Efnisyfirlit

Deila sögu ASÍ

Tímabilið fram til 1940

Við uppskipun í Reykjavík snemma á 20. öld. Áður en höfnin kom varð að skipa öllum vörum í báta og koma þeim í skip eða úr skipi, hvort sem um var að ræða fisk úr togurum eða vörur sem var verið að flytja inn eða úr landi. Má geta nærri hversu umhendis það hefur verið.

Verkalýðshreyfingin festir sig í sessi

Saga ASÍ: Í samtök › Tímabilið fram til 1940

Verkalýðshreyfingin festir sig í sessi

Með stofnun Verkamannafélagsins Dagsbrúnar árið 1906 var stórt skref stigið þegar almennir verkamenn á helsta þéttbýlisstað landsins skipulögðu sig.1 Um svipað leyti og í kjölfarið voru brátt stofnuð ný félög verkamanna á öðrum þéttbýlisstöðum, m.a. á Sauðárkróki 1903 og á Ísafirði 1906. Félagið á Ísafirði varð að vísu ekki langlíft þótt fljótlega eftir stofnun þess væri um fjórðungur bæjarbúa genginn í það. En helstu atvinnurekendur á Ísafirði snerust gegn því af hörku og verkfall sem félagið boðaði til rann út í sandinn. Atvinnurekendur neituðu einnig að ráða fólk í vinnu er hefði gerst meðlimir í verkamannafélaginu og fór þá að kvarnast úr því þannig að á endanum lagði það upp laupana. Fyrstu sporin voru því erfið.2

Alþýðublaðið 21. janúar 1906, 14.
Þór Indriðason 1990, 38−39. − Sigurður Pétursson 2011,
93−105.

Sagt frá Dagsbrún í Fjallkonunni árið 1906.

Verkamannafélagið á Akureyri, sem var endurvakið árið 1906, dafnaði og enn kom Vestur-Íslendingur við sögu. Jón Þ. Kristjánsson var forystumaður félagsins en hann hafði dvalið um tíma vestan hafs. Jón var kjörinn í bæjarstjórn Akureyrar þegar árið 1908 og árið 1915 var félagi hans, Erlingur Friðjónsson, kominn þar inn fyrir dyr.3 Árið 1907 var svo Verkamannafélagið Hlíf stofnað og nutu hafnfirskir verkamenn m.a. stuðnings Dagsbrúnar við stofnun þess.4 Tilraun mun hafa verið gerð árið 1909 til þess að stofna verkakvennafélag á Akureyri og fékk það nafnið Þörfin. Lög félagsins voru birt og munu um 80 konur hafa gengið í það en ekki er að sjá að félagið hafi haft neina starfsemi.5 Fyrsta verkakvennafélagið sem lifði af byrjunarerfiðleikana var Verkakvennafélagið Framsókn, stofnað árið 1914. Hér á landi var því fetað í fótspor verkalýðshreyfingarinnar í Danmörku þar sem nokkuð var um að verkakvennafélög væru starfrækt.6 Hásetafélag Reykjavíkur, síðar Sjómannafélag Reykjavíkur, kom svo til sögunnar árið eftir, 1915, og sjómenn á Ísafirði stofnuðu félag árið eftir.7 Þar með var búið að draga upp meginlínur fyrir skipan verkalýðshreyfingar í landinu á 20. öld.

Jón Hjaltason 2004, 336.
Gils Guðmundsson 1957, 15−16.
Þórunn Magnúsdóttir 2002, 9−13.
Sjá m.a. Guðbjörg Linda Rafnsdóttir 1995, 63.
Sjá m.a. Sigður Pétursson 2011, 173 og áfram.

Verkamannafélagið Dagsbrún hafði aðeins verið starfandi í eitt ár þegar forsvarsmenn þess og annarra stéttarfélaga sem þá voru starfandi gengust fyrir stofnun Verkamannasambands Íslands, en þegar árið 1906 birtist grein í Alþýðublaðinu sem gat um nauðsyn slíks félagsskapar.8 Aðild að stofnuninni áttu Bárufélögin, Dagsbrún og Prentarafélagið og var Þorvarður Þorvarðsson prentari formaður. Sambandið vildi vinna að jafnrétti karla og kvenna, fá fram fullt sjálfstæði landsins, aðskilja ríki og kirkju og banna útlendingum að stunda atvinnurekstur á Íslandi. Stefnuskrá þess var því ekki síður lík stefnuskrá stjórnmálaflokks en stéttarsambands, enda bauð sambandið fram í bæjarstjórnarkosningum snemma árs 1908. Ætlunin mun einmitt hafa verið að stofna pólitískan flokk, enda sagði í samþykktum þess að sambandið vildi „styðja að því, að pólitískur jafnaðarmannaflokkur rísi upp og eflist í landinu, og að félagsdeildir þess flokks hafi sömu réttindi í Sambandinu sem verkmanna- og iðnsveinafélögin“.9 Þessi mál voru því öll í deiglunni á árunum 1906–1908 og í Alþýðublaðinu eldra komu fram skýrar hugmyndir um hvers eðlis þessi flokkur ætti að vera. Fá félög stóðu að stofnun sambandsins en meðan það starfaði var unnið að því að fá fleiri félög til liðs og einnig rætt um að vinna að stofnun nýrra félaga, bæði meðal faglærðra verkamanna og ófaglærðra, svo og meðal verslunarfólks og má kalla það býsna mikla víðsýni. En skeið verkalýðssambands og jafnaðarmannaflokks var ekki runnið upp þegar aðeins áratugur var liðinn af 20. öldinni. Verkafólk átti fullt í fangi með að haldi lífi í eigin samtökum og ekki var skilningur á mikilvægi þess að starfandi væri allsherjarsamband þessara félaga, hvað þá stjórnmálaflokkur verkafólks. Auk þess hafði Verkamannasambandið litlar tekjur og gat því tæpast staðið fyrir nokkru starfi.10 En mestu skipti þó að stéttastjórnmál voru ekki enn helsta umhugsunarefni fólks á þessum tíma. Um það bil sem Verkamannasambandið var stofnað voru hugir langflestra enn bundnir við sjálfstæðisbaráttuna og mikill hiti í fólki af þeim sökum. Kvenfrelsi átti einnig formælendur. Kvennalisti bauð fram í fyrsta sinn í Reykjavík í bæjarstjórnarkosningum árið 1908 og vann mikinn sigur.

Alþýðublaðið 4. mars 1906, 26−28.
Þorleifur Friðriksson 2007, 251−255. − Pétur G. Guðmunds-
son 1930, 4−7. − Stefán Hjartarson, handrit, 36−41.
Skúli Þórðarson 1966, 16−17.

Sagt frá stofnun Verkamannafélagsins Hlífar í Hafnarfirði í Alþýðublaðinu árið 1907.

Í vefnaðarvöruverslun á öndverðri 20. öld. Ólíkt mörgum öðrum stéttum átti verslunarfólk ekki málsvara í stéttabaráttunni fyrr en langt var liðið á 20. öld og margir litu á verslunarfólk sem hluta af yfirstéttinni vegna þess að aðstæður þess voru oft hreinlegri og vinnan þægilegri en hjá því fólki sem vann við frumvinnslugreinar. Kjör þessa fólks voru þó oft bág.

Lindarbrekka við Vesturvallagötu en Dagsbrún var stofnuð í pakkhúsinu við hliðina á íbúðarhúsinu. Pakkhúsið er nú horfið. Sem sjá má er stakkstæði við húsið en margar fjölskyldur tóku að sér að þurrka saltfisk við heimahús.

Það var ekki auðveld eða greið leið að stofna verkalýðshreyfingu en framtíðin var þó hennar eins og Skúli Thoroddsen lýsti í grein í Þjóðviljanum árið 1906 þegar hann ræddi um verkamannafélagið á Ísafirði:

Sennilegt er, að lík félög rísi og smám saman upp í ýmsum öðrum verzlunarstöðum landsins, og jafn vel í mannmörgum sjóhverfum, enda eru nú tímamót í sögu þjóðar vorrar, þilskipaútvegurinn óðum að aukast, verksmiðjurnar að komast á fót á stöku stöðum og ekki gott að vita, nema námuatvinna byrji þá og þegar hér og hvar, og að fossarnir fari að knýja áfram ýmis konar vinnuvélar.11

Þjóðviljinn 6. október 1906, 181.

Viðfangsefni fyrstu félaganna

Eitt af einkennum verkalýðshreyfingarinnar á bernskuárum hennar var að menn utan stéttarinnar áttu mikinn þátt í tilurð einstakra félaga. Var það annaðhvort vegna þess að þeir höfðu frumkvæði að því sjálfir eða þeir voru fengnir til að gegna forystuhlutverki í krafti menntunar sinnar, reynslu af félagsstörfum og stundum þekkingar á störfum verkalýðshreyfingarinnar í öðrum löndum.12 Ástæðan var sú að hér á landi var þjálfun í félagsstörfum ekki algeng vegna þess að þéttbýli átti sér skamma sögu um aldamótin 1900 og iðngildin sem iðnaðarmenn í mörgum öðrum Evrópulöndum tóku þátt í þekktust ekki. Því var ekki annars að vænta en að leitað væri til þeirra sem höfðu reynslu af slíkum störfum annars staðar frá eða til fyrirmynda sem voru nærtækastar hér á landi, þ.e. bindindisfélaganna, einkum Góðtemplarareglunnar sem fyrr segir.

Sjá m.a. Pétur G. Guðmundsson 1943, 146.

Einn þessara forgöngumanna var Ágúst Jósepsson. Hann dvaldi í Danmörku í tíu ár, frá 1895. Hann kvaðst hafa kynnst störfum verkalýðsfélaga þar

á fyrirlestrum þeirra og fundum. En jafnframt kynti ég mér stefnuna af blöðum og bókum. Ég hreyfst af hugsjón jafnaðarstefnunnar eins og allir ungir alþýðumenn, og hét því að vinna henni fylgi, er ég kæmi heim.13

Alþýðublaðið 14. ágúst 1934, 3.

Þessir menn gegndu forystuhlutverki á bernskuárum verkalýðshreyfingarinnar. Þeir leiddu fyrstu félögin og stóðu fyrir útgáfu sem studdi málstað verkamanna.

Sem fyrr segir var eitt af einkennum hreyfingarinnar á þessum fyrstu árum hennar að áhrifa jafnaðarstefnunnar gætti ekki mikið við stofnun þeirra félaga sem urðu til fyrir og um aldamótin 1900. Til dæmis voru Bárufélögin mjög undir áhrifum frá bindindishreyfingunni. Slík tengsl voru einnig á milli verkalýðshreyfingarinnar og bindindishreyfingarinnar í nágrannalöndunum, mismikil þó.14 Innan verkalýðshreyfingarinnar og hreyfingar jafnaðarmanna, sem var að spretta úr grasi, tókust einnig á hugmyndir um hvernig bæri að byggja upp samfélagið. Var hröð iðnvæðing og stóriðnaður af einhverju tagi óhjákvæmilegur hluti samfélagsþróunarinnar eða bar að hindra slíka þróun eftir því sem unnt væri og halda í mikilvæga þætti ráðandi samfélagsgerðar? Ólafur Ásgeirsson sagnfræðingur hefur sýnt fram á að viðhorf þeirra sem hann kallar varðveislusinna hafi verið algeng innan verkalýðshreyfingarinnar. Í þessum viðhorfum hafi falist ósk um að varðveita hefðbundna lífshætti og boða sætt við sjónarmið sveitafólks og hagsmuni þess.15

Skúli Þórðarson 1966, 16. − Ólafur R. Einarsson 1970, 93.
− Christensen, Lars K.; Kolstrup, Søren; Hansen, Anette
Eklund 2007, 93.
Ólafur Ásgeirsson 1988, 32−42.

Í Ólafsvík á fyrri hluta 20. aldar. Þá voru víða matjurtagarðar við heimili fólks og margir höfðu hænur og líka sauðfé eða geitur, ekki síst í minni plássum úti um land.

Þorvarður Þorvarðsson, prentari og formaður Verkamannasambandsins. Hann var einn helsti forsvarsmaður verkalýðshreyfingarinnar á fyrsta skeiði hennar en einnig virkur þátttakandi í öðru félagslífi.

Ágúst Jósefsson, prentari og síðar heilbrigðisfulltrúi í Reykjavík. Hann kynntist jafnaðarstefnunni í Danmörku og varð einn af frumkvöðlum hennar hérlendis.

Templarar í skrúðgöngu á Akureyri á þriðja áratug 20. aldar. Templarar voru ein helsta og öflugasta félagshreyfing hérlendis á fyrstu áratugum aldarinnar og höfðu náin tengsl við verkalýðshreyfinguna.

Raddir sósíalismans voru þó farnar að heyrast hér á landi beggja vegna við aldamótin 1900 og fréttir bárust af því að vestan hafs, í Winnipeg, hefði verið stofnað íslenskt jafnaðarmannafélag í kringum aldamótin 1900.16 Þorsteinn Erlingsson skáld kynnti líka stefnuna í blaði sínu Bjarka um sama leyti, og árið 1907 fjallaði Ólafur Björnsson um jafnaðarstefnuna í langri grein í tímaritinu Skírni, ræddi um sögulega þróun hennar. Hann staðhæfði að engar líkur væru til að „efnamennirnir, sem eru í miklum minnihluta … [gætu] til lengdar reist rönd við óvígum her öreiganna“.17 Ötulasti formælandi sósíalisma á þessum frumbýlingsárum verkalýðshreyfingarinnar var þó Pétur G. Guðmundsson. Hann hafði skýrar hugmyndir um gildi jafnaðarstefnunnar þegar á þessum árum. Boðskap hennar, „sem heimurinn kallar Sósíalismus og nú er aðalathvarf verkamanna og lítilmagna hins svokallaða mentaða heims“ birti hann á síðum Alþýðublaðsins eldra sem hann gaf út ásamt fleirum árin 1906–1907.18 Almennt má segja að á þessu fyrsta skeiði verkalýðshreyfingarinnar hafi Pétur verið sá einstaklingur sem hafði hvað skýrasta framtíðarsýn um þróun verkalýðshreyfingarinnar og hann var óþreytandi að koma sjónarmiðum hennar á framfæri.19 En skoðanasystkin átti hann enn fá um þetta leyti.

Ólafur R. Einarsson 1970, 27−29.
Ólafur Björnsson 1907, 233−234.
Þorsteinn Erlingsson 1907, 10.
Sjá m.a. Haraldur Jóhannsson 1978. − Einnig Ragnheiður
Kristjánsdóttir 2008, 74−78.

Mikilvægustu viðfangsefni fyrstu verkalýðsfélaganna vörðuðu því einkum mál sem brunnu daglega á félagsmönnum en framtíðarsýn um réttlátara þjóðfélag og almenn félagsleg réttindi voru sjaldnar til umræðu. Önnur mál voru nærtækari. Eitt mikilvægasta verkefnið var að vinna að því að fá laun greidd í reiðufé í stað þess að fá greitt í vörum eins og lengi hafði tíðkast, enda var upphæð launanna sjaldnast marktæk vegna þess að það var iðulega launagreiðandinn sem ákvað vöruverðið.20 Óskir þessa efnis birtust æ tíðar þegar leið að lokum 19. aldar.

Sigurður Einarsson; Sverrir Kristjánsson 1945, 16.

Skúli Thoroddsen alþingismaður tók upp þennan málstað og barðist fyrir því að fá samþykkt lög á Alþingi um greiðslu verkkaups, en samkvæmt frumvarpi Skúla átti að vera óheimilt að greiða laun með vörum heldur áttu þau að greiðast með gjaldgengum peningum. Lög þessa efnis voru samþykkt árið 1902 og þóttu mikil réttarbót.21 Því fór þó fjarri að sigur væri unninn í þessu máli, bæði gengu lögin of skammt og hefðin var sterk. Þegar Verkamannafélag Vopnafjarðar var stofnað árið 1922 var ástæðan einmitt sú að verkamennina fýsti að fá að vita hvað og hvernig verkamennirnir ættu að fá greitt fyrir vinnu sína. Þegar þeir fengu ekki svör við því, og var að auki hótað útilokun frá vinnu vegna framhleypninnar, gengust forystumenn þeirra fyrir því að kalla saman fund til þess að stofna verkalýðsfélag. Það tókst og gerði félagið kröfu um tiltekinn taxta og að helmingur launa „skyldi greiddur í vöruúttekt, einn fjórði í peningum, en einn fjórði skyldi ganga upp í gömul viðskipti við verslunina“. Þrátt fyrir að kröfuharkan væri ekki meiri gekk erfiðlega að fá þessu framgengt, einkum þessu atriði með peningagreiðslur.22 Á Sauðárkróki var staðan lítið betri. Þar fékkst kaupið ekki borgað í peningum um 1920 og var þá samþykkt að formaður verkalýðsfélagsins á staðnum tæki að sér, í umboði félagsmanna, að innheimta launin.23 Ástandið var svipað víðar á landinu á þriðja og jafnvel fjórða áratugi 20. aldar. Enn var það svo á Þingeyri árið 1926 að þar sáust varla peningar. Þingeyri var ekki stórt pláss en þar var samt rekið kvikmyndahús. En aðgöngumiða var ekki hægt að fá þar nema skrifa miðann sem úttekt í verslun. Svipað var haldið á málum á Húsavík um þetta leyti og miklu víðar á landinu.24

Stjt. 1902, 10−11. Sjá einnig ítarlega umfjöllun um þetta efni
hjá Jóni Guðnasyni 1985.
Nikulás Albertsson 1948, 92−93.
Þór Indriðason 1990, 37.
Björn Bl. Jónsson 1926, 2. − Þór Indriðason 1990, 37.

Dagsbrún auglýsir land undir matjurtagarða fyrir félagsmenn sína.

Við fiskþvott í fjöru snemma á 20. öld, stakkstæði í baksýn. Aflabrögð og tíð réðu miklu um vinnutíma fólks og á öndverðri öldinni hafði verkfólkið lítið um það að segja hversu lengi var unnið. Hér eru bæði karlar og kona við þvottinn en algengast var að konur hefðu þennan starfa. Væri kalt í veðri var þessi vinna afar kalsöm.

Mikilvægt viðfangsefni, nátengt baráttunni fyrir kaup greiðslu í peningum og þar með auknu sjálfstæði verkafólksins, var áhersla á sjálfshjálp verkafólksins. Fólk reyndi vitaskuld að komast sem mest og best af fyrir eigin rammleik, eins og Ólafur G. Einarsson verkamaður lýsti. Hann ólst upp í Reykjavík undir lok 19. aldar. Eftir kvöldmat, sagði hann,

Kvennablaðið segir frá verkfalli kvenna í Hafnarfirði árið 1912, einu fyrsta verkfalli hérlendis.

settumst við öll að vinnu. Faðir minn gerði skó, prjónaði sjóvetlinga, bæði handa sjálfum sér og raunar mér líka eftir að ég fór að sækja sjóinn með honum, en einnig seldi hann þá. Þá prjónaði hann peysur og ég man hann vel sitjandi á rúmi sínu skammt frá olíubrennaranum, álútan, rauðskeggjaðan og rauðhærðan og prjónaði af kappi. Við drengirnir kembdum eða tvinnuðum, en móðir mín spann. Oftast var eitthvað lesið … Íslendingasögurnar, Fornaldarsögur Norðurlanda og fleiri bækur.25

Vilhjálmur S. Vilhjálmsson 1957, 95.

Á fyrstu árum verkalýðshreyfingarinnar var mjög ýtt undir þessa sjálfsbjargarviðleitni, að fólk reyndi sjálft að bjarga sér sem best, t.d. með því að aðstoða það við að koma sér upp matjurtagörðum, útvega slægjulönd fyrir þá sem héldu húsdýr, jafnvel við og timbur til smíða og húshitunar og leður til þess að búa til skó handa félagsmönnum og fjölskyldum þeirra. Það var til dæmis gert á Húsavík og varð það þá hlutskipti stjórnarmanna verkalýðsfélagsins að sníða leðrið í réttar stærðir og úthluta því.26 Nokkur félög stofnuðu pöntunarfélög til þess að lækka vöruverð, sum með góðum árangri, önnur gengu lakar. Þessi sjálfshjálparviðleitni var eitt af megineinkennum félaga á minni þéttbýlisstöðum allt fram að síðari heimsstyrjöldinni.

Þór Indriðason 1996 I, 158−161.

Enn eitt atriði sem hér má nefna í baráttu verkalýðshreyfingarinnar á fyrstu starfsárum hennar var barátta fyrir takmörkun vinnutímans. Fram á fyrstu áratugi 20. aldar voru í raun engar takmarkanir á vinnutímanum eins og lýst var í blaðinu Ísafold árið 1889. Þar var greint frá því að vinnutíma væri iðulega svo háttað að hafist væri handa snemma á morgnana,

stundum frá því stundu fyrir miðjan morgun, til kl. 9–10 á kvöldin; og þar við bætist, að þeir fá engan ákveðinn tíma til að neyta matar, heldur verða nærri því að stelast til að rífa í sig matinn undir pakkhúsveggjunum og á bryggjunum, eins og hungraðar skepnur eða siðlausir mansmenn.27

Ísafold 4. desember 1889, 385. − Sjá einnig Pétur G. Guð-
mundsson 1943, 146.

Nánar verður fjallað um þetta efni síðar en vinnutímastyttingin varð eitt helsta viðfangsefni þeirra stéttarfélaga sem voru stofnuð á tveimur fyrstu áratugum 20. aldar og náðu þau umtalsverðum árangri á því sviði.

Eins og annars staðar verður rætt um voru samfélagslegar tryggingar einnig viðfangsefni á þessum fyrstu árum verkalýðshreyfingarinnar. Prentarar stofnuðu t.d. sjúkrasamlag árið 1897 og settu síðar einnig upp fleiri styrktarsjóði. Verkamannafélagið Dagsbrún setti á fót styrktarsjóð fyrir verkamenn á fyrstu starfsárum sínum.28 Það gerði líka Verkamannafélagið Hlíf og fleiri félög á þessum tíma.29

Þorleifur Friðriksson 2007, 180−181.
Ólafur Þ. Kristjánsson 2007, 63−64. − Guðmundur Jónsson
2008, 376−377.

Baráttuaðferðir hreyfingarinnar voru í mótun á þessum fyrstu árum hennar. Sú hugmynd að leggja niður vinnu í því skyni að ná fram kröfum sínum var þekkt þegar um og eftir aldamótin 1900. En dæmin voru ekki mörg enda hugmyndin nokkuð fjarri því sem hafði tíðkast í íslensku samfélagi og hugtakið vart til, helst þá sem tökuorðið strækur. Þau eru þó til. Þannig fóru konur í Hafnarfirði í stutt verkfall árið 1907 þegar atvinnurekendur vildu ekki fallast á launataxta verkakvenna sem Verkamannafélagið Hlíf hafði gefið út en tímakaup verkakvenna hafði áður verið 12,5 aurar meðan karlar fengu 25 aura.30 Þær endurtóku raunar leikinn árið 1912 og stóð verkfall þeirra þá í sex vikur. Um 100 konur tóku þátt í verkfallinu og stóðu kröfurnar um að fá greitt hærra kaup í eftirvinnu og helgidagavinnu, svipað og karlarnir. Af þessu tilefni gengu konurnar í Hlíf sem studdi þær „með ráðum og dáð“. Verkfallið vakti töluverða athygli og náðu hafnfirskar verkakonur sínu fram að mestu. „Samtök og þolgæði sigra allar þrautir“, sagði Kvennablaðið um þetta verkfall fiskverkakvenna í Hafnarfirði. Þessi verkföll eru með fyrstu verkföllum almenns verkafólks hér á landi.31

Ásgeir Guðmundsson 1985, 6−7. − Alþýðublaðið 11. janúar 1932.
Kvennablaðið 11. apríl 1912, 1. − Ásgeir Guðmundsson 1985,
9−10.

Veggspjald Verkamannafélagsins Dagsbrúnar vegna deilna um vinnutíma við hafnargerð í Reykjavík árið 1913.

Verkfall var gert við hafnargerðina í Reykjavík árið 1913 og snerist það einkum um vinnutíma verkamanna.32 Sú deila varð hörð en henni lauk á endanum með því að verkamennirnir náðu kröfum sínum fram.33 Þrátt fyrir að til nokkurra verkfalla hefði komið áður en ASÍ var stofnað voru slíkar aðgerðir þó enn flestum framandi eins og verkalýðsleiðtoginn Jón Rafnsson lýsti síðar er hann rifjaði upp þegar hann kom 16 ára til Reykjavíkur árið 1919 og heyrði af verkfalli háseta: „Já, verkfall fannst mér, í einlægni sagt, kátlegt uppátæki. Í minni sveit, Eyrarsveit … vissi enginn slíks dæmi, allar götur frá dögum Steinþórs bónda á Eyri og fram til vorra tíma.“34 En þau viðhorf áttu eftir að breytast og Jón að verða helsti sérfræðingur landsins í að skipuleggja verkföll.35

Verkmannablað 31. maí 1913, 5.
Felix Guðmundsson 1943, 229−232. − Stefán Hjartarson,
handrit, 437−444.
Jón Rafnsson 1957, 9.
Jón Rafnsson 1957, 149 og áfram.

Verkföll snerust um tilteknar kröfur verkafólksins en þau voru líka oft nauðsynlegur aðdragandi þess að stéttarfélag öðlaðist viðurkenningu atvinnurekenda. Altítt var að atvinnurekendur reyndu að bregða fæti fyrir fyrstu verkalýðsfélögin með því að útiloka félagsmenn eða forystufólk frá vinnu; sú aðferð var kannski algengust. En stundum var líka reynt að fara þá leið að taka yfir verkalýðsfélagið. Til dæmis var þannig atlaga gerð að Verkamannafélaginu Hlíf á fyrstu starfsárum þess. Því var síðar lýst svo í Alþýðublaðinu að skyndilega hefði fjöldi manna gengið í félagið og hefðu „margir af þessum nýliðum [verið] verkstjórar og vinnukaupendur … Hófst þá um hríð hin mesta Sturlungaöld í félaginu og gekk á með einlægum brottrekstrum og úrsögnum“.36 En félagið lifði áhlaupið af. Svipað átti sér stað innan Dagsbrúnar en bæði kaupmenn og útvegsmenn höfðu sent erindreka sína inn í félagið og olli það vandræðum í félagsstarfinu.37 Á þessum tíma voru verkalýðsfélögin í raun enn framandi í samfélaginu. Hafa ber í huga að á þessum tíma var engin vinnulöggjöf til. Tilvist félaganna var ekki viðurkennd og þau voru ekki marktæk sem samningsaðilar. Það gerðist ekki lögformlega fyrr en á fjórða áratugnum eins og síðar verður rætt um.

Alþýðublaðið 11. janúar 1932, 2.
Guðjón Friðriksson 1991, 80−81.

Hásetafélagið í Reykjavík var sem fyrr segir stofnað árið 1915. Tildrög að stofnun þess voru ekki síst þau að dýrtíð hafði farið mjög vaxandi af völdum heimsstyrjaldarinnar og kaupmáttur launa minnkað samsvarandi. Ekki vantaði grundvöllinn. Togarasjómenn í bænum um þetta leyti voru sennilega á sjötta hundrað. Minnkandi kaupmáttur kom við kaunin á mörgum og þóttust menn sjá fram á erfiða tíma. Jón Guðnason háseti tók á sig rögg síðla árs 1915, hvatti til samtakamyndunar og fékk Ólaf Friðriksson í lið með sér.38 Hann skýrir svo frá aðdragandanum að stofnun félagsins:

Pétur Pétursson 1983, 111.

Í aðgerð um borð í togaranum Baldri árið 1912.

Jón Bach, fyrsti formaður Hásetafélagsins.

Ég var í gamla Bárufélaginu, en það lagðist niður 1909 og á árunum frá 1909 og til 1915 breyttist skipastóll landsins mjög. Skúturnar hurfu og togararnir komu í þeirra stað, en kjör sjómannanna bötnuðu ekki neitt. Á þessum árum áttu sjómenn enga fulltrúa fyrir sig og engir samningar voru gerðir. Útgerðarmenn skömtuðu að eins kaupið og borguðu allir 70 kr. á mánuði, nema Jez Zimsen, hann borgaði 75. Þetta m.a. skapaði mikla óánægju meðal sjómanna, og svo bættist það við til að auka á óánægjuna að þrælkunin og vökurnar voru alveg fram úr öllu hófi … Haustið 1915 átti ég frí í október, og þá var óánægjan einna háværust meðal sjómanna. Þeir töluðu um nauðsynina á því, að stofna til samtaka úti á skipunum, niðri við höfn, á götunum og bókstaflega alls staðar, þar sem þeir hittust. En enginn tók sér fram um að láta sitja við meira en orðin tóm. Mér datt nú í hug, að ég gæti ekki gert neitt betra við fríið mitt en að reyna að stofna félag fyrir okkur, og svo fór ég bara að segja sjómönnum, að nú ætti að stofna þetta margumtalaða félag, og þeir tóku því ágætlega, og svo skrifaði ég bara auglýsingar … og svo var fengið fundarhús, og þar mættu um 30 sjóarar og töluðu og ráðslöguðu næstum því alveg eins og um borð, að því einu viðbættu, að nú var fundarstjóri og hver varð að biðja formlega um orðið. Undirbúningsnefnd var kosin, og hún hélt fund að stuttum tíma liðnum, og svo var boðaður framhaldsstofnfundur og á honum mættu 104 sjómenn, sem allir skrifuðu undir lögin …39

Alþýðublaðið 23. október 1935, 3.

Umleitanir Jóns leiddu hann á fund Ólafs Friðrikssonar og Jónasar Jónssonar en þeir voru báðir að hefja afskipti sín af samfélagsmálum um þetta leyti. Þeir hvöttu hann til dáða og var drifið í að stofna félagið í lok október í samráði við þá. Ólafur varð ritari félagsins, Jónas endurskoðandi en Jón Bach formaður.40

Skúli Þórðarson 1967, 31−32.

Fljótlega eftir stofnun félagsins samþykkti það og gaf út svokölluð aukalög sem var í raun samþykkt félagsins um þau kjör sem það krefðist fyrir félagsmenn sína.

Kröfugerð sjómanna hafði í för með sér að útvegsmenn stofnuðu sín eigin samtök, Félag íslenskra botnvörpuskipaeigenda. Eftir nokkurt þref tókust samningar til skamms tíma en deilan stóð aðallega um svokallaðan lifrarhlut sjómanna. Ekki skipti minna máli að með samningnum viðurkenndu útgerðarmenn félagið sem samningsaðila.41

Dagsbrún 11. desember 1915, 3. − Skúli Þórðarson 1967, 33−34.

Hefð hafði skapast fyrir því að sjómenn fengju lifrina í sinn hlut en þegar verð hækkaði á lifur á stríðsárunum vildu útgerðarmenn falla frá þessu fyrirkomulagi og setja fast verð í stað hlutarins. Í byrjun maí 1916 hófst deila að nýju á milli sjómanna og útvegsmanna. Félagið boðaði verkfall sem stóð í tvær vikur. Átök urðu á milli sjómanna og stuðningsmanna þeirra og liðsmanna útgerðarmanna. Ólafur Friðriksson hafði sig mikið frammi í deilunni og reyndu hann og félagar hans að stöðva togara á leið á miðin og urðu þá „ryskingar og skiptust menn á pústrum“, sennilega hinum fyrstu í stéttaátökum hér á landi. Morgunblaðið varaði sjómenn sérstaklega við því að fara „að ráðum einhverra ofstopamanna“.42 Ekki gekk saman þrátt fyrir atbeina bæði Stjórnarráðs og bæjarstjórnar og strandaði á því að sjómenn gerðu kröfu um að aðeins félagsmenn þeirra mættu starfa á togurunum en útgerðarmenn gerðu kröfu um þriggja ára samning gegn því að sjómenn fengju viðurkenndan eignarrétt sinn á lifrinni. Að öðru leyti bar lítið á milli. Þegar ljóst varð að hvorugur vildi ganga að kröfum hins gripu útgerðarmenn til þess ráðs að auglýsa taxta sem togarasjómönnum byðist að ráða sig á og var þar gert ráð fyrir föstu verði á lifrarfatinu.43

Morgunblaðið 1. maí 1916, 1.
Morgunblaðið 10. maí 1916, 3.

Staða sjómanna var ekki sterk. Margir þeirra stóðu utan félagsins og fylkingar þeirra voru að riðlast. Málstað þeirra studdi aðallega eitt blaðanna, Dagsbrún, sem var vikublað og Ólafur Friðriksson ritstýrði.44 Sjómenn neyddust til að fallast á boð útgerðarmanna. Þeir náðu því ekki öllum sínum kröfum fram og mat Morgunblaðið það svo að verkfallinu loknu að sjómenn hefðu tapað baráttunni. Blaðið kenndi um öfgamennsku Ólafs Friðrikssonar og þyrfti félagið að „losna við“ hans líka.45 Pétur G. Guðmundsson mat niðurstöðuna á annan hátt:

Pétur Pétursson 1983, 112−113.
Morgunblaðið 14. maí 1916, 1. − Sjá einnig Skúli Þórðarson
1967, 36−38.

Margir litu svo á, að hásetar hefðu tapað í þessari viðureign. En í rauninni töpuðu þeir engu. Þeir náðu ekki hinum veigamesta ávinningi, sem þeir höfðu ætlað sjer með verkfallinu. En þeir græddu í ýmsum minni háttar atriðum. Þrautseigja þeirra í verkfallinu fór langt fram úr því, sem menn höfðu búist við af nýstofnuðu fjelagi, í fyrsta verkfallinu sem gert hafði verið í Reykjavík. Þetta hlaut að koma inn hjá andstæðingum háseta þeirri meðvitund, að Hásetafjelagið yrði ekki lamb að leika við, þegar það efldist að fjelagatölu og leikni í þeirri list, að beita samtökum.46

Pétur G. Guðmundsson 1925, bls. 56.

Ofsagt er hjá Pétri að verkfallið hafi verið hið fyrsta sem háð var í Reykjavík en ávinningurinn af þessari hörðu deilu varð kannski helstur sá að félagið stóðst raunina, eins og Pétur segir, en lagði ekki upp laupana. Deilan var skóli í stéttabaráttu. Kjarninn í hreyfingunni þéttist og hinir framsýnustu sáu fram á að með því að efla sam tök sín gátu þeir náð meiri árangri.47

Sjá m.a. Sigurður Ólafsson 1943, 157−161.

Vörður

  • 1902 Samþykkt lög á Alþingi um greiðslu verkkaups.
  • 1906 Stofnun Verkamannafélagsins Dagsbrúnar.
  • 1906–1907 Alþýðublaðið eldra gefið út.
  • 1907 Hlíf í Hafnarfirði stofnuð.
  • 1907 Verkamannasamband Íslands stofnað.
  • 1907 Verkakonur í Hafnarfirði gera verkfall.
  • 1913 Verkfall við hafnargerðina í Reykjavík.
  • 1914 Verkakvennafélagið Framsókn stofnað.
  • 1915 Hásetafélag Reykjavíkur, síðar Sjómannafélag Reykjavíkur, stofnað.
  • 1916 Hásetaverkfall.

Næsti kafli

Stofnun ASÍ og stefnuskrá