Efnisyfirlit

Deila sögu ASÍ

Tímabilið fram til 1940

Erlendir gestir í heimsókn hjá ASÍ árið 1962. F.v.: Eðvarð Sigurðsson, J. Riisgaard Knudsen, ritari danska Alþýðusambandsins, Hermann Blomgren, varaforseti sænska Alþýðusambandsins, Hannibal Valdimarsson, forseti ASÍ., P. Mentsen, varaforseti norska Alþýðusambandsins, og frú Mentsen. Málverk í baksýn er „Skíðadalur“ eftir Ásgrím Jónsson.

Alþjóðasamvinna

Saga ASÍ: Til velferðar › Tímabilið frá 1960 og fram til 2010

Alþjóðasamvinna

Ég held að þátttaka okkar í NFS sé ákaflega mikilvæg, það höfum við best fengið að reyna þegar stórátök hafa hér orðið í kjaramálum og bræðrasamtökin á öðrum Norðurl. hafa verið boðin og búin til að styðja okkur, jafnvel með stórum fjárframlögum. Auk þess er ekki vafi á að til norrænu sambandanna getum við sótt mikinn fróðleik, nýjar hugmyndir og fyrirmyndir. Þátttaka okkar í gagnmerku starfi NFS er enn ekki í samræmi við mikilvægi þess og þyrfti það að eflast verulega. (Björn Jónsson, forseti ASÍ, á sambandsstjórnarfundi 1977.)1

ÞÍ. Fundargerðabók 1975–1978, sambandsstjórnarfundur 1977,
á lausum blöðum. Sögus. verkal. A01: 11/1. Yfirstjórn ASÍ.
Sambandsstjórn.

Norræn samvinna

Svo sem fjallað er um í fyrra bindi þessa verks hafa norrænu verkalýðssamböndin löngum haft með sér sam starf en sú samvinna hefur einnig verið tengd starfi jafnaðamannaflokkanna í þessum löndum. Frá stríðslokum 1945 hefur ASÍ haft tengsl við Alþjóðasamband verkalýðsfélaga og síðan Alþjóðsamband frjálsra verkalýðsfélaga frá 1950. Frá 1954 efldust einnig tengslin á ný við Austur-Evrópu. Þessum tengslum var töluvert sinnt, ekki síst í sambandi við kjaradeilur hérlendis. Oft var leitað eftir fjárstuðningi frá alþjóðasamböndunum, norrænu verkalýðssamböndunum og einnig verkalýðssamböndum í Austur-Evrópu, einkum Sovétríkjunum. Allmikið var einnig um gagnkvæmar heimsóknir, ekki síst til og frá Austur-Evrópu og Norðurlöndunum. Almennt lét íslensk verkalýðshreyfing þó hvorki mikið að sér kveða á alþjóðavettvangi né sýndi frumkvæði.

Norræna verkalýðssambandið (NFS) var stofnað árið 1972 og var Alþýðusambandið þátttakandi í því frá upphafi. BSRB gerðist aðili að sambandinu árið 1980. Fyrst var haldinn stjórnarfundur NFS hér á landi árið 1974.2 Skilyrði fyrir aðild var að viðkomandi samband væri félagi í Alþjóðasambandi frjálsra verkalýðsfélaga og Evrópusambandi verkalýðsfélaga (ETUC sem var stofnað 1973), en eitt helsta markmiðið með stofnun NFS var einmitt að auka norræn áhrif innan ETUC. Hætta var talin á því að hvert og eitt norrænu sambandanna yrði ella áhrifalítið innan þess stóra sambands.3 Alþýðusambandið var einnig aðili að Alþjóðasambandi frjálsra verkalýðsfélaga (ICFTU) frá stofnun og tók þátt í þingum þess sem haldin voru fjórða hvert ár.4 Þess má geta að gömlu alþjóðasamböndin tvö, ICFTU og WCL (áður WFTU), sameinuðust í Alþjóðasambandi verkalýðsfélaga ITUC árið 2006. Þar með má segja að gömlu átakalínurnar innan alþjóðlegrar verkalýðshreyfingar hafi horfið.5

Fréttabréf ASÍ, 15. desember 1977, 3.
Vinnan XXVII (1977) 2. tbl., 27. – Bergh, Trond 2009, 113. –
ÞÍ. Fundargerðabók miðstjórnar 1971–1973, 123. Sögus. verkal.
A01: 12/4. Yfirstjórn ASÍ. Miðstjórn.
Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1983, 56–58.
Sjá http://www.ituc-csi.org/about-us.html mars 2011.

Verkefni NFS voru upphaflega skilgreind svo: miðlun upplýsinga um verkalýðsmál og önnur þjóðmál á Norðurlöndum og á alþjóðavettvangi; norræn samvinna eins og hún snýr að samtökum launþega; samstarf við norrænu atvinnugreinasamböndin; samræming stefnu norrænu verkalýðssambandanna í alþjóðamálum og gagnvart alþjóðasamtökum sem samböndin áttu aðild að; og mótun stefnu gagnvart alþjóðlegum fyrirtækjum og til umhverfismála. Þegar rætt var við Richard Trælnes, formann Norræna verkalýðssambandsins, árið 1977 kom fram að þá lagði sambandið megináherslu á þrennt: upplýsingamiðlun á milli sambandanna á Norðurlöndum innbyrðis, þátttöku í opinberri norrænni samvinnu og baráttu gegn alþjóðlegum auðhringum. Þá voru samskipti við alþjóðasamtök og stofnanir einnig umfangsmikil.6

Vinnan XXIV (1974) 3. tbl., 8–9. – Vinnan XXVII (1977) 2.
tbl., 26–27. – Sjá einnig ÞÍ. Samband norrænna verkalýðs-
félaga. Samantekt Óskars Hallgrímssonar 7. febrúar 1979.
Sögus. verkal. A01: 22/6. Skrifstofa. Ýmis félagsmál. Gögn
Snorra Jónssonar um NFS.

Til þess að tryggja náið samráð á milli aðildarsamtakanna voru skipaðir starfshópar og haldnar ráðstefnur um þau málefni sem efst voru á baugi í málefnum verkalýðssamtakanna hverju sinni og var hverju aðildarsambandi heimilt að senda tiltekinn fjölda fulltrúa á ráðstefnurnar, á kostnað NFS. Þátttaka ASÍ í þessu samstarfi var þó lítil fyrstu árin og var með fáum undantekningum bundin við að taka þátt í fundum stjórnar NFS; boð frá erlendum verkalýðssamböndum voru yfirleitt ekki þegin nema greiddur væri ferðakostnaður. Þetta var skýrt með því að Ísland væri svo fjarri meginþunga starfseminnar. En félagar Íslendinga á hinum Norðurlöndunum ýttu við þeim og hvöttu þá til þátttöku.7 Afstaða ASÍ til NFS og alþjóðastarfsins átti eftir að breytast og eftir 1980 var ASÍ farið að taka meiri þátt í starfi því tengdu. Þess má geta að um þetta leyti skorti almennt á skilning í samfélaginu á mikilvægi þess að taka þátt í alþjóðasamvinnu.

Vinnan XXIX (1979) 2. tbl., 22–23. – Sjá einnig ÞÍ. Fundar-
gerðabók 1975–1978, sambandsstjórnarfundur ASÍ 1977, 74.
Sögus. verkal. A01: 11/1. Yfirstjórn ASÍ. Sambandsstjórn.
– ÞÍ. LO í Noregi til ASÍ 8. mars 1972. Sögus. verkal. A01:
23/1. Skrifstofa. Erlend bréfaskipti.

NFS hefur, sem fyrr segir, ekki síst gegnt því hlutverki að vera samráðsvettvangur.8 Má þar m.a. nefna málefni á borð við norrænan vinnumarkað og jafnréttismál. T.d. stóð NFS fyrir samnorrænni ráðstefnu um launajöfnuð í Hróarskeldu í september 1992. Á fyrri hluta tíunda áratugarins var einnig lögð mikil áhersla á atvinnumál, enda árferði erfitt og fjöldi fólks atvinnulaus á Norðurlöndum.9 Fyrir aldamótin 2000 beitti NFS sér fyrir því að tekið væri tillit til félagslegra þátta í viðskiptasamningum og þar með væri stuðlað að því að mannréttindi væru virt um allan heim. Sú barátta fór þó einnig fram innan ramma Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) og fleiri alþjóðlegra stofnana og samtaka.10 Í lögum NFS hefur einnig verið gert ráð fyrir því að samtökin hafi umboð til þess að koma fram fyrir hönd aðildarsambanda sinna í samskiptum við Norræna ráðherraráðið og nefnd ráðherraráðsins sem hefur fjallað um réttindi launafólks á hinum opna norræna vinnumarkaði frá 1954. Frjáls för launafólks innan Norðurlandanna átti sér þannig langa sögu áður en hugtakið var tekið upp innan ESB í tengslum við innri markaðinn á Evrópska efnahagssvæðinu.11

Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1982, 73.
Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1992,
158–159.
Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1997,
125–129.
Samkvæmt frásögn Gylfa Arnbjörnssonar 2010.

Þess má geta að árið 2000 hóf ASÍ þátttöku í SAMAK, samstarfsvettvangi norrænu alþýðusambandanna og jafnaðarmannaflokkanna á Norðurlöndum. Rökstuðningur fyrir þátttöku var sá að þetta væri eini vettvangurinn sem sambandið hefði til þess að hitta eingöngu fulltrúa frá alþýðusamböndum hinna Norðurlandanna. Benda má á að þarna var tekin skýr pólitísk afstaða sem vakti þó ekki mikla athygli hérlendis.12 Einstök fagfélagasambönd efldu einnig alþjóðleg tengsl sín. Mest samskipti voru við fagsambönd á hinum Norðurlöndunum. Þá voru veruleg tengsl við Sovétríkin en líka alþjóðleg fagsambönd.13

Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 2000, 138.
– Sjá einnig DV 22. janúar 2000, 64.
Sjá m.a. Friðrik G. Olgeirsson 2010, 163–165.

Norrænir gestir í heimsókn hjá ASÍ árið 1976. F.v.: Thor Aspengren, forseti Norræna verkalýðssambandsins (NFS) og jafnframt forseti norska Alþýðusambandsins, Björn Jónsson, forseti ASÍ, Gunnar Nilsson, varaforseti Norræna verkalýðssambandsins og forseti sænska Alþýðusambandsins, Ólafur Hannibalsson, skrifstofustjóri ASÍ, Ásmundur Stefánsson, hagfræðingur ASÍ, Richard Trælnes, framkvæmdastjóri Norræna verkalýðssambandsins, Snorri Jónsson, varaforseti ASÍ, og Eðvarð Sigurðsson, formaður Dagsbrúnar.

Upp úr 1980 var farið að efla formleg tengsl við verkalýðshreyfinguna í næstu nágrannalöndum Íslands, Grænlandi og Færeyjum. Að vísu hafði áður verið náið samband við fulltrúa samtaka launafólks sem vann við fiskvinnslu og fiskveiðar í Færeyjum. Þá höfðu fulltrúar Færeyinga stundum komið sem boðsgestir á ASÍþing. En tengslin í vestur voru nýlunda og má rekja til aukins sjálfræðis Grænlendinga, en fyrir þann tíma hafði danska verkalýðshreyfingin að mestu farið með samningamál á Grænlandi.14 Þessi tengsl voru m.a. efld með því að boða til ráðstefnu verkalýðshreyfinganna í útnorðri árið 1981, þ.e. hreyfinganna á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum, en auk þess tóku þátt í ráðstefnunni fulltrúar frá Álandseyjum, Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Á ráðstefnunni var rætt um möguleika á auknu samstarfi landanna þriggja og var í framhaldi af henni sett á fót samstarfsnefnd til að stuðla að slíku samstarfi.15 Á ráðstefnu sem var haldin í Færeyjum árið 1982 voru síðan stofnuð formleg samtök verkalýðssambanda á Íslandi, Grænlandi og Færeyjum og voru þau nefnd Verkalýðshreyfingin í Norður-Atlantshafi (VN).16 Ásmundur Stefánsson var kjörinn fyrsti formaður samtakanna á fundi sem haldinn var á Grænlandi árið 1984. Starfsemin fólst einkum í upplýsingastreymi á milli landanna, m.a. um lífeyris- og fræðslumál, og gagnkvæmum heimsóknum, m.a. trúnaðarmanna. Sambandið ályktaði einnig um ýmis mikilvæg mál sem vörðuðu öll löndin sameiginlega, t.d. mengunarhættu í norðurhöfum.17

Samkvæmt upplýsingum Gylfa Arnbjörnssonar 2010.
Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1981, 82–83.
Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1982, 67–69.
Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1984, 49. –
Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1990, 139.

Norska Alþýðusambandið hvetur ASÍ til þátttöku í starfi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar árið 1962 en þátttaka íslenskra verkalýðssamtaka í alþjóðastarfi hafði lengst af verið lítil.

Frá samráðsfundi Verkalýðshreyfingarinnar í Norður-Atlantshafi í apríl 1994. Frá vinstri eru Ole Christian Klein, Grænlandi, Ingeborg Vinter, Færeyjum og Benedikt Davíðsson, forseti ASÍ.

Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO), var komið á fót árið 1919 að lokinni fyrri heimsstyrjöldinni, svo sem nefnt var í fyrra bindi þessa verks. Hugmyndinni að baki stofnuninni hefur verið lýst svo:

Meginhugmyndin að baki stofnun ILO var sú að varanlegur friður yrði aldrei tryggður nema hann væri byggður á félagslegu réttlæti. Eftir að Þjóðabandalagið var lagt niður og Sameinuðu þjóðirnar stofnaðar varð ILO ein af stofnunum þeirra og er því elsta stofnunin sem er starfandi innan SÞ. Á vegum ILO hafa þróast margar af mikilvægustu breytingunum í átt til aukinnar velferðar og bætts aðbúnaðar verkafólks. Sem dæmi má nefna hugmyndina um 8 stunda vinnudag, mæðravernd og fæðingarorlof, baráttuna gegn barnaþrælkun og fjölmörg mál sem snúa að auknu öryggi við störf og friðsamleg samskipti aðila vinnumarkaðarins.18

Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1997,
139–141.

Árið 1997 höfðu þing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar gert um 180 alþjóðasamþykktir og lagt fram svipaðan fjölda tilmæla. Það ár hafði Ísland aðeins fullgilt tíunda hluta þessara samþykkta sem var aðeins helmingur af meðaltali fullgildinga aðildarþjóðanna og tæpur fjórðungur af fullgildingum hinna Norðurlandanna. Meðal þeirra samþykkta sem Íslendingar höfðu ekki fullgilt um þetta leyti var ein af grundvallarsamþykktum stofnunarinnar, samþykkt um barnavinnu. ASÍ gekk reglulega eftir því hjá félagsmálaráðuneytinu að kanna hvað liði fullgildingum á samþykktum stofnunarinnar en taldi að fenginni reynslu að svo virtist sem ráðuneytið veitti „VSÍ í raun neitunarvald um framgang einstakra samþykkta“. Af framgöngu ráðuneytisins væri ekki unnt að draga aðra ályktun en að það væri almennt andvígt frekari fullgildingum alþjóðasamþykkta af þessu tagi.19 Nefnt var að frammistaða Íslands á þessu sviði væri svo slæm að hún væri stjórnvöldum, og raunar einnig verkalýðshreyfingunni, til „algerrar háðungar“.20 Árið 1999 kom fram að Alþjóðavinnumálastofnunin hefði gert alls sex grundvallarsamþykktir um mannréttindi, um „bann við nauðungarvinnu, um félagafrelsi, um rétt launafólks til að stofna og ganga í stéttarfélög og semja sameiginlega, um jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf, um afnám nauðungarvinnu, um bann við misrétti með tilliti til atvinnu og um lágmarksaldur til vinnu“. Um þetta leyti höfðu Íslendingar fullgilt þessar samþykktir að undanskilinni einni, um lágmarksaldur til vinnu.21

Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1997,
141–142.
Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1998,
129–130.
Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1999,
27–28.

Sem að framan greinir var íslensk verkalýðshreyfing í mestum tengslum við hin Norðurlöndin og einnig verkalýðshreyfinguna í Vestur-Evrópu. En net íslensku verkalýðssamtakanna var þó víðtækara en svo, það var eiginlega furðu fjölbreytt. Svo sem fyrr hefur verið fjallað um voru tekin upp tengsl við verkalýðssambönd í Austur-Evrópu um miðjan sjötta áratuginn og enda þótt ýmislegt gengi á fyrir austan tjald rofnuðu þessi tengsl ekki. Dagsbrúnarmenn fengu t.d. styrk frá Sambandi sovéskra byggingaverkamanna árið 1961, en félagið stóð þá í löngu verkfalli. Upphæðin var reyndar ekki há, 5.000 pund, og rann í vinnudeilusjóð félagsins.22 Einnig voru sótt þing WFTU, Alþjóðasambands verkalýðsfélaga, þar sem Sovétmenn voru áhrifamiklir, t.d. árið 1962.23 Þess má geta að fulltrúar sovéska verkalýðssambandsins komu hingað til lands árið 1964 og einnig oft síðar, og oft fóru íslenskar sendinefndir í vináttuheimsóknir til Austur-Evrópu, raunar nánast fram að því að járntjaldið féll um 1990. Farið var í ferðir til Sovétríkjanna, Rúmeníu og á svonefnda Eystrasaltsviku í Austur-Þýskalandi, svo nokkuð sé nefnt, og hingað komu gestir frá verkalýðssamtökum í ríkjum Austur-Evrópu. Einstök félög og fagsambönd höfðu einnig mikil samskipti austur fyrir járntjald. Að mati forseta ASÍ árið 1964 var það fólk sem hafði heimsótt Sovétríkin „betur brynjað að mæta þeim mikla áróðri sem er hafður í frammi gegn landi ykkar [sovéskrar sendinefndar] af því að það veit betur eftir en áður hvað er sannleikur“. Sumir verkalýðsforingjar fóru hvað eftir annað í boðsferðir til austantjaldsríkjanna.24 Þá voru þegin boð um þátttöku í námskeiðum, m.a. frá Verkalýðssambandi Tékkóslóvakíu árið 1978 og bauðst tékkneska sambandið til að greiða allan kostnað af dvölinni.25 Sumum forystumönnum var jafnvel boðið persónulega, t.d. forseta ASÍ árið 1981, „að eyða fríi í sumar í USSR“ samhliða því að fulltrúum var boðið á ráðstefnu í Moskvu.26 Þegar þetta gerðist var mikil ólga í Póllandi og verkalýðssamtökin Solidarnosc, Samstaða, mjög að eflast. Alþýðusambandið tók þó skýra afstöðu gegn innrás Sovétríkjanna og fylgiríkja þeirra í Tékkóslóvakíu árið 1968 og lýsti yfir „biturri reiði vorri yfir þeim lubbalegu griðrofum, sem þjóðir Tékkóslóvakíu hafa nú orðið fyrir úr þeirri átt, sem sízt hefði átt að þurfa að óttast“. Þá, síðla árs, kvaðst Alþýðusambandið því miður ekki geta sent fulltrúa á þing Verkalýðssambands Sovétríkjanna.27

Þjóðviljinn 16. júlí 1961, 1. – Sjá Halldór Björnsson, viðtal
2007; Halldór taldi reyndar að styrkurinn hefði fengist árið
1955.
ÞÍ. Fundargerðabók miðstjórnar 1962–1963, 17. Sögus. verkal.
A01: 12/3. Yfirstjórn ASÍ. Miðstjórn.
ÞÍ. Fundargerðabók miðstjórnar 1963–1965, 82. Sögus. verkal.
A01: 12/3. Yfirstjórn ASÍ. Miðstjórn. – ÞÍ. Fundargerðabók
miðstjórnar 1971–1973, 75 og víðar. Sögus. verkal. A01: 12/4.
Yfirstjórn ASÍ. Miðstjórn. – Friðrik G. Olgeirsson 2010,
163–164. – Sjá einnig Björn Ingi Hrafnsson 2001, 149–162; þar
fjallar Halldór G. Björnsson um þær boðsferðir sem hann fór
í til Austur-Evrópu.
ÞÍ. Fundargerðabók miðstjórnar 1978–1979, Sögus. verkal.
A01: 12/6. Yfirstjórn ASÍ. Miðstjórn. –
ÞÍ. Fundir miðstjórnar ASÍ 1981, 145. Sögus. verkal. A01:
12/6. Yfirstjórn ASÍ. Miðstjórn. –
ÞÍ. Bréf ASÍ til Sendiráðs Sovétríkjanna á Íslandi 5.
nóvember 1968. Sögus. verkal. A01: 23/69. Skrifstofa. Erlend
bréfaskipti. – ÞÍ. Ályktun ASÍ 26. ágúst 1968. Sögus. verkal.
A01: 20/8. Almenn skrifstofa. Almenn bréfaskipti.

Íslenskir þátttakendur á 75. þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar árið 1988. Fremri röð f.v.: Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, Sverrir Haukur Gunnlaugsson, sendiherra, Hallgrímur Dalberg, ráðuneytisstjóri í félagsmálaráðuneytinu, og Guðmundur J. Guðmundsson, formaður Dagsbrúnar. Fyrir aftan þau f.v.: Gylfi Kristinsson, deildarstjóri í félagsmálaráðuneytinu, Jón H. Magnússon, lögfræðingur VSÍ, og Elín Torfadóttir.

Sendinefnd frá ungverskum verkalýðssamtökum í heimsókn hjá Starfsmannafélaginu Sókn þar sem veittar voru upplýsingar um kaup, kjör og réttindi um miðjan níunda ártuginn. F.v.: Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, formaður Sóknar, Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir, síðar formaður félagsins, og ungverskir gestir.

Halldór Björnsson, um tíma formaður Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, hefur hafnað því að þessi samskipti hafi haft áhrif á stefnumörkun verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi eða „á trúnaðarstörf mín í þágu íslenskrar alþýðu“. Hið sama gerðu fleiri forystumenn og töldu litla ástæðu til að kanna þessi mál eitthvað frekar, eins og Tryggvi Þór Aðalsteinsson hafði lagt til að gert yrði í grein í fréttabréfi Eflingar stéttarfélags. Tryggvi taldi ástæðu til að skoða þessi mál á „opinskáan og heiðarlegan hátt“. Það hefur þó ekki verið gert og bíður sú rannsókn síðari tíma.28

Björn Ingi Hrafnsson 2001, 162. – Morgunblaðið 15. janúar
2000, 6.

Í aðalstöðvum Solidarnosc, Samstöðu, í Gdansk snemma árs 1983, mynd af leiðtoganum Lech Walesa á vegg. Franskir blaðamenn bíða eftir viðtali. Haukur Már Haraldsson, ritstjóri Vinnunnar, var þarna á ferð. Þegar Solidarnosc var stofnað síðla árs 1981 fóru Ásmundur Stefánsson, forseti ASÍ, og Björn Þórhallsson, vara forseti ASÍ, á þingið. Ásmundur flutti ávarp og þeir Björn hittu Walesa á stuttum fundi.

Fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar í Palestínu, þeir Rashid og Dweik, á Íslandi á 1. maí 1990.

Íslensk verkalýðshreyfing var ekki við eina fjölina felld frekar en fyrri daginn. Þegar verkalýður Póllands gerði uppreisn um og upp úr 1980 og stofnaði Solidarnosc, Samstöðu, tók Alþýðusambandið upp tengsl við hreyfinguna og bauð fulltrúum hennar til Íslands.29 Síðar átti Alþýðusambandið eftir að veita hreyfingunni margvíslegan stuðning í baráttu hennar við pólsk stjórnvöld, einnig í samstarfi við fleiri samtök, en sett voru herlög í desember 1981 í Póllandi og starfsemi Samstöðu var bönnuð. Alþýðusambandið gekkst m.a. fyrir útifundi á Lækjartorgi 14. desember það ár til þess að mótmæla ofríki pólskra stjórnvalda. Forseti ASÍ, Ásmundur Stefánsson, flutti ræðu á fundinum. Jafnframt tók ASÍ þátt í fjársöfnun til styrktar Pólverjum og samþykktar voru ályktanir þar sem herlögum í Póllandi var mótmælt. Ítrekaður var stuðningur við hin óháðu verkalýðssamtök, Solidarnosc, og þess krafist að leiðtogum þeirra yrði sleppt úr fangelsi.30 Síðar tók Alþýðusambandið einnig skýra afstöðu til þróunar mála í Eystrasaltslöndunum og studdi verkalýðshreyfingu þessara landa á erfiðum tímum.31

Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1981,
46–50.
Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1982,
76–80. – Vinnan XXXII (1982) 1. tbl., 12–13. – Fréttabréf ASÍ,
22. janúar 1982, 3. – Fréttabréf ASÍ, 19. febrúar 1982, 2–3.
Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1991, 104.

Alþýðusambandið hefur ekki oft látið sig varða stöðu mála í fjarlægum löndum, en þess eru þó dæmi. Ástand ið í Suður-Afríku var mjög til umræðu á ofanverðum áttunda og á níunda áratugnum og tók Alþýðusambandið þátt í samstarfi margra annarra sambanda og stofnana þar sem skorað var á ríkisstjórnina að beita sér í málefnum landsins.32 Sú þátttaka var mjög í samræmi við afstöðu Norræna verkalýðssambandsins sem beitti sér hart gegn kynþáttakúguninni í Suður-Afríku á þessum tíma. Sambandið krafðist þess að öllum viðskiptum við Suður-Afríku yrði hætt meðan aðskilnaðarstefnan væri við lýði og lýsti yfir fullum stuðningi við baráttu verkalýðsfélaga í Suður-Afríku.33 Þess má geta að Verkamannafélagið Dagsbrún boðaði samúðaraðgerðir með mannréttindabaráttu íbúa í Suður-Afríku og setti á ótímabundið innflutnings- og afgreiðslubann á vörur þaðan. VSÍ kærði bannið til Félagsdóms sem komst að þeirri niðurstöðu að þar sem ekki hefði verið sýnt fram á að umrædd aðgerð væri til stuðnings ákveðnu verkfalli, væri það ólögmætt.34 Alþýðusambandið hafði tengsl við Afríska þjóðarráðið, en það sendi fulltrúa sinn hingað til lands árið 1990. ASÍ var einnig í tengslum við Verkalýðssamtök Palestínumanna um þetta leyti sem einnig sendu fulltrúa til Íslands í fyrsta sinn (1990).35

Vinnan XXIX (1979) 4. tbl., 3. – Vinnan XXXVII (1987) 1.
tbl., 17.
Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1985,
99–103.
Verkamannafélagið Dagsbrún. Skýrsla formanns starfsárið
Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1990,
135–136.

Evrópumálin

ASÍ var meðal þeirra samtaka sem stóðu að stofnun ETUC, Evrópusambands verkalýðsfélaga, árið 1973, en það átti raunar rætur að rekja til samstarfs verkalýðssambanda Evrópu innan EFTA og Efnahagsbandalags Evrópu. Eðvarð Sigurðsson og Guðmundur H. Garðarsson voru fulltrúar ASÍ á stofnþinginu.36

ÞÍ. Alþýðusamband Evrópu, ASE. Skýrsla samantekin af
Guðmundi H. Garðarssyni í febrúar 1973. Sögus. verkal. A31:
25/4. Bréfasafn, málasafn. Ýmis efni.

Alþjóðastarf ASÍ, utan Norðurlanda, miðaðist fyrst og fremst við Evrópumál og Evrópusamvinnu, enda urðu þau mál sífellt fyrirferðarmeiri hjá samstarfssamböndum ASÍ innan NFS á níunda og tíunda áratugnum. Sérnorræn mál viku jafnvel til hliðar, en starfið fór í síauknum mæli að snúast um að samræma afstöðu Norðurlanda „á evrópskum vettvangi og hafa áhrif á það sem þar gerist“.37 Ástæðurnar voru ekki síst þær að umræður innan ESB um vinnumarkaðs- og félagsmál jukust mjög frá því sem verið hafði og NFS ákvað að árið 1989 yrði helgað þróuninni í Evrópu. Að frumkvæði NFS var settur á stofn svokallaður aðlögunarhópur til þess að hafa áhrif á umræðu um þessi mál innan ESB, enda mátti ljóst vera að frjálst flæði vinnuafls og fjármagns sem stefnt var að innan ESB mundi hafa mikil áhrif alls staðar í Evrópu. En um þetta leyti voru einnig hafnar umræður um nánara samstarf EFTA og ESB sem síðar áttu eftir að leiða til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem tók gildi árið 1994.38 Í tengslum við þetta starf var gefið út ritið Samtök launafólks og Evrópusambandið árið 1989 á vegum ASÍ og BSRB.

Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1992, 158.
Fréttabréf ASÍ, 28. júní 1989, 1–3. – Skýrsla forseta um störf

Forystumenn ASÍ fögnuðu þeirri ákvörðun að hefja samninga í upphafi árs 1990 þess efnis að stefna að samkomulagi um evrópskt efnahagssvæði. Segja má að almennt hafi verkalýðssamtökin verið fremur jákvæð gagnvart þessari þróun mála, ólíkt því sem var þegar Ísland gekk í EFTA ríflega tveimur áratugum áður. Sambandið taldi nú að aukin samvinna innan Evrópu leiddi til bættra lífskjara. Sambandið kvaðst þó taka undir fyrirvara íslenskra stjórnvalda um nýtingu náttúruauðlinda og atvinnu- og búseturéttindi. Jafnframt væri stuðningur við viðræður um evrópskt efnahagssvæði bundinn því „skilyrði að samhliða viðræðum og samningum um aukið frjálsræði í viðskiptum [yrðu] … félagsleg réttindi og velferð tryggð í Evrópu framtíðarinnar“. Það yrði því að standa fast á ýmsum grunngildum, svo sem kröfu um fulla atvinnu, velferðarstefnu og fagleg réttindi. Samhliða þessu yrði að leggja aukna áherslu á starf og samstarf verkalýðshreyfingarinnar í Evrópu til þess að þessi stefnumið yrðu í heiðri höfð og unnið yrði að því að koma á Félagsmálasáttmála Evrópu.39

Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1990,
127–132.

Ísland hafði um þetta leyti lengi tekið þátt í ráðgjafarnefnd verkalýðssamtakanna í EFTA, eða allt frá því Ísland gekk í sambandið, og þar átti ASÍ fulltrúa. Aukinn þungi var lagður á það starf eftir 1990 í tengslum við viðræður um EES-samninginn og stofnaður var starfshópur verkalýðssamtaka innan EFTA vegna samninga EB og EFTA. Alþýðusambandið tók fullan þátt í þessu samstarfi og segir Ari Skúlason að við þetta tækifæri hafi „ASÍ í fyrsta skipti komið fram sem alvöru þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi“.40 Eftir að ríkjum fækkaði innan EFTA varð hlutur Íslands veigameiri í þessu samhengi. Nefna má að ASÍ hefur á síðustu tveimur áratugum þrisvar átt formann ráðgjafarnefndarinnar, Ara Skúlason einu sinni og Halldór Grönvold tvisvar. Hann er formaður þegar þetta er ritað.41 Þátttaka ASÍ í þessu samstarfi styrkti einnig stöðu sambandsins innan annarra samtaka sem það átti aðild að, bæði NFS, þar sem var starfandi Evrópuhópur, og ETUC. Í tengslum við þetta starf var farið að skipuleggja kynnisferðir forystumanna í verkalýðshreyfingunni til Brüssel til þess að fólk gæti kynnt sér af eigin raun þróunina á alþjóðavettvangi, stefnu og ákvarðanir ESB, og með hvaða hætti íslenskt launafólk gæti haft hag af Evrópusamvinnunni.42

Skýrsla forseta um störf miðstjórnarAlþýðusambands Íslands
Fréttabréf ASÍ, 29. janúar og 21. mars 1991. – Frásögn Ara
Skúlasonar, október 2010.
Samkvæmt athugasemdum Halldórs Grönvold, júní 2011.
Frásögn Ara Skúlasonar, október 2010.

Innan ASÍ voru þó skiptar skoðanir um þessi mál og ýmsir innan verkalýðshreyfingarinnar vöruðu við því afsali á sjálfsákvörðunarrétti sem þeir töldu felast í aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Hætta væri á að landið glataði fullveldi í mörgum málum og of lítið væri gert úr afsali sjálfsákvörðunarréttar og yfirþjóðlegu valdi.43 Þá væri atvinnuleysi víða mikið í Evrópu, ekki síst meðal kvenna, og mikill launamismunur. Með þessu var dregið í efa að ástand mála innan Evrópusambandsins væri eftirsóknarvert.44 Svo fór að sambandsstjórnarfundur, sem var haldinn síðla árs 1991, hvatti til þess að samningur um evrópskt efnahagssvæði yrði borinn undir þjóðina sem þá fengi að greiða atkvæði um hvort hún væri samþykk honum eða ekki.45 Á þingi sambandsins árið 1992 varð niðurstaðan sú að draga til baka tillögur um stuðning eða andstöðu við EESsamninginn en gera fremur athugasemdir við samningsgerðina.46

Sjá m.a. Vinnan XLI (1991) 10. tbl., 20– 21.
Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1992, 18–19.
Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1992, 23.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 37. sambandsþing 1992,
76–77.

Miðstjórn ASÍ fundar um Evrópumálin árið 2003. F.v.: Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, Finnbjörn A. Hermannsson, Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir, Halldór Grönvold og Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ. Hægra megin við borðið má m.a. sjá Halldór Björnsson (annar frá Grétari). Næst til hægri er Ágúst Sigurður Óskarsson.

Í umræðu um þessi mál áleit Alþýðusambandið sex atriði skipta mestu um þróunina á þessu sviði. Fylgja bæri stefnu sem yki hagvöxt og atvinnu, og efldi tækniþróun í samskiptum, samgöngum, umhverfis- og orkumálum, efla bæri vinnumarkaðs- og starfmenntastefnu sem yki hreyfanleika og hæfni vinnuafls, fyrirbyggja bæri líkamlegt og andlegt tjón af völdum vinnuumhverfis, fylgja bæri jafnréttisstefnu sem bætti stöðu kvenna og auka ætti lýðræði og áhrif verkafólks og félaga þess. En einnig bæri að taka sérstakt tillit til sérstöðu einstakra landa og svæða, enda væru hefðir ólíkar innan Evrópu og styrkur verkalýðshreyfingarinnar mun meiri í norðri en suðri.47 Með auknu frjálsræði í vöruflutningum og frjálsu flæði fjármagns yrði því að hafa varann á og tryggja réttindi fólks við breyttar aðstæður, t.d. að því er varðaði upplýsingar um réttindi og kjör og þá þjónustu sem verkafólk ætti rétt á. Þá yrði einnig að tryggja að a.m.k. lágmarksákvæði heimalands, þar sem útlend fyrirtæki störfuðu, væru virt, svo sem ákvæði um laun, vinnutíma og annað. Samhliða væri mikilvægt að koma á öflugri starfsmenntun sem auðveldaði fólki að takast á við breytingar. Slík menntun mætti þó ekki alfarið vera á forsendum fyrirtækjanna.48

Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1991,
92–94.
Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1991,
94–95.

Að mati ASÍ var ekki unnt að ræða um svokallað fjórfrelsi án þess að taka jafnframt fyrir félagsleg málefni: „félagarétt, félagsmálastefnu, umhverfismál, neytendamál, rannsóknir og þróun, menntamál, félagsleg réttindi og jafnréttismál“. Sem sagt öll mikilvægustu velferðarmál samfélagsins! Með því að vinna þeim brautargengi væri komið í veg fyrir að Evrópa þróaðist í átt til óhefts markaðssamfélags. Um leið væri tryggt að settar væru hömlur gegn innflutningi á mengandi vörum og að réttur neytenda væri tryggður. Einnig að aðgangur væri að menntunar- og rannsóknaáætlunum Evrópubandalagsins og að verkalýðshreyfingin hefði áhrif í stofnunum þar sem fjallað væri um heilbrigði, öryggi og umhverfi vinnustaða.49 En samhliða þessum fyrirvörum yrði einnig að bæta úr margvíslegum vanköntum hér á landi og setja reglur á ýmsum sviðum þar sem regluverk væri ófullkomið eða ekki sambærilegt við það sem tíðkaðist annars staðar.50

Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1991,
95–96,
Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1991, 97.

Eftir inngönguna í EES var komið á fót nokkrum opinberum nefndum til þess að fylgjast með og fjalla um reglur og reglusetningu í tengslum við EES-samninginn. ASÍ átti fulltrúa í nokkrum þeirra. Mikilvægust var ef til vill samráðsnefnd á vegum félagsmálaráðuneytisins með fulltrúum atvinnurekenda og launafólks. Hlutverk hennar var m.a. að fjalla um framkvæmd reglna á sviði félagsmála sem giltu á Evrópska efnahagssvæðinu og aðstoða íslensk stjórnvöld við stefnumótun á þessu sviði. Þá fjallaði nefndin um fjölda tillagna að tilskipunum og tilmælum Evrópusambandsins á þessu sviði.51 Þess má geta að samningurinn um EES fól í sér að Ísland varð hluti af sameiginlegum vinnumarkaði Evrópuríkja sem gerir launafólki í viðkomandi ríkjum frjálst að starfa hvar sem er á svæðinu. Það leiddi til þess að mjög dró úr áhrifum stéttarfélaganna á það hvort útlendingar kæmu inn á íslenskan vinnumarkað. Þau höfðu áður haft mikil áhrif á hvernig þessum málum var háttað svo að í raun fengu fáir starf hérlendis án heimildar verkalýðshreyfingarinnar.52 Hér má einnig nefna að aðilar á evrópskum vinnumarkaði fengu aukin völd og áhrif í tengslum við evrópskan vinnumarkað. Þetta var staðfest með breytingum á stofnsáttmála ESB árið 1999 þar sem kom fram að hafa skyldi samráð við „aðila vinnumarkaðarins um alla þætti er varða vinnumarkaðinn og þróun hans og að þeim skuli gefið tækifæri til að semja sín á milli um þau efni“.53

Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1995, 185.
Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1994, 167.
Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 2003, 31.

Þrátt fyrir samvinnu og samstarf við stjórnvöld og samtök atvinnurekenda komu upp margs konar deilur á milli ASÍ og þessara aðila. Ágreiningur var um hversu skuldbindandi svokallaður félagsmálahluti EES-samningsins væri og varðaði þetta m.a. tilskipun um tilhögun vinnutíma, svokallaða vinnutímatilskipun. Í ljós kom að samtök atvinnurekenda og íslensk stjórnvöld töldu þennan hluta minna skuldbindandi en aðra þætti. Íslensk stjórnvöld lýstu því m.a. yfir að þau teldu að tilskipunin ætti ekki við á Evrópska efnahagssvæðinu en Alþýðusambandið var á öndverðri skoðun. Í henni var mælt fyrir um lágmarkskröfur um hvíld, hámarksvinnutíma og að öðru leyti öryggi og hollustu sem tengdist vinnutímanum. Það var mat ASÍ að tilskipunina yrði að taka upp á efnahagssvæðinu. Ekki gengi að reglur um öryggis- og aðbúnaðarmál væru mismunandi vegna þess að um mikilvægan samkeppnisþátt væri að ræða.54 Áður hefur verið getið um þessar umræður og einnig andstöðu stjórnvalda við reglur um vinnutíma barna og unglinga. Þessi tregða íslenskra stjórnvalda reyndi á „þolinmæði“ annarra aðila að EES-samningnum, bæði Norðmanna og ESB, sem vildu ljúka frágangi þessara mála, sem á endanum tókst.55

Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1994,
200–202.
Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1995,
186–187.

Fulltrúar á þingi ETUC, Evrópusambands verkalýðsfélaga árið 2003. F.v.: Halldór Grönvold, skrifstofustjóri ASÍ, Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, Halldór Björnsson, varaforseti ASÍ og Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ.

Evrópusamband verkalýðsfélaga, ETUC, var helsti vettvangur umræðu um hagsmuni launafólks innan álfunnar. Almennt má segja að starf ASÍ að alþjóðamálum hafi í stöðugt meira mæli færst í þá átt að sinna sameiginlegum hagsmunum verkafólks í Evrópu. Helstu farvegir þessa starfs voru innan NFS, Norræna verkalýðssambandsins, sem fyrr greinir, og svo beint innan ETUC.56 Alþýðusambandið tók virkan þátt í starfinu innan ETUC frá því að samningaviðræður um EESsamninginn hófust og var í framhaldi af því þátttakandi í allri samningagerð á milli ETUC og Evrópusamtaka atvinnurekenda um félagslegar umbætur í tengslum við vinnumarkaðinn. Samningar af þessu tagi urðu síðan yfirleitt hluti af því regluverki sem gilti á Evrópska efnahagssvæðinu. Taka má sem dæmi um gang mála að árið 1995 var gerður samningur á milli ETUC og Evrópusamtaka atvinnurekenda um foreldraorlof. Árið 1996 stóð m.a. yfir samningagerð á vegum ETUC um óhefðbundin ráðningarkjör, svo sem um hlutastörf og tímabundnar ráðningar, og tók ASÍ þátt í þeim við ræðum.57 Þá stóð ETUC fyrir samningagerð árið 2004 um varnir gegn vinnustreitu og síðar einnig um varnir gegn einelti og ofbeldi við vinnu.58 Það varð síðan viðfangsefni norrænu verkalýðssamtakanna, þar á meðal ASÍ, að fá þessi réttindi viðurkennd í sínum heimalöndum. Viðfangsefni af þessu tagi voru sérlega mikilvæg hérlendis að mati Alþýðusambandsins, enda hefði „þróunin á íslenskum vinnumarkaði … á ýmsum sviðum verið hægari hér á landi en í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við þegar kemur að réttindum launafólks“. Starf hérlendrar verkalýðshreyfingarinnar í kjölfar aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu fólst því ekki síst í því að vinna að því að „leiðrétta“ þennan mismun.59 Þess má geta að með breytingum á stofnsáttmála ESB árið 1999 var ákveðið að samráð skyldi haft við „aðila vinnumarkaðarins um alla þætti er varða vinnumarkaðinn og þróun hans og þeim bæri að gefa tækifæri til að semja sín í milli um þau efni“.60 Þannig var aðild ASÍ að ETUC ekki aðeins mikilvæg vegna Evrópusamninganna, heldur einnig vegna beinna og óbeinna áhrifa ETUC á mörg svið Evrópusamvinnunnar.

Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1995,
178–179. – Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið
Nýtt afl – nýir tímar 2001, 8. – Skýrsla forseta um störf
Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 2004, 221.
Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1998, 108.
Ársfundur Alþýðusambands Íslands 2002. Samþykktir og álykt-

Gunnar Páll Pálsson, formaður VR, flytur erindi um Evrópusamvinnu og hagsmuni launafólks á ársfundi ASÍ árið 2002 á Hótel Loftleiðum, þar sem þátttaka Íslands í Evrópustarfinu og EES-samningnum var til umræðu.

Alþýðusambandið gerði kröfu um að aðilar á vinnumarkaði ættu kost á því að semja um margar þeirra tilskipana og reglna sem taka þurfti upp í kjölfar EES. Með því væri tryggt „að það væru fulltrúar þeirra sem reglurnar ættu að ná til sem fjölluðu um gildistöku þeirra og framkvæmd“. Í tengslum við þetta álit var ákveðið að forysta ASÍ og formenn landssambanda óskuðu eftir að fá umboð frá aðildarfélögum ASÍ til þess að semja um Evrópureglur. Að fengnu þessu umboði var gengið frá formlegu samkomulagi um að skipa sameiginlegar samninganefndir þessara aðila sem ættu að vera fulltrúar þeirra gagnvart samtökum atvinnurekenda þegar semja þyrfti um gildistöku Evrópureglna fyrir hérlendan vinnumarkað.61 Næstu árin var unnið mikið að samningum af þessu tagi. Nefna má að árið 2002 voru starfandi samninganefndir á vegum ASÍ um eftirtalin mál: tilskipun um hlutastörf; tilskipun um tímabundnar ráðningar; tilskipun um upplýsingar og samráð evrópsks kjarasamnings um fjarvinnu, tilskipun um útleigða starfsmenn, reglur/tilskipun um persónuvernd starfsmanna og loks væntanlegan Evrópusamning um varnir gegn vinnustreitu.

Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árið 1996,
140–141.

Vörður

  • 1972 Norræna verkalýðssambandið stofnað.
  • 1973 Evrópusamband verkalýðsfélaga, ETUC, stofnað.
  • 1980 BSRB gerist aðili að Norræna verkalýðssambandinu.
  • 1981 Alþýðusambandið gengst fyrir útifundi á Lækartorgi 14. desember til stuðnings Samstöðu í Póllandi.
  • 1982 Stofnuð samtök verkalýðssambanda á Íslandi, Grænlandi og Færeyjum, Verkalýðshreyfingin í Norður-Atlantshafi (VN).
  • 1992 Á þingi sambandsins er ákveðið að draga til baka tillögur um stuðning eða andstöðu við EES-samninginn.
  • 2000 ASÍ gengur í SAMAK, samstarfsvettvang norrænu alþýðusambandanna og jafnaðarmannaflokkanna.
  • 2000–2002 ASÍ-þing ályktar að hefja eigi undirbúning að mögulegri aðild að ESB.
  • 2008 Ársfundur ASÍ samþykkir að æskilegt sé að sækja um aðild að ESB og taka upp evru.

Næsti kafli

Yfirlit