Efnisyfirlit

Deila sögu ASÍ

Tímabilið fram til 1940

Í versluninni Hagkaup í Lækjargötu í Reykjavík um miðjan sjöunda áratuginn. Verslunin þótti nýjung vegna vöruvals og lágs verðs.

Skipulagsmálin á síðari hluta 20. aldar og málefni stéttarfélaganna. Félagsaðild

Saga ASÍ: Til velferðar › Tímabilið frá 1960 og fram til 2010

Skipulagsmálin á síðari hluta 20. aldar og málefni stéttarfélaganna. Félagsaðild

Hannibal og harðskeytt lið
hafa valið réttlætið.
Ekki skal nú íhaldið
öllu smala í Sambandið.1

Vinnan XVII (1960), 9.–12. tbl., 16. Ferskeytla frá ASÍ-þingi,
vegna umræðu um aðild verslunarmanna árið 1960.

Verslunar- og skrifstofufólk átti lítil ítök í Alþýðusambandinu allt fram yfir 1960. Þó voru dæmi þess að einstök félög verslunarmanna úti um land væru í ASÍ fyrir þann tíma, t.d. Verslunarmannafélag Vestmannaeyja. Það félag gekk í ASÍ við stofnun árið 1944 en áður höfðu verið gerðar nokkrar tilraunir til þess að stofna slíkt félag í Vestmannaeyjum. Mikið var reynt að koma félaginu á kné.2 Ári síðar, 1945, gerðu verslunarmenn í Eyjum sinn fyrsta kjarasamning eftir hart verkfall. Í deilunni naut félag þeirra stuðnings annarra stéttarfélaga í Eyjum og líka Alþýðusambandsins. Deilunni lauk svo að henni var skotið til Félagsdóms til þess að skera úr um hvort félagið teldist vera stéttarfélag í skilningi laga og dæmdi dómurinn að svo væri.3

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 19. sambandsþing 1946, 6.
Vinnan IV (1946), 198. – Morgunblaðið 18. júlí 1945, 12.

Þegar Verslunarmannafélag Siglufjarðar (stofnað 1936) sótti um aðild að ASÍ árið 1944 var hún samþykkt án athugasemda.4 Félag verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri sótti um aðild að sambandinu árið 1953 og var hún einnig fúslega veitt. Félagið var stofnað árið 1930 og það segir kannski sína sögu hversu seint það gekk í ASÍ. Í því voru tæplega 200 félagsmenn um miðjan fimmta áratuginn.5 Þegar Skrifstofu- og verslunarmannafélag Suðurnesja reyndi að fá inngöngu í ASÍ árið 1956 var beiðni þess hins vegar hafnað á þeirri forsendu að margir félagsmanna byggju utan félagssvæðisins, auk þess sem fleiri formgallar voru tilgreindir. Stuðningsmenn félagsins fullyrtu að ástæður höfnunarinnar væru pólitískar.6

Benedikt Sigurðsson 1990, 310–311.
Félag verslunar- og skrifstofufólks Akureyri 1930–1980 1980, 7.
Morgunblaðið 24. nóvember 1956, 2. – Helgi S. Jónsson 1956,
11.

Árið 1952 óskaði Verzlunarmannafélag Reykjavíkur eftir aðild að ASÍ og kaus jafnvel fulltrúa á þing sambandsins, enda naut umsóknin stuðnings forseta þess, Helga Hannessonar. Aðildin var samþykkt af miðstjórn ASÍ með því skilyrði að félagið yrði gert að launþegafélagi og atvinnurekendur yrðu gerðir „gersamlega áhrifalausir á gang mála“.7 En stuðningur við inngöngu fékkst ekki á þingi ASÍ árið 1952 og lýsti Þjóðviljinn því svo að „inntökubeiðni heildsalanna“ hefði verið felld. Ekki var heldur stuðningur á aðalfundi innan félagsins fyrir slíkum breytingum árið eftir. Inntökubeiðni félagsins í ASÍ var því dregin til baka.8 Forysta Alþýðusambandsins kenndi kommúnistum um sem hefðu staðið „dyggilega með atvinnurekendum, sem á fundinum voru“, enda hefðu kommúnistar fyrir alla muni viljað koma í veg fyrir að Verzlunarmannafélagið færi inn í ASÍ. Forysta ASÍ taldi því brýnt að fá verslunarfólk inn í ASÍ en þó yrði að gera nauðsynlegar lagabreytingar til þess að „félagið geti skipað sér í sveit, [þar] sem það á vissulega heima“.9 Það var því ekki síður áhugamál Alþýðusambandsforystunnar að fá verslunarmenn í sínar raðir heldur en verslunarmanna sjálfra.

Vinnan (aukablað) 10. nóvember 1953. – Morgunblaðið 20.
nóvember 1952, 16.
Morgunblaðið 26. nóvember 1953, 16. – Þjóðviljinn 30.
nóvember 1952, 1 og 26. nóvember 1953, 1, 11.
Lýður Björnsson 1992 I, 189–191. – Vinnan (aukablað) 10.
nóvember og 5. desember 1953.

Árið 1955 var samþykktum Verzlunarmannafélagsins breytt á þann hátt að þar gat launafólk einungis átt aðild. Árið eftir var Sverrir Hermannsson ráðinn sem skrifstofustjóri hjá félaginu en hann hafði áður verið framkvæmdastjóri Heimdallar og síðan starfað hjá Vinnuveitendasambandinu. Þá stofnuðu félög verslunar- og skrifstofufólks sitt eigið landssamband, Landssamband íslenskra verslunarmanna, árið 1957 en þar var Verzlunarmannafélag Reykjavíkur (VR) vitaskuld öflugast. Sverrir var kjörinn formaður sambandsins og var jafnframt framkvæmdastjóri þess.10 Landssambandið óskaði eftir aðild að Alþýðusambandinu árið 1960 án þess þó að einhugur væri um það innan þess. Samhliða gerði Landssambandið átak í að fjölga félögum og stofna ný sambandsfélög úti um land, og ferðaðist formaður Landssambandsins um landið í því skyni. Þess má geta að árið 1958 fjölgaði verulega í VR þegar starfsmenn úr Starfsmannafélagi Sambands íslenskra samvinnufélaga gengu í félagið og urðu sérdeild þar, en Starfsmannafélag SÍS var lagt niður. Við þá sameiningu naut VR góðs stuðnings Dagsbrúnar og segir Erlendur Einarsson að Dagsbrún hafi jafnvel hótað aðgerðum til þess að stuðla að því að þessi mál gengju fram.11

Morgunblaðið 2. mars 1955, 2. og 7. júlí 1956, 24. – Lýður
Björnsson 1992 III, 48–49. – Lýður Björnsson 1992 I, 193.
Lýður Björnsson 1992 II, 14-15. – Einnig Jón Þ. Þór 2007,
204. – Sverrir Hermannsson í viðtali 2010. – Kjartan Stefáns-
son 1991, 328-329.

Nefnd fulltrúa Verzlunarmannafélagsins og fulltrúa samvinnustarfsmanna sem fjallaði um mögulega inngöngu starfsfólks samvinnuhreyfingarinnar í VR. Á myndinni eru í fremri röð f.v.: Októ Þorgrímsson, Einar Birnir, Guðmundur H. Garðarsson, Sverrir Hermannsson og Óskar Sæmundsson. Aftari röð f.v.: Ásgeir Hallsson, Markús Stefánsson, Björgúlfur Sigurðsson, Guðmundur Jónsson, Gunnlaugur J. Briem og Hannes Þ. Sigurðsson. Myndin er tekin 1956 eða 1957.

Forysta ASÍ tók liðsauka ekki fagnandi þegar beiðni barst um aðild verslunarmanna árið 1960. Hún taldi aðild Landssambands íslenskra verslunarmanna enn ekki tímabæra og hafnaði beiðninni meðan „skipulagsmál Alþýðusambandsins eru í deiglunni“. Þannig hefði ekki verið staðið að málum fyrr að einstakt „landssamband með 20 stéttarfélögum [væri tekið] inn í Alþýðusambandið. Slíkt hefði aldrei í allri sögu þess verið gert“.12 Aðeins hefðu verið tekin inn einstök félög og félli það því mjög illa að skipulagi sambandsins eins og það væri nú, enda hefði „seinasta sambandsþing samþykkt að taka ekki fleiri sambönd en Sjómannasambandið inn að óbreyttu skipulagi samtakanna“. Þá yrði Alþýðusambandið einnig að samþykkja reglur þessara sambanda.13 Þó hafði Landssamband vörubifreiðastjóra verið tekið inn í sambandið (stofnað 1953, m.a. til að leysa úr deilum á milli einstakra félaga um skiptingu vinnu á milli kjarasvæða) en um það samband gilti svipað og Sjómannasambandið, aðildarfélög þeirra höfðu verið í Alþýðusambandinu. ASÍ samþykkti reglur beggja sambandanna og þau félög sem gengu í Sjómannasambandið hurfu þar með af skrá sem aðildarfélög ASÍ.14

Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, ýmis gögn ódagsett 2.
Bréf til ótilgreinds aðila frá Hannibal, ódagsett. – Sjá einnig
ÞÍ. Fundargerðir 26. þings ASÍ 1960, 74 og áfram. Sögus.
verkal. A01: 10/2. Yfirstjórn ASÍ.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 27. sambandsþing 1960, 53.
Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, ýmis gögn ódagsett
2. Bréf til ótilgreinds aðila frá Hannibal, ódagsett. – ÞÍ.
Sögusafn verkal., A01: 13/5. Yfirstjórn ASÍ. Ráðstefnur og
fundir 1947–1966, 25.

Einnig var staðhæft í ranni ASÍ að það væri réttlætismál að félög verkafólks, sjómanna og iðnaðarmanna fengju að ráða skipulagi Alþýðusambandsins. Ef Landssambandi verslunarmanna yrði heimilað að ganga inn í það nú þegar mundi það í krafti stærðar sinnar hafa úrslitaáhrif um það hvernig skipulagi sambandsins yrði háttað. Við það yrði ekki unað með hliðsjón af því að verkamenn, iðnaðarmenn og sjómenn hefðu frá upphafi „borið hita og þunga dagsins“ í störfum sambandsins.15 Auk þess hefði komið í ljós við nánari athugun að ekki væri búið að breyta Landssambandinu í hreint launþegasamband. Þá væri meðlimaskrá margra verslunarmannafélaga gölluð og ófullkomin og vantaði t.d. víða upplýsingar um aldur og heimilisfang félagsmanna. Margir þeirra væru auk þess meðlimir í öðrum stéttarfélögum. Einnig væru á meðlimaskrá

Vinnan XIX (1962), 7.–9. tbl., 1–3.

margir menn úr röðum atvinnurekenda, verkstjórar, forstjórar, eigendur atvinnu- og verzlunarfyrirtækja, jafnvel formenn vinnuveitendafélaga og menn sem oft hefðu á undanförnum árum mætt fulltrúum verka lýðsfélaganna sem gagnaðilar við samningaborðið við kaup og kjör … [og væru] 50 slík dæmi um ákveðna menn.16

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 27. sambandsþing 1960,
52–53.

Forseti ASÍ rakti fjölda dæma af þessu tagi og nafngreindi fólk sem var á félagsskrá í verslunarmannafélögum en væri sannanlega eigendur fyrirtækja, yfirmenn í fyrirtækjum eða á annan hátt í stöðu sem ekki samræmdist því að vera í verkalýðsfélagi.17 Fram kom tillaga á þingi ASÍ um að veita Landssambandinu aðild með því skilyrði að lög þess yrðu lagfærð og meðlimaskrár endurskoðaðar og þar yrðu ekki aðrir skráðir en þeir sem rétt ættu til þess samkvæmt lögum Alþýðusambandsins. En þeirri tillögu var hafnað sem og aðildarumsókninni sjálfri.18

Þjóðviljinn 17. nóvember 1960, 1, 10.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 27. sambandsþing 1960,
53–54.

Ein helsta röksemd forystu ASÍ var ef til vill sú að með því að veita verslunarfólki sem heild viðtöku mundu verkalýðssamtökin „að verulegu leyti breyta um eðli og innihald“. Þá var átt við að í Alþýðusambandinu var fyrst og fremst „erfiðisvinnufólk“ eða almennt verkafólk en fáir sem unnu við þjónustu og verslun. Þau viðhorf höfðu lengi verið ráðandi að verkafólk ætti ekki margt sameiginlegt með þessu fólki sem væri jafnvel hluti af „braskaralýðnum“. Algengt var áður fyrr að ekki væri litið á „búðarmanninn eða verzlunardömuna, hvað þá á skrifstofumanninn, „kontóristann“, sem alþýðufólk eða verkafólk. Þá var slíkt fólk miklu fremur talið til yfirstéttarinnar“.19 Sem fyrr getur voru þó um þetta leyti þrjú félög verslunarmanna innan Alþýðusambandsins. Sambandið hafði sýnt áhuga á að efla þessi félög og stuðla að stofnun stéttarfélaga verslunarmanna svo að gagnstæð sjónarmið toguðust á í málefnum verslunarfólks en íhaldssemin var þó ráðandi.20 Þrátt fyrir andstöðu við inngöngu Landssambands íslenskra verslunarmanna kom fram í málflutningi Alþýðusambandsins að það væri reiðubúið til þess að styðja sambandið á alla lund í kjarabaráttu þess, eins og hafði líka birst skýrt er Dagsbrún studdi VR í þeirri viðleitni að fá samvinnustarfsfólk inn í félagið.

Vinnan XXI (1964), 5.–8. tbl., 13. – Sjá einnig Vinnan XVII
(1960), 9.–12. tbl., 12–13.
Sjá m.a. Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 27. sambandsþing

Þegar litið er á röksemdir Alþýðusambandsins virðast þær ekki mjög sterkar: Með inngöngu Landssambands íslenskra verslunarmanna hefði gefist gott tækifæri til þess að gera skurk í skipulagi Alþýðusambandsins, enda féll skipulag Landssambandsins á ýmsan hátt vel að skipulagshugmyndum forystumanna ASÍ á þessum tíma. Gamalgrónir fordómar gagnvart verslunar- og skrifstofufólki höfðu líka mikil áhrif og fólk óttaðist breytingar á sambandinu: „Við skulum ekki gleyma því að verkalýðssamtök eru, eins og önnur fjöldasamtök, mjög íhaldssöm í eðli sínu. Það var því að hluta til vegna íhaldssemi að menn greiddu atkvæði gegn verslunarmönnum,“ sagði Þórir Daníelsson síðar, en hann var lengi einn af helstu forystumönnum Verkamannasambandsins.21 Eins og fram hefur komið töldu margir að verslunarfólk ætti ekki erindi í Alþýðusamband Íslands. Slík viðhorf voru skiljanleg á fyrstu áratugum 20. aldar en úr takti við tímann þegar komið var fram yfir 1960. Og svo fléttaðist auðvitað pólitíkin inn í spilið. Sjálfstæðismenn réðu Landssambandi íslenskra verslunarmanna og stjórn ASÍ hafði lítinn áhuga á að fjölga fulltrúum úr þeirri átt á ASÍ-þingi.

Vinnan XLIII (1993), 1. tbl., 25.

Bréf Eilers Jensens til ASÍ frá 1962 þar sem hann hvetur sambandið til þess að taka verslunarmenn inn í ASÍ. Forseti ASÍ, Hannibal Valdimarsson, fagnaði þessum dönsku afskiptum ekki, sem ekki var von.

Landssamband íslenskra verslunarmanna (LÍV) vildi ekki sætta sig svör Alþýðusambandsins og lagði málið fyrir félagsdóm. Stefnandi, þ.e. Landssambandið, krafðist þess að sambandið fengi aðild að ASÍ, enda væru aðildarfélög þess stéttarfélög í skilningi laga um stéttarfélög og vinnudeilur og fyrir væru í ASÍ tvö landssambönd, Sjómannasambandið og Landssamband vörubifreiðastjóra, sem þó væri ekki „eiginlegt launþegasamband“ heldur samband félaga sjálfseignarbílstjóra. Af hálfu ASÍ voru meginrökin þau að sambandið væri frjáls félagssamtök og réði því hverjir væru félagar og hverjir ekki, auk þess sem vísað var til skipulagsmála sambandsins sem væru í deiglunni. Þess utan var getið um vankanta á félagaskrá LÍV. LÍV beitti sér mjög í þessari baráttu og fékk mikilvæga bandamenn í lið með sér við lítinn fögnuð forseta ASÍ. Danska alþýðusambandið beitti sér m.a. í málinu, að beiðni verslunarmanna, og hvatti til þess að ASÍ endurskoðaði neikvæða afstöðu sína, enda væru samtök verslunarmanna „en fuldgod, faglig organisation, og vi finder det urimeligt at foreholde denne organisation de goder, der kun kan opnås ved tilslutning til LO“.22 Hannibal svaraði Dönum með þjósti, sem von var, og sakaði þarlenda félaga sína um vanþekkingu og jafnvel yfirgang:

ÞÍ. Ejler Jensen, Landsorganisationen i Danmark til ASÍ
7. maí 1962. Sögus. verkal. A01: 23/2. Skrifstofa. Erlend
bréfaskipti. Bréfaskipti við LO í Danmörku.

Oven i købet var der enkelte formænd i arbejdsgiver foreninger, vi skulle få som medlemmer af Al þýðu samband Íslands. Og alligevel får vi fra vor broderorganisation i Danmark en attest på, at denne organisation er „en fuldgod, faglig organisation“ som får de beste anbefalinger, og der henstilles til os, at sagen skal tages op til en fornyet behandling. Ærligt talt. Vi er lidt forbavset – ja, jeg vil sige det lige ud, lidt såret.23

ÞÍ. Hannibal Valdimarsson til Landsorganisationen i
Danmark 19. maí 1962. Sögus. verkal. A01: 23/2. Skrifstofa.
Erlend bréfaskipti. Bréfaskipti við LO í Danmörku. Einnig
bréf Hannibals Valdimarssonar til J. Riisgård Knudsen 21.
janúar 1963. Knudsen hafði sakað Hannibal um ósannsögli
í tenglum við þetta mál en Hannibal svarar með löngu béfi
þar sem hann ber af sér sakir og krefur móttakanda bréfsins
svara. ÞÍ. Sögus. verkal. A01: 23/69. Skrifstofa. Erlend
bréfaskipti.

Félagsdómur vísaði málinu frá í fyrstu en því var skotið til Hæstaréttar sem skyldaði Félagsdóm til þess að taka efnislega afstöðu. Það gerði dómurinn í nóvember 1962 og var niðurstaða meirihluta dómsins, þriggja dómara af fimm, að Alþýðusambandið yrði að taka við Landssambandinu með fullri aðild. Í dómsorði sagði m.a. að ekki yrði „séð af skjölum málsins, að stefnandi hafi fengið nokkra tilkynningu um afgreiðslu inntökubeiðninnar né honum gert viðvart um það í hverju samþykktum hans væri áfátt eða hvað væri athugavert við félagsskrárnar“.24 Vankanta á félagsskrám taldi dómurinn ekki mikilsverða, enda væru þess ýmis dæmi að fólk væri í stéttarfélagi án þess að það hefði beinlínis lögvarinn rétt til þess. Loks benti dómurinn á að almennt yrði að líta svo á að stéttarfélög eða sambönd ættu rétt á inngöngu í ASÍ ef þau fullnægðu tilsettum reglum. Það styrkti heldur ekki stöðu ASÍ að nokkur aðildarfélög LÍV áttu þegar aðild að ASÍ, sem fyrr getur. Niðurstaða dómsins var því sú að LÍV ætti rétt á inngöngu í ASÍ.25

Morgunblaðið 13. nóvember 1962, 13.
Morgunblaðið 13. nóvember 1962, 13.

Þegar dómurinn varð kunnur fagnaði formaður LÍV, Sverrir Hermannsson, og kvað réttlætið hafa sigrað.26 En Hannibal Valdimarsson, forseti ASÍ, lýsti því yfir að dómurinn væri misbeiting valds og árás á félagafrelsið. Hann hvatti til þess að frelsið væri varið með „oddi og eggju“. Lokaorð leiðara Vinnunnar um þetta efni voru: „Víst má eg heyra erkibiskups boðskap, en ráðinn er eg í að hafa hann að engu.“27 Höfundur leiðarans, sem vafalaust var Hannibal, vísar hér til orða Jóns Loftssonar, höfðingja Oddaverja á 12. öld, þar sem hann hafnar boðskap erkibiskups í Niðarósi um yfirráð kirkj unnar yfir kirkjustöðum á Íslandi; Jón vildi sjálfur ráða. Mikill meirihluti Alþýðusambandsþings var sama sinnis og Hannibal og mótmælti harðlega úrskurði „3 af 5 dómendum Félagsdóms … að svipta Alþýðusamband Íslands þeim skýlausa rétti, sem öllum frjálsum félagasamtökum ber, þ.e. að ákveða sjálf hverjir séu meðlimir þeirra á hverjum tíma“.28

Morgunblaðið 13. nóvember 1962, 24.
Vinnan XIX (1962), 7.–9.tbl., 2.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 28. sambandsþing 1962, 43.

Í nýtísku kjörbúð, líklega á sjöunda áratugnum. Afgreiðslukona leiðbeinir viðskiptavini.

Svo langt var þó ekki gengið að dómurinn væri hunsaður þó að ýjað væri að því að niðurstaðan væri vart marktæk sökum þess hversu tæpt meirihluti dómsins stóð. Málið var þó þæft áfram á þann hátt að kjörbréfum fulltrúa Landssambands íslenskra verslunarmanna fyrir ASÍ-þing 1962 var vísað til sambandsstjórnar til athugunar. Talið var að langan tíma mundi taka að kanna „lögmæti fulltrúakjörsins“, meðlimaskrár Landssambandsins og lög sambandsfélaganna. Í kjölfar þessarar samþykktar Alþýðusambandsþingsins var fulltrúum Landssambands íslenskra verslunarmanna síðan veitt heimild til þingsetu með málfrelsi og tillögurétti en full réttindi fengu þeir ekki að sinni.29 Þessi niðurstaða vakti hörð viðbrögð og töldu verslunarmenn og stuðningsmenn þeirra, einkum forsvarsmenn sjálfstæðismanna og alþýðuflokksmanna á þinginu, að verið væri að svipta löglega kjörna fulltrúa rétti sínum. Þingið væri því ólöglegt og gerðir þess einnig. Það var álit margra að með þessu hefði Alþýðusambandið ekki farið að niðurstöðu dómsins en forysta ASÍ var á annarri skoðun.30 Á næsta þingi ASÍ, árið 1964, voru fulltrúar Landssambands verslunarmanna komnir með full réttindi svo að forysta ASÍ lét undan.

Lýður Björnsson 1992 III, 50.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 28. sambandsþing 1962,
41–44. – ÞÍ. Fundargerðir 26. þings ASÍ 1962, 213–214. Sögus.
verkal. A01: 10/2. Yfirstjórn ASÍ. – Ingólfur V. Gíslason
1994, 305−306. – Vinnan XIX (1962), 10.–12. tbl., 1–5.

Með aðild Landssambands íslenskra verslunarmanna varð ljóst að þörf á skipulagsbreytingum væri orðin brýnni en áður. Með inngöngu þess var kominn inn í Alþýðusambandið langstærsti einstaki félagi að sambandinu.

Skipulagsmálin fram um 1960

Um miðjan sjötta áratuginn færðist aftur nýtt líf í umræður um skipulagsmál Alþýðusambandsins, enda þótti mörgum skipulagið flókið og óskilvirkt sem von var. Stéttarfélögin voru mörg og sum afar smá. T.d. var 161 félag í ASÍ árið 1960 og voru aðeins 12 þeirra með yfir 500 félaga. Þar af voru fimm með 1000 félaga og yfir, 58 félög voru með innan við 50 félaga, en 126 félög voru með innan við 200 félaga. Þriðjungur sambandsfélaga var í fimm félögum.31 Forysta sambandsins taldi að þessi mikli fjöldi félaga og smæð leiddi til þess að þing ASÍ yrðu ómarkviss, enda gæfist vart tími til að ræða mikilvægustu mál sambandsins af þessum sökum. Augljóslega væri einnig óheppilegt að á mörgum vinnustöðum væri fólk iðulega í mörgum stéttarfélögum, jafnvel sex til átta, og hvert félag semdi fyrir sína félaga og gæti boðað til vinnustöðvunar án tillits til hagsmuna annarra á vinnustaðnum.32

Greinargerð og tillögur um skipulagsmál Alþýðusambandsins
1960, 8–9.
Greinargerð og tillögur um skipulagsmál Alþýðusambandsins
1960, 9–10.

Margir í forystu Alþýðusambandsins, t.d. forseti þess um langt skeið, Hannibal Valdimarsson, hvöttu eindregið til þess að skipulagi verkalýðssamtakanna yrði breytt svo að barátta þeirra yrði markvissari og öflugri og kjör verkafólks betri og jafnari. Dýrmæta reynslu mætti fá frá Vestfjörðum, en þar hefði þegar árið 1949 verið gerður heildarsamningur fyrir allt starfssvæði Alþýðusambands Vestfjarða. Þannig háttaði til að víðast á starfssvæði sambandsins voru lítil og stundum máttvana félög, enda kjörin á þeim stöðum lakari en á Ísafirði. Með samstarfi hefði náðst að gera heildarsamning fyrir allt svæðið og þar með að samræma kjör fólks. Reynsla Vestfirðinga væri því tvímælalaust góð.33 Í umræðum um skipulagsmálin kom einnig fram að dagleg starfsemi gæti skilað meiri árangri ef félög á einstökum stöðum yrðu sameinuð. Þá væri unnt að hafa sameiginlega skrifstofu og húsnæði, sameiginlega sjóði í stað margra smásjóða, reka orlofshús sameiginlega og veita almennt betri þjónustu.

Verkalýðsfélagið Baldur 70 ára. Afmælisrit 1986, 30–31.

Fulltrúar verslunarmanna á ASÍ-þingi, líklega árið 1964. Guðmundur H. Garðarsson, formaður VR, annar frá vinstri og Óttarr Októsson fimmti frá vinstri.

Á 25. þingi Alþýðusambandsins árið 1956 var skipuð milliþinganefnd til þess að leggja drög að nýju skipulagi sambandsins. Sæti í nefndinni áttu helstu forystumenn verkalýðshreyfingarinnar. Í þeim hópi var engin kona.34 Nefndin lagði tillögur sínar fyrir næsta þing árið 1958. Milliþinganefndin hafði fengið sér til ráðuneytis norskan sérfræðing sem hafði unnið að skipulagsmálum norsku verkalýðshreyfingarinnar um margra ára skeið. Nefndin sá sér ekki fært að leggja fram ítarlega tillögu um nýtt skipulag en lagði til að þingið samþykkti stefnuyfirlýsingu sem hið nýja skipulag yrði byggt á. Nefndin gerði fyrst grein fyrir hvernig skipulagi sambandsins hefði verið háttað frá stofnun þess:

Greinargerð og tillögur um skipulagsmál Alþýðusambandsins
1960, 5.
 1. Staðbundin félög verkamanna, verkakvenna og sjómanna, sem ýmist eru fyrir einn þessara hópa eða blönduð. Þessi félög eru hvorki skipulögð eftir sérgreinum né starfsgreinum, heldur hefur það sjónarmið ráðið, að safna þar saman fólki, sem ekki á heima í sérgreinafélögum.
 2. Staðbundin félög iðnaðarmanna í hverri sér-grein.
 3. Landsfélög iðnaðarmanna eftir sérgreinum, svo og vörubifreiðarstjóra (Landssamband).
 4. Félög, sem aðallega eru sérgreinafélög, en þó að nokkru leyti starfsgreinafélög (prentarar og bók-bindarar).

35

Greinargerð og tillögur um skipulagsmál Alþýðusambandsins
1960, 7.

Síðan gerði nefndin grein fyrir því að eðlilegt hefði verið að standa svo að málum í upphafi. Helst hefði verið leitað fyrirmynda í Danmörku og Bretlandi við stofnun Alþýðusambandsins, en aðstæður í þessum löndum hefðu þó verið ólíkar aðstæðum á Íslandi. Uppistaða í alþýðusamböndum þeirra landa hefðu verið

Konur úr Verkakvennafélaginu Brynju á Siglufirði við félagsfánann á 1. maí, sennilega einhvern tíma á sjötta áratugnum. Brynja og Verkamannafélagið Þróttur sameinuðust í Verkalýðsfélaginu Vöku árið 1966.

sérgreinafélög iðnaðarmanna, sem starfað höfðu um alllangt skeið áður en heildarsamtökin voru mynduð. Eðlileg afleiðing af því að fyrir voru tiltölulega sterk félög í ýmsum sérgreinum í þessum löndum var sú, að leitast yrði við að skipuleggja það verkafólk, sem ekki átti þess kost að vera í slíkum samtökum. Á þennan hátt urðu blönduðu félögin til, þar sem leitast var við að safna öllu því verkafólki, sem eigi hafði lært neina sérgrein. Enda þótt svo væri komið um það leyti, sem A.S.Í. var stofnað, að verkalýðssamtök í ýmsum löndum voru horfin frá þessu skipulagsformi, var þó margt, sem mælti með því, að það væri tekið upp á þeim tíma. Einkum hentaði þetta form þó vel við aðstæður hér vegna þess, hve um fábreytta atvinnuvegi og einhliða var að ræða, svo og vegna fámennis þjóðarinnar og þeirrar staðreyndar, að verkafólk var nánast óskipulagt, þegar undan eru skilin þau félög, sem stóðu að stofnun A.S.Í. auk nokkurra annarra.36

Greinargerð og tillögur um skipulagsmál Alþýðusambandsins
1960, 8.

Samkvæmt stefnuyfirlýsingunni var gert ráð fyrir að Alþýðusambandið yrði að mestu leyti byggt upp eftir atvinnugreinum en vinnustaðurinn væri grunneining og að því stefnt að allt verkafólk sem væri á sama vinnustað væri í sama félagi. „Félag vinnustaðarins skyldi eiga samningsaðild fyrir alla, sem þar ynnu, karla og konur, faglært fólk og ófaglært“.37 Á minni stöðum væri þó eðlilegast að aðeins væri eitt stéttarfélag. Stefnumörkun þessi var samþykkt á þinginu og var miðstjórn og skipulagsnefnd veitt heimild til setja nánari reglur um framkvæmd þessara samþykkta.

Vinnan XXI (1964), 5.–8. tbl., 13–14.

Á þingi ASÍ árið 1960 lagði milliþinganefndin fram tillögu sem fól í sér tvo kosti. Fyrri leiðinni var svo lýst:

Staðbundin starfsgreinafélög, er séu beinir aðilar að A.S.Í. Í hverjum bæ og á hverjum stað, er tiltækilegt þætti, yrði ákveðin tala starfsgreinafélaga. Fjöldi þeirra færi eftir því, hve mikið þætti ástæða til að flokka starfsgreinarnar [nefndin á við atvinnugreinar]. Mætti hugsa sér t.d. 8–10 starfsgreinar á hverjum stað og félög þá jafnmörg. Á fámennum stöðum, þar sem starfsgreinaskiptingin væri óljós, yrði hins vegar aðeins eitt félag fyrir hvern stað. … Allir, sem vinna á sama vinnustað yrðu í sama félagi, og sambandsfélögum fækkaði verulega, en þau yrðu fjölmennari og meira samræmi yrði milli þeirra. … Það, sem einkum verður að telja þessari tillögu ábótavant, er að hún tryggir ekki nauðsynleg tengsl milli samstæðra starfsgreinafélaga víðs vegar um land og því meira en vafasamt, hvort styrkur samtakanna út á við yrði mikið meiri en nú.38

Greinargerð og tillögur um skipulagsmál Alþýðusambandsins
1960, 12–13.

En svo taldi nefndin að önnur leið kynni líka að vera fær. Hún fólst í því að mynduð yrðu

landssambönd starfsgreinafélaga eftir nánar ákveðinni starfsgreinaskiptingu. Ef gert er ráð fyrir, að sú tala [yrði] … 8–10 yrðu landssamböndin jafnmörg. Hin staðbundnu félög yrðu þá hvert um sig aðili að landssambandi sinnar starfsgreinar, en landssamböndin aftur aðilar að A.S.Í.39

Greinargerð og tillögur um skipulagsmál Alþýðusambandsins
1960, 13.

Síðan var gert ráð fyrir að sérsamböndin mundu halda landsþing og afgreiða þar sín sérmál, en það yrðu síðan samböndin sem kysu fulltrúa á þing Alþýðusambandsins. Þing ASÍ árið 1960 aðhylltist síðari tillöguna og skyldi unnið að því að koma henni í framkvæmd sem fyrst. Var kosin 12 manna nefnd til þess að vinna að framgangi málsins. Reyna átti að að koma hugmyndinni í framkvæmd á næsta kjörtímabili, þ.e. til ársins 1962. Samkvæmt samþykkt þingsins átti skipulagsnefndin að fá mikið vald og meðal annars úrskurða um ágreining um til hvaða félags tiltekinn vinnustaður átti að heyra. Nefndin átti einnig að endurskoða lög ASÍ með hliðsjón af þessum skipulagsbreytingum og leggja tillögur að lagabreytingum fyrir næsta þing sambandsins. Einnig að kynna þessar tillögur ítarlega, m.a. prenta og dreifa skipulagstillögunum í 5000 eintökum og halda svæðaráðstefnur um skipulagsmálin úti um land.40 En þó að forysta sambandsins væri hlynnt tillögunum og vildi vinna þeim brautargengi voru ýmsar hindranir sem þurfti að yfirstíga, t.d. hvort skipa ætti í verkalýðsfélög eftir kynjum. Eðvarð Sigurðsson sagði t.d. að það væri „hið vitlausasta af öllu að skipta verkafólki í stéttarfélög eftir kynjum“.41 Þessu viðhorfi voru margar verkakonur ósammála, ekki síst konur í forystu verkakvennafélaganna, t.d. Jóhanna Egilsdóttir. Því fór svo að tveimur árum síðar hafði lítið gerst í málinu og á þingi ASÍ árið 1962 var enn kosin níu manna milliþinganefnd til þess að sinna málinu.42

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 27. sambandsþing 1960,
77–78. – Greinargerð og tillögur um skipulagsmál Alþýðusam-
Þjóðviljinn 18. nóvember 1960, 1.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 28. Sambandsþing 1962,
72. – Skúli Þórðarson 1966, 30–31.

Árið 1963 lagði forseti ASÍ fram nákvæma tillögu um það hvernig skipulagi verkalýðshreyfingarinnar skyldi vera háttað. Hann hvatti til þess að hreyfingin skiptist í níu sérsambönd. Þau sambönd áttu að vera: 1) Samband er næði yfir fiskveiðar og flutninga á sjó og lofti; 2) samband er næði yfir fiskvinnu og alla almenna verkamannavinnu; 3) samband byggingariðnaðarins þar sem væru bæði faglærðir og ófaglærðir starfsmenn; 4) samband málmiðnaðarmanna, bæði faglærðir og iðnverkafólk; 5) samband fólks sem ynni í neysluvöruiðnaði; 6) samband fólks sem starfaði í vefnaðar- og skóiðnaði; 7) samband fólks sem starfaði í prent- og bókaiðnaði; 8) samband starfsfólks í rafmagnsiðnaði, og loks 9) samband starfsfólks við þjónustustörf.43 Samkvæmt tillögum forsetans og milliþinganefndarinnar átti þetta skipulag að verða grundvöllur ASÍ í stað þeirra 160 stéttarfélaga sem hann hefðu myndað hingað til, og landssamböndin áttu síðan að vera aðilar að ASÍ. Þó væri einstökum félögum heimil bein aðild að sambandinu, en leitast bæri við að beina þeim inn í sérsambönd. Ekkert átti að standa í vegi fyrir því að „blönduð“ félög ættu aðild að fleiri en einu sambandi. Þá ætti að vinna að því að stækka félagssvæði einstakra félaga sem vitaskuld þýddi sameiningu félaga, auk þess sem komið var í veg fyrir stofnun smáfélaga í sveitum.

Vinnan XX (1963), 1.–4. tbl., 29–31. – Greinargerð og tillögur

Töluvert var um það á ofanverðum sjöunda áratugnum að félagssvæðin væru stækkuð, t.d. í Eyjafirði. Það hafði í för með sér að verkalýðsfélögunum fór fækkandi og voru þau orðin 130 árið 1968 en höfðu verið 160 nokkrum árum fyrr.44

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 30. sambandsþing 1966,
50–51. – Skýrsla forseta um störf miðstjórnar Alþýðusambands

En vald vanans er mikið og tillögurnar fengu lítinn hljómgrunn þrátt fyrir að þær nytu stuðnings helstu forystumanna sambandsins, enda ljóst að þær hlytu að hafa í för með sér að fjölmörg aðildarfélög Alþýðusambandsins yrðu lögð niður og ný stofnuð í þeirra stað.45 Ýmsar ástæður voru fyrir því að treglega gekk að vinna þeim fylgi. Fólk vildi ekki sjá á eftir sínu gamla félagi sem hafði reynst því vel. Einnig óttuðust ýmsir að missa áhrif og ítök ef tiltekin félög væru leyst upp og sameinuð öðrum. Í sumum félögum hafði forystan setið að völdum í áratugi, jafnvel meira en hálfa öld!

Greinargerð og tillögur um skipulagsmál Alþýðusambandsins
1960, 18–19.

Sem fyrr segir höfðu verkakvennafélögin verið mikilvægur hluti af skipulagsheild verkalýðshreyfingarinnar frá því að Alþýðusambandið var stofnað. Unnið var að stofnun slíkra félaga fram undir 1960. Til dæmis samþykkti miðstjórn ASÍ að veita Verkakvennafélaginu Orku á Raufarhöfn aðild að ASÍ árið 1957.46 Andstaða var í hópi verkakvenna við að breyta því fyrirkomulagi sem verið hafði. Þó voru einnig starfandi mörg „blönduð“ félög á landinu, einkum á minni stöðum, og félög iðnverkafólks höfðu frá upphafi verið „blönduð“. Um þetta leyti voru í landinu 75 verkamannafélög karla, 17 sérfélög kvenna og 60 „blönduð“ félög.

ÞÍ. Fundargerðabók miðstjórnar 1952–1958, 263. Sögus.
verkal. A01: 12/2. Yfirstjórn ASÍ. Miðstjórn.

Forystukonur í verkalýðshreyfingunni kringum 1960. F.v. Sigurrós Sveinsdóttir, Auðbjörg Jónsdóttir, Guðbjörg Guðjónsdóttir, Birgitta Guðmundsdóttir, Guðríður Elíasdóttir, Herdís Ólafsdóttir, Jóhanna Kristjánsdóttir, Jóna Guðjónsdóttir, Ingibjörg Bjarnadóttir og Þórunn Valdimarsdóttir.

Hinn skeleggi formaður Verkakvennafélags Keflavíkur og Njarðvíkur, Vilborg Auðunsdóttir, sagði svo í bréfi til Hannibals Valdimarssonar í apríl 1960:

Heyrt höfum við boðskap skipulagsnefndar A.S.Í. og ráðnar erum við í að hafa hann að engu … Það gengur glæpi næst að ætla að innlima þau fyrrnefndu [verkakvennafélögin] í þau síðarnefndu … Boðskapur nefndarinnar þýðir það að leggja eigi niður hvert einasta verkakvennafélag landsins, innlima þau í karlafélögin. Þetta er mannréttindamál. Mér finnst því rétt að snúa sér til Kvenréttindafélags Íslands. … Rétt áðan var ég að tala við Jóhönnu Egilsdóttur. Hún er æf, sem von er. Kvenþjóðin mun taka til sinna ráða. … Ég veit að skaphita gætir mjög í línum þessum. En mér er þungt í skapi, svaf ekki dúr í nótt, eftir ég fékk pésann [skipulagstillögur Alþýðusambandsins].47

Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, bréf R-Ö. Bréf Vilborgar
Auðunsdóttur til Hannibals Valdimarssonar 20. apríl 1960.

Þá lýsti fundur trúnaðarráðs Verkakvennafélags Keflavíkur og Njarðvíkur

megnustu andúð og óbeit á nefndum tillögum í meginatriðum og telur nefndarálitið fjandsamlegt til ræði við verkakvennafélög landsins, sem umrædd nefnd leggur til að verði þurrkuð út og innlimuð í karla félögin … Verkakonur í Keflavík og Njarðv. hafa verið í umsjá þess félags [Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur] en stofnuðu fyrir 7 árum sitt eigið félag, þar eð þær töldu að verkalýðsfélagið veitti ekki fullnægjandi þjónustu. Það viðurkenndi stjórn þess félags og taldi eðlilegt og sjálfsagt, að konur stofnuðu sitt eigið félag. 4 konur voru á félagaskrá 1953, árið sem verkakvennafélagið var stofnað. Skv. tillögum nefndarinnar skal nú leggja niður félagið, sem fjölgað hefur meðlimum sínum í 351 og innlima aftur karlafélaginu.48

Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, ýmis gögn 1960–1968.
Samþykkt trúnaðarráðs Verkakvennafélags Keflavíkur og
Njarðvíkur 22. apríl 1960.

Trúnaðarráðið lýsti því yfir að heldur gengi það úr Alþýðusambandinu en að sættast á þessar tillögur, enda yrði „kvenþjóðin oftast útundan“, og væri víst um það að konur nytu sín betur í sérfélögum og „sýna að öðru jöfnu meiri dugnað og árvekni en karlar“. Góður fjárhagur margra verkakvennafélaga sýndi það einmitt. Trúnaðarráðið lýsti því yfir að það hygðist ekki ræða þessi mál frekar, enda léti ekki nokkur „viti borin manneskja … Pétur eða Pál boða sig á fund til að ræða um, hvort hún ætli að láta leiða sig til slátrunar“.

Trúnaðarráðskonur klykktu út með því að staðhæfa að það gengi glæpi næst „að ætla sér að innlima gróskumikil félög í máttvana, starfslausar, skipulagslausar klíkur, sem lítið hafa til síns ágætis nema drjúgan slatta af höfðatölu á pappírnum. Og sumir hinna skráðu meðlima steindauðir fyrir mörgum árum“. Eitt gildi hefði álit skipulagsnefndar þó: „Nefndarálitið hefur bókmenntalegt gildi, hvað humor snertir. Það er hægt að hlægja að því. Og hlátur lengir lífið“. Forysta verkakvennafélaganna léði því ekki máls á því að leggja verkakvennafélögin niður, nær væri að stofna landssamtök verkakvenna.49

Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, ýmis gögn 1960–1968.
Samþykkt trúnaðarráðs Verkakvennafélags Keflavíkur og
Njarðvíkur 22. apríl 1960.

Þess má geta að ætla má að víða um land hafi fjöldi kvenna staðið utan verkalýðsfélaga, einfaldlega vegna þess að ekki var litið á þær sem fullgilt vinnuafl. Árið 1960 voru t.d. aðeins 18 konur í Verkalýðsfélagi Borgarness en 146 karlar. Árið 1978 hafði körlunum aðeins fjölgað um hálft hundrað en konur í félaginu voru 236, talsvert fleiri en karlarnir.50 Einmitt á þessum tíma urðu miklar breytingar í jafnréttismálum og má leiða að því líkur að ástæða fjölgunarinnar hafi m.a. verið sú að farið var að leitast við að fá konur til að ganga í félagið, en þeim fjölgaði líka mikið á vinnumarkaði á þessum tíma.

Vinnan XXIX (1979) 2. tbl., 7.

Stofnun Landssambanda innan ASÍ – Sameining karla- og kvennafélaga á sjöunda áratugnum

Þegar líða tók á sjöunda áratuginn komst nokkur hreyfing á málin, bæði með sameiningu verkalýðsfélaga og stofnun sérsambanda. Árið 1963 sameinaðist eitt stærsta verkakvennafélagið á landinu, Verkakvennafélagið Eining, Verkamannafélagi Akureyrarkaupstaðar og hlaut hið nýja félag nafnið Verkalýðsfélagið Eining. Forseti Alþýðusambandsins fagnaði sameiningunni mjög, taldi hana gæfuspor. Í framhaldi af því var ákveðið að skrifa öðrum verkakvennafélögum og kanna undirtektir þeirra við sameiningu, þó án þess að nokkur „valdboð“ kæmu til greina.51 Og ekki löngu síðar sameinuðust félög verkamanna og verkakvenna á Húsavík (1964), þó án þess að verkakonur á Húsavík væru sérstaklega áfjáðar í það. Ástæðan var m.a. sú að erfiðlega gekk að fá fólk til forystustarfa í félaginu.52 Árið 1966 sameinuðust félög verkamanna og verkakvenna á Siglufirði í Verkalýðsfélagið Vöku.53 Þá voru Verkamannafélagið Árvakur og Verkakvennafélagið Framtíðin á Eskifirði sameinuð (1971).54

Skýrsla forseta um störf miðstjórnarAlþýðusambands Íslands árin
Skúli Þórðarson 1966, 31. – Þór Indriðason 1996 III, 165–168.
Benedikt Sigurðsson 1990, 154.
ÞÍ. Fundargerðabók miðstjórnar 1971–1973, 64. Sögus. verkal.
A01: 12/4. Yfirstjórn ASÍ. Miðstjórn.

Eyjafjarðarsvæðið varð þó í raun eina svæðið þar sem félög sameinuðust í anda skipulagstillagna ASÍ á sjöunda áratugnum. Hannibal Valdimarsson, forseti Alþýðusambandsins, taldi þessa sameiningu tímanna tákn. Skeið sérstakra verkakvennafélaga væri liðið enda yrði munur á launum karla og kvenna að mestu leyti horfinn innan skamms, að því er hann áleit.55 Hann áréttaði að um leið og jafnrétti hefði náðst hvað varðaði laun karla og kvenna féllu „seinustu rökin burtu fyrir sérstökum verkakvennafélögum“.56 Hann átti þá við að sami taxti gilti fyrir karla og konur fyrir sömu vinnu. Ekki væri heldur unnt að leiða rök að því að kona og karl á sama vinnustað hefðu ólíkra hagsmuna að gæta, og fátítt væri í nágrannalöndunum að karlar og konur í sömu greinum væru ekki í sama stéttarfélagi.57 Að mati Hannibals höfðu verkakvennafélögin á Íslandi verið „sérstætt íslenskt skipulagsfyrirbæri í verkalýðshreyfingunni“. Annars staðar væru yfirleitt ekki verkakvennafélög nema í „nokkrum starfsgreinum, sem konur annast einvörðungu“.58

Vinnan XX (1963), 1.–4. tbl., 29–31.
Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, uppköst, ræður, ódagsett
I. Ræða flutt við sameiningu Verkakvennafélagsins Einingar
og Verkamannafélags Akureyrarkaupstaðar.
Vinnan XX (1963), 1.–4. tbl., 28–29.
Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, uppköst, ræður, ódagsett
I. Ræða flutt við sameiningu Verkakvennafélagsins Einingar
og Verkamannafélags Akureyrarkaupstaðar.

Að mati Hannbals setti þessi sameining á Akureyri skipulagsmálin á hreyfingu og hann benti á að eftir sameiningu verkakarla og verkakvenna væru aðeins starfandi 12 sérfélög verkakvenna. En margar konur voru ekki sammála þeirri afstöðu forsetans að tími sérfélaga verkakvenna væri liðinn og álitu hættu á að sjónarmið þeirra yrðu fyrir borð borin við sameiningu félaga verkakvenna og verkakarla.59 Þær höfðu líka fulla ástæðu til að efast um að tekið yrði á sama hátt tillit til hagsmuna þeirra og karlanna. Frá 1940 til 1966 voru konur tvívegis ríflega fimmtungur fulltrúa í miðstjórn ASÍ (1940 og 1954) en yfirleitt voru þær miklu færri og í fjögur skipti áttu konur engan fulltrúa í miðstjórn. Oftast var um tíundi hluti miðstjórnarfulltrúa konur. Svipað eða lakara var ástandið í sambandsstjórninni.60 Og þrátt fyrir að tekin væru skref í þá átt að sameina félög verkamanna og verkakvenna um miðjan sjöunda áratuginn fór svo að stærstu skrefin á því sviði voru ekki tekin fyrr en áratugum síðar. Helstu félög verkakvenna í Reykjavík héldu áfram starfsemi sinni allt fram undir lok 20. aldar.

Sjá m.a. Vinnan XX (1963), 1.–4. tbl., 29. – Þór Indriðason
1996 III, 165.
Ásdís Guðmundsdóttir 1994, 109–110.

Verkamannafélagið Hlíf í Hafnarfirði tók skipulagsmál verkalýðshreyfingarinnar til umræðu árið 1963 og gerði samþykkt þess efnis að fara fram á það við miðstjórn ASÍ að hún kannaði hvort ekki reyndist unnt að ná samstöðu um myndun sérstaks verkamannasambands í anda samþykkta sambandsþinga um stofnun sérgreinasambanda. Þá hafði Trésmiðafélag Reykjavíkur frumkvæði að því um svipað leyti að kanna möguleika á stofnun sambands byggingariðnaðarmanna, og Félag járniðnaðarmanna í Reykjavík hvatti til stofnunar sambands málm- og skipasmiða. Þessar hugmyndir gengu eftir og var boðað til stofnþings Sambands byggingarmanna í apríl og maí 1964. Í það gengu félög sem höfðu um 1000 félagsmenn. Í lok maí sama ár var gengið frá stofnun Málmiðnaðar- og skipasmiðasambands Íslands og í byrjun júní var Verkamannasamband Íslands stofnað; þar tóku þátt 23 félög verkakvenna og verkamanna sem höfðu um 8500 félaga.61 Stofnun þessara sambanda var áfangi á þeirri leið að koma ASÍ í svipað horf skipulagslega og heildarsamböndin á hinum Norðurlöndunum, en sérsambönd með samnings- og verkfallsrétt voru grunnur þeirra, ekki einstök félög.62 Markmiðið með stofnun þeirra var einnig að bregðast við inngöngu Landssambands íslenskra verslunarmanna í ASÍ, „enda þótti nú ekki annað fært, en að skipuleggja verkamenn, sem frá upphafi höfðu verið aðal uppistaða og burðarás Alþýðusambandsins, einnig í landssamband“.63

Vinnan XXI (1964), 5.–8. tbl., 14–16.
Skýrsla forseta um störf miðstjórnarAlþýðusambands Íslands árin
Skýrsla forseta um störf miðstjórnarAlþýðusambands Íslands árin

Á þingi ASÍ árið 1966 voru ítrekaðar fyrri tillögur um skipulagsmálin: að ASÍ væri samansett af landssamböndum en einstök félög gætu þó átt beina aðild að sambandinu. Margt benti til að þetta gæti gengið eftir.64 En tregða til breytinga var mikil og lögum var ekki breytt á þingi ASÍ árið 1966 í þessa veru. Þar sagði aðeins að félög „sömu eða líkra starfsgreina“ gætu „gert samband með sér og hafa slík stéttarsambönd einnig rétt til þátttöku í Alþýðusambandinu með sömu takmörkunum og stéttarfélög eftir því, sem við á“. Þetta ákvæði hafði verið lengi í lögum ASÍ, a.m.k. allt frá 1946.65 Alþýðusambandið samanstóð því um þetta leyti af staðbundnum verkalýðsfélögum, landsfélögum og landssamböndum. Utan sambandsins stóðu svo þau landssambönd sem voru nýlega stofnuð, „byggð upp af félögum sem voru beinir aðilar að ASÍ, og verra gat þetta varla orðið skipulagslega séð“, sagði Snorri Jónsson, einn helsti forystumaður ASÍ um þetta leyti; hann átti þá við að markmið í skipulagsmálum hefðu ekki gengið eftir og það væri orðið mjög ruglingslegt.66

Morgunblaðið 22. nóvember 1966, 2.
Lög Alþýðusambands Íslands 1947, 5. – Lög Alþýðusambands
ÞÍ. Skipulag og staða ASÍ, líklega samantekt Snorra Jóns-
sonar, um 1970. Sögus. verkal. A01: 22/13. Skrifstofa. Ýmis
félagsmál.

Frá stofnun Verkamannasambandsins árið 1964. Hannibal Valdimarsson, forseti ASÍ, í ræðustól en Hermann Guðmundsson, formaður Hlífar í Hafnarfirði, til hægri við hann.

Á 31. þingi ASÍ árið 1968 þótti fullreynt að ekki næðist sá árangur í skipulagsmálunum sem stefnt var að. Fyrr á árinu hafði reyndar verið haldið aukaþing þar sem þessi mál voru til umræðu án þess að þau væru leidd til lykta.67 Ljóst var að nokkrir áhrifamiklir forystumenn eins og Björn Jónsson voru andvígir skipulagsbreytingunum í mikilvægum atriðum. Björn var þeirrar skoðunar að einstökum félögum ætti að vera frjálst hvort þau væru í landssamböndum eða ekki og landssamböndin yrðu að „sýna getu sína í reynd“. Greinilegt er að Björn taldi samböndin ekki vera búin að koma sér á nægilega traustan grunn, að minnsta kosti enn sem komið væri. En þó gæti svo farið að það yrði „einhvern tímann“, sagði Björn; hann vildi greinilega hafa allan varann á varðandi framtíð landssambandanna og taldi að reynslan yrði að skera úr því hvort landssambönd væru „framtíðarlausnin í okkar málum“. Ekki var síður mikilvægt að mati Björns að stækka og efla einstök félög en það hafði einmitt gerst í Eyjafirði.68 Björn var formaður öflugs félags utan Reykjavíkur og hugsanlega hafði áhrif að hann hafði ekki áhuga á að afsala völdum og áhrifum til sambands sem hefði aðsetur í Reykjavík.69 Ekki leikur vafi á því að þegar Björn tók þessa afstöðu hafði það mikil áhrif.70 Margir á landsbyggðinni voru einmitt á móti því að draga úr vægi svæðasambanda en styrkja landssamböndin. Verkalýðsfélag Bolungarvíkur blandaði sér í þessa umræðu og varaði við því að „binda öll aðildarfélög A.S.Í. innan landssambanda með skrifstofu í Reykjavík, sem þýða mundi að öll aðstaða hinna fámennu blönduðu félaga úti landsbyggðinni yrði öll erfiðari og að litlu sem engu leyti mundi verða tekið tillit til sjónarmiða þessara félaga“.71 Undir þessi sjónarmið tóku raunar einnig félög í Reykjavík, t.d. Sókn, og töldu skynsamlegra að „mynda með sér einhvers konar svæðissambönd, því landssambönd, sem væntanlega hefðu skrifstofur sínar og stjórn í Reykjavík, geta ekki verið þjónustutæki fyrir félögin úti á landi“. En félagið lagði einnig áherslu á að félög yrðu sameinuð í stærri heildir og kæmu „sér upp þjónustumiðstöð fyrir félagsmenn sína“.72

Morgunblaðið 2. febrúar 1968, 2.
ÞÍ. Sögusafn verkal. A01: 10/15. Yfirstjórn ASÍ. Skipulagsmál
1968. Ræður. Ræða Björns Jónssonar.
ÞÍ. Fundargerðir 26. þings ASÍ 1960, 105. Sögus. verkal. A01:
10/2. Yfirstjórn ASÍ.
Morgunblaðið 1. febrúar 1968, 10. – Sjá einnig ÞÍ. Sögusafn
verkal. A01: 10/15. Yfirstjórn ASÍ. Skipulagsmál 1968. Ræður.
M.a. ræður Péturs Sigurðssonar og Óskars Hallgrímssonar.
ÞÍ. Verkalýðsfélag Bolungarvíkur til skipulags- og laganefnd-
ar ASÍ 15. október 1967. Sögus. verkal. A01: 33/7. Sambönd
og félög á Vestfjörðum.
ÞÍ. Sókn til ASÍ 11. október 1967. Sögus. verkal. A01: 31/21.
Sambönd og félög í Reykjavík.

Vegna andstöðu Björns og margra annarra var því hætt við á þingi ASÍ árið 1968 að láta einstök landssambönd vera eina skipulagslega grundvöll ASÍ. Þess í stað átti það að vera frjálst val hvort einstök félög skipuðu sér í landssambönd eða ekki. Alþýðusambandið átti því áfram í raun að byggjast á aðild einstakra félaga. Þetta var orðað svo í lögunum:

Að Alþýðusambandinu geta átt aðild landssambönd, sem skipulögð eru í samræmi við sérstakar samþykktir Alþýðusambandsþinga og … einstök verkalýðsfélög, sem eru í ASÍ við gildistöku þessara laga, og ekki skipa sér í landssambönd. Þó getur félag með 50 félagsmönnum eða fleiri fengið aðild að ASÍ, ef verksvið þess fellur ekki undir neitt þeirra Alþýðusambanda eða félaga, sem fyrir eru í Alþýðusambandinu.73

Lög Alþýðusambands Íslands 1968, 4–5.

Gert var ráð fyrir sem meginreglu, samkvæmt lögunum sem voru samþykkt 1968, að fulltrúar á Alþýðusambandsþing væru kjörnir á vegum einstakra félaga en ekki sambanda. Einnig var þó mögulegt, samkvæmt samþykktum þingsins, að fulltrúar á Alþýðusambandsþingi væru kosnir á vegum landssambanda en til þess þurfti þó samþykkt aukins meirihluta á þingi viðkomandi sambands. Málm- og skipasmiðasambandið fór til dæmis þessa leið og svo fór að í sumum tilvikum kusu landssambönd fulltrúa á sambandsþing, í öðrum tilvikum ekki. Á þessu þingi var einnig hætt við að fækka þingfulltrúum eins og ætlunin hafði verið. Nefna má að þingfulltrúar á þessu þingi voru tæplega 360 svo að ekki voru þessar samkomur smáar í sniðum.74

Lög Alþýðusambands Íslands 1968, 12–13. – Friðrik G. Olgeirs-
son 2010, 163. – Sjá einnig Þingtíðindi Alþýðusambands Ís-

Með þessum ákvörðunum var dregið úr vægi landssambandanna miðað við það sem ætlunin hafði verið og komið var á ákaflega flóknu skipulags- og kosningakerfi. Landssamböndin voru þó ekki án hlutverks. Samkvæmt breyttum kosningareglum bar þingi Alþýðusambandsins að kjósa forseta, varaforseta og 13 meðstjórnendur. Þessi hópur átti að mynda 15 manna miðstjórn sambandsins. Þá átti sambandsþingið að kjósa 18 til viðbótar í sambandsstjórnina en auk þess áttu landssamböndin að kjósa fulltrúa í sambandsstjórnina í samræmi við fjölda félaga í viðkomandi sambandi: landssambönd með 2500 félagsmenn eða færri fengju einn fulltrúa, sambönd með félaga á bilinu 2500–5000 fengju tvo, þrír fulltrúar kæmu í hlut þeirra sambanda sem hefðu á milli 5000 og 10.000 félaga en fjórir fyrir sambönd með fleiri en 10.000 félaga.75 Það var því fjölgað mjög í sambandsstjórninni og á þennan hátt voru landssamböndin formlega tengd við Alþýðusambandið. Þá var ákveðið á þessu þingi ASÍ að lengja kjörtímabil sambandsstjórnar úr tveimur árum í fjögur og áttu alþýðusambandsþing því hér eftir að vera á fjögurra ára fresti. Á hinn bóginn áttu sérsamböndin að halda þing sín annað hvert ár og hin stækkaða sambandsstjórn Alþýðusambandsins átti einnig að funda að minnsta kosti árlega vegna þess að kjörtímabil hennar var lengt.76 Þessi niðurstaða var málamiðlun og kannski var enginn sérlega ánægður með hana; í ljós kom að mjög sterk andstaða var við skylduaðild að landssamböndum. Eiginlega var þetta „hvorki né“ niðurstaða og fallið frá mikilvægum markmiðum sem upphaflega voru sett þegar breyta átti skipulagi ASÍ. Reyndin varð sú að félögin urðu áfram grunneiningar sambandsins.77 En áfram var þó stefnt að því að landssamböndin yrðu grunnur í skipulagi sambandsins þó að einnig kæmu fram þær hugmyndir að fremur bæri að efla og styrkja einstök félög.

Lög Alþýðusambands Íslands 1968, 14–15. – Einnig Þingtíðindi
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 31. sambandsþing 1968,
15–16, 49–53.
Sjá m.a. Morgunblaðið 1. desember 1968, 2, 23.

Starfsemi fjórðungssambandanna hafði reynst misjafnlega. Alþýðusamband Vestfjarða hélt uppi mikilli starfsemi og Alþýðusamband Norðurlands var einnig vel virkt. En starfsemi Alþýðusambands Austurlands (stofnað 1943) gekk misjafnlega og á öndverðum sjötta áratugnum hafði starfsemi þess legið niðri um nokkurra ára skeið, en það átti þó eftir að hressast aftur.78 Samkvæmt lögum ASÍ frá 1968 var ekki lengur talað um fjórðungssambönd heldur svæðasambönd og þar sem þau ráku skrifstofu mátti halda eftir einum sjötta hluta þeirra gjalda sem renna áttu til ASÍ á viðkomandi svæði. Svæðasamböndin höfðu að öðru leyti lítil skipulagsleg tengsl við ASÍ.79 Þau gegndu þó sínu hlutverki langt fram eftir 20. öld og ný voru jafnvel stofnuð. Til dæmis var Alþýðusamband Suðurlands stofnað árið 1970 og var það til samræmis við þá breytingu sem var samþykkt á þingi ASÍ árið 1968 að svæðasambönd kæmu í stað fulltrúaráða verkalýðsfélaganna á ákveðnum svæðum. Að öðru leyti áttu svæðasamböndin að sinna sameiginlegum málum félaga á viðkomandi svæði, og við umræður á þingi ASÍ árið 1968 kom skýrt í ljós að fólk á landsbyggðinni vildi halda í svæðasamböndin.80 Samkvæmt lagaákvæðum ASÍ-þings frá 1968 var einnig stofnað iðnsveinaráð sem átti að fara með öll sameiginleg málefni launafólks sem starfaði við iðnað og koma fram fyrir hönd iðnfélaga gagnvart hinu opinbera.81

Skýrsla miðstjórnar Alþýðusambands Íslands 1952, 58–59. –
Einar Bragi Sigurðsson 1983, 170.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 31. sambandsþing 1968, 57.
Lög Alþýðusambands Íslands 1968, 21.
ÞÍ. Sögusafn verkal. A01, 10/15. Yfirstjórn ASÍ. Skipulagsmál
1968. Ræður. Ræða Sigfinns Karlssonar. – Vinnan XXIII
(1973) 2. tbl., 15.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 31. sambandsþing 1968, 58. –

Frá þingi Sjómannasambandsins árið 1970. Í forsæti sitja: 2. f.v. Pétur Sigurðsson og Jón Sigurðsson við hlið hans en í ræðustól er Eggert G. Þorsteinsson sjávarútvegs- og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.

Frá aukaþingi ASÍ árið 1968 í Lídó í Stakkahlíð þar sem rætt var um skipulagsmál. Eðvarð Sigurðsson í ræðustól, en hann var helsti hvatamaður skipulagsbreytinga.

Skipulagsmál ASÍ á ofanverðum sjöunda áratugnum leystust því ekki á þann hátt sem margir forystumenn ASÍ vonuðu. Þar áttu áfram aðild bæði smáfélög sem höfðu kannski 10–20 félagsmenn og sambönd sem töldu þúsundir félaga. Þær breytingar sem voru gerðar á þessum tíma urðu í sumum tilvikum jafnvel til þess að flækja málin enn frekar. Mörg félög úti um land voru blönduð félög ýmissa starfsstétta – verkafólks, sjómanna, iðnaðarmanna og verslunar- og skrifstofufólks. Ef vel átti að vera þurftu einstök félög að vera í að minnsta kosti þremur samböndum, heildarsambandi, landssambandi og svæðasambandi. Sum félög urðu svo að eiga aðild að mörgum landssamböndum, t.d. Sjómannasambandi, Verkamannasambandi og Landssambandi íslenskra verslunarmanna vegna þess að innan þeirra voru deildir sem tilheyrðu mismunandi faggreinum.82 Þróunin varð sums staðar sú, til dæmis á Húsavík um og eftir miðjan sjöunda áratuginn, að ýmsir hópar sem höfðu átt aðild að Verkalýðsfélagi Húsavíkur stofnuðu sérstök stéttarfélög. Það átti t.d. við um verslunarmenn, iðnaðarmenn og starfsfólk bæjarins og gengu þau flest í viðkomandi landssamband. Þessi félög voru þó öll lítil og gátu vart haldið uppi sjálfstæðri starfsemi.83 Á þingi ASÍ árið 1964 sagði forseti sambandsins, Hannibal Valdimarsson, að „skipulagslega ringulreiðin, sem við nú búum við, er verkalýðssamtökunum í senn til tjóns og til vanza“.84 Og Eðvarð Sigurðsson varaði síðar við því að fólk léti „tryggðina við það gamla og óttann við það nýja“ ráða afstöðu sinni.85 En svo fór þó. Vissulega voru stigin skref í skipulagsmálum verkalýðshreyfingarinnar á sjötta og sjöunda áratugnum en langt var þó frá því að sett markmið næðust og forseti sambandsins var ekki sáttur við hvernig fór.

Sjá m.a. Verkalýðsfélagið Jökull Ólafsvík 50 ára, 1987 22.
Þór Indriðason 1996 III, 169–194.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 29. sambandsþing 1964, 15.
ÞÍ. Sögusafn verkal. A01, 10/15. Yfirstjórn ASÍ. Skipulagsmál
1968. Ræður. Ræða Eðvarðs Sigurðssonar.

Skipulagsmál eftir 1970

En ég vitna gjarnan í Einingu á Akureyri þar sem öll litlu félögin [þ.e. félög ófaglærðra] við Eyjafjörð hafa sameinast. Þar hafa deildirnar útmeð firði sjálfstæða stjórn, og ég er þess fullviss að væru sjálfstæð félög í þessum litlu sveitarfélögum væru þau ekki þess megnug sem þau eru nú. Þau hefðu t.d. ekki eins sterka sjúkra- og orlofssjóði og þau gætu ekki tekið þátt í starfi heildarsamtakanna. Þegar kosnir eru fulltrúar á þing hreyfingarinnar er þess gætt að deildirnar eigi sín sæti, og þær skiptast á um að eiga fulltrúa í aðalstjórn. Aðalskrifstofan styrkir síðan stærri deildirnar til að halda opnum skrifstofum þar sem stjórnirnar sjá um þau mál sem snúa að heimamönnum, en sér sjálf um öll stærri mál …86 (Þóra Hjaltadóttir í viðtali við Vinnuna árið 1991).

Vinnan XLI (1991) 9. tbl., 17.

Allmörg sérsambönd höfðu verið stofnuð fyrir 1970 og eftir 1970 bættust fleiri við, t.d. Landssamband iðnverkafólks árið 1973.87 Þá voru í Alþýðusambandinu Landssamband vörubifreiðastjóra, Málm- og skipasmiðasamband Íslands, Samband byggingamanna, Sjómannasamband Íslands, Rafiðnaðarsamband Íslands, Verkamannasambandið og Landssamband íslenskra verslunarmanna. Árið 1983 var staðan sú að átta landssambönd (49 þúsund félagsmenn) áttu aðild að ASÍ og 43 félög voru með beina aðild (níu þúsund félagsmenn).

Vinnan XXIII (1973) 2. tbl., 6–7.

Alþýðusambandið samanstóð því um þetta leyti, annars vegar af sérsamböndum sem einstök félög áttu aðild að og svo félögum með einstaklingsaðild.88 Þrátt fyrir að það væri opinber stefna ASÍ að breyta þessu og fá öll félög inn í landssambönd gerðist lítið, enda virtust engir „rigtig tro på den idé“ eins og norrænn gestur sagði árið 1975.89

Vinnan XXXIII (1983) 6. tbl., 6–7.
ÞÍ. Studie og kontaktbesøg hos MFA i Island 1975. Sögus.
verkal. A31: 21/1. Bréfasafn. Málasafn. Norræn bréfaskipti.

Á þingi ASÍ árið 1980 var samþykkt ályktun þar sem staðhæft var að „innra skipulag Alþýðusambandsins og gagnvart öðrum launþegasamtökum“ væri „með öllu óviðunandi“. Sambandið ítrekaði fyrri stefnu um að „vinnustaðurinn og landssambönd, sem taki yfir helstu starfsgreinar“ ættu að vera grundvöllur ASÍ.90 Nefna má að þrátt fyrir að landssamböndin virtust vera býsna öflug með tilliti til fjölda félaga þá var starf þeirra ekki umsvifamikið á þessum árum. Flest þeirra miðuðu við að viðkomandi samband hefði einn starfsmann í vinnu en þó voru tvö þeirra með fleiri starfsmenn (2–3, 1983).91 Gefur auga leið að einn starfsmaður hafði ekki mikið bolmagn.

Fréttabréf ASÍ, 22. janúar 1982, 2.
ÞÍ. Greinargerð um skipulagsmál 1983. Sögus. verkal. A01:
21/15. Skrifstofa. Atvinnu- og kjaramál. Skipulagsmál 1983.

Frá miðjum sjöunda áratugnum og fram á síðasta áratug aldarinnar urðu því óverulegar breytingar á skipu lagi grunneininga verkalýðshreyfingarinnar. Fá félög sameinuðust fyrr en um miðjan tíunda áratuginn og hreyfingunni var enn að umtalsverðu leyti skipt eftir kynjum. Ein mesta sameining félaga fram að því hafði verið á Eyjafjarðarsvæðinu, sem fyrr getur, og reynslan af því virtist vera tvíbent í fyrstu. Formenn deilda Verkalýðsfélagsins Einingar í þéttbýliskjörnum í Eyjafirði kvörtuðu undan litlu sambandi við móðurfélagið á Akureyri. Matthildur Sigurjónsdóttir, deildarformaður í Hrísey, sagði t.d. að sér fyndist „vanta mikið á að þeir [forysta Einingar] komi út í deildirnar og hafi þannig persónulegt samband við fólkið. Þannig erum við í rauninni afskipt í félaginu … Við, sem sitjum í forsvari fyrir deildirnar innan Einingar, höfum farið fram á að fá að sitja stjórnarfundi félagsins, en það fáum við ekki núna“.92

Vinnan XXVIII (1978) 6. tbl., 12–13.

Á hinn bóginn var svo erfitt að halda uppi starfi í minnstu félögunum að það var varla gerlegt. „Varla hægt að koma á fundi, þannig að þeir sem tóku þátt í starfi félagsins voru fámennur hópur og lítils megnugur … Ástandið var orðið svo gjörsamlega óviðunandi að það gat ekki versnað,“ sagði formaður deildar Einingar á Grenivík.93 Ef til vill var hreyfingin í Eyjafirði ekki að fullu tilbúin fyrir þetta stóra sameiningarskref, samgöngur voru enn erfiðar á þessu svæði á sjöunda og áttunda áratug 20. aldar. En á móti kom að mörg litlu félaganna voru einfaldlega komin í þrot og sum þeirra hætt störfum svo fátt var annað í stöðunni en að ganga til liðs við stærra félag.

Vinnan XXVIII (1978) 6. tbl., 15–16.

Frá stofnþingi Landssambands iðnverkafólks árið 1973. Fremri röð f.v. : Óþ., Jóhanna Tryggvadóttir, óþ., óþ., Margrét Jónsdóttir og Þorbjörg Brynjólfsdóttir. Aftari röð f.v.: Svavar Pétursson, Herberg Kristjánsson, Sigþór Bjarnason (aftari) óþ., óþ., Bjarni Jakobsson, Guðmundur Guðni, Runólfur Pétursson, Guðmundur Þ Jónsson, Jón Ingimarsson, Björn Bjarnason, Leifur Thorarensen, Magnús Guðjónsson, Þorsteinn E. Arnórsson, Hallgrímur Jónsson, Ingiberg Jóhannesson og Höskuldur Stefánsson.

Í umræðu um skipulagsmálin sem skipulagsnefnd ASÍ stóð fyrir árið 1984 kom í ljós að mestur stuðningur var við tillögu sem líktist mest ráðandi skipan mála.94 Samkvæmt henni var gert ráð fyrir níu landssamböndum og ættu öll verkalýðsfélög að vera í landssambandi. Ætlast var til að hvert landssamband gerði kjarasamning fyrir viðkomandi atvinnugrein þannig að ekki yrðu fleiri en níu kjarasamningar í gildi á hverjum tíma. Gert var ráð fyrir að hvert félag ætti aðild að mörgum samböndum vegna samsetningar þeirra. T.d. mætti gera ráð fyrir að Verkamannafélagið Dagsbrún ætti aðild að a.m.k. fjórum samböndum.95 En lítið varð úr því að þessum tillögum væri komið í framkvæmd. Tími róttækra breytinga virtist ekki ætla að renna upp.

Vinnan XXXIV (1984) 3. tbl., 13. – Tillögurnar eru m.a. birtar
í ritinu Nýtt skipulag? Nokkur mikilvæg atriði til umfjöllunar og
ÞÍ. Inngangur að tillögum í skipulagsmálum. Sögus. verkal.
A01: 21/15. Skrifstofa. Atvinnu- og kjaramál. Skipulagsmál
1983.

Á fundi skipulagsnefndar í mars 1990 var gengið frá tillögum að skipulagsbreytingum. Helst var talið raunhæft að leggja fram stefnu sem gerði ráð fyrir stuttum skrefum en markvissum. Að mati nefndarinnar var mikilvægt að setja fyrst fram markmið með skipulagsbreytingunum. Markmiðið ætti að vera að allir sem ættu rétt til gætu verið í stéttarfélagi. Slík félög yrðu að hafa bolmagn til að:

Helgi Guðmundsson, starfsmaður skipulagsnefndar ASÍ árið 1983 og frumkvöðull í menningarmálum verkalýðshreyfingarinnar.

 1. gera sjálfstæða kjarasamninga
 2. veita eðlilega þjónustu
 3. hafa áhrif í verkalýðshreyfingunni
 4. hafa sterkan sjúkrasjóð
 5. hafa sterkan lífeyrissjóð
 6. hafa sterkan orlofssjóð
 7. geta stutt við velferðarkerfið
 8. skapa jafnrétti á milli félagsmanna í verkalýðs-hreyfingunni án tillits til kynferðis eða starfs-menntunar
 9. standa undir vaxandi kröfum um forvarnarstarf í heilbrigðismálum, starfsmenntunarmálum o.fl.

Skipulagsnefndin lagði síðan til að eftirfarandi „fyrirmyndarskipulag“ yrði tekið upp, þ.e. form sem hafa ætti að leiðarljósi:

 1. ASÍ verði samband landssambanda, landssam-böndin verði sambönd stéttarfélaga og deilda. Skilgreina þarf nánar verksvið stéttarfélaganna, landssambandanna og ASÍ.
 2. Stéttarfélög sameinist um þjónustuskrifstofur á ákveðnum svæðum. Einnig getur verið, þar sem svo háttar til, eitt deildaskipt stéttarfélag alls launafólks á viðkomandi svæði.
 3. Félagsmörk landssambanda verði skýr. Engin tvö landssambönd hafi innan sinna raða sömu starfs-grein.

Skipulagsnefndin lagði síðan áherslu á að samstarf um þjónustu einstakra félaga yrði aukið. Gengið yrði út frá því að æskileg stærð stéttarfélaga eða samstarfseiningar yrði þúsund manns en leitað eftir viðhorfum fólks á viðkomandi svæðum varðandi skipulagsmálin.96

Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1990,
90–92.

Þrátt fyrir víðtækar tillögur í skipulagsmálum gerðist lítið. Óþolinmæði tók að gæta. Pétur Sigurðsson, sem lengi var í forsvari verkalýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum, sagði t.d. árið 1991 að næsta lítið hefði komið út úr tilraunum til að breyta skipulagi ASÍ undanfarin 33 ár. Hann miðaði þá við þing Alþýðusambandsins árið 1958 þegar umfangsmiklar skipulagstillögur voru samþykktar. Ekkert hefði gerst nema stofnun sérsambanda og reynt hefði verið að leggja fjórðungssamböndin niður en það hefði ekki tekist. Pétur var reyndar á þeirri skoðun að ekki mætti hrófla við þeim, enda stæðu þau nærri einstökum verkalýðsfélögum.97

DV 2. nóvember 1991, 4.

Á þingi ASÍ árið 1992. Þriðji frá vinstri við borðið er Pétur Sigurðsson, lengi forystumaður Alþýðusambands Vestfjarða og Verkalýðsfélagsins Baldurs. Pétur gagnrýndi um þetta leyti hversu hægt gengi að breyta skipulagi ASÍ. Vinstra megin við Pétur eru Karitas M. Pálsdóttir og Gísli Indriðason frá Verkalýðsfélaginu Baldri á Ísafirði. Hægra megin við Pétur er Benóný Benediktsson frá Verkalýðsfélagi Grindavíkur. Á móti Pétri, annar frá vinstri, er Valdimar Guðmannsson frá Verkalýðsfélagi Austur-Húnvetninga á Blönduósi. Á bak við sést í Þórð Ólafsson frá Boðanum í Þorlákshöfn (aftast á milli Karitasar og Gísla) og Daða Guðmundsson frá Verkalýðs- og sjómannafélagi Bolungarvíkur (fyrir ofan höfuðið á Pétri Sigurðssyni).

Á þingi ASÍ á Akureyri árið 1992 var loks tekið af skarið um það hvernig skipulagsmálum Alþýðusambandsins ætti að vera háttað og var í meginatriðum fylgt þeim tillögum um „fyrirmyndarskipulag“ sem var getið um hér að framan. Ákveðið var að ASÍ yrði byggt upp af landssamböndum starfsgreindra verkalýðsfélaga en einstök félög gætu ekki lengur sótt um aðild að sambandinu. Stefna bæri að því að félög með beina aðild gengju í landssamband „eftir því sem við verður komið“.98 Loks var hvatt til sameiningar stéttarfélaga eftir því sem unnt væri. Þessi stefna var svo áréttuð árið 1996 og bætt um betur. Ákveðið var að öll félög sem væru með beina aðild ættu að ganga í landssamband fyrir sambandsstjórnarfund árið 1998. Hefði það ekki gerst átti skipulagsnefnd að gera tillögur um í hvaða landssamband eðlilegt væri að einstök félög gengju.99

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 37. sambandsþing 1992,
116. – Lára V. Júlíusdóttir 1995, 28.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 38. sambandsþing 1996, 97.

Þetta voru félög með beina aðild að ASÍ þó ekki sátt við. Þegar þessi samþykkt var gerð voru níu landssambönd aðilar að ASÍ en félagsmenn aðildarfélaganna rúmlega 65 þúsund. Langstærst var Verkamannasambandið með tæplega 28 þúsund félaga og því næst Landssamband íslenskra verslunarmanna með rúmlega 15 þúsund félaga. Þá var Verzlunarmannafélag Reykjavíkur langstærsta einstaka stéttarfélagið með rúmlega 11 þúsund félaga en Dagsbrún var í öðru sæti með ríflega 4500 félaga. Ákvæði um félagsaðild var svo enn breytt árið 2000 og var þá gert ráð fyrir að aðild gætu átt bæði landssamtök og landsfélög. Með þeirri ákvörðun var vikið frá fyrri hugmyndum um að landssamböndin ættu að vera grunnur ASÍ. Sú stefnumörkun hafði einfaldlega ekki gengið eftir og um þetta leyti var farið að sameina félög af miklu kappi.100

100 Sjá Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 39. sambandsþing

Sérsamböndin gegndu mikilvægu hlutverki í skipulagi ASÍ allt til loka þess tímabils sem hér er fjallað um en þeim fækkaði þó smám saman, bæði vegna sameiningar einstakra verkalýðsfélaga og vegna þess að talið var að því fylgdi aukið hagræði og meiri styrkur að sameina tiltekin sambönd. Til dæmis sameinuðust sambönd í byggingariðnaði, málmiðnaði og fleiri greinum og mynduðu Samiðn árið 1993. Hið nýja samband kom (aðallega) í stað Sambands byggingamanna og Málm- og skipasmiðasambands Íslands.101 Þá lögðust Landssamband iðnverkafólks, Þjónustusamband Íslands og Verkamannasambandið af þegar þessi sambönd sameinuðust í Starfsgreinasambandinu árið 2000; Þjónustusambandið var stofnað árið 1989, m.a. sem vettvangur nokkurra félaga í þjónustugreinum sem stóðu utan landssambanda.102

101 Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1993,
97–98. – Vinnan XLIII (1993), 5. tbl., 3.
102 Samkvæmt upplýsingum Magnúsar M. Norðdahl, október
2010. – Tíminn 3. maí 1989, 7.

Árið 2010 áttu sjö landsfélög aðild að ASÍ og fimm landssambönd. Þau voru Starfsgreinasamband Íslands, Landssamband íslenzkra verslunarmanna, Samiðn, sam band iðnfélaga, Rafiðnaðarsamband Íslands og Sjó mannasamband Íslands. Landsfélögin voru Félag leið sögumanna, Flugfreyjufélag Íslands, Félag bókagerðarmanna, Mjólkurfræðingafélag Íslands, Matvís, matvæla- og veitingasamband Íslands, og loks VM, Félag vélstjóra og málmtæknimanna.103 Sem fyrr greinir höfðu svæðasamböndin ekki eins skýra stöðu og landssambönd innan ASÍ. Með bættum samgöngum og sameiningu félaga urðu þau smám saman óþörf. Þau lögðust því smám saman af, t.d. Alþýðusamband Vesturlands árið 1987.104 Fáein þeirra breyttu um form, t.d. á Vestfjörðum, en þar sameinuðust smám saman nánast öll aðildarfélög Alþýðusambands Vestfjarða í einu verkalýðsfélagi. Sama gerðist í hinum gamla Austfirðingafjórðungi.

103 Vefur ASÍ, http://asi.is. Sótt í september 2010.
104 Lára V. Júlíusdóttir 1995, 33. – Tíminn 10. desember 1987, 4.

Margt kallaði á frekara átak í skipulagsmálum verkalýðshreyfingarinnar eftir því sem leið að aldarlokum. Samkvæmt vinnulöggjöfinni mátti félagssvæði hvers félags ekki vera minna en eitt sveitarfélag og um þetta leyti var mjög hvatt til sameiningar sveitarfélaga. Þó að það ferli gengi hægar en stjórnvöld óskuðu eftir voru mörg sveitarfélög sameinuð sem leiddi til þess að stéttarfélög sameinuðust einnig, einkum innan raða Verkamannasambandsins.105

105 Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1997,
143–146.

Við sameiningu félaga var Eining á Akureyri gjarnan höfð sem fyrirmynd eins og Þóra Hjaltadóttir, þáverandi formaður skipulagsnefndar ASÍ, lýsti árið 1989. Þóra benti á að algengt væri að forysta litlu félaganna hefði ekki bolmagn til að sinna því starfi sem nauðsynlegt væri að halda uppi. Og þó að til forystu veldist fórnfúst fólk þreyttist það á erlinum, auk þess sem ekki væri vinsælt að „stela“ stöðugt tíma frá fjölskyldunni. Takmörkuð þjónusta litlu félaganna hefði líka leitt til þess að félagsmenn þeirra leituðu meira til annarra stéttarfélaga sem stæðu undir nafni og gætu boðið öfluga þjónustu. En óhagræðið kom einnig fram á höfuðborgarsvæðinu, ekki bara hjá minnstu félögunum úti um land. Þóra nefndi að átta félög iðnaðarmanna væru undir sama þaki við Suðurlandsbraut í Reykjavík og rækju þar sex til sjö skrifstofur. Hún benti á að væru þessi félög færri mætti nýta fjármuni mun betur og veita betri þjónstu.106

106 Vinnan XLI (1991) 9. tbl., 17.

Um og eftir 1990 hnigu öll rök að því að sameina fleiri verkalýðsfélög en gert hafði verið undanfarna áratugi. Um það leyti fór ferli af stað sem enn sér ekki fyrir endann á. Það hófst árið 1989 þegar Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og Verkakvennafélag Keflavíkur og Njarðvíkur voru sameinuð.107 Lítið hafði verið um sameiningar félaga verkakarla og verkakvenna síðan á sjöunda áratugnum. En á níunda áratugnum var aftur farið að ræða um sameiningu verkalýðsfélaga karla og kvenna. Þau viðhorf voru ekki óalgeng meðal karla innan verkalýðshreyfingarinnar að engin ástæða væri til að hafa sérfélög karla og kvenna, enda hefðu bæði kynin sömu hagsmuni en konur væru ekki „þjóðfélagsstétt“. Þröstur Ólafsson, þáverandi framkvæmdastjóri Dagsbrúnar, benti m.a. á að „jafnréttisumræðan hafi snemma farið í óheppilegan farveg, þegar karlmanninum var stillt upp sem höfuðandstæðingi konunnar, en stéttaraðstæðum gleymt“.108

107 Vinnan XLIII (1993), 1. tbl., 29.
108 19. júní 1984, 55.

Þegar þrjár verkakonur voru spurðar að því í blaði Kvenréttindafélagsins, 19. júní, árið 1985 hvort þær teldu að sameina ætti félög verkamanna og verkakvenna voru viðbrögð fremur neikvæð og því andstæð sjónarmiðum Þrastar. Ein þeirra staðhæfði að konur þyrftu að vera í félögum „þar sem þær geta ráðið. Annars þora þær ekki að tala og koma fram og karlarnir taka öll völd“. Önnur benti á hvernig málum væri háttað í „blönduðum“ félögum, t.d. í Iðju og Verzlunarmannafélaginu, þar sem konur væru „í miklum meirihluta en ráða blátt áfram engu“.109 Þá hefur verið bent á að stjórnmálatengsl einstakra félaga hafi staðið í vegi fyrir því að tiltekin félög gætu sameinast. Til dæmis var Verkakvennafélagið Framsókn tengt Alþýðuflokknum en Dagsbrún Alþýðubandalaginu.110 Einnig hefur verið nefnt að „stemningin“ hafi verið mjög ólík innan félaga karla og kvenna og orðræðan hafi greinilega verið kynbundin. Þannig hafi orðræðan innan karlafélaganna einkennst töluvert af hugtökum sem tengdust valdbeitingu, en innan kvennafélaganna hafi orðræðan verið mun varfærnari. En um og upp úr 1990 voru þessi viðhorf að breytast og karlar og konur sameinuðu félög sín á næstu árum.

109 19. júní 1985, 52. – Guðbjörg Linda Rafnsdóttir 1995, 150.
110 Guðbjörg Linda Rafnsdóttir 1995, 148.

Ástæðurnar fyrir því að sameiningarferli fór af stað voru fleiri en ein. En mikilvægast var trúlega að hvorki lítil né meðalstór félög gátu veitt fullnægjandi þjónustu, miðað við þær kröfur sem voru gerðar. Taka má Starfsmannafélagið Sókn sem dæmi. Árið 1994 voru á fimmta þúsund manns innan félagsins. Í viðtali í tilefni af 60 ára afmæli félagsins sagði formaðurinn þó að forysta félagsins fyndi fyrir því að geta ekki veitt fullnægjandi þjónustu, „hjá Sókn erum við svo fá“, sagði hún. Það væri ekki unnt að þjálfa starfsfólk félagsins til ákveðinna sérfræðistarfa:

Mestur hluti tíma starfsfólks stéttarfélaganna fer í að annast daglega símavörslu, veita upplýsingar um kaup og kjör, réttarstöðu fólks, aðstæður á vinnustað og slíkt; símtöl eru alveg ótrúlega mikill hluti af starfinu hér. Maður finnur það aftur og aftur hvað sérfræðikunnátta er mikilvæg, t.d. þegar verið er að mæla upp húsnæði vegna ræstinga. … En þarna hindrar smæðin og maður finnur stundum til vanmáttar …111

Vinnan XLIV (1994), 8. tbl., 20.

Sókn var með stærstu „kvennafélögunum“ innan ASÍ og var reyndar ekki eingöngu fyrir konur þó að þær væru þar í miklum meirihluta. Hér má sjá eina félagskvenna á Landspítalanum, líklega í kringum 1990. Þá voru á fimmta þúsund manns í félaginu en forystan taldi þó að félagið væri of lítið til að veita fullnægjandi þjónustu.

Sókn var engu að síður fyrirmynd margra félaga úti um land á þann hátt að samningar félagsins fyrir umbjóðendur sína urðu fordæmi margra félaga. Þeir voru iðulega yfirteknir óbreyttir, „aðeins var skipt um nöfn á félögum og undirskriftum“. Í sumum tilvikum gerðu lítil félög, t.d. verkalýðsfélagið í Stykkishólmi, samning við þau stærri um að þau mættu nýta sér samninga þeirra.112 Litlu félögin voru því háð þeim stærri og nýttu sér þá samninga sem þau höfðu náð, félagsmönnum sínum til hagsbóta. Frumkvæði minni félaga var því iðulega lítið.

Samantekt Þórunnar H. Sveinbjörnsdóttur 10. janúar 2010.

Utan höfuðborgarsvæðisins veltu menn fyrir sér hvernig væri réttast að standa að sameiningu verkalýðsfélaganna. Átti að gera það eftir svæðum eða starfsgreinum? Þessi mál ræddu fundarmenn á þingi Alþýðusambands Norðurlands (AN) árið 1995. Forysta sambandsins var ekki í vafa um hvert bæri að stefna. Hún vildi að félög á hverjum stað eða afmörkuðu svæði ynnu saman eða sameinuðust en forystumenn Sjómannafélags Akureyrar voru þó á öðru máli og vildu starfsgreinabundin félög sem næðu yfir stórt svæði. Eins og fyrr hefur verið frá greint hafði í stórum dráttum tekist að sameina félög ófaglærðs fólks í Eyjafirði. Sú sameining náði þó ekki til félaga iðnaðarmanna og sjómanna og þeir voru tvístígandi. Hvora leiðina bar að velja? Þeir hagsmunir sem tókust á voru þessir: Ef öll félög á tilteknu svæði sameinuðust um rekstur á skrifstofu var reynsla fengin fyrir því að hægt var að veita mun betri þjónustu en ella. Aðalsteinn Baldursson, formaður Verkalýðsfélags Húsavíkur, orðaði það svo að skrifstofuhald „verði fyrir vikið mjög ódýrt og í starfi sínu stilli félögin saman strengi um ýmis hagsmunamál byggðarlagsins“. Aðalsteinn sá þá fyrir sér að einstök félög á hverjum stað gætu þá jafnvel haldið áfram starfsemi sinni. Aðalatriði væri að þau ynnu saman. Signý Jóhannesdóttir, formaður Vöku á Siglufirði, tók í sama streng og áleit að ef niðurstaðan yrði sú að stofnuð yrðu starfsgreinafélög sem næðu yfir stórt svæði þá yrði skrifstofuhald óneitanlega miðlægt, líklegast á Akureyri fyrir félögin á Norðurlandi og þangað ættu Siglfirðingar erfitt með að sækja þjónustu; því væri betra að hafa starfsemina staðbundna. Afstaða Konráðs Alfreðssonar, formanns Sjómannafélags Akureyrar, var á hinn bóginn sú að best væri að starfsgreinarnar héldu saman: „Þegar allir sjómenn á Norðurlandi verði komnir í eitt og sama félag myndist öflug heild sem geti starfað skilvirkt.“ Undir þetta sjónarmið tóku einnig verslunar menn á Akureyri. Niðurstaða þings AN um þessi mál varð útvötnuð tillaga um aukið samstarf félaga. Línur þurftu greinilega að skýrast betur hvað varðaði skipulagsmálin fyrir norðan.113

Dagur 4. október 1995, 7 og 10. október 1995, 12 – Morgun-

Undir aldamótin sameinuðust fjögur stór félög í Reykjavík. Dagsbrún og Framsókn gengu í eina sæng árið 1997 eftir tveggja ára aðdraganda og ári síðar bættust Sókn og Félag starfsfólks í veitingahúsum í hópinn. Þessi félög mynduðu nýtt félag, Eflingu stéttarfélag. Rökunum fyrir því hvers vegna bæri að sameina félögin var lýst svo:

Sú spurning hefur komið fram í aðdraganda þessa máls hvort félagsmenn eigi samleið í einu stóru félagi þar sem starfssviðin séu svo mörg og ólík. Því hefur verið svarað á þann veg að í mörgum greinum liggi störfin saman. Má þar nefna að starfsmenn í eldhúsum og í ræstingu má finna í Sókn, Framsókn og FSV [Félagi starfsfólks í veitingahúsum]. Munurinn er eingöngu sá að sumir eru að elda fyrir sjúklinga, aðrir fyrir starfsfólk og ferðamenn. Sama á við um ræstingarstörfin. Því má segja að þessum starfsgreinum hafi verið sundrað og kominn sé tími til að sameina þá sem vinni sameiginleg störf.114

Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir 1998, 40.

Einnig var nefnt að sameining félaganna hefði marga kosti. Sameinað félag gæti staðið betur við bakið á fólki við gerð vinnustaðasamninga, gæti mætt viðsemjendum af meiri styrk en ella, sjóðir félaganna efldust og vinna við starfs- og símenntun yrði einnig öflugri.115 Félagið gæti í stuttu máli gert meira fyrir fólk. Á hinn bóginn var einnig bent á galla sem fylgdu stærri félögum. Guðmundur Þ Jónsson, sem lengi var í forystu iðnverkafólks, benti til dæmis á að þegar hann var formaður Iðju í Reykjavík hefðu verið á vegum félagsins á milli 80 og 90 trúnaðarmenn. Hann hefði þekkt flesta þeirra og aðstæður þeirra. Þegar skipt var um trúnaðarmann fékk hann strax vitneskju um það. En eftir sameiningu stærstu verkalýðsfélaganna í Reykjavík var ekki lengur hægt að fylgjast með slíku. Niðurstaða Guðmundar var því sú að sameining félaganna hefði leitt til þess að erfiðara væri að halda tengslum við ræturnar í hreyfingunni. Almennt verkafólk lét í ljósi svipaðar skoðanir.116 Ekki hefur verið kannað sérstaklega á hvern hátt sameining félaga karla og kvenna hefur haft áhrif á stöðu og virkni kvenna innan verkalýðshreyfingarinnar. En benda má á að enn sem komið er hefur kona ekki leitt neitt þeirra stóru félaga sem urðu til eftir sameiningu stéttarfélaga karla og kvenna á tíunda áratug 20. aldar .

Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir 1998, 40.
Viðtal. Guðmundur Þ Jónsson 2007. – Marteinn Sigursteins-
son í viðtali 2010.

Iðja sameinaðist þessum félögum í lok árs 1999. Þá sameinuðust Hlíf og Framtíðin í Hafnarfirði um sama leyti.117 Sannarlega mátti segja að mikill árangur hefði náðst í sameiningarmálum verkalýðshreyfingarinnar fyrir árið 2000. Þá var svo komið að um helmingur af félagsmönnum ASÍ var í tveimur stéttarfélögum í Reykjavík.

Björn Ingi Hrafnsson 2001, 214–216, en þar lýsir Halldór
G. Björnsson sameiningarferlinu. – Skýrsla forseta um störf

Þrjú sambönd runnu saman á árinu 2000, Verkamannasamband Íslands, Þjónustusambandið og Lands sam band iðn verkafólks, og mynduðu Starfsgreina sam bandið. Burðar stoðir þessara sambanda, Reykja víkurfélögin, höfðu þá sameinast í einu félagi. Verka lýðsfélögunum hefur svo haldið áfram að fækka. Á aldarfjórðungi varð því mikil breyting. Árið 1980 voru um 160 félög innan ASÍ en þau voru orðin tæplega helmingi færri árið 2004. Félögunum fækkaði hægt fram á níunda áratuginn en hraðar eftir það.118

Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 2000,
166–167. – Björn Ingi Hrafnsson 2001, 230–231. – Einnig
Hildigunnur Ólafsdóttir 2003, 13–16.

Sameiningarferlið hélt áfram er líða tók á fyrsta áratug 21. aldar. Það sem helst bar nýtt við var að meira varð um sameiningu félaga á landsvísu. Nokkur verslunarmannafélög úti um land sameinuðust t.d. VR í Reykjavík. Það átti m.a. við um Verslunarmannafélag Vestmannaeyja, Verslunarmannafélag Austurlands og Verslunarmannafélag Vestur-Húnavatnssýslu. Hins vegar sameinaðist verslunarfólk á Húsavík Verkalýðsfélagi Húsavíkur í Framsýn – stéttarfélagi, svo það var allur gangur á þessu. Þá sameinuðust Trésmiðafélag Reykjavíkur og Félag byggingamanna í Eyjafirði um þetta leyti. Það virtist því stefna í að hlutverk landssambanda færi minnkandi en hlutverk einstakra félaga vaxandi.119 Öflugustu félögin yfirtóku einfaldlega hlutverk landssambandanna í sumum tilvikum, t.d. VR. Annars staðar virtist stefna í öflug landshlutafélög eins og Verkalýðsfélag Vestfjarða sem varð til árið 2002 þegar nánast öll aðildarfélög Alþýðusambands Vestfjarða runnu í eitt félag.120 Árið 2007 sameinuðust öll verkalýðsfélög í hinum gamla Austfirðingafjórðungi, utan Verslunarmannafélags Austurlands, undir heitinu Afl, starfsgreinafélag (mörg þeirra höfðu sameinast áður).121 Athyglisvert við þessa þróun er að annars vegar efldust svæðisbundin félög og hins vegar fag- eða atvinnugreinafélög á landsgrundvelli.

Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 2008, 166.
120 Fréttablaðið 20. september 2002, 11.
Austurland 11. janúar 2001. – Skýrsla forseta um störf Alþýðu-

Fráfarandi formenn Dagsbrúnar og Framsóknar við sameiningu félaganna árið 1997, Halldór Björnsson og Ragna Bergmann.

Sameining varð einnig án tillits til „eðlilegra“ landamæra, ef svo má segja, eins og t.d. þegar Boðinn í Hveragerði og Efling í Reykjavík sameinuðust árið 2008. Félagsmenn Boðans völdu fremur að sameinast í vestur en austur. Hrepparígur réð þar ef til vill einhverju um en mestu réð líklega hversu öflugt félag Efling var. Við sameiningu félaganna gat Sigurður Bessason, formaður Eflingar, þess hvaða hagsmunum hún þjónaði. Hann benti á að á skrifstofu Eflingar störfuðu 25 manns og þar væri hægt að fá lögfræðiþjónustu og margvíslega aðra þjónustu. Í boði væri fjöldi orlofshúsa víða um land en einnig erlendis (í Kaupmannahöfn). Þá hefði Efling öflugan vinnudeilusjóð. Þess bæri einnig að gæta að framvegis mundi Efling hafa starfsstöð í Hveragerði.122

122 Þorgrímur Gestsson 2009, 204.

Vangaveltur komu upp í sameiningarferlinu um það hvort landssamböndin yrðu ekki brátt óþörf, en þau sambönd voru einmitt grunnurinn að skipulagi ASÍ. Þessi mál voru rædd í blaði Dagsbrúnar-Framsóknar, D&F. Þar er spurt árið 1998 hvort ekki sé eðlilegra að

Alþýðusambandið sé samband stórra öflugra eininga [fremur] en landssambanda sem í reynd hafa lítil völd og hafa engin bein tengsl við hinn almenna félagsmann? … Vandi Alþýðusambandsins er sá að sambandið hefur reynt að mynda áhrifaafl með landssamböndum sem í reynd hafa lítil völd og þurfa að sækja umboð sitt til grunneininganna. Með stækkun og eflingu stéttarfélaganna verður þessi vandi sýnilegri vegna þess að hinar stóru félagslegu einingar sem eru að myndast verða sjálfstæðari í öllu sínu starfi og þurfa minna að leita til sambandanna. Fram hjá þessari þróun í skipulagsmálum getur Alþýðusamband Íslands ekki litið.123

D&F mars 1998, 3.

Tími þessara hugmynda var þó ekki kominn enn og Alþýðusambandið festi í sessi skipulag sem byggði á landssamböndum. En þróunin var í þá átt sem lýst var hér að framan og Björn Jónsson ræddi um löngu fyrr – einstök félög efldust en það dró úr vægi landssambanda.

Hugur almennings til Alþýðusambandsins var kannaður um aldamótin 2000. Þá kom í ljós að tæplega þrír af hverjum fjórum töldu skipulag sambandsins vera annaðhvort fremur eða mjög gamaldags. Skipulagsmálin voru mjög til umræðu innan stéttarfélaganna og ASÍ um þetta leyti. Ágreiningur stóð um það hvort byggja ætti annars vegar á menntun og fagi sem grunni eða á starfi og vinnustað, og hvort t.d. ófaglært fólk sem starfaði í rafiðnaði eða byggingariðnaði ætti fremur heima í samtökum ófaglærðra eða samtökum þeirra sem ynnu við rafiðnað eða byggingariðnað.124

124 Guðmundur Gunnarsson 1999, 54.

Í aðdraganda þingsins árið 2000 var mikil umræða um skipulag hreyfingarinnar. Mikið var rætt um stöðu landssambandanna og hvaða áhrif ýmsar breytingar á vinnumarkaði hefðu á skipulag einstakra aðildarfélaga. Í lögum ASÍ voru skýr ákvæði um skörun samningssviða – að tvö félög gætu ekki farið með samningsréttinn fyrir sömu störfin. Þrátt fyrir þetta ákvæði hafði slíkum tilvikum farið fjölgandi þar sem breytingar á vinnustöðunum höfðu breytt innihaldi starfanna. Dæmi um þetta voru breytingar á bensínstöðvum sem í vaxandi mæli voru orðnar dagvöruverslanir í stað sérhæfðrar þjónustu við bíleigendur.

Einnig höfðu sum iðnaðarmannafélög breytt aðildarákvæðum sínum á þann hátt að víkja frá skilyrði um sveinspróf og taka upp heitið fagmenn um verkafólk sem hafði tekið námskeið í afmörkuðum þætti tiltekins fags. Þetta hafði leitt til opinnar deilu milli fulltrúa verkafólks og iðnaðarmanna innan miðstjórnar um árabil, en miðstjórn ASÍ hafði ekki staðfest lagabreytingar hjá nokkrum félögum iðnaðarmanna í nokkur ár vegna þessa.125

Samkvæmt frásögn Gylfa Arnbjörnssonar 2010.

Athygli vöktu umræður þegar Félag íslenskra símamanna sótti um aðild að Rafiðnaðarsambandinu árið 1999, en innan félagsins voru iðnaðarmenn og ófaglærðir.126 Laganefnd ASÍ taldi að þessi umsókn stæðist ekki. Rafiðnaðarsambandið (RSÍ ) sætti sig ekki við niðurstöðu laganefndarinnar og staðhæfði að innan þess væri einnig fjöldi fólks sem ekki hefði iðnmenntun. Formaður Rafiðnaðarsambandsins, Guðmundur Gunnarsson, lýsti því yfir að ákvörðun skipulagsnefndar jafngilti því að RSÍ væri vikið úr ASÍ. Hann gæti því ekki lengur tekið þátt í starfi þess, enda væri um þriðjungur af félagsmönnum Rafiðnaðarsambandsins ófaglærður. Hið sama gilti reyndar um fleiri sambönd iðnaðarmanna. Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samiðnar, lýsti deilunni þannig að iðnaðarmannafélögin væru hlynnt því að hafa félög sín atvinnugreinafélög. Þau vildu opna félögin fyrir þeim sem hefðu ekki lokið sveinsprófi og bjóða jafnframt styttri menntun sem gæfi einhver starfsréttindi. Hann fullyrti að verslunarmannafélögin og verkamannafélögin hefðu lagst gegn þessu og þau væru sterkustu aðilarnir innan ASÍ.127 Samiðn ákvað að fara að dæmi Rafiðnaðarsambandsins og hætta þátttöku í starfi miðstjórnar ASÍ.128 Síðar á árinu 1999 hjöðnuðu þó deilurnar og var ákveðið að boða til sérstaks fundar formanna og sambandsstjórnar árið eftir til þess að reyna að leysa deilur um skipulagsmálin.129

126 Sjá m.a. Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið
127 M.a. DV 24. apríl 1999, 4 og önnur dagblöð um svipað leyti.
128 Morgunblaðið 15. maí 1999, 13.
129 Morgunblaðið 24. nóvember 1999, 2.

Hluti af starfsfólki ASÍ og MFA árið 1992; hér er það í vinnu við þing ASÍ sem var haldið á Akureyri það ár. F.v. eru: Guðlaug Halldórsdóttir, Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir, Sif Ólafsdóttir, Bergþóra Ingólfsdóttir, Þórunn Birgisdóttir og Kolbrún Þorkelsdóttir; sú síðastnefnda var starfsmaður Verkamannasambandsins.

Forysta ASÍ gerði sér ljóst að skipulagið hefði ekki fylgt breytingum í samfélaginu. Skil sem áður höfðu verið skörp á milli atvinnugreina voru það ekki lengur. Samfélagið breyttist en verkalýðshreyfingin dróst aftur úr að því er skipulagsmálin varðaði. Forseti sambandsins, Grétar Þorsteinsson, sagði að það ætti við „mjög alvarleg skipulagsleg og félagsleg vandamál að etja“. Og nú væri komin „ögurstund“. Ekki gengi að deilur um skipulagsmál hindruðu vöxt og viðgang hreyfingarinnar og það að ný félög gengju til liðs við hana.130 Forsetinn var hér m.a. að vísa til áðurgreindrar deilu um aðild Félags íslenskra símamanna að Rafiðnaðarsambandinu; félög verslunarmanna gerðu þá kröfu að sumir meðlimir í Félagi símamanna yrðu að ganga í sínar raðir. Slíkur núningur var alls ekkert einsdæmi heldur birtist hann einnig í samskiptum fleiri félaga, t.d. Eflingar og Verzlunarmannafélagsins, þar sem breyttir samfélagshættir ollu því að mörk sem fyrrum voru skýr voru það ekki lengur. Forsetinn taldi brýnt að skipulagið væri sveigjanlegt og einfalt. Ósveigjanlegar reglur mættu ekki koma í veg fyrir að hreyfingin næði að þróast áfram og að ný aðildarsamtök gætu gengið inn í raðir ASÍ þrátt fyrir að skipulag þeirra væri á annan hátt en hefði tíðkast fram að því.131

130 Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 2000,
19–20.
Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 2000,
26–27.

Afgreiðslustúlka hjá Aktu-Taktu kringum aldamótin síðustu. Um það leyti var orðið algengt að afgreiðsla á eldsneyti, veitingasala og jafnvel sala á venjulegum matvörum væri undir sama þaki. Hefðbundin skipting starfa var að breytast mikið á áratugunum í kringum aldamótin 2000.

Meðal þeirra breytinga sem rætt var um að gera á skipulagi ASÍ árið 2000 var að láta starfsemi ASÍ hvíla á tveimur meginstoðum, ef svo má segja, annars vegar lögum ASÍ og hins vegar samstarfssamningi sem gerður yrði á milli einstakra félaga og sambanda. Þar með var ekki lengur fortakslaust bann við skörun samningssviða innan ASÍ, heldur jafnframt gert ráð fyrir að hlutaðeigandi félög gerðu með sér samstarfssamning vegna kjarasamninga milli þeirra félaga sem hlut áttu að máli.132 Þau semdu um það sín í milli hvar mörkin á milli þeirra lægju hvað varðaði félagsfólk og svæði, og um málsmeðferð þar sem mál sköruðust. Við þessa tillögugerð voru höfð til hliðsjónar skipulagsmál á hinum Norðurlöndunum en í Noregi og Svíþjóð hafði slíkt samráð verið lengi við lýði. Í raun væri um að ræða eins konar rammasamning „um samskipti og samstarf“ innan verkalýðshreyfingarinnar þar sem dregið væri „upp eins konar landakort yfir samningssviðin í nokkrum höfuðdráttum. Þegar slíkar grunnlínur væru dregnar sæist hvar skörunin væri“. Með því að gera þetta væri líka unnt að átta sig á því hvar yrðu til ný samningssvið og því unnt að ná til þessara sviða í stað þess að þau stæðu utan hinnar skipulögðu verkalýðshreyfingar.133 Þá var líka gert ráð fyrir tilteknu ferli ef upp kæmi ágreiningur sem erfitt væri að leysa. Fyrst væri reynt að gera það með samráði en ef það gengi ekki yrði að úrskurða. Einnig var lagt til að ASÍ gæti gripið til aðgerða ef einstök aðildarfélög stæðu sig ekki í starfi sínu eða vart yrði við misferli í starfi.134

Samkvæmt athugasemdum Gylfa Arnbjörnssonar 2010.
Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 2000, 37.
134 Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 2000, 39.

Í skipulagstillögum sem lágu fyrir þingi ASÍ árið 2000 var gert ráð fyrir að aðild að sambandinu ættu landssambönd og landsfélög.135 Sú stefna hafði í raun aldrei gengið eftir að skylda öll félög til að vera aðilar að landssambandi en það hafði verið ætlunin, eins og fjallað hefur verið um.136 Einnig var gert ráð fyrir að þing sambandsins yrðu lögð niður en í stað þeirra kæmu ársfundir sem yrðu æðsta vald í málefnum hreyfingarinnar. Þingin voru orðin afar umfangsmikil um þetta leyti og kostuðu mikla fjármuni. Þau sóttu jafnvel yfir 500 manns en gert var ráð fyrir að á ársfundum tæki ekki þátt nema um helmingur þessa fjölda. Mikilvæg rök í þessu samhengi voru einnig að örar breytingar í samfélaginu og á vinnumarkaðnum kölluðu á að æðsta valdastofnun verkalýðshreyfingarinnar kæmi oftar saman til að fjalla um málefni líðandi stundar og móta stefnu Alþýðusambandsins í þeim málum sem væru á dagskrá hverju sinni.137

Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands 2000, 35.
136 ASÍ, óprentuð gögn. Skipulagsumræða 2010, 29.
Samkvæmt athugasemdum Halldórs Grönvold 2012.

Þessar tillögur voru samþykktar á þingi ASÍ í nóvember 2000. Í stað þinga ASÍ, sem höfðu verið haldin frá stofnun sambandsins, átti hér eftir að halda ársfundi en þingin höfðu um alllangt skeið verið haldin á fjögurra ára fresti. Ársfundirnir áttu að vera styttri og mun fámennari en þingin voru áður. Bæði það og tíðari fundir áttu að gera það að verkum að unnt yrði að einbeita sér að færri málum en gert hafði verið á þingunum þar sem „allt“ var til umræðu. Þess var því vænst að umræðan yrði skilvirkari og árangursríkari en verið hafði.138 Þegar til kom voru ársfundirnir einnig býsna fjölmennir. Til dæmis áttu nærri 280 manns rétt til setu á fyrsta ársfundinum árið 2001.139 Þá var einnig fækkað í miðstjórn úr 21 í 15, helmingur hennar kosinn annað hvert ár og varaforsetum fækkað úr tveimur í einn. Samhliða var sambandsstjórn lögð niður og var álitið að með þessum skipulagsbreytingum yrði sambandið sveigjanlegra í stað þess að mál biðu jafnvel árum saman milli þinga eftir afgreiðslu.140 Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, annar varaforseta ASÍ, var ánægð með breytingarnar: „ASÍ verður miklu betur búið til þess að taka á málum bæði innbyrðis og út á við. Með tilkomu ársfunda á miðstjórnin alltaf að vera með fullt umboð … Miðstjórn á að verða beittari, enda verður hún uppfærð árlega ef svo má segja.“141Þegar reynsla var komin á þetta fyrirkomulag kom á daginn að forysta ASÍ vildi enn gera breytingar á skipulaginu og voru þær fyrst kynntar á ársfundi sambandsins árið 2005 en teknar til afgreiðslu árið eftir.142 Þær fólust í nokkurs konar afturhvarfi, þ.e. að halda skyldi þing á tveggja ára fresti í stað ársfunda. Þá var lagt til að fjölga í miðstjórn úr 15 í 31 en fundum hennar yrði fækkað í fjóra á ári. En samhliða yrði komið á 11 manna framkvæmdastjórn sem yrði skipuð forseta, varaforseta, formönnum landssambanda og þriggja stærstu aðildarfélaganna. Ekki var ætlast til þess að kosið yrði í framkvæmdastjórnina heldur tilnefnt í hana, og var þá hugsunin sú að koma í veg fyrir þær hörðu deilur sem kosningar í miðstjórn höfðu iðulega valdið. Í raun var verið að taka upp gamalt skipulag, miðstjórn og sambandsstjórn, þó að skipanin væri nefnd öðrum nöfnum. Þeir sem studdu tillöguna staðhæfðu að svona skipan hefði í raun verið ráðandi innan ASÍ um árabil og formenn landssambanda og þriggja stærstu félaganna hefðu „í raun og veru starfað eins og um framkvæmdastjórn væri að ræða í langan tíma“.

138 Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands 2003, 15–16.
139 Morgunblaðið 29. maí 2001, 10.
140 Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 2000,
36–37, 40.
DV 16. nóvember 2000, 4.
142 ASÍ, óprentuð gögn. Skipulagsumræða 2010, 29.

Ekki voru þó allir sáttir við þessar tillögur og sum landsbyggðarfélögin voru óánægð. Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Verkalýðsfélags Húsavíkur, áleit t.d. að þessar tillögur beindust í þá átt að gera ASÍ að „lokuðum klúbbi fárra sem ráði ferðinni“; þá var átt við að ekki ætti að kjósa í framkvæmdastjórnina heldur tilnefna í hana. Niðurstaðan varð sú að meirihluti ársfundarfulltrúa samþykkti hina breyttu skipan, eða 61%, og rúm 38% voru á móti. Það var þó ekki nóg. Tillagan varð að fá aukinn meirihluta, eða 2/3 atkvæða, til þess að hún næði fram að ganga. Aðalsteinn fagnaði niðurstöðunni en Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, varð fyrir vonbrigðum og taldi að tillögurnar hefðu verið vel undirbúnar og til bóta.143 Skipan mála hjá ASÍ varð því ekki breytt að þessu sinni.

143 Ómar Friðriksson 2006, 6. – Brjánn Jónsson 2006, 6.

Ákveðið var á ársfundi ASÍ árið 2008 að gera nýja tilraun til þess að komast að niðurstöðu um skipulagsmálin og á fundi miðstjórnar árið eftir var bundið fastmælum að hefja umræðu innan stéttarfélaganna um það hvernig best væri að leiða þessi mál til lykta.144 Eftir fundahöld með flestum félögum innan ASÍ var ákveðið að gera þrjár meginbreytingar á lögum og skipulagi ASÍ. Á þingi ASÍ árið 2010 var því ákveðið að aðild að ASÍ gætu „stéttarfélög átt beint eða í gegnum sambönd stéttarfélaga, sem skipulögð eru í samræmi við samþykktir þinga ASÍ“.145 Þetta merkti að ekki var lengur skilyrði að eiga aðild að landssambandi og ekki var heldur skilyrði að viðkomandi félag væri landsfélag eins og verið hafði. Skýringin á þessari breytingu var sú að mörk á milli félaga höfðu breyst og félög stækkað. Sum félög höfðu vaxið landssamböndum sínum yfir höfuð, svo sem segja mátti um VR sem hafði yfirburðastöðu innan Landssambands verslunarmanna. Þá voru sum önnur félög það stór að þau voru mun fjölmennari en sum landssamböndin. Efling samdi t.d. yfirleitt sér eða í bandalagi við næstu félög (í Flóabandalaginu svonefnda) en ekki með sérsambandi sínu, Starfsgreinasambandinu. Það þótti því eðlilegt að veita slíkum félögum beina aðild ef þau óskuðu þess. Þá voru dæmi þess að landssambönd yrðu landsfélög. Dæmi um það er Matvís, Matvæla- og veitingafélag Íslands. Það stefndi því í að sum landssamböndin yrðu óþörf. Allt benti líka til að einingarnar færu enn stækkandi eftir því sem tímar liðu, þróunin virtist stefna í þá átt. Loks má geta þess að það mælti með beinni aðild félaga að hjá þeim lágu valdheimildirnar, bæði rétturinn til að gera kjarasamninga og boða til verkfalla, ekki hjá samböndum. Það var því ekki „samræmi milli valdheimilda stéttarfélaganna og aðildar þeirra að ASÍ og stjórnskipulagi sambandsins“, og sú tilhögun vann gegn skipulagi sem byggðist á landssamböndum.146

144 ASÍ, óprentuð gögn. Skipulagsumræða 2010, 2.
145 Vefur ASÍ, http://asi.is/desktopdefault.aspx/tabid-58/152_
read-632/, sótt í nóvember 2011.
146 ASÍ, óprentuð gögn. Skipulagsumræða 2010, 29, 33. – ASÍ,
óprentuð gögn. Skipulagsumræða 2010, glærur, nr. 5.

Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins frá 1993–2011, og Halldór Grönvold, skrifstofustjóri ASÍ frá 1993 um langt árabil. Guðmundur lét mikið að sér kveða í umræðum um skipulag ASÍ kringum aldamótin.

Á ársfundi ASÍ árið 2005. Fulltrúar Bárunnar, stéttarfélags, í forgrunni. F.v. eru: Jóna Sigríður Gestsdóttir, Ásdís Ágústsdóttir, Óðinn K. Andersen, Vernharður Stefánsson, Ragna Larsen, Kristján Larsen og Sigríður Stefánsdóttir. Báran hefur nafn sitt frá Bárufélaginu gamla á Eyrarbakka, og rekur að hluta rætur til þess, en það var stofnað árið 1903.

Í lagabreytingunum var einnig gert ráð fyrir sérstöku þingi ungs launafólks í ASÍ. Þetta atriði var nýjung og hugsunin sú að auka áhuga ungs fólks á þátttöku í starfi verkalýðshreyfingarinnar, kynna því starfsemi ASÍ og tryggja að „sjónarmið þess komist til skila í stefnumótun og ákvarðanatöku innan hreyfingarinnar“.147 Stofn þing ASÍ-UNG var svo haldið í maí 2011 að viðstöddum 28 fulltrúum. Markmiðið með stofnuninni var að „efla og samræma starf ungs launafólks“ og „fræða ungt fólk um réttindi þess og skyldur … og standa vörð um sjónarmið ungs fólks gagnvart stjórnvöldum“. Fyrsti formaður var kjörinn Helgi Einarsson.148

147 ASÍ, óprentuð gögn. Skipulagsumræða 2010, 29, 34.
148 Sjá http://www.asi.is/ Gögn um ASÍ-UNG. Sótt í mars 2012.

Þá var sú mikilvæga breyting gerð að fundur formanna aðildarfélaga ASÍ var formgerður í lögum ASÍ. Fundunum var ætlað að vera „vettvangur stefnumótunar ASÍ og samráðs aðildarfélaga ASÍ milli sambandsþinga“. Halda bar formannafund að hausti þau ár þegar ekki voru sambandsþing. Ástæðan fyrir því að þetta var gert var sú að um árabil hafði verið til „óformlegur vettvangur formanna landssambanda og stærstu aðildarfélaga“ án þess að slíkir fundir ættu sér stoð í lögum ASÍ. Engu að síður voru þessir fundir mikilvægur þáttur í skipulagi ASÍ. Fundir af þessu tagi höfðu lengi verið haldnir, fundir formanna aðildarfélaga en líka fundir þar sem þeir voru kallaðir til, auk formanna landssambanda og svæðasambanda. Slíkir fundir voru einkum haldnir í tengslum við samningagerð og um árabil sótti ASÍ umboð sitt vegna samninga til slíkra funda.149 Loks voru á ný tekin upp þing sem halda bar á tveggja ára fresti í stað ársfunda og því aftur horfið til þess skipulags sem var fyrir árið 2000 hvað þetta varðar.150 Formannafundirnir komu þá í stað þess að halda þing árlega og voru eins konar sambandsstjórn. Þessi breyting var líka í takt við þær breytingar sem höfðu orðið á verkalýðshreyfingunni: eflingu einstakra félaga en minnkandi vægi sérsambanda og einfaldara skipulagi sem miðaðist við að þeir sem hefðu umboð í sínum höndum væru fulltrúar umbjóðenda sinna milliliðalaust. Á ársfundi ASÍ í október 2010 voru framangreindar breytingar staðfestar.

149 M.a. byggt á samtali við Ásmund Stefánsson 2010.
150 Vefur ASÍ, http://asi.is Lög ASÍ. Gögn sótt í janúar 2011.
– ASÍ, óprentuð gögn. Skipulagsumræða 2010, 32. – ASÍ,
óprentuð gögn. Lög Alþýðusambands Íslands 2010, 6–7.

Á ársfundi ASÍ árið 2006 varð nokkur umræða um „skörun“ á milli félaga. Tilefnið var að Félag vélstjóra og málmtæknimanna (VM) sótti um aðild að ASÍ, en félagið hafði orðið til við sameiningu Vélstjórafélags Íslands og Félags járniðnaðarmanna. Það var að hluta til landsfélag en Vélstjórafélagið náði til alls landsins og það skilgreindi sig því sem landsfélag og sótti um aðild að ASÍ með því fororði. En fyrir var hins vegar Samiðn, samband iðnfélaga, og þar innan borðs voru einnig málmiðnaðarmenn. Á þeim bæ var spurst fyrir um hvort það gæti gengið að taka inn í ASÍ landsfélag sem væri með „sama félagssvæði og samningssvið landssambands sem fyrir er í ASÍ“. Ef svo væri þyrfti að staldra við, og spurt var hvort hér væri boðið upp á „óhefta „samkeppni“ um samningssvið og félagssvæði“. Óheppilegt væri einnig að ekki hefði tekist að gera samstarfssamninga á milli félaga og sambanda þar sem samningssvið sköruðust. Þessar raddir minnihluta skipulags- og starfsháttanefndar heyrðust á ársfundi sambandsins árið 2006. Meirihluti þingheims, eða 56%, taldi þó að þessi skörun væri viðunandi, en 44% voru á móti inngöngu hins nýja félags. Árið 2008 var svo gerður samningur á milli Félags vélstjóra og málmtæknimanna og Samiðnar um samningssviðið í samræmi við 15. grein laga ASÍ. Þar sagði m.a. að ef samningssvið sköruðust væri viðkomandi félögum/samböndum „skylt að gera með sér samkomulag um samningssviðið“. Næðist ekki samkomulag mætti aðildarfélag skjóta ágreiningi til miðstjórnar ASÍ.151

Sjá heimasíðu ASÍ, lög, http://asi.is/desktopdefault.aspx/
tabid-58/ Sótt í október 2010.

Samstarfssamningar innan vébanda ASÍ eru því tvenns konar. Annars vegar er um að ræða samning þar sem samningssvið skarast og félögin deila með sér ábyrgð, en slíkur samningur er t.d. í gildi milli VM og Samiðnar, sem fyrr greinir. Hins vegar er samstarfssamningur samkvæmt 14. grein laga ASÍ sem fjallar m.a. um myndun sameiginlegrar samninganefndar. Slíkur samningur var fyrst gerður árið 2007 og er fjallað um þann samning annars staðar í þessu riti.

Á 1. maí árið 2003. Hér sjást fulltrúar – og fánar – langstærstu stéttarfélaga landsins, VR og Eflingar, á Ingólfstorgi í Reykjavík.

Skylduaðild að verkalýðsfélögunum?

[Vart væri] framkvæmanlegt í litlum samfélögum á Íslandi að halda uppi starfi stéttarfélaga ef verkafólk á tiltölulega fámennum stöðum og í fyrirtækjum með fáa starfsmenn væru í miklum mæli utan stéttar félaga. Augljóst er að slíkt mundi veikja stéttarfélögin og verkalýðshreyfinguna í heild og þannig er sú meginhætta fólgin í áliti sérfræðinganefndarinnar [sérfræðinganefnd Evrópuráðsins] að það gengur í raun gegn réttinum til að viðhalda öflugum félagsskap til þess að vinna að kjara- og réttindamálum.152

Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1992, 168.

Eftir samþykkt vinnulöggjafarinnar árið 1938 varð það í raun skylda verkafólks að vera í verkalýðsfélögum. Björn Jónsson, forseti ASÍ, orðaði það svo árið 1973: „… menn eru bara skyldugir til þess að vera í Alþýðusambandinu, þeir njóta ekki almennra mannréttinda, ef þeir eru ekki í sambandinu, og þar hangir margt á spýtunni eins og atvinnuleysistryggingar og fjölmörg önnur réttindi. Út úr þessu höfum við fengið hér á landi 100% skipulagningu.“ Almennt má segja að þessi staða hafi verið álitin æskileg eða viðunandi hér á landi. Litlar umræður fóru fram um þessa skipan mála og hvort með þessu væri gengið á rétt einhverra. Það átti þó eftir að breytast.153

Sjá m.a. Réttur 59. árg. (1973), 1. hefti, 27.

Árið 1989 fengu íslensk stjórnvöld athugasemdir frá sérfræðinganefnd Evrópuráðsins um framkvæmd Félagsmálasáttmála Evrópu um brot á 5. grein sáttmálans. Sú grein fjallaði um rétt fólks til þess að vera í stéttarfélögum eða standa utan þeirra. Athugasemdirnar vörðuðu rétt launafólks til að standa utan stéttarfélaga, forgang þeirra sem væru í stéttarfélögum til vinnu og að hér á landi giltu almennt þær reglur að fólk ætti ekki rétt á atvinnuleysisbótum nema það væri í stéttarfélagi. Talið var ámælisvert að ekki væri tryggður réttur til að standa utan stéttarfélaga. Sérfræðinganefnd Evrópuráðsins, sem fjallaði um þessi efni, taldi að hérlend ákvæði brytu í bága við ákvæði Félagsmálasáttmála Evrópu um félagafrelsi.154

154 Fréttabréf ASÍ, 12. mars 1992, 1–3.

Í athugasemdum ASÍ var bent á að ekki væri skylda að vera í stéttarfélögum samkvæmt íslenskum lögum og stéttarfélögin settu heldur ekki þannig skilyrði. Á hinn bóginn væri greiðsluskylda lögbundin.155 Samkvæmt starfskjaralögum frá árinu 1974 og 1980 var mælt fyrir um lágmarkskjör sem samtök aðila á vinnumarkaði semdu um, greiðsluskyldu atvinnurekenda í sjúkrasjóði og orlofssjóði, og að atvinnurekendum væri skylt að halda eftir iðgjaldi til stéttarfélaga. Samkvæmt þeim voru kjör sem samið var um af aðildarsamtökum vinnumarkaðarins lágmarkskjör og væru aðrir og lakari samningar ógildir. Þessi lög kváðu einnig á um að launafólki bæri að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi stéttar eða starfshóps og launagreiðendum var gert skylt að halda eftir af kaupi fólks iðgjöldum til lífeyrissjóðanna. Samkvæmt lögunum áttu allir atvinnurekendur að greiða í sjúkra- og orlofssjóði.156

Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1992, 156.
156 Stjórnartíðindi 1974 A, 222–223. – Stjórnartíðindi 1980 A,
271–272. – Vinnan XXIV (1974) 3. tbl., 2.

Mannréttindadómstóll Evrópu felldi úrskurð sumarið 1993 vegna máls leigubílstjóra gegn íslenska ríkinu. Þar var fjallað um starfsréttindamál og að ekki mætti knýja menn til aðildar að félögum, þar með talið að stéttarfélögum. Tildrög málsins voru þau að leigubílstjóri neitaði að vera í félagi leigubílstjóra og var hann í framhaldi af því sviptur rétti til þess að aka leigubíl. Málinu var vísað til dómstóla og var niðurstaða Hæstaréttar sú að stjórnarskráin verndaði ekki neikvætt félagafrelsi en hins vegar skorti lagaheimild til þess að leggja „bönd á atvinnufrelsi bílstjórans“. Í framhaldi af dóminum setti Alþingi lög sem gerðu þátttöku í bifreiðastjórafélagi að skilyrði fyrir atvinnuleyfi. Viðkomandi bílstjóri sætti sig ekki við lögin og skaut þeim til Mannréttindadómstóls Evrópu. Mannréttindadómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að slík kvöð væri ekki réttlætanleg.157

Lára V. Júlíusdóttir 1995, 50–51. – Skýrsla forseta um störf Al-
o.fl. 1995, 4–5.

Frá stofnþingi ASÍ-UNG árið 2011. Ritarinn er Guðfinna Alda Ólafsdóttir (VR). Ræðumaðurinn er Guðni Gunnarsson (Félagi vélstjóra og málmtæknimanna), bæði í fyrstu stjórn ASÍ-UNG.

Niðurstöður þeirra alþjóðlegu stofnana sem fjölluðu um aðild að verkalýðsfélögum voru þó misvísandi. Sérfræðinganefnd ILO, Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, áleit að ákvæðin brytu „ekki gegn félagafrelsi svo framarlega sem um þau væri samið í kjarasamningum“.158 Verkalýðshreyfingin tók undir þessi sjónarmið og lagði áherslu á að umræddur dómur ætti ekki að hafa áhrif á forgangsréttarákvæði til vinnu sem væru í gildi hjá flestum stéttarfélögum. Þau hefðu verið eitt helsta grundvallaratriði í baráttu verkalýðshreyfingarinnar frá öndverðu, enda byggðu forgangsréttarákvæðin á samningsfrelsinu. Á það hefði Alþjóðavinnumálastofnunin lagt ríka áherslu: forgangsréttarákvæði væru heimil og stönguðust ekki á við félagafrelsi, að því tilskildu að um þau hefði verið samið í frjálsum samningum.159

Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1994, 204.
159 Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1995,
158–161.

Miklar umræður urðu um þessi efni í samfélaginu. Sumir fræðimenn, t.d. Sigurður Líndal prófessor, töldu að skýra þyrfti þessi mál betur en verið hefði og sumir forsvarsmenn atvinnurekenda lögðu áherslu á að tryggja það sem kallað var „neikvætt félagafrelsi“, þ.e. að fólk hefði rétt á að standa utan stéttarfélaga. Slíkt teldist til mikilvægra mannréttinda. Þá samþykkti Sjálfstæðisflokkurinn sérstaka ályktun á landsfundi sínum þess efnis að leggja bæri áherslu á rétt fólks til þess að standa utan félaga. Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna, boðaði til ráðstefnu um málefnið.160 Þórarinn V. Þórarinsson, framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins, talaði um „einokun“ verkalýðsfélaganna. Hann sakaði félögin um að misnota aðstöðu sína: „Það eru svo gróf og grimm dæmi um það hvernig stéttarfélögin hafa misnotað þessa aðstöðu að það er nú varla hægt að segja frá í blönduðum selskap,“ sagði framkvæmdastjórinn.161

160 M.a. Morgunblaðið 15. ágúst, 16 og 5. nóvember 1993, 26. –
Einnig Jónas Haraldsson 1993, 12.
Morgunblaðið 16. febrúar 1993, 16.

Verkalýðshreyfingin óttaðist að umræddur dómur og umræður í kjölfar hans gætu leitt til átaka um tilverugrundvöll verkalýðshreyfingarinnar. Um svipað leyti lagði stjórnarskrárnefnd fram tillögur á Alþingi um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins þar sem lagt var til að mannréttindakafli hennar yrði endurskoðaður. Þar komu m.a. fram tillögur um að í grein stjórnarskrárinnar um félagafrelsi yrði kveðið á um rétt manna til að standa utan félaga, að hið svokallaða neikvæða félagafrelsi yrði jafnsett ákvæði um félagafrelsi. Í rökstuðningi var m.a. bent á að þessi tillaga væri svar við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu.162

162 Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1993,
177–178. – Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið

Á þingi ASÍ árið 1976, Björn Jónsson heldur ræðu. Björn taldi um þetta leyti að það væri nánast skylda fyrir verkafólk að vera í verkalýðsfélagi. Aðrir á myndinni eru f.v.: Grétar Þorleifsson, Björk Thomsen, Auður Torfadóttir og Karl Steinar Guðnason.

Alþýðusambandið tók til andsvara og mótmælti því að svo miklar breytingar væru gerðar án þess að þær væru ítarlega ræddar.163 Að mati forystu Alþýðusambandsins fór ekki á milli mála hvert hlutverk þeim var ætlað og lagði sambandið mikla áherslu á að gera breytingar á þessu ákvæði í frumvarpinu. Staða hreyfingarinnar var að sumu leyti sterk í ljósi þess að saman fóru kosningar til Alþingis í maí 1995 og endurnýjun kjarasamninga. Ríkisstjórnin hafði því ekki áhuga á að blanda hörðum deilum um þessi efni inn í kjaradeilur eða kosningabaráttu. Það fór því svo að samkomulag náðist um breytingar á ákvæðinu þar sem sérstaklega er dregið fram mikilvægi stjórnmálafélaga og stéttarfélaga í lýðræðisskipan landsmanna. Í endanlegri gerð sagði: „Engan má skylda til aðildar að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmætu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.“164 Í greinargerð er áréttað að „með samþykkt frumvarpsins sé í engu verið að hrófla við núverandi réttarstöðu á vinnumarkaði að því er varðar forgangsréttarákvæði, greiðslu félagsgjalda eða önnur réttindaákvæði“.165

163 Fréttabréf ASÍ, 30. janúar 1995.
164 Vefur Alþingis, http://www.althingi.is/altext/stjt/1995.097.
html. Sótt í janúar 2011.
165 Sjá vef ASÍ, http://www.asi.is/desktopdefault.aspx/ta-
bid-207/278_read-543/. Sótt í nóvember 2010.

Ágreiningurinn virtist einkum snúast um greiðsluskyldu til stéttarfélaganna. Verkalýðshreyfingin hélt því fram að umrætt gjald væri í raun fremur „vinnuréttargjald“ en félagsgjald.166 Allir launamenn nytu góðs af gerð kjarasamninga vegna þess að óheimilt væri að greiða lægri laun en kjarasamningar segðu til um. Því bæri í raun ekki að líta svo á að iðgjald það sem atvinnurekendur héldu eftir af launum starfsmanna lögum samkvæmt væri félagsgjald. Sönnu nær væri að líta á þessar greiðslur sem þjónustugjöld til verkalýðsfélaganna vegna vinnu við gerð kjarasamninga og margvíslega veitta þjónustu. Kjörin sem samið væri um væru lágmarkskjör fyrir alla launamenn, hvort sem þeir væru í stéttarfélagi eða ekki.167 Það urðu einmitt meginrök verkalýðshreyfingarinnar í þessu máli að aðild að félagi og greiðsluskylda væri ekki það sama, enda væri greitt fyrir veitta þjónustu hvort sem fólk væri félagar í verkalýðsfélagi eða ekki.

166 Morgunblaðið 16. febrúar 1993, 16.
167 Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1992, 169.

ASÍ rökstuddi mál sitt einnig á þann veg að aðstæður á Íslandi væru óvenjulegar. Þær væru þannig að vart væri unnt að halda uppi starfi stéttarfélaga ef margir launamenn stæðu utan þeirra.168 Þá var og á það bent að búið væri að rýmka ákvæði þess efnis að ekki einungis þeir sem væru innan stéttarfélaga gætu fengið atvinnuleysisbætur. Ákvæði þar um hefðu þó ekki sama gildi hér á landi og sunnar í álfunni þar sem allt aðrar aðstæður ríktu og mun lægra hlutfall fólks væri innan stéttarfélaga. Á Íslandi væri þessu öfugt farið þar sem allur þorri fólks væri innan stéttarfélaga og nyti því góðs af atvinnuleysisbótum.169

168 Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1992, 168.
169 Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1992, 172.

Þá kom einnig til umræðu að hjá sumum stéttarfélögum fékk fólk ekki fullan aðgang að tryggingasjóðum félaganna nema það væri fullgildir félagar. Sum félög höfðu þann hátt á að þeir sem greiddu félagsgjöld töldust fullgildir félagar en önnur félög höfðu það viðmið að fólk yrði að sækja formlega um aðild. Á því vildi verða misbrestur og hafði fólk þá ekki full réttindi. Alþýðusambandið brást við og hvatti stéttarfélögin ítrekað til að tryggja réttindi allra sem greiddu til sjúkrasjóða félaganna. Brýnt væri að kippa þessum málum í lag til þess að koma í veg fyrir neikvæða umræðu um málefni sjúkrasjóðanna.170

170 Alþýðublaðið 28. júlí 1994, 8.

Frá veitingastað MacDonalds fljótlega eftir að fyrirtækið hóf störf hérlendis, starfsfólk í forgrunni

Verkalýðshreyfingin tók því athugasemdir sem hún fékk á þessu sviði alvarlega og hvatti aðildarfélög sín til þess að huga að ákvæðum um félagsaðild, ekki síst í ljósi þess „málflutnings ASÍ um að hér á landi væri ekki skylduaðild að verkalýðsfélögum þótt um greiðsluskyldu væri að ræða, enda tvö ólík atriði á ferðinni“. Í umræðu um þessi mál innan verkalýðshreyfingarinnar sýndist þó sitt hverjum. Sumir vildu draga fram „kosti sjálfvirka félagsaðildarákvæðisins meðan aðrir áréttuðu mikilvægi þess að verkalýðshreyfingin gerði ekkert það sem ýtti undir að hægt væri að saka hana um að brjóta gegn almennum mannréttindaákvæðum“.171

Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1996, 152.

Til þess að skýra þessi atriði betur og vera betur fært um að leiðbeina aðildarfélögum óskaði Alþýðusambandið eftir því að laganefnd þess gaumgæfði þessi mál. Nefndin setti fram það álit að ekki bæri að líta svo á að nokkur væri „fullgildur félagi í verkalýðsfélagi nema sá sem sendi inn skriflega inntökubeiðni til viðkomandi félags“.172 Álit sérfræðinganefndar Evrópuráðsins væri skýrt, sem sé það að 5. grein Félagsmálasáttmála Evrópu fæli í sér að menn væru „ekki með neinum hætti skyldugir til að gerast eða vera áfram félagar í verkalýðsfélagi“. Ef ekkert væri að gert væri hætta á að farið væri að krefjast aðgerða af íslenskum stjórnvöldum til þess að tryggja félagafrelsi. Því hvatti laganefndin miðstjórn ASÍ til þess að staðfesta það álit nefndarinnar að ekki mættu vera ákvæði í lögum aðildarfélaga sem þvinguðu menn til félagsaðildar. Lögmaður ASÍ var einnig á sömu skoðun og fleiri lögmenn sem voru kallaðir til voru sama álits. Þeir bentu á að algeng ákvæði í kjarasamningum margra stéttarfélaga gætu verið á þessa leið: „Öllu starfandi verkafólki sem samningur þessi nær til er skylt að vera félagar í stéttarfélagi x, er það hefur unnið lengur en í 4 mánuði.“ Það var samdóma álit þessara aðila að ákvæði af þessu tagi stæðust ekki og bæri ASÍ að stuðla að því „með öllum ráðum að slík ákvæði heyri sem fyrst sögunni til“.173 Gera yrði kröfu um að einungis þeir sem hefðu sótt skriflega um aðild að stéttarfélagi gætu talist fullgildir félagar þeirra.

172 Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1996, 152.
Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1996,
155–156.

Á afmælisþingi ASÍ árið 1996 þegar sambandið varð 80 ára. Merki félaga og sambanda á sviðinu eru tákn um hversu vel hafði tekist að skipuleggja verkafólk innan einstakra félaga og innan ASÍ.

Miðstjórn ASÍ tók undir þessar skoðanir í ályktun sem samþykkt var í apríl 1996. Þar kom m.a. fram að miðstjórnin teldi að „forgangsréttarákvæði kjarasamninga og greiðsluskylda tengd þeim“ væri „eðlileg og fullkomlega lögmæt leið til að skapa stéttarfélögunum aðstöðu til að sinna hlutverki sínu“. En slík forgangsréttarákvæði hefðu ekki í för með sér neins konar félagsskyldu að stéttarfélögunum og yrðu þau að taka tillit til þessa. Þá liti miðstjórnin svo á að skilyrði um lögheimili eða búsetu væru óheimil vegna aðildar að stéttarfélagi. Einnig var staðhæft í samþykktinni að þeir launamenn einir væru lausir undan greiðsluskyldu til stéttarfélaganna sem væru bæði ófélagsbundnir og ynnu hjá atvinnurekanda sem ekki hefði forgangsréttarákvæði í þeim kjarasamningi sem hann hefði gert við tiltekið stéttarfélag. Loks benti miðstjórnin á að allir atvinnurekendur væru skyldir til þess að greiða til sjúkra- og orlofssjóða vegna starfsmanna sinna, án tillits til þess hvort viðkomandi starfsmenn væru félagsbundnir, enda öðluðust allir launamenn rétt til að fá greiðslur úr þessum sjóðum, hvort sem þeir væru í stéttarfélagi.174 Í framhaldinu var laganefnd sambandsins falið að gera tillögu að mögulegri fyrirmynd fyrir lög sambandsfélaga þar sem skýrt væri hvernig þessum málum bæri helst að vera háttað.175 Þó að þessar umræður væru formlega um mannréttindamál var enginn í vafa um hver kjarni þeirra væri – um var að ræða tilraun til þess að draga úr aðild fólks að verkalýðsfélögum og veikja þar með grundvöll þeirra.

174 Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1996, 159.
Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1996, 164.

Í „palesanderhöllinni“, húsi Vinnuveitendasambandsins við Garðastræti sem kallað var þessu nafni vegna viðartegundarinnar sem notuð var í klæðningar á veggi hússins. Myndin er tekin á samningafundi árið 1973, fulltrúar vinnuveitenda eru hægra megin en fulltrúar verkalýðsfélaganna vinstra megin og fyrir endanum. M.a. má sjá Guðríði Elíasdóttur vinstra megin. Við borðsenda eru m.a. Þórunn Valdimarsdóttir, Einar Ögmundsson, Björn Þórhallsson, Hannes Sigurðsson, Magnús Geirsson og Jón Ásgeirsson.Þriðji frá hægri, hægra megin borðs, er Jón H. Bergs, formaður Vinnuveitendasambandsins, þá er Gunnar Guðjónsson og sjötti f.h. er Kristján Ragnarsson. Á vegg er mynd eftir Gunnlaug Scheving listmálara.

Spurningar um aðild að stéttarfélögum og hvort styrkja bæri rétt þeirra sem ekki óskuðu eftir að gerast félagar að þeim voru kannski ekki settar fram af einberri lýðræðis- eða frelsisást þeirra sem það gerðu. Spurningar af þessu tagi voru tímanna tákn. Með vaxandi styrk frjálshyggjunnar, eða nýfrjálshyggjunnar, sem hefur verið ráðandi hugmyndafræði í veröldinni undanfarna tvo til þrjá áratugi, var gildi verkalýðsfélaganna dregið í efa. Í Evrópu hóf breska ríkisstjórnin harða sókn gegn verkalýðshreyfingunni á níunda áratug 20. aldar og takmarkaði völd og sjálfstæði hreyfingarinnar verulega með nýrri löggjöf. Hún takmarkaði einnig verkfallsrétt, enda væru verkalýðsfélög „hindranir á vegi nýjunga og framfara“, eins og víða var staðhæft.176 Dregið var úr félagslegri þjónustu, almenningsþjónusta einkavædd og húsnæði í samfélagseign selt. Þá voru afnumdar hindranir eða dregið úr hömlum á flæði fjármagns á milli landa og heimshluta til að framleiða mætti vöru á sem ódýrastan hátt, án tillits til afleiðinga á samfélag og umhverfi. Einstaklingurinn en ekki samfélagið átti að vera í öndvegi, flest skyldi verða að verslunarvöru og markaður var mælikvarði á flest gildi.177

176 Sjá m.a. Ingi Rúnar Eðvarðsson 1992, 42.
Harvey, David 2007, 165 og áfram.

Kristján Thorlacius, formaður BSRB, orðaði þessa þróun mála þannig að frjálshyggjan næði einnig inn í verkalýðshreyfinguna í viðtali árið 1985: „Einstaklingshyggjan kemur þar fram í því að menn telja að hópar og jafnvel einstaklingar geti séð sér betur fjárhagslega borgið með því að berjast hver fyrir sig, en að koma fram í stærri heildum.“178 Kristján var kannski að vísa til þess að kennarar voru um það bil að yfirgefa BSRB og fleiri samtök voru einnig að ræða þann möguleika. En þess utan varð þessi tilhneiging æ almennari í samfélaginu eins og Ásmundur Stefánsson, forseti ASÍ, ræddi einnig um á þessum tíma.179 Ásmundur benti á að svo virtist sem hugsunarháttur fólks væri að breytast. Einstaklingshyggja og markaðshyggja færi vaxandi og margir hugsuðu aðeins um sjálfa sig en teldu sig ekki bera ábyrgð gagnvart öðrum.180

178 NT 22. október 1985, 10–11.
179 Ásmundur Stefánsson 1985, 13 (Sókn markaðshyggjunnar).
180 Morgunblaðið 19. febrúar 1988, 24.

Í atvinnulífinu birtust þessi sjónarmið m.a. á þann hátt að fólki var í auknum mæli boðið að taka að sér störf sem „verktakar“, þ.e. að starfa á eigin vegum. Það fengi þá hærri greiðslur, stæði utan stéttarfélaga og nyti ekki réttinda þeirra, en ynni þó að öðru leyti eins og hvert annað launafólk. Oft voru slíkir samningar gerðir á fölskum forsendum, fólk starfaði í raun sem launþegar þó að það fengi greitt sem verktakar. Eftir dóm Hæstaréttar árið 1988 skýrðust þó reglur um þessi efni og farið var að ganga eftir því að fólk starfaði ekki sem verktakar þegar það var í raun launafólk. Slíkt var þó áfram algengt og jafnvel voru dæmi um að atvinnurekendur gerðu kröfu um að fólk ynni sem verktakar, ella fengi það ekki þá vinnu sem í boði væri. Sérstaklega var þetta áberandi þegar erfitt var um vinnu. ASÍ hvatti til aðgæslu og sérstaklega var fjallað um þetta atriði í kjarasamningum ársins 1990 þar sem varað var við þessari þróun. Þá gaf MFA út bæklinginn Launamaður – verktaki af þessu tilefni árið 1991 þar sem bent var á þau réttindi sem fólk færi á mis við ef það réði sig sem verktaka en ekki launamenn. Þá fylgdi samningi ASÍ og VSÍ frá því snemma árs 1990 yfirlýsing þar sem því var lýst yfir að aðilar teldu þessa „þróun skaðlega og andstæða hagsmunum félagsmanna sinna“.181 Benedikt Davíðsson, forseti ASÍ, benti á árið 1994 að fólki væri „kannski boðin 10–15 prósent launahækkun við að fara á þessi kjör. Það dugar hins vegar engan veginn til að standa undir þeim kostnaði sem það er að afsala sér í formi réttinda“.182 Jafnframt voru mörg dæmi um að verkafólk áttaði sig ekki á þeim réttindamissi sem það yrði fyrir ef það veldi þessa leið og væri ekki aðili að stéttarfélagi – hefði engin réttindi í sjúkrasjóði og engan orlofsrétt. Þá þurftu verktakarnir einnig sjálfir að standa skil á ýmsum opinberum gjöldum sem atvinnurekandi gerði ella.183

Vinnan XLIII (1993), 6.–7. tbl., 10-12. – Fréttabréf ASÍ, 16.
mars 1990. – Sjá Launamaður-verktaki 1991, 19 og víðar.
182 DV 12. desember 1994, 43.
183 Vinnan XLIII (1993), 6.–7. tbl., 19. – Vinnan XLIII (1993) 8.
tbl., 25. – Vinnan XLV (1995) 2. tbl., 26–27.

Vaxandi áhrifa nýfrjálshyggjunnar gætti víða um lönd og hafði það mikil áhrif á starfsemi stéttarfélaga. Hún varð mjög áhrifamikil á Nýja-Sjálandi. Þar var samningsréttur verkalýðsfélaga í raun afnuminn með nýrri vinnulöggjöf árið 1991. Það var gert með þeim formerkjum að atvinnurekendur og launafólk ættu að geta samið sín á milli um kaup og kjör án afskipta stéttarfélaga. Þá var verkfallsrétturinn takmarkaður verulega. Allt var þetta gert í nafni félagafrelsis. Hér á landi var vakin athygli á þessum breytingum. Í Reykjavíkurbréfi í Morgunblaðinu var breytingum á Nýja-Sjálandi lýst á jákvæðan hátt og staðhæft að það hefði haft mjög jákvæð áhrif á efnahagslífið að draga mjög úr valdi verkalýðshreyfingarinnar. Í umsögn blaðsins sagði m.a.:

Fyrir tveimur árum tóku ný lög um samninga á vinnumarkaði gildi á Nýja Sjálandi. Í þeim fólst að ríkisafskiptum af kjarasamningum var hætt og sáttasemjaraembætti voru lögð niður. Gert er ráð fyrir því í lögunum að kjarasamningar séu gerðir innan hvers og eins fyrirtækis og heildarsamningar aflagðir. Skylduaðild að verkalýðsfélögum var numin úr gildi og launþegum er nú heimilt að semja um kaup og kjör sem einstaklingar, eða þá að fela verkalýðsfélagi eða einhverjum öðrum fulltrúa að gera samninga fyrir sína hönd. Fulltrúar vinnuveitenda hafa tekið nýju löggjöfinni fagnandi. Þeir telja að hún auki til muna sveigjanleika í starfsmannahaldi og stjórnun launakostnaðar.184

184 Morgunblaðið 8. ágúst 1993, 22–23.

Morgunblaðið gat hins vegar ekki um viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar á Nýja-Sjálandi.

Fulltrúar íslenskra atvinnurekenda, t.d. Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri VSÍ, fögnuðu þessum viðhorfum. Hann rakti í grein hvernig heildarkjarasamningar hefðu verið bannaðir á Nýja-Sjálandi og skylduaðild að verkalýðsfélögum afnumin. Niðurstaða Hannesar var sú að tilraun Nýsjálendinga „til að virkja markaðsöflin til aukins sveigjanleika og samkeppnishæfni“ væri áhugaverð og verðskuldaði „fordómalausa umfjöllun“ af hálfu þeirra sem búa við „svipuð skilyrði“. Með öðrum orðum bæri að athuga hvort Íslendingar gætu ekki farið líka leið.185

Hannes G. Sigurðsson 1994, 24.

Afleiðingar þessara breytinga voru margvíslegar á Nýja-Sjálandi. Miklar hömlur voru settar á starfsemi verkalýðshreyfingarinnar. Atvinnu leysisbætur voru skertar og biðtími eftir bótum lengdur. Verðbólga minnkaði reyndar mikið. Nefnd Alþjóða vinnu mála stofn unar innar um félagafrelsi gagnrýndi nýsjálensku ríkisstjórnina fyrir framferði hennar og áminnti hana fyrir brot á helstu grundvallarsamþykktum stofnunarinnar og fyrir að brjóta gegn reglum um félagafrelsi og grundvallarmannréttindi launafólks.186 Slíkt féll ekki vel í kramið hjá Steve Marshall, framkvæmdastjóra nýsjálenska vinnuveitendasambandsins, sem var hérlendis í boði starfsbræðra sinna sumarið 1994. Hann kvað tilmæli Alþjóðavinnumálastofnunarinnar „á skjön við veruleikann í hinu nýja efnahags- og félagskerfi heimsins“. Þá áleit hann stórhættulegt að leyfa „samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar að verða hluti af alþjóðlegum viðskiptasamningum“.187

186 Sjá m.a. Bryndís Hlöðversdóttir 1994, 34. – Fréttabréf ASÍ 19.
júní 1989, 5–6. – Fréttabréf ASÍ 9. nóvember 1994, 8–11.
187 Morgunblaðið 1. júní 1994, 27.

En fulltrúar nýsjálenskrar verkalýðshreyfingar hvöttu stéttarbræður sína og -systur til þess að halda vöku sinni og koma í veg fyrir að mál næðu að ganga eins langt annars staðar og raunin varð á í heimalandi þeirra.188 Hið sama gerðu fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar víða um lönd og bentu á að sífellt væri verið að sneiða af réttindum verkafólks og skerða rétt verkalýðsfélaga, fyrir utan að í mjög öflugum ríkjum, eins og í Kína, störfuðu engin verkalýðsfélög. Á þingi Alþjóðasambands frjálsra verkalýðsfélaga árið 2004 komu fram mörg dæmi þess að mjög hefði verið þrengt að verkalýðshreyfingunni um heim allan. Til dæmis hefði atvinnuöryggi í Malasíu verið rýrt freklega því að þar hefði fólk einungis verið ráðið til skamms tíma. Verkalýðshreyfingin beindi spjótum sínum ekki síst að fataframleiðslufyrirtækjum sem byggðu framleiðslu sína einkum á vinnu kvenna sem væru gróflega misnotaðar með tilliti til þess hve lítið þær fengu greitt fyrir vinnu sína og hversu réttindalausar þær væru.189

188 Bryndís Hlöðversdóttir, 1994, Nýja Sjáland í eldlínunni 23.
189 Harvey, David 2007, 75. – Skýrsla forseta um störf Alþýðusam-

Sá gangur mála sem hér hefur verið lýst, bæði hérlendis og erlendis, leiddi til þess að víða í Evrópu fækkaði fólki í verkalýðshreyfingunni, mest í Bretlandi, en einnig í fleiri löndum. Til dæmis varð umtalsverð fækkun hjá norska Alþýðusambandinu eftir 1998 þó að það ætti eftir að breytast aftur. Nefna má að þátttaka fólks í verkalýðsfélögum er mjög misjöfn í löndum Evrópu. Langmest er hún á Norðurlöndum og er Ísland raunar í efsta sæti, en í sumum öðrum löndum álfunnar er þátttaka í verkalýðsfélögum mjög lítil. Þannig voru um 85% fólks á almennum vinnumarkaði í verkalýðsfélögum innan ASÍ um aldamótin síðustu og hefur það lítið breyst síðan. Hlutfall kvenna er heldur hærra en karla, konur eru með um 90% hlutdeild en karlar um 80%. Þetta hlutfall er heldur hærra en á hinum Norðurlöndunum og mun hærra en annars staðar í Evrópu sem fyrr getur. Til dæmis voru einungis um 10% vinnuafls í Frakklandi í stéttarfélögum undir aldamótin 2000, ríflega fjórðungur í Þýskalandi, þrír fjórðu í Danmörku og um fjórir fimmtu í Svíþjóð.190 Þess má geta að þegar gerð var könnun á afstöðu ungs fólks til verkalýðshreyfingarinnar árið 2007 töldu nánast allir nauðsynlegt að hafa stéttarfélög til þess að gæta hagsmuna launafólks svo að almennt voru viðhorfin jákvæð. En jafnframt kom þó fram að fólk vissi lítið um starf verkalýðshreyfingarinnar og hafði lítil afskipti af henni.191

190 Katrín Ólafsdóttir 2008, 18. – Christensen, Lars K. o.fl. 2007,
322. – Hildigunnur Ólafsdóttir 2003, 22, 24.
Fundargerð ársfundar Alþýðusambands Íslands 2008, 36–38.

Vörður

 • 1944 Verslunarmannafélag Vestmanneyinga gengur í ASÍ.
 • 1944 Verslunarmannafélag Siglufjarðar gengur í ASÍ.
 • 1952 Verzlunarmannafélag Reykjavíkur óskar eftir aðild að ASÍ en er hafnað.
 • 1953 Félag verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri gengur í ASÍ.
 • 1955 Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur breytt í félag launafólks.
 • 1957 Landssamband íslenskra verslunarmanna stofnað.
 • 1960 Landssamband íslenskra verslunarmanna sækir um aðild að ASÍ. Hafnað.
 • 1962 Félagsdómur dæmir Landssamband íslenskra verslunarmanna inn í ASÍ.
 • 1964 Landssamband íslenskra verslunarmanna í ASÍ með full réttindi.
 • 1963 Verkakvennafélagið Eining og Verkamannafélag Akureyrarkaupstaðar sameinast í Verkalýðsfélaginu Einingu.
 • 1964 Stofnþing Sambands byggingarmanna.
 • 1964 Málmiðnaðar- og skipasmiðasamband Íslands stofnað.
 • 1964 Verkamannasamband Íslands stofnað.
 • 1966 Félög verkamanna og verkakvenna á Siglufirði sameinast í Verkalýðsfélaginu Vöku.
 • 1968 Fjölgað í sambandsstjórn ASÍ, landssamböndin fá þar fulltrúa.
 • 1968 Alþýðusambandsþing haldin á fjögurra ára fresti í stað tveggja.
 • 1970 Alþýðusamband Suðurlands stofnað.
 • 1973 Landssamband iðnverkafólks stofnað.
 • 1987 Alþýðusamband Vesturlands lagt niður.
 • 1989 Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og Verkakvennafélag Keflavíkur og Njarðvíkur sameinuð. Sameiningarhrina hefst.
 • 1992 Þing ASÍ ákveður að ASÍ ætti að vera byggt upp af landssamböndum starfsgreindra verkalýðsfélaga.
 • 1993 Samiðn stofnuð.
 • 1997 Dagsbrún og Framsókn í eina sæng.
 • 1998 Sókn og Félag starfsfólks í veitingahúsum sameinast Dagsbrún-Framsókn.
 • 1999 Iðja sameinast þessum félögum.
 • 1999 Samtök atvinnulífsins stofnuð.
 • 2000 Verkamannasambandið, Þjónustusambandið og Landssamband iðnverkafólks mynda Starfsgreinasambandið.
 • 2000 Hætt að halda ASÍ-þing á fjögurra ára fresti. Þess í stað skulu haldnir ársfundir.
 • 2002 Verkalýðsfélag Vestfjarða stofnað er nánast öll aðildarfélög Alþýðusambands Vestfjarða sameinuðust í eitt félag.
 • 2007 Verkalýðsfélög á Austurlandi sameinast.
 • 2007 Samstarfssamningur ASÍ, landssambanda og félaga með beina aðild að sambandinu.
 • 2010 Skipulagi breytt, einstökum félögum heimiluð aðild að ASÍ. Ákveðið að halda þing á tveggja ára fresti.
 • 1974 Lög um starfskjör launþega um lágmarkskjör, aðild að lífeyrissjóði og greiðsluskyldu í sjúkrasjóði og orlofssjóði.
 • 1980 Lög um starfskjör launafólks sem kveða m.a. á um að laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, skuli vera lágmarkskjör.
 • 1993 Mannréttindadómstóll Evrópu fellir úrskurð um að ekki megi knýja menn til aðildar að félögum, þar með talið að stéttarfélögum.
 • 1996 Miðstjórn ASÍ telur mikilvægt að viðhalda forgangsréttarákvæðum kjarasamninga og greiðsluskyldu tengdri þeim. En ekki sé um að ræða skylduaðild.

Næsti kafli

Forysta, baráttuleiðir og starfshættir