Efnisyfirlit

Deila sögu ASÍ

Tímabilið fram til 1940

Hannibal Valdimarsson tekur á móti gestum í hófi sem haldið var vegna 50 ára afmælis ASÍ 12. mars árið 1966. Við hlið hans hægra megin er kona hans, Sólveig Sigríður Ólafsdóttir, en gestkomandi eru Magnús L. Sveinsson (t.v.), lengi í forystusveit VR og Guðmundur H. Garðarsson, formaður VR, en fyrir aftan þá er lengst til hægri Guðjón Sigurðsson, formaður Iðju. Þessir menn voru meðal helstu forystumanna Sjálfstæðisflokksins innan verkalýðshreyfingarinnar.

Forysta, baráttuleiðir og starfshættir

Saga ASÍ: Til velferðar › Tímabilið frá 1960 og fram til 2010

Forysta, baráttuleiðir og starfshættir

Þessi heiptarátök voru starfi verkalýðshreyfingarinnar ekki holl. Alþýðusambandsþingin voru annaðhvort ár. Fyrra ár kjörtímabils var að vísu starfsfriður að kalla, þó að ýmis konar sárindi þyrfti þá að græða, en seinna árið fór að miklu leyti í vígbúnað fyrir næsta þing og komu stjórnmálaflokkarnir þar ótæpt og allt of mikið við sögu.1 (Hannibal Valdimarsson árið 1972.)

Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, uppköst, ræður, ódagsett
III. Ræða flutt á Alþýðusambandsþingi 1972.

Samstarf þvert á flokkslínur

Kringum miðjan sjöunda áratuginn varð meiri friður innan Alþýðusambandsins en verið hafði. Fyrir því voru margar ástæður. Með inngöngu Landssambands verslunarmanna í ASÍ árið 1964 breyttust valdahlutföll en þar réðu sjálfstæðismenn ríkjum. Í röðum sósíalista höfðu viðhorf einnig breyst eftir að samskiptin við ríkisvaldið bötnuðu í kjölfar kjarasamninga um miðjan sjöunda áratuginn. Einnig hafði áhrif að samkomulag innan Alþýðubandalagsins var ekki of gott og gætti tortryggni á milli Hannibals og stuðningsmanna hans annars vegar og sósíalista hins vegar. Allt þetta leiddi til þess að kaldastríðsblokkir tóku að riðlast. Greinilegt var að samstarf Hannibals við sósíalista var ótraust og staða hans innan ASÍ var ekki sterk. Samstarfið hélt þó og höfðu Alþýðubandalagið og Framsóknarflokkurinn samstarf á þingum ASÍ bæði árin 1964 og 1966. En engu að síður var ljóst að miklar breytingar höfðu orðið á samskiptum andstæðra fylkinga. Það sást m.a. á því að á þingi ASÍ árið 1964 voru nánast engar deilur um kjörbréf fulltrúa. Iðulega höfðu þingstörf dregist mjög sökum slíkra deilna. Yfirleitt hafði ekki verið mikill munur á valdahlutföllum andstæðra fylkinga og ef ráðandi armur taldi fært að fækka í andstæðingafylkingunni á þennan hátt var það tækifæri gripið.2

Morgunblaðið 18. nóvember 1964, 28. – Morgunblaðið 24.
nóvember 1964, 2.

Á þingi ASÍ árið 1966 kom fram tillaga um fjölgun í miðstjórn ASÍ. Forseti lagði tillöguna fram og var hún hugsuð til þess að koma því svo fyrir að allir stjórnmálaflokkar ættu þar fulltrúa, enda væri „samstarf meiri- og minnihluta til hagsbóta fyrir alla launþega“, eins og Hannibal orðaði það. Hann hafði því breytt um skoðun frá því sem var áratug fyrr. En tillagan þurfti að fá tvo þriðju hluta atkvæða og þingið hafnaði henni. Engu að síður var gert ráð fyrir því að Alþýðuflokkur og Sjálfstæðisflokkur fengju einnig fulltrúa í miðstjórnina en þeir kröfðust meiri áhrifa og vildu fá varaforsetaembættið. Af því varð þó ekki og Eðvarð Sigurðsson var kjörinn varaforseti. Í kjölfarið neitaði Jón Sigurðsson að taka kjöri í miðstjórnina. Flokksfélagi hans, Björgvin Sighvatsson, kvaðst einnig hafa sömu afstöðu með tilliti til sambandsstjórnarinnar. Báðir tóku þeir þó sæti í yfirstjórn ASÍ, að sögn Jóns í því skyni að „stuðla að því að draga megi úr þeim deilum og flokkadrætti er til tjóns hefir ríkt innan verkalýðshreyfingarinnar um margra ára skeið“.3

ÞÍ. Fundargerðabók miðstjórnar 1966–1968, 20, 37. Sögus.
verkal. A01: 12/4. Almenn skrifstofa.

Sjálfstæðismaðurinn Guðmundur H. Garðarsson var einnig kosinn í miðstjórn. Órói varð í röðum sjálfstæðismanna af þessum sökum. Sverrir Hermannsson, formaður Landssambands verslunarmanna, kvaddi sér hljóðs og kvað Guðmund ekki njóta stuðnings sambandsins.4 Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, hafði reynt að tala um fyrir honum og miðstjórn flokksins var andsnúin þátttöku hans. Jafnvel var rætt um að víkja honum úr flokknum, en því hafnaði þó flokksformaðurinn. Guðmundur fékk hins vegar stuðning frá stjórn Verzlunarmannafélagsins og sat við sinn keip.5

Morgunblaðið 26. nóvember 1966, 2.
Viðtal. Guðmundur H. Garðarsson 2007.

Frásögnin leiðir hugann að því að kaldastríðsáhrifanna gætti enn þó að þau færu dvínandi og vitaskuld tók tíma að uppræta þau. Reynslan af samstarfi innan miðstjórnarinnar reyndist ágæt að mati Guðmundar H. Garðarssonar og áleit hann að þar hefði fljótt myndast ákveðinn kjarni sem starfaði vel saman.6 Þess má geta að Guðmundur var tveimur árum síðar fulltrúi ASÍ á þingi sovéska verkalýðssambandsins við annan mann.7 Árið 1968 voru valdahlutföll líka orðin breytt í miðstjórn inni. Hannibal og samherjar hans voru komnir í hóp „lýðræðissinna“ á ný og áttu samstarf við alþýðuflokksmenn og sjálfstæðismenn.8

Viðtal. Guðmundur H. Garðarsson 2007.
ÞÍ. Fundargerðabók miðstjórnar 1966–1968, 117. Sögus.
verkal. A01: 12/4. Almenn skrifstofa
ÞÍ. Fundargerðir 31. þings ASÍ 1968, 74–75. Sögus. verkal.
A01: 10/2. Yfirstjórn ASÍ.

Hannibal Valdimarsson tekur fyrstu skóflustungu vegna orlofshúsabyggðar í Ölfusborgum en fyrstu húsin voru tekin í notkun þar árið 1964.

Þessar deilur höfðu einnig komið niður á fjárhag Alþýðusambandsins en skattur til þess var ákveðinn með lögum sambandsins. Til að breyta þeim þurfti stuðning tveggja þriðju hluta þingheims. Öflugur minnihluti gat því staðið í vegi fyrir því að sambandsgjöldin væru hækkuð og leiddi þetta til þess að hægt var að halda Alþýðusambandinu „í fjársvelti, jafnvel áratugum saman. Menn voru sammála um það í báðum fylkingum að hindra að sú þeirra sem var við völd hverju sinni hefði nokkur fjárráð. Þetta var alveg með ólíkindum“ að mati Þóris Daníelssonar.9

Vinnan XLIII (1993), 1. tbl., 25.

Snorri Jónsson, lengi í forystu járniðnaðarmanna, og forseti ASÍ í forföllum Björns Jónssonar 1973–1974 og 1978–1980.

Hannibal Valdimarsson var fyrst kosinn forseti ASÍ árið 1954. Árið 1968 hafði hann því setið að völdum í 14 ár og hafði hug á því að hætta. Eiginlega kvaddi hann félaga sína innan Alþýðusambandsins þegar hann setti þing sambandsins það ár. Hann rökstuddi þá ákvörðun sína m.a. með því að í sumum nágrannalanda Íslands giltu þær reglur að forsetar alþýðusambanda viðkomandi landa hættu þegar þeir væru orðnir sextugir. Og það var Hannibal orðinn.

Aðstæður Hannibals voru breyttar þegar þarna var komið sögu. Hann var hættur sem formaður Alþýðubandalagsins, genginn úr flokknum og hafði stofnað nýjan flokk, Samtök frjálslyndra og vinstri manna. Um leið rofnaði bandalagið við sósíalista í Alþýðubandalaginu. Það fór því svo á þingi ASÍ árið 1968 að Hannibal hætti við að hætta sem forseti ASÍ og stóð val í forsetakjöri á milli hans og sósíalistans Eðvarðs Sigurðssonar. Hannibal sigraði með tæplega 80 atkvæða mun og Björn Jónsson, formaður Einingar á Akureyri, hafði svo betur en Eðvarð með heldur minni mun í baráttu um varaforsetaembættið. Björn var gamall sósíalisti en hafði gengið til liðs við Hannibal. Sósíalistar voru því á ný komnir í minnihluta í forystu ASÍ en þeim var þó gefinn kostur á að fá þriðjung miðstjórnarmanna.10 Viðhorfin voru því greinilega breytt frá því sem áður var.

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 31. sambandsþing 1968, 40.
Morgunblaðið 30. nóvember 1968, 1, 31.

Eftir að Björn Jónsson varð félagsmálaráðherra, er hann tók við því embætti af Hannibal Valdimarssyni árið 1973, lét hann tímabundið af embætti forseta ASÍ. Varamaður hans, Snorri Jónsson, tók því við sem forseti ASÍ í júlí sama ár.11 Eftir að Björn lét af ráðherradómi 1974, þegar upp úr slitnaði innan vinstri stjórnarinnar, m.a. vegna deilna milli hans og Ólafs Jóhannessonar forsætisráðherra, tók Björn aftur við embætti forseta. Hann gegndi því formlega til ársins 1980 en sökum heilsubrests hafði hann þó látið af störfum tveimur árum fyrr og Snorri Jónsson gegndi embættinu á ný í hans stað, frá 1978 til 1980. Meðan Björns naut við var hann óskoraður leiðtogi Alþýðusambandsins og var t.d. einróma endurkjörinn forseti árið 1976.12

Vinnan XXIII (1973)1. tbl., 10.
Vinnan XXVII (1977) 1. tbl., 7.

Um þetta leyti var því búið að koma á nokkurs konar vopnahléi innan verkalýðshreyfingarinnar. Þetta kom skýrt fram á þingi ASÍ árið 1972 þar sem var sjálfkjörið í miðstjórn og séð til þess að allir stjórnmálaflokkar ættu þar fulltrúa. Björn Jónsson var kjörinn forseti en Snorri Jónsson varaforseti.13 Í stað illskeyttrar baráttu deildu andstæðar pólitískar fylkingar völdum. Forysta hreyfingarinnar hafði komið sér saman um ákveðin valdahlutföll. Innan helstu valdastofnana sambandsins skyldu sitja fulltrúar allra flokka, hlutfallslega margir samkvæmt styrk viðkomandi flokks innan hreyfingarinnar, þ.e. tiltekinn fjöldi alþýðubandalagsmanna, alþýðu flokksmanna, sjálfstæðismanna og framsóknarmanna.

ÞÍ. Fundargerðir 32. þings ASÍ 1972, 180. Sögus. verkal. A01:
10/2. Yfirstjórn ASÍ.

Þetta fyrirkomulag sætti þó gagnrýni, ekki síst í röðum hinna róttækustu. Þeir töldu fráleitt að ekki mætti hreyfa við valdahlutföllum innan forystu Alþýðusambandsins. Einnig væri út í hött að alþingismenn Sjálfstæðisflokksins sætu í miðstjórn ASÍ. Sá flokkur væri flokkur atvinnurekenda og forystumenn í þeim flokki ættu ekkert erindi í verkalýðshreyfingunni.14 Þeir sögðu einnig að almenn andstaða væri af hálfu forystunnar gegn því að boðið væri fram á móti sitjandi stjórnum sem gæti raskað valdajafnvæginu. Árið 1976 stóðu mál þannig að í miðstjórn Alþýðusambandsins sátu tveir verkalýðsforingjar sem voru í Sjálfstæðisflokknum, þeir Guðmundur H. Garðarsson og Pétur Sigurðsson. Báðir sátu einnig á Alþingi og við völd sat ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem beitti sér fyrir harkalegum efnahagsráðstöfunum sem lítil ánægja var með innan verkalýðshreyfingarinnar. Nefna má að þessar aðstæður vöktu athygli annars staðar á Norðurlöndum.

Sjá m.a. Réttur 59. árg. (1973), 1. hefti, 23–24.

Ákveðið var á sambandsstjórnarfundi í lok árs 1971 að koma á vinnunefndum til að undirbúa næsta þing 1972 og áttu þær að fjalla um launamál, atvinnumál, vinnuverndar- og tryggingamál, fræðslustarfsemi, atvinnulýðræði og loks fjármál verkalýðshreyfingarinnar og starfsemi ASÍ. Til þess var ætlast að nefndirnar skiluðu tillögum sínum tímanlega til miðstjórnar þannig að hún gæti mótað þær áfram í samstarfi við aðildarfélög fyrir næsta þing. Þessi ákvörðun var tvímælalaust mikil vinnuhagræðing fyrir starf þinganna. Þessi mynd er frá ASÍ-þingi árið 1972. Á myndinni sjást fulltrúar Verkakvennafélagsins Framsóknar. Þórunn Valdimarsdóttir, formaður Framsóknar, lengst til hægri við borðið, en lengst til vinstri er Jóhanna Sigurðardóttir, sem átti sæti í stjórn Framsóknar.

Í Svíþjóð tíðkaðist til dæmis að eingöngu jafnaðarmenn sætu í forystu verkalýðshreyfingarinnar en hér á landi sátu forystumenn úr Sjálfstæðisflokknum í forystu Alþýðusambandsins, framámönnum í verkalýðshreyfingu nágrannalandanna til furðu.15

Alþýðublaðið 29. september 1976, 6–7.

Þegar forseti Alþýðusambandsins, Björn Jónsson, var inntur eftir afstöðu sinni til þessara mála árið 1976 taldi hann þau ekki svo einföld. Ekki væri hægt að líta fram hjá því að þeir forystumenn innan verkalýðshreyfingarinnar sem styddu Sjálfstæðisflokkinn nytu trúnaðar innan eigin stéttarfélaga og stéttarsambanda og það yrðu aðrir forystumenn Alþýðusambandsins að sætta sig við.16 Frá ofanverðum sjöunda áratugnum varð því meiri sátt innan Alþýðusambandsins en áður hafði verið og áhrif stjórnmálaflokkanna á sambandið minnkuðu. Þó taldist það enn um þetta leyti til skylduverka þingfulltrúa á ASÍ-þingum að mæta á fund hjá „sínum flokki“ þar sem lagt var á ráðin um þingstörfin.17

Réttur 59. árg. (1973), 1. hefti, 23–24.
Elísabet Þorgeirsdóttir 1986, 180.

Um þessar mundir varð til innan verkalýðshreyfingarinnar andstöðuhópur sem gekk undir nafninu „órólega deildin“. Í þessum hópi voru einkum fulltrúar verkalýðsfélaga utan Reykjavíkur, m.a. frá Húsavík, Siglufirði, Vestmannaeyjum og Stokkseyri, einnig fulltrúar verkakvenna á Akranesi, auk þess sem Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, formaður Sóknar í Reykjavík, tilheyrði hópnum. Flestir þessara fulltrúa töldu sig eiga samleið með Alþýðubandalaginu og þá róttækari hluta þess.

Þessi hópur vildi draga úr áhrifum Sjálfstæðisflokksins innan verkalýðshreyfingarinnar og að Alþýðubandalagið hætti samstarfi sínu við flokkinn. Einnig að hætt yrði að viðhafa eins konar kvóta fyrir stjórnmálaflokkana í forystu ASÍ, að hæfasta fólkið yrði valið en ákvarðanir væru ekki teknar á „flokksskrifstofum úti í bæ“.18 Hópurinn vann að þessu markmiði á þingi Alþýðusambandsins árið 1976 og urðu harðari pólitískar umræður á þinginu en fram höfðu farið um árabil. Hópurinn náði fram markmiðum sínum þótt sumir foringjar Alþýðubandalagsins innan verkalýðshreyfingarinnar væru þeim andsnúnir. Fulltrúum Sjálfstæðisflokksins fækkaði en Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag fengu samtals 10 af 15 manna miðstjórn og höfðu því hafið samvinnu á nýjan leik innan verkalýðshreyfingarinnar. Björn Jónsson, forseti ASÍ, fagnaði þeirri niðurstöðu og kvaðst vona að í því fælist vegvísir til framtíðar.19 Konum fjölgaði líka í miðstjórninni.

Inga Huld Hákonardóttir, 168 og áfram.
Vinnan XXVII (1977) 1. tbl., 4–5.

Árið 1980 urðu breytingar þegar ný forysta var kosin til að leiða verkalýðshreyfinguna. Ásmundur Stefánsson var kjörinn forseti en hann hafði verið hagfræðingur ASÍ. Hann bar sigurorð af Karvel Pálmasyni og fékk um tvo þriðju hluta atkvæða, en Karvel tilheyrði Alþýðuflokknum. Guðmundur Sæmundsson bauð sig einnig fram, en hann taldist til hinna róttækustu á þinginu. Björn Þórhallsson var kjörinn varaforseti, en hann var stuðningsmaður Gunnars Thoroddsen í Sjálfstæðisflokknum.20 Um þetta leyti hafði verið mynduð ríkisstjórn nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem Gunnar Thoroddsen fór fyrir og Alþýðubandalags og Framsóknarflokks. Hér var því á ferðinni eins konar ríkisstjórnarmynstur. Björn Þórhallsson kom úr röðum verslunarmanna og sat í forystusveit Sjálfstæðisflokksins. Þetta var í fyrsta skipti sem forystumaður innan raða verslunarmanna, sem einnig var forystumaður í Sjálfstæðisflokknum, náði svo hátt innan verkalýðshreyfingarinnar.

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 34. sambandsþing 1980,
16–17.

Frá ASÍ-þingi árið 1976, en þá lét hin svokallaða „órólega deild“ töluvert að sér kveða. Kolbeinn Friðbjarnarson, formaður Vöku á Siglufirði, situr fremst til vinstri en á móti honum er Þórunn Guðmundsdóttir, einnig frá Vöku. Við hlið Þórunnar eru fulltrúar Verkalýðsfélags Austur-Húnavatnssýslu, Jón Arason og Jón Hannesson (lengst t.h.).

Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, formaður Sóknar frá 1976–1987.

Að sögn Ásmundar Stefánssonar réðu þó ekki sjónarmið flokka við þetta val og hann taldi samstarfið við Björn æskilegt vegna þess að hann var vinsæll og góður í samstarfi.21 En alþýðuflokksmenn í miðstjórn inni voru vitaskuld óánægðir með þessa niðurstöðu.22 Eftir þetta dró úr hjaðningavígum innan verkalýðshreyfingarinnar og „flokkslitur“ fór að skipta æ minna máli fyrir framgang fólks innan hennar og við val á forystu. Þetta fóru stjórnmálaforingjar að finna þegar fyrir 1970. Smám saman rann upp fyrir þeim að ekki var tekið eins mikið tillit til þeirra og verið hafði og hreyfingin var ekki eins leiðitöm og lengi hafði mátt reikna með.23 Þeir höfðu þó oftast vakandi auga með verkalýðshreyfingunni og fylgdust vel með, ekki síst þegar þeim þótti jafnvæginu raskað. En teikn um breytingar voru skýr. Árið 1976 varð Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir nýr formaður Sóknar í Reykjavík. Ekki er að sjá að viðbúnaður hafi orðið hjá stjórnmálaflokkunum vegna þeirra kosninga; þær voru einfaldlega málefni félagsins. Árið 1986 voru stjórnarkosningar í Iðju í Reykjavík. Varaformaðurinn, Guðmundur Þ Jónsson, bauð sig fram gegn formanninum, Bjarna Jakobssyni, reyndar með stuðningi fráfarandi stjórnar, og hafði betur. Sá fyrrnefndi tilheyrði Alþýðubandalaginu en sá síðarnefndi Sjálfstæðisflokknum. Morgunblaðið brást ókvæða við niðurstöðunni í leiðara:

Samkvæmt viðali við Ásmund Stefánsson 2010. – Sjá þó
einnig Dagur B. Eggertsson 1999, 324.
Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1981, 5.
Sjá m.a. Dagur B. Eggertsson 2000, 51.

Um nokkurt árabil hefur verið þegjandi samkomulag meðal ráðamanna í verkalýðshreyfingunni, að ekki sé efnt til kosninga um stjórnir einstakra verkalýðsfélaga. Þegar alþýðubandalagsmenn sjá sér færi rjúfa þeir þó þetta samkomulag, eins og dæmin sanna. Hlýtur það að vera umhugsunarefni fyrir lýðræðissinna, hvort þeir eigi að una þessum starfsháttum.24

Morgunblaðið 19. febrúar 1986, 28.

Kaldastríðshugmyndirnar lifðu því lengi en þessi atburður mun þó ekki hafa haft mikil áhrif innan verkalýðshreyfingarinnar, enda stóð valið innan Iðju fremur um menn en pólitík.

Ásmundur Stefánsson er fæddur árið 1945 í Reykjavík. Hann lauk námi í hagfræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1972 og hóf störf hjá ASÍ sem hagfræðingur sambandsins árið 1974. Hann var forseti ASÍ í 12 ár, frá 1980 til 1992. Hér óskar Karvel Pálmason honum til hamingju með sigurinn. Við borðið standa f.v. Sigríður Skarphéðinsdóttir frá Iðju, félagi verksmiðjufólks, Reykjavík, Sigríður Óskarsdóttir frá Snót í Vestmannaeyjum og Auður Torfadóttir, VR.

Ásmundur Stefánsson var ráðinn framkvæmdastjóri ASÍ árið 1979 og var kjörinn forseti þess ári síðar eftir að hafa sigrað Karvel Pálmason í kosningum, sem fyrr getur. Ásmundur átti mikinn þátt í að breyta áherslum og starfsháttum verkalýðshreyfingarinnar, ekki síst viðhorfum til kjaramála. Steingrímur Hermannsson sagði að Ásmundur hefði ekki viljað „láta egna launþegahreyfinguna til stríðs við ríkisstjórnina í þeim tilgangi að knýja fram óraunhæfa samninga“, og verkalýðsforystan hefði að stærstum hluta stutt hann í þeirri viðleitni. Hann hafi því látið „flokkspólitísk sjónarmið víkja fyrir hagsmunum umbjóðenda sinna“. Þetta hefði forystu Alþýðubandalagsins ekki fallið og því hefði verið grunnt á því góða á milli forystu Alþýðusambandsins og Alþýðubandalagsins á þessum árum og Ásmundur ekki verið „óskaframbjóðandi“ forystu Alþýðubandalagsins þegar hann var kjörinn. En þessar deilur voru líka tímanna tákn. Flokkarnir voru að missa tökin á verkalýðshreyfingunni. Ásmundur sat sem forseti til ársins 1992, en þá taldi hann líka nóg komið og sneri sér að öðrum störfum.25

Dagur B. Eggertsson 2000, 60–61. – Vinnan XLII (1992), 9.
tbl., 8–11.

Ásmundur Stefánsson þótti duglegur að halda tengslum við einstök félög, „að fara í heimsóknir til félaganna og koma í kaffi og spjall til að taka púlsinn á viðhorfum og hvað væri efst á baugi í hverju félagi“.26 Hann lýsti því svo:

Samantekt Þórunnar H. Sveinbjörnsdóttur 10. janúar 2010.

Forystufólk innan verkalýðshreyfingarinnar sem átti sæti á Alþingi fyrir 1990. Í þessum hópi voru þó hvorki forseti né varaforseti ASÍ á þessum tíma, og ekki heldur formaður Dagsbrúnar eins og oft hafði verið. F.v.: Guðmundur H. Garðarsson, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Karvel Pálmason og Karl Steinar Guðnason.

Félögin leituðu til mín sem hagfræðings og síðar framkvæmdastjóra ASÍ áður en ég varð forseti og þau héldu því áfram eftir að ég var kjörinn forseti. Árið 1978 þegar verkalýðshreyfingin var í átökum við ríkisstjórnina vegna ítrekaðrar lagasetningar voru fundirnir margir. Ég var með glærusett sem ég ljósritaði til að aðrir gætu notað og það nýttu einhverjir. … Ég gæti trúað að ég hafi eftir hverja samninga mætt á 10–20 fundi til að kynna samninga. Síðari tvö kjörtímabilin, einkum það síðasta heimsótti ég félögin reglubundið og hélt reglubundið fundi með félögum á einstökum svæðum. Þetta kerfi var skipulegast í kringum þjóðarsáttarsamningana. Lykilforustumenn og lykilstarfsmenn ASÍ tóku þátt í þessu verkefni.27

Samkvæmt viðtali við Ásmund Stefánsson 2010.

Ásmundur tilheyrði Alþýðubandalaginu og sat þar í framkvæmdastjórn um skeið en náði ekki sæti á Alþingi á vegum flokks síns. Hann átti í deilum við annað forystufólk í flokknum og í blaði flokksins, Þjóðviljanum, á ofanverðum níunda áratugnum en forystumenn í verkalýðshreyfingunni áttu erfitt uppdráttar innan flokksins um það leyti. Með sanni mátti segja að tengsl verkalýðsflokkanna og forystu verkalýðshreyfingarinnar höfðu breyst mikið frá því sem áður var, en lengst af höfðu forsetar og varaforsetar ASÍ og formenn helstu stéttarfélaga verið áhrifamenn í öðrum hvorum verkalýðsflokkanna og setið á Alþingi. Nægir þar að geta Hannibals Valdimarssonar, Eðvarðs Sigurðssonar, Björns Jónssonar og Guðmundar J. Guðmundssonar.28

Sjá m.a. Þjóðviljinn 3. apríl 1991, 11.

Með tilkomu Ásmundar urðu kynslóðaskipti í Alþýðusambandinu og líka viðhorfsbreyting. Aldrei áður hafði sérfræðingur með háskólamenntun verið kjörinn forseti sambandsins, maður sem í rauninni hafði aldrei starfað innan félags á vegum þess. Að vísu hafði verið algengt frá öndverðu innan verkalýðshreyfingarinnar að kalla til fólk utan hennar til forystustarfa. Þannig var t.d. með Hannibal Valdimarsson og marga fleiri. En Hannibal vann sig upp innan hreyfingarinnar sem formaður stéttarfélags. Það hafði Ásmundur ekki gert.

Ásmundur var fulltrúi þeirra sjónarmiða að málið stæði ekki einungis um það hvernig kökunni væri skipt heldur líka um það hversu stór kakan væri. Sú tilhneiging hafði verið rík innan verkalýðshreyfingarinnar, arfur frá því að hún var að berjast fyrir tilvist sinni, að skipting kökunnar væri það sem kæmi verkalýðshreyfingunni við, annað ekki. Kjör Ásmundar var áfangi á þeirri leið að taka upp nýjar aðferðir í kjarabaráttunni. Ásmundur var enn fremur talsmaður þess að fara samningaleið fremur en átakaleið, setja fram hóflegar kröfur sem gætu staðist í stað mikilla kauphækkana sem síðan hyrfu. Sú stefna fékk yfirhöndina á valdatíma Ásmundar og var í hámarki í þjóðarsáttarsamningunum þar sem þríhliða samráð varð ráðandi. Hún ríkir enn þegar þetta er skrifað, hvað sem síðar verður.

Breytt forysta ASÍ eftir 1980 markaði líka endalok þeirrar stefnu sem lengi hafði verið ráðandi innan ASÍ að meta ríkisstjórnir eingöngu – eða svo til eingöngu – eftir því hvort þar sætu samherjar og samflokksfólk eða ekki. Eftir þetta var meira farið að líta á ríkisstjórnir sem samningsaðila en sem samherja eða andstæðinga sem bæri að styðja eða fella. Þetta var áberandi á viðreisnarárunum en varð ekki ráðandi fyrr en eftir 1980. Það hafði örugglega áhrif að vinstri stjórnin 1978–1979 náði ekki miklum árangri og heldur ekki ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen þar sem Alþýðubandalagið var áhrifamikið. Þá komust æ fleiri á þá skoðun að æskilegast væri í framtíðinni að meta ríkisstjórnir af verkum þeirra fremur en eftir því hvort þar sætu samherjar í pólitík eða ekki. Pólitískir fordómar fóru því minnkandi á þessum tíma á öllum vígstöðvum. Hjá sumum entust tortryggni og fordómar þó lengi, einkum hjá eldri mönnum, og pólitísk fyrirgreiðsla í samfélaginu var algeng.29

M.a. byggt á samræðum við Ásmund Stefánsson í desember
2011.

Starfsfólk ASÍ árið 1980. Margrét Tómasdóttir fulltrúi situr fremst. Standandi f.v.: Ásmundur Stefánsson framkvæmdastjóri, Kristín Mäntylä skrifstofustjóri, Sigurberg Hauksson sendill, Haukur Már Haraldsson blaðafulltrúi, Ragnhildur Ingólfsdóttir fulltrúi og Snorri Jónsson forseti ASÍ.

Ásmundur hætti sem forseti ASÍ árið 1992; hann hafði raunar afráðið að hætta fjórum árum fyrr, á þingi ASÍ árið 1988, en skipti um skoðun þegar nokkuð var liðið á þingið.30 Benedikt Davíðsson, sem þá þegar hafði verið marga áratugi í forystusveit verkalýðshreyfingarinnar, var kjörinn forseti í hans stað. Hann var þó ekki sjálfkjörinn. Pétur Sigurðsson, formaður Verkalýðsfélagsins Baldurs á Ísafirði, bauð sig einnig fram til forystu og fékk um 37% atkvæða. En Benedikt sigraði með nokkrum yfirburðum. Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, formaður Landssambands íslenskra verslunarmanna, var kjörin fyrsti varaforseti, að tillögu kjörnefndar, með 60% atkvæða, en hún fékk einnig mótframboð frá Birnu Þórðardóttur sem fékk tæplega 40% atkvæða. Birna var fulltrúi hinna róttæku á þinginu.31 Benedikt var forseti á umbrotatímum. Efnhagslægð var í samfélaginu og mikil óánægja meðal launafólks. Forysta ASÍ var gagnrýnd harðlega, ekki síst Benedikt, og gengu harðar ásakanir á milli manna. Gagnrýnendur hans voru einkum forystumenn Verkamannasambandsins og formaður Dagsbrúnar, Guðmundur J. Guðmundsson.32

Samkvæmt samtölum við Ásmund Stefánsson 2010.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 37. sambandsþing 1992, 56.
Alþýðublaðið 5. janúar 1996, 1.

Pétur Sigurðsson óskar Benedikt Davíðssyni til hamingju með sigur í baráttu um embætti forseta ASÍ en þeir Benedikt tókust á um embættið á þingi ASÍ árið 1992. Benedikt Davíðsson var fæddur árið 1927 á Patreksfirði en lést 2009. Hann lærði trésmíði og var kjörinn í stjórn Trésmiðafélags Reykjavíkur árið 1953. Formaður félagsins varð hann árið eftir. Hann varð formaður Sambands byggingamanna árið 1966, tveimur árum eftir stofnun þess, og gegndi því starfi til ársins 1990. Benedikt var einnig í forystusveit Sósíalistaflokksins og síðar Alþýðubandalagsins. Jón Karlsson stendur lengst til vinstri.

Grétar Þorsteinsson (t.v.) varð forseti ASÍ árið 1994. Ari Skúlason, þá framkvæmdastjóri ASÍ, bauð sig fram gegn honum árið 2000 en náði ekki kjöri. Hér óskar hann Grétari velfarnaðar í störfum.

Grétar Þorsteinsson var kjörinn forseti í stað Benedikts árið 1996. Hann kom einnig úr röðum trésmiða og hafði verið í forystusveit þeirra um árabil. Hann varð formaður Trésmiðafélags Reykjavíkur árið 1978 og síðar formaður Sambands byggingamanna. Eftir að það og Málm- og skipasmiðasambandið sameinuðust og til varð landssambandið Samiðn árið 1993 varð Grétar formaður þess. Miklar hræringar voru á þingi ASÍ þegar Grétar var kjörinn og voru fulltrúar Verkamannasambandsins mjög áfram um að fá fulltrúa úr sínum röðum kjörinn. Svo varð þó ekki. Þá voru fulltrúar VR einnig óánægðir með sinn hlut á þinginu. Hér gerðist því hið sama og oft fyrr að jafnvægi innan sambandsins var viðkvæmt.33 Grétar var forseti ASÍ til ársins 2008. Hann fékk mótframboð árið 2000 en sigraði framkvæmdastjóra sinn, Ara Skúlason, örugglega í kosningu þó að kjörnefnd hefði mælt með Ara.34

M.a. Morgunblaðið 23. maí 1996, 32 og aðrir fjölmiðlar um
þetta leyti.
Sjá m.a. Dagur 16. nóvember 2000, 1.

Gylfi Arnbjörnsson var kjörinn forseti ASÍ 2008. Gylfi hafði um árabil verið hagfræðingur og framkvæmdastjóri ASÍ þegar hann var kjörinn forseti og hafði ekki starfað innan einstakra félaga eða sambanda innan hreyfingarinnar fremur en Ásmundur Stefánsson á sínum tíma. Þegar Gylfi var kjörinn var Ingibjörg R. Guðmundsdóttir einnig í kjöri en hún hafði lengi verið í forystusveit verslunarmanna. Í kosningum til embættisins fékk Ingibjörg um 40% atkvæða en Gylfi 60%.35 Þessi niðurstaða breytti því þó ekki að Ingibjörg var áfram varaforseti og þar með nánasti samstarfsmaður Gylfa. Hún gegndi því embætti til 2010 og lést sama ár. Signý Jóhannsdóttir var kjörin varaforseti á landsfundi ASÍ árið 2010. Miðað við reynslu síðustu ára er því gengið út frá því að æðstu embættum ASÍ gegni bæði karl og kona.

Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 2009, 31.

Þó að áhrif stjórnmálamanna á Alþýðusambandið væru orðin miklu minni undir lok 20. aldarinnar en verið hafði, voru engu að síður enn sterkir þræðir þarna á milli. Nefna má að stjórnmálaflokkarnir skiptu lengi með sér sætum í kjörnefnd á þingum ASÍ og var við það miðað „undir lok 20. aldar að Alþýðubandalag ætti þrjá fulltrúa í kjörnefnd en hinir flokkarnir tvo fulltrúa hver“.36 Þó ber að hafa í huga að þessi afskipti voru aðallega bundin við þing ASÍ en ekki dagleg störf. Einnig skipti máli að þetta fólk hefði rætur í Verkamannasambandinu, Landssambandi verslunarmanna og samtökum iðnaðarmanna. Við val á fólki í trúnaðarstöður fylgdi því togstreita af margvíslegu tagi þar sem ákveðnar „breytur“ réðu niðurstöðunni: flokkur, kyn, staða innan hreyfingarinnar (faglærðir, ófaglærðir m.a.) og landfræðileg staða. Þessu „plotti“ var yfirleitt stjórnað af körlum sem voru einnig virkir í stjórnmálaflokkum. Þeir sem tóku síður þátt í þessum leik voru þeir sem stóðu utan flokka og sérstaklega konur.37 Þegar þetta er ritað hefur dregið mjög úr vægi stjórnmálaflokkanna innan verkalýðshreyfingarinnar og má segja að þau séu úr sögunni þó að forystumenn hennar undanfarin ár hafi oft tengst þeim flokki sem hefur kennt sig við jafnaðarmennsku, Samfylkingunni. Það er líka liðin tíð að fulltrúar sem tengjast tilteknum stjórnmálaflokki fái sæti í kjörnefnd og hafi stjórnmálatengsl í huga við val sitt, hvað þá að þingfulltrúar, „merktir“ stjórnmálaflokkunum, hittist sérstaklega á fundum þegar þing Alþýðusambandsins eru haldin. Það hafði tíðkast í áratugi og var mikilvægur liður í þinghaldinu.

Björn Ingi Hrafnsson 2001, 199–200.
Haukur Sigurðsson 2008, 250.

Starfshættir í verkalýðshreyfingunni

Fundahöld eru mikil í þessu félagi [Snót í Vestmannaeyjum]. Bara það sem af er þessu ári er búið að halda aðalfund og þrjá almenna félagsfundi. Að auki hafa verið haldin bónustrúnaðarmannanámskeið og félagslegt trúnaðarmannanámskeið fyrir fiskvinnsluna og líka námskeið fyrir fólk á sjúkrahúsinu og á elliheimilinu. Snót tekur þátt í útgáfu sameiginlegs fréttabréfs með Verkalýðsfélagi Vestmannaeyja og Sjómannafélaginu Jötni, og það eru stöðugt í gangi fundir út af því. Á síðasta ári voru haldnir 50 fundir sem Snót stóð að eða tók þátt í. Þar af voru fimm almennir félagsfundir, sjö sameiginlegir fundir með verkalýðsfélögunum, vinnustaðafundir voru sjö og 21 samningafundur, og eru þá ótaldir fundir stjórnar félagsins og fundir stjórnar og trúnaðarráðs sameiginlega.38 (Úr viðtali við Vilborgu Þorsteinsdóttur formann Snótar í Vestmannaeyjum 1985).

Þjóðviljinn 11. júlí 1985, 11.

Ágreiningur innan verkalýðshreyfingarinnar var ekki bundinn við ólíkar stjórnmálaskoðanir og stjórnmálaflokka. Innan hreyfingarinnar og einstakra félaga voru einnig gagnrýnisraddir sem ekki voru endilega bundnar stjórnmálaskoðunum. Þær umræður og aðfinnslur beindust ekki síst að starfsháttum innan verkalýðshreyfingarinnar, miðstýringu innan hennar og að því að verkalýðshreyfingin væri að verða bákn sem væri slitið úr tengslum við hinn almenna félagsmann. Til dæmis gagnrýndi forysta Hins íslenska prentarafélags forystu ASÍ, fyrir og um 1980, fyrir að sinna illa aðildarfélögum en láta algjörlega stjórnast af hagsmunum stjórnmálaflokkanna og því hverjir sætu í ríkisstjórn hverju sinni. Að mati félagsins var „lýðræðishalli“ innan ASÍ sem birtist í því að forystan gæfi einfaldlega út tilskipanir, sérstaklega þegar hennar menn væru í ríkisstjórn. Þessu vildi forysta prentara ekki una og mótmælti harðlega.39

Vinnan XXIX (1979) 1. tbl., 20–21. – Vinnan XXX (1980) 4.
tbl., 8.

Gylfi Arnbjörnsson var kjörinn forseti ASÍ árið 2008 og sigraði Ingibjörgu R. Guðmundsdóttur í baráttu um embættið. Ingibjörg var þó áfram varaforseti ASÍ, en hún var fyrst kjörin til þess embættis árið 1992. Hún lést árið 2010.

Frá ársfundi ASÍ árið 2003. F.v.: Jóhanna E. Vilhelmsdóttir, Signý Jóhannesdóttir, Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir og loks Kristján Jóhannsson. Signý Jóhannesdóttir var kjörin varaforseti ASÍ árið 2010.

Svipaðar umræður áttu sér stað innan sumra annarra stéttarfélaga á ofanverðri 20. öld. Einn félagsmaður í Verkalýðsfélagi Norðfjarðar hafði t.d. ekki mikið álit á félaginu sínu þegar hann var spurður út í starfsemi þess árið 1978: „Mér finnst það ömurlega lélegt. Þar ríkir algjört einræði og fólkið gerir einfaldlega það sem því er sagt að gera. Örfáir mæta á fundum og alltaf sama fólkið kosið aftur og aftur“. Líka var kvartað yfir því að forystan sinnti lítt um að koma á vinnustaði og jafnvel að sinna umkvörtunum fólks. Gagnrýni af þessu tagi var algeng á þessum tíma. Staðhæft var að lítið lýðræði væri innan hreyfingarinnar. Þess væri vandlega gætt að „hver stjórnmálaflokkur fái sitt“ og séð til þess að ekki væri kosið.40

Sæmundur Valdimarsson 1975, 16–17.

Félagsfundir voru þungamiðja starfs verkalýðsfélaganna. Eftir miðja öldina var algengt að fundir væru haldnir mánaðarlega yfir vetrartímann en fundum sleppt yfir hásumarið.41 Er líða tók á öldina hafði dregið úr þeim miklu pólitísku átökum sem voru innan einstakra félaga og verkalýðshreyfingarinnar í heild. Á sjötta áratugnum og fram eftir hinum sjöunda höfðu enn verið harðar deilur á milli „komma“, „krata“ og „íhalds“ innan einstakra félaga. Þessar deilur náðu inn á vinnustaðina. Góð mæting var á fundi þar sem pólitíkin var gjarnan í miðpunkti.42 Eftir að dró úr umræðu um stjórnmál á vinnustöðunum og í félögunum dró einnig úr þátttöku og umræðum innan verkalýðsfélaganna. „Það má heita að ekki sé hægt að halda uppi félagsstarfi, þar sem fólk virðist skorta áhuga og tíma til að sinna slíkum málum,“ sagði Jón Helgason, formaður Einingar á Akureyri árið 1978.43 Athugun sem var gerð árið 1990 sýndi að aðeins 6% félagskvenna í Verkakvennafélaginu Framsókn sóttu fundi. Var það áhugaleysi ekki bundið við Framsókn.44 Aðstæður voru þó misjafnar, oft lakari á minnstu stöðunum. Ekki kvörtuðu allir undan áhugaleysi. Jóhanna Friðriksdóttir, formaður Verkakvennafélagsins Snótar í Vestmannaeyjum, var til dæmis nokkuð ánægð með starfið í sínu félagi árið 1979. Algengt væri að á milli 50 og 150 manns mættu á fundi. En vinnustaðafundirnir lofuðu líka góðu að hennar mati. Þar yrðu umræður mun almennari en á félagsfundum. Mikill kraftur var í starfi Snótar á þessum árum.45

Sjá t.d. ÞÍ. Skýrsla stjórnar Félags járniðnaðarmanna 1963.
Sögus. verkal. A01: 31/8. Sambönd og félög í Reykjavík.
Sjá m.a. viðtal. Halldór Björnsson 2007.
Vinnan XXVIII (1978) 6. tbl., 6.
Guðbjörg Linda Rafnsdóttir 1995, 135–137.
Vinnan XXIX (1979) 3. tbl., 5.

Frá félagsfundi í Iðju, félagi verksmiðjufólks á Akureyri árið 1960. Jón Ingimarsson, formaður félagsins, í ræðustóli. Félagsfundir voru þungamiðja félagsstarfs verkalýðsfélaganna.

Til að mæta deyfð, drunga og áhugaleysi var hvatt til aukins starfs á vinnustöðunum, til aukinnar fræðslu og útgáfu, og að starf trúnaðarmanna skyldi eflt. Þá væri líka brýnt að stórefla félagsmálaþjálfun, en möguleikar opnuðust til þess eftir að Félagsmálaskóli alþýðu tók til starfa. Þann möguleika nýttu margir sér og sendu fólk á sínum vegum í skólann, stundum reynt stjórnarfólk en stundum nýliða sem voru að hefja þátttöku í félagsstarfinu.46 En það mátti líka fara fleiri leiðir til þess að auka þátttöku. Verkalýðsfélag Borgarness tók t.d. upp þá venju um miðjan áttunda áratuginn að gera félagsfundi „líflegri með því að hafa í lok þeirra vísnaþætti, upplestur o.fl.“.47 Forsvarsmaður félagsins benti þó á að samkeppni væri mikil. Aðeins í Borgarnesi væru starfandi á milli 40 og 50 félög svo að félagsmálaáhuginn dreifðist víða.48 En einnig var bent á að skýringin á lítilli þátttöku verkafólks í félagsstörfum væri hinn „óhóflegi vinnutími“ og orsakaði hann þá „félagsdeyfð“ sem ríkti í verkalýðshreyfingunni.49 Í ályktun frá Alþýðusambandi Norðurlands var nefnt að langur vinnutími ætti mikla sök á félagslegu áhugaleysi fyrir utan „nútíma fjölmiðlun, með myndböndum, sjónvarpshnöttum og margvíslegu ódýru afþreyingarefni“. Verkafólkið væri einfaldlega búið að fá nóg að loknum vinnudegi „og nennir ekki að hafa sig til eftir matinn til að fara á fund“.50 Sums staðar var reyndar unninn svo langur vinnutími, jafnvel vikum og mánuðum saman, að engir fundir komust fyrir. Á vertíð í Eyjum var þannig iðulega unnið frá kl. 7 á morgnana til kl. 11 á kvöldin kringum 1980 og gefur auga leið að ekki var mikill tími til fundarhalda þegar málum var svo háttað.51

Vinnan XXVII (1977) 1. tbl., 21. – Vinnan XXIX (1979) 3. tbl.,
5.
Vinnan XXV (1975), 1.–2. tbl., 22.
Vinnan XXIX (1979) 2. tbl., 8.
Vinnan XXVII (1977) 1. tbl., 20.
Vinnan XXVIII (1978) 4. tbl., 4–17. – 17. – ÞÍ. Þing AN 1981.
Ályktun um fræðslumál. Sögus. verkal. A01: 34/23. Sambönd
og félög á Norðurlandi.
Vinnan XXIX (1979) 3. tbl., 10.

Vinnustaðafundir voru víða lausnarorðið. Þar væri fólk „ófeimnara, opnara og [tjáði] … sig fremur en á venjulegum fundum þegar það [þurfti] að fara upp í ræðustól“. Væri þetta form sérstaklega heppilegt þegar eitthvað þyrfti að kynna fyrir starfsfólkinu. Þá voru kaffitímar framlengdir og efnið tekið fyrir að aflokinni kaffidrykkju. Vinnustaðafundir hafa síðan orðið mikilvægur þáttur í starfsemi flestra verkalýðsfélaga og að mörgu leyti komið í stað félagsfunda. Á vinnustaðafundum hefur auk þess gefist tóm til þess að ræða fleiri mál en tíðkast hefur á félagsfundum, einkum mál sem tengjast sjálfum vinnustaðnum. Slíkir fundir voru líka mikilvægt tækifæri forystumanna til þess að hlýða milliliðalaust á óbreytta félagsmenn.52

Vinnan XXIX (1979) 2. tbl., 8. – Sjá m.a. Vinnan XLI (1991)
4. tbl., 21. – Einnig Friðrik G. Olgeirsson 2010, 219.

Vinnustaðafundir voru tíðkaðir hjá Iðju í Reykjavík og vitaskuld mörgum fleiri félögum. Sá háttur var líka hafður á hjá Iðju að fara í heimsóknir á vinnustaðina og gat tilefnið þá verið að kynna nýjasta kauptaxtann. Á þennan hátt tókst að halda nokkuð nánu sambandi við félagsmenn og í kjölfar heimsókna af þessu tagi var yfirleitt mikið um að fólk hefði samband við félagið og ræddi vandamál sín.53

Guðmundur Þ Jónsson, viðtal 2007.

Á vinnustaðafundi á bifreiðaverkstæðinu Þórshamri á Akureyri, líklega á áttunda áratugnum. Á slíkum fundum voru meiri líkur til að fundarmenn létu til sín taka heldur en á almennum félagsfundum.

Bætt upplýsingastreymi var önnur lausn. Haldin voru námskeið og fyrirlestrar fyrir félagsmenn.54 Víða má sjá í gögnum að miklar vonir voru bundnar við Félagsmálaskóla alþýðu. Mörg félög tóku upp þá nýbreytni á áttunda áratugnum að gefa út fréttabréf og varð það mikilvægur liður í því að efla tengslin við félagsfólk. Það höfðu þó ýmis félög gert áður í lengri eða skemmri tíma. Þetta var til dæmis gert í Vestmannaeyjum, fyrst eingöngu á vegum Verkalýðsfélags Vestmannaeyja, en síðar bættust Verkakvennafélagið Snót og Sjómannafélagið Jötunn í hópinn og stóðu félögin eftir það saman að útgáfunni.55 Verzlunarmannafélag Reykjavíkur og mörg önnur félög, t.d. Iðja, félag verksmiðjufólks í Reykjavík, fetuðu einnig þessa braut í kringum 1980. Stór og vaxandi félög hafa haldið þessu áfram, t.d. Efling í Reykjavík sem gefur reglulega út blað sem er ætlað félagsmönnum.

Vinnan XXXII (1982) 4. tbl., 9–10.
Vinnan XXIX (1979) 3. tbl., 8.

Þrátt fyrir að margt væri reynt til þess að auka virkni í verkalýðshreyfingunni kraumaði þó sums staðar óánægja, ekki síst með það hversu erfitt væri að breyta forystu margra félaga og finna farveg fyrir nýtt fólk. Algengt væri að sömu forystumenn sætu allt of lengi við völd. Mörg dæmi voru um að einstaklingar sætu svo áratugum skipti sem formenn og þegar svo var ástatt gafst áhugasömu fólki augljóslega ekki kostur á að láta reyna á forystuhæfileika sína. Nefna má að Hermann Guðmundsson var formaður Hlífar í Hafnarfirði í 36 ár og mörg önnur dæmi voru um að fólk gegndi slíkum stöðum svipaðan árafjölda, bæði fyrr og síðar. Annar Hafnfirðingur, Guðríður Elíasdóttir, gegndi einnig lengi forystuhlutverki í sínu félagi. Hún var ritari í Verkakvennafélaginu Framtíðinni 21 ár og síðan formaður í rétt tæp 30 ár eða samtals í um hálfa öld. Mörg fleiri svipuð dæmi mætti nefna og jafnvel dæmi um lengri feril. En verkalýshreyfingin hefur ekki nema að mjög takmörkuðu leyti beitt sér fyrir umræðu um þessi mál eða léð máls á því að neinu marki að setja starfi forystumanna tímamörk.

Einnig var bent á að óheppilegt væri að viðhafa eingöngu listakosningar. Það gerði nýju fólki erfitt fyrir með að komast að þegar ekki væri hægt að skipta um stjórn „nema kjósa stjórnina alla, og trúnaðarmannaráð líka, með því að bera fram lista. Þetta finnst mér fráleitt því þá er ekki hægt að losna við einn og einn leppalúða nema kasta mörgum ágætum mönnum um leið,“ sagði Sigmundur Benediktsson, gjaldkeri Sveinafélags málmiðnaðarmanna á Akranesi, árið 1984.56 Á þessum tíma var töluvert rætt um hvernig og hvort ætti að gera sérstakt átak til þess að vinna að endurnýjun verkalýðshreyfingarinnar og gera hana lýðræðislegri, m.a. var fjallað um nauðsyn þess að hafa reglur um endurnýjun í stjórnum verkalýðsfélaganna svo að sama fólk sæti þar ekki áratugum saman, eins og dæmi voru um. Þessi mál voru þó ekki tekin upp til alvarlegrar umræðu innan heildarsamtakanna á þessum tíma.57

Vinnan XXXIV (1984) 3. tbl., 18.
Sjá m.a. Þjóðviljinn, 10. febrúar 1985, 4. Viðtal við Margréti
Pálu Ólafsdóttur.

Á stofnfundi Félags bókagerðarmanna árið 1980. Við stofnun félagsins voru lögð niður þrjú félög, Hið íslenska prentarafélag, Grafíska sveinafélagið og Bókbindarafélag Íslands. Fyrstnefnda félagið var elsta starfandi stéttarfélag landsins, stofnað 1897. F.v.: Svavar Gestsson félagsmálaráðherra í ræðustól, og síðan hluti stjórnar FBM; þeir eru Magnús E. Sigurðsson formaður, Svanur Jóhannesson, Ársæll Ellertsson, Ólafur Emilsson, Gísli Elíasson og Þórir Guðjónsson.

Magnús E. Sigurðsson, formaður Félags bókagerðarmanna, greindi frá því að bókagerðarmenn hefðu farið aðra leið en yfirleitt hefði tíðkast varðandi kosningar. Hann gagnrýndi hvernig víðast væri staðið að málum:

Það er nánast útilokað fyrir félagsmenn að koma fram með lista gagnvart stjórn og trúnaðarmannaráði. Það er allavega mjög erfitt. Þess vegna held ég að það sé mjög mikið atriði að breyta þessu kosningafyrirkomulagi. Ég get nefnt sem dæmi að við hjá Félagi bókagerðarmanna erum með annað kosningafyrirkomulag. Við kjósum einstaklingana sem slíka og kjósum hluta stjórnar annað hvert ár. Þetta er mjög einfalt. Menn þurfa ekki að koma með fullskipaðan lista stjórnar og trúnaðarmannaráðs. Stjórnin er kosin sér, helmingur í einu, trúnaðarmannaráð sér og formaðurinn sér. Þetta þýðir það að þau ár sem félagið hefur starfað hefur verið kosning á hverju einasta ári, bæði til stjórnar, trúnaðarmannaráðs og formannskjörs.58

Þjóðviljinn 1. maí 1987, 10–11.

Frá félagsfundi í Verkamannafélaginu Dagsbrún árið 1991 en um það leyti var ólga innan félagsins.

Á níunda áratugnum og um og eftir 1990 var ólga innan nokkurra verkalýðsfélaga. Sú óánægja leiddi m.a. til þess að hópur fólks tók sig saman og bauð fram til stjórnar Dagsbrúnar árin 1990 og 1991. Einn forsvarsmanna framboðsins, Þórir Karl Jónasson, taldi mörgu þurfa að breyta innan verkalýðshreyfingarinnar, enginn áhugi væri fyrir breytingum innan margra félaga, en víðast væri þó búið að drepa hann niður „vegna þess að ekki væri hægt að bjóða sig fram“. Andófsmenn bentu á að mikið þyrfti til til þess að unnt væri að bjóða fram. Stilla þyrfti upp lista með nöfnum 120 manna í trúnaðarráð og 10 manna í stjórn félagsins. Þá þyrfti að safna meðmælendum, 75–100 mönnum. Andófsmenn kváðust hafa reynt að fá félagaskrá félagsins og lista yfir þá sem sætu í trúnaðarráði en ekki fengið þrátt fyrir ítrekanir. Er formaður félagsins, Guðmundur J. Guðmundsson, var inntur eftir því hvers vegna félagaskrá væri ekki afhent kvað hann það aldrei hafa tíðkast. Að auki væru margir mánuðir til kosninganna. Þó var gert ráð fyrir að mótframboðið fengi kjörskrá félagsins sama dag og kosningar hæfust. Andófsmennirnir vildu gera lýðræðisumbætur á félaginu. Þeir vildu láta kjósa formann beint og fjölga í stjórninni. Formaðurinn var á hinn bóginn í vafa um ágæti kosninga. Þær gætu að vísu ýtt við stjórninni, en neikvætt væri við kosningar að þær gætu haft í för með sér heift og hatur sem erfitt gæti verið að leysa úr.59 Rök Þóris Karls fyrir framboðinu voru m.a. þau að í forystu verkalýðshreyfingarinnar þyrfti unga menn, nýtt blóð. Halldór Björnsson, varaformaður Dagsbrúnar, taldi á hinn bóginn enga þörf á breytingu og leist ekki meira en svo á formannsefnið, enda væri blaðaviðtal við hann „svo gegnsýrt af hroka og sjálfsáliti að vandfundinn er samanburður nema ef vera skyldi í sumum yfirlýsingum Davíðs Oddssonar um ágæti verka sinna“, sagði Halldór. Halldór sá ekki þörf á breytingum á félaginu og stjórnin hélt velli.60

M.a. Morgunblaðið 9. september 1990, 18–19; einnig önnur
dagblöð um þetta leyti. – DV 11. janúar 1991, 1.
Vinnan XLI (1991) 8. tbl., 5. – Sjá einnig Björn Ingi Hrafns-
son 2001, 147.

Kristinn Örn Jóhannesson, formaður VR frá 2009–2011.

Einnig var kosið í Dagsbrún í ársbyrjun 1996 og enn sigraði listi stjórnar en mjótt var á munum. Þá kom fram sams konar gagnrýni og áður á ólýðræðislega stjórnarhætti innan félagsins og að mótframboðinu væri meinað að ná til félagsmanna.61 Því hafnaði forysta félagins en viðurkenndi að allt fyrirkomulag í kringum stjórnarkjör væri þunglamalegt og því þyrfti að breyta. Talsverð óánægja var innan verkalýðshreyfingarinnar með starfshætti um þetta leyti, enda að baki erfið ár í kjarabaráttunni.62

Sjá m.a. Morgunblaðið 28. desember 1995, 36 og 19. janúar
1996, 12.
Sjá m.a. Ólafur Björn Baldursson 1996, 44. – Sjá einnig Björn
Ingi Hrafnsson 2001, 191–194.

Þessi ólga birtist líka í tillögugerð á þingum ASÍ. Á þingi sambandsins árið 1988 komu fram tillögur þess efnis að setja kynjakvóta við kjör í miðstjórn og að forsetar og miðstjórnararmenn mættu ekki sitja lengur en tvö til þrjú kjörtímabil hver. Þá var einnig lagt til að fólk í trúnaðarstöðum fyrir ASÍ mætti ekki sitja í stjórnum atvinnufyrirtækja. Ekki leist miðstjórn ASÍ á þessar tillögur og ekki hlutu þær brautargengi.63 Tilraunir til þess að auka lýðræði innan verkalýðshreyfingarinnar á þessum tíma áttu því fremur erfitt uppdráttar innan heildarsamtakanna, en einstök félög gerðu árangursríkar tilraunir á þessu sviði.

Tíminn 15. nóvember 1988, 7.

Við sameiningu Dagsbrúnar og Framsóknar árið 1997 var tekið nokkurt tillit til þeirrar gagnrýni sem reifuð hefur verið hér að framan. Til dæmis var einungis kosinn helmingur stjórnar við hverjar kosningar. Hins vegar var því haldið að viðhafa listakosningar, en margir andófsmenn höfðu gagnrýnt það fyrirkomulag og töldu persónukjör æskilegra. Forysta félagsins taldi að listakjör tryggði betur samstöðu innan félagsins.64 Þó verður að ítreka að í sumum félögum voru ekki listakosningar, t.d. innan Félags bókagerðarmanna. Þá var viðhöfð sú aðferð innan Trésmiðafélags Reykjavíkur að kjósa formann og varaformann sérstaklega.65

Atli Gíslason [o.fl.] 1998, 40.
Samkvæmt upplýsingum Grétars Þorsteinssonar 2011.

Almennt má segja að frá 1995 hafi lítið farið fyrir andófi innan verkalýðshreyfingarinnar, að minnsta kosti fram að „hruni“ 2008. Kosningar milli lista voru sjaldgæfar innan einstakra félaga. Þetta gerðist þó árið 2009 þegar formaður og hluti stjórnar VR í Reykjavík, stærsta verkalýðsfélags landsins, féll fyrir mótframboði (stjórn VR var/er kosin til tveggja ára í senn og helmingurinn hvert ár). Það gerðist í kjölfar umræðu um tengsl fráfarandi formanns við einn föllnu bankanna. Annars hafa ekki verið miklar umræður um það hvernig auka mætti lýðræði innan verkalýðshreyfingarinnar, samanborið við þá umræðu sem hefur verið í samfélaginu almennt eftir „hrun“. Það verkefni bíður framtíðarinnar.

BSRB, samstarf og samanburður

Annað stærsta stéttarsamband landsins er BSRB og hefur verið svo frá stofnun þess árið 1942. Fyrstu áratugina hafði sambandið hvorki samnings- né verkfallsrétt. Takmarkaðan samningsrétt fékk sambandið með samþykkt laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og um kjarasamninga opinberra starfsmanna frá 1962. Samningsrétturinn var þó takmarkaður þannig að kjaradómi bar að úrskurða ef aðilar næðu ekki saman.66 Samningsréttur opinberra starfsmanna var aukinn með lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna árið 1973 og samkvæmt sömu lögum var Bandalag háskólamanna viðurkennt sem forsvarssamtök háskólamanna. Þetta var gert í samræmi við fyrirheit í málefnasamningi þáverandi ríkisstjórnar, en þar sagði m.a. að ríkisstjórnin vildi að „opinberir starfsmenn fái fullan samningsrétt um kjör sín“. Ekki náðist samstaða um að veita opinberum starfsmönnum verkfallsrétt að sinni, en réttarstaða þeirra breyttist þó verulega með þessum lögum.67

Stjórnartíðindi 1962 A, 70–74. – Illugi Jökulsson 2003, 902.
Gísli Gíslason 1986, 17–18.

Háværar kröfur voru innan stéttarsamtaka opinberra starfsmanna um að fá einnig verkfallsrétt og var orðið við þeim kröfum í tíð ríkisstjórnar Geirs Hallgrímssonar árið 1976. Meginatriði laganna voru þau að opinberir starfsmenn fengju verkfallsrétt. Verkfallsrétturinn var þó takmarkaður og náði aðeins til aðalkjarasamnings og heildarsamtaka, samúðarverkföll voru óheimil. Semja bæri til minnst tveggja ára. Þá bar sáttanefnd að leggja fram sáttatillögu áður en boðað verkfall hæfist og eftir að hún hafði verið lögð fram var heimilt að fresta verkfalli tímabundið. Þá var sáttanefnd heimilt að leggja fram miðlunartillögu eftir að verkfall var skollið á. Ef ekki höfðu tekist samningar innan 45 daga bar að leggja deiluna fyrir kjaranefnd til úrskurðar. Þessi lög giltu ekki um félagsmenn í Sambandi íslenskra bankamanna sem störfuðu hjá ríkisbönkunum, en félagsmenn þeirra samtaka fengu þó verkfallsrétt árið eftir samkvæmt sérstökum lögum.68 Árið 1986 tókust svo samningar á milli BSRB og ríkisvaldsins um breyttan samningsrétt og tóku ný lög þess efnis gildi í ársbyrjun 1987. Samkvæmt þeim fengu aðildarfélögin samnings- og verkfallsréttinn í sínar hendur.69

Stjórnartíðindi A 1976, 65–72. – Gísli Gíslason 1986, 19.
Vefur BSRB, http://bsrb.is/um-bsrb/saga-bsrb/, sótt í sept-
ember 2010.

Verkfallsverðir koma í veg fyrir að kennsla geti hafist í öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð í fyrsta verkfalli BSRB. Maðurinn fyrir miðju, með bindi, er Guðmundur Arnlaugsson, rektor.

Staða bandalagsins efldist á sjöunda og áttunda áratugnum og fram eftir þeim níunda. Mikil blóðtaka var fyrir sambandið þegar kennarar ákváðu að segja sig úr því (1985). Staða margra hópa innan BSRB og ASÍ var svipuð og augljóst að þessir hópar áttu samleið á margan hátt í kjarabaráttunni. Aldrei var þó af alvöru rætt um sameiningu þessara sambanda en dæmi eru um að hópar fólks hafi færst á milli þeirra og hefur það jafnvel valdið vandræðum í samskiptum þeirra.

Samanburður á kjörum fólks í samböndunum tveimur hefur einnig verið algengur og á árum áður fylgdu kjör BSRB-fólks iðulega þeim breytingum sem urðu á kjörum ASÍ-fólks. Haraldur Steinþórsson, sem lengi var varaformaður BSRB, lýsti því svo að almennu verkalýðsfélögin hefðu fengið „opinbera starfsmenn á sitt framfæri. Því samningar verkalýðsfélaganna leiddu það af sér að opinberir starfsmenn gátu vegna samanburðarreglunnar farið fram á sömu hækkanir. Verkalýðsfélögin brutu þannig ísinn fyrir opinbera starfsmenn“. Þessi samanburðarregla hefur einnig verið ríkjandi síðan BSRB fékk verkfallsrétt árið 1976. Stundum gekk svo langt að ákvæði voru í samningum ASÍ þess efnis að ef opinberir starfsmenn semdu betur en ASÍ-félögin mætti taka upp viðkomandi kjarasamning. Einhver brögð voru að því, en einnig voru dæmi um að ef ASÍfélög voru talin hafa gert betri samning fór BSRB fram á að fá hækkun til samræmis. Þessi samanburður gat haft slæm áhrif á samstarf sambandanna, þegar hvorugt gat gert breytingar án þess að hinn aðilinn krefðist jafnvel sömu breytinga. Stundum töldu félagar annars sambandsins að þeir hefðu dregist aftur úr tilteknum viðmiðunarhópum. Ef viðmiðunarhópurinn var því ekki sammála kom upp ágreiningur.

Á síðustu áratugum 20. aldar voru allmörg dæmi um að opinberir starfsmenn rækju harðari kjarabaráttu en almennu verkalýðsfélögin á þessum tíma. Opinberir starfsmenn gerðu t.d. nýjan kjarasamning árið 1987 og fengu meiri hækkanir en verkafólk á almennum vinnumarkaði, við litla hrifningu forystu þess. Ragna Bergmann, formaður Framsóknar, sagði af því tilefni að það hefði verið trú Alþýðusambandsfólks „þegar við sömdum að allir reyndu að vera innan markanna. Það hlýtur að breyta afstöðu okkar fólks að frétta að aðrir fá 25–30% kauphækkanir“. Í framhaldinu kröfðust helstu verkalýðsfélögin í Reykjavík breytinga og fengu fram leiðréttingar.70 Samanburðurinn gilti einnig um önnur stéttarsambönd og innan sambandanna sjálfra. Rík tilhneiging var því til að miða við ríkjandi hlutföll á milli einstakra hópa og kynja.71

Vinnan XXXVII (1987) 4. tbl., 7. – Samkvæmt upplýsingum
Þórunnar H. Sveinbjörnsdóttur 2012.
Vinnan XXXVII (1987) 1. tbl., 3–5.

En samböndin tvö, ASÍ og BSRB, stærstu launþegasambönd landsins, hafa einnig oft – og oftast – átt marg víslega og góða samvinnu á undanförnum áratugum, t.d. um vinnuvernd og atvinnuleysistryggingar.

Sér staklega var samstarfið mikið í kringum þjóðarsáttarsamninga árið 1990. Hugmyndir um sameiginlega hagdeild og upplýsingamiðlun/fjölmiðlun hafa þó ekki orðið að veruleika og hefur sumum forystumönnum sambandanna þótt að vel mætti auka samstarfið meira en gert hefur verið.72

Vinnan XXXVII (1987) 1. tbl., 3–5.

Vörður

  • 1971 Hannibal Valdimarsson hættir sem forseti ASÍ.
  • 1971 Björn Jónsson verður forseti ASÍ.
  • 1973–1974 Snorri Jónsson forseti ASÍ í forföllum Björns Jónssonar.
  • 1974 Ásmundur Stefánsson hefur störf sem hagfræðingur ASÍ.
  • 1976 „Órólega deildin“ verður til innan verkalýðshreyfingarinnar.
  • 1978 Björn Jónsson lætur af störfum sem forseti ASÍ vegna veikinda.
  • 1978–1980 Snorri Jónsson forseti ASÍ.
  • 1980 Ásmundur Stefánsson kjörinn forseti ASÍ.
  • 1982 Lára V. Júlíusdóttir ráðin lögfræðingur ASÍ.
  • 1992 Benedikt Davíðsson verður forseti ASÍ.
  • 1996 Grétar Þorsteinsson verður forseti ASÍ.
  • 2008 Gylfi Arnbjörnsson verður forseti ASÍ.
  • 1942 BSRB stofnað.
  • 1962 Takmarkaður samningsréttur BSRB.
  • 1973 Samningsréttur BSRB aukinn.
  • 1976 Takmarkaður verkfallsréttur til BSRB.
  • 1987 Fullur samnings- og verkfallsréttur til BSRB.

Næsti kafli

Kjarasamningar og vinnulöggjöf