Járnsmiðir að störfum í Slippnum í Reykjavík, unnið að því að lagfæra skips skrokk eftir miðja öldina. Hávaði og erfiði einkenndi oft þessi störf.
„Ég hef unnið frá því að ég var sjö ára gömul,“ segir Viktoría, „ég man hvað ég var oft þreytt sem krakki. Tuttugu og fimm ára gömul var ég búin að eignast sex börn, og þegar þau fóru að stálpast dreif ég mig á síld. Seinustu árin hef ég unnið í frystihúsum – ja, maður er búinn að leggja fram krafta sína í þágu þjóðfélagsins!!“ Nú er hún að verða fimmtug og sárkvalin af liðagigt, en samt með þeim hæstu í bónus. Hún þarf líka á peningunum að halda, því hún er að kaupa sér íbúð.1
Inga Huld Hákonardóttir 1981, viðtal við Viktoriu Finn-
bogadóttur um 1980, 93.
Útgjöld til velferðarmála á Norðurlöndunum voru hlutfallslega svipuð um miðja 20. öld, en eftir 1950 jókst munurinn vegna þess að Ísland jók ekki framlög til velferðarmála í sama mæli og hin löndin. Framlög Íslands til þessa málaflokks jukust þó á ofanverðri 20. öld. Engu að síður var þó áfram nokkur munur á framlögum norrænu ríkjanna til velferðarmála sem hlutfall af vergri landsframleiðslu.2 Verkalýðshreyfingin stuðlaði að því að auka útgjöld til þessara málaflokka og hið sama gerðu verkalýðsflokkarnir. Þá skipti barátta kvennahreyfingarinnar einnig miklu máli í þessu samhengi. Nefna má löggjöf um almannatryggingar, atvinnuleysistryggingar og ýmsar aðrar lagasetningar sem tengjast félagslegum réttindum, ekki síst frá árunum í kringum 1980. Vel má segja að hugmyndir um velferðarkerfi hafi smám saman notið almennrar viðurkenningar í samfélaginu, einnig meðal þeirra sem töldust til hægri í stjórnmálum. Þannig var velferðarsamfélag byggt upp í landinu þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn væri ráðandi í stjórnmálum stóran hluta lýðveldistímans. Það gerðist þó hægar og síðar en í nágrannalöndunum.3
Áratugum saman hafði verkalýðshreyfingin eða einstök félög innan hennar ekki skipt sér mikið af aðbúnaðarmálum. Bent hefur verið á að verkalýðshreyfingin hafi oft látið vera að álykta um slík málefni en fjallað því meira um efnahags- og atvinnumál. Litið hafi verið svo á að stjórnmálaflokkunum bæri að sinna þessum verkefnum. Verkefni verkalýðsfélaganna væri að sinna kjaramálum, dýrtíðinni og atvinnumálum heima í héraði.4
Ástandið var víða slæmt hér á landi í þessum efnum á áratugunum eftir miðja 20. öld og ólíkt því sem tíðkaðist víða í Vestur-Evrópu. Ástandið líktist miklu fremur stöðu mála í fjarlægum heimshlutum sem oft voru kallaðir vanþróaðir. Herdís Ólafsdóttir verkalýðsleiðtogi á Akranesi lýsti einum slíkum vinnustað í grein í Þjóðviljanum árið 1971. Þetta var fiskvinnslufyrirtæki:
Okkur bar að húsi nokkru eigi allfjarri sjó. Gengið á plánka yfir skurð, nokkurs konar síkisbrú frá riddarasögunum. Við fundum hurð, gengið niður hriktandi tröppur úr tré sem voru eins og þær hefðu fundizt á öskuhaug og verið hent þarna viljandi eða óviljandi.
… Við gengum gegnum vinnusalinn, hörmulega vistarveru á neðri hæð, líkasta hlöðu, töluðum við konurnar yngri og eldri sem ýmist unnu af kappi við að hreinsa skelfiskinn eða úrskelja hann. … Við héldum áfram upp kolsvartan óhreinan stiga upp á efri hæðina … Á meðan við bíðum hagræðingsins göngum við um salinn, tölum við fólkið og fáum leyfi til að fara á salerni. Guð minn góður, hvílík hremming, okkur varð hugsað til Toilettsins í Palisanderhöllinni [húsi Vinnuveitendasambandsins], er að verða úthaf milli fólksins sem vinnur við undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar og skapar verðmætin … Allt útlit þessa húss var þannig að það var eins og menn hefðu gleymt því að til er efni sem heitir málning, eins og menn hefðu gleymt því að hér var vinnustaður hundruða manna og síðast en ekki sízt gleymt því, að hér fór fram matvælaframleiðsla á heimsmarkaðinn. … Jæja, nú var fólkið farið að drekka kaffið. Það var að vísu engin kaffistofa, en grind hafði verið slegið upp í einu horni vinnusalarins, klætt á hana plast, gerið svo vel, hér er þykjast kaffistofa með nýjum stólum og borðum …5
Herdís Ólafsdóttir 1971, 4.
Þegar norrænir gestir komu hingað til lands árið 1975 og skoðuðu vinnustaði, m.a. ullarverksmiðjuna á Álafossi, undruðust þeir ástandið og lýstu því á svipaðan hátt og þeir væru staddir í vanþróuðu landi utan Evrópu: Hættur blöstu víða við, m.a. „åbne hjul, der i rasende fart kørte rundt nøjagtig der, hvor folkene passerede tæt forbi“. Enginn á staðnum virtist hafa orku til þess að skipta sér af málum, að því er virtist af ótta við yfirmenn og stór hluti starfsmanna entist ekki nema tvo til þrjá mánuði í einu á staðnum. Vinnudagurinn var langur og verulegur hluti launa tilkominn vegna yfirvinnu. Á Íslandi var ástandið á margan hátt eins og í gamalli nýlendu og launin afar lág, miðað við hin Norðurlöndin. Annað fyrirtæki sem gestirnir heimsóttu framleiddi vörur fyrir danskt fyrirtæki. Það sendi hráefnið til Íslands, þar sem unnið var úr því og því næst var það aftur sent til Danmerkur og síðan selt þaðan til annarra landa sem dönsk vara.6
Ekki var vanþörf á að beina sjónum að öryggi og aðbúnaði fólks. Langt fram eftir 20. öld voru störf verkafólks yfirleitt mjög erfið líkamlega, fólk slitnaði snemma, eins og skipasmiður sem hóf sinn vinnuferil upp úr 1940 hefur lýst:
Vinnan var oft mjög erfið, unnið með þung efnisstykki, unnið mikið með slaghömrum og sleggjum við útivinnuna. Sem dæmi ráðlagði heimilislæknir minn mér að skipta um vinnu þegar ég var rúmlega fertugur, hætta í skipasmíðinni og fara í einhverja léttari vinnu vegna slits í baki og handleggjum. Þá var oft unnið í miklum hávaða, sérstaklega í stálskipunum þar sem plöturnar voru hnoðaðar saman.7
ÞÞ Svör við spurningum um skipasmíðar. kk., nr. 108.
Þá var loftræsting víða slæm, kuldi að vetrarlagi og hávaði. Aðstæður sem þessar leiddu til þess að fljótt sá á fólki og margs kyns kvillar gerðu vart við sig; bakveiki, gigtveiki og heyrnarskaði.
Með auknu vinnuálagi í fiskvinnslu urðu atvinnusjúkdómar algengari, en ákvæðisvinnukerfi ruddi sér til rúms um og upp úr 1970. Afköstin jukust en vinnuálagið líka.8 Hávaði gat verið mikill, roðflettingarvélin ætlaði „alla að æra“, sagði verkakona í viðtali við Vinn-una árið 1975.9 Hávaðinn hafði heyrnarskerðingu í för með sér, fólk fékk höfuðverk, bakverk, vöðvabólgu og svo fylgdi sálrænt álag vinnuhraðanum.10 Bónus jók á streitu fólks, fólk sleppti pásum.11 Konurnar „kepptust of mikið við til að fá meira útborgað, sem varð til þess að þær urðu þreyttari og skapstyggari, það mátti ekkert út af bregða, þá var allt í hálofti, rólegustu konur urðu að taugahrúgu og sögðu margt sem aldrei hefði heyrst frá þeim undir venjulegum kringumstæðum, en því miður var bónusinn svona“.12
Yfirleitt var ekkert reglulegt heilbrigðiseftirlit á vinnu stöðum og sjaldgæft var að heyrn starfsmanna væri könnuð þar sem hávaði var mikill. Engar upplýsingar var að hafa um tíðni atvinnusjúkdóma eða hversu margir hefðu látið af störfum vegna veikinda sem rekja mátti til vinnunnar. Eftirlitsstofnanir voru veikar og vanbúnar, höfðu lítið fjármagn og yfirboðarar þeirra í ráðuneytum sýndu starfi þeirra iðulega lítinn skilning.13 Þá var starfsfólk oft tregt til þess að nota ýmsan varnarbúnað, og fræðslu um líkamsbeitingu skorti tilfinnanlega. Atvinnurekendur voru einnig tregir til að gera úrbætur og læknar stundum hikandi við að skera úr um að tiltekin veikindi teldust til atvinnusjúkdóma. Þeir sem veiktust og urðu að hætta vinnu í sínu fagi gátu lent í erfiðleikum.14
Á sjöunda og áttunda áratugnum breyttust viðhorf smám saman.15 Það gerðist ekki síst fyrir áhrif frá norrænni verkalýðshreyfingu.16 Á vegum hennar voru haldnir fundir og ráðstefnur um öryggismál á vinnustöðum sem Alþýðusambandið sótti, t.d. um miðjan sjöunda áratuginn.
Nefna má að Hannibal Valdimarsson, lagði fram til umræðu á fundi miðstjórnar ASÍ árið 1963 uppkast að lögum um vinnuvernd sem byggt var á norskum lögum um sama efni; efni þess var rætt töluvert í miðstjórn ASÍ en það náði ekki mikið lengra. Hann lagði síðan, í samstarfi við fleiri þingmenn, margoft fram frumvörp um vinnuvernd á Alþingi án þess að þau næðu fram að ganga.17
Til viðbótar þessu má nefna að Magnús Kjartansson, sem var heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á árunum 1971–1974, beitti sér fyrir því að sett var reglugerð um varnir gegn mengun af völdum hættulegra efna og eiturefna. Tilgangur reglugerðarinnar var m.a. að stuðla að því að koma upp mengunarvarnabúnaði í álverinu í Straumsvík vegna mengunar í verksmiðjunni og nágrenni hennar.18 Samkvæmt reglugerðinni var gerð krafa um að öll fyrirtæki sem yllu mengun yrðu að sækja um starfsleyfi til Heilbrigðiseftirlits ríkisins, en þau fyrirtæki sem þegar væru starfandi yrðu að sækja um starfsleyfi innan tiltekins tíma.19 En fleira fylgdi álverksmiðjunni en mengun. Þar voru að sumu leyti teknir upp aðrir starfshættir en tíðkast höfðu hérlendis og starfsmönnum þar var gert að nota margvíslegan öryggisbúnað sem ekki var algengt að nota hér á landi fyrir tilkomu álversins, m.a. heyrnarhlífar og hjálma.20
Breytt viðhorf birtust einnig í samþykktum þinga Alþýðusambandsins og sérsambanda þess og á ráðstefnum um þessi efni. Þannig stóð MFA fyrir ráðstefnu um heilbrigði og öryggi á vinnustöðum haustið 1971 þar sem hvatt var til að lög og reglur um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum yrðu endurskoðuð og talið brýnt að verkalýðshreyfingin ætti hlut að nauðsynlegu eftirliti á vinnustöðunum.21 Þá samþykkti ASÍ ítarlega ályktun um vinnuverndarmál á þingi sínu árið 1972.22 Félag járniðnaðarmanna ræddi þessi mál á aðalfundi 1972, en ári áður höfðu ákvæði um öryggi og aðbúnað verið skerpt í kjarasamningum félagsins, auk þess sem starfsmenn áttu að fá ókeypis læknisskoðun. Í kjölfar þess var Sören Sörenson fenginn til að gera úttekt á vinnustöðum málmiðnaðarmanna með hliðsjón af aðbúnaði og hollustuháttum.23 Málm- og skipasmiðasambandið fjallaði einnig um þessi mál á þingi sínu árið 1974 og hvatti til aukinnar aðgæslu. Guðjón Jónsson, formaður Félags járniðnaðarmanna, var í forystu fyrir umræðunum en hann hafði verið duglegur við að sækja heim sambönd málmiðnaðarmanna í nágrannalöndunum og sótti einnig á þessum tíma ráðstefnur um vinnuvernd og hollustuhætti á vinnustöðum málmiðnaðarmanna.24 Í ályktunum sambandsins var staðhæft að víða yrði launafólk fyrir heilsutjóni af völdum hávaða, ryks og vinnuálags og hvatt var til þess að enginn seldi heilsu sína fyrir sérstakar launagreiðslur. Ættu „vinnuverndarsjónarmið [að vera] meginatriði en ekki sérstakar greiðslur fyrir hættuleg og óholl störf“. Þá bæri að taka upp lækniseftirlit á öllum vinnustöðum, auka fræðslu á þessu sviði og sjá til þess að fulltrúar heilbrigðis- og öryggiseftirlits hefðu samráð við trúnaðarfólk verkalýðsfélaganna. Sjómannasambandið gerði einnig svipaðar samþykktir á sama tíma.25
Guðjón Jónsson gjörþekkti vinnustaði málmiðnaðarmanna. Hann lýsti ástandinu svo: „Í 23 málmiðnaðarfyrirtækjum sem höfðu verið athuguð vantaði bað- og þvottaaðstöðu hjá 17 fyrirtækjum og ræstingu á salernum var mjög ábótavant í 14 tilfellum af 23. Á 88 vinnustöðum sem kannaðir voru var engin eða ófullnægjandi loftræsting í 75 tilfellum og hávaði, rykmengun og óþefur var í tæpum helmingi vinnusala. Þá var umgengni áfátt í rúmlega helmingi vinnusala.“26Mörg dæmi voru um heilsutjón og vanlíðan af völdum loftmengunar, eins og málmiðnaðarmaður lýsti á ofanverðri 20. öld. Hann var að fjalla um afleiðingar þess að rafsjóða lengi án hreinsibúnaðar, en væru margir að sjóða í sama rými fylltist það smám saman af ólofti: „Er maður þá alveg rotaður þegar heim er komið, getur rétt borðað, og er svo dottinn útaf, ég tala nú ekki um ef sest er fyrir framan sjónvarpið. Þetta stafar af því að verið er í þungu lofti allan daginn.“27Í rannsókn sem var gerð árið 1980 kom í ljós að atvinnusjúkdómar meðal iðnaðarmanna voru algengir, t.d. bakveiki og bakverkir, vöðvabólga, heyrnarskaði, augnskaðar og exem, svo nokkuð sé nefnt. Þá reyndist streita algeng. Vinnuslys reyndust einnig algeng og höfðu um 20% þeirra sem tóku þátt í könnuninni orðið fyrir vinnuslysi á undangengnu ári. Talið var að um tíu þúsund vinnuslys yrðu á landinu öllu árlega um þetta leyti.28 Ljóst mátti vera að sú mikla slysatíðni var óviðunandi. Þá voru vinnuslys algengari hjá þeim sem störfuðu í ákvæðisvinnu en hjá þeim sem voru í tímavinnu. Einnig var skýrt samhengi á milli fjölda vinnuslysa og þeirra vinnustaða þar sem kvartað var undan vandamálum vegna aðbúnaðar, og líka mátti sjá tengsl á milli tíðni vinnuslysa og vinnustaða þar sem unninn var langur vinnudagur.29
Sigrún Clausen nefndi dæmi um aðbúnað af vinnustað sínum á Akranesi. Fólk á vinnustaðnum kvartaði undan þreytu og drunga sem legðist yfir það í vinnunni. Þegar aðstæður voru athugaðar kom í ljós að olíuknúinn lyftari var í notkun á hæðinni fyrir neðan og stybban frá honum leitaði upp í vinnusal fólksins. Þegar búið var að skipta um lyftara snarbatnaði heilsufar starfsmannanna. Smávægilegar breytingar gátu því skipt sköpum fyrir vellíðan fólksins.
Sigrún nefndi einnig til sögu tvö önnur algeng vandamál í frystihúsunum. Annað varðaði vinnuaðstöðuna. Borð og stólar voru hönnuð þannig að gert var ráð fyrir að allt starfsfólk væri af sömu stærð, sem það auðvitað ekki var. Hinir smávöxnu og hinir hávöxnu liðu fyrir þetta. Hitt atriðið varðaði gólfin. Þau voru iðulega svo hál að slys voru algeng og stundum alvarleg.30 Þessi atriði virtust kannski ekki ýkja flókin og lausnirnar ef til vill ekki svo kostnaðarsamar. En þó gat reynst snúið að fá breytingar af þessu tagi samþykktar.
Í ályktun 33. þings Alþýðusambandsins árið 1976 kom fram að ófremdarástand ríkti í vinnuverndarmálum, „fjöldi vinnuslysa og atvinnusjúkdóma [væri] uggvænlegur“. Þá hefði reynslan sýnt að Öryggiseftirlit ríkisins gæti ekki valdið þeim verkefnum sem stofnuninni væri ætlað að sinna. Hið sama mætti segja um Heilbrigðiseftirlit ríkisins og sambærilegt eftirlit á vegum sveitarfélaga. Þær stofnanir beittu „ekki lagaákvæðum til þess að fá fram lagfæringar á lélegum aðbúnaði og hættulegum slysagildrum vinnustaðanna“.31
Í yfirlýsingum þingsins vottaði fyrir sjálfsgagnrýni, enda bæru verkalýðsfélögin og verkafólk einnig ábyrgð á ófremdarástandinu. Þau viðhorf hefðu verið ríkjandi „að vinnuumhverfið … [væri] óumbreytanlegt frá því ástandi, sem ríkir og ríkt hefur“.32 Erfitt hefði reynst að fá fólk til að fara eftir öryggisreglum, t.d. að nota hjálma.33 Víða bar á þessu umkvörtunarefni, að verkafólk væri tregt til þess að nota þann búnað sem í boði væri, hvort sem um væri að ræða heyrnarhlífar eða rykgrímur. Fólk kvartaði undan óþægindum sem væru því samfara að nota búnaðinn. Einn starfsmaður Álafoss sagði m.a.: „Ég get ekki notað heyrnarhlífar. Finnst það óþægilegt. Þær eru bæði óþægilegar og tefja auk þess fyrir mér, þegar ég þarf að bogra aftan við [vef]stólinn. Hins vegar treð ég alltaf bómull í eyrun á mér, þannig að hávaðinn verkar ekki svo mikið á mig. Annars venst maður þessu.“ Annar starfsmaður sama fyrirtækis notaði ekki andlitsgrímu þrátt fyrir að loftið væri þungt og „bölvuð gufudrulla“, „en maður venst þessu ólofti, eins og hverju öðru“, sagði hann.34 Á ferð um vinnustaði Álafoss árið 1978 sást aðeins einn maður með heyrnarhlífar og enginn með andlitsgrímu, að sögn blaðamanns Vinnunnar. Niðurstaða hans var þessi: Það er engu „líkara en að það þurfi beinlínis að gera fólki það skylt að nota slík tæki, sem þó ætti hverjum að vera ljóst, að eru til hagsbóta fyrir launþegann, ekkert síður en fyrirtækið“.35 Viðkvæði starfsmanns í Vestmannaeyjum var, þegar hann var hvattur til að nota heyrnarhlífar: „Eyrun eru ónýt hvort eð er.“36 Vaninn var því ekki síður erfiður andstæðingur en tregur atvinnurekandi. Einnig gat reynst snúið að fá fólk til að bera öryggishjálma þrátt fyrir augljósa kosti þeirra. Eftir að notkun þeirra varð algengari smáfjölgaði einmitt þeim dæmum þar sem öryggishjálmar björguðu mannslífum.37
Rykmengun plagaði líka mannskapinn í Áburðarverksmiðjunni eins og starfsmenn verksmiðjunnar lýstu í viðtali. Andlitsgrímur voru vissulega til bóta en „grímurnar gera ekki annað en að minnka magnið af rykinu sem við öndum að okkur. Þakkarvert auðvitað, en maður snýtir svörtu þrátt fyrir grímurnar … þegar maður er að vinna í svona miklu ryki, eins og alltaf er hér, þá verður maður mjög þungur allur og þreyttur. Enda finnst mér að maður eldist ótrúlega fljótt á þessum vinnustað“.38
Önnur vandamál herjuðu á aðrar starfsstéttir. Málarar unnu t.d. daglega innan um alls konar leysiefni sem gátu valdið margvíslegum atvinnusjúkdómum, t.d. „höfuðverk, ógleði, lystarleysi, pirringi, þreytu, útbrotum og þurri slímhúð í munni og nefi“. Þessi áhrif gátu þó horfið við það eitt að komast í helgarfrí en höfðu vitaskuld mikil áhrif, bæði á viðkomandi einstakling og fjölskyldu hans.39 Eftir því sem leið á 20. öld komu einnig fleiri og áður ókunn vandamál til sögunnar. Síðustu áratugir aldarinnar voru tími tölvuvæðingar. Þegar á níunda áratugnum fóru að birtast fréttir af vandamálum sem fylgdu geislun frá þessum töfratækjum, fyrir utan að langvinnar setur yfir þessum búnaði gátu leitt til vöðvabólgu og annarra líkamlegra vandkvæða fyrir fólk sem starfaði við þennan tækjakost.40
Verkalýðshreyfingin í heild sinni fór smám saman að gera stífari kröfur um bættan aðbúnað. Hreyfingin krafðist úrbóta og að hún fengi beina aðild að eftirliti með því að reglum um vinnuvernd væri framfylgt, staða trúnaðarmanna á þessu sviði yrði bætt og áhrif þeirra aukin. Mikilvægt væri einnig að auka fræðslu og stytta vinnutímann, enda væri samhengi á milli langs vinnutíma og slysa.41 Þegar frá leið hafði kynningarstarf á þessu sviði mikil áhrif og æ fleiri fóru að nýta sér þann búnað sem stóð til boða.
Einstök félög létu líka mikið að sér kveða, ekki síst málmiðnaðarmenn, sem fyrr getur. Guðjón Jónsson, formaður Félags járniðnaðarmanna, sagði síðar í viðtali að á áttunda áratugnum hefðu æ oftar verið settir inn í kjarasamninga kaflar
þar sem fjallað var um vinnusali, salerni, kaffistofur, loftræstingu og upphitun og fleira. Kaflinn endaði á klásúlu þess efnis að stæðu fyrirtæki ekki við þessi atriði væri heimilt að fara í vinnustöðvun … en það kom aldrei til þess að hún þyrfti að koma til framkvæmda því í öllum tilfellum var hafist handa um úrbætur um leið og vinnustöðvunin var boðuð.42
Vinnan XXXVIII (1988) 4. tbl., 8–9.
Áfangi náðist þegar reglugerð um húsnæði vinnustaða tók gildi árið 1976, og auðveldaði það baráttu fyrir bættu vinnuumhverfi. Í reglugerðinni var tiltekið hvernig vinnurýmum ætti að vera háttað, lofthæð, birta, hitastig, loftræsting, hávaði og annað sem brýnt er að sé í góðu lagi á vinnustöðum fólks. Einnig var fjallað um búningsherbergi, snyrtiherbergi, kaffi- og matstofur. Reglugerðin var mikil framför og auðveldaði fólki að gera kröfur um úrbætur.43
Við gerð aðalkjarasamnings vorið 1977 komu aðilar vinnumarkaðarins sér saman um sameiginlegar tillögur í vinnuverndarmálum. Þær voru lagðar fyrir ríkisstjórnina sem féllst á þær í apríl 1977. Samkvæmt þeim bar ríkisstjórninni að skipa nefnd til þess að vinna að nýrri lagasetningu um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og sátu í henni fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, félögum vinnuveitenda og ríkisstjórninni. Við samningu frumvarpsins var höfð hliðsjón af nýlegri löggjöf um þessi efni á hinum Norðurlöndunum, einkum í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Þá var einnig byggt á samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og frumvarpsdrögum til laga um vinnuvernd sem unnið hafði verið að á vegum félagsmálaráðuneytisins árin 1973–1975.44
Samkvæmt lögunum, sem samþykkt voru árið 1980, átti félagsmálaráðuneytið að fara með mál sem vörðuðu aðbúnað, hollustu og öryggi á vinnustöðum, en dómsmálaráðuneytið hafði haft málefni laga um öryggisráðstafanir á vinnustöðum frá 1952 á sinni könnu. Lögð var á það áhersla að eftirlit yrði sem mest innan fyrirtækjanna sjálfra. Sérstakan öryggistrúnaðarmann bar að kjósa á vinnustöðum með fleiri en tíu starfsmenn og skipa öryggisnefndir í stærri fyrirtækjum; ákvæði voru um lágmarkshvíldartíma og vinnu barna og unglinga. Miklu skipti einnig að með samþykkt laganna var allt eftirlit með aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustöðum fært undir eina stofnun, Vinnueftirlit ríkisins, en ASÍ átti fulltrúa í stjórn þess. Hingað til höfðu margar stofnanir haft þessi verkefni með höndum.45
Lagasetningin var framfaraspor og auðveldaði verkalýðshreyfingunni erfiða glímu við þessi vandamál. Í kjölfarið var enn meiri athygli vakin á þessum málum. Samband byggingamanna efndi til dæmis til sérstakrar vinnuverndarviku veturinn 1980 og var ekki vanþörf á þar sem mörg slys höfðu orðið í byggingariðnaði. Sú tilraun tókst vel og leiddi það til þess að þing Alþýðusambandsins samþykkti árið 1980 að árið 1982 ætti að verða sérstakt vinnuverndarár. Það var undirbúið með því að ráða sérstakan framkvæmdastjóra og setja framkvæmdanefnd en megináherslu átti að leggja á kynningu á vinnustöðum, með útgáfu fræðslubæklinga og með kynningu í fjölmiðlum, í fyrstu við takmarkaðan fögnuð Vinnuveitendasambandsins sem óttaðist „einhliða áróðursstarfsemi“ og „einhliða málflutning“. Þá var ákveðið að helga 1. maí 1982 þessu baráttumáli. Í kjölfar þessa voru gefnir út fjölmargir bæklingar og prentuð veggspjöld þar sem tekið var á helstu atriðum sem brýnt var að huga vel að í tengslum við öryggismálin.46 Sérstakir sendimenn voru gerðir út á vegum Alþýðusambandsins. Þeir fóru um landið og héldu fundi á vinnustöðum. Jafnframt gengu þeir eftir því að kjörnir væru öryggistrúnaðarmenn á vinnustöðum. Sums staðar hafði það verið gert en annars staðar kom í ljós að þessi mál voru í ólestri.47
Þrátt fyrir margvíslega viðleitni af hálfu eftirlitsaðila og verkalýðshreyfingarinnar töldu forystumenn hennar að hægt gengi að ná fram umbótum í þessum málum. Þegar gerð var könnun á heilsufari og aðstæðum fólks í fiskiðnaði árið 1982 kom ástandið í ljós. Höfundar bæklings um efnið sem ASÍ, Verkamannasambandið og Landssamband iðnverkafólks gáfu út bentu líka á nauðsyn þess að halda sífellt vöku sinni:48
Því er oft haldið fram að ástandið hafi batnað til muna á síðustu árum. Þessu erum við ekki sammála. Ástandið er hvorki betra né verra, það er öðru vísi. Sumt hefur vissulega batnað, en á sama tíma hafa margir nýir hlutir komið til sögunnar. Tæknibyltingin sem átt hefur sér stað hefur leitt til þess að vaktavinna er mun algengari en áður var, einhæfni starfa og vinnuhraði hefur aukist og afkastahvetjandi launakerfi eru komin til sögunnar á mörgum sviðum þar sem þau voru óþekkt áður. Einnig hefur efnamengun stóraukist.49
Vinnan XXXV (1985) 2. tbl., 21.
Höfundar bæklingsins bentu líka á að eftir að vinnuverndarlögin voru sett hefði verkalýðshreyfingin gert mikið átak í þessum efnum. En svo væri eins og fólk héldi að það eitt og sér nægði að Vinnueftirlitið sinnti þessum málum. Niðurstaða þeirra var sú að verkalýðshreyfingin yrði að fylgja þessum málum eftir af fullum þunga ef árangur ætti að nást.
Ef til vill var einna erfiðast að eiga við þessi mál hjá byggingamönnum, en þar höfðu aðbúnaðarmál lengi verið til vandræða. Vinnustaðir voru margir og oft smáir og aðstæður breyttust hratt. Bónuskerfi byggingamanna, uppmælingin, hafði einnig slæm áhrif á öryggismálin. Við þær aðstæður var reynt að keyra verkin áfram á sem mestum hraða og það kom niður á öryggisþáttunum. Samhliða var umgengni oft slæm, draslhrúgur „á víð og dreif, ónaglhreinsað timbur og fleiri slysagildrur“. Jafnvel var talað um „djöflagengi“ í þessu sambandi: „það eru vinnuhópar sem taka að sér ákveðin verkefni og í eru annálaðir vinnuþjarkar sem oft skeyta lítið um eigið öryggi né annarra.“50 Árið 1994 var enn rætt um slæmt ástand öryggismála í byggingariðnaði: „Enn vantar hlífar á hættulega hluti eins og til dæmis sagarblöð. Frágangi vinnupalla er einnig víða ábótavant og við fáum stundum ábendingar frá fólki sem blöskrar glannaskapur manna við frágang þeirra,“ sagði Stefán Stefánsson, umdæmisstjóri Vinnueftirlitsins á Norðurlandi vestra.51 Sem betur fór voru þó einnig mörg dæmi um að fyrirtæki tækju sig á og lagfærðu hjá sér aðstöðuna, t.d. á stað „þar sem lengi hefur verið mjög slæmur aðbúnaður. Þar hafa menn nú byggt upp aðstöðu samkvæmt ströngustu kröfum“, sagði Gylfi Már Guðjónsson, vinnueftirlitsmaður, í viðtali við Vinnuna árið 1995.52
Slysatíðni meðal sjómanna hefur þó verið hæst meðal vinnandi fólks og má geta þess að sjómenn urðu fyrir um fimmtungi slysa sem voru tilkynnt Tryggingastofnun ríkisins árið 2005 þrátt fyrir að þeir væru aðeins um 2,6% fólks á vinnumarkaði um það leyti.53 Sérstaklega var brugðist við hárri slysatíðni meðal sjómanna með stofnun Slysavarnaskóla sjómanna árið 1985, en skólinn sinnir öryggisfræðslu fyrir sjómenn og heldur margvísleg námskeið í því sambandi.54
Vinnueftirlitið, sem tók til starfa eftir lagasetningu um aðbúnað og öryggi á vinnustöðum árið 1980, var ekki fjölmenn stofnun. Oft var kvartað undan því að fjárframlög til hennar væru skorin við nögl. En stofnunin hafði engu að síður mikilvægu hlutverki að gegna og eftirlitsmenn á hennar vegum fylgdust eftir því sem unnt var með ástandi mála á vinnustöðunum og komu með tillögur um úrbætur. Oft var þó látið við það sitja að gera athugasemdir. Eftirfylgnin var erfið vegna fjölda vinnustaða og lítils mannafla. Á ofanverðum níunda áratugnum var m.a. þannig staðið að málum að efnt var til vinnustaðafunda um öryggismál. Slíkir fundir voru haldnir bæði að frumkvæði stofnunarinnar og fyrirtækjanna sjálfra eða starfsmanna þeirra. Stundum voru teknar ljósmyndir af mönnum á viðkomandi vinnustað við vinnu og síðan haldinn fundur með þeim og myndirnar sýndar. Þá kom iðulega í ljós að margt mátti betur fara. Í framhaldinu var síðan farið yfir öryggismál á viðkomandi vinnustað og gerðar tillögur um úrbætur.55
Þegar Ásmundur Stefánsson, forseti ASÍ, leit yfir farinn veg árið 1988 fannst honum miður hvernig til hefði tekist – öryggis- og aðbúnaðarmál hefðu „dottið út úr umræðunni“ og ekki hefði tekist „að halda uppi öflugu kerfi öryggistrúnaðarmanna“. Því hefði vinnueftirlitið ekki flust inn á vinnustaðina eins og ætlunin hefði verið með lögunum frá 1980. Forsetinn hvatti til þess að farið yrði að beina sjónum að þessum málaflokki á ný og efla heilsuvernd á vinnustöðum.56
Áhyggjur forsetans árið 1988 og verkalýðshreyfingarinnar næstu árin voru ekki ástæðulausar. Staðan virtist enn óviðunandi á mörgum sviðum. Um þetta leyti var t.d. mæld heyrn allra starfsmanna hjá álverinu í Straumsvík og kom í ljós að um þriðjungur þeirra hafði skerta heyrn, og þriðjungur þess hóps þurfti að koma til frekari rannsókna.57 Einnig kom í ljós að fæst fyrirtæki sinntu því að gera samninga um heilsuvernd starfsmanna, láta fara fram læknisskoðanir og aðrar nauðsynlegar heilsufarslegar athuganir.58 Þegar gerð var könnun á fjölda öryggistrúnaðarmanna sem væru starfandi í fyrirtækjum árið 1992 kom í ljós að mikill misbrestur var á því að alls staðar væru kjörnir öryggistrúnaðarmenn. Raunar var það mat Eyjólfs Sæmundssonar, forstöðumanns Vinnueftirlitsins, að öryggistrúnaðarmannakerfið virkaði ekki sem skyldi og kenndi hann um skorti á hefðum og andrúmsloftinu á vinnustöðum hérlendis. Um það leyti var einnig fullyrt að heilsuvernd starfsmanna væri langt frá því að vera í samræmi við lög og hefðu fyrirtæki ekki gert samninga við heilbrigðisstofnanir um að sinna slíku eftirliti, sem þeim þó bæri að gera.59
Þrátt fyrir að forystumönnum verkalýðshreyfingarinnar fyndist að hægt gengi var haldið áfram að vekja athygli á þessum mikilvæga málaflokki. Það gerðist til dæmis með því að verkalýðshreyfingin tók þátt í evrópsku vinnuverndarári sem stóð yfir frá maí 1992 til jafnlengdar 1993. Starfshópur á vegum ASÍ taldi ekki vanþörf á, enda væri margt í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum ekki enn komið til framkvæmda eða aðeins að litlu leyti.60 Ítrekað var kvartað yfir því að vinnuverndarlögunum frá 1980 væri ekki fylgt og hefðu stjórnvöld sem bæru ábyrgð á vinnuverndarmálunum „ekki sýnt nægilega ákveðni við að fylgja eftir framkvæmd laga og reglna á þessu sviði“. En meginvandinn á þessum tíma, um miðjan tíunda áratuginn, var þó álitinn sá að atvinnurekendur hefðu „nýtt sér erfiða stöðu á vinnumarkaðnum til að þverbrjóta vinnuverndarlögin og fjölda reglna á sviði vinnuverndar. Afleiðingin er hörmuleg, slysum og heilsutjóni vegna lélegs aðbúnaðar á vinnustöðum hefur fjölgað á ný á undanförnum misserum“. Verkalýðshreyfingin yrði að bregðast við með auknu kynningarstarfi og knýja þá atvinnurekendur sem ekki færu að leikreglum til að bæta ráð sitt.61
Ýmsar breytingar urðu á vinnuverndarmálum eftir tilkomu EES-samningsins. Með samþykkt hans hérlendis þurfti að taka upp margar reglur sem giltu innan ESB og oft og tíðum gengu þær lengra en hérlendar reglur. Meðal reglna af þessu tagi, sem voru teknar upp árið 1995, voru reglur um húsnæði vinnustaða og um vinnu með krabbameinsvaldandi efni. Síðar voru einnig teknar upp reglur um vinnu barnshafandi kvenna og kvenna sem nýlega voru búnar að ala börn. Þær reglur vörðuðu m.a. vinnutíma og vinnuskilyrði, vaktavinnu, atvinnuöryggi, lágmarksfæðingarorlof og fleiri slíka þætti. Þessar reglur voru teknar upp hérlendis að hluta á miðju ári 1996 og að fullu með lögum um fæðingar- og foreldraorlof árið 2000.62 Árið 1998 lýsti Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, því yfir að þær breytingar sem hefðu orðið á þessu sviði að undanförnu væru „fyrst og fremst afrakstur af öflugu starfi alþjóðlegrar verkalýðshreyfingar“. Þetta ætti bæði við um samstarf norrænna samtaka launafólks og Evrópusambands verkalýðsfélaga.63 Segja má að aðild að EES-samningnum hafi haft víðtæk áhrif á vinnuverndarmál á íslenskum vinnumarkaði á fyrstu árum samningsins.
Lögum um vinnuvernd var breytt árið 2003 og áttu þær breytingar m.a. rætur að rekja til skuldbindinga vegna EES-samningsins. Með lagabreytingunum var lögð áhersla á fyrirbyggjandi aðgerðir og á „félagslega og sálræna þætti vinnuumhverfis og vinnuverndar“. Meðal annars var atvinnurekendum gert skylt að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað og hvernig standa ætti að forvörnum. Sérstaklega þyrfti að huga að þáttum eins og streitu og kynferðislegri áreitni, eins og kannanir hefðu sýnt. Í lögunum voru einnig ákvæði um hvíldartíma og hámarksvinnutíma, og valdheimildir Vinnueftirlits ríkisins styrktar í því samhengi.64 Einelti á vinnustöðum og líðan fólks þar varð einnig æ meira til umræðu. Á ársfundi ASÍ árið 2004 var rætt um að í framtíðinni yrði að sinna betur vinnuumhverfi og vinnustaðnum undir yfirskriftinni „lífið í vinnunni“. Þá var sjónum sérstaklega beint að umhverfi vinnustaðarins, vinnunni og skipulagi hennar og samskiptum á vinnustað.65 Í þessu sambandi má geta þess að veturinn 2005–2006 var ákveðið að gera sérstakt átak með samstarfi aðildarfélaga ASÍ, Vinnueftirlitsins og Samtaka atvinnulífsins. Átakið fólst í víðtækri kynningarstarfsemi þar sem fjallað var um vinnuvernd og einelti og þær reglur sem giltu þar að lútandi. Var það liður í að efla umræður um vinnuumhverfi og það áreiti sem starfsmenn gætu orðið fyrir.66
Næstu ár voru gerðir samningar á milli Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins um fleiri þætti sem varða aðbúnað og aðstæður á vinnustað og voru þeir byggðir á Evrópusamningum um sama efni. Árið 2007 var t.d. gerður samningur um starfstengda streitu og hún viðurkennd sem vandamál á vinnustöðum. Streita varð vaxandi vandamál á vinnustöðum vegna aukinnar kröfu um afköst og framleiðni.67 Þá var við gerð kjarasamninga árið 2008 undirrituð sérstök bókun þar sem aðilar skuldbundu sig til að vinna saman að því að settar yrðu reglur um skráningu atvinnusjúkdóma, enda skorti hér á landi reglur um það efni. Unnið var að því næstu árin að setja slíkar reglur og starfshópur sem Vinnueftirlitið skipaði skilaði af sér tillögum sem byggðust einkum á aðferðum sem höfðu verið teknar upp í Danmörku við að tilkynna og skrá atvinnusjúkdóma. Reglugerð var svo sett um þessi efni árið 2011, en þar sagði m.a. að markmið reglugerðarinnar væri að „tryggja að atvinnurekendur haldi skrá um atvinnusjúkdóma og atvinnutengda sjúkdóma og að læknar tilkynni um atvinnusjúkdóma og atvinnutengda sjúkdóma til Vinnueftirlits ríkisins“ sem síðan ætti að skrá þá „í heilsuverndar- og forvarnarskyni“.68
Af þessu yfirliti má sjá að margt hefur áunnist hvað varðar aðbúnað, öryggi og starfsaðstæður launafólks á umliðnum áratugum. Þá er farið að sinna mun fleiri þáttum en gert var í öndverðu, ekki síst líðan fólks á vinnustað. Það hafa því verið stigin stór skref fram á við á þessum sviðum þó að enn sé víða pottur brotinn og stöðugt komi fram ný viðfangsefni sem þarf að leysa hvað varðar aðbúnað og hollustuhætti.
Þess er vert að minnast að verkalýðshreyfingin og flokkur hennar gáfu tóninn í þessu efni fyrir meira en hálfri öld, með baráttu sinni fyrir byggingu verkamannabústaða. Sú barátta skilaði eftirtektarverðum árangri, sem enn sér stað víða um land. Þá þegar var ákveðið að verkamannabústaðirnir skyldu vera eignaríbúðir, þó með vissum takmörkunum á ráðstöfunarrétti eignarinnar. Þessi grundvallararegla gildir enn í dag um verkamannabústaði og hefur reynslan staðfest að hún er rétt.69
Helgi Guðmundsson 1985, 68.
Í fyrra bindi þessa verks var rætt um húsnæðismál alþýðufólks. Gert var átak á því sviði á fjórða áratugnum en svo var eins og þessi mál lægju í láginni. Ekki komst veruleg hreyfing að nýju á húsnæðismál verkafólks fyrr en eftir 1960, þó að alþýðusamtökin ræddu þau á hverju þingi og krefðust úrbóta og aukins fjármagns til þessa málaflokks. Þess má þó geta að í tíð vinstri stjórnarinnar 1956–1958 voru framlög til verkamannabústaða aukin og var þá heldur meira byggt af slíku húsnæði.70 En í raun var svo komið að verkamannabústaðakerfið var hætt að gegna hlutverki sínu, enda var það hlutfall kaupverðs sem íbúðakaupendur þurftu að greiða í upphafi til þess að fá íbúð orðið allt of hátt. Á þessum tíma var erfitt að fá leiguhúsnæði og þau sjónarmið voru ráðandi að langskynsamlegast væri að eignast húsnæði vegna verðbólgunnar.71
Með júnísamkomulaginu árið 1964 varð efling íbúðalánakerfisins mikilvægur þáttur í samkomulagi ríkis og verkalýðsfélaganna. Árið eftir, einnig í tengslum við lausn kjaradeilna, tók hið opinbera að sér að láta byggja fjölda íbúða sem síðan voru seldar meðlimum verkalýðsfélaga á góðum kjörum. Þörfin var brýn, eins og Guðmundur J. Guðmundsson, einn helsti forystumaður Verkamannafélagsins Dagsbrúnar um langa hríð, lýsti síðar. Hann sagði að
þegar þessir samningar um stórátak í húsnæðisbyggingum í Reykjavík voru gerðir, var hér ríkjandi ástand sem fólk í dag vill gleyma. Hér bjuggu hundruð fjölskyldna í hermannabröggum, hundruð í annars konar heilsuspillandi húsnæði og síðan fjölmargar sem bjuggu árið um kring í sumarbústöðum og bráðabirgðahúsnæði sem menn komu sér upp, t.d. í Múlahverfi og Blesugróf.72
Vinnan XXXIII (1983) 1. tbl., 6.
Helstu ákvæði samningsins um húsnæðismál höfðu verið mótuð í viðræðum ríkisstjórnarinnar og verkalýðshreyfingarinnar vorið 1965. Hugmyndirnar byggðu á niðurstöðum ráðstefnu sem Alþýðusambandið stóð fyrir í Reykjavík árið 1964 og starfi nefndar stjórnvalda um húsnæðismálin.73
Meginatriði samkomulagsins var að hefja stórfelldar íbúðabyggingar af opinberri hálfu fyrir efnalítið fólk í Reykjavík og setja á stofn nefnd sem hefði yfirumsjón með þessum málum. Í henni áttu að vera tveir fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar, tveir frá húsnæðismálastjórn og einn frá Reykjavíkurborg. Meginatriði stefnunnar fólust í eftirfarandi: Almennt átti að hækka lán til húsnæðiskaupa en jafnframt að gera átak með byggingu „hagkvæmra íbúða fyrir láglaunafólk“. Fjár átti m.a. að afla með 1% launaskatti og tryggja húsnæðiskerfinu stórauknar tekjur. Ákveðið var að byggja 250 íbúðir á ári á árunum 1966–1970 fyrir meðlimi verkalýðsfélaganna og þeir áttu að fá 80% kaupverðs að láni til 33 ára. Afgangurinn mátti greiðast með jöfnum afborgunum á fjórum árum. Árlega átti þó að ráðstafa 50 íbúðum til Reykjavíkurborgar vegna þess átaks hennar að útrýma heilsuspillandi húsnæði. Byggingarframkvæmdir hófust vorið 1967 í Neðra-Breiðholti og gekk áætlunin að mestu eftir. Þegar nokkuð var liðið á áttunda áratuginn höfðu rúmlega 1200 íbúðir verið reistar í Neðra- og EfraBreiðholti fyrir efnalítið verkafólk. Framkvæmdir voru að mestu á einni hendi í því skyni að lækka byggingarkostnaðinn sem mest. Íbúðirnar áttu að „vera vandaðar, hagkvæmar og staðlaðar, en án óþarfa íburðar“, svipað og íbúðirnar í verkamannabústöðunum við Hringbraut 30–40 árum fyrr. Framkvæmdunum lauk árið 1980 og voru íbúðirnar þá orðnar 1251 talsins.74
Mjög mikil ásókn var í þessar íbúðir og erfitt að velja og hafna. Guðmundur J. Guðmundsson sagði að það hefðu verið „hroðalegustu dagar í lífi [s]ínu“ að velja úr umsóknum. Það hefði þó verið „ánægjulegt að geta leyst úr brýnni þörf fólks, en það var líka átakanlega erfitt að velja milli umsækjenda“ og yfirleitt hefðu verið fjórar til sex umsóknir um hverja íbúð.75 Talið er að hátt í 2000 manns hafi komist úr heilsuspillandi húsnæði vegna uppbyggingarinnar í Breiðholti. Hins vegar var lítið eða ekkert byggt af húsnæði fyrir alþýðufólk utan Reykjavíkur í tengslum við þetta átak og olli það óánægju.76 Síðar var þó gert slíkt átak.
Árið 1970 var gerð grundvallarbreyting á því skipulagi sem hafði verið á verkamannabústaðakerfinu, enda hafði starfsemin verið „lítt virk, sakir fjárskorts Byggingarsjóðs verkamanna um margra ára skeið á sjötta og sjöunda áratugnum“.77 Gömlu byggingarfélögin voru lögð niður en settar á fót stjórnir verkamannabústaða í þeim sveitarfélögum sem stefndu að því að byggja slík húsakynni. Byggingarsjóður verkamanna var jafnframt settur undir forsjá Húsnæðismálastofnunar. Í nýjum lögum sem voru sett um þetta efni fólst m.a. að Húsnæðismálastofnun bæri að lána allt að 80% af byggingarkostnaði íbúðar sem væri innan verkamannabústaðakerfisins.78 Í kjölfar þessa var hafin bygging á verkamannabústöðum víða um land á áttunda áratugnum.79
Í tengslum við gerð kjarasamninga árið 1974 gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu um húsnæðismál. Meginatriði hennar var að á næstu árum skyldi haldið áfram að byggja hentugar íbúðir fyrir efnalítið fólk í stéttarfélögum og var gert ráð fyrir því að allt að þriðjungur húsnæðis næstu misserin yrði byggður á félagslegum grunni. Þetta markmið var sett inn í ný lög um húsnæðismál sem voru samþykkt árið 1980.80 Samkvæmt lögunum átti að skipta verkum þannig að veitt væru almenn lán úr Byggingasjóði ríkisins, en lán til verkamannabústaða og leiguíbúða sveitarfélaga væru veitt úr Byggingasjóði verkamanna. Hann átti að stórefla. Gert var ráð fyrir að stjórnum verkamannabústaða yrði komið á fót í öllum kaupstöðum og kauptúnum og þær ættu að hafa frumkvæði að því að finna lausn á húsnæðisvanda láglaunafólks. Ákveðið var að gera stórátak í að byggja verkamannabústaði. Árið 1983 voru þannig hátt í 600 íbúðir í byggingu og hundruð íbúða voru í undirbúningi. Byggðar voru hátt í 1000 íbúðir innan verkamannabústaðakerfisins á árunum 1980–1984 og svo mikil var eftirspurnin að algengt var að þrisvar til fimm sinnum fleiri sæktu um en gátu fengið.81 Hið sama gilti á ofanverðum níunda áratugnum. Þá var einnig byggt mikið af íbúðum víða um land.82
Um þetta leyti voru einnig vaxandi kröfur í samfélaginu um fleiri valkosti í húsnæðismálum. Verkalýðshreyfingin hafði sett fram kröfur á ráðstefnu sem MFA hélt um húsnæðismál árið 1973 um að auka þyrfti framboð á leiguhúsnæði, en talið var að á þessum tíma byggi um fimmtungur þjóðarinnar í slíku húsnæði. Brýnt væri að leysa vanda íbúðaleigjenda, enda byggju margir þeirra við óviðunandi kjör, hér þyrfti „snöggt og mikið átak“. Sérstaklega var hvatt til þess að lífeyrissjóðirnir mynduðu sameignar- eða samvinnufélög og stæðu fyrir húsbyggingum fyrir félagsfólk sitt og áríðandi væri að þær íbúðir væru fyrst og fremst leiguíbúðir.83
Svo sem fyrr hefur verið getið hafði einkaeign á húsnæði verið ríkjandi stefna hér á landi, einnig að því er varðar húsnæði fyrir launafólk. Þessi stefna var orðuð svo í Skýrslu forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1994:
Segja má að til langs tíma hafi Alþýðusambandið viljað stuðla að því að launamenn gætu búið í eigin húsnæði. Einkaeign á húsnæði eykur fjárhagslegt sjálfstæði fjölskyldunnar, eykur aðhald og hagkvæmni í viðhaldi og rekstri íbúðarinnar og með einkaeign hefur launafólk komist hjá óöryggi og miklum útgjöldum sem oft eru á leigumarkaði. Þessi afstaða hefur m.a. komið fram í því að félagslegar íbúðir hafa verið í einkaeign hér á landi en ekki til leigu eins og víðast er annars staðar. Opinber stuðningur hefur einnig einkum miðast við að gera fólki kleift að búa í eigin húsnæði.84
Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1994, 158.
Eftir 1980 jókst gagnrýni á þessa stefnu sem hafði nánast verið verkalýðshreyfingunni heilög. Margt varð til þess. Verðtrygging var komin til sögu sem breytti öllum aðstæðum. Raunvextir, sem um árabil höfðu verið neikvæðir, urðu nú jákvæðir. Lánin voru tengd við vísitölu. Þetta leiddi til þess að kjör íbúðakaupenda versnuðu (en kjör sparifjáreigenda bötnuðu) og erfiðara varð að komast yfir húsnæði en áður. Margir húsnæðiskaupendur komust í hann krappan um þetta leyti (um miðjan níunda áratuginn) vegna misvægis á milli launa og lánskjara. Lánin voru verðtryggð og hækkuðu ört í óðaverðbólgu þessara ára, en það gerðu launin ekki um árabil frá 1983 vegna þess að ríkisstjórnin setti bann við verðtryggingu launa.85 Þetta leiddi til þess að fjöldi fólks, hundruð fjölskyldna, sem nýlega hafði keypt húsnæði komst í vandræði vegna þess að launin höfðu ekki fylgt hækkun lánanna. Ekki var heldur fýsilegt að vera á leigumarkaði vegna óöryggis sem því fylgdi og vegna þess hversu há húsaleiga var.86 Verkalýðshreyfingin hamraði á því hvað þetta misræmi kæmi sér illa fyrir fólk og krafðist þess hvað eftir annað að það yrði leiðrétt.87 Það var því í raun eðlilegt að kröfur um meira og betra framboð á leiguhúsnæði yrðu háværari á þessum tíma.
Þessi áhugi leiddi m.a. til þess að stofnuð voru Leigjendasamtökin sem beittu sér á þessu sviði.88 Samtökin hvöttu til þess að framboð á leiguhúsnæði yrði aukið, ekki síst í félagslegri eigu, og tóku ýmsir innan verkalýðshreyfingarinnar undir þessi sjónarmið. Leigumarkaðurinn var aðallega þannig að einstaklingar leigðu út íbúðir eða herbergi, „annaðhvort sem neyðarúrræði eða bráðabirgðaúrræði jafnvel beggja aðila“, eins og Sigurður H. Guðjónsson, lögfræðingur Húseigendafélagsins, sagði í viðtali við Vinnuna árið 1985.89 Fyrirtæki sem leigðu út íbúðir þekktust vart og opinber eða félagslegur leigumarkaður var varla til. Húsaleiga var því oft mjög há, miðað við laun fólks.90 Oftast „borgaði sig“ fyrir fólk að kaupa íbúð fremur en að leigja.
Á ofanverðum níunda áratugnum var sífellt verið að gera breytingar á húsnæðismálakerfinu á Alþingi. Loks var hinu svonefnda húsbréfakerfi komið á fót árið 1989 við dræmar undirtektir verkalýðshreyfingarinnar. Árið eftir var félagslega húsnæðiskerfinu breytt með nýjum lögum um húsnæðismál. Með þeim voru stjórnir verkamannabústaða lagðar niður en húsnæðisnefndir sveitarfélaga komu í stað þeirra. Í reynd var verkamannabústaðakerfið lagt af en komið á kerfi félagslegs íbúðarhúsnæðis af ýmsu tagi, félagslegra eignaríbúða, félagslegra leiguíbúða og kaupleiguíbúða. Hugmyndin var þá sú að afskipti hins opinbera á þessu sviði skyldu fremur miðast við þá sem stæðu félagslega veikt en við stéttarstöðu.91
Enn var dregið úr áhrifum verkalýðshreyfingarinnar á mótun húsnæðiskerfisins með lagabreytingum um Húsnæðisstofnun árið 1992. Stjórnarmönnum var fækkað en fyrir verkalýðshreyfinguna skipti mestu máli að hér eftir bar Alþingi að kjósa alla stjórnarmenn en hagsmunaaðilar áttu ekki að tilnefna í stjórnina. Verkalýðshreyfingin hafði tilnefnt tvo fulltrúa í stjórnina fram að þessu. Forysta Alþýðusambandsins dró réttilega þá ályktun af þessum breytingum að stefna ríkisstjórnarinnar væri að draga úr beinum áhrifum verkalýðshreyfingarinnar á húsnæðismálin. Þá taldi hún einnig óheppilegt að þar með hyrfi sá vettvangur sem „Húsnæðismálastofnun hefur verið fyrir hagsmunaðila til að koma saman og vinna saman að framgangi jafn viðamikils og viðkvæms málaflokks og húsnæðismálin eru“.92
Þegar komið var fram um miðjan tíunda áratuginn tóku umræður um þessi mál innan ASÍ skýrara mið af því að félagslegar eignaríbúðir væru ekki lengur eina lausnin í húsnæðismálum verkafólks – og það voru þær heldur aldrei! Í umræðum húsnæðismálanefndar ASÍ frá árinu 1997 sagði m.a. að sífellt væru að koma
greinilegar í ljós þeir annmarkar sem eru á félagslega eignaríbúðakerfinu sem lausn fyrir þá tekju- og eignaminnstu í samfélaginu. Félagslega íbúðakerfið hefur ekki þær lausnir sem duga. Fjölda fólks tekst ekki að halda sínum félagslegu eignaríbúðum þrátt fyrir verulega hagstæð kjör og aðrir fá ekki félagslegar eignaríbúðir keyptar af fjárhagsástæðum.
Nefndin lagði því til að gert yrði átak til að fjölga félagslegum leiguíbúðum. Einnig mætti leysa með þessu annan vanda, þ.e. að breyta félagslegum eignaríbúðum, sem sums staðar stæðu ónotaðar, í félagslegar leiguíbúðir.93
Árið 1998 voru sett ný lög um húsnæðismál. Samkvæmt þeim var Húsnæðismálastofnun lögð niður og með henni það félagsíbúðakerfi sem hafði verið við lýði. ASÍ og BSRB mótuðu sameiginlega afstöðu til þessara breytinga og gagnrýndu lagasetninguna. Jafnframt mótmæltu samtökin því að ekkert samráð hefði verið haft við þau um mótun hins nýja frumvarps.94 Með þessari breytingu væri færri fjölskyldum en áður gert kleift að eignast eigið húsnæði í stað þess að bæta félagslega íbúðarhúsnæðiskerfið. Stjórnvöld hefðu jafnframt markvisst dregið úr möguleikum verkalýðshreyfingarinnar til að hafa áhrif á þróun þess. Í stað þessa vildu stærstu alþýðusamtökin, ASÍ og BSRB, halda félagslegum úrræðum til streitu, þannig að fólk gæti keypt eða leigt íbúðarhúsnæði á viðunandi kjörum og búið við búsetuöryggi; skynsamlegra væri að bæta núverandi kerfi en leggja það af. Þetta var kjarninn í stefnu fyrrgreindra samtaka.95 Þrátt fyrir mikla andstöðu verkalýðshreyfingarinnar voru lögin samþykkt og árið 2002 var svo heimilað að selja íbúðir innan félagslega eignaríbúðarkerfisins á markaði. Þar með var verkamannabústaðakerfið úr sögunni.96 Ari Skúlason, þáverandi framkvæmdastjóri ASÍ, hélt því fram árið 2000 að áhrif verkalýðshreyfingarinnar hefðu minnkað umliðinn áratug. Ekki væri tekið sama tillit til sjónarmiða verkalýðshreyfingarinnar og verið hefði: „það er ekki hlustað jafn grannt á það sem við segjum og áður.“97 Þau orð hans ríma vel við það hvernig húsnæðismálin þróuðust.
Með þessum breytingum á húsnæðiskerfinu kringum síðustu aldamót má segja að bein áhrif verkalýðshreyfingarinnar hafi verið orðin lítil sem engin innan húsnæðismálakerfisins, enda höfðu stjórnvöld stefnt að því leynt og ljóst um margra ára skeið. Eftir þetta gat Alþýðusambandið einungis beitt áhrifum sínum í tengslum við kjarasamninga og eftir aldamótin beindist stefnumörkun sambandsins einkum að því að sinna húsnæðismálum þess fólks sem hafði ekki efni á að kaupa sér íbúð. Í því samhengi var talið mikilvægast að auka framboð leiguhúsnæðis og niðurgreiðslur á leigu vegna húsnæðis.98 Þar með var búið að leggja fyrir róða þá hugmynd sem hafði fylgt íslenskri verkalýðshreyfingu frá öndverðu að félagslegar eignaríbúðir væru helsti kostur launafólks í húsnæðismálum. Segja má að félagslegt leiguhúsnæði hafi eftir þetta orðið helsti valkostur lágtekjufólks. Þess má geta að Reykjavíkurborg gerði mikið átak í þessum efnum með stofnun Félagsbústaða. Fyrirtækið, sem var í eigu borgarinnar, bauð fram leiguhúsnæði og hafði m.a. á sínum vegum yfir 2000 leiguíbúðir í borginni árið 2007.99 Fleiri sveitarfélög fóru að dæmi höfuðborgarinnar og ýmis félagasamtök lögðu einnig áherslu á byggingu leiguíbúða, t.d. Öryrkjabandalagið. Þá var einnig byggður fjöldi stúdentaíbúða á sömu forsendum. Alls fjölgaði félagslegum leiguíbúðum innan nýja félagslega íbúðakerfisins um helming á árabilinu 1999–2007.100
Jón Rúnar Sveinsson hefur bent á að ef tekin hefði verið upp sú stefnumörkun þegar um 1980 að leggja fremur áherslu á félagslegar leiguíbúðir en félagslegar eignaríbúðir hefði þróunin kannski orðið önnur. Í stað þess að styðjast við hugmyndir um félagslegar eignaríbúðir hefði verið nær að koma á víðtæku kerfi félagslegra leiguíbúða, svipuðu og í nágrannalöndunum. Ef til vill hefði þá tekist að koma upp öflugu kerfi þar sem láglaunafólk hefði átt þann raunverulega valkost að leigja húsnæði í stað þess að kaupa íbúð. Félagslega eignaríbúðakerfið hafði nefnilega þann mikla galla að eignamyndun var lengi vel lítil, „áunnin eign“ var reiknuð út eftir flóknum reglum.101
Athyglisvert er hversu lágt hlutfall bygging íbúða í verkamannabústöðunum var af íbúðabyggingum alls fyrstu fjóra áratugina eða á bilinu 4%–6%.102 Má af þessu sjá að verkamannabústaðakerfið var ekki sá valkostur í húsnæðismálum verkafólks sem af var látið, nánast fremur eins og draumsýn. Eftir þetta eykst hlutfallið þó umtalsvert og er á bilinu 9%–14% næstu tvo áratugi. Kerfið var síðan lagt niður um aldamótin 2000 þrátt fyrir andstöðu verkalýðshreyfingarinnar. Árið 2002 var heimilað að selja félagslegar eignaríbúðir á frjálsum markaði og þar með var þetta kerfi úr sögunni.103
Eftir þetta lagði ASÍ áherslu á að styrkja hagsmuni þess hóps sem ekki gat keypt húsnæði í húsbréfakerfinu. Í því fólst að hvetja til þess að meira framboð yrði af félagslegu leiguhúsnæði og að húsaleigubætur væru hækkaðar.104 Þróunin næstu árin í húsnæðismálum var launafólki þó óhagfelld enda hækkaði húsnæðisverð hratt, t.d. tvöfaldaðist húsnæðisverð á árunum 2004–2007. Greiðslubyrði þeirra sem keyptu húsnæði á þessum tíma var því þung og eftir hrunið 2008 urðu húsnæðis- og bifreiðalán einn helsti vandi sem almennt launafólk átti við að glíma.105 Eftir hrunið lagði ASÍ því áherslu á að leigumarkaðurinn væri efldur og væri eðlilegt að krefjast þess að stjórnvöld beittu sér fyrir því að komið yrði á fót „burðugum leigufélögum“ sem gætu tryggt framboð á leiguhúsnæði. Þá væri einnig mikilvægt að það fólk sem væri að kaupa húsnæði í fyrsta skipti fengi aukinn stuðning til þess.106 Jafnframt lagði Alþýðusambandið áherslu á að tryggja betur jafnræði á milli ólíkra búsetukosta, leiguhúsnæðis og eignaríbúða, enda hefði stuðningur hins opinbera við þá sem leigja verið mun minni en við þá sem búa í eigin húsnæði. Þessi sjónarmið komu m.a. fram í samráðshópi félags- og tryggingamálaráðherra sem var skipaður árið 2010, en þar átti sambandið fulltrúa. Í stefnumörkun hópsins var einnig lögð áhersla á að treysta stöðu leigufélaga og félaga sem veittu búseturétt samhliða því að félagslegt hlutverk Íbúðalánasjóðs væri eflt og áætlanagerð bætt.
Alþýðusambandið var því horfið frá einkaeignarstefnunni. Stefna sambandsins um þetta leyti fólst því einkum í því að tryggja og bæta stöðu þeirra sem völdu þann kost að leigja húsnæði, en sjá samhliða til þess að fjölbreyttir húsnæðiskostir stæðu jafnframt til boða.107
Ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar 1971–1974 gaf í málefnasamningi sínum fyrirheit um að vinnuvikan skyldi stytt. Samkvæmt ákvörðun Hannibals Valdimarssonar, félagsmálaráðherra, fékk sérstök nefnd það verkefni að „semja frumvarp til laga um vinnutíma með það fyrir augum, að vinnuvika verði með lögum stytt í 40 stundir án skerðingar á vikukaupi“, enda væru engin heildarlög um vinnutíma til hér á landi. Fulltrúar atvinnurekenda lýstu andstöðu sinni við þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að stytta vinnuvikuna, enda væri „óæskilegt að almenn kjaramál launþega séu ákveðin með lögum“. Þeir vísuðu þó til þess fordæmis að í desember 1970 hefðu stjórnvöld gert kjarasamninga við starfsmenn ríkisins þar sem vinnuvika var stytt úr 44 klukkustundum í 40 stundir og væri því virkur dagvinnutími verkamanna, verslunarmanna og iðnaðarmanna í opinberri þjónustu aðeins rúmar 35 klukkustundir á viku. Þarna hefði því verið komið fordæmi sem ætla mætti að önnur samtök launþega óskuðu eftir að gilti einnig um þeirra félaga.108 Þegar árið 1971 voru lög um 40 stunda vinnuviku samþykkt á Alþingi. Þá voru einnig sett lög um lengingu orlofs úr 21 virkum degi í 24 daga og orlofsfé hækkað til samræmis.109 Hér má nefna að lengi hefur tíðkast hérlendis að neyslutímar væru að hluta til taldir til vinnutíma, ólíkt því sem er víða annars staðar. Þannig er virkur vinnutími verkafólks miðað við 40 stundir, 37 stundir og 5 mínútur.110
Þrátt fyrir ákvæði um 40 stunda vinnuviku var vinnutími hér á landi mun lengri en sem nam þeim tímamörkum, enda vörðuðu lögin fyrst og fremst skiptingu vinnutímans í dagvinnu, eftirvinnu og næturvinnu en ekki lengd vinnutímans. Í raun var eini hvatinn fyrir vinnuveitendur til að draga úr lengd vinnutíma sá að kostnaður var meiri vegna eftirvinnu- og næturvinnustunda. Að meðaltali var vinnutíminn um 20% lengri en þær 40 stundir sem var gert ráð fyrir, eða 50 stundir, á árabilinu 1972–1980, enda voru litlar sem engar takmarkanir á raunverulegri lengd vinnutímans. Um miðjan áttunda áratuginn, í kjölfar gífurlegrar aflaaukningar eftir mikla stækkun fiskiskipaflotans og útfærslu landhelginnar, var algengt að fiskverkakonur ynnu 60–70 stundir á viku, jafnvel löng tímabil í senn. „Vinnan hér er glórulaus. Það er ekkert vit í að vinna svona 5 og upp í 7 daga vikunnar 10 tíma, eins og hér er gert,“ sagði Arthúr Guðmundsson, formaður deildar Einingar á Grenivík árið 1978.111
Í aðra röndina fagnaði verkafólk mikilli vinnu þó viðurkennt væri að óhófleg vinna væri böl. „Við viljum ennþá meiri aukavinnu,“ segir í revíutexta bræðranna Jónasar og Jóns Múla Árnasona. Þórey Aðalsteinsdóttir fjallaði um vinnuástríðuna í erindi sem hún hélt á Menningardögum á Akureyri árið 1980 og ræddi þar um hvaða afleiðingar mikil vinna hefði fyrir heimilislífið og fjölskylduna. Stundum kæmu kröfur um lífsgæði einmitt niður á lífsgæðunum. Hún tók dæmi af „einni frú“ sem hún þekkti. Sú „vinnur í verksmiðju hálfan daginn, skúrar á tveim, þrem stöðum seinnipartinn og prjónar lopapeysur þess á milli. Í páskaboðinu voru peysurnar með í för, enda ábyrgðarleysi að sitja auðum höndum og það á föstudaginn langa.“112 Þetta voru orð að sönnu, margir, sérstaklega ungir karlmenn, sóttust eftir mikilli vinnu. Árið 1974 var álitið að um tveir fimmtu heildartekna verkamanna væru vegna yfirtíðar en einungis ríflega tíundi hluti hjá konum.113 Margir litu svo á að vinnan væri blessun sem ekki mætti takmarka. Ekki síst var það algeng skoðun meðal karlmanna að mikil vinna væri dyggð og taldist til hetjuskapar að vinna mikið og lengi. Þess má geta að fram komu tillögur á þingum ASÍ, m.a. árið 1976, þess efnis að laun sem fengjust greidd fyrir yfirvinnu yrðu skattfrjáls. Ráðstafanir af því tagi hefðu vitanlega orðið fólki mikil hvatning til að vinna sem mest. Tillögunni var þó vísað frá á þinginu.114
Á hinn bóginn var vinnuþrælkunin þrúgandi fyrir líf fólks, ekki síst meðal kvenna í fiskvinnu. Að auki var vinnutími kvenna oft miklu óreglulegri en karla. Það mátti iðulega kalla í þær hvenær sem var og láta „vinna dag og nótt um nokkurn tíma, en síðan getur hann [atvinnurekandinn] sent það [fólkið] kauplaust heim um lengri eða skemmri tíma – einnig að eigin geðþótta“, sagði Herdís Ólafsdóttir, formaður kvennadeildar Verkalýðsfélagsins á Akranesi árið 1973.115
Í kjaradeilu ársins 1977 var yfirvinnubanni beitt í kjarabaráttunni. Bannið hafði sín áhrif en sum þeirra þó kannski ekki alveg fyrirséð. Mörgum varð ljóst hversu lág dagvinnulaunin voru en margir skildu þá líka hversu mikil áhrif vinnuálagið hafði á allt líf fólks, fólk áttaði sig á „hvað styttri vinnutími, átta tímar á dag, væri í rauninni mikið mannréttindamál verkalýðshreyfingunni“, eins og Vilborg Sigurðardóttir, verkalýðsleiðtogi í Eyjum, orðaði það árið 1977.116 Enn annar þáttur sem yfirvinnubannið leiddi í ljós var að hjá mörgum fyrirtækjum minnkuðu afköst ekki, jukust jafnvel með breyttum vinnuaðferðum. Það virtist því vel mega stytta vinnutímann ef vilji var fyrir hendi.117
En vinnuálagið var vissulega þrúgandi á þessum árum og segir það sitt að Verkakvennafélagið Snót í Vestmannaeyjum varð að gera sérstaka samþykkt árið 1978 til þess að banna vinnu á sunnudögum. Lengra var verkalýðshreyfingin ekki komin í þessum málum undir lok áttunda áratugar 20. aldar. Þrátt fyrir bannið reyndu þó sumir verkstjórar að fá aðkomufólk til að vinna einnig á sunnudögum.118 Vinnulaginu í fiskvinnslu var lýst svo um 1980:
Það er oftast mikill fiskur og langur vinnutími, og þegar við hættum um miðnættið, þá er full móttakan og allt sundið fyrir framan dyrnar, svo það er erfitt að komast út. Svona er það meðan mest veiðist, um hundrað tonn, og við verðum líka að vakna snemma, því það er oft byrjað kl. 6. Stundum er unnið til 2 á nóttunni, en þá er ekki byrjað fyrr en kl. 8 á morgnana. Okkur þykir lengstur tíminn frá 3-kaffinu fram að kvöldmat og við köllum það lönguvakt. Eitt sinn flögraði þetta vísukorn um salinn:
Vélin þrumar vanans takt,
veikir þrótt í leynum,
líður senn á lönguvakt,
liggur þreyta í beinum.119Kristín Níelsdóttir 1975, 15.
Svipað var ástandið í mörgum öðrum greinum í þenslunni á áttunda áratugnum. Vinnan var óhófleg. Starfsmaður Loftorku lýsti vinnutímanum svo árið 1979:
„Á veturna vinnum við frá átta á morgnana til sjö á kvöldin. En á sumrin er nánast byrjað á öllum tímum og hætt á öllum tímum, – aðallega þó eftir miðnættið. Unnið allar helgar, nema hvað síðasta sumar tókum við sunnudagana alveg út úr myndinni í fyrsta skiptið. Okkur fannst vera komið fullmikið af því góða.“120Verkalýðshreyfingin hélt vakandi kröfunni um styttan vinnutíma og kröfum um lágmarkshvíld. Samkvæmt lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum frá 1980 átti lágmarkshvíld að vera tíu klukkustundir á sólarhring, en þessi lagasetning átti rætur að rekja til kjarasamninganna frá árinu 1977.121
Langur vinnutími fór að verða vandamál í verslun eftir að hömlur voru teknar af opnunartíma verslana um og eftir 1990. Þá hylltust kaupmenn til að lengja opnunartímann sem leiddi til þess að vinnutíminn varð lengri. Guðmundur H. Garðarsson, alþingismaður, sem lengi hafði verið í forystu verslunarmanna, sagði t.d. árið 1988 að daglegur vinnutími verslunarfólks í sumum stórmörkuðum væri jafnvel 12–14 stundir á dag, fyrir utan laugardagsvinnu, og því gæti vikulegur vinnutími verið á bilinu 70–80 stundir og yfirleitt lengstur hjá konum. Guðmundur vildi bregðast við með lagasetningu, enda hefði svo langur vinnutími afar slæm áhrif á fjölskyldulíf fólks.122
Formlega var vinnuvikan 40 stundir, sem áður greinir, en daglegur vinnutími flestra sem tilheyrðu Alþýðusambandinu, sérstaklega karla, hélst langur lengst af 20. öld. Á öndverðu ári 1987 unnu verkakonur ríflega 45 stundir, fyrir utan heimilisstörf. Verkamenn unnu að meðaltali yfir 52 stundir á viku sem var miklu lengri vinnutími en á hinum Norðurlöndunum. Margir hafa vitaskuld unnið miklu lengur, 50–80 stundir á viku. Þessi langi vinnutími hafði lengi tíðkast í fiskvinnslu, byggingariðnaði og fleiri greinum. Um þetta leyti voru allmörg dæmi um að fiskvinnslufólk, aðallega konur, hæfi störf kl. 6 að morgni og ynni til kl. 17 síðdegis til þess að komast hjá því að vinna fram eftir kvöldi. Dæmi voru jafnvel um að fólk byrjaði kl. 4 að morgni. Þörfin fyrir mikla vinnu var skýrð á ýmsan hátt. Sumir bentu á að húsnæðiskerfið hérlendis hefði þessi áhrif, fólk þyrfti að vinna mikið til þess að eignast húsnæði. Aðrir nefndu að framleiðni væri lítil hérlendis miðað við nágrannalöndin og svo skipti líka vaninn máli, fólk væri vant því að vinna lengi. Helsta skýringin var þó líklega hversu lág dagvinnulaunin voru hjá mörgum starfsstéttum.123
Mikilvæg skref hvað varðar vinnutíma voru tekin um miðjan tíunda áratug 20. aldar. Nefna má að árið 1997 var samið um að lágmarkshvíld ætti að vera að minnsta kosti ellefu klukkustundir.124 Ein af þeim tilskipunum sem ætlast var til að Íslendingar tækju upp, eftir aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu, var um vinnutíma (nr. 93/104). Efni hennar átti að vera komið til framkvæmda árið 1996. Um tíma hafði staðið í þófi á milli verkalýðshreyfingar og stjórnvalda um hvort taka ætti tilskipunina upp hér á landi. Verkalýðshreyfingin lagði áherslu á að svo yrði gert, en stjórnvöld töldu að tilskipunin væri „ekki viðeigandi fyrir Ísland“ og áttu þá við að hér á landi væru aðrar hefðir en í nágrannalöndunum.125 Einnig varð ágreiningur á milli samtaka launþega og vinnuveitenda um hvort bæri að innleiða tilskipunina. Þeir síðarnefndu töldu að aðstæður hér á landi væru svo sérstakar að hún ætti ekki við. Deiluaðilar náðu svo saman í árslok 1996 og í ársbyrjun 1997 um samning sem byggði á þeim meginreglum sem giltu samkvæmt vinnutímatilskipuninni. Meginatriði samningsins voru þau að hver maður sem væri í vinnu hjá öðrum ætti rétt á 11 klukkustunda samfelldri hvíld á sólarhring og sólarhrings samfelldri hvíld vikulega. Þá ætti að vera að minnsta kosti eitt 15 mínútna hlé ef daglegur vinnutími væri umfram sex klukkustundir. Vikulegur vinnutími mátti ekki vera lengri en 48 stundir að meðaltali á hálfs árs tímabili. Í undantekingartilvikum mátti gera breytingar á þessu fyrirkomulagi og samningurinn tók ekki til starfa á sjó eða í lofti. Þá bæri að huga sérstaklega að málefnum vaktavinnufólks og þeim sem ynnu á næturnar.126 Helstu þættir samningsins voru síðan felldir inn í lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Um þetta leyti urðu deilur um hvíldartíma fólks- og vöruflutningabifreiðarstjóra, en atvinnurekendur héldu því fram að umrædd ákvæði ættu ekki að ná til þeirra. Alþýðusambandið gerði kröfu um að tilskipanir um vinnutíma bílstjóra ættu einnig að ná til hérlendra bílstjóra og það varð niðurstaðan.127
Mjög rík hefð var fyrir því hérlendis að börn og unglingar gengju til vinnu. Það var jafnvel álitinn nauðsynlegur hluti af uppeldi þeirra að þau færu að vinna snemma og stundum var lítið hóf á vinnunni. Alþýðublaðið greindi frá því athugasemdalaust árið 1955 að nóga vinnu væri að hafa í Reykjavík og sagði frá því að ungir drengir væru við vinnu við uppskipun í Reykjavíkurhöfn. Þar hitti blaðamaður 13 ára strák við vinnu sem sagðist alls ekki vera yngstur, það væru margir 12 ára strákar á „eyrinni“. Hann hefði haft gott upp úr sér, sérstaklega eina vikuna, en þá hefði líka verið „mikil eftirvinna, bæði nætur- og helgidagavinna“.128 Sumir bentu á að vinnan kæmi í veg fyrir að „unglingar slæpist um göturnar í reiðileysi, sjálfum sér til tjóns“, eins og Jón Kjartansson, verkalýðsleiðtogi í Eyjum, orðaði það árið 1979.129 Jón Ingimarsson, verkalýðsleiðtogi á Akureyri, benti á það á kjaramálaráðstefnu ASÍ árið 1963 að vinnuálag á börnum væri ekki eingöngu atvinnurekendum að kenna, „þar ættu einnig foreldrar stóran hlut“.130 Þetta var örugglega rétt hjá Jóni, vinnuhefðin var rík og tilhneiging til vinnuþrælkunar barna. Þetta ágerðist jafnvel eftir stríðið þegar vinnuaflsskortur var viðvarandi með köflum. Á þetta benti miðstjórn ASÍ árið 1962: „Barnavinna er nú að verða alvarlegt vandamál í þjóðfélaginu, og kaup barna þar að auki víðast hvar ákveðið einhliða af atvinnurekendum óhæfilega lágt. Á sumum vinnustöðum, einkum í fiskiðnaðinum, stappar nærri, að um ofþrælkun barna sé að ræða.“ Því væri brýnt að takmarka barnavinnu þannig að börn innan fermingar ynnu ekki lengur en sex tíma á dag og leggja bæri blátt bann við næturvinnu unglinga undir 15 ára aldri. Meiri voru kröfurnar nú ekki.131 Sums staðar á landinu voru til launataxtar fyrir börn allt niður í tíu ára aldur, t.d. hjá Verkalýðsfélagi Vestmannaeyja á sjöunda áratugnum. Árið 1950 var rætt um það í fullri alvöru þar að veita 14 ára börnum fulla aðild að verkalýðsfélaginu, væntanlega vegna þess að þau voru fullgildir þátttakendur í atvinnulífinu. Þeirri tillögu var þó hafnað af ASÍ. Í kaupgjaldssamningi Alþýðusambands Vestfjarða frá árinu 1961 var einnig taxti fyrir börn innan 12 ára aldurs, en tekið var fram að óheimilt væri að börn á þeim aldri ynnu eftir kl. 19 á kvöldin. Þá var einnig tekið fram að ef börn ynnu við löndun úr togurum bæri að greiða þeim kvenmannskaup.132
Atvinnuþátttaka barna var sennilega mest í landbúnaði og sjávarútvegi. Verkstjóri í frystihúsi í Vestmannaeyjum sagði árið 1979 að vinnuafl unglinga væri „beinlínis nauðsynlegt yfir sumartímann til þess að halda frystihúsunum gangandi“. Yfir sumartímann tæki flest af fastráðna starfsfólkinu sín leyfi og þá kæmu „krakkarnir að góðum notum“. Að sögn verkstjórans var vinnutími þeirra yfirleitt átta til tíu tímar og reynt væri að komast hjá því að láta þau vinna eftir kvöldmat. Börn yngri en 16 ára fengju heldur ekki að vinna í bónus.133 Þá var börnum sem voru yngri en 16 ára einnig bannað að vinna á hættulegustu vélunum í frystihúsinu, en reyndar var ekki alltaf farið eftir því banni.
Jóhanna Friðriksdóttir, formaður Verkakvennafélagsins Snótar í Vestmannaeyjum, leit yfir sviðið árið 1979 og hafði eftirfarandi sögu að segja um vinnu barna:
Nú eru komnar nokkuð góðar reglur á vinnu barna og unglinga í Eyjum. Hér fyrst eftir gos var hins vegar algengt að 12 og 13 ára börn ynnu í frystihúsunum en nú þekkist það ekki að ég held. Hér fyrr á árum var hins vegar algengt að allt niður í 8 ára börn ynnu við fiskverkun en það er nú liðin tíð sem vonandi kemur aldrei aftur.134
134 Vinnan XXIX (1979) 6. tbl., 21.
Ingibjörg Valgeirsdóttir, verkakona í Eyjum, áleit um sama leyti að það væri „alvarlegt þegar 13–15 ára krakkar eru látnir vinna allt frá 8 á morgnana til 10 á kvöldin. Ég er viss um að börnin þola ekki þessa miklu vinnu og það álag sem henni fylgir. Mér finnst verkstjórarnir ekki hugsa nægilega um krakkana og þess vegna eru þau látin vinna svona lengi“.135
Ljóst má vera að víða var mikið vinnuálag á börnum langt fram eftir 20. öld, þó að eitthvað væri reynt að berja í brestina. Nokkrir unglingar í Eyjum um þetta leyti nefndu einmitt að ef unnið væri lengur en í 8–10 tíma væru þeir orðnir dauðþreyttir. Hins vegar væri erfitt að neita vinnu því þá ætti viðkomandi á hættu „að vera settur í eitthvað leiðinlegt djobb daginn eftir“.136 Ekki er að efa að sums staðar var vinnuálagið meira en góðu hófi gegndi. Fjórtán ára stúlka sem vann í frystihúsinu á Kirkjusandi árið 1984 sagðist taka alla þá yfirvinnu sem hún gæti. Hún yrði „svolítið þreytt í fótunum og bakinu, en mér fannst miklu erfiðara þegar ég var að passa, þá var ég frá 8 á morgnana til 11 á kvöldin með tvö börn og sá um heimilið líka“.137 Greinilega veitti ekki af að setja skýrari reglur um þessi efni en verið hafði.
Takmarkanir voru settar á vinnutíma barna með lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum frá 1980. Í þeim sagði að börn, þ.e. börn undir 14 ára aldri, mætti ekki ráða nema til léttra og hættulítilla starfa, en vinnutími unglinga (14–15 ára) „mætti ekki fara fram úr venjulegum vinnutíma fullorðinna“, og þó mætti hann ekki vera lengri en tíu stundir á dag. Unglingar sem voru 16–17 ára áttu samkvæmt lögunum að fá að minnsta kosti 12 tíma hvíld á sólarhring. Þó voru undantekningar frá þessari reglu. Skerpt var á þessum ákvæðum með lagabreytingu árið 1990 á þann hátt að börn á aldrinum 14–15 ára, eða yngri, mættu ekki vinna við hættulegar vélar eða við varasamar aðstæður og átti Vinnueftirlitið að skilgreina hvað teldust hættuleg störf. Einnig voru settar frekari takmarkanir á vinnu unglinga.138 Ástæða þessara breytinga var sú, að sögn Bolla B. Thoroddsen, sem var um það leyti vinnuverndarfulltrúi Alþýðusambandsins, að börn og unglingar hefðu á undanförnum árum verið látin vinna margvíslega hættulega vinnu
við vélar í frystihúsum, á dráttarvélum í landbúnaði og víðar við hættulegar aðstæður. Það hefur að vísu verið lengi í samningum að börn undir 16 ára aldri megi ekki vinna við vélar í frystihúsum en það hefur verið margbrotið eins og slysin sýna. Það hafa því miður orðið mjög alvarleg slys á börnum og unglingum á síðustu árum þar sem þau hafa verið við vinnu sem þau ráða ekki við. Oft hafa þessi slys verið svo alvarleg að viðkomandi einstaklingur bíður þess aldrei bætur.139
139 Vinnan XL (1990), 4.–5. tbl., 4.
Í framhaldinu voru síðan settar nánari reglur um það hvers konar störf börn og unglingar mættu vinna án þess að bíða tjón af.
Um miðjan tíunda áratuginn urðu nokkrar umræður vegna tilskipunar ESB um vinnuvernd barna og unglinga, en félagsmálaráðherra hafði snúist öndverður gegn því að taka upp þessa tilskipun sem átti að ganga í gildi árið 1996. Hann virtist telja mikilvægt að börn yngri en 15 ára ynnu launavinnu, a.m.k. að vissu marki. Einnig voru skiptar skoðanir um þessi mál innan verkalýðshreyfingarinnar og Guðmundur J. Guðmundsson, formaður Dagsbrúnar, tók undir sjónarmið félagsmálaráðherra. Hann kvað unglinga bara hafa gott af því að grípa í létta vinnu. Bryndís Hlöðversdóttir, alþingismaður og fyrrverandi lögmaður ASÍ, var á öndverðri skoðun og áleit mikilvægt að taka upp ákvæði af þessu tagi hérlendis, enda hefði vakið athygli á Norðurlöndum hversu tregir Íslendingar væru til að undirgangast skuldbindingar um vinnutíma.140
Sátt náðist um málið og var lögum hér á landi breytt árið 1997 í anda tilskipunar ESB (reglugerð tveimur árum síðar). Meginmarkmið breytinganna var að tryggja að börn væru ekki látin vinna störf sem ekki væru við þeirra hæfi og að þeim væri ekki ofboðið við vinnu. Nánar tiltekið vörðuðu lögin unglinga sem voru 18 ára og yngri og fólu í sér bann við vinnu barna 15 ára og yngri eða barna í skyldunámi. Þó voru undantekingar frá því og mátti heimila létta vinnu barna 13 ára og eldri, og vinnu sem tengdist verklegu námsfyrirkomulagi og við heimilisaðstoð eða létta vinnu í fjölskyldufyrirtækjum. Vinnutími þeirra mátti þó ekki fara yfir 7–8 stundir á dag eða 35–40 stundir á viku og tilskilin var 14 stunda hvíld á sólarhring. Þá voru einnig settar takmarkanir við vinnu unglinga á aldrinum 16–18 ára. Sérstaklega átti að gæta að því að þau væru ekki ráðin til hættulegra starfa eða þeim ofgert með vinnu sem væri þeim ofviða. Þessi atriði voru lögfest hérlendis sem hluti laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og komu ákvæðin til framkvæmda 1. október 1997.141
En vinnuhefðin er sterk hér á landi. Mikið var um að ákvæði um vinnu barna væru brotin næstu árin, ekki síst með vinnu barna og unglinga á kvöldin. Jafnvel var talað um að börn og unglingar undir 18 ára aldri væru uppistaða starfsfólks verslana um kvöld og helgar.142 Árið 2006 var bent á að meðalaldur starfsfólks í stórmörkuðum hefði lækkað um sjö ár frá árinu 2000 og væri einungis rúmlega 24 ár! Því gaf auga leið að fjöldi starfsmanna var mjög ungur að árum.143
Þrátt fyrir ákvæði um hámarksvinnutíma og lög um 40 stunda vinnuviku hafa margir haldið áfram að vinna langan vinnutíma. T.d. var vinnutími verkakarla rúmlega 50 klst. á viku að meðaltali árið 1999 og má þá ljóst vera að stór hópur þeirra hefur unnið mun meira en þessi tala gefur til kynna. Árið 2005 hafði þetta lítið breyst og enn unnu karlar að meðaltali tæplega 50 klst. á viku. Könnun Starfsgreinasambandsins árið eftir sýndi sömu niðurstöðu. Sums staðar í Evrópu virtist þróunin ganga í sömu átt og að vinnutími væri að lengjast á ný.144 Samkvæmt könnun sem var gerð árið 2006 kom í ljós að hlutfall yfirvinnugreiðslna af mánaðarlaunum var 15% á Íslandi sem var langhæst miðað við ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins. Meðaltalið var um 2% en næst á eftir Íslandi komu Malta og Austurríki með 6%.145 Það mátti því ljóst vera að íslensk verkalýðshreyfing átti nokkuð í land með að takmarka vinnutíma þannig að hann væri svipaður og í helstu samanburðarlöndum þjóðarinnar.
Atvinnulaus kona lýsti aðstæðum sínum svo árið 1994:
Atvinnuleysi fylgir félagsleg einangrun – ég finn oft fyrir einmanaleika. Mér finnst að ég sé ekki í eins góðum tengslum við vini og kunningja og áður. Ósjálfrátt hættir fólk að gera ráð fyrir manni þegar eitthvað á að gera. Hún er svo blönk greyið er viðkvæðið og smátt og smátt gleymist að hringja í mann til að spyrja hvort ég vilji vera með ef eitthvað stendur til. … Einnig er ríkt viðhorf hjá fólki að þeir sem eru atvinnulausir séu ekki í rauninni að leita sér að vinnu. Viðkvæðið er: Hvernig er þetta, gengur þetta ekki neitt hjá þér, ertu nógu dugleg við að leita þér að vinnu og svo framvegis.146
146 Vinnan XLIV (1994), 5. tbl., 21. – Sjá einnig Vikublaðið 11.
ágúst 1995, 7–8.
Í fyrra bindi ritsins var rætt um setningu laga um atvinnuleysistryggingar árið 1956. Þessi lög voru m.a. endurskoðuð árið 1973. Þá var gerð sú breyting að bótaréttur skyldi ná til landsins alls, en áður hafði hann aðeins náð til þéttbýlisstaða með yfir 300 íbúa. Auk þessa áttu bætur að verða tiltekið hlutfall launataxta, en ekki ákveðin upphæð eins og verið hafði, og heimilað var að veita sveitarfélögum styrki eða lán gegn því að útvega tilteknum fjölda atvinnulausra atvinnu. Biðtími eftir bótum var felldur niður. Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs var einnig heimilað að veita atvinnulausum starfsþjálfunarstyrki. Með endurskoðun laga um atvinnuleysistryggingar var bótatímabil síðan lengt árið 1981 úr 130 dögum í 180 daga. Sú breyting var gerð í tengslum við kjarasamninga árið 1980 en til þess að liðka fyrir samningum hét ríkisstjórnin því að beita sér fyrir lagasetningu um atvinnuleysistryggingar sem fæli í sér „rýmkun bótaréttar, lengingu bótatíma, breytingar á atvinnuleysisskráningu og hækkun bóta“. Þá var einnig hætt að taka tillit til tekna maka og gerðar minni kröfur um vinnuþátttöku undanfarna 12 mánuði. Samkvæmt breytingunum þurftu hinir atvinnulausu ekki að skrá sig daglega, eins og verið hafði, heldur vikulega. Þessar breytingar voru því mikil réttarbót. Loks var ráð fyrir því gert að ríkissjóður ábyrgðist greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði.147 Þórunn Valdimarsdóttir, formaður Verkakvennafélagsins Framsóknar í Reykjavík, staðhæfði um þetta leyti að um 40% þeirra kvenna sem nú fengju bætur hefðu ekki fengið þær áður.148 Þessar breytingar voru mjög í anda þess að á áttunda áratugnum og síðar voru kjaradeilur oft að hluta til leystar með svokölluðum félagsmálapökkum með auknum réttindum félagsmanna í verkalýðshreyfingunni. Slíkir pakkar komu þá í stað launahækkana. Á þennan hátt náði verkalýðshreyfingin fram margvíslegum umbótum á félagslegum aðstæðum og aðbúnaði verkafólks sem lengi hafði verið barist fyrir.
Með lagabreytingu frá 1989, og í samræmi við loforð sem ríkisstjórnin hafði gefið við gerð kjarasamninga, var bótatímabil lengt úr 180 dögum í 260 daga.149 Árið 1993 voru enn gerðar breytingar á atvinnuleysistryggingalögunum, en allmargar minni háttar breytingar höfðu einnig verið gerðar á lögunum á undanförnum árum. Með lagabreytingunni 1993 áttu allir að fá rétt á slíkum bótum og líka þeir sem höfðu verið sjálfstætt starfandi en voru hættir atvinnurekstri. Samhliða voru reglur hertar um heimild til þess að neita vinnu og bótatímabil lengt. Samkvæmt lagabreytingunni var einnig heimilað að komast undan svokölluðum biðtíma milli bótatímabila með því að sækja námskeið ætluð atvinnulausum. Sá biðtími, sem var fjórir mánuðir, reyndist erfiður mörgum sem höfðu verið lengi atvinnulausir. Þetta kom skýrt í ljós á atvinnuleysisárunum eftir 1990.150
Haustið 1996 flutti félagsmálaráðherra frumvarp um atvinnuleysistryggingar og um vinnumiðlun, en Alþýðusambandið hafði átt fulltrúa í nefnd ráðherra um málið ásamt BSRB. Fulltrúar alþýðusamtakanna töldu frumvarp ráðherrans óásættanlegt, enda væri með því ætlunin að skerða rétt hinna atvinnulausu og mál sett þannig fram að þeir atvinnulausu væru „vandamálið en ekki atvinnuleysi“. Eftir samræður við ráðherra fengust þó fram ýmsar breytingar á frumvarpinu, m.a. lenging á bótatímabili og fallið var frá að hækka lágmarksaldur í 18 ár úr 16. Fór svo að verkalýðshreyfingin taldi frumvarpið viðunandi. Í lögunum voru ákvæði þess efnis að Atvinnuleysistryggingasjóði bæri að greiða til starfsmenntunar í atvinnulífinu, til átaksverkefna vegna atvinnusköpunar á vegum sveitarfélaga og til þróunarverkefna sem sérstaklega væru ætluð konum. Samhliða voru gerðar þær breytingar á vinnumiðlun að sett var á fót ný stofnun, Vinnumálastofnun, sem bar að hafa yfirumsjón þessara mála, en svæðisvinnumiðlanir voru síðan starfræktar víða um land. Meðal nýmæla í þessum lögum (1997) var einnig að skylt var að gera samkomulag við hvern og einn sem hefði verið atvinnulaus í 10 vikur. Samkvæmt því átti m.a. að koma fram hvernig hinn atvinnulausi hygðist standa að atvinnuleit sinni.151
Undir lok 20. aldar varð sú breyting á að stjórnvöld ákváðu í raun að leggja Atvinnuleysistryggingasjóð af sem sjálfstæðan sjóð. Deilur urðu um þetta á milli stjórnar sjóðsins og fjármálaráðuneytisins. Sjóðs stjórnin taldi að sjóðurinn væri sjálfstæður. Ráðuneytið áleit á hinn bóginn að svo væri ekki og féð bæri að varðveita í ríkissjóði, enda væri hagsmuna sjóðsins fyllilega gætt og ríkinu bæri að sjá um skuldbindingar hans. Niðurstaðan varð sú að fjármálaráðuneytið hafði sitt fram.152 Árið 2006 var öll umsýsla atvinnuleysistrygginga svo færð undir Vinnumálastofnun, en árið áður, við endurskoðun kjarasamninga, voru atvinnuleysisbætur hækkaðar og bæturnar tekjutengdar að vissu marki, og þannig komið verulega til móts við sjónarmið verkalýðshreyfingarinnar þó að hún næði ekki öllum sínum kröfum fram. Við endurskoðun samninganna um mitt ár 2006 náðist það einnig fram að grunnbætur atvinnuleysistrygginga væru hækkaðar eins og lægstu laun og hámark vegna tekjutengingar bóta var hækkað fram yfir það sem gert hafði verið ráð fyrir áður.153 Samhliða var lögum um vinnumarkaðsaðgerðir breytt og ríkari skyldur en áður lagðar á stjórnvöld að bæta þjónustu við atvinnuleitendur með virkniúrræðum. Við endurskoðun laganna var sérstaklega litið til fyrirkomulags þessara mála í Danmörku og Hollandi. Verkalýðshreyfingin gagnrýndi flutning á umsýslu frá stéttarfélögunum og taldi reynsluna hafa sýnt að tilfærslan hefði verið óheppileg. Starfsfólk verkalýðshreyfingarinnar hefði búið yfir mikilli reynslu á þessu sviði sem hefði nýst hinum atvinnulausu vel. Þá hefði einnig verið skorið á hið nána samband sem var á milli þeirra sem voru atvinnulausir og stéttarfélaganna með þessari tilfærslu, betra hefði verið að „koma inn á skrifstofu stéttarfélags og skrá sig atvinnulausan og sækja þjónustu“ heldur en að mæta á skrifstofu Vinnumálastofnunar.154
Atvinnuleysi var umtalsvert í efnahagslægðinni fyrir 1970 en var að mestu horfið áður en sjöundi áratugurinn var liðinn. Atvinnuleysi var sáralítið á áttunda áratugnum, en önnur merki voru sýnileg sem taka varð alvarlega. Á hverju ári fluttu allmargir af landi brott umfram aðflutta, t.d. á fjórða þúsund manns á tímabilinu 1976–1980.155 Eftir atvinnuleysisárin á ofanverðum sjöunda áratugnum varð ekki verulegt atvinnuleysi í landinu fyrr en eftir 1990. Þá varð á ný atvinnuleysi sem svipaði til áranna fyrir 1970, jafnvel heldur meira. Árið 1994 nam atvinnuleysið t.d. 5,5% sem þótti mikið hérlendis. Það var þó mun minna en atvinnuleysi í öðrum Evrópulöndum sem var um þetta leyti rúmlega 12% innan Evrópubandalagsins að meðaltali og verulegt á flestum hinna Norðurlandanna, einkum í Finnlandi. Staðbundið atvinnuleysi hérlendis var þó víða mun meira en meðaltalið gaf til kynna og í sumum landshlutum yfir 10%.156
Sum stéttarfélög voru gagnrýnd fyrir að sinna ekki þörfum hinna atvinnulausu og rækta sambandið við þá á atvinnuleysisárunum eftir 1990.157 Þó var gripið til margvíslegra ráðstafana til þess að létta þeim lífið sem höfðu misst atvinnuna. Haldin voru námskeið fyrir atvinnulausa og sett upp „athvörf“ fyrir þá sem ekki höfðu vinnu á nokkrum stöðum á landinu. Miðstöð fólks í atvinnuleit var komið á fót í Reykjavík og svipaðar miðstöðvar, sem verkalýðshreyfingin átti aðild að, voru settar upp víðar um land. Markmiðið var að bjóða fólki aðstöðu þar sem það gæti komið og ræðst við, fengið upplýsingar um réttindi sín og einnig ráðgjöf og fræðslu sem skilaði góðum árangri. Síðast en ekki síst var með þessu leitast við að koma í veg fyrir að fólk einangraðist félagslega og tapaði sjálfstrausti.158 Fólk mótmælti líka atvinnuleysinu og boðaði verkalýðshreyfingin til mótmælafundar gegn atvinnuleysi á Austurvelli í lok janúar 1994.159
Sum þessara „athvarfa“ voru vel sótt, annars staðar komu fáir: „Ég held að fólki finnist niðurlægjandi að sýna sig á svona stöðum,“ sagði Guðrún Ólafsdóttir, varaformaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur.160 Íslendingar kunnu illa að vera atvinnulausir. Líklega kunnu þeir sem störfuðu á vinnumiðlununum heldur ekki of vel á þetta „ástand“ því að oft var kvartað yfir „hrjúfri“ framkomu við atvinnulausa af þeirra hálfu á fyrri hluta tíunda áratugarins.161 Þau viðhorf hafa verið algeng hér á landi að fólk eigi að bjarga sér sjálft og atvinnuleysi sé jafnvel á vissan hátt „aumingjaskapur“. Í ljósi slíkra viðhorfa er ekki að undra þótt fólk skammaðist sín. Viðhorf af þessu tagi gátu líka leitt til þess að fólk skráði sig ekki atvinnulaust fyrr en of seint og í óefni var komið. Einnig voru haldin námskeið fyrir atvinnulausa sem þóttu gefa mjög góða raun, eins og einn þátttakenda í námskeiðum MFA fyrir atvinnulausa lýsti: „Þessi námskeið veita mér styrk og sjálfstraust til þess að sækja um aðra vinnu.“162Nokkurt atvinnuleysi varð eftir aldamótin 2000, en það varð ekki langvinnt. Eftir „hrunið“ 2008 jókst þó atvinnuleysi hröðum skrefum, sérstaklega árið 2009. Það var komið í 9,1% á fyrri hluta þess árs en minnkaði nokkuð eftir það og var 6–7% síðla árs 2010. Það var einnig mismikið eftir landshlutum, mest á Suðurnesjum og mest hjá fólki sem hafði litla menntun. Nefna má að allmargt fólk af erlendum uppruna flutti af landi brott eftir að efnahagsástandið versnaði og margir Íslendingar gripu einnig til þess ráðs.163 Þegar þetta er skrifað er ljóst að þótt atvinnuleysi fari minnkandi hefur það aldrei fyrr verið svo mikið í landinu og er raunar svipað og í mörgum Evrópulöndum. Stórauka varð tekjur Atvinnuleysistryggingasjóðs með hækkun tryggingagjalds til þess að hann gæti staðið undir greiðslum.
Af hálfu Vinnumálastofnunar og aðila vinnumarkaðarins var reynt að bregðast við atvinnuleysinu með ýmsum hætti, m.a. með átaki til þess að sporna gegn atvinnuleysi ungs fólks. Eitt slíkt verkefni var kallað „Ungt fólk til athafna“ og annað var „ÞOR“-verkefnið vegna langtíma atvinnuleysis. Þá hafa aðilar vinnumarkaðarins aðlagað fullorðinsfræðslukerfið að því að mæta þörfum atvinnuleitenda fyrir virkni og menntun.164
Það voru tíðindi þegar framandi fólk kom. Andrúmsloftið gat breyst, a.m.k. í fyrstu. Þegar færeyskar konur komu til vinnu í Stykkishólmi um miðjan áttunda áratuginn varð strax breyting á vinnustaðnum, eins og ein verkakonan lýsti, „allir karlarnir nýrakaðir og greiddir og augsýnilega í miklum tilhaldshug“.165 (Byggt á frásögn Kristínar Níelsdóttur)
165 Kristín Níelsdóttir 1975, 15.
Frá því að ASÍ var stofnað árið 1916 og fram undir 1980 hafði ekki verið mikið um erlent vinnuafl á Íslandi. Nokkuð var þó um að útlendir karlmenn kæmu til sérhæfðra starfa á þriðja og fjórða áratugnum, t.d. málmiðnaðarmenn og ýmsir tæknimenn, en líka var eitthvað um almenna verkamenn. Á fjórða áratugnum komu m.a. erlendir tónlistarmenn, matreiðslumenn og veitingamenn til landsins í einhverjum mæli. Um þessi efni giltu m.a. lög frá 1927 um rétt erlendra manna til að stunda atvinnu á Íslandi.166
Á millistríðsárunum var ekki mikið deilt um þessi efni, enda ekki margt erlent verkafólk í landinu. Þó voru dæmi þess. Snörp deila varð til dæmis við fiskmjölsverksmiðju í Krossanesi við Akureyri árið 1930 þar sem tókust á norskur framkvæmdastjóri verksmiðjunnar og verkalýðsfélögin í Glerárþorpi og á Akureyri sem kommúnistar leiddu. Norskir verkamenn störfuðu við verksmiðjuna, en deilan snerist einkum um að þeim væru greidd sömu laun og íslenskum verkamönnum. Verkalýðsfélögin höfðu sigur í deilunni, en almennt var forysta verkalýðshreyfingarinnar á þeirri skoðun að mjög bæri að takmarka innflutning vinnuafls.167 Á fjórða áratugnum var eitthvað um að erlendu verkafólki væri sagt upp störfum vegna uppruna síns. Matsveina- og veitingaþjónafélag Íslands fékk því til dæmis til leiðar komið að dönskum þjónum á Hótel Borg var sagt upp á fjórða áratugnum en íslenskir ráðnir í þeirra stað.168
Eftir síðari heimsstyrjöldina óskaði ASÍ eftir því við félagsmálaráðuneytið að fá að hafa hönd í bagga með veitingu atvinnuleyfa. Ráðuneytið skipaði nefnd til þess að semja reglur um þessi mál og voru sett lög um rétt erlendra manna til að stunda atvinnu á Íslandi árið 1951. Samkvæmt þeim bar félagsmálaráðherra að veita atvinnuleyfi en þó aðeins að fengnum „tillögum verkalýðsfélags á staðnum í hlutaðeigandi starfsgrein“.169 Verkalýðsfélögunum voru því veitt mikil völd í þessum málum.
Fram eftir 20. öld var alltaf slæðingur af erlendu verkafólki hér á landi, þrátt fyrir stífar reglur, m.a. á hjúkrunarstofnunum og í landbúnaði. Þannig komu á fjórða hundrað manns frá Þýskalandi árið 1949, að meiri hluta til konur, aðallega til að vinna í landbúnaði.170 Síðar var einnig nokkuð um danska landbúnaðarverkamenn. Í sjómennsku og fiskvinnu var ekki síst færeyskt verkafólk sem þó var vart talið til útlendinga.171 Á ofanverðum áttunda áratugnum fór erlent verkafólk að koma hingað til lands í vaxandi mæli í fiskvinnslu. Einkum var um að ræða fólk frá fjarlægum löndum, m.a. frá Ástralíu og Nýja-Sjálandi, og mest ungar konur, en einnig kom verkafólk frá Bretlandi og Norðurlöndunum. Árin 1977 og 1978 voru atvinnuleyfi fyrir útlendinga í kringum eitt þúsund. Sigurlaug Gunnlaugsdóttir, sagnfræðingur, telur að í kringum 800 útlendingar hafi verið í fiskvinnslu hér á landi árlega á ofanverðum áttunda áratugnum en þeim hafi fækkað um og eftir 1981.172
Laust fyrir 1980 fóru erlendar stúlkur að sækja hingað í meira mæli en verið hafði áður. Stúlkurnar voru yfirleitt ráðnar í gegnum ráðningarskrifstofu í London en fengu lítið að vita um hvað beið þeirra og raunar oft villandi upplýsingar. Þeim var boðið frítt far gegn því að þær ynnu hjá sama vinnuveitanda í átta mánuði. Ef þær vildu slíta ráðningarsamningi urðu þær hins vegar að greiða farið sjálfar og atvinnuréttindi þeirra féllu niður því þau voru tengd ákveðnum atvinnurekanda.
Margar þeirra urðu fyrir miklum vonbrigðum yfir þeim aðstæðum sem biðu þeirra þó að vitaskuld væru þær misjafnar. Húsakynni voru víða þröng og óvistleg og fæðið stundum svo dýrt að kaupið rétt dugði fyrir kostnaði ef ekki var mikil vinna. Þær höfðu heldur ekki mikla vitneskju um rétt sinn eða starfsemi verkalýðsfélaga í landinu, ekki einu sinni um helstu grundvallarreglur. Enginn taldi sig bera ábyrgð á að kynna fyrir þeim reglur eins og ákvæði kjarasamninga um vinnutíma og ákvæðisvinnu. Óvíða eða hvergi var að finna upplýsingar á öðru tungumáli en íslensku. Kynni af hérlendri verkalýðshreyfingu voru lítil sem engin, en engu að síður urðu stúlkurnar að greiða gjöld til verkalýðsfélaganna. Fyrir kom jafnvel að kallað var á þær til vinnu eftir þörfum, sem eins konar varavinnuafl, þegar innlent verkafólk dugði ekki til. Réttleysi þeirra var því mikið og birtust í þessu ferli margar brotalamir íslensks samfélags og líka innan verkalýðshreyfingarinnar.173
Á ofanverðum níunda áratugnum jókst eftirspurn eftir erlendu vinnuafli hér á landi, enda erfitt að manna fjölmörg störf, t.d. í fiskiðnaði og matvælaiðnaði, og einnig umönnunarstörf. Það fólk sem hingað kom um það leyti var aðallega frá nágrannalöndunum. Flest af þessu fólki starfaði við fiskvinnslu, heilbrigðisþjónustu og í iðnaði.174 Um þetta leyti örlaði á þeim viðhorfum að æskilegt væri að ráða erlent fólk sem væri að minnsta kosti af „sama lit“ svo síður væri hætta á að hér færu að fæðast „ljósbrún og gulleit börn … í stórum stíl“.175 Kynþáttahyggja þekktist því hér á landi þó að enn væri hún ekki áberandi vegna einsleitni samfélagsins.
Uppruni innflytjenda átti eftir að breytast frá því sem verið hafði. Kringum 1990 fjölgaði fólki frá AusturAsíu og síðar fólki frá Austur-Evrópu. Þetta fólk fékk einkum vinnu við umönnunarstörf og ræstingar annars vegar og hins vegar í fiskvinnslu. Yfirleitt gekk það í láglaunastörf sem erfiðlega gekk að manna. Um það leyti komu hingað nokkrir hópar flóttamanna frá Víetnam. Réðst sumt af því fólki til þessara starfa og „ræstingastjórar“ leituðu jafnvel til þess til að fá „frændur og frænkur til landsins“ í vinnu. Á þessum tíma var einnig allmikið um hjónabönd íslenskra karlmanna og kvenna frá Austur-Asíu og fóru sumar þeirra kvenna einnig að stunda slíka vinnu.176
Um aldamótin 2000 tók erlent verkafólk að streyma til landsins. Á Vestfjörðum og víðar um landið varð fólk af erlendum uppruna jafnvel uppistaða vinnuafls í fiskvinnslu.177 Margir, oft konur og ekki síst þær sem komu lengstan veg, fengu litlar upplýsingar um réttindi sín í atvinnulífinu. Jafnvel gat reynst erfitt að fá þessar konur til að trúa því að þær hefðu einhver réttindi. Þá virtist einnig algengt að þær gerðu litlar kröfur af ótta við að missa vinnuna og margar þeirra áttu við tungumálaerfiðleika að stríða. Sumir atvinnurekendur nýttu sér þessa stöðu og juku vinnuálag á verkafólkið, en erlenda fólkið kvartaði sjaldan. Skömmu eftir aldamótin 2000 staðhæfði verkakona eftirfarandi um útlenda starfsfólkið: Þeir „halda að þeir verði sendir heim … Svo allt sem verkafólkið barðist fyrir er að hverfa held ég.“ Þannig brugðust sumir við komu erlends verkafólks og ólíkum samfélagsviðhorfum sem ríkjandi voru meðal þess.178
Erlendu verkafólki á Íslandi fjölgaði hratt á tímabilinu 2003–2008. Á örfáum árum varð hlutfall þess á vinnumarkaði svipað og í nágrannalöndunum. Slíkur fjöldi hlaut að setja mikinn svip á samfélagið. Andrúmsloft á mörgum vinnustöðum breyttist, enda voru tungumálaerfiðleikar algengir. Eftir hrunið 2008 fækkaði erlendu starfsfólki þó verulega.
Í þessu samhengi blasti margvíslegur vandi við verkalýðshreyfingunni sem tengdist því hvernig ætti að taka á móti þessu fólki. Erfiðlega gat gengið að ná sambandi við það vegna tungumálaörðugleika og lítið var gert í fyrstu til þess að bæta íslenskukunnáttu innflytjenda, að undanskildum þeim sem höfðu stöðu flóttamanna.179 Verkalýðshreyfingin hefur því á seinni árum krafist þess að þessu fólki standi til boða tungumálanám, auk þess sem því séu kynnt réttindi sín og reynt að tengja það inn í samfélagið. Liður í því hefur til dæmis verið að birta upplýsingar á fleiri tungumálum en íslensku í fréttablöðum, bæklingum og á heimasíðum viðkomandi stéttarfélaga. Til dæmis byrjaði Efling stéttarfélag á þessu fljótlega eftir aldamótin 2000, enda voru í félaginu um 2000 manns af erlendum uppruna, frá um 100 löndum, árið 2001.180
Framkvæmdir hófust haustið 2002 við „stærstu framkvæmd Íslandssögunnar“, virkjun Jökulsánna á Austurlandi við Kárahnjúka. Landsvirkjun hafði samið við ítalska verktakafyrirtækið Impregilo um verkið, jafnvel þó að vitað væri að það hefði misjafnt orð á sér. Fljótlega fór að bera á margvíslegum vandkvæðum á virkjunarsvæðinu, aðbúnaður var óviðunandi í ýmsum tilvikum og einnig öryggismál. Þá voru launamál í ólagi. Fyrirtækið reyndi að komast hjá því að greiða laun samkvæmt þeim kjarasamningum sem voru í gildi og erfitt var að fá upplýsingar um greidd laun. Einnig voru gerðar athugasemdir við heilsugæslu, fyrirkomulag vakta og ráðningarsamninga, vinnutíma, aðbúnað, mötuneytismál, hreinlætisaðstöðu, mismunun eftir þjóðerni og ráðningarferli. Íbúðarskálar reyndust með öllu ófullnægjandi og verkamenn fengu ekki einu sinni hlífðarfatnað eða öryggisskó nema með eftirgangsmunum og þá iðulega ófullnægjandi miðað við þær erfiðu aðstæður sem voru við Kárahnjúka. Í stuttu máli voru kjör og aðbúnaður fólks á virkjunarsvæðinu í miklum ólestri. Gerðir voru samningar við fyrirtækið um úrbætur en Impregilo sinnti þeim illa, enda hafði fyrirtækið sterka stöðu gagnvart íslenskum stjórnvöldum. Fáir urðu til að bjóða í verkið og íslensk stjórnvöld lögðu allt kapp á að það kæmist í framkvæmd. Íslensk stjórnvöld voru í klemmu og það nýtti verktakinn sér, enda var búið að semja um afhendingu á orku á tilsettum tíma.181
Stjórnvöld túlkuðu því reglur frjálslega og unnu leynt og ljóst að því að hindra afskipti verkalýðshreyfingarinnar af því sem miður fór við Kárahnjúka, bæði með beinum afskiptum af ákvörðunum sem áttu að leiða til umbóta á staðnum og með yfirlýsingum um að þar væri fátt að eða horfði allt til betri vegar. Aðfinnslum var iðulega ekki sinnt eða svarað seint og illa.182 Viðfangsefni verkalýðsfélaganna sem gættu hags starfsfólks við Kárahnjúka, og reyndar um allt land á þenslutímabilinu 2004–2008, reyndust nánast yfirþyrmandi. Samfara miklum og stjórnlausum framkvæmdum var mikið af erlendu vinnuafli flutt til landsins, enda voru þau kjör sem fyrirtæki á borð við Impregilo bauð þess eðlis að fáir Íslendingar sóttust eftir vinnu. Framkvæmdirnar fyrir austan höfðu einmitt að hluta til verið rökstuddar með því að þær ættu að draga úr atvinnuleysi. En í ágúst 2005 voru t.d. aðeins 4% starfsmanna Impregilo íslenskir. Þá voru einnig mörg dæmi um að menn væru við störf án þess að hafa til þess réttindi, og um brot á samningum og óviðunandi aðbúnað og framkomu við verkafólkið. Ef menn gagnrýndu þessi atriði voru þeir látnir fara. Gagnrýni átti ekki upp á pallborðið við Kárahnjúka.183 Reglulega komu upp mál í fjölmiðlum þar sem fjallað var um brot á reglum sem giltu um erlent verkafólk. T.d. varð umferðarslys við Kárahnjúka í ágúst 2007 þegar rúta með starfsmenn við virkjunarframkvæmdirnar ók út af veginum. Þegar staða þeirra var könnuð kom í ljós að margir þeirra höfðu ekki verið tilkynntir til yfirvalda með réttum hætti og vafi lék á hvernig ráðningarsambandi þeirra við vinnuveitanda væri háttað. Á þessum tíma bárust jafnvel fréttir af þrælahaldi þar sem fólki væri haldið við vinnu án þess að fá greidd laun, þó að slíkt gerðist ekki í tengslum við framkvæmdirnar fyrir austan.184
Efnahagsþenslan kallaði á erlent starfsfólk í allar atvinnugreinar og það var oft ráðið fyrir milligöngu innlendra og erlendra fyrirtækja. Slík fyrirtæki, svokallaðar starfsmanna leigur, sérhæfðu sig í því að útvega vinnuafl til margvíslegra starfa. Sum þeirra urðu ber að því að reyna ítrekað að komast hjá settum reglum samfélagsins um aðbúnað og kjör verkafólks þó að ekki væri það algilt.185 Því var lýst svo að sumu af þessu fólki hefði verið boðið að búa í „hjólhýsum, ósamþykktu húsnæði í verksmiðjuhverfum, uppi á loftum yfir verkstæðum þar sem [það hefði] verið starfandi eða jafnvel á byggingarstað“.186
Við framkvæmdirnar fyrir austan og víðar um land kom í ljós að eftirlitskerfi samfélagsins dugði lítt til að verja þau réttindi sem lög kváðu á um.187 Ýmis fyrirtæki notuðu ódýrt, erlent vinnuafl til að undirbjóða íslensk fyrirtæki og verkafólk og stjórnvöld gáfu út fjölda atvinnuleyfa fyrir útlendinga án þess að mál þeirra væru könnuð, svo sem laun, aðbúnaður og starfsréttindi. Einnig voru mörg dæmi um verkafólk sem starfaði hér á landi án þess að vera nokkurn tíma skráð inn á íslenskan vinnumarkað og án þess að hafa atvinnuleyfi. Þetta fólk hafði því engan rétt á vinnumarkaði hérlendis og var í raun utan laga og réttar.188
Til þess að reyna að ráða bót á ástandinu var gert samkomulag við Samtök atvinnulífsins þess efnis að trúnaðarmenn ættu rétt á upplýsingum um kjör erlendra starfsmanna og að miða bæri við lágmarkskjör í íslenskum kjarasamningum. Jafnframt var sett á fót sérstök samráðsnefnd ASÍ og Samtaka atvinnulífsins til að fjalla um ágreiningsmál sem upp kæmu. Stjórnvöld hétu því einnig að tekið yrði betur á þessum málum en verið hefði gert og sérstaklega yrði hugað að starfsmannaleigum og hvernig málum væri háttað þar.189 Sannarlega veitti ekki af nánari rannsókn. Árið 2006 var talið að um 7% af vinnuafli í landinu væru erlendir ríkisborgarar.190 Árið eftir var þetta hlutfall um 10% og erlendir ríkisborgarar á vinnumarkaði nærri 18.000. Þá höfðu komið upp fjölmörg mál sem ASÍ og einstök verkalýðsfélög höfðu afskipti af og tengdust „meintri misnotkun fyrirtækja á erlendu verkafólki og félagslegum undirboðum með brotum á kjarasamningum og lögum, skattaundanskotum og annarri vafasamri eða beinlínis ólöglegri framkvæmd“.191
Alþýðusambandið gerði kröfu um að eftirlit yrði aukið með fólki sem kæmi hingað til lands til starfa og settar yrðu reglur um starfsmannaleigur. Einnig að refsiheimildir yrðu auknar, skattamál skýrð, fræðsla aukin og tryggður réttur trúnaðarmanna til þess að fylgjast með því að starfsfólk nyti kjara og réttinda sem því bæri. Átak var gert árin 2005 og 2006 til þess að reyna að koma þessum málum í betra horf. Farið var í kynningarátak varðandi réttindamál erlends verkafólks og í tengslum við það voru gefnir út bæklingar á 10 tungumálum um réttindi fólks af erlendum uppruna á íslenskum vinnumarkaði. Þá var 1. maí 2005 helgaður þessum málum undir yfirskiftinni „Einn réttur – ekkert svindl“. Skýrt var tekið fram að átakið beindist gegn þeim atvinnurekendum sem stæðu að brotum en ekki því erlenda verkafólki sem yrði fyrir þeim.192
Starfið fólst ekki eingöngu í almennri upplýsingagjöf. Farið var í upplýsinga- og eftirlitsferðir á vinnustaði og fyrirtæki kærð sem reyndust brotleg. Starfsmönnum ASÍ var í samstarfi við aðildarfélögin falið að sinna eftirliti og farið var í heimsóknir á fjölda vinnustaða. Á annað hundrað vinnustaðir voru t.d. heimsóttir og upplýsingum dreift til starfsmanna. Í ljós kom að ekki var vanþörf á því. Sérstaklega var vanþekking áberandi meðal fólks sem kom frá hinum nýju aðildarríkjum EES (Austur-Evrópu).193 Brotin vörðuðu laun, vinnutíma, aðbúnað starfsmanna, ekki síst húsnæði, og jafnvel hótanir ef fólk sætti sig ekki við aðstæður. Dæmi voru um að einstakir atvinnurekendur miðuðu launagreiðslur til erlendra starfsmanna við taxta 18 ára unglinga en ekki verkamanna með margra ára starfsreynslu.194
Verkalýðshreyfingin krafðist þess að réttarstaða erlends starfsfólks yrði bætt. Brugðist var við þeim kröfum með breytingum á lögum um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands. Breytingarnar miðuðu m.a. að því að efla Vinnumálastofnun og stöðu hennar gagnvart þeim fyrirtækjum sem höfðu útlenda starfsmenn í vinnu. Vinnumálastofnun öðlaðist rétt til að fá ráðningarsamninga í sínar hendur og stéttarfélögin áttu að fá rétt til að hafa aðgang að þeim. Samkvæmt lagabreytingunum var erlendum starfsmannaleigum skylt að láta skrá starfsemi sína, starfsmenn fyrirtækja af þessu tagi áttu að njóta sömu réttinda og þeir sem ynnu hjá innlendu fyrirtæki, auk þess sem veittar voru heimildir til að stöðva starfsemi starfsmannaleiga ef þær gerðust brotlegar við reglur og lög.195
Félagsleg undirboð og brot á reglum gagnvart erlendu verkafólki voru fjarri því að vera einskorðuð við Ísland, þau voru í vaxandi mæli stunduð um allan heim með aukinni alþjóðavæðingu. Í nágrannalöndum Íslands, t.d. í Noregi, fór fram alveg sama barátta og hérlendis eftir aldamótin 2000. Þar komu fram dæmi um „þrælakjör“, um algjört réttleysi erlends verkafólks við slys, og fregnir bárust af því að öryggi á vinnustöðum færi hrakandi. Jafnframt voru þar í landi mikil brögð að verk- og þjónustutilboðum sem byggðust á því að útlendingar á lágum launum væru ráðnir til starfa.196
Verulegur árangur náðist í baráttunni gegn félagslegum undirboðum á fyrsta áratug 21. aldar þrátt fyrir margvíslega erfileika. Þá má geta þess að stéttarfélagsaðild útlendinga varð óvenjumikil miðað við það sem tíðkaðist í nágrannalöndunum. Þannig benda athuganir til að félagsaðild þeirra hafi verið nærri 85% sem var sambærilegt við það sem gerðist meðal Íslendinga.197
Ungri konu sem starfaði sem hárskeri var sagt upp störfum árið 1985 eftir að atvinnurekandi hennar komst að því að hún var barnshafandi. Hann bar því fyrir sig að konan hefði gerst sek um misfellur í starfi og valdið fyrirtækinu fjárhagstjóni. Málið varð dómsmál og þar bar samstarfsfólk konunnar að hún hefði staðið sig vel í starfi, en framkoma atvinnurekandans í hennar garð hefði breyst eftir að ljóst var að hún var barnshafandi. Málið fór bæði fyrir héraðsdóm og Hæstarétt og var niðurstaðan á sama veg. Uppsögnin var dæmd ólögmæt og atvinnurekandanum gert að greiða laun í uppsagnarfresti og skaðabætur að auki. Lagaákvæði þess efnis að óheimilt væri að segja upp þunguðum konum voru því mikil réttarbót.198
Þegar atvinnuleysistryggingalögum var breytt árið 1975 var samþykkt á Alþingi að allar vinnandi konur skyldu fá rétt til að taka fæðingarorlof í þrjá mánuði. Aðdragandi málsins var sá að Bjarnfríður Leósdóttir bar fram þingsályktunartillögu á Alþingi árið 1974 þess efnis að öllum konum yrði tryggt fæðingarorlof í þrjá mánuði í tengslum við barnsburð. Opinberir starfsmenn höfðu notið fæðingarorlofs lengi þegar þetta var, eða allt frá 1954 þegar sett voru lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Tillagan hlaut þó litlar undirtektir en leiddi til umræðna á Alþingi um hvernig leysa mætti þetta mál, og það var gert með því að breyta lögum um atvinnuleysistryggingar og tók sú breyting gildi í ársbyrjun 1976. Lausnin varð því sú að fjármagna þessar greiðslur með framlögum frá Atvinnuleysistryggingasjóði þó að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar teldu það ekki góðan kost. Réttur til fæðingarorlofs sem varð að lögum 1975 var þó bundinn skilyrðum, ekki síst um atvinnuþátttöku.199 Að auki gátu konur hjá almennu verkalýðsfélögunum fengið fæðingarstyrk samkvæmt kjarasamningum en þeir voru mismunandi eftir stéttarfélögum. Árið 1979 var þessi styrkur 12 dagar hjá verslunarmönnum en þrjár vikur hjá Sókn sem var algengast.200
Almannatryggingalögum var svo breytt árið 1980 þannig að fæðingarorlofsréttur náði til allra kvenna, bæði heimavinnandi og útivinnandi, en upphæð greiðslu skyldi fara eftir atvinnuþátttöku. Orlofið var eftir þetta greitt af almannatryggingum en ekki af Atvinnuleysistryggingasjóði. Um þetta var samið í tengslum við kjarasamninga og hét ríkisstjórnin því að koma slíku orlofi á frá 1. janúar 1981. Samkvæmt lögunum mátti faðir taka hluta orlofsins, allt að einum mánuði, en þó aðeins ef móðir óskaði þess. Samhliða var svo ákvæði bætt inn í almannatryggingalögin þess efnis að óheimilt væri að segja barnshafandi konu eða foreldri í fæðingarorlofi upp störfum nema brýnar ástæður lægju þar að baki.201 Fæðingarorlofið var svo lengt í áföngum (1988–1990) í sex mánuði og var feðrum einnig gefinn kostur á að taka hluta þess með lögum frá árinu 1987.202 Í kjarasamningum ársins 1990 var svo samið um það við stjórnvöld að bæta réttarstöðu fólks í fæðingarorlofi þannig að fjarvistir vegna fæðingarorlofs teldust til starfstíma við mat á samningsbundnum réttindum en ekki væri litið á fæðingarorlof sem launalaust leyfi.203
Á ofanverðum tíunda áratugnum var unnið að því að bæta rétt foreldra og þungaðra kvenna og voru þá farin að koma fram áhrif vegna aukinnar Evrópusamvinnu og aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Árið 1995 var t.d. gerður samningur á milli Evrópusambands verkalýðssambanda (ETUC) og Evrópusamtaka atvinnurekenda um þessi efni en í honum fólst að foreldrar ættu rétt til þess að taka sér orlof að lágmarki 13 vikur vegna fæðingar barns eða ættleiðingar, en skýrt var tekið fram að foreldraorlof væri til viðbótar við fæðingarorlof og mætti nýta þetta orlof allt að átta ára aldri barnsins, þó án launa. Rétturinn til foreldraorlofs var bundinn hvoru foreldri fyrir sig. Foreldraorlofið var þannig ekki síst hugsað til þess að hvetja feður til að taka aukinn þátt í umönnun og uppeldi barna og bæri að leggja áherslu á þá framtíðarsýn. Evrópusambandið staðfesti tilskipun þessa efnis árið 1996. Samningaviðræður fóru fram við atvinnurekendur vegna tilskipunar ESB um foreldraorlof og var tilskilið að þeim samningum bæri að ljúka fyrir lok árs 1998. Það tókst þó ekki og fór ASÍ því fram á að stjórnvöld beittu sér í málinu.204 Um sama leyti gerði ASÍ kröfur til þess að efni tilskipunar ESB um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði þungaðra kvenna sem væru starfandi í atvinnulífinu yrðu lögleiddar hérlendis. Það gekk þó ekki átakalaust og kærði Alþýðusambandið stjórnvöld til Eftirlitsstofnunar EFTA fyrir að sjá ekki til þess að tilskipun þessa efnis væri innleidd á fullnægjandi hátt. Sú kæra var þó síðar dregin til baka eftir að sett höfðu verið lög um fæðingar- og foreldraorlof sem komu að fullu til móts við kröfur ASÍ.205
Við gerð kjarasamninga í byrjun árs 2000 setti Alþýðu sambandið fram kröfu um nýja, róttæka og heildstæða löggjöf um fæðingar- og foreldraorlof. Ný lög um þessi efni voru svo samþykkt á Alþingi árið 2000 og tóku þau gildi í áföngum til ársins 2003.206 Með þeim voru réttindi þungaðra kvenna og mæðra ungbarna bætt, orlofið lengt, það tekjutengt og lágmarksgreiðslur hækkaðar. Þá var orlofið gert sveigjanlegra og réttur til foreldraorlofs tryggður. Markmiðið með lögunum var „að bæta réttarstöðu barna og foreldra þeirra á vinnumarkaði“ og „samræma réttindi þeirra sem starfa á almenna vinnumarkaðinum og opinberra starfsmanna“, þó að það hafi ekki tekist til fulls. Með þessari réttarbót var reynt að „tryggja barni samvistir við báða foreldra sína og gera foreldrum kleift að samræma betur einkalíf og þátttöku á vinnumarkaði“. Samhliða var markmiðið að stuðla að því að „jafna ábyrgð og möguleika foreldra á að annast börn sín“ með því að lögbinda skiptingu á réttindum foreldra og um leið að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði.207 Með lögunum var einnig komið til móts við tilskipanir Evrópusambandsins um réttindi þungaðra kvenna og kvenna með börn á brjósti.
Fæðingarorlofið átti að verða samtals níu mánuðir, þar af þrír mánuðir bundnir við hvort foreldri en þremur mátti deila á milli þeirra. Nýta mátti orlofið allt til 18 mánaða aldurs barnsins. Foreldraorlofsrétturinn var einnig viðurkenndur og var hann árangur af starfi evrópskrar verkalýðshreyfingar, sem fyrr er getið, alls 13 vikur fyrir hvort foreldra. Taka mátti orlofið allt til átta ára aldurs barnsins, eins og fyrr segir, en þó var þessi réttur án launa. Einnig voru ákvæði þess efnis að foreldrar héldu öllum réttindum sínum þó að þeir væru í fæðingarorlofi, auk þess sem kveðið var á um uppsagnarvernd í fæðingar- og foreldraorlofi. Til þess að fjármagna þennan kostnað var Fæðingarorlofssjóði komið á laggirnar og var hann fjármagnaður með tryggingagjaldi. Ætlunin var sú að mánaðarleg greiðsla í orlofi næmi 80% af heildarlaunum viðkomandi einstaklings.208 Ýmsar breytingar voru þó gerðar síðar á þessum greiðslum til að draga úr kostnaði og m.a. sett þak á greiðslur til einstaklinga með háar tekjur.
Fiskverkakona lýsti því árið 1975 hversu mikil áhrif bættur aðbúnaður hefði haft á mannlífið í fyrirtækinu sem hún vann hjá: „Og nú er allt orðið svo fallegt í frystihúsinu og ólíkt því sem áður var. Við göngum á sokkaleistunum inn á teppalagt gólfið í kaffisalnum … öðrum verkstjóranum hefur brugðið svo við alla þessa fegurð, að hann er orðinn tággrannur og spengilegur, og mér sýnist hið eldra starfsfólk hafa yngst upp. Svona er gott að hafa fallegt í kringum sig.“209
209 Kristín Níelsdóttir 1975, 16.
Daglegt líf alþýðufólks tók geysilegum breytingum á ofanverðri 20. öld. Nánast er sama hvert litið er, matur, drykkur, húsakynni, hreinlæti, ferðamáti, klæðnaður. Hér verður vikið að nokkrum þáttum í lífi alþýðufólks í tengslum við vinnu þess og vinnustaði.
Undir miðja 20. öld var bifreiðaeign enn ekki orðin almenn, en vinnustaðir voru líka iðulega nær heimilum fólks en nú tíðkast. Þegar komið var fram um 1960 voru allmörg dæmi um alþýðufólk sem átti bíla, en margir ferðuðust enn á annan hátt; í Reykjavík notaði fólk strætó eða fór ferða sinna gangandi og hjólandi. Á fimmta áratugnum var orðið svo algengt að menn kæmu á hjóli í vinnuna að óskir komu fram um að sett væru upp skýli fyrir hjólin til að þeim væri ekki stolið.210 Þetta breyttist smám saman með aukinni bifreiðaeign og bættum efnum, og segja má að á áttunda áratugnum hafi bifreiðaeign verið orðin almenn. Langflest alþýðufólk fór eftir það um akandi, enda var borgarskipulagi og almenningssamgöngum þannig háttað að erfitt var að komast hjá því að eiga bíl. En hér koma líka til breyttar hugmyndir um neyslu. Neyslusamfélagið, eins og við þekkjum það nú, varð smám saman allsráðandi eftir 1960.
Með betri efnahag fólks og fyrirtækja var um og eftir miðja 20. öld farið að koma upp góðri aðstöðu fyrir verkafólk á stærstu vinnustöðum hérlendis, bæði til þess að matast og þrífa sig. Margir höfðu þó ekki aðgang að slíkum munaði og vantaði bæði matmálsstað og hollt fæði. Þetta varð m.a. til þess að stofnað var Fæðiskaupendafélag Reykjavíkur sem hafði það að markmiði að koma upp mötuneyti þar sem almenningur gæti keypt hollan mat á góðu verði. Starfsemin hófst árið 1946 og var umfangsmikil um nokkurra ára skeið. Fullyrt var að þessi starfsemi hefði haft áhrif á að komið var upp mötuneytum á fleiri vinnustöðum en verið hafði.211
Eftir að á vinnustaðinn var komið voru aðstæður kannski eins ólíkar og staðirnir voru margir. Sums staðar var aðkoma góð en annars staðar léleg og var fullyrt að „sóðaleg umgengni“ væri „landlægt próblem“. Umgengni á vinnustöðum var því víða vandamál, sérstaklega þar sem unnið var að einhvers konar framleiðslu eða viðgerðum. Allt of víða var ekki hirt um að ráða fólk til að þrífa vinnustaði og starfsmannarými. Sum staðar var allt svart af skít enda þekktust þau viðhorf að skítur og dugnaður færu saman, og að þeir sem gengju þrifalega um væru hálfgerðir ónytjungar. Það átti þó einkum við um karlmenn „að þeir væru dugnaðarforkar og væru ekki með neitt hangs. „Siggi Trölli og Jói Svaði, þeir eru nú ekki að drolla við hlutina““. Annað gilti þó um konur: Þær „sem gengu illa um á vinnustað fengu hið versta orð, bæði af samstarfsfólki og yfirmönnum og voru hart dæmdar fyrir að láta aðra um að þrífa eftir sig“.212 Það var því fjarri lagi að alltaf væri við atvinnurekandann að sakast, enda gekk margt starfsfólk illa um. Til dæmis fullyrti Heilbrigðiseftirlitið í Reykjavík fyrir 1970 að sinnuleysi, trassaskapur og kæruleysi einkenndi allt of marga vinnustaði iðnaðarmanna.213
Úti um land var farið að útbúa kaffistofur um miðja öldina og ákvæði þessa efnis voru þá bundin í samninga. Þetta var orðað svo hjá Verkalýðsfélagi Borgarness árið 1949:
Á vinnustöðum skulu vinnuveitendur sjá um að lyfjakassi sé á staðnum með nauðsynlegum lyfjum og umbúðum, svo og salerni, vatn og vaskur, ef við verður komið. Nú eru verkamenn að vinna á sama stað í úthverfum bæjarins hjá sama vinnuveitanda og skal hann þá þar hafa skýli fyrir verkamenn til að drekka kaffi og matast í. Í skýlinu skulu vera borð og bekkir og þess vel gætt að þar sé ávallt hreint og þrifalegt. Ennfremur skal í skýlinu vera hitunartæki. (7. gr.)Á öllum vinnustöðum skulu verkamenn eiga aðgang að sæmilegu húsnæði til kaffidrykkju og geyma hlífðarföt, eftir því sem við verður komið. Samningsaðilar eru sammmála um að beita sér fyrir því, að hið opinbera setji fyllri reglur um öryggi verkamanna við vinnu og útbúnað vinnutækja.214
214 ÞÍ. Samningur um kaup og kjör verkafólks milli Verkalýðs-
félags Borgarness og vinnuveitenda í Borgarnesi. Sögus.
verkal. B03: Jón Sigurðsson A4/8. Ýmislegt.
Sem sjá má eru kröfurnar hógværar og jafnvel gert ráð fyrir undantekningum en engu að síður kemur þó fram greinilegur vilji til þess að bæta ástandið.215 Verulegar umbætur á þessu sviði urðu þó ekki fyrr en á áttunda og níunda áratugnum þegar miklar betrumbætur voru gerðar á aðbúnaði í mörgum fyrirtækjum, ekki síst á kaffistofunum.
Um og eftir miðja 20. öld fjölgaði þeim fyrirtækjum smám saman þar sem komið var upp snyrtiaðstöðu fyrir starfsmenn, t.d. í málmiðnaðarfyrirtækjunum. Stundum var þó undir hælinn lagt hvort sú aðstaða væri notuð eða ekki. Í einu fyrirtæki í Reykjavík þar sem komið hafði verið upp baðaðstöðu var ákveðið að geyma í henni ýmiss konar harðvið þegar í ljós kom að hún var ekki mikið notuð! Síðar var þó farið að nota þessa aðstöðu eins og til var ætlast.216 Ástandið lagaðist því smám saman. Bæði verkafólk og atvinnurekendur fóru í vaxandi mæli að gera kröfur um betri aðbúnað. Sigfinnur Karlsson, formaður Alþýðusambands Austurlands, sagði t.d. árið 1978 að þar hefði orðið „stórkostleg framför á undanförnum árum. Aðfinnslum er mætt af skilningi og bætur gerðar.“217 Starfsmaður í fiskimjölsverksmiðju í Vestmannaeyjum kvað upp úr með það árið 1979 að orðið hefði „hreinasta bylting í þrifnaðarmálum … Nú er komin hér mjög góð baðaðstaða og auk þess höfum við aðgang að gufubaði, og er hvort tveggja mjög mikið notað af starfsmönnum … Svo má geta þess að kaffistofan hér er ný – og veitti sannarlega ekki af, frá því sem var fyrir gos“.218 Góður aðbúnaður varð til marks um að viðkomandi fyrirtæki væri eftirsóknarverður vinnustaður en slæmur aðbúnaður merki um hið gagnstæða.
Því fór fjarri að fyrirtæki í opinberri eigu gengju ævinlega á undan með góðu fordæmi í aðbúnaðarmálum. Dæmi um það var kaffistofan sem fyrirtækið Ríkisskip bauð verkamönnum sínum árið 1978, en þeir voru um 30 talsins. Þar var
eitt salerni, ein þvagskál, 5 vaskar, lofthæðin hin sama og í venjulegu íbúðarhúsi eða um 2,5 til 3 m. Þar eru nokkrir skápar sem verkamenn geta geymt föt sín í og voru þessir skápar það eina sem ég [blaðamaður Vinnunnar] gat fundið jákvætt við þessa „nýju“ aðstöðu. … Kaffistofan sjálf er mjög dimm, lýsing þar afar slæm, loftræsting engin, utan opnanlegir smágluggar, en þar er sæmilega hlýtt.219
219 Vinnan XXVIII (1978) 3. tbl., 5.
Aðstaðan var öll önnur hjá Eimskipum. Þar var stór og bjartur salur fyrir starfsfólk sem haldið var hreinum. Þar var boðið upp á kaffi og hægt að kaupa máltíðir. Blaðamaður Vinnunnar lofaði þetta framtak fyrirtækisins sem vert var og nefndi að best væri ástandið hjá stærri fyrirtækjum í þessum efnum. En hvergi væri það
jafn hryllilegt og í byggingariðnaðinum, þar sem menn verða að neyta matar og kaffis í einhverjum ömurlegustu skúrræksnum sem um getur. Sumir þessara skúra, sem byggingarmenn verða að gera sér að góðu, jafnt sumar sem vetur, eru svo lélegir að maður efast um að verstu skepnuníðingar myndu geyma hestana sína vetrarlangt í þeim.220
220 Vinnan XXVIII (1978) 3. tbl., 6.
Byggingamaður lýsti aðbúnaði í byggingariðnaði svo um þetta leyti:
Aðbúnaðarmál eru víða í miklum ólestri, t.d. í byggingariðnaði. Þar er það býsna algengt að naglapakkinn sé salernið, bíllinn kaffistofan og verkfærageymslan mötuneytið. Múrarar teljast búa við lúxus ef þeir hafa einnar tommu einangrunarplötu til að sitja á í kaffitímanum, í herberginu þar sem þeir eru að múra. Því er jafnan borið við að það taki því ekki að byggja boðlegan vinnuskúr, því verkinu sem unnið er við ljúki á nokkrum vikum. En menn gleyma því yfirleitt, að starfsmennirnir fara að loknu þessu verki á annan vinnustað, jafn ömurlegan hvað aðbúnað snertir.221
221 Vinnan XXXII (1982) 1. tbl., 5.
Snyrti- og mataraðstaða var sem sagt einna verst meðal byggingamanna. Benedikt Davíðsson, sem lengi var í forystu trésmiða, lýsti því t.d. að bílakassar hefðu lengi verið nýttir sem skjól fyrir byggingaverkamenn.222 En verkalýðshreyfingin hélt áfram að knýja á um úrbætur og var m.a. tekin upp sú nýbreytni eftir 1990 að Trésmiðafélag Reykjavíkur verðlaunaði þá sem sköruðu fram úr.223
Á árinu 1988 gengu í gildi nýjar reglur um starfsmannaaðstöðu og veittu þær Vinnueftirlitinu m.a. heimild til þess að loka aðstöðu sem ekki uppfyllti gerðar kröfur. Þessi heimild var oft notuð á næstu árum og var svo komið að árið 1995 heyrði til undantekninga að menn hefðu ekki aðgang að hreinlætisaðstöðu.224
Aðstæður sem hvorki bjóða upp á einkalíf af neinu tagi né eðlilegt félagslegt samneyti, leiða aðeins til óæskilegrar spennu milli einstaklinga og afleiðingin verður sífelld óánægja og árekstrar. Það orð hefur komist á farandverkafólk að það sé óreglusamt og óstöðugt vinnuafl, en það er að okkar mati bein afleiðing þeirrar félagslegu aðstöðu, aðbúnaðar og öryggisleysis í atvinnumálum, er farandverkafólk býr við. Stór hluti farandverkafólks, sem á verbúðum býr, er ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu spor á vinnumarkaðnum og er jafnvel í fyrsta skipti slitið úr tengslum við fjölskyldu sína og uppeldisumhverfi. Óreglulegur og oftast langur vinnudagur, lítil sem engin tengsl við verkalýðshreyfinguna, engin aðstaða til sambands við ættingja og vini, lesturs eða annars einkalífs og nánast engir möguleikar til félagslífs. Við viljum vekja sérstaka athygli á þeim vafasama „félagsmálaskóla“ sem hinu unga farandverkafólki er gert að ganga í gegnum við þær aðstæður sem því eru búnar í dag.225
225 ÞÍ. Umsögn um drög að reglugerð um starfsmanna- og við-
legubúðir, undirritað af Jósef Kristjánssyni. Sögus. verkal.
A01: 22/10. Skrifstofa. Ýmis félagsmál. Úr fórum Snorra
Jónssonar.
Farandverkafólk kvartaði mjög yfir aðbúnaði sínum í kringum 1980. Staða þessa fólks var að mörgu leyti erfið, þetta var aðkomufólk og því tæplega undir hlífiskildi viðkomandi verkalýðsfélags. Verkalýðshreyfingin var einmitt sökuð um að sýna þessu fólki tómlæti, en eftir að vakin hafði verið athygli á ástandinu breyttust viðhorfin og sum félög veittu farandverkafólki stuðning. Um þetta leyti voru málefni þess mjög í sviðsljósinu, enda vakti farandverkafólkið athygli á aðbúnaði sínum og kjörum, og hertók m.a. verbúð í Vestmannaeyjum árið 1980 um skamma hríð til þess að mótmæla óviðunandi aðbúnaði. Í því tilviki voru fiskafurðir m.a. geymdar yfir híbýlum fólksins.226 Víða kúldraðist fólk í þröngum herbergjum, margt saman. Einkalíf og næði var því af mjög skornum skammti. Í frístundum var enginn staður nema kojan til að dvelja í, enda óvíða setustofur. Um 1980 var ástandinu lýst svo:
Til eru dæmi þess að opið er á milli vinnslusala og íbúðarhúsnæðisins, þannig að trekkurinn og lyktin, sem óneitanlega fylgir fiskvinnslunni er viðloðandi allan sólarhringinn. Enga eldunaraðstöðu er að finna þótt fólk kysi að elda mat sjálft og lækka þannig fæðiskostnað. Aðstöðu til þvotta er víða mjög ábótavant, hreinlætisaðstaða takmörkuð … En það sem er hvað alvarlegast er skorturinn á öryggi þess fólks, sem í verbúðum býr. Hér er fyrst og fremst átt við eldvarnir. Í Vestmannaeyjum er dæmi þess að verbúð er á þriðju og fjórðu hæð vinnslustöðvar, undir timburþaki. Húsnæðinu er lokað skömmu fyrir miðnætti, þannig að enginn kemst út né inn án þess að hafa samband við húsvörð á fyrstu hæð. Gluggar eru flestir lokaðir, en þeir sem eru opnanlegir eru byrgðir járnrimlum.227
227 Tryggvi Þór Aðalsteinsson 1980, 6. – Sjá einnig umfjöllun í
ritgerð Sigurlaugar Gunnlaugsdóttur 2008.
Sums staðar voru aðstæður þó viðunandi eða jafnvel góðar.228 Samkvæmt úttekt sem var gerð á þessum tíma var þó talið að stór hluti þess húsnæðis sem stóð farandverkafólki til boða væri óíbúðarhæfur.229 Farandverkafólkið tók sig því saman og krafðist þess að aðstæður þess yrðu bættar. Meginkröfurnar snerust um umbætur í húsnæðismálum, enda væru sumar verbúðirnar dauðagildrur. Einnig að farandverkafólk fengi ferðakostnað greiddan og frítt fæði eins og aðrir sem störfuðu fjarri heimili sínu, en stór hluti launanna gat farið í fæðiskostnað; ef lítil vinna var í boði, gat verkafólkið jafnvel komist í skuld við atvinnurekandann og útlendu stúlkurnar áttu vart fyrir farinu heim aftur. Þá yrði þetta fólk að fá réttindi í verkalýðsfélögunum og kjarasamningar skyldu þýddir á ensku fyrir erlent starfsfólk.230
Flestar þessar kröfur virtust sjálfsagðar og eðlilegar en verkalýðsfélögin sinntu þeim misjafnlega, sum með sóma en önnur lakar. Í sumum tilvikum höguðu verkalýðsfélögin sér jafnvel þannig að það var eins og þeim kæmi aðkomufólkið ekki við. Fyrir utan slæman aðbúnað og réttleysi fann þetta fólk fyrir félagslegri einangrun og jafnvel fjandskap frá heimafólki þegar verst lét, einkum ungum karlmönnum. Það var þó ekki algilt og sums staðar gátu samskiptin verið góð. Þá var óregla iðulega mikil með tilheyrandi upplausn og átökum. Það var ekki að furða að sumar verbúðirnar væru nefndar eftir helstu átakasvæðum í heiminum, t.d. Gólanhæðir.231 Farandverkakona frá Póllandi lýsti aðstæðum þannig að þegar drykkja stóð yfir hefði verið mikilvægast að gæta þess „að vera ekki drepin. Fólk var það drukkið að það vissi ekkert hvað það var að gera. Það var langbest að vera annað hvort drukkinn eins og hinir og gera sér ekki grein fyrir því hvað þetta var alveg á mörkunum, eða koma sér í burtu“.232 Væri einhverjum sagt upp vinnunni var til þess ætlast að viðkomandi færi frá viðkomandi stað.
Þegar frá leið tóku bæði Alþýðusambandið og Verkamannasambandið undir kröfur farandverkafólksins eftir að þær voru komnar í hámæli og aðbúnaður þeirra var orðinn umfjöllunarefni í dagblöðunum. Meðal annars kom Guðmundur J. Guðmundsson á fund sem farandverkafólk boðaði til í Vestmannaeyjum og Dagsbrún útvegaði farandverkafólki skrifstofu í Reykjavík.233 Í ályktunum 9. þings Verkamannasambandsins frá 1979 var brýnt fyrir aðildarfélögum og trúnaðarmönnum að sinna málefnum þessa fólks og því lýst yfir að verkalýðshreyfingin yrði að standa „dyggari vörð um réttindi þessa fólks“.234 Farandverkafólk taldi brýnt að taka baráttumál þess fyrir í kjarasamningum og breyta lögum og reglugerðum Alþýðusambandsins og verkalýðsfélaga til þess að farandverkafólk fengi bætta réttarstöðu innan verkalýðshreyfingarinnar.235 Árið 1980 tók Alþýðusambandið kröfur farandverkafólks inn í heildarkröfugerð sambandsins. En þegar þarna var komið sögu lognaðist hreyfing farandverkafólks þó út af án þess að fullur árangur næðist af starfi hennar. Henni hafði þó tekist að vekja athygli á ófremdarástandi og það leiddi til þess að farið var að bæta aðbúnað þessa fólks.236
Með auknum efnum fólks um og eftir miðja 20. öld breyttist vinnuklæðnaður og algengara varð að fólk færi að ganga í sérhönnuðum vinnufatnaði. Þetta fór þó eftir atvinnugreinum. Fólk sem vann við umönnun og heilsugæslu fékk slíkan klæðnað snemma en þurfti oft að greiða fyrir þvott á fatnaði. Oft voru atriði af þessu tagi til umfjöllunar í kjarasamningum þessara starfsstétta. Eftir stríðið fór að verða algengara að vegavinnumenn væru í vinnugöllum eða samfestingum. Þá var algengur fótabúnaður orðinn stígvél eða gúmmískór og höfð var derhúfa á hausnum til að vera maður með mönnum.237 Hjá járniðnaðarmönnum og skipasmiðum eftir miðja 20.
öld var algengasti vinnufatnaðurinn samfestingur sem menn fóru í utan yfir sín eigin föt. Fóðraðir heilgallar komu ekki fyrr en löngu síðar. Á áttunda áratugnum fór fólk í vaxandi mæli að fá vinnufatnað, og fiskvinnslukonur fengu þá „hvíta sloppa og höfuðföt (nethúfur) en keyptum sjálfar svuntur, stígvél og vettlinga“.238 Svo fór verkafólkið að fá læstan skáp fyrir fötin.239
„Það er mikið fjör, og alltaf hálfar og heilar eða þá grand. Ef enginn getur sagt eitthvað af þessu er gefið upp. Þau banka í borðið í hvert skipti sem spil er látið út, og taka bakföll þegar mikið er að ske. Kaffið er drukkið með spilamennskunni, eða á meðan verið er að gefa. Svo gægist Haraldur í gættina og kallar: „Tíminn er kominn!“. Þá er hætt á stundinni, jafnvel þó að spiluð sé heil, því þetta er húsbóndahollt fólk og ekki gefið fyrir hangs.“240
240 Kristín Níelsdóttir 1975, 14–15.
Þannig lýsti verkakona í Stykkishólmi kaffitímunum í frystihúsinu um miðjan áttunda áratuginn.
Kjör verkafólks bötnuðu mikið eftir 1940 og líf fólks tók stakkaskiptum. Vitaskuld bjó alþýða manna ekki við ríkidæmi en flestir höfðu til hnífs og skeiðar og ekki er algengt að sjá frásagnir eftir þann tíma af því að börn og unglingar hefðu ekki nóg að borða á uppvaxtarárum sínum. Enn var þó algengast að fólk reyndi að búa að sínu eftir mætti, kaupa sem minnst en afla og útbúa sjálf sem mest. Kona fædd 1932 á Akureyri lýsti því svo að á æskuheimili hennar hefði alltaf verið tekið slátur en auk þess
kjöt saltað í tunnu og kartöflur ræktaðar. Pabbi fór stundum á sjó á árabát og veiddi nokkra fiska og svo var alltaf hægt að kaupa fisk á bryggjunni fyrir lítinn pening. Mamma sá um matargerð og hún bakaði allt kaffibrauð, en matarbrauð voru keypt. Við borðuðum morgunmat sem var oftast smurð brauðsneið með áleggi. Síðan var aðalmáltíð um hádegið og þá var fiskur á mánudag og einhvers konar mjólkursúpa á eftir, t.d. makkarónusúpa, á þriðjudag aftur fiskur, kannski siginn eða saltaður, og súpa, t.d. rabarbarasúpa. Á miðvikudag var alltaf kjötmeti, t.d. baunir og saltkjöt og rófur eða kjötsúpa. Fimmtudag og föstudag aftur fiskur, t.d. bollur eða steiktur fiskur og súpa en á föstudag alltaf skyr á eftir. Á laugardag oftast saltfiskur og mjólkurgrautur á eftir. Á sunnudögum var steikt kjöt og ávaxtagrautur eða búðingur með saft út á. … Yfirleitt var ekki borðað grænmeti nema gulrófur …241
241 ÞÞ A: 11426. kvk 1932.
Hér er lýst heimili úti á landi sem hefur verið vel bjargálna en vitaskuld voru aðstæður fólks ólíkar eftir efnum og ástæðum.
Fram á áttunda áratuginn og jafnvel lengur fór verkafólk víða heim í hádegismat, a.m.k. ef aðstæður leyfðu sökum fjarlægðar, en hafði með sér nesti fyrir kaffitímana, „brauð og tertusneið og kaffi í hitabrúsa, og var safnast saman á hlýjasta staðnum til að drekka kaffið“. Svo fengu margir sér að reykja, „og það mikið, Færeyingarnir reyktu mikið“, sagði verkakona sem vann í fiskiðjuveri í Stykkishólmi fyrir 1960.242
Kaffi- og matartímar voru afar mikilvægur þáttur í menningu vinnustaðanna. Þá hittist fólkið og gat leyft sér svolitla dægrastyttingu. Að lokinn máltíð eða með kaffinu var algengast að spila. En fleira var þó gert en að spila. Spjallað var um landsins gagn og nauðsynjar og líka „skáldskap og bókmenntir“, eins og verkakona lýsti:
Petra kann mikið af lausavísum og lofar okkur að heyra margar skemmtilegar, en Þuríður fer með heilu kvæðin og vitnar óspart í tvö höfuðskáld, sem hún hefur þekkt, þá Stefán frá Hvítadal og Hannes Hafstein. Ef hún man eitthvað ekki alveg, sem um er talað, þá fer hún í bækurnar í matartímanum og svo kemur það í næsta kaffitíma.243
243 Kristín Níelsdóttir 1975, 15.
Á mörgum vinnustöðum var mikið teflt, t.d. á kaffistofum Eimskips. „Það voru svo oftast sömu mennirnir sem tefldu, aðrir notuðu tímann til að líta í blað, leggjast á bekk og láta líða úr sér en flestir töluðu saman, í matartímanum var hlustað á fréttirnar. Ef stutt var í kosningar þá voru stjórnmálin alltaf efst á baugi og verulegur hiti í mönnum. Þetta voru menn sem höfðu skoðanir.“244 Þannig lýsti Hjálmfríður Þórðardóttir matarhléum á sínum vinnustað en hún vann lengi hjá Eimskipafélaginu. Þá voru kórar á sumum vinnustöðum. Utan vinnutíma var algengt á sjötta og sjöunda áratugnum að sækja námskeið, t.d. í tungumálum en líka í ýmiss konar handavinnu.245
Í mörgum stærri fyrirtækjum voru starfsmannafélög starfandi, sum hver mjög virk. Eitt slíkt fyrirtæki var til dæmis Vélsmiðjan Héðinn sem var stórfyrirtæki á sjötta og sjöunda áratugnum á hérlendan mælikvarða með mörg hundruð manns í vinnu. Félagið stóð m.a fyrir fræðsluerindum um málmiðnað, kvikmyndasýningum og málfundum, auk þess sem tefld var skák, spilað og stundaðar íþróttir á vegum félagsins. Knattspyrnulið Héðins fór jafnvel í keppnisferðir til Danmerkur og Færeyja. Ferðanefnd sá um að skipuleggja ferðalög og landsnámsnefnd sinnti skógrækt í Heiðmörk. Þá var starfandi karlakór innan fyrirtækisins. Starfsemin í Héðni var óvenju umfangsmikil. Hið sama má segja um verksmiðjur SÍS á Akureyri en þar var stofnað starfsmannafélag árið 1937 sem varð öflugt, enda vinnustaðurinn með þeim stærstu á landinu. Innan ramma þess var m.a skákfélag, leikfélag, lestrarfélag og skíðafélag.246 Á flestum vinnustöðum létu menn sér þó duga fasta liði, eins og veislur, árshátíðir og þorrablót, og svo sumarferð. Fyrstu þorrablótin voru haldin undir lok sjötta áratugarins, enda var þá nýlega búið að finna upp þessa „hefð“.247
Í sumum stéttarfélögum var einnig mikið félagslíf, t.d. hjá trésmiðum í Reykjavík. Fastir liðir voru jólaböll og árshátíðir. Samkoma var haldin kvöldið fyrir 1. maí, málfundafélag var starfrækt alllengi og boðið var upp á skipulagðar ferðir á sumrin. Benedikt Davíðsson, lengi forystumaður í þeirra röðum, minntist þess síðar að eitt sinn hefði verið farið í Eldgjá og fylltu ferðalangarnir fimm rútur.248 Á þessum tíma var ekki algengt að fólk ætti bíla sem hentuðu til þess að ferðast á upp um fjöll og firnindi. Járnsmiðir og margir aðrir höfðu svipaðan hátt á sínu félagslífi. Sum félög höfðu sérstöðu, t.d. Dagsbrún þar sem öflugt skákfélag starfaði um tíma og spilakvöld voru mjög vinsæl hjá sumum félögum.249
Á áttunda áratugnum var farið að leggja meira í árshátíðir og skemmtanir en verið hafði. Starfsmannafélög sáu um þennan þátt mála, t.d. að skipuleggja menningarferðir til Reykjavíkur, ef fólk bjó úti á landi, og undirbúa árshátíðir.250 Undir 1980 fóru vinnuhópar úr bæ á Vesturlandi t.d. „2 eða 3 ferðir á Hótel Holt … Farið var á leikrit og á ball á eftir, boðið upp á veislumat fyrir leikhúsferðina. Við unnum einn laugardag fyrir ferðina svo var allt frítt“.251 Slíkar ferðir voru orðnar býsna algengar um þetta leyti.252 Svo fór fólk jafnvel að fara í árshátíðarferðir út fyrir landsteinana á áttunda áratugnum.
Hjálmfríður Þórðardóttir hefur lýst þeirri ljúfu tilfinningu að koma að nýju á heimaslóðir að sumarvinnu lokinni:
Ég man enn þá sælu daga þegar ég kom heim til Reykjavíkur eftir kaupavinnu í Húnavatnssýslu í 74 daga. Sumarið 1953. Það var 15. september og morgunfrúrnar voru enn blómstrandi í görðunum og Vesturbærinn yndislegasti staðurinn í veröldinni og Laugavegurinn var fullur af fólki og ég var ekki búin að eyða krónu af sumarkaupinu og framundan langþráðir frídagar.253
253 Frásögn Hjálmfríðar Þórðardóttur 2011.
Í fyrra bindi þessa verks var þess getið að orlofsmál hefðu verið í deiglunni frá því að lög um orlof voru sett á öndverðum fimmta áratugnum. Sum verkalýðsfélög höfðu jafnvel byggt orlofshús fyrir félagsfólk sitt.254 Mörgum þótti þó sem hægt gengi, ekki síst í samanburði við nágrannalöndin. En um 1960 urðu nokkur umskipti.
Árin 1957 og 1958 veitti ríkisstjórnin einni milljón króna hvort ár í orlofsheimilasjóð verkalýðshreyfingarinnar og rétt áður en stjórnarskipti urðu 1958 gaf Hermann Jónasson, forsætisráðherra, út yfirlýsingu um að alþýðusamtökunum yrði fengið land í grennd við Hveragerði til þess að byggja upp orlofsheimili.255 Framkvæmdir drógust þó fram yfir 1960, en mikill hugur var í Alþýðusambandinu á þessu sviði og litið til fordæma frá öðrum Norðurlöndum. Forseti ASÍ hvatti til að komið yrði upp orlofsheimilum í öllum landsfjórðungum, enda væri þetta ekkert „hégómamál“. Meðal annars var gerð tilraun til að leigja skólahús á Laugarvatni um og upp úr 1960 og gefa verkafólki kost á orlofsdvöl þar. Þótti það gefast vel.256 Loks árið 1962 tókst að efna loforð Hermanns Jónassonar frá árinu 1958 um land fyrir verkalýðssamtökin í Ölfusi. Alls fengust 12 hektarar úr landi jarðarinnar Reykja, og var þá hægt að hefjast handa um byggingu orlofshúsa. Auk þess ákváðu nokkur verkalýðsfélög að byggja á annan tug húsa á sama svæði. Sigvaldi Thordarson arkitekt teiknaði orlofshúsin. Flest þeirra voru reist árin 1964 og 1965 en farið var að nota fyrstu húsin í júní 1964.257
Hannibal Valdimarsson, forseti ASÍ, benti einnig á að tímabært væri að hefja undirbúning að stofnun ferðaskrifstofu alþýðusamtakanna, en slíkar ferðaskrifstofur væru starfræktar á hinum Norðurlöndunum.
Bent var á að sænska fyrirtækið sem þarlent alþýðusamband hafði átt frumkvæði að því að stofna væri nú orðið ein stærsta ferðaskrifstofa landsins. Svipað fyrirkomulag var í Danmörku þar sem Dansk Folkeferie (stofnað 1938) veitti verkafólki margvíslega möguleika á að njóta frítíma síns. Í Noregi var Norsk Folkeferie stofnað árið 1939.258 Fyrsta tilraun sem gerð var í þá veru að Alþýðusambandið skipulegði ferðir félagsmanna sinna til annarra landa var sumarið 1962. Þá fór 17 manna hópur á vegum sambandsins til orlofsdvalar í Svíþjóð og skipulagði Reso, hin sænska ferðaskrifstofa alþýðusamtakanna þar í landi, 12 daga dvöl Íslendinganna þar.259 Einstök félög skipulögðu líka um þetta leyti ferðir félagsmanna sinna út fyrir landsteinana, t.d. Félag járniðnaðarmanna sem gekkst fyrir ferðum fyrir félagsmenn sína til Costa Brava á Spáni árið 1967.260
Þegar komið var fram undir 1970 voru farnar að myndast hefðir hér á landi um það að fólk tæki sér frí frá störfum árlega um nokkurn tíma. Eftir að kveðið hafði verið á um orlof í kjarasamningum og lög höfðu verið sett um sama efni var algengt að fólk færi til sveita og tæki þar eitthvert frí eða ynni þar jafnvel um tíma þegar það átti að taka orlof. Flestir áttu sér rætur í sveitunum og þar bjuggu nánir ættingjar þeirra. Hafa ber líka í huga að langt fram eftir 20. öld var margt verkafólk án fastráðningar en sótti árstíðabundna vinnu til sjávar eða sveita. Þetta fólk tók ekki hefðbundið sumarfrí heldur átti kannski frí á milli þess sem einni vinnu lauk og ný vinnutörn hófst.
Þegar líða tók á 20. öld komust orlofsmál í fastari skorður. Margir fóru að taka sumarfrí um mitt sumar og sumum vinnustöðum var einfaldlega lokað eða mjög dregið úr starfsemi. Slík viðhorfsbreyting varð þó ekki í einu vetfangi. Ljóst er að margir höfðu þann hátt á að flytja sig „aðeins á milli vinnustaða í orlofstíma“, og sumir tóku sér frí í skamman tíma en dvöldu engu að síður innan veggja heimilisins. En þessu vildi forysta verkalýðshreyfingarinnar breyta: „Orlofið á ekki aðeins að vera hvíldartími heimilisföðurins – heldur allrar fjölskyldunnar,“ sagði Óskar Hallgrímsson árið 1974. En hér þurfti fleira að koma til en breyttur hugsunarháttur að mati Óskars. Hann benti á að hérlendis væri „mikil vöntun á hentugum orlofsstöðum þar sem fjölskyldur eigi þess kost að dveljast í orlofi. Sú viðleitni sem verkalýðssamtökin hafa haft í frammi með byggingu orlofsbúða nær allt of skammt miðað við hina miklu þörf“.261 Algengt væri einnig að fólk hefði ekki efni á að fara í frí vegna þess að orlofsgreiðslunum væri einfaldlega ráðstafað í „vanabundnar framfærslugreiðslur“. Því yrði að koma upp orlofsbyggðum með stuðningi hins opinbera, viðurkenna yrði að þetta væri félagslegt verkefni.262 Áður hefur verið getið um uppbyggingu á hverfi orlofshúsa í Ölfusborgum í grennd við Hveragerði. Slíkri uppbyggingu var haldið áfram víða um land á sjöunda og áttunda áratugnum. Árið 1966 var samþykkt að hefja byggingu orlofshúsa fyrir verkafólk að Illugastöðum í Fnjóskadal, en fyrstu húsin voru tekin í notkun þar árið 1968.263 Þá keypti Iðja jörðina Svignaskarð í Borgarfirði árið 1967 og hófust byggingarframkvæmdir þar fjórum árum síðar. Víðar um landið spruttu upp orlofshúsahverfi á vegum verkalýðshreyfingarinnar, m.a. að Einarsstöðum á Völlum á Héraði (Austurlandi) og í Vatnsfirði á Barðaströnd. Síðar var farið að kaupa íbúðir í þéttbýli, t.d. bæði í Reykjavík og á Akureyri.264 Jafnvel voru uppi hugmyndir um að reisa heilsuhæli, helst í Hveragerði, þar sem „meðlimir verkalýðsfélaganna gætu notið, að læknisráði, heilsusamlegrar umönnunar og meðferðar“ en af því varð þó ekki.265
Alþýðuorlof tók til starfa árið 1972 þegar um 40 verkalýðsfélög gerðust aðilar að samtökunum. Markmiðið með stofnun þeirra var að skipuleggja hagstæðar orlofsferðir fyrir verkafólk, veita upplýsingar um orlofsmálefni og reka ferðaskrifstofu. Í fyrstu var gerður samningur við Ferðaskrifstofuna Sunnu um ferðir til Spánar, Danmerkur og Rínarlanda og um svipað leyti einnig við Ferðaskrifstofuna Landsýn um ferðir til Rúmeníu. Hérlendis var einnig í boði dvöl í Héraðsskólanum í Reykholti sumarið 1973, en skólahúsnæðið var látið verkalýðshreyfingunni í té sökum þess að orlofshúsin í Ölfusborgum höfðu verið tekin í notkun sem bráðabirgðahúsnæði fyrir húsnæðislaust fólk frá Vestmannaeyjum eftir að gosið í Heimaey hófst.266
Verkalýðshreyfingin hafði hug á því að hefja rekstur ferðaskrifstofu, líkt og tíðkaðist í nágrannalöndunum, sem fyrr getur.267 Fyrir hönd verkalýðshreyfingarinnar keypti Alþýðuorlof Ferðaskrifstofuna Landsýn árið 1974 af Kjartani Helgasyni, en hann hafði „einbeitt sér að ferðum sem aðrar ferðskrifstofur höfðu lítinn áhuga á, svo sem til sósíalísku landanna“. Miklar vonir voru bundnar við rekstur hennar og að hún gæti bætt möguleika launþega til þess að nýta „orlof sitt með menningarlegum og félagslegum hætti“.268 Árið 1977 gekk svo ASÍ inn í reksturinn og samvinnuhreyfingin keypti einnig hlut í fyrirtækinu, en rekstur þess hafði ekki gengið vel fyrstu árin eftir að það komst í eigu Alþýðuorlofs.269 Fyrirtækið var eftir það rekið í náinni samvinnu við Samvinnuferðir sem voru í eigu Sambands íslenskra samvinnufélaga og sameinuðust þau árið 1978 undir heitinu Samvinnuferðir-Landsýn. Síðar eignuðust fleiri stéttarsamtök hlut í fyrirtækinu.270
Alþýðuorlof tók upp samskipti við sambærileg norræn samtök sem höfðu starfað áratugum saman á hinum Norðurlöndunum. Þessi samtök gengu undir heitinu Nordisk Folke-Reso og gerðist Alþýðuorlof aðili að þeim árið 1974.271 Þegar árið 1976 var farið að leggja drög að samvinnu við norrænu orlofsstofnanirnar, ekki síst þær dönsku. Nefna má að Verkakvennafélagið Snót í Vestmannaeyjum stóð fyrir ferð félagsmanna sinna til Danmerkur þá um sumarið og naut góðs af þessu samstarfi. Vilborg Sigurðardóttir, formaður félagsins, lýsti tildrögum að ferðinni svo: „Það hefur lengi verið á dagskrá hjá okkur að efna til hópferða. Ári áður efndum við til leikhúsferðar til Reykjavíkur. Hún stóð eina helgi og þótti takast svo vel að ástæða væri til að athuga um utanlandsferð á vegum félagsins.“ Síðan lýsti Vilborg því að vilji hefði verið fyrir því að fara til Danmerkur vegna þess að Danir væru nátengdir Íslendingum. Forsvarskonur félagsins vildu að ferðin yrði „menningaraukandi“ en ekki „aðeins venjubundin ferðalangaferð til sólarlanda, þar sem verkalýðshreyfingin hefur verið bönnuð um áratugi“. Hér var átt við Spánarferðir. Innihald ferðarinnar skipti sem sagt máli.272 En Vilborg nefndi líka að ferðir af þessu tagi hefðu víðtækari tilgang, sem sé þann að þjappa „félagskonum mun fastar saman í þeim stéttarlegu átökum sem við að öðru jöfnu erum að fást við í félaginu“. Orlofið var því líka pólitískt.273 Þessi sjónarmið voru áberandi á þessum tíma; verkalýðshreyfingin átti að gangast fyrir ferðum með „innihald“. Meðal annars voru skipulagðar ferðir til Júgóslavíu svo að fólk gæti kynnt sér þar „þjóðfélagsaðstæður og stjórnarfar“, en á þessum tíma var talið að í Júgóslavíu hefði tekist betur að koma á sósíalisma en í öðrum löndum Austur-Evrópu. Af sama meiði voru einnig ferðir til Norðurlanda fyrir trúnaðarmenn á vinnustöðum svo að þeim gæfist kostur á að „bera saman reynslu sína við reynslu starfsbræðra í öðrum löndum“.274
Fleiri félög stóðu fyrir ferðum af þessu tagi, t.d. Sókn, og var fyrsta ferðin á vegum þess félags farin til Færeyja árið 1991. Mikill áhugi reyndist á þessu framtaki. Efling hefur einnig staðið fyrir ferðum af þessu tagi og hafa ferðanefndir séð um skipulagningu þeirra, síðustu árin jafnvel nokkurra ferða á sumri. Staðhæft var að margur „ferðafélaginn hefði aldrei farið í slíka ferð nema með þessari aðstoð þar sem séð var um þarfir og öryggi fólks alla ferðina“.275
Beint samstarf var hafið við Dansk Folkeferie árið 1980 og var þá skipulögð ferð íslenskra þátttakenda til Danmerkur í júní og júlí það ár. Ferðalangarnir dvöldu í orlofshúsum verkalýðshreyfingarinnar víða í Danmörku. Sama sumar kom svo hingað til lands á annað hundrað Danir sem dvöldu að mestu í Ölfusborgum. Þessu fyrirkomulagi var haldið áfram næstu árin.276
Á níunda áratugnum var sá háttur tekinn upp að gera samninga við ferðaskrifstofur um ákveðinn fjölda flugsæta vegna ferða til útlanda, bæði til Norðurlanda og til sólarlanda. Þeir samningar voru yfirleitt gerðir við Samvinnuferðir-Landsýn.
Verkalýðshreyfingin hætti þátttöku í rekstri ferðaskrifstofu eftir gjaldþrot Samvinnuferða-Landsýnar árið 2000. En hreyfingin heldur ótrauð áfram rekstri orlofs húsa víða um land sem á ný virðast njóta aukinna vinsælda eftir að eftirspurn hafði dalað nokkuð á „góðæristímanum“ eftir aldamótin 2000. Þá hefur ferðanefnd verkalýðsfélaganna verið mikilvirk í því að hafa milligöngu um að félagsmönnum hreyfingarinnar standi til boða fargjöld og önnur þjónusta á hagstæðum kjörum.277
Alþýðusambandið gerðist aðili að Landvernd um 1980 og sátu fulltrúar sambandsins reglulega þing Landverndar. Á níunda og tíunda áratugnum var farið að álykta sérstaklega um umhverfismál á þingum ASÍ, t.d. á þinginu 1992 þar sem samþykkt var skelegg ályktun. Í ályktuninni var rætt um hættur vegna hlýnandi loftslags, mengunar sjávar og eyðingar ósonlagsins. Jafnframt var hvatt til þess að Íslendingar tækju sér tak og sinntu betur um þessi mál, enda væri förgun úrgangs víða í ólestri og meðferð á olíu og olíuúrgangi víða slæm. Þá bæri að horfa til umhverfismála í allri atvinnuuppbyggingu. Ný og „framsækin atvinnumálastefna, sem tekur tillit til umhverfisins“ gæti orðið „eitt stærsta tækifæri Íslendinga í framtíðinni“. Því var slegið föstu að hér gegndi verkalýðshreyfingin mikilvægu hlutverki „í að móta þau viðhorf, sem eru forsenda þess að árangur náist“. Því yrði hreyfingin að hefja umræðu „innan félaga og sambanda og hafa á að skipa fólki sem … [hefði] þekkingu og reynslu í umhverfismálum“.278 Í Vinnunni bar umhverfismál einnig oft á góma, ekki síst í kringum 1990, en þá voru þessi mál mjög til umræðu.279
Viðhorf höfðu hins vegar breyst kringum aldamótin 2000, en árið 2002 sagði ASÍ sig úr Landvernd og var ástæðan sögð sú að samtökin, þ.e. Landvernd, hefðu tekið miklum breytingum.280 Hin raunverulega ástæða mun þó hafa verið ágreiningur um uppbyggingu stóriðju á Austurlandi, en verkalýðshreyfingin studdi þær framkvæmdir eindregið þrátt fyrir að þær hefðu verið metnar óviðunandi vegna neikvæðra umhverfis áhrifa.281 Landvernd beitti sér hins vegar gegn framkvæmdunum.
Á undanförnum árum virðist verkalýðshreyfingin auk þess lítt hafa velt fyrir sér afleiðingum loftslagsbreytinga ef marka má áherslur hennar við atvinnuuppbyggingu í landinu. Í kjölfar hrunsins 2008 voru gerðar kröfur um áframhaldandi uppbyggingu á þessu sviði. Hvatt var til þess að barist yrði „fyrir hagsmunum Íslands í loftslagssamningunum“ og þar með að landið fengi áfram undanþágur frá skuldbindingum sem önnur fullvalda ríki tóku á sig um verndun andrúmsloftsins og mætti því menga meira en aðrar þjóðir. Á ársfundi árið 2008 var sérstaklega tekið fram að opinberar stofnanir þyrftu að fá „skýr skilaboð um vilja ríkisstjórnarinnar“ hvað varðar uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Þar með var þess krafist að fagleg sjónarmið væru lögð til hliðar. Einstöku gagnrýnisraddir heyrðust um þessar tillögur á fundinum en þær voru ekki margar.282 Þjóðfélagsrýnirinn og skáldið Andri Snær Magnason hefur staðhæft með hliðsjón af þessum viðhorfum að verkalýðshreyfingin vilji „ekki leikreglur, fagmennsku eða langtímahugsun í orkumálum. Hún vill bara að „öllum hindrunum sé rutt úr vegi““.283
Ekki hefur þó verið full eindrægni um þessa skoðun innan verkalýðshreyfingarinnar. T.d. hvatti Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, til varfærni á ársfundi ASÍ árið 2009. Orkuforði landsmanna væri „takmörkuð auðlind“ og vel þyrfti að hugsa um „í hvað við notuðum hana“. Skynsamlegt væri að beina sjónum að hinu „græna hagkerfi“ en setja ekki öll eggin í sömu körfu. Átti hann þá við að vafasamt væri að auka hlut áliðnaðarins enn frekar. Sams konar sjónarmið birtust einnig á ársfundi ASÍ árið 2010 og á formannafundi ASÍ 2011 þar sem í ályktunum fundanna var hvatt til uppbyggingar atvinnulífs á sjálfbærum grunni og ítrekuð nauðsyn á „grænu“ hagkerfi.284 En þessi sjónarmið hafa ekki verið ráðandi í verkalýðshreyfingunni undanfarinn áratug og á ársfundinum 2010 var enn krafist hraðrar uppbyggingar gufuaflsvirkjana á Reykjanesi og Hellisheiði þrátt fyrir viðvörunarorð um afleiðingar þess.