Efnisyfirlit

Deila sögu ASÍ

Tímabilið fram til 1940

Starfsfólk sælgætisverksmiðjunnar Lindu á Akureyri að störfum, líklega í kringum 1960.

Yfirlit

Saga ASÍ: Til velferðar

Yfirlit

Verkalýðsfélög og stofnanir

Fyrstu verkalýðsfélögin voru stofnuð hérlendis kringum 1890 en urðu skammlíf. Frá og með stofnun Bárufélaganna (hið fyrsta 1894) má rekja samfellda sögu verkalýðsfélaga hér á landi. Enn er starfandi félag (í sveitarfélaginu Árborg) sem á rætur að rekja til fyrstu Bárufélaganna (Bárunnar á Eyrarbakka). Bárufélögin voru félög sjómanna, en um og eftir aldamótin 1900 komu smám saman til sögunnar nokkur félög landverkafólks í helstu bæjum landsins, í Reykjavík, Hafnarfirði, á Ísafirði, Akureyri og á Seyðisfirði. Fyrsta skeiðið voru félögin undir áhrifum frá bindindishreyfingunni. Þessi félög nutu oft forystu fólks sem hafði dvalið erlendis eða þekkti til starfsemi stéttarfélaga í öðrum löndum.

Kalla má tímabilið fram til 1916 bernskuskeið verkalýðshreyfingarinnar, en þegar nokkuð var liðið á fyrsta áratug 20. aldar tókst að stofna félög sem héldu velli. Þá fetaði hreyfingin sín fyrstu skref, tilraunir voru gerðar til að beita verkfallsvopninu og a.m.k. sum félaganna fengu atvinnurekendur til að fallast á kröfur sínar og þar með að viðurkenna tilvist viðkomandi félaga. En enn var þó langt í land að verkalýðshreyfingin hlyti almenna viðurkenningu. Á þessum tíma var lögð áhersla á sjálfsþurftarbúskap verkafólks, stofnuð voru pöntunarfélög og reynt var að setja reglur um vinnutíma og launagreiðslur. Þá komu verkalýðsfélögin sér upp styrktarsjóðum af ýmsu tagi fyrir félagsfólk sitt.1

Sjá einnig Magnús S. Magnússon 1985, 169.

Nýtt skeið hófst þegar Alþýðusambandið var stofnað 12. mars 1916 sem heildarsamtök verkafólks, og jafnframt stjórnmálaflokkur þess, undir nafni Alþýðuflokksins. Stofnendur voru sjö félög í Reykjavík og Hafnarfirði. Þar af var eitt félag verkakvenna. Stefnuskrá sambandsins var hægfara í fyrstu en ný og róttækari stefnuskrá var samþykkt árið 1922 sem var meira í anda jafnaðarstefnu þess tíma. Alþýðusamband/Alþýðuflokkur beittu sér fyrir því að stéttastjórnmál yrðu meginviðfangsefni íslenskra stjórnmála.

Skipulagsmál hjá ASÍ voru í stuttu máli þannig að þing kaus sambandsstjórn sem var æðsta valdastofnun sambandsins, a.m.k. formlega á milli þinga sem komu að jafnaði saman á tveggja ára fresti. Þingin voru mikilvægustu fundir ASÍ, þar var forystan kosin og línur lagðar. Miðstjórnin var helsta valdastofnun sambandsins. Auk þess voru starfandi verkamálaráð og stjórnmálaráð (frá 1927) sem sáu um stefnumótun og voru leiðandi á þeim sviðum. Grundvallarbreyting varð á skipulagi ASÍ við aðskilnað stjórnmálaflokksins og verkalýðssambandsins árið 1940.

Alþýðusambandið var þannig skipulagt að það var samband stéttarfélaga sem höfðu fullt sjálfræði í sínum málum. Miðstýringarvald sambandsins var takmarkað og mun minna en tíðkaðist yfirleitt í nálægum löndum. Aðildarfélög voru bundin við starfsgreinar, staði og kynferði. Fjórðungssambönd tilheyrðu skipan ASÍ frá 1925. Rekstur þeirra og samstarf við ASÍ gekk þó misjafnlega, bæði vegna pólitísks ágreinings og fámennis. Öflugust voru Verklýðssamband Norðurlands og Verklýðssamband Vesturlands (síðar Alþýðusamband Vestfjarða). Fyrir utan nokkur félög í Reykjavík voru aðildarfélögin fremur eða mjög fámenn fyrstu áratugina eftir að ASÍ tók til starfa. Þar sem ekki voru starfandi starfsgreinafélög voru stærri félög oft deildaskipt eftir starfsgreinum og kynjum, en félögum í iðnaði og þjónustu fjölgaði eftir 1930.

Fyrir 1930 voru verkalýðsfélög nánast eingöngu félög erfiðisvinnufólks í frumvinnslugreinum, ólíkt því sem var í nágrannalöndunum þar sem iðnaðarmenn og iðnverkafólk var kjarni hreyfingarinnar. Á fjórða áratugnum lagði ASÍ kapp á að skipuleggja almennt verkafólk utan helstu þéttbýlisstaða í stéttarfélög, en fyrir 1930 höfðu verið stofnuð félög þeirra starfshópa í stærstu stöðunum. Eftir 1930 fóru fleiri hópar að stofna stéttarfélög, iðnaðarmenn, iðnverkafólk og fólk við þjónustu- og umönnunarstörf. Ekki tókst þó að fá verslunarmenn í félög sem tengdust ASÍ nema að litlu leyti. ASÍ átti víða frumkvæði að því að stofna stéttarfélög og hafði erindreka að störfum frá því snemma á þriðja áratugnum í því skyni. Félögum í ASÍ hafði fjölgað hægt og bítandi á þriðja áratugnum og voru þeir orðnir um 6000 árið 1930 en fjölgaði hraðar eftir það á öndverðum fjórða áratugnum, enda fengu mörg félög viðurkenndan forgangsrétt til vinnu á þeim tíma. Allmörg félög stóðu utan ASÍ, flest af pólitískum ástæðum. Auk þess voru jafnaðarmannafélög starfandi innan ASÍ/Alþýðuflokks fram til 1940. Eftir 1940 fjölgaði félögum innan ASÍ hratt og verkalýðshreyfingin náði til flestra hópa og landshluta, að undanskildu verslunarfólki og víða stóðu konur utan hreyfingarinnar.

Atvinnurekendur tóku verkalýðsfélögum ekki fagnandi og töldu þau til óþurftar. Í fyrstu var því tvíbentur ávinningur af því að vera í verkalýðsfélagi. Algengt var að fólk sem stóð framarlega í baráttunni ætti í erfiðleikum með að fá vinnu, jafnvel um langt skeið. Stærri félögin fengu mörg hver viðurkenningu á tilvist sinni og rétti til að gera samninga á fyrstu starfsárum sínum, en það gilti síður um minni félög úti á landi. Þau stóðu enn í baráttu fyrir viðurkenningu á fjórða áratugnum og varð sú barátta sums staðar mjög hörð. Stóru verkalýðsfélögin náðu fram kröfu sinni um forgangsrétt til vinnu um og eftir 1930 og hin minni komu smám saman í kjölfarið. Við þetta fjölgaði mjög í félögunum, það var orðið hagsmunamál að vera í þeim en utanfélagsfólk fékk síður vinnu. Eftir því sem frá leið urðu augljósari ávinningar af því að vera í stéttarfélagi. Laun hinna skipulagsbundnu voru hærri en þeirra sem stóðu utan félaga og skipulagsbundið fólk hafði margvísleg réttindi sem aðrir höfðu ekki.

Með þessu var verkalýðshreyfingin komin í valdastöðu og á fjórða áratugnum var hún orðin ein af helstu valdastofnunum samfélagsins. Samskipti aðila á vinnumarkaði breyttust með setningu vinnulöggjafarinnar árið 1938. Lögin voru umdeild en forysta ASÍ studdi samþykkt þeirra. Þau takmörkuðu starf hreyfingarinnar að vissu leyti en veittu henni líka mikil réttindi, fyrir utan að hún og baráttuaðferðir hennar voru formlega viðurkennd með vissum skilyrðum þó.

Róttæk skipulagsbreyting var gerð á ASÍ árið 1940 með aðskilnaði ASÍ og Alþýðuflokks. Í kjölfarið komu einnig fram hugmyndir um að ástæða væri til að breyta skipulagi sambandsins og styrkja grunneiningar þess með því að sameina einstök félög. Þessar hugmyndir voru þó lítið ræddar, enda höfðu menn um annað að hugsa eftir að kalda stríðið skall á undir 1950 og barátta jafnaðarmanna og sósíalista harðnaði. Þróunin varð jafnvel sú að smáfélögum fjölgaði innan sambandsins.

Um miðjan sjötta áratuginn var á ný farið að ræða um skipulagsmál ASÍ og nauðsyn þess að umbylta skipulagi þess. Nefnd var sett í málið og lagði hún til annars vegar að stofnuð yrðu staðbundin atvinnugreinafélög sem hefðu vinnustaðinn sem grunneiningu. Hinn meginkosturinn var atvinnugreinasambönd sem væru aðilar að ASÍ en einstök félög ættu aðild að samböndunum. Þrátt fyrir mikið undirbúningsstarf tókst ekki að koma þessum tillögum fram að sinni. Sérstaklega voru verkakvennafélögin andvíg þessum breytingum, enda var gert ráð fyrir að félög verkamanna og verkakvenna yrðu sameinuð. Landsbyggðarfélög voru líka sum hver andstæð þessum breytingum og töldu að verið væri að færa vald til Reykjavíkur með því að draga úr vægi svæðasambanda.

Verslunar- og skrifstofufólk hafði átt fulltrúa innan ASÍ frá fjórða áratugnum en fæst af launafólki í verslun var þó starfandi í eiginlegum stéttarfélögum. Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur var breytt í launþegafélag árið 1955. Félagið hafði lýst áhuga sínum á að koma inn í ASÍ (1952), en ekki varð af inngöngu þá. Þegar Landssamband íslenskra verzlunarmanna, sem VR var burðarásinn í, óskaði eftir aðild að ASÍ árið 1960 var aðildarbeiðninni hafnað en Félagsdómur kvað upp þann úrskurð að ASÍ yrði að taka við sambandinu. Það var loks gert árið 1964. Ástæða þess að lítill vilji var fyrir því að fá verslunar- og skrifstofufólk inn í ASÍ var sú að rótgrónir fordómar voru í garð þessara starfshópa, en pólitík skipti einnig miklu máli. Forysta verslunarfólks tilheyrði Sjálfstæðisflokknum um þetta leyti en Alþýðubandalagið var ráðandi innan ASÍ.

Starfsstúlkur í eldhúsi, líklega á spítala í Reykjavík. Þrátt fyrir að þær ynnu hjá hinu opinbera tilheyrðu þær ekki stéttarfélagi opinberra starfsmanna heldur hafa þær væntanlega verið í Sókn sem átti aðild að ASÍ.

Ýmsar aðrar hræringar urðu í skipulagsmálum ASÍ á þessum tíma. Nokkur félög karla og kvenna sameinuðust á sjöunda áratugnum, ekki þó mörg. Í kjölfarið varð síðan víðtæk sameining félaga á Eyjafjarðarsvæðinu. Hugmyndin um að gera vinnustaðinn að grunneiningu í hinu félagslega starfi gekk á hinn bóginn gegn hálfrar aldar hefðum og hagsmunum einstakra aðildarfélaga og takmarkaður áhugi reyndist fyrir svo byltingarkenndri hugmynd. Landssambönd innan ASÍ voru stofnuð á sjöunda og áttunda áratugnum. Þessi sambönd höfðu þó ekki þann þunga innan starfsemi ASÍ sem til hafði verið ætlast í fyrstu. Þau efldust þó með árunum en urðu ekki formlega skipulagsgrunnur ASÍ fyrr en árið 1992. Árið 2000 var landsfélögum síðan heimiluð aðild, og einstökum félögum á ný árið 2010. Ástæðan var sú að einstök félög höfðu verið að stækka og styrkjast og virtust sum hver vera að yfirtaka hlutverk landssambanda. Einstök félög fóru líka með samningsvaldið og það dró úr vægi sambandanna.

Um 1990 var farið að sameina verkalýðsfélög í meira mæli en áður. Undir aldamótin 2000 runnu helstu félög almenns verkafólks í Reykjavík saman og víða um landið voru félög sameinuð, jafnvel í heilu landsfjórðungunum. Verkakvennafélögin lögðust einnig af sem sjálfstæðar einingar á þessum tíma þegar þau sameinuðust öðrum félögum í skyldum greinum. Árið 2010 áttu sjö landsfélög aðild að ASÍ og fimm landssambönd. Talið var að stærri einingar hefðu marga kosti fram yfir minni félög. Unnt væri að veita betri þjónustu, sjóðir félaganna efldust og sérfræðiþekking innan félaganna yrði meiri.

Allt frá því að vinnulöggjöfin tók gildi hérlendis árið 1938 hafði í raun verið skylduaðild að verkalýðsfélögunum, þó að svo væri ekki formlega, og með lögum um starfskjör frá 1980 var öllum skylt að greiða félagsgjald til stéttarfélaganna. Í kjölfar dómsúrskurða og álitsgerða alþjóðastofnana á tíunda áratugnum komu fram efasemdir um hvort rétt væri að málum staðið hérlendis í þessum efnum. Eftir umræður innan verkalýðshreyfingarinnar var sú stefna tekin að halda bæri fast við forgangsréttarákvæði og ákvæði um greiðsluskyldu, enda væri verið að greiða fyrir veitta þjónustu. Hins vegar væri aðild að félögunum frjáls.

Á ofanverðri 20. öld fækkaði fólki í verkalýðshreyfingunni víða um lönd. Staðan var þó mjög ólík eftir löndum. Þátttaka í verkalýðsfélögum var langmest á Norðurlöndunum. Ísland var þar efst á lista þar sem rúmlega fjórir fimmtu hlutar launafólks áttu aðild að þeim. Sums staðar er þátttaka í verkalýðsfélögum langtum minni og í sumum Evrópulöndum sáralítil.

Kjör og kjaramál

Alþýðusambandið var stofnað í miðri styrjöld, 1916. Á fyrstu starfsárum sambandsins versnuðu kjör fólks mjög vegna dýrtíðar. Kjörin bötnuðu þó eftir styrjöldina. En eftir 1920 reyndu atvinnurekendur víða um land að fá launin lækkuð í kjölfar efnahagskreppu og stóð sú senna fram á síðari hluta áratugarins. Staða mála batnaði undir lok áratugarins og laun hækkuðu, en í efnahagskreppunni á fjórða áratugnum var stöðugt stríð um launin, enda höfðu atvinnurekendur tilhneigingu til að lækka laun á þessu tímabili. Verkalýðshreyfingunni tókst ágætlega að koma í veg fyrir það. En þeir sem höfðu stopula eða enga vinnu voru illa settir og konur höfðu mun lægri laun en karlar. Verkalýðshreyfingin lagði mikla áherslu á sjálfshjálp og sjálfsþurft á millistríðsárunum. Alþýðufólk var hvatt til garðræktar og pöntunarfélög og kaupfélög, tengd verkalýðshreyfingunni urðu víða til. Fyrirmyndir voru fengnar frá hinum Norðurlöndunum. Skepnuhald var líka algengt. Flestir reyndu að búa að sínu eins og hægt var. Verkalýðshreyfingin rak líka fyrirtæki sem hugsuð voru almenningi til hagsbóta og hið sama gerðu bæjarfélög sem jafnaðarmenn stjórnuðu. Þá setti hreyfingin fram kröfur um atvinnubótavinnu fyrir hina atvinnulausu, en þó einkum karla.

Í fyrstu var ekki um eiginlega kjarasamninga að ræða á milli launafólks og atvinnurekenda. Verkalýðsfélögin auglýstu einfaldlega taxta sína. En fljótlega var þó farið að gera samninga um laun og önnur kjör. Ekki var þó um formlega milligöngumenn að ræða fyrr en embætti ríkissáttasemjara var stofnað árið 1925. Afskipti ASÍ af kjaradeilum fyrstu áratugina fólust í því að veita aðstoð við samningagerð, ef samningar höfðu ekki tekist, og að stuðla að gerð samninga hjá nýjum og óreyndum stéttarfélögum, sem og að fá fram viðurkenningu á þeim, fyrir utan margvíslega upplýsingagjöf og aðra aðstoð við einstök félög. Fyrst og fremst var ASÍ mikilvægur bakhjarl einstakra félaga á millistríðsárunum. Sambandið var tákn um gildi samstöðunnar og þangað gátu aðildarfélög leitað ef nauðsyn bar til og fengið stuðning til þess að leiða deilumál til lykta.

Gripið var til margvíslegra ráðstafana við efnahagsstjórn ríkisins á fyrstu árum seinni heimsstyrjaldarinnar 1939–1945. Meðal þeirra voru svokölluð gerðardómslög sem takmörkuðu launa- og verðbreytingar. Verkalýðshreyfingin sætti sig ekki við lögin, enda var mikil eftirspurn eftir vinnuafli á þessum tíma, og tók hún upp svonefndan smáskæruhernað gegn lögunum. Verkalýðshreyfingin hafði sigur, ákvæði laganna um kaupgjald voru afnumin. Í kjölfarið náði hreyfingin fram gríðarlegum kjarabótum.

Kaupmáttur hélt áfram að aukast fram á árið 1947 en eftir það breyttust aðstæður og verkalýðshreyfingin háði varnarbaráttu um árabil sem miðaði að því að reyna að viðhalda því sem áunnist hefði. Hörð kjaraátök urðu á fyrri hluta sjötta áratugarins. Eftir að vinstri stjórn Hermanns Jónassonar tók við völdum árið 1956 breyttust viðhorf í kjaramálunum og ASÍ sætti sig við efnahagsaðgerðir sem höfðu áhrif á kaupmátt launa. En samstarf verkalýðshreyfingarinnar og stjórnvalda hélt ekki nema í tvö ár og þegar samstaðan rofnaði féll ríkisstjórnin. Eitt helsta viðfangsefni hreyfingarinnar á þessum tíma var að jafna kjör verkakarla á landsvísu svo að kauptaxtar væru sem líkastir hvar sem væri á landinu.

Eftir myndun Viðreisnarstjórnarinnar 1959 urðu hörð átök á milli verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin bannaði verðbætur á laun og kjörin versnuðu mikið af þeim sökum. Á fyrstu árum sjöunda áratugarins var tekist hart á um kjörin, verkalýðshreyfingin knúði fram kjarabætur með verkföllum, en stjórnvöld skertu kjörin jafnóðum með gengisfellingum.

Verkalýðshreyfingin, eða hlutar hennar, hafði sýnt skilning á því að kaupmáttur væri það sem skipti máli en ekki aðeins launahækkanir, í honum fælust hinar raunverulegu kjarabætur sem bæri að krefjast. Þau mark mið voru þó oft lögð til hliðar vegna þess að hreyfingin var hluti af hinu pólitíska kerfi á þessum tíma, og barátta gegn tilteknum ríkisstjórnum og stjórnmálaflokkum varð iðulega mikilvægari en hin eiginlega kjarabarátta. Oft beittu andstæðar fylkingar yfirboðum í kjarabaráttunni. Einkum var þetta skýrt í kalda stríðinu. Þetta breyttist þó á sjöunda áratugnum. Þau sjónarmið urðu algengari innan verkalýðshreyfingarinnar að gera yrði málamiðlanir og líka ætti að vera unnt að vinna með ríkisstjórnum sem hægrimenn leiddu. Samstarf náðist á milli verkalýðshreyfingarinnar og stjórnvalda eftir 1963 um að fara aðrar leiðir í kjarabaráttunni en verið hefði um skeið – að semja fremur um kaupmátt en kauphækkanir. Viðhorfin á milli aðila breyttust og sjónum var beint að öðrum þáttum sem skiptu miklu máli fyrir lífskjör fólks, ekki síst húsnæðismálum. Þá málaflokka hafði verkalýðshreyfingin í raun vanrækt í áratugi.

Hagræðing í atvinnulífi og afkastahvetjandi launakerfi voru einn liður í samráði verkalýðshreyfingar, atvinnurekenda og stjórnvalda á þessum tíma. Fyrirmyndin kom frá Bandaríkjunum og hinum Norðurlöndunum. Þessi launakerfi breiddust hratt út og urðu allsráðandi í fiskiðnaði og fleiri greinum, einkum á vinnustöðum kvenna. Miklar umræður urðu þó innan verkalýðshreyfingarinnar um ágæti þessa og sýndist sitt hverjum. Samráðið á sjöunda áratugnum birtist líka í því að komið var á fót stofnunum og ráðum sem öfluðu og veittu upplýsingar um stöðu efnahags- og kjaramála og stuðluðu að aukinni atvinnu (Kjararannsóknanefnd, Efnahagsstofnun, Hagráð, atvinnumálanefndir).

Kjörin versnuðu á ný á kreppuárunum 1967–1969 og atvinnuleysi varð verulegt. En kreppan stóð ekki lengi og um og eftir 1970 var kominn tími til að bæta kjörin. Samhliða (1971) tók við vinstri stjórn, en vinstri öflin (fyrir utan Alþýðuflokkinn) höfðu verið utan ríkisstjórnar um árabil. Kaupmáttur jókst hratt á þessum árum. En það gerði verðbólgan líka og stefndi allt í óefni þegar vinstri stjórnin féll undir mitt ár 1974. Ekki náðist samstaða á milli verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstjórnarinnar um hvaða leiðir væru helst færar til lausnar þeim efnahagsvanda sem við var að glíma. Í hönd fór mikil kjaraskerðing og bann við vísitölubindingu launa. Það sem áunnist hafði árin á undan hvarf.

Í sólstöðusamningunum 1977 urðu miklar launahækkanir með skýrum verðbótaákvæðum. En allt fór á sömu leið og verið hafði. Samningarnir stóðu ekki lengi og verðbætur voru skertar. Á þessu gekk næstu árin. Ríkisvaldið hafði afskipti af kjarasamningum og gengisbreytingar urðu einn helsti þáttur efnahagsstjórnunar. Samhliða var þó samið um margvíslegar réttindabætur verkafólki til handa gegn því að slegið væri af kjarakröfum. Á þann hátt náði verkalýðshreyfingin mikilsverðum árangri í ýmsum félagslegum réttindamálum fólks. En auknar kröfur um félagsleg réttindamál voru líka til komnar vegna þess að innan hreyfingarinnar ríkti meiri skilningur á mikilvægi þeirra mála. Samflotin svokölluðu, aukið samstarf innan verkalýðshreyfingarinnar, hafði einnig sömu áhrif.

Árið 1983 gengu stjórnvöld svo langt að kjarasamn ingar voru bannaðir um skeið. Mikilvægustu réttindi verkalýðshreyfingarinnar voru af henni tekin og hreyfingin mótmælti harðlega. En innan hreyfingarinnar fengu þær skoðanir aukið fylgi að nauðsynlegt væri að breyta um stefnu. Sú stefnubreyting varð þó ekki í einu vetfangi heldur í áföngum. Tilraun var gerð til þjóðarsáttar árið 1986, en með henni var átt við að samningar væru gerðir um kaupmátt, sem yrði aukinn í smáum skrefum, fremur en miklar kauphækkanir, samhliða því að mikið samráð væri á milli samtaka launafólks, atvinnurekenda og stjórnvalda. Þessir samningar sýndu að unnt var að fara aðrar leiðir en tíðkast hafði, en árangur reyndist þó ekki fullnægjandi, enda var ekki eining innan verkalýðshreyfingarinnar um þessa stefnu.

Sérstakir kvennataxtar voru afnumdir á sjöunda áratugnum, á svipuðum tíma og á hinum Norðurlöndunum, og margir héldu að jafnrétti í launamálum næðist á skömmum tíma. Þegar frá leið kom þó í ljós að svo varð ekki. Verulegur launamunur var áfram milli kynja vegna yfirborgana, yfirvinnu og vegna þess að hærri taxtar voru einkum ætlaðir körlum. Á áttunda áratugnum var vakning í launabaráttu kvenna samhliða því að konum á vinnumarkaði fjölgaði mikið. En þrátt fyrir viðleitni og aukna athygli á stöðu kvenna gekk þó hægt að draga úr launamun á milli kynja.

Samstaða aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um breytt vinnubrögð náðist ekki fyrr en með þjóðarsáttarsamningunum árið 1990. Með þjóðarsáttinni var tekið á flestum þáttum efnahagslífsins. Eftir að samráðsstefnan hafði fengið yfirhöndina í verkalýðshreyfingunni varð hún ráðandi í hagsmunabaráttunni. Það gerðist þó seint hérlendis, miklu síðar en á nágrannalöndunum og síðar en á öðrum sviðum hérlendis, t.d. í landbúnaði þar sem samtök bænda urðu nánast hluti ríkisvaldsins.2

Sjá Svanur Kristjánsson 1986, 9.

Með sigri samráðsstefnunnar dró úr verkföllum. Verkföll voru algeng hérlendis allt fram um 1990. Þau voru jafnvel á hverju ári og stundum svo vikum skipti. Ísland hafði algjöra sérstöðu í þessum efnum miðað við hin Norðurlöndin. Eftir 1990 breyttust viðhorfin og fólk í stéttarfélögum innan ASÍ fór æ sjaldnar í verkföll. Breytingar á vinnulöggjöfinni höfðu einnig áhrif í sömu átt (1996). Þessi baráttuhefð tíðkaðist þó lengur hjá opinberum starfsmönnum, enda höfðu þeir fengið verkfallsrétt mun síðar en almennt launafólk.

Reynslan af þjóðarsáttarsamningunum var að mörgu leyti góð. Markmiðin náðust en kjör fólks voru erfið á þessum tíma. Atvinnuástand var slæmt, fólk átti í vandræðum með að láta enda ná saman og sumir fluttu úr landi. En eftir miðjan tíunda áratuginn bötnuðu kjörin hratt eftir að efnahagslífið tók við sér og samið var um verulegar kauphækkanir til verkafólks, yfirleitt án mikilla átaka.

Stutt samdráttarskeið varð um og eftir aldamótin 2000 en annars varð mikil þensla á öllum sviðum efnahagslífsins og launaskrið fram eftir fyrsta áratugi nýrrar aldar. Allar forsendur breyttust þó með hruninu 2008. Kjörin versnuðu verulega jafnframt því sem atvinnuleysi varð meira en áður þekktist. Við tók varnarbarátta og togstreita við stjórnvöld um hvernig bæri að bregðast við kreppunni. Hvernig úr spilast eftir breyttar forsendur verður framtíðin að leiða í ljós. Ólíklegt er þó að grundvallarbreytingar verði á þeim starfsaðferðum sem smám saman voru teknar upp á tíunda áratug síðustu aldar og hinum fyrsta á nýrri öld.

Samkvæmt lögum og skipulagsháttum verkalýðshreyfingarinnar hafði hvert stéttarfélag samnings- og verkfallsréttinn í sínum höndum. Fyrir 1950 var hlutverk hinnar miðlægu forystu fremur að leggja línur en að taka beinan þátt í samningsgerð. Þó tók Alþýðusambandið oft þátt í samningsgerð fyrir hönd einstakra félaga eða hópa þeirra. Eftir 1950 fór miðlæg samningsgerð að aukast, hópar félaga, stundum fjórðungssamband, höfðu samstarf um samningsgerð og stundum stórir hópar, eins og árið 1952.

Stóru samflotin sem síðar urðu ráðandi þróuðust eink um á sjöunda og áttunda áratug 20. aldar. Með sam starfi verkalýðshreyfingarinnar og stjórnvalda, sem hófst árið 1963, fetaði verkalýðshreyfingin sig í átt til formlegs samráðs. Slíkt samráð hafði verið til áður en ekki samfellt og ekki hafði tekist að þróa það áfram, eins og gerðist á hinum Norðurlöndunum. Ein ástæða þess var hvernig skipulagi verkalýðshreyfingarinnar hér á landi var háttað. Valddreifing hérlendis var meiri en tíðkaðist víðast hvar annars staðar á Norðurlöndunum þar sem verkfallsrétturinn er almennt hjá landssamböndum og forysta hérlendrar verkalýðshreyfingar hafði ekki sömu valdheimildir og algengt var á hinum Norðurlöndunum.

Samflotin voru gagnrýnd fyrir að vera þunglamaleg og ólýðræðisleg. Því var haldið fram að fáir tækju ákvarðanir og erfitt væri að koma að sérkröfum einstakra hópa. Hér toguðust því á almennir hagsmunir og sérhagsmunir, en langt fram eftir 20. öld voru almenn félagsleg mál verkafólks vanrækt vegna þess að samstöðu skorti. Þetta breyttist þó á sjöunda og áttunda áratugnum. En samflotin gátu leitt til þess að hið sértæka var vanrækt. Þau sjónarmið voru viðurkennd undir lok 20. aldar að nauðsynlegt væri að sinna bæði hinu almenna og því sérstaka. Þá var farið að standa þannig að samningum að sameiginleg mál, umfang launabreytinga, verðtrygging, lífeyrissjóðsmál og réttindamál af ýmsu tagi voru leyst miðlægt, en einstök félög eða sambönd sömdu um sérmál sín. Samningur innan verkalýðshreyfingarinnar um að svo bæri að standa að málum tók þó fyrst gildi árið 2007.

Réttindi og réttindabarátta

Þegar verkalýðshreyfingin var að stíga sín fyrstu skref var verkafólk nánast með öllu réttlaust, vart nokkur ákvæði voru um tryggingar, aðstöðu, búnað, vinnutíma, laun eða annað. Á fyrri hluta 20. aldar var vinnumarkaðurinn heldur ekki líkur því sem nú er. Vinna var oft stopul og árstíðabundin og fáir fastráðnir. Atvinnuleysi var algengt en atvinnuástand var sérlega slæmt á árunum eftir 1920 og á fjórða áratugnum. Þeir sem höfðu ekki vinnu áttu í miklum erfiðleikum með að sjá sér og sínum farborða. Þegar neyðin barði að dyrum var um fátt að velja, gætu ættingjar ekki aðstoðað. Stundum veittu hjálparsamtök í Reykjavík fólki aðstoð, eins og Vetrarhjálpin eða Mæðrastyrksnefnd. Með lögum um alþýðutryggingar og framfærsluskyldu, sem voru sett á fjórða áratugnum, lagaðist ástandið.

Einstök verkalýðsfélög fóru snemma að stofna styrktar sjóði af ýmsu tagi fyrir félagsfólk sitt. Á fyrstu árum sínum stóð ASÍ bæði fyrir vinnumiðlun og skráningu atvinnulausra, en síðar tóku stjórnvöld að sér hvort tveggja. Þau gengust einnig fyrir atvinnubótavinnu á þriðja og fjórða áratugnum, ekki síst fyrir tilstilli verkalýðssamtakanna. Það bætti úr brýnni þörf, en neyð margra var þó mikil engu að síður, ekki síst kvenna, og þeim var ekki boðin atvinnubótavinna nema í mjög takmörkuðum mæli. Mikið atvinnu- og bjargarleysi olli úlfúð á fjórða áratugnum og urðu ekki aftur slík samfélagsátök hér á landi fyrr en á fyrsta áratugi 21. aldar. Aldrei varð þó byltingarástand hér á landi þrátt fyrir að margir óttuðust að svo kynni að fara.

Almannatryggingar voru veikburða fram á miðjan fjórða áratuginn. Skref var stigið með lögum um slysatryggingu sjómanna árið 1917 og annað með almennri slysatryggingu um miðjan þriðja áratuginn. Langstærsta skrefið á millistríðsárunum var þó samþykkt alþýðutryggingalaganna árið 1936 og skyldra laga um svipað leyti. Alþýðutryggingalögin samanstóðu af fjórum megin þáttum: slysatryggingum, sjúkratryggingum, elli- og örorkutryggingum og loks atvinnuleysistryggingum. Síðast nefndu tryggingarnar urðu þó ekki að veruleika fyrr en tveimur áratugum síðar. Lífeyrissjóður Íslands varð heldur ekki að veruleika. Almannatryggingakerfið þróaðist hægar hér á landi en í nágrannalöndunum og réttarbætur komu iðulega síðar en í helstu viðmiðunarlöndum þjóðarinnar. Verkakonur fóru t.d. almennt ekki að fá fæðingarorlof fyrr en um miðjan áttunda áratuginn. Konur sem störfuðu hjá hinu opinbera höfðu þó haft þennan rétt frá 1954 og Starfsstúlknafélagið Sókn fékk ákvæði um þriggja mánaða fæðingarorlof inn í kjarasamninga sína árið 1956. Fæðingarorlofið var smám saman lengt og báðum foreldrum tryggður réttur til orlofs. Mest var það lengt árið 2000.

Í kjarasamningum árið 1955 var samið um að koma á atvinnuleysistryggingum. Lítt reyndi á þessar tryggingar nema á afmörkuðum tímabilum vegna þess hversu atvinnuleysi var yfirleitt lítið hérlendis. Mest var atvinnuleysið fyrir 1970 og upp úr 1990, og loks varð meira atvinnuleysi en nokkru sinni fyrr eftir 2008. Það varð tæplega 10% um tíma eða svipað og hafði verið í mörgum nágrannalandanna um árabil. Breytingar voru nokkrum sinnum gerðar á þessu kerfi og réttur hinna atvinnulausu aukinn. Þá var Atvinnuleysistryggingasjóður yfirtekinn af stjórnvöldum og færður undir Vinnumálastofnun sem tók einnig að sér alla umsýslu vegna atvinnuleysis. Áður hafði hún verið í höndum verkalýðsfélaganna og sjóðurinn undir sérstakri stjórn.

Fyrstu lífeyrissjóðir launafólks hér á landi voru stofnaðir um 1920 fyrir afmarkaða hópa opinberra starfsmanna, en almennir urðu lífeyrissjóðir ekki fyrr en hálfri öld síðar. Samið var um stofnun lífeyrissjóða fyrir almennt verkafólk í kjarasamningum árið 1969. Sjóðir almenns verkafólks voru söfnunarsjóðir og sú regla varð síðar algild um sjóði annars launafólks í landinu. Yfirstjórn sjóðanna var skipuð fulltrúum beggja aðila, stéttarfélaga og samtaka atvinnurekenda. Rekstur lífeyrissjóðanna var erfiður í fyrstu, bæði vegna smæðar margra þeirra og mikillar verðbólgu. Á síðasta áratug 20. aldar var fjöldi sjóða sameinaður til þess að ná fram aukinni hagkvæmni í rekstri þeirra.

Ákveðið var með lögum árið 1980 að allt starfandi fólk ætti að greiða í lífeyrissjóði og árið 1990 var farið að greiða í sjóðina af öllum launum. Aðilar vinnumarkaðarins gerðu nýtt samkomulag um lífeyrismál árið 1996, án þess þó að nokkrar grundvallarbreytingar væru gerðar á fyrirkomulagi sjóðanna. Um þetta leyti voru uppi hugmyndir um breytingar á lífeyrissjóðakerfinu sem gengu í þá átt að draga úr eða afnema jafnvel samtryggingu, hver og einn ætti að sjá um sín mál sjálfur. Breytingar voru þó ekki gerðar en valfrelsi var aukið þannig að gefinn var kostur á séreignarsparnaði til viðbótar. Lífeyrissjóðirnir töpuðu verulegu fé eftir hrunið 2008 og þá urðu miklar umræður um starfshætti sjóðanna.

Ófremdarástand ríkti í húsnæðismálum alþýðufólks á fyrstu áratugum 20. aldar, ekki síst vegna þess að fólki í þéttbýli fjölgaði hratt. Algengt var að fólk byggi í slæmu en dýru húsnæði og þröngbýli gat verið mikið.

Fyrstu tilraunir til að ráða bót á ástandinu má rekja til áranna í kringum 1920 með stofnun Byggingafélags Reykjavíkur. Mun stærra skref var þó stigið með lögum um verkamannabústaði frá árinu 1929. Verkamannabústaðir voru reistir á félagslegum grunni en voru þó í eigu íbúa. Ekki var heimilt að selja íbúðir innan þeirra á markaði, heldur var þeim úthlutað eftir ákveðnum reglum til félagsmanna í byggingarfélögunum. En einkaeign varð þó ráðandi í verkamannabústaðakerfinu. Þrátt fyrir að íbúðabyggingar af þessu tagi væru stórt skref fyrir alþýðufólk víða um land var eftirspurninni langt frá því að vera fullnægt, enda mun minna byggt en vonir stóðu til.

Eftir þetta átak beitti verkalýðshreyfingin sér ekki mikið í þessum málaflokki fyrr en löngu síðar. Ýmis fleiri félög en byggingarfélög verkamanna reistu þó húsnæði fyrir alþýðufólk, einkum ýmis byggingarsamvinnufélög launafólks. Það gerðu sum bæjarfélög einnig. Þó var ófremdarástand í húsnæðismálum víða um land langt fram á sjöunda áratuginn. Í höfuðborginni var gert mikið átak eftir miðjan sjöunda áratuginn í húsnæðismálum þegar fjölmargar íbúðir voru byggðar fyrir efnalítið fólk í Breiðholti eftir samkomulag verkalýðshreyfingarinnar og stjórnvalda um miðjan sjöunda áratuginn. Þá var verkamannabústaðakerfið eflt á áttunda og níunda áratugnum. En verkalýðshreyfingin hvikaði lengst af ekki frá þeim hugmyndum sínum að félagslegt húsnæði ætti að vera í einkaeign, ólíkt því sem var í nágrannalöndunum, þó að einnig væri hvatt til þess að framboð leiguhúsnæðis yrði aukið.

Mjög var dregið úr áhrifum verkalýðshreyfingarinnar í húsnæðismálum undir lok 20. aldar. Svo fór að félagslega eignaríbúðakerfið var lagt af undir lok tíunda áratugarins og loks heimilað að selja íbúðirnar árið 2002. Eftir það hvatti verkalýðshreyfingin til þess að framboð leiguhúsnæðis yrði aukið og aðstaða þeirra sem ættu húsnæði annars vegar og leigðu hins vegar jöfnuð, jafnframt því sem húsaleiga yrði niðurgreidd.

Litlar takmarkanir voru á vinnutíma á fyrstu árum verkalýðshreyfingarinnar, aðrar en hefðir og venjur. Unnið var eins og þörf var talin á af hálfu vinnuveitenda. Einstök félög fóru þó snemma að semja um takmörkun vinnutímans, t.d. sömdu prentarar um það árið 1919 að dagvinna væri átta stundir. Daglegur vinnutími almenns verkafólks var þó mun lengri. Mikilvægur áfangi náðist með samþykkt togaravökulaganna árið 1921, en þau takmörkuðu mjög vinnutíma þeirrar stéttar. Lágmarkshvíldartími togarasjómanna á sólarhring varð sex stundir. Börn voru mikilvægt vinnuafl á fyrri hluta 20. aldar og mörg dæmi voru um að farið væri offari við vinnu barna. Ekki voru sett lög um takmarkanir á barnavinnu fyrr en á ofanverðum fimmta áratugnum, en kjarasamningar gátu stundum um slíkar takmarkanir.

Lög voru sett um 40 stunda vinnuviku árið 1972. Vinnutími almenns launafólks var þó áfram langur og yfirleitt mun lengri en í helstu samanburðarlöndum Íslendinga. Smám saman var þó farið að takmarka vinnutímann með nýjum reglum (m.a. 1980). Stærstu skrefin voru þó tekin um miðjan tíunda áratuginn, eftir inngöngu Íslands í Evrópska efnahagssvæðið.

Frítími, utan helgidaga, var kannski ekki óþekkt hugtak í orðaforða alþýðufólks á fyrri hluta 20. aldar, en orlof eins og nú tíðkast þekktist vart. Fyrstu skref á þessu sviði stigu prentarar um miðjan annan áratug 20. aldar, en lítið gerðist þó í þessum málum fyrr en á fjórða áratug aldarinnar. Þá fóru nokkur félög að semja um 12 daga sumarfrí. Á þeim tíma voru einnig stigin fyrstu skrefin í þá átt að veita almenningi tækifæri til þess að njóta frís utan heimilis.

Lög um orlof voru sett árið 1943 (12 dagar). Margir nýttu sér orlof til þess að stunda aðra vinnu. Tækifæri til þess að njóta orlofs jukust þó smám saman, sem og áhugi verkafólks á að njóta þessara réttinda sinna. Á þessum árum var farið að koma upp aðstöðu fyrir verkafólk í sumarfríi og voru heimavistarskólar m.a. nýttir í því skyni. Hérlend verkalýðshreyfing var þó langt á eftir systursamböndum sínum á Norðurlöndum í þessum efnum. Langan tíma tók að „kenna“ fólki að fara í frí. Liður í því var að koma upp orlofshúsum sem vinnandi fólk hefði aðgang að. ASÍ hafði frumkvæði að því að fá land við Hveragerði undir orlofshúsabyggð, Ölfusborgir, og þar reis mikil byggð á sjöunda áratugnum. Í kjölfarið komu fleiri slíkir kjarnar á næstu árum og áratugum. Verkalýðshreyfingin vildi einnig eiga þátt í að ýta undir ferðalög fólks til útlanda og keypti ferðaskrifstofu árið 1973. Hún átti aðild að rekstri hennar næsta aldarfjórðunginn og hafði þess utan hagstæð ferðalög fyrir félagsfólk sitt á boðstólum. Þá var einnig tekin upp samvinna við verkalýðshreyfinguna á hinum Norðurlöndunum um dvöl í orlofshúsum á þeirra vegum.

Verkalýðshreyfingin lagði ekki mikla áherslu á vinnuvernd á fyrsta skeiði sínu þrátt fyrir að mikil þörf væri fyrir slíkt. Afar brýnt var að bæta aðbúnað flests vinnandi fólks langt fram eftir 20. öld. Hann var víða slæmur og vinna erfið, ekki síður fyrir konur en karla. Vinnuslys og -meiðsli voru algeng, enda var búnaður fólks og klæðnaður oft ófullnægjandi. Á fyrstu áratugum 20. aldar varð þó mikilvæg breyting á skófatnaði en gúmmískór og stígvél urðu algengur fótabúnaður á þessum árum. Þá var víða vanþekking á véla- og efnanotkun. Eftirlit með vinnustöðum af hálfu hins opinbera var lítið þrátt fyrir setningu laga um eftirlit með verksmiðjum og vélum frá 1928.

Verkalýðshreyfingin sinnti í raun lítt aðbúnaðarmálum fyrr en á áttunda áratug síðustu aldar. Þá fóru augu manna að beinast að þessum þætti í meira mæli en verið hafði, bæði vegna þess að kjörin höfðu batnað en líka fyrir áhrif frá hinum Norðurlöndunum. Margt þurfti að athuga, óloft, hávaða, kulda, óholla líkamsbeitingu og vinnuálag. Barátta verkalýðshreyfingarinnar leiddi til þess að sett voru lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum árið 1980. Í framhaldi af því var sett á stofn Vinnueftirlit ríkisins. Jafnframt var komið á kerfi öryggistrúnaðarmanna sem bar að fylgjast með þessum málum. Hægt þótti þó ganga að ná fram umbótum. En með auknu eftirliti og vegna átaks verkalýðshreyfingarinnar og viðeigandi stofnana á vinnustöðum urðu þó miklar breytingar næstu áratugina. Átti það við um húsnæði, snyrtiaðstöðu, loftræstingu og þrifnað á vinnustöðum. Eftir tilkomu samningsins um Evrópska efnahagssvæðið voru hertar ýmsar reglur á sviði aðbúnaðarmála vegna þess að í ljós kom að hérlendar reglur gengu iðulega skemur en reglur innan ESB. Eftir að ný lög um vinnuvernd höfðu verið sett árið 2003 var farið að leggja áherslu á fleiri þætti, ekki síst líðan á vinnustað, t.d. með því að draga úr streituvaldandi þáttum og koma í veg fyrir áreitni hvers konar og einelti.

Allt fram á ofanverða 20. öld var lítið um erlent verkafólk hérlendis og strangar takmarkanir á því að það fengi leyfi til þess að vinna hér á landi. Undir 1980 fór þó erlendu verkafólki að fjölga, einkum í tilteknum atvinnugreinum. Segja má að alger umskipti hafði orðið í þessum málum eftir aldamótin 2000 í þeirri miklu þenslu sem þá varð. Eftir það fjölgaði erlendu fólki á vinnumarkaði mjög ört og varð hlutfall þess svipað og erlendis. Margvísleg vandamál komu upp í tengslum við þetta fólk. Sumir atvinnurekendur virtu ekki réttindi þess og fengu jafnvel ekki formleg leyfi fyrir dvöl þess hér á landi. Mörg dæmi voru um slæmt fæði og húsnæði, brot í sambandi við launagreiðslur og jafnvel að málfrelsi fólks væri ekki virt. Þessi mál urðu meðal helstu viðfangsefna verkalýðshreyfingarinnar á nýrri öld. Verkalýðshreyfingin stóð frammi fyrir því eftir aldamótin 2000 að sinna málum sem vörðuðu grundvallarmannréttindi verkafólks, svipað og í árdaga hreyfingarinnar. Sambærilegt ástand var þó víða í nágrannaríkjum Íslands.

Rafsuðumaður að störfum í Ofnasmiðjunni undir lok 20. aldar. Langt fram eftir öldinni sinnti verkalýðshreyfingin aðbúnaðarmálum ekki sem skyldi. Á því varð breyting á áttunda áratugnum þegar þau mál urðu meðal helstu baráttumála hreyfingarinnar.

Jafnréttismál

Verkalýðshreyfingin var aðallega hugsuð fyrir verkakarla langt fram eftir 20. öld, enda var litið á þá sem fyrirvinnur og að konur væru í umsjá þeirra. ASÍ studdi þó vissulega við baráttu verkakvenna og að þær stofnuðu félög, en þar átti Kvenréttindafélag Íslands einnig stóran hlut að máli. Eðlilegt þótti að launataxtar kvenna væru lægri en karla og áhrif kvenna innan hreyfingarinnar voru lengi afar lítil. Vegur kvenna innan hreyfingarinnar fór ekki að aukast að neinu marki fyrr en komið var vel fram á síðari hluta 20. aldar, enda fjölgaði konum á vinnumarkaði þá verulega. Kynjaskipt félög voru algeng, mun algengari en í nágrannalöndunum. „Blönduð“ félög voru þó einnig algeng, t.d. voru félög iðnverkafólks „blönduð“ frá upphafi. Konur tóku þó ekki mikinn þátt í stjórnun slíkra félaga og fáar konur voru í forystu ASÍ, stundum engin. Alþýðuflokkurinn hafði heldur ekki nema örfáar konur í forystusveit sinni og stóð sig jafnvel verr en aðrir stjórnmálaflokkar. Þá voru málefni kvenna lítt rædd á þingum ASÍ á fyrri hluta 20. aldar. Sumum körlum innan verkalýðshreyfingarinnar þótti jafnvel sem verkakvennafélögin ættu fremur að sinna velferðarmálum en kjaramálum.

Ýmis merki um breytt viðhorf mátti sjá á sjötta áratugnum, bæði innan verkalýðshreyfingarinnar og á Alþingi, og konur fóru smám saman að láta meira að sér kveða. Það segir þó sína sögu að fyrsta ráðstefnan um launamál kvenna, sem ASÍ stóð að, var ekki haldin fyrr en árið 1955. Þáverandi forseti sambandsins vildi sinna þessum málum af meiri atorku en verið hafði.

Á ofanverðum sjötta áratugnum varð sú krafa áberandi meðal verkakvenna að þær fengju greidd sömu laun og karlar fyrir sömu vinnu, að kynjataxtar væru afnumdir. Stöku verkalýðsfélag hafði náð þessum árangri þegar fyrir 1950. Samhliða var unnið að því að samræma kjör kvenna hvar sem væri á landinu og mátti segja að því marki væri náð árið 1960. Sú krafa að afnema kvennataxta náðist hins vegar ekki fram fyrr en upp úr 1960 eftir að sett voru lög (1961) um launajafnrétti kynjanna. Samhliða hættu verkalýðsfélögin smám saman að vera með sérstaka kauptaxta fyrir karla og konur. Þrátt fyrir margvíslegar samþykktir og baráttu hefur reynst erfitt að draga úr launamun kynjanna. Enn er verulegur óútskýrður munur á milli launa þeirra og lengi var það svo að konur voru á lægri töxtum en karlar og störf þeirra metin til lægri greiðslu.

Ung kona afgreiðir eldsneyti á fyrsta áratug 21. aldar. Lengst af 20. öld tilheyrðu slík störf eingöngu körlum.

Samtök og hreyfingar utan hinnar eiginlegu verkalýðshreyfingarinnar höfðu mikil áhrif á gang jafnréttismála. Fyrst skal geta um Kvenréttindafélagið sem beitti sér mikið í kjaramálum kvenna og hafði frumkvæði að stofnun fyrsta verkakvennafélagsins í Reykjavík. Rauðsokkahreyfingin hóf störf árið 1970 en síðar Samtök kvenna á vinnumarkaði og Framkvæmdanefnd um launamál kvenna (á níunda áratugnum). Öll þessi samtök beittu sér mjög í jafnréttisbaráttu kvenna og höfðu mikil áhrif á umræðu um stöðu kvenna innan verkalýðshreyfingarinnar.

Konur áttu frá upphafi erfitt með að komast til áhrifa innan verkalýðshreyfingarinnar. Árið 1972 var aðeins ein kona í miðstjórn ASÍ. En frá öndverðum níunda áratugnum fór hlutdeild kvenna og áhrif á forystu ASÍ smám saman vaxandi og síðan 1984 hefur varaforseti ASÍ verið kona. Árið 2010 voru konur um 40% miðstjórnarmanna ASÍ. Fyrst árið 2005 réð ASÍ sér jafnréttisfulltrúa.

Útgáfa, menningarmál, daglegt líf

Fram yfir 1960 var algengast að fólk gengi í vinnuna, ferðaðist á hjóli eða notaði almenningssamgöngur. Bíll varð ekki almenningseign fyrr en á sjöunda áratugnum. Eftir það fóru flestir að nota einkabíl. Eftir að komið var á vinnustað var misjafnt hvernig búið var að fólki. Víðast hvar var engin aðstaða á vinnustöðum til að hvílast eða matast langt fram eftir öldinni. Undir miðja öldina fjölgaði þó vinnustöðum með mötuneyti og kaffistofum. Kröfur á þessu sviði fóru að aukast um og eftir 1960. Eftir það batnaði ástandið víða, sums staðar þó lítið þar til seint á 20. öld. Einkanlega var erfitt ástand á vinnustöðum byggingamanna og hjá farandverkafólki. Það lét mjög að sér kveða um og eftir 1980 og krafðist úrbóta. Eftir aldamótin, þegar erlent vinnuafl flæddi inn í landið, var líka víða pottur brotinn og aðstaða fyrir starfsfólk á vinnustað sums staðar fyrir neðan allar hellur.

Í kaffistofu á vinnustað á Akureyri, af hártískunni að dæma er myndin frá áttunda áratugnum. Starfsmennirnir hafa með sér nesti að heiman og sumir taka í spil, sá til vinstri í forgrunni er að fara að stokka spilin.

Alþýðufólk mátti sætta sig við fábrotið fæði á fyrri hluta 20. aldar. Mjólk var munaðarvara og þegar atvinnuleysi var mikið bjuggu margar fjölskyldur við skort. Flestir reyndu að búa að sínu og víða um land studdi verkalýðshreyfingin þá viðleitni. Lífið gat því jafnvel verið léttara úti á landsbyggðinni en í höfuðstaðnum því að þar voru betri aðstæður til þess að rækta garðávexti, halda húsdýr og sækja sjóinn. Þetta breyttist smám saman og eftir 1960 náði neyslusamfélagið yfirhöndinni. Sjálfsþurft entist þó eitthvað lengur utan höfuðborgarsvæðisins en innan þess. Margir höfðu mat með sér í vinnuna, en eftir að mötuneyti komu breyttist það og fólk fór að fá mat á vinnustað.

Mikið félagslíf var tengt matartímunum, ekki síst sagnagerð og spilamennska. Skipulagt félagslíf var einnig mikið á mörgum vinnustöðum þegar líða tók á 20. öld, sérstaklega á stærri vinnustöðum. Víða voru starfandi kórar og íþróttafélög. Fastir liðir urðu þorrablót, árshátíðir og ferðalög. Stundum fór fólk sem bjó utan höfuðstaðarins í borgarreisu og á áttunda áratugnum fór fólk jafnvel að fara til útlanda í árshátíðarferðir.

Frá öndverðu gengust mörg verkalýðsfélög fyrir menningar- og fræðslustarfsemi fyrir félaga sína, t.d. fræðslu í formi fyrirlestra og kvöldskóla. En Alþýðusambandið stóð ekki að slíkri starfsemi að neinu marki á millistríðsárunum, fræðslan var á vegum einstakra félaga og fulltrúaráða. Mikill áhugi var þó á þessu máli innan ASÍ, enda var öflug fræðslustarfsemi á hinum Norðurlöndunum vel þekkt.

Verkalýðshreyfingin almennt lagði verulega áherslu á félagslíf og að efla „alþýðumenningu“. Í því fólst að þróa hugmyndakerfi, siði og venjur sem treystu vitund fólks um stéttarstöðu sína sem sérstaks hóps með sérstaka hagsmuni og sérstaka menningu. Fyrirmynda var leitað í nágrannalöndunum og hjá alþjóðahreyfingunni, auk innlendra hreyfinga á borð við ungmennafélögin og bindindishreyfinguna. Í þessu samhengi urðu ýmis tákn mikilvæg, söngvar, fánar og alþýðuhús. Gengist var fyrir skemmtunum og skemmtiferðum, en bindindi var þó hjartans mál hreyfingarinnar. Óregla var vatn á myllu stéttarandstæðingsins, að því er talið var. Þá gegndi 1. maí miklu hlutverki í þessu sambandi, sem eins konar hersýning verkalýðshreyfingarinnar. ASÍ stóð fyrir byggingu Alþýðuhússins í Reykjavík á árunum 1935–1937. Allmörg félög úti um land byggðu einnig eða keyptu húsnæði fyrir starfsemi sína. Slíkar byggingar voru til vitnis um sjálfstæði og kraft hreyfingarinnar og var komið upp með fórnfýsi félaganna. Skrifstofuhald á vegum ASÍ hófst árið 1930 og stærstu verkalýðsfélögin fóru um svipað leyti að hafa opna skrifstofu hluta úr degi.

Frá æfingu hjá Slysavarnaskóla sjómanna kringum 2010 en skólinn var stofnaður árið 1985.

Ákveðið var að stofna Menningar- og fræðslusamband alþýðu, MFA, árið 1937 og var ætlunin að sambandið stæði bæði fyrir útgáfu og námskeiðum. Útgáfa á vegum þess varð nokkuð umfangsmikil og þar fór fram nokkur fræðsla. Sambúð MFA og ASÍ varð þó stutt vegna þess að það fylgdi Alþýðuflokknum en ekki ASÍ þegar skilið var á milli flokks og sambands árið 1940. Alþýðusambandið hóf fræðslustarfsemi á ný árið 1942 og hélt uppi nokkuð öflugu fræðslustarfi fram á sjötta áratuginn. Draumurinn var að stofna verkalýðsskóla en af því varð ekki á þessum tíma.

Ákveðið var að endurvekja Menningar- og fræðslusamband alþýðu á þingi ASÍ árið 1968 og rættist þar með langþráður draumur forystu ASÍ og verkalýðshreyfingarinnar. Vonir höfðu lengi staðið til að slík stofnun kæmist á fót. MFA stóð fyrir margvíslegri starfsemi. Byrjað var á námskeiðshaldi og leshringjum en stefnt að því að stofna skóla. Það gerðist árið 1975 með stofnun Félagsmálaskóla alþýðu. Honum var aðallega ætlað það hlutverk að þjálfa fólk í félagsstörfum og efla það sem forystufólk í verkalýðshreyfingunni. Námskeið fyrir trún aðarmenn urðu fljótlega mikilvægur þáttur í starfsem inni.

Upp úr 1980 fór MFA að efna til víðtækari fræðslu fyrir almenning. Það leiddi síðar til þess að Tómstundaskólinn var keyptur árið 1986. Árið 1995 yfirtók Tómstundaskólinn svo tungumálaskólann Mími og nefndist eftir það Mímir – Tómstundaskólinn og síðar Mímirsímenntun. MFA stóð einnig fyrir margvíslegri útgáfu, á bókum, hljómplötum og fréttabréfi. Það átti einnig þátt í að setja upp leiksýningar og sinnti um tónlistarstarf. Sambandið hafði náið samband við sambærilegar stofnanir á hinum Norðurlöndunum.

Endurmenntun og fullorðinsfræðsla tíðkaðist ekki hér á landi fyrr en á síðari hluta 20. aldar. Fólk sem hafði litla menntun átti lengi vel fáa möguleika. Fyrstu skref á þessu sviði voru stigin á sjöunda og áttunda áratugnum hjá iðnaðarmönnum. Undir lok níunda áratugarins var farið að sinna þessum málum meira og hófst þá víðtæk endurmenntun meðal ófaglærðra einstaklinga. Sett voru starfsmenntalög árið 1992 og næsta áratuginn var komið upp starfsmenntasjóðum sem bæði stjórnvöld og atvinnurekendur lögðu fé til. Þá voru settar á fót símenntunarstofnanir víða um land. Menntun og fræðsla er nú orðið einn af meginþáttum í starfsemi ASÍ og aðildarsamtaka þess og segja má að þær vonir sem voru bundnar við stofnun MFA hafi þar með ræst.

Sögusafni verkalýðshreyfingarinnar var komið á fót árið 1974, en forystufólk í verkalýðshreyfingunni hafði lengi óskað þess að slík stofnun kæmist á legg, svipað og í nágrannalöndunum. Miklar vonir voru bundnar við starf þess. Aflað var margvíslegra gagna um sögu verkalýðshreyfingarinnar. En eftir 1990 dró úr starfsemi safnsins og var það lagt niður sem sjálfstæð stofnun árið 2002 þegar gögn þess voru flutt til Þjóðskjalasafns Íslands. Listasafn ASÍ tók til starfa árið 1961 þegar sambandið tók við listaverkagjöf frá Ragnari í Smára. Langan tíma tók að finna safninu fullnægjandi samastað, fyrst að Grensásvegi en síðar í Ásmundarsal við Freyjugötu í Reykjavík. Safnið hefur lagt áherslu á vinnustaðasýningar, veitt aðstöðu til sýningarhalds og staðið fyrir sýningum og útgáfu og hefur orðið ein helsta menningarstofnun landsins á sviði myndlistar.

Jafnaðarmenn hófu útgáfu blaða snemma á 20. öld. Blaðakostur þeirra var þó veikburða þar til hafin var útgáfa Alþýðublaðsins árið 1919. Blaðið efldist mjög á fjórða áratugnum, en útgáfa þess var þó löngum erfið sökum fjárskorts. Auk þess gáfu jafnaðarmenn og kommúnistar út blöð víða um land.

ASÍ hóf útgáfu Vinnunnar árið 1942, en fram að því hafði hinn faglegi hluti hreyfingarinnar ekki haft málgagn sem kom út reglulega þó að tilraunir hefðu verið gerðar í þá veru. Vinnan kom út nokkuð reglulega fram til um 1950 en útgáfan varð stopulli eftir það um tíma. Útgáfan varð reglubundin á ný árið 1954 og var nú lögð meiri áhersla á fagleg mál en verið hafði. Í þessari lotu kom blaðið út til ársins 1966, en þó var útgáfan stopul undir lok þessa tímabils. Frá 1973 varð Vinnan síðan helsti samskiptamiðill ASÍ í rúman aldarfjórðung. Útgáfutíðni var breytileg, allt frá fáeinum blöðum á ári í það að koma út mánaðarlega í dagblaðsbroti. Útgáfan var alla tíð fremur erfið og oft voru gerðar breytingar á rekstrinum. Frá því laust eftir aldamótin 2000 hefur blaðið aðeins komið út einu sinni til tvisvar á ári. Auk Vinnunnar komu reglulega út fréttabréf í tvo áratugi (frá 1977). Netmiðill hefur nú tekið yfir sem helsta samskiptatæki ASÍ við almenning.

Stjórnmál og verkalýðshreyfingin

Stjórnmál og verkalýðsmál hafa verið samofin frá öndverðu. Þannig var Verkamannasambandið fyrra (stofnað 1906) ekki síður hugsað sem stjórnmálaflokkur en samband verkalýðsfélaga. Hið sama gilti um Alþýðusambandið/Alþýðuflokkinn, þar var á ferð bæði flokkur og verkalýðssamband og baráttumál þessa sameinaða afls voru ekki síður pólitísk en fagleg.

Frá því snemma á 20. öld vann verkalýðshreyfingin að því að komast til áhrifa í bæjum og á landsvísu. Verkalýðslisti kom fyrst fram í kjöri til bæjarstjórnar Reykjavíkur árið 1908. Eftir það komu slíkir listar reglulega fram og voru orðnir hluti af stjórnmálamynstrinu upp úr 1920 í mörgum stærri bæjarfélögum. Víða um land náðu slíkir listar góðum árangri og voru í meirihluta í nokkrum helstu bæjum landsins á millistríðsárunum, þó aldrei í Reykjavík.

Kröfuganga á 1. maí á sjötta áratugnum, gengið um Skólavörðustíg í Reykjavík. Á þeim tíma var enn mikil togstreita innan verkalýðshreyfingarinnar af pólitískum ástæðum.

Alþýðuflokkurinn fékk fyrst kjörinn fulltrúa á Alþingi árið 1916 en hafði fáa þingmenn þar til árið 1927, enda var kosningalöggjöfin honum mjög í óhag. Fyrsta ríkisstjórnin sem hann átti beina aðild að var ríkisstjórn hinna vinnandi stétta, undir forystu Framsóknarflokksins, sem tók við völdum árið 1934. Í kosningum þess árs hafði Alþýðuflokkurinn unnið mikilvægan sigur. Þegar Alþýðuflokkurinn komst til áhrifa beitti hann sér fyrir samfélagslegum lausnum í atvinnulífi, aukinni ríkisforsjá og áætlanagerð. En umfram allt vildi flokkurinn bæta félagslega stöðu verkafólks og náði góðum árangri á því sviði á fjórða áratugnum.

Þegar um 1920 fór að bera á ágreiningi innan hreyfingar jafnaðarmanna hérlendis, hinna róttæku og þeirra sem aðhylltust ekki eins róttæk viðhorf. Hinir róttæku, kommúnistarnir, mynduðu sín fyrstu samtök á öndverðum þriðja áratugnum. Þeir störfuðu þó áfram innan ASÍ/Alþýðuflokksins en náðu ekki afgerandi áhrifum þar á þriðja áratugnum, utan Norðurlands. Margt varð til þess að deilurnar hörðnuðu á milli fylkinga. Margir vonuðu þó að unnt væri að halda andstæðum fylkingum saman en kommúnistar voru snemma staðráðnir í því að stofna eigin flokk, enda var það stefna Alþjóðasambands kommúnista. Kommúnistar stofnuðu flokk sinn árið 1930.

Þegar ASÍ var stofnað var álitið sjálfsagt að stéttarsamband og flokkur væru ein skipulagsleg eining, enda var hreyfingin veikburða. Eftir miðjan þriðja áratuginn jukust efasemdir um réttmæti þessa. Ráðandi öfl í ASÍ vildu þó ekki hrófla við þessum tengslum, enda gegndu sum verkalýðsfélög ekki síður því hlutverki að vera flokksfélög. Kommúnistar og ýmsir aðrir voru á þeirri skoðun að skilja ætti þarna á milli. Þeir fullyrtu að margt verkafólk vildi ekki vera í verkalýðsfélögunum sökum þessara tengsla. Sú var raunin, ekki síst í félögum þar sem kommúnistar voru áhrifamiklir. Eftir samþykkt ASÍ frá 1930 máttu ekki aðrir en stuðningsmenn Alþýðuflokksins vera í kjöri til stofnana ASÍ eða sitja á þingum þess.

Eftir 1930 harðnaði baráttan á milli kommúnista og jafnaðarmanna svo að jaðraði við stríðsástand með köflum. Jafnaðarmenn og ASÍ beittu þeirri aðferð að stofna ný verkalýðsfélög á þeim stöðum þar sem kommúnistar voru ráðandi og varð víða ágengt. Á hinn bóginn sóttu kommúnistar víða fram af harðfylgi, enda voru þeir vel skipulagðir og litu á baráttu sína sem stríð gegn auðherrunum. Innri ágreiningur og ofurróttækni á fyrri hluta fjórða áratugarins veikti þó mjög hreyfingu kommúnista.

Eftir miðjan fjórða áratuginn virtist sem Alþýðusambandið væri að fá yfirhöndina í baráttunni við kommúnista og Verklýðssambandi Norðurlands þvarr þróttur, en þar höfðu kommúnistar verið allsráðandi. En um þetta bil sneru kommúnistar við blaðinu og hófu baráttu fyrir samfylkingu gegn fasisma og samstarfi við jafnaðarmenn. Sú barátta skilaði árangri. Ýmsir stuðningsmenn Alþýðuflokksins reyndust hliðhollir þeirri stefnu og varð að ráði að reyna að sameina verkalýðsflokkana. Það tókst þó ekki en þetta varð til þess að veikja Alþýðuflokkinn og endaði með því að hluti hans gekk til liðs við kommúnista árið 1938, þar á meðal Héðinn Valdimarsson, varaforseti ASÍ. Þessir aðilar stóðu svo að stofnun Sósíalistaflokksins, en Kommúnistaflokkurinn var lagður niður. Samhliða tóku kommúnistar/sósíalistar upp samstarf við sjálfstæðisverkamenn og beittu þessir aðilar sér saman í baráttunni fyrir því að aðskilja Alþýðusambandið frá Alþýðuflokki. Þeirri kröfu hafði vaxið mjög fylgi eftir að fjölgaði í verkalýðshreyfingunni, ekki síst eftir að forgangsréttur margra félaga til vinnu hafði fengist viður kenndur og síðar með samþykkt vinnulöggjafarinnar árið 1938. Samkvæmt henni voru verkalýðshreyfingunni tryggð margvísleg réttindi með lögum. Árið 1938 fór Sjálfstæðisflokkurinn að skipuleggja verkamenn í sínum röðum og náðu þeir brátt verulegum ítökum innan verkalýðshreyfingarinnar.

Jafnaðarmenn náðu ekki sömu tökum á baráttunni gegn kommúnistum hér á landi og í nágrannalöndun um. Undan eru þó skilin einstök svæði, einkum Vestfirðir, en þar urðu kommúnistar áhrifalausir. Jafn aðarmenn féllust á það fyrir þing ASÍ árið 1940 að skilja á milli stjórnmálaflokksins og verkalýðssambandsins. Um þetta var samið á milli „lýðræðisflokkanna“ áður en þjóðstjórnin var mynduð árið 1939. Áður höfðu félög utan ASÍ staðið að stofnun Landssambands íslenskra stéttarfélaga, en það var lagt niður samhliða því að flest verkalýðsfélögin sem þar höfðu átt aðild gengu í ASÍ. Í kjölfarið efldist ASÍ en dró úr áhrifum jafnaðarmanna.

Þegar kom að þinginu 1942 náðu sósíalistar og jafnaðarmenn samkomulagi um stjórn sambandsins. Í kjölfarið var unnið að því að sameina félög þar sem orðið hafði klofningur af pólitískum ástæðum. Sættin stóð þó ekki nema til næsta þings sem var haldið 1944, en þá fór allt í harðar deilur sem fyrr. Alþýðusambandið átti mikinn þátt í myndun nýsköpunarstjórnarinnar og batt miklar vonir við hana. Samhliða var komið á nokkurs konar þjóðarsátt til þess að gefa ríkisstjórninni starfsfrið og tóku bæði ASÍ og Vinnuveitendafélagið þátt í því samráði. Stjórnin var framtakssöm, en kalda stríðið hélt innreið sína og varð stjórninni að aldurtila. Sósíalistar og bandamenn þeirra í ASÍ héldu völdum til ársins 1948 þegar jafnaðarmenn og lagsmenn þeirra náðu völdum. Sú forysta sat til 1954. Á því árabili naut ASÍ-forystan stuðnings stjórnvalda í Bandaríkjunum.

Illvígar deilur héldu því áfram þar sem einkum jafnaðarmenn og bandamenn þeirra annars vegar og sósíalistar og bandamenn þeirra hins vegar gegndu aðalhlutverkum. Þær höfðu mikil áhrif á alla verkalýðshreyfinguna svo að hún var nánast undirlögð og leiddu m.a. til brottrekstrar einstakra félaga úr ASÍ. Árið 1954 varð Hannibal Valdimarsson forseti ASÍ eftir að hann hafði gert bandalag við sósíalista. Hannibal varð eftir þetta forseti ASÍ í liðlega hálfan annan áratug, en á ýmsu gekk í samskiptum andstæðra fylkinga. Samhliða þessum deilum verkalýðsflokkanna styrkti Sjálfstæðisflokkurinn stöðu sína verulega innan verkalýðshreyfingarinnar. Íslensk verkalýðshreyfing var því óneitanlega sérstök í samanburði við nágrannalöndin. Víðast hvar í nágrannalöndum Íslands urðu róttækir vinstrimenn áhrifalausir á sjötta áratugnum og hægri menn höfðu ekki teljandi áhrif í verkalýðshreyfingu þeirra. Þessu var öfugt farið hér á landi.

Alþýðusambandið átti meginþátt í myndun vinstri stjórnarinnar sem sat að völdum á árunum 1956-1958 og var Hannibal Valdimarsson, forseti ASÍ, félagsmálaráðherra hennar. Sambandið lagði mikið kapp á myndun stjórnarinnar. En þar kom þó að leiðir skildi milli ríkisstjórnarinnar og Alþýðusambandsins, gegn vilja forsetans. Samherjar hans reyndust ekki tilleiðanlegir til þess að sættast á boðaðar efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar síðla árs 1958. Þessi niðurstaða var áfall fyrir forseta ASÍ sem barðist fyrir því að koma á „norrænu módeli“ hér á landi. Í því fólst að verkalýðsflokkarnir störfuðu saman og sameinuðust helst í róttækum jafnaðarmannaflokki – að verkalýðshreyfingin og flokkur verkalýðsins ynnu saman að því að koma á velferðarsamfélagi. Þetta hafði tekist á fjórða áratugnum en tilraun Hannibals mistókst.

Þegar leið á sjöunda áratuginn breyttist andrúmsloftið innan ASÍ af mörgum ástæðum. Áhrif kalda stríðsins minnkuðu og klofningur varð innan Alþýðubandalagsins sem lyktaði með því að Hannibal Valdimarsson gekk úr flokknum. Innan verkalýðshreyfingarinnar var þó meiri sáttahugur í fólki en verið hafði. Þau viðhorf sóttu á að tími væri kominn til að hefja meira samráð um kjarastefnu og efnahagslífið. Flokkastjórnmál settu þó áfram mikinn svip á starf ASÍ, en gerð var málamiðlun. Komið var á eins konar þjóðstjórn innan verkalýðshreyfingarinnar árið 1968 þar sem allir flokkar áttu fulltrúa. „Órólega deildin“, sem var andófshópur innan verkalýðshreyfingarinnar á áttunda áratugnum, vildi raska þessu jafnvægi og afnema „samtrygginguna“ sem hún taldi að væri við lýði. Þessi hópur var þó ekki samstæður og hafði takmörkuð áhrif. Í kjölfarið var óánægjan innan verkalýðshreyfingarinnar m.a. virkjuð í andófshreyfingum kvenna sem létu til sín taka á níunda áratugnum, en einnig bar á andófi innan einstakra félaga.

Verkalýðsflokkarnir tveir, Alþýðubandalagið og Alþýðu flokkurinn, höfðu lengi haft mest áhrif innan verkalýðshreyfingarinnar. Stundum sneru þeir bökum saman en oft börðust þeir líka hvor gegn öðrum og gerðu bandalag við Sjálfstæðisflokkinn. Hvort var ráðandi fór eftir því hvernig ríkisstjórnin var samsett. Þessi tengsl stjórnmálaflokkanna við verkalýðshreyfinguna fóru þó þverrandi eftir því sem leið á 20. öld. Ástæður þess voru margvíslegar. Vinstri stjórnir áttunda áratugarins áttu erfiða daga. Þau viðhorf urðu smám saman ríkjandi að líta fremur á stjórnvöld sem samningsaðila en samherja eða andstæðinga. Þegar komið var fram á ofanverðan níunda áratuginn versnuðu líka samskipti verkalýðshreyfingarinnar og þeirra flokka sem töldu sig styðja málstað hennar, og áhrif stjórnmálaflokkanna fóru óðum minnkandi.

Alþjóðamál

Í nágrannalöndum Íslands sleit verkalýðshreyfingin barns skónum á ofanverðri 19. öld og alþýðusambönd Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar voru öll stofnuð fyrir aldamótin 1900. Verkalýðshreyfing þessara landa hafði þýsku verkalýðshreyfinguna sem fyrirmynd og byggði á þeim hugmyndum og skipulagi sem þar voru ráðandi.

Íslendingar tengdust þessari hreyfingu ekki að marki fyrr en eftir 1920, en ASÍ gekk í Alþjóðasamband verkalýðsfélaga árið 1926. Samstarfið við Alþjóðasambandið var mikilvægt, en þó var enn mikilvægara fyrir ASÍ að halda uppi samstarfi við alþýðusambönd hinna Norðurlandanna og systurflokka Alþýðuflokksins í þeim löndum. Flokkurinn hafði mjög náin tengsl við bræðraflokka sína og naut fjárstuðnings frá þeim, einkum þó hinum danska. Formlegum tengslum var komið á við norrænu jafnaðarmannaflokkana og alþýðusamtökin árið 1937 en íslenskir fulltrúar höfðu þó setið samstarfsfundi flokkanna áður. Sum íslensk verkalýðsfélög, t.d. Sjómannafélag Reykjavíkur, tóku einnig snemma upp tengsl við stéttarbræður erlendis, en félagið gekk í Alþjóðasamband flutningaverkamanna árið 1923. Eftir að síðari heimsstyrjöldinni lauk tóku verkalýðssambönd Norðurlanda upp samstarf á ný og varð Alþýðusambandið aðili að því. Nokkurrar tortryggni gætti þó í garð Íslendinga eftir að sósíalistar náðu undirtökum í ASÍ.

Eftir stríðið var unnið að því að sameina verkalýðssambönd heimsins og var Alþjóðasamband verkalýðsfélaga (WFTU) stofnað í stríðslok árið 1945. Sú eining hélt þó aðeins í fjögur ár, eða til 1949. Þá gengu flest verkalýðssambönd í Vestur-Evrópu í Alþjóðasamband frjálsra verkalýðsfélaga (ICFTU) en yfirgáfu WFTU. ASÍ gekk til samstarf við ICFTU árið 1950 en yfirgaf hitt sambandið.

Eftir að sósíalistar náðu undirtökunum í ASÍ árið 1954 voru einnig tekin upp samskipti við verkalýðssambönd í Austur-Evrópu, en slíkt var óvenjulegt í NATO-ríki í miðju kalda stríðinu. Í kjölfarið urðu tíðar heimsóknir austur fyrir járntjald. Þessi samskipti voru þyrnir í augum samstarfssambanda ASÍ í VesturEvrópu en voru til marks um þá sérstöðu sem íslensk verkalýðshreyfing hafði að mörgu leyti.

Þrátt fyrir að viss skilningur væri á mikilvægi þess að hafa tengsl við stéttarsystkini erlendis var áhugi á samstarfi af þessu tagi lengi takmarkaður hér á landi. Helst reyndi á það þegar hörð kjaraátök áttu sér stað og svo komu alþjóðatengslin til umræðu í sambandi við stjórnmálabaráttuna í kalda stríðinu. Merkja má vaxandi vitund um mikilvægi alþjóðastarfs hérlendis á áttunda og níunda áratugnum. Þá jókst skilningur á því að landsmenn gætu margt lært af nágrannalöndunum og baráttumálum verkalýðshreyfingarinnar á þeim slóðum. Fólk sem var menntað á Norðurlöndunum lét líka meira að sér kveða innan verkalýðshreyfingarinnar, bæði innan MFA og ASÍ.

ASÍ tók ekki mikinn þátt í starfi Norræna verkalýðssambandsins (stofnað 1972) í fyrstu, en það jókst um og eftir 1980. Þá var einnig farið að auka samstarf við næstu nágrannalönd Íslands í verkalýðsmálum, Grænland og Færeyjar. ASÍ tók einnig þátt í starfinu innan Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, ILO, en samþykktir stofnunarinnar um ýmis réttindamál verkafólks höfðu mikið vægi víða um heim vegna réttindabaráttu verkafólks. Þegar komið var fram undir 1990 jókst starf ASÍ að Evrópumálum, ekki síst í tengslum við starfið innan Norræna verkalýðssambandsins. Hlutverk þess varð í vaxandi mæli að samhæfa afstöðu verkalýðsambandanna á Norðurlöndum til þeirra breytinga sem urðu innan ESB á þessu sviði og taka þátt í mótun tillagna um velferð almennings og bætt réttindi. Evrópusamband verkalýðsfélaga, ETUC, var helsti vettvangur umræðu um hagsmuni launafólks innan álfunnar. Á þeim vettvangi var samið um fjölmargar réttarbætur launafólks. Það var síðan verkefni einstakra verkalýðssambanda að fá sömu réttindi viðurkennd í heimalöndum sínum. Tengsl ASÍ við alþjóðlega verkalýðshreyfingu, ekki síst hina norrænu og evrópsku, höfðu því í för með sér að hér á landi var komið á mikilvægum réttarbótum fyrir almennt launafólk.

Lokaorð

Fram á öndverðan þriðja áratuginn var verkalýðshreyfingin að slíta barnsskónum og ýmis félög voru stofnuð. Sum lifðu en önnur stóðu stutt við. Félögin fetuðu sig áfram við samningagerð og í nokkrum félögum var reynt að fara í verkföll, þó að það væri ekki algengt. Áhersla var lögð á sjálfsþurft og lágmarksréttindi varðandi vinnutíma og laun.

Eftir 1920 hafði stéttarvitund eflst og félögin voru orðin fleiri og öflugri. Samhliða voru þau orðin málsvari jafnaðarstefnu, höfðu samnefnara og skýrari pólitíska sýn en verið hafði. Á þessum tíma fékkst viðurkenning á samningsrétti verkalýðsfélaganna og að laun ætti að greiða í samræmi við kjarasamninga (fékkst endanlega með vinnulöggjöfinni 1938). Þá fékkst viðurkennt að samfélaginu bæri skylda til að koma að vissu marki til móts við þá sem væru atvinnulausir (með atvinnubótavinnu). Meðlimir í verkalýðsfélögum fengu forgangsrétt til vinnu og þar með fékkst fram nánast skylduaðild að verkalýðsfélögunum.3 Á þessum tíma var verkalýðshreyfingin jafnframt viðurkennd sem ein af meginvaldastofnunum samfélagsins og styrkur hennar var orðinn það mikill að henni tókst að fá ýmsar kröfur sínar viðurkenndar sem samfélagslegar grunnreglur (t.d. al þýðu trygg ingalögin).

Sjá einnig Svanur Kristjánsson 1986, 4.

Aðbúnaður erlendra verkamanna við byggingu Kárahnjúkavirkjunar árið 2003 var ekki góður. Á öndverðri nýrri öld kom í ljós að gæsla grunnréttinda verkafólks var ekki síður mikilvæg en verið hafði á árdögum verkalýðshreyfingarinnar.

Árin eftir síðari heimsstyrjöldina og fram til 1960 einkenndust af stöðugri togstreitu í launamálum en miklu minna var sinnt um félagsleg málefni (t.d. húsnæðismál). Það var m.a. afleiðing þess að verkalýðshreyfingin hafði ekki lengur pólitískan bakhjarl (frá 1940) og einnig ríkti mikil óeining á milli verkalýðsflokkanna tveggja. Verkalýðshreyfingin reyndi að verja það sem áunnist hafði. Gerð var tilraun til samráðs stjórnvalda og verkalýðshreyfingar árin 1944–1946 og 1956–1958, en það stóð stutt og mistókst. Enn var óeining innan verkalýðshreyfingarinnar og hörð pólitísk átök í anda kalda stríðsins. Sjálfstæðismenn sóttu víða á innan verkalýðsfélaganna.

Á sjöunda áratugnum voru gerðar tilraunir til víðtæks samráðs. Gerðir voru samningar um kaupmátt og athyglinni var beint að öðrum mikilvægum en vanræktum hagsmunamálum fólks en launatöxtum, með góðum árangri. Á áttunda og níunda áratugnum ríkti óðaverðbólga. Þrátt fyrir að ekki næðist sátt og samráð um kjarastefnu var þó mikið samstarf á milli stjórnvalda og verkalýðshreyfingar sem lýsti sér í því að margvísleg mikilvæg félagsleg réttindi voru viðurkennd á þessum tíma. Nefna má lög um starfskjör, um aðbúnað og hollustu og átak í húsnæðismálum og fjölmörg önnur mál. Þetta tókst m.a. vegna þess að nú var miðstýring orðin mun meiri innan verkalýðshreyfingarinnar en verið hafði, en einnig ríkti meiri skilningur á gildi þessara mála. Lífskjör voru líka orðin mun betri en áratugum fyrr. Samhliða efldi verkalýðshreyfingin stofnanir sínar. Farið var að ráða sérfræðinga til starfa sem síðan urðu leiðandi innan hreyfingarinnar. Gamlir draumar um öfluga menntastofnun rættust og listasafn var opnað á vegum hreyfingarinnar.

Aldnir höfðingjar á ASÍ-þingi 1988, f.v.: Hannibal Valdimarsson, forseti 1954–1971, Helgi Hannesson, forseti 1948–1954, Hermann Guðmundsson, forseti 1944–1948 og Snorri Jónsson, forseti (í forföllum) 1973–1974 og 1978–1980.

Á níunda áratugnum voru lögð drög að þjóðarsátt, víðtæku samráði aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda um samninga sem ættu að tryggja kaupmátt. Við þau straumhvörf urðu miklar breytingar. Hefðbundin kjara átök með verkföllum hurfu smám saman. Verkalýðshreyfingin átti mikinn þátt í að sækja fleiri brýn réttindi fólki sínu til handa, ekki síst á sviði fræðslumála og varðandi fæðingar- og foreldraorlof, auk bættrar stöðu þeirra sem voru atvinnulausir. En samhliða beindi nýfrjálshyggjan spjótum sínum að hreyfingunni og alþjóðavæðingin setti mark sitt á starf hennar, bæði erlendis og hér á landi, undir lok 20. aldar og á fyrsta áratug nýrrar aldar. Gildi verkalýðshreyfingarinnar var dregið í efa. Því var haldið fram að hún setti óréttmætar hömlur á atvinnufrelsi og að hagvöxtur væri minni þar sem verkalýðshreyfingin væri sterk en þar sem hún hefði sig lítið í frammi.

Þegar litið er yfir farinn veg og hlutverk verkalýðshreyfingarinnar borið saman við hlutverk hennar í árdaga kemur í ljós að margt er svipað en annað hefur breyst mjög. Meginhlutverkið er vissulega að sinna um kaup og kjör, gera kjarasamninga og standa vörð um áunnin réttindi, en hlutverk hennar er þó ekki síður að vera mikilvæg þjónustustofnun fyrir launafólk, auk þess sem verkalýðshreyfingin hefur tekið yfir hluta af almannatrygginga- og menntakerfinu. Þannig sér verkalýðshreyfingin m.a. um öflugt fræðslukerfi, orlofshús, sjúkrasjóði og lögfræðiaðstoð.

Þegar verkalýðshreyfingin leit yfir farinn veg á árinu 2005 og mat árangurinn var niðurstaðan þessi:

  1. Réttur verkafólks til þess að stofna og starfrækja verkalýðsfélög er viðurkenndur.
  2. Viðurkennt er að verkalýðsfélög hafi mikilvægu hlutverki að gegna við að móta vinnumarkaðinn.
  3. Réttur til að semja um kaup og kjör er viður-kenndur sem grundvallarmannréttindi.
  4. Samfélagið viðurkennir að verkalýðshreyfingin eigi rétt á að hafa áhrif á umhverfi vinnunnar og vinnustaðinn.
  5. Verkalýðshreyfingin hefur stuðlað að því að settar hafa verið margvíslegar reglur um umhverfi, aðbúnað og kjarasamninga.

Verkalýðshreyfingin hefur því náð stórkostlegum árangri á mörgum sviðum og verið í forystu við mótun velferðarsamfélagsins. Oft tókst henni að leiða verkafólk farsællega fram á veginn. Með köflum var hún þó bundin af hagsmunum stjórnmálaflokka og dægurbar áttu þeirra.

Erfitt er að meta afstöðu fólks til verkalýðshreyfingarinnar hér á landi. Það má ef til vill helst gera með því að rýna í kannanir sem hafa verið gerðar um þessi efni. Aðild að stéttarfélögum segir einhverja sögu en alls ekki alla. Ástæðan er sú að allt frá því á ofanverðum fjórða áratugnum hefur það nánast verið skylda launafólks að vera í stéttarfélagi. Þegar afstaða til verkalýðshreyfingarinnar var könnuð um miðjan tíunda áratug 20. aldar kom í ljós að almennt var mikill stuðningur meðal almennings við verkalýðshreyfinguna; flestir töldu að stéttarfélög væru nauðsynleg og tveir af hverjum þremur álitu að allt launafólk ætti að vera í verkalýðsfélögum. Sérstaklega töldu konur áríðandi að fólk væri stéttarfélagsbundið. En í könnuninni kom líka fram að áhugi á að starfa innan hreyfingarinnar var ekki mikill og mun lægra hlutfall fólks hafði áhuga á að sækja fundi í stéttarfélögum hérlendis en raunin varð t.d. í Danmörku og Svíþjóð, þar sem tæplega helmingur félagsmanna í aðildarfélögum alþýðusambanda þeirra landa sótti fundi í stéttarfélögum sínum. Sérstaklega var yngra fólk frábitið því að sækja fundi.5 Staða hreyfingarinnar var því í senn bæði sterk og veik. Mikilvægi hennar var almennt viðurkennt, en fáir voru reiðubúnir að leggja mikið í sölurnar fyrir hana.

Vinnan XLV (1995) 3. tbl., 8–9.

Á ársfundi ASÍ árið 2005 var rætt um framtíðarsýn sambandsins. Þar kom fram að megináherslu bæri að leggja á þrjá þætti til framtíðar: hefðbundna launa- og kjarabaráttu, vinnuumhverfi og vinnustaði, og mótun samfélagsins. Rík áhersla var lögð á vinnuumhverfið og að launafólk hefði sem mest að segja um hvernig búið væri að starfsfólki á vinnustað. Staðhæft var að verkalýðsfélögin þyrftu í vaxandi mæli að fara að skilgreina sig sem lífsgæðafélög þar sem stór hluti lífsgæða tengdist vinnunni, svo sem vellíðan á vinnustað og tækifæri í starfi, jafnrétti karla og kvenna, atvinnuþátttaka sem flestra, staða þeirra sem eldri voru, staða fatlaðra og loks menntun.6

Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 2006,
44–45.

Árið 2008 breyttust þessi viðhorf að nokkru leyti. Margt bendir til að verkalýðshreyfingin verði í framtíðinni að beita sér einkum á svipuðum vettvangi og hún gerði í öndverðu og standa vörð um þau grunngildi sem hún hefur einkum barist fyrir, mannsæmandi kjör, réttlæti, starfsöryggi og viðunandi aðbúnað. Hún þarf einnig að leggja harðar að sér á sumum sviðum, t.d. í jafnréttismálum, húsnæðismálum og umhverfismálum. Verkalýðshreyfingin hefur ekki lokið hlutverki sínu.

Næsti kafli

English Summary – Development of the Labour Movement