Efnisyfirlit

Deila sögu ASÍ

Tímabilið fram til 1940

Jón Baldvinsson, leiðtogi AlÞýðuflokksins frá því síðla árs 1916 til 1938.

Flokkur og ríkisstjórn

Saga ASÍ: Í samtök › Tímabilið fram til 1940

Flokkur og ríkisstjórn

Áður en Alþýðusambandið var stofnað höfðu verkalýðssinnar gert nokkrar tilraunir til þess að fá kosna fulltrúa í bæjarstjórnir, einkum í Reykjavík. Verkamannafélagið Dagsbrún lagði til dæmis fram lista í Reykjavík árið 1908 og kom einum manni að. Á næstu árum bauð Dagsbrún fram, ýmist ein eða í samvinnu við aðra, við misjafnt gengi.1

Þorleifur Friðriksson 2007, 230−238, 262.

Í ársbyrjun 1916 fóru fram kosningar til bæjarstjórnar í Reykjavík. Þá hafði Alþýðusambandið enn ekki verið stofnað en undirbúningurinn var hafinn. Ákveðið var að sambandsnefndin sem undirbúa átti stofnun sambandsins hefði forgöngu um að bjóða fram í kosningunum. Það var gert og fékk listinn flest atkvæði af þeim listum sem voru í kjöri og þrjú af þeim fimm sætum sem í boði voru svo sigurinn var góður. Hann skýrist þó að hluta til af því hversu margir flokkar buðu fram og atkvæði nýttust illa.2 Þá náðu verkalýðssinnar einnig góðum árangri í Hafnarfirði og á Akureyri en þegar árið 1914 var formaður Verkamannafélagsins Hlífar kjörinn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, auk þess sem félagið naut velgengni í ýmsum kosningum sem á eftir fylgdu.3 Á næstu árum vegnaði Alþýðuflokknum ekki sérlega vel í bæjarstjórnarkosningum í Reykjavík en Jón Baldvinsson var þó kjörinn bæjarfulltrúi árið 1918. Flokkurinn fékk tvo menn kjörna í bæjarstjórn árið 1922 og um þriðjung atkvæða. Flokkurinn tvöfaldaði fylgi sitt frá næstu kosningum á undan og áleit Alþýðublaðið að allt benti til þess að hann fengi meirihluta atkvæða við næstu kosningar að tveimur árum liðnum.4 Annar tveggja hinna kjörnu fulltrúa var Héðinn Valdimarsson, sem nú steig í fyrsta sinn fram á svið stjórnmálanna, en hann átti eftir að láta mjög að sér kveða í verkalýðsmálum næstu tvo áratugina og varð varaforseti ASÍ árið 1924.5

Guðjón Friðriksson 1991, 85−86.
Sigurður Pétursson 1990, 48−50. − Ólafur Þ. Kristjánsson
2007, 25−27.
Alþýðublaðið 30. janúar 1922, 1.
Alþýðublaðið 10. nóvember 1924, 1.

Haustið 1916 voru alþingiskosningar og þá bauð Alþýðuflokkurinn fram bæði í Reykjavík og á Akureyri. Í efsta sæti í Reykjavík var Jörundur Brynjólfsson. Jörundur var kosinn fyrsti þingmaður Reykvíkinga og þar með fyrsti þingmaður Alþýðuflokksins. Hann gekk síðar til liðs við Framsóknarflokkinn, gerðist bóndi að ævistarfi árið 1919 og sat í áratugi á þingi fyrir þann flokk. Frambjóðandinn á Akureyri, Erlingur Friðjónsson, náði einnig góðum árangri en þó ekki kjöri.6

Sigurður Pétursson 1990, 90−92.

Alþýðuflokkurinn missti sinn eina þingmann í kosningunum árið 1919. Sjálfstæðisstjórnmálin settu enn mikinn svip á stjórnmálarumræðuna. En kjördæmafyrirkomulagið var flokknum einnig óhagkvæmt. Til dæmis var nær nífaldur munur á milli atkvæðafjölda á bak við hvorn þingmanna Reykjavíkur, samanborið við fámennustu kjördæmin. Þessi munur var leiðréttur að nokkru með lagasetningu frá Alþingi árið 1920 en þá var þingmönnum Reykjavíkur fjölgað. Við aukakosningar árið 1921 í Reykjavík fékk Alþýðuflokkurinn tæplega þriðjung atkvæða og Jón Baldvinsson, forseti ASÍ, varð fyrsti þingmaður Reykvíkinga. Eftir það átti Alþýðuflokkurinn fulltrúa á Alþingi allt þar til hann var lagður niður undir lok tíunda áratugar 20. aldar.

Jörundur Brynjólfsson, fyrsti alþingismaður Alþýðuflokksins.

Næstu árin átti flokkurinn þó ekki sérlega góðu gengi að fagna.7 Til dæmis fékk hann aðeins einn þingmann í alþingiskosningunum 1923 og um sjöttung atkvæða; slíkt fylgi hefði þó átt að duga fyrir fleiri þingmönnum en kosningafyrirkomulagið kom í veg fyrir það. Framsóknarflokkurinn fékk á sama tíma ríflega fjórðung atkvæða og 13 þingmenn. En forystumönnum ASÍ og Alþýðuflokks mátti vera ljóst að langt var í land með að flokkurinn fengi það fjöldafylgi sem þeir stefndu að.

Sjá m.a. Sigurður Pétursson 1990, 109−119.

Alþingiskosningarnar árið 1927 mörkuðu tímamót í sögu Alþýðuflokksins. Þá fékk flokkurinn tæpan fimmtung atkvæða og hafði eftir þær kosningar fimm þingmenn. Næsta kjörtímabil á undan hafði ríkisstjórn Íhaldsflokksins setið að völdum en nú urðu stjórnarskipti. Ríkisstjórn Framsóknarflokksins tók við stjórnartaumum og naut til þess hlutleysis Alþýðusambands og -flokks; flokkurinn fékk ekki beina aðild að stjórninni en hafði áhrif á stjórnarstefnuna. Þessi ríkisstjórn sat í þrjú ár og markaði djúp spor á mörgum sviðum þjóðlífsins. Alþýðuflokkurinn hætti stuðningi við hana árið 1930 vegna ágreinings um kosningalöggjöf og kjördæmaskipan, en þau málefni höfðu einmitt verið einn helsti ásteytingarsteinn Framsóknarflokksins og Alþýðuflokksins. Fleira kom þó til sögu eins og síðar verður nefnt.

Um þetta leyti var flokkurinn búinn að ná meirihluta í þremur bæjarfélögum. Fyrst náðu jafnaðarmenn meirihluta á Ísafirði árið 1921 og héldu þar völdum linnulítið í áratugi. Þeir settu mark sitt mjög á bæjarfélagið á þeim tíma og má segja að Ísafjörður hafi orðið fyrirmyndarbær jafnaðarmanna, enda áttu þeir þar mjög öfluga forystumenn, Finn Jónsson póstmeistara, Vilmund Jónsson lækni og Hannibal Valdimarsson kennara. Allir tóku þeir mikinn þátt í starfi Alþýðuflokksins, enda var oft leitað til menntamanna um að leiða verkalýðsfélögin, eins og fyrr hefur verið getið. Einkum var algengt að kennarar tækju slík störf að sér. Skólaárið var stutt, aðeins sex mánuðir á þessum tíma, og flestir kennarar unnu önnur störf með, oft verkamannastörf.8

Sigurður Pétursson 2011, 223 og áfram. − Þór Indriðason
1990, 125.

Ríkisstjórn Tryggva Þórhallssonar sem tók við völdum árið 1927. Hún naut hlutleysisstuðnings Alþýðuflokksins til ársins 1930.

Til marks um árangur jafnaðarmanna á Ísafirði var glæsilegt sjúkrahús byggt árið 1925. Við það var byggt baðhús „til afnota fyrir almenning“.9 Einnig var komið upp elliheimili og stórt kúabú byggt árið 1927. Auk þess var stórauknu fé veitt til skólamála og komið á „mjólkur- og lýsisgjöfum til fátækra barna“. Þá var stofnað til grænmetisræktunar í Reykjanesi við Djúp, svo nokkuð sé nefnt.10

Alþýðumaðurinn 4. október 1932, 2.
Alþýðublaðið 30. maí 1934, 3−4. − Sigurður Pétursson 1990,
130−131. − Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, ýmis gögn
1924−1939. Dreifiblað frá Alþýðuflokknum, sennilega frá
1939.

Í Hafnarfirði náðu jafnaðarmenn meirihluta árið 1926 og á Siglufirði fengu þeir meirihluta í bæjarstjórn árið eftir og héldu honum næstu þrjú ár eða þar til ASÍ og Alþýðuflokkur skildust að og Kommúnistaflokkurinn var stofnaður. Árið 1930 var Alþýðuflokkurinn einnig búinn að ná meirihluta á Seyðisfirði og í Neskaupstað. Nefna má að kosningaréttur og kjörgengi til bæjar- og sveitastjórna var lækkaður í 21 ár úr 25 árið 1929 og þá var einnig heimilað að þeir sem höfðu fengið sveitarstyrk fengju rétt til þess að kjósa, en þeir höfðu ekki haft rétt til þess fram að því. Þar sem jafnaðarmenn náðu völdum beittu þeir sér að jafnaði fyrir mjög auknum framkvæmdum á vegum bæjarfélaganna, svo sem með samvinnu- eða bæjarútgerð, t.d. bæjarútgerð í Hafnarfirði árið 1931. Á Ísafirði, Stokkseyri, Eskifirði og víðar var komið á fót samvinnuútgerð sem skipti miklu máli fyrir þessa staði þó að útgerðin gengi erfiðlega. Stórútgerðin, togararnir, átti hins vegar fremur að vera í höndum bæjar félaga en samvinnuútgerða, að mati Alþýðuflokksins, enda væri samvinnufélögum um megn að reka svo stór og fjármagnsfrek atvinnufyrirtæki og engin skynsemi í að leggja sjómenn í þá áhættu sem fylgdi slíkum rekstri.11 En í Reykjavík náði flokkurinn aldrei sama fylgi og sums staðar utan höfuðstaðarins. Mest fylgi fékk flokkurinn þar 1926, eða um 40% atkvæða, en ella var fylgið í kringum þriðjung atkvæða á fjórða áratugnum, t.d. árið 1934, og hafði hann þá fimm bæjarfulltrúa af 15 sem vel mátti teljast viðunandi.12

Ólafur Þ. Kristjánsson 2007, 28, 38. − ÞÍ. Stefán Jóhann
Stefánsson til félaga 6. febrúar 1931. Sögus. verkal. A01: 22/5.
Skrifstofa. Ýmis félagsmál. Stjórnmál 1916−1976. − Einar
Bragi Sigurðsson 1983, 152−153. − Vinnan XIV (1974) 1.−2. tbl.,
25. − Stefán Jóhann Stefánsson 1930, 17. − Alþýðublaðið 17.
mars 1931, 2−3. − Alþýðublaðið 21. október 1932, 3. − Alþýðu-
Alþýðublaðið 31. janúar 1934, 3.

Útgáfa og fræðsla

Þegar byggt er upp nýtt stjórnmálaafl og fylgismanna aflað þarf að vera til tæki til að miðla boðskapnum. Fyrir utan útbreiðslufundi var það helst gert með persónulegum samtölum en þó einkum með rituðu máli. Þetta vissu forgöngumenn verkalýðshreyfingarinnar vel; að þeir yrðu að hefja útgáfu blaðs. Þegar árið 1906, samhliða stofnun Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, var gefið út í skamman tíma blað undir heitinu Alþýðublaðið og voru helstu forsvarsmenn þess Pétur G. Guðmundsson og Ágúst Jósefsson, annar menntaður prentari en hinn bókbindari. Fyrr, á árunum 1904–1906, hafði Þor varður Þorvarðarson gefið út Nýja-Ísland þar sem fjallað var um verkalýðsmál. Í stuttan tíma gaf Dagsbrún einnig út Verkamannablaðið árið 1913 og var Pétur G. Guðmundsson ritstjóri. Átti útgáfa síðastnefnda blaðsins rætur að rekja til verkfalls sem verkamenn við hafnargerðina fóru í vegna deilna um vinnutíma. Í þeirri vinnudeilu kom einmitt í ljós hversu tilfinnanlegt var fyrir verkamennina að hafa vart eða ekki aðgang að neinum fjölmiðli til þess að kynna sjónarmið sín.13

Pétur G. Guðmundsson 1943, 147−152. − Alþýðublaðið 14.
ágúst 1934, 3. − Ragnheiður Kristjánsdóttir 2008, 50−51. −
1943, 231.

Sjúkrahúsið á Ísafirði í byggingu um miðjan þriðja áratuginn, einn myndarlegasti spítali landsins um þetta leyti, og til marks um styrk jafnaðarmanna í bænum.

Hallbjörn Halldórsson, ritstjóri Alþýðublaðsins um skeið á þriðja áratugnum.

Árið 1915 hófst útgáfa vikublaðsins Dagsbrúnar, blaðs jafnaðarmanna, gefið út í Reykjavík. Ólafur Friðriksson var ritstjóri blaðsins en útgefendur voru sagðir „nokkur iðnaðar- og verkamannafélög“. Ekki hafði blaðið verið gefið lengi út er ritstjórinn var jafnframt orðinn útgefandi en með styrk verkalýðsfélaganna í Reykjavík. Alþýðusambandið tók síðan við blaðinu í maí 1917, en Ólafur var áfram ritstjóri þess á meðan það kom út, en var ekki óumdeildur.14 Útgáfusögunni lauk í árslok 1919, en þá hafði líka verið ákveðið að setja á stofn dagblað á vegum Alþýðusambandsins sem hlaut nafnið Alþýðublaðið. Á þeim tíma komu út tvö dagblöð í Reykjavík, Morgunblaðið og Vísir, og þóttu bæði höll undir atvinnurekendur og efri stéttir. Ólafur Friðriksson ritstýrði Alþýðublaðinu til ársins 1922 og fékkst lán frá dönskum sósíaldemókrötum til þess að koma blaðinu af stað.15 Hallbjörn Halldórsson prentari varð síðan ritstjóri til ársloka 1927.16 Árið 1918 hófst svo útgáfa blaðsins Verkamannsins á Akureyri. Blaðið var málgagn Alþýðuflokksins til 1930 en þá náðu kommúnistar þar yfirtökunum. Þess utan gáfu fjölmörg einstök verkalýðsfélög út fréttabréf og smærri blöð, stundum handskrifuð. Til dæmis var Verkamannafélagið Hlíf með handritað fréttablað þegar árið 1912. Síðar var farið að vélrita blaðið og enn síðar að prenta það.17

Dagsbrún 12. maí 1917, 25.
Þorleifur Friðriksson 1987, 18−19.
Alþýðublaðið 2. júlí 1938, 3.
Ólafur Þ. Kristjánsson 2007, 68−70.

Miklar breytingar urðu á Alþýðublaðinu árið 1933. Þá var ráðinn nýr ritstjóri, ungur og vel menntaður maður, Finnbogi Rútur Valdimarsson, en hann hafði næstu fimm ár á undan stundað nám við háskóla í Berlín, Genf og París. Brot blaðsins var stækkað mikið, útliti breytt verulega og efnisval varð fjölbreyttara, ekki síst eftir að útgáfa sunnudagsblaðs Alþýðublaðsins hófst 1934. Meðal annars var tekin upp sú nýbreytni að hafa fréttaritara að störfum í Evrópu og áttu því lesendur blaðsins framvegis kost á því að lesa samdægurs helstu fréttir stórblaða álfunnar. Finnbogi gegndi störfum ritstjóra til ársloka 1938 er Stefán Pétursson tók við.18

Alþýðublaðið 20. október 1934. − Alþýðublaðið 29. október
1939, 1−2.

Pétur G. Guðmundsson, einn helsti forvígismaður jafnaðarstefnu og verkalýðssamtaka hérlendis á fyrri hluta 20. aldar.

Útgáfa blaðs, hvað þá dagblaðs, kostaði mikið. Það vissi forysta Alþýðusambandsins, enda hafði frá upphafi verið tap af fyrsta málgagni þess, blaðinu Dags-brún. Nefnd um útgáfuna taldi að unnt væri að reka blaðið með 1500 áskrifendum og nokkru af auglýsingum. Fámennið hér á landi leiddi til þess að leggja varð áherslu á að afla auglýsinga.19 Tryggja þyrfti 10 þúsund kr. stofnfé fyrir útgáfu dagblaðs. Nú voru góð ráð dýr. Þegar árið 1918 höfðu forystumenn ASÍ ámálgað við danska jafnaðarmenn hvort unnt væri að fá þá til að styrkja flokkssystkini á Íslandi til þess að efla útgáfu sína og koma á fót dagblaði. Fékkst til þess nokkur styrkur frá þeim, en auk þess tókst að safna fé fyrir hluta af stofnkostnaðinum.

Ingimar Jónsson 1939, 3.

Árið 1924 var ákveðið að kaupa prentsmiðju fyrir blaðið og safnað til þess fé árin 1924 og 1925.20 Prentsmiðjan tók til starfa í febrúarbyrjun árið 1926. Jafnframt var unnið að því að stækka blaðið og var því komið í framkvæmd 1926.21 En þrátt fyrir að blaðið væri prentað í eigin prentsmiðju var stöðugur halli á rekstri þess. Því var ákveðið að stofna til stuðningsfélags Alþýðublaðsins. Slysalega tókst þó til með fyrstu stjórn þess og varð að láta hana fjúka þegar „sýnilegt var, að ekki mundi takast samvinna milli stjórnar þess fjelagsskapar og sambandsstjórnar – en slík samvinna var óhjákvæmileg ef nokkurt gagn ætti að verða að þessu – þá gengust nokkrir menn fyrir því að nýtt fjelag var myndað, með fullri samvinnu við sambandstjórn“. Aðstoðarfélag Alþýðublaðsins tók síðan við rekstrinum um miðjan þriðja áratuginn „en öll stjórnmálayfirráðin eru í höndum sambandsstjórnar“. Í kjölfarið var unnið að því að stækka brot Alþýðublaðsins.22 Og enn var brot blaðsins stækkað árið 1933 þegar Finnbogi Rútur tók við ritstjórninni.

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 7. sambandsþing 1926, 13.
Alþýðublaðið 1. desember 1926, 1.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 7. sambandsþing 1926,
13−14.

Neisti, blað jafnaðarmanna á Siglufirði árið 1936.

Árið 1929 var útgáfukostur „alþýðusamtakanna“ eftirfarandi: Alþýðublaðið, útgefið í Reykjavík, Vikublað Alþýðu blaðsins, einnig útgefið í Reykjavík, Skutull á Ísa firði, Mjölnir á Siglufirði, Verkamaðurinn á Akureyri (frá 1918), Jafnaðarmaðurinn á Norðfirði, Vikan í Vestmannaeyjum og Kyndill, mánaðarblað unga jafnaðarmanna í Reykjavík. Auk þess var gefið út tímaritið Réttur, en eigandi þess var Einar Olgeirsson og þar birtust einkum greinar hinna róttækustu á vinstri vængnum.23 Þetta mátti heita heilmikil fjölmiðlun en staðan var þó vandræðaleg á þann hátt að flest blöðin utan Reykjavíkur, að undanskildum Jafnaðarmanninum á Norðfirði, voru mjög gagnrýnin á stefnu ASÍ og höll undir kommúnista.

Sjá m.a. Réttur 4. hefti, 15. árg. (1930), 377.

Reynt var að ná samkomulagi þess efnis að blöðin hættu að flytja ádeilugreinar á hvert annað og eigin flokkssystkini en flyttu þess í stað „fregnir af því sem okkur er til fyrirmyndar í starfsemi sósíaldemókrata og kommúnista erlendis, en deili á hvoruga“. Einnig að þessir miðlar ynnu saman að því að afla og dreifa fréttum, að þau sameinuðu krafta sína í helstu baráttumálum Alþýðuflokksins en nýttu Rétt til umræðna um deilumál sín. Á þessa stefnu gátu kommúnistar ekki fallist og töldu einu sáttaleiðina geta orðið þá að báðir aðilar „hefðu jafnan aðgang að öllum blöðunum um deilumál sín og innanflokks ágreining“.24 Niðurstaðan varð sú að samþykkt var ályktun þess efnis á þingi Alþýðusambandsins árið 1930 að þau blöð skyldu einungis teljast hluti af blaðakosti flokksins þar sem flokkurinn hefði samþykkt hver ráðinn hefði verið ritstjóri og hverjir sætu í ritnefnd.25 Á þetta gátu forsvarsmenn sumra fyrrgreindra blaða ekki fallist og hættu þau þá að teljast til blaðakosts Alþýðusambandsins. Þetta átti t.d. við um Rétt Einars Olgeirssonar og blaðið Verkamanninn á Akureyri, en það skarð fyllti Alþýðumaðurinn fljótlega.

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands og verklýðsráðstefna. 10.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands og verklýðsráðstefna. 10.

Fyrsta áratuginn sem Alþýðusambandið starfaði var bókaútgáfa, sambandinu tengd, ekki mikil en einstök félög, einkum jafnaðarmannafélögin, gáfu út nokkuð af bókum. Til dæmis gaf Jafnaðarmannafélagið í Reykjavík út Kommúnistaávarp þeirra Marx og Engels árið 1924. Í kynningu á ritinu í Alþýðublaðinu sagði m.a. að ritið hefði

sitt fulla gildi fyrir jafnaðarmannaflokkana, hvoru nafni sem þeir nefnast, og er talin fyrsta fræðileg undirstaða þeirra. Hefði nú mátt nefna það „ávarp jafnaðarmanna“. Flestallir jafnaðarmenn og verkamenn hafa á því bygt lífsskoðun sína og stefnu. … Með „Kommúnistaávarpinu“ og síðar „Das Kapital“ gáfu þeir Marx og Engels verkalýðnum beittasta stjórnmálavopnið í baráttunni, vísindin. Nú hefir alþýðan um allan heim safnast undir merki jafnaðarstefnunnar og sigur hennar er því í nánd.26

Héðinn Valdimarsson 1924, 3.

Þingtíðindi ASÍ voru gefin út reglulega frá árinu 1926. Örvarnar þrjár, merki ASÍ og Alþýðuflokks eru á kápumyndinni. Þær voru tákn frelsis, jafnréttis og bræðralags.

Frá árinu 1926 gaf Alþýðusambandið út þingtíðindi sín og hefur svo verið ætíð síðan og er frá leið fylgdi einnig með þeim skýrsla miðstjórnar sambandsins. Á þingi Alþýðusambandsins árið 1926 var samþykkt stofnun Bókmenntafjelags alþýðu, en óvíst er hvort nokkuð varð úr útgáfu á vegum þess. Bókmenntafélag jafnaðarmanna, stofnað 1929, stóð sig betur og gaf þá þegar út eina bók. Síðar gaf það m.a. út Almanak alþýðu og líka fleiri bækur, t.d. Ævintýrið um áætlunina miklu eftir M. Ilin (1932) sem Vilmundur Jónsson þýddi.27 Í stjórn voru m.a. Þórbergur Þórðarson og Hallbjörn Hjartarson prentsmiðjustjóri en séra Ingimar Jónsson skólastjóri var formaður. Þá gaf Alþýðusambandið einnig út smárit og blöð eftir þörfum, t.d. Nokkrar stjórnmálaræður eftir Jón Baldvinsson árið 1931, og í tengslum við kosningar þurfti að útbreiða boðskapinn með ýmiss konar útgáfu. Þá stóð ASÍ að útgáfu Sambandsblaðs árið 1928 en ekki varð framhald á henni. Árið 1939 hóf Alþýðusambandið útgáfu Sambandstíðinda sem var eins konar fréttablað sambandsins með upplýsingum um kauptaxta og dómkvaðningar Félagsdóms, auk þess sem þar birtust fréttir frá aðildarfélögunum og stöku greinar um verkalýðsmál. Sú útgáfa varð þó skammlíf. Einstök verkalýðsfélög gáfu líka út blöð en yfirleitt í skamman tíma. Það gerði t.d. Félag járniðnaðarmanna árið 1933 í tengslum við kjaradeilu sem félagið stóð í.28

Einar Olgeirsson 1983, 212. − Þingtíðindi Alþýðusambands Ís-
Friðrik G. Olgeirsson 2010, 72−73.

Fræðslumál

Á fyrstu áratugum verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi var lögð mikil áhersla á að efla menningu og menntir meðal alþýðufólks. Þær áherslur birtust m.a. í orðum Hannibals Valdimarssonar, þáverandi formanns Verkalýðsfélagsins Baldurs á Ísafirði. Hann lýsti nauðsyn þess að efla menningu alþýðunnar og hvernig koma mætti upp nauðsynlegri aðstöðu til þess að ná því marki:

Bókasafn alþýðu með vistlegum lestrarsal þarf að vera í hverju þorpi, og er hverju verklýðsfélagi vorkunnarlaust að koma upp slíku húsi. Að því væri mikil framför í menningarlegu tilliti. Sjómenn og verkamenn í vestfirzkum sjóþorpum ganga atvinnulausir alt af nokkurn tíma haust og vor, nfl. í vertíðarlok og að afloknum síldartíma, auk þess sem langir kaflar eru oft endranær, þegar lítið er að gera hjá ýmsum. Væru þessir tímar notaðir til þess að koma upp bókasafnsskýli með lestrarsal ætti það að reynast auðvelt verk. Ég lít svo á, að stéttarfélög verkalýðsins eigi að skapa nýja og þróttmikla alþýðumenningu. Og því verður ekki neitað, að félögin hafa nú þegar glætt margvísleg menningarskilyrði í íslenzkum sjávarþorpum.29

Hannibal Valdimarsson 1931, 2.

Ýmis verkalýðsfélög höfðu þó sinnt þessu málefni að einhverju leyti frá því snemma á starfsferli sínum. Það gerði t.d. Verkamannafélagið Árvakur á Eskifirði sem stóð fyrir stofnun Lestrarfélags verkamanna árið 1924, en þá hafði verið rætt um stofnun slíks félags í nokkur ár. Félagið starfaði í hálfan annan áratug og var eina almenningsbókasafnið á Eskifirði um það leyti.30

Einar Bragi Sigurðsson 1983, 109−111.

Árvakur stóð einnig fyrir leiksýningum um árabil og sömuleiðis kvöldvökum. Karlakór verkamanna var starfræktur á vegum félagsins og var söngskráin „yfirleitt blóðrauð og róttæk“.31 Svipað menningarstarf var rekið víða um land af verkalýðshreyfingunni, t.d. á Siglufirði þar sem bæði kórar og lúðrasveit voru starfrækt. Þá stóðu verkalýðsfélögin á Siglufirði fyrir stofnun Tónskóla Siglufjarðar árið 1958 og varð Sigursveinn D. Kristinsson skólastjóri, en hann kom mjög við sögu tónlistarmála verkalýðshreyfingarinnar.32

Einar Bragi Sigurðsson 1983, 119−128.
Benedikt Sigurðsson 1990, 366−369.

Nánast á hverju þingi Alþýðusambandsins hefur verið rætt um nauðsyn þess að efla fræðslu á vegum alþýðusamtakanna, enda var starfsemi af því tagi gildur þáttur hjá verkalýðshreyfingunni á Norðurlöndunum. Arbejdernes Oplysningsforbund (AOF) var t.d. stofnað í Danmörku árið 1923.33 Sami áhugi birtist á þingi Alþýðusambands Vestfjarða árið 1935. Þá var samþykkt tillaga þess efnis að skora á aðildarfélögin að

Christensen, Lars K.; Kolstrup, Søren; Hansen, Anette
Eklund 2007, 146−147.

efla sem best að hægt er andlegan og líkamlegan þroska unglinga til dæmis með því að koma í framkvæmd hver á sínum stað alþýðubókasafni, baðhúsum, íþróttaiðkunum, tafliðkunum, koma á stofn námskeiðum í siglingafræði, vélfræði, hjúkrun sjúkra, hjálp í viðlögum, sundiðkun, málfundafélagsstarfsemi, jólatré og gamalmennaskemtunum o.fl. o.fl. Stéttabaráttan ætti ekki að lamast neitt, en félögin að fá fleira og fjölþættara starf og meðlimirnir þar af leiðandi aukið þjóðfélagsgildi.34

Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, ýmis gögn 1924−1939.
5. þing Alþýðusambands Vestfirðingafjórðungs 1935.

Ein fyrsta viðleitni í þessa átt var stofnun Kvöldskóla verkamanna árið 1924 á vegum verkalýðsfélaganna í Reykjavík. Skólinn fékk aðsetur í skýli verkamanna við Reykjavíkurhöfn án þess að greiða þyrfti fyrir það. Nokkur styrkur fékkst til skólahaldsins, bæði frá ríki og bæ, en andstæðingar jafnaðarmanna tóku framtakinu fálega og kölluðu skólann Bolsaskóla. Kennslan var ókeypis fyrir þá sem fengu aðgang og var kennt þrjár stundir á kvöldin. Námsgreinar voru íslenska, landafræði, danska, saga, náttúrufræði, reikningur og enska, sem sagt undirstöðugreinar til þess ætlaðar að auka almenna hæfni þátttakenda. Námið var því ekki sérstaklega miðað við fræðslu í verkalýðsbaráttu þó að hugmyndir um stofnun flokksskóla kæmu einnig fram á þriðja áratugnum.35

Þorleifur Friðriksson 2007, 190. − Stefán Hjartarson, handrit,
196−197.

Ýmis fleiri verkalýðs- og jafnaðarmannafélög sinntu þessu kalli og stunduðu fræðslustarfsemi á millistríðsárunum, til dæmis Jafnaðarmannafélagið á Akureyri (stofnað 1924).36 Komu verkalýðsfélögin á Siglufirði upp kvöldskóla fyrir verkamenn árið 1930 og var Sverrir Kristjánsson meðal kennara. Sú starfsemi stóð stutt en svipuð tilraun, einnig skammlíf, var gerð þar á staðnum árin 1939–1940.37 Liður í sömu viðleitni birtist einnig á Stokkseyri, en þar kom verkalýðsfélagið Bjarmi upp húsi fyrir félagsmenn sína í upphafi fjórða áratugarins og lét ekki þar við sitja heldur keypti útvarpstæki í húsið til afnota fyrir félagsmenn. „Sitja verkamennirnir á Stokkseyri nú á hverju kvöldi fyrir framan útvarpstækið í fundarsal sínum og hlusta á það, sem útvarpið hefur upp á að bjóða.“38Þá hélt Verklýðsfélag Akraness – svo enn eitt dæmi sé tekið – sjóvinnunámskeið og húsmæðranámskeið árið 1937. Einnig var gefinn kostur á kennslu í íslensku og reikningi, og jafnvel esperanto. Formaður félagsins, Hálfdán Sveinsson, var sjálfur kennari og hafði umsjón með íslenskukennslunni.39 Auk þessa taldi Alþýðusambandið að brýnt væri að efla fræðslu fyrir húsmæður, enda væri „fjárhagsafkoma heimila og þá um leið bæja- og sveitarfélaga, … að verulegu leyti komin undir hagsýni og kunnáttu húsfreyjunnar“.40 Skipulagt fræðslustarf á vegum heildarsamtakanna komst þó ekki á legg fyrr en komið var fram undir miðja 20. öld þó að öðru hverju væru gerðar ýmsar tilraunir í þessa veru. Um það starf verður nánar rætt síðar.

Sjá m.a. Jafnaðarmannafélagið á Akureyri 1990, 22.
Benedikt Sigurðsson 1990, 350−355.
Alþýðublaðið 13. janúar 1931, 3.
Hálfdán Sveinsson 1937, 3.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 16. sambandsþing 1940,
60−61.

Samstarfið við Framsóknarflokkinn

Þáttaskil urðu í starfsemi Alþýðuflokksins með alþingiskosningum árið 1927 þegar flokkurinn stórjók fylgi sitt og fékk fimm þingmenn kjörna. Framsóknarflokkurinn myndaði ríkisstjórn með hlutleysi Alþýðuflokksins. Það loforð var

engum skilyrðum bundið, enda um óákveðinn tíma veitt … Vitaskuld er öllum það ljóst, að Framsóknarflokkurinn er okkur andvígur í okkar aðal stefnumálum, en hann stendur okkur þó nær en íhaldið. Hann er okkur ekki beinlínis fjandsamlegur en það er íhaldsflokkurinn.41

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 8. sambandsþing 1928,
8−9. − Sjá einnig Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 8. sam-

Þessi stuðningur Alþýðuflokksins þarf ekki að koma á óvart. Enn voru traust bönd á milli flokkanna tveggja og forystumanna þeirra, en vel má spyrja hvernig á því stóð að Alþýðuflokkurinn krafðist þess ekki að mynduð yrði samsteypustjórn flokkanna tveggja þar sem hann fengi einn af þremur ráðherrum. En það gerði hann ekki. Ekki eru þó neinar líkur til annars en að í viðræðum milli flokkanna tveggja hafi Alþýðuflokkurinn tryggt ríkisstjórninni starfsfrið, um sinn að minnsta kosti, enda tæpast líkur til þess að framsóknarmenn hefðu ella myndað ríkisstjórnina á þennan hátt. Á móti hefur Alþýðuflokkurinn fengið tryggingu fyrir því að nokkur af mikilvægustu stefnumálum hans næðu fram að ganga.

Meðal mikilvægra mála sem Alþýðuflokkurinn fékk framgengt meðan ríkisstjórn Framsóknarflokksins var við völd voru lög um verkamannabústaði sem annars staðar er rætt um. Hvíldartími háseta á togurum var lengdur úr sex stundum í átta á sólarhring árið 1928 og samþykkt voru lög um greiðslu verkkaups, svo nokkuð sé nefnt.42 Auk þess fengu margir alþýðuflokksmenn vinnu hjá stjórnvöldum, t.d. Björn Blöndal Jónsson, sem varð áfengiseftirlitsmaður dómsmálaráðuneytisins, og Einar Olgeirsson sem varð forstjóri Síldareinkasölu ríkisins árið 1928.

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 11. sambandsþing 1932,
27−33.

En það bar einnig margt á milli flokkanna tveggja. Ekkert samkomulag varð um kjördæmaskipan og kosningar til Alþingis en alþýðuflokksmönnum var mjög umhugað um að ná fram breytingum á þeim vettvangi, enda var kjördæmaskipanin og kosningalöggjöfin þeim mjög óhagstæð. Þá urðu harðar kjaradeilur í árslok 1930 á milli Verkakvennafélagsins Framsóknar og Sambands íslenskra samvinnufélaga, svokallaður garnaslagur. Deil an var um kjör verkakvenna í garnahreinsunarstöð SÍS. Jónas Jónsson dómsmálaráðherra hafði afskipti af deilunni á þann hátt að verkafólkinu og forystu ASÍ var mjög misboðið. Einnig urðu deilur í verksmiðjum Sambandsins á Akureyri, en þar kröfðust verkamenn þess að gerðir yrðu kjarasamningar við þá.43 Í ljós kom að atvinnurekstur samvinnumanna laut sömu lögmálum og annar atvinnurekstur og breyttist afstaða verkalýðshreyfingarinnar til Framsóknar og samvinnuhreyfingarinnar eftir þetta.

Morgunblaðið 2. október 1930, 3.

Loks voru mjög deildar meiningar um virkjun Sogs ins og kristölluðust þar mjög ólíkar skoðanir Alþýðu flokks, a.m.k. hluta hans, og framsóknarmanna. Deil urnar snerust um það hvort veita ætti Reykjavík ríkis ábyrgð á lánum vegna virkjunarinnar og var frumvarp þess efnis lagt fram á Alþingi af Héðni Valdimarssyni og fleiri alþingismönnum. Héðinn, sem var einn ákafasti talsmaður virkjunarinnar, kvað Sogsvirkjunina „óefað stærsta mál landsmanna“, enda mundi hún ná til allt að „1/5 landsmanna“.53

Alþýðublaðið 26. maí 1934, 1.

Margir framsóknarmenn voru virkjuninni andsnúnir og töldu að hagsmuna sveitanna væri ekki gætt en eingöngu hugsað um hagsmuni fólks í þéttbýli, einkum Reykvíkinga og Hafnfirðinga, og mætti „ekki gleyma því, að Rvík hefir rafmagn og ýms önnur þægindi, sem sveitirnar hafa ekki. Og þó að Rvík fái þetta rafmagn, þá eru sveitirnar í sama kulda og sama myrkri eins og áður.“ Þeir töldu að Sogsvirkjunin með öðrum framkvæmdum, til dæmis byggingu verkamannabústaða, mundi leiða til þess að fólksflutningar úr sveitunum ykjust enn frekar en orðið væri.45

Alþt. B−D 1931, 1133−1137. − Einnig Ólafur Ásgeirsson 1988,
107−111.

Verkamenn við sútun hjá verksmiðjum Sambands íslenskra samvinnufélaga á Akureyri, líklega á fjórða áratugnum. Verkalýðshreyfingunni varð smám saman ljóst að rekstur samvinnumanna laut sömu lögmálum og annar atvinnurekstur.

Alþýðuflokkurinn hætti hlutleysisstuðningi við ríkisstjórn Framsóknarflokksins árið 1930 vegna þessara ágreiningsmála og kosninga- og kjördæmamála, sem fyrr getur. Tíminn, blað framsóknarmanna, lýsti því yfir að Alþýðuflokkur og Sjálfstæðisflokkur hefðu gert samsæri gegn framsóknarmönnum um að „gera bændur gersamlega áhrifalausa um stjórn landsins í allri framtíð, en afhenda valdið fjárafla-burgeisum Reykjavíkur og blindum verkfallaforsprökkum og æsingamönnum kaupstaðanna“.46 Þrátt fyrir hörð orð Tímans áttu Alþýðuflokkur og Framsóknarflokkur eftir að hafa mikil samskipti og samstarf á næstu árum, og þá á meiri jafnréttisgrunni en verið hafði. Alþýðuflokkurinn skilgreindi Framsóknarflokkinn sem sinn náttúrulega bandamann „á líkan hátt eins og er nú á Norðurlöndunum öllum, þar sem tekist hefir hin bezta samvinna milli verkamanna og bænda“, en slíkt samstarf hófst í þessum löndum á fjórða áratugnum. Sjálfstæðisflokkurinn var vitaskuld höfuðandstæðingurinn og talið að hin „íhaldsamari og nazistískari öfl“ réðu þar ríkjum en hættan væri sú að þessi öfl reyndu að ná samkomulagi við Framsókn.47

Tíminn 22. apríl 1931, 102.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 15. sambandsþing 1938,
36−37.

Í upphafi fjórða áratugarins sameinuðust höfuðandstæðingarnir, Alþýðuflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, um að breyta kosningalöggjöf og kjördæmaskipaninni og tóku þær breytingar gildi árið 1933. Misvægi á milli flokkanna hafði verið mikið við alþingiskosningar. Mikilvægi breytinganna má marka af því að í kosningum 1934 fékk Alþýðuflokkurinn 10 þingsæti en hefði aðeins fengið helming þeirra ef kjördæmaskipan hefði verið óbreytt. Með þetta fylgi og þennan þingmannafjölda var staða flokksins sterk og að loknum kosningum myndaði hann stjórn með Framsóknarflokknum. Samanlagt höfðu flokkarnir 25 þingmenn og svipað kjörfylgi en fengu auk þess stuðning Ásgeirs Ásgeirssonar, sem hafði boðið sig fram utan flokka og náð kjöri. Andstæðingarnir, Bændaflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, fengu 23 þingmenn en höfðu hins vegar fleiri atkvæði samtals á bak við sig. Þingmeirihlutinn var því tæpur.48 Haraldur Guðmundsson varð atvinnumálaráðherra í ríkisstjórninni en ekki formaður flokksins, Jón Baldvinsson. Þar með var Alþýðuflokkurinn farinn að stjórna landinu, svipað og bræðraflokkarnir á Norðurlöndunum, þó með þeim mun að það var samstarfsflokkurinn sem leiddi ríkisstjórnina. Staða jafnaðarmannaflokkanna á Norðurlöndunum var mun styrkari en Alþýðuflokksins – jafnaðarmenn mynduðu í fyrsta sinn ríkisstjórn í Danmörku árið 1924 og voru þá þegar orðnir stærsti flokkur landsins. Flokkurinn sat svo við völd allan fjórða áratuginn og fékk hátt í helming atkvæða þegar mest var (46% 1935).49 Í Noregi og Svíþjóð náðu jafnaðarmenn jafnvel enn betri árangri á fjórða áratugnum og fengu meirihluta atkvæða í báðum löndunum.

Alþýðublaðið 28. júní 1934, 1. − Þingtíðindi Alþýðusambands
Christensen, Lars K.; Kolstrup, Søren; Hansen, Anette
Eklund 2007, 154, 167 og víðar.

Haraldur Guðmundsson, ráðherra í ríkisstjórn hinna vinnandi stétta frá 1934–1938.

Alþýðublaðið staðhæfði að með stjórnarmynduninni hefði verið komið í veg fyrir að hér á landi yrði sett á „kúgunar- og ofbeldisstjórn“ undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Þar í flokki hefðu stórútgerðarmenn og stórkaupmenn sölsað undir sig öll völd en hrakið brott lýðræðissinna og „hægfara íhald“, enda stafaði hætta af „nazisma og gerræði hér á landi … fyrst og fremst frá foringjum þess atvinnurekstrar, sem lengst er kominn á braut auðvaldsskipulagsins, stórútgerðinni“.50 Þessari hættu hefði alþýða landsins svarað með því að „mynda sjálfkrafa samfylkingu um lýðræðisflokkana, Alþýðuflokkinn og Framsóknarflokkinn“.51 Hér var átt við Ólaf Thors sem nýlega var tekinn við formennsku í Sjálfstæðisflokknum. Um þetta leyti og síðar á fjórða áratugnum ítrekaði ASÍ-þing hvað eftir annað að „erlend ofbeldisstefna“ – og var þá án efa átt við nasismann – hefði „fest rætur í stjórnmálaflokki borgarastéttarinnar íslensku“, en þessi stefna hefði það að markmiði að „eyðileggja öll samtök hinna vinnandi stétta“.52 Alþýðublaðið lýsti því beinlínis yfir að helstu framámenn Sjálfstæðisflokksins væru nasistar.53

Alþýðublaðið 26. nóvember 1934, 1.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 12. sambandsþing 1934,
78−79.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 13. sambandsþing 1936,
110. − Alþýðublaðið 5. mars 1934, 1.
Alþýðublaðið 26. maí 1934, 1.

Í þessu sambandi þarf að hafa í huga að á þessum árum (1933) sölsuðu nasistar undir sig öll völd í Þýskalandi og bönnuðu bæði flokka sósíaldemókrata og kommúnista og lögðu undir sig allar eignir þeirra. Svipaðir atburðir urðu í Austurríki um sama leyti og ærin ástæða til að óttast að slíkir atburðir gerðust víðar.54 Ótti jafnaðarmanna var ekki ástæðulaus. Sumir forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins dáðust að Þriðja ríkinu þýska og litu með velþóknun á gang mála þar.55 Iðulega birtust lofgreinar um bæði „endurreisnarstarf“ Mussolinis á Ítalíu og Þriðja ríkið þýska í Morgunblaðinu þar sem ekki var farið dult með þá skoðun að þar væri margt á góðri leið. Íslendingar ættu samleið með þessari hreyfingu „hins germansk-norræna, og til þess stofns heyrum vjer Íslendingar“.56 Morgunblaðið réttlætti jafnvel gyðingaofsóknir í leiðara sínum og taldi ýmsa „menn af Gyðingaætt“ hafa misbeitt valdi sínu í Þýskalandi og væri það skýringin á aðgerðum gegn þeim.57 Svipaðrar tilhneigingar gætti einnig innan íhaldsflokka í nágrannalöndum Íslands.

Tørnehøj, Henning 1998, 325, 356, 366.
Sjá m.a. Morgunblaðið 4. júní 1933, 5, 4. janúar 1936, 6. −
Guðrún Lárusdóttir, 1936, 5. − Guðmundur Hannesson 1936,
5−6. − Stefán Hjálmarsson 1978, 7.
Morgunblaðið 25. maí 1933, 6.
Morgunblaðið 25. október 1934, 2. − Sjá einnig Benedikt
Sigurðsson 1989, 389−394.

Stjórn hinna vinnandi stétta og atvinnustefna Alþýðuflokksins

Þegar ríkisstjórn Framsóknarflokks og Alþýðuflokks tók við völdum um mitt ár 1934 voru aðstæður erfiðar og kreppa í algleymingi. Stefnuskrá ríkisstjórnarinnar bar þess skýr merki og einkenndist verulega af áherslum Alþýðuflokksins.58 Verð á helstu útflutningsvörum þjóðarinnar hafði fallið stórlega og sumar vörur voru jafnvel óseljanlegar. Við bættist að æ fleiri hömlur voru settar á milliríkjaviðskipti, „alls konar tollagirðingar og innflutningsbönn í markaðslöndum okkar“.59 Ríkisstjórnin beitti sér því mjög á sviði atvinnumála. Fljótlega eftir að hún tók við stjórnartaumum skipaði hún nefnd, Skipulagsnefnd atvinnumála, til þess að leggja fram tillögur um framkvæmd atvinnustefnunnar, og var Héðinn Valdimarsson formaður hennar. Hlutverk nefndarinnar var m.a. að kanna hvernig koma mætti „föstu skipulagi á allan þjóðarbúskapinn, jafnt opinberar framkvæmdir og fyrirtæki sem atvinnurekstur einstaklinga, þannig að þau verði sem hagkvæmast rekin og aukin með hagsmuni almennings fyrir augum (Planökonomi)“.60 Nefndin lagði sérstaka áherslu á að auka rannsóknir á sviði atvinnumála og að efla hlut innlends iðnaðar. Það var m.a. gert með breytingum á tolla- og skattalögum sem ívilnuðu innlendri framleiðslu og með lánveitingum til iðnfyrirtækja.61

Valdimar Unnar Valdimarsson 1984, 21−23.
Skýrsla Jóns Baldvinssonar forseta, flutt á 13. þingi Alþýðusam-
Alþýðublaðið 29. ágúst 1934, 1.
Sjá m.a. Ingólfur V. Gíslason 1994, 73−78. − Þingtíðindi

Í mjölhúsi hjá Síldarverksmiðju ríkisins á Siglufirði á ofanverðum fjórða áratugnum. Verið er að vigta síldarmjöl í poka og síðan lokar sá sem er lengst til vinstri pokanum en hann vó 100 kíló. Þriðji maðurinn, lengst til hægri, flytur síðan pokann á trillu að stæðu annars staðar í húsinu.

Alþýðuflokkurinn hafði frá öndverðu stutt víðtæka þjóðnýtingu og lagt áherslu á að sem mest af atvinnurekstri væri í samfélagseign og gerðar væru áætlanir um rekstur þjóðarbúsins. Þegar á þriðja áratugnum höfðu fulltrúar flokksins borið fram mörg frumvörp á Alþingi þess efnis að komið yrði á einkasölu á vegum ríkisins, t.d. á síld, steinolíu, tóbaki og saltfiski, og litu saknaðaraugum til þess tíma er Landsverslun sá um stóran hluta innflutnings til landsins á meðan á fyrri heimsstyrjöldinni stóð og í kjölfar hennar. Oft var stefna þessi áréttuð og hvatt til þess að Landsverslunin yrði starfrækt áfram eða komið á fót að nýju eftir að hún hafði verið lögð niður til þess að sjá um einkasölu á korni, lyfjum, tóbaki, kolum, salti og olíu, svo nokkuð sé nefnt.62

Sjá m.a. Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 8. sambandsþing
son 1984, 9 og áfram.

Fyrir kosningarnar 1934 var meginstefnumál flokksins fjögurra ára áætlun um hvernig bæri að standa að endurreisn efnahagslífsins og útrýmingu atvinnuleysis. Mikilvægur liður í þessari áætlun var að hið opinbera tæki yfir helstu hluta efnahagslífsins. Samkvæmt stefnu flokksins átti einkaeign á öllum stærri framleiðslutækjum og landi að hverfa og ríkið átti að taka að sér allan meiri háttar atvinnurekstur. Jafnvel mætti taka til athugunar að hið opinbera yfirtæki alla utanríkisverslunina, enda yrði hún þá rekin með „hagsmuni alþýðu fyrir augum“. Þessar áherslur voru mjög í anda þess sem hinir norrænu jafnaðarmannaflokkarnir höfðu fyrir stefnumið á þessum tíma og samkvæmt „planökonomi“ sem naut víða vinsælda á þessum tíma.63

Alþýðublaðið 26. maí 1934, 1. − Emil Jónsson 1934, 3. Sjá m.a.
44−45. − Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 13. sambandsþing

Svo fór að fjölda ríkis- og einkasölufyrirtækja var komið á fót á fjórða áratugnum samkvæmt þessari stefnu: Skipaútgerð ríkisins, Landssmiðju, Ferðaskrifstofu ríkisins, Viðtækjaverslun ríkisins, Bifreiðaeinkasölu, Síldaverksmiðjum ríkisins og Ríkisútgáfu námsbóka, svo nokkrar stofnanir og fyrirtæki séu nefnd.64 Þá var komið skipulagi á fisksöluna þannig að Fiskimálanefnd tók að sér sölu á frystum fiskafurðum en SÍF, (Sölusamband íslenskra fiskframleiðenda) sá um sölu saltfisksins. Flokkurinn var líka þeirrar skoðunar um miðjan fjórða áratuginn að það væri einstaklingum um megn að endurnýja togaraflotann og því yrðu „bæjarfélögin og ríkið að eiga og reka þessi skip“. Þessi draumur jafnaðarmanna rættist sums staðar því að á fjórða og fimmta áratugnum var komið upp bæjarútgerðum sem miklu skiptu fyrir atvinnulífið á þeim stöðum þar sem þær störfuðu. Jafnvel í Reykjavík, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði samfelldan meirihluta um áratuga skeið, var komið upp bæjarútgerð sem varð stærsta útgerðarfyrirtæki landsins. Það var þó ekki gert fyrr en eftir seinni heimsstyrjöld.65

Garðar Gíslason 1936, 4.
Sjá m.a. Vinnan X (1952), 3. tbl. 14−15.

Ríkisstjórnin lét einnig að sér kveða í landbúnaðarmálum og sett voru lög að hennar frumkvæði um kjöt- og mjólkursölu svo að sala á þessum vörum var ekki lengur háð framboði og eftirspurn á markaði heldur var verð ákveðið af hinu opinbera. Þessar ráðstafanir í landbúnaðarmálum sættu harðri gagnrýni af hálfu stjórnarandstöðunnar og beittu sjálfstæðismenn sér fyrir mjólkurverkfalli.66 Ráðstafanir í kjötsölumálum sættu einnig gagnrýni, enda var lagt verðjöfnunargjald á kjötið sem olli því að það hækkaði í verði. Forystumenn ASÍ töldu þó að það væri illskárri kostur en að bændur flosnuðu unnvörpum upp af jörðum sínum vegna lágs verðs á afurðunum, flykktust til bæjanna í leit að vinnu og bættust þar með í hóp atvinnuleysingja.67

Skýrsla Jóns Baldvinssonar forseta, flutt á 13. þingi Alþýðusam-
Skýrsla Jóns Baldvinssonar forseta, flutt á 13. þingi Alþýðusam-

Unnið að jarðabótum við Seljalandsbúið á Ísafirði á fjórða áratugnum en þar rak bærinn kúabú frá 1927 til hagsbóta fyrir bæjarbúa.

Andstæðingar Alþýðusambandsins, einkum innan Íhaldsflokksins og síðar Sjálfstæðisflokksins, álitu að með þessari stefnumótun flokksins væri á ný verið að koma upp einokunarverslun. Þeir skírskotuðu til sögunnar og staðhæfðu að stefna jafnaðarmanna væri í raun sama eðlis og stefna danskra stjórnvalda og einokunarkaupmanna hefði verið á sínum tíma, stefna sem hefði leitt margvíslegar hörmungar yfir þjóðina á fyrri öldum.68 Auk þess væri það stefna jafnaðarmanna að gera jarðnæði upptækt af bændum og því færi þeim eins og Haraldi hárfagra Noregskonungi sem hirti „jarðirnar af forfeðrum vorum, landnámsmönnunum“. En þeir hefðu boðið honum birginn og kosið að vera frjálsir og sjálfstæðir fremur en ánauðugir, og höfðu lagt út á hafið á litlum kænum. Svo stæði til að taka verslunina af kaupmönnum og togarana af útgerðarmönnum! Mörgum kaupmönnum, heildsölum, útgerðarmönnum og fiskseljendum leist ekki á blikuna. Í þeirra augum voru þessar aðgerðir jafngildi byltingar. Andstæðingum jafnaðarmanna og verkalýðshreyfingarinnar tókst með ágætum að sveigja orðræðuna um málefni líðandi stundar í farveg orðræðu sjálfstæðisbaráttunnar og varð vel ágengt.69

Jón Þorláksson 1921, 1.
Sjá m.a. Morgunblaðið 11. maí 1928, 2, og 13. mars 1929, 2.

En stærsti sigur Alþýðuflokksins innan ríkisstjórnarinnar var setning alþýðutryggingalaganna árið 1936. Þetta hafði verið helsta baráttumál flokksins um árabil og sigurinn var því sætur þó að ýmis ákvæði laganna væru gagnrýnd, eins og síðar verður getið um.

Ríkisstjórnin sat í þrjú ár og fór ágreiningur innan hennar smám saman vaxandi, m.a. um málefni togaraútgerðarfélagsins Kveldúlfs. Vegna þessa ágreinings var Alþingi rofið í apríl 1937. Við kosningarnar í júní 1937 tapaði Alþýðuflokkurinn nokkru fylgi en flokkarnir tveir héldu þó þingmeirihluta sínum. Þeir ákváðu að vinna saman í kjölfar kosninganna og lagði Alþýðuflokkurinn megináherslu á að endurreisa togaraútgerðina og breyta alþýðutryggingalögunum til hagsbóta fyrir almenning.70 Stjórnin stóð þó ekki nema í eitt ár. Ráðherra Alþýðuflokksins sagði sig úr henni eftir að Framsóknarflokkurinn hafði fengið liðsinni Sjálfstæðis- og Bændaflokks til þess að fá samþykkt frumvarp á Alþingi um gerðardóm í kjaradeilu útvegsmanna og sjómanna. Alþýðuflokkurinn hafði viljað fallast á að setja niður gerðardóm en taldi að allt of langt væri gengið.71 Flokkarnir tóku þó fljótlega upp samvinnu á ný á þann hátt að Alþýðuflokkurinn veitti ríkisstjórn Framsóknarflokksins hlutleysi með ákveðnum skilyrðum. Árið 1939 mynduðu þessir tveir flokkar ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, svonefnda þjóðstjórn. Og nú var Sjálfstæðisflokkurinn ekki lengur skilgreindur sem hálf-fasískur eins og gert hafði verið nokkrum árum fyrr. Alveg fram til ársins 1938 staðhæfði Alþýðublaðið að formaður Sjálfstæðisflokksins, Ólafur Thors, fylgdi „fasistískri stefnu“.72 En ári síðar var afstaðan breytt og Sjálfstæðisflokkurinn talinn einn „hinna lýðræðissinnuðu flokka“. Sósíalistaflokkurinn einn taldist ekki til þess hóps, en það er önnur saga sem síðar verður rætt um.73

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 15. sambandsþing 1938,
26−28.
Alþýðublaðið 17. mars 1938, 1, 4. − Þingtíðindi Alþýðusambands
2004, 48−49.
Alþýðublaðið 6. apríl 1938, 3.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 16. sambandsþing 1940,
18−23.

Alþýðuflokksmenn og Alþýðusambandið máttu á margan hátt vel una við stjórnartíð sína. Auðvitað hafði margt farið úrskeiðis, enda ytri skilyrði erfið, en margt hafði líka tekist vel. Þeir töldu sig hafa gert það sem margir aðrir jafnaðarmannaflokkar höfðu vanrækt þegar þeir náðu völdum í sumum nágrannalöndunum. Að þeirra mati hafði sumum „lýðræðis- og jafnaðarmannastjórnum“ sem höfðu náð ríkisvaldinu í sínar hendur láðst að „neyta valdsins“, þ.e. að taka að sér „stjórn atvinnumálanna, framkvæma endurskipulagningu þeirra með hagsmuni alþýðunnar fyrir augum“. Þessar stjórnir sinntu ekki því verkefni sínu að ráðast að rótum atvinnuleysisins, sjálfu skipulaginu og „misstu þess vegna traust vinnustéttanna“. Fordæmið sem var fylgt voru hin Norðurlöndin, einkum Danmörk og Svíþjóð, þar sem jafnaðarmönnum hefði tekist að ná miklu fylgi kjósenda þegar árið 1930 og mynda ríkisstjórnir með flokkum í þessum löndum sem studdust stundum við fylgi bænda.74 Í þessum löndum hefði jafnaðarmönnum auðnast að „taka stjórn atvinnumálanna að meira eða minna leyti í sínar hendur“ og væru nú á góðri leið með að leiða lönd sín út úr „ógöngum kreppunnar“.75

Sjá m.a. Þorleifur Friðriksson 1987, 35.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 12. sambandsþing 1934, 77.

Forysta Alþýðusambandsins mátti, sem fyrr segir, á margan hátt vera stolt af verkum sínum í stjórn hinna vinnandi stétta. En stundum er umbunin ekki í réttu hlutfalli við framlagið og Alþýðuflokkurinn naut ekki þeirrar hylli sem hann taldi sig eiga skilið. Skuldinni var skellt á kommúnista sem hefðu veikt baráttustöðu alþýðunnar og klofið samtök hennar. Í raun væri hlutverk kommúnista að „kalla yfir verkalýðinn nazismann og hermdarverk hans með því að gefa auðvaldinu fordæmi um uppvöðslu og ofbeldisverk“.76

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 12. sambandsþing 1934,
76−77.

Vörður

  • 1908 Verkamannafélagið Dagsbrún fær einn mann í bæjarstjórnarkosningum í Reykjavík.
  • 1916 Verkalýðslisti býður fram í Reykjavík og fær flest atkvæði.
  • 1916 Alþýðuflokkurinn fær þingmann kjörinn í Reykjavík ( Jörund Brynjólfsson).
  • 1922 Jafnaðarmenn ná meirihluta á Ísafirði.
  • 1926 Jafnaðarmenn ná meirihluta í Hafnarfirði.
  • 1927 Jafnaðarmenn ná meirihluta á Siglufirði.
  • 1927 Alþýðuflokkurinn fær tæpan fimmtung atkvæða í alþingiskosningum og fimm þingmenn.
  • 1927 Framsóknarflokkurinn myndar ríkisstjórn með hlutleysi Alþýðuflokksins.
  • 1934 Alþýðuflokkurinn fær 10 þingsæti á Alþingi.
  • 1934 Ríkisstjórn hinna vinnandi stétta.
  • 1939 Þjóðstjórn Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.
  • 1906 Útgáfa Alþýðublaðsins eldra hafin.
  • 1913 Útgáfa Verkamannablaðsins hefst.
  • 1915 Útgáfa vikublaðsins Dagsbrúnar hefst.
  • 1918 Útgáfa Verkamannsins á Akureyri hefst.
  • 1919 Útgáfa Alþýðublaðsins hefst.
  • 1933 Finnbogi Rútur Valdimarsson ráðinn ritstjóri Alþýðublaðsins.
  • 1939 Alþýðusambandið gefur út Sambandstíðindi.
  • 1924 Árvakur á Eskifirði stofnar Lestrarfélag verkamanna.
  • 1924 Kvöldskóli verkamanna í Reykjavík stofnaður.
  • 1931 Verkalýðsfélagið Bjarmi kaupir útvarpstæki fyrir félagsmenn.

Næsti kafli

Pólitískar deilur innan verkalýðshreyfingarinnar