Efnisyfirlit

Deila sögu ASÍ

Tímabilið fram til 1940

Frá barnaheimili í Keflavík um miðja 20. öld. Verkalýðsfélög, einkum verkakvennafélög og kvenfélög, höfðu frumkvæði að því að koma upp barnaheimilum nokkuð víða undir miðja öldina.

Félagsleg réttindamál

Saga ASÍ: Í samtök › Tímabilið frá 1940 og fram um 1960

Félagsleg réttindamál

Barátta fyrir átta stunda dagvinnu hafði tekið langan tíma og var vissulega mikill sigur fyrir verkafólk að ná fram þeirri kröfu árið 1942, en þá voru sett lög þess efnis á Alþingi. Samhliða sömdu þó mörg verkalýðsfélög um þessi ákvæði, um átta stunda vinnudag til kl. fimm síðdegis. Þá tók við eftirvinna til kl. átta síðdegis, sem var greidd með 50% álagi, en eftir það nætur- og helgidagakaup sem átti að greiðast með 100% álagi.1 Á hinn bóginn má velta fyrir sér gildi þessa þegar vinnutími flestra þjóðfélagshópa var yfirleitt miklu lengri en 48 stundir á viku, kaupið breyttist aðeins eftir að dagvinnutíma lauk og greitt var annaðhvort eftir- eða næturvinnukaup. Í ágripi að sögu ASÍ frá um 1970 er því lýst svo að eftir stríðið hafi sú „venja skapast, að menn vinna almennt lengur, bæta á sig eftirvinnu, næturvinnu og helgidagavinnu“.2 Þrátt fyrir samþykktir um átta stunda vinnudag var vinnutími því áfram langur, jafnvel lengri en hann hafði verið. Verkalýðshreyfingin varð því áfram að beita sér gegn vinnuþrælkun með því að takmarka hversu lengi mætti vinna. Áfangi á þeirri leið var að fá sett lög frá Alþingi um lágmarkshvíldartíma. Gerðist það árið 1951 með samþykkt laga um öryggisráðstafanir á vinnustöðum, en fyrst var lagt fram frumvarp þessa efnis árið 1948. Með þessum lögum var tryggður réttur til átta stunda lágmarkshvíldar.3

Ólafur R. Einarsson 1972, 14. − ÞÍ. Greinargerð vinnutíma-
nefndar. Sögus. verkal. A01: 20/09. Skrifstofa. Almenn
skrifstofa.
ÞÍ. Alþýðusambandsannáll, í tilefni af 50 ára afmæli ASÍ árið
1966. Sögus. verkal. A01: 22/13. Skrifstofa. Ýmis félagsmál.
Námskeiðsgögn og ýmis félagsmál.
Halldór Grönvold 2001, 54−55. Stjórnartíðindi A 1952, 40.

Fyrir tilstilli helstu forystumanna verkalýðshreyfingarinnar á Alþingi, Hannibals Valdimarssonar, Björns Jónssonar, Eðvarðs Sigurðssonar og Gunnars Jóhannssonar, var samþykkt þingsályktunartillaga um ráðstafanir til þess að koma á átta stunda vinnudegi árið 1961. Í greinargerð með ályktuninni kom fram að þrátt fyrir að átta stunda vinnudagur hefði verið viðurkenndur um tveggja áratuga skeið hefði í raun lítið gengið að stytta vinnutímann, enda væru ekki aðrar takmarkanir á vinnutíma en þær að eftir átta stunda vinnudag bæri að greiða álag á kaupið, eins og fyrr greinir. Flutningsmenn greindu frá því að víðast væri vinnutíminn 10–11 klukkustundir en sums staðar væru unnar 14–16 klukkustundir á sólarhring „langtímum saman“. Flutningsmenn lýstu því yfir að þessi vinnuþrælkun hefði í för með sér „sóun mannlegra verðmæta“ sem bryti niður vinnuþrek og heilsu verkafólks, stytti starfsævina og kæmi í veg fyrir að það gæti notið heimilis- og menningarlífs. Mikill munur væri í þessum efnum hér á landi og í nágrannalöndunum sem hefðu náð miklu lengra á þessu sviði og væri vinnutími þar nú víða 40–44 stundir.4 Ekki kemur á óvart að þingmenn Alþýðubandalags og Alþýðuflokks studdu tillöguna og að sumir þingmenn Sjálfstæðisflokksins mæltu á móti henni en þó fráleitt allir. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra tók henni tveimur höndum og kvað hér vikið að „merkilegustu og framkvæmanlegustu kjarabót, sem nú er hægt að fá fyrir verkamenn hér á landi“, enda væri mjög miður að svo væri farið með starfsorku verkafólks. Sannað væri að þær þjóðir hefðu það best þar sem vinnutíminn væri einungis 48 stundir eða jafnvel styttri. Vandalaust reyndist að fá ályktunina samþykkta. Í kjarasamningum árið 1965 var samþykkt að færa dagvinnutímann niður í 44 stundir úr 48 stundum (45 á Norðurlandi) og prentarar náðu þá samningum um að komið skyldi á 40 stunda vinnuviku í áföngum.5

Alþt. A 1961, 473−474. − Alþt. D 1961, 61−64.
Alþt. D 1961, 67−68. − Ólafur R. Einarsson 1972, 14. − Skýrsla

Járnsmiðir að störfum í eldsmiðju árið 1956. Ýmsir útreikningar og teikningar hafa verið krítaðar á veggi og hurðir. Yfirleitt var mikið vinnuálag í þeim iðngreinum sem tengdust útgerðinni.

Vestmannaeyjar voru ágætt dæmi um vinnuþrælkun sem tíðkaðist eftir miðja 20. öld. Til dæmis samþykkti Verkakvennafélagið Snót í Vestmannaeyjum ekki fyrr en árið 1963 að ekki skyldi heimilt að vinna lengur en til kl. 10 að kvöldi við flökun, þ.e. lengri vinnutíma daglega en 14–15 klukkustundir, og bannaði vinnu á laugardögum og sunnudögum á sumrin. Og það var ekki fyrr en undir lok áttunda áraugarins sem félagið bannaði sunnudagavinnu allt árið.6 Ein félagskvenna áleit þessa vinnutímastyttingu eitt helsta framfaraskref sem tekið hefði verið fyrir frumkvæði verkalýðshreyfingarinnar í Eyjum. Á vertíðum hefði iðulega verið unnið „langt fram á nætur, jafnt virka daga sem um helgar“, svo vikum skipti.7

Afmælisrit Alþýðuhússins og verkalýðsfélaganna í Vestmanna-
Afmælisrit Alþýðuhússins og verkalýðsfélaganna í Vestmanna-

Það gekk því sannarlega lítið að takmarka vinnutímann, enda margir sem tóku yfirvinnu fagnandi vegna þess að þá var kaupið hærra. Margt almennt launafólk leit því á mikla vinnu sem hlunnindi. Langt fram eftir 20. öld var ekki óalgengt að vinnutími væri 12–15 stundir á sólarhring. Vitaskuld hélst þessi vinnuþrælkun í hendur við launin, dagvinnulaunin voru einfaldlega of lág til að fólk gæti lifað á þeim.8 Þess má geta að Alþingi samþykkti árið 1956 lög sem tryggðu sjómönnum 12 stunda hvíld á sólarhring, en áður (1950 á saltfiskveiðum og 1954 á ísfiskveiðum) hafði Sjómannafélagið samið um sams konar réttindi.9

Verkalýðsfélagið Baldur 70 ára. Afmælisrit, 46−47.
Skúli Þórðarson 1967, 106−107. − Morgunblaðið 6. mars 1952,
1. − Halldór Grönvold 2001, 53.

Lög um orlof sem samþykkt voru á Alþingi árið 1943 voru byltingarkennd breyting fyrir marga. Frumvarp þess efnis hafði verið borið fram áður af þingmönnum Alþýðuflokksins, en Stefán Jóhann Stefánsson félagsmálaráðherra beitti sér fyrir því árið 1941 að nefnd væri skipuð til þess að semja lagafrumvarp um þetta efni og studdist nefndin aðallega við dönsk lög um sama málefni.10 Sumir launþegar höfðu notið þessara réttinda um margra ára skeið en fráleitt allt launafólk. Samkvæmt lögunum áttu allir sem unnu í annarra þjónustu að fá orlof í 12 daga árlega á fullum launum, þannig að dregin væru 4% af launum sem síðan væru greidd þegar orlof væri tekið. Undanskildir voru þó iðnnemar og sjómenn sem ráðnir voru eingöngu upp á hlut. Því var lýst svo að orlofslögin væru „tvímælalaust einn af stærstu sigrum verkalýðssamtakanna og jafnframt hinn stærsti á sviði aukinnar menningar launastéttanna“.11

Alþt. A 1942 (60. þing), 11−12.
Orlof 1943, 1.

Í Vaglaskógi á sjötta áratugnum. Þangað var vinsælt að fara í skemmtiferðir, ekki síst meðal Akureyringa, og gista jafnvel í nokkrar nætur í tjaldi.

Ný lög um orlof voru samþykkt á Alþingi árið 1956 þar sem orlof var lengt úr 12 dögum í 18 daga og orlofsfé hækkað úr 4% í 6%, en áður höfðu einstök verkalýðsfélög þó verið búin að ná fram þessari aukningu í kjarasamningum 1952 og 1955, og opinberir starfsmenn með lagasetningu árið 1954. Nýju lögin voru einnig látin ná að fullu til sjómanna sem fengu laun sem hluta af aflaverðmæti. Á hinum Norðurlöndunum hafði orlof verið lengt í 18 daga fáum árum áður.12

Alþt. A 1956, 202−203. − Alþt. B 1956, 742−748.

Helstu rökin fyrir setningu orlofslaganna voru þau að hvíld af þessu tagi væri nauðsynleg „vegna þeirra einstaklinga, sem orlofið fá, … [en] einnig vegna atvinnurekendanna og þjóðfélagsins að því er heilsuvernd snertir“. Nú væri almennt viðurkennd

nauðsyn þess, að vinnandi fólk til sjávar og sveita fái hæfilega hvíld frá störfum vissan tíma í einu með vissu millibili. Þetta er og almennt viðurkennt og hefur verið um langt skeið, enda hafa skapazt venjur um orlof (sumarfrí) hjá ýmsum stéttum manna og þá fyrst og fremst hjá skrifstofu- og verzlunarfólki. Þá var og í sumum sveitum landsins sú venja fram yfir aldamót, og er ef til vill enn, að veita hjúum nokkurra daga orlof árlega.13

Alþt. A 1942 (60. þing), 12.

Einnig væri markmiðið að samræma reglur. Mörg stéttarfélög hefðu einmitt tekið ákvæði um þessi efni inn í kjarasamninga, en þau væru ákaflega mismunandi.14 Ekki var skrefið þó stigið til fulls á þann hátt að óheimilt væri að vinna í orlofinu, aðeins var óheimilt að starfa í eigin starfsgrein en álitið ákjósanlegt að t.d. skrifstofumenn „ynnu að landbúnaði í sumarleyfi sínu“, eins og Guðmundur Í. Guðmundsson, alþingismaður Alþýðuflokksins, orðaði það. Enda væri óheppilegt að fólk hefði ekki eitthvað fyrir stafni, athafnaleysi gerði engum gott, eins og Hermann Jónasson, formaður Framsóknarflokksins, var fullviss um.15

Alþt. B 1942 (61. þing), 910−911.
Alþt. B 1942 (61. þing), 912−913.

En hvernig átti fólk sem fékk frí að njóta þess? Það gat verið snúið eins og kom fram í bæklingi sem gefinn var út í tilefni af setningu orlofslaganna. Fullyrt var að miklir annmarkar væru á því að verkafólk gæti notið orlofs, „svo sem skortur á farartækjum, dvalarstöðum, hentugum útbúnaði og leiðbeiningum um ferðalög“.16 Sumir vildu einfaldlega ekki taka sér frí, eins og Guðmundur J. Guðmundsson lýsti í viðtali:

Orlof 1943, 8.

Eitt af því sem ég og fleiri gerðum mikið af var að fá menn til að taka sumarleyfið sitt. Það reyndist oft erfitt að fá menn til þess, einkum eldri mennina. Ef manni tókst að pína þá til að taka sér svo sem eins og vikufrí, þá komu þeir jafnvel tvisvar á dag niður að höfn til að fylgjast með. Þeir voru svo samgrónir þessu lífi við höfnina og markaðurinn svo harður að fá vinnu að þeir vildu fylgjast með þessu öllu. Sumir karlanna fóru aldrei í sumarfrí, fannst það tímasóun og glötuð vika að taka sér frí.17

Þjóðviljinn 26. janúar 1986, 6. Viðtal við Guðmund J. Guð-
mundsson.

Í Reykjavík var boðið upp á stuttar ferðir í nágrenni borgarinnar fyrir fólk í orlofi, t.d. til Þingvalla, bæði fyrir og eftir síðari heimsstyrjöld. Svipað mátti segja um Akureyri. Þaðan var stutt í Vaglaskóg en þangað var vinsælt að fara. „Auðvitað fékk maður sér dömu“, sagði verkamaður á Akureyri „og fór austur í Vaglaskóg … Svo bað ég hann [bílstjórann] bara að sækja mig aftur um kvöldið og það stóð heima. Þarna voru oft samkomur. Þarna var allt annar heimur“.18 Verkalýðssamtökin skipulögðu iðulega stuttar ferðir á vinsæla staði og eitthvað var um að skipulagðar væru orlofsferðir þar sem boðin var gisting í heimavistarskólum.19

ÞÞ A: 6488. KK 1905.
Benedikt Sigurðsson 1990, 392.

Börn í braggahverfi á sjötta áratugnum. Þá var enn mikið notað af húsnæði af þessu tagi.

Forystufólki innan verkalýðshreyfingarinnar hér á landi var vel kunnugt um að erlendis hafði víða verið komið upp aðstöðu fyrir verkafólk til þess að njóta útiveru og hvíldar og byggð í því skyni hvíldarheimili eða orlofshús fyrir félagsmenn í verkalýðshreyfingunni. Setning orlofslaganna varð einmitt til þess að farið var að gefa þessum málefnum meiri gaum.20 Hér á landi urðu prentarar enn fyrstir félaga til þess að ráðast í framkvæmdir á þessu sviði. Hið íslenska prentarafélag keypti jörðina Miðdal í Laugardal. Tveimur árum síðar hafði Byggingarfélag prentara byggt 14 bústaði fyrir félagsmenn sína og sýndu þeir á þessu sviði sem fleirum frumkvæði sem flest önnur íslensk stéttarfélög fylgdu síðan. Fleiri félög, t.d. Dagsbrún, höfðu þá slíkt í bígerð, enda var talið mikilvægt að íslensk alþýða gæti „öðlast hluttöku í ríki íslenskrar náttúru“ og veitt „börnum sínum þau þroskalyf sem sumar og sól eru skammdegisverum norðurhjarans“.21 Á slíkum stöðum áttu verkamenn og -konur að „geta notið hvíldar og næðis í faðmi íslenskrar náttúru. Þar eiga verkamenn og konur þeirra að geta safnað kröftum eftir erfiði ársins, við fullkomin menningarleg skilyrði og hvílt augu sín við fegurð lands síns og þá fegurð sem þeir munu sjálfir gefa því“.22 Sum verkalýðsfélög tóku kannski ekki stór skref hvað þetta varðar, en sennilega mjög í takt við þarfir félagsmanna og eigin getu. Í kringum 1950 keypti Verkalýðsfélag Akraness t.d. einfaldlega 10–15 tjöld og 30 svefnpoka og leigði félagsmönnum.23 Nánar verður fjallað um þessi mál í II. bindi.

Alþt. C 1942 (59. þing), 209−210.
Stefán Ögmundsson 1943, 120. − Stefán Ögmundsson 1944,
104. − Vinnan XIV (1957), 1.−4. tbl., 17−18.
Vinnan II (1944), 191−192.
Verkalýðsfélag Akraness 50 ára, 10.

Húsnæðismálin

Eftir samþykkt laga um verkamannabústaði í upphafi fjórða áratugarins voru víða um land byggðar íbúðir á þessum grunni, svo sem að framan hefur verið getið. En hvergi var þó nægilega byggt, enda fjölgaði fólki hratt, ekki síst í Reykjavík, og stríðið jók enn á húsnæðisvandann þar sem hermenn settust að í mörgum íbúðum.24 Í ársbyrjun 1944 hafði t.d. hátt á fimmta tug fjölskyldna verið komið fyrir í bráðabirgðahúsnæði sem flest var talið óíbúðarhæft.25 Byggingarfélag verkamanna byggði um 200 íbúðir fyrir verkafólk í Rauðarárholti frá 1939 til 1952 sem ætlaðar voru fyrir um 1200 manns, en ljóst var að sá fjöldi var langt frá því að vera nægur.26

Eggert Þór Bernharðsson 2001, 31−33.
Morgunblaðið 16. janúar 1944, 12.
Morgunblaðið 18. janúar 1952, 2.

Verkamannabústaðir í Bústaðahverfi í Reykjavík í byggingu árið 1951.

Ný heildarlöggjöf var svo sett um verkamannabústaði árið 1946. Til ársins 1947 voru byggðar tæplega 600 íbúðir á vegum Byggingarsjóðs verkamanna. Ríflega helmingur þeirra var í Reykjavík, 68 í Hafnarfirði, 38 á Siglufirði og 36 á Akureyri, en einnig var byggt víðar á landinu. Meðal annars voru byggðir nokkrir verkamannabústaðir í Ólafsvík (11 íbúðir) um miðjan fimmta áratuginn. Þegar þessu kerfi var „lokað“ með breytingu á lögum um Húsnæðismálastofnun árið 1970 höfðu verið byggðar 1748 íbúðir í verkamannabústöðum.27

Stjt. A 1946, 79−88. − Verkalýðsfélagið Jökull Ólafsvík 50 ára, 3.
Vinnan VII (1949), 106. − Afmælisrit Húsnæðismálastjórnar
1995, 27.

Með lögum um lánadeild smáíbúða (1952) var einkum ætlað að styðja við bakið á þeim sem vildu byggja sjálfir með aðstoð fjölskyldu sinnar. Lánadeild smáíbúða varð síðan undanfari Húsnæðismálastjórnar, sem sett var á laggirnar árið 1955, og Húsnæðismálastofnunar og Byggingarsjóðs ríkisins, en þessar stofnanir áttu að hafa með höndum yfirumsjón með húsnæðismálum í landinu (1957).28 Smáíbúðalánin nýttust einkum þeim sem áttu fyrir einhverjar eignir og gátu unnið sjálfir við byggingu húsanna, og voru mjög í anda þeirra sem töldu að best væri að fólk tæki sjálft að sér að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Á þeirri skoðun var t.d. forysta sjálfstæðisverkamanna í Málfundafélaginu Óðni.29 Ekki var hins vegar farið út í að byggja til að leigja að neinu marki, hvorki af hálfu einkaaðila né hins opinbera, þrátt fyrir að ýmsir væru þeirrar skoðunar að slíkt væri nauðsynlegt. Virðist sú skoðun hafa verið allsráðandi hjá ráðamönnum að fólk vildi helst eiga húsnæðið sjálft, vildi „búa sér að sínu“.30 Einkaeignarstefna þar sem einstaklingar voru studdir til þess að byggja sjálfir í stað félagslegra lausna varð með öðrum orðum ríkjandi og er Smáíbúðahverfið í Reykjavík einn vitnisburður um þessa stefnu. Bæði borgarstjórnin í Reykjavík og ríkisvaldið stuðluðu að því að ná þessum markmiðum, enda Sjálfstæðisflokkurinn leiðandi í stjórnmálum á þessum tíma.31 Fjölmargir sóttust eftir lánum til að byggja á þessu svæði en reyndin varð þó sú að meirihlutinn sem byggði þar kom húsnæði sínu upp af eigin rammleik og með stuðningi vina og fjölskyldu.32

Agnar Kl. Jónsson 1969 II, 777. − Afmælisrit Húsnæðismála-
Björg Guðnadóttir 1952, 32. − Morgunblaðið 25. október
1945, 2.
Sjá m.a. Björg Guðnadóttir 1952, 33.
Jón Rúnar Sveinsson 2007, 59.
Eggert Þór Bernharðsson 2001, 238−239.

Þessi mál komu oft til tals í samfélagsumræðunni á þessum tíma, án þess þó að gripið væri til róttækra ráða.33 Húsnæðismálin voru iðulega rædd á þingum Alþýðusambandsins, t.d. árið 1954, og hvatt til átaks í húsbyggingum vegna þess ófremdarástands sem ríkti í Reykjavík. Bent var á að um þetta leyti byggju um 3000 manns í bröggum, auk þess sem margir byggju í öðru óhæfu húsnæði. Þá væru á annað þúsund börn í húsnæði af þessu tagi.34 Einnig var gagnrýnt að framlög til Byggingarsjóðs verkamanna væru allt of lág og dygðu ekki til ef gera ætti átak í byggingarmálum alþýðufólks.35 Síaukin dýrtíð og of lítil framlög til byggingarsjóðanna leiddu að auki til þess að það hlutfall sem íbúðakaupendur þurftu að greiða innan verkamannabústaðakerfisins fór hækkandi. Til dæmis var það hlutfall sem flestir íbúðakaupendur þurftu að greiða hjá Byggingarfélagi verkamanna komið upp í fjórðung um 1950.36 Fáum árum síðar var þetta hlutfall komið upp í 40% og um 1960 í tæpan helming. Spyrja mátti hvort sæmilegt væri að gera ráð fyrir að alþýðufólk gæti ráðið við slíkar greiðslur.37 Kerfið var greinilega hætt að virka eins og til hafði verið ætlast í upphafi.

Sjá m.a. Morgunblaðið 21. september, 2, 5. október, 16, og 2.
nóvember, 2, 1945.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 24. sambandsþing 1954,
59−60.
Skúli Tómasson 1945, 7.
Ingólfur Kristjánsson 1954, 44.
Ingólfur Kristjánsson 1964, 48−49.

Árið 1963 hafði Byggingarsjóður verkamanna veitt lán til byggingar 1335 íbúða frá stofnun, þ.e. á liðlega þremur áratugum. Að meðaltali eru það á milli 40 og 50 íbúðir á ári á tímabilinu sem er lágt hlutfall af heildarbyggingarfjölda íbúða á þessum tíma; meðalfjöldi íbúða í byggingu á ári á árabilinu 1946–1950 var t.d. ríflega þúsund á ári en 1500 á árabilinu 1956–1960.38

Ingólfur Kristjánsson 1956, 20. − Sjá Hagskinna 1997, 376−377.

Fjölbýlishús, byggt á vegum Reykjavíkurborgar við Skúlagötu á árunum 1944–1948, teiknuð af húsameistara Reykjavíkurbæjar, Einari Sveinssyni, og Ágústi Pálssyni arkitekt.

Í braggahverfi í Hlíðunum, Þóroddsstaðakampi, börn að leik á byggingarsvæði, en skarpar andstæður birtast með hús efnafólks í baksýn.

Ýmis byggingarsamvinnufélög voru mikilvirk í að koma upp húsnæði fyrir félagsmenn sína, ekki síst Byggingarsamvinnufélag prentara, stofnað árið 1944. Félagið var í fararbroddi við byggingu fjölbýlishúsa og á ofanverðum sjötta áratugnum hafði það komið upp íbúðum fyrir ríflega 120 félagsmenn, fyrst og fremst í stórum fjölbýlishúsum, enda var litið svo á að háhýsin væru „framtíðin“.39 Fleiri byggingarfélög voru starfrækt á þessum árum, t.d. Byggingarsamvinnufélag Verzlunarmannafélags Reykjavíkur sem lét byggja nokkrar íbúðir á ofanverðum fimmta áratugnum og á fyrri hluta sjötta áratugarins. Hið sama gerði byggingarfélag á vegum Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, Byggingarsamvinnufélags iðnverkafólks og Byggingarsamvinnufélag lögreglumanna.40 Á vegum þess félags var svo staðið að verki, að sögn Þórunnar H. Sveinbjörnsdóttur:

Vinnan XIV (1957), 1.−4. tbl., 7−9.
Lýður Björnsson 1992 I, 167−168. − Lýður Björnsson 1997, 78.
− Ingólfur V. Gíslason 1994, 290−292.

Faðir minn gekk í byggingarsamvinnufélag lögreglumanna og var þeim úthlutað nokkrum sinnum lóðum á þessum árum. Þar kom að hann fékk lóð ásamt 5 öðrum til að reisa stórt hús við Miklubraut 80–84. Næsta hús fyrir ofan var líka byggt af lögreglumönnum að mestu. Þarna hófst vinna sem var gjörsamlega út úr bænum því Reykjavík náði að mestu upp í Norðurmýri en það voru að rísa hús upp með Flókagötu og Hlíðarnar að byggjast með bóndabæjum inn á milli. … Þessir menn 6 alls hófu bygginguna og tóku lán en þurftu að eiga töluverða upphæð sjálfir til að koma upp grunninum. Þetta er tveggja hæða hús með tveim íbúðum í hvorum enda og í mið uppgangi eru 2 íbúðir. Í kjallara var ein íbúð í hvoru rými sem þeir áttu saman til að byrja með. Sennilega hefjast framkvæmdir 1949 og urðu þeir að finna sér gamlan lítinn vörubíl til að koma aðföngum að byggingunni en menn byggðu eins mikið sjálfir og kostur var. Þess á milli tóku menn aukavaktir eða ball og húsavaktir til að ná í aukapening. Við fluttum inn 1951 og þá í eitt herbergi og með eldhúsið og salerni nokkuð vel klárað. Næstu árin var smátt og smátt bætt við. Höftin á þessum árum voru ótrúleg og þurfti að sækja um innflutningsleyfi eða fara einhvern veginn framhjá kerfinu. Það fékkst dúkur á stofugólfið 2 árum síðar og eins var með dúk á lítið herbergi sem fór þá í útleigu til að finna pening í næstu skref. Ekki man ég eftir að kvartað væri eða nöldrað yfir að eitthvað gengi seint. Frekar að mamma næði sér í aukavinnu með mig með sér t.d. sumarvinnu á Vegamótum eða í Ölver og aurarnir fóru í að klára það sem var óklárað. Má í þessu sambandi nefna að þau safna sér fyrir ísskáp með aukavinnu og kom hann árið 1956 frá O. Johnson og Kaaber og er til enn. Fyrir þann tíma var t.d. mjólk kæld í veggskáp sem á voru kæliristar og kallaður kaldi skápurinn. Fyrir kom að mjólk og annar matur fraus á svölunum sem líka voru notaðar sem ákveðin geymsla með skáp fyrir það sem þurfti að standa í kælingu. En það gekk ekki að sumri til.41

Óprentuð samantekt Þórunnar H. Sveinbjörnsdóttur,
nóvember 2009.

Verkamannabústaðir í Keflavík, byggðir um miðjan fimmta áratuginn.

Athyglisverðast er þó kannski hversu lítið var í raun byggt eftir fyrsta átakið á fjórða áratugnum.42 Viðvarandi húsnæðisskortur og ófremdarástand var í helstu þéttbýlisstöðum landsins fram á sjöunda áratug 20. aldar, mikil þrengsli, slæmar kjallaraíbúðir og hermannabraggar. Það var eins og litið væri svo á að eftir fyrsta átakið í þessum efnum væri búið að leysa málin. En svo var vitaskuld ekki. Til bráðabirgða var byggt húsnæði í Reykjavík á vegum borgarinnar. En það dugði skammt enda eftirspurnin geysileg. Árið 1944 bjuggu tugir fjölskyldna í Reykjavík í bráðabirgðahúsnæði. Nefnd á vegum borgarinnar sem kannaði þessi mál komst að þeirri niðurstöðu að flestir þessara bústaða væru óhæfir „með öllu“ og engir mannabústaðir, „síst fyrir konur og börn, bæði vegna umhverfisins og ljelegs smíðis“ og hlyti það fólk sem þar kæmi sér fyrir að bíða „heilsutjón í slíkum íbúðum“.43

Sjá m.a. Vinnan XXIII (1973) 1. tbl., 8.
Morgunblaðið 16. janúar 1944, 16.

Svo „vel“ vildi til að mikið húsnæði losnaði á stríðsárunum og eftir stríðið, þ.e. hermannabraggarnir og þá yfirtóku borgaryfirvöld. Í þetta húsnæði flutti nú fátækt verkafólk unnvörpum, hinir fyrstu árið 1943. Flestir litu þó á þetta húsnæði sem til bráðabirgða en stundum aðstoðuðu bæjaryfirvöld fólk við að laga braggana svo að þeir yrðu íbúðarhæfir. Þegar árið 1945 bjuggu hátt í 1500 manns í bröggum, en á tímabilinu 1948–1956 voru þar yfirleitt á bilinu 2200–2300 manns. Eftir það fór þeim fækkandi, en þeir voru þó enn hátt í 600 árið 1963.44 Þegar braggarnir voru skoðaðir árið 1946 var ástand tveggja þriðju hluta þeirra talið lélegt, mjög lélegt eða óhæft. Um miðjan sjötta áratuginn var þetta húsnæði enn mikið notað og um það leyti bjó þar fremur fólk sem var illa félagslega sett og bjó við fátækt.45 Árið 1952 var ástandinu í húsnæðismálum fátæks fólks m.a. lýst svo:

Eggert Þór Bernharðsson 2001, 80.
Sjá m.a. Ómar Valdimarsson 1990, 51.

Þar [í einum bragganum] búa gömul hjón með veikan son. Hvorugt gömlu hjónanna er vinnufært. Kolaeldavél hitar upp allan braggann, sem er nokkuð stór. Þegar frost eru verður kuldinn óbærilegur inni og vatnið frýs í vatnsleiðslunni. Ekkert frárennsli er til og verður því að bera allt skolp langar leiðir. Þegar rignir lekur þakið hér og hvar. Bragginn er sundurþiljaður með gömlum kassafjölum og ónýtum pappa. Rottur hafa það til að gera sig heimakomnar bæði að nóttu og degi, þegar vel liggur á þeim …46

Björg Guðnadóttir 1952, 31.

Starfskonur á skrifstofu súkkulaðiverksmiðjunnar Síríus fyrir 1960. Verslunar- og skrifstofufólk fékk ekki aðild að atvinnuleysistryggingasjóði árið 1956, þau réttindi fengust ekki fyrr en síðar.

Mætti rekja margar slíkar frásagnir af hörmulegum húsakosti og slæmum aðbúnaði. Þeir sem bjuggu í þessum hverfum liðu margir vegna fordóma annarra í garð braggabúa. En margir byggðu líka af vanefnum. Til dæmis settist mikill fjöldi fólks að í Múlahverfi í Reykjavík og í Kópavogi og byggði sér hús úr ýmsum „varningi“, m.a. efni sem fékkst frá bandaríska hernum, úr skemmum og bröggum sem þurfti að láta rífa.

Ástæðan var ekki bara efnaleysi því að á þessum tíma, á ofanverðum fimmta áratugnum og á fyrri hluta sjötta áratugarins, voru mikil viðskiptahöft og erfitt reyndist að fá hvers konar byggingarefni.47

Eggert Þór Bernharðsson 2001, 116−117, 194, 236, 239. − Illugi
Jökulsson 2003, 512. − Halldór Pétursson 1968, 159−160.

Í Reykjavík reyndu borgaryfirvöld einnig að gera sitt til þess að draga úr húsnæðisvandanum með því að hafa frumkvæði að því að byggja íbúðir í sambýlishúsum, aðallega til endursölu á góðum kjörum, en einnig voru byggðar leiguíbúðir. Til dæmis voru leiguíbúðir byggðar við Skúlagötu á ofanverðum fimmta áratugnum og fengu þar inni um 30 fjölskyldur sem áður höfðu búið í bröggum. Þá stóð borgin fyrir því að byggja lítil fjölbýli í Bústaðahverfi á sjötta áratugnum. Íbúðirnar voru síðan seldar á góðum kjörum hálfkláraðar en til þess ætlast að kaupendur lykju smíði þeirra.48 Einnig voru byggð stærri fjölbýli í Vogahverfi, Háaleiti, við Grensás og víðar á sjötta áratugnum. Voru flestar þessar íbúðir seldar ófullgerðar, en þeim fylgdu lán til langs tíma fyrir hluta kaupverðs. Átak borgaryfirvalda leiddi því til þess að á sjötta áratugnum tókst að fækka mjög því fólki sem bjó í óviðunandi húsnæði.49

Eggert Þór Bernharðsson 2001, 242−245.
Eggert Þór Bernharðsson 2001, 248−253.

Atvinnuleysistryggingar

Sem fyrr segir var gert ráð fyrir því í almannatryggingalögunum frá 1936 að komið yrði á legg atvinnuleysistryggingum, en það hafði lengi verið áhugamál Alþýðusambandsins að koma slíkum tryggingum á fót. Meðal annars hafði Jón Baldvinsson, formaður Alþýðuflokksins, flutt frumvarp á Alþingi þess efnis árið 1928.50 En ákvæði almannatryggingalaganna um atvinnuleysistryggingar sættu verulegri gagnrýni, m.a. af hálfu atvinnurekenda og Sjálf stæðis flokksins sem hélt því fram að með þessu væri verið að „kyrkja atvinnulífið og styrkja atvinnuleysið“.51 Kommúnistar og sum verkalýðsfélög töldu að ákvæði laganna um atvinnuleysistryggingar gengju allt of skammt og einkum væru þau ákvæði óheppileg að verkafólk skyldi sjálft eiga að greiða helming iðgjalda til atvinnuleysistryggingasjóðanna. Þessi gagnrýni reyndist réttmæt og var umrædd tilhögun sennilega meginorsök þess að ákvæði um atvinnuleysistryggingasjóði, sem áttu að vera í vörslu hvers stéttarfélags, urðu dauður bókstafur. Ekkert stéttarfélag stofnaði atvinnuleysistryggingasjóð.52

Þór Indriðason 1996 III, 10.
Morgunblaðið 7. desember 1935, 7.
Þorgrímur Gestsson 2007, 62−65.

Þetta málefni varð því áfram mjög til umræðu innan verkalýðshreyfingarinnar og í kjarasamningum á næstu árum og áratugum, enda mörgum í fersku minni atvinnuleysi millistríðsáranna. Hvað eftir annað voru lögð fram frumvörp á Alþingi þess efnis að bæta atvinnuleysistryggingar og ASÍ hvatti til þess að komið yrði á atvinnuleysistryggingum, t.d. árið 1952.53 Það var þó ekki fyrr en eftir hina hörðu kjaradeilu árið 1955, sem þegar hefur verið nefnd, að sett voru lög á Alþingi um atvinnuleysistryggingar. Samkomulag um atvinnuleysistryggingar varð lykill að lausn kjaradeilunnar. Tilskilið var að ríkisstjórnin ætti að leggja fram frumvarp um slíkar tryggingar. Hún skipaði fimm menn til þess að semja lög um atvinnuleysistryggingar og var Eðvarð Sigurðsson fulltrúi ASÍ. Nokkuð dróst að samkomulag næðist í nefndinni og stóð á því að fulltrúi ASÍ krafðist þess að atvinnuleysistryggingasjóðir yrðu eign verkalýðsfélaganna á hverjum stað, en fulltrúi VSÍ taldi að Tryggingastofnun ætti að sjá um greiðslu bótanna og sjóðirnir ættu að vera í eigu hins opinbera. Þess má geta að innan verkalýðshreyfingarinnar voru menn ekki á eitt sáttir um ágæti þess að semja um það að fá atvinnuleysistryggingar gegn því að kauphækkanir yrðu minni en ella. Tryggingar af því tagi ættu að vera sjálfsögð mannréttindi. Svipuð gagnrýni kom fram þegar samið var um framlög atvinnurekenda í sjúkrasjóði, gegn því að eins prósents kauphækkun yrði látin falla niður. Í bakgrunninum var það grundvallarmál verkalýðshreyfingarinnar að efla félagslega samhjálp og samstöðu, en um það voru hreinlega ekki allir sammála!54

Þorgrímur Gestsson 2007, 73−89. − ÞÍ. Formannaráðstefna
ASÍ 23. apríl 1952. Sögus. verkal. A01: 21/5. Skrifstofa.
Atvinnu- og kjaramál.
Sjá Haukur Sigurðsson 2008, 175.

Lagðar gangstéttarhellur á Skólavörðustíg fyrir 1950. Atvinnuleysistryggingar höfðu lengi verið áhugamál verkalýðshreyfingarinnar en þó reyndi lítið á þær fyrr en síðla á sjöunda áratugnum.

Lög um atvinnuleysistryggingar voru samþykkt á Alþingi árið 1956 og náðu til alls almenns verkafólks, þó ekki verslunar- og skrifstofufólks eða opinberra starfsmanna. Sjóðurinn átti að vera í vörslu Tryggingastofnunar og fá iðgjöld frá atvinnurekendum sem næmu 1% af kaupi Dagsbrúnarmanns, en að auki framlög frá sveitarfélögum sem samsvöruðu framlagi atvinnurekenda og loks frá ríkissjóði sem væri jafnt framlagi hinna tveggja. Lögin áttu aðeins að ná til kaupstaða og kauptúna með yfir 300 íbúa en þó urðu að vera a.m.k. 20 manns í viðkomandi verkalýðsfélagi ef unnt átti að vera að stofna sérstakan sjóð, auk þess sem lögin náðu ekki til fólks yngra en 16 ára og eldra en 67 ára. Ekki mátti greiða bætur í lengri tíma en fjóra mánuði og áttu þær að vera á bilinu 31–46% af dagkaupi verkamanns í Reykjavík svo að langt var frá því að þær kæmu í stað fullra launa. Auk þess voru margvísleg skilyrði sem verkafólk varð að uppfylla til þess að fá bætur, einkum ákvæði um það hversu stóran hluta árs fólk hafði verið í starfi.

Samhliða voru sett ný lög um vinnumiðlun, enda voru ákvæði í lögum um atvinnuleysistryggingar þess efnis að fólk missti rétt til bóta hafnaði það atvinnutilboði frá vinnumiðlun. Hart var deilt um yfirráðarétt á Atvinnuleysistryggingasjóði, sem fyrr getur, en fulltrúar verkafólks litu svo á að hinir einstöku sjóðir væru í raun hluti af kaupi verkafólks og því eign þess, enda kæmu greiðslur í þá í stað kauphækkunar. Þessi sjónarmið fengust þó ekki viðurkennd, en verkalýðshreyfingin fékk því framgengt að greiðsla atvinnuleysisbóta yrði í höndum verkalýðsfélaganna.55

Þorgrímur Gestsson 2007, 100−108. − Eðvarð Sigurðsson
1956, 7.

Þrátt fyrir að ýmsar takmarkanir væru á rétti verkafólks til atvinnuleysisbóta voru lögin engu að síður mikið framfaraspor. Sjóðurinn nýttist verkafólki þó ekki mikið fyrstu árin, enda var atvinnuleysi lítið þegar honum var komið á fót. Það þýddi þó ekki að fé rynni ekki úr sjóðnum. Heimild var til lánveitinga úr Atvinnuleysistryggingasjóði og var mjög eftir því leitað að fá þar lán, einkum til húsbygginga á vegum Byggingarsjóðs verkamanna og fleiri aðila. Ásókn í fé sjóðsins jókst verulega eftir 1965, ekki síst vegna framkvæmda við íbúðir fyrir verkafólk í Breiðholti í Reykjavík og rann mikið fé frá Atvinnuleysistryggingasjóði til þess verkefnis. Þá var einnig lánað mikið til kaupa á nýjum fiskiskipum, til hafnarframkvæmda og til orlofshúsa verkalýðshreyfingarinnar og félagsheimila.56

Þorgrímur Gestsson 2007, 120−138. − ÞÍ. Fundargerðabók
miðstjórnar 1963−1965, 73. Sögus. verkal. A01: 12/3. Yfirstjórn
ASÍ. Miðstjórn.

Þess má geta að árið 1958 voru samþykkt lög um uppsagnarfrest fyrir verkafólk sem hafði unnið í ár eða lengur hjá sama atvinnurekanda og átti fresturinn að vera einn mánuður. Kaupgreiðsla í veikindum átti að vara í sama tíma hjá fólki sem hafði starfað lengur en ár á sama stað. Undantekningarákvæði voru þó í lögunum um fiskvinnslufólk og hafnarverkamenn.57

Stjt. 1958, 33−34.

Vörður

 • 1942 Lög um átta stunda vinnudag, sex daga vikunnar.
 • 1951 Lög um öryggisráðstafanir á vinnustöðum og lágmarkshvíldartíma.
 • 1956 Lög sem tryggðu sjómönnum 12 stunda hvíld á sólarhring.
 • 1943 Lög um orlof.
 • 1956 Orlof lengt úr 12 dögum í 18 daga.
 • 1941 Hið íslenska prentarafélag kaupir jörðina Miðdal í Laugardal fyrir orlofshús.
 • 1950 (u.þ.b.). Verkalýðsfélag Akraness kaupir tjöld og svefnpoka til að leigja félagsmönnum.
 • 1944 Byggingarsamvinnufélag prentara stofnað.
 • 1946 Ný heildarlöggjöf um verkamannabústaði.
 • 1952 Lög um lánadeild smáíbúða.
 • 1956 Lög um atvinnuleysistryggingar.

Næsti kafli

Skipulagsmál verkalýðshreyfingarinnar eftir stríð