Efnisyfirlit

Deila sögu ASÍ

Tímabilið fram til 1940

Landað úr síldarbáti í stríðslok um miðjan fimmta áratuginn. Stríðsárin voru veltiár fyrir íslenskt samfélag og kjör fólks bötnuðu mikið í þessum hildarleik.

Lífskjarabylting og kjarabarátta fram til 1960

Saga ASÍ: Í samtök › Tímabilið frá 1940 og fram um 1960

Lífskjarabylting og kjarabarátta fram til 1960

Við upphaf síðari heimsstyrjaldarinnar 1939 óttaðist „þjóðstjórnin“, sem í sátu fulltrúar Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, að í hönd færi mikil dýrtíð og setti lög um gengislækkun krónunnar um tæp 20%. Markmiðið með því var að bæta hag útgerðarinnar sem var skuldum vafin. Einnig voru sett ákvæði um að ekki mætti hækka laun og greiða dýrtíðarbætur nema á þriggja mánaða fresti og máttu bætur ekki nema hærra hlutfalli en 50–80% af verðhækkunum, ella væri hætta á að gengislækkun hefði ekki tilætluð áhrif.1 Aðrar launabreytingar voru ekki heimilar og áttu þessi ákvæði að gilda í eitt ár. Forysta Alþýðuflokksins leit svo á að ákvæði um dýrtíðarbætur væru varnarsigur, ella hefði verið gengið mun lengra í að skerða laun fólks. Gengislögin voru síðan framlengd í ársbyrjun 1940 til loka þess árs og gerðar á þeim nokkrar breytingar þannig að verðlagsbætur náðu til fleiri hópa en verið hafði.2 Alþýðusambandið/Alþýðuflokkurinn stóð að þessari lagasetningu með hinum stjórnarflokkunum en þar með voru frjálsir kjarasamningar í raun bannaðir. Flokkurinn taldi réttlætanlegt að standa svo að málum vegna ástands heimsmála og vegna þess að reglur um „uppbætur væru nálega hinar sömu og nú giltu í Noregi og Svíþjóð“.3 Hér væri því farið í kjölfar hinna Norðurlandanna þar sem gripið hefði verið til svipaðra ráðstafana.4

Agnar Kl. Jónsson 1969 II, 752−753. − Réttur 15. árg. (1940),
fyrra hefti, 30.
Alþýðublaðið 15. nóvember 1940, 2. − Þingtíðindi Alþýðusam-
janúar 1940, 3.
Morgunblaðið 4. janúar 1940, 6.
Alþýðublaðið 3. janúar 1940, 4.

Forseti Alþýðusambandsins benti verkalýðsfélögunum á að meðan svona stæði á gætu félögin snúið sér um skeið að öðrum verkefnum, „sem sannarlega eru ekki lítils virði. Þau verkefni eru mörg og mikilvæg. Skipulagshættir, atvinnuaukning, og margs konar menningar- og fræðslustarfsemi“. Félagar í verkalýðshreyfingunni voru sérstaklega hvattir til þess að snúa sér að ræktun, „bæði til grasnytja og garðávaxta“. Svo mætti einnig hafa frumkvæði að smáútgerð og fiskverkun.5 Svo fór að út árið 1940 breyttust laun óverulega en verðbólga var mikil, enda hækkuðu ekki síst innfluttar vörur í verði og hækkaði vísitala framfærslukostnaðar úr 100 í ársbyrjun 1939 í 153 stig vorið 1941 en launin ekki að sama skapi.6 Þess má geta að Vinnuveitendafélagið hafði verið í sambandi við Alþýðusambandið árið 1940 og óskaði eftir því að samböndin tvö tækju upp nánara samráð að sænskri og danskri fyrirmynd og meiri takmarkanir yrðu settar á reglur um kjarasamningagerð, t.d. að allir yrðu að semja til sama tíma og til lengri tíma en áður. Þá bæri einnig að stofna samráðsnefnd vinnuveitenda og samtaka verkafólks. Hugmyndir af þessu tagi gátu hugnast sumum leiðtogum verkalýðshreyfingarinnar.7 En pólitískar aðstæður hér á landi voru gerólíkar aðstæðum annars staðar á Norðurlöndunum og því voru þessar hugmyndir varla ræddar af neinni alvöru hérlendis innan Alþýðusambandsins, enda róstur innan hreyfingarinnar.

Jón Sigurðsson 1939, 3.
Agnar Kl. Jónsson 1969 II, 753.
Guðmundur Magnússon 2004, 53−54.

Á árinu 1941 sömdu mörg verkalýðsfélög um hærri laun og aðrar kjarabætur, fullar verðlagsbætur á laun og styttingu vinnutímans, sum í kjölfar verkfallsátaka snemma árs 1941. Um það leyti kom upp svokallað dreifibréfsmál þar sem róttækir Dagsbrúnarmenn hvöttu breska hermenn til þess að ganga ekki í störf verkfallsmanna og voru dæmdir í fangelsi fyrir vikið. Þeirra á meðal var Eðvarð Sigurðsson, síðar formaður Dagsbrúnar.8 Síðla það ár komu fram tillögur innan ríkisstjórnarinnar frá ráðherrum Framsóknarflokksins þess efnis að gerðar yrðu ráðstafanir til þess að hemja dýrtíðina. Ekki náðist samstaða innan ríkisstjórnarinnar um þessar tillögur en þær fólu í sér bann við grunnkaupshækkunum og takmörkun á verðlagsuppbótum, svipað og gerst hafði þegar gengislögin voru sett árið 1939. Alþýðusambandið mótmælti þessum tillögum harð lega.9

Morgunblaðið 3. janúar, 5−6, og 7. janúar, 3 1941.
Skýrsla Jóns Sigurðssonar framkvæmdastjóra Alþýðusambandsins
1942, 9−26.

Breskir hermenn við Hafnarhúsið í Reykjavík um 1940. Umsvif erlendra herja áttu eftir að verða mikil víða um land.

Eftir að erlent herlið kom til landsins árið 1940 dró hratt úr atvinnuleysi og árið eftir var orðinn verulegur skortur á vinnuafli svo að „horfir til stórvandræða, sjerstaklega í hjeruðunum í nánd við Reykjavík“. Var það ekki að undra þegar þess er gætt að á fjórða þúsund verkamanna starfaði hjá hernámsliðinu á fyrri hluta árs 1941 í Reykjavík og nágrenni. Að auki störfuðu þar líka margir iðnaðarmenn.10 Um þetta leyti var því mikil þensla í samfélaginu og skorti vinnufúsar hendur. Við þessar aðstæður hækkaði verðlag og kaupgjald hratt og sum verkalýðsfélög kröfðust þess að kauptaxtar yrðu hækkaðir verulega. Um áramótin 1941–1942 gengu úr gildi lög um bann við grunnkaupshækkunum og hófu nokkur verkalýðsfélög, einkum félög iðnaðarmanna, þá þegar baráttu fyrir hærri launum.11 Verkfall skall á í janúar 1942. Tveir ríkisstjórnarflokkanna töldu brýnt að bregðast við og setti ríkisstjórnin bráðabirgðalög sem bönnuðu kauphækkanir, nema þær væru bornar undir úrskurð gerðardóms, og einnig verkföll og verkbönn. Meginreglan átti að vera sú að ekki væri greitt hærra grunnkaup en gilt hafði á árinu 1941, en væri farið fram á breytingar bar að leggja þær undir sérskipaðan gerðardóm. Samhliða voru ákvæði sem bönnuðu hækkanir á verði nauðsynjavara og var markmiðið að reyna að halda aftur af dýrtíðinni.12 Við þetta gat Alþýðuflokkurinn ekki unað og hætti þátttöku í ríkisstjórninni, en Alþingi staðfesti lögin í lok apríl 1942.

Morgunblaðið 30. maí 1941, 5.
Morgunblaðið 31. desember 1941, 3.
Alþt. A 1942, 60−62.

Verkalýðshreyfingin sætti sig ekki við lögin. Þau verkalýðsfélög sem höfðu boðað verkföll afboðuðu þau nú, en almennir félagsmenn mættu stopult eða ekki til vinnu. Þessi baráttuaðferð breiddist út með hafnarverkamenn í fararbroddi, enda gátu verkalýðsfélögin ekki staðið fyrir aðgerðum formlega á meðan gerðardómslögin voru í gildi.13 En beint og óbeint var verkafólk hvatt til að grípa til aðgerða með því að hóta að segja upp störfum nema það fengi launahækkanir, og Alþýðusambandið hvatti einstök verkalýðsfélög til þess að virða gerðardóminn að vettugi.14 Margir sinntu því kalli, verkafólk hætti störfum, mætti óreglulega eða tafði og stöðvaði verk. Atvinnurekendur gripu því margir til þess ráðs að yfirborga fólk, greiða því t.d. fleiri tíma en það vann. Ella fengu atvinnurekendur hreinlega enga til að vinna fyrir sig. „Allir vissu að ákvæði gerðardómslaganna um festing kaupgjaldsins var dauður bókstafur. – Goldið var margfalt hærra kaup en lög leyfðu“, sagði Morgunblaðið í september 1942.15 Þessar aðgerðir leiddu til meiri kauphækkana á einu ári til verkafólks en þekkst hafði, líklega bæði fyrr og síðar, og til þess að gerðardómslögin voru afnumin í ágúst 1942. Ákvæði um þessi efni áttu hér eftir eingöngu að ná til verðlagsmála. Eftir afnám kaupgjaldsákvæða laganna síðsumars 1942 var ljóst að verkalýðshreyfingin hafði sigrað í þessari orustu og hvatti Alþýðusambandið nú „allan verkalýð að láta niður falla hinn svonefnda smáskæruhernað, en láta fjelög sín þegar í stað nota sjer hinn aftur fengna rjett og taka upp heildarsamninga við atvinnurekendur“.16 Nú bæri að nota „tækifærið til þess að fá hækkun grunnkaups og samræmingu á kaupi og kjörum og styttingu vinnutímans niður í átta stundir“.17 Félögin voru eindregið hvött til að hafa „samflot“ í baráttu sinni og hafa samráð við skrifstofu Alþýðusambandsins. Orðsending þessa efnis var birt í blöðum og útvarpi. Samhliða sendi sambandið aðildarfélögunum samningsuppkast sem þau gætu miðað við og voru félögin hvött til að hafa það til hliðsjónar og undirrita ekki samninga „nema hafa til þess samþykki Alþýðusambandsins“. Allar aðstæður væru verkafólki í hag, sagði í erindisbréfi sambandsins. Í kjölfarið tókst flestum verkalýðsfélaganna að ná nýjum kjarasamningum sem höfðu í för með sér miklar launahækkanir, jafnvel um og yfir 50%, ákvæði um átta stunda vinnudag, greiðslu fyrir veikindadaga og aukið orlof, enda fyrirsjáanlegt að frumvarp þess efnis yrði samþykkt á Alþingi. Hlutfall kvenna af launum karla hækkaði þó ekki í fyrstu, enda var gert ráð fyrir í tillögu Alþýðusambandsins að kaupgjald kvenna væri hið sama og drengja, 14–16 ára. Við lok styrjaldarinnar voru verkamannalaun almennt orðin um fjórum sinnum hærri en þau voru fimm árum fyrr. Þó var enn verulegur munur á kaupi á milli einstakra staða en sá munur fór minnkandi.18 Kaupmáttur um það bil tvöfaldaðist á þessum tíma en verðlagsbreytingar urðu miklar á stríðsárunum vegna þenslunnar sem áður greinir (vísitala 100 í ársbyrjun 1939, 277 í ársbyrjun 1945).19 Umskiptin voru því mikil miðað við það sem áður var, næg atvinna og tvöföldun kaupmáttar. Líf margra gjörbreyttist.

Sjá t.d. Morgunblaðið 20. júní 1942, 3.
Skýrsla Jóns Sigurðssonar framkvæmdastjóra Alþýðusambandsins
1942, 32−33.
Sjá m.a. Alþt. B 1942, 311. − Morgunblaðið 23. september 1942, 3.
Morgunblaðið 26. ágúst 1942, 7.
Morgunblaðið 26. ágúst 1942, 7.
Eggert Þorbjarnarson 1946, 235−238. − Guðgeir Jónsson 1944,
1−2 (Litast um við áramótin). − Skúli Þórðarson 1966, 26−27.
– Skúli Þórðarson 1967, 58−59. − Skýrsla Jóns Sigurðssonar
Hagskinna 1997, 610, 642.

Íslenskir verkamenn með breskum hermanni (trúlega). Atvinnuástand í landinu gerbreyttist með komu erlendra herja.

Sem fyrr hvatti Alþýðusambandið aðildarfélög sín til þess að stuðla að sem mestri launajöfnun á milli staða um allt land svo að kjör á þeim stöðum þar sem laun voru lægst bötnuðu til jafns við það sem best gerðist. Í þeirri baráttu gat Alþýðusambandið stuðst við kjarabaráttu vegavinnumanna, en sambandið taldi sig hafa umboð til að semja um kjör þeirra á landsvísu í samræmi við samþykktir Alþýðusambandsþinga. Þess má geta að félagsdómur hafði mikil áhrif á gang kjaradeilna á þessum árum og sat alls ekki auðum höndum. Oft kom til kasta dómsins fyrstu árin og hefur dómurinn átt sinn þátt í að móta hvaða reglur giltu í samskiptum aðila á vinnumarkaði og hvernig bæri að túlka kjarasamninga.20 Til dæmis má taka árið 1944 þegar Alþýðusambandið hafði boðað til verkfalla hjá vegavinnumönnum vegna kjaradeilu. Verkfallið var dæmt ólöglegt vegna þess að Alþýðusambandið hefði ekki umboð til að boða til verkfalls. Dómurinn taldi þó að þann rétt hefðu, samkvæmt vinnulöggjöfinni, aðeins einstök verkalýðsfélög og dygði ekki samþykkt Alþýðusambandsþings frá 1942 um umboð til samninga um þessi efni heldur yrði hvert félag að veita ASÍ umboð til þess að boða verkfall.21 Þessi niðurstaða segir raunar einnig mikið til um stöðu Alþýðusambandsins og hversu takmörkuð áhrif þess gátu verið vegna skipulags sambandsins. Auk þessa komu ýmis ágreiningsmál einstakra stéttarfélaga og atvinnurekenda fyrir dóminn. Snerust þau oftast um það hvernig bæri að túlka einstök atriði kjarasamnings en einnig hvort rétt væri staðið að boðun vinnustöðvana. Alþýðusambandið tók oftast að sér vörn eða sókn fyrir einstök verkalýðsfélög fyrir félagsdómi og útvegaði málafærslumann til þess að reka málið..22Niðurstaða Félagsdóms breytti því ekki að ASÍ sá áfram um samninga fyrir þá sem störfuðu við vega- og brúargerð og var það í raun eini hópurinn sem sambandið sá beint um samninga fyrir, fyrir hönd þeirra félaga sem fóru með samningsumboðið.23

Sjá Sambandstíðindi 1939−1941, en þar er oft fjallað um þessi
efni.
Morgunblaðið 20. maí 1944, 4.
ÞÍ. Sjá fjölmarga samninga sem ASÍ gerði fyrir þessa hópa,
m.a. frá 5. júní 1950. Sögus. verkal. A01: 21/5. Skrifstofa.
Atvinnu- og kjaramál.

Unnið við hitaveitulögn í Hafnarstræti árið 1942. Mikla vinnu var að hafa á stríðsárunum og atvinnuleysið hvarf með öllu. Irma-verslun er til hægri og í baksýn má sjá Safnahúsið.

Í vörn

Eftir miðjan fimmta áratuginn breyttust áherslur og þá hófst varnarbarátta sem fólst í því að reyna að halda því sem áunnist hafði en samhliða að berjast gegn dýrtíðinni sem hafði aukist mikið á fyrri hluta áratugarins. Á þennan hátt var leitast við að tryggja kaupmáttinn. Eftir að stríðinu lauk hélt dýrtíðin þó áfram og var verðbólga veruleg næstu ár á eftir.24 Kaupmáttur varð mestur árið 1947, minnkaði verulega næstu árin en hélst þó nokkuð stöðugur allan sjötta áratuginn. Er þá miðað við dagvinnukaup verkamanna í Reykjavík. Kaupmáttur verkakvenna jókst hins vegar nokkuð á þeim tíma, enda var gert átak til þess að draga úr mun á launum verkamanna og verkakvenna við sömu störf, eins og nánar verður vikið að.25

Agnar Kl. Jónsson 1969 II, 856−857.
Hagskinna 1997, 610.

Forysta Alþýðusambandsins átti í tíðum viðræðum við ríkisstjórnir á ofanverðum fimmta og sjötta áratugnum vegna dýrtíðarinnar og fóru viðbrögð ASÍ að nokkru eftir því hvernig hið pólitíska landslag var. Þegar nýsköpunarstjórnin sat við völd 1944–1946 og sósíalistar réðu Alþýðusambandinu var verkalýðsforystan reiðubúin til að koma til móts við ríkisstjórnina. ASÍ beitti sér t.d. fyrir því að verkalýðsfélögin héldu að sér höndum með kauphækkanir, „að öðru leyti en því sem talizt gæti til samræmingar og lagfæringa“, til þess að ríkisstjórnin hefði starfsfrið og gæti einbeitt sér að viðfangsefnum sínum.26 Ekki tókst þó með öllu að koma í veg fyrir kjaradeilur á starfstíma ríkisstjórnarinnar. T.d. átti Dagsbrún í kjaradeilu á fyrri hluta árs 1946, en deilan leystist fyrir tilstilli ríkisstjórnarinnar, m.a. á þann hátt að hinum lægst launuðu voru ætlaðar meiri hækkanir en öðrum. Er talið að þetta hafi verið í fyrsta skipti sem stuðst var við þau sjónarmið við kjarasamningagerð.27

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 19. sambandsþing 1946, 4.
Morgunblaðið 2. mars 1946, 1. − Guðmundur Magnússon
2004, 69−70.

En þegar ríkisstjórnin féll og stjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar settist að völdum breyttist tónninn. Efnahagsráðstafanir þeirrar ríkisstjórnar, sem höfðu í för með sér töluverða kjaraskerðingu fyrir verkafólk vegna þess að verðlagsbætur á laun voru takmarkaðar, auk þess sem þá var tekinn upp söluskattur, voru harðlega gagnrýndar og forysta ASÍ gerði ríkisstjórn Stefáns eins erfitt fyrir og hún gat. Hörð verkföll urðu á starfstíma hennar. Meðal annars átti Verkamannafélagið Dagsbrún í langvinnri deilu árið 1947. Félagið naut stuðnings forystu ASÍ og allmörg félög í Reykjavík og nágrenni og utan höfuðborgarsvæðisins fóru í samúðarverkföll til stuðnings Dagsbrún eða áttu í kjarabaráttu sjálf. En stuðningsflokkar ríkisstjórnarinnar beittu sér af alefli gegn verkfallinu. Þegar það gerðist að ekki fékkst undanþága í verkfallinu til þess að skipa upp styttu af Snorra Sturlusyni sem var gjöf frá Noregi, spurði Morgunblaðið í leiðara hvort ætti að gera Snorra landrækan. Niðurstaða verkfallsins varð sú að Dagsbrún og fleiri félög fengu umtalsverðar kjarabætur, frá tæplega 6% og upp í 15%.28

Skýrsla miðstjórnar Alþýðusambands Íslands um starf sam-
19. júní, 4, og 2. júlí, 6, 1947. − Benedikt Sigurðsson 1990,
121−123. − Þorleifur Friðriksson 1987, 76. − Agnar Kl. Jónsson
1969 II, 858−860. − Ólafur Þ. Kristjánsson 2007, 46−47. − Þór
Indriðason 1996 III, 37.

En þegar hin nýja forysta hafði tekið við völdum í ASÍ 1948 breyttist tónninn aftur. Taldi forystan nú að styðja bæri stjórnvöld í baráttu gegn verðbólgunni, en þó þannig að launafólk héldi sínu, svo sem unnt væri. Það hafði því áhrif á kjaramálastefnu verkalýðshreyfingarinnar hvernig ríkisstjórnin var samansett. Væri talið að hún væri vinveitt verkafólki og þar væru við stjórnvölinn pólitískir samherjar voru líkur til að hreyfingin sætti sig við efnahagsráðstafanir viðkomandi ríkisstjórnar. Þær voru hins vegar ekki liðnar ef við völd sat stjórn sem talin var andstæð verkalýðshreyfingunni. Það var því margt sem gat haft áhrif á kröfugerð og kjarastefnu verkalýðshreyfingarinnar og einstakra félaga. Þetta kom skýrt í ljós eftir að nýr meirihluti hafði tekið við völdum í ASÍ 1948. Þá var lýst yfir skilningi á þeim dýrtíðarráðstöfunum sem stjórnvöld hefðu gripið til en þau reyndar einnig gagnrýnd fyrir að standa ekki við fyrirheit sín.29

ÞÍ. Fundargerðir miðstjórnar ASÍ 1948. Sögus. verkal., A01:
12/1. Yfirstjórn ASÍ. Miðstjórn.

Grunntónn í kröfum verkalýðshreyfingarinnar þegar komið var fram um 1950 var að reyna að viðhalda þeim kaupmætti sem náðst hafði á stríðsárunum. Í raun barðist ASÍ á þessum tíma fyrir eins konar þjóðarsátt, eins og Jón Sigurðsson, framkvæmdastjóri samtakanna, lýsti árið 1949. Í umræðum um dýrtíð og kjaramál árið 1949 sagði hann að líta yrði á grunnkaupshækkanir sem mjög „óæskilega leið og algjöra nauðvörn verkalýðssamtakanna sem þó yrði að framkvæma til þess að fá uppborna kjararýrnun, sem óhjákvæmilega yrði ef dýrtíðin héldi áfram að vaxa“. Og þá leið yrði væntanlega að fara fyrst undirtektir stjórnvalda hefðu ekki reynst þær sem æskilegt hefði verið.30 Þó fór svo að ASÍ hvatti aðildarfélög sín til þess að segja upp samningum fyrri hluta árs 1949 og samið var um töluverðar kauphækkanir hjá stórum félögum.31 Alþýðusambandsforystan hvatti líka til þess að gripið yrði til harðra aðgerða til þess að stemma stigu við verðbólgunni, ekki síst hertra verðlagsákvæða og verðlagseftirlits. En frá þeirri stefnu var ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að reyna að hverfa á þessum tíma og vildi stuðla að því að aukið frjálsræði yrði í innflutningi.32 Alþýðusambandið sakaði stjórnvöld um að bera ábyrgð á dýrtíðinni með því að leyfa frjálsa álagningu sem helst kæmi „braskaralýðnum“ til góða, auk þess sem skattastefna ríkisstjórnarinnar ætti þarna mikinn hlut að máli. Því bæri að nýju að taka upp verðlagshömlur og verðlagseftirlit og jafnframt innflutningshömlur.33

Jón Sigurðsson 1949, 200.
ÞÍ. Fundargerðir miðstjórnar ASÍ 1949. Sögus. verkal., A01:
12/1. Yfirstjórn ASÍ. Miðstjórn. − Þjóðviljinn 25. febrúar og
21. júní 1949.
Sjá m.a. Jón Sigurðsson 1951, Það verður að skipta um stefnu,
1−2. − Vinnan IX (1951), 3−4.
Hannibal Valdimarsson 1952, 6−7. − Vinnan X 1952, 2. tbl.,
5−8.

Vinnuflokkur á síldarplani á Sauðárkróki árið 1946. Kjör fólks höfðu batnað mjög mikið frá því sem var fyrir stríðið en örbirgðin setti þó enn mark sitt á útlit og yfirbragð þessara verkamanna.

Eftir mikla gengislækkun árið 1950 versnuðu samskipti verkalýðshreyfingarinnar við stjórnvöld. Forysta sambandsins var þó varfærin, en þau félög sem lutu forystu sósíalista hvöttu mjög til aðgerða. En ríkisstjórnin kom nokkuð til móts við sjónarmið launþega og Alþýðusambandið hvatti aðildarfélög sín til þess að aflýsa boðuðum aðgerðum sínum þá um haustið, sem sambandið hafði hvatt til um sumarið, við litla hrifningu minnihlutans í ASÍ.34 Engu að síður urðu hörð kjaraátök árið 1950, einkum vegna baráttu sjómanna. Verkföll sjómanna í Reykjavík og Hafnarfirði stóðu í 129 daga árið 1950 en deilt var um hvíldartíma á togurunum og kjör á saltfiskveiðum. Deilunni lauk með því að samið var um 12 tíma hvíld á sólarhring fyrir sjómenn, að undanskildum þeim sem stunduðu ísfiskveiðar, og auk þess um umtalsverðar kjarabætur.35

ÞÍ. Fundargerðir miðstjórnar ASÍ 1950. Sögus. verkal., A01:
12/1. Yfirstjórn ASÍ. Miðstjórn. − Einnig Þjóðviljinn 1. sept-
ember 1950, 1.
Skýrsla miðstjórnar Alþýðusambands Íslands 1948−1950, 114.

Árið 1951 hvatti Alþýðusambandið aðildarfélög sín til þess að segja upp kjarasamningum og gerðu helstu félög í Reykjavík og Hafnarfirði það sameiginlega í apríl 1951, á annan tug félaga. Þau sammæltust um að gera ekki kjarasamninga hvert um sig án samþykkis allra hinna. Meginkrafa félaganna var að fá greiddar fullar vísitölubætur á laun. Kjaradeilur voru einnig víðar um landið.36 Sjálfstæðismenn sökuðu alþýðuflokksmenn um að beita sér af mun meiri hörku í þessari deilu en þegar flokkur þeirra leiddi ríkisstjórnina árin 1947–1949.37 Eftir stutt en afar víðtækt verkfall náðist að lokum samkomulag um fullar vísitölubætur á almenn laun verkafólks sem skyldu greiðast á þriggja mánaða fresti upp að vissu marki en sama krónutala á hærri laun.38

Morgunblaðið 18. apríl, 2, 11. maí, 2, og 19. maí, 1, 1951. − Þjóð-
Morgunblaðið 19. maí 1951, 6.
Morgunblaðið 22. maí 1951, 1, 12. − Þjóðviljinn 22. maí 1951,
1. − Guðmundur Magnússon 2004, 80−81. − Þór Indriðason
1996 III, 40−41. − Guðmundur Vigfússon 1951, 160, 176.

Segja má að allan sjötta áratuginn hafi verkalýðshreyfingin verið að reyna að halda þeim kjörum sem áunnist höfðu og þær áherslur einkenndu baráttu hennar. Á þingi Alþýðusambandsins árið 1952 var því lýst svo að frá síðasta þingi sambandsins hefði „atvinna alls almennings farið síminnkandi, dýrtíð vaxið að miklum mun og lífskjörum verkalýðsins þannig farið hrakandi með minnkandi atvinnuöryggi og þverrandi kaupmætti“. Baráttan á þessum tíma stóð því ekki síst um að reyna að tryggja að greiddar væru verðlagsuppbætur á laun. Um og upp úr 1950 fór auk þess að kræla á atvinnuleysi að nýju, ekki síst úti um land og varð ástandið langverst á Vestfjörðum. Töluvert atvinnuleysi varð einnig víðar um landið og var t.d. fjölda iðnverkafólks á Akureyri og í Reykjavík sagt upp störfum.39 Mikilvæg krafa verkalýðshreyfingarinnar um þetta leyti varð því einnig að stjórnvöld stuðluðu að því að allir hefðu næga vinnu. Atvinnuástandið batnaði raunar verulega eftir 1951 þegar gerður var nýr herstöðvasamningur við Bandaríkin, en í kjölfar hans urðu miklar framkvæmdir og hundruð manna fengu vinnu, langflestir á Suðurnesjum. Að meðaltali störfuðu um 1200 manns hjá herliðinu á Keflavíkurflugvelli á tímabilinu 1951–1974.40

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 23. sambandsþing 1952, 35.
− Einnig Morgunblaðið 13. janúar 1952, 16.
Kristján Sveinsson 1996, 253−254, 257.

Í ullarverksmiðju Ó.F.Ó. skömmu eftir miðja öldina. Með auknum iðnaði jókst atvinnuöryggi kvenna, en þessi störf voru ekki vel launuð.

Við skógerð í skóverksmiðjunni Iðunni á Akureyri kringum miðja öldina. Innlendur iðnaður blómstraði meðan höft voru á innflutningi á mörgum vörum.

Árið 1952 krafðist verkalýðshreyfingin umtalsverðra kauphækkana og hófust almenn verkföll í desemberbyrjun. Í kröfugerð samtakannna kom þó fram að þetta væri nauðvörn, en æskilegra hefði verið „að öllu leyti, ef unnt væri að koma því til leiðar, að auka kaupmátt launanna með öðrum ráðstöfunum, og bæta afkomuskilyrði hins vinnandi fólks með aukinni atvinnu. En hvorugt þetta er á valdi verkalýðssamtakanna“.41 Stjórnvöld voru því sökuð um að standa sig ekki í stykkinu og verkalýðshreyfingin því nauðbeygð til að setja fram kauphækkunarkröfur. Svo mikil var þátttakan í þessari kjaradeilu að úr varð nánast allsherjarverkfall, hið fyrsta í landinu, enda sammæltust félögin sem tóku þátt í aðgerðunum, hátt í 60 talsins, um að ekkert þeirra semdi við atvinnurekendur án samþykkis hinna.42 Sett var á stofn sameiginleg samninganefnd fyrir félögin. Einstök verkalýðsfélög höfðu ekki áður haft víðtækara samráð í kjaradeilu og unnu félög undir forystu sósíalista og jafnaðarmanna saman í deilunni. Meginkröfur félaganna voru verulegar grunnkaupshækkanir og þess var krafist að hlutfall á milli kvennakaups og karlakaups yrði minnkað. Einnig var krafist fullra verðlagsbóta á laun mánaðarlega, að stofnaður yrði atvinnuleysistryggingasjóður, orlof lengt úr 12 dögum í 18 og loks að kjör iðnnema yrðu bætt.43

Hér eftir Guðmundur Magnússon 2004, 81.
Morgunblaðið 16. nóvember, 1, og 2. desember, 1, 1952. − Þjóð-
Sjá m.a. Þorleifur Friðriksson 1987, 106.

Í verksmiðjunni Vífilfelli um miðja 20. öld, kókflöskum raðað í kassa. Kók var tákn nýrra tíma, vestrænna áhrifa og neyslumenningar.

Starfsfólk Súkkulaðiverksmiðjunnar Víkings skömmu eftir 1950. Kjaradeilur og verkföll í lok árs 1952 reyndust almenningi erfið.

Verkfall skall á og hjól atvinnulífsins stöðvuðust að mestu í Reykjavík og nágrenni. Þar var baráttan öflugust, en einnig voru verkföll víða úti um land. Í borginni urðu átök og hellt var niður umtalsverðu magni af mjólk sem flutt hafði verið til bæjarins.44 Í þessari deilu vandaði Morgunblaðið Hannibal ekki kveðjurnar, en hann var formaður samninganefndar verkalýðsfélaganna. Hann hefði verið æstastur allra á útifundi sem samninganefnd verkalýðsfélaganna boðaði til í Reykjavík og kvaðst blaðið vona að vinnandi fólk léti ekki „öskur“ hans afvegaleiða sig.45 Þegar samningar náðust 19. desember hafði verkfalli verið hótað hjá vélgæslumönnum í frystihúsum og fyrirsjáanlegt að mikil verðmæti færu í súginn ef ekki næðust samningar. Verkfallið reyndist almenningi vitaskuld þungbært og naut líklega takmarkaðrar hylli. Sú ákvörðun að boða verkfall á þessum tíma var því ekki líkleg til vinsælda.46

Morgunblaðið 14. desember 1952, 16.
Morgunblaðið 9. desember 1952, 8.
Þorleifur Friðriksson 1987, 109. − Alþýðublaðið 17. desember
1952, 1. − Morgunblaðið 17. desember 1952, 2.

Niðurstaða samninganna varð sú að kaup breyttist lítið en orlof var lengt og breytt var fyrirkomulagi við útreikninga á verðlagsbótum á laun svo að fleiri nutu þeirra. Í stað kauphækkana komu margvíslegar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar, svo sem auknar niðurgreiðslur til lækkunar á vöruverði, lækkun vöruálagningar og auknar fjölskyldubætur. Skipti þar ekki minnstu að ekkjur og ógiftar mæður áttu hér eftir að njóta sömu fjölskyldubóta og hjón, en til þessa tíma höfðu þær ekki fengið slíkar bætur greiddar. Þá skyldu fjölskyldubætur greiddar þegar með öðru barni en áður hafði verið miðað við fjórða barn!47 Jóhanna Egilsdóttir, formaður Verkakvennafélagsins Framsóknar, starfaði að samningagerðinni. Hún lýsti síðar vel í viðtali hversu mikilvægt væri að sjónarmið kvenna hefðu fengið að njóta sín en fram að þessu höfðu einstæðar mæður ekki fengið greiddar fjölskyldubætur. Jóhanna greindi svo frá:

Þjóðviljinn 20. desember 1952, 1, 3. – Skýrsla miðstjórnar
112. − Ólafur Þ. Kristjánsson 2007, 49.

Í matvöruverslun í Reykjavík árið 1952, ef til vill KRON-verslun. Verslunarfólk var enn um þetta leyti utan ASÍ og hafði í raun ekki aðgang að stéttarfélagi.

Ég man það vel, hve sumir karlmennirnir í samninganefndinni urðu hissa, þegar við vorum að semja um lausn þessarar vinnudeilu og farið var meðal annars fram á, að fjölskyldubætur … [skyldu] einnig ná til einstæðra kvenna, sem hefðu börn á framfæri sínu. Þeir urðu forviða á því, að þetta væri ekki þegar gert. En það er eins og blessaðir karlmennirnir muni það alltof sjaldan, að konur geti komizt í þær kringumstæður að vera aðal- eða oft á tíðum eina fyrirvinna heimilis.48

19. júní 1959, 29.

Með þessum samningum var mótuð sú stefna sem fylgt var næstu áratugi, að stjórnvöld greiddu fyrir kjarasamningum með margvíslegum aðgerðum. Í stað þess að hækka launin var verðlagið fært niður, fyrir utan margvíslegar aðrar aðgerðir af hálfu stjórnvalda.49

Skýrsla miðstjórnar Alþýðusambands Íslands 1954, 3−5. − Einnig
Guðmundur Magnússon 2004, 83−84.

Sjómenn og fleiri hópar áttu í kjaradeilum árið 1954, en miklu harðari átök urðu þó árið 1955. Þá kröfðust mörg verkalýðsfélög þess að laun hækkuðu um 20-30%, en hagfræðingar á vegum sambandsins, þeir Haraldur Jóhannsson og Torfi Ásgeirsson, höfðu þá reiknað út að kaup þyrfti að hækka um 20% til að kaupmáttur yrði svipaður og hann var árið 1947. Aðrar kröfur um þetta leyti voru að orlof yrði lengt í þrjár vikur, átta stunda vinnudagur dygði til að framfleyta meðalfjölskyldu, laun karla og kvenna yrðu jöfnuð og sömuleiðis krafist sömu launa fyrir sömu vinnu, hvar sem væri á landinu.50

Vinnan XII (1955), 1. tbl., 1−3.

Forysta ASÍ var nú í höndum vinstrimanna og höfðu þeir fullan hug á að nýta sér aðstöðu sína og komast einnig til valda í landsstjórninni. Ekki er fráleitt að ætla að hugmyndir þess efnis hafi lengt verkfallið. Það stóð í sex vikur og var geysihart. Helstu verkalýðsfélögin í Reykjavík tóku þátt í deilunni, en einnig félög í Hafnarfirði og Akureyri.51 En mörg stóðu líka utan hennar, raunar flest félög á minni stöðum. Yfirleitt fór svo að þau félög sem stóðu utan deilunnar fengu síðar sömu kjarabætur og stóru félögin höfðu náð, „en segja verður sem er að öll voru þau árangur af sigri Dagsbrúnarmanna og fengust hér fyrirhafnarlítið“, sagði Einar Bragi um kjarabætur verkafólks á Eskifirði árið 1955.52 Svipað var farið að árið 1958 í kjölfar kjarabóta sem Dagsbrún hafði náð fram, en þá setti Árvakur á Eskifirði sér það markmið að fá inn í kjarasamninga „þær kjarabætur, er Dagsbrún hafði fengið“. Einar Bragi fullyrti ennfremur að þetta hefði sagt

ÞÍ. Yfirlit um vinnudeilu verkafólks og iðnaðarmanna í mars
og apríl 1955. Sögus. verkal. A01: 21/2. Skrifstofa. Atvinnu- og
kjaramál. Ýmis atriði varðandi kaup og kjör 1955−1981. −
Ómar Valdimarsson1989, 173−188.
Einar Bragi Sigurðsson 1983, 80.

Dagsbrúnarmenn á fundi á sjötta áratugnum, ef til vill að ræða kjarasamninga. Eðvarð Sigurðsson í ræðustól.

í samanþjöppuðu máli allan sannleika um það, hvernig launabaráttunni var háttað víðast hvar á landinu á þessum árum: félögin biðu átekta, uns séð varð hverju Dagsbrún fékk áorkað, og fengu það eftir á inn í sína samninga án verulegra átaka.53

Einar Bragi Sigurðsson 1983, 80.

Guðmundur J. Guðmundsson, síðar formaður Dagsbrúnar, hefur lýst á tilþrifamikinn hátt hversu víðtæk deilan 1955 var:

Reykjavík var gjörsamlega einangruð í þessu verkfalli. Flugvellinum var lokað og allt flug þar með stöðvað, líka millilandaflugið. Við lokuðum líka öllum þjóðvegum til og frá borginni svo ekki væri verið að brjóta verkfallið niður með smygli utan af landsbyggðinni þar sem olíufélögin og kaupmenn höfðu birgt sig rækilega upp áður en verkfallið skall á. Við leituðum í öllum bílum sem fóru um og gerðum ýmislegt upptækt …54

Ómar Valdimarsson 1989, 178−179. − Sjá einnig Morgunblaðið
20. mars 1955, 16 og 26. mars 1955, 16.

Mikilvægur liður í kjarabaráttu sjötta áratugarins var launajöfnun á milli þeirra hópa sem unnu sambærileg störf; þó fyrst og fremst karla. Um 1950 voru um 17 verkalýðsfélög af 60 með viðmiðunartaxta sem hljóðaði upp á 2,80 kr. í grunnlaun á klst. Þrjú félög voru með lægst grunnkaup, 2,20 –2,30 kr. á klst., en önnur félög voru þarna á milli með 2,40–2,60 kr. á klst. Alþýðusambandið hvatti þau félaga sinna sem höfðu lægsta taxta til þess að stefna að því að ná launum sem væru svipuð því sem tíðkaðist hjá þeim félögum sem hæsta taxta höfðu.55 Með kjarasamningunum árið 1955 náðist það markmið að mestu að sömu laun yrðu greidd fyrir sams konar vinnu alls staðar á landinu.56 En vel að merkja, þetta átti aðeins við um laun verkamanna, ekki verkakvenna. Eftir sem áður voru laun þeirra breytileg, en þó var gert átak um þetta leyti til þess að bæta kjör kvenna.57 Áður hafði Alþýðusambandið fengið því framgengt að sama kaup gilti um land allt í vega- og brúagerð. Fram til þessa tíma höfðu verið á milli 30 og 40 kaupgjaldssvæði í vegavinnu, svo að laun vegavinnuflokkanna gátu breyst ef farið var á milli svæða. Það skipti örugglega miklu fyrir stéttarfélög úti um land að ná þessari kröfu fram og hefur auðveldað þeim að fá hækkuð laun félagsmanna sinna til jafns við kjörin þar sem þau voru best.58

Jón Hjálmarsson 1949, 208−209.
ÞÍ. Fundargerðabók miðstjórnar 1952−1958, 180. Sögus.
verkal. A01: 12/2. Yfirstjórn ASÍ. Miðstjórn.
Þór Indriðason 1996 III, 96−97.
Vinnan XII (1955), 4.−5. tbl., 1.

Við verkfallsvörslu í nágrenni Reykjavíkur árið 1955.

Við verkfallvörslu við Lónsbrú í grennd við Akureyri vorið 1955.

Samninganefnd verkalýðsfélaganna árið 1955. Frá vinstri eru: Björn Jónsson, Hermann Guðmundsson, Benedikt Davíðsson, Eðvarð Sigurðsson, Snorri Jónsson, Björn Bjarnason og Eggert G. Þorsteinsson.

Meðan vinstri stjórn Hermanns Jónassonar sat við völd á árunum 1956–1958 sætti verkalýðshreyfingin sig við ýmsar efnahagsaðgerðir sem rýrðu kjör verkafólks, m.a. með vísitölubindingu launa, enda sat forseti Alþýðusambandsins í ríkisstjórninni. Sum verkalýðsfélög og -sambönd, t.d. Alþýðusamband Norðurlands, gengu jafnvel svo langt að þau samþykktu ályktanir gegn kjarabaráttu einstakra stéttarfélaga en um leið stuðning við þá viðleitni ríkisstjórnarinnar að koma í veg fyrir aukna verðbólgu, enda væri það stefna verkalýðshreyfingarinnar að

efna ekki til samningsuppsagna í þeim tilgangi að hækka kaupgjald að krónutölu, nema til nauðsynlegra samræminga og leiðréttinga. Þessi stefna er grundvölluð á þeirri vissu, að almennar kauphækkanir mundu gera að engu þær tilraunir, sem stjórnarvöld landsins í samvinnu við verkalýðshreyfinguna eru að gera, til þess að stöðva verðbólguna, koma í veg fyrir gengisfellingu og skapa atvinnuöryggi í landinu.59

Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, bréf S. Samþykkt verka-
lýðsfélaga á Akureyri og Norðurlandi, 26. júlí 1957. − Sjá
einnig Morgunblaðið 21. júlí 1957, 2.

Þessari gagnrýni, sem Alþýðusambandið tók undir, var beint að yfirmönnum á kaupskipum. Nefna má að Morgunblaðið og Sjálfstæðisflokkurinn hvöttu verkalýðshreyfinguna til að sækja fram í kjarabaráttunni um þetta leyti, en slíkan boðskap hafði blaðið sjaldan flutt.64 Samhliða bentu andstæðingar alþýðusambandsforystunnar á að ekki væri mikil samkvæmni í stefnu ASÍ; þegar pólitískir andstæðingar hennar væru við völd væru fordæmdar stjórnvaldsaðgerðir sem hefðu í för með sér skertan kaupmátt. Annað hljóð væri komið í strokkinn þegar samherjar hennar skertu launin.61

Morgunblaðið 1. maí 1957, 24.
Morgunblaðið 19. september, 2, og 22. nóvember, 10, 1956.

Í frystihúsi í kringum 1950. Í fiskiðnaði var uppistaða í vinnuafli konur.

Þau félög þar sem andstæðingar Alþýðusambandsins og ríkisstjórnarinnar voru í forystu létu að sér kveða á vormánuðum 1957 og sögðu upp kjarasamningum, alls á annan tug félaga. Það var þvert ofan í tillögur ASÍ sem hvatti til að samningum væri ekki sagt upp en ríkisstjórninni veittur starfsfriður.62 Í kjölfar þessara samningsuppsagna urðu nokkur skammvinn verkföll (verkfall bakarasveina stóð þó á fjórða mánuð). Sum félög, t.d. Iðja, sömdu um kjarabætur án verkfalla. Sjálfstæðismenn réðu nú Iðju og þótti sumum sem pólitískur litur væri á samningsgerðinni og væri hún til þess hugsuð að koma ríkisstjórninni í vanda, sem tókst.63 Þessi félög tóku sig jafnframt saman og höfnuðu þátttöku í 1. maí-hátíðahöldum fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna, sem vinstrimenn leiddu, þá um vorið.64 Þegar leið fram á árið 1958 jókst enn órói á vinnumarkaðnum, einnig í röðum þeirra sem hingað til höfðu stutt ríkisstjórnina. Til dæmis sagði Dagsbrún upp kjarasamningum sínum vorið 1958 en formaður Dagsbrúnar var Eðvarð Sigurðsson, varaforseti ASÍ. Fleiri stór félög á suðvesturhorninu fylgdu svo í kjölfarið.65 Þessi gangur mála gerði stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar innan verkalýðshreyfingarinnar erfitt fyrir en styrkti um leið stöðu andstæðinganna. Draumastjórn Hannibals Valdimarssonar, forseta ASÍ, féll þegar Alþýðusambandsþing 1958 hafnaði tillögum ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, svo sem síðar verður rakið.

Þjóðviljinn 27. og 28. apríl 1957.
Ingólfur V. Gíslason 1994, 284−285.
Morgunblaðið 1. maí 1957, 24.
Morgunblaðið 29. apríl, 20, og 30. apríl, 20, 1958.

Staða kvenna á vinnumarkaði

Árið 1943 ritaði María J. Knudsen, formaður Kvenréttindafélags Íslands, grein í Vinnuna sem hún nefndi „Konurnar og stéttarsamtökin“ og ræddi þar um stöðu kvenna á vinnumarkaði og innan verkalýðshreyfingarinnar. Þar gagnrýndi hún harðlega þann mun sem væri á launum karla og kvenna. Hún benti til dæmis á að í verksmiðjuiðnaði gætu konur aldrei fengið hærra kaup en drengir innan 18 ára aldurs og að hennar mati blasti við „mismunur á launum karla og kvenna“ sem væri „eins og ljótur vefjargalli í voð sem átti að vera fögur og sterk“.

María benti einnig á að í sumum starfsgreinum þar sem konur væru fjölmennar væru stéttarsamtök ekki sterk, t.d. í verslun þar sem ekki væru önnur stéttarfélög en Verzlunarmannafélag Reykjavíkur en í því félagi væru þó bæði atvinnurekendur og launþegar. Einmitt í þessari starfsgrein kæmi launamunurinn skýrast fram þar sem konur bæru allt að helmingi minna úr býtum en karlar en ynnu þó algerlega sömu störf. Svipað gilti um starfsfólk í veitingarekstri. Þar ynnu margar konur en væru án stéttarsamtaka, og einnig konur sem störfuðu í heimahúsum. Eina undantekningin var kennarastarfið. Þar voru körlum og konum greidd sömu laun samkvæmt lögum frá 1919 um skipun barnakennara og laun þeirra. Með lögum frá 1911 hafði konum og körlum einnig verið veittur sami réttur til embætta.66 Hér væri því mikið verk að vinna fyrir verkalýðssamtökin og sömuleiðis yrði að breytast sá hugsunarháttur sem réði ríkjum innan verkalýðshreyfingarinnar að ganga út frá því í kjarabaráttunni að „hlutfallið milli launa karls og konu haggaðist ekki“. María benti jafnframt á að meðan stríðið stóð hefði fjöldi kvenna gengið í störf sem áður hefðu eingöngu verið ætluð körlum og ekki bæri á öðru en að það hefði reynst vel. Grein Maríu var ádrepa á forystu verkalýðshreyfingarinnar sem aðeins hefði „viðurkennt jafnréttishugsjónina á borði“ en ekki í verunni. Viðbrögð við greininni létu á sér standa. Þau urðu engin á vettvangi Vinnunnar.67

Sigríður Th. Erlendsdóttir 1993, 248−249. − Jóhannes
Siggeirsson 1975, 13.
María J. Knudsen 1943, 139−141.

Starfsstúlkur hjá Fæðiskaupendafélagi Reykjavíkur kringum 1950. Félagið starfaði um áratugs skeið beggja vegna við 1950 og hafði að markmiði að bjóða vinnandi fólki góðan mat á viðunandi kjörum. Frá vinstri eru: Jóhanna Jónsdóttir, Jóna Sveinsdóttir, Inga Þórarinsdóttir, Kristjana Indriðadóttir, Sigurbjörg Guðlaugsdóttir, Elín Júlíana Guðlaugsdóttir og María Gísladóttir.

Verkakvennadeildin á Akranesi var iðulega í fararbroddi vinnandi kvenna en þar gegndi Herdís Ólafsdóttir lengi forystu. Árið 1942 tókst deildinni að semja um að konur skyldu fá sama kaup og karlar við „uppvask“ á fiski og í „götuvinnu“. Árið 1945 voru þeir samningar útvíkkaðir og látnir ná til fleiri starfa í fiskvinnslu. Ári áður (1944) hafði verið gerð samþykkt á ASÍ-þingi um jöfnun á kaupi karla og kvenna og var barátta verkakvenna á Akranesi því í anda þeirrar stefnu.68 En sú samþykkt kann líka að hafa verið endurómur af fjölmennum fundi sem Kvenréttindafélag Íslands stóð fyrir sumarið 1944 undir fyrirsögninni „Staða og kjör hinnar vinnandi konu“. Þar talaði fjöldi kvenna sem var í fararbroddi í kjarabaráttu kvenna, m.a. Aðalheiður Hólm frá Starfsstúlknafélaginu Sókn, Halldóra Guðmundsdóttir frá Nót, félagi netavinnufólks og Ragnhildur Halldórsdóttir frá klæðskerafélaginu Skjaldborg. Fundurinn samþykkti m.a. kröfur um sama rétt kvenna og karla til vinnu og sömu laun fyrir sömu vinnu.69

Þjóðviljinn 24. janúar 1945, 3.
Sigríður Th. Erlendsdóttir 1993, 249−250.

Vel mætti líka halda árinu 1946 til haga vegna þess að þá náðu konur í Nót, félagi netavinnufólks, viðurkenningu á því að þeim bæri að fá sömu laun og karlar fyrir sömu vinnu. Samstaða kvenna hefur án efa skipt máli fyrir þann árangur en þessi niðurstaða fékkst einnig með „ágætri aðstoð Alþýðusambandsins“. Samningurinn náðist þó ekki átakalaust. Sex vikna verkfall þurfti til. Með þessum samningi var brotið í blað því að þá fékkst í fyrsta skipti í kjarasamningum aðildarfélags ASÍ „fullkomið jafnrétti kvenna og karla í launamálum“. Nót var eitt af þeim félögum í ASÍ sem var „blandað“, þ.e. þar voru bæði karlar og konur. Til þess að jafnræði næðist varð að hækka laun kvennanna um ríflega 62% (hækkun á launum karla var á sama tíma 24%).70

Halldóra Guðmundsdóttir 1946, 181−182. − Vinnan IV (1946),
198.− Sigríður Th. Erlendsdóttir 1997, 285. − Sigríður Th.
Erlendsdóttir 1993, 252.

Samningar Nótar voru ekki dæmigerðir á þessum tíma. Í flestum tilvikum gekk afar hægt að ná fram jöfnuði í launum karla og kvenna.71 Hlutfall á milli launa kynjanna hafði lítið breyst um miðjan sjötta áratuginn. Þá var enn algengt að kaup kvenna væri ekki nema tveir þriðju af kaupi karla fyrir sömu störf.72 Taka má sem dæmi starfsstétt þar sem launamunurinn var æpandi, stétt klæðskera. Um þetta leyti var kaup kvenklæðskera miklu lægra en sveinakaup hjá herraklæðskerum þrátt fyrir að störfin væru vitaskuld algerlega sambærileg. Á þetta benti formaður Bjargar, félags kvenklæðskera, árið 1947 og taldi að konur þyrftu að taka sig á og gera „kröfur um fullt launajafnrétti“. Skömmu áður hafði Kvenréttindafélag Íslands samþykkt tillögu þess efnis að skora á Alþingi að skipa nefnd til þess að semja frumvarp til laga um „jafnrétti kvenna í launa- og atvinnumálum á grundvelli kröfunnar um sömu laun fyrir sömu vinnu“.73

Sjá m.a. Þjóðviljinn 24. janúar 194, 3.
Inga Huld Hákonardóttir 1985, 59−60.
Vinnan V (1947), 192.

Í kaffipásu í Félagsprentsmiðjunni árið 1948; hér er greinilega ekki komin sérstök kaffistofa.

Samkvæmt athugun Ingólfs V. Gíslasonar styttist bilið á milli launataxta karla og kvenna sem voru í Iðju, félagi verksmiðjufólks, smám saman á árabilinu 1935–1965. Árið 1935 var taxti kvenna um helmingur af taxta karla. Rúmum tíu árum síðar var kvennataxtinn kominn í ríflega 60% af töxtum karla. Breytingin varð í hænufetum; árið 1957 var hlutfallið komið rétt um 70% og skreið í tæp 80% árið 1961. Þegar bornir eru saman taxtar Verkakvennafélagsins Framsóknar annars vegar og Dagsbrúnar hins vegar var hlutfallið heldur hagstæðara fyrir konurnar, samanborið við Iðju, en ekki munar miklu.74

Ingólfur V. Gíslason 1994, 372−373.

Netagerðarfólk á Siglufirði í kringum miðja öldina. Nót, félag netavinnufólks, varð fyrst til þess að fella niður sérstaka taxta fyrir konur árið 1946.

Staða kvenna á vinnumarkaði var ekki uppörvandi og viðhorfin voru þeim neikvæð. Svo var litið á, eins og fyrr hefur verið bent á, að karlar væru aðalfyrirvinnan og því bæri þeim betri laun en konum. Kjarni verkalýðshreyfingarinnar væri karlar í erfiðisvinnu og handiðnaði. Á hinn bóginn litu margir svo á að kröfur og þarfir kvenna væru ekki eins mikilvægar og karlanna (fyrirvinnanna) og í þeim skilningi má segja að konur hafi tilheyrt jaðrinum í hreyfingunni. Sams konar viðhorf ríktu einnig í nágrannalöndunum.75 En þó sáust þess ýmis merki að viðhorfin væru að breytast. Þegar ný lög voru sett um laun starfsmanna ríkisins árið 1945 var tekið fram að konur hefðu sama rétt og karlar við „skipun í starfsflokka og flutning milli launaflokka“, og var það ákvæði tilkomið m.a. fyrir þrýsting frá Kvenréttindafélaginu.76 Að mati margra kvenna voru lög um laun starfsmanna ríkisins þó mjög gölluð, t.d. þau lög sem voru sett árið 1955. Samkvæmt þeim var körlum yfirleitt raðað í efri flokka en konum í neðri flokka. Til dæmis voru talsímakonur með mun lægri laun en sendlar, eins og Valborg Bentsdóttir kom á framfæri.77 Og hún bætti við:

Sjá m.a. Ingólfur V. Gíslason 1994, 373−374. − Olstad, Finn
2009, 399−402.
19. júní 1969, 39. − Einnig Sigríður Th. Erlendsdóttir 1993,
252.
Sjá Stjórnartíðindi 1955 A, 178−201.

Ef maður flettir launalögunum er hægt að finna þar ýmislegt, sem telja mætti billegt grín, ef alvaran lúrði ekki á bak við. Hér er eitt dæmi: Við Skúlagötu í Reykjavík er arðbær ríkisverzlun. Afgreiðslumenn þar eru í 10. launaflokki, og eru vissulega vel að því komnir, þar sem þeir mjólka kostamestu kýr ríkissjóðs. En ríkið á aðra verzlun. Hún er í baðstofu með skarsúð og stendur við Kalkofnsveg. Þar eiga erlendir ferðamenn að kaupa sér gripi til minningar um land og þjóð. Afgreiðslumenn í þessari búð eru bara í 13. launaflokki, enda eru þeir, sennilega landkynningarinnar vegna, af hinu svo kallaða fagra kyni. Það má þá slá því föstu, að það sé svo miklu meiri vandi að rétta þeim þorstlátu flöskuna yfir borðið í Nýborg en að afgreiða erlenda ferðamenn, sem minnast eiga menningar lands og þjóðar, að á skal vera þriggja flokka munur.78

Valborg Bentsdóttir 1956, 2−3.

Sömu laun fyrir sömu vinnu, frá 1. maí-göngu, einhvern tíma um miðja öldina.

Þuríður Friðriksdóttir, formaður Þvottakvennafélagsins Freyju, heldur ræðu á 1. maí árið 1946.

Árið 1944 hafði Kvenréttindafélagið haldið almennan fund undir heitinu „Staða og kjör hinnar vinnandi konu“ og komu þar saman helstu forystukonur úr verkalýðshreyfingunni, auk fjölda annarra kvenna, alls hátt á fjórða hundrað. Þar var samþykkt einróma krafan um sömu laun fyrir sömu vinnu.79 Nútímaleg viðhorf birtust einnig á Alþingi með lagafrumvörpum um launajafnrétti karla og kvenna. Hannibal Valdimarsson flutti slík frumvörp ítrekað, fyrst árið 1948, en fékk ekki náð fyrir augum þingheims, hvorki þá né síðar.80 Samtök kvenna beittu sér einnig og kröfðust þess að þingið stuðlaði að breytingum og Alþýðusambandsþing árið 1948 áréttaði kröfuna um sömu laun fyrir sömu vinnu. Þær kröfur voru ítrekaðar tveimur árum síðar og staðhæft að „ósamræmi það, sem nú ríkir í launagreiðslu til karla og kvenna við sömu störf, sé algjörlega óviðunandi og í fyllsta máta ranglátt“.81 Í þessum ályktunum var lagt til að samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um sömu laun karla og kvenna fyrir sömu vinnu yrði tekin upp hér á landi, en samþykkt stofnunarinnar var gerð árið 1951.82 Nú var farið fram á að hún yrði fullgilt hér á landi og var þingsályktunartillaga þessa efnis samþykkt á Alþingi 1954. Ríkisstjórninni var falið að koma henni í framkvæmd.83 Sama ár voru einnig samþykkt lög um laun starfsmanna ríkisins, en samkvæmt einu ákvæði þeirra bar að veita körlum og konum sama rétt til opinberra starfa og sömu laun fyrir sams konar starf.84

Sigríður Th. Erlendsdóttir 1997, 283−284.
Sigríður Th. Erlendsdóttir 1993, 253−255.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 21. sambandsþing 1948,
27. − Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 22. sambandsþing
1950, 37.
Bjørnhaug, Inger; Halvorsen, Terje 2009, 302. − Alþjóða-
vinnumálastofnunin, ILO, var stofnuð árið 1919. Henni er
ætlað að standa vörð um réttindi launafólks um heim allan.
Stofnunin byggist á þríhliða samstarfi fulltrúa stjórnvalda,
launafólks og atvinnurekenda. Sjá http://eldrivefur.asi.is/
greinar.asp?cat_id=538; sótt í október 2010.
Eggert G. Þorsteinsson 1954, 9.
Sigríður Th. Erlendsdóttir 1993, 254.

Fyrrgreind samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar var þó ekki fullgilt fyrr en árið 1957 og tók gildi hér á landi árið eftir. Félagsmálaráðuneytið fór fram á umsagnir ASÍ og VSÍ um samþykktina. Umsögn ASÍ var jákvæð en atvinnurekenda neikvæð. Samþykktin var þó staðfest engu að síður og varð Ísland fyrst Norðurlanda til þess að fullgilda hana. Samþykktin var þó mjög almennt orðuð og í henni fólust ekki neinar skuldbindingar fyrir aðildarríkin. Engu að síður höfðu umræður um samþykktina og fullgilding hennar mikið að segja fyrir réttindabaráttu verkakvenna hér á landi.85

Alþt. B 1960, 1494. − Vinnan XVII, 4.−6. tbl. 1960, 10−12.

Annars voru kjör kvenna mjög til umræðu víða um lönd eftir lok styrjaldarinnar, enda hafði komið í ljós í stríðinu hversu miklu máli atvinnuþátttaka kvenna skipti og að konur höfðu leyst af hendi fjölmörg „karlastörf“ á óaðfinnanlegan hátt. Kröfur kvenna um jafnrétti í launum á við karla urðu því æ háværari. Þess má geta að árið 1945 var gert átak í þessum efnum í Finnlandi þar sem launamunur kvenna og karla var minnkaður verulega.86 Á hinn bóginn var einnig útbreidd sú skoðun í samfélaginu á árunum eftir lok styrjaldarinnar að staður konunnar væri á heimilinu en ekki í atvinnulífinu. Hún átti að vera í fararbroddi neytenda og hún var álitin þurfa heimilistæki og önnur þægindi sem nútíminn hafði á boðstólum. Í þessum efnum höfðu Bandaríkin mótandi áhrif.87 Þessi viðhorf fóru ekki að breytast svo um munaði fyrr en með auknum styrk kvennahreyfingarinnar á áttunda áratugnum.

Bergholm, Tapio 2003, 53.
Sjá m.a. Bjørnhaug, Inger; Halvorsen, Terje 2009, 234.

Á saumastofu um eða eftir miðja öldina.

Hannibal Valdimarsson beitti sér mjög fyrir því að kjör karla og kvenna yrðu jöfnuð og lagði hann ítrekað fram frumvörp þess efnis á Alþingi sem fyrr getur, m.a. frá 1948. Meginefni frumvarpsins var að sömu laun yrðu greidd fyrir sömu vinnu hvort sem karl eða kona leysti hana af hendi. Í greinargerð með frumvarpi sínu lýsti Hannibal því svo að um þetta leyti væri konum víðast greitt um 25–40% lægra kaup fyrir sambærileg störf.

Til dæmis væri munurinn um 30% hjá iðju- og iðnfyrirtækjum.88 Hannibal og fleiri þingmenn Alþýðuflokksins lögðu einnig fram sambærilegt frumvarp árið eftir. Hjá ríkisstofnunum væru konur yfirleitt í þeim launaflokkum þar sem lægst launuðu karlarnir væru og það jafnvel þó að þær væru búnar að starfa hjá viðkomandi stofnun í 20–30 ár. Frumvarp Hannibals fékk ekki hljómgrunn en var haft að „háði og spotti“.89 Hann lagði það fram aftur árið 1955 og tíndi nú fram fleiri rök máli sínu til stuðnings. Þá benti hann á að verstur væri hlutur kvenna sem ynni við verslun og á skrifstofum, þar væri

Alþt. C 1955, 563−564.
Sigríður Th. Erlendsdóttir 1997, 286.

meiri kaupmismunur milli kvenna og karla en nokkurs staðar annars staðar í þjóðfélaginu og ákvæði um það, sem atvinnurekendur standa fast á og hafa knúið inn í samninga við stéttarfélög verzlunarmanna, að í hæst launuðu flokkunum skuli alls ekki vera neinar konur, þau störf skuli eingöngu vera unnin af karlmönnum. Ég skal taka hér nokkur atriði upp úr samningunum, sem nú eru í gildi og um þetta fjalla. Þar segir, að fyrsta flokks fulltrúi, aðalbókari, fulltrúar annars flokks og bréfritarar fyrsta flokks svo og sölustjórar og aðalgjaldkerar skuli vera í hæsta launaflokki eingöngu karlar. … Það er fyrst þegar komið er niður í b-lið fjórða flokks, sem fjallar um laun aðstoðarfólks á skrifstofum, að gert er ráð fyrir bæði körlum og konum í sama launaflokki. Þetta er engin þjóðsaga. Þetta er úr hinu daglega lífi núna árið 1955 samkv. nýgerðum samningi atvinnurekenda og verzlunarmanna hér í Reykjavík.90

Alþt. C 1955, 564.

Verkakona að störfum í Álafossverksmiðjunni árið 1956; tekstíliðnaður var orðinn mikilvæg iðngrein í landinu um þetta leyti.

Á skrifstofu um eða eftir miðja öldina; konur sem unnu verslunar- eða skrifstofustörf áttu ekki auðvelt með að fá vel launuð störf. Þau voru ætluð körlum.

Þá væri menntun kvenna einskis metin á þessu sviði sem kæmi hvað skýrast fram í því að konur sem hefðu lokið prófi í verslunarfræðum frá Verzlunarskóla Íslands væru með lægri laun en karlmenn sem hefðu aldrei komið í verslunarskóla. Enn fór á sömu leið og áður með frumvarp Hannibals þrátt fyrir að hann brýndi þingheim og staðhæfði að konur sættu sig ekki við þessi rangindi öllu lengur. Það var ekki afgreitt.91

Alþt. C 1955, 564−566.

Undir þessar skoðanir forseta ASÍ tók Anna Pétursdóttir sem skrifaði um launamál kvenna í tímaritið Frjálsa verslun árið 1955. Anna lýsti ástandinu svo:

Kunningjakona mín starfar sem fulltrúi hjá stóru fyrirtæki hér í bæ. Starfsaldur hennar er 12 ár. Karlmaður var ráðinn henni til aðstoðar fyrir 4 árum. Eftir launaskala þessa fyrirtækis bera honum, næst þegar hann fær launahækkun, hærri laun en hún hefur. Hún fær enga launahækkun. Hún er sem sagt komin á „toppinn“. En pilturinn sem er henni til aðstoðar á skrifstofunni, heldur áfram að fá launahækkun … Eins er ástandið hjá afgreiðslufólki í verzlunum. Stúlka stendur við hliðina á karlmanni við afgreiðslu … Hún hefur sömu menntun og hann. En samkv. samningi um launakjör verzlunarfólks frá 1954 – Bliður, 3. flokkur og 4. flokkur A – hefur stúlkan mun lægri laun en karlmaðurinn. Samkvæmt fyrrnefndum samningi er B-liður, 1. flokkur – en þeim flokki tilheyra deildarstjórar – eingöngu ætlaður körlum.92

Anna Pétursdóttir 1955, 92−93.

Átak í kjaramálum kvenna

Þegar ný forysta tók við völdum í ASÍ árið 1954 var ákveðið að beita styrk samtakanna til að bæta kjör kvenna, enda kröfðust verkakvennafélögin og -deildirnar jafnréttis í auknum mæli. Slíka kröfu gerði til dæmis verkakvennadeildin á Akranesi árið 1954, að konur fengju „karlmannskaup“ við ýmis störf sem bæði karlar og konur unnu. Sú krafa náðist fram að hluta til eftir stutt verkfall.93

Morgunblaðið 2. september, 16, og 3. september, 16, 1954.

Alþýðusambandið gekkst fyrir ráðstefnu árið 1955 um launamál kvenna, hinni fyrstu í fjögurra áratuga sögu sinni, samkvæmt tillögu sem nokkrir kvenfulltrúar báru fram á þinginu.94 Áður hafði ASÍ þó haldið ýmsar ráðstefnur um kjaramál mikilvægra hópa innan og utan sambandsins, t.d. iðnsveina, bílstjóra, bænda og sjómanna.95 Til ráðstefnunnar var boðað í kjölfar þess að Alþýðusambandsþing samþykkti á þingi sínu árið áður að ein af fimm meginkröfum sambandsins yrði að karlar og konur fengju sömu laun fyrir sömu vinnu. Það var í fyrsta sinn sem þing ASÍ setti slíka kröfu á oddinn. Svo sem fyrr hefur verið bent á hafði Kvenréttindafélagið staðið fyrir opinni umræðu um kjör vinnandi kvenna, m.a. á fjölsóttum fundi árið 1944 sem hafði mikil áhrif.

Guðný Helgadóttir 1955, 26.
Sjá m.a. Skýrsla miðstjórnar Alþýðusambands Íslands 1950,
62−68. − Þór Indriðason 1996 III, 91.

Launaflokkar verslunarfólks einhvern tíma á sjötta áratugnum, efstu flokkarnir voru aðeins ætlaðir körlum.

Störf á spítölum, önnur en læknisstörf, voru að mestu í höndum kvenna. Þessi kona starfaði í þvottahúsi sjúkrahússins í Neskaupstað um eða eftir miðja öldina.

Á ráðstefnunni var bæði rætt um þann mikla mun sem væri á kauptöxtum verkakvenna víða um land og mun á launum karla og kvenna fyrir sömu störf. Meginniðurstöður ráðstefnunnar urðu þær að miða ætti við að sömu greiðslur kæmu fyrir verk án tillits til þess hvort karl eða kona ynni starfið, og var þess krafist að kaupgreiðslur til kvenna yrðu hinar sömu og til karla við sambærileg störf: „Sama kaup fyrir sömu vinnu hvar sem er á landinu.“96 Auk þess bæri að vinna að því að samræma kaup verkakvenna hvar sem væri á landinu – en á því væri mikill munur – og hækka kvennakaup sem fyrst upp í 90% af karlakaupinu.97 Í framhaldinu skipaði ASÍ fastanefnd til þess að vinna að þessum málum. Örlög hennar urðu þó þau að starfa lítt eða ekki. Málið var þó ekki látið niður falla og var unnið að því á næstu árum að hækka hlutfall launa kvenna af launum karla. Þess má geta að á Alþingi voru samþykkt lög árið 1954 um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og samkvæmt þeim var gert ráð fyrir að jafnrétti ríkti á milli karla og kvenna í launamálum.98

Skýrsla miðstjórnar Alþýðusambands Íslands 1956, 10−11.
Vinnan XII (1955), 3. tbl., 2, 7. − Guðný Helgadóttir 1955,
26. − Nanna Ólafsdóttir 1955, 7. − Lbs. Hdr., Hannibal
Valdimarsson, ýmis gögn 1940−1955. Kvennaráðstefna
Aþýðusambands Íslands.
Alþt. A 1953, 411. − Vinnan XII (1955), 3. tbl., 7. − ÞÍ.
Kvennaráðstefna ASÍ. Ályktun. Samn. í gildi. Sögus. verkal.
A01: 22/14. Skrifstofa. Ýmis félagsmál.

Konur á kvennaráðstefnu ASÍ árið 1955; lengst til vinstri í fremstu röð er Sigríður Hannesdóttir, Jóhanna Egilsdóttir þriðja frá vinstri og við hlið hennar Herdís Ólafsdóttir frá Akranesi. Þriðja frá hægri í sömu röð er Guðríður Elíasdóttir frá Hafnarfirði.

Forysta ASÍ hvatti aðildarfélög sín til þess að vinna að því að gera kjarasamninga þar sem krafist væri sömu launa fyrir sömu vinnu karla og kvenna. Sambandið lagði áherslu á að kaup verkakvenna hækkaði sérstaklega og ekki síður að kjör þeirra víða um land yrðu jöfnuð á þann hátt að laun yrðu sem víðast hækkuð til samræmis við það sem best gerðist. Bent var á fyrrgreint fordæmi Nótar en einnig að það hefði verið spor í rétta átt þegar Verkakvennafélagið Framtíðin í Hafnarfirði náði samningum um sama kaup kvenna og karla „fyrir ýmsa fiskvinnu“ á árunum 1954–1955, í raun að fá borgað eftir lægsta karlataxta. Um svipað leyti fékk Framsókn í Reykjavík svipuð ákvæði viðurkennd. En herða yrði sóknina og þyrfti þá „lokasigur þessa réttlætismáls ekki að vera svo langt undan“.99

Ásgeir Guðmundsson 1983 III, 29. − Vinnan XI (1954), 30. −
Hannibal Valdimarsson 1956, 5.−6. tbl., 2. − Þór Indriðason
1996 III, 94−95.

Árið 1955 náðust umtalsverðir áfangar. Félög verkakvenna tóku ekki nema að litlu leyti þátt í verkfallinu mikla árið 1955 en hófu sína baráttu að því loknu. Til dæmis stóðu verkakonur á Akranesi og í Keflavík í hörðum verkföllum síðla árs 1955 til þess að ná fram hækkun á kaupi til samræmis við kaup verkakvenna á Siglufirði, en þar í bæ hafði löngum verið greitt hæsta kaup á landinu, sem fyrr getur. Eftir að fleiri verkalýðsfélög höfðu hafið samúðarverkfall með stuðningi ASÍ náðu viðkomandi félög samningum á þessum grunni.100 Á árunum 1956–1959 var því unnið að því að jafna kaup kvenna innbyrðis á landinu, svipað og hafði gerst nokkrum árum fyrr með kaup karla.101 Segja mátti að árið 1959 væru laun kvenna fyrir sömu störf orðin svipuð eða hin sömu hvar sem var á landinu. Hlutfall kvennakaups af kaupi karla fyrir almenna verkamannavinnu hækkaði einnig nokkuð um þetta leyti, enda jókst kaupmáttur kauptaxta verkakvenna nokkuð við það meðan kaupmáttur taxtakaups verkamanna hélst að mestu óbreyttur.102

100 Vinnan XII (1955), 6.−7. tbl., 8−9.
101 Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, ýmis gögn 1956−1959.
Bréf til verkakvennafélaga frá Alþýðusambandinu 6. apríl
1956.
102 Hagskinna 1997, 610. − Þór Indriðason 1996 III, 99.

Fleiri mikilvægar mannréttindakröfur fengust viður kenndar á ofanverðum sjötta áratugnum. Starfsstúlknafélagið Sókn náði t.d. þeim mikilsverða áfanga í kjarasamningi sínum árið 1957 að samið var um þriggja mánaða fæðingarorlof á launum fyrir þær konur sem höfðu unnið fjögur ár eða lengur innan ramma félagsins.103 Fram til þessa hafði sú krafa ekki verið áberandi. Sókn var fyrsta verkakvennafélagið sem náði þessum áfanga. Nú var fallist á þessa kröfu án mikilla átaka og var ástæðan kannski ekki síst sú að félagsmálaráðherrann var jafnframt forseti ASÍ. Þess má geta að árið 1960 tók þing ASÍ undir kröfu þess efnis að allar vinnandi konur ættu rétt á þriggja mánaða fæðingarorlofi á fullum launum, eins og tíðkaðist hjá þeim konum sem væru starfsmenn ríkisins.104

103 Vinnan XV (1958), 1.−2. tbl., 2.
104 Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 27. sambandsþing 1960, 71.

Eftir kjaramálaráðstefnu ASÍ árið 1960 var haldin önnur kvennaráðstefna sambandsins um launajafnrétti, enda var ólga innan verkakvennahreyfingarinnar. Þar var kosin nefnd til þess að undirbúa sókn kvenna í átt að meira jafnrétti í þessum efnum. Ráðstefnan ítrekaði að stéttarfélögin miðuðu við að kaup kvenna yrði jafnað við kaup karla fyrir sömu störf. Nokkrir kjarasamningar voru gerðir um þetta leyti þar sem atvinnurekendur urðu við þessari kröfu. Verkakvennafélag Keflavíkur og Njarðvíkur hafði t.d. gert slíkan samning þegar árið 1959. Annað mál var svo hvernig gekk að fá samningsákvæðunum framgengt en þar gat gengið á ýmsu.118

Konur og börn frá Akureyri í orlofsdvöl að Laugum í Reykjadal árið 1959 á vegum Alþýðusambands Norðurlands.

Samstarf um samningagerð

Sem fyrr getur var skipulagi verkalýðshreyfingarinnar þannig háttað að hvert einstakt félag hafði samningsréttinn í sínum höndum, enda voru kjarasamningar afar mismunandi eftir stöðum. Iðulega var þannig staðið að málum að minni og veikari stéttarfélög biðu átekta þegar kjaradeilur voru en gerðu síðan kröfur um að fá sams konar kjarabætur og þau samtök sem voru stærri og öflugri. Það voru þannig nokkur öflug félög sem drógu vagninn en hin veikari fylgdu á eftir. Það virðist jafnvel hafa verið stefna sumra þeirra að standa svo að málum en leggja lítið af mörkum sjálf.106

106 Sjá m.a. Jón Þ. Þór; Guðfinna M. Hreiðarsdóttir 1996,
290−294.

Eftir að farið var að samræma kjör karla og kvenna hvar sem var á landinu, og stjórnvöld fóru að beita sér meira við gerð kjarasamninga, var eðlilegt að samstarf við samningagerð ykist og vilji var hjá Alþýðusambandinu til að auka hlut sinn við samningagerðina. Dæmi um slíkt er hvernig staðið var að gerð nýrra kjarasamninga eftir myndun nýsköpunarstjórnarinnar árið 1944, en þá beitti Alþýðusambandið sér fyrir því að gildandi samningar yrðu að mestu endurnýjaðir.107 Munu flest verkalýðsfélög í landinu hafa orðið við þeirri beiðni.

107 Skýrsla miðstjórnar Alþýðusambands Íslands 1944, 26.

Er frá leið varð æ algengara að fleiri en eitt félag tækju sig saman og semdu um kaup og kjör. Hlutur landshlutasamtaka og heildarsamtaka jókst þannig smám saman. Stundum sömdu landshlutasamtök fyrir öll félög á sínu svæði, eins og dæmi voru um á Vestfjörðum en Alþýðusamband Vestfjarða (ASV) samdi fyrir öll verkalýðsfélög þar árið 1949 að undanskildum tveimur. Í skýrslu miðstjórnar Alþýðusambandsins árið 1950 kom fram að ASV ætti „þakkir skyldar fyrir að hafa forgöngu um að koma á heildarsamningum innan fjórðungsins og mætti það verða til eftirbreytni fyrir hin fjórðungssamböndin“.108

108 Skýrsla miðstjórnar Alþýðusambands Íslands 1950, 27.

Alþýðusamband Vestfjarða þingar um eða eftir miðja 20. öld. Björgvin Sighvatsson situr fyrir miðju en Hannibal Valdimarsson er hægra megin við hann.

Alþýðusambandið lét einnig sífellt meira að sér kveða við samningagerð og lagði skýrari línur. Heildarsamtökin hvöttu til þess að tilteknum markmiðum skyldi náð og hvöttu líka til að einstök félög sættu sig við tiltekna samningsniðurstöðu ef það var talið í þágu heildarinnar. Árið 1952 var samstaðan til dæmis víðtæk. Þá var staðið þannig að málum að um 60 félög náðu samstöðu um gerð kjarasamninga. Samningur félaganna var svohljóðandi:

 1. Félögin heita því öll og hvert fyrir sig að gera ekki samkomulag eða samninga við atvinnurekendur, nema með samþykki þeirra allra.
 2. Þar sem það er eindreginn vilji félaganna, að samningar verði gerðir við þau öll samtímis, kýs fulltrúanefnd þeirra sameiginlega samninganefnd, en í samninganefndina tilnefnir miðstjórn A.S.Í. einn mann.
 3. Fulltrúanefndin setur reglur um verkfallsstjórn verði verkfall.
 4. A.S.Í gerir ráðstafanir til þess, að þau félög sem ekki hafa sagt upp samningum, veiti félögum þeim, sem að samkomulagi þessu standa, stuðn-ing með samúðarvinnustöðvunum. Ennfremur að stöðvuð verði afgreiðsla á skipum …

Fulltrúanefndin mótaði einnig sameiginlegar kröfur fyrir félögin: um 15% hækkun grunnkaups, greiðslu verðlagsuppbóta mánaðarlega, stofnun atvinnuleysistryggingasjóðs og lengt orlof.109

109 Skýrsla miðstjórnar Alþýðusambands Íslands 1952, 47−48.

Vinnuveitendur voru einnig á þeirri skoðun að auka bæri samstarf og völd heildarsamtakanna. Þeir höfðu þá í huga hvernig þessi mál höfðu þróast á hinum Norðurlöndunum. Vinnuveitendur fóru fram á það við ASÍ árið 1940, svo sem þegar hefur verið drepið á, að samtökin ræddu um gerð heildarsamninga. Þessari málaleitan svaraði Alþýðusambandið neikvætt, enda hefðu samtökin ekki umboð til þess að gera kjarasamninga heldur einstök stéttarfélög. Þegar vinnuveitendur ítrekuðu tilboð sitt svaraði ASÍ því svo, að engin ástæða væri til að óttast um vinnufriðinn hér á landi ef atvinnurekendur gengju að sjálfsögðum kröfum verkalýðshreyfingarinnar!110

110 Guðmundur Magnússon 2004, 53−54. − Einnig Morgunblaðið
1. maí 1963, 12.

Um 1960 voru viðhorfin að breytast og vilji var fyrir því innan verkalýðshreyfingarinnar að auka hlut heildarsamtakanna. Hannibal Valdimarsson, þáverandi forseti ASÍ og félagsmálaráðherra, ræddi þessi efni í grein í Vinnunni árið 1958 og benti á að vinnubrögð verkalýðshreyfingarinnar hefðu breyst mikið í þessa veru, miðað við það sem áður var. Hann hvatti til þess að vakin yrði athygli á þeim árangri sem næðist á þennan hátt, ella væri hætta á að fólk fjarlægðist hreyfinguna ef það gerði sér ekki grein fyrir þeim ávinningum sem orðið hefðu af baráttu hennar.111 Hannibal hefur verið vel kunnugt um hvernig þessi mál þróuðust í nágrannalöndum Íslands, ekki síst í Noregi og Svíþjóð þar sem mikilli miðstýringu var komið á við kjarasamningagerð, enda réðu jafnaðarmenn bæði ríkisstjórn og verkalýðshreyfingu. Atvinnurekendur hérlendis voru sér líka meðvitaðir um þessa þróun.112

Hannibal Valdimarsson 1958, 3−4 (Hvort er þá nokkuð sem
vinnst?).
Bjørnhaug, Inger; Halvorsen, Terje 2009, 297−298.

Hér á landi varð því sams konar þróun og annars staðar á Norðurlöndunum þó að formlega væri samningsrétturinn í höndum einstakra félaga. Hin raunverulega samningagerð varð æ oftar í höndum heildarsamtakanna, beint eða óbeint, enda stundum um að ræða að semja um efnahagsmál við ríkisvaldið og um meginlínur, svo sem verðtryggingu, niðurgreiðslur, skattamál og svo framvegis. Þá skipti frumkvæði stærstu félaganna oftast meginmáli.113

Sjá m.a. Þór Indriðason 1996 III, 195−198.

Vörður

 • 1941 Gerðardómslögin.
 • 1942 „Skæruhernaður“ og afnám gerðardómslaganna.
 • 1942 Samið um miklar kjarabætur.
 • 1949 Alþýðusamband Vestfjarða (ASV) semur fyrir flestöll verkalýðsfélög þar.
 • 1950 Mikil gengislækkun og hörð kjaraátök.
 • 1951 Samflot í Reykjavík og Hafnarfirði.
 • 1952 Samflot yfir 60 stéttarfélaga, fyrsta stóra samflotið.
 • 1955 Hörð kjaraátök, einkum í Reykjavík og á stærri stöðum.
 • 1955 Samið um myndun atvinnuleysistryggingasjóðs.
 • 1955 Sömu laun greidd fyrir sams konar vinnu karla alls staðar á landinu.
 • 1919 Lög um barnakennara. Körlum og konum beri sömu laun.
 • 1942 Verkakvennadeildin á Akranesi semur um sama kaup karla og kvenna við ýmsa vinnu.
 • 1945 Lög um laun starfsmanna ríkisins. Konum beri sami réttur og körlum.
 • 1946 Nót, félag netavinnumanna, semur um sömu laun karla og kvenna fyrir sömu vinnu.
 • 1948 Alþýðusambandsþing áréttar kröfuna um sömu laun fyrir sömu vinnu.
 • 1955 Alþýðusambandið gengst fyrir fyrstu ráðstefnu sinni um launamál kvenna.
 • 1956 Starfsstúlknafélagið Sókn semur um þriggja mánaða fæðingarorlof.
 • 1957 Samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar frá 1951 um sömu laun karla og kvenna fyrir sömu vinnu fullgilt.
 • 1959 Laun kvenna innbyrðis fyrir sömu störf svipuð hvar sem er á landinu.
 • 1960 Önnur kvennaráðstefna ASÍ um launajafnrétti.

Næsti kafli

Félagsleg réttindamál