1. maí ganga í Reykjavík árið 1961. Fremst er krafan um 15–20% kauphækkun. Mikið gekk á í kjaramálum um þetta leyti.
Eftir fall vinstri stjórnar Hermanns Jónassonar tóku við breyttir tímar hjá verkalýðshreyfingunni. Við tók minnihlutastjórn Alþýðuflokksins sem skerti launakjör með efnahagsráðstöfunum sínum. Verkalýðshreyfingin mótmælti en aðhafðist þó ekki að öðru leyti um sinn, enda voru bundnar vonir við að hægt yrði að draga úr verðbólgunni.1
Viðreisnarstjórnin, sem var mynduð af Alþýðuflokki og Sjálfstæðisflokki, var ekki óskastjórn ráðandi afla í Alþýðusambandinu, fjarri því. Hún tók við stjórnartaumum síðla árs 1959 af minnihlutastjórn Alþýðuflokksins. Viðreisnarstjórnin vildi koma á kerfisbreytingu með afnámi hafta og bótakerfis samhliða því að gengi krónunnar væri fellt, skattalögum breytt og breytt um launastefnu með banni við vísitölubindingu launa. Þetta gekk eftir. Verðbætur á laun voru afnumdar með lögum samhliða því að gengi krónunnar var fellt mikið í febrúar 1960, um meira en helming. Samhliða var almannatryggingakerfið þó eflt verulega með hækkunum á lífeyri, greiðslu fjölskyldubóta og hækkunum mæðralauna. Engu að síður hlaut Alþýðusambandið að mótmæla þessum ráðstöfunum harðlega, enda minnkaði kaupmáttur verulega.2
Verkalýðshreyfingin var vitaskuld ósátt. Viðhorfin voru orðuð svo á þingi ASÍ árið 1960 að ekki væri hægt að búa við óbreytt kaup „við aðra eins dýrtíðarmögnun og orðið hefur síðastliðið ár“.3 Því var þó einnig lýst yfir að verkalýðshreyfingin teldi „kjarabætur sem nást kynnu fram með breytingum í efnahagsmálum, er væru þess eðlis, að kaupmáttur launa ykist, ákjósanlegustu kjarabæturnar“. Alþýðusambandið væri reiðubúið „til þess að meta allar slíkar hugsanlegar aðgerðir, er boðnar kynnu fram, til jafns við beinar kauphækkanir“. Hér var því boðin fram sáttahönd, að verkalýðshreyfingin væri reiðubúin til að fara sér hægt ef stjórnvöld gerðu ráðstafanir til þess að draga úr dýrtíð, kæmu á stöðugleika og breyttu um kúrs í efnahagsmálum.4
En hugmyndir verkalýðshreyfingarinnar um efnahagslífið voru ólíkar afstöðu stjórnvalda. Hún vildi, að sumu leyti andstætt við Viðreisn, auka skipulag þjóðarbúskaparins með áætlanagerð og sérstaklega efla skipulag á innflutningi og útflutningi. Útflutningsverslunin ætti helst að vera á vegum ríkisins og sömuleiðis innflutningur mikilvægustu vörutegunda.5 Stefna alþýðusamtakanna í efnahagsmálum var því í veigamiklum atriðum í andstöðu við þá stefnu aukins frjálsræðis sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks hafði einsett sér að fylgja og fylgt var í flestum nágrannalöndum Íslendinga, einnig þar sem jafnaðarmenn sátu við stjórnvölinn.
Verkalýðshreyfingin brýndi vopn sín á árinu 1960. Haldin var kjaramálaráðstefna í maí og auk þess sérráðstefna fyrir sjómenn um svipað leyti, og enn önnur fyrir konur innan sambandsins. Kjarakröfur voru þó ekki mótaðar fyrr en síðla árs 1960 þegar miðstjórn ASÍ sendi aðildarfélögunum tillögur sínar: allt að fimmtungs hækkun á kaupi, að kvennakaupið hækkaði í 90% af karlakaupi, að samningar væru uppsegjanlegir ef verðlag hækkaði umfram ákveðin mörk og að eftirvinna yrði afnumin þannig að næturvinnutaxti tæki beint við af dagvinnu. Samhliða var ákveðið að óska eftir viðræðum við ríkisstjórnina um skatta- og tollabreytingar.6
Alþýðusambandið átti í viðræðum við ríkisstjórn og atvinnurekendur á fyrri hluta árs 1961 en þeim lauk um vorið án niðurstöðu. Þá höfðu um 20 verkalýðsfélög boðað verkföll og sumarið 1961 varð verkfallasumar.7 Samningar tókust ekki fyrr en eftir hörð verkföll – Dagsbrún var í verkfalli í fjórar vikur – og eftir að miðlunartillaga frá sáttasemjara hafði víðast verið felld. Samkomulag tókst loks eftir að samningsaðilar á Húsavík og Akureyri höfðu brotið ísinn, en þar sömdu fyrirtæki samvinnumanna við sitt fólk. Staðhæft var að þar hefði pólitík verið með í spilinu og vilji til að koma höggi á ríkisstjórnina. Yfirleitt var samið til eins árs um ríflega 10% kauphækkun, auk meiri launahækkana síðar. Launataxtar kvenna hækkuðu meira en karla, samið var um framlög til sjúkrasjóða almennu verkalýðsfélaganna og orlofsfé var hækkað. Í þessari kjaradeilu var hart deilt um hvernig stjórnir sjúkrasjóða verkalýðsfélaganna ættu að vera skipaðar og varð niðurstaðan sú að þar bæri að vera sami fjöldi frá deiluaðilum (á við kjarasamning Dagsbrúnar).8 En þessi kjarabót stóð ekki lengi, gengið var fellt í kjölfar samningagerðarinnar og var það svar ríkisstjórnarinnar við kjarasamningunum. Í framhaldinu samþykkti formannaráðstefna ASÍ að segja bæri upp kjaraákvæðum samninganna, enda væru ráðstafanir ríkisstjórnarinnar ekki annað en hefndarráðstafanir gagnvart verkafólki, „illræðisverk, framið í trylltum hefndarhug“. Kjaradeilur héldu því áfram.9
Efasemdaraddir voru farnar að heyrast um hvort skynsamlegt væri að halda áfram á þennan hátt, enda væri kjarabaráttan komin í sjálfheldu og fara yrði aðrar leiðir. Alþýðusambandsþingið 1962 samþykkti til dæmis að grípa yrði til ráðstafana til að tryggja „raunverulegar kjarabætur“. Það fól „væntanlegri miðstjórn sambandsins að leita fyrir sér við samtök atvinnurekenda um heildarsamninga um framkvæmd vinnurannsókna og vinnuhagræðingar, er hafi að markmiði aukna framleiðslu og auknar launatekjur“.10
Hér kvað við nokkuð annan tón en verið hafði. Þessi viðhorf lýstu þeim skoðunum að kjarabaráttan væri ekki eingöngu stéttabarátta. Hagur fyrirtækjanna og rekstur þeirra skipti einnig máli. Slík viðhorf komu reyndar furðu seint fram hérlendis miðað við þá miklu áherslu sem hafði verið lögð á aukna framleiðni og hagræðingu í atvinnulífinu í nágrannalöndum Íslendinga um langt árabil. Verkalýðshreyfingin í nágrannalöndum Íslands tók fullan þátt í því starfi, t.d. í Noregi.11 Að vísu hafði Iðnaðarmálastofnun unnið eitthvað að verkefnum af þessu tagi hérlendis frá fyrri hluta sjötta áratugarins.12 Þá má geta þess að unnið var að því á sjötta áratugnum, og samþykkt þingsályktun þess efnis, að koma á fót samvinnunefnd atvinnurekenda og launþega um verkefni þessu tengd. Ekki verður þó séð að sú samþykkt hafi leitt til neins árangurs eða frekari samvinnu á milli aðila á vinnumarkaði en hún var til marks um viðleitni.13
Samningaviðræður ríkisstjórnarinnar og verkalýðssamtakanna á fyrri hluta árs 1962 skiluðu ekki árangri og einstök verkalýðsfélög knúðu fram kauphækkanir á árinu, reyndar án verkfalla.14 En árið 1963 sáust merki þess að samskipti ríkisstjórnarinnar og ASÍ færu ögn batnandi. Ríkisstjórnin fór fram á að verkalýðshreyfingin og aðrir aðilar vinnumarkaðarins tilnefndu fulltrúa til þess að gera úttekt á „nokkrum þáttum efnahags- og atvinnulífs með það fyrir augum að afla gagna, er auðveldað gætu kjarasamninga“. Jafnframt hvatti ríkisstjórnin til þess að gerðir yrðu heildarsamningar svo hægara væri að skipta „á milli einstakra hópa þeirri kauphækkun er grundvöllur reynist fyrir“.15 Þessi tilmæli komu fram í tengslum við kjarasamninga verkalýðsfélaganna á Akureyri og Siglufirði, en félögin hvöttu til þess að Alþýðusambandið tæki upp viðræður við fulltrúa samtaka atvinnurekenda „um sameiginlega hagfræðilega athugun“. Björn Jónsson, formaður Verkamannafélags Akureyrarkaupstaðar, var áhugamaður um að koma þessu málefni í framkvæmd.16 Bæði ASÍ og samtök atvinnurekenda lýstu sig reiðubúin til að standa að slíkri gagnaöflun og leiddi það til stofnunar Kjararannsóknarnefndar sumarið 1963.
Við stofnun Kjararannsóknarnefndar setti ASÍ þau skilyrði að jafnmargir yrðu frá hvorum samningsaðila í nefndinni, að greitt yrði fyrir öflun gagna og að fulltrúar verkalýðssamtakanna fengju aðstöðu til þess að kanna þá þætti í efnahags- og atvinnulífi sem þeir teldu nauðsynlega.17 Í framhaldinu voru tveir nefndarmanna sendir til Noregs til þess að kynna sér „hagrannsóknarstarfsemi launþega og atvinnurekenda“ og töldu nefndar menn að margt mætti af því starfi læra.18
Hlutverk nefndarinnar var að afla upplýsinga og gagna sem unnt væri að styðjast við vegna kjarasamninga og koma málum í það horf að „með tímanum verði launastatistik hér komið í hliðstætt horf og nú er og hefur verið að undanförnu á Norðurlöndunum“. Ekki mætti þó líta á rannsóknir nefndarinnar sem „dómsniðurstöðu“ eða úrskurð um kaup og kjör „heldur er það verkefni samningsaðilanna að draga ályktanir af þeim staðreyndum, sem aflað hefur verið, og semja á grundvelli þeirra“.19 Hjalti Kristgeirsson, starfsmaður nefndarinnar, lýsti því hvernig ástandið væri hérlendis: að engar opinberar skýrslur væru til um laun í landinu og þó væri „ástandið hálfu verra að því er tekur til hins samningsaðilans á vinnuaflsmarkaðnum. Skemmst er frá því að segja, að um afkomu atvinnureksturs í hinum ýmsu greinum þjóðarbúskaparins er svo að segja engar áreiðanlegar upplýsingar að fá“.20 Til þess að störf nefndarinnar bæru árangur var ákveðið að gefa út fréttabréf nokkrum sinnum á ári þar sem lagðar yrðu fram helstu upplýsingar um kaup og kjör, verðlag og peningamál og fleiri þætti efnahagsmála. Fyrst var ráðinn starfsmaður til nefndarinnar árið 1965, en fram til þess tíma var leitað til annarra efnahagsstofnana eftir upplýsingum og vinnslu á gögnum.21 Atvinnuleysistryggingasjóður greiddi kostnað af starfi nefndarinnar. Síðla árs 2004 gerði Kjararannsóknarnefnd samning við Hagstofuna um vinnumarkaðsrannsóknir og frá ársbyrjun 2005 sá Hagstofan um launakannanir sem Kjararannsóknarnefnd hafði áður haft í sinni umsjá. Þar með hætti nefndin skrifstofurekstri sínum.22
Samkomulag náðist tvívegis um hækkun launa til bráðabirgða, í ársbyrjun 1963 og um mitt árið. En aðstæður breyttust eftir að kjaradómur dæmdi opinberum starfsmönnum miklar launahækkanir, um 45% að meðaltali, og fleiri hópar launafólks knúðu fram svipaðar hækkanir. Þá lagði ríkisstjórnin fram frumvarp þess efnis að banna verkföll og lögbinda kaup á þeirri forsendu að verkalýðshreyfingin krefðist miklu meiri kauphækkana en ríkisstjórnin teldi mögulegar. Eftir að frumvarp ríkisstjórnarinnar kom fram boðaði ASÍ til verkfalls í hálfan dag í Reykjavík og víðar um landið og kallaði til mótmælafunda. Mjög fjölmennur mótmælafundur var haldinn í Reykjavík 4. nóvember, en einnig var fundað víðar á landinu og frumvarpi ríkisstjórnarinnar mótmælt.23
Við þessar aðstæður kallaði Ólafur Thors forsætisráðherra Hannibal Valdimarsson forseta ASÍ á sinn fund hinn 12. október til þess að ræða kjaramálin og verðlags- og dýrtíðarmál. Hannibal skýrði forsætisráðherra frá því að gerðar yrðu kröfur um verulegar kauphækkanir, bæði vegna dóms kjaradóms um launahækkanir opinberra starfsmanna og vegna mikilla verðlagshækkana.24 Á kjaramálaráðstefnu ASÍ, sem haldin var um sama leyti, var ákveðið að skipa landsnefnd sem hefði forystu um kjaramál almennu verkalýðsfélaganna og kysi sér sjö manna framkvæmdanefnd.25 Sumir fulltrúar landsbyggðarinnar töluðu þó gegn þessari hugmynd og álitu óheppilegt að flytja samningagerðina til Reykjavíkur. Þetta var þó samþykkt.26 Síðar var komið á allsherjarsamninganefnd nánast allra ASÍ-félaga.27 Atlaga ríkisstjórnarinnar leiddi því til almennrar samstöðu innan verkalýðshreyfingarinnar og víðtækari samvinnu en þar hafði þekkst áður. Þessa samstöðu má kalla fyrsta alvöru samflotið í samningamálum verkalýðshreyfingarinnar vegna umfangs þess.
Andóf verkalýðshreyfingarinnar leiddi til þess að ríkisstjórnin sá að sér. Hún ákvað að gera forystu verkalýðssamtakanna það tilboð að fresta lögfestingu frumvarps um launamál gegn því að verkföllum yrði einnig frestað og reynt til þrautar að ná samningum. Þessi niðurstaða fékkst m.a. eftir næturfund ríkisstjórnarinnar annars vegar og Björns Jónssonar og Eðvarðs Sigurðssonar hins vegar; áður höfðu Ólafur Thors, sem var að hætta sem forsætisráðherra, og Eðvarð Sigurðsson hist og rætt leiðir til sátta. Ólafur sagði af sér embætti fáum dögum síðar en Bjarni Benediktsson tók við. Til fundar ríkisstjórnarinnar og forystumanna verkalýðshreyfingarinnar var boðað undir miðnætti föstudaginn 8. nóvember, svo mikið var í húfi. Ríkisstjórnin bauð að fresturinn næði til áramóta, en því höfnuðu Björn og Eðvarð. Var þá ákveðið að miða við 10. desember. Þeir Björn og Eðvarð hvöttu félaga sína mjög til að taka þessu boði. Í kjölfar þessa lagði ríkisstjórnin fram tillögur sínar um launahækkanir handa hinum lægst launuðu og um takmarkaða verðtryggingu launa.28
Verkalýðshreyfingin mat tilboð ríkisstjórnarinnar svo að það væri óaðgengilegt, enda fælust í raun í því launalækkanir til stórra hópa launþega. Verkföllin sem höfðu verið boðuð hófust því 10. desember og stóðu í 11 daga. Þá var samið um 15% kauphækkun auk þess sem nokkrar aðrar kröfur náðust fram. Þá var samstaðan líka brostin innan verkalýðshreyfingarinnar og bæði Iðja í Reykjavík og Landssamband íslenskra verslunarmanna höfðu samið á undan félögum sínum, þeim til lítillar ánægju. Í þeim félögum voru sjálfstæðismenn ráðandi og voru þeir sakaðir um að láta flokkshagsmuni ráða för. Samningarnir tókust í kjölfar þess að sáttasemjari ræddi við Eðvarð Sigurðsson og kom á fundi með honum og Bjarna Benediktssyni, forsætisráðherra. Niðurstaða þess fundar varð sú að Bjarni lofaði að beita sér fyrir því að samningar tækjust. Samið var til skamms tíma, sex mánaða, og var ákveðið í viðræðum Bjarna og Eðvarðs að tíminn yrði notaður til þess að komast að samkomulagi um önnur deiluatriði.29
Í apríl 1964 óskaði Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, eftir fundi með Hannibal Valdimarssyni, forseta ASÍ, og viðræðum um það hvernig bæri að tryggja kaup mátt launa, án launahækkana, og semja um leiðir til þess að stytta vinnutímann; skammt var í að kjarasamningar rynnu út.30 Miðstjórn ASÍ skoraði í kjölfarið á ríkisstjórnina að taka upp viðræður við verkalýðssamtökin um 1) „tilraun til stöðvunar verðbólguþróunar og um réttlátar og óhjákvæmilegar launa- og kjarabætur“; 2) „að verðtryggja kaupið og ná samkomulagi um örugga og jafna hækkun á kaupmætti launa“; 3) „að ná samkomulagi um framkvæmd á raunverulegri styttingu vinnudagsins“; 4) að ná samkomulagi um ýmis mikilvæg réttindamál, svo sem um vinnuvernd, orlof og húsnæðismál. Ríkisstjórnin svaraði erindinu um hæl og var reiðubúin til viðræðna. Samkomulag tókst um að skipa nefndir til þess að fjalla um helstu viðfangsefnin. Vinnutímanefnd Alþingis, sem hafði verið komið á fót, var beðin um að fjalla um styttingu vinnutímans með það í huga að kanna hvernig möguleg stytting vinnutímans gæti greitt fyrir lausn kjarasamninga. Þá var sett nefnd til þess að fjalla um verðtryggingu launa og þriðja nefndin átti að fjalla um húsnæðismál. Loks skipuðu verkalýðssamtökin sameiginlega nefnd til viðræðna við ríkisstjórnina.31
Síðla árs 1963 fjallaði Bjarni Benediktsson um stöðu landsmála eftir fund í Landsmálafélaginu Verði í grein í Morgunblaðinu. Þar ræddi hann um nauðsyn þess að Íslendingar reyndu að koma málum í svipað horf og gilti í Svíþjóð og má heita athyglisvert að hann leitaði þar fyrirmynda. Bjarni átti þá við að brýnt væri að efla bæði samtök verkafólks og atvinnurekenda, enda væru hreyfingar beggja sundraðar og völd þeirra þyrftu að aukast svo unnt væri að gera kjarasamninga sem væru meira en orðin tóm. Hann lýsti því svo að Alþýðusambandið væri, þrátt fyrir styrkleika sinn, „furðulega veikt og sundurleitt, ekki einungis vegna hinna pólitísku átaka, sem leitt hafa til mestu upplausnar“. Þessi upplausn kæmi ekki síst fram í því að aðildarfélögin samræmdu ekki samninga sína heldur skaraði hver eld að sinni köku. Þetta ástand fannst ráðherranum óviðunandi og taldi mikilvægt að heildarsamtökin færu með samningamálin í meira mæli en verið hefði.32 Bjarni benti einnig á að ástandið væri síst betra hjá vinnuveitendum en hjá ASÍ, enda væru þeir í mörgum samtökum. Hann nefndi að „nú stæðu yfir samningar milli kaupmanna og verzlunarfólks og undir þá samninga yrðu af vinnuveitenda hálfu að skrifa a.m.k. þessir aðilar: Kaupmannasamtökin, Verzlunarráðið, Félag ísl. stórkaupmanna, Félag ísl. iðnrekenda, Vinnuveitendasambandið, KRON og Vinnumáladeild SÍS“. Bjarni taldi „óskiljanlegt“ að forsvarsmenn vinnuveitenda teldu sig „sterkari sundraða en sameinaða“.33
Ekki er vafi á að Bjarni þekkti til hvernig staðið hafði verið að málum í Svíþjóð þar sem náið samráð alþýðusamtaka, atvinnurekenda og stjórnvalda hafði einkennt kjara- og hagsmunamál verkafólks allt frá fjórða áratugnum. Mikilvægur hluti þess samráðs var að byggja upp húsnæðiskerfi sem átti að tryggja að allur almenningur hefði aðgang að mannsæmandi húsnæði.34 Í Svíþjóð hét samvinnustofnun atvinnurekenda og launþega „Arbetsmarknadstyrelsen“ og þar gátu „fulltrúar stjórnvalda, atvinnuvega og stéttarsamtaka haft samráð og skipzt á skoðunum um meginstefnuna í efnahagsmálum hverju sinni“.35 Samráð af þessu tagi hefur verið kallað samráðsstefna (korporatismi). Slíku samráði hafði stundum áður verið reynt að koma á hérlendis, t.d. í tíð stjórnar hinna vinnandi stétta, nýsköpunarstjórnarinnar, og síðar í tíð vinstri stjórnarinnar fyrri 1956–1958, þó án þess að framhald yrði á.
Nefna má í þessu samhengi að Hannibal Valdimarsson, þáverandi félagsmálaráðherra og forseti ASÍ, sendi Alþýðusambandinu bréf í ágúst 1958 þess efnis að sambandið og félög vinnuveitenda tækju þátt í nefnd sem hann hugðist koma á fót. Markmiðið með starfi nefndarinnar átti að vera „að ná samkomulagi um meginreglur, er stuðlað gætu að auknum vinnufriði í landinu og í ýmsum tilfellum forðað árekstrum á vinnumarkaðnum“.
Meðal viðfangsefna gæti verið að finna leiðir til þess að nýta betur uppsagnarfrest áður en kæmi til kjaradeilu, að samræma gildistíma samninga í sömu eða svipuðum starfsgreinum, „til þess meðal annars að koma í veg fyrir, að smáhópar geti valdið almennri röskun atvinnulífsins“. Þá ætti markmiðið einnig að vera að „móta með frjálsu samkomulagi ákveðnari reglur um hvers konar skipti atvinnurekendasamtaka og verkalýðssamtaka í samningamálum og kaupgjaldsmálum með það fyrir augum, að ágreiningsefni vinnukaupenda og vinnu seljenda hafi sem allra minnst truflandi áhrif á atvinnuvegina“. Ráðuneytið vænti þess að unnt ætti að vera að koma á „frjálsu samkomulagi milli aðila um þessi þýðingarmiklu og viðkvæmu vandamál“.36 Skýrari meginreglur, aukin miðstýring og meira samráð stjórnvalda og aðila á vinnumarkaði voru því sameiginleg áhugamál verkalýðshreyfingar, stjórnvalda og atvinnurekenda á þessum tíma.
Það var því ekki undarlegt að stefnt væri í átt til aukins samráðs stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins á sjöunda áratugnum. Snemma í júní 1964 náðist samkomulag á milli ASÍ og ríkisstjórnarinnar, svonefnt júní-samkomulag, og var það fyrsta marktæka skrefið í átt að auknu samráði á þessum tíma. Næstu ár hélt þetta samráð áfram, ekki síst um húsnæðis- og atvinnumál, enda voru þrengingar í atvinnulífi á árunum 1967–1969. Stjórnvöld hófu viðræður við verkalýðshreyfinguna um það hvernig auka mætti atvinnu, sérstaklega á Norðurlandi þar sem staðan var slæm. Viðræðurnar leiddu til samkomulags ríkisstjórnarinnar og verkalýðssamtakanna á Norðurlandi um atvinnuuppbyggingu. Eftir að kreppan dýpkaði voru settar upp atvinnumálanefndir í öllum kjördæmum og þar átti ASÍ fulltrúa.37 Samhliða varð friðvænlegra á vinnumarkaði en verið hafði og kom ekki til almennra verkfalla fyrr en í efnahagskreppunni 1968.
Á sama tíma leituðust stjórnvöld við að afla aukinnar þekkingar á efnahagslífinu og byggja efnahagsstefnu sína á tillögum sérfræðinga, m.a. þjóðhags- og áætlanagerð. Í þeim tilgangi var Efnahagsstofnun komið á fót árið 1962 en Seðlabanka Íslands árið áður. Lykilhlutverki gegndu þeir Jóhannes Nordal, seðlabankastjóri, og Jónas H. Haralz, forstöðumaður Efnahagsstofnunar.38 Liður í bættu samráði var einnig aukin upplýsingaöflun um kjaramál. Til þess að sinna því verkefni var Kjararannsóknanefnd komið á fót árið 1963, en í henni sátu fulltrúar aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda. Þá var komið á fót formlegum vettvangi fyrir samráð ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins með stofnun Hagráðs árið 1966. En Hagráðið stóð ekki undir þeim væntingum sem gerðar voru til þess. Það var lagt niður árið 1971, en aðrar efnahagsstofnanir tóku við (Framkvæmdastofnun).39 Þess má geta að á þingi BSRB árið 1964 var hreyft þeirri hugmynd að koma á fót Hagstofnun launþegasamtakanna. Þessi áhugi BSRB var ítrekaður tveimur árum síðar og árið 1970 var lagt fram á Alþingi frumvarp þess efnis, án þess að það næði fram að ganga.40
Samráð ríkisstjórnar, alþýðusamtakanna og annarra aðila á vinnumarkaði hélt að einhverju leyti áfram á vinstristjórnarárunum 1971–1974, enda sátu tveir for setar ASÍ í ríkisstjórninni, hvor á eftir öðrum. Um formlegan samráðsvettvang var þó ekki að ræða. Formlegt samráð við aðila vinnumarkaðarins var tilskilið með lögum um efnahagsráðstafanir frá 1979 (Ólafslög). Samkvæmt þeim var gert ráð fyrir reglubundnu samráði stjórnvalda við samtök á vinnumarkaði, samtök bænda, launafólks og vinnuveitenda, en þessi samvinna varð þó takmörkuð.41
Viðræður og nefndastörf vegna kjarasamninganna 1964 gengu hratt fyrir sig svo að í júníbyrjun var tilbúið samkomulag á milli ríkisstjórnarinnar og verkalýðshreyfingarinnar. Með gerð þess samnings var brotið í blað. Aldrei áður höfðu verið gerðir kjarasamningar með svo lítilli þátttöku vinnuveitenda. Í raun og veru fylgdust þeir aðeins með. Samningsaðilar voru ríkisstjórnin og verkalýðshreyfingin. Þessi samningsgerð markaði einnig tímamót í sögu Alþýðusambandsins að því leyti að það hafði ekki áður formlega leitt samflot við gerð kjarasamninga. Hingað til höfðu slík samflot, sem ekki höfðu þó verið svo víðtæk, yfirleitt verið leidd af sérstökum nefndum.42 Ekki var þó eining innan miðstjórnar ASÍ um slíka samninga. Helstu forystumenn byggingamanna, Benedikt Davíðsson og Jón Snorri Þorleifsson, voru mótfallnir samkomulaginu. Fleiri forystumenn voru sama sinnis. Miðstjórnin samþykkti þó að hefja viðræður á þessum grunni með sjö atkvæðum gegn einu, tveir sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.43
Niðurstaða samningaviðræðnanna varð sú að engar grunnkaupshækkanir áttu að verða og aðilar vinnumarkaðarins tóku sig saman um að reyna að tryggja stöðugt verðlag. Markmiðið var að koma í veg fyrir að launahækkanir hyrfu jafnóðum á báli dýrtíðarinnar. ASÍ féllst því á að laun yrðu ekki hækkuð, a.m.k. um eins árs skeið. Gegn því var samþykkt að fullar verðbætur yrðu heimilaðar að nýju í samræmi við sérstaka kaupgjaldsvísitölu, og þær yrðu greiddar á fjögurra mánaða fresti, vinnutími styttur lítillega og orlof lengt úr 18 dögum í 21 dag. Þá var reglum breytt um eftirvinnu og eftirvinnuálag. Einnig átti að gera stórátak í húsnæðismálum sem hefði það að markmiði að „létta efnalitlum fjölskyldum að eignast íbúðir“. Þau atriði voru mikilvægustu þættir samkomulagsins.44 Með þessu samkomulagi var því komið til móts við launafólk í brýnu hagsmunamáli sem lengi hafði verið vanrækt, húsnæðismálunum, en að auki gerðir kjarasamningar sem von var til að tryggðu meiri stöðugleika en verið hafði. Í kjölfar þessa samkomulags breyttist samstarf forystu Alþýðusambandsins og ríkisstjórnarinnar og segir Jónas Haralz að þar hafi ríkt „andi gagnkvæms trausts og virðingar“.45 Að vísu kom babb í bátinn vegna deilna um hækkun söluskatts í framhaldi af samkomulaginu, en á þeim fékkst lausn sem sýndi þann sáttavilja sem einkenndi nú samskipti stjórnvalda og verkalýðsforystunnar.46
Árið eftir, sumarið 1965, voru kjarasamningar endurnýjaðir í anda júnísamkomulagsins og fulltrúar ASÍ og ríkisstjórnar höfðu áfram samráð um húsnæðis- og atvinnumál.47 Samið var um tiltölulega litlar kauphækkanir, í Reykjavík reyndar eftir skyndiverkföll við höfnina, en nokkur blæbrigðamunur var á kjarasamningum einstakra hópa; Alþýðusamband Norðurlands og Alþýðusamband Vestfjarða sömdu sér; einnig helstu félög á Suðvesturlandi. Gert var samkomulag um styttingu vinnuvikunnar í 44 stundir (45 fyrir norðan og austan) úr 48 stundum, en á það mál lagði verkalýðshreyfingin mikla áherslu. Veikindaréttur var tvöfaldaður í fjórar vikur.48 Samhliða þessum samningum sendi ríkisstjórnin frá sér yfirlýsingu um frekari aðgerðir hins opinbera í húsnæðismálum. Árið eftir var samið á svipaðan hátt með hófsömum kauphækkunum.49
Breytingar virtust því hafa orðið í kjarabaráttunni með nánu samstarfi samtaka verkafólks, atvinnurekenda og ríkisvaldsins. Þessar breytingar orðaði forseti ASÍ þannig á þingi sambandsins árið 1966 að markmiðið fram undan væri að stytta allt of langan vinnutíma. En fleira bar að hafa í huga. Hannibal vildi nú auka kaupmáttinn smátt og smátt: „Þess vegna mæli ég hiklaust með kjarasamningum á líkum grundvelli og kjarasamningar síðustu ára hafa verið. Þeir hafa sannarlega reynzt haldbetri en þótt farið hefði verið í stærri stökkum.“50Eftir góðæri á fyrri hluta sjöunda áratugarins urðu miklar breytingar á síðari hluta hans vegna efnahagskreppu sem hófst árið 1966 og stóð fram undir 1970. Orsökin var aflabrestur í síldveiðum sökum mikillar ofveiði og fyrirhyggjuleysis árin á undan. Græðgin hafði verið svo mikil að síldarstofninn var nánast þurrkaður út. Þá lækkaði einnig verðlag á fiskafurðum verulega svo að útflutningstekjur snarminnkuðu og skreiðarmarkaðir í Nígeríu lokuðust. Samdráttur varð í þjóðarframleiðslu allt fram á árið 1969 og útflutningsverðmæti sjávarafurða minnkaði um tugi prósenta. Þegar þessi staða kom upp gripu stjórnvöld til þess ráðs að lækka gengi krónunnar ítekað. Svo slæmt varð ástandið að stjórnvöld sáu sér ekki annað fært en að leita tvívegis til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eftir láni vegna gjaldeyris erfiðleika. Um svipað leyti stóðu yfir samningar vegna aðildar Íslands að Fríverslunarbandalagi Evrópu, EFTA, til þess að reyna að bæta markaðsstöðu landsins (Ísland varð þátttakandi í EFTA árið 1970). Verkalýðshreyfingin beitti sér reyndar harðlega gegn þeirri aðild og áleit að heppilegra væri að takmarka innflutning á þeim vörum sem unnt væri að framleiða í landinu „og standast samanburð við erlendar iðnaðarvörur um verð og gæði“, eins og sagði í samþykkt ASÍ-þings árið 1968. Þá var atvinnuástand erfitt og taldi sambandið að takmarkanir af þessu tagi gætu verið nauðsynlegar til þess að efla fjölbreytt atvinnulíf. ASÍ studdi því enn haftapólitík um þetta leyti, en slíkri stefnu voru stjórnvöld algjörlega andvíg.51
Kjör almennings versnuðu verulega á árunum 1967–1969. Margir misstu vinnuna, dýrtíð varð í kjölfar gengis fellinga og dró úr yfirvinnu, en margir treystu á slíkar tekjur. Allmargir fluttu af landi brott í von um vinnu, betra líf og hærri laun, t.d. til Ástralíu og enn fleiri þó til Svíþjóðar, einkum til Malmö þar sem fjöldi manna fékk störf við skipasmíðar. Þegar mest var í ársbyrjun 1969 voru á sjötta þúsund manns atvinnulausir.52 Vegna efnahagsörðugleikanna höfðu stjórnvöld hug á að setja lög um að fella niður greiðslu verðbóta á laun. En nú voru þau orðin reynslunni ríkari og tóku upp viðræður við Alþýðusambandið um þessi mál og kjaramálin almennt síðla árs 1967. Niðurstaðan varð sú að horfið var frá þessu ráði eftir að Alþýðusambandið hafði tekið upp samstarf við BSRB og hvatt til víðtæks verkfalls.53 Verkföllum var því aflýst og gerðist það á þann leikræna hátt að Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, var að ræða efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar á Alþingi og þar með þá ákvörðun að hætta við að skerða vísitölubætur. Hannibal Valdimarsson, forseti ASÍ, afhenti honum þá bréf þess efnis að verkföll væru afboðuð og las ráðherra bréfið fyrir þingheim.54
Athyglisvert er að sjá rök forsætisráðherra fyrir endurskoðun á fyrri ákvörðun. Hann kvað ekki stoða að setja slíkt bann „nema að skilningur og samþykki verkalýðshreyfingarinnar á nauðsyn þess sé fyrir hendi“, enda hefði reynslan af því að banna vísitöluhækkanir sýnt að slíkt yrði ekki til að „auka stöðugleika verðlags nema síður væri“.55 Afstaða stjórnvalda og verkalýðshreyfingar hvors til annars hafði því breyst mikið frá því sem var fáum árum fyrr. Reyndar voru þær breytingar gerðar að tekinn var upp nýr vísitölugrunnur og afnumin voru lagaákvæði um greiðslu verðbóta á laun og var til þess ætlast að um þau atriði væri samið í kjarasamningum.56
Forysta Alþýðusambandsins velti því fyrir sér árið 1968 hvernig bæri að bregðast við þróun kjaramála. Sumir vildu knýja fram kjarabætur með átökum og ná fram verulegum kauphækkunum. Aðrir, þar á meðal forseti Alþýðusambandsins, Hannibal Valdimarsson, vildu fara varlega og töldu aðrar leiðir vænlegri en 15–20% hækkun launa. Hann áleit að brýnast væri að tryggja kaupmátt lægstu launa, enda mætti það fólk síst við kjaraskerðingu. Forsetanum hugnuðust ekki lengur miklar almennar hækkanir, enda væri ástand atvinnuveganna ekki gott, horfurnar væru „uggvænlegar“. Mikil vægast væri að slá skjaldborg um vísitölubindingu launa, enda væri hún „algert grundvallaratriði“. Verðbætur höfðu verið greiddar á þriggja mánaða fresti um árabil en lagaskylda á greiðslu þeirra var afnumin í árslok 1967. Auk þess taldi hann að gera þyrfti þá meginkröfu að tryggja fulla atvinnu með margvíslegum aðgerðum og áætlanagerð.57
Samningaþóf stóð yfir á öndverðu ári 1968, en samningar náðust ekki. Víðtækt verkfall skall á í mars og nú leiddi Alþýðusambandið kjaradeiluna. Meginkrafan var fullar verðbætur á laun. Verkfallið stóð í tvær vikur og náðist sú krafa fram að launin skyldu vera vísitölubundin að vissu marki en sama krónutala eftir það.58 Í tengslum við lausn deilunnar gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu þess efnis að komið yrði á fót atvinnumálanefnd með fulltrúum frá Alþýðusambandinu, Vinnuveitendasambandinu og fulltrúum ríkisstjórnarinnar. Nefndin átti að athuga margvíslegar leiðir til úrbóta í atvinnumálum, ekki síst í sjávarútvegi. Þá var haft í huga að endurnýja togaraflotann og smíða öflugri fiskibáta sem gætu verið að veiðum allt árið. Samkomulag um þessi efni náðist snemma árs 1969 og var það mjög í anda tillagna ASÍ frá vorinu áður. Samráðsstefnan hélt því velli að vissu marki, en aðstæður höfðu greinilega breyst og víðtæk verkföll voru á ný notuð til þess að ná árangri í kjarabaráttunni.59
Svipuð þróun varð árið eftir, samningarnir töldust hóflegir og í takt við það sem hafði verið gert undanfarin ár, þó að á ýmsu gengi áður en samkomulag náðist. M.a. beittu atvinnurekendur verkbönnum, sem var afar óalgengt, en verkalýðsfélögin beittu tímabundnum verkföllum. Kjarabætur voru mjög hóflegar og nokkrar takmarkanir settar á greiðslu verðbóta á laun. Þessir samningar voru því varnarsamningar af hálfu verkalýðshreyfingarinnar og kaupmáttur dróst saman um þetta leyti.60 En mikilvægt var að samningar náðust um að koma á fót lífeyrissjóðum verkalýðsfélaganna, án þess að það mál hefði þó verið meginatriði þegar kjarakröfur voru mótaðar, auk þess sem sérstakar ráðstafanir voru ákveðnar til stuðnings eldra fólki sem ekki gat notið lífeyrisgreiðslnanna. „Lífeyrissjóðurinn er stórmál þessara samninga og fyrir félagsheildina ámóta þýðingarmikill og atvinnuleysistryggingasjóðurinn 1955 og sjúkrasjóðurinn 1961,“ sagði Eðvarð Sigurðsson.61 Nánar verður fjallað um lífeyrissjóðina síðar.
Kjaramálin breyttust því mikið á sjöunda áratugnum eftir hörð átök í upphafi hans. Tekið var upp samráð við stjórnvöld um kjara- og efnahagsmál sem leiddi til víðtækrar samvinnu um brýn hagsmunamál launafólks. Þegar að þrengdi á ofanverðum áratugnum kom á ný til verkfallsátaka, en samstarfið við stjórnvöld og samráðsstefnan hélt þó í stórum dráttum.
Mikið var rætt um atvinnulýðræði hérlendis á sjöunda og áttunda áratugnum, enda var það í góðu samræmi við þá ólgu sem var í félags- og menningarlífi um þetta leyti. Í hugmyndinni fólust óskir um stóraukin áhrif verkafólks í atvinnulífinu og spurt var stórra spurninga: Átti verkalýðshreyfingin að stefna að því að hafa áhrif á hvernig einstökum fyrirtækjum væri stjórnað og krefjast þess að fá fulltrúa í stjórn þeirra? Átti jafnvel að stuðla að því að verkalýðshreyfingin gæti náð yfirráðum í atvinnulífinu með sjóðamyndun og yfirtekið fyrirtæki sem hingað til hefðu verið í einkaeign, svipað og hugmyndir voru uppi um að gera í Svíþjóð?62
Hugtakið hafði ekki verið mikið rætt hér á landi um þetta leyti en hafði verið til umfjöllunar í nágrannalöndunum um árabil. Þegar fyrir 1950 voru hugmyndir af þessu tagi til umræðu í Danmörku og fleiri löndum þar sem verkalýðshreyfingin krafðist þess að komið yrði á fót samstarfsnefndum sem ættu að geta haft áhrif á vissa þætti í starfsemi fyrirtækjanna. Hugmyndir af þessu tagi voru mjög til umræðu í Danmörku fram eftir áttunda áratugnum þar sem mikill áhugi var á að auka áhrif launafólks í atvinnulífinu fyrir tilstilli sjóða í almannaeigu. En þegar frá leið minnkaði áhuginn á því að fara þessa leið.63
Hér á landi komu þessar hugmyndir, eða ákveðið form þeirra, fyrst til umræðu um 1960. Þá setti félagsmálaráðuneytið fram ósk þess efnis að ASÍ legði fram tillögur um hvernig mætti koma á samstarfsnefndum launþega og atvinnurekenda innan einstakra fyrirtækja. Alþýðusambandið virtist þó hafa lítinn áhuga á málinu og kvaðst ekki hafa tillögur í því efni; það varðaði þá helst öryggismál og kannski einnig tæknimál.64 Málið féll þó ekki niður og sumir alþingismenn sýndu málinu áhuga, t.d. Ragnar Arnalds sem lagði fram tillögu til þingsályktunar um atvinnulýðræði árið 1965. Í greinargerð með tillögu sinni lagði Ragnar áherslu á erlendar fyrirmyndir og nefndi sérstaklega Júgóslavíu þar sem hugmyndir af þessu tagi hefðu náð mestum þroska. Þegar tillagan var borin undir Hannibal Valdimarsson, forseta ASÍ, fagnaði hann henni mjög.65 Fleiri alþingismenn lögðu þessu málefni lið og lögðu fram þingsályktunartillögur um sama efni á árunum kringum 1970. Með því vildu þeir auka lýðréttindi fólks og gera það virkara í daglegu lífi. Þessir þingmenn vísuðu til dæma frá hinum Norðurlöndunum, t.d. Noregi, þar sem áhrif verkafólks í stærri fyrirtækjum hefðu verið aukin. Hjalti Kristgeirsson, hagfræðingur, ritaði ítarlega grein um efnið í tímaritið Rétt árið 1976 og fjallaði þar m.a. um umræður um aukið lýðræði innan fyrirtækja, aðallega í Svíþjóð. Þar í landi voru uppi hugmyndir um launþegasjóði sem um tíma var ætlað stórt hlutverk í sænsku atvinnulífi.66
Iðnaðarmálastofnun sýndi þessum hugmyndum áhuga. Stofnunin hafði frumkvæði að því að nokkrir forystumenn verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda sóttu ráðstefnu um lýðræði í fyrirtækjum síðla árs 1970. Tekin var saman skýrsla eftir för sendinefndarinnar og hvatt til þess að stofnaðar yrðu samstarfsnefndir í stærri fyrirtækjum um afmörkuð verkefni sem fyrsta skref í átt að auknu samstarfi atvinnurekenda og launþega innan fyrirtækja.67 Samkvæmt tillögunum bar að koma á samstarfsnefndum innan allra fyrirtækja sem hefðu í þjónustu sinni 50 manns eða fleiri og áttu þær að vera skipaðar jafnmörgum fulltrúum atvinnurekenda og verkafólksins. Hlutverk nefndanna átti að vera að hafa samráð um áætlanagerð viðkomandi fyrirtækis, sjá um að réttindum starfsfólks væri fylgt eftir, fjalla um ráðningar og uppsagnir og ræða um val á forstjóra og verkstjórum. Þá var gert ráð fyrir að verkafólkið fengi áheyrnarfulltrúa í stjórnum fyrirtækja. Innan verkalýðshreyfingarinnar álitu menn að til þess að þessi markmið næðust þyrfti að auka fræðslu meðal verkafólks, ekki síst á sviði hagfræði og stjórnunar.68 Þessi mál voru mjög til umræðu annars staðar á Norðurlöndunum um þetta leyti, m.a. hjá Nordens fackliga samorganisation, NFS, og hélt sambandið m.a. ráðstefnu um þessi efni í lok árs 1973 þar sem ASÍ átti fulltrúa.69
Vinstri stjórnin 1971–1974 vildi vinna að því að auka lýðræði í atvinnulífinu og setti á laggirnar atvinnulýðræðisnefnd. Hún starfaði reyndar lítið og var lögð niður árið 1977, í andstöðu við vilja ASÍ.70 Engu að síður voru tekin nokkur skref á þessu sviði. Því fyrirkomulagi var komið á í nokkrum ríkisfyrirtækjum að starfsfólk gæti kosið fulltrúa sinn í samstarfsnefndir þeirra, t.d. í Sementsverksmiðjunni og Landssmiðjunni. Markmiðið átti að vera að vinna að aukinni velferð starfsfólks og „sem beztum framleiðsluafköstum“. Til þess að unnt væri að ná þessum markmiðum bar að láta nefndunum í té upplýsingar um fjárhag, rekstur og áætlanir viðkomandi fyrirtækja.71 Sams konar fyrirkomulag var líka tekið upp í nokkrum sveitarfélögum og Samband íslenskra samvinnufélaga gerði einnig tilraunir í þessa veru um tíma. En þegar frá leið dvínaði áhuginn og áform af þessu tagi voru lögð til hliðar.72
Enn virðist reynslan sanna, að hefðbundin barátta fyrir kauphækkunum til að jafna metin gegn óðaverðbólgu, hvað þá til að bæta lífskjörin, sé ekki einhlít aðferð, hversu nauðsynleg sem hún þó er. Jafnhliða kaupgjaldsbaráttunni verði því að ráðast með öllu afli gegn orsökum verðbólgunnar og hemla hana a.m.k. að því marki, að hún verði ekki meiri hér en gerist í viðskiptalöndum okkar .73
ÞÍ. Ályktun um kjaramál 2. desember 1975. Sögus. verkal.
A01: 21/2. Skrifstofa. Atvinnu- og kjaramál.
Þegar árið 1969 fór efnahagsástandið að skána og betur fór að ganga í sjávarútvegi. Nýjar atvinnugreinar komu til sögunnar með álverinu í Straumsvík – en Alþýðusambandið var reyndar mjög andvígt þeirri framkvæmd og óttaðist vaxandi erlenda íhlutun í atvinnulífinu.74 Alþýðusambandið óttaðist um efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar og ræddu sambandsstjórnarmenn um þá geigvænlegu hættu sem samskipti „við þetta erlenda auðfélag hefði í för með sér og bæri að varast“.75 Verkalýðshreyfingin var í sóknarhug. Eftir samdrátt undanfarinna ára taldi hún að kominn væri tími til þess að launin yrðu bætt umtalsvert.
Hreyfingin náði markmiðum sínum. Árið 1970 var samið um miklar kjarabætur og fullar vísitölubætur á laun, reyndar eftir víðtæk verkföll. Félög verkafólks á Suðvesturlandi stóðu saman við samningsgerðina 1970; einnig félög fyrir norðan og austan, og hópar iðnaðarmanna voru einnig sér.76 Í samningum 1971, eftir að vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar var komin til valda, var dagvinnuvikan stytt í 40 stundir og orlof lengt í fjórar vikur. Þá hækkuðu laun einnig mikið, en allt var þetta í samræmi við loforð ríkisstjórnarinnar og má víst fullyrða að það hafi verið óvenjuleg staða fyrir verkalýðshreyfinguna þegar stjórnvöld boðuðu stórfelldar kjarabætur. Ýmis félög gerðu auk þess sérkjarasamninga sem bættu um betur.77 Björn Jónsson, sem þá var tekinn við sem forseti ASÍ, sagði af þessu tilefni að kaupmáttur hefði ekki „í annan tíma orðið betri, en hann er nú“, enda hefði verkalýðshreyfingin notið stuðnings ríkisvaldsins við samningsgerðina 1971. Vinstristjórnin hafði heitið því að koma á 40 stunda vinnuviku, lengja orlof og auka kaupmátt um fimmtung. Nefna má að fyrri ríkisstjórn hafði samið við opinbera starfsmenn um 40 stunda vinnuviku árið 1970 og á þann hátt lagt línurnar fyrir framhaldið.78 Vissulega var viðurkenning á þessum réttindum mikilsverð, en þær raddir heyrðust þó innan verkalýðshreyfingarinnar að fullgeyst væri farið.79 En verkalýðshreyfingin og Alþýðusambandsforystan gátu fagnað góðum árangri í launabaráttunni á öndverðum áttunda áratugnum og fulltrúar hennar sátu auk þess við stjórnvölinn í ríkisstjórninni eftir langt hlé. Forsetar sambandsins vermdu stól félagsmálaráðherra hvor á eftir öðrum, Hannibal 1971–1973 og Björn Jónsson 1973–1974. En það voru blikur á lofti og óstöðugleiki í samfélaginu magnaðist.
Kjarasamningar almennu verkalýðsfélaganna runnu út í nóvember 1973 og gekk treglega að ná nýjum samningum. Eftir fjögurra daga allsherjarverkfall almennu verkalýðsfélaganna undir lok febrúar 1974 tókust þó samningar. Þrátt fyrir dökkt útlit í efnahagslífinu var samið um miklar kauphækkanir, um 20% fyrir marga. Einnig var samið um óbreytt kerfi vísitölubóta og fleiri grunnkaupshækkanir síðar. Þetta var þó aðeins rammasamningur. Einstök félög áttu síðan að semja um sérmál við hlutaðeigandi aðila. Það leiddi til þess að laun ýmissa hópa, einkum iðnaðarmanna, hækkuðu mun meira en laun óbreytts verkafólks. Þetta gerðist þrátt fyrir að hin opinbera stefna hefði verið að lægstu launin ættu að hækka mest.80 Á fyrri hluta áttunda áratugarins var því greinilega vikið frá þeirri stefnu sem hafði ráðið að verulegu leyti áratuginn á undan – hófsemi í kauphækkunum og stöðugleika. Í stað þess komu óraunhæfar væntingar.
Ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar var í vanda á fyrri hluta árs 1974. Hún sá að í óefni stefndi vegna mikilla verðlags- og kauphækkana á sama tíma og verð lækkaði á útflutningsvörum Íslendinga, m.a. vegna olíukreppunnar sem þá var. Reynt var að fá fulltrúa helstu launþegahreyfinganna til þess að fallast á breytingar á kjarasamningunum. Þær tilraunir voru þó ekki gerðar í samráði við Björn Jónsson, félagsmálaráðherra, sem þá var í leyfi sem forseti ASÍ, en Björn lá á sjúkrahúsi þegar þetta var. Hann lýsti sig andvígan frumvarpi á Alþingi um þetta efni, enda fullyrti verkalýðshreyfingin að það væru ekki launahækkanir sem ættu mesta sök á verðbólgunni heldur „hið sjálfvirka verðlagskerfi, þar sem m.a. hverri hækkun launa er óðar velt út í verðlagið og verðbólgan þannig stigmögnuð“. Hér var ekki síst átt við verð á landbúnaðarafurðum.81 Því fór svipað og árið 1958. Vinstri stjórnin náði ekki samstöðu með verkalýðshreyfingunni og varð að láta af völdum. Boðað var til nýrra kosninga og við tók ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Þetta varð vatn á myllu andstæðinga vinstri flokkanna sem staðhæfðu að þeir gætu ekki stjórnað landinu. Þegar forseti Alþýðusambandsins, Björn Jónsson, mat stöðuna tveimur árum síðar taldi hann að of langt hefði verið gengið í kjarasamningunum 1974 og sagði að þessir samningar „[hefðu] að ýmsu leyti verið hæpnir“, auk þess sem verðlagsþróun í kjölfarið hefði verið óhagstæð. Og hann bætti við: „Kannski má segja að mesti veikleiki vinstri stjórnarinnar hafi verið sá, að hún hugsaði raunverulega aldrei um efnahagsmálin; það var bara reiknað með, að þeir hlutir myndu dankast!“82Ný ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tók við völdum haustið 1974. Fljótlega eftir valdatökuna var gengi krónunnar fellt mikið og bannað að greiða vísitölubætur á laun. Þess í stað var vinnuveitendum gert að greiða launajöfnunarbætur eftir tilteknum reglum. Samhliða voru bætur almannatrygginga hækkaðar. Á fyrri hluta árs 1975 var gengi krónunnar enn lækkað mikið.83
Ljóst var að kjör almennings hríðversnuðu og forysta hreyfingarinnar gagnrýndi harðlega hvernig ráðist væri á kjör fólks en viðurkenndi þó að þunglega horfði í efnahagslífinu og „óraunhæft ofurkapp gæti hæglega leitt af sér atvinnuleysi“. Í ályktun kjaramálaráðstefnu sem ASÍ hélt 1975 sagði m.a. að enn virtist reynslan „sanna, að hefðbundin barátta fyrir kauphækkunum til að jafna metin gegn óðaverðbólgu, hvað þá til að bæta lífskjörin, sé ekki einhlít aðferð, hversu nauðsynleg sem hún þó er“.84 Skiptar skoðanir voru þó um þetta efni innan hreyfingarinnar og sumir vildu blása til sóknar.85 Niðurstaðan varð þó sú, samkvæmt kjarasamningum á fyrri hluta árs 1975, að launþegar urðu að sætta sig við verulega kjaraskerðingu, verðlagið hafði hækkað meira en nam launahækkunum. Á móti hét ríkisstjórnin því að lækka skatta, einkum hjá þeim verst settu. Launafólki sveið kjaraskerðingin en á móti kom að dró úr dýrtíðinni og hjól atvinnulífsins fóru brátt að snúast hraðar. Árið eftir voru launin þó hækkuð verulega en kaupmáttur breyttist lítið vegna verðbólgunnar.86
Hinn 1. maí 1977 voru kjarasamningar Alþýðusambands Íslands og vinnuveitenda lausir og sóknarhugur var í verkalýðshreyfingunni. Verkalýðsflokkarnir voru báðir í stjórnarandstöðu og kyntu undir. Þá höfðu hinir róttæku innan verkalýðshreyfingarinnar styrkt stöðu sína eftir Alþýðusambandsþing árið 1976 og fólk vildi endurheimta glataðan kaupmátt.87 Björn Jónsson, forseti ASÍ, boðaði til yfirvinnubanns í 1. maí-ræðu sinni til að þrýsta á um samninga. Aðildarfélög Alþýðusambandsins beittu auk þess stuttum landshluta- og starfsgreinaverkföllum í sama skyni. Nýir kjarasamningar, svokallaðir sólstöðusamningar, voru undirritaðir 22. júní 1977. Þessir samningar eru með þekktustu kjarasamningum sem verkalýðshreyfingin hefur gert. Lengi vel gekk hvorki né rak í samningaviðræðum, en segja má að ísinn hafi verið brotinn með samningum Alþýðusambands Vestfjarða við atvinnurekendur á Vestfjörðum. Þar var byggt á drögum sem þegar lágu fyrir samninganefndum heildarsamtakanna. Í kjölfar þessa náðust fljótlega samningar. 88
Í samningunum voru ákvæði um afdráttarlausari verðbótaákvæði en áður höfðu tíðkast og áttu verðbætur að reiknast á þriggja mánaða fresti. Laun flestra launþega hækkuðu þegar við samningsgerðina um fjórðung.89 Talið var að kauptaxtar verkafólks hefðu að meðaltali hækkað um hátt í 60% á öllu árinu 1977 og hafði slíkt ekki gerst síðan á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Kaupmáttarhækkanir voru þó minni vegna verðbólgu en engu að síður umtalsverðar. Samningurinn átti að gilda í eitt og hálft ár.90 Í sambandi við samningana gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu um að lög um félagslegt húsnæði yrðu endurskoðuð og sérstaklega bæri að athuga tillögur ASÍ þar að lútandi með það markmið í huga að félagslegar íbúðabyggingar yrðu „ekki minni en þriðjungur heildaríbúðaþarfar“. Í raun var hér um að ræða ítrekun á yfirlýsingu frá kjarasamningunum 1974.91 Einnig var tilskilið að ný lög yrðu samþykkt um vinnuverndarmál í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, ákvæði voru um aukinn rétt trúnaðarmanna og að lífeyriskerfið bæri að endurskoða.92
Verkalýðshreyfingin fagnaði þessum samningum og kvað þá fela í sér „meiri almennar kjarabætur til verkafólksins í Alþýðusambandi Íslands en nokkrir aðrir samningar í samanlagðri sögu verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi og jafnframt stórfelldan árangur á braut þeirrar stefnu að jafna lífskjör í landinu“.93 Árangurinn var þakkaður órofa samstöðu en líka nýjungum í baráttuaðferðum. Í þessari kjaradeilu var yfirvinnubann eitt helsta vopn verkalýðshreyfingarinnar. 94 Meðan það stóð kom skýrt í ljós hversu atvinnulíf hérlendis var háð löngum vinnutíma því yfirvinnubannið hafði mikil áhrif. Í þessari deilu var líka nýjung að verkalýðshreyfingin beitti sér meira á fjölmiðlasviðinu en verið hafði fram að því og réð Hauk Má Haraldsson sem blaðafulltrúa. Þá beitti forysta ASÍ sér fyrir því að gefnir væru út bæklingar þar sem kröfur verkalýðshreyfingarinnar voru kynntar.95
Mörgum þótti sem boginn hefði verið hátt spenntur í þessum kjarasamningum og verðbólga stórjókst næstu misseri. En verkalýðshreyfingin var staðráðin í því að taka stór skref í launabaráttunni, enda höfðu áhrif hinna róttækari aukist innan hreyfingarinnar á ofanverðum áttunda áratugnum. Mörgum í verkalýðshreyfingunni var líka ósárt um að gera ríkisstjórninni erfitt fyrir. Haustið 1977 var einnig samið við BSRB og fengu félagsmenn þess jafnvel enn meiri hækkanir en ASÍ-fólk, við litla hrifningu atvinnurekenda.96
Að loknum sólstöðusamningunum sagði Björn Jónsson meðal annars: „En hyggjum að. Langri orrustu er lokið með sigri, en stríðið mun halda áfram.“97 Björn reyndist sannspár, launahækkanirnar reyndust haldlitlar. Ríkisstjórnin komst fljótlega að þeirri niðurstöðu að launahækkanir með sólstöðusamningunum hefðu verið allt of miklar, felldi gengi krónunnar og setti lög í febrúar 1978 um ráðstafanir í efnahagsmálum, síðar yfirleitt kölluð febrúarlögin. Samkvæmt þeim var dregið úr verðbótum á laun um helming frá því sem samið hafði verið um. Þó átti þessi frádráttur ekki að koma fram af fullum þunga hjá hinum tekjulægri.98
Verkalýðshreyfingin brást af hörku við „febrúarlögunum“ og boðaði til svæðaráðstefna með stjórnum verkalýðsfélaga í öllum landshlutum. Þá stóð samstarfsnefnd ASÍ, BSRB, Farmanna- og fiskimannasambandsins, auk Iðnnemasambandsins, Bandalags háskólamanna og Sambands bankamanna, fyrir almennum fundum víða um land þar sem lögunum var mótmælt. Þar með tókst samstarf á milli launþegahreyfinganna sem var býsna einstakt. Samstarfsnefndin stóð einnig fyrir útifundi í Reykjavík hinn 1. mars. Talið var að 7000–8000 manns hefðu tekið þátt í fundinum. Þar töluðu forystumenn ASÍ og fulltrúar annarra launþegasamtaka. Samhliða var boðað til verkfalla 1. og 2. mars sem þúsundir tóku þátt í. Einnig var sett á útflutningsbann og síðar innflutningsbann á olíu. Iðja, félag verksmiðjufólks, stóð fyrir skæruverkföllum.99
Þessar aðgerðir, undir kjörorðinu „Samningana í gildi“, leiddu til þess að í lok maí voru febrúarlögin að mestu felld úr gildi með bráðabirgðalögum. Kosningar voru fram undan og Vinnan hvatti fólk til þess að nota kjörseðilinn í kjarabaráttunni og hafði þá Alþingiskosningarnar í huga. Það gerði fólk og „verkalýðsflokkarnir“, Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag, sópuðu til sín fylgi en náðu þó ekki meirihluta á Alþingi. Niðurstaða við stjórnarmyndun varð þó sú að mynduð var ríkisstjórn undir forystu Framsóknarflokksins sem hafði tapað miklu fylgi. Verkalýðshreyfingin batt vonir við ríkisstjórnina, enda hét hún því að kjarasamningarnir frá árinu áður tækju gildi á ný í stórum dráttum. Sú varð raunin. Verkalýðshreyfingin sigraði því í þessari deilu.100
Áttundi áratugurinn og upphaf þess níunda einkenndist af þenslu og sveiflum. Bjartsýni ríkti meðal launafólks í upphafi hans eftir erfiðleikaár. Kjörin bötnuðu mikið en rýrnuðu síðan hratt eftir miðjan áttunda áratuginn eftir harkalegar efnahagsráðstafanir. Á ný steig kaupmáttur en í kjölfarið komu gengisfellingar og verðbólga. Jafnvægi hafði ekki náðst í samskiptum aðila vinnumarkaðarins. Of langt virtist gengið í launahækkunum 1974, en einnig gengu stjórnvöld hart fram gegn launafólki og verkalýðshreyfingunni í kjölfarið. Það kallaði svo á hörð viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar og háar kjarakröfur í kjarasamningunum 1977. Þau sjónarmið voru enn rík innan verkalýðshreyfingarinnar um þetta leyti að hún bæri fyrst og fremst ábyrgð á því hversu margar krónur færu í launaumslagið og þá var stöðugleikinn látinn lönd og leið. Andstæð sjónarmið höfðu líka mikið fylgi en þróun mála um miðjan áttunda áratuginn leiddi til þess að sáttaviðhorf sjöunda áratugarins viku fyrir harðri kjaramálastefnu og stjórnvöld virtust ekki ráða við verkefni sín.
Í tíð síðari vinstri stjórnar Ólafs Jóhannessonar (1978–1979) og ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens voru sett margvísleg lög sem styrktu stöðu launafólks félagslega og juku réttindi þeirra. Um þetta var yfirleitt samið sérstaklega í kjarasamningum. Lög af þessu tagi voru kölluð „félagsmálapakkar“. Í pökkunum voru lög eða loforð sem vörðuðu brýn mál sem verkalýðshreyfingin hafði barist fyrir. Þar má nefna að lögfest voru aukin réttindi vegna sjúkdóma og slysa (1979), og einnig voru ákvæði um sjúkrasjóði lögfest (1980). Þá voru ákvæði um bætta meðferð orlofsfjár, ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot og að næturvinna tæki beint við af dagvinnu á föstudögum. Þá má nefna lagasetningu um aðbúnað og hollustuhætti, um fæðingarorlof og ný lög um verkamannabústaði. Einnig voru gerðar breytingar á atvinnuleysisbótum, aukin framlög til dagvistarmála og sett lög um eftirlaun til aldraðra sem tóku við af lögum um sama efni frá 1971 en voru mun víðtækari og náðu til fleiri hópa. Verkalýðshreyfingin fagnaði en atvinnurekendur höfðu áhyggjur af þessari þróun og töldu varhugavert að „löggjafinn færi meir inn á hlutverk samningsaðila en góðu hófi gegndi“ og átti þá við „félagsmálapakkana“.101
Ekki var farið inn á nýjar brautir með þessum breytingum í kjaramálum. Áður hafði verið samið um „félagsmálapakka“ í kjarasamningum, t.d. þegar samið var um atvinnuleysistryggingar 1955, húsnæðismál um miðjan sjöunda áratuginn og lífeyrissjóði árið 1969.
Þegar komið var fram um 1980 var verkalýðshreyfingin, að minnsta kosti hlutar hennar, orðin félagslega meðvitaðri en verið hafði stundum áður og lagði meiri áherslu á að kröfur af þessu tagi næðu fram að ganga, t.d. um aðbúnað og hollustuhætti.
Nokkrar skýringar hafa verið nefndar á því hvers vegna svo lengi dróst að verkalýðshreyfingin beitti sér af meira afli í félagslegum málum af þessu tagi. Sigurður E. Guðmundsson vísar til sögunnar, verkalýðssamtökunum hafi aðallega verið ætlað að sækja kjarabætur, en stjórnmálaflokkur alþýðunnar átti að sinna umbótamálum á Alþingi. Þannig hafði þetta verið þegar Alþýðu flokkur og Alþýðusamband voru eitt, allt til ársins 1940.102 Skil á milli flokks og verkalýðssambands áttu sinn þátt í því að félagslegi þátturinn varð útundan. En hér kemur fleira til. Stjórnmálabaráttan innan verkalýðshreyfingarinnar átti þátt í því að tilhneiging var hjá andstæðum fylkingum til yfirboða, ekki síst að krefjast mikilla launahækkana þegar „óvinurinn“ réð á stjórnarheimilinu. Þessi yfirboð tókust best þegar lofað var mikilli hækkun launa, fremur en einhverjum réttarbótum sem fæstir bjuggust við að óreyndu að þurfa að nýta sér. Þetta breyttist þegar ítök stjórnmálaflokkanna minnkuðu í verkalýðshreyfingunni eftir sjöunda áratuginn þó að áfram gætti tilhneiginga í þessa átt, og stundum ríkra. Síðast en ekki síst verður að geta þess að stóraukin samvinna innan verkalýðshreyfingarinnar, samflotin svokölluðu, voru forsenda þess að unnt væri að beita sér í félagslegum málum. Eins og fram hefur komið voru samflot nánast orðin regla á áttunda áratugnum og þau áttu mikinn þátt í þessari þróun. Eðli málsins samkvæmt er erfitt að taka á félagslegum málum á vettvangi einstakra félaga og samflotin gerðu það auðveldara að taka þau upp, undirbúa þau málefnalega og fylgja þeim eftir í samningaviðræðum.103
Allt virtist líta vel út um mitt ár 1978. En fram undan voru erfiðleika- og ólgutímar, jafnt í stjórnmálum sem efnahagslífi. Þegar leið á árið 1979 kom í ljós að óeining ríkti innan ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar. Meðal annars var ágreiningur um ýmis atriði svokallaðra Ólafslaga, sem voru kennd við forsætisráðherrann, enda hafði hann veg og vanda af gerð þeirra. Eitt mikilvægasta ákvæði þeirra var um verðtryggingu fjárskuldbindinga, bæði innlána og útlána, en einnig var verðbótaákvæðum vegna launagreiðslna breytt og tekin upp ýmis skerðingarákvæði. Lögin gerðu reyndar einnig ráð fyrir formlegu samráði aðila vinnumarkaðarins og voru slíkir samráðsfundir teknir upp í kjölfar lagasetningarinnar en reyndust ekki sérlega vel.104
Ríkisstjórnin féll svo vegna innri ágreinings síðla árs og við tók skammlíf minnihlutastjórn Alþýðuflokksins. Margir innan verkalýðshreyfingarinnar höfðu þó viljað gera „allt til þess að halda lífi í ríkisstjórninni“, að sögn Karls Steinars Guðnasonar.105 En vonir um öfluga ríkisstjórn sem nyti stuðnings alþýðusamtakanna og starfaði í takt við þau brugðust enn einu sinni. Ný ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen tók við stjórnartaumum árið 1980 og var við völd til 1983.
Þessi ár voru umbrotatímar í launamálum. Verkalýðshreyfingin samdi um launahækkanir og verðbætur. Í kjölfarið komu iðulega skerðing verðbóta á laun, gengis lækkanir og enn meiri verðbólga – og félagsmálapakkar, gengislækkanir og vísitölubinding launa. Stundum hækkuðu vörur um tugi prósenta á milli mánaða.106 Á árinu 1983 náði verðþenslan þriggja stafa tölu. Öllum mátti ljóst vera að komið var í óefni. Sigurður Snævarr hefur tekið saman yfirlit um „efnahagsaðgerðir“ ríkisstjórna í kjölfar kjarasamninga á árabilinu 1977–1991 og sýnir fram á að nánast eftir hverja kjarasamninga á þessu árabili var gripið til aðgerða af hálfu stjórnvalda til þess að breyta niðurstöðum samninganna í þá veru að draga úr kauphækkunum. Kjarasamningum sem voru gerðir 1986–1987 var þó ekki raskað og heldur ekki samningum sem voru gerðir árið 1990.107
Þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar tók við völdum árið 1983 greip hún strax til harkalegra aðgerða. Degi eftir stjórnarskiptin var vísitölubinding launa afnumin. Laun voru lögbundin og verðbreytingar takmarkaðar. Þá var gengið fellt en á móti voru gerðar ýmsar ráðstafanir til þess að draga úr kaupmáttarrýrnuninni, sérstaklega hjá þeim sem lökust höfðu kjörin. Alþýðusambandið mótmælti efnahagsráðstöfunum ríkisstjórnarinnar og taldi að í þeim fælist „grimm atlaga að réttindum og kjörum launafólks, kjörin skert, samningsréttur afnuminn og bann við greiðslu verðbóta“. Fara yrði til ársins 1952 til þess „að finna dæmi um lakari kaupmátt kauptaxta verkafólks“.108 Í sameiginlegri yfirlýsingu miðstjórna ASÍ og BSRB frá 8. ágúst 1983 var hvatt til samstöðu og fullyrt að fram undan væri hrikalegri kaupmáttarskerðing en dæmi væru um í áratugi. Verkalýðshreyfingin hafði ekki síst áhyggjur af þeim sem höfðu nýlega fest kaup á íbúðum eða voru að byggja, enda voru lánin verðtryggð en launin ekki og lánin hækkuðu því langt umfram launabreytingar. Hætta væri á að greiðslubyrði fólks yrði þung. 109
Miðstjórn Alþýðusambandsins ákvað að gangast fyrir undirskriftasöfnun í lok september 1983 ásamt BSRB og launamálaráði BHM þar sem skorað var á Alþingi og ríkisstjórn að afnema bann við gerð kjarasamninga, auk þess sem kjaraskerðingunni var mótmælt harðlega. Á tveimur vikum söfnuðust á fjórða tug þúsunda undirskrifta. Þá voru haldin þögul mótmæli á Austurvelli þegar undirskriftalistarnir voru afhentir. Einnig gaf Alþýðusambandið út bæklinga þar sem fjallað var um efnahagsástandið. Þess má einnig geta að Norræna verkalýðssambandið mótmælti þeim takmörkunum sem ríkisstjórn Íslands hefði sett við „grundvallarréttindum verkalýðssamtakanna og lýðréttindum almennt“ með bráða birgðalögum um afnám samningsréttar verkalýðsfélaganna. 110
Þessar aðgerðir áttu þátt í að afstaða stjórnvalda breyttist. Þegar bráðabirgðalög um efnahagsráðstafanir voru afgreidd á Alþingi síðla árs 1983 voru felld úr gildi ákvæði sem bönnuðu gerð kjarasamninga en ákvæði um bann við greiðslu verðbóta voru ekki felld niður.111 Ríkisstjórnin viðurkenndi því að ekki gengi „að takast á við þann vanda sem við er að glíma án samskipta og samráðs við verkalýðssamtökin“, en sams konar lærdóm dró Viðreisnarstjórnin af samskiptum sínum við verkalýðshreyfinguna á sjöunda áratugnum.112 Þegar forysta ASÍ lagði mat á stöðuna á síðasta ársfjórðungi 1983 staðhæfði hún að kaupmáttur væri um fjórðungi lakari en hann var að meðaltali árið 1982.113 Mörg verkalýðsfélög voru stórorð í ályktunum sínum um aðgerðir ríkisstjórnarinnar, töluðu um „rothögg“ og annað í þeim dúr. Alþýðusambandið hvatti stjórnvöld til að bregðast við erfiðleikunum með „virkri atvinnuuppbyggingu“ í stað þess að hörfa á „vit samdráttar“.114
Að öðru leyti aðhafðist verkalýðshreyfingin þó ekki á þessum tíma, „mætti ófriði með friði“. Ástæðan var sú að forystufólk í verkalýðshreyfingunni áleit að staða til kjarabaráttu væri erfið og atvinnuleysi fór vaxandi.115 Þess utan viðurkenndu æ fleiri að ekki yrði fram haldið eins og verið hafði. Þetta gerðu margir sér ljóst innan verkalýðshreyfingarinnar eftir óstöðugleika undanfarinn áratug þó að þeir væru ekki sáttir við aðgerðir ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar. Um þetta var þó ekki enn sem komið var sátt innan verkalýðshreyfingarinnar, enn voru þau sjónarmið áberandi að hlutverk hreyfingarinnar væri fyrst og fremst að semja um kjörin, efnahagsstjórnin væri mál stjórnvalda.116
Þau viðhorf að breyta þyrfti um stefnu settu svip á viðræður við atvinnurekendur um nýjan kjarasamning snemma árs 1984. Þær leiddu til samninga án átaka og var náið samband á milli æðstu forystumanna verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda og stjórnvalda.117 Steingrímur Hermannsson sagði síðar að það sem helst hefði valdið vandkvæðum við samningagerðina hefði verið andstaða Þjóðviljans, málgagns Alþýðubandalagsins. Blaðið beitti sér af hörku gegn samningunum en hafði þó ekki erindi sem erfiði, enda hafði flokkurinn ekki sömu ítök innan ASÍ og lengi hafði verið.118
Um þessa samninga má segja að þá þegar hafi verið farið að leggja drög að „þjóðarsátt“ þó að enn væri löng leið ófarin þar til sú almenna samstaða næðist sem þörf var á til að gera slíka samninga. Almennt hækkaði kaup hóflega en lægstu laun þó meira, auk þess sem grípa átti til sérstakra ráðstafana vegna tekjulágra og barnmargra fjölskyldna. Nýleg könnun hafði staðfest hversu erfið staða þessara hópa væri.119 Ekki fögnuðu þó allir samningunum og vildu ná betri árangri. Miklu meira þyrfti til, til þess að ná aftur því sem hefði verið tekið af launþegum á undanförnum árum. Jón Kjartansson, formaður Verkalýðsfélags Vestmannaeyja, talaði um „móralskan og pólitískan ósigur“.120 Nokkur öflug verkalýðsfélög felldu samninginn, þar á meðal Dagsbrún, og Guðmundur J. Guðmundsson, formaður Dagsbrúnar, talaði á móti samningunum. En þessi félög sömdu síðar um nokkrar breytingar á grunni samningsins.121
Síðla árs 1984 óskaði verkalýðshreyfingin eftir því að aðilar vinnumarkaðarins ræddu saman um leiðir til að draga úr verðbreytingum og hvernig bæta mætti hag þeirra sem byggju við erfiðasta stöðu í samfélaginu. Innan verkalýðshreyfingarinnar fengu þau sjónarmið æ meiri hljómgrunn að mikilvægt markmið hlyti að vera að koma á meiri stöðugleika í þjóðfélaginu og tryggja kaupmátt. Alþýða manna væri orðin þreytt á verðbólgunni og sífelldum víxlhækkunum kaupgjalds og verðlags.122 Rætt var við ríkisstjórnina í október 1984 um skattalækkanir og fleiri aðgerðir sem gætu komið almenningi til góða en gætu jafnframt átt þátt í því að auka stöðugleikann. Áhugi var innan verkalýðshreyfingarinnar á því að reyna að koma þessum hugmyndum í framkvæmd.123
Í þeim kjarasamningum sem á eftir fylgdu var þessi leið þó ekki farin. Þar skipti máli að opinberir starfsmenn fengu mikla launahækkun sem nam um 20% eftir að BSRB-fólk hafði verið í verkfalli nánast allan októbermánuð þar sem mikið gekk á. Þar með varð ljóst að Alþýðusambandsfélögin mundu semja á svipaðan hátt. Þegar samningar tókust varð niðurstaðan launahækkun um tæpan fjórðung í áföngum til ársloka 1985. Samstaða náðist því ekki um að fara aðrar leiðir en verið hafði, enda var ósamkomulag bæði innan ríkisstjórnarinnar og launþegahreyfinganna.124 Haustið 1984 hafði ríkisstjórnin ákveðið að framlengja bann við verðbótum á laun og öllum mátti vera ljóst að takmarkað gagn var að slíkum samningum. Samningunum fylgdu verð hækkanir og gengislækkun þannig að kjarabótin sem í samningunum fólst hvarf fljótt. Allt fór í sama farið og verðbólgan rauk af stað á ný.125 Skömmu eftir kjarasamningana sagði Ásmundur Stefánsson, forseti ASÍ, að reynslan sýndi að verkalýðshreyfingin gæti vel náð fram „kauphækkunum í samningum við atvinnurekendur“, en henni hefði „gengið illa að verja gerða samninga gegn yfirgangi stjórnvalda“.126
Í apríl 1985 ræddi miðstjórn ASÍ um kjaramálin og taldi að í undirbúningi vegna komandi samningaviðræðna bæri að leggja höfuðáherslu á að tryggja kaupmáttinn og reyna að vinna upp í áföngum þann kaupmáttarsamdrátt sem hefði orðið á undanförnum misserum. Keppikeflið væri ekki „kaup heldur kaupmáttur og kauptrygging“. Ekki mætti gera nýja samninga án kauptryggingar.127 Svo fór þó. Nýir kjarasamningar voru gerðir um miðjan júní 1985 við launafólk á almennum vinnumarkaði. Á ýmsu gekk áður en samningar tókust og voru skiptar skoðanir innan verkalýðshreyfingarinnar um það hvernig ætti að standa að þeim. Óánægja kom víða fram, m.a. hjá fiskverkakonum sem fóru í bónusverkfall um haustið. Ekki náðist fram verðtrygging launa en samkvæmt samningunum var hækkun meðallauna um 15% til áramóta og samstaða var um að vinna að auknu atvinnuöryggi fiskvinnslufólks.128 Stöðug togstreita í kjaramálum fólks hélt því áfram fram um miðjan níunda áratuginn og æ fleirum varð ljóst að mál voru komin í ógöngur. Ekki var annað að sjá en að kjarasamningar væru búnir að missa gildi sitt vegna þess að blekið var vart þornað á undirskriftunum þegar stjórnvöld gripu í taumana með aðgerðum sem gerðu samninga að engu.
Í ársbyrjun 1986 var ákveðið að setja á fót sameiginlega efnahagsnefnd deiluaðila sem meta skyldu aðstæður í efnahagslífinu. Jafnframt var haft samband við ríkisstjórnina og óskað eftir hugmyndum sem gætu greitt fyrir lausn kjaradeilunnar. Þá voru þessi mál rædd innan verkalýðshreyfingarinnar og einstakra aðildarfélaga ASÍ, og þar var áhugi á að brjóta í blað. Samræður aðila og stjórnvalda leiddu til þess að samningar náðust undir lok febrúar og átti samkvæmt þeim að fara aðrar leiðir en gert hafði verið undanfarin ár og reyna að auka kaupmátt samhliða því að dregið væri úr verðbólgu. Gert var ráð fyrir rúmlega 13% kauphækkun á samningstímanum og „rautt strik“ átti að tryggja að kaupmáttur minnkaði ekki mikið. Þá var sett á laggirnar launanefnd sem fylgjast skyldi með breytingum í efnahagslífinu og meta hvort ástæða væri til launahækkana með hliðsjón af þeim. Sérstaka áherslu átti að leggja á að halda niðri vöruverði og vöxtum. Þá var því lofað að gengi krónunnar yrði haldið stöðugu, en gengisbreytingar höfðu verið eitt helsta hagstjórnartæki ríkisstjórna um árabil og nánast fastur liður að gengi krónunnar væri lækkað í kjölfar nýrra kjarasamninga, svo sem víða hefur verið rakið. Þá átti að lækka bæði tolla og skatta og hamla gegn hækkunum á opinberri þjónustu. Gert var ráð fyrir að verðbólga yrði ekki nema 7–8%. Einnig skyldi unnið að því tryggja betur stöðu þeirra sem væru að kaupa íbúð eða byggja í fyrsta sinn með auknum lánum á lágum vöxtum og einnig þeirra sem hefðu lent í vandræðum vegna húsnæðiskaupa eftir 1980.129
Ekki fögnuðu allir þessari samningsgerð og töldu kauphækkanir of litlar. Niðurstöður þeirra voru t.d. gagnrýndar í Þjóðviljanum, en forysta verkalýðshreyfingarinnar svaraði fyrir sig og taldi gagnrýnina ómaklega.130 Í framhaldi af samningsgerðinni lagði verkalýðshreyfingin kapp á að fylgja eftir þeim fyrirheitum sem voru gefin um lækkun verðlags með verðlagseftirliti. Samvinna var höfð við Verðlagsstofnun um eftirlitið og voru einstök félög hvött til þess að fylgja þessu máli fast eftir og hafa samstarf við stofnunina og neytendafélög víða um land um það mál.131
Ásmundur Stefánsson, forseti ASÍ, talaði um að samningarnir mörkuðu nýja leið í baráttunni fyrir betri kjörum og til að „brjótast úr viðjum óðaverðbólgu og lélegra kjara“. Stefnunni var lýst svo að megináhersla væri lögð á „aðhald í verðlagsmálum og beinar verðlækkanir og stefnt að því að ná stighækkandi kaupmætti með kauphækkunum sem hvorki eru stórar í prósentum eða krónum“, sagði Ásmundur.132 Þröstur Ólafsson, þáverandi framkvæmdastjóri Dagsbrúnar, tók undir orð Ásmundar: „Í stað þess að bæta fólki upp verðhækkanir með verðbótum, þ.e. nýjum hækkunum, var farin sú leið að stöðva og lækka verðlag samfara tiltölulega lágum launahækkunum.“133 Segja má að í þessum orðum sé kjarni þjóðarsáttarleiðarinnar fólginn.
Nýir kjarasamningar voru svo gerðir í árslok 1986. Gengið var út frá sömu hugmyndum og við kjarasamninga fyrr á árinu, verðhækkunum skyldi haldið í skefjum og hinir lægst launuðu hækkuðu mest. Mikilvægur þáttur við gerð þessara samninga var líka að komið var á nýju launakerfi með því að færa taxta sem næst greiddum launum og dregið úr vægi bónus af heildarlaunum – „ónýtt taxtakerfi er lagt í rúst“, sagði Ásmundur Stefánsson.134 Þá var fram haldið víðtækri samvinnu Verðlagsstofnunar og stærstu launþegasambandanna, ASÍ og BSRB, og kannanir á verðlagi voru kynntar víða um land, jafnvel á dreifimiðum sem voru bornir í hús.135 Í kjölfar samninganna var forseti ASÍ bjartsýnn á horfurnar. Líkur væru á því að á árinu 1987 tækist að ná verðbólgu niður í eins stafs tölu og hefði samningsaðilum tekist að knýja ríkisstjórnina til þess að breyta um stefnu í efnahagsmálum.136 Markmiðin náðust að vissu leyti, verðbólga hjaðnaði verulega, en því fór þó fjarri að sá stöðugleiki næðist sem stefnt hafði verið að, enda var ríkissjóði ætlað að taka á sig meiri byrðar en hann gat staðið undir.137
Samningaviðræður vegna nýrra kjarasamninga hófust síðla árs 1987. Uppi voru ólíkar hugmyndir um framhaldið. Þegar sumarið 1987 krafðist Verkamannasambandið þess að laun hækkuðu mikið eða um allt að þriðjung og vísaði formaður sambandsins, Guðmundur J. Guðmundsson, til þeirra hækkana sem opinberir starfsmenn hefðu nýlega fengið.138 Aðrir vildu halda áfram með tilraun til þjóðarsáttar, á sömu braut og hafði verið í samningunum frá því árinu fyrr með hóflegum kauphækkunum, skattalækkunum og lítilli verðbólgu.139 Verkalýðshreyfingin var ekki samstíga og ljóst að ekki yrði samflot að þessu sinni. Vestfirðingar undirbjuggu sérsamninga og Verkamannasambandið var sér á báti; formaður þess, Guðmundur J. Guðmundsson, kvaðst ekki vilja semja með ASÍ.140 Við þessar aðstæður hélt Alþýðusambandið sig í bakgrunninum.
Almennu verkalýðsfélögin gerðu nýja kjarasamninga á fyrri hluta árs 1988, fyrst Alþýðusamband Vestfjarða í janúar. Hækkanir voru um 13%. Önnur félög og sambönd komu svo í kjölfarið. En margir voru óánægðir með samningana og álitu kjarabætur of litlar. Svo fór að mörg félög stóðu utan samningsgerðarinnar eða felldu samningana, t.d. Snót í Vestmannaeyjum, Eining á Akureyri og Framtíðin í Hafnarfirði.141 VR í Reykjavík felldi í tvígang samninga sem forysta félagsins hafði gert og mælti með.142 VR og fleiri félög verslunarmanna boðuðu til víðtæks verkfalls sem verkfallsverðir félagsins fylgdu eftir af ákveðni. Þegar miðlunartillaga sáttasemjara var lögð fyrir verslunarfólk var hún einnig felld, en þátttaka verslunarfólks í Reykjavík var ekki næg (um þriðjungur) og því taldist tillagan samþykkt þrátt fyrir að meirihluti greiddra atkvæða væri á móti tillögunni. Önnur félög verslunarmanna sem felldu samninginn héldu áfram aðgerðum sínum og náðu heldur betri samningum fáum dögum síðar. Sérstaka athygli vöktu verkfallsaðgerðir Verkakvennafélagsins Snótar í Vestmannaeyjum. Verkakonur fengu stuðning víða að, bæði með framlögum í verkfallssjóð og með því að Dagsbrún setti löndunarbann á Eyjabáta á félagssvæði sínu til þess að sýna konunum stuðning. Hluti félaga innan Verkamannasambandsins náði síðar heldur betri árangri með svokölluðum Akureyrarsamningi.143 Viðræður fóru fram á milli ríkisstjórnarinnar og forystu Alþýðusambandsins um efnahagsmál í maí 1988. Tilefnið var gengisfelling í kjölfar samninga, en viðræðurnar stóðu stutt og þeim lyktaði án niðurstöðu.144 Kjarasamningar og samskipti stjórnvalda og aðila á vinnumarkaði virtust enn einu sinni vera komin í sama óefni og lengi hafði verið.
Fyrri hluta árs 1988 beitti ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sér fyrir efnahagsaðgerðum sem komu illa við verkalýðshreyfinguna. Samkvæmt bráðabirgðalögum sem ríkisstjórnin setti var komið á verðstöðvun, en launahækkunum og hækkun á búvöruverði var frestað. Kjarasamningar voru framlengdir með lagaboði til eins árs og samningsréttur þar með afnuminn, verðbætur á laun voru bannaðar og verkföll einnig. Samhliða var gengi krónunnar fellt. Verkalýðshreyfingin mótmælti ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar og taldi að efnahagsvandann mætti rekja til óráðsíu og skipulagsleysis en ekki hóflegra kjarabóta verkafólks. Alþýðusambandið ákvað að kæra þessa valdbeitingu til Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.145
Ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar varð skammlíf og ný ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar tók við völdum í septemberlok 1988. Hún mildaði heldur þær aðgerðir sem fyrri ríkisstjórn hafði ákveðið, stytti gildistíma laganna og afnam bann við verkföllum og verkbönnum. Þessi breyting var gerð á síðustu stundu á Alþingi en hafði kannski ekki annað gildi en það að með þessu var „fellt burtu storkandi orðalag“ og lýst yfir vilja til þess að koma eitthvað til móts við verkalýðshreyfinguna. Þessar breytingar dugðu þó ekki samtökum launafólks sem mótmæltu skerðingu á samningsrétti harðlega, m.a. á fjölmennum fundi í Háskólabíói þar sem aðgerðum ríkisstjórninnar var mótmælt.146
Fram undan voru nýir kjarasamningar er leið á árið 1989. Ljóst mátti vera að á brattann yrði að sækja.147 Verkalýðshreyfingin velti fyrir sér hvort betra væri að standa að samningum með samfloti eða með því að einstök sambönd hefðu forgöngu um samninga. Miðstjórn ASÍ var einhuga um það í lok janúar að samflot hentaði best, enda hafði reynslan frá árinu fyrr verið mörgum erfið.148 Eftir því sem nær dró samningum var lögð ríkari áhersla á samstöðu, einnig með opinberum starfsmönnum.149
BSRB reið á vaðið með nýjan kjarasamning í apríl og var hann metinn að jafngildi tæplega 10% launahækkunar.150 Í maí náðust svo samningar á milli félaga innan ASÍ og átti samningurinn að gilda til áramóta. Kauphækkanir voru hóflegar og samningurinn var ekki með verðtryggingarákvæðum. Þótti ljóst að þrátt fyrir kauphækkunina, sem varð mest hjá hinum lægstlaunuðu, dygði hún ekki til að halda kaupmætti óbreyttum. Forseti ASÍ taldi þó að ekki hefði verið unnt að ná lengra nema fara út í „langvinn og harðvítug átök“.151 Til þess hefði verkalýðshreyfingin ekki verið búin á þessum tíma.
En þrátt fyrir tiltölulega hóflega samninga hjá félögum almenns launafólks urðu í kjölfar þeirra miklar verðhækkanir, m.a. á mjólk og bensíni. ASÍ og BSRB boðuðu til mótmælafundar síðdegis 1. júní til þess að mótmæla verðhækkununum og mættu þar á milli 15 og 20 þúsund manns. Stór hluti þess fólks hafði lagt niður vinnu í mótmælaskyni. Slíkur fjöldi hafði ekki sést lengi á mótmælafundi. Þessum aðgerðum var fylgt eftir með því að skorað var á fólk að hætta að kaupa mjólk og bensín. Aðgerðirnar leiddu til þess að ríkisstjórnin hafði forgöngu um að verð á ýmsum mikilvægum nauðsynjavörum var lækkað þegar leið á júní 1989. Svipað ferli átti sér svo stað í september sama ár.152 Þegar forysta Alþýðusambandsins leit yfir árangur í kjarabaráttu ársins 1989 blasti þó við að ekki hafði náðst sú niðurstaða sem stefnt hafði verið að. Launin höfðu hækkað hóflega, enda hafði ríksstjórnin lofað að „tryggja kaupmáttinn með því að hindra verðhækkanir á vöru og þjónustu ásamt aðhaldi í gengismálum“. En það gekk hins vegar ekki eftir nema að takmörkuðu leyti.153
Þjóðarsáttin var hluti af löngu ferli sem stóð í áratugi. Mikilvægur liður í henni voru kjarasamningarnir 1986 og kjarasamningarnir 1984 þó að þá hafi ekki tekist til eins og stefnt var að. Magnús Gunnarsson, um skeið framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins, komst svo að orði að þeir kjarasamningar hefðu verið „nokkurs konar æfingabúðir fyrir þjóðarsáttina fyrri í febrúar 1986“.154
Viðræður vegna nýs kjarasamnings félaga innan Alþýðusambandsins hófust í nóvember 1989 en samningarnir áttu að renna út um áramótin. Fljótlega komu upp hugmyndir um að reyna að fara nýjar leiðir, svipað og reynt hafði verið árið 1986. Forsenda þess að unnt væri að fara óhefðbundnar leiðir var sú að atvinnurekendur fengjust með í leikinn og það reyndust þeir tilbúnir til að gera. Forystusveit Vinnuveitendasambandsins var orðið ljóst að sæmilega heilbrigt efnahagslíf gat ekki þróast á Íslandi við þær aðstæður sem höfðu verið ríkjandi í landinu í áratugi.
Í rökstuðningi fyrir stefnu Alþýðusambandsins fyrir samningaviðræðurnar kom fram að fátt væri brýnna fyrir verkafólk en að draga úr verðbólgunni. Í slíku ástandi hækkaði verð á vörum og þjónustu stöðugt og kaupmáttur rýrnaði. Þeir sem töpuðu mest væru láglaunafólkið. Verðtryggð lán hækkuðu og fólk missti verðskynið. Svipað ástand yrði hjá fyrirtækjunum, allt færi að „snúast um kapphlaupið við verðbólguna“. Lausnin væri að „draga verulega úr verðbólgunni til þess að tryggja kaupmátt launa, treysta atvinnu og til þess að búa okkur undir það að geta aukið tekjur okkar í framtíðinni“.155 Mikilvæg ástæða þess að þjóðarsáttarleiðin var valin var því sú að fólk var orðið uppgefið á verðbólgunni. Á þessum tíma voru heldur ekki hagfelldar aðstæður fyrir sókn í kjaramálum, enda var efnahagslífið í lægð, hagvöxtur neikvæður um skeið og atvinnuleysi fór vaxandi. Verkalýðshreyfing var því í slæmri vígstöðu.156
En fleira kom til. Traust hafði skapast milli andstæðra fylkinga og forystumanna ASÍ og VSÍ eftir margra ára kynni.157 Ásmundur Stefánsson sagði að aldrei áður hefði tekist að fá „samtök atvinnurekenda til að vinna með okkur á sama hátt og nú“.158 Samstaða stóru launþegahreyfinganna og samtaka bænda skipti einnig sköpum að mati Ásmundar: „Við áttum náið samstarf við BSRB en það var ekki fyrir hendi 1986 og öðrum aðilum, svo sem bönkum og ekki síst bændum var boðið að samningaborðinu.“159 Félagslegar aðstæður innan verkalýðshreyfingarinnar höfðu einnig breyst umtalsvert. Róttækasti hluti hreyfingarinnar, með Kolbein Friðbjarnarson frá Siglufirði í broddi fylkingar, hafði dregið úr gagnrýni sinni, en þessi hópur hafði haft umtalsverð áhrif. Nú beygði þessi hópur sig fyrir almennum vilja um þjóðarsátt. Þá voru verkalýðsflokkarnir báðir í ríkisstjórn um þetta leyti sem auðveldaði samfélagslega umræðu um þessi efni og samningagerðina.160
Hlé var gert á samningaumleitunum í desember til þess að hafa samráð innan verkalýðshreyfingarinnar, og voru haldnir fundir með stjórnum félaga um allt land, Verið var að fara algjörlega nýja leið og það var mikilvægt að mati forystunnar að fá fullvissu um afstöðu félagsmanna almennt til þess. Leiðin byggðist á því að allir væri með og því taldi forystan hættulegt að halda áfram án þess að félögin væru ótvírætt með í för. Innan ASÍ var því stór hópur virkur í tengslum við þessa samninga.161 Samráð var haft við BSRB um þessar hugmyndir, sem fyrr getur, og einnig var haft samráð við Stéttarsamband bænda.162
Nýir kjarasamningar tókust svo í febrúar 1990 og hafa þeir síðan verið kallaðir þjóðarsáttarsamningarnir. Að þeim stóðu flest samtök á vinnumarkaði auk banka og bændasamtaka, að ógleymdri ríkisstjórninni. BHMR tók þó ekki þátt í þjóðarsáttinni. Við samningagerðina lofaði ríkisstjórnin margvíslegum aðgerðum, m.a. hærri niðurgreiðslum á landbúnaðarafurðum, ströngu aðhaldi í verðlagsmálum og margvíslegum öðrum aðgerðum. Þar á meðal átti að stöðva gengislækkanir og halda verði búvöru óbreyttu. Bankarnir hétu vaxtalækkunum, en almennir vextir voru um 30% um þetta leyti. Kjarasamningarnir áttu að gilda lengur en tíðkast hafði á umliðnum árum, í hálft annað ár þar til 15. september 1991. Laun áttu að hækka um tæp 10% að meðaltali á árunum 1990 og 1991. Hinum lægst launuðu voru ætlaðar sérstakar bætur. Rautt strik átti að tryggja kaupmáttinn og launanefnd að fylgjast með kaupmáttarþróuninni og halda reglulega fundi með stjórnvöldum um framvinduna. En henni bar líka að fylgjast með framvindunni í efnahagslífinu að öðru leyti, ekki síst í verðlagsmálum, og „beita sér fyrir því með öllum tiltækum ráðum … að ná fram markmiðum samningsins“.163 Þetta atriði var nýjung í kjarasamningagerð hér á landi. Launanefndir höfðu þó starfað áður í kjölfar kjarasamninga en án svo víðtæks hlutverks.
Í framhaldi af samningagerðinni var Fréttabréfi ASÍ dreift til félagsmanna innan Alþýðusambandsins þar sem samningurinn var kynntur og var hann víðast samþykktur. Áskrifendur voru að mestu stjórnarmenn og trúnaðarmenn aðildarfélaganna, en fréttabréfið fór nægilega víða til þess að unnt væri að koma á framfæri boðskap á helstu vinnustöðum í landinu á skömmum tíma. Forysta ASÍ fór einnig víða og fundaði með stjórnum aðildarfélaganna þar sem efni samninganna var kynnt og valkostir launafólks ræddir. Í framhaldinu var komið á verðgæsluskrifstofu á vegum verkalýðsfélaganna í Reykjavík þar sem tekið var á móti kvörtunum frá neytendum.
Í Fréttabréfi ASÍ var þannig greint frá samningunum og að valið hefði staðið
á milli tveggja leiða. Annars vegar leið hárra kauphækkana, gengisfellinga og áframhaldandi verðbólgu. Fullyrða má að þeirri leið hefði fylgt óstöðugleiki og minnkandi atvinnuöryggi þegar líða [tæki] á árið. Hins vegar var sú leið að tryggja sömu kaupmáttarniðurstöðu með lágum kauphækkunum, vaxtalækkunum og föstu gengi.164
164 Fréttabréf ASÍ, 6. febrúar 1990, 1.
Samningurinn var jafnframt kynntur sem tilraun en ekki sem lausn á öllum vandamálum. Ásmundur Stefánsson sagði að með þeim væri „tekin áhætta. Það var farið inn á nýjar brautir. Það var mikið lagt undir til að ná verðbólgunni niður. Væntanlega efuðumst við öll um að tilraunin tækist. En tilraunin tókst. Flest þau markmið sem við settum okkur náðust.“165BHMR tók ekki þátt í þjóðarsáttinni, sem fyrr getur. Félagar í samtökunum áttu að fá meiri kauphækkanir en þjóðarsáttin gerði ráð fyrir samkvæmt gildandi samningi. Ríkisstjórnin taldi sig verða að koma í veg fyrir það og ákvað að fresta samningsbundinni launahækkun BHMR. BHMR mótmælti harðlega og boðaði m.a. til útifundar á Lækjartorgi til þess að andæfa þeirri ákvörðun.166 Þá kærði bandalagið ákvörðun ríkisstjórnarinnar til Félagsdóms. Félagsdómur ómerkti ákvörðun ríkisstjórnarinnar sem bæri að láta 4,5% launahækkun BHMR standa óhaggaða. Í framhaldi af þeim úrskurði gerði ASÍ þá kröfu að laun félagsmanna innan sambandsins hækkuðu og allt virtist vera að fara í hefðbundinn farveg.167 En eftir að ríkisstjórnin setti bráðabirgðalög féll launahækkun BHMR niður og einnig hækkun sem flugumferðarstjórar áttu að fá. Eftir það var krafa ASÍ dregin til baka.
Ljóst er að forysta verkalýðshreyfingarinnar og Alþýðusambandsins var ekki ósátt við þessa niðurstöðu og ekki mótmælti sambandið bráðabirgðalögunum þrátt fyrir að hafa kært ríkisstjórn Íslands tveimur árum fyrr fyrir að brjóta gegn frelsi verkalýðsfélaga til þess að gera kjarasamninga. Karl Steinar Guðnason, varaformaður Verkamannasambandsins, spurði t.d. hvort BHMR ætlaði að eyðileggja þjóðarsáttina?168 Fleiri verkalýðsforingjar tóku í sama streng og varð núningur á milli ASÍ og BHMR vegna málsins. Í Fréttabréfi ASÍ var staðhæft að það væri „rökrétt að allt launafólk fylgi samningnum og taki þátt í að tryggja að markmiðum hans verði náð“.169
Formaður BHMR spurðist fyrir um það hjá ASÍ hvort kjarasamningurinn sem hefði verið gerður, þ.e. þjóðarsáttarsamningurinn, fæli í sér að ekki yrði staðið við kjarasamninginn við BHMR. Því hafnaði forseti ASÍ og staðhæfði að slík krafa eða tilmæli kæmu hvergi fram, enda hefðu samtökin ekki fyrir löngu fordæmt afskipti stjórnvalda af gerðum samningum. Hins vegar benti hann á að afstaða ASÍ væri sú að æskilegt væri að allir hópar launþega fylgdust að þar sem allir nytu góðs af stöðugleikanum: „Fast gengi, óbreytt búvöruverð, lækkun nafnvaxta og kauptryggingarákvæðin nýtast öllum,“ sagði í bréfi forseta ASÍ til BHMR.170 Einnig benti forsetinn á að ef aðrir hópar fengju meiri hækkanir en samist hefði um við ASÍ og BSRB mundu aðildarfélög þeirra samtaka einnig krefjast sömu hækkana. Það mundu þessi samtök gera þrátt fyrir að forsendum febrúarsamninganna yrði þar með raskað.171 Af þessum orðum mátti vera ljóst að krafa ASÍ og BSRB var sú að BHMR tæki þátt í þessu átaki. Gerðu samtökin það ekki væri allt unnið fyrir gýg. BHMR setti málin hins vegar þannig upp að spurningin stæði um það hvort hér á landi ríkti samningsfrelsi eða ekki, búið væri að gera samning og við hann ætti að standa.172
Mikill hiti varð í röðum BHMR. Félagsmenn reistu ríkisstjórninni níðstöng og lásu henni bölbæn. Mikill ólga varð líka innan ríkisstjórnarinnar. Jafnvel var rætt um stjórnarslit af þessum sökum um tíma.173 Þegar frumvarp ríkisstjórnarinnar af þessu tilefni var borið undir atkvæði á Alþingi voru úrslit líka tæp, enda ákvað stjórnarandstaða Sjálfstæðisflokksins og Kvennalista að greiða atkvæði gegn lögunum. Formaður Vinnuveitendasambandsins, Einar Oddur Kristjánsson, reyndi að fá forystumenn Sjálfstæðisflokksins ofan af þeirri ákvörðun en hafði ekki erindi sem erfiði. Þegar til kom sátu nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hjá við atkvæðagreiðslu um frumvarpið og það var samþykkt.174
Í tengslum við gerð kjarasamninganna voru settar á stofn launanefndir samningsaðila, sem fyrr getur, og höfðu þær náið samstarf. Hlutverk nefndanna var að úrskurða um launabreytingar ef forsendur samninga hefðu breyst. Jafnframt áttu launanefndirnar að funda mánaðarlega með helstu embættismönnum á sviði efnahagsstjórnar í landinu til þess að þær hefðu sem bestar upplýsingar um stöðu mála. Til hliðar við launanefndir var starfandi svokallað Launráð, eins og hópurinn kallaði sig. Þetta var óopinber hópur og sæti í honum áttu forseti og hagfræðingur ASÍ, framkvæmdastjóri og hagfræðingur frá Vinnuveitendasambandinu, ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, forstjóri Þjóðhagsstofnunar og formaður bankastjórnar Seðlabankans. Þessir aðilar héldu fundi í Seðlabankanum með það að markmiði að kanna hvernig málin stæðu, og var starf þeirra mikilvægur liður í því að tryggja yfirsýn, að mati Ásmundar Stefánssonar.175
Meginendurskoðun kjarasamningsins frá í febrúar 1990 átti að fara fram í nóvember sama ár og laun hækkuðu þá lítillega samkvæmt úrskurði launanefndar ASÍ og atvinnurekenda. Sumarið áður höfðu verið mikil fundahöld á vegum verkalýðshreyfingarinnar og kom þá í ljós mikill stuðningur við að halda áfram á sömu braut. Jafnframt var unnið að því í samráði við alla aðila samningsins að sem minnst röskun yrði á forsendum samninganna að öðru leyti með því að knýja fyrirtæki, banka og stofnanir til þess að halda að sér höndum með hækkanir á vöru og þjónustu.176 Samtals námu hækkanir launataxta til félaga í ASÍ tæpum 12% á samningstímabilinu og dugðu þessar hækkanir til þess að halda kaupmætti nokkurn veginn óbreyttum.177
Hvað verðbólguna snerti mátti árangurinn teljast góður. Þegar ár var liðið frá þjóðarsáttarsamningunum, og mat var lagt á hvernig hefði gengið, kom í ljós að verðbólgan hafði verið 6% frá því að samningarnir voru gerðir, minnsta verðbólga í hálfa öld. Mestu munaði að verð á matvöru hafði nánast staðið í stað.178
Þjóðarsáttarsamningarnir árið 1990 sýndu mikinn styrk verkalýðshreyfingarinnar og raunar einnig samtaka atvinnurekenda. Þessar félagshreyfingar kröfðust stöðugleika í stað þeirrar miklu óreiðu sem hafði verið í efnahagslífinu um langt skeið. Þetta tókst vegna þess að hreyfingarnar voru samstiga og líka vegna þess að tvö helstu launþegasamböndin voru samferða, ASÍ og BSRB.
Með þjóðarsáttinni tókst að koma á samráði á milli hins opinbera, atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar. Samráð af þessu tagi, eða korporatismi, hefur verið skilgreint þannig að um sé að ræða sjálfviljuga samvinnu „um að hafa hemil á átökum um efnahagsleg og félagsleg málefni í gegnum náin og fastmótuð tengsl viðskiptalífs, verkalýðsfélaga og ríkisvalds, sem stjórnmálaflokkar styðja við“. Helstu einkenni þessa samráðs eru talin þrjú:
Í fyrsta lagi er hugmyndafræðin um félagsskap aðila vinnumarkaðarins útbreidd, og dregur úr átökum atvinnurekenda og verkafólks. Hugmyndin um að deila jafnt áföllum og ágóða er þannig tekin fram yfir tilraunir til uppstokkunar á dreifingu lífsgæðanna, annað hvort verkafólki eða atvinnurekendum í hag. Í öðru lagi einkennist samráð af því að hagsmunasamtök vinnumarkaðarins eru frekar fá, stór og miðstýrð. Slíkt skipulag hagsmunasamtakanna kemur í veg fyrir að kröfugerð verði svo margslungin og misvísandi að engin heildar stefnumótun geti farið fram, jafnframt því sem ekki verður um að ræða kapphlaup milli atvinnurekenda í mismunandi greinum eða milli mismunandi launþegafélaga. Í þriðja lagi
einkennast lýðræðisleg samráðskerfi af sérstökum stíl pólitískra málamiðlana og pólitísk öfl þurfa að laga sig hvert að öðru.179
179 Gunnar Helgi Kristinsson [o.fl.] 1992, 9–10.
Á Íslandi hafði áður verið reynt að koma á samráði af þessu tagi. Skref voru tekin í þessa átt en ekki farið alla leið, m.a. vegna þess að skipulag bæði launþegahreyfingarinnar og samtaka atvinnurekenda gaf ekki færi á því. Nefna má að frá því að gerðir voru kjarasamningar árið 1971 starfaði fastanefnd Alþýðusambandsins og vinnuveitendasamtakanna um árabil og vann að framgangi ýmissa samningamála og samskiptareglna á vinnumarkaði á milli aðalkjarasamninga. Á þeim vettvangi voru einnig rædd ágreiningsmál á milli samningsaðila og skipst á skoðunum um afstöðu til mála.180 Formlegt samráð á milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda var svo lögleitt með svonefndum Ólafslögum árið 1979.181 Það hafði þó takmarkað gildi næstu árin. Kristján Thorlacius, formaður BSRB, nefndi að sér sýndist „vera verið að setja upp hagráð samkvæmt gömlu fyrirkomulagi. Hagráðið hafi verið ágætur vettvangur fyrir málglaða menn og ekkert annað“. Snorri Jónsson, starfandi forseti ASÍ, var á svipaðri skoðun og taldi ekki að um gæti verið að ræða „virkilegt samráð … nema rætt sé við hópana hvern fyrir sig“. Fram kom í fundargerðum að fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar þótti fullmikið um að fundir samráðsnefndanna væru notaðir til almennrar kynningar og umræðu en ekki til þess að reyna að komast að niðurstöðu um tiltekin mál, enda hefði tiltekinn ráðherra mjög notað orðin „komið til tals, komið til greina, verið rætt“. Fullyrt var að trúnaðarsamskipti gætu aldrei orðið í stórum hópi. Trúnaðarsamskipti við atvinnurekendur fóru líka fram á annan hátt, voru í fremur í þröngum hópi, að sögn Ásmundar Stefánssonar.182
Víðtækt samráð var reynt árið 1986 og gildi þess var svo viðurkennt með þjóðarsáttarsamningunum árið 1990. Þá tókst samstarf sem Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, lýsti síðar „sem aðferð – þar sem aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld … [hefðu] með sér víðtækt samstarf að stefnumótun í efnahagsmálum, atvinnumálum og félagsmálum“.183 Þegar þetta tókst hér á landi árið 1990 hafði það verið ráðandi í áratugi í nágrannalöndunum, t.d. í Noregi, þar sem mátti heita að verkföll heyrðu sögunni til fyrir mörgum áratugum.
Verkalýðshreyfingin setti fram hóflegar kröfur vegna kjarasamninganna snemma árs 1992.184 Í lok mars 1992 slitnaði þó upp úr samningaviðræðum ASÍ-félaganna og atvinnurekenda og höfðu samningar þá verið lausir í sex mánuði. Það ráð var loks tekið að launþegasamtökin féllust á að sáttasemjari legði fram miðlunartillögu til lausnar deilunni. Hún var víðast samþykkt og í framhaldinu breyttust laun lítillega. Auk þess gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu þess efnis að ýmis áform hennar um skerðingu félagslegrar þjónustu yrðu lögð á hilluna.
Verðbreytingar á samningstímabilinu reyndust afar litlar. Jafnvel fór svo árið 1992 að verðbólga varð minni en verðlagsspár gerðu ráð fyrir, enda sköpuðust þær aðstæður að allir voru ákveðnir í að leggjast á eitt við að ná settu markmiði.185
Það leit ekki vel út í kjaramálum þegar kom fram á árið 1993. Atvinnuleysi fór vaxandi. Baráttustaðan var ekki góð.186 Þegar fólk í aðildarfélögum BSRB greiddi atkvæði um hvort fara skyldi í verkfall var tillaga forystunnar um verkfallsboðun felld. Í maí 1993 tókust samningar, sem flest aðildarfélög ASÍ áttu aðild að, og vörðuðu þeir einkum aðgerðir á vegum ríkisstjórnarinnar, m.a. lækkun svonefnds matarskatts, auknar niðurgreiðslur á matvælum og auknar opinberar framkvæmdir. Beinar kauphækkanir voru engar og ekki heldur kauptrygging. Þó voru ákvæði þess efnis að segja mætti upp kjarasamningum með þriggja mánaða fyrirvara ef gengi krónunnar breyttist umtalsvert frá þeim viðmiðunarmörkum sem Seðlabankinn hefði sett. Benedikt Davíðsson, forseti ASÍ, kallaði það atriði samningsins „kollsteypuvörn“ og verkalýðshreyfingin von aðist til að samningarnir leiddu til þess að kaupmáttur héldist svipaður út samningstímabilið, eða að minnsta kosti að hann skertist ekki nema óverulega. Síðar sagði Benedikt að þessir samningar og niðurstaða þeirra hefðu verið afar erfitt skref og ekki hefði verið auðvelt að fá fólk til að fallast á að skynsamlegt væri að semja án kauphækkunar við þær aðstæður sem þá voru uppi.187 Samningarnir voru til vitnis um þá erfiðu stöðu sem var í samfélaginu en líka það mikla baráttumál forystu verkalýðshreyfingarinnar að ekki yrði hróflað við þeim stöðugleika í efnahagslífinu sem hafði náðst.
Fyrir kjarasamningana árið 1995 var sú ákvörðun tekin að lands- og svæðasambönd mundu sjálf sjá um samningagerð í næstu kjarasamningum, enda hefðu mörg sérmál einstakra sambanda og félaga legið óhreyfð um margra ára skeið vegna þess hvernig hefði verið staðið að samningum. Það var því komið til móts við gagnrýni á stóru samflotin. Þó var einnig samstaða um að sameiginlega þyrfti að semja um þau mál sem sneru að stjórnvöldum.188 Taka yrði upp baráttu við stjórnvöld sem stefndu að því að skera niður félagslega þjónustu á ýmsum sviðum, draga úr atvinnuleysisbótum, skera niður framkvæmdir en fella niður skatt af hátekjum. Þessar ályktanir dró Alþýðusambandið af fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 1995.189
Samningar sem náðust í febrúar voru í anda þeirrar samningsgerðar sem hafði tíðkast undanfarin ár; samið var til tveggja ára, hækkanir voru hóflegar, mestar til þeirra sem höfðu lægstu launin en minni til þeirra sem höfðu hærri laun. Ýmsum innan verkalýðshreyfingarinnar fannst þó að nú þyrfti að fara að taka stærri skref fram á við í kjarabaráttunni. Í sumum félögum, t.d. í Dagsbrún, var andstaða við að samþykkja samninginn sem þar var lagður fram, enda var þar þá starfandi róttæk andstaða innan félagsins. Nefna má að við þessa samningsgerð kom fyrst fram hið svonefnda Flóabandalag sem var samstarf Dagsbrúnar í Reykjavík, Hlífar í Hafnarfirði og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur. 190
Það var þung undiralda í samfélaginu 1995 og fólk var óánægt með kjör sín. Margir fluttu úr landi og leituðu þar betra lífs. Algengt var að bera saman laun hérlendis og í nágrannalöndunum og var sá samanburður Íslandi ekki hagstæður. Til dæmis fluttu allmargir Íslendingar til Hanstholm á Norður-Jótlandi í Danmörku um þetta leyti og fjölmiðlar birtu frásagnir af því hversu tilveran þar væri miklu betri fyrir verkafólk en á Íslandi! „Hamingjan er í Hanstholm“, sagði í blaðafyrirsögn frá þessum árum.191 Í viðtölum við íslenska blaðamenn greindi fólk frá því hversu miklu auðveldari lífsbaráttan væri í þessum danska smábæ en á Íslandi. Unnt væri að lifa mannsæmandi lífi á dagvinnulaunum, menntunarmöguleikar væru meiri og lífsstíllinn hófstilltari. Í Hanstholm bjuggu um 200 Íslendingar síðla árs 1998.192 Nefna má að fyrstu níu mánuði ársins 1995 fluttu meira en 1000 fleiri einstaklingar úr landi en þeir sem komu til landsins.193 Páll Pétursson, félagsmálaráðherra, kallaði þá sem greindu frá ólíkum kjörum í Danmörku og á Íslandi „agenta nútímans“ og vísaði þar til Vesturheimsagenta sem svo voru kallaðir. Þeir sáu um að útvega fólki far til Vesturheims meðan vesturheimsferðir stóðu yfir á ofanverðri 19. öld og öndverðri 20. öld.194 En ráðherranum láðist að greina frá því hvernig stæði á landflóttanum og hvort fullyrðingar fólks ættu rétt á sér.
Síðla árs 1996 runnu kjarasamningar út. Undirbúningur vegna nýrrar samningsgerðar hófst þegar á haustmánuðum. Samningagerðin fór fram við breyttar aðstæður, eftir samþykkt nýrrar vinnulöggjafar. Þannig var haldið á málum innan verkalýðshreyfingarinnar að landssambönd óskuðu eftir því við aðildarfélög sín að þau veittu þeim umboð til þess að gera viðræðuáætlanir og að þau fengju einnig samningsumboð. Flest samböndin fengu slík umboð. Þó ákváðu stærstu félögin í Reykjavík að sjá sjálf um samningsgerðina og gera sínar eigin viðræðuáætlanir. Hér má því sjá að um og eftir miðjan tíunda áratuginn var smám saman verið að hverfa frá þeirri miklu miðstýringu sem hafði verið ráðandi. Í kjölfar þess að viðræðuáætlun var gerð þurftu samningsaðilar síðan að undirrita samning um áætlunina.195 Þessi aðferð var í anda þeirra formbreytinga sem voru gerðar með nýju vinnulöggjöfinni og var ætlað að auðvelda samningagerðina. Nú, þegar reyndi á þessar reglur í fyrsta skipti, virtist þó lítið hafa breyst þegar á hólminn var komið. Að vísu hafði gengið vel að gera viðræðuáætlanir.196 En um áramót, þegar samningar voru lausir, virtist langt í land með að nýir samningar yrðu gerðir.
Þegar samningar tókust í mars 1997 kvað við nokkuð annan tón en verið hafði undanfarin ár. Stöðugleikinn virtist hafa fest sig í sessi og nú var tími kominn fyrir verkalýðshreyfinguna að fá nokkra umbun fyrir þolinmæli sína. Lægstu laun voru hækkuð mikið auk þess sem almennar kjarabætur náðust fyrir aðra launþega, alls tæp 13% á samningstímanum. Auk þess voru gerðar miklar breytingar á töxtum sem færðu þá að greiddu kaupi og veittu mörgum launþegum umtalsverðar kjarabætur. Skattar á almennt launafólk voru einnig lækkaðir. Stjórnvöld lýstu því yfir að bætur til aldraðra, öryrkja og þeirra sem væru atvinnulausir mundu hækka í samræmi við launahækkanir. Þá voru í samningunum ákvæði þess efnis að ef ráðstöfunartekjur hérlendis breyttust ekki í samræmi við þróun mála í nágrannalöndunum mætti segja upp samningum.197 Í samningunum var einnig sú nýjung að gert var ráð fyrir að gera mætti vinnustaðasamninga til viðbótar um skipulag vinnunnar á hverjum stað, ef breytingar í þá veru skiluðu launafólki bættum hag. Þetta atriði var að vissu leyti nýjung þar sem lagðar voru línur um það hvernig ætti að standa að þess háttar samningum. Viðræður áttu að fara fram undir forystu trúnaðarmanns og hafði vægi hans þar með aukist frá því sem verið hafði. Heimilt átti að vera að semja um ýmis frávik varðandi vaktavinnu, orlof, kaffitíma, afkastahvetjandi launakerfi og vinnutíma, en samhliða bæri að gera ráð fyrir að starfsfólk nyti hluta þess ávinnings sem fyrirtæki hefði af slíkum breytingum. VR gerði sérstakan samning um þessi efni.198 Þá taldist það einnig til tíðinda að samið var til þriggja ára og sýndi það þá trú aðila að varanlegum stöðugleika hefði verið náð í íslensku efnahagslífi.
Þegar forysta ASÍ leit yfir hvernig til hefði tekist árið 1999 stóðu mál þannig að gert var ráð fyrir að kaupmáttur launa á Íslandi hefði vaxið um 15,5% undanfarin tvö ár en einungis um 5,5% í helstu viðskiptalöndunum. Því mátti ljóst vera að vel hafði gengið og verkalýðshreyfingin fagnaði þessum gangi mála.210 Að mati ASÍ voru kjarabætur best tryggðar með stöðugleika og áherslu á velferð svipað og gerst hafði á hinum Norðurlöndunum.
Á tíunda áratug 20. aldar urðu miklar breytingar í kjaramálum launafólks. Með þjóðarsáttinni var ákveðið að hverfa frá þeirri stefnu að reyna að knýja fram sem mestar launahækkanir en leggja fremur áherslu á kaupmátt og stöðugleika í efnahagslífinu. Þetta átak reyndi mjög á margt launafólk á fyrri hluta tíunda áratugarins, eins og að framan greinir. Laun margra voru lág og innan verkalýðshreyfingarinnar kom til harðra deilna um það hvort fylgja skyldi þessari stefnu fram eða víkja frá henni. Á ofanverðum áratugnum bötnuðu þó kjörin með meiri hagsæld í samfélaginu, en mörgum þótti þó sem samtök launafólks tækju meiri ábyrgð á stöðugleikanum en stjórnvöld.
Samhliða því að neyslu- og markaðssamfélag festist í sessi, bæði hérlendis og annars staðar á ofanverðri 20. öld, jukust áhrif frjálshyggju í stjórnmálum og hagfræði. Nefna má að tveir af helstu forvígismönnum nýfrjálshyggjunnar hlutu nóbelsverðlaun í hagfræði á áttunda áratugnum, Friedrich Hayek árið 1974 og Milton Friedman árið 1976. Þá hafði valdataka Thatchers í Bretlandi (1979) og Reagans í Bandaríkjunum (1981) mikil áhrif. Nýfrjálshyggjan varð smám saman viðmið á Vesturlöndum og ráðandi stefna víða um lönd. Samkvæmt henni bar að láta markaðinn og frumkvæði einstaklingsins stjórna efnahagslífinu og heimila frjálst flæði fjármagns. Hnattvæðing varð lykilorð. Þá var unnið að því að draga sem mest úr ríkisumsvifum og áhrifum verkalýðsfélaga.199 Á sama tíma varð vart við vaxandi andúð á skattheimtu og samneyslu meðal almennings. Almennt má segja að á ofanverðri 20. öld hafi markaðslausnir og einstaklingshyggja eflst á kostnað vitundar um mikilvægi samhjálpar og samfélagslausna.
Stuðningsmenn nýfrjálshyggjunnar fullyrtu að vinnumarkaðurinn víða í Evrópu væri of ósveigjanlegur. Of lítill hvati væri til að leita sér að vinnu og laun væru of há í samanburði við mörg önnur lönd.200 Þessari afstöðu hafnaði Alþýðusambandið og benti á að aðstæður væru allar aðrar í löndum Austur-Asíu og Bandaríkjunum en í Vestur-Evrópu. Ekki væri skynsamlegt að „taka upp samkeppni á alþjóðamörkuðum um framleiðslu á vörum eða framboð á þjónustu sem býður upp á mörg, en illa launuð störf … Við getum aldrei keppt við launakjör í Austur-Asíu“.201
Á ofanverðum níunda og tíunda áratugnum var unnið að markaðsvæðingu samfélagsins hér á landi. Einka væðing varð t.d. eitt af lausnarorðum íslenskra ríkisstjórna frá miðjum níunda áratugnum, svipað og í nágrannalöndunum, t.d. í Danmörku.202 Einnig var í vaxandi mæli farið að bjóða út ákveðna verkþætti hjá opinberum stofnunum, oft á sviðum þar sem hinir lægst launuðu störfuðu.203 Fyrirtæki í almannaþjónustu voru einnig seld. „Einkavæðum allt“, voru kjörorð sumra stuðningsmanna þessara hugmynda.204
Íslensk stjórnvöld lýstu því yfir árið 2001 að stefna bæri að því að skattar á fyrirtæki á Íslandi yrðu mun lægri en í helstu samkeppnislöndum Íslands.205 Hugmyndir Viðskiptaráðs gengu þó enn lengra og vildi það hafa 15% flatan skatt á einstaklinga og fyrirtæki. Þær voru kynntar undir kjörorðinu „15% Ísland“.206 Alþýðusambandið gagnrýndi breytingar á skattakerfinu, enda leiddu þær til aukins ójafnaðar eins og Stefán Ólafsson prófessor hefur sýnt fram á. Skattbyrði þeirra sem höfðu hæstar tekjur minnkaði á þessu tímabili en skattbyrði þeirra sem voru með lágar tekjur eða meðaltekjur jókst vegna þess að skattaleysismörk hækkuðu ekki til samræmis við launaþróun.207
Jafnframt því að farið var að draga úr gildi félagslegra lausna og jafnaðar í samfélaginu var einnig í vaxandi mæli farið að draga í efa gildi verkalýðshreyfingarinnar fyrir hag launafólks í opinberri umræðu. Bent var á að heppilegast væri að hver einstaklingur semdi fyrir sig um kjör sín. Það væri vegna þess að „sjálfs er höndin hollust“.208 Skref voru tekin í þá átt að draga úr áhrifum verkalýðshreyfingarinnar hér á landi á tíunda áratugnum þó að ekki verði jafnað við ástandið þar sem lengst var gengið gegn hreyfingunni. Ýtt var undir þá tilhneigingu meðal fólks að standa utan verkalýðsfélaga og að taka ekki þátt í félagslegum lausnum á vegum verkalýðshreyfingarinnar, m.a. í tengslum við lífeyrissjóðina. Opinber stefna stjórnvalda á þessum tíma var að breyta grunni samfélagsins með markaðsvæðingu á sem flestum sviðum, það væri grunnur að vaxandi hagsæld. Auk þess bæri að stemma stigu við „þeirri tilhneigingu til of ítarlegra reglusetninga og umfangsmikils opinbers eftirlits sem almennt hefur borið á í iðnvæddum ríkjum, eins og hér á landi í nokkrum mæli“, að mati Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra, árið 1998.209
Alþýðusambandið og verkalýðshreyfingin hafði frá öndverðu lagt áherslu á að fylgjast með verðlagi vörutegunda og verðbreytingum án þess þó að það væri gert á skipulegan hátt. Á áttunda áratugnum efldist þessi starfsemi, ekki síst eftir að farið var að gefa Vinn-una út reglulega á nýjan leik og var iðulega gerð grein fyrir verðbreytingum og fjallað um verðlagsmál á síðum blaðsins.211 Vegna mikilla verðhækkana árið 1976 gaf Alþýðusambandið t.d. út bæklinginn Hvað veldur? þar sem fjallað var um verðlagshækkanir á þeim tíma. Sambandið birti einnig sjónvarpsauglýsingar í sama skyni, en birting þeirra var stöðvuð af stjórnvöldum! Þá hvatti ASÍ stjórnvöld einnig til að láta gera verðkannanir og kanna „mánaðarlega verð í það minnsta 15 vörutegunda í 10 verslunum og senda upplýsingar til fjölmiðla“. Einnig að gera samanburð við verðlag erlendis. Skref voru stigin í þessa veru en þau voru langt frá óskum ASÍ.212
Í kjölfar kjarasamninganna 1986, sem nefndir hafa verið þjóðarsáttin fyrri, var rík áhersla lögð á að draga úr verðhækkunum. Gert var átak á vegum verkalýðshreyfingarinnar og einstakra stéttarfélaga til þess að fylgjast með verðlagshækkunum. ASÍ setti á fót nefnd til þess að hafa yfirumsjón með þessum málum og var henni ætlað að hafa náið samstarf við Verðlagsstofnun.213 Sums staðar tókst samstarf verkalýðshreyfingarinnar, neytendafélaga og starfsmanna Verðlagsstofnunar um þessi mál. Í Borgarnesi var starfið t.d. mjög öflugt. Þar var tekin upp samvinna verkalýðsfélagsins og neytendafélagsins á staðnum um verðkannanir og var niðurstöðunum síðan dreift í fjölritum inn á hvert heimili í umdæmi félagsins. Svipað samstarf var tekið upp á Höfn í Hornafirði og víðar um landið.214 Í Reykjavík tóku verkalýðsfélögin innan ASÍ og BSRB, ásamt Neytendafélagi Reykjavíkur og nágrennis, sig saman um að greiða kostnað vegna eins starfsmanns sem hefði aðsetur á skrifstofu Neytendafélagsins og átti sá hinn sami að hafa að meginverkefni að gera verðkannanir sem síðan yrðu kynntar almenningi.215 Þá stóð MFA fyrir námskeiðum um verðgæslu og verðkannanir í samvinnu við Verðlagsstofnun víða um land.216 Um sama leyti lagði Alþýðusambandið mikla áherslu á að efla vitund fólks um lánsviðskipti og mikinn kostnað sem fylgdi lántökum. Í raun var verið að hvetja fólk til að auka sparnað, sem ekki var létt verk eftir langvinnt verðbólgutímabil. Á ofanverðum níunda áratugnum birti Vinnan fjölda greina um þessi efni.217
Þessari starfsemi var fram haldið af krafti eftir kjarasamningana 1990 og í framhaldinu var komið á verðgæsluskrifstofu á vegum verkalýðsfélaganna í Reykjavík, Hafnarfirði og BSRB. Starfsmaður hennar var Leifur Guðjónsson og fólst starfið einkum í því að taka við kvörtunum, skipuleggja auglýsingaherferðir og hvetja neytendur til þess að gera verðsamanburð. Þessu eftirliti var síðan fylgt eftir með auglýsingum í fjölmiðlum á vegum alþýðusamtakanna og Verðlagsstofnunar. Að þessu sinni var verðlagseftirlitinu haldið fram til haustmánaða árið 1991 og var það talið hafa gefið góðan árangur.218
Sérstök áhersla var lögð á aukið verðlagseftirlit eftir að virðisaukaskattur var lækkaður á matvælum í 14% um áramótin 1993–1994 og höfðu ASÍ og önnur stéttarsamtök samvinnu við Samkeppnisstofnun um það eftirlit. Niðurstaðan reyndist sú að lækkun skattsins hefði í aðalatriðum skilað sér til neytenda, en margir höfðu gagnrýnt þessa ráðstöfun og stuðning Alþýðusambandsins við hana og töldu að hún mundi ekki skila árangri.219
Árið 1997 var svo gerður samstarfssamningur á milli BSRB, ASÍ og Neytendasamtakanna til eins árs um eftirlit með verðlagi og gerð verðkannana á vöru og þjónustu. Starfsmaður var ráðinn til þess að sjá um þennan málaflokk. Starfinu var sinnt af síauknum krafti næstu misseri. Árið 1997 var t.d. harðlega mótmælt gjaldskrárhækkunum Pósts og síma sem þá var nýlega búið að breyta í hlutafélag. Eftir þetta varð verðlagseftirlit fastur liður í starfi ASÍ og miðaði að því að veita stofnunum og fyrirtækjum aðhald með reglubundnum verðkönnunum.220
Eftir að kjarasamningar höfðu verið endurskoðaðir á fyrri hluta árs 2001 var ákveðið að ríkisstjórnin styrkti ASÍ til þess að halda uppi verðlagseftirliti. Ráðinn var sérstakur verkefnisstjóri til þess að sinna um verðlagseftirlitið. Hvatt var til samstarfs við einstök verkalýðsfélög víða um land.221 Misjafnt var eftir aðstæðum hvaða mál nutu forgangs. En taka má sem dæmi að þegar virðisaukaskattur af matvælum var lækkaður árið 2006 var samhliða gert átak til þess að fylgjast með að sú lækkun skilaði sér í verðlaginu. Í tengslum við það starf var haldið uppi víðtæku eftirliti með verðlagi í verslunum í desember 2006 í samstarfi við aðildarfélög ASÍ.222 Stundum gat orðið ágreiningur á milli verslunareigenda og eftirlitsaðila, t.d. á árinu 2007 þegar fyrirtækið Hagar kvartaði undan verðlagseftirliti ASÍ.223 Verðlagseftirlitið hefur verið rekið allt til þessa dags og gerir reglulega kannanir á verði matvöru auk annarra sértækari verðkannana, en Alþýðusambandið hefur í þessu sambandi ekki hvatt til umræðu um gæði matvöru og manneldismál.
Fyrstu ár nýrrar aldar fóru að birtast launatölur sem aldrei áður höfðu sést hérlendis. Þau laun voru greidd í bönkum og öðrum stórum fyrirtækjum. Mánaðarlaunin voru stundum svipuð og margra ára laun venjulegs launafólks. Verkalýðshreyfingin varaði við þessari þróun og kallaði eftir samfélagslegri ábyrgð. Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, varaforseti ASÍ, benti t.d. á að hérlendis hefði lengi ríkt tiltölulega mikill jöfnuður en nú væri að draga „gríðarlega í sundur með þeim lægst launuðu og þeim hæst launuðu“ og að þessar breytingar hefðu orðið „nánast án gagnrýni“.224 Samfélagsleg viðhorf áttu undir högg að sækja á þessum tíma. Þau viðhorf urðu algengari að ekki væri ástæða til að halda aftur af launakröfum þó að það færi í bága við samfélagslega hagsmuni. Ekki þarf að undrast þau sjónarmið á þessum tíma þegar nánast daglega voru rædd þau ofurlaun sem fólk fengi sem stundaði bankaviðskipti.225
Undirbúningur fyrir kjarasamningana árið 2000 hófst á öndverðu ári 1999. Í samræmi við breytta vinnulöggjöf bar öllum stéttarfélögum að setja sér viðræðuáætlanir, sem fyrr getur. Fyrirsjáanlegt var að lífeyrismál mundu verða meðal helstu baráttumála, enda var óánægja innan almennu verkalýðsfélaganna með það hversu miklu betri lífeyriskjör opinberir starfsmenn höfðu. Þá krafðist verkalýðshreyfingin þess að lægstu laun hækkuðu mikið og kauptaxtar yrðu samræmdir. Samtök atvinnulífsins tóku þessum kröfum fálega og sögðu þær óraunhæfar.226 Þegar gerðir voru nýir kjarasamningar árið 2000 var þannig staðið að málum að landssamböndin, einstök félög eða bandalög einstakra félaga (Flóabandalagið) sáu um samningagerðina.227
VR reið á vaðið við samningagerðina 22. janúar 2000 með samningum við Samtök verslunarinnar og Félag íslenskra stórkaupmanna og samdi um hækkun lágmarkslauna og svokölluð markaðslaun sem áttu að miðast við upplýsingar frá fyrirtækjum og launakannanir.228 Flestir aðrir sömdu nokkrum vikum síðar. Almennar launahækkanir voru yfirleitt í kringum 13% en mun meiri til hinna lægstlaunuðu. Veikindaréttur var aukinn og komið upp starfsmenntasjóðum. Þá voru endurskoðunarákvæði í kjarasamningunum ef verðlagsforsendur breyttust og átti launanefnd að fylgjast með þeim breytingum. Yfirleitt var samið til langs tíma, í þrjú og hálft ár eða lengur.229 Ríkisstjórnin kom til móts við launafólk, m.a. með breytingum á sköttum og hækkun bóta almannatrygginga.230 Þessir samningar sýndu að almennt var talið að stöðugleika væri náð í samfélaginu. Þeir voru líka til marks um vaxandi trú innan tiltekins hluta verkalýðshreyfingarinnar á því að markaðsvæða kjarabaráttuna, ef svo má segja, þ.e.a.s. að koma á beinni tengingu milli afkomu fyrirtækja og launa. Þá sýndu samningarnir að hreyfingin sinnti í vaxandi mæli öðrum baráttumálum en launabaráttu í þröngum skilningi, ekki síst starfsmenntun.
Við gerð nýrra kjarasamninga árið 2004 virtist velgengni vera meiri en áður hafði þekkst. Hagvöxtur var meiri hér á landi en í flestum nágrannalandanna, t.d. yfir 6% árið 2004. Einkaneyslan jókst hratt og mikil hækkun varð á húsnæðisverði í kjölfar þess að bankarnir hófu samkeppni við Íbúðalánasjóð og lánshlutfall vegna íbúðarkaupa var hækkað í 90% árið 2004.231 Þá var einnig mikil þensla vegna orkuframkvæmda sem verkalýðshreyfingin studdi dyggilega.
Þegar samið var árið 2004 var það gert til næstu fjögurra ára og stóðu einstök sambönd að samningunum í flestum tilvikum. Kjarabætur samninganna voru verulegar og voru þær metnar á um 15% en almennar launahækkanir um rúm 11%. Nýjung var að nú var samið um að atvinnurekendur fjármögnuðu fræðslusjóði í stað hins opinbera (atvinnuleysistryggingasjóðs) og átti það ákvæði að vera komið til framkvæmda að fullu að þremur árum liðnum (á við Flóabandalagið og Starfsgreinasambandið). Þá var einnig samið um aukið framlag frá atvinnurekendum í lífeyrissjóði á þann veg að færa skyldugreiðslu atvinnurekenda í séreignasjóð inn í samtryggingarsjóðina og bæta öðru prósenti við, þannig að framlag þeirra yrði 8% í stað 6% áður. Forsenda samninganna var að verðlag héldist stöðugt og átti sérstök forsendunefnd að fylgjast með því hvort svo væri. Þessi lýsing á við samninga svonefnds Flóabandalags og Starfsgreinasambandsins. Ríkisstjórnin hét því m.a. við gerð samninganna að atvinnuleysisbætur yrðu hækkaðar.232 Kennarar áttu einnig í launadeilu um þetta leyti og stóðu enn í löngu verkfalli síðla árs 2004. Þeir fengu umtalsvert meiri hækkanir en aðrir höfðu samið um.233
Mikil þensla var í efnahagslífinu 2005 og 2006. Alþýðusambandið hafði áhyggjur af þessari þróun. Einkaneysla jókst hratt, t.d. um 12% á milli áranna 2005 og 2006, og skuldir hrönnuðust upp á öllum sviðum samfélagsins. Verðbólga jókst og var komin í 8% árið 2006.234 Verðhækkanir voru þó enn meiri á sumum sviðum. Íbúðaverð hækkaði t.d. um þriðjung á árinu 2005 og vextir voru mjög háir. Sambandið gagnrýndi stjórnvöld, bæði ríki og sveitarfélög, fyrir skort á aðhaldi; í raun væri olíu hellt á eldinn þegar stjórnvöld lækkuðu skatta við þessar aðstæður.235 En það var þó annað en auðvelt að vera í hlutverki gagnrýnandans á þessum árum. Atvinnuleysi var hverfandi, launahækkanir miklar og einkaneysla jókst hratt. Allt leit því vel út á yfirborðinu og almennur stuðningur var innan flestra stjórnmálaflokka, meðal almennings og einnig innan verkalýðshreyfingarinnar við þá þenslustefnu sem var rekin hér á landi. En hættumerkin voru skýr.
Vegna þenslunnar voru kjarasamningar endurskoðaðir síðla árs 2005 og aftur um mitt ár 2006. Þá náðist m.a. samkomulag við atvinnurekendur og stjórnvöld um að setja lög um starfsmannaleigur og einnig um framlög af hálfu ríkisins til lífeyrissjóðanna til að jafna byrði þeirra vegna örorku. Þá var gert samkomulag um breyttar atvinnuleysistryggingar, en samkvæmt þeim voru grunnbætur hækkaðar og teknar upp tekjutengdar atvinnuleysisbætur í þrjá mánuði (70% af fyrri tekjum en þó ákveðið hámark). Loks var ákveðið að gera átak til að efla starfsmenntun og endurmenntun fólks með litla menntun. Forystumenn atvinnurekenda og oddvitar stjórnarflokkanna voru þó andsnúnir þessum breytingum en féllust á þær vegna hótana ASÍ um að öllum kjarasamningum yrði sagt upp að öðrum kosti.236
Síðla árs 2007 spáði hagdeild ASÍ því að hérlent hagkerfi mundi „lenda“ mjúklega, eins og það var kallað, eftir stóriðjuframkvæmdir, en vorið eftir voru margs konar hættumerki komin fram. Verðbólga hafði ekki verið hærri í hátt á annan áratug, um 15%, og skuldir heimila og fyrirtækja voru afar miklar. Miðstjórn ASÍ hafði þungar áhyggjur af stöðu mála.237
Við þessar aðstæður var skrifað undir nýja kjarasamninga í febrúar 2008. Óvissa var um framvindu efnahagsmála og alþjóðleg fjármálakreppa hafði sett mark sitt á stöðu þeirra mála. Engu að síður var samið um nokkrar launahækkanir, einkum hjá hinum lægstlaunuðu, sérstaklega því fólki sem hafði fengið greitt samkvæmt kauptöxtum. Samningarnir áttu að gilda þar til síðla árs 2010 að því gefnu að verðbólgan færi lækkandi og kaupmáttur héldist.238 Samhliða gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu um nokkur mikilvæg hagsmunamál launafólks, m.a. um skatta- og húsnæðismál og aukin fjárframlög til starfsmenntunar, og sett var fram það markmið að árið 2020 yrðu ekki fleiri en 10% á vinnumarkaði án viðurkenndrar starfs- eða framhaldsskólamenntunar.239
Haustið 2008 voru aðstæður orðnar mjög breyttar miðað við það sem var árinu fyrr. Þeim var lýst svo í skýrslu forseta ASÍ árið 2009:
Öll greiðslumiðlun til og frá landinu stöðvaðist og á nánast einni nóttu lokaðist aðgengi að erlendum lánafyrirgreiðslum með þeim afleiðingum að bankarnir gátu ekki staðið við skammtíma skuldbindingar sínar og komust í greiðsluþrot. Í kjölfarið dundi yfir okkur bankakreppa, gjaldeyriskreppa, skuldakreppa, ríkisfjármálakreppa og loks stjórnarkreppa sem lauk með alþingiskosningum í apríl.240
240 Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 2009, 87.
Horfurnar voru ekki góðar. Fram undan var mesta samdráttarskeið sem þjóðin hafði gengið í gegnum á lýðveldis tímanum. Atvinnuleysið rauk upp, skuldir margra heimila stórjukust vegna gengisbreytinga en verðlag erlends gjaldeyris hafði hækkað um nærri 100% síðla árs 2010 frá því sem það hafði verið í ársbyrjun 2008. Samhliða minnkaði kaupmáttur almennings hratt, þó ekki þeirra sem höfðu lökust kjör enda lagði verkalýðshreyfingin megináherslu á að tryggja stöðu þeirra sem höfðu lægstu launin. Vextir fóru upp úr öllu valdi.
Margir fluttu úr landi, í fyrstu einkum útlent fólk sem hafði verið hér á vinnumarkaði. Mestir erfiðleikar urðu þar sem þenslan hafði verið mest, í byggingariðnaði, og dýrar vörur eins og nýir bílar hættu að seljast. Reyndar dró úr verðbólgu er líða tók á árið.
Samkvæmt ákvæði í kjarasamningum frá árinu 2008 bar að endurskoða þá á árinu 2009 ef forsendur þeirra hefðu ekki staðist eða breyst. M.a. var gert ráð fyrir að verðbólga á árinu 2008 yrði innan við 5,5%. Svo varð þó ekki og verðbólgan fór yfir 18% á því ári en kaupmáttur var talinn hafa minnkað um 10% um sama leyti. Það var því ljóst að forsendurnar höfðu alls ekki staðist og atvinnurekendur hótuðu að segja sig frá samningunum. Í febrúar 2009 náðu Samtök atvinnulífisins og ASÍ samkomulagi um að fresta endurskoðun kjarasamninganna fram á mitt ár gegn því að lágmarkstekjutrygging yrði hækkuð og var það í samræmi við vilja mikils meirihluta félaga í verkalýðshreyfingunni. Um mitt ár 2009 náðist svo samkomulag um endurskoðun kjarasamningsins þannig að umsamdar hækkanir kæmu til framkvæmda í tveimur áföngum, þrátt fyrir efnahagsástandið, en tækju síðar gildi en áætlað hefði verið. Innan verkalýðshreyfingarinnar voru þó skiptar skoðanir um réttmæti þessa og voru ýmsir, einkum fulltrúar nokkurra félaga á landsbyggðinni, ósáttir við að þessi leið skyldi farin.241 Samhliða var svo gerður svokallaður stöðugleikasáttmáli og var hann ein af forsendum þess að aðilar náðu sátt um endurskoðun kjarasamninganna.
Samkvæmt forsendunum var m.a. gert ráð fyrir átaki til að bæta stöðu mjög skuldsettra heimila, greidd yrði gata stórframkvæmda, verja skyldi viðkvæmustu þætti velferðarkerfisins í þeim óhjákvæmilega niðurskurði á ríkisútgjöldum sem menn stóðu frammi fyrir, dregið yrði úr gjaldeyrishömlum og tekið upp virkara eftirlit á vinnustöðum í því skyni að koma í veg fyrir misnotkun og svarta atvinnu, svo nokkur atriði séu rakin.242
Óvissa var um stöðu efnahagsmála og horfur ekki bjartar á árinu 2010. Árinu áður hafði landsframleiðsla dregist saman um 6,8% og aldrei áður hafði svo mikill samdráttur orðið á lýðveldistímanum. Ekki tókst að leysa svokallaða Icesave-deilu og tafir urðu á samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og ýmsar þjóðir sem höfðu heitið að veita Íslendingum lán. Atvinnuleysi var áfram mikið, t.d. 9,3% í febrúar 2010, en samkvæmt því voru um 15000 manns án atvinnu. Það minnkaði þó töluvert er leið á árið. Skuldir lögðust þungt á fjölda heimila. Skuldavandi heimilanna og lausn á honum var eitt helsta umræðuefni í stjórnmálum um þetta leyti og ASÍ krafðist aðgerða í þágu þeirra heimila sem verst stæðu. Fasteignaverð lækkaði og fjöldi fyrirtækja átti í erfiðleikum.243 Alþýðusambandið var ekki sátt við hvernig stjórnvöld stóðu við stöðugleikasáttmálann þó að ýmislegt hefði gengið eftir af því sem um var rætt. Það kvartaði undan því að ekki væri haft samráð við aðila vinnumarkaðarins um fyrirhugaðar breytingar á stofnunum á íslenskum vinnumarkaði og að ekki væri staðið við þá atvinnuuppbyggingu sem um hefði verið rætt. Ekki heldur skuldbindingar varðandi starfsendurhæfingu og væri miðstjórn ASÍ „engin launung á því að væntingar til lögbindingar þessara ákvæða [þ.e. um starfsendurhæfingu hefðu verið] síðasta hálmstráið sem rökstuddi aðild ASÍ að stöðugleikasáttmálanum.244
Árið 2011 virtust horfur þó vera betri en útlit hafði verið fyrir um tíma. Mesta samdráttarskeiðinu virtist lokið og á árinu 2011 varð hagvöxtur á ný. Hann var þó minni en vonir höfðu staðið til, enda voru enn miklir erfiðleikar í helstu viðskiptalöndum þjóðarinnar. Staða heimila hafði líka vænkast heldur og nokkuð hafði dregið úr atvinnuleysi frá því sem mest var. Það var þó enn mikið, miðað við það sem hafði tíðkast hér á landi, en víða annars staðar í Evrópu var atvinnuleysi meira, jafnvel miklu meira, og hafði verið svo um árabil. 245
Við þessar aðstæður voru gerðir nýir kjarasamningar í maí 2011. Í þeim fólust ríflega 12% launahækkanir næstu þrjú ár en þó meiri til hinna lægst launuðu. Meðal annarra mikilvægra atriða sem komu fram í kjarasamningunum og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar voru ákvæði um jöfnun lífeyrisréttinda og átak til eflingar atvinnulífinu, m.a. með því að stuðla að nýsköpun; bæta skyldi þjónustu við atvinnulausa og fara af stað með tilraunaverkefni sem stéttarfélögin tækju að sér að sjá um.
Þá var einnig tilskilið að atvinnuleysisbætur og bætur almannatrygginga hækkuðu í samræmi við hækkun lægstu taxta. Gert var ráð fyrir að auka bæri sérstaklega stuðning við ungt fólk sem væri að leita sér að atvinnu og stórauka áherslu á menntun yngra fólks, en einnig fólks sem væri komið af hefðbundnum skólaaldri.246 Í því skyni var hrint úr vör verkefni sem kallaðist „Nám er vinnandi vegur“ og átti ASÍ aðild að því. Ætlunin var að „tryggja öllum yngri en 25 ára, sem eftir leita og uppfylla inntökuskilyrði, nám við hæfi í framhaldsskólum strax haustið 2011“ og hins vegar „að skapa ný námstækifæri fyrir allt að 1.000 atvinnuleitendur haustið 2011 og næstu 2 ár þar á eftir í framhaldsskólum, frumgreinadeildum, háskólum og í framhaldsfræðslu.“ Gert var ráð fyrir að Atvinnuleysistryggingasjóður greiddi kostnaðinn sem af þessu hlytist í fyrstu en síðan tæki ríkissjóður að sér kostnaðinn. Reynslan af þessu átaki var góð og stóðust áætlanir í öllum aðalatriðum. Samhliða var unnið að því að tryggja 1500 ný störf fyrir ungt fólk í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem var gefin út í tengslum við kjarasamningana.247
Hagur launafólks versnaði almennt við hrunið og tilvera margra varð erfið. Það var ekki að undra því að atvinnuleysi jókst, kaupmáttur minnkaði og skuldir margfölduðust. Þó varð ekki upplausnarástand í samfélaginu eða djúp neyð. Öllum meginþáttum samfélagsins tókst að halda gangandi og í meginatriðum tókst að verja velferðarkerfið og kaupmátt þeirra sem höfðu lægstu launin. Því varð hér ekki neyðarástand meðal almennings, ekki var komið upp súpueldhúsum fyrir þá sem verst voru staddir. Hjálparsamtök unnu þó mikið starf í þágu þeirra sem minnst höfðu handa á milli. Verkalýðshreyfingin átti stóran þátt í að hér varð ekki neyðarástand, bæði vegna þess að hér hafði verið byggt upp velferðarkerfi og ekki síður vegna þess að hreyfingin stóð vörð um þessi gildi. En jafnframt er ljóst að fram undan er mikið verkefni við að efla það kerfi að nýju, bæta það sem veikst hefur í hruninu og eftirleik þess, og styrkja aðra þætti þar sem þörf er á.
Vaxandi þátttaka kvenna á vinnumarkaði og kröfur kvenna um að aukið tillit væri tekið til þeirra leiddu smám saman til þess að afskipti stjórnvalda og Alþingis jukust af þessum málaflokki, eins og fyrr hefur verið drepið á. Þess má geta að árið 1958 var skattalögum breytt í þá veru að heimilað var að draga helming launatekna giftra kvenna frá sameiginlegum tekjum hjóna áður en kom til skattlagningar; raunar var einnig heimilað að eiginkona væri skattlögð sér, en þá þurfti að óska sérstaklega eftir því. Með þessari breytingu var farið eftir ákvæðum í dönskum skattalögum – eins og oft var gert á þessum tíma – og rökin voru m.a. þau að vegna samsköttunar greiddu hjón mun hærri skatta en tveir einstaklingar. Í þessu væri fólgin mismunun sem bæri að leiðrétta og kæmi skýrast fram þegar um væri að ræða ógift sambýlisfólk sem greiddi skatta hvort fyrir sig. Þá var líka bent á að mismunun væri fólgin í því að greiða þyrfti fulla skatta af vinnu konu sem ynni utan heimilis, en vinna húsmóður á heimili væri skattfrjáls þó að hún „jafngildi oft til búdrýginda mikilli tekjuöflun“.248 Þessar breytingar á skattalögum áttu vafalaust nokkurn þátt í að auka atvinnuþátttöku giftra kvenna sem fór hraðvaxandi á þessum tíma. Þetta var orðað svo í greinargerð með lagafrumvarpi um þessi mál: „atvinnuhættir hafa breytzt á þá leið, að konum hafa, svo að segja með hverju ári, sem liðið hefur, boðizt fleiri og meiri tækifæri til tekjuöflunar en áður, og komið hafa jafnframt til sögunnar heimilistæki, sem gera heimilisstörfin fljótunnari, svo að konur eiga þess vegna betur heimangengt en áður“.249 Smám saman var svo farið að líta á það sem sjálfsagt mál að konur ynnu utan heimilis, einnig giftar konur. En hugmyndir um ábyrgð foreldra, karla og kvenna, breyttust ekki í samræmi við þessar breytingar. Þó að bæði hjón ynnu utan heimilis var áfram litið svo á að konan bæri fyrst og fremst ábyrgð á heimilisstörfunum. Álag á konur varð því iðulega mun meira en á karlana.250
Loks kom að því árið 1961 að samþykkt voru lög á Alþingi um launajafnrétti kynjanna. Raunar komu fram tvö frumvörp þessa efnis árið 1960, hið fyrra flutt af Hannibal Valdimarssyni og fleiri þingmönnum Alþýðubandalagsins, en hið síðara lagt fram af nokkrum þingmönnum Alþýðuflokksins og stutt af ríkisstjórninni þó að það væri ekki stjórnarfrumvarp. Alþýðusambandið mælti reyndar ákveðið gegn samþykkt þess en hvatti til þess að frumvarp forseta sambandsins, Hannibals, yrði samþykkt, enda gekk það mun lengra. Sambandið áleit að taka ætti þennan áfanga í einu skrefi en ekki á sex árum, eins og frumvarp Alþýðuflokksins gerði ráð fyrir.251 Samtök atvinnurekenda mæltu einnig gegn samþykkt þess, en af öðrum ástæðum, og töldu æskilegra að taka ákvæði um þessi efni inn í kjarasamninga. Auk þess bentu þau á að alkunna væri að afköst kvenna við mörg störf væru mun minni en karla og hætta væri á að þeim yrði haldið frá vinnu ef greiða þyrfti þeim sömu laun og körlum. Kvenréttindafélagið og fleiri samtök kvenna voru frumvarpinu meðmælt.252 Að sögn Jóhönnu Egilsdóttur, formanns Framsóknar, var samið um að lög þessa efnis yrðu sett við myndun Viðreisnarstjórnarinnar þrátt fyrir andstöðu atvinnurekenda innan Sjálfstæðisflokksins. Löngu síðar lýsti Jóhanna atburðum svo á dramatískan hátt:
Þegar viðreisnarstjórn Alþýðuflokksins og Sjálfstæðisflokksins var mynduð, var það skilyrði okkar verkakvenna fyrir stuðningi við stjórnarsamstarfið, að Sjálfstæðisflokkurinn styddi frumvarp um sömu laun fyrir sömu vinnu. Þegar til kastanna kom, varð uppi fótur og fit meðal atvinnurekenda innan Sjálfstæðisflokksins. Þá reis Ólafur Thors á fætur, barði í borðið og sagði: „Ég hef lofað þessu, og ég stend við það.“253
253 Gylfi Gröndal 1980, 169–170.
Nauðsynlegt var talið að setja lög um þessi efni í stað þess að um þau væri samið í kjarasamningum, að sögn flutningsmanna lagafrumvarpsins. Það væri vegna þess að
verkakvennafélögin hafa ekki bolmagn til að knýja fram kröfuna um launajafnrétti. Á það m.a. rætur sínar að rekja til þess, að konur geta ekki sinnt málefnum stéttarfélags síns á sama hátt og karlar, þar sem þær eru svo bundnar við húsmóðurstörfin og önnur heimaverkefni. Konurnar hafa líka minni áhuga á kjaramálum en karlar, þar sem þær reikna flestar með því að taka ekki þátt í atvinnulífinu nema um nokkurra ára skeið, en að því loknu helga sig algerlega húsmóðurstörfunum.254
254 Alþingistíðindi 1960 A, 240.
Hér birtust því enn þau viðhorf að konur væru ekki fullgildir þátttakendur í atvinnulífinu. Samkvæmt lögunum frá 1961 átti fullur jöfnuður á milli launataxta karla og kvenna við sömu vinnu að nást á sex árum, fyrir 1. janúar 1967. Sett var á stofn jafnlaunanefnd í því skyni að vinna að þessu markmiði. Nefndin átti að vera skipuð þremur mönnum og tók hún til starfa 1. nóvember 1961. Þá tóku sæti í henni þrír karlar, þeir Hannibal Valdimarsson fyrir hönd ASÍ, Barði Friðriksson fyrir hönd Vinnuveitendasambandsins og Hjálmar Vilhjálmsson, ráðuneytisstjóri, tilnefndur af félagsmálaráðuneytinu. Samkvæmt lögunum áttu stéttarfélögin að sækja um til nefndarinnar að laun kvenna, sem félögin störfuðu í umboði fyrir, hækkuðu um sjöttung þess munar sem væri á launum þeirra og karla sem ynnu sambærileg störf. Á þennan hátt átti að ná jöfnum launum karla og kvenna í sömu störfum á sex árum, sem fyrr segir.255 Gengið var eftir því hjá verkalýðsfélögunum að þessum jöfnuði yrði náð og áhuginn var ekki meiri en svo að það þurfti að hafa samband við „mörg félög út um land“ sem sinntu málinu ekki.256
Einstök verkalýðsfélög urðu reyndar á undan löggjafanum og stofnunum þess til að jafna taxta á milli karla og kvenna, enda hafði verkakvennahreyfingin barist lengi fyrir því að fá bætt laun sín til jafns við laun karla. Þar kom til sögu bæði verkakvennahreyfingin og Kvenréttindafélagið, eins og nánar er fjallað um í fyrra bindi þessa verks. Á Siglufirði náðist sá áfangi árið 1961 að hætt var að gefa út sérstaka taxta fyrir annars vegar karla og hins vegar konur. Í stað þeirra áttu að gilda taxtar fyrir verkafólk við tiltekin störf. Verkakvennafélagið Brynja og Verkamannafélagið Þróttur náðu þessu þrepi í kjarasamningum þá um sumarið. Í kjölfarið smáfjölgaði þeim stöðum og félögum sem hættu að aðgreina kauptaxta eftir kynjum, ekki síst eftir samþykkt laga um launajafnfrétti kynjanna, sem að ofan greinir.257
Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð mun hlutfall launa kvenna hafa verið um eða ríflega tveir þriðju af launum karla um þetta leyti. Í fyrstnefnda landinu gerði hreyfing verkakvenna ítrekaðar tilraunir til þess á sjötta og sjöunda áratugnum að ná því fram að launataxtar væru ekki kynbundnir en án árangurs, þó að vissulega væru stigin skref í þá átt. Loks náðust samningar um þetta í Danmörku árið 1973. Í Svíþjóð og Noregi voru sérstakir kvennataxtar aflagðir á sjöunda áratugnum.258 Íslensk verkalýðshreyfing var því í takt við gang mála í þeim löndum sem Íslendingar tóku sér helst til fyrirmyndar.
Öll sérákvæði um laun kvenna hurfu úr samningum stéttarfélaganna árið 1967, aðeins voru taxtar fyrir tiltekna vinnu án tillits til þess hvort starfið væri unnið af karli eða konu.259 Vonir voru bundnar við að á þennan hátt tækist að afnema launamisrétti á milli karla og kvenna þegar á sjöunda áratugnum. En þegar frá leið kom þó í ljós að það hafði ekki tekist. Áfram var mikill launamunur á milli kynjanna, ýmist á þann hátt að karlarnir voru yfirborgaðir eða að þeir fengu greitt samkvæmt hærri töxtum en konurnar. Ástæðan var m.a. sú að störf kvenna voru yfirleitt flokkuð í lægri launaflokka en störf karla, enda var ekki gert neitt starfsmat hér á landi eins og víða í nágrannalöndunum. Launamunur karla og kvenna fyrir svipuð störf var því enn umtalsverður um 1970. Taka má launamál verslunarfólks sem dæmi. Innan Verzlunarmannafélags Reykjavíkur voru t.d. 12 launaflokkar. Konur voru flestar í lægri flokkunum en karlar í þeim hærri. Tæpur helmingur karla sem vann við þessi störf hafði þó hærri laun en hæsti launaflokkur sagði til um.260 Ástandinu var lýst svo að algengt væri að „kona, sem vön er að hlaupa í ýmis störf á skrifstofunni, kenni ungum, nýbyrjuðum sveini eitt af þessum verkum og áður en hún veit af, er hann kominn langt upp fyrir hana í launum og stöðu“.261 Tilhneigingin var því sú að raða konum á lægri taxta en körlum á þá hærri og átti þetta við um flest svið samfélagsins. Þannig var launamisrétti viðhaldið, en vitaskuld komu margir aðrir þættir við sögu (yfirborganir, yfirvinna o.s.frv.). Lögin um launajafnrétti urðu því aðeins áfangi á leið en ekki endanlegur sigur, eins og fullyrt var, þó mikilvægum áfanga væri náð.262
Ástandið var svipað annars staðar, eins og Jóhannes Siggeirsson benti á í grein í Vinnunni árið 1975. Þar fjallaði hann um stöðu mála hjá almennu verkafólki í Reykjavík. Almennir kauptaxtar væru fjórir hjá Verkakvennafélaginu Framsókn en sjö hjá Verkamannafélaginu Dagsbrún. Taxtar félaganna væru sambærilegir, en ekki væri gert ráð fyrir að konur ynnu við störf sem þrír efstu taxtar Dagsbrúnar næðu yfir. Það væru „störf sem væru talin sérlega vandasöm, erfið og/eða óhreinleg, svo sem stjórn þungavinnuvéla, handlöngun hjá múrurum og múrbrot með lofthömrum“. En fleira kæmi til. Yfirborganir væru mun tíðari hjá verkamönnum en verkakonum og samkvæmt athugunum væri tímakaup karla um fjórðungi hærra en kvenna árið 1974. Svipuð niðurstaða varð þegar gerð var athugun á launum fólks sem vann hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga.263 Hjá bankamönnum var sömu sögu að segja – í lægstu launaflokkunum voru nánast eingöngu konur. Þeim smáfækkaði svo eftir því sem launin hækkuðu og í efsta þrepi voru nánast engar konur.264 Vandamál var m.a. að starfsreynsla kvenna sem húsmæðra var einskis metin. Það breyttist þó á ofanverðum áttunda áratugnum.265
tímakaup verkakvenna í dagvinnu sem
Samkvæmt athugunum á meðaltímakaupi verkakvenna og verkamanna á árabilinu 1971–1984 var hlutfall launa kvenna af launum karla á bilinu frá 75%–85% og konurnar virtust saxa hægt og bítandi á forskot karla á þessu árabili.266 Árið 1986 var gerð könnun á högum fólks til þess að komast að því hver væru raunlaun þess. Markmiðið var að gera þá kröfu í komandi kjarasamningum, sem lausir voru um áramótin 1986–1987, að færa taxtalaun sem næst raunlaunum. Í ljós kom að víða var verulegur munur á milli greiddra launa og kauptaxta, en líka var mikill munur á heildarlaunum karla og kvenna.267 Samkvæmt athugunum hafði munurinn jafnvel aukist í sumum greinum í þenslunni sem var á ofanverðum níunda áratugnum, en sú tilhneiging virðist skýr að launamunur kynjanna eykst við þau skilyrði, enda taka karlar fremur yfirvinnu og virðast fremur eiga kost á yfirborgunum.268 Sú skýring var einnig sett fram að samflotin sem lengi höfðu tíðkast við gerð kjarasamninga væru óhagstæð konum. Þegar konur gerðu kröfu um að laun karla og kvenna væru jöfnuð væri þessum kröfum oftar en ekki ýtt út af borðinu sem sérkröfum en þess í stað hefðu forgang almennar kröfur þar sem allir hækkuðu jafnt.269
En orsakir launamunarins voru fleiri, eins og Lára V. Júlíusdóttir, lögfræðingur ASÍ, benti á árið 1987. Ástæðurnar voru líka þær, að hennar mati, að störf á almennum vinnumarkaði voru „að verulegu leyti kyngreind“. Lára staðhæfði að val kvenna á störfum væri fremur einhæft miðað við val karla en flestar konur veldu sér störf innan 20–30 starfsheita en karlar innan 200–300 starfsheita. Þá væru kvennastörfin almennt lágt metin til launa. En Lára benti jafnframt á að stórt skref í átt til launajafnréttis væri að draga úr yfirvinnu vegna þess að launamunur fólks væri mun minni ef eingöngu væri tekið tillit til dagvinnunnar. Stór hluti launamunarins væri fólginn í greiðslum umfram dagvinnukaupið.270 Raunar má velta fyrir sér hvort um hafi verið að ræða „val“ hjá konum í tiltekin störf. Mátti ekki eins segja að þær hafi verið valdar í ákveðin störf?
Launamunurinn hafði lítið breyst þegar komið var fram á tíunda áratuginn, eins og kom skýrt fram í könnun sem Kjararannsóknanefnd lét gera og birtist árið 1992. Samkvæmt henni höfðu konur í fullu starfi um 40% lægri árstekjur en karlar. Þar kom líka fram að þessi munur var ekki séríslenskur, eins og fyrr hefur verið nefnt, og á honum voru margar skýringar en ekki ein (vinnutími, lægra kaup, yfirborganir o.s.frv.).271 Hann var í takt við það sem algengast var í flestum eða öllum vestrænum löndum. Á kvennaráðstefnu Alþjóðasambands frjálsra verkalýðsfélaga, sem var haldin í Ottawa árið 1991, kom í ljós að þá var algengt að heildarárslaun kvenna fyrir fulla vinnu væru á bilinu frá ríflega 60% til tæplega 80% af launum karla og óútskýrður launamunur var víðast í kringum 10%. Einnig kom í ljós á ráðstefnunni að launamunurinn hefði lítið breyst þrátt fyrir að mikið hefði verið unnið að því að draga úr honum.272
Almennt hefur verið talið að staða í þessum málum væri betri á Norðurlöndum en víðast annars staðar í heiminum. Ísland hefur þó oft haft sérstöðu innan Norðurlandanna hvað varðar laun og félagsleg réttindi, eins og Hildur Jónsdóttir, verkefnisstjóri norræns jafnlaunaverkefnis hérlendis 1989–1993, benti á í viðtali við Vinnuna árið 1991. Hún fullyrti að umræða um jafnréttismál og launamál kvenna væri skemmra á veg komin hérlendis en á hinum Norðurlöndunum og væri ástæðan ekki síst sú að kauptaxtar hefðu ekki sama gildi hérlendis og þar. Þar væru þeir raunverulegt viðmið en hér miklu fremur lágmarksviðmið og yfirborganir því algengari. Þær kæmu karlmönnum mun oftar til góða en konum. Þá hefðu stjórnvöld fylgt lagasetningu um jafnréttismál slælegar eftir hérlendis en í nágrannalöndunum.273
Árið 1999 var gerð launakönnun á meðal verslunarfólks og kom þá í ljós að karlar höfðu 30% hærri laun en konur að meðaltali en kynbundinn launamunur var talinn nema um 18%. Samkvæmt athugunum virtist því launamunur karla og kvenna lítið hafa minnkað um árabil. Aðrar kannanir sem voru gerðar á fyrstu árum 21. aldar bentu til hins sama, að verulegur launamunur væri á milli karla og kvenna.274 Í könnun frá 2006 kom fram að óútskýrður launamunur hérlendis væri frá 7–18% en munur á heildarlaunum karla og kvenna væri miklu meiri.275 Það var því greinilega verk að vinna fyrir verkalýðshreyfinguna á þessu sviði á öndverðri 21. öldinni, eins og sagði í ályktun ársfundar ASÍ frá 2004: „Þar sem karlar eru yfirgnæfandi meirihluti á fundum hjá aðilum vinnumarkaðarins eru jafnréttismál og launamunur kynjanna yfirleitt ekki þar mikið til umræðu. Þar er frekar rætt um stöðu efnahagsmála hverju sinni.“276
Forseti kvað þróunina vera í þá átt, að vinnuhagræðing á vísindalegum faglegum grundvelli, verði tekin upp í ríkari mæli, því væri okkur nauðsynlegt að eignast hæfa menn á þessu sviði. (Hannibal Valdimarsson á fundi í miðstjórn ASÍ 18. júní 1964.)277Björgvin Sigurðsson taldi vafasamt af verkalýðshreyfingunni að gera kröfu um aukna ákvæðisvinnu, því reyndin sýndi að það væri atvinnurekandinn sem hefði áhuga á að pressa út meiri vinnu hjá launþeganum með svokölluðu bónuskerfi. Varast bæri þær raddir og það sem hefði mátt lesa í blöðum að stytting vinnudagsins yrði gerð í áföngum á mörgum árum, eins og var með launajafnréttismálið og þar með komið í veg fyrir að ná þeim árangri á styttri tíma með samningum. (Björgvin Sigurðsson á kjaramálaráðstefnu ASÍ í mars 1965).278
277 ÞÍ. Fundargerðabók miðstjórnar 1963–1965, 72. Sögus. verkal.
A01: 12/3. Yfirstjórn ASÍ. Miðstjórn.278 ÞÍ. Fundargerðabók miðstjórnar 1963–1965, 177–178. Sögus.
verkal. A01: 12/3. Yfirstjórn ASÍ. Miðstjórn.
Þegar á millistríðsárunum var farið að rannsaka hvernig nýta mætti vinnutíma verkafólks betur í þeim löndum sem voru lengst komin í iðnvæðingu. Eftir síðari heimsstyrjöldina vaknaði fljótt áhugi á þessu efni á ný, einnig hér á landi.279 Fyrr í þessu riti hefur verið nefnt að svokallaðri vinnutímanefnd, sem einnig var kölluð áttatímanefnd, hafi verið komið á laggirnar á öndverðum sjöunda áratugnum. Hún hafði það meginverkefni að kanna hvernig mætti stytta vinnutíma launafólks með aukinni hagræðingu. Í því samhengi gerði hún m.a. tillögu til félagsmálaráðherra þess efnis að hið opinbera kostaði nám fulltrúa samtaka launafólks og vinnuveitenda til þess að auka mætti hagræðingu á vinnustöðum. Álitið var að á þann hátt mætti einna helst stytta vinnutíma og var Iðnaðarmálastofnun falið að hafa forystu um að koma þessum málum í framkvæmd. Miðstjórn ASÍ samþykkti á fundi sínum í september árið 1962 að hún væri fylgjandi því að auka hagræðingu í atvinnulífinu sem mætti verða bæði launafólki og atvinnurekendum til góðs: „Fullkomnari þjónustu beggja við þjóðfélagið.“280 Hugsunin var sú að rannsaka störf manna og tímamæla þau og var markmiðið að fjarlægja óþarfa ferla sem lengdu vinnutíma við tiltekin verk.281
Iðnaðarmálastofnun skipulagði ferð fulltrúa frá samtökum atvinnurekenda og launafólks til Norðurlanda til þess að þessir aðilar gætu kynnt sér hvernig þessum málum væri háttað annars staðar. Samhliða, árið 1963, komu aðilar vinnumarkaðarins sér saman um að skipa nefnd sem átti að setja saman leiðbeiningar um þessi efni og voru þær gefnar út árið 1965 undir titlinum: Leiðbeiningar um undirbúning og framkvæmd vinnu-rannsókna.282 Þær áttu að verða grundvöllur að því að koma á afkastahvetjandi launakerfi á vinnustöðum. Í Leiðbeiningunum sagði m.a.:
Þau samtök launþega og atvinnurekenda, sem að leiðbeiningum þessum standa, eru sammála um, að varðveizla og efling lífskjara þjóðarinnar, þar með talin trygging fyrir fullri atvinnu, séu undir samkeppnishæfni atvinnuveganna komin. Þar sem samkeppnishæfnin er háð vaxandi framleiðniaukningu, er það sameiginlegt hagsmunamál allra, að jafnframt nánara samstarfi þeirra aðila, er að framleiðslunni starfa, sé unnið að stöðugum endurbótum á vinnuaðferðum og launafyrirkomulagi í því skyni að bæta nýtingu véla, hráefna og vinnuafls.283
283 Leiðbeiningar um undirbúning og framkvæmd vinnurannsókna,
1965, 1.
Í kjölfar þessa var sett á stofn Hagræðingardeild ASÍ og voru fyrstu hagræðingarráðunautar sambandsins komnir til starfa árið 1965. Deildin starfaði af allmiklum krafti í fyrstu, í samvinnu við verkalýðsfélögin, við námskeiðshald og kynningu, m.a. með námskeiðum fyrir trúnaðarmenn. Að fáum árum liðnum fór þó að draga úr starfseminni. Starfsmenn deildarinnar hurfu til annarra starfa, enda ágreiningur við forystu ASÍ um framhaldið. Sumir starfsmennirnir töldu nauðsynlegt að tryggja starfsemi deildarinnar betur en álitu forystu ASÍ ekki hafa skilning á því. Þessu starfi var þó haldið áfram og lengst starfaði Bolli B. Thoroddsen að þessum verkefnum fyrir Alþýðusambandið, en einnig unnu fleiri starfsmenn að þessum málum.284 Þegar Bolli fór á eftirlaun árið 2002 var starfsemin færð til Starfsgreinasambandsins, enda hafði þessi þjónusta fyrst og fremst verið fyrir aðildarfélög þess og félagsmenn.
Í því skyni að bæta vinnubrögð og afköst áttu að fara fram vinnurannsóknir til þess að kanna alla þætti vinnunnar og sjá þar með hvað betur mætti fara. Gera átti athuganir á töfum sem yrðu í sambandi við vinnuna og áætla hver væri sá máls- eða staðaltími sem færi í að leysa tiltekið verk af hendi.285 Þrátt fyrir góð áform fór svo að megináherslur á þessu sviði beindust að launaþætti vinnunnar, miklu fremur en því að stytta vinnutímann, bæta tækni, skipulag og anda á vinnustað eða annað það sem stuðlað gæti að betri vinnuaðstæðum. Annars vegar voru sjónarmið atvinnurekenda sem vildu lækka launakostnað samhliða því að auka afköst en hins vegar verkalýðshreyfingarinnar sem vildi ná fram hærri launum fyrir umbjóðendur sína.286 Segja má að þessi sjónarmið hafi verið á skjön við upphafleg markmið. Vinnuhagræðingin átti fyrst og fremst að leiða til þess að vinnutíminn væri styttur en ekki að álagið væri aukið eins og raunin varð.287
Á miðjum sjöunda áratugnum var víða farið að huga að því að koma á afkastahvetjandi launakerfum, í fyrstu einkum í frystihúsum, með það ekki síst í huga að stytta vinnutímann. Þess ber þó að geta að ákvæðisvinna hafði áður verið innleidd í ýmsum greinum byggingariðnaðar, t.d. hjá trésmiðum og múrurum.288 Um og eftir 1970 breiddist ákvæðisvinnukerfið hratt út, sérstaklega í fiskiðnaði, og gerðir voru um það sérstakir samningar. M.a. voru sett ákvæði um hámarksvinnutíma í bónus og að unglingar yngri en 16 ára mættu ekki vinna við þessi störf.289 Afköstin jukust og heildarlaunin hækkuðu en vinnuálagið jókst líka. Launakerfi af þessu tagi náðu fyrst og fremst til ófaglærðs verkafólks, a.m.k. í fyrstu, einkum kvenna í frystihúsunum.290
Innan verkalýðshreyfingarinnar var deilt um réttmæti þess að koma á afkastahvetjandi launakerfum. Viðhorf forystu ASÍ til þessara hugmynda var í aðalatriðum jákvætt og sum stéttarfélög höfðu frumkvæði að því að koma á afkastahvetjandi launakerfum í starfsgreinum umbjóðenda þeirra. Konur innan verkalýðshreyfingarinnar höfðu þó frá öndverðu fyrirvara á þessum tillögum. M.a. hvatti Herdís Ólafsdóttir frá Akranesi til þess þegar árið 1963 að „ekki yrði gengið fram hjá konum við undirbúning þess máls“.291 Lítið fór þó fyrir því samráði. Um 1970 fór gagnrýni á þessar aðferðir vaxandi og gekk svo langt að miðstjórn ASÍ samþykkti að „láta rannsaka framkvæmd bónuskerfis í fiskiðnaði“ og kanna hvað væri hæft í ásökunum á forystu verkalýðshreyfingarinnar í því sambandi. Í kjölfar þess var gert nýtt samkomulag árið 1972 þar sem eitthvað var komið til móts við gagnrýnina.292 En einnig var bent á að gagnrýni á ákvæðisvinnukerfið hefði oft einkennst „meira af ofstæki en raunsæi“ og að „áróður“ gegn því kæmi mest frá „aðilum sem ekki hafa unnið „bónusvinnu“ og þekkja hana því ekki“. Bolli B. Thoroddsen staðhæfði árið 1973 að þorri þess fólks sem hefði kynnst vinnu af þessu tagi vildi halda henni áfram að eigin ósk.293
Stuðningur verkalýðshreyfingarinnar við afkastahvetjandi launakerfi byggði ekki síst á því að hér var fetað í fótspor verkalýðshreyfingarinnar á hinum Norðurlöndunum, en ákvæðisvinna hafði verið mikilvægur liður í því að auka framleiðni á sjötta og sjöunda áratugnum þar um slóðir. Í Noregi störfuðu t.d. um þrír fimmtu verkafólks í ákvæðisvinnu um þetta leyti sem var mjög ólíkt því sem var hér á landi.294Á áttunda og níunda áratugnum hækkaði bónushlutur af launum fiskverkafólks hér á landi úr um það bil fimmtungi í tæplega þriðjung og reyndist erfitt að ná fram kröfum um hækkun fastalaunanna í fiskvinnslu á kostnað bónussins.295 Bónuskerfi voru orðin útbreidd í frystihúsum hérlendis fyrir 1980, en þó voru þess einnig dæmi um þetta leyti að bónusinn væri aflagður og tekin upp tímavinna í staðinn. Það var til dæmis gert í Keflavík og Hafnarfirði.296 Verkalýðshreyfingin lagði sitt af mörkum með því að standa fyrir námskeiðum fyrir trúnaðarmenn um afkastahvetjandi launakerfi víða um land til þess að sinna þessum málum.297
Konur unnu langmest í ákvæðisvinnu og voru um 90% þeirra sem voru í slíkri vinnu á öndverðum áttunda áratugnum. Flestar þeirra störfuðu í fiskiðnaði og þar var vinnutími að jafnaði langur. Þing Alþýðusambandsins ályktaði árið 1972 að banna ætti ákvæðisvinnu umfram átta stundir, enda væri óhæfilegt að „konurnar, húsmæður heimilanna, helsti uppeldisaðili barna og ungmenna þjóðarinnar, skuli undir auknu vinnuálagi og taugaspennu, sem fylgir ákvæðis- og bónusvinnu, gert að vinna þannig, jafnvel 12–16 klst. á sólarhring, ef atvinnurekandi taldi sig hafa þörf fyrir það“.298 Margir staðhæfðu einmitt að ákvæðisvinnan færi illa með heilsu fólks: „Það kunna ekki allir að haga sér eftir þessu kerfi. Ýmsir taka þetta svo alvarlega að hætt er við að þeir bili á taugum,“ sagði verkamaður í viðtali við Vinnuna árið 1977.299 Trúnaðarkona í Vestmannaeyjum sagði árið 1979 að bónusinn hefði haft slæm áhrif á starfsandann: „Mórallinn á vinnustað þar sem unnið er eftir bónuskerfi, verður ákaflega leiðinlegur. Metingur og rifrildi allt of ríkur þáttur í samskiptum fólks … Auk þess er ég sannfærð um að andlegt og líkamlegt ástand kvennanna yrði mun betra, ef bónus yrði aflagður.“300Opinberar stofnanir bentu einnig á vankanta sem fylgdu miklu vinnuálagi í bónusnum. Í grein á vegum Vinnueftirlitsins sagði m.a. að það væri ekki tilviljun að umræða um heilsu verkakvenna tengdist oft afkastahvetjandi launakerfum:
Það hefur oft komið í ljós að konur veljast einkum í störf sem einkennast af einhæfni, vinnuhraða og bónuskerfum, auk þrálátrar stöðu og setu. Frá nýlegum erlendum rannsóknum vitum við að með vaxandi hraða og mikilli útbreiðslu slíkrar vinnu, hafa til langs tíma komið fram alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar hjá stórum hópi kvenna. Hér er um að ræða vandamál sem löngum hafa ekki verið talin til sjúkleika, hvorki í tryggingalegum né læknisfræðilegum skilningi. Með vaxandi útbreiðslu hefur heilsutjón af þessu tagi þó notið ákveðinnar viðurkenningar. Hér er t.d. um að ræða vöðvabólgur, ýmsa gigt, vægar blóðrásartruflanir svo sem handadofa og fótkulda, höfuðverk, o.fl.301
301 Vinnan XXXIII (1983) 3. tbl., 11.