Saga Alþýðusambands Íslands og samfélagsþróunin hér á landi frá öðrum áratug 20. aldarinnar eru ofin saman í eina heild. Of lengi hefur saga þjóðarinnar verið máluð í einhæfum litum. Lítið hefur verið fjallað um kjör og stöðu íslenskrar alþýðu og baráttu fjöldasamtaka hennar fyrir hugsjónum um réttlátt samfélag, sanngjörnum launum og grundvallarmannréttindum.
Þegar skoðaðar eru aðstæður og kjör alþýðufólks yfir nær heila öld, frá bernskuskeiði verkalýðshreyfingarinnar fram á okkar daga, er ljóst að margt hefur breyst og flest ef ekki allt til hins betra. Nægir þar að nefna stöðu verkalýðshreyfingarinnar og afl til þess að semja um mannsæmandi laun og bætt kjör, svo sem veikindarétt, orlof, lífeyrisréttindi, réttinn til fæðingar- og foreldraorlofs, bættan aðbúnað og hollustuhætti, starfs- og endurmenntun, fullorðinsfræðslu og loks árangurinn af áratuga baráttu hreyfingarinnar í húnsæðismálum.
Fullyrða má að allir helstu sigrar í réttindabaráttu launafólks og allrar alþýðu hér á landi eru beint eða óbeint árangur af starfi Alþýðusambands Íslands og aðildarsamtaka þess. Það er jafnframt ljóst að þessir sigrar kostuðu oft mikil átök og miklar fórnir þess verkafólks sem stóð í eldlínunni. Engin réttindi koma af sjálfu sér, hvorki í dag né áður fyrr, og á langri vegferð hefur verkalýðshreyfingin lært að árangur næst með seiglu og þolinmæði. Að nei atvinnurekenda og stjórnvalda er aldrei lokasvar, bara tímabundin töf á því að ná fram þeim málum sem félagsmenn setja á oddinn. Með þolinmæði og langtímahugsun að vopni hefur almennu launafólki tekist að beita Alþýðusambandinu til að móta samfélagið eftir sínum hugsjónum og draumum.
Að skoða baráttusögu frumkvöðla verkalýðshreyfingarinnar gerir okkur sem á eftir komum auðveldara að sjá og skilja að mestur árangur og stærstu sigrar hafa náðst þegar verkalýðshreyfingin hefur borið gæfu til að standa sameinuð í baráttunni. Sagan kennir okkur einnig að samstaða innan þeirrar fjöldahreyfingar sem Alþýðusambandið er verður ekki til af sjálfu sér, heldur er hún stöðugt viðfangsefni sem vinna þarf að og endurnýja og enduruppgötva reglulega.
Við ritun sögu ASÍ var lögð áhersla á að setja hana í samhengi við sögu íslensks samfélags og alþýðufólks. Við höfðum ekki áhuga á því að láta skrifa hefðbundna sögu samtaka, heldur frekar að spegla sögu sambandsins sem mikilvægan og órjúfanlegan hluta Íslandssögunnar. Saga ASÍ er saga íslensks alþýðufólks í sókn og vörn; saga um hugsjónir og baráttumál og mótun þeirra samtaka sem það beitti til að hafa áhrif á þróun samfélagsins í þágu hagsmuna alls launafólks.
Til verksins fengum við Sumarliða Ísleifsson, málmsmið og sagnfræðing. Það er okkar mat að Sumarliða hafi tekist vel til við að ná framangreindu markmiði. Verkið er í tveim bindum sem annars vegar fjalla um hvernig samtökin urðu til og hins vegar hvernig þau hafa dugað við mótun þess samfélags sem við búum í. Ég vil þakka Sumarliða hans mikilvæga framlag og í leiðinni ánægjulegt samstarf á undanförnum árum.
Það er von okkar í forystu ASÍ að Saga ASÍ verði eitt að höfuðverkum íslenskrar verkalýðssögu. Að sama skapi er það von okkar að þetta yfirlitsverk um upphaf og mótun stærstu fjöldahreyfingar á Íslandi verði einnig aflvaki umræðu og frekari rannsókna á íslenskri samfélagsþróun og framlagi samtaka launafólks. Síðast en ekki síst er það von okkar að þessi saga leiði til aukins skilnings á mikilvægi framlags launafólks og samtaka þess við mótun samfélagins á öllum tímum og verði þörf áminning um að þau réttindi og sú velferð sem við búum við féll hvorki af himnum ofan né hraut af veisluborðum valdastéttanna heldur þurfti þvert á móti að berjast fyrir henni. Þetta eru ekki sjálfsagðir hlutir heldur árangur áratuga baráttu og fórna.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ