfum um miðja öldina. Í Sveinafélagi húsgagnabólstrara voru 26 félagar árið 1948.

Sem fyrr voru þing Alþýðusambandsins haldin annað hvert ár á fimmta og sjötta áratugnum og sendu einstök félög einn fulltrúa fyrir hvert hundrað félagsmanna, en félög sem höfðu færri en 150 félagsmenn þó aðeins einn fulltrúa. Sambandsþing stóðu að jafnaði á þessum tíma fjóra til fimm daga.10 Á sjötta áratugnum var sambandsstjórnin þannig samansett að í henni voru 17 manns, níu frá Reykjavík og nágrenni, en að auki átta fulltrúar sem var skipt jafnt á milli annarra landsfjórðunga. Sambandsstjórnin hittist sjaldan, venjulega aðeins tvisvar á milli þinga. En miðstjórnin hittist miklu oftar, venjulega vikulega á veturna en sjaldnar á sumrin. Miðstjórnin var því hin eiginlega stjórn sambandsins.11

Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, ýmis gögn 1956−1959.
Hvað er Alþýðusamband Íslands? Samantekt um stefnu og
starf ASÍ.
Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, ýmis gögn 1956−1959.
Hvað er Alþýðusamband Íslands? Samantekt um stefnu og
starf ASÍ.

Næsti kafli

Alþjóðasamstarf