Efnisyfirlit

Deila sögu ASÍ

Tímabilið fram til 1940

Ístaka á Tjörninni í Reykjavík á fyrstu áratugum 20. aldar.

Stofnun ASÍ og stefnuskrá

Saga ASÍ: Í samtök › Tímabilið fram til 1940

Stofnun ASÍ og stefnuskrá

Í formála fyrsta Verkamannablaðsins sem Verkamannafélagið Dagsbrún gaf út skamma hríð árið 1913 sagði m.a.:

Við verkamenn skipum sérstaka stétt í þjóðfélaginu. Við lifum við önnur lífskjör, en aðrar stéttir. Við erum allir snauðir; eigum ekki fé, ekki lönd, ekki framleiðslu eða fjárafla og engin réttindi sem látin verða í askana. Það eru aðrar stéttir, sem þessi gæði eiga. Við verðum að lifa af þeim launum, sem við fáum fyrir það, að vinna fyrir aðra, – vera fjáraflaverkfæri í hendi atvinnurekenda. Okkur vantar skilyrði til þess, að framleiða sjálfir lífsnauðsynjar okkar. Við verðum að kaupa þær af öðrum stéttum. Og við höfum ekkert gjald til að greiða með kaupverðið annað en vinnuþrek eigin líkama. Það eitt getum við selt eða látið í skiftum fyrir lífsnauðsynjar okkar. Því er líf okkar og velferð undir því komin, hvort við fáum kaupanda að vinnunni eða ekki og hvað hún er í háu verði á markaðinum. Nú er svo komið, að við eigum líf okkar og velferð undir öðrum, þörfum þeirra, ástæðum þeirra, vilja þeirra og jafnvel dutlungum. …En hvað gerum við svo fyrir sameiginlega hagsmuni þessarar stéttar? Við höfum kosningarétt, samkvæmt stjórnarskránni, og mest atkvæðamagn allra stétta. Við kjósum menn af öðrum stéttum til þess að fara með löggjafarvaldið, stýra málefnum sveitarfélaga, bæjarfélaga og þjóðarinnar allrar. Er það leiðin til þess, að hlynna að hagsmunum verkamannastéttarinnar? …Við höldum uppi blöðum og ritum annara stétta, kaupum þau og lesum og ritum í þau með köflum. En eigum ekkert blað sjálfir. Er þetta ráðið til þess að halda velli í stéttabaráttunni, sem aðrar stéttir hafa hafið og dregið okkur inn í?Við skipumst í félög með öðrum stéttum og flokkum, vinnum með þeim og fyrir þá. Svo þeir geti magnast að vexti og völdum. Er það sigursæl bardagaaðferð að tvístra liðinu forustulaust innanum óvinaherinn?1

Verkmannablað, 1. blað, maí 1913, 1.

Mikil samfélagsgerjun var um miðjan annan áratug 20. aldar. Þá var flokkakerfi sjálfstæðisstjórnmálanna að leysast upp og nýjan vettvang vantaði. Jón Baldvinsson staðhæfði að hin „nýju alþýðusamtök“ hefðu aðallega sótt meðlimi sína „til hins gamla sjálfstæðisflokks, enda voru ýmsir helztu forvígismenn alþýðunnar gamlir framherjar í sjálfstæðismálunum“. Það átti m.a. við um Ottó N. Þorláksson. Til dæmis hefði Sjálfstæðisflokkurinn leitað eftir kosningasamvinnu við „verkamannasamtökin“ árið 1916.2

Alþýðublaðið 12. mars 1936.

En það var ekki nóg með að flokkakerfið hefði gengið sér til húðar. Allt samfélagið var í gerjun. Mikil vakning varð meðal sjómanna eins og fyrr er getið og undirtektir óbreyttra togarasjómanna við stofnun Hásetafélagsins sýndu. Efnahagsástandið knúði fólk einnig til að styrkja samtök sín. Verðbólga fór vaxandi en kaupgjaldið hækkaði ekki til samræmis. En þeir sem framleiddu vörur til útflutnings á fyrri hluta stríðsáranna högnuðust, enda hækkuðu útflutningsvörur í verði.3

Sjá m.a. Helgi Skúli Kjartansson 2002, 54−56.

Síðla árs 1915 lagði Ottó N. Þorláksson fram tillögu á fundi í Verkamannafélaginu Dagsbrún þess efnis að stofnað yrði að nýju verkalýðssamband með þeim stéttarfélögum sem þá voru starfandi í Reykjavík, þ.e.a.s. Dagsbrún, Verkakvennafélaginu Framsókn, Bókbindarafélaginu, Hásetafélaginu og Prentarafélaginu.4 Sjálfsagt hefur Ottó frétt af því að atvinnurekendur, eða öflugasti hluti þeirra, togaraútgerðarmenn, voru með eitthvað á prjónunum. Þeir stofnuðu Félag íslenskra botnvörpuskipaeigenda í ársbyrjun árið 1916.5 En ástæðan var líka sú að deyfð og drungi hafði færst yfir öflugasta félagið, Dagsbrún, og vildi Ottó leita leiða til að efla starfsemina á nýjan leik, ekki síst með sameiginlegri pólitískri þátttöku stéttarfélaganna í Reykjavík. Fyrsta tilraunin gaf fyrirheit um bjarta framtíð. Verkamannalisti var boðinn fram í Reykjavík í janúar 1916 og varð hann sigurvegari bæjarstjórnarkosninganna, fékk þrjá menn af fimm.6 Nú hafði líka margt breyst í Reykjavík frá því að Verkamannasambandið var og hét. Fólki hafði fjölgað hratt í bænum og togaraútgerð var orðin helsti atvinnuvegur bæjarins; slík útgerð var rétt hafin þegar Verkamannasambandið var að reyna að fóta sig árið 1907.

Ottó N. Þorláksson 1986, 97−98. − Þorleifur Friðriksson
2007, 260.
Guðmundur Magnússon 2004, 12.
Þorleifur Friðriksson 2007, 260−262.

Fundargerð undirbúningsnefndar fyrir stofnun ASÍ frá 18. nóvember 1915. Þar kemur m.a. fram hverjir sátu í nefndinni.

Jónas Jónsson frá Hriflu, einn áhrifamesti stjórnmálamaður þjóðarinnar á fyrri hluta 20. aldar, alþingismaður, ráðherra og skólastjóri.

Á nokkrum fundum síðla árs 1915 ræddu fulltrúar fyrrgreindra félaga um á hvaða grundvelli hið nýja verkalýðssamband skyldi starfa og var Jónas Jónsson frá Hriflu fenginn til þess að semja drög að lögum sambandsins. Jónas hafði gengið í Dagsbrún 1914.7 Hann hafði um þetta leyti látið töluvert að sér kveða í íslensku þjóðlífi eftir að hann kom heim frá námi í Bretlandi, úr Ruskin College í Oxford en Verkamannaflokkurinn breski var bakhjarl skólans. Jónas mun raunar hafa gengið úr skólanum vegna breytinga sem þar voru gerðar og farið þar í kjölfar flestra nemenda skólans sem gerðu uppreisn gegn skólayfirvöldum.8 Annar sérstæður persónuleiki lét líka mikið til sín taka við stofnun sambandsins, Ólafur Friðriksson. Hann var einn helsti hvatamaður að stofnun Hásetafélags Reykjavíkur 1915, sem fyrr getur, og hóf sama ár útgáfu vikublaðsins Dagsbrúnar ásamt Jónasi.

ÞÍ. Undirbúningsfundir v. stofnunar ASÍ. Sögus. verkal. A01
10/3. Yfirstjórn ASÍ. − Guðjón Friðriksson 1991, 78.
Guðjón Friðriksson 1991, 40.

Eftir nokkurn undirbúning var Alþýðusambandið stofnað hinn 12. mars 1916 af sjö félögum og fór fulltrúafjöldi á stofnfundinum eftir stærð þeirra; tvö stéttarfélög úr Hafnarfirði höfðu bæst í hópinn en ekki virðist hafa verið haft samband við félög utan Suðvesturlands. Dagsbrún hafði sjö fulltrúa, Verkakvennafélagið Framsókn fjóra, Hásetafélag Reykjavíkur sendi fjóra fulltrúa en hafði átt kost á sjö, Hásetafélag Hafnarfjarðar hafði einn fulltrúa en Bókbandssveinafélag Reykjavíkur, Prentara félagið og Verkamannafélagið Hlíf í Hafnarfirði höfðu hvert um sig tvo fulltrúa. Einn fulltrúa Hásetafélags Reykjavíkur, Jónas Jónsson, setti stofnfundinn en fundarstjóri var Þorleifur Gunnarsson frá Bókbandssveinafélaginu.

Bókindarar við störf í bókbandsvinnustofu Félagsprentsmiðjunnar í Ingólfsstræti á þriðja áratugnum. Bókbandssveinafélagið var eitt stofnfélaga ASÍ.

Fyrsti fundurinn samþykkti stofnun sambandsins og lög þess. Í stjórn áttu að sitja sjö menn. Stjórn var kosin á framhaldsstofnfundi sem haldinn var viku síðar. Forseti var kjörinn Ottó N. Þorláksson, 2. forseti Ólafur Friðriksson, gjaldkeri Helgi Björnsson og ritari Jón Baldvinsson. Meðstjórnendur voru Jónína Jónatansdóttir, Sveinn Auðunsson og Guðmundur Davíðsson. Í varastjórn voru kjörnir Þorleifur Gunnarsson, Jónas Jónsson frá Hriflu og Davíð Kristjánsson. Í lögum Alþýðusambandsins sagði m.a. að markmiðið með stofnun þess væri að koma á samstarfi íslensks alþýðufólks, stuðla að stofnun nýrra verkalýðsfélaga, fá fulltrúa kosna í bæjar- og sveitarstjórnir, svo og í landsstjórnina, að efla samvinnufélög og stunda útgáfustarfsemi. Í þessum fyrstu lögum kemur því fram að sambandinu er ekki eingöngu ætlað að vera samband verkalýðsfélaga heldur einnig stjórnmálaafl sem bæði bjóði fram á landsvísu og til sveitarstjórna. Gert var ráð fyrir að félög innan hvers kjördæmis hefðu með sér samráð og kæmu sér saman um framboðslista. Sambandsþing átti að halda annað hvert ár að hausti en fyrsta þingið þó haustið 1916.9

ÞÍ. Fyrstu lög ASÍ. Sögus. verkal. A01 10/3. Yfirstjórn ASÍ. −
Skúli Þórðarson 1966, 17−18.

Ekki var gengið frá stefnuskrá sambandsins strax, enda ekki vandalaust að mati blaðsins Dagsbrúnar, „því margt er hér á Íslandi öðruvísi en annarsstaðar“.10 Þau mál voru afgreidd þannig að kosin var fimm manna nefnd til þess að semja stefnuskrána og leggja hana fyrir framhaldsfundi til umræðu. Í nefndinni sátu Jónas Jónsson, Ólafur Friðriksson, Ottó N. Þorláksson, Pétur Lárusson og Kjartan Ólafsson. Sá fyrstnefndi var formaður nefndarinnar.11 Ágreiningur mun hafa verið í nefndinni um stefnuskrána og þurfti þrívegis að boða til funda til þess að ljúka við gerð hennar. Elka Björnsdóttir lýsti andrúmsloftinu í dagbók sinni svo: „Eg var á Alþ.samb.fundi í gærkveldi á skrifstofu Dagsbrúnar. Þeir eru ekki búnir að semja stefnuskrána enn í neinu lagi og samkomulagið er að versna milli Ólafs og Jónasar, og Ottó hálfstirður finnst mér“.12

Dagsbrún 2. apríl 1916.
Stefán Hjartarson, handrit, 81.
Elka Björnsdóttir, dagbók, mánudagur 6. apríl 1916, Lands-
bókasafn, handritadeild, 2235 8vo.

Nú er ekki að fullu ljóst um hvað þessi ágreiningur stóð og af hverju stirðleikinn stafaði en þó má benda á nokkur meginatriði. Jónas og ýmsir samherjar hans sáu fyrir sér samstarf verkamanna og bænda. Þar í hópi var t.d. Jörundur Brynjólfsson sem síðar varð fyrsti þingmaður Alþýðuflokksins. Forseti ASÍ frá hausti 1916, Jón Baldvinsson, var líka í þessum hópi. Jörundur velktist ekki í vafa um að bændur, verkamenn og sjómenn í kauptúnum landsins ættu sameiginlegra hagsmuna að gæta og sá síðarnefndi virtist í stórum dráttum sammála.13 Stefnuskráin ber þessa merki. Í stað umræðu um stéttir og stéttabaráttu í anda Karls Marx er rætt á óljósan hátt um fátæka og ríka. En Ottó N. Þorláksson var á annarri skoðun og taldi að bændur og verkamenn ættu ekki samleið, að minnsta kosti ekki að sinni.14 Hér kom því fram ólík afstaða til stétta og stéttabaráttu.

Jörundur Brynjólfsson 1915, 18. − Ólafur Ásgeirsson 1988,
60−62.
Ottó N. Þorláksson 1915, 49.

Fyrstu lög ASÍ frá 12. mars 1916.

Stefnuskráin er í 16 köflum og varðar þjóðfélagsmál almennt. Helstu málaflokkarnir voru: Utanríkismál, skatta mál, bankamál, samvinnumál, sjávarútvegsmál, land búnaðarmál, alþýðumenntun, dómsmál, trú mál og fátækralöggjöf. Í stefnuskránni kom m.a. fram að láta ætti sambandsmálið við Dani kyrrt liggja um sinn, flokkurinn var hlynntur landsverslun og vildi að hið opinbera tæki þátt í rekstri á togaraútgerð og öðrum atvinnugreinum sem krefðust mikils fjármagns. Þá var flokkurinn hlynntur samstarfi verkamanna og bænda og vildi stuðla að eflingu samvinnuhreyfingarinnar.

Ennfremur var hvatt til þess að komið yrði á embætti sáttasemjara.15 Stefnuskráin var gefin út árið 1917 undir heitinu I. bæklingur Alþýðusambands Íslands og þótti ástæða til að taka fram á titilsíðu hans að hann væri ætlaður „konum engu síður en karlmönnunum“.16

Sjá Dagsbrún 4. júní 1916, 1, 3.
I. bæklingur Alþýðusambands Íslands.Stefnuskrá Alþýðuflokks-
dóttir 2008, 88−92.

Stefnuskráin var ekki byltingarsinnuð heldur í anda umbótastefnu eins og sjá má. Leiðin til framtíðarlandsins skyldi ekki lögð með vopnum heldur fetuð krókótt slóð um lýðræðislega kjörnar stofnanir og unnið með tilstyrk stéttarfélaga og samvinnuhreyfingar. Þá er fremur lögð áhersla á hið pólitíska starf en einber kjaramál. Ástæða þess var að líkindum ekki síst hinn góði árangur sem náðst hafði í bæjarstjórnarkosningunum í Reykjavík í ársbyrjun 1916 og fyrr hefur verið getið um.17 En hér ber einnig að hafa í huga hverjir stóðu helst að gerð stefnuskrárinnar en þar stýrði Jónas Jónsson oft penna. Héðinn Valdimarsson segir að sú „óljósa og aðeins hálfsósíalistíska stefnuskrá sem það [Alþýðusambandið] tók sér í fyrstu“ hafi verið „hnitmiðuð við hugsanagang hans þá“. Það mun ekki fjarri lagi þegar miðað er við hve mikið var lagt upp úr samstarfi verkamanna og bænda. Héðinn bendir einnig á að aðrir sem tóku þátt í gerð stefnuskrárinnar hafi ekki haft forsendur til að leggja fram aðra valkosti.18 Undir þessa skoðun tekur Ragnheiður Kristjánsdóttir sagnfræðingur og bendir á að stefnuskráin hafi verið afar óljós í afstöðunni til sósíalismans, t.d. komi orðið jafnaðarstefna hvergi fyrir. Í raun hafi verið sniðið „burt allt það sem gat talist sósíalismi eða jafnaðarstefna“.19

Skúli Þórðarson 1966, 17−18. − Sjá einnig Sigurður Pétursson
1990, 54−57.
Héðinn Valdimarsson 1938, 7.
Ragnheiður Kristjánsdóttir 2008, 92. − Sjá einnig Lög
birt og er óbreytt frá fyrstu stefnuskránni að því undanskildu
að fyrsta greinin, um utanríkismál, hefur verið felld niður,
enda tengsl Danmerkur og Íslands orðin breytt.

Stefnuskrá ASÍ var ekki endurskoðuð fyrstu árin en árið 1920 þótti tími til kominn að taka til hendi. Var skipuð nefnd í málið sem vann rösklega og skilaði af sér drögum sem lögð voru fyrir sambandsþing í nóvember 1920. Stefnuskráin varð þó ekki útrædd og var boðað til aukaþings 1921 þar sem ný stefnuskrá skyldi vera helsta viðfangsefnið. En þar urðu menn ekki á eitt sáttir og varð harður ágreiningur um efni draganna. Einkum var óánægja í röðum ungra manna sem höfðu gengið til liðs við hreyfinguna á undanförnum árum. Þar má m.a. geta um Hendrik Ottósson. Hér áttust sem sé við hinir róttæku og hinir hægfara. Við athugun má sjá að hin endanlega gerð sem var samþykkt 1922 varð róttækari en fyrstu drögin enda lýsti Alþýðublaðið því yfir að stefnuskráin væri „hrein jafnaðarmanna (sósíalista) stefnuskrá. Kennir hvorki neinnar borgaralegrar grautarpólitíkur né ótímabærs hjals um byltingu þegar í stað“.20 Samkvæmt stefnuskránni var gert ráð fyrir að „framleiðslutækin“ skyldu vera í þjóðareign. En umræða um aðferðir í stjórnmálabaráttunni tekur samt af öll tvímæli um að flokkurinn var ekki byltingarflokkur en vildi „vinna að framkvæmd hugsjóna sinna í friði, svo lengi sem hann fær frið til þess fyrir fjendum sínum. Verði Alþýðuflokkurinn aftur áreittur um of eða kúgunin á efnaminni stéttunum keyrir úr hófi, er eigi gott að vita, hve lengi hann býður vinstri vangann eftir höggin á þann hægri.“Markmiðum sínum ætlaði flokkurinn að ná með tilstyrk verkalýðsfélaga, samvinnu í verslun og framleiðslu, og einnig fræðslustarfsemi, enda væri Alþýðuflokkurinn ekki hræddur við „dagsbirtuna, eins og íhaldsmenn eru hvarvetna í heiminum, er þeir reyna alls staðar að kyrkja hvers konar menningarstarfsemi meðal almennings“.21 Til skamms tíma vildi flokkurinn stuðla að því að ríkið yfirtæki sem mest af inn- og útflutningsversluninni og annaðist rekstur banka, stórútgerðar, tryggingastarfsemi og helstu samgöngutækja. Einnig bæri að vinna að því að koma á öflugum alþýðutryggingum hið fyrsta.22 Nýja stefnuskráin var stórt skref í átt til hefðbundinnar jafnaðarstefnu eins og hún var boðuð á Norðurlöndum en líka voru tekin af öll tvímæli um að flokkurinn væri róttækur jafnaðarmannaflokkur en ekki byltingarflokkur.23 En þegar á þessum árum var kominn upp ágreiningur innan flokksins um stefnu og áherslur, svipað og var í nálægum löndum. Þeim fræjum hafði verið sáð sem síðar leiddu til sundrunar hreyfingarinnar.

Alþýðublaðið 16. júní 1922, 1.
Alþýðublaðið 16. júní 1922, 1
Stefnuskrá Alþýðuflokksins á Íslandi 1922. − Sjá einnig Sigurður
Pétursson 1990, 145−153.
Sjá Ragnheiður Kristjánsdóttir 2008, 137−138.

Upphaf fundargerðar 1. sambandsþings ASÍ frá 19. nóvember 1916.

Sagt frá tengslum danskra og íslenskra jafnaðarmanna í Morgunblaðinu árið 1928.

Í stefnuskrá Alþýðusambandsins frá 1916 var þeirri skoðun lýst að deilur um framtíðarskipan á sambandi Íslands og Danmerkur skyldu lagðar til hliðar um sinn, enda hefði karpið litlu skilað um margra ára skeið. Þetta var djarft skref af hálfu Alþýðusambandsins, enda var sambandsmálið það málefni sem íslensk stjórnmál höfðu snúist um í áratugi. Þessi stefna birtist m.a. í blaðinu Dagsbrún. Árið 1915 sagði m.a. í blaðinu að enginn vafi léki á því að

í Reykjavík er fjöldi manns, sem er jafnaðarstefnunni fylgjandi, og sem er orðinn dauðleiður á gamla flokksþrefinu og deilunni við Dani, en sem sér að framtíð okkar Íslendinga er komin undir því að nú sé snúið sér með alvöru og áhugainnanlandsmálunum.24

Dagsbrún 30. júlí 1915, 14.

Röksemdir fyrir þessari stefnu áttu fullan rétt á sér og höfðu einhvern hljómgrunn. Annað mál er hvort þessi stefna sambandsins var pólitískt réttlætanleg.

Þegar á reyndi gat ASÍ alls ekki staðið til hliðar þegar sambandsmálið var annars vegar. Málefnið var einfaldlega í umræðu og nauðsynlegt var að taka afstöðu til þess. Fyrsta tilefnið var fánamálið. Í miðri fyrri heimsstyrjöldinni kom upp sú krafa að Íslendingar þyrftu að eignast sérstakan siglingafána og studdi forysta ASÍ þá kröfu árið 1917. Þessar umræður urðu til þess að forysta ASÍ sneri sér til bræðraflokksins í Danmörku og óskaði eftir viðræðum við hann um þessi mál og tengsl landanna en danski jafnaðarmannaflokkurinn átti um þetta leyti sæti í ríkisstjórn Danmerkur. Samþykkt ASÍ um þessi efni var send dönskum jafnaðarmönnum en auk þess fór fulltrúi sambandsins, Ólafur Friðriksson, til viðræðna við Dani. Sendiförin vakti nokkra athygli í Danmörku, viðtöl birtust við Ólaf í blöðum danskra sósíalista og Ólafur hitti forystu danskra jafnaðarmanna að máli. Morgunblaðið birti viðtölin og hafði meðal annars eftir honum að Íslendingar æsktu „eigi skilnaðar“ en fengju þeir ekki kröfum sínum framgengt varðandi fánamálið yrði örugglega meirihluti fyrir aðskilnaði. En fengju Íslendingar sérfána mundu þeir sætta sig við sambandið við Dani „þangað til hinn mikli dagur kemur að Ísland getur gengið sem sjálfstætt ríki inn í „Bandaríki Norðurlanda““ sem suma jafnaðarmenn dreymdi um.25

Morgunblaðið 25. maí 1918, 2−3.

Hjónin Carolíne Emilie Rosa Hendriksdóttir Siemsen og Ottó Nóvember Þorláksson.

Jón Baldvinsson, annar forseti ASÍ.

Í framhaldi af þessum umræðum beittu danskir jafnaðarmenn og danska ríkisstjórnin sér fyrir því að Íslandsmálin yrðu tekin upp að nýju og reynt að ná samkomulagi sem báðir aðilar gætu sætt sig við, en fram að þessu höfðu danskir kratar ekki haft mikinn áhuga á málefnum Íslands. Nefnd þingmanna var send til Íslands til þess að ræða málin og leita samninga við fulltrúa Alþingis Íslendinga og var einn nefndarmanna Borgbjerg, einn helsti leiðtogi danskra jafnaðarmanna og ritstjóri aðalmálgagns þeirra, Social-Demokraten.

Eitt helsta deiluefnið í viðræðum landanna var hinn svonefndi fæðingarréttur, hvort hann skyldi vera sameiginlegur eða ekki. Væri hann sameiginlegur höfðu þegnar beggja landa sama rétt í báðum löndunum. Danska sendinefndin lagði áherslu á að þessi réttur yrði að vera sameiginlegur en íslensku fulltrúarnir voru því mótfallnir. Alþýðusambandið/Alþýðuflokkurinn átti engan fulltrúa í sambandslaganefndinni en tók skýra afstöðu til málsins meðan viðræður nefnda beggja landa stóðu yfir í Reykjavík: „Fæðingarrétturinn sé sameiginlegur, sem frá sjónarhóli verkamanna verður að álíta undirstöðuatriði að sönnu þjóðarsambandi.“ Þá lagði sambandið mikla áherslu á aukið samstarf Norðurlandanna en ræddi um að andstæðingarnir hefðu lifað á „sjálfstæðisgaspri“.26 Hér beitti sambandið sér sem sagt gegn þeirri stefnu sem íslensk stjórnvöld og meirihluti Alþingis höfðu mótað en lagði fram stefnu sem byggðist á alþjóðahyggju jafnaðarmanna. Slík sjónarmið voru þó ekki ný af nálinni í röðum íslenskra jafnaðarmanna og birtust t.d. á síðum Alþýðublaðsins eldra árið 1907 þar sem hagsmunir alþýðufólks voru settir ofar en kröfur um sem mestan aðskilnað frá Dönum.27

Sjá Dagsbrún 9. júlí, 69 og 13. júlí, 71, 1918.
Alþýðublaðið 24. mars 1907, 21−22. − Ragnheiður Kristjáns-
dóttir ræðir þessi mál ítarlega, sjá bls. 101−124.

Ólafur Friðriksson.

Þessi stefna Alþýðusambandsins sætti gagnrýni innan veggja þess og eitt aðildarfélaganna, Félag bókbandssveina, samþykkti til dæmis að segja sig úr ASÍ af þessum sökum. Ýmsir framámenn í sambandinu, þar á meðal þingmaður þess, Jörundur Brynjólfsson, voru allt annað en ánægðir með þessa framgöngu. Andstæðingarnir drógu af þessu þá ályktun að Alþýðusambandið fengi fjárhagsstuðning erlendis frá og væri því í raun ekki sjálfs sín ráðandi heldur gengi það erinda annarra. Staðhæft var að sambandið fengi stuðning frá dönskum jafnaðarmönnum. Hefðu fyrstu „gullkrónurnar“ einmitt farið að streyma hingað til lands frá dönskum jafnaðarmönnum eftir þennan atburð. Síðar verður nánar rætt um þennan stuðning en Morgunblaðið benti á að stefna íslenskra jafnaðarmanna í sambandsmálinu hefði haft allt annað en jákvæð áhrif á stöðu íslensku samningamannanna þegar viðræður Dana og Íslendinga stóðu yfir og „okkur reið um fram alt á að allir stæðu saman um sjálfstæðiskröfurnar“; það var jafnvel minnst á „föðurlandssvik“.28 Blaðið kallaði forystumenn Alþýðuflokksins „styrkþegana dönsku“ sem hefðu gengið á mála hjá erlendum stjórnmálaflokki og Alþýðublaðið væri „málgagn danskra sóslíalista“.29 Jafnaðarmenn hefðu því í raun brugðist á örlagastundu og bæru ábyrgð á því að sett voru þau ákvæði að Danir sæju áfram um utanríkismál Íslendinga og hefðu hér sama rétt og íslenskir þegnar.30 Íslenskir jafnaðarmenn svöruðu fullum hálsi og kváðu stuðninginn vera hluta af alþjóðahyggju jafnaðarmanna og þeir hefðu ekkert að fela.31

Morgunblaðið 18. október 1927, 3. − Morgunblaðið 9. nóvember
1927, 3.
Morgunblaðið 20. maí 1928, 7. − Sjá einnig Morgunblaðið 15.
júní 1928, 3.
Morgunblaðið 8. febrúar 1931, 6−7.
Stefán Jóhann Stefánsson 1927, 2.

Upphaf fyrstu stefnuskrár Alþýðuflokksins og Alþýðusambandsins.

Ólafur Friðriksson var einn helsti forystumaður verkalýðshreyfingarinnar á fyrsta skeiði hennar og afar umdeildur eins og sést af þessum fregnmiða sem Ólafur eða stuðningsmenn hans hafa látið gera.

Sameiginlegur fæðingarréttur varð hluti sambandslaganna og íslenskir jafnaðarmenn höfðu mótað stefnu varðandi samskiptin við Danmörku, stefnu sem margir jafnaðarmenn og forysta Alþýðusambandsins átti eftir að fylgja um langt skeið. Samkvæmt þeirri stefnu skyldi reynt að draga úr vægi sjálfstæðisstjórnmála en auka hlut stéttastjórnmála. Þá stefnu túlkuðu andstæðingar jafnaðarmanna sem óþjóðlega, og því má velta fyrir sér hvort ekki hefði verið heppilegt af pólitískum ástæðum fyrir Alþýðusambandið að fara sér hægar í málinu, að minnsta kosti að spara yfirlýsingar meðan á viðræðum um fullveldi stóð.32 Hvað sem því líður átti þessi stefnumörkun eftir að hafa mikil áhrif; ef til vill átti hún sinn þátt í að íslenskum jafnaðarmönnum tókst ekki að ná eyrum almennings hér á landi í sama mæli og varð í nágrannalöndum Íslands.

Sjá m.a. Sigurður Pétursson 1990, 94−101.

Vörður

  • 1915 Útgáfa vikublaðsins Dagsbrúnar.
  • 1916 Verkamannalisti boðinn fram í Reykjavík í janúar.
  • 1916 Alþýðusambandið stofnað 12. mars af sjö verkalýðsfélögum, Dagsbrún, Framsókn, Hásetafélagi Reykjavíkur, Hásetafélagi Hafnarfjarðar, Bókbandssveinafélagi Reykjavíkur, Prentarafélaginu og Hlíf í Hafnarfirði.
  • 1916 Ottó N. Þorláksson kjörinn fyrsti forseti ASÍ.
  • 1916 (um haustið). Jón Baldvinsson kjörinn forseti.
  • 1922 Ný og róttæk stefnuskrá Alþýðuflokksins.

Næsti kafli

Skipulag ASÍ