Efnisyfirlit

Deila sögu ASÍ

Tímabilið fram til 1940

Atvinnulíf landsmanna byggðist fyrst og fremst á útgerð og fiskvinnslu á ofanverðri 20. öld. Hér má sjá landlegumorgun á Siglufirði árið 1957 eða 1958. Það var mikill fengur að síldinni um þær mundir og fram eftir sjöunda áratugnum.

Íslenskt samfélag og samfélagsbreytingar

Saga ASÍ: Til velferðar › Tímabilið frá 1960 og fram til 2010

Íslenskt samfélag og samfélagsbreytingar

Íslenskt samfélag gjörbreyttist á tímabilinu 1960 til 2010. Það varð smám saman að neyslusamfélagi með sívaxandi verkaskiptingu. Fram um 1960 hafði sjálfsþurftarbúskapur verið útbreiddur og margir, ekki síst þeir sem bjuggu utan höfuðborgarsvæðisins, reyndu að stunda hann áfram. Umönnun barna og aldraðra fór enn að miklu leyti fram inni á heimilum. Eftir 1960 breyttist þetta. Sjálfsþurftarbúskapurinn lagðist að mestu af og markaðurinn varð allsráðandi. Dýrar neysluvörur þóttu smám saman sjálfsagðar á hverju heimili, einnig á heimilum alþýðufólks sem tók þegar að tileinka sér nýja tækni. Þetta átti ekki síst við um heimilistæki, t.d. þvottavélar, kæliskápa, plötuspilara og síðar sjónvörp, sem urðu ekki almenningseign fyrr en á sjöunda áratugnum eða jafnvel síðar. Hið sama gilti um bifreiðar, þær urðu á þessum tíma sjálfsagður þáttur í lífi flestra fjölskyldna. Utanlandsferðir tilheyrðu líka þessu nýja neyslumynstri en þó urðu þær ekki algengar meðal almennings fyrr en á áttunda áratugnum.

Á Íslandi varð til velferðarsamfélag á ofanverðri 20. öld þó að hægar gengi að vinna slíkum hugmyndum fylgi hér en í nágrannalöndunum. Samneyslan jókst smám saman og verkalýðshreyfingin hafði áhrif á að félagslegar lausnir voru efldar, einkum þegar líða tók á tímabilið. Verulegur munur var þó á framlögum til félags- og heilbrigðismála hérlendis og á hinum Norðurlöndunum, einkum Danmörku og Svíþjóð. Þessi munur var einkum mikill frá sjöunda og fram á tíunda áratuginn en fór minnkandi um og eftir aldamótin 2000. Hafa ber í huga að atvinnuástand var iðulega ólíkt því sem var í nágrannalöndunum og yfirleitt lítið eða ekkert atvinnuleysi hérlendis, öfugt við sum hinna Norðurlandanna þar sem atvinnuleysi var löngum verulegt.

Samhliða því að neyslu- og markaðssamfélagið festist í sessi breyttust samfélagsleg viðhorf. Hlutverk markaðarins varð stöðugt meira og orðræðan tók smám saman mið af því að markaður væri allsráðandi. Um og eftir 1980 varð nýfrjálshyggja smám saman viðmið á mörgum sviðum á Vesturlöndum og ráðandi um veröld víða.1 Fjármagnið átti að fá að flæða að vild og hnattvæðing varð lykilorðið. Haga átti flutningi á vinnuafli og fjármagni á milli heimshluta eins og eigendum fjármagnsins þóknaðist og draga bar úr ríkisumsvifum og áhrifum verkalýðsfélaga.

Sjá m.a. Stefán Ólafsson 1986, 45 og áfram.

Þessi stefna kom fram með mismunandi hætti eftir löndum. Hérlendis birtist hún ekki síst í því að opinber fyrirtæki og stofnanir voru seld til einkafyrirtækja. Almennt má segja að frá níunda áratugnum – sérstaklega eftir 1990 – hafi samfélagið smám saman færst til „hægri“ í þeim skilningi að markaðslausnir og einstaklingshyggja efldust á kostnað vitundar um mikilvægi samhjálpar og samfélagslausna. Á hinn bóginn er sú skilgreining ekki einhlít. Á sama tíma jókst samneysla umtalsvert eins og fyrr er getið. Það varð því togstreita innan samfélagsins. Samtímis því að markaðsvæðing jókst togaði verkalýðshreyfingin og þau öfl sem aðhylltust félagslegar lausnir í gagnstæða átt og þau náðu einnig árangri.

Atvinnuskipting samfélagsins breyttist. Hlutur landbúnaðar og fiskveiða og framleiðslustarfsemi minnkaði jafnt og þétt en hlutur þjónustu af margvíslegu tagi jókst. Með öðrum orðum fækkaði sjómönnum, bændum og fólki í fiskvinnu og við aðra framleiðslu mikið hlutfallslega en kennurum, hjúkrunarfólki og öðrum sem störfuðu við umönnun, t.d. heimahjúkrun, fjölgaði. Einnig fjölgaði fjölmiðlafólki, „upplýsingatæknum“, lögmönnum og ráðgjöfum hvers konar. Eftir aldamótin 2000 þyrptist fólk til starfa í bönkum. Þessi þróun er í samræmi við það sem gerðist í nágrannalöndunum á sama tíma þar sem hið svokallaða þekkingarsamfélag varð ráðandi en vægi hefðbundinna greina fór minnkandi. Byggðamynstrið breyttist einnig og framhald varð á þeirri þróun sem var svo skýr á fyrri hluta 20. aldar þegar fólk flutti úr dreifbýli í þéttbýli og frá minni þéttbýlisstöðum í þá stærri. Árið 2010 virtist allt stefna í að Ísland yrði nánast eins og borgríki vegna þess hversu stór hluti landsmanna var þá búsettur á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess.

Samhliða breyttust atvinnuhættir mjög mikið vegna tæknibreytinga og aðstæður á vinnustöðum sömuleiðis. Mjög mörg störf sem eftir miðja 20. öld voru óþrifaleg og erfið teljast það ekki lengur í sama mæli, t.d. bílaviðgerðir eða störf í prentsmiðjum. Þá voru störf hafnarverkamanna og sjómanna talin sérlega erfið og hættuleg fyrr á árum. Nú má segja að þau störf séu að mörgu leyti einnig orðin tæknistörf og hafnarverkamennirnir séu jafnvel orðnir eins konar hótelstarfsmenn á vöruhóteli. Tölvuvæðingin, sem hófst að marki á níunda áratugnum, átti mikinn þátt í þessum breytingum og lagði undir sig nánast öll svið samfélagsins. Í mörgum störfum verður þó aldrei komist hjá líkamlegu erfiði, enda fráleitt að halda því fram að erfiði og slit við vinnu sé úr sögunni. Í iðnaði og annarri framleiðslustarfsemi er oft mikið álag samfara kröfum um aukna framleiðni. Slíkt hið sama má segja um mörg umönnunarstörf, ekki síst á heilbrigðisstofnunum, þar sem vinnuálag hefur aukist samhliða kröfum um niðurskurð í velferðarkerfinu og sparnað í kjölfar hrunsins 2008. Einnig má fullyrða að andlegt álag og streita í vinnu af margvíslegum orsökum, svo sem vegna vinnuhraða, áreitis og undirmönnunar, hafi einnig aukist mjög.

Samsetning á vinnumarkaðnum breyttist einnig mikið á þann þátt að konum fjölgaði þar mjög á þessum tíma. Um 1960 var jafnvel litið svo á að konur væru ekki fullgildir þátttakendur á vinnumarkaði, heldur sæju karlar þeim fyrir framfæri. Atvinnuþátttaka kvenna breyttist hlutfallslega lítið fram til 1960, en tók þá að aukast og er nú litlu minni en atvinnuþátttaka karla. Mest munaði um að giftar konur fóru að sækja út á vinnumarkaðinn og brátt varð sjálfsagt að þær ynnu utan heimilis. Með miklum rétti má segja að þær hafi borið uppi þann mikla vöxt þjóðartekna sem varð á sjöunda og áttunda áratugnum, samhliða geysilegri þenslu í sjávarútvegi og vinnslu sjávarafurða. Vöxtur velferðarkerfisins kallaði einnig á stóraukið vinnuframlag kvenna.

Almennt má segja að mikil þensla hafi verið ríkjandi stóran hluta þess tímabils sem hér er til umfjöllunar og atvinnuleysi mátti heita óþekkt svo árum skipti. Frá 1960 var þó atvinnuleysi verulegt á þremur tímabilum, kringum 1968, á fyrri hluta tíunda áratugarins og svo langmest á árunum eftir hrunið árið 2008.

Erlendir ríkisborgarar á vinnumarkaði hérlendis voru hlutfallslega fáir allt fram undir aldamótin 2000, miklu færri en í nágrannalöndunum. Samhliða þenslunni fram eftir fyrsta áratug nýrrar aldar fjölgaði þeim mjög og varð hlutfall þeirra svipað og í nágrannalöndunum. Samsetning þeirra var þó ólík því sem var víða annars staðar og var umtalsverður hluti þeirra frá Austur-Evrópu.

Efnahagslífið var mjög sveiflukennt á tímabilinu 1960 til 2010. Mikil verðbólga var algeng og varð stundum að óðaverðbólgu. Um skeið var verðbólgan mikil á sjöunda áratugnum en mesta verðbólgutímabilið var áttundi áratugurinn og fram undir miðjan níunda áratuginn. Stöðugleiki náðist ekki fyrr en árið 1990 og verðbólga hefur ekki náð fyrri hæðum þó að hún hafi verið nokkur eftir aldamótin 2000 og veruleg eftir „hrunið“ 2008.

Kaupmáttur hefur aukist mikið á undanförnum fimmtíu árum. Ef miðað er við tímabilið frá ofanverðum sjöunda áratugnum og fram yfir aldamótin 2000 sést að kaupmáttur hefur um það bil tvöfaldast og fer ekki milli mála að verkalýðshreyfingin hefur náð miklum árangri á því sviði.

Árið 1960 var verkalýðshreyfingin á Íslandi – og Alþýðusambandið – býsna ólík því sem hún var hálfri öld síðar. Alþýðusambandið var fyrst og fremst stéttarsamband erfiðisvinnufólks árið 1960 en hafði breyst mikið árið 2010 og VR var þá orðið langstærsta félagið innan ASÍ. Viðhorf sambandsins höfðu líka breyst mikið.

Árið 1960 taldi forysta ASÍ höft í efnahagslífinu til bóta og vildi hafa hömlur á því hvaða vörur væru fluttar til landsins. Henni þótti sjálfsagt að styðja við innlenda framleiðslu með því að koma í veg fyrir samkeppni frá innfluttum vörum. Þess vegna var ASÍ á móti inngöngu í EFTA á ofanverðum sjöunda áratugnum og var líka andvígt miklum erlendum fjárfestingum í landinu. Sú andstaða byggðist fyrst og fremst á þjóðernislegum grunni, enda var róttæk þjóðernishyggja eitt af því sem einkenndi ASÍ á þessum tíma. Þessi afstaða einkenndi ASÍ fram um 1980, enda efldu landhelgisdeilur áttunda áratugarins mjög viðhorf af þessu tagi. En eftir því sem nær dró aldamótunum breyttist þessi stefna og ASÍ varð almennt jákvætt gagnvart því að frelsi ríkti í viðskiptum á milli landa og um aldamótin 2000 studdi hreyfingin aðild að Evrópubandalaginu, þó með þeim skilyrðum að félagsleg viðhorf væru viðurkennd.

Um 1960 leit ASÍ fyrst og fremst á það sem hlutverk sitt að berjast fyrir hærri launum en síður fyrir félagslegum málum eða bættum aðstæðum á vinnustað. Þessi viðhorf byggðust m.a. á þeim arfi að stjórnmálaflokkur – eða flokkar – alþýðunnar ætti að berjast fyrir félagslegum umbótum en faglegi armurinn fyrir hærri launum. Svona hafði þetta verið allt þar til skilið var á milli ASÍ/Alþýðuflokks árið 1940. En eftir aðskilnaðinn breyttust viðhorfin og verkalýðsflokkarnir tveir voru sjaldan samstíga. Verkalýðshreyfingin brást ekki við með því að sinna betur félagslegum málefnum, heldur einbeitti hún sér að launakjörunum. Það er skiljanlegt í ljósi þess hve lengi Ísland var láglaunaland, samanborið við nágrannalöndin.

Íslensk verkalýðshreyfing fór smám saman að leggja meiri áherslu á að efla velferðarsamfélag á Íslandi, sérstaklega eftir 1980. Þá var nýtt fólk að koma til starfa innan verkalýðshreyfingarinnar sem hafði önnur viðhorf en sú kynslóð sem var fædd á fyrstu áratugum 20. aldar. Þetta fólk hafði sem keppikefli að vinna að því að skapa velferðarsamfélag á Íslandi í anda þess sem var á hinum Norðurlöndunum. Árið 1960 var ASÍ fyrst og fremst hreyfing karla og viðhorfin einkenndust af því. Um þetta leyti voru þó tekin stór skref í jafnréttisátt með setningu laga um launajafnrétti. Konur áttu þó lengi erfitt uppdráttar innan hreyfingarinnar. Snúið var fyrir þær að komast til áhrifa og ná fram þeim málum sem þær börðust fyrir þó að skilningur á málefnum þeirra hafi smám saman aukist.

Á sjöunda áratugnum urðu miklar breytingar á efnahagsstefnu stjórnvalda, miðað við það sem verið hafði. Svonefnd Viðreisnarstjórn tók við valdataumum árið 1959 en hún var samstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks. Í stjórnartíð hennar var ákveðið að snúa baki við hafta- og millifærslustefnu sem hafði verið ráðandi um tveggja til þriggja áratuga skeið.2 Efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar höfðu í för með sér verulega kjaraskerðingu og verkalýðshreyfingin missti af ávinningum sem hún hafði náð fram.

Sjá m.a. Ólafur Rastrick 2004, 14–15.

Síðla árs 1963 voru teknar upp viðræður á milli forystu verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstjórnarinnar.3 Þeim viðræðum var haldið áfram árið eftir og fjallað um á hvern hátt mætti koma kjaramálum í annan farveg en verið hefði. Í kjölfarið var tekið upp samráð stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins og fólust markmiðin í því að vinna að því að bæta hag almennings með því að stytta vinnutíma, lengja orlof, auka vinnuvernd og gera átak í húsnæðismálum. Hag fyrirtækja átti að bæta með aukinni framleiðni þeirra. Næstu ár hélt þetta samráð áfram, ekki síst á sviði húsnæðis- og atvinnumála. Friðvænlegra varð á vinnumarkaði en verið hafði og kom ekki til almennra verkfalla fyrr en í efnahagskreppunni 1968 en þá hafði atvinnuástandið versnað mjög og atvinnuleysi var verulegt.

Matthías Johannessen 1981 II, 338–339. – Ólafur Rastrick
2004, 38–42.

Árið 1969 fór efnahagsástandið að skána. Nýjar atvinnu greinar komu til sögunnar með stóriðju í Straumsvík. Þá fór hagur sjávarútvegs batnandi með meiri afla og hærra verði. Kapp var lagt á að endurnýja framleiðslutæki, bæði skip og frystihús. Gróska var í upphafi áttunda áratugarins. Atvinnuleysið hvarf og mikil þensla varð á vinnumarkaði. Laun hækkuðu mikið og einkaneysla jókst hratt.4

Sjá m.a. Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 33. sambandsþing

En góðærið tók enda. Um miðbik áratugarins, samhliða olíukreppunni 1974–1976, varð djúp lægð í íslensku efnahagslífi. Mjög dró úr kaupmætti. Árið 1976 og næstu ár á eftir urðu þó gjöfulli og laun hækkuðu verulega aftur. Ekkert lát varð á sveiflum og óstöðugleika. Verðbólga jókst. Hún hafði að meðaltali verið um 10% á viðreisnarárunum, en varð 30–60% á áttunda áratugnum. Á sama tíma dró úr verðbólgu í helstu viðskiptalöndum Íslendinga.5 Verðbólga hafði þó einnig verið umtalsverð í sumum þeirra um nokkurt skeið, t.d. nærri 25% í Bretlandi árið 1975 og um 15% í Danmörku árið áður. En verðbólgan hér á landi var samt aðallega heimatilbúin. Ójafnvægi og óðaverðbólga hélt svo áfram næstu árin og verðþenslan náði þriggja stafa tölu árið 1983. Mælirinn fylltist og flestum varð ljóst að ekki væri unnt að halda áfram á þennan hátt þó að ágreiningur væri um leiðir. Hagvöxtur var reyndar oft mikill á þessum tíma og þjóðarframleiðsla jókst hratt, t.d. yfir 12% árið 1964 og yfir 13% árið 1971. Hagvöxtur var þó afar sveiflukenndur og stundum dróst þjóðarframleiðslan saman.6

Sumarliði R. Ísleifsson 2004, 251–252.
Vinnan XXXII (1982) 4. tbl., 11–12. – Hagskinna 1997, 710–713.

Gjaldmiðilsbreytingin í ársbyrjun 1981 var tákn um þá miklu efnahagsóreiðu sem hafði verið í landinu og var hugsuð sem liður í að efla stöðguleika. Svo fór þó ekki og verðbólga var áfram mikil um skeið. Hér má sjá viðskiptavini Landsbankans við Lágmúla í Reykjavík þeirra erinda að skipta gömlum krónum fyrir nýjar.

Órói var áfram í efnahagslífi landsins er leið á níunda áratuginn. Verðbólga var mikil (að jafnaði í kringum 30% eftir 1983) þrátt fyrir harkalegar ráðstafanir stjórnvalda, miklu meiri en í nágrannalöndunum.7 Gengisfellingar voru tíðar og verðbólguhugsunarháttur ráðandi þó að tilraunir væru gerðar til þess að breyta um stefnu um miðjan níunda áratuginn. Aðstæður breyttust mjög með þjóðarsáttarsamningunum árið 1990. Verðbólgan hvarf þá nánast sem dögg fyrir sólu en kaupmáttur dróst líka saman og atvinnuleysi varð verulegt. Aðstæður í efnahagslífinu bötnuðu eftir 1995. Kaupmáttur jókst á ný og atvinnuleysið minnkaði hratt.

ÞÍ. Efnahagsnefnd ASÍ, ágúst 1988. Sögus. verkal. A01:
22/24. Skrifstofa. Atvinnu- og kjaramál. Efnahagsmál 1988.

Undir aldamótin 2000 voru blikur á lofti í efnahagsmálunum og útlit fyrir að drægi úr hagvexti. En hagvöxtur jókst brátt aftur og varð næstu árin meiri hér á landi en í flestum nágrannalandanna, t.d. yfir 6% árið 2004. Einkaneysla jókst hratt og hinir nýeinkavæddu bankar mokuðu fé í allar áttir. Mikil hækkun varð á húsnæðisverði og þensla jókst vegna orkuframkvæmda og aukins þungaiðnaðar. Gengi krónunnar hækkaði og viðskiptahalli var mikill. Atvinnuleysi var hverfandi, launin hækkuðu og einkaneysla jókst hratt. Allt leit því vel út á yfirborðinu.

En í október 2008 brustu stoðir þess efnahagslífs og hugmyndakerfis sem hafði verið mótað undanfarna tvo áratugi. Yfir landið dundi „bankakreppa, gjaldeyriskreppa, skuldakreppa, ríkisfjármálakreppa og loks stjórnarkreppa“.8 Gengi krónunnar hrapaði og hún varð meira en helmingi verðminni en hún hafði verið fáum missirum fyrr. Verðbólga komst upp undir 20% þegar mest var á árinu 2009. Kaupmáttur dróst hratt saman og neysla minnkaði. Margir misstu vinnuna. Skuldir margra fjölskyldna snarhækkuðu vegna þess að margir höfðu tekið lán í erlendum gjaldeyri.9 Viðfangsefni stjórnvalda og verkalýðshreyfingar undir lok fyrsta áratugar 21. aldar var ekki auðvelt og verkalýðshreyfingin stóð frammi fyrir erfiðustu verkefnum sem hún hafði glímt við um langt skeið.

Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 2009, 87.
Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 2008, 52–59
og 2009, 127–137.

Mótmæli á Austurvelli í Reykjavík eftir efnahagshrunið síðla árs 2009.

Næsti kafli

Skipulagsmálin á síðari hluta 20. aldar og málefni stéttarfélaganna. Félagsaðild