Efnisyfirlit

Deila sögu ASÍ

Tímabilið fram til 1940

Duusbryggja í Reykjavík fyrir tíma hafnargerðar, snemma á 20. öld. Úti fyrir má sjá fiskiskútur og báta. Saltfiskur fluttur í land á handvögnum. Myndin lýsir frumstæðu samfélagi en samt höfðu orðið miklar breytingar frá því sem var nokkrum áratugum fyrr.

Atvinnubylting á Íslandi

Saga ASÍ: Í samtök › Tímabilið fram til 1940

Atvinnubylting á Íslandi

Það er engin tilviljun að verkalýðssamtök á Íslandi urðu til í kringum aldamótin 1900 en ekki 30 árum fyrr eða síðar. Ástæðan er sú að um þetta leyti urðu stórstígari breytingar á samfélaginu en nokkru sinni fyrr. Þær áttu sér vitaskuld aðdraganda, lungann úr 19. öldinni var atvinnulíf og samfélag að búa sig undir stóra stökkið um og upp úr aldamótunum 1900. Einkenni þessarar umbyltingar var áherslubreyting frá sveit til sjávar, fólksflutningar úr sveitum til bæja og myndun verkalýðsstéttar í þéttbýli. Þilskipaútgerð stórjókst á ofanverðri 19. öld og varð að stórútgerð síðustu tvo áratugi 19. aldar og ögn fram á hina 20. Til dæmis voru yfir 60 þilskip einungis við Faxaflóa árið 1902 og öflug útgerð var á Ísafirði og víðar á landinu.1 Í kjölfar hennar kom togaraútgerðin upp úr aldamótunum 1900 og útrýmdi hún nánast skútuútgerðinni á skömmum tíma. Víða um landið var einnig farið að reka mótorbáta með góðum árangri um þetta leyti. Rekstur þessara nýju atvinnutækja reyndist svo arðsamur að jafnvel togararnir voru greiddir upp á fáum árum.

Sjá m.a. Skúli Þórðarson 1967, 20. − Einnig Sigurður Péturs-
son 2011, 32. − Um fjölda þilskipa, sjá Hagskinna 1997, 310.

Verslun efldist, bæði innanlands og við útlönd. Peningastofnanir urðu til, sparnaður jókst og peningaviðskipti jukust smátt og smátt. Þéttbýlisstaðir uxu upp. Fyrir utan embættismenn bjuggu þar nú hinar nýju stéttir sem höfðu orðið til á síðari hluta 19. aldar, verkalýður, handverksmenn og borgarar. Síðastnefndi hópurinn lét sífellt meira til sín taka.

Stórfyrirtæki hófu rekstur í landinu. Sum voru alfarið erlend en önnur voru að minnsta kosti að hluta til í innlendri eigu, t.d. Milljónafélagið, en voru að mestu leyti fjármögnuð erlendis frá; Milljónafélagið var umsvifamikið verslunar- og útgerðarfyrirtæki sem rekið var um nokkurra ára skeið snemma á 20. öld. Erlent fjármagn streymdi inn í landið, bæði fyrir tilstuðlan erlendra fyrirtækja en líka vegna þess að stofnaður var nýr banki árið 1904, Íslandsbanki, sem var í fyrstu að mestu leyti í eigu danskra fjármálastofnana og einstaklinga. Mikið var byggt af íbúðarhúsum og atvinnuhúsnæði um þetta leyti og allmörg iðnfyrirtæki hófu rekstur á þessum árum, s.s. síldarverksmiðjur, ullarvinnsla og trésmiðjur. Samgöngur voru líka bættar mikið, lagðir vegir og byggðar brýr. Síminn tengdi landsmenn innbyrðis og við önnur lönd og strandsiglingar og millilandasiglingar jukust.2 Mest voru umsvifin á suðvesturhorni landsins, í Reykjavík og Hafnarfirði, en mikill kraftur var einnig í atvinnulífinu á Ísafirði, Akureyri og Seyðisfirði, svo að nokkrir staðir séu nefndir.

Sjá m.a. Sumarliði R. Ísleifsson 2007.

Annars staðar á landinu gengu breytingar þó hægar fyrir sig. Taka má Húsavík sem dæmi. Þar var stofnað verkamannafélag á öðrum áratugi 20. aldar. Félagið var vitaskuld hagsmunafélag gagnvart atvinnurekendum staðarins en stöðu þess og verkafólksins má m.a. marka af því að það vann einnig að því að útvega félagsmönnum hey, enda höfðu flestir þeirra nokkrar skepnur.

Bíldudalur kringum aldamótin 1900. Plássið er ekki stórt en var mikilvægur útgerðarstaður um þetta leyti. Það byggðist einkum í kringum starfsemi Péturs J. Thorsteinssonar. Með aukinni útgerð varð til stétt verkafólks til lands og sjávar. Sjómenn þurfti til að manna skipin og landverkafólk til þess að vinna aflann, og iðnaðarmenn urðu líka að vera til taks.

Á Húsavík og víðast á landinu voru skilin ekki skörp á milli sveitar og þéttbýlis langt fram eftir 20. öld og vitund verkafólks um stéttarstöðu óskýr. Vinnufólk hafði náin samskipti við húsbændurna, var á vissan hátt hluti fjölskyldunnar og margir vinnumenn vonuðust til að verða bændur; verkamenn stunduðu líka búskap og áttu kannski hlut í bát, og bændur voru líka verkamenn og jafnvel bátseigendur.3

Þór Indriðason 1996 I, 158−159. − Þór Indriðason 1996 II,
118−119.− Sjá einnig Guðmundur Jónsson 1981, 79−80.

Stétt verkafólks var orðin til um aldamótin 1900 en hún var ekki fjölmenn; sjómenn, iðnaðarmenn, verslunarfólk, daglaunamenn, fiskverkakonur og vinnustúlkur. Til sveita var vinnufólk enn fjölmennt en það þyrptist á mölina um þetta leyti. Það vildi losna úr sveitinni og koma undir sig fótunum annars staðar, ef ekki í Ameríku þá að minnsta kosti í Reykjavík, á Ísafirði eða Seyðisfirði. Samfélagsumræðan bar merki þessa. Í blöðum var skýrt frá mörgum dæmum þess að illa horfði vegna aðstreymis fólks úr sveitum til sjávarsíðu. „Búandkarl“ greindi frá því í Þjóðviljanum árið 1906 að nú væri komið svo við Djúp „að ungir menn mega varla heyra það nefnt, að taka við jörð og reisa bú, en að komast í þurrabúð og fá sér mótorbát, það eru hin dýrmætustu hnoss lífsins í augum margra“.4 Bændur kvörtuðu undan vinnuaflsskorti en atvinnuskortur var víða í bæjum, að minnsta kosti árstíðabundið. Þá vantaði einnig sárlega húsnæði handa öllu því fólki sem flutti í þéttbýli.

Þjóðviljinn 6. október 1906, 182.

Alþýðublaðið eldra dró fram sjónarmið vinnufólksins:

Það sem fælir vinnufólkið úr sveitunum og rekur það til kaupstaðanna, er ekki langur vinnutími, lágt kaup, fámenni og einangrun, heldur óreglan á vinnutímanum og ófrelsið. Það eru svo sorglega mörg vinnuhjú, sem eru þrælar húsbænda sinna að öllu öðru en nafninu.5

Alþýðublaðið 4. mars 1906, 26.

Um þetta leyti var mikið rætt um hvort auka ætti frelsi vinnufólks til þess að velja sér búsetu og hvort svipta ætti sveitarstjórnir því valdi að ákveða hvort vinnufólk fengi húsmennskuleyfi eða ekki og þar með leyfi til setjast að þar sem það taldi framtíðarmöguleika sína besta. Um þetta voru andstæðar skoðanir. Sumir vildu engar tilslakanir gera og töldu hættu á ofstreymi fólks til sjávarsíðunnar ef dregið væri úr hömlunum, endu ættu þeir sem þyrftu að njóta aðstoðar, „bjálfarnir og ónytjungarnir sem eru öðrum til þyngsla … alls ekki að hafa eins mikil rjettindi í mannfélaginu, eins og atorku- og iðjumennirnir“, eins og Guttormur Vigfússon alþingismaður orðaði skoðanir sínar árið 1895.6 Sumir aðrir alþingismenn, t.d. Þorkell Bjarnason, voru á algerlega öndverðri skoðun og töldu það hverjum manni

Alþt. 1895 B, 311, 318.

Frá hafnargerðinni í Reykjavík árið 1914. Efni flutt á vögnum á spori, enda var lögð járnbraut að höfninni úr Öskjuhlíð til þess að flytja efni þangað. Menn að hræra steypu hægra megin við teinana. Ofarlega á hafnargarðinum má sjá konu á gangi. Ef til vill var hún að færa bónda sínum mat. Togarar eru úti á höfninni, tákn hins nýja tíma. Þegar þarna var komið sögu var togaraútgerð orðin ein helsta undirstaða atvinnulífs í bænum.

fyrir bestu að hafa sem fullkomnast frelsi, að mega vera hvar sem hann vill, vinna hvar sem hann vill o.s.frv. … Það er ekki hægt að gjöra menn duglega með því að leggja hömlur á atvinnu þeirra … Væru þessi óeðlilegu bönd numin burtu, gætu menn strax flutt burtu af einum stað, þar sem þeim er farið að vegna miður vel, á annan stað, þar sem þeir geta gjört sjer vonir um betri kjör t.d. hjeðan og vestur á land.7

Alþt. 1895 B, 307−310.

Samfélagið var því í mikilli gerjun á þessum tíma. Öndverð sjónarmið tókust á, fulltrúar gamla og nýja tímans. En hjólið varð ekki stöðvað. Vistarbandið – en samkvæmt því bar þeim sem ekki stóðu sjálfir fyrir búi að vera í vinnumennsku – var rýmkað mjög með lagabreytingu árið 1893. Með henni var hverjum þeim sem var orðinn 22 ára heimilt að kaupa sér leyfisbréf til þess að vera í lausamennsku gegn lágu gjaldi.8 Reglur um vistarskyldu voru svo rýmkaðar með lögum sem tóku gildi árið 1907. Þær voru þó enn strangar sem sjá má af því að einstaklingur ávann sér framfærslurétt í tilteknu sveitarfélagi þegar viðkomandi hafði dvalið þar í tíu ár samfleytt eftir 16 ára aldur.9 Þegar lögin voru samþykkt hafði meirihluti milliþinganefndar sem fjallaði um frumvarpið aðhyllst þá skoðun að stytta bæri þennan tíma í tvö ár en meirihluti Alþingis féllst ekki á þau viðhorf. Þau sjónarmið komu fram að yrði „sveitfestitíminn“ færður niður í tvö ár, „muni hinn illræmdi hrakningur þurfalinga eigi minka heldur vaxa stórum, því að það liggur í augum uppi, að því styttri sem fresturinn er, því optar muni hreppsnefndir amast við þeim, er þær eru hræddar um, að þeir verði sveitarfjelaginu til byrðar, ef þeir verði sveitlægir“.10

Guðmundur Jónsson 1981, 73.
Stjt. 1905, 276.
Alþt. 1905 B, 1430−1431.

Íslenskt samfélag breyttist mikið á áratugunum í kringum aldamótin 1900. Atvinnulíf varð fjölbreyttara, nýjar starfsstéttir komu til sögu og fólk sótti í þéttbýli. Efsta myndin sýnir lýsis- eða grútarbræðslu á ókunnum stað, starfsemi sem þótti afar óhreinleg. Að neðan til vinstri eru vélsmiðir á Akureyri að störfum, allt tákn um breytta tíma frá því sem verið hafði þegar landbúnaður var helsta atvinnugreinin. Til hægri er verið að breiða eða taka saman saltfisk á Hellissandi, einu af mörgum sjávarþorpum sem spruttu upp um þetta leyti.

Togarinn Njörður RE 36. Skipið þjónaði lengi hér við land en var keypt hingað nýtt árið 1920. Íslensk iðnbylting varð ekki í því formi að hér risu verksmiðjur heldur voru togarararnir fulltrúar hennar og togarasjómenn einn mikilvægasti hluti hinnar nýju verkalýðsstéttar.

En reglurnar voru komnar á skjön við veruleikann á þessum tíma. Vistarbandið var hætt að halda og á 19. öld og öndverðri 20. öld brutu fjölmargir lögin og héldu til kaupstaðanna þar sem fólk reyndi að skapa sér lífsgrundvöll.11 Verkalýðsstéttin varð til, ný stétt sem varð að skapa sér sína eigin tilveru, nánast réttlaus og gerði litlar kröfur. Hún vildi vinna og komast einhvern veginn af en spurði fyrst í stað lítt um vinnutíma, aðbúnað eða hvíldartíma enda ekki fastar reglur um slíkt til lands eða sjávar.12 En það breyttist og óskir komu brátt fram um að settar yrðu einhverjar reglur um vinnu verkafólks og endurgjald fyrir störf þess. Hvernig það gerðist er helsta viðfangsefni þessa verks.

Guðmundur Jónsson 1981, 18. − Jón Gunnar Grjetarsson 1993,
215, 220.
Jón Gunnar Grjetarsson 1993, 221−222.

Barátta fyrir breytingum var erfið, sérstaklega í fyrstu. Verkafólkið var ekki „stéttvíst“. Það fann oftar en ekki lítt til sameiginlegra hagsmuna með öðru verkafólki og orðræða um fólk af þessu tagi var vart til. Sú orðræða mótaðist á fyrstu áratugum 20. aldar. Vinnustaðirnir voru flestir smáir, vinna var stopul og mikil hreyfing á vinnuaflinu. Sjómenn og verkafólk fór á vertíðir og var þar í skamman tíma en var svo horfið á heimaslóðir, oft í sveitina sína.13 Það þurfti meiri stöðugleika og stærri atvinnutæki til þess að öflug verkalýðshreyfing gæti orðið til. Þau tæki komu líka fljótlega eftir aldamótin 1900 – togarar. Stóraukin útgerð, stórútgerð, gerbreytti lífinu í landinu. Með öflugri atvinnutækjum fékkst miklu meiri afli. Hann sexfaldaðist til dæmis á árabilinu 1905 til 1940 að magni til.14 Til þess að verka allan þennan afla þurfti margt verkafólk. Það settist að í þorpum og bæjum víða um land. Hlutfall fólks í þéttbýli og dreifbýli breyttist því einnig mikið. Um fimmtungur landsmanna bjó í þéttbýli um aldamótin 1900, á stöðum þar sem voru 200 íbúar eða fleiri, en árið 1940 var þetta hlutfall orðið tveir þriðju.15 Til marks um breytingarnar má einnig taka fólksfjölgun í Reykjavík. Íbúar bæjarins voru tæplega 3900 árið 1890 en tæplega 6700 árið 1901. Árið 1920 hafði íbúafjöldinn nálega þrefaldast og var nærri 18000. Á næstu 20 árum meira en tvöfaldaðist fjöldi íbúanna og var ríflega 38000 árið 1940.16 Um aldamótin 1900 höfðu um 60% landsmanna viðurværi sitt af landbúnaði en árið 1940 var þetta hlutfall komið niður í tæp 32% og 15% árið 1960. Á sama tíma fjölgaði þeim mjög sem störfuðu við iðnað ýmiss konar og þjónustu.17 Á þessu tímabili urðu hinar nýju stéttir samfélagsins til, verkakarlar í landvinnu, t.d. byggingarvinnu og vegagerð, sjómenn, iðnaðarmenn, verslunarfólk, iðnverkafólk, bæði karlar og konur, verkakonur í fiskverkun, vinnukonur og fólk í opinberri þjónustu, svo nefndir séu nokkrir hópar.

Theódór Friðriksson 1977, 474.
Hagskinna 1997, 320.
Hagskinna 1997, 123.
Hagskinna 1997, 87.
Hagskinna 1997, 217.

Með auknu þéttbýli varð aukin verkaskipting möguleg og sérverslanir spruttu upp, t.d. Smjörhúsið í Reykjavík sem var starfrækt í Hafnarstræti 22. Hér sjást starfsstúlkur í versluninni um eða eftir 1910. Fleira var selt þar en smjör af ýmsu tagi, m.a. egg en líka könnur, bollar og fleira þarflegt.

Fólk þyrptist að sjónum til að fá vinnu. Karlarnir sóttu sjóinn og einhverja karla þurfti í landi til að stússa í kringum útgerðina. Karlar unnu líka við upp- og útskipun. Svo voru þeir verslunarþjónar. Þá þurfti nokkra iðnlærða menn, aðallega trésmiði en síðar einnig járnsmiði og vélsmiði eftir að vélvæðing jókst. Konur, unglingar, börn og eldra fólk sá hins vegar um verkunina á aflanum en langmest var verkað í salt fram á fjórða áratug 20. aldar. Vinnan fólst í því að vaska fiskinn, salta og þurrka með því að breiða hann á stakkstæðum, og fjöldi kvenna vann við að salta síld. En konur störfuðu líka við upp- og útskipun fram eftir 20. öld. Svo réðu þær sig sem vinnukonur þar sem þær sinntu matseld, þrifum, saumaskap og barnagæslu, oft barnungar.18 Vinnukonur voru fjölmennar á öndverðri 20. öld en fækkaði þó hratt eftir því sem leið á öldina. Á hinn bóginn fjölgaði þeim konum sem unnu við iðnað, opinbera þjónustu og verslun, enda jókst mjög hlutur þessara atvinnugreina, ekki síst eftir 1930. Hefðbundin kvennastörf urðu að atvinnugreinum, umönnun sjúkra, barna, jafnvel heimilisstörf, matseld og margvíslegur iðnaður, t.d. klæðagerð.

Sjá m.a. Þorvaldur Kristinsson 1994, 28−29.

Á Höfnersbryggju á Akureyri, á millistríðsárunum, í miðri síldarvertíð. Vinnan var árstíðabundin. Stundum var nóga vinnu að hafa, t.d. á síldarvertíð, og oft var unnið sleitulaust til þess að bjarga aflanum. Því fylgdi mikið álag á verkafólkið, einkum konurnar sem störfuðu við söltunina.

En vinna margra var stopul, hún var bundin við árstíðir eins og aflinn og einungis unnið þegar kallað var eftir fólki til vinnu. Mest var að gera í landi á sumrin, um hábjargræðistímann frá maí og fram í ágúst, fyrir konurnar en vinnan stóð heldur lengur fyrir karlana. Svo var alltaf eitthvað um byggingarvinnu og vinnu við slátrun á haustin. Vegavinnu var stundum að fá á sumrin. Iðnaðarmenn gátu jafnvel haft vinnu allt árið og líka verslunarþjónarnir. Frá nóvember og fram í apríl var hins vegar oftast lítið að hafa fyrir landverkafólk.19

Sjá m.a. Bjarni Guðmarsson 1997, 102−103. − Einnig Arnþór
Gunnarsson 1997, 212 og áfram.

Næsti kafli

Verkalýðshreyfing verður til