Efnisyfirlit

Deila sögu ASÍ

Tímabilið fram til 1940

Myndarleg 1. maí ganga á leið niður Skólavörðustíg í Reykjavík kringum 1950. Efst í götunni sést styttan af Leifi Eiríkssyni.

Baráttan um verkalýðshreyfinguna

Saga ASÍ: Í samtök › Tímabilið frá 1940 og fram um 1960

Baráttan um verkalýðshreyfinguna

Sem fyrr getur var skilið á milli Alþýðusambands og Alþýðuflokks á þingi ASÍ árið 1940 og má segja að þá hafi Alþýðuflokkurinn verið stofnaður sem sjálfstæður stjórnmálaflokkur. Engar breytingar urðu þó á stjórn Alþýðusambandsins fyrr en árið 1942, enda höfðu alþýðuflokksmenn tryggt sér forystu þess fram að þeim tíma. Þau félög sem staðið höfðu utan Alþýðusambandsins fóru að ganga inn í sambandið á ný er leið á árið 1942.1 Þegar kom að þingi Alþýðusambandsins 1942 voru fylkingar sósíalista og Alþýðuflokksins svipaðar að stærð og varð sú ólíklega niðurstaða að fylkingar náðu saman um stjórn sambandsins. Listi uppstillingarnefndar varð sjálfkjörinn.2 Þeirri niðurstöðu var fagnað af mörgum í herbúðum beggja, sósíalista og stuðningsmanna Alþýðuflokksins.

Morgunblaðið 21. apríl 1942, 3.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 17. sambandsþing 1942,
16−17.

Guðgeir Jónsson, forseti ASÍ, heldur ræðu á útifundi, líklega á 1. maí 1943 eða 1944. Jón Rafnsson, hinn gamalreyndi verkalýðsforingi stendur til hægri við hann. Hann var framkvæmdastjóri ASÍ frá 1944.

Guðgeir Jónsson bókbindari varð forseti sambandsins en hann hafði lengið starfað innan Alþýðusambandsins og Alþýðuflokksins og verið stuðningsmaður Héðins Valdimarssonar. Sósíalistar og alþýðuflokksmenn deildu með sér sætum í miðstjórn. Kjör Guðgeirs var málamiðlun en bæði sósíalistar og alþýðuflokksmenn gátu sætt sig við hann. Sjálfur sagðist hann hafa átt sér „einskis ills von“ þegar hann var beðinn um að taka embættið að sér.3 Báðar fylkingar rituðu í blað sambandsins, Vinnuna, sem stofnað var til um þetta leyti, og var ekki annað að sjá en að eindrægni ríkti á milli flokkanna, „þótt einn af meðlimum stjórnar sambandsins væri hatrammur andstæðingur stjórnarstefnunnar“, sagði Skúli Þórðarson sagnfræðingur. Trúlegt er að hann hafi þar átt við Sæmund Ólafsson sem átti sæti í sambandsstjórn sem fulltrúi Sjómannafélags Reykjavíkur, en víða má sjá þess merki í fundargerðum miðstjórnar ASÍ frá þessum tíma að sósíalistar og Sæmundur áttu í erjum sín á milli.4

ÞÍ. Viðtal við Guðgeir Jónsson. Sögus. verkal., B23: A/1.
Stefán Hjartarson. Viðtöl.
ÞÍ. Fundargerðir miðstjórnar ASÍ 1940−1947. Sögus. verkal.,
A01: 12/1. Yfirstjórn ASÍ. Miðstjórn. Skúli Þórðarson 1966,
29. − Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 18. sambandsþing

Guðgeir Jónsson skýrði síðar hvernig á því stóð að samvinna tókst á milli þessara tveggja flokka sem höfðu deilt af svo mikilli grimmd að persónulegt hatur virtist ríkja á milli æðstu forystumanna flokkanna. Ástæðan var gerðardómslögin árið 1942 sem síðar verður rætt um. Hann segir að „gerðardómstilræði ríkisstjórnarinnar og meirihluta Alþingis“ hafi orðið til þess

Miðstjórn ASÍ árið 1942–1944. Frá vinstri eru: Ágúst H. Pétursson, Þorsteinn Pétursson, Björn Bjarnason, Stefán Ögmundsson, Jón Sigurðsson (standandi), Guðgeir Jónsson, forseti, Eggert Þorbjarnarson, Sæmundur Ólafsson, Hermann Guðmundsson og Þorvaldur Brynjólfsson. Aðeins tveimur árum fyrr hefðu þótt tíðindi að þessir menn gætu unnið saman en það tókst – um tíma.

að þjappa öllum stéttvísum verkalýð svo fast saman, að verkalýðsflokkarnir, Alþýðuflokkurinn og Sósíalistaflokkurinn, urðu, nauðugir viljugir að fella niður að verulegu leyti illvígar deilur sín á milli. Margir forystumenn verkalýðsfélaganna sneru bökum saman, til varnar gegn þessum þvingunarlögum. Þessi sameiginlega vörn snerist furðu fljótt upp í sókn. … Fyrir ágústlok felldi Alþingi svo gerðardómslögin úr gildi og heimilaði uppsögn samninga með viku fyrirvara. … Þessi samstaða verkalýðsins, gegn gerðardómslögunum, hlaut að hafa veruleg áhrif á Alþýðusambandsþingið, sem saman kom um haustið. Þar sveif sá andi yfir vötnunum, að samkomulag yrði að takast um myndun sambandsstjórnar. Sú varð og líka raunin á. Sambandsstjórnin var kosin einróma, og miðstjórnin skipuð fjórum Alþýðuflokksmönnum, fjórum Sósíalistaflokksmönnum, og einum utan flokka.

Baráttan gegn gerðardómslögunum varð því til þess að alþýðuflokksmenn og sósíalistar sneru bökum saman og höfðu t.d. samvinnu um 1. maí-aðgerðir árið 1942 í Reykjavík. Þeir tóku einnig upp samstarf við stjórnarkosningar í Dagsbrún sama ár og höfðu sigur.5 Samstarfið hófst því ekki á þingi Alþýðusambandsins heldur hafði það aðdraganda. Í framhaldi af 16. sambandsþinginu var nú gengið í að sameina félög þar sem klofningur hafði orðið vegna stjórnmálaskoðana og jafnframt að vinna að því að fá inn í ASÍ félög sem ekki höfðu enn talið sig eiga þar heima eða ekki verið þar velkomin. Þetta tókst að mestu fyrir sambandsþingið 1944 og fjölgaði mjög í ASÍ á þessum tíma, eða úr um 12.600 manns haustið 1940 í tæplega 19.000 fjórum árum síðar.

Morgunblaðið 30. apríl 1942, 5. − Alfreð Guðmundsson
1942, 5.

Sameining félaga gekk víðast vel, þó með undantekningum eins og á Akureyri. Þar voru þá þrjú verkalýðsfélög, Verkalýðsfélag Akureyrar, stofnað árið 1933 fyrir tilstilli ASÍ, Verkamannafélag Akureyrar, stofnað árið 1906, og loks Verkakvennafélagið Eining. Þar sem sættir náðust ekki á milli tveggja fyrrnefndu félaganna taldi ASÍ nauðsynlegt að grípa til aðgerða. Sambandið sendi tvo erindreka sína norður, nafna og forna andstæðinga, þá Jón Sigurðsson og Jón Rafnsson; er ekki annað að sjá en að tekist hafi góð samvinna með þeim nöfnunum á þessum árum. Þeir dvöldu á Akureyri í tvær vikur til þess að reyna að leysa vandann. Sættir náðust ekki og ákvað miðstjórn ASÍ því að víkja Verkalýðsfélagi Akureyrar úr ASÍ en taka Verkamannafélag Akureyrar inn í sambandið. Félagið var þó formlega lagt niður undir þessu heiti og annað stofnað undir heitinu Verkamannafélag Akureyrarkaupstaðar. Þar með var tekið upp nafn elsta verkamannafélagsins sem hafði starfað á Akureyri. Verkamenn á Akureyri voru hvattir til þess að ganga í það félag og varð sú raunin.6

Jón Rafnsson 1943, 90−92 (Sameining verkalýðsins á Akur-
eyri). − Tryggvi Emilsson 1977, 313−315.

Frá 1. maí í Reykjavík árið 1944. Ræðupalli var stillt upp á sandpokavígi við Lækjargötu svo að ummerki stríðsins voru greinileg.

Á sambandsþinginu 1942 var samþykkt að ASÍ skyldi gangast fyrir bandalagi samtaka alþýðufólks, sem var kallað Bandalag vinnandi stétta, til þess að „berjast fyrir margvíslegum umbótum og framförum, og til þess að hnekkja völdum afturhaldsins og gera áhrif alþýðusamtakanna gildandi í stjórn landsins“.7 Í raun var þessi viðleitni framhald af samfylkingarbaráttu kommúnista og vinstri sinnaðra jafnaðarmanna. Beiðni þessa efnis var send þremur stjórnmálaflokkum, Sósíalistaflokknum, Alþýðuflokknum og Framsóknarflokknum, en auk þess fjölmörgum hagsmunasamtökum, m.a. BSRB, Lands sambandi iðnaðarmanna, Verzlunarmannafélagi Reykja víkur, Sambandi íslenskra bankamanna, Kvenréttindafélagi Íslands og Bandalagi íslenzkra listamanna. Ætlunin var að boða til ráðstefnu um þessi efni þegar hentugt þætti og boða sem flest félög til hennar. Í framhaldi af ráðstefnunni átti að stofna bandalag þátttakendanna til þess að vinna að framgangi þeirrar stefnuskrár sem samþykkt yrði. Alþýðusambandið lagði fram víðtæka stefnuskrá fyrir þetta samstarf sem um flest líktist stefnuskrá stjórnmálaflokks, enda kölluð stefnuskrá bandalags vinnandi stétta.8 Hugsunin var sú að þetta bandalag gæti leikið lykilhlutverk á sviði landsmála. Í stefnuyfirlýsingunni var m.a. rætt um að tryggja almenna viðurkenningu á átta stunda vinnudegi, efla landbúnað, einkum með hliðsjón af þörfum efnaminni bænda, draga úr verslunargróða og dýrtíð en efla samvinnufélög, bæta alþýðutryggingar, vinna gegn atvinnuleysi og tryggja sölu á útflutningsafurðum þjóðarinnar, svo nokkuð sé nefnt.9

Stefán Ögmundsson 1943, 66.
ÞÍ. Bréf ASÍ til félaga og flokka 23. júlí 1943. Sögus. verkal.
A01: 22/1. Skrifstofa. Ýmis félags-, réttinda- og menningar-
mál. − Sjá einnig Morgunblaðið 22. júlí 1943, 6.
Vinnan I (1943), 121.

Sambandsstjórn ASÍ 1944-1946. Sitjandi frá vinstri eru: Jón Tímotheusson, Kristján Eyfjörð, Jóhann Sigmundsson, Björn Bjarnason, Stefán Ögmundsson, Hermann Guðmundsson forseti, Páll Kristjánsson, Sigurgeir Stefánsson, Gunnar Jóhannsson, Gísli Andrésson og Sigurður Stefánsson. Standandi frá vinstri eru: Jóhannes Gíslason, Þorsteinn Pétursson, Jón Rafnsson, Sigurður Guðnason, Guðbrandur Guðjónsson og Guðmundur Vigfússon.

En viðbrögð við þessari beiðni ollu forystu ASÍ vonbrigðum, enda var stefnan trúlega einkum borin uppi af forystumönnum sósíalista í sambandinu. Þó svöruðu ýmis hagsmunasamtök, t.d. BSRB, sem þá var nýstofnað og óskaði eftir samstarfi í baráttunni við dýrtíðina. Settu forystumenn ASÍ fram þá skoðun að ekkert væri því til fyrirstöðu að taka upp samstarf um takmarkaða þætti stefnuskrárinnar.10 Ráðstefna um þessi efni var haldin 20. nóvember 1943, en upp úr því fór að minnka eindrægnin innan alþýðusambandsforystunnar.

Jón Rafnsson 1943, 169−170 (Bandalag alþýðustéttanna).

Átök að nýju

Þegar kom að kosningum fyrir Alþýðusambandsþing 1944 var eins og sáttagjörðin frá 1942 hefði aldrei verið til. Í aðdraganda þingsins braust stríðið á milli fylkinga sósíalista og jafnaðarmanna út á nýjan leik. Í mörgum stéttarfélögum urðu hörð átök vegna kosninga fulltrúa á þingið þar sem hver sál skipti máli „og á sjálfu þinginu sauð uppúr. En það er annar kapítuli og að mínu viti til viðvörunar“, sagði Guðgeir Jónsson síðar, sem alla tíð var ósáttur við hatrammar deilur vinstrimanna í verkalýðshreyfingunni.11 Tilboð gengu á milli fylkinga um lausnir en samkomulag náðist ekki. Guðgeir Jónsson gaf ekki kost á sér til endurkjörs en að sögn hans gátu alþýðuflokksmenn ekki hugsað sér að starfa með Hermanni Guðmundssyni sem forseta ASÍ. Heldur hefðu þeir sætt sig við „harðan komma“. Ástæðan fyrir andúðinni á Hermanni voru hinar hörðu deilur sem höfðu verið í Hafnarfirði fáum árum fyrr, auk þess sem Hermann hafði verið í forystu sjálfstæðismanna í Hafnar firði og verið erindreki flokksins í verkalýðsmálum. Með öllu slitnaði upp úr samstarfi jafnaðarmanna og sósíalista og tóku hinir síðarnefndu og sjálfstæðismenn upp samvinnu um kjör forseta sambandsins. Alþýðuflokksmenn fyrtust mjög við þessa niðurstöðu, gengu margir hverjir af þingi og höfnuðu setu í stjórn Alþýðusambandsins þó að hún byðist, enda var kjör forseta þeim ekki „að skapi“. Það var því síst friðvænlegra í verkalýðshreyfingunni en verið hafði.12

Guðgeir Jónsson 1966, 12.
ÞÍ. Viðtal við Guðgeir Jónsson. Sögus. verkal., B23: A/1.
Stefán Hjartarson. Viðtöl. − Jón Rafnsson 1944, 276−279. −
Ingólfur V. Gíslason 1994, 154. − Þorleifur Friðriksson 1987,
74−75. Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 18. sambandsþing

Jón Rafnsson, framkvæmdastjóri ASÍ 1944–1948.

Fyrir valinu sem nýr forseti sambandsins varð Hermann Guðmundsson, formaður Hlífar í Hafnarfirði, en hann sigraði fulltrúa Alþýðuflokksins, Helga Hannesson, með einungis fjögurra atkvæða mun, 108 atkvæðum gegn 104.13 Í Hlíf höfðu sósíalistar og sjálfstæðismenn einmitt átt góða samvinnu gegn alþýðuflokksmönnum, eins og fyrr hefur verið getið um. Í Verkamannfélaginu Dagsbrún höfðu Málfundafélagið Óðinn og sósíalistar samstarf við stjórnarkjör og sigruðu lista Alþýðuflokksins með miklum yfirburðum árið 1945.14 Nefna má að um þetta leyti var talsamband á milli forystu Sósíalistaflokksins og Sjálfstæðisflokksins sem lyktaði m.a. með myndun nýsköpunarstjórnarinnar svonefndu, en þar átti raunar Alþýðuflokkurinn einnig aðild, auk sjálfstæðismanna og sósíalista. Hinn nýkjörni forseti sambandsins, Hermann Guðmundsson, lýsti því svo að menn hefðu

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 18. sambandsþing 1944, 16.
Morgunblaðið 1. febrúar 1945, 6.

búizt við að hin mikla og marglofaða eining, sem varð á þingi Alþýðusambandsins fyrir tveimur árum myndi endast lengur en þetta og enda á annan veg en þann að taka á sig mynd fullkomleika óeiningarinnar, þar sem fulltrúar verkalýðsins skiptust í tvo hópa og börðust af heift og skildu í fjandskap.

Þó taldi Hermann bót í máli að þessi óeining hefði ekki náð „í ríkum mæli út fyrir Alþýðusambandsþing“ og þar hafði hann sennilega rétt fyrir sér. Þeir sem mest höfðu sig í frammi í þessum deilum voru einkum þeir sem gegndu forystu innan stjórnmálaflokkanna. Almennir flokksmenn létu sig þessar deilur miklu minna máli skipta.15

Hermann Guðmundsson 1945, 3.

Ekki horfði friðvænlega fyrir þing ASÍ 1946. Hart var barist um sæti á þinginu og stofnanir og forystumenn verkalýðsflokkanna fóru í skotgrafirnar. Verkalýðsmálanefnd Alþýðuflokksins hóf til dæmis baráttu sína með því að skipta aðildarfélögum Alþýðusambandsins í þrjá flokka, þau væru örugg, óvinnandi og vafasöm, og hagaði baráttu sinni eftir því.16 Ekki hefur viðbúnaður sósíalista verið minni, en svo fór að sósíalistar náðu miklum meirihluta og voru alls ráðandi.17 Í Morgun-blaðinu var hvatt til viðbúnaðar gegn „uppivöðslu kommúnista“, enda væri lítill skoðanamunur á milli alþýðuflokksmanna og sjálfstæðismanna innan verkalýðshreyfingarinnar.18 Að mati Sveinbjörns Hannessonar „sjálfstæðisverkamanns“ leiddi samvinna „okkar Sjálfstæðisverkamanna og kommúnista … til þess, að einræði Alþýðuflokksins í Alþýðusambandinu var brotið á bak aftur. En þetta var bara að fara úr öskunni í eldinn því einræði kommúnista er enn verra nú“.19

Þór Indriðason 1996 II, 327.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 19. sambandsþing 1946,
139−140.
Morgunblaðið 26. mars 1946, 6.
Sveinbjörn Hannesson 1946, 2.

Um þetta leyti var farið að hilla undir endalok nýsköpunarstjórnarinnar vegna deilna um flugvallar samning við Bandaríkin þar sem sjálfstæðismenn og sósíalistar tókust aðallega á. Framsóknarflokkurinn var klofinn í deilunni en tveir alþýðuflokksmenn voru andvígir samningsgerðinni, þeir Gylfi Þ. Gíslason og Hannibal Valdimarsson. Þarna birtist ágreiningur hins síðarnefnda við forystu Alþýðuflokksins. Gylfi og Hannibal höfðu raunar einnig haft sérstöðu fyrir stofnun lýðveldis hér á landi og töldust til svokallaðra lögskilnaðarmanna sem vildu fresta sjálfstæðisyfirlýsingu þar til styrjöldinni væri lokið. Hannibal var fyrir þær „sakir“ stundum nefndur maðurinn „sem sveik í sjálfstæðismálinu“ af andstæðingum sínum.20

Morgunblaðið 3. maí 1952, 16.

Stjórn Verkakvennafélagsins Framsóknar árið 1945. Frá vinstri, efri röð: Sigríður Hannesdóttir, Anna Guðmundsdóttir og Guðbjörg Brynjólfsdóttir; sitjandi: Jóna Guðjónsdóttir og Jóhanna Egilsdóttir. Þetta ár var félaginu vikið úr ASÍ.

En fyrir þing sambandsins 1948 voru aðstæður breyttar og andstæðingar alþýðusambandsstjórnarinnar sóttu í sig veðrið, enda hafði forysta Alþýðusambandsins sótt hart að ríkisstjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar og efnahagsstefnu hennar með víðtækum verkföllum.21 Um þetta leyti var skollið á kalt stríð. Við völd sat ríkisstjórn Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks undir forsæti alþýðuflokksmannsins, Stefáns Jóhanns Stefánssonar. Hann ræddi um það í nýársræðu 1948 að hætta væri á klofningi verkalýðshreyfingarinnar, svipað og gerst hefði í öðrum löndum þar sem kommúnistar hefðu náð völdum í verkalýðshreyfingunni.22

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 20. sambandsþing 1947,
14−19.
Alþýðublaðið, 31. desember 1947, 3.

En ótti Stefáns Jóhanns reyndist ástæðulaus, ekki varð klofningur í verkalýðshreyfingunni á Íslandi. „Lýðræðisflokkarnir“, eins og þeir nefndu sig, Alþýðuflokkur, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, mynduðu bandalag gegn sósíalistum.23 Mikið gekk á og réð verkalýðsmálanefnd Alþýðuflokksins sérstakan erindreka til þess að stuðla að hagfelldum úrslitum kosninganna. Í erindi sem nefndin sendi samherjum sínum var varað við bellibrögðum kommúnista. Þeir yrðu að fylgjast vel með og sjá til þess að boðað væri í tíma til fundar þar sem kjörnir væru fulltrúar á þingið. Hafa skyldi sérstaklega í huga að kommúnistar væru vísir til þess að boða til fundar þegar fáir gætu mætt, vegna veðurs eða vegna þess að fólk væri upptekið við vinnu. Ef slíkt kæmi fyrir bæri að krefjast allsherjaratkvæðagreiðslu.24

Þorleifur Friðriksson 1987, 77.
Þjóðviljinn 10. september 1948, 1, 7, en þar er birt bréf
Alþýðuflokksins.

Deilurnar voru mjög harðar. Alþýðusambandinu, undir forystu sósíalista, var meinað að vera með dagskrá í útvarpinu á 1. maí 1948, eins og tíðkast hafði um árabil, og hörð átök voru innan margra verkalýðsfélaga um viðhorf til stjórnmálanna, um stjórnarkjör og þegar fulltrúar voru kosnir til þings Alþýðusambandsins.25 Morgunblaðið flutti ítarlegar fregnir af úrslitum kosninga til þingsins. Haldið var nákvæmt bókhald um það hversu marga hvor fylking hefði fengið kjörna. Þegar fyrir þingið lýsti Morgunblaðið því yfir að kommúnistar „hefðu tapað kosningunum“.26 Ásakanir gengu á báða bóga um brögð og svik og sósíalistar staðhæfðu að andstæðingar þeirra hefðu gengist fyrir því að stofna stéttarfélög víða í sveitum landsins í því skyni að ná meirihluta í ASÍ frá sósíalistum.27 Allmörg slík félög gengu í sambandið um þetta leyti. Flest þeirra voru bílstjórafélög eða félög í sveitahreppum.28

ÞÍ. Fundargerðarbók miðstjórnar ASÍ 1948. Sögus. verkal.,
A01: 12/1. Yfirstjórn ASÍ. Miðstjórn. − Sjá einnig Morgun-
1998, 52−53.
Morgunblaðið 11. september, 6, 14. september, 16, 19. septem-
ber, 12, 30. september, 3 og 22. október, 16 1948.
Þór Indriðason 1996 II, 328−331.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 22. sambandsþing 1950,
25−26.

Þing ASÍ árið 1946. Í bakgrunni eru myndir á vegg af Ottó N. Þorlákssyni og Jóni Baldvinssyni, fyrstu foretum ASÍ. Í miðröð vinstra megin má greina fulltrúa Akureyringa, Jón Ingimarsson, formann Iðju (nr. 5), og Björn Jónsson (nr. 7), formann Verkamannafélagsins.

Ekki tók betra við þegar sjálft þingið hófst því að báðir aðilar gerðu athugasemdir við kjörbréf. Fráfarandi forysta vildi hafna kjörbréfum tæplega 50 fulltrúa af um 250 sem hún taldi ólöglega kosna. Einn þeirra var Hannibal Valdimarsson, fulltrúi Baldurs á Ísafirði! Andstæðingarnir vildu á hinn bóginn hafna átta fulltrúum frá þremur félögum. Stóð í stappi þar til forseti sambandsins, Hermann Guðmundsson, tók þá ákvörðun að bera undir allan þingheim, einnig þá sem vafi lék á hvort væru rétt kjörnir, að taka öll kjörbréf gild. Þetta var í samræmi við tillögu sem Hannibal Valdimarsson hafði áður lagt fram. Þessi ákvörðun Hermanns var tekin þvert ofan í vilja flestra félaga hans í sambandsstjórninni og hefur valdið ósætti í þeirra röðum, enda mótmæltu sósíalistar. Þeir kváðust annars sætta sig við niðurstöðuna sem þeir lýstu þó ólöglega. En til þess að komast hjá klofningi sambandsins yrði látið kyrrt liggja.29

Eggert Þorbjarnarson 1948, 267−269. − Morgunblaðið 16.
nóvember 1948, 1, 6.

Fyrir þessa ákvörðun var Hermann víttur af félögum sínum í Sósíalistaflokknum sem hann hafði verið í frá 1946, en hann kvaðst síðar hafa frétt af því að litlu hefði mátt muna að Alþýðusambandið klofnaði á þessari ögurstundu, svipað og víða hafði gerst annars staðar í Evrópu. Andstæðingar sósíalista hefðu jafnvel verið búnir að fá annan sal til þess að stofna nýtt samband ef með þyrfti.30

Vinnan XLI (1991) 4. tbl., 18, en þar er birt viðtal við
Hermann Guðmundsson.

Helgi Hannesson var kosinn nýr forseti Alþýðusambandsins og lýsti hann því svo að íslensk verkalýðssamtök hefðu verið leyst úr „tröllahöndum“ og þeim hefði stjórnað fólk sem mat „meira stjórnarstefnu erlends stórveldis en hagsmuni íslensku þjóðarinnar“.31 Helgi var reyndur forystumaður verkalýðshreyfingarinnar á Ísafirði, formaður Baldurs um langt skeið og samstarfsmaður Hannibals Valdimarssonar. Með samvinnu allra lýðræðissinna hefði tekist að „bjarga verkalýðssamtökunum úr klóm kommúnista“, en aldrei hefði baráttan verið harðari, að mati Jóns Sigurðssonar forystumanns í Alþýðuflokknum og fyrrverandi framkvæmdastjóra ASÍ. Valdahlutföllin reyndust vera þannig að „sameiningarmenn“, eins og fyrrverandi forysta ASÍ kallaði sig, hafði 109 fulltrúa og um 4500 meðlimi á bak við sig en „lýðræðissinnar“ 140 fulltrúa og 4800 atkvæði. En staða „sameiningarmanna“ var þó enn afar sterk og þeir stjórnuðu enn mörgum helstu stéttarfélögum landsins, þar á meðal Dagsbrún og fulltrúaráði verkalýðsfélaganna í Reykjavík. „Lýðræðissinnar“ unnu einnig kosningarnar 1950 með umtalsverðum mun, töluvert meiri en tveimur árum fyrr.32

Helgi Hannesson 1948, 259.
Morgunblaðið 25. nóvember 1950, 2.

Á þingi ASÍ árið 1948. Fyrir miðju í forgrunni eru fulltrúar Framsóknar, Jóhanna Egilsdóttir og Jóna Guðjónsdóttir, en Jón Sigurðsson, hægra megin við þær, virðist vígamóður eftir átökin á þinginu.

Hermann Guðmundsson, forseti ASÍ 1944-1948 og formaður Hlífar í Hafnarfirði í áratugi.

Sambandsstjórn ASÍ 1948. Frá vinstri, sitjandi: Þorsteinn Guðjónsson, Þórður Jónsson, Ingimundur Gestsson, Magnús Ástmarsson, Helgi Hannesson forseti ASÍ, Jón Sigurðsson framkvæmdastjóri, Ólafur Friðbjarnarson, Sigurrós Sveinsdóttir, Sæmundur Ólafsson varaforseti og Sigurjón Jónsson. Standandi frá vinstri eru: Sigurður Sólonson (varamaður), Páll Scheving, Guðmundur Sigtryggsson, Hafliði Hafliðason, Fritz Magnússon og Þórarinn Kristjánsson.

Svo mikið kapp var lagt á að vinna forystu verkalýðshreyfingarinnar úr höndum sósíalista að „lýðræðissinnar“ fengu fjárhagslegan stuðning bandarískra stjórnvalda. Þetta tengdist Marshall-áætluninni sem þá var að komast í framkvæmd fyrir milligöngu bandarísku Efnahagssamvinnustofnunarinnar, ECA. Mikið samstarf var á milli bandarísku verkalýðssamtakanna og stofnunarinnar, sem lagði áherslu á að tengjast sem nánast verkalýðshreyfingunni í þeim löndum sem nutu Marshall-aðstoðarinnar og vildi að þau tækju upp samstarf við Alþjóðasamband frjálsra verkalýðsfélaga sem stofnað var um þetta leyti. Valur Ingimundarson hefur lýst því svo að hlutverk Marshall-áætlunarinnar hafi verið að

sameina helstu hagsmunahópa samfélagsins, atvinnurekendur, ríkisvaldið og verkalýðshreyfinguna um það markmið að aukinn hagvöxtur og framleiðni væri öllum til góðs. Tilgangurinn var að koma á fót háþróuðum kapítalisma, korporatisma, þar sem almenn velmegun gerði stéttabaráttu óþarfa, eyddi áhrifum kommúnista og stuðlaði að frjálsri heimsverslun.33

Valur Ingimundarson 1996, 166.

Liður í þessu starfi var m.a. að bjóða fulltrúum frá verkalýðshreyfingunni til Bandaríkjanna og fór forseti ASÍ, Helgi Hannesson, og sendinefnd með honum í slíka heimsókn árið 1951.34 Auk þess veitti Bandaríkjastjórn Alþýðusambandinu margvíslegan stuðning í baráttu þess gegn sósíalistum, einkum í útgáfumálum, auk þess sem erindrekar komu til landsins til aðstoðar Alþýðusambandinu og stuðlað var að kynnisferðum forystumanna Alþýðusambandsins. Úr varð að verkalýðsfulltrúi Bandaríkjastjórnar hjá bandaríska sendiráðinu í Kaupmannahöfn, Svend A. Godfredsen að nafni, kom til Íslands í apríl 1952 og dvaldi hérlendis í nokkrar vikur, en hann var einnig fulltrúi MSA í Danmörku, Mutual Security Agency sem tengdist Marshall-áætluninni.35 Slík stofnun var einnig starfrækt hérlendis og var Lawson, bandaríski sendiherrann hér á landi, yfirmaður hennar. Hann lagði m.a. til að stofnuð yrði fræðslunefnd um verkalýðsmál sem „lýðræðisflokkarnir“ sameinuðust um, Fræðslunefnd frjálsra verkalýðssamtaka á Íslandi, og voru nefndarmenn helstu forystumenn Alþýðusambandsins.36 Jafnframt fékk Alþýðusambandið bandarískan fjárstuðning til bókaútgáfu. Bókin Þrælabúðir Stalíns var þýdd og gefin út á íslensku. Þá var einnig veitt fé til kaupa á 2500 eintökum af Vinnunni árið 1952 fyrir alþýðusambandskosningarnar það ár, og kostuð útgáfa á Fréttablaði Alþýðusambandsins sem kom út í 1400 eintökum hálfsmánaðarlega um nokkurra ára skeið. Svo náin voru tengsl Alþýðusambandsins og MSA á Íslandi árið 1952 að framkvæmdastjóri Alþjóðasambands frjálsra verkalýðsfélaga fann ástæðu til að snupra ASÍ fyrir ósjálfstæði gagnvart stofnuninni.37

Helgi Hannesson 1951, 5−9. − Morgunblaðið 4. júlí 1951, 12.
ÞÍ. Jón Sigurðsson til Oldenbroek 12. júní 1952. Sögus. verkal.
A01: 23/12. Skrifstofa. Erlend bréfaskipti. ICFTU.
Fréttablað 1. júlí 1952.
Valur Ingimundarson 1996, 166−177. − Þorleifur Friðriksson
1988, 45−47.

Kápumynd bókarinnar Þrælabúðir Stalíns sem ASÍ gekkst fyrir að yrði þýdd og gefin út árið 1952.

Annars héldu „lýðræðissinnar“ innan verkalýðshreyfingarinnar nánum tengslum vestur um haf allan sjötta áratuginn og lengur. Þessi tengsl birtust skýrt í bréfi Jóns Sigurðssonar til A.E. Lyon árið 1961 þar sem hann biður um stuðning við að fá pláss fyrir unga Íslendinga til þess að sækja námskeið um verkalýðshreyfinguna í Bandaríkjunum. Jafnframt biður hann Lyon um annan greiða:

And now I have a big favour to ask of you. Here in the American Embassy in Reykjavík there is a political officer by the name of Halvor Ekern, and he is the man who on behalf of the American Embassy has been mostly concerned with labour affairs, and as a result has been the contact between us trade unionists and the Embassy. He is enthusiastically interested in trade union matters and at all times has done everything in his power to give us his help. His two year term is now about up. I know for sure that he would like to stay here in Iceland for a longer period of time, if this is possible. For us it would be very important and valuable if this could be realized, due to the fact that he is well acquainted with the local scene and how things operate here in Iceland, for he has made every effort to become knowledgeable about our problems. If you were to speak to the right people in the right places and tried to get them to have Mr. Ekern stay on in Iceland, you would be doing us great service, as well as our cause, in addition to everything else that you have done for us.

En Jón hafði ekki erindi sem erfiði og Halvor Ekern fór.38

ÞÍ. Jón Sigurðsson til A.E. Lyon 23. mars 1961. Sögus. verkal.
B03: A5/01. Skjalasafn Jóns Sigurðssonar. Ýmislegt. Erlend
samskipti. − Alþýðublaðið 29. júlí 1961, 3.

Deilur innan verkalýðshreyfingarinnar voru því enn afar harðar eftir 1950 og birtust þær m.a. í því að Iðja, félag verksmiðjufólks, var rekin úr ASÍ vegna deilna um kjörskrá og töldu alþýðusambandsmenn að ekki hefði verið farið að settum reglum fyrir kosningar í Iðju árið 1951. Því hafnaði stjórn Iðju og var félaginu þá vikið úr ASÍ. Var þá hefnt fyrir brottrekstur Verkakvennafélagsins Framsóknar nokkrum árum fyrr.39 En deilurnar tóku á sig fleiri myndir.

Jón Sigurðsson 1952, 12. − Morgunblaðið 27. febrúar 1951, 16.

Ný forysta ASÍ gaf áfram út tímarit sambandsins, Vinnuna, en fyrrverandi ráðamenn í sambandinu, sósíalistar og bandamenn þeirra, gáfu einnig út tímarit með sama heiti. Það fékk síðar heitið Vinnan og verkalýðurinn (frá 1951) og var stofnað um það Útgáfufélag alþýðu sem sósíalistar stjórnuðu. Einnig urðu deilur vegna hátíðahalda 1. maí í Reykjavík en hefð var fyrir því að fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Reykjavík sæi um þau. Út af þessu var brugðið þegar ný stjórn Alþýðusambandsins ákvað að standa sjálf fyrir hátíðahöldum í höfuðstaðnum á baráttudegi verkalýðsins í samstarfi við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja vorið 1949 og lyktaði þeim deilum svo að verkafólk gat valið um tvær kröfugöngur. Í tilefni af þeim klofningi ritaði Sæmundur Ólafsson, einn af sambandsstjórnarmönnum ASÍ og ritnefndarmaður Vinnunnar, grein í blað sitt og vandaði „sameiningarmönnum“ ekki kveðjurnar. Hafði hann þá í huga mótmælaaðgerðir vegna inngöngu í Atlantshafsbandalagið nokkrum vikum fyrr:

Þorsteinn Pétursson og Jón Sigurðsson ræða málin á ráðstefnu á Laugarvatni árið 1963. Báðir komu mjög við sögu í stjórnmáladeilum innan verkalýðshreyfingarinnar.

Forystumenn kommúnista voru … margir undir eftirliti lögreglunnar og ákærðir fyrir fólskulega aðför að alþingi, á ýmsa þeirra hafði sannazt, að þeir hefðu átt frumkvæðið að skrílsæðinu við alþingishúsið 30. marz, ásamt háskólaprófessorum og ýmsum úrkynjuðum „yfirstéttarmönnum“, sem sokknir eru upp fyrir augu í kennisetningar og lífslýgi, greina ekki rétt frá röngu, en eru blindaðir af ofmati á eigin verðleikum, slitnir úr tengslum við þjóðina og lífið, láta skjalla sig og ljúga til óhæfuverka, sem þeim sjálfum vaxa yfir höfuð, þegar fáráðlingarnir, sem trúa þeim, hafa framkvæmt þau.40

Sæmundur Ólafsson 1949, 118.

Þessi illvíga barátta leiddi iðulega til þess að þing Alþýðusambandsins á þessum árum voru nær óstarfhæf, enda fór stór hluti þingtímans í deilur um kjörbréf og hver ætti rétt til þingsetu og hver ekki. Aðildarfélögin urðu sum hver líka illa starfhæf vegna óvæginna deilna, sem stjórnmálaflokkarnir leiddu, um það hverjir ættu að vera í forystu fyrir viðkomandi félagi eða fulltrúar þess á þingum ASÍ.41 Þess voru jafnvel dæmi að forystumenn í verkalýðsfélögum sættu ákúrum af hálfu „flokksforingja í Reykjavík“ ef þeir sáu ekki til þess að hafa eingöngu um sig hirð flokksmanna, heldur létu sig pólitískan lit litlu skipta og völdu samstarfsmenn fremur eftir verðleikum en stjórnmálaskoðunum.42

Sjá m.a. Þór Indriðason 1996 II, 328.
Verkalýðsfélagið Baldur 70 ára. Afmælisrit, 32.

Frá þingi ASÍ 1948, en það var haldið í Mjólkurstöðinni í Reykjavík. Fremst á myndinni, við borðsenda lengst til vinstri, má sjá Ólaf Friðriksson, einn fulltrúa Sjómannafélags Reykjavíkur.

Átökin á Austurvelli 30. mars 1949 skerptu mjög andstæður í íslenskum stjórnmálum, einnig innan verkalýðshreyfingarinnar.

Ýmsum verkalýðssinnum þótti nóg um þessar deilur, enda „skildu [þær] eftir margan sáran manninn og sáðu mikilli tortryggni á meðal félaganna“.43 Sumir staðhæfðu að þessi átök gerðu hagsmunabaráttu alþýðunnar að „bjánalegum ólátum í stað alvarlegra starfa“ og ætti „skapstillingarfólk í röðum verkamanna … erfitt með að sitja undir þessu“.44 Þessar deilur leiddu því einnig til þess að margir vildu ekki taka þátt í starfi verkalýðsfélaganna. Þær urðu til þess að gengið var fram hjá efnilegu forystufólki sem ekki hafði réttan pólitískan lit en öðrum af réttu sauðahúsi var hins vegar hampað, stundum án verðleika. Þær gátu líka haft bein áhrif á starfsemi félaganna, þau voru hreinlega misnotuð af pólitísku flokkunum, eins og Björn Bjarnason, lengi formaður Iðju, lýsti árið 1979:

Verkalýðsfélagið Jökull Ólafsvík 50 ára, 19.
Verkalýðsfélagið Baldur 70 ára. Afmælisrit, 20.

Þar er auðvitað enginn vafi, að hér á árum fyrr, meðan vinstri flokkarnir voru fjárhagslega lítils megnugir, höfðu þeir tilhneigingu til að nota starfsmenn verkalýðsfélaganna í sína þágu. Það má segja að flokkarnir hafi hlaðið á þá störfum, sem síðan kom niður á því, að þeir höfðu kannski ekki tíma til að sinna sínum félögum sem skyldi. Þetta hefur hins vegar minnkað með meiri fjárráðum flokkanna.45

Vinnan XXIX (1979), 1. tbl., 7.

Ef til vill hafði Björn sjálfan sig meðal annars í huga en hann hafði starfað innan verkalýðshreyfingarinnar nánast alla sína starfsævi.

Að margra mati var verkalýðsflokkunum nær að starfa saman í stað þess að stunda bræðravíg. Það var t.d. álit gamalreynds verkalýðssinna og jafnaðarmanns, Hallbjarnar Halldórssonar, sem birti áskorun þessa efnis í Vinnunni árið 1949. Afstaða hans hefur án efa verið samhljóma afstöðu margra innan verkalýðshreyfingarinnar sem féll miður hin hatramma barátta um völdin innan hreyfingarinnar og á milli „verkalýðsflokkanna“.46 En þessi varnaðarorð höfðu lítil áhrif. Sams konar atgangur og valdabarátta varð fyrir ASÍ-þingið 1952 og undangengin þing; „lýðræðissinnar“ sóttu á og höfðu víða sigur í baráttu um val á fulltrúum á þingið.

Hallbjörn Halldórsson 1949, 44−45.

Hannibal tekur völdin

Fyrir þingið 1954 var enn deilt hart en nú höfðu aðstæður breyst þannig að kominn var upp klofningur innan Alþýðuflokksins og vígstaðan var orðin gjörbreytt. Hanni bal Valdimarsson, sem áður hafði verið einn helsti skotspónn sósíalista og jafnframt einn óvægnasti andstæðingur þeirra, var kominn í andstöðu við ráðandi öfl í Alþýðuflokknum og harða stefnu formannsins, Stefáns Jóhanns Stefánssonar, gagnvart sósíalistum. Þessi andstaða mótaðist smám saman. Hannibal var til dæmis bæði andvígur herstöðvarsamningnum frá 1946 og inngöngu í Atlantshafsbandalagið árið 1949. Innan Alþýðuflokksins kraumaði óánægjan með forystu flokksins á þessum árum. Andstaðan innan flokksins var oft nefnd Blöndalsklíkan, kennd við Jón Blöndal hagfræðing, og urðu hörð átök á milli þessa hóps og forystu flokksins þegar árið 1946. Andstaðan óttaðist að frjálslyndir og róttækir menn söfnuðust „smámsaman til kommúnista vegna ógeðs á hinum flokkunum“.47

Stefán Hjartarson; Þór Indriðason 1991, 16. − Lbs. Hdr.,
Hannibal Valdimarsson, ýmis gögn 1940−1955. II. bréf. 23.
ágúst 1949. − Einnig Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, bréf
I. Bréf Jóns Blöndal til Hannibals 8. febrúar 1947.

Afstaða Hannibals og samherja hans var sú að það væri algerlega í andstöðu við hagsmuni verkalýðshreyfingarinnar að „fulltrúar atvinnurekenda“ – var þá átt við þá sjálfstæðismenn sem sátu í forystu Alþýðusambandsins – ættu þar sæti. Slíkt fyrirkomulag gerði kommúnistum allt of auðvelt fyrir að ná fylgi róttækra verkamanna sem sættu sig ekki við að svona væri haldið á málum. Sjálfur hefði Hannibal haldið fram róttækri verkalýðsmálastefnu á Vestfjörðum og væri öllum ljós árangur þess: þar fyrirfyndust vart kommúnistar. Í þessari stefnu var „hannibalisminn“ fólginn.48

Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, ýmis gögn 1940−1955. II.
bréf. 23. ágúst 1949. − Einnig Lbs. Hdr., Hannibal Valdi-
marsson, bréf HV. Bréf Hannibals til óþekkts viðtakanda 10.
júlí 1954, ritað á dönsku.

Þegar árið 1949 vöruðu samherjar Hannibals á Vestfjörðum forystu Alþýðuflokksins við að „byrja á refsiaðgerðum á Hannibal Valdimarssyni fyrir stjórnmálastefnu hans“ en aðrir samherjar hans óttuðust að hann segði skilið við flokkinn.49 Meðal annars gekk sú saga að „tveir kommúnistaleiðtogar“ hefðu setið yfir Hannibal „heila nótt“ og reynt að fá hann til að bjóða sig fram utan flokka árið 1949, en þeir skyldu á móti fá sitt fólk til að styðja hann. Sama hefði Hermann Jónasson, formaður Framsóknarflokksins, boðið.50 Víst er að á ofanverðum fimmta áratugnum var rætt um samvinnu róttækra jafnaðarmanna í Alþýðuflokknum, framsóknar manna og jafnvel liðsmanna Sósíalistaflokksins. Af slíku samstarfi varð þó ekki svo sem ljóst má vera.51 Um þetta leyti höfðu þau tíðindi gerst að Finnbogi Rútur Valdimarsson, bróðir Hannibals og fyrrverandi ritstjóri Alþýðu-blaðsins um margra ára skeið, hafði gengið til liðs við sósíalista og bauð hann sig fram undir þeirra merkjum árið 1949 án þess þó að ganga í flokkinn.52

Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, bréf I. Bréf stuðnings-
manna Hannibals til miðstjórnar Alþýðuflokksins 6. júní
1949. − Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson. Bréf C−G. Bréf
Eiríks Friðrikssonar til Hannibals Valdimarssonar 28. maí
1949.
Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, bréf VII. Bréf Gylfa Þ.
Gíslasonar til Hannibals Valdimarssonar dagsett 6. septem-
ber 1954.
Stefán Hjartarson; Þór Indriðason 1991, 16.
Óskar Guðmundsson 1987, 48−49.

Þau óvæntu tíðindi gerðust síðan árið 1952 að Stefán Jóhann Stefánsson féll fyrir Hannibal í formannskjöri í Alþýðuflokknum, en hann var búinn að vera formaður síðan Jón Baldvinsson féll frá 1937. En Hannibal varð ekki óumdeildur formaður og átti marga andstæðinga innan flokksins og þeim fækkaði ekki eftir því sem leið á formennskutíð hans. Sumum þótti hann „gerast mjög einráður í flokknum“, en hann tók líka að sér að ritstýra Alþýðublaðinu.53 Verkalýðsarmurinn, sem fleytti honum í formannsstólinn, snerist gegn honum. Samherji Hannibals, Bragi Sigurjónsson, hvatti hann til að draga sig í hlé fyrir flokksþing 1954, styðja þess í stað Gylfa Þ. Gíslason til formennsku og einbeita sér að því að ná kjöri sem forseti ASÍ. Bragi réð honum hins vegar frá því að reyna að ná hvorutveggja „formennsku flokksins og forseta Sambandsins, það mundi þykja of mikið spilað upp á eina hönd“. Svo hvatti Bragi Hannibal til að „gæta ýtrustu varfærni“ og vekja ekki að óþörfu „tortryggni hægri manna um tilhneigingu til samstarfs við kommúnista“.54 Hannibal var ef til vill ekki varfærinn og þegar kom til kosninga innan Alþýðuflokksins um formannsembættið 1954 féll hann fyrir Haraldi Guðmundssyni.

Óskar Guðmundsson 1987, 51.
Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, bréf A−B. Bragi Sigur-
jónsson til Hannibals 17. maí 1954.

Þrátt fyrir að „lýðræðissinnar“ hefðu sigur á Alþýðusambandsþingi árið 1952 mátti vera ljóst að óvissa var fram undan. Hannibal var þá þegar farinn að prédika „samstöðu verkalýðssinna“ í Vinnunni og vildi senda „út á sextugt djúp sundurlyndisfjandann“. Þess í stað bæri öllum verkalýðssinnum að taka höndum saman og styðja þá ríkisstjórn eina sem vildi fulla atvinnu, efla framleiðsluna í stað þess að þiggja gjafafé og tæki framleiðsluatvinnuvegina fram yfir hagsmuni „kauphöndlunar og brasks“. Til þess að ná þessu marki bæri að stefna að samvinnu verkalýðssamtaka, bændasamtaka og samtaka iðnaðarmanna og vinna að breytingum á lýðræðislegan hátt en ekki í anda „einræðis og byltingarstarfsemi“, enda væru þeir fáir sem styddu slíkt. Hannibal minntist ekki á kommúnista í grein sinni og þegar árið 1953 ráðgerðu ýmsir forystumenn Alþýðuflokksins innan verkalýðshreyfingarinnar að taka upp samvinnu við sósíalista en útiloka jafnframt sjálfstæðismenn frá áhrifum, enda sat þá að völdum ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Þannig varð þróunin til dæmis hjá Félagi rafvirkja í Reykjavík þar sem Óskar Hallgrímsson var í forystu. Ekki var von að Morgunblaðinu hugnaðist þessi þróun og kallaði blaðið Óskar „aftaníossa kommúnista“.55

Morgunblaðið 1. mars 1953, 2.

Draumsýn Hannibals var „lýðræðisleg bylting“ og hann steig á bak skáldfáki sínum:

Hún gæti komið eins og vorleysing eftir kaldan og strangan vetur og umbreytt íslensku þjóðfélagi. Hún gæti borist um landið allt og altekið þjóðfélagið eins og blærinn, þegar bylgju slær á rein, en máske líka brotist út stormur, svo að hrikti í grein … Spurningin er bara þessi: Vilt þú í verkalýðsfélaginu, þú í kaupfélaginu, þú í unghreyfingu eða félagi flokks þíns, þú í félaga- og vinahópnum, þú á vinnustaðnum, hvort sem hann er á eyrinni eða upp til sveita, í verksmiðju eða á votum leiðum sjómannsins – taka að vinna að alþýðustjórnarfari á Íslandi?56

Hannibal Valdimarsson 1952, 7, 27.

Æðsta ósk Hannibals var að hverfa til þess tímabils þegar flokkur og verkalýðsfélag voru eitt. Sú afstaða hans sætir engum undrum þegar litið er til starfsemi hans á Ísafirði og Verkalýðsfélagsins Baldurs. Því fór fjarri að félagið væri eingöngu stéttarfélag, það var „í raun aðalflokksfélagið á Ísafirði … Í félagsstjórninni og á félagsfundum voru öll helstu umbótamál bæjarfélagsins rædd, og geysilegur áhugi var meðal félagsmanna“.57 En draumar hans nærðust líka af gangi mála á Norðurlöndum þar sem jafnaðarmenn höfðu tögl og hagldir í nánu samstarfi við verkalýðshreyfinguna.

Verkalýðsfélagið Baldur 70 ára. Afmælisrit, 18−19.

Fyrir Alþýðusambandsþing 1954 var því margt búið að gerast og andstæður höfðu skerpst innan Alþýðuflokksins. Hannibal íhugaði að taka upp samvinnu við sósíalista, enda taldi hann fráleitt að halda uppi samstarfi við stuðningsmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Það samstarf hefði verið tekið upp þegar Stefán Jóhann Stefánsson var forsætisráðherra í ríkisstjórn með fyrrgreindum flokkum. Nú væri flokkurinn í stjórnarandstöðu og því gengi „verkafólki úti um land … heldur erfiðlega að skilja samhengið í því, að flokkur þess skuli sífelt telja sér nauðsynlegt að hafa nána samningsbundna samvinnu í verkalýðshreyfingunni við hinn sterka atvinnurekendaflokk þó að barizt sé gegn honum á stjórnmálasviðinu“.58 Hannibal var til í að bjóða sósíalistum samvinnu með þeim kjörum að þeir fengju tvo menn í miðstjórn ASÍ í stað þeirra tveggja fulltrúa sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði haft. Um þetta ræddi Hannibal við samherja sinn og félaga, Gylfa Þ. Gíslason. Gylfi varaði Hannibal við því að taka þetta skref og bað hann að gæta sín á „kommum“, samstarfið við þá gæti reynst hættulegt.59

Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, uppköst, annað. II. bréf
Hannibals til félaga í verkalýðshreyfingunni, ódagsett.
Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, bréf VII. Bréf Gylfa Þ.
Gíslasonar, dagsett 9. júlí 1954.

Hannibal Valdimarsson með félögum sínum í Alþýðusambandi Vestfjarða, líklega í kringum 1940. Hannibal er annar frá vinstri í fremstu röð, við hlið hans er Helgi Hannesson, síðar forseti ASÍ, og þá Stefán Jóhann Stefánsson sem var forseti ASÍ 1938-1940 og formaður Alþýðuflokkins til 1952, þá felldur af Hannibal. Fyrir aftan þá Helga og Stefán er Guðmundur G. Hagalín rithöfundur (með gleraugu).

Þegar kom að þingi ASÍ síðla árs 1954 var nýlega búið að setja Hannibal af sem formann Alþýðuflokksins og ritstjóra Alþýðublaðsins. Mikið hafði því gengið á í Alþýðuflokknum, meðal annars í tengslum við sveitarstjórnarkosningar fyrr á árinu. Þar kom Finnbogi Rútur, bróðir Hannibals, mikið við sögu.60 Og Hannibal náði ekki einu sinni kjöri í miðstjórn flokksins. Að loknum kosningum til Alþýðusambandsþingsins lagði Hannibal mat á stöðuna. Samkvæmt því höfðu alþýðuflokksmenn 121 fulltrúa, sósíalistar 123–128, sjálfstæðismenn 28 og framsóknarmenn 24. Þá voru níu sem óvíst var hvaða afstöðu tækju. Hannibal var ráðinn í að fara ekki að tillögum Gylfa Þ. Gíslasonar samherja síns eða þeirra sem voru til hægri í Alþýðuflokknum um að mynda meirihluta með sjálfstæðismönnum. Ætlunin væri alls ekki að

Þorleifur Friðriksson 1988, 28−33, 48 og áfram.

framlengja íhaldsvíxilinn á þessu alþýðusambandsþingi. Ég vil engan íhaldsmann í sambandsstjórn. Enn síður vil ég þola lengur nokkurn atvinnurekendahlustara á skrifstofu A.S.Í. Að láta hann fara, er eins sjálfsagt eins og að skrúfa fyrir hlustunartæki, sem komið væri fyrir í fundaherbergi Alþýðusambandsins með beinu sambandi á skrifstofur Vinnuveitendasambands Íslands og Sjálfstæðisflokksins.

Þessum orðum beindi Hannibal til Sigurjóns Jónassonar sem starfaði á skrifstofu ASÍ og var stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins. Hannibal kvaðst vilja hafa mál þannig að teknir væru menn inn í sambandsstjórn

með tilliti til þess eins, að hún njóti styrks og stuðnings allra sterkustu verkalýðsfélaganna í landinu. Til þess að tryggja þennan styrk, er ég ekki hræddur við að taka tvo eða þrjá fulltrúa í stjórnina frá félögum, sem sócíalistar stjórna. … Þetta er alls ekki hugsað af minni hendi sem greiði við kommúnista, heldur sem nauðsynleg aðgerð til að mynda sterka sambandsstjórn. Gegn íhaldsstjórn í landinu verður Alþýðusambandið að vera brimbrjótur og óvinnandi vígi.61

Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, ýmis gögn 1940−1955. II.
bréf. 23. ágúst 1949. − Einnig Lbs. Hdr., Hannibal Valdi-
marsson, bréf HV. Bréf Hannibals til Sigurðar Ingvarssonar
10. nóvember 1954.

Stefna Hannibals mótaðist því af því að hann vildi draga úr áhrifum Sjálfstæðisflokksins, sem hann áleit vera flokk atvinnurekenda, innan verkalýðshreyfingarinnar; flokkurinn hafði sótt mjög í sig veðrið innan verkalýðshreyfingarinnar eftir 1948.62 Hann var enginn jábróðir kommúnista og átti oft og tíðum í hörðum deilum við þá, en hann áleit þó að samstarf við þá innan verkalýðshreyfingarinnar kæmi til greina.63 Sérstaklega vildi hann snúa sér til þeirra innan Sósíalistaflokksins sem hann áleit að væru róttækir jafnaðarmenn en töldu sig ekki eiga heima í Alþýðuflokknum vegna íhaldssamvinnu hans. Sjálfstæðismenn óttuðust þessa þróun á hinn bóginn mjög og vöruðu við stefnu Hannibals, enda gæti stefna hans leitt til þess að „utangarðslýð verði fengin aðstaða til þess að nota heildarsamtök hans [verkalýðsins] til hermdarverka gegn hagsmunum þjóðarinnar“.64

Stétt með stétt 1981, 32−33 og áfram.
Sjá m.a. Þorleifur Friðriksson 1988, 58, 67.
Morgunblaðið 25. september 1954, 8.

Gylfi Þ. Gíslason réð félaga sínum, Hannibal, eindregið frá samstarfi við sósíalista, en án árangurs.

Mál þróuðust því þannig á Alþýðusambandsþinginu 1954 að annars vegar tókust á sósíalistar og alþýðuflokksmenn sem voru til vinstri – það virtust vera örlög Alþýðuflokksins að klofna reglulega og missa vinstri arminn úr flokknum – og hins vegar „lýðræðissinnarnir“, þ.e. ráðandi hluti Alþýðuflokksins og sjálfstæðis- og framsóknarmenn. Fyrir þingið sendi Hannibal bréf til forystufólks í verkalýðshreyfingunni þar sem hann réttlætti samvinnu við sósíalista og kvaðst

hiklaust vinna það til að taka 2 sócíalista inn í sambandsstjórn til þess að tryggja fullt vald yfir þýðingarmestu höfnunum kring um land og yfir Reykjavíkurhöfn. Þetta tel ég nauðsyn, ef verkalýðssamtökin eiga að geta haldið hlut sínum í úrslitaátökum við sameinað vald atvinnurekenda og íhaldssamra ríkisstjórna.65

Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, ýmis gögn 1940−1955.
Bréf dagsett 4. nóvember 1954.

En á sama tíma höfðu ráðandi öfl innan Alþýðuflokksins fengið því framgengt að þingfulltrúar sem studdu Sjálfstæðisflokkinn höfðu fallist á að styðja miðstjórn sem eingöngu sætu í alþýðuflokksmenn með Hannibal í forsæti. Þetta tilboð kom fram degi fyrir þinglok.71

Sjá m.a. Réttur 38. árg. (1954), 1.−4. hefti, 98.

Sósíalistar og Hannibal ná yfirráðum yfir ASÍ á þingi þess 1954, Alþýðublaðið skýrir frá.

Sjálfstæðismenn voru ekki sáttir en létu sig hafa það að styðja slíkan lista þó að engir sjálfstæðismenn hefðu mátt „sjást þar í framboði“. Til þess hefði Alþýðuflokkinn brostið kjark.67 En tilboðið kom of seint, þegar hafði verið gengið frá málum og Hannibal hafnaði því „að grundvalla stjórn Alþýðusambands Íslands næstu tvö ár á óbeinum stuðningi íhaldsins“. Frekar vildi hann taka upp samvinnu við sósíalista. Þar með hefðu þau „öfl, sem sýndu glæsilegan mátt samtakanna í verkfallinu mikla haustið 1952 … tekið höndum saman“.68

Morgunblaðið 28. nóvember 1954, 9.
Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, uppköst, greinar. Hvað
gerðist á Alþýðusambandsþingi? [ritað eftir ASÍ þing 1954].

Hannibal gagnrýndi jafnframt að stjórnmálaflokkarnir ynnu í því á hverju þingi að múlbinda þingfulltrúa á Alþýðusambandsþingum, en það tíðkaðist að fyrir hvert þing voru þeir fulltrúar sem voru taldir tilheyra tilteknum stjórnmálaflokki kallaðir saman og farið yfir málin sem lágu fyrir en þó fyrst og fremst lagðar línur í baráttunni um völdin. Þetta var gert sem endranær fyrir þingið 1954, en Hannibal staðhæfði að slíkar samþykktir hefðu í raun ekkert gildi og breyttu ekki neinu um það „vegarnesti, sem verkalýðsfélögin sjálf hafa gefið fulltrúum sínum til alþýðusambandsþings“.69

Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, uppköst, annað II. bréf
Hannibals til félaga í verkalýðshreyfingunni 4. nóvember
1954.

Þegar gengið var til kosninga á þinginu var spenna í loftinu og óvissa um hvernig niðurstaðan yrði. Er talningu var lokið kom í ljós að tæp 20 atkvæði skildu að Hannibal og Jón Sigurðsson sem var frambjóðandi fráfarandi stjórnar við kjör til forseta og enn minni var munurinn við kjör varaforseta. Munaði aðeins tveimur atkvæðum á milli Eðvarðs Sigurðssonar, sem var sósíalisti, og Óskars Hallgrímssonar sem var í Alþýðuflokknum við kjör til varaforseta. Aðeins munaði einu atkvæði við kjör til ritara.70 Stuðningsmenn Hannibals fengu svo flest sæti í miðstjórn sambandsins, fengu sjö af níu sætum, sósíalistar fengu aðeins tvo miðstjórnarmenn eins og um hafði verið samið þó að þeir væru langtum fleiri en stuðningsmenn Hannibals á þinginu, en Eðvarð Sigurðsson varð varaforseti.71 Hins vegar má ætla að fulltrúar þeirra hafi verið áhrifamiklir. Þeir voru Eðvarð Sigurðsson, formaður Dagsbrúnar, og Snorri Jónsson, úr forystusveit járnsmiða, báðir reyndir baráttumenn. Jón Sigurðsson lýsti niðurstöðunni í bréfi til erlends félaga að þetta væri einmitt raunin. Hann fullyrti að „kommúnistar mundu verða í ráðandi stöðu innan sambandsins, „for although there are only 2 Communists out of a total of 9 serving on the Executive Board, they practically are the only ones who are well trained and experienced union leaders and have powerful unions supporting them, for apart from Hannibal Valdimarsson, the rest of the 9 members have very little or no active experince in union affairs and enjoy no trust or strong support within their unions“.77 Þessi orð Jóns má til sanns vegar færa.

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 24. sambandsþing 1954,
124−125. − Ingólfur V. Gíslason 1994, 200−203.
Sjá m.a. Réttur 38. árg. (1954), 1.−4. hefti, 98.
ÞÍ. Fundargerðir 26. þings ASÍ 1958, 46−47. Sögus. verkal.
A01: 10/2. Yfirstjórn ASÍ. − Morgunblaðið 28. nóvember 1958, 1.

Samhliða valdaskiptunum var skipt um starfsmenn ASÍ. Jón Sigurðsson lét af framkvæmdastjórastörfum og Sigur jón Jónsson einnig, en hann starfaði á skrifstofu ASÍ. Sá síðarnefndi mótmælti uppsögn sinni, taldi ekki heimilt að honum væri sagt upp án fyrirvara og fór í mál við ASÍ.73

Morgunblaðið 5. janúar, 16, og 11. febrúar, 16, 1955.

Hannibal lét mikið að sér kveða. Hann varð framkvæmdastjóri ASÍ, samhliða formennskunni, auk þess sem hann var ritstjóri Vinnunnar og skrifaði mikinn hluta blaðsins. Svipað gerðist reyndar þegar hann varð formaður Alþýðuflokksins. Þá gerðist hann einnig ritstjóri Alþýðublaðsins og lagði því til mikið efni. Hannibal skorti hvorku orku né kjark og hann var ófeiminn við að ferðast um landið og ræða við forystufólk í verkalýðshreyfingunni, og var að sögn fyrsti forseti ASÍ sem hélt almenna fundi með verkafólki á Austurlandi árið 1955.74 Aðrir starfsmenn sambandsins urðu Snorri Jónsson, sem einnig var gjaldkeri miðstjórnar, og Jón Þorsteinsson sem var ráðinn lögmaður sambandsins.75 Á næsta þingi sambandsins 1956 héldu Hannibal og stuðningsmenn hans meirihlutanum og styrktu stöðu sína; Hannibal varð sjálfkjörinn forseti.76

Vinnan XII (1955), 4.−5. tbl., 2, 4.
Vinnan XII (1955), 2. tbl., 5.
Morgunblaðið 27. nóvember 1956, 2.

Á þingi ASÍ árið 1958 náðist loks meiri sátt við stjórnarkjör en verið hafði og sáttahugur var í fulltrúum verkalýðsflokkanna í verkalýðshreyfingunni. Samkomulag varð um að hvor þeirra fengi fjóra fulltrúa í miðstjórn en sá sem ekki fengi forsetann skyldi fá í sinn hlut varaforseta og ritara. Kosið var til forsetaembættisins og sigraði Hannibal Eggert G. Þorsteinsson með litlum mun, einungis munaði níu atkvæðum á þeim af yfir 330 atkvæðum sem greidd voru. Í framhaldinu var Eggert kjörinn varaforseti.77 Sjálfstæðismenn höfðu verið að sækja í sig veðrið innan hreyfingarinnar. Þeir náðu t.d. völdum í Iðju í Reykjavík, Trésmiðafélaginu og Þrótti á Siglufirði á árinu 1957 en bæði Iðja og Þróttur höfðu lengi verið vígi róttækra sósíalista. Mikið var viðhaft til þess að ná settu marki, komið upp kosningaskrifstofum og kjósendum jafnvel ekið á kjörstaði. Kjörsókn í Iðju varð hátt í 90% sem var óvenjulegt. En sigur „lýðræðissinna“ var afar naumur, munaði aðeins 26 atkvæðum.78 Þrátt fyrir þessa sókn fengu sjálfstæðismenn engan fulltrúa í sambandsstjórn ASÍ árið 1958 en þó höfðu þeir talið sig vera í bandalagi við Alþýðuflokkinn fyrir sambandsþingið og höfðu flokkarnir víða haft samstarf um fulltrúakjör. Sjálfstæðismenn álitu því að alþýðuflokksmenn hefðu gengið á bak orða sinna með því að ganga til samstarfs við Hannibal og sósíalista. Pétur Sigurðsson sagði í tilefni af samstarfi alþýðuflokksmanna og sósíalista að stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins á þinginu ættu

ÞÍ. Fundargerðir 26. þings ASÍ 1958, 46−47. Sögus. verkal.
A01: 10/2. Yfirstjórn ASÍ. − Morgunblaðið 28. nóvember 1958, 1.
Morgunblaðið 26. febrúar 1957, 1. − Ingólfur V. Gíslason 1994,
274−278.

engan þátt í þessum tillögum um kjör manna til sambandsstjórnar. Við höfum unnið af einhug með Alþýðuflokknum að því að draga úr áhrifum kommúnista í verkalýðshreyfingunni. En hér hafa verið framin svik við lýðræðisflokkana og eigum við engan þátt í því sem hér fer á eftir.79

Morgunblaðið 2. desember 1958, 2.

Í framhaldi af þinginu var Óskar Hallgrímsson ráðinn framkvæmdastjóri ASÍ í stað Snorra Jónssonar sem gegnt hafði því starfi í tvö og hálft ár en Snorri var þó áfram í starfi fyrir sambandið.80 Samvinnu Alþýðuflokks og Alþýðubandalags var haldið áfram um sinn og tókst samvinna á milli þeirra um stjórnarkjör í ýmsum stéttarfélögum, t.d. í vörubílstjórafélaginu Þrótti árið 1958, sem hafði verið stjórnað af sjálfstæðismönnum um árabil.81

Vinnan XV (1958), 9.−12. tbl., 15, 18.
Vinnan XVI (1959), 1.−2. tbl., 3.

Sambandsstjórn ASÍ 1954. Sitjandi frá vinstri eru: Alfreð Guðnason, Sigríður Hannesdóttir, Hannibal Valdimarsson forseti, Eðvarð Sigurðsson, Páll Sólmundsson, Ágúst Vigfússon og Ásbjörn Karlsson. Standandi frá vinstri eru: Sigurður Stefánsson, Björn Jónsson, Magnús P. Bjarnason, Kristján Guðmundsson, Snorri Jónsson, Jón Friðbjörnsson, Ásgeir Guðmundsson og Pétur Óskarsson.

En vopnahléð stóð stutt. Á þingi ASÍ árið 1960 riðluðust enn fylkingar. Alþýðuflokksmenn tóku á ný upp samvinnu við sjálfstæðismenn, enda sat nú við völd ríkisstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks. Það dugði þó ekki til og var Alþýðuflokknum úthýst úr stjórn ASÍ við kosningar á þinginu. Snorri Jónsson varð á ný framkvæmdastjóri sambandsins. Alþýðubandalagið, sem varð til sem kosningabandalag árið 1956, hélt einnig meirihluta í stjórn sambandsins árið 1962 og varð forsetinn og stjórnin þá sjálfkjörin.82

Vinnan XIX (1962), 10.−12. tbl., 5.

Hinn pólitíski klofningur innan verkalýðshreyfingarinnar leiddi tvímælalaust til þess að hún varð miklu veikari á stjórnmálasviðinu en í nágrannalöndunum og hafði það án efa víðtæk áhrif á íslenska þjóðfélagsþróun. Klofningurinn hafði líka margvísleg neikvæð áhrif í starfi hreyfingarinnar, eins og bent hefur verið á. Ekki dró heldur mikið úr pólitískri baráttu innan hreyfingarinnar þrátt fyrir að sæst væri á að allar fylkingar hefðu fulltrúa í miðstjórn sambandsins. Flokkarnir skiptu sér áfram mikið af starfi hennar og sköruðu eld að köku sinni. Hér má benda á að íslensk verkalýðshreyfing hafði mikla sérstöðu miðað við hin Norðurlöndin hvað þessi mál varðar: mikill styrkur róttækra sósíalista var íslenskt sérkenni (líka í Finnlandi), veik staða jafnaðarmanna en öflugt fylgi við hægri stefnu var líka hluti af sérstöðu Íslands. Þessa stöðu skildi fólk í verkalýðshreyfingunni á Norðurlöndum ekki, „hvernig íhaldsmenn komust til valda í verkalýðshreyfingunni“, að sögn Þóris Daníelssonar.83

Vinnan XLIII (1993), 1. tbl., 25.