Efnisyfirlit

Deila sögu ASÍ

Tímabilið fram til 1940

Inngangur

Saga ASÍ: Til velferðar

Inngangur

Í þessum hluta verður fjallað um sögu Alþýðusambandsins frá því um 1960 og fram til ársins 2009. Umfjöllunin að þessu sinni verður að sumu leyti ólík hinum fyrri, enda var verkalýðshreyfingin búin að slíta barnsskónum á þessu tímabili. Undir aldarlok var jafnvel svo komið að sumir voru farnir að efast um tilverurétt hennar því að öllum markmiðum hennar hefði verið náð. Þær skoðanir áttu þó eftir að breytast. Hinar hörðu pólitísku deilur, nátengdar pólitískum flokkum, sem lengi settu svo mikið mark á hreyfinguna, voru þá að mestu úr sögunni. Innan hreyfingarinnar heyrðust raddir um að hún væri orðin að stofnun sem hefði lítil tengsl við félagsmenn. Utan hennar var hún gagnrýnd fyrir óraunsæjar kjarakröfur og fyrir að setja atvinnulífinu óþarfar skorður. Nýfrjálshyggja setti í vaxandi mæli mark sitt á íslenskt samfélag eftir 1980 og það hafði áhrif á afstöðu fólks til hreyfingarinnar. Sú afstöðubreyting varð þó ekki til þess að fólki innan verkalýðshreyfingarinnar fækkaði hlutfallslega. Það gerðist ekki hér á landi, ólíkt mörgum öðrum löndum.

Á þessu tímabili, jafnt sem hinu fyrra, var skipulag hreyfingarinnar mjög til umræðu, án þess þó að forysta hennar næði markmiðum sínum á þessu sviði að öllu leyti. Skipulagið breyttist þó mikið, ekki síst með myndun starfsgreinasambanda og sameiningu einstakra félaga á ofanverðu tímabilinu; það stefndi jafnvel í að sérsamböndin yrðu óþörf vegna þess hve öflug einstök félög voru orðin. Þá var sú mikilvæga breyting gerð að skipting hreyfingarinnar eftir kynjum var endanlega lögð af á tíunda áratug 20. aldar.

Verkalýðshreyfingin hafði lengi barist fyrir því að efla menntun félagsmanna og menningarstarf. Það var þó ekki fyrr en á ofanverðri öldinni sem hún reyndist tilbúin til þess að fara að sinna þessum málum af þunga. Þar ber hæst stofnun Menningar- og fræðslusambands alþýðu og Listasafns alþýðu og síðar var leitast við að stórefla starfsnám og fullorðinsfræðslu á níunda áratugnum og fram á nýja öld.

Tengslin við verkalýðshreyfinguna á hinum Norðurlöndunum voru efld mjög á áttunda áratugnum með þátttöku Íslands í Norræna verkalýðssambandinu (stofnað 1972). Ekki urðu þó gagngerar breytingar á alþjóðastarfi Alþýðusambandsins fyrr en í kringum 1990. Ástæðan var tilkoma Evrópska efnahagssvæðisins sem Ísland gerðist aðili að (1994). Talsvert fyrir 1990 var þó farið að huga að auknu samstarfi við evrópska verkalýðshreyfingu og nánar fylgst með þróun kjara- og félagsmála í Evrópu en verið hafði. Málefni tengd Evrópska efnahagssvæðinu urðu meðal helstu mála Alþýðusambandsins á tíunda áratug 20. aldar og á fyrsta áratug nýrrar aldar.

Kjaramálin voru vitaskuld höfuðmál hreyfingarinnar. Þau breyttust þó mikið á tímabilinu og verkalýðshreyfingin fór að leggja mun meiri áherslu á velferðar- og aðbúnaðarmál. Miklar breytingar urðu einnig á því hvernig staðið var að kjarasamningum. Á tímabilinu varð algengt að samflot væri haft í kjarasamningum undir forystu ASÍ en undir lok þess fóru sérsambönd og einstök félög að láta meira til sín taka. Stór skref voru stigin í þá átt að koma á þríhliða samráði á vinnumarkaði á sjöunda áratugnum en það varð þó ekki ráðandi fyrr en með þjóðarsáttarsamningunum árið 1990.

Breiðholtið í byggingu fyrir 1970; svokallaðar Framkvæmdanefndarblokkir í forgrunni. Húsnæðismál alþýðu manna voru meðal stærstu mála verkalýðshreyfingarinnar á sjöunda og áttunda áratug 20. aldar.

Þorbjörg Svavarsdóttir í glænýju eldhúsinu í Framkvæmdanefndaríbúðinni í Rjúpufelli í Breiðholti árið 1974.

Kári Kristjánsson vinnueftirlitsmaður ræðir við byggingaverkamenn á vinnustað kringum 1990. Öryggis- og aðbúnaðarmál á vinnustöðum voru meðal helstu viðfangsefna verkalýðshreyfingarinnar á ofanverðri 20. öld.

Alþýðusambandið og aðildarfélög þess áttu undir högg að sækja á kreppuárunum fyrir 1970 en á öndverðum áttunda áratugnum bötnuðu kjörin hratt. Óðaverðbólga einkenndi áttunda áratuginn og allt fram undir 1990. Stöðug togstreita var á milli hreyfingarinnar og stjórnvalda um efnahagsstefnuna og mátti heita að gengi krónunnar væri fellt í kjölfar hverra einustu kjarasamninga. Verkafólk fékk sjaldnast aukinn kaupmátt nema rétt um stundarsakir. Þessum vítahring linnti árið 1990 með þjóðarsáttarsamningunum þar sem stefnt var að meiri stöðugleika. Stöðugleiki náðist og hélst um árabil en stjórnvöld kunnu sér ekki hóf um og eftir aldamótin 2000. Taumlaus þensla einkenndi næstu ár og frjálshyggja setti í vaxandi mæli mark sitt á samfélagið. Þær breytingar birtust m.a. í mjög aukinni misskiptingu. Síðar kom í ljós að stjórnvöld höfðu boðið upp í hrunadans. Það einkennilega gerðist að verkalýðshreyfingin stóð að sumu leyti frammi fyrir svipuðum verkefnum á fyrsta áratug 21. aldar og hún hafði gert á þroskaárum sínum.

Minna hefur verið fjallað um sögu verkalýðshreyfingarinnar frá sjöunda áratug 20. aldar til þessa dags en fyrir þann tíma, sem eðlilegt er. Umfjöllun í þessu bindi hlýtur að bera þess nokkur merki. Þau gögn sem mest hefur verið stuðst við í þessum hluta eru skýrslur og samantektir frá Alþýðusambandinu, blöð sambandsins, Vinnan og Fréttabréf ASÍ, og umfjallanir í dagblöðum, sem og viðtöl við fólk úr verkalýðshreyfingunni, æviminningar og skjöl úr Sögusafni verkalýðshreyfingarinnar á Þjóðskjalasafni.

Næsti kafli

Íslenskt samfélag og samfélagsbreytingar