Efnisyfirlit

Deila sögu ASÍ

Tímabilið fram til 1940

Fyrsti nýsköpunartogarinn, Ingólfur Arnarson, kom til Reykjavíkur í febrúar árið 1947, tákn nýrra tíma í íslensku atvinnulífi.

Alþýðusambandið og ríkisstjórnir eftir stríð

Saga ASÍ: Í samtök › Tímabilið frá 1940 og fram um 1960

Alþýðusambandið og ríkisstjórnir eftir stríð

Alþýðusambandið fagnaði mjög myndun nýsköpunarstjórnarinnar árið 1944 sem kæmi í stað „úrræðalausrar utanþingsstjórnar afturhaldsaflanna“. Raunar bárust ríkis stjórninni kveðjur og árnaðaróskir frá bæði samtökum launafólks og atvinnurekenda.1 Sambandið hafði haft mikil áhrif á að ríkisstjórnin varð til og staðhæfðu forystumenn þess að nýsköpunarstjórnin væri fyrsta ríkisstjórnin sem verkalýðshreyfingin ætti „verulegan þátt í að mynda“. Með þeirri staðhæfingu var kannski fullmikið sagt, enda ekki langt um liðið síðan stjórn hinna vinnandi stétta hélt um stjórnartauma. En hvað sem því líður var nýsköpunarstjórnin óskastjórn verkalýðshreyfingarinnar og lýstu framámenn hennar því yfir að nauðsynlegt væri að hreyfingin stæði „einhuga bak við ríkisstjórnina“ og tæki „svo þétt í hönd borgarastéttarinnar, að ekki verði hætt við verkið fyr en það er fullkomnað“. Þó mætti ekki gleyma því að einungis væri um að ræða vopnahlé á milli höfuðfylkinganna tveggja, verkafólks og atvinnurekenda.2 Í sáttmála ríkisstjórnarinnar kom fram að bæði ASÍ og Vinnuveitendafélagið hefðu gefið yfirlýsingar um að samböndin mundu stuðla að vinnufriði. Í tilkynningu ríkisstjórnarinnar kom einnig fram að setja ætti ný launalög í samræmi við óskir BSRB, að Ísland gerðist þátttakandi í ILO, Alþjóðavinnumálastofnuninni, og að sett yrðu ný almannatryggingalög, sem var gert árið 1945.3 Myndun ríkisstjórnarinnar var að mati ASÍ mikill „sigur fyrir lýðræðisöfl landsins í baráttunni fyrir efnalegu og andlegu frelsi þjóðarinnar“.4

Morgunblaðið 5. nóvember 1944, 3.
Eggert Þorbjarnarson 1945, 88.
ÞÍ. Ólafur Thors, tilkynning frá ríkisstjórninni 21. október
1944. Sögus. verkal. A01: 22/5. Skrifstofa. Ýmis félagsmál.
Stjórnmál 1916−1976. − Alþt. A 1945, 584−641.
Morgunblaðið 2. desember 1944, 6.

Í þátttöku Alþýðusambandsins fólst nokkurs konar þjóðarsátt á þann hátt að heildarsamtökin, Vinnuveitendafélagið og Alþýðusambandið, tjáðu sig reiðubúin til þess framlengja kjarasamninga að mestu óbreytta næstu misseri, enda mætti segja að víðast væri kaup orðið „viðunanlegt“. Miklar vonir voru bundnar við fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um „nýbyggingu atvinnuveganna“, enda þyrfti framleiðslutækni landsmanna að komast á svipað stig og hjá öðrum þjóðum. Íslendingar þyrftu að velja um annað tveggja, land „nútímatækninnar eða vesaldóminn“.5 Með þessum ákvörðunum um uppbyggingu í landinu var einnig verið að bregðast við því að í kjölfar stríðsins gæti komið kreppa, svipað og hafði gerst eftir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar. Það vildu forystumenn í verkalýðshreyfingunni og innan verkalýðsflokkanna koma í veg fyrir. Þeir álitu einnig að taka bæri af skarið um það að sjávarútvegurinn væri höfuðatvinnuvegur þjóðarinnar en ekki landbúnaðurinn. Það væri skilyrði þess að „þjóðin gæti risið upp úr því miðaldalega menningarleysi, sem ríkti fram á 20. öldina, í það að verða menningarþjóð er hefði næga sjálfsvirðingu og þjóðarmeðvitund til þess að geta orðið sjálfstæð þjóð“. Framsóknarflokkurinn var sakaður um að hafa staðið í vegi fyrir þessari þróun með því að styrkja landbúnað á kostnað sjávarútvegs, í því skyni að framlengja líf þeirrar atvinnugreinar „í því úrelta formi sem hann er“.6 Samhliða hefðu verið lagðar hömlur á sjávarútveginn.

Guðmundur Vigfússon 1944, 281−283.
Áki Jakobsson 1945, 231.

Forsíða bæklings sem Sósíalistaflokkurinn gaf út um „nýbyggingu“ Íslands. Togaraútgerð, verksmiðjur, rafvæðing, vélvæðing sveitanna, í stuttu máli nútímavæðing landsins var markmiðið, og sterkir karlar höfðu þar forgöngu. Lítið rými var fyrir hið kvenlega. Þessar hugmyndir voru mjög í anda stefnu ASÍ á þessum tíma.

Þegar á öðru starfsári ríkisstjórnarinnar var talið að allt væri á góðri leið, enda væri verið að undirbúa stóraukningu togaraflotans, byggja frystihús og hafnir. Að mati Jóns Rafnssonar, framkvæmdastjóra ASÍ árið 1945, hafði þessi ríkisstjórn afrekað meira á einu ári en nokkur önnur. Fullvinnsla sjávarafla var lykillinn að framtíðinni í atvinnumálum, að mati forystu ASÍ, og ekki síður leið til að komast hjá atvinnuleysi sem hafði verið höfuðvandamál verkalýðsins aðeins nokkrum árum fyrr.7 Verkalýðshreyfingin undir forystu sósíalista hamraði á þessum sjónarmiðum: byggjum upp sjávarútveg og iðnað. Það er grundvöllurinn að framtíðinni, framtíð án atvinnuleysis, í landi sem gæti staðið undir sér sem sjálfstætt ríki en ekki veikburða hráefnaframleiðandi. Samhliða ætti að skipuleggja út- og innflutningsverslunina og koma í veg fyrir hvers kyns óþarfa innflutning.8 Iðnvæðingarstefna og skipulagshyggja var því atvinnustefna Alþýðusambandsins á þessum árum. Á þeirri stefnu byggði nýsköpunarstjórnin að mati ráðamanna í ASÍ, ríkisstjórnin „sem gerði að málefnagrundvelli sínum flest helstu málin sem sambandið hafði sett á oddinn í baráttu sinni fyrir myndun bandalags vinnandi stétta“. Hún „olli meiri atvinnulegum og menningarlegum framförum en nokkurt annað tímabil í Íslandssögunni“, að mati sambandsins.9 Höfuðandstæðingurinn var álitinn verslunarauðvaldið sem sóaði þeim dýrmæta gjaldeyri sem aðrir voru búnir að strita fyrir og hagnaðist á „milliliðagróða“. Þessari atvinnustefnu fylgdi Alþýðusambandið á komandi árum þrátt fyrir að breytingar yrðu á stjórn þess. Aukin iðnvæðing og fullvinnsla afla í landinu í stað þess að flytja aflann óunninn úr landi voru kjörorð hreyfingarinnar.10

Jón Rafnsson 1945, 205−206. − Eggert Þorbjarnarson 1945, 88.
Vinnan V (1947), 245.
Vinnan VI (1948), 186, 217.
Sjá m.a. Jón Hjálmarsson 1951, 10−13.

Nýsköpunarstjórnin hélt velli í tvö ár og varð því ekki langlíf. Heitasta deilumál eftirstríðsáranna, herstöðvamálið, varð henni að aldurtila. Um var að ræða samning við Bandaríkjamenn sem var gerður árið 1946, svonefndan Keflavíkursamning. Forysta ASÍ var mjög andvíg gerð samningsins, enda einungis tvö ár liðin frá lýðveldisstofnuninni. Margir töldu vegið að sjálfstæði þjóðarinnar og Alþýðusambandið krafðist þess að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um samninginn. Meðal annars beitti það sér fyrir því að aðildarfélögin mótmæltu „hverskyns afsali landsréttinda“ og stóð fyrir fjölmennum útifundum í miðborg Reykjavíkur ásamt fleiri samtökum þar sem fyrirætlunum um herstöðvasamning við Bandaríkin var harðlega mótmælt. Sambandsstjórnin lýsti því yfir að hún vildi að samtökin beittu „öllu því afli og valdi, sem þau búa yfir, til varnar hverri hættu, sem steðja kann að sjálfstæði og frelsi þjóðarinnar“.11 Jafnframt hvatti sambandsstjórn ASÍ félagsmenn sambandsfélaganna til að leggja niður vinnu 23. og 24. september 1946. Það var fyrsta allsherjarverkfallið hér á landi og þátttaka í því var mikil. Forysta Alþýðusambandsins leit á sig sem helstu „máttarstoð íslenzkrar sjálfstæðisbaráttu“.12 En þrátt fyrir hörð mótmæli var samningurinn samþykktur og ríkisstjórnin fór frá. Er gerður var nýr herstöðvasamningur við Bandaríkin árið 1951 voru hins vegar önnur öfl við stjórnvölinn hjá Alþýðusambandinu og lýsti miðstjórn þess því þá yfir að samningurinn væri eðlilegur og nauðsynlegur, miðað við stöðu alþjóðamála.13

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 19. sambandsþing 1946, 11.
Sjá m.a. Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 19. sambands-
einnig Ingólfur V. Gíslason 1994, 213−215.
Morgunblaðið 11. maí 1951, 16.

ASÍ hvetur til verkfalla til þess að mótmæla samningi við Bandaríkjamenn um hervernd landsins árið 1946.

Eftir að nýsköpunarstjórnin féll tók við völdum ríkisstjórn sem var kennd við forsætisráðherrann, Stefán Jóhann Stefánsson, formann Alþýðuflokksins, og einfaldlega kölluð Stefanía. Hún var samstjórn þriggja flokka, „lýðræðisflokkanna“ Alþýðuflokks, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Hún hélt velli til ársins 1949. Eftir það voru báðir verkalýðsflokkarnir utan ríkisstjórnar til ársins 1956.

Vinstri stjórnin 1956

Hafi Alþýðusambandið haft umtalsverð áhrif á myndun nýsköpunarstjórnarinnar má staðhæfa að sambandið varð til þess að vinstri stjórn Hermanns Jónassonar var mynduð árið 1956. Sem fyrr getur var Hannibal Valdimarsson kjörinn forseti sambandsins árið 1954, en hann hafði hafið baráttu fyrir auknu samstarfi vinstri flokkanna nokkrum misserum fyrr í andstöðu við marga áhrifamenn í Alþýðuflokknum. Svo fór að Alþýðuflokkurinn klofnaði og Alþýðubandalagið varð til sem pólitískur armur Alþýðusambandsins en var í raun kosningabandalag sósíalista og vinstri arms Alþýðuflokksins fyrir alþingiskosningarnar 1956.

Undir forystu Alþýðusambandsins var hafin áköf barátta fyrir myndun vinstri ríkisstjórnar og biðlað til Framsóknarflokksins og Alþýðuflokksins, auk sósíalista. Vísað var til fordæmis Svía, Dana og Norðmanna og hversu góðum árangri jafnaðarmannastjórnum í viðkomandi löndum hefði tekist að ná vegna þess að vinstri hreyfingin hefði verið sameinuð. Á þriðja áratugnum hefðu til dæmis verið þrír sósíalistískir flokkar í Noregi, en fyrir tilstuðlan alþýðusambandsins norska hefði tekist að sameina tvo þeirra árið 1927. Það hefði leitt til þess að jafnaðarmenn náðu þar völdum árið 1933 og hefðu þeir haldið þeim að mestu síðan. Vinnan staðhæfði árið 1955 að nú væri sama ferli að hefjast hérlendis þar sem verkalýðsfélög um land allt skoruðu á ASÍ að beita sér af alefli fyrir sem nánustu samstarfi verkalýðssamtakanna og vinstri flokkanna.

Hannibal Valdimarsson, forseti Alþýðusambandsins, og miðstjórn þess rituðu stjórnmálaflokkunum, öðrum en Sjálfstæðisflokknum, bréf árið 1955 og hvöttu til samstarfs. Áður hafði Verkamannafélagið Dagsbrún samþykkt tillögu sama efnis í ársbyrjun 1955 og miðstjórn ASÍ hvatti til samvinnu vinstri flokkanna í mars sama ár.14 Þar var því beint til Alþýðusambandsins og verkalýðsfélaganna „að vinna ötullega að stjórnmálalegri einingu alþýðunnar gegn gengislækkun og kjaraskerðingu, en fyrir myndun ríkisstjórnar, sem starfi að hagsbótum fyrir alþýðuna“.15 Í bréfi Alþýðusambandsins var tekið undir áskorun Dagsbrúnar og óskað eftir að teknar yrðu upp viðræður við sambandið um myndun ríkisstjórnar til vinstri. Markmiðið átti að vera „að skapa atvinnujafnvægi í landinu og gera þær verðlækkunarráðstafanir, sem orðið gætu verkalýðnum notadrjúg og varanleg kjarabót, og atvinnuvegunum til aukins öryggis“.16 Allir flokkarnir sem Alþýðusambandið sneri sér til svöruðu tilmælum þess jákvætt, einnig Framsóknarflokkurinn sem um þetta leyti sat í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Undirtektir flokkanna voru þó misjafnar, jákvæðastar frá sósíalistum, enda sátu þeirra menn einnig í stjórn Alþýðusambandsins. Þjóðvarnarflokkurinn var einnig jákvæður, en meiri fyrirvarar voru á svörum hinna flokkanna tveggja, Alþýðuflokksins og Framsóknarflokksins.17

ÞÍ. Fundargerðabók miðstjórnar 1952−1958, 158. Sögus. verkal.
A01: 12/2. Yfirstjórn ASÍ. Miðstjórn.
Brynjólfur Bjarnason 1954, 102.
Vinnan XII (1955), 1. tbl. , 1−3.
Vinnan XII (1955), 2. tbl., 4−5.

Frá 40 ára afmælisþingi ASÍ árið 1956. Þá var forseti sambandsins, Hannibal Valdimarsson, jafnframt orðinn ráðherra.

Síðla árs 1955 lagði Alþýðusambandið svo fram stefnuyfirlýsingu sem umræðugrunn að myndun nýrrar ríkisstjórnar. Í stefnuyfirlýsingunni sagði m.a. að koma bæri á samstarfi á milli „ríkisstjórnar, verkalýðssamtaka, samvinnuhreyfingar, bændasamtaka og allra annarra aðila í atvinnurekstri, viðskiptum og útflutningi sem þátt vilja taka í slíku samstarfi“. Gert var ráð fyrir umfangsmiklum ríkisafskiptum, t.d. ætti ríkið að sjá um útflutning „sjávarafurða í nánu samstarfi við fiskeigendur“ og ríkið ætti einnig að hafa „yfirstjórn (eftirlit) allrar innflutningsverzlunar“ og sjá um „verzlun með olíur, bensín, kol, salt og byggingarefni“. Einnig þyrfti að taka upp strangt verðlagseftirlit. Þá væri æskilegt að ríkið hefði „lúxusvörur“ í einkasölu til þess að afla ríkissjóði tekna. Togaraútgerð ætti að stórauka og skynsamlegast væri að ríki og bæjarfélög gerðu togarana út, innlenda bátasmíði ætti að efla og fiskiðnað. Þá bæri að færa út landhelgina í að minnsta kosti 16 sjómílur, efla iðnað og stóriðju og rafvæða landið svo að orka fengist einnig til stóriðnaðar. Gera þyrfti átak í að byggja húsnæði fyrir alþýðufólk sem það gæti fengið til umráða fyrir 10% af mánaðarlaunum sínum. Þá ætti hinn nýstofnaði atvinnuleysistryggingasjóður að vera í vörslu verkalýðssamtakanna. Loks var tekið fram að hinn erlendi her yrði að víkja úr landinu.18 Ekki þarf að velta lengi vöngum yfir því að með þessari stefnu Alþýðusambandsins var stefnt að stórauknum ríkisafskiptum jafnframt því sem þrengt var að markaðsöflunum á alla lund.

Vinnan XII (1955), 8.−9. tbl., 1, 14. − Sjá einnig Einar Olgeirs-
son 1962, 183−186.

Ljóst er að ASÍ bregður sér í hlutverk stjórnmálaflokksins, hins sameinaða vinstri flokks, sem svo marga á vinstri væng íslenskra stjórnmála hafði lengi dreymt um og Hannibal Valdimarsson taldi sig vera fulltrúa fyrir. Hannibal var sér vel meðvitaður um þetta, enda sagði hann þegar hann rifjaði upp 40 ára sögu ASÍ árið 1956 að aðskilnaður flokks og hreyfingar árið 1940 hefði vart verið heppilegur: „Orkar mikils tvímælis, hvort þarna var ekki sundur skilið um of – vegna annars aðskilnaðar, sem orðinn var – það, sem saman þarf og á að heyra og saman að standa.“ Með öðrum orðum: sameina bæri verkalýðsflokkana og sá flokkur ætti síðan að vinna náið með verkalýðshreyfingunni, svo náið að þessir tveir hlutar mynduðu eina heild.19 Ætla mætti að skiptar skoðanir hefðu verið innan verkalýðshreyfingarinnar um þessa framgöngu og fáein félög létu til sín heyra og lýstu yfir andstöðu sinni, en þau félög voru þó miklu fleiri sem fögnuðu frumkvæði forseta ASÍ og birtust slíkar yfirlýsingar í stórum stíl í Vinnunni. Alþýðublaðið gagnrýndi þó þessa framgöngu harðlega, en forseti Alþýðusambandsins svaraði fullum hálsi og benti á að alþýðusamböndin á Norðurlöndunum tækju mikinn þátt í pólitískri baráttu og styrktu bæði flokka og blöð sem styddu málstað verkalýðshreyfingarinnar.20 Morgunblaðið fordæmdi þessa framgöngu Alþýðusambandsins og áleit að um væri að ræða „eina herfilegustu misnotkun sem um getur á heildarsamtökum verkalýðsins í landinu“.21

Hannibal Valdimarsson 1956, 3.−4. tbl., 9 (Alþýðusamband
Íslands 40 ára).
Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, uppköst, greinar. Svar til
Morgunblaðið 16. mars 1956, 16 og 22. nóvember 1956, 20.

ASÍ lagði mikla áherslu á eflingu útgerðar og iðnaðar. Það vildi t.d. efla mjög innlenda bátasmíði og taldi æskilegt að hið opinbera sæi um helstu þætti innflutningsverslunar. Hér er unnið að smíði á myndarlegu tréskipi á Akureyri, líklega á sjötta áratugnum.

Sambandsstjórn Alþýðusambandsins ákvað af sinni hálfu að fela nefnd, sem í sátu Hannibal Valdimarsson og Lúðvík Jósepsson, að vinna að því að koma á fót

kosningasamtökum, óháðum pólitísku flokkunum, en studdum af verkalýðshreyfingunni, til þess að við ættum sem sterkastan aðila á þingi, þegar taka skal eftir kosningar ákvarðanir í verðlags- dýrtíðar- og atvinnumálum, og komast með þessu hjá að sundra okkar liði í kosningabardaganum.22

Hannibal Valdimarsson 1956, 5.−6. tbl., 4 (Er það glæpur að
sameinast?).

Jafnframt hvatti sambandsstjórnin sambandsfélögin og félagsmenn þeirra til þess að hafa í huga við kosningarnar að forsenda þess að tekin yrði upp stjórnarstefna sem væri vinsamleg verkafólki væri sú að þar sætu fulltrúar sem væru vilhallir verkafólki og samtökum þess.

Viðræðunefnd ASÍ bauð Alþýðuflokknum, Þjóðvarnarflokknum og Sósíalistaflokknum að ganga inn í kosningabandalag á fyrrnefndum grunni á þann hátt að hver þessara þriggja aðila hefði fjóra fulltrúa í 12 manna miðstjórn. Hvorki Alþýðuflokkurinn né Þjóðvarnarflokkurinn þekktust þetta boð heldur gerði Alþýðuflokkurinn bandalag við Framsóknarflokkinn sem stundum gekk undir nafninu Hræðslubandalagið. Þjóðvarnarflokkurinn stóð utan bandalaga og náði ekki manni á þing. Kosningabandalagið sem Alþýðusambandið stóð fyrir varð því ekki eins víðtækt og til stóð. Í því tóku aðeins þátt Sósíalistaflokkurinn og hluti Alþýðuflokksins, stuðningsmenn Hannibals sem nefndu sig Málfundafélag jafnaðarmanna.23 Bandalagið fékk hluta af nafni Alþýðusambandsins lánaðan og nefndist Alþýðubandalagið.

Þorleifur Friðriksson 1988, 93.

Að loknum kosningum mynduðu þrír flokkar, Alþýðubandalagið, Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur, ríkisstjórn undir forsæti Hermanns Jónassonar, formanns Framsóknarflokksins. Forystu Alþýðusambandsins varð ekki að þeirri ósk sinni að verkalýðsflokkarnir sameinuðust. En sambandinu tókst það ætlunarverk sitt að koma á vinstri stjórn og varð forseti ASÍ, Hannibal Valdimarsson, félagsmálaráðherra. Fleiri áhrifamenn úr verkalýðshreyfingunni urðu ráðherrar, t.d. Lúðvík Jósepsson sem varð sjávarútvegsráðherra.

Sem vænta mátti varð afstaða ASÍ til þessarar ríkisstjórnar nokkuð önnur en til hinnar fyrri og sætti sambandið sig við ýmsar efnahagsaðgerðir sem fólu í sér kjaraskerðingu fyrir verkafólk, t.d. frestun á launahækkunum vegna hækkunar vísitölunnar, samhliða því að sett var á verðstöðvun.24 Ríkisstjórnin leit á það sem helsta verkefni sitt að draga úr dýrtíðinni. Á meðal annarra stórra verkefna var uppbygging atvinnulífsins og var ákveðið í því sambandi að festa þegar kaup á 15 nýjum togurum. Loks var meðal meginverkefna ríkisstjórnarinnar að stækka landhelgina og koma bandaríska hernum úr landi.

Hannibal Valdimarsson 1956, 7.−8. tbl., 1, 12.

Hannibal Valdimarsson var félagsmálaráðherra í vinstri stjórninni 1956–1958.

Þegar tvö ár voru liðin af kjörtímabilinu voru komnir brestir í stjórnarsamstarfið, ekki síst vegna erfiðleika í efnahagsmálum, og raunar var samstarfið alla tíð erfitt. Vorið 1958 voru blikur á lofti og Alþýðusambandið, í samráði við 19 manna kjaranefnd sína, gaumgæfði tillögur stjórnvalda með vaxandi gagnrýni.25 Í áliti sem kom frá ASÍ 10. maí var því lýst yfir að þáverandi efnahagsmálatillögur væru í veigamiklum atriðum andstæðar stefnu Alþýðusambandsins, en þó bæri ekki að bregða fæti fyrir tillögur ríkisstjórnarinnar. Bæri að líta á ýmsar aðrar ráðstafanir hennar jákvæðum augum, svo sem ákvæði þess efnis að draga úr launamun karla og kvenna og auka rétt til launagreiðslna vegna veikinda og slysa. Ekki mun hafa verið eining um þessa niðurstöðu en hún var knúin fram af forseta sambandsins sem hótaði jafnvel afsögn ef ekki yrði lýst yfir stuðningi við „bjargráð“ ríkisstjórnarinnar, eins og stefna hennar í efnahagsmálum var nefnd. Andstæðir voru helstu foringjar sósíalista og alþýðuflokksmanna innan ASÍ, þeir Eðvarð Sigurðsson, Snorri Jónsson, Óskar Hallgrímsson og Eggert G. Þorsteinsson. Töldu þeir að stefna ríkisstjórnarinnar leiddi til aukinnar verðbólgu og kjarabætur sem gert var ráð fyrir nægðu ekki fyrir þeirri kjaraskerðingu sem orðið hefði vegna verðhækkana.26 Dagsbrún og fleiri mikilvæg verkalýðsfélög ítrekuðu á næstu vikum stuðning sinn við þessa stefnu forystumanna sinna en boðuðu ekki verkföll að sinni.27 Ýmis önnur félög gerðu þó nýja kjarasamninga um þetta leyti, án verkfalla, t.d. Iðja sem var undir forystu sjálfstæðismanna og mörg önnur stéttarfélög síðar um sumarið. Hins vegar dróst að samið yrði við Dagsbrún.28 Þjóðviljinn staðhæfði auk þess að Framsóknarflokkurinn væri „stórum skilningssljórri á nauðsynina á öflun nýrra atvinnutækja en jafnvel íhaldið“. Hefði sá flokkur ætíð haft tilhneigingu „til þess að beina fjármagninu í þær atvinnugreinar sem engan gjaldeyri gefa til þjóðarbúsins“.29 Þjóðviljinn saknaði greinilega nýsköpunarstjórnarinnar.

Morgunblaðið 10. maí 1958, 1−2.
Morgunblaðið 10. maí 1958, 2.
Morgunblaðið 21. júní 1958, 16.
Morgunblaðið 17. júlí, 2, 19. september, 2, og 9. október, 2,
1958.
Þjóðviljinn 1. maí 1958, 4.

Dýrtíðin fór á fullan skrið og stefndi í óefni. Forsætisráðherra, Hermann Jónasson, fór fram á það við Alþýðusambandið að það féllist á að frestað yrði verðlagsuppbótum á laun 1. desember 1958 í skamman tíma. Hann óskaði eftir því að fá að bera slík tilmæli fram á ASÍ-þingi sem haldið var í lok nóvember. Ástæðan var sú að laun og annað verðlag hafði hækkað mikið á árinu 1958 og stefndi í enn frekari hækkanir, og taldi forsætisráðherra að ekki yrði við neitt ráðið ef ekki yrði gripið til ráðstafana.30

Agnar Kl. Jónsson 1969 II, 870.

Helstu forystumenn Alþýðusambandsins neituðu að fallast á að styðja frumvarp þessa efnis „nema með því skilyrði, að í stað kaups, sem haldið verður eftir 1. desember, yrði greitt 1% í ofanálag á kaupgjald næsta ár, og rynni það í menningarsjóð verkalýðsfélaganna“. Forsætisráðherra var tilbúinn með frumvarp þessa efnis ef á þyrfti að halda en sagði þó í bréfi til Hannibals Valdimarssonar 25. nóvember að hann teldi „sæmd Alþýðusambandsþingsins mesta, ef það gengi að þessari frestun án allra skilyrða“.31 Ráðherra kom svo á þingið ásamt Jónasi Haralz efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar og óskaði eftir því að þingið tæki tillit til óska hans um frestun á þeirri „17 stiga vísitöluuppbót“ sem launþegar innan ASÍ ættu rétt á“, en verðlag hafði hækkað um 14% frá í maí og laun almennt um 16%. Efnahagsráðgjafinn staðhæfði að ef haldið yrði áfram á sömu braut væri búið að stíga skrefið „fram af brúninni“ og forsætisráðherrann fullyrti að laun hefðu hækkað 10% meira en ríkisstjórnin hefði stefnt að.32 Helstu forystumenn sósíalista og alþýðuflokksmanna, þeir Eðvarð Sigurðsson og Jón Sigurðsson, beittu sér gegn bón forsætisráðherra. Í máli Hermanns Guðmundssonar, formanns Hlífar, kom fram að gjalda bæri varhug við því að fallast á afnám vístölunnar: „Því að hún var fengin inn eftir harða baráttu, en áður máttu verkamenn þola verðhækkanir bótalaust“.33 Svo fór að þingið hafnaði tilmælunum en forseti sambandsins hafði sig ekki mikið í frammi. Þó var hann hlynntur því að samþykkja beiðni forsætisráðherrans og fullyrti að stjórnin félli yrði óskum Hermanns hafnað. Undir þann málflutning tóku ýmsir þingfulltrúar og bentu á að ef tilmælunum yrði hafnað væri það eins og „eftir pöntun frá íhaldinu“.34

Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson. Bréf C−G. Bréf Her-
manns Jónassonar forsætisráðherra til Hannibals Valdimars-
sonar félagsmálaráðherra 25. nóvember 1958.
Morgunblaðið 29. nóvember 1958, 1−2.
Morgunblaðið 30. nóvember 1958, 22.
Morgunblaðið 30. nóvember 1958, 22−23.

Hannibal Valdimarsson og Hermann Jónasson forsætisráðherra á þingi ASÍ árið 1958, en þar hafnaði þingið tillögum forsætisráðherra í efnahagsmálum. Hannibal les hér bréf Hermanns til þingsins.

En innan Alþýðusambandsins var almenn andstaða við tillöguna og ef til vill töldu samflokksmenn ríkisstjórnarflokkanna á ASÍ-þinginu að forsætisráðherra gerði ekki alvöru úr hótunum sínum um að segja af sér þó að tilmælin fengjust ekki samþykkt. Það var að minnsta kosti afstaða Eðvarðs Sigurðssonar. Helst var að forsetinn, Hannibal, fyndi samhljóm við tillögu sína í málflutningi framsóknarmanna á þinginu. Staða hans var greinilega ekki sterk og bæði alþýðuflokksmenn og sósíalistar honum andsnúnir.35 Í kjölfarið óskaði forysta ASÍ eftir viðræðum við ríkisstjórnina, enda væri óaðgengilegt að aðeins verkafólk tæki á sig byrðar en ekki aðrar samfélagsstéttir. Forsætisráðherra gaf ekki kost á frekari viðræðum og sleit stjórnarsamstarfinu formlega á fundi 4. desember 1958.36 Er ekki vafi á því að stjórnarslitin voru forseta ASÍ áfall. Ekki hefur verið kannað nægilega hvernig á því stóð að ekki náðust samningar á milli stjórnarflokkanna sem höfðu þó reynt ýmislegt í stjórnarsamstarfinu. Hannibal hafði barist um margra ára skeið fyrir myndun stjórnarinnar en varð nú að bíða lægri hlut.

Morgunblaðið 29. nóvember 1958, 2. − Sjá einnig ÞÍ.
Fundargerðir 26. þings ASÍ 1958, 17 og áfram. Sögus. verkal.
A01: 10/2. Yfirstjórn ASÍ.
Sjá m.a. Hannibal Valdimarsson 1958, 9.−12. tbl., 7−9.