Efnisyfirlit

Deila sögu ASÍ

Tímabilið fram til 1940

Frá 1. maí árið 1924. Fyrir miðju má greina skilti sem á stendur: Lifi heimsbyltingin.

Alþjóðleg hreyfing jafnaðarmanna

Saga ASÍ: Í samtök › Tímabilið fram til 1940

Alþjóðleg hreyfing jafnaðarmanna

Allir, sem nokkuð þekkja til jafnaðarstefnunnar, vita, að hún er alþjóðastefna. Fylgjendur hennar um lönd öll bindast samtökum til þess að framkvæma fagra hugsjón. Gagnkvæm hjálp og samvinna er því einn af styrkustu þáttum þessarar stefnu. Og saga jafnaðarstefnunnar hefir einnig sýnt, að alþjóðasamtökin hafa verið meira en orðin tóm. Á bernskuskeiði stefnunnar hér í álfu hafa þýzkir jafnaðarmenn um nokkurt skeið styrkt fjárhagslega flokksbræður sína bæði í Frakklandi og Danmörku. Á síðari árum hafa Danir aftur á móti styrkt að nokkru með fjárframlögum bæði norska og íslenzka jafnaðarmenn. Íslenskir jafnaðarmenn hafa einnig, þó í smáum stíl sé, styrkt erlenda flokksbræður sína. Sænskir jafnaðarmenn hafa sömuleiðis gefið fé til Alþýðuprentsmiðjunnar. Alt þetta sýnir greinilega hina gagnkvæmu samhjálp jafnaðarmanna um öll lönd. Og þetta er öllum ljóst, sem nokkuð þekkja almenna stjórnmálasögu og stefnu jafnaðarmanna.1

Stefán Jóhann Stefánsson 1927, 2.

Þannig lýsti Stefán Jóhann Stefánsson, einn af helstu forystumönnum Alþýðuflokksins, tengslum íslenskra jafnaðarmanna við erlenda félaga sína á ofanverðum þriðja áratug 20. aldar.

Frá upphafi hreyfingar jafnaðarmanna – og yfirleitt líka verkalýðshreyfingarinnar – hefur alþjóðahyggja verið eitt af grundvallarstefnumiðum flestra flokka og samtaka sem hafa kennt sig við þetta þjóðfélagsafl. Til dæmis hafði evrópsk verkalýðshreyfing vart slitið sínum fyrstu sokkum þegar Fyrsta alþjóðasamband verkalýðsins varð til árið 1864. Þá hittust fulltrúar verkalýðsfélaga víða að úr Evrópu í London og skeggræddu málin undir vökulum augum þingforsetans, Karls Marx, en hann var einn af stofnendum þess. Sambandið byggði á kennisetningum Kommúnistaávarpsins. Það varð aldrei áhrifamikið og hætti störfum eftir 12 ára tilvist en lagði þó grunninn að starfi verkalýðsflokka komandi ára.2

Ólafur R. Einarsson 1970, 20−23. − Eley, Geoff 2002, 34 og
áfram. − Morton, A.L. 1975, 115 og áfram.

Annað alþjóðasambandið varð til í París árið 1889, á 100 ára afmæli frönsku byltingarinnar, og var stofnað til þess af verkalýðssamböndum og -flokkum, sem nú voru víða orðnir til í Evrópu. Fylgismenn Karls Marx voru ráðandi innan sambandsins en flokkarnir innan þess þó flestir endurbótasinnaðir. Sambandið hélt þing þriðja hvert ár, m.a. fund í Kaupmannahöfn árið 1910. Þangað mættu bæði fulltrúar hinna róttæku og hinna hægfara. Ástæða þess að þingið var haldið í Kaupmannahöfn var sú að jafnaðarmannaflokkar Norðurlanda, ekki síst í Danmörku, höfðu eflst mjög á undanförnum árum. En þetta þing var líka hið síðasta sem hægfara og róttækir verkalýðsflokkar sátu saman.3

Sjá m.a. Christiansen, Niels Finn 1990, 160−161.

Á ofanverðum öðrum áratug 20. aldar jókst ágreiningur innan flokka jafnaðarmanna og innan verkalýðshreyfingarinnar víða í Evrópu. Ástæður þess voru ekki síst ágreiningur um styrjaldarþátttöku en margir jafnaðarmannaflokkanna tóku afstöðu með ríkisstjórn eigin lands í heimsófriðnum 1914–1918, að undanskildum flokkunum í Rússlandi og á Ítalíu. Þetta varð m.a. til þess að Annað alþjóðasambandið leystist upp.

Karl Marx, mósaíkverk eftir danskan múrara, Hans Peter Christoffer sen sem lengi bjó á Akureyri. Myndin var lengi í Alþýðuhúsinu á Akureyri. Það tíðkaðist að hafa uppi myndir af helstu frumkvöðlum alþjóðlegrar verkalýðshreyfingar á þingum hreyfingarinnar, í kröfugöngum og í húsum alþýðunnar.

Eftir stríðið og næstu ár þar á eftir greip víða um sig mikill ótti við byltingu og bolsévíka, enda væru Sovétríkin „tryltra manna bústaður“4. Hin borgaralegu öfl kröfðust viðbragða við framrás hinna róttæku. Í stríðslokin benti líka margt til þess um skeið að byltingarsinnar næðu víða völdum í sínar hendur, t.d. í Þýskalandi, og var staða þeirra ekki síst sterk í norðurhluta landsins þar sem verkamannaráð settust víða að völdum, í fyrirtækjum og borgum. Jafnvel í hinu íhaldssama Bæjaralandi var stofnað ráðstjórnarlýðveldi. Á Ítalíu lögðu verkamenn undir sig hverja verksmiðjuna á fætur annarri um sama leyti og tóku að sér stjórn framleiðslunnar.5 Þessa þróun varð að stöðva. Í þeirri viðleitni var gripið til ýmissa ráða, viðskiptabann var sett á Sovétríkin og mörg ríki í Vestur-Evrópu studdu hernaðaríhlutun, beint og óbeint.

Morgunblaðið 11. september 1919, 3.
Sjá m.a. Maurseth, Per 1987, 22−23.

Á Norðurlöndum var líka byltingarótti. Í Noregi óttuðust stjórnvöld að Verkamannaflokkurinn þar í landi hygði á valdatöku eftir að byltingarsinnar náðu undirtökum í flokknum árið 1918 og sjálfir bjuggu margir flokksmenn sig undir byltingu og valdatöku verkalýðsins. Byltingaróttinn var ekki síst mikill í tengslum við verkfallsátökin þar í landi árið 1921.6 Árið 1919 klofnaði hreyfing ungra jafnaðarmanna í Danmörku og myndaði klofningshópurinn eigin flokk sem síðar varð Kommúnistaflokkur Danmerkur. Hörð átök urðu í Kaupmannahöfn um þetta leyti á milli róttækra verkamanna og lögreglunnar, mörg hundruð manns særðust og leiðtogar hinna róttæku voru settir bak við lás og slá og máttu dúsa þar á annað ár.7 Hreyfing kommúnista varð þó aldrei mjög öflug í Danmörku þó að kannski hafi verið fullmikið sagt að hún væri ekki til, eins og Thorvald Stauning, forsætisráðherra Dana, hélt fram í viðtali við Morgunblaðið árið 1926.8 En í Finnlandi náðu kommúnistar sterkum tökum innan verkalýðs hreyfingar innar og héldu þeirri stöðu á þriðja áratugnum.9

Olstad, Finn 2009, 263 og áfram; 280−284. − Sjá einnig
Christiansen, Niels Finn 1990, 153−155.
Christiansen, Niels Finn 1990, 254−262.
Morgunblaðið 13. júlí 1926, 3.
Bergholm, Tapio 2003, 19.

Þriðja alþjóðasambandið, Alþjóðasamband kommúnista, var stofnað 1919 af byltingarflokkum víða í Evrópu en með miðstöð í verkalýðsríkinu, Sovétríkjunum. Sambandið var hugsað sem eins konar alheimsflokkur kommúnista, litið var á einstaka flokka sem deild innan Alþjóðasambandsins og þing Alþjóðasambandsins sem eins konar flokksþing. Aðildarflokkunum var skilyrðislaust ætlað að fylgja samþykktum slíkra þinga.10 Hlutverk þess var að stýra heimsbyltingunni. Í þetta samband gengu flestir kommúnistaflokka álfunnar, ýmsir flokkar róttækra sósíalista og einstaka jafnaðarmannaflokkar. Einn þeirra var norski Verkamannaflokkurinn sem sagði skilið við Annað alþjóðasambandið en gekk til liðs við Alþjóðasamband kommúnista árið 1919.11 Til hliðar við Alþjóðasamband kommúnista var svo starfrækt Alþjóðasamband rauðra verkalýðsfélaga (Profintern, stofnað 1921) en að því áttu aðild stéttarsambönd og félög víða um lönd þar sem kommúnistar fóru með forystuna.12

Maurseth, Per 1987, 32−34.
Maurseth, Per 1987, 34.
Maurseth, Per 1987, 269 − Einnig Bergholm, Tapio 2003, 23.

Jafnaðarmenn voru í sárum eftir fyrri heimsstyrjöldina. Að stríðinu loknu voru þó bæði alþjóðasambönd þeirra endurreist: Alþjóðasamband jafnaðarmanna eða Annað alþjóðasambandið (Labour and Socialist International) og Alþjóðasamband verkalýðsfélaga. Var hið fyrrnefnda endurreist á fundi í Hamborg í Þýskalandi árið 1923 þar sem danskir jafnaðarmenn gegndu stóru hlutverki. Sambandið tók þegar í upphafi harða afstöðu gegn kommúnistum og Þriðja alþjóðasambandinu.13 Alþjóðasamband verkalýðsfélaga var endurreist nokkru fyrr, árið 1919, og oftast kallað Amsterdam-sambandið, en árið 1921 áttu aðild að því landssambönd sem höfðu innan sinna vébanda nærri 24 milljónir félagsmanna í 24 löndum. Forveri þess var Fyrsta alþjóðasamband verkalýðsfélaga, stofnað 1902 í Stuttgart í Þýskalandi.14 Það var í þetta samband sem ASÍ ákvað að ganga árið 1926, en það hafði aðsetur í Zürich í Sviss. Aðildin var samþykkt með miklum meirihluta atkvæða á þingi Alþýðusambandsins og var staðfest af Alþjóðasambandinu árið eftir.15 Þar með var slitið því samkomulagi sem hafði verið gert fjórum árum fyrr á milli andstæðra fylkinga innan Alþýðuflokksins að ekki skyldi gengið í alþjóðasamband.16

Tørnehøj, Henning 1998, 251.
Maurseth, Per 1987, 35. − Tørnehøj, Henning 1998, 25, 136, 193.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 7. sambandsþing 1926, 29.
Sjá Stefán Hjartarson, handrit, 199.

Thorvald Stauning í hópi íslenskra jafnaðarmanna. Þriðja frá vinstri er Jóhanna Egilsdóttir, fimmti frá vinstri er Jón Sigurðsson. Við hlið hans, fyrir miðju, er Stauning. Emil Jónsson, síðar ráðherra, er við hlið hans til hægri.

Aðildin var þyrnir í augum kommúnista og hvöttu þeir mjög til þess að ASÍ segði skilið við Alþjóðasamband verkalýðsfélaga, enda sannaði það „betur og betur fjandskap sinn við stéttabaráttu verkalýðsins“, eins og hinir róttæku orðuðu það á þessum tíma.17 Þess voru einnig dæmi að einstök verkalýðsfélög gengju í alþjóðasamtök, t.d. Sjómannafélag Reykjavíkur, sem gekk í Alþjóðasamband flutningaverkamanna 1923 sem hafði aðsetur í Amsterdam en félagið var jafnframt í sambandi við félaga sína á Norðurlöndum.18

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands og verklýðsráðstefna. 10.
Alþýðublaðið 17. nóvember 1923, 3−4.

Norrænt samstarf

En Alþýðusambandið var ekki aðeins í tengslum við Annað alþjóðasamband verkalýðsfélaga. Langmikilvægust voru samskiptin við heildarsamtök verkalýðsfélaganna og -flokkanna á Norðurlöndunum. Sem fyrr er getið höfðu jafnaðarmannaflokkar og verkalýðssambönd á Norðurlöndunum haft náið samband frá því fyrir aldamótin 1900. Árið 1897 var á sameiginlegum fundi rætt um stofnun landssambanda í löndunum þremur og urðu þau að veruleika á næstu tveimur árum.19 Landssambönd voru stofnuð í Svíþjóð (Landsorganisationen i Sverige) og Danmörku (De samvirkende fagforbund, síðar Landsorganisationen i Danmark) árið 1898 en árið eftir í Noregi (Arbejdernes faglige landsorganisasjon, síðar Landsorganisasjonen i Norge).20

Tørnehøj, Henning 1998, 102, 106−107.
Skar, Alfred 1949, 98. − Christensen, Lars K.; Kolstrup,
Søren; Hansen, Anette Eklund 2007, 63.

Á ráðstefnu skandinavísku verkalýðssamtakanna árið 1912 í Stokkhólmi var ákveðið að koma á fót sérstakri samvinnunefnd og var fyrsti fundur hennar haldinn árið eftir. Samstarfið varð þó skammvinnt vegna styrjaldarinnar. Eftir styrjöldina brast samstaða norrænu verkalýðsflokkanna og norski Verkamannaflokkurinn fór aðra leið en flokkarnir í Danmörku og Svíþjóð og tók upp samstarf við róttæka vinstriflokka á hinum Norðurlöndunum. Þeir dönsku og sænsku unnu að endurreisn Annars alþjóðasambandsins. Af þessum sökum klofnaði norski Verkamannaflokkurinn árið 1921 og mynduðu hægfara jafnaðarmenn sinn eigin flokk.21 Norræna verkalýðsþingið árið 1920 varð því hið síðasta með því formi sem haldið var og samráðsnefnd landssamtakanna í skandinavísku löndunum (stofnsett 1912) hætti að starfa að mestu.22 Norski Verkamannaflokkurinn var þó ekki lengi í Komintern og hrökklaðist þaðan 1923, enda var gerð sú krafa að aðildarflokkarnir yrðu deildir innan sambandsins og skyldu þeir hlíta miðstjórnarvaldi þess. Það leiddi til þess að Verkamannaflokkurinn klofnaði enn og kommúnistar mynduðu Kommúnistaflokk Noregs.23 Verkamannaflokkurinn og hægfara jafnaðarmenn sameinuðust síðan árið 1926, en þá var tekin ákvörðun um að standa utan allra alþjóðasambanda. Árið 1938 gekk norski Verkamannaflokkurinn í Alþjóðasamband jafnaðarmanna en tveimur árum fyrr hafði norska Alþýðusambandið gengið á ný í Alþjóðasamband verkalýðsfélaga, Amsterdam-sambandið.24

Maurseth, Per 1987, 171 og áfram.
Maurseth, Per 1987, 41.
Olstad, Finn 2009, 303−305.
Alþýðublaðið 1. maí 1938. − Bjørnhaug, Inger; Halvorsen,
Terje 2009, 78.

Árið 1931 var ákveðið að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið með samvinnu norrænu jafnaðarmannaflokkanna og verkalýðssamtaka á Norðurlöndum. Árið eftir bauðst Íslendingum að taka þátt í sameiginlegum fundi þessara samtaka en þeir höfðu ekki tök á því. Árið 1934 áttu íslenskir jafnaðarmenn þó fulltrúa á slíkum fundi. Árið 1937 gerðust Íslendingar fullgildir þátttakendur í samstarfinu og þá höfðu Norðmenn tekið upp samstarf að nýju við hina norrænu jafnaðarmannaflokkana. Fulltrúar Alþýðuflokksins við það tækifæri á fundi í Stokkhólmi voru þeir Jón Axel Pétursson, framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins, og Stefán Jóhann Stefánsson, ritari sambandsins.25 Sumarið 1939 var í fyrsta sinn haldinn sameiginlegur fundur norrænna verkalýðsfélaga og jafnaðarmanna hér á landi og var þá m.a. haldinn fjölmennur fundur á Arnarhólstúni þar sem „fulltrúar hinna erlendu bræðraflokka héldu ræður“.26 Þar í hópi voru helstu forystumenn norrænna jafnaðarmanna, t.d. Thorvald Stauning, forsætisráðherra Dana, og Axel Strand, aðalgjaldkeri sænska Alþýðusambandsins.27

Alþýðublaðið 29. október 1937, 3. − Tørnehøj, Henning 1998,
377. − Þorleifur Friðriksson 1987, 30, 33.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 16. sambandsþing 1940, 33.
Alþýðublaðið 26. júlí 1939, 1.

Á útifundi á Arnarhóli 25. júlí árið 1939 vegna fundar norrænu verkalýðssamtakanna hérlendis. Talkór ungra jafnaðarmanna stendur heiðursvörð. Hans Hedtoft, formaður danska jafnaðarmannaflokksins, heldur ræðu.

Samskipti Alþýðusambandsins við danska verkalýðshreyfingu voru alla tíð mikil og forystumenn hreyfinganna í þessum löndum sóttu hver annan heim. Til dæmis kom Fr. Borgbjerg, ritstjóri blaðs sósíal demókrata í Danmörku, til Íslands árið 1918 og ræddi málefni verkalýðshreyfingarinnar við mikla hrifningu á fundi sem Alþýðuflokkurinn boðaði til.28 Hann var þá staddur hérlendis vegna sambandslagasamninganna. Hann kom einnig á 8. þing ASÍ árið 1928 og „bar þinginu kveðju frá flokksbræðrum í Danmörku og árnaði Alþýðuflokknum heilla“.29 Þessi samskipti voru íslenskum jafnaðarmönnum og forystu verkalýðshreyfingarinnar ekki einungis andlegur styrkur; hvað eftir annað sóttu Alþýðusamband/Alþýðuflokkur um fjárhagslegan stuðning til verkalýðssamtaka og -flokka undir forystu jafnaðarmanna á Norðurlöndum og fengu þar bæði styrki og lán, stundum umtalsverðar fjárhæðir. En jafnframt voru gerðar þær kröfur til Alþýðuflokksins að hann beitti sér af hörku í baráttunni gegn kommúnistum.30 Á hinum Norðurlöndunum, að undanskildu Finnlandi, voru kommúnistar í reynd áhrifalitlir smáflokkar, enda jafnaðarmenn þar afar öflugir. Hér voru jafnaðarmenn ekki eins sterkir og gátu ekki komið í veg fyrir að kommúnistar yrðu afl sem varð að taka tillit til.

Dagsbrún 22. júlí 1918, 73.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 8. sambandsþing 1928, 5−6.
Þorleifur Friðriksson 1987, m.a. 54−56.

Thorvald Stauning á veggspjaldi sem gert var fyrir dönsku þingkosningarnar 1935.

Vörður

  • 1864 Fyrsta alþjóðasamband verkalýðsins.
  • 1889 Annað alþjóðasamband jafnaðarmanna.
  • 1902 Fyrsta alþjóðasamband verkalýðsfélaga.
  • 1912 Samvinnunefnd skandinavísku verkalýðssamtakanna.
  • 1919 Þriðja alþjóðasambandið, alþjóðasamband kommúnista.
  • 1919 Alþjóðasamband verkalýðsfélaga endurreist. Oftast kallað Amsterdam-sambandið.
  • 1921 Alþjóðasamband rauðra verkalýðsfélaga.
  • 1923. Alþjóðasamband jafnaðarmanna eða Annað alþjóðasambandið endurreist.
  • 1926 ASÍ gengur í Alþjóðasamband jafnaðarmanna.
  • 1937 ASÍ gerist fullgildur þátttakandi í norrænu samstarfi jafnaðarmannaflokka.
  • 1939 Í fyrsta sinn haldinn fundur norrænna verkalýðsfélaga og jafnaðarmanna á Íslandi.

Næsti kafli

Flokkur og ríkisstjórn