Starfskonur sem unnu í tengslum við þing ASÍ árið 1962, líklega einkum við matseld og þjónustustörf.
Rauðsokkahreyfingin kom eins og stormsveipur inn í umræðu um jafnréttismál um 1970. Hreyfingin lét fyrst opinberlega að sér kveða í 1. maí-göngu árið 1970 við takmarkaðan fögnuð þeirra sem stóðu að göngunni. Hún tók til umræðu margvísleg hagsmunamál kvenna og krafðist breytinga á hinni hefðbundnu verkaskiptingu karla og kvenna að konur fengju áhrif til jafns við karla.1 Þegar leið á áttunda áratuginn dró smám saman úr starfi Rauðsokkahreyfingarinnar.
Kvennafrídagurinn 24. október árið 1975 hafði mikla þýðingu fyrir jafnréttisbaráttu kvenna á þessum árum. Konur úr ólíkum áttum tóku sig þá saman og undirbjuggu eins dags verkfall, auk útifundar og kröfugöngu, en 24. október var jafnframt alþjóðlegur kvennadagur Sameinuðu þjóðanna. Áætlað var að um 90% íslenskra kvenna hefðu lagt niður vinnu og að um 25 þúsund manns hefðu mætt á útifund í miðborg Reykjavíkur þann dag. Því var lýst svo að aldrei áður hefði „umræða um stöðu kvenna, um jafnrétti og mismunun kynjanna verið jafn ofarlega á baugi“. Þá hefðu fæstar konur komist hjá því að „hugleiða stöðu sína og karlar urðu að hlusta á“.2 Framganga Aðalheiðar Bjarnfreðsdóttur vakti mikla athygli en hún var þá nýlega komin í forystusveit Sóknar og var meðal ræðumanna á útifundinum. Í kjölfar fundarins var m.a. ráðist í að láta gera könnun á lífskjörum og högum Sóknarkvenna sem Auður Styrkársdóttir stóð fyrir árið 1976. Hún varð síðar m.a. sá grunnur sem kjarabarátta Sóknarkvenna byggði á næstu árin.3
Árið 1983 gekkst samband alþýðuflokkskvenna fyrir ráðstefnu um kjaramál kvenna á vinnumarkaðnum. Þar voru haldin erindi um kjör kvenna og launamisrétti, og í lok ráðstefnunnar var samþykkt að boða til þverpólitísks samstarfs um launamál kvenna á vinnumarkaði. Í framhaldi af því var stofnuð framkvæmdanefnd um launamál kvenna og áttu sæti í henni fulltrúar allra helstu launþegasamtaka í landinu, einnig stjórnmálaflokkanna og ýmissa kvennasamtaka.4 Ástæðan fyrir stofnun hennar var að líkindum m.a. sú að konur höfðu engan samstarfsvettvang innan ASÍ, þar var ekkert „kvindeudvalg“ eins og lengi hafði verið í sumum hinna Norðurlandanna og heldur ekki „kvindesekretær“ sem hafði umsjón með málefnum kvenna.5 Slíkt fyrirkomulag var ekki tekið upp hér á landi fyrr en eftir aldamótin 2000 með skipun jafnréttisfulltrúa.
Framkvæmdanefndin hafði m.a. frumkvæði að því að kalla saman konur sem sátu í samninganefndum vegna kjarasamninga sem fóru fram síðla árs 1983, og hún fundaði með konum sem unnu að kjaramálum innan stéttarfélaganna. Þá var boðað til fundaherferðar víða um land snemma árs 1984 um kjaramál kvenna.6 Í tengslum við Alþýðusambandsþingið 1984 boðaði framkvæmdanefndin til hádegisverðarfundar með þeim konum sem sátu á þinginu og komu um 170 konur á fundinn.7 Nefndin var því kraftmikil og stóð fyrir fjölmennum fundum um margvísleg málefni kvenna, bæði á vinnumarkaði og utan hans.8 Hún stóð einnig fyrir útgáfu skýrslu um launamun karla og kvenna árið 1985 þar sem enn var staðfest að mikill óútskýrður munur væri á launum kynjanna. Karlar við verslunarstörf voru t.d. með tæplega þriðjungi hærra meðaltímakaup en konur.9
Um þetta leyti urðu einnig til Samtök kvenna á vinnumarkaði, stofnuð í árslok 1983, í kjölfar ráðstefnu sem haldin var síðla sama árs í Reykjavík. Markmið samtakanna var að vinna að auknum áhrifum kvenna innan verkalýðshreyfingarinnar og gegn launamisrétti í landinu.10 Samtökin voru grasrótarsamtök, þar gat hver kona sem hafði áhuga á kjaramálum kvenna gengið inn. Ein stofnenda var Bjarnfríður Leósdóttir sem hafði mikla reynslu af því að starfa innan Verkamannasambandsins og Alþýðusambandsins. Hún og fleiri höfðu gagnrýnt hversu skarðan hlut konur bæru frá borði þessara sambanda og að ekki væri tekið tillit til krafna þeirra.11
Bjarnfríður taldi mjög að sér vegið í starfi sínu innan Verkamannasambandsins og hrökklaðist að lokum frá starfi þar.12 Þegar ljóst varð að hún hafði ekki náð kjöri til sambandsstjórnar Verkamannasambandsins á þingi þess í Vestmannaeyjum árið 1983 dró Herdís Ólafsdóttir, formaður kvennadeildar Verkalýðsfélags Akraness, þá ályktun að konur ættu því aðeins færa leið til forystustarfa innan verkalýðshreyfingarinnar að þær hefðu sig hægar: „En konur skulu þegja á safnaðarfundum, segir í biblíunni, og í verkalýðshreyfingunni skal kona þegja svo hún sé gjaldgeng í stjórnir sambanda.“ Herdís benti jafnframt á að kona hefði aldrei átt sæti í stjórn Sambands almennu lífeyrissjóðanna sem hafði starfað í áratug um þetta leyti.13
En baráttan fyrir aukinni virkni kvenna og ábyrgð innan verkalýðshreyfingarinnar var ekki auðveld. Rótgróin viðhorf um hlutverk kynjanna höfðu þar mikil áhrif og stundum birtust þau viðhorf í sjálfsásökunum hjá konum um að þær stæðu sig einfaldlega ekki nógu vel, væru ekki nógu virkar, legðu sig ekki nægilega vel fram. En mikið vinnuálag á konum skipti einnig miklu máli, enda urðu þær líka oft að sjá um öll heimilisstörf, auk þess að stunda vinnu utan heimilis. Að búa við slíkt álag hlaut að koma niður á þátttöku í félagslífi, einnig í stéttarfélögunum.14
Aukin barátta og samstaða kvenna skilaði árangri þó hægt gengi og árið 1984 samþykkti Alþýðusambandið róttæka ályktun um stöðu kvenna á vinnumarkaði. Samþykkt hennar var til marks um þá óþreyju sem var orðin ljós innan verkalýðshreyfingarinnar og samfélagsins almennt. Aðdragandinn var þannig að hópur kvenna á þinginu var óánægður með þau drög að ályktun sem fyrir lágu og gekkst fyrir því að semja sérstaka ályktun um stöðu kvenna á vinnumarkaði. Í ályktuninni var þess krafist að vinnuframlag kvenna yrði viðurkennt en jafnframt gagnrýnt að konum væri oft misboðið með miklu vinnuálagi. Það væri t.d. eftirtektarvert „að bónus, t.d. í fiskverkun og iðnaði sem stóreykur vinnuálag, er einkum tíðkaður í kvennastörfum“. Einnig var bent á að yfirborganir á taxta kæmu fyrst og fremst í hlut karla. Þá væri misrétti oft beitt við ráðningar fólks til starfa. Sérstaklega var mótmælt niðurlægjandi framkomu við konur sem væru að sækja um atvinnu. Staðhæft var að þær yrðu iðulega að sæta því að vera spurðar nærgöngulla spurninga og væru slíkar „spurningar um einkahagi sem engu svara um hæfni til starfa … til skammar“.
Með aukinni vitund kvenna um stöðu sína fengu kröfur þeirra smám saman aukinn stuðning og meiri þungi var lagður á að þær næðu fram að ganga, eins og t.d. krafan um greiðslurétt vegna fjarvista foreldra vegna veikinda ungra barna.15
Árið 1972 voru 15 þúsund konur í aðildarfélögum Alþýðusambandsins en 26 þúsund karlar. Þá var ein kona í 15 manna miðstjórn sambandsins og ein kona var í 18 manna sambandsstjórn.16 Á sama tíma var ein kona í 11 manna stjórn BSRB, en þá voru konur fjögur þúsund talsins af tæplega níu þúsund manna heildarfjölda þess sambands, eða tæplega helmingur. Svipað var ástandið annars staðar: Í Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur voru 55% félaga konur, en þær höfðu aðeins þrjá fulltrúa í 12 manna stjórn.17 Þegar athugun var gerð hjá ASÍ árið 1981 kom eftirfarandi í ljós: Í 15 manna miðstjórn ASÍ áttu sæti tvær konur. Varamenn í miðstjórn voru níu, þar af einnig tvær konur. Í skipulagsnefnd sambandsins sátu sjö karlar. Ástandið var lítið betra þegar litið var til einstakra verkalýðsfélaga. Á þessum tíma áttu 26 „blönduð“ félög beina aðild að ASÍ; þar af voru karlmenn formenn 22 félaga. Innan Verkamannasambandsins voru 35 „blönduð“ félög; 31 þeirra stýrðu karlmenn.18 Ástandið var þó að breytast og konur voru sums staðar að seilast til meiri áhrifa.19 En sú leið var ekki bein. Þegar Bjarnfríður Leósdóttir lagði fram tillögu á formannafundi ASÍ í mars 1981 þess efnis að nefnd vegna undirbúnings fyrir næstu kjarasamninga yrði skipuð konum og körlum til jafns, þá var tillagan felld með miklum mun.20
Árið 1984 var staða mála orðin sú að í blönduðum félögum innan ASÍ voru konur 40% stjórnarmanna og voru þær þá einnig um 40% félagsmanna. Á þingi sambandsins það ár fjölgaði konum í miðstjórn í sjö en áður var þar aðeins ein kona. En samhliða var fjölgað í miðstjórninni úr 15 í 21 og var staðhæft að ekki hefði tekist að lagfæra kynjahlutfallið nema á þennan hátt og ennfremur hefði þess verið gætt að fylgja „réttri“ pólitískri skiptingu þegar konurnar voru valdar í miðstjórnina. Á þessu þingi var Guðríður Elíasdóttir jafnframt kjörin 2. varaforseti sambandsins, fyrst kvenna. Konur voru að sækja í sig veðrið en vandinn var ekki síður sá að konur voru fáar í forystu einstakra félaga. Vegna þess að ASÍ var samband félaga en ekki einstaklinga hlaut forysta sambandsins að endurspegla stöðu forystumála hjá aðildarfélögunum, að minnsta kosti að hluta til. Segja má að ASÍ hafi jafnvel gengið á undan félögunum hvað þetta varðar.21
Um þessar mundir fjölgaði konum einnig í stjórnum „blandaðra“ landssambanda, en hjá sumum þeirra vantaði þó töluvert upp á að stjórnarseta kvenna væri í samræmi við hlutfall kvenna af heildarfjölda félagsmanna. Þannig voru um 75% af félagsfólki Landssambands iðnverkafólks konur en aðeins helmingur stjórnarmanna voru konur. Ástandið fór þó batnandi og þeim dæmum fjölgaði þar sem konur voru jafnvel í meirihluta stjórnar í „blönduðum“ félögum. Til dæmis voru bæði formaður og varafomaður Iðju á Akureyri konur, og konur voru í meirihluta í stjórninni árið 1984. Í stjórn Verslunarmannafélags Ísafjarðar voru um þetta leyti eingöngu konur.22 Á þingi ASÍ árið 1988 voru rétt um 38% fulltrúa konur, en þær voru þá 47% félagsmanna.23 Þess má geta að í Noregi var ástandið þannig árið 1989: Konur voru rétt um 40% félagsmanna innan norska alþýðusambandsins. Á þingi þess það ár voru 32% fulltrúa konur og í fulltrúaráði og í stjórnum sambandsins voru þær um fimmtungur fulltrúa. Staða mála var því ekki betri í Noregi en hér á landi, jafnvel verri.24
Ástandið var svipað innan ASÍ og hjá öðrum hérlendum stéttarsamböndum launafólks. Um áramótin 1983–1984 voru þrír af hverjum fimm félagsmönnum BSRB konur, en í stjórn BSRB, sem kosin var 1982, var ríflega þriðjungur konur og sömuleiðis á landsfundi samtakanna. Ekki var ástandið betra hjá Sambandi bankamanna árið 1984. Þá voru 70% félagsmanna konur en einungis ríflega þriðjungur kvenna í stjórn og varastjórn. Mest samræmi var hjá Bandalagi háskólamanna þar sem ríflega 20% félagsmanna voru konur. Af stjórnarfólki hjá samtökunum var um fimmtungur konur og sama hlutfall gilti einnig hvað varðar formenn aðildarfélaga. Í 60 manna stjórn Vinnuveitendasambandsins var engin kona árið 1984. Hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga var engin kona í 11 manna stjórn og af 39 kaupfélagsstjórum voru tvær konur.25
Alþýðusambandið hvatti til þess árið 1992 að hlutfall kvenna á ASÍ-þingi yrði ekki lægra en hlutfall kvenna innan sambandsins. Hlutfall kvenna í miðstjórn ASÍ hafði lengstum verið í kringum 10% frá 1964 til 1972, þó að undantekningar væru þar á. En árið 1976 fór þetta hlutfall hækkandi, var komið í tæp 20% það ár en var orðið þriðjungur árið 1992. Í sambandsstjórn var þróunin svipuð að undanskildu árinu 1992 þegar þrír fjórðu hlutar kjörinna fulltrúa í sambandsstjórn voru konur.26 Á hinn bóginn voru aðeins sex konur kjörnar í miðstjórn sambandsins, sem var valdamesta stofnun þess, og fækkaði þeim um eina miðað við fyrri miðstjórn. Það varð forystukonum innan hreyfingarinnar lítið fagnaðarefni.27 Stjórnarmenn í miðstjórn sambandsins voru 21 talsins. Þess má geta að á þessum tíma voru aðeins 13% þátttakenda á þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) konur.28 Greinilega var víða pottur brotinn á þessu sviði.
Frá um 1990 var eins og hægði á þróuninni og gekk hægt að auka hlut kvenna innan verkalýðshreyfingarinnar. Árið 1989 var til dæmis aðeins ein kona kjörin í framkvæmdastjórn Verkamannasambandins en átta karlar. Þannig stóðu mál að ári áður hafði sambandinu verið skipt niður í þrjár deildir og voru karlar kjörnir formenn þeirra allra. Þá voru sex sæti eftir og samkvæmt yfirsýn ráðamanna í sambandinu var ekki pláss þar fyrir nema eina konu.29 Árið 2005 var staðan þannig að hlutfall kvenna í stjórnum verkalýðsfélaga var um 30% og aðeins var kona í forystu fyrir einu af níu landssamböndum innan ASÍ á sama tíma. Enn verra var þó ástandið hjá atvinnurekendum en þar á bæ var aðeins um tíundi hluti kvenna í stjórn þess.30
Á ársfundi ASÍ árið 2004 var lögð áhersla á umræðu um jafnréttismál. Samþykkt var á fundinum að beina því til miðstjórnar sambandsins að móta markvissa jafnréttisáætlun. Fyrir ársfundinum 2005 ætti að liggja slík áætlun ásamt framkvæmdaáætlun sem aðildarfélög ASÍ gætu unnið eftir. Á ársfundinum var jafnframt ítrekað að gera þyrfti átak innan verkalýðshreyfingarinnar á þessu sviði, enda væri innan við þriðjungur kvenna í forystusveit stéttarfélaga.31 Um það leyti var einnig ráðinn jafnréttisráðgjafi (2005) og var Maríanna Traustadóttir fengin til starfsins.32 Markmiðið var að auka fræðslu um stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði og vinna að því að stéttarfélögin settu sér stefnu og áætlanir í jafnréttismálum, efla skyldi hlut kvenna innan hreyfingarinnar, vinna að því að útrýma kynbundnum launamun og fá atvinnurekendur til þess að leggja fram jafn réttisáætlanir og framfylgja þeim, svo nokkuð sé nefnt.33 Í þessu samhengi má nefna að kynjuð atvinnustefna virðist ekki hafa náð miklum skilningi innan verkalýðshreyfingarinnar enn sem komið er ef miðað er við þær kröfur sem hún hefur sett fram um atvinnuuppbyggingu í landinu undanfarin ár og áratugi.
Jafnréttisfulltrúi ASÍ lagði fram „kynjabókhald“ verkalýðshreyfingarinnar á ársfundi ASÍ árið 2006, en í því fólst m.a. að teknar voru saman upplýsingar um fjölda kvenna og karla í stjórnarstöðum innan verkalýðshreyfingarinnar. Samkvæmt því voru konur rétt tæpur helmingur félagsmanna ASÍ eða 47%, en 38% fulltrúa á ársfundi þess árs voru konur. Samkvæmt bókhaldinu voru 71% stjórnarmanna í Landssambandi íslenskra verslunarmanna konur, en 61% félagsmanna þar voru konur.34 Árið 2011 voru 40% aðalmanna í miðstjórn ASÍ konur en hlutdeild kvenna í stjórnum aðildarfélaga og deilda var 33%; hlutdeild þeirra var þó aðeins 19% í stjórnum landssambanda.35 Ljóst var að styrkja þurfti stöðu kvenna innan verkalýðshreyfingarinnar þó að mikið hefði líka áunnist.
Jafnréttishópur á vegum ASÍ beindi þeim tillögum til miðstjórnar ASÍ árið 2007 að hafa ætti eftirfarandi í huga í starfi hreyfingarinnar: að kynja- og jafnréttissjónarmið væru samþættuð við kröfugerðir félaganna; að hefðbundin kvennastörf og staða þeirra í kjarasamningum væru endurmetin; að fræðsla um ákvæði jafnréttislaga yrði aukin; að gert yrði átak á vegum einstakra félaga til að afla upplýsinga um launamun kynjanna, og að komið yrði á sérstakri sáttamiðlun til þess að leysa ágreiningsefni sem vörðuðu kynbundinn launamun.36 Þessari áskorun var einnig beint til stjórnvalda og var í kjölfarið skipaður starfshópur af félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra árið 2007 til þess að leita leiða til að draga úr og eyða óútskýrðum launamun og jafna stöðu karla og kvenna í stjórnum stofnana og fyrirtækja. Í starfshópnum voru fulltrúar frá ASÍ, SA og hinu opinbera.37
Í tengslum við gerð kjarasamninganna á almennum vinnumarkaði í febrúar 2008 var gerð bókun samtaka launafólks og atvinnurekenda um jafnréttismál þar sem samningsaðilar skuldbundu sig m.a. til að gera úttekt á launum karla og kvenna á vinnumarkaði, auka fræðslu um jafnrétti á vinnumarkaði og jafna möguleika kynjanna til starfa. Samhliða voru jafnréttislögin endurskoðuð.38 Í framhaldinu gerðu ASÍ, SA og félagsmálaráðuneytið samning við Staðlaráð Íslands um þróun sérstaks jafnréttisstaðals fyrir fyrirtæki.39
Eitt þeirra mála sem aldrei var rætt innan verkalýðshreyfingarinnar langt fram eftir 20. öld var kynferðisleg áreitni. Slík mál voru einfaldlega tabú og ekki til umræðu þar frekar en í samfélaginu almennt. Undir áhrifum frá alþjóðlegri verkalýðshreyfingu voru þessi mál tekin til umfjöllunar á ofanverðum níunda áratug aldarinnar. Alþjóðasamband frjálsra verkalýðsfélaga gaf m.a. út bækling um þessi efni um það leyti. Einnig var vakin athygli á þessum málefnum í Vinnunni og í kjölfar þeirrar umræðu jókst konum, sem höfðu orðið fyrir áreitni af þessu tagi, kjarkur. Í Vinnunni var farið að birta dæmi um áreitni og hótanir um brottrekstur ef stúlkur færu ekki að kröfum yfirmanns, áreitni sem byggðist á klúrum bröndurum, káfi og öðru slíku athæfi sem gat leitt til þess að viðkomandi konur yfirgáfu vinnustað sinn, hættu að þora að mæta í kaffistofu eða létu jafnvel undan ásælni. Sumar stúlkur kvörtuðu til stéttarfélaganna og dæmi voru um að karlar sem urðu berir að áreitni við konur á vinnustað væru kærðir fyrir athæfi sitt.40
En það tók tíma fyrir verkalýðshreyfinguna að læra að taka á málum af þessu tagi. Eitt slíkt mál kom upp í iðnfyrirtæki á Akureyri á ofanverðum níunda áratugnum. Stúlka sem varð fyrir áreitni kærði hana til Iðju, félags verksmiðjufólks á Akureyri. Kristín Hjálmarsdóttir, formaður Iðju, lýsti málavöxtum svo: „Maðurinn hafði sýnt stúlkunni áreitni með káfi og öðru og svo bað hann hana um að vinna eftirvinnu. Hann beið þar til aðrir voru farnir og þá ágerðist ásóknin þar til hann hótaði að reka hana léti hún ekki undan.“ Stúlkan leitaði til Iðju og bar sig skiljanlega ekki vel. Stéttarfélagið stóð fyrir því að tekið yrði á málinu „þannig að fjölskylda mannsins yrði ekki fyrir leiðindum og manninum var gefinn kostur á því að segja upp“.41 Gerandinn í málinu var því í raun ekki látinn taka nema takmarkaða ábyrgð á gerðum sínum. Fram kom í viðtali við fomann Iðju að maðurinn hefði „reynt þetta við fleiri starfsstúlkur fyrirtækisins en sennilega ekki komið fram vilja sínum“. Karlmaðurinn og yfirmaðurinn var því látinn njóta vafans í stað þess að kannað væri til hlítar hversu víðtækir og alvarlegir atburðir hefðu átt sér stað. Um þetta leyti höfðu hvorki komið fram kærur hérlendis vegna kynferðislegrar áreitni né fallið dómar. Þegar þessi mál voru könnuð nánar á Akureyri um þetta leyti (1987) kom í ljós að vandamálið var verulegt. Einnig fór fram könnun hjá starfsmönnum Reykjavíkurborgar á vegum jafnréttisnefndar borgarinnar þar sem könnuð voru störf og aðbúnaður kvenna. Í könnuninni kom fram að um 13% þeirra sem tóku þátt í henni töldu sig einhvern tíma hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað, þó ekki endilega við störf hjá borginni.42
Það var stórt skref þegar farið var að ræða um þessi mál og einstök stéttarfélög fóru að sinna þessu efni í vaxandi mæli. Til dæmis gaf Verzlunarmannafélag Reykjavíkur, í samvinnu við Félag íslenskra stórkaupmanna, út bækling og veggspjald um kynferðislega áreitni á vinnustað. Þá gaf Jafnréttisráð út rit um kynferðislega áreitni í samstarfi við ASÍ, BSRB og Vinnuveitendasambandið árið 1995 og var því víða dreift.43 Í könnun sem var gerð árið 1996 kom í ljós að 36% svarenda töldu sig hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað og var það hærra hlutfall en í Noregi og Svíþjóð.44 Þessar niðurstöður urðu síðar, ásamt fleiri þáttum, til þess að árið 2004 var gefin út reglugerð á vegum félagsmálaráðuneytisins um aðgerðir gegn einelti á vinnustöðum. Þá stóðu samtök launafólks og atvinnurekenda hér á landi að samningi á Evrópuvísu, sem staðfestur var árið 2007, um aðgerðir gegn einelti og ofbeldi við vinnu.45
Kynjuð atvinnustefna hefur vart þekkst á Íslandi. Þar sker Alþýðusambandið sig ekki frá öðrum samtökum eða hinu opinbera. Þessi afstaða – eða afstöðuleysi – kom t.d. skýrt í ljós á atvinnuleysisárunum eftir 1990. Árið 1993 voru um 2800 konur atvinnulausar en 2200 karlar. Þegar ríkisstjórnin veitti um einum milljarði króna til atvinnuskapandi verkefna fór mest af því fé í hefðbundin karlastörf, byggingar og mannvirkjagerð.
Aðeins 60 milljónir voru ætlaðar til atvinnusköpunar fyrir konur. Konur innan ASÍ gerðu athugasemdir við þessa ráðstöfun fjárins, m.a. innan miðstjórnar ASÍ. Lítið tillit var þó tekið til þeirra athugasemda.46 Hagfræðingur BSRB, Rannveig Sigurðardóttir, kallaði þessa ráðstöfun fjárins „brandara“, en hún var gerð í samráði við Vinnuveitendasambandið og forystu ASÍ. Rannveig kvað þetta „endurspegla gildismat karla. Fjármagnið er látið í húsbyggingar en margvísleg önnur verkefni, til dæmis félagsleg þjónusta, umönnunarstörf og endurmenntun fá lítið sem ekkert.“47 Sérstök nefnd var sett á laggirnar til þess að úthluta þessum 60 milljónum. Formaður „60 milljóna nefndarinnar“, Hulda Finnbogadóttir, lýsti því hversu ólík viðhorf þær konur virtust hafa sem sóttu um styrki úr sjóðnum til atvinnusköpunar, samanborið við hugmyndir karla um atvinnuuppbyggingu. Flestar umsóknir hefðu verið til að stofna lítil fyrirtæki, oftast í smáiðnaði. Hulda lýsti því síðan hversu erfitt mörgum þessara kvenna hefði reynst að fá fyrirgreiðslu fram að þessu:
Þær sögðu mér líka frá margar hvernig móttökur þær hefðu fengið hjá „stóru“ sjóðunum, þær sem höfðu leitað til þeirra. Þar hefðu setið ungir menn með yfirlætissvip og viljað fá fjárhagsáætlanir og útreikninga, arðsemisáætlanir og allt sem nöfnum tjáir að nefna, sem hefðu einar sér kostað meira í vinnslu, en þær upphæðir sem þær ætluðu sér að biðja um. Þegar þær loksins þorðu að nefna upphæðina, var horft á þær með góðlátlegu brosi og sagt „nei, heyrðu mig, vinan“.48
Hulda Finnbogadóttir 1994, 45,
Í ljós kom að mikill áhugi var á styrkveitingum úr sjóðnum, „þörfin var óskapleg“, sagði Hulda Finnbogadóttir. Af þeim sökum hvöttu konur innan ASÍ til þess að ef eitthvað væri eftir af því fé sem var ætlað til mannvirkjaframkvæmda bæri að taka hluta þess í sambærileg verkefni og 60 milljónunum hafði verið varið í, enda væri atvinnuástand meðal kvenna mun verra en karla.49 Svo sem fjallað var um í fyrra bindi þessa verks var hafður svipaður háttur á og þegar boðin var atvinnubótavinna á millistríðsárunum. Viðhorfin virtust ekki hafa breyst mikið.