Efnisyfirlit

Deila sögu ASÍ

Tímabilið fram til 1940

Verkamenn í Reykjavík á millistríðsárunum við hreinsunarstörf, klæddir að hætti þess tíma.

Verkalýðshreyfing byggð upp

Saga ASÍ: Í samtök › Tímabilið fram til 1940

Verkalýðshreyfing byggð upp

Alþýðusambandið var frá upphafi samband einstakra stéttarfélaga og jafnaðarmannafélaga, sem fyrr getur, en ekki samband sambanda eins og algengt var í nágrannalöndunum. Þegar einstök félög gengu í ASÍ urðu þau að gangast undir skipulagsreglur sambandsins og breyta lögum sínum á þann hátt að fram kæmi að þau væru í sambandinu. Þetta skipulag dugði vel í fyrstu enda voru aðildarfélög ekki mörg og tæplega forsendur fyrir margbrotnara skipulagi, ólíkt því sem var í nágrannalöndunum þar sem snemma skapaðist grundvöllur fyrir stofnun sérsambanda. Víða voru slík sambönd einmitt stofnuð á undan allsherjarsambandi verkalýðsfélaga.

Grunneiningarnar og skipan þeirra

Hugmyndir um skipulagsmál verkalýðsfélaganna endurspegluðust í umræðum á þingi ASÍ árið 1924. Þá taldi skipulagsnefnd sambandsins heppilegast að í „þorpum og kauptúnum úti um land“ væri aðeins eitt félag sem síðan skiptist í deildir „fyrir verkamenn, sjómenn og verkakonur“ sem sæju um sérmál deildanna en félagið annaðist mál sem væru sameiginleg, t.d. meginkröfur í kjarasamningum. En í Reykjavík og stærri kaupstöðum ættu að vera sérstök félög sjómanna, verkakvenna og verkamanna. Auk þess þyrfti að stofna jafnaðarmannafélög sem víðast. Jafnframt ræddi skipulagsnefndin um kosti þess að stofna héraðssambönd sem næðu a.m.k. yfir eitt kjördæmi, svo og að koma á fót jafnaðarmannafélögum sem víðast, en slík félög væru til þess fallin að efla þekkingu og fræðslu innan verkalýðsfélaganna.1

Alþýðublaðið 19. nóvember 1924, 2.

Grunneiningar Alþýðusambandsins áttu því að vera af eftirtöldum stofnum: félög verkamanna, félög verkakvenna, félög sjómanna, blönduð félög á minni stöðum, jafnaðarmannafélög og svo ef til vill héraðssambönd. Þessar einingar hlutu að verða margar þegar keppst var við að stofna sérstök félög á nánast öllum þétt býlisstöðum á landinu. Flest þessara félaga voru fámenn enda staðirnir litlir en engu að síður var réttlætanlegt að standa svona að málum vegna þess hversu samgöngur voru yfirleitt erfiðar. Til dæmis var stofnað verkamannafélag í Flatey á Breiðafirði árið 1931 og voru stofnfélagar 14 en síðar bættust fleiri við. Stofnun þessa félags er kannski dæmigerð fyrir ástandið eins og það var víða á landinu. Formaður var kosinn Friðrik Salómons son en hann var útgerðarmaður.2 Það var ekki nóg með að fámenni gerði félögum á smáum stöðum erfitt fyrir. Skil voru heldur ekki glögg á milli stétta, sá sem var verkamaður í dag var kannski í útgerð á morgun og við bústörf þriðja daginn. En ekki voru þó alltaf vegalengdir miklar á milli félagssvæða. Til dæmis var um árabil sérstakt verkamannafélag fyrir Glerárþorp við Akureyri þó að öflugt félag væri starfrækt á Akureyri, og virðast hreppamörk hafa ráðið því að svo var farið að.

Alþýðublaðið 4. mars 1931, 4.

Ákvæði um deildir var mikilvægt vegna þess að þá var fremur hægt að sameina ólíka hópa innan eins félags í stað þess að stofnuð væru mörg lítil félög.

Verkafólk á Hauksbryggju við Mýrargötu á millistríðsárunum, saltfiskur borinn á handbörum, karlar, konur og unglingar. Karlarnir gætu hafa verið í Dagsbrún en konurnar í Verkakvennafélaginu Framsókn. Takið eftir fótabúnaði fólksins, flestir eru í gúmmístígvélum eða gúmmískóm en slíkur fótabúnaður varð algengur á fyrstu áratugum 20. aldar og var byltingarkennd breyting fyrir alþýðu manna.

Þannig voru víða settar á fót kvennadeildir og í sumum félögum voru deildir skipulagðar fyrir tiltekna starfshópa eða jafnvel vinnustaði.3 Taka má Verkalýðsfélag Akraness sem dæmi en það starfaði í þremur deildum á fjórða áratug 20. aldar, kvennadeild, sjómannadeild og verkamannadeild. Árið 1933 voru 316 manns í félaginu, 89 í kvennadeild, 68 í verkamannadeild og 159 í sjómannadeild. Sjórinn og vinnsla sjávarafla var því það sem mestu máli skipti á Akranesi. Síðar voru stofnaðar fleiri deildir við félagið.4 Sums staðar voru þó stofnuð sérfélög verkakvenna eða sjómanna á mun fámennari stöðum en á Akranesi, t.d. var sérstakt verkakvennafélag á Hofsósi.

Ingólfur V. Gíslason 1994, 219−221.
Stefán Hjálmarsson 2004, 25.

Með atvinnubreytingum sem urðu á þriðja og fjórða áratugnum fjölgaði fólki í þjónustugreinum og verslun og iðjufyrirtæki af margvíslegu tagi spruttu upp í skjóli hafta og verndarstefnu. Nýir starfsgreinahópar urðu til og áttu oft og tíðum engan málsvara. Þegar líða tók á fjórða áratuginn fóru þessir hópar að skipuleggja sig og stofna ný félög. Svo bættist við klofningur verkalýðshreyfingarinnar á fjórða áratugnum, sem síðar verður rætt um, en hann jók enn á fjölda félaganna.

Fjöldi stéttarfélaga og meðlima í hreyfingunni

Alþýðusamband Íslands varð samband marga einstakra félaga sem flest voru smá. Á fyrsta starfsári ASÍ voru félagar í aðildarfélögum þess í kringum 1900. Þar af var um fjórðungur konur. Tæplega 2200 voru í ASÍ árið eftir, enda bættust þá fjögur félög í sambandið, öll utan Reykjavíkur: í Stykkishólmi, á Ísafirði, Sauðárkróki og Eskifirði. Fyrstu fjögur árin fjölgaði félögum hægt og bítandi. Voru þeir orðnir um 2600 árið 1920 og voru sambandsfélög þá 14 talsins. Á næstu árum bættust við allfjölmenn félög í helstu kaupstöðum úti um land. Árið 1924 voru 4800 félagar í ASÍ í 27 félögum og hafði þeim fjölgað um tæplega eitt þúsund frá því tveimur árum fyrr. Á þingi ASÍ það ár bættust átta félög í sambandið. Þau voru Verkamannafélag Húsavíkur, Sjómannafélag Ísfirðinga, Verkamannafélag Siglufjarðar, Verkamannafélagið Drífandi í Vestmannaeyjum, Verkalýðsfélag Hellissands, Verkalýðsfélag Akraness, Verkamannafélag Bolungarvíkur og Jafnaðarmannafélag Akureyrar.

Alþýðusambandið var því greinilega farið að víkka út net sitt og farið að ná til allra landsfjórðunga árið 1924.5 Langfjölmennasta félagið þá var Sjómannafélag Reykjavíkur, ríflega 1000 manns eða fjórðungur félaga í ASÍ. Næststærst var Dagsbrún með 670 félaga en Verkakvennafélagið Framsókn var með rúmlega 400 félaga. Félagsbundnir sjómenn, verkakonur og verkamenn í Reykjavík voru því ríflega helmingur félaga í Alþýðusambandinu árið 1924. Jafnaðarmannafélög voru hins vegar fá, aðeins fjögur, en félagar í þeim voru samtals vel á sjöunda hundrað.6

ÞÍ. Sjötta þing ASÍ 1924. Sögus. verkal. A01 10/3. Yfirstjórn
ASÍ.
Alþýðublaðið 11. nóvember 1924, 3.

Tveimur árum síðar, 1926, voru 29 félög í ASÍ.

Þar af voru verkamanna- og sjómannafélög 19 (sum reyndar nefnd verkalýðsfélög og gætu þau félög einnig hafa verið opin konum), verkakvennafélög voru fjögur, iðnaðarmannafélög tvö og jafnaðarmannafélög voru fjögur.7 Sum félög voru reyndar nefnd jafnaðarmanna- og verkalýðsfélög, t.d. félagið í Ólafsvík.

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 7. sambandsþing 1926, 34.

Athyglisvert er að bera saman samsetningu hreyfingarinnar hér á landi og í nágrannalöndunum. Árið 1920 var um fimmtungur meðlima norska Alþýðusambandsins starfandi í frumvinnslugreinum, svo sem við fiskveiðar og fiskvinnslu, flutninga og þess háttar, en um fjórir fimmtu hlutar voru starfandi við iðnað, handverk og námuvinnslu.8 Á Íslandi var þessu öfugt farið. Langflestir félagsmanna ASÍ störfuðu við frumvinnslugreinar.

Maurseth, Per 1987, 50−51.

Árið 1930 voru félagar ASÍ orðnir um 6000 í 36 félögum, þar af sex jafnaðarmannafélögum. Frá 1924 hafði félögum því aðeins fjölgað um 1200 sem vart getur talist viðunandi árangur þegar litið er til þess að fólki fjölgaði hratt í þéttbýli á þessum árum og góðæri var í atvinnulífi undir lok þriðja áratugarins. Einnig er til þess að líta að hreyfingin hafði um þetta leyti haft nærri hálfan annan áratug til þess að koma undir sig fótunum. Sé rýnt nánar í þessar tölur kemur í ljós að um 170 manns hafa verið í hverju félagi að meðaltali. Langflest félögin voru þó miklu fámennari en fimm til sex félög með mun fleiri félagsmenn, sem fyrr greinir.

Þetta skipulag verkalýðshreyfingarinnar gat haft vissa kosti í för með sér. Nánd forystumanna við félagsmenn var tíðum mikil og auðgert að taka tillit til staðhátta og aðstæðna. En gallarnir voru líka margir. Nefnt var að í smáfélögum væri oft erfitt að fá hæft fólk til forystustarfa og að halda uppi félagsstarfi sökum fámennis og engin leið að halda opinni skrifstofu. Því gat verið erfitt að ná sambandi við forystufólk viðkomandi félags þegar á reyndi og hætt var við að nokkuð skorti á upplýsingasöfnun og leiðbeiningar hjá viðkomandi félögum. Þá væru þessi félög oft svo veik að þau gætu ekki af sjálfsdáðum stýrt kjarabaráttu heldur yrðu þau iðulega að fá Alþýðusambandið til þess að leysa málin fyrir sig.

Jafnaðarmannafélag var stofnað á Akureyri þegar árið 1915, en jafnaðarmannafélög í Alþýðusambandinu urðu aldrei mörg. Skýringin er vafalaust sú að víða, a.m.k. þar sem starfsemi jafnaðarmanna var öflug, gegndu stéttarfélögin einnig því hlutverki að vera pólitísk félög, eins og félagið í Ólafsvík. Því var síðar lýst svo að á fyrstu árum Alþýðusambandsins hefðu verkalýðsfélögin vart verið „skipuð öðrum, en nokkrum áhugasömum brautryðjendum verkalýðshreyfingarinnar og jafnaðarstefnunnar hér á landi. Þau voru því til að byrja með miklu nær því að vera hrein og bein flokksfélög jafnaðarmanna, heldur en stéttarfélög verkamanna“.9 Það var einkum á stærri þéttbýlisstöðum sem þörf var fyrir sérstök pólitísk félög. Þar gátu þá gerst félagar þeir sem starfa sinna vegna áttu ekki heima í verkalýðsfélagi, auk þess sem slík félög voru kjörinn vettvangur fyrir fræðilega umræðu og umræðu um baráttuaðferðir sem síður áttu heima innan verkalýðsfélaganna. Fyrsta jafnaðarmannafélagið í Reykjavík var stofnað árið 1917 og var félagið tekið inn í Alþýðuflokkinn skömmu eftir stofnun þess.

Alþýðublaðið 12. nóvember 1940, 3.

Árið 1920 var hlutfall verkafólks sem var í ASÍ talið vera um fjórðungur af heildarfjölda verkafólks en ríflega þriðjungur um 1930. Þetta hlutfall var þó mun hærra í öllum stærri bæjum. Þetta hlutfall hefur líka verið mjög mismunandi eftir starfsgreinum. Til dæmis munu flestir starfandi járnsmiðasveinar hafa gengið í Félag járniðnaðarmanna þegar það var stofnað árið 1920, en skýringin á því var sú að flestir þeirra unnu á nokkrum stórum verkstæðum.10 Hér verður einnig að hafa í huga að ekki var allt félagsbundið fólk í almennum verkalýðsfélögum innan ASÍ. Sum félög völdu að standa utan samtakanna. Um 1930 var talið að um 1000 manns væru í verkalýðsfélögum utan ASÍ en þau félög sem stóðu utan ASÍ voru flest fámenn.11 Af þessum tölum má draga einhverjar ályktanir um stéttarvitund íslensks verka fólks á fyrsta þriðjungi 20. aldar. Slíka vitund má skilgreina sem vitundina um það að tilheyra tilteknum hópi á grundvelli starfa fólks og þeirra hagsmuna sem því tengjast. Einfaldur mælikvarði á slíka vitund er aðild fólks að stéttarfélögum, mælikvarði sem er þó alls ekki einhlítur en segir sína sögu á tímum þegar aðild að stéttarfélagi var langt frá því að vera sjálfsögð.

Alþýðublaðið 22. febrúar 1940, 3.
Magnús S. Magnússon 1985, 204.

Jafnaðarmannafélagið á Akureyri gefur ASÍ skýrslu um starfsemina um miðjan þriðja áratuginn og greinir frá stjórnmála- og fræðslustarfi.

Eftir 1930 fjölgaði félögum í Alþýðusambandinu ört, enda fór Alþýðusambandið þá að reka öflugt útbreiðslustarf, m.a. vegna samkeppninnar við kommúnista, og verkalýðsfélögin í Reykjavík voru búin að brjóta múrinn. Öflugustu félögin, Dagsbrún og Sjómannafélagið, voru nánast orðin eins og ríki í ríkinu. Eftir þetta fór Alþýðusambandið smám saman einnig að styrkja stöðu sína úti um land, t.d. á Norðurlandi, enda sagði einn helsti forystumaður jafnaðarmanna þar, Erlingur Friðjónsson, á 20 ára afmæli sambandsins að áhrifa ASÍ hefði lítið orðið vart fyrir norðan fyrr en eftir 1930.12 Fjöldi félagsmanna í þeim stéttarfélögum sem aðild áttu að ASÍ var kominn yfir 9000 árið 1932 og nokkuð á þrettánda þúsund árið 1936.13 Þeim fjölgaði því um helming á sex árum sem hlýtur að teljast góður árangur. Að hluta skýrist þessi mikla fjölgun af því að um þetta leyti voru mörg verkalýðsfélaganna að fá viðurkenndan forgangsrétt til vinnu fyrir félagsmenn sína, eins og annars staðar verður nefnt í þessu riti. Það leiddi til þess að fólk sem hingað til hafði ekki þorað eða viljað ganga í verkalýðsfélögin gerði það nú til þess að eiga betri möguleika á að fá vinnu, ef það var atvinnulaust, og til að koma í veg fyrir að það missti vinnuna því að félagsmenn verkalýðsfélaganna neituðu víða að vinna með ófélagsbundnu fólki.14 Um þetta leyti gekk líka fyrsta smábændafélagið í ASÍ og var það talið vísir þess að sá þjóðfélagshópur færi að skipuleggja sig sérstaklega, enda talið að þeir ættu fyllilega samleið með verkafólki.15 Loks má geta þess að sum félög gengu ekki í ASÍ vegna þröngs fjárhags, t.d. Verkalýðsfélagið á Þórshöfn árið 1935, en forsvarsmaður þess kvað félagið vera svo ungt og fátækt að það treysti sér ekki til að ganga í sambandið, auk þess sem samningar hefðu gengið átakalaust fyrir sig hingað til. En ef það breyttist mundi félagið strax ganga í sambandið.16

Alþýðublaðið 12. mars 1936, 3.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 13. sambandsþing 1936, 17.
Sjá m.a. Ólafur Þ. Kristjánsson 2007, 38.
Alþýðublaðið 11. nóvember 1936, 1.
ÞÍ. Verkalýðsfélagið á Þórshöfn til Jóns Sigurðssonar 12. maí
1935. Sögus. verkal. B03: Jón Sigurðsson A4/8. Ýmislegt.

Frá Vestmannaeyjum á millistríðsárunum en þar var Verkamannafélagið Drífandi stofnað árið 1924. Vel gekk að afla félaga, þeir voru 240 það ár. Ys og þys er á bryggjunni og alls konar farartæki eru notuð, handvagnar, hestvagnar og bílar. Vestmannaeyjar voru ein mikilvægasta verstöð landsins.

Á síldarvertíð á Svalbarðseyri við Eyjafjörð um 1916. Verkafólkið hefur flest eða allt verið aðkomufólk sem flutti sig milli staða eftir því hvar vinnu var að fá. Togarinn Jón forseti er fyrir miðju.

Járnsteypumenn að störfum árið 1924, verið er að hella í mótin. Félag járniðnaðarmanna hefur verið stéttarfélag þeirra sem voru faglærðir í þessum hópi en hinir hafa átt heima í Dagsbrún.

Eftir miðjan fjórða áratuginn fjölgaði lítið í ASÍ fyrr en eftir 1940 en það ár voru gerðar skipulagsbreytingar á sambandinu. Í kjölfar þess fjölgaði félögunum hratt, úr 13.700 árið 1940 í 17.700 árið 1942, en þá voru flest þau félög sem höfðu staðið utan ASÍ af pólitískum ástæðum gengin í sambandið. Árið 1946 voru 22.000 félagar í ASÍ. Á ofanverðum fimmta áratugnum var allur þorri almenns verkafólks og iðnaðarmanna orðinn félagsbundinn og hefur verið svo síðan; að mati Magnúsar S. Magnússonar var tæpur fjórðungur verkafólks í stéttarfélögum innan ASÍ árið 1920, rúmur þriðjungur árið 1930 og ríflega fjórir fimmtu árið 1940.17 Árið 1939 voru rétt tæp 70% verkafólks í Noregi í norska Alþýðusambandinu en ívið hærra hlutfall í Svíþjóð.18

Vinnan IV (1946), 241. − Magnús S. Magnússon 1985, 205.
Bjørnhaug, Inger; Halvorsen, Terje 2009, 19.

Árið 1940 voru í Alþýðusambandinu 98 stéttarfélög, félög verkamanna, sjómanna, verkakvennafélög og félög iðnmenntaðs fólks. Þar af voru félög sjómanna og verkamanna og verkakvenna og bílstjóra 79. Af þeirri tölu töldust vera sex verkakvennafélög. Svokölluð „verkalýðsfélög“ voru yfirleitt blönduð, þ.e. fyrir fólk af báðum kynjum, þó ekki alltaf. Slík félög voru 35 talsins. Taka ber fram að um þetta leyti var eitt verslunarmannafélag með aðild að ASÍ og er það hér talið með verkalýðsfélögum. Um þetta leyti voru líka 20 félög iðnaðarmanna og -kvenna með aðild að ASÍ. Eru þar á meðal talin félög vélstjóra og hljóðfæraleikara, og eitt félag kennara, Kennarafélag Hafnarfjarðar. „Hrein“ karlafélög töldust vera 43. Langstærsta félagið var Sjómannafélag Reykjavíkur með 1435 félagsmenn. Um tugur félagsmanna var í fámennustu félögunum, í Félagi blikksmiða (11), og í Bakarasveinafélagi Hafnarfjarðar (10). Rúm 70% félagsmanna voru karlar, tæp 8% voru faglærðir (stýrimenn eru taldir í þeim hópi og lyffræðingar).19

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 16. sambandsþing 1940,
38−42.

Samkvæmt athugunum Magnúsar S. Magnússonar voru sjómenn hátt í helmingur félaga í Alþýðusambandinu árið 1924, rúmur þriðjungur árið 1932 og tæpur fimmtungur árið 1938. Hlutfall þeirra lækkaði því hratt. Hlutfall annarra hópa hækkaði að sama skapi. Ófaglærðir verkamenn voru 29% árið 1924 en 35% árið 1938. Ófaglærðar verkakonur voru 17% árið 1924 en 28% árið 1938. Fólki með iðnmenntun fjölgaði þó mest eða úr 7% árið 1924 í 8% árið 1932 og 18% árið 1938, og er þá miðað við bæði kyn.20 Karlar hafa þó verið miklu fleiri en konur í hópi faglærðra. Ástæðan fyrir fjölgun hinna faglærðu er tvíþætt: Iðnlærðu verkafólki fjölgaði mikið á fjórða áratugnum en verkalýðshreyfingin lagði líka áherslu á að ná til þessa fólks. Ófaglært verkafólk og sjómenn voru þó áfram sá grunnur sem verkalýðshreyfingin og Alþýðusambandið byggðu einkum á og átti eftir að vera svo lengi enn.

Magnús S. Magnússon 1985, 206.

Hér að framan hefur þess verið getið að sum félög launþega völdu að standa utan ASÍ. En auk þess stóðu ýmsir hópar launþega utan Alþýðusambandsins vegna þess við hvaða störf þeir unnu og vegna þeirra starfskjara sem þeir nutu. Þetta átti t.d. við starfsmenn hins opinbera, svo sem kennara, starfsfólk Landsímans og annað starfsfólk bæja og ríkis. Sumt af þessu fólki átti augljóslega ekki samleið með almennu verkafólki þó að það væri launþegar, t.d. fólk sem gegndi yfirmannsstöðum hjá ríki eða bæ, m.a. póst- og símstöðvastjórar.

Aðrir launþegar í þessum hópi, t.d. talsímakonur, áttu á hinn bóginn samleið með hinni almennu verkalýðshreyfingu. En þetta fólk hafði þá sérstöðu að það var fastráðið og þurfti því ekki að hafa áhyggjur af atvinnuöryggi. Þá voru verkföll opinberra starfsmanna bönnuð með lögum frá Alþingi árið 1915 vegna verkfallshótunar símamanna sem þá höfðu nýstofnað félag.21 Engu að síður stofnuðu nokkrir hópar opinberra starfsmanna stéttarfélög á öðrum, þriðja og fjórða áratugnum til þess að gæta hagsmuna sinna. Má þar geta um Félag íslenskra símamanna sem var stofnað 1915. Árið 1919 stofnaði það ásamt félögum póstmanna, Prestafélaginu, félagi löglærðra embættismanna og fleiri félögum Samband starfsmanna ríkisins sem starfaði um skeið. Af þessari upptalningu má sjá að embættismenn og millistéttarfólk voru mest ráðandi innan hreyfingar opinberra starfsmanna á þriðja áratugnum og hefur að vonum ekki verið talið að þeir hópar og aðildarfélög Alþýðusambandsins ættu samleið. Þegar frá leið urðu opinberir starfsmenn fjölbreyttari hópur. Á fjórða áratugnum voru t.d. lögregluþjónar, starfsmenn hafnarinnar, gasstöðvarinnar, Rafmagnsveitunnar og bæjarskrifstofunnar í Starfsmannafélagi Reykjavíkur sem stofnað hafði verið 1926. Margt af þessu fólki átti vitaskuld fulla samleið með félögum Alþýðusambandsins. Sá mikli munur var þó á kjörum þeirra og annars alþýðufólks, sem fyrr getur, að það hafði fasta stöðu og þegar fátt var mikilvægara en atvinnuöryggi skipti það sköpum.22

Dagsbrún 11. september 1915, 39. − Stjt. 1915, 129.
Lýður Björnsson 1997, 19 og áfram.

Opinberir starfsmenn og félög þeirra stofnuðu svo heildarsamtök sín, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, árið 1941 og áttu 14 félög aðild að stofnun þess.23 Þess má geta að svipuð skipting var ráðandi í nágrannalöndum Íslands, t.d. í Svíþjóð þar sem opinberir starfsmenn stofnuðu sitt bandalag árið 1937. Í Noregi var myndin þó flóknari og sumir opinberir starfsmenn voru innan norska Alþýðusambandsins. Meiningarmunur mun hafa verið á milli sambandanna tveggja um það hversu æskilegt væri að fá fólk úr þjónustugreinum inn í samböndin og voru girðingarnar hærri í Svíþjóð en Noregi.24

Lýður Björnsson 1997, 55−56.
Bjørnhaug, Inger; Halvorsen, Terje 2009, 35.

Forystumenn ASÍ vildu skýra hinn hæga vöxt hreyfingarinnar á ofanverðum þriðja áratugnum með „klofningsstarfsemi kommúnista“. Þegar árið 1921 hefði tekið að bera á slíkum klofningi. Hefðu málin loks verið tekin ákveðnum tökum árið 1930 með samþykkt 14. gr. laga ASÍ sem útilokaði kommúnista frá ítökum innan sambandsins. Samkvæmt forystumönnum sambandsins létu áhrifin ekki á sér standa, félögunum snarfjölgaði!25 Þessari skýringu verður að taka með varúð. Dræmar undirtektir á þriðja áratugnum eiga sér frekar skýringar í því að á þeim tíma var verkalýðshreyfingin að koma undir sig fótunum og margt launafólk efaðist enn um tilvistarrétt hennar eða óttaðist afleiðingar þess að ganga til liðs við hreyfinguna. Eftir 1930 jókst styrkur hreyfingarinnar mjög, hún náði meiri árangri í baráttunni og starfsemi sambandsins efldist. Erfitt er að meta hvaða áhrif tilvist og barátta kommúnista hafði á vöxt verkalýðshreyfingarinnar, ekki síst fyrstu árin eftir stofnun Kommúnistaflokksins. Ætla má þó að deilur kommúnista og jafnaðarmanna hafi bæði haft letjandi og hvetjandi áhrif. Deilurnar drógu úr tiltrú margra á hreyfingunni en samkeppni flokkanna um hylli verkafólks hefur líka haft sitt að segja. Báðir aðilar lögðu kapp á að styrkja tengsl sín við verkafólk og hreyfinguna, veita einstökum félögum liðsinni í baráttunni og hafa forgöngu um að skipuleggja þáttöku verkafólks í stéttarfélögum, þar sem það hafði ekki áður verið gert. Og raunar líka eftir að það hafði verið gert! Deilurnar efldu því einnig hreyfinguna.

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 13. sambandsþing 1936, 17.

Göngufólk á 1. maí 1924 eða 1925 staldrar við á Grettisgötu. Ef til vill hefur einhver flutt ávarp þar. Mest ber á félagsfána járniðnaðarmanna, rækilega merktum hamri og sigð, enda hafði félagið róttæka forystu. En einnig má sjá þar nokkur kröfuspjöld, t.d. þar sem þess er krafist að áfengi verði gert útlægt úr landinu. Félag járniðnaðarmanna gekk seint í ASÍ, ekki fyrr en um miðjan fjórða áratuginn og þá í tengslum við harða deilu sem félagið átti í.kaup þar verkamanninum eins og hér í Reykjavík? Jú, áreiðanlega. En hvað er það þá? Að eins þetta: Þeir nota sér félagsleysið á Þingeyri og Hannes á Bíldudal. […] Það er að eins eitt, sem verkamenn á Þingeyri og Bíldudal þurfa að gera. Þeir þurfa að mynda verkamannafélög og vera þar samtaka og félagshlýðnir. Þá geta þeir sagt kaupmönnunum: Við vinnum fyrir þetta og ekki annað. […] En kaupmaðurinn verður að ganga að því, þegar vöruskip koma, sem verða að vera búin á vissum tíma. Þeir hafa ekki aðra en ykkur, verkamenn! […] Takið ykkur saman í vetur og byrjið með því að hækka kaup ykkar, – að gera kröfur um það, þegar vöruskip kemur, sem hefir miklar vörur að flytja á staðinn.26

Alþýðublaðið 13. nóvember 1924, 3.

Útbreiðslustörf og erindrekstur

Hér í Reykjavík er verkamanninum goldið kr. 1,40 á tímann og kr. 2,00 fyrir alla eftirvinnu, á Bíldudal og Þingeyri aðeins 90 au. og 1 kr. í eftirvinnu. Skyldu Proppé-bræður ekki standast við að borga sama

Verkamenn í byggingarvinnu í Djúpuvík á Ströndum árið 1934. Ekki var komið verkalýðsfélag á þessum slóðum árið 1934 en tveimur árum síðar var búið að stofna félag í Árneshreppi sem Djúpavík hefur heyrt undir. Þessir menn gætu þó vel hafa verið félagsbundnir í öðrum félögum, enda flestir trúlega aðkomumenn.

Miðað við þann fjölda verkafólks sem enn var utan stéttarfélaga á þriðja og fjórða áratugnum mátti ljóst vera að Alþýðusambandsins biðu stór verkefni. Svo sem fyrr hefur verið greint frá voru almennir verkamenn og sjómenn á helstu þéttbýlisstöðum landsins duglegastir við að koma á fót verkalýðsfélögum. Almennar verkakonur á sömu stöðum voru einnig fljótar til, í Reykjavík, Hafnarfirði og á Akureyri. En utan þessara staða var fjöldi fólks enn óskipulagsbundinn, í þorpum og minni kaupstöðum víða um land.

Á þriðja og fjórða áratugnum lagði Alþýðusambandið kapp á að skipuleggja almennt verkafólk og sjómenn í þorpum og minni bæjum og vinna síðan að því að fá þessi félög til þess að ganga í Alþýðusambandið. Þetta var mikilvægt af margvíslegum ástæðum. Það styrkti sambandið þegar fleiri félög gengu til liðs við það. Tiltrú á það jókst þegar félögum fjölgaði. Á hinn bóginn efldi samstaðan innan ASÍ líka hin smærri félög sem þurftu að hafa sterkan bakhjarl. Þegar frá leið og verkalýðshreyfingin efldist gat líka varðað miklu fyrir einstaka staði að þar væri starfandi félag sem væri í sambandinu. Ástæðan var sú að vinnuafl í landinu var mjög hreyfanlegt langt fram eftir 20. öld og sjómenn og verkafólk sem voru á faraldsfæti vildu síður lenda í þeirri stöðu að vera neitað um vinnu vegna þess að félag þeirra var ekki í Alþýðusambandinu.27 Áfram var því haldið að stofna og endurvekja stéttarfélög í þorpum og bæjum á fjórða áratugnum. Til dæmis var Verkalýðsfélagið Víkingur stofnað í Vík í Mýrdal árið 1933 og fyllti félagið þar með „einn af hinum fáu „auðu blettum“ í landinu þar sem verklýðssamtök hefir vantað“.28 Svo entust sum þeirra félaga sem þegar höfðu verið stofnuð ekki lengi og varð að gera fleiri en eina atrennu áður en tókst að koma starfinu á fastan grunn.31 Einnig var sótt inn á nýjar lendur. Þannig vann erindreki ASÍ að því árið 1934 að stofna félag verkafólks við Markarfljót á Suðurlandi.

Sjá m.a. Þór Indriðason 1996 I, 362−363.
Alþýðublaðið 4. febrúar 1933, 3.
Lýður Björnsson 1992 I, 69−70.

Sendill á reiðhjóli um 1940, hjólið er merkt Klæðaverksmiðjunni Magna. Sendlar í Reykjavík höfðu eigið stéttarfélag um árabil.

Hvert nýtt aðildarfélag skipti líka máli í baráttunni við kommúnista á fjórða áratugnum. Í því stríði gilti að verða fyrri til að hafa forgöngu um félagsstofnun og fá kjörna „rétta“ forystu. En auk þessa lagði Alþýðusambandið mikla orku í að stofna ný félög á fjórða áratugnum þar sem önnur voru fyrir og var þá ástæðan sú að kommúnistar höfðu undirtökin í þeim félögum sem þegar voru starfandi. Því beitti sambandið sér fyrir því að stofna fjölda félaga víðs vegar um land af þessum ástæðum nánast allan fjórða áratuginn, eins og síðar verður rakið.

En á fjórða áratugnum mátti einnig greina aðrar áherslur: stofnun félaga meðal launafólks sem bjó á helstu þéttbýlisstöðunum en taldist ekki beinlínis til erfiðisvinnufólks í þrengsta skilningi þess orðs, heldur vann við verslun og þjónustu eða í iðjufyrirtækjum, oft konur. Fólki hafði fjölgað mjög í iðnaði á fjórða áratugnum í kjölfar þess að stjórn hinna vinnandi stétta greip til margs konar ráðstafana til eflingar iðnaði. Samfélagið breyttist því hratt á þessum árum og ýmis verkefni sem áður höfðu verið á verksviði heimilanna, t.d. hjúkrun og umönnun, fluttust í vaxandi mæli inn á stofnanir.30

Sjá m.a. Þorvaldur Kristinsson 1994, 94−95.

Lítum fyrst til verslunarmanna. Verslunarfólk var margt í Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur en félagið var ekki verkalýðsfélag þar sem atvinnurekendur áttu einnig aðild að því. Frá árinu 1913 var einnig starfandi Verzlunarmannafélagið Merkúr, enda var lítill áhugi innan Verzlunarmannafélags Reykjavíkur á kjaramálum.31 Bæði karlar og konur voru innan þess félags. Á þriðja áratugnum var stofnuð kvennadeild og félagið sinnti m.a. hagsmunum afgreiðslukvenna í brauð- og mjólkurbúðum.32 Sendisveinadeild var svo stofnuð árið 1931. Um mitt það ár töldust félagsmenn sendisveinadeildarinnar um 200 og voru þeir flestir á aldrinum 10–16 ára.33 Félagsfólk þessara tveggja deilda var sennilega uppistaðan í félaginu, hvort tveggja hópar sem bjuggu við bág kjör.34

Lýður Björnsson 1992 I, 69−70.
Sigríður Th. Erlendsdóttir 1997, 282.
Alþýðublaðið 17. júlí 1931, 3.
Nánar um Merkúr, sjá Lýður Björnsson 1992 I , 71−79.

Helsti forsvarsmaður Merkúrs um þetta leyti, kosinn formaður árið 1930, var Gísli Sigurbjörnsson sem varð síðar einn af helstu leiðtogum þjóðernissinna í Reykjavík. Árið 1932 bauð félagið hingað til lands fulltrúa frá Deutsch-Nationalen Handlungsgehilfen, A. Wichmann að nafni. Félagið mun hafa haft innan sinna vébanda marga verslunarmenn en markmið þess var ekki síst að „berjast gegn sósíalisma og fyrir velgengni og framförum þjóðarheildarinnar“. Jafnframt lagði félagið áherslu á að vinna að því að „ala upp hjá æskulýðnum ást og virðingu fyrir föðurlandi sínu, og sjá um að innan fjelagsins nái ekki sósíalismi eða kommúnismi að festa rætur“.

Verkakonur við sápugerð kringum 1920; sá sem stendur til hægri gæti verið verkstjóri eða eigandi. Iðnaður af margvíslegu tagi efldist mjög á fjórða áratugnum og þá fjölgaði iðnverkafólki verulega.

Starfsfólk í skóverksmiðju S.J. Kvaran á Akureyri um 1940. Á fjórða áratugnum var lögð áhersla á að efla innlenda framleiðslu og eftir að stríðið skall á lokaðist fyrir innflutning á mörgum vörum. Því gat starfsemi margra iðnfyrirtækja gengið vel svo fremi að þau fengju hráefni.

Á Trésmíðaverkstæði Jóns Halldórssonar í Reykjavík sem síðar var nefnt Gamla kompaníið. Fjöldi trésmiða við störf. Prúðbúinn maður stendur lengst til vinstri, líklega fulltrúi fyrirtækisins. Með stækkandi bæjarfélagi varð þörf fyrir sífellt fleira iðnmenntað fólk.

Morgunblaðið greindi frá því að það væru áform Verzlunarmannafélagsins Merkúrs „að sníða starfsemi sína eftir þessu þýska félagi“.35 Svo fór að sendisveinadeildin klofnaði og var myndað Sendisveinafélag Reykjavíkur árið 1934 sem fékk inngöngu í Alþýðusambandið.36 Árið 1932 samþykkti kvennadeildin vantraust á Gísla Sigurbjörnsson, formann félagsins.37 Afgreiðslustúlkur í brauð- og mjólkurbúðum mynduðu svo sitt eigið félag árið 1933 og hefur þá grunnurinn verið brostinn undan starfsemi félagsins. Gísli gekk til liðs við Verzlunarmannfélag Reykjavíkur í árslok 1934 en Merkúr var formlega lagt niður það ár.38

Morgunblaðið 17. apríl, 3, og 19. apríl, 2, 1932.
Alþýðublaðið 28. febrúar 1934, 3.
Lýður Björnsson 1992 I, 79.
Lýður Björnsson 1992 I, 79.

Um miðjan fjórða áratuginn gerði Alþýðusambandið tilraun til að ná til verslunarfólks en þá (1935) var Verzlunarmannafélagið stofnað í Reykjavík.39 Á 13. þingi ASÍ árið 1936 var samþykkt tillaga þess efnis að nauðsynlegt væri „að hafist verði handa um land allt til að félagsbinda alla verzlunarmenn á þann hátt að stofnuð verði verzlunarmannafélög í öllum kaupstöðum og kauptúnum landsins, þar sem því verður við komið“.40 Fyrsta skrefið var Verzlunarmannafélagið í Reykjavík sem fyrr greinir. Var félaginu ætlað að vera valkostur við Verzlunarmannafélag Reykjavíkur, enda gæti það ekki gengið að verslunarfólk væri nauðbeygt til að fara í einu og öllu eftir duttlungum húsbænda sinna hvað varðar launakjör og vinnuaðstæður.41 Félagsmenn hins nýja félags munu einkum hafa verið fólk sem vann hjá fyrirtækjum í samvinnurekstri. Félagið fékk aðild að Alþýðusambandi Íslands og fulltrúar þess sátu þing sambandsins 1936.42

ÞÍ. Verslunarmannafélagið til ASÍ, nóvember 1936. Sögus.
verkal. A01: 31/29. Sambönd og félög í Reykjavík.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 13. sambandsþing 1936, 125.
Alþýðublaðið 1. maí 1936, 5. − Lýður Björnsson 1992 I, 81.
Lýður Björnsson 1992 I, 84. − Þingtíðindi Alþýðusambands

Verzlunarmannafélag Reykjavíkur brást við með því að heimila að stofnaðar væru sérstakar deildir fyrir starfsfólk í verslunum og á skrifstofum.43 Þeim var ætlað að sjá um launamál fyrir félagsfólk en þær munu lítið hafa starfað, enda kannski ekki mikill skilningur á mikilvægi þeirra. Til dæmis lýsti Gísli Sigurbjörnsson því yfir á félagsfundi árið 1938 að enga nauðsyn bæri til að stofna kvennadeild, nær væri „að gefa stúlkum í félaginu saumavélar og efni í flíkur, sem þær gætu saumað í frístundum sínum, enda væru þær þá á réttri hillu“.44 Ýmsar launþegadeildir tóku þó til starfa síðar og sérstök launþegadeild tók til starfa innan VR árið 1952 en starfaði lítið.45 Verslunarmannafélagið sem Alþýðusambandið gekkst fyrir að stofna vann ekki hylli verslunarfólks og hætti starfsemi eftir tvö til þrjú ár, enda gerðu margir verslunareigendur þá kröfu til starfsfólks síns að það starfaði ekki í „rauða“ félaginu, ella gæti það átt á hættu brottrekstur.46 Það varð því bið á að verslunarfólk í Reykjavík og Alþýðusambandið ættu samleið.

Morgunblaðið 14. febrúar 1936, 4.
Lýður Björnsson 1992 I, 125−128.
Lýður Björnsson 1992 I, 130−134.
Lýður Björnsson 1992 I, 84. − Alþýðublaðið 7. ágúst 1937, 2.

Gísli Sigurbjörnsson, formaður Merkúrs.

Björn Bjarnason, formaður Iðju.

Merki Alþýðuflokksins árið 1932: „Merkið er rautt Ísland í silfurlitum sæ, og silfurlitað A, sem myndað er af ljá, reku og öngli. Táknar ljárinn sveitaalþýðuna, rekan verkamannastéttina og hennar skyldulið, en öngullinn sjómennina og þeirra venslalið í landi, konur, mæður, unnustur og systur, sem með óþreyju bíða þeirra sem á sjóinn fara.“ (Alþýðublaðið 20. október 1932, 3). Merkið segir mikið til um það fyrir hverja Alþýðuflokkurinn og Alþýðusambandið börðust einkum, þ.e. verkamenn, sjómenn og bændur. Ekkert er minnst á þær stéttir sem vinna við þjónustustörf eða verslun og einungis er getið um konur sem eru á framfæri karla og bíða þeirra í landi..

Sem fyrr getur efldist iðnaður mjög á fjórða áratugnum. Meðal þeirra ráðstafana sem gripið var til í því skyni að auka iðnað var stofnun Iðnlánasjóðs og breytingar voru gerðar á tollalögum til hagsbóta fyrir innlendan iðnað.47 Flest verkafólk í iðnfyrirtækjum, oft konur, var utan stéttarfélaga á fyrri hluta fjórða áratugarins. Á því varð breyting með stofnun Iðju, félags verksmiðjufólks í Reykjavík, árið 1934 en meirihluti félaga voru konur. ASÍ tengdist félagsstofnuninni eftir að undirbúningur hennar var hafinn en einn helsti hvatamaður hennar var Björn Bjarnason verkamaður og þekktur félagi í Kommúnistaflokknum. Eftir að ljóst varð í hvað stefndi beitti ASÍ sér í málinu og fékk þá Sigfús Sigurhjartarson og Jón Sigurðsson, erindreka sambandsins, til þess að taka þátt í undirbúningi félagsstofnunarinnar. Þeir störfuðu síðan saman að stofnun félagsins. „Þeir gáfu mér kost á að vera með“, sagði Björn Bjarnason síðar og kom skoðanaágreiningur ekki í veg fyrir slíkt samstarf.48

Agnar Kl. Jónsson 1969 II, 687−688.
Vinnan XXIX (1979) 1. tbl., 4−7.

Það sjónarmið hefur komið fram að hinar ungu og róttæku konur sem tóku þátt í stofnun Iðju hafi talið forystu Verkakvennafélagsins Framsóknar of „lina“ og hafi því ekki viljað ganga þar inn, en það félag var alla tíð öruggt vígi Alþýðuflokksins.49 Vera kann að slík sjónarmið hafi haft einhver áhrif en hitt er einnig víst að nokkuð skýrar reglur – en óskráðar – virðast hafa gilt um það hvenær væri grundvöllur fyrir því að stofna nýtt stéttarfélag og hvenær ekki og því engin sérstök ástæða til að ætla að þær konur sem gengu í Iðju hefðu átt greiðan aðgang að Framsókn. A.m.k. eru ekki heimildir um að stjórn Framsóknar hafi unnið að því að fá konur sem unnu í iðnfyrirtækjum til þess að ganga í sínar raðir. Þvottakonur voru heldur ekki taldar eiga þar heima, enda talið líklegra að „frekar mundi nást til þeirra kvenna, er eingöngu stunduðu ræstingar“ ef þær fengju sitt eigið félag.50 Það varð líka niðurstaðan og stofnuðu þær eigið stéttarfélag, Freyju. Sama gilti um Verkakvennafélagið Framtíðina í Hafnarfirði en árið 1945 var fyrst tekinn upp sérstakur taxti fyrir þvottakonur, og starfsstúlkur á vistheimilum og sjúkrahúsum gengu í félagið árið 1957.51 Karlmenn við verksmiðjustörf voru ekki taldir eiga heima í Dagsbrún. Þau félög sem fyrir voru í Reykjavík, Dagsbrún, Framsókn og Sjómannafélagið, voru fyrst og fremst ætluð verkafólki sem starfaði við sjómennsku, fiskverkun, hafnarvinnu og önnur erfið og óþrifaleg störf, svo sem jarðvinnu, gatnagerð og þess háttar. Þegar rætt var um það innan Verkakvennafélagsins Einingar á Akureyri árið 1918 hvort félagið ætti einnig að semja fyrir þær verkakonur sem væru við innistörf var því hafnað. Það breyttist þó árið eftir.52 Þessi viðhorf, þessi þrönga skilgreining, hefur orðið til þess að verkalýðsfélögin urðu mun fleiri en ella hefði orðið. Almennt má segja að íslensk verkalýðshreyfing hafi verið íhaldssöm í afstöðu sinni til þess hverjir teldust verðugir þess að tilheyra hreyfingunni og hverjir ekki, og skýrist það að hluta til að minnsta kosti af því að hún var fyrst og fremst hreyfing erfiðisvinnufólks. Þess má geta að t.d. í Noregi voru sumir verslunarmenn komnir inn fyrir dyr norska Alþýðusambandsins fyrir 1920 og hið sama gilti um allmörg félög opinberra starfsmanna í Noregi.53

Sjá Ingólfur V. Gíslason 1994, 35−47.
ÞÍ. Verkakvennafélagið Framsókn. Sögus. verkal. B09: Þor-
steinn Pétursson B/17. Skjöl varðandi einstök félög.
Ásgeir Guðmundsson 1983 III, 30.
Þórunn Magnúsdóttir 1991, 49.
Olstad, Finn 2009, 229.

Unnið við sútun hjá verksmiðjum SÍS á Akureyri kringum 1930.

Starfsstúlknafélagið Sókn í Reykjavík, sem stofnað var árið 1934, er enn eitt dæmi um félag sem varð til um miðjan fjórða áratuginn. Í því voru eingöngu ófaglærðar starfsstúlkur á sjúkrahúsum. Félagið reyndi einnig að ná til vinnukvenna í heimahúsum en án árangurs.54 Aðalheiður Hólm, fyrsti formaður Sóknar, lýsti forsendunum fyrir stofnun félagsins síðar svo: „Forsendan var slæm kjör kvenna er unnu á spítölunum. Ég gerðist starfsstúlka á Landsspítalanum árið 1932, þá 18 ára gömul. Þá var mjög mikil óánægja með kaupið og hinn langa vinnutíma. Stúlkur unnu þá 14 tíma í eldhúsinu og á göngum unnu þær 10 tíma eða lengur“.55 Tveimur árum síðar var stofnað Starfsmannafélagið Þór fyrir ófaglærða karla sem störfuðu á sjúkrahúsum.56 Sóknarkonur nutu liðsinnis Alþýðusambandsins en frumkvæðið að stofnun félagsins kom frá starfsstúlkunum sjálfum. Félagið gerði samning við spítalana árið 1935 og var þar m.a. kveðið á um vinnutíma sem skyldi ekki vera lengri en 60 stundir á viku. Einnig fengust fram kröfur um 14 daga sumarfrí og veikindadaga í sex vikur fyrir þær sem hefðu unnið lengur en í sex mánuði. Þessi síðarnefndu ákvæði voru óvenjuleg og Sókn var frumkvöðull í þessum efnum.57

Þorvaldur Kristinsson 1994, 94−95.
Vinnan XXXV (1985), 6. tbl., 16.
Ingólfur V. Gíslason 1994, 47.
Þorvaldur Kristinsson 1994, 67−68.

Helsta aðferð ASÍ við að stofna ný verkalýðsfélög var að senda erindreka sinn á staði þar sem álitið var vænlegt og brýnt að stofna ný félög. Stundum var þetta gert að frumkvæði sambandsins en stundum líka að frumkvæði heimamanna. Erindrekinn ræddi síðan við þá sem voru áhugasamastir um stofnun verkalýðsfélags á staðnum og í framhaldinu var boðað til fundar. Lítið virðist hafa verið um slíkan erindrekstur allra fyrstu árin, enda var staða sambandsins og flokksins veik framan af og hafði flokkurinn til dæmis ekki þingmann samfellt fyrr en frá árinu 1921, eins og fyrr getur. En frá og með 1922 varð slíkur erindrekstur algengur. Þá fór t.d. Kjartan Ólafsson múrari í erindum ASÍ austur fyrir fjall að beiðni Bárunnar á Eyrarbakka og Bjarma á Stokkseyri og ræddi um kosti þess að ganga í ASÍ.58 Ólafur Friðriksson fór austur á land sama ár og átti þá m.a. þátt í stofnun Verkalýðsfélags Norðfjarðar. Þá lagði Jón Thoroddsen leið sína vestur á land á vegum sambandsins árið 1924.59

Alþýðublaðið 13. febrúar 1922, 1.
Smári Geirsson 1993, 26. − Morgunblaðið 27. nóvember
1924, 3.

Jón Sigurðsson erindreki og síðar framkvæmdastjóri ASÍ með hestinn Skokka, sem nefndur var Sálnaveiða-Skokki. Sem erindreki ferðaðist Jón afar víða, gangandi, ríðandi, akandi og til sjós.

Erindreksturinn tengdist oft alþingiskosningum og fór formaður flokksins, Jón Baldvinsson, einnig í ferðir af þessu tagi. Björn Blöndal Jónsson var einn dugmesti erindrekinn á þriðja áratugnum, áður en hann gerðist sérstakur löggæslumaður á vegum dómsmálaráðuneytisins til þess að upplýsa brot á áfengislöggjöfinni. Fór Björn tvívegis um Vesturland og Vestfirði um miðjan þriðja áratuginn og vann að stofnun nýrra verkalýðsfélaga. Til dæmis voru stofnuð félög á Hellissandi, Þingeyri, Flateyri og Bolungarvík í kjölfar heimsókna Björns. Um svipað leyti voru einnig erindrekar á vegum sambandsins á ferð um Norður- og Austurland.60 Ekki var þó fastráðinn erindreki til Alþýðusambandsins, sem fyrr getur, fyrr en árið 1934 þegar Jón Sigurðsson, einn af forystumönnum Sjómannafélags Reykjavíkur, var ráðinn sem erindreki.61 Jón starfaði síðan sem erindreki næstu árin og var löngum stundum á Siglufirði að sinna málefnum verkafólks. Þar var mikill fjöldi aðkomufólks á sumrin á þessum árum. Jón lýsir aðstæðum svo í bréfi frá árinu 1936: „Nú síðusta daga hef ég alveg verið ærður, það hefur verið svo mikið að gjöra, bíða stundum 5–6 manns eftir því að ná tali af mér, og um götuna get ég tæplega gengið, kemst ekkert áfram fyrir spurningum, hitt og þetta sem menn þurfa um að spyrja“.62

Sjá m.a. Alþýðublaðið 28. október 1926, 1. − Þingtíðindi
Sigurður Pétursson 2011, 346 og víðar.
Guðgeir Jónsson, 1944, 44 (Tíu ára starfsafmæli).
ÞÍ. Jón Sigurðsson til Svövu Jónsdóttur 30. ágúst 1936. Sögus.
verkal. A01 20/2. Skrifstofa. Bréfaskipti 1935−1939.

Aðalheiður Hólm, fyrsti formaður Sóknar.

Ári eftir var Jón kominn til Sauðárkróks:

Jafnaðarmannafélagið þar hélt skemtun og bauð hátt á annað hundrað manns … Íhaldið komst heldur á kreik þegar þessi helvítis sending, þessi Jón Sigurðsson kom til staðarins, og hljóp Ungm.fél. sem íhald og nasistar hafa völdin í, í kapp við okkur, vildu ekki leigja okkur húsið, en héldu fund og skemtun á eftir, sama kvöld og jafnaðarm.fél. hélt sína. Það er eiginlega ekki til nema einn harmonikuspilari á Sauðárkrók og var hann búinn að lofa að spila hjá okkur, en varð að svíkja það, vegna þess, að á sínum tíma hjálpuðu nokkrir íhaldsmenn honum til að eignast harmonikuna, hann ekki búinn að greiða þeim að fullu og hótuðu þeir að taka af honum gripinn, ef hann spilaði hjá okkur … hjá þeim spilaði lúðrasveitin og fleira var notað til að draga að fólkið. En allt kom fyrir ekki. Þrátt fyrir að við höfðum verra húsnæði og verri músík þá var húsfyllir hjá okkur, en hjá þeim var alltaf fátt … Eins var það með myndasýninguna, það er þarna þögult Bíó, mjög ófullkomin vél, og ætluðu þeir fyrst algerlega að neita að lána vélina, en leigðu hana loks með þeim kjörum að þeir fengju helminginn af því sem kæmi inn í aðgangseyri, þó ekki minna en Kr. 50.00 það var lágmarksleigan. Húsið tekur um 200 manns í sæti. Við urðum að ganga að þessu þó óljúft væri og fengum við alveg húsfylli og urðu margir frá að hverfa. Á meðan á sýningunni stóð útskýrði ég myndirnar, var alltaf að tala og sagði fólkinu hvað hver sagði í myndunum.63

ÞÍ. Jón Sigurðsson til ASÍ 31. janúar 1937. Sögus. verkal. A01
20/2. Skrifstofa. Bréfaskipti 1935−1939.

Fjórðungssamböndin gegndu einnig hlutverki við stofnun nýrra verkalýðsfélaga, ekki síst Alþýðusamband Vestfirðingafjórðungs. Til dæmis stuðlaði sambandið að stofnun tveggja félaga árið 1931 en auk þess voru gerðir út sendimenn til að stappa stálinu í önnur félög og styðja þau í baráttunni.64

Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, ýmis gögn 1924−1939.
Skýrsla um starfsemi Alþýðusambands Vestfirðingafjórðungs
frá í janúar 1931 til í febrúar 1933.

Konur og verkalýðshreyfingin

Eins og í flestum eða öllum samfélögum þar sem karlar ráða ferðinni var staða kvenna á vinnumarkaði hér á landi enn veikari en karla og vinna þeirra ekki metin til jafns við vinnu karlanna. Um miðja 19. öld fengu vinnukonur sums staðar greidd laun sem voru ríflega þriðjungur af kaupi vinnumanna. Bríet Bjarnhéðinsdóttir vakti athygli á þessum mun í erindi sem hún hélt árið 1887 en fyrirlestur hennar var jafnframt fyrsta opinbera erindi sem kona hélt í landinu. Bríet sagði m.a.:

Þá er eitt atriði, sem þarf stórra umbóta við og sem konur ættu að geta lagað dálítið, það er að jafna nokkuð muninn á kaupi karlmanna og kvenna, en til þess þarf samheldni og fjelagsskap. Það getur varla verið rjettlátt, að vinnukonan hafi ekki meira en þriðjungs kaup móti karlmanni, hvað dugleg sem hún er, og þótt hún gangi opt að sömu vinnu og hann, eins og er í sveitum á sumrin. Og þó þarf stúlkan að vinna mörg verk fram yfir karlmanninn, bæði kvöld og morgna og sunnudaga, þegar hann getur notið hvíldar.65

Bríet Bjarnhéðinsdóttir 1888, 37. − Sjá einnig Sigríður Th.
Erlendsdóttir 1993, 246−247.

Bríet er hér að hvetja til samtaka um að leiðrétta launamun á milli kynjanna. Hún var langt á undan sinni samtíð.

Um aldamótin 1900 hafði launamunur á milli karla og kvenna minnkað eitthvað og voru laun kvenna þá víða um helmingur af launum vinnumanna. Undir aldarlok voru t.d. vinnukonum á Eskifirði greiddar kr. 0,16 á klukkustund en vinnumönnum 0,20 á klukkustund í daglaunavinnu en konur í ársvinnu fengu 40–60 kr., auk fæðis og húsnæðis, á ári en karlar 80–120 kr. Á árunum fyrir heimsstyrjöldina fyrri þekktist að konur væru með um 12 aura á klst. en karlar um 25 aura. Munurinn gat þó verið minni eða meiri og fór eftir því hvar fólk starfaði á landinu og við hvað.66 Þegar á ofanverðri 19. öld var farið að gagnrýna þessa mismunun, sem fyrr greinir, og spurt hvaða sanngirni væri í því að hafa þennan hátt á.

Einar Bragi 1983, 51. − Sjá einnig Ottó N. Þorláksson 1986,
90. − Vinnan XIX (1962), 1.−3. tbl., 7. − Einnig Hagskinna
1997, 607−609.

En kvennmanns-daglaunin eru aptur á móti svo lág, að slíkt er á engu viti byggt; eða hvaða sanngirni er, að gjalda kvennmanninum ekki nema 3/5 á móti karlmanni, eða kannske tæplega það, og það þó kvenn-maðurinn beri á börum móti karlmanni frá morgni til kvölds? Og þegar þau skila börunum að kvöldi, fær karlmaðurinn 2 kr. 50 a., en kvennmaðurinn 1 kr. 50 a. Er eigi þetta ástæðulaus og gegndarlaus ójöfnuður?67

Ísafold 4. des. 1889, 386.

Með þéttbýlismyndun á ofanverðri 19. öld og í upphafi 20. aldar riðlaðist að nokkru hefðbundin verkaskipting karla og kvenna. Vissulega voru störf kvenna og karla oft aðgreind en iðulega unnu karlar og konur þó hlið við hlið. Þó að konur skiluðu sama verki og karlar voru laun þeirra mun lægri og því voru þær eftirsóttur vinnukraftur. Í vaxandi mæli var því farið að fá konur til þess að ganga í hefðbundin störf karla gegn mun lægri launum en karlar fengu fyrir sömu störf. Samhliða þessari þróun varð sú hugmynd einnig ríkjandi að konan ætti eingöngu að sinna börnum og búi sem heimavinnandi húsmóðir. Karlmaðurinn var þá fyrirvinna en konan í hans forsjá. Jafnvel væri skömm að því ef eiginkona þyrfti að vinna úti. Lengi eimdi eftir af þessum viðhorfum. En margar konur voru fyrirvinnur, ekki síður en karlar, og þær gegndu ekki minna hlutverki í iðnbyltingunni fyrir og eftir aldamótin 1900 heldur en til dæmis sjómenn, enda var hlutverk kvenna að verka aflann. Stundum voru þær einu fyrirvinnurnar. Oft unnu þær sömu störf og karlar en fengu laun eins og unglingar, enda var kaup kvenna og unglinga (drengja) lengi hið sama, jafnvel fram yfir miðja 20. öld. Börnin fylgdu raunar oft mæðrum sínum til vinnu ef þau voru talin geta hjálpað til eða ekki voru önnur ráð með umsjá þeirra.68 Stundum voru aðstæður þær að konan hafði vinnu en karlinn ekki og var þá jafnvel litið á slíkar aðstæður af forystukonum innan verkalýðshreyfingarinnar sem „hörmuleg örlög“, svo rígbundin voru viðhorfin um hlutverkaskiptingu karla og kvenna.69

Sjá m.a. Þór Indriðason 1996 III, 93. − Einnig Bjørnson,
Øvind 1990, 107−108.
Vilhjálmur S. Vilhjálmsson 1958, 30. − Margrét Guðmunds-
dóttir 1983, 69.

Við fiskþvott á Patreksfirði eftir aldamótin 1900. Stakkstæði í baksýn og fiskhlaðar. Sjá má að kalt hefur verið í veðri þegar myndin var tekin, konurnar eru kappklæddar og þær hafa þykka ullarvettlinga á höndum við þvottinn í köldu vatninu.

Hlutfall kvenna á vinnumarkaði breyttist mikið á 20. öld. Árið 1910 voru tæp 94% karla á vinnumarkaði en einungis 40% kvenna. Hafa verður þó í huga að manntölin segja ekki alla sögu. Konur töldust einfaldlega ekki til framfærenda væru þær giftar. Þetta hlutfall breyttist ekki að marki fyrr en um 1970 en þá var um helmingur kvenna á vinnumarkaði en hafði fram um 1960 oftast verið ríflega þriðjungur. Giftar konur unnu sjaldan úti, ef marka má hagtölur, innan við 5% árið 1930. En eftir það fjölgaði giftum konum mjög á vinnumarkaði og voru þær t.d. um fimmtungur vinnandi kvenna 1950 og 1960. Stóra stökkið varð þó á sjöunda áratugnum en þá fjölgaði giftum konum á vinnumarkaði hratt. Árið 1975 voru ríflega 56% giftra kvenna á vinnumarkaði (60% kvenna alls).70

Hagskinna 1997, 216.

Helstu störf kvenna við launavinnu utan Reykjavíkur fram yfir miðja 20. öld tengdust vinnu við fisk; á saltfisköld við að þvo og breiða og einnig að beita línu, en síðar komu frystihús til sögunnar. Síldin krafðist líka margra kvenhanda. Þetta voru erfið störf og lýjandi, kalsasöm að vetri og vinnan stopul, unnið þegar var fiskur og einungis greitt fyrir þann tíma sem unninn var.71 Í höfuðstaðnum og öðrum stærri bæjum var vinnan heldur fjölbreyttari þegar frá leið þó að fiskvinnsla væri þar líka undirstaðan. Þar voru einnig fáanleg störf í ýmsum iðnfyrirtækjum, svo og við þjónustu og afgreiðslustörf af margvíslegu tagi. Svo störfuðu margar konur sem vinnukonur í heimahúsum.

Sjá m.a. Þór Indriðason 1996 I, 260. − Þór Indriðason 1996
II, 183.

Þegar Verkamannafélagið Dagsbrún var stofnað kom fram í stofnskrá félagsins að einungis gætu gerst félagar karlar sem væru orðnir 18 ára.72 Um þetta voru þó skiptar skoðanir og þegar árið 1906 heyrðust þær raddir innan Dagsbrúnar að veita ætti konum aðgang, jafnvel með sérstakri kvennadeild, auk þess sem ósanngjarnt væri að konur fengju ekki sömu laun og karlar fyrir sömu störf.73 Pétur G. Guðmundsson var til dæmis talsmaður þess að konur fengju inngöngu í félagið og sömu laun og karlar. En hugmyndir af þessu tagi mættu ekki skilningi frá forystumönnum Dagsbrúnar. Ekkert varð úr stofnun kvennadeildar innan félagsins og var tillaga þess efnis felld með miklum mun. Einn þeirra félagsmanna sem kvaddi sér hljóðs taldi að það mundi

Þorleifur Friðriksson 2007, 41.
Þorleifur Friðriksson 2007, 57−61.

Bryggja Thors Jensen í Steinsvör á Akranesi árið 1895. Afla skipað í land úr báti. Verkafólk, aðallega konur, bera aflann í handbörum upp bryggjuna.

Á stakkstæði, líklega á Snæfellsnesi. Konur og unglingar breiða fiskinn. Takið eftir prúðbúnu konunni hægra megin á myndinni sem gengur um stakkstæðið, hún stígur jafnvel ofan á fiskinn svo ekki hefur hún þekkt vel til aðstæðna.

Í Þvottalaugunum á fimmta árataugnum, húsmæður eða vinnukonur við störf og börnin tekin með. Vinnukonur voru margar í þéttbýli fram undir 1940 en fækkaði hratt eftir það, enda fjölgaði atvinnutækifærum kvenna smám saman er leið á öldina.

sannast, að ef kvenfólk stofnar félag og vinnur fyrir ákveðið kaup, sem auðvitað verður ekki mjög lágt, þá veitist húsmæðrum afar erfitt að fá kvenfólk til ígripavinnu, t.d. fiskbreiðslu eða að vinda úr flík. Legg þó til, að eyrarvinna kvenfólks sé takmörkuð eða afnumin með einhverjum ráðum, t.d. með því, að karlmenn afsegi að vinna með kvenfólki í eyrarvinnu.74

Pétur G. Guðmundsson 1943, 150.

Sumir töldu jafnvel að aðild kvenna gæti haft slæm áhrif á siðgæði innan félagsins. Svipuð viðhorf voru einnig vel þekkt í nágrannalöndunum en ef til vill hefur mönnum hér á landi borist til eyrna að á hinum Norðurlöndunum var stundum gert ráð fyrir sérstökum verkalýðsfélögum fyrir konur.75

Andersen, Poul; Schmidt, Solveig 2001, 14. − Olstad, Finn
2009, 111−112.

Víða um land var ekki gert ráð fyrir þátttöku kvenna í verkamannafélögum, t.d. á Húsavík. Þetta gat þó verið mismunandi. Ári eftir stofnun Dagsbrúnar var Verkamannafélagið Hlíf stofnað, með nokkurri aðstoð Dagsbrúnarmanna. En Hafnfirðingar fóru þó aðra leið en Dagsbrúnarmenn. Konur fengu aðild að Hlíf, voru um þriðjungur félaga í upphafi, 80 af 230 félögum, og stóðu „margar konurnar framarlega í baráttunni og gáfu sumar karlmönnum ekkert eftir hvað áræði og dugnað snerti“. Konur áttu aðild að Hlíf þar til Verkakvennafélagið Framtíðin var stofnað árið 1925 og áttu nokkrar konur sæti í stjórn Hlífar sem var fátítt í „blönduðum“ félögum á þessum árum.76 Félagsaðildin skipti þær miklu máli og bötnuðu kjör þeirra verulega á fyrstu árum þeirra í Hlíf. Bríet Bjarnhéðinsdóttir, formaður Kvenréttindafélags Íslands, hrósaði forystumönnum Hlífar árið 1912 fyrir að vera skilningsríkari á hag verkakvenna en Dagsbrúnarmenn.77

Sjá m.a. Þór Indriðason 1996 I, 262−263. − Einnig Ólafur Þ.
Kristjánsson 1977, 37.
Stefán Hjartarson, handrit, 58.

Árið 1914 var fyrsta verkakvennafélagið stofnað, Verka kvennafélagið Framsókn í Reykjavík. Til samanburðar má geta þess að fyrsta verkakvennafélagið var stofnað í Danmörku árið 1885. Þrátt fyrir að danskir jafnaðarmenn væru þeirrar skoðunar að karlar og konur ættu að vera saman í félögum, enda hefði verkafólk af báðum kynjum sömu hagsmuni, voru stofnuð nokkur félög verkakvenna, þó einkum á þeim sviðum þar sem aðeins störfuðu konur. Það átti t.d. við um konur sem unnu við þvotta og hreingerningar. Að mati danskra jafnaðarmanna var því aðeins réttmætt að stofna sérstök verkakvennafélög ef eingöngu voru konur í viðkomandi starfsstétt.78 Nefna má að alþjóðahreyfing jafnaðarmanna lýsti því yfir á þingi sínu í Stuttgart árið 1907 að ekki bæri að stuðla að hreyfingum kvenna sem væru opnar öllum konum og undir þá skoðun tóku danskir jafnaðarmenn. Þeir töldu að sérstakar kvennahreyfingar ættu ekki rétt á sér, heldur ekki innan flokksins.79

Sjá m.a. Christensen, Lars K.; Kolstrup, Søren; Hansen,
Anette Eklund 2007, 69−71. − Andersen, Poul; Schmidt, Sol-
veig 2001, 13, 38.
Larsen, Jytte 2007, 377−378.

Frumkvæði að félagsstofnuninni höfðu þær Jónína Jónatansdóttir og Bríet Bjarnhéðinsdóttir en báðar voru þær í Kvenréttindafélagi Íslands og á vegum þess var kosin nefnd til þess að kanna möguleika á stofnun félagsins. Kvenréttindafélagið var stofnað árið 1907 og hafði frá öndverðu beitt sér fyrir umræðu um launamál kvenna, m.a. með umræðufundi um laun kvenna árið 1908.80 Tenging „borgaralegra“ kvenfélaga við verkalýðshreyfinguna var skýr hér á landi og líklega meiri en víða annars staðar. En Kvenréttindafélagskonur kölluðu verkakonur til fundar í júní 1913 til að ræða um mögulega félagsstofnun við góðar undirtektir. Mikil þátttaka var í umræðunum og „töluðu [konurnar] einarðlega, viturlega og stillilega“ og gerðu kröfur „svo vægar og sjálfsagðar, að þær hljóta að vekja samhug allra manna“, sagði Verkamannablaðið.81 Jónína sagði löngu síðar svo frá tildrögum að félagsstofnuninni:

Sigríður Th. Erlendsdóttir 1997, 280.
Verkamannablað 21. júní 1913, 19. − Einnig Verkakvennafélagið

Jónína Jónatansdóttir, þáverandi formaður Framsóknar, heldur ræðu á kosningafundi í porti Miðbæjarskólans í Reykjavík árið 1934. Konur áttu erfitt uppdráttar innan stjórnmálaflokkanna og verkalýðshreyfingarinnar um þetta leyti.

Við frú Bríet vorum nágrannakonur, og heimsóttum hvor aðra oft. Einu sinni kom hún til mín í eldhúsið. Ég var að baka kökur, og hún settist á eldhússtólinn, og fór að segja mér frá einhverju, sem Kvenréttindafélagið þyrfti nauðsynlega að gera, safna fé til styrktar ýmsum málefnum, styrkja eða hjálpa einhverjum stúlkum til náms, eða eitthvað slíkt. Og þá varð mér allt í einu að orði: „Þið eruð alltaf að hugsa um lærðu konurnar. Væri ekki líka nauðsynlegt að gera eitthvað fyrir verkakonurnar hérna í Reykjavík, fiskverkunarstúlkurnar og allar, sem verða að þræla daginn út og daginn inn fyrir svo að segja engu kaupi?“ Bríet þagði nokkra stund, en mælti svo: „Já, það er ágætt. Komdu þá með tillögu um það á næsta fundi. Svo skulum við hjálpast að.“82

Kvenréttindafélag Íslands 40 ára 1947, 113.

Morgunblaðið sagði frá stofnuninni og kvað rúmlega 100 konur, sem „ganga að allri vinnu, fiskverkun, uppskipun o.s.frv.“, hafa gengið í félagið. Blaðið kvað tilgang félagsins vera að hækka kaupið og stytta vinnutímann og hefði „það lengi þótt ranglátt að konur, sem leysa sama verk af hendi sem karlmenn, skuli eigi fá sama kaup og þeir“.83 Samkvæmt fundargerðabókum voru stofnfélagar þó aðeins um 40 en félagar urðu fljótlega í kringum 400. Á fjórða áratugnum fóru þeir yfir 900.84 Ein félagskvenna skýrði síðar svo frá að flestar þessara kvenna hefðu verið

Morgunblaðið 16. janúar 1914, 2. − Einnig Dagsbrún 10. júlí
1915, 2. − Carolíne Siemsen 1946, 335.
Margrét Guðmundsdóttir 1983, 28−29.

utan af landi úr smá verstöðvum og sjóþorpum og úr ýmsum sveitum, kúgaðar og kvaldar í marga ættliðu, kent frá barndómi að skríða fyrir þeim ríku, bera takmarkalausa virðingu fyrir vinnuveitandanum og þakka honum fyrir með handabandi og stundum kossi, fyrir að fá að þræla, og hneigja sig fyrir verkstjóranum, þegar hann greiddi kaupið í vikulokin … Þessar stúlkur voru dreifðar á fisverkunarstöðvum í öllum endum bæjarins og fyrir utan hann, inniluktar í vöskunarhúsum og vaktaðar af varðmönnum atvinnurekenda, sem ekki var neitt um það gefið,

Bríet Bjarnhéðinsdóttir, ritstjóri, bæjarfulltrúi og kvenréttindakona, á öðrum áratug aldarinnar.

þegar þær Jónína Jónatansdóttir, Carolíne Hendriksdóttir, Sigrún Tómasdóttir, Jóhanna Egilsdóttir og Jóhanna Blöndal komu í heimsókn á vinnustöðvarnar.85

Alþýðublaðið 16. febrúar 1935, 3.

Margrét Guðmundsdóttir sagnfræðingur bendir einmitt á að húsbóndahollusta hafi verið meðal þeirra þátta sem gerðu verkakvennahreyfingunni erfitt fyrir, en svo var einnig mun meiri „hreyfing“ á meðlimum kvennafélaganna en karlafélaganna. Ef kona giftist, sem margar gerðu, voru mestar líkur til þess að hún hætti að vinna utan heimilis, að minnsta kosti um sinn, og segði sig úr félaginu.86 Með fyrstu verkefnum félagsins var að vinna að því að fá vinnutímann styttan og að hækka kaupið, og varð félaginu þegar ágengt á fyrsta starfsári sínu. Þremur árum síðar gerði félagið sinn fyrsta kjarasamning.87 Eftir stofnun Framsóknar heimiluðu Dagsbrúnarmenn verkakonum að sækja fundi sína og var sú heimild gagnkvæm meðan húsrúm leyfði.88

Margrét Guðmundsdóttir 1983, 24−26.
Þórunn Magnúsdóttir 1991, 31−33. − Alþýðublaðið 12.
desember 1929, 2.
Þorleifur Friðriksson 2007, 65−67.

Síðar voru allmörg verkakvennafélög stofnuð víða um land. Verkakvennafélagið Eining á Akureyri var stofnað árið 1915 og hafði að minnsta kosti ein stjórnarkvenna einnig setið í stjórn verkakvennafélagsins Þarfarinnar sem stofnað var á Akureyri nokkrum árum fyrr en entist stutt.89 Erfiðlega gekk að fá verkakonur til að ganga til liðs við Einingu fyrstu árin. Fyrir því voru ýmsar ástæður. Ef fréttist að einhver væri gengin í félagið voru miklar líkur til að viðkomandi fengi minni vinnu en ella. Svo var fólk „hætt og uppnefnt“ ef það var í félaginu. Þess vegna fór fólk laumulega með skoðanir sínar, „því alltaf er einhver sem fer með allt slíkt í verkstjórann“.90

Þórunn Magnúsdóttir 1991, 10−12, 44.
ÞÞ A: 5945. kvk 1902, 11.

Á Ísafirði var stofnað verkakvennafélag tveimur árum síðar (1917); það varð þó ekki langlíft, enda rann verkfall sem félagið stóð fyrir sama ár og það var stofnað út í sandinn. Á Eskifirði var stofnað verkakvennafélag árið 1918.91 Í Hafnarfirði kom Verkakvennafélagið Framtíðin til sögunnar árið 1925 og voru stofnfélagar um 70. Konurnar höfðu verið í Hlíf en töldu hagsmunum sínum betur borgið í sérstöku félagi. Leituðu þær til Carolíne Siemsen og fengu hana til að vera til aðstoðar við stofnun félagsins. Hún lagði til að félagið yrði látið heita Framtíðin.92 Á Siglufirði var Verkakvennafélagið Ósk stofnað árið 1926 í kjölfar árangursríks verkfalls síldarstúlkna árið áður.93 Stundum var staðið þannig að stofnun þessara félaga að forysta verkamannafélagsins kom þar nærri og hvatti til félagsstofnunarinnar, en í öðrum tilvikum stuðluðu forystukonur í verkalýðshreyfingunni að stofnun þessara félaga. Segja má að hvorttveggja hafi verið raunin í Vestmannaeyjum en forystumenn Verkamannafélagsins Drífanda hvöttu konur mjög til að stofna félag. Þar kom Carolíne Siemsen líka við sögu og eggjaði konur í Vestmannaeyjum til dáða. Það leiddi til stofnunar Verkakvennafélagsins Hvatar árið 1926 sem varð þó ekki langlíft.94 Verkakvennafélög voru því stofnuð víða en þó ekki á öllum þéttbýlisstöðum eða kaupstöðum og hefur ekki verið kannað nægilega hvað réð skoðunum á því hvernig hagsmunum verkakvenna væri best borgið.

Þórunn Magnúsdóttir 1991, 70−72. − Sigurður Pétursson 2011,
204−206.
Sjá Ásgeir Guðmundsson 1983 III, 26. − Þjóðviljinn 28.
desember 1945, 5.
Benedikt Sigurðsson 1989, 188.
Vinnan IV (1946), 286. − Þórunn Magnúsdóttir 1991, 104−111.
− Sjá einnig Auður Styrkársdóttir 1982, 22−29.

Konur fagna kosningarétti árið 1915 á Austurvelli. Stórt skarð er í götumyndinni eftir brunann mikla í Reykjavík fyrr á því ári.

Alþýðusambandið vann einnig beint eða óbeint að stofnun nýrra verkakvennafélaga og -deilda innan verkalýðsfélaganna og lét Jóhanna Egilsdóttir að sér kveða á því sviði. Hún fór til dæmis upp á Akranes árið 1931 og hvatti verkakonur til dáða. Í kjölfar heimsóknarinnar gekk fjöldi kvenna í verkalýðsfélagið og í framhaldinu var stofnuð sérstök deild innan félagsins fyrir verkakonur.95 Jóhanna lét einnig að sér kveða árið eftir þegar Þvottakvennafélagið Freyja var stofnað. Sumar stofnkvenna höfðu áður verið í Framsókn en fannst hlutur sinn afskiptur þar. Freyja varð þó aldrei fjölmennt félag og líklega olli fámennið því að það var fremur veikburða.96

Verkalýðsfélag Akraness 50 ára, 25.
Sjá Margrét Guðmundsdóttir 1983, 35.

Starfsstúlknafélagið Sókn var stofnað árið 1934. Í félaginu voru fyrst og fremst konur sem unnu á sjúkrahúsunum en forsvarskonur þess lögðu einnig áherslu á að ná til vinnukvenna þó að sú viðleitni bæri lítinn árangur, enda vinnukonur einangraðar og bjuggu á heimili vinnuveitandans. Vinnukonur tilheyrðu þeim hópi íslensks verkafólks sem hafði hvað lökust kjör og minnst réttindi. Vinnutíminn var takmarkalítill, „frá kl. 7–7½ á morgnana til kl. 10–12 á kvöldin. Við þetta bætist svo að vaka yfir börnum og gestaboðum til kl. 2–4 á næturna og vera svo kallaðar til vinnu aftur strax að morgni“; þannig lýsti vinnukona aðstæðum sínum. Meðal annars beitti félagið sér fyrir því að lagt var fram frumvarp á Alþingi til þess að tryggja rétt vinnukvenna.97

Þorvaldur Kristinsson 1994, 94−97, 108−109. − Margrét Guð-
mundsdóttir 1983, 23. − Þjóðviljinn 19. febrúar 1939, 2. − Alþt.
A 1939, 777−778.

Þess má geta að danskar vinnukonur höfðu sitt eigið stéttarfélag frá því skömmu eftir aldamótin 1900. Annars gekk víða erfiðlega að halda slíkum félögum á floti, m.a. í Noregi.98 Þær konur sem stofnuðu Sókn töldu sig ekki eiga samleið með félagskonum í Framsókn og töldu þær jafnvel líta niður á sig.99

Margrét Guðmundsdóttir 1983, 23.
Þorvaldur Kristinsson 1994, 58.

Afgreiðslustúlkur í brauð- og mjólkurbúðum höfðu ekkert stéttarfélag til þess að gæta hagsmuna sinna. Sumar þeirra höfðu þó áður verið í Verzlunarmannafélaginu Merkúr svo sem áður greinir. En staða afgreiðslukvennanna breyttist árið 1933 er þær stofnuðu félag sitt, Félag afgreiðslustúlkna í brauð- og mjólkurbúðum, ASB. Frumkvæði að stofnun félagsins hafði Laufey Valdimarsdóttir sem þá var jafnframt formaður Kvenréttindafélags Íslands og fór félagsstofnunin fram á heimili þeirra mæðgna Laufeyjar og Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Sjálf sagði Laufey að Kvenréttindafélagið hefði að „vissu leyti“ staðið að stofnun félagsins en hún tók við forystu þess af móður sinni, Bríeti.100 Fyrir tilstuðlan hennar gekk félagið þegar í ASÍ en hún lét sér afar annt um viðgang verkakvennafélaganna og veitti þeim liðsinni sitt eftir getu.101 Helsta ástæða félagsstofnunarinnar var sú að kjör þessara kvenna voru einkar slæm, aðbúnaður víða illur og vinnutími langur, eða frá kl. 8 að morgni til kl. 9 að kvöldi. Þegar við stofnun félagsins var vinnutíminn styttur í sjö stundir á dag en þó unnið alla daga vikunnar.102

100 Þórunn Magnúsdóttir 1991, 151−154. − Alþýðublaðið 27. janúar
1937, 2.
101 Vinnan XV (1958), 1.−2. tbl., 8−9.
102 Guðrún Finnsdóttir 1948, 249−250. − Þórunn Magnúsdóttir
1991, 153−155.

Elísabet Eiríksdóttir í hópi skólabarna. Hún var áratugum saman í forsvari fyrir Verkakvennafélagið Einingu á Akureyri en stóð einnig um tíma fyrir smábarnaskóla í bænum. Elísabet var róttækur sósíalisti.

Starfsfólk í Björnsbakaríi við Vallarstræti árið 1926; bakarinn er trúlega annar frá vinstri.

Alþýðusambandið og verkalýðshreyfingin unnu að því á fyrri hluta 20. aldar að konur við framleiðslustörf skipulegðu sig í verkalýðsfélögum, annaðhvort í sjálfstæðum félögum eða í deildum innan viðkomandi verkalýðsfélags. En Kvenréttindafélag Íslands lét ekki síður að sér kveða og hafði frumkvæði að stofnun nokkurra félaga. Það þekktist þó, jafnvel fram yfir miðja 20. öld á sumum þéttbýlisstöðum úti um land, að konur sem unnu erfiðisvinnu ættu alls ekki aðild að stéttarfélagi. Til dæmis höfnuðu karlar aðild kvenna að verkalýðsfélaginu á Hornafirði árið 1935, án skýrrar ástæðu, þrátt fyrir að í lögum félagsins væri gert ráð fyrir aðild þeirra og ekki hlaut svipuð fyrirætlan stuðning heldur árið 1943. Hins vegar hleyptu þeir atvinnurekendum inn í félagið! Konur fengu ekki aðild að stéttarfélaginu fyrr en eftir 1950. Á Eyrarbakka fengu nokkrar konur inngöngu í Báruna, sem var verkalýðsfélagið á staðnum, árið 1930 en voru þar aðeins í skamman tíma, enda voru karlarnir ekki á einu máli um inngöngu kvennanna. Konur fengu loks aðgang að félaginu árið 1954.103

103 Gísli Sverrir Árnason 1994, 115−117. − Arnþór Gunnarsson
2000, 156. − Vinnan XIV (1974), 3. tbl., 11.

Ítarleg rannsókn hefur ekki verið gerð á þátttöku kvenna í stéttarfélögum á Íslandi en allt fram yfir miðja öldina virðist umtalsverður hluti kvenna sem stunduðu launavinnu hafa staðið utan stéttarfélaga, enda voru konur fjölmennar við margvísleg þjónustustörf og verslun.104 Á fjórða áratugnum vann t.d. á veitingahúsum fjöldi kvenna sem ekki voru í stéttarfélögum. Þær höfðu skamma viðdvöl í Matsveina- og veitingaþjónafélagi Íslands en töldu sig ekki eiga þar heima. Viðhorfin voru þeim andsnúin, enda litu margir karlar sem störfuðu á veitingahúsunum svo á að þessi störf væru fyrst og fremst þeim ætluð en ekki konum. Slík viðhorf tíðkuðust reyndar víða, ekki síst innan margra iðngreina.105 Vinnumarkaðurinn var líka í aðalatriðum skiptur á milli kynjanna og það olli úlfúð ef konur fóru yfir landamærin, inn á það svið sem „fyrirvinnurnar“ töldu sér einum ætlað.

104 Sjá m.a. Ásgeir Guðmundsson 1985, 33−34.
105 Gylfi Gröndal 1997, 113−114.

Einnig má ætla að þau viðhorf hafi verið algeng hérlendis, svipað og í nágrannalöndunum, að giftar konur ættu í raun ekki að vera á vinnumarkaði ef maki hafði næg laun til að þau gætu komist af. Slík viðhorf voru algeng í Noregi og norski Verkamannaflokkurinn hafði gert samþykkt þess efnis sem ekki var afnumin fyrr en árið 1937. Slíkar samþykktir voru þó ekki gerðar í Svíþjóð og Danmörku þótt sömu viðhorf væru ekki síður ríkjandi þar. Sjónarmiðið var þá það að rýma fyrir þeim sem nauðsynlega þyrftu vinnuna, þ.e. atvinnulausum körlum. Margir voru andstæðir afnámi samþykktarinnar í Noregi og studdu þar með að skorður væru settar við því að giftar konur hefðu rétt til að vera á vinnumarkaðnum.106

106 Bjørnhaug, Inger; Halvorsen, Terje, 2009 36−39, 234.

Laufey Valdimarsdóttir, frumkvöðull í kvenréttindum, kvennabaráttu, mannúðarmálum og í verkalýðsmálum. Laufey var fyrsti formaður Félags afgreiðslustúlkna í brauð- og mjólkurbúðum.

Staða margra kvenna við þjónustustörf var erfið, það var farið „ákaflega illa með þessar stúlkur á stríðsárunum“, sagði Aðalheiður Hólm. Síðar fengu þessar konur inni í Félagi starfsfólks í veitingahúsum sem var stofnað árið 1950. Aðalheiður lýsti aðstæðum þeirra svo:

Þær unnu margar á vöktum og ég man að ég kom einu sinni í herbergi vestur í bæ þar sem stúlkurnar skiptust á að sofa og hvíla sig – þær urðu að deila herberginu og rúmfletum á þennan hátt. Það var erfitt að komast í samband við þessar stúlkur og þær voru flestar hræddar. Ég og Jón Rafnsson heitinn gengum um bæinn á kvöldin og hittum stúlkurnar, gengum inn á alla kaffistaði og fengum okkur límonaði og sættum færis að spjalla við stúlkurnar. Á Hótel Borg var erfitt að nálgast fólkið, en við náðum leynilegum fundi með starfsfólkinu á herbergi, sem vinur Jóns hafði þá á leigu. … Félag starfsfólks í veitingahúsum varð svo til skömmu eftir að ég hætti formennsku og fluttist til Hollands …107

107 Vinnan XXXV (1985), 6. tbl., 17.

Þegar félagið hafði verið stofnað þurfti að halda í því lífinu. Það var annað en auðvelt. Í fyrstu voru fundir haldnir eftir miðnætti eftir að vinnudegi lauk, enda ekki mögulegt að fá fólk á fund fyrr en búið var að ganga frá öllu og skila af sér verki dagsins. Atvinnuleysi var einnig umtalsvert á þessum tíma „og starfsfólkinu var oft bent harkalega á, ef það hafði uppi kröfur að það væri hægt að velja úr fólki sem þakkaði fyrir þessa vinnu og legði mikið að sér til að halda henni“.108 Á þessum tíma stóð því enn yfir barátta fyrir réttinum til að vera í stéttarfélagi þó að sá réttur væri bæði skýr og skilyrðislaus, lögum samkvæmt.

108 Samkvæmt frásögn Hjálmfríðar Þórðardóttur.

Staðhæfa má að Alþýðusambandið lagði minni áherslu á að ná til fólks sem vann við þjónustu ýmiss konar og verslun heldur en almenns verkafólks. Þau viðhorf voru ráðandi innan Alþýðusambandsins að það væri fyrst og fremst samband erfiðisvinnufólks en síður fólks sem ynni við þjónustustörf, en við þau störf unnu nánast eingöngu konur. Svo var Alþýðusambandið aðallega hugsað fyrir „fyrirvinnur“, oftast karla þó að margar konur væru líka á vinnumarkaði.

Almennt má fullyrða að ástand í kjaramálum kvenna hafi verið miklu lakara en karla á millistríðsárunum. Bæði voru laun lakari og margar konur voru ekki í verkalýðsfélögum. Kjör þeirra voru yfirleitt slæm, vinnutími langur og aðbúnaður lakur.109

109 Alþýðublaðið 30. október 1936, 2. − Sjá einnig Gylfi Gröndal
1980, 76. − Einnig Þorvaldur Kristinsson 1994, 31, 95−97.

Áhrif kvenna í verkalýðshreyfingunni – málefni kvenna á þingum ASÍ

Kvennadeildin er vel starfandi þó nokkuð bresti á góða fundarsókn. Deildin kom á fót húsmæðranámskeiði sem stendur yfir og nýverið hefur hún stofnað málfundaflokk sem ég vænti góðs af, í því, að venja þær á að taka til máls á fundum, en þær sem tala eru allt of fáar. Oftast í hverri viku hafa þær vinnukvöld (handavinnu) og í sambandi við það upplestur og dans, ekki síst ef þær eru ungar [Sveinbjörn Oddsson, formaður verkalýðsfélagsins á Akranesi um starfsemi kvennadeildarinnar árið 1933].110

110 ÞÍ. Sveinbjörn Oddsson til Svövu Jónsdóttur, starfskonu
ASÍ 22. nóvember 1933. Sögus. verkal. A01 20/2. Skrifstofa.
Bréfaskipti 1933−1934.

Eins og annars staðar hefur verið fjallað um voru mörg stéttar félög „blönduð“, bæði karlar og konur áttu aðild að þeim. Í sumum slíkra félaga, t.d. Iðju í Reykjavík, voru konur í miklum meirihluta. Engu að síður var fátítt að konur ættu sæti í stjórnum þessara félaga. Væru kvennadeildir innan félaganna, eins og t.d. á Ísafirði og Akranesi, höfðu þær vissulega nokkur áhrif en víðast var þeim haldið frá yfirstjórnum félaganna.111

Sjá m.a. Þórunn Magnúsdóttir 2002, 235.

Ekki var algengt að konur létu að sér kveða í stjórnmálum á vegum alþýðusamtakanna hér á landi eða væru á kosningalistum Alþýðuflokksins. Gilti hið sama hérlendis og víða annars staðar að þessu leyti. Alls staðar var það lífseigt viðhorf að staða kvenna væri einkum innan veggja heimilisins og utan hins opinbera lífs. Má nefna að fyrsti opinberi fyrirlestur íslenskrar konu var fluttur árið 1894 og þótti tíðindum sæta. Þetta viðhorf var einnig ráðandi innan hreyfingar jafnaðarmanna, a.m.k. í öndverðu, en Annað alþjóðasamband jafnaðarmanna (1889–1914) tók þó þá afstöðu þegar á stofnþingi sínu árið 1889 að verkakörlum og verkakonum bæri sami réttur, auk þess sem gerðar voru kröfur um að taka bæri sérstakt tillit til kvenna hvað varðar vinnutíma og vinnuaðstæður, og þess krafist að þær fengju frí frá vinnu í nokkrar vikur fyrir og eftir barnsburð.112 Um og eftir aldamótin 1900 óx þeirri kröfu fiskur um hrygg innan hreyfingar jafnaðarmanna í Mið- og Norður-Evrópu að konur hefðu sama rétt og karlar. Þetta var ekki síst fyrir tilstuðlan hinnar þýsku Clöru Zetkin, en hún átti m.a. frumkvæði að því að 8. mars var tilnefndur alþjóðlegur baráttudagur kvenna á þingi Annars alþjóðasambandsins í Kaupmannahöfn árið 1910.113 Á fyrstu áratugum 20. aldar komust nokkrar konur í fremstu röð innan alþjóðlegrar hreyfingar jafnaðarmanna. Má þar t.d. nefna að Nina Bang var ráðherra í fyrstu ríkisstjórn jafnaðarmanna í Danmörku árið 1924.114

Blom, Ida 1992, 689−690, 693−694.
Blom, Ida 1992, 695−697.
Blom, Ida 1992, 696.

Starfsfólk á veitingahúsi á óþekktum stað á landinu. Konur sem unnu við þjónustustörf höfðu oft ekki aðgang að stéttarfélagi langt fram eftir 20. öld.

Það gerðist árið 1926 að tvær konur, þær Jónína Jónatansdóttir og Rebekka Jónsdóttir, voru í 2. og 4. sæti á landskjörlista Alþýðuflokksins það ár. Staðhæft var í Alþýðublaðinu að vel væri séð fyrir „sérstökum áhugamálum kvenna“ með þessari skipan á listann, enda hefðu þessar konur lengi „staðið framarlega í baráttu kvenna fyrir sjálfsögðum umbótum á kjörum þeirra“.115 Á hinn bóginn varaði alþýðukona við því í Alþýðublaðinu tveimur árum síðar að kjósa lista eingöngu vegna þess að kona væri á honum og staðhæfði greinarhöfundur að Ingibjörg H. Bjarnason, sem kosin var á Alþingi 1922 af sérstökum kvennalista, hefði verið „sönn máttarstoð efrideildar-íhaldsins“. Því bæri öllum alþýðukonum að kjósa Alþýðuflokkinn sem einn gætti hagsmuna alþýðukvenna.116 Við bæjarstjórnarkosningarnar í Reykjavík árið 1929 – og raunar lengi fram eftir öldinni – var þó ekki mikið um konur á lista Alþýðuflokksins til að gæta hagsmuna þessa helmings alþýðustéttanna. Á 30 manna lista voru aðeins tvær konur og voru þær í 14. og 17. sæti. Verður að segjast að verkalýðsflokkarnir og verkalýðshreyfingin stóðu sig ekki betur en aðrir flokkar á þessu sviði, jafnvel verr.117 Ekki var kona kjörin á þing fyrir Alþýðuflokkinn fyrr en árið 1979 þegar Jóhanna Sigurðardóttir, núverandi forsætisráðherra, tók þar sæti. Sama staða var einnig í Danmörku en konur áttu lengi erfitt uppdráttar innan danska jafnaðarmannaflokksins og þær áttu jafnvel mun greiðari leið til áhrifa innan annarra flokka.118

Alþýðublaðið 1. maí 1926, 4.
Alþýðublaðið 28. jan. 1928, 2.
Sjá m.a. Morgunblaðið 26. apríl 1930, 4.
Larsen, Jytte 2007, 378.

Áhrif kvenna voru heldur ekki mikil innan Alþýðusambandsins, eins og ef til vill kemur skýrast fram þegar skoðaðar eru ljósmyndir af stjórnum og fulltrúaþingum þess. Fulltrúar kvenna voru fáir á sambandsþingum. Árið 1928 var Jónína Jónatansdóttir, fyrst kvenna, kjörin í sambandsstjórnina og var svo lengi síðan að afar fáar konur áttu þar sæti og sjaldgæft að kona sæti í miðstjórn ASÍ.

Þessar tvær ljósmyndir eru af félögum í Félagi ungra jafnaðarmanna í Reykjavík og virðast teknar um svipað leyti. Boðskapur þeirra um hlutverk karla og kvenna leynir sér ekki. Konurnar sinna handavinnu en karlarnir stjórnmálum.

Konur í ASÍ skora á sambandsstjórn að hækka laun Svövu Jónsdóttur sem starfaði á skrifstofu ASÍ, enda töldu þær launagreiðslur til hennar skammarlega lágar miðað við vinnuframlag hennar.

Sérmál kvenna eða jafnréttismál yfirleitt voru heldur ekki mikið rædd á sambandsþingum eða ráðstefnum fyrr en eftir 1950. Sést það til dæmis af nefndaskipan á Alþýðusambandsþingum. Vart þekktist að sérstakar nefndir um jafnréttismál eða málefni kvenna væru skipaðar og ekki voru haldnar sérstakar ráðstefnur um þá málaflokka fyrr en eftir 1950. Oft voru þó skipaðar nefndir til þess að fjalla um málefni landbúnaðarins og fjölmörg önnur mál sem sýndust fjarskyldari málefnum verkalýðsins en málefni vinnandi kvenna. Nefna má að í þingtíðindum Alþýðusambandsins frá 1934 er stutt klausa um kvenréttindamál, sjö línur. En á sömu blaðsíðu er fjallað í lengra máli um Garðyrkjuskóla ríkisins og umfjöllun um landbúnaðarmál teygir sig yfir á þriðju síðu.119

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 12. sambandsþing 1934,
43−45.

Taka má sem dæmi um viðhorfin að á verkalýðsmálaráðstefnu ASÍ árið 1930 kom fram tillaga þess efnis að greiða skyldi sömu laun „fyrir sams konar vinnu, hvort sem karlar, konur eða unglingar vinna“. En þessi tillaga reyndist of róttæk. Fram kom tillaga frá Þorsteini Björnssyni sem gekk skemmra. Hún hljóðaði svo: „Vinna skal að því, að konum og unglingum, er vinna sömu erfiðisverk og karlmenn, sé greitt karlmannskaup.“ Þessi tillaga var samþykkt.120

120 Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands og verkalýðsráðstefna. 10.

Fyrir kom einnig að málefni sem talin voru varða konur fyrst og fremst, eins og fæðingarorlof, getnaðar varnir og fóstureyðingar, væru rædd á þingum sambands ins. Á verkalýðsmálaráðstefnu ASÍ árið 1930 kom t.d. fram tillaga um að gera kröfu um fjögurra mánaða fæðingarorlof fyrir þær konur sem væru í fullu starfi jafnframt því sem „barist skyldi fyrir því að reist verði á kostnað atvinnurekenda dagheimili [þar] sem verkakonur geta geymt börn sín undir eftirliti hæfra kvenna meðan þær ganga til vinnu“. Einnig kom fram sú athyglisverða tillaga að leiðtogar verkalýðsins skyldu hvattir til að „hlutast til um það, að athygli kvenna og karla í verkalýðsstétt sé vakin á stefnu þeirri sem mjög er uppi í heiminum um takmörkun barneigna“.121 Ekki var vanþörf á að vekja athygli á þessum málum. Alþýðukonur fengu iðulega litla eða enga hvíld eftir barnsburð og voru oft farnar að vinna fáum dögum eftir fæðingu, eins og ein verkakvennanna lýsti; hún var að „svíða hjá Kaupfélaginu, og rétt skrapp heim og átti barnið og mætti aftur nokkrum dögum seinna“.122

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands og verkalýðsráðstefna. 10.
122 ÞÍ. Viðtal við Margréti Magnúsdóttur, tekið 1983. Sögus.
verkal., B23: A/1. Stefán Hjartarson. Viðtöl.

Fjórum árum síðar, á sambandsþingi árið 1934, var þetta mál enn á dagskrá og skoraði þingheimur á alþingismenn að samþykkja fyrirliggjandi frumvarp á þinginu um „varnir gegn því að konur verði barnshafandi og um fóstureyðingar … [og] að almenningur sé fræddur um varnir gegn því, að konur verði þungaðar“.123 Enn var hnykkt á þessari stefnumörkun á þingi sambandsins tveimur árum síðar þar sem Þuríður Friðriksdóttir og tíu aðrar konur beittu sér fyrir því að samþykkt var ályktun þess efnis að gildandi lög um fóstureyðingar næðu ekki tilgangi sínum og teldi þingið það „sjálfsagðan rétt hverrar konu að ráða því, hvort hún vill fæða barn“.124 Á sama þingi (1934) var lögð áhersla á að brýnt væri að huga þegar að nýjum iðngreinum sem gætu séð „konum engu síður en körlum fyrir vinnu við þeirra hæfi“, enda ættu konur „tvímælalaust sama rétt til embætta og hvers konar sýslana ríkis og bæja og karlmenn, enda njóti þær sömu launa og hlunninda“.125 Þessi mál voru einnig ítrekað rædd innan verkakvennafélaganna.126

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 12. sambandsþing 1934, 39.
124 Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 13. sambandsþing 1936,
82−83.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 12. sambandsþing 1934,
41, 43.
126 Ásgeir Guðmundsson 1985, 28−30.

Einnig má geta þess að á þingi ASÍ árið 1932 var kjörin svokölluð kvennanefnd Aþýðuflokksins og áttu þar sæti helstu forystukonur flokksins. Meðal þeirra var Laufey Valdimarsdóttir. Laufey kvartaði sáran yfir því að nefndin starfaði ekki sem skyldi en hún taldi að verksvið hennar ætti að vera að

marka stefnu flokksins í málum þeim, sem sérstaklega snerta konur, og gæta þess að sjónarmið kvenna kæmu fram þegar settar væru fram kröfur, sem snertu þær beinlínis. Til dæmis tel ég óheppilegt að konur í Alþýðuflokknum hafi engan þátt átt í undirbúningi frumvarps eins og tryggingarlaga og fátækralaga“.127

127 ÞÍ. Laufey Valdimarsdóttir til sambandsstjórnar ASÍ 5.
febrúar 1934. Sögus. verkal. A01 20/2. Skrifstofa. Bréfaskipti
1933−1934.

Ekki er að sjá að nefndin hafi starfað að neinu marki.

Sérstök hagsmunamál kvenna voru rædd á þingum Alþýðusambandsins og innan hreyfingarinnar en enn var langt frá því að litið væri svo á að konur væru jafngildir þátttakendur innan hreyfingarinnar og karlar enda þótt Alþýðusambandsþing samþykkti tillögu Lauf -eyjar Valdimarsdóttur og fleiri kvenna á 13. þingi sambandsins árið 1936 um sama kaup fyrir sömu vinnu. Í tillögunni sagði að þingið viðurkenndi „réttmæti kröfunnar um sömu laun fyrir sömu vinnu fyrir konur jafnt sem karla og samþykkir að setja hana á stefnuskrá sambandsins“.128 Þó að konur innan ASÍ hafi átt undir högg að sækja er ekki að sjá að forystukonur í verkalýðshreyfingunni hafi velt fyrir sér þeim möguleika að stofna sérstakt verkakvennasamband, enda var slíkt ekki algengt í nágrannalöndunum.129 Sums staðar brugðust verkakonur við afskiptum karla af starfsemi verkakvennafélaganna með því að „afsegja meðráðsmenn“ og var þá átt við að afskipti verkakarlafélagsins af verkakvennafélaginu á viðkomandi stað væru afþökkuð.130

128 Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 13. sambandsþing 1936,
87−88.
129 Bjørnhaug, Inger; Halvorsen, Terje 2009, 40−42.
130 Þórunn Magnúsdóttir 2002, 110−111.

Viðurkenning á verkalýðshreyfingunni – forgangsrétturinn

Fátítt er nú orðið að menn vinni erfiðisvinnu nema þeir séu í Dagsbrún, enda er það móti félagslögunum. Aðkomumenn í bænum, sem hér vinna um stundarsakir, ganga í gestadeild, en bæjarmenn gerast aðalfélagar.131

Dagsbrún 1931. Skýrsla stjórnarinnar á aðalfundi 1931, 1.

En það var ekki nóg að stofna stéttarfélög, miklu erfiðara var að halda þeim gangandi og fá samherja og andstæðinga til að skilja að þau ættu einhvern rétt á sér. Forsvarsmenn félaganna kvörtuðu yfir hvoru tveggja, áhugaleysi fólksins og andófi atvinnurekenda gegn þeim. Sveinbjörn Oddsson, formaður félagsins á Akranesi, sagði t.d. árið 1935 í bréfi til Alþýðusambandsins að það væri jafnvel „of mælt að tala um líf“ í félaginu, fólk mætti ekki á fundi og virtist „ekkert skilja félagslega, ekkert vilja félagslega, og gera því ekkert félagslega, nema ef vera skildi það að ganga á bakvið félagið“.132 Það var þungt hljóð í Sveinbirni. Félögin urðu að fá það viðurkennt hjá atvinnurekendum að þau væru lögmætur samningsaðili, að taxta þeirra bæri að virða og að félagsmenn hefðu forgangsrétt til vinnu. Þessir þættir voru mikilvægustu viðfangsefni verkalýðsfélaganna fyrstu áratugina sem slík félög störfuðu á Íslandi.133

ÞÍ. Bréf Sveinbjarnar Oddssonar til ASÍ 2. júní 1935. Sögus.
verkal. A01 20/2. Skrifstofa. Bréfaskipti 1935−1939.
Svanur Kristjánsson 1976, 25.

Flestir atvinnurekendur töldu litla ástæðu til að fallast á réttindi af þessu tagi, enda höfðu þeir vanist því að ákveða sjálfir hvað skyldi greitt í kaup, hvernig það var greitt og hver fékk vinnu, og væru því félög verkafólks bæði óþörf og skaðleg. Einn atvinnurekandi orðaði það svo að verkalýðsfélögin gerðu ekki annað en að „valda öllum löndum tortímingu og leiða verkalýðinn afvega“.134 Margir atvinnurekendur brugðust því ókvæða við þegar verkafólk fór að skipuleggja sig í samtökum. Þeir töldu ekki að þörf væri á slíku, enda væri markmið með stofnun þeirra að kúga atvinnurekendur. Samskiptin hefðu gengið hingað til án slíkra ráða. Það væri líka misskilningur að hagsmunir verkafólks og atvinnurekenda væru andstæðir. Þvert á móti væru þeir sameiginlegir. Því bæri öllum að vinna saman en ekki gegn hver öðrum, hagsmunir verkafólks, bænda og atvinnurekenda væru hinir sömu. Í raun væri ekkert „auðvald“ til nema sem „ímyndun nokkurra manna“.135 Góður rekstur fyrirtækis væri sameiginlegt hagsmunamál allra og góður rekstur samfélagsins væri einnig sameiginlegt hagsmunamál. Því væru barátta verkalýðsfélaga og baráttuaðferðir þeirra andstæðar þessum sameiginlegu hagsmunum. Vinnan væri uppspretta auðs ins og hættu menn að „vinna vel og trúlega, þá eru velgengisdagar þessa lands taldir“.136 Greinilegt væri að jafnaðarmenn hefðu engan skilning á mannlegu eðli. Þeir skildu ekki að ef frumkvæði fengi ekki að njóta sín og allir ættu að bera hið sama úr býtum, án tillits til þess hversu mikið þeir legðu fram, færi illa.137

134 Vinnan I (1943), 60.
Morgunblaðið 28. nóvember 1919, 1.
136 Morgunblaðið 13. nóvember 1920, 1.
Morgunblaðið 10. desember 1920, 1.

Jóhanna Egilsdóttir, líklega á þingi ASÍ á sjötta áratugnum.

Það væru því ekki verkamennirnir sem ættu að setja kauptaxtana heldur atvinnurekendurnir. Þeir hefðu yfirlit yfir reksturinn og vissu hvað hægt væri að borga í kaup. Því væri það ekki annað en kúgun af hálfu verkalýðsfélaganna að meina mönnum, sem vildu vinna, að þiggja það kaup sem byðist, enda ætti enginn að hafa heimild til að „bægja manni frá vinnu, er hann hefir ráðist til sjálfviljugur“. Slíkt væri ekki annað en yfirgangur, og verkföll og verkfallshótanir væru eins og „sýki“ sem hefði „unnið þjóðunum meira ógagn en nokkur svarti dauði“.138 Verkalýðsfélag Patreksfjarðar átti t.d. í miklum erjum við Ólaf Jóhannesson sem var helsti atvinnurekandi á staðnum á fjórða áratugnum; hann þráaðist lengi við að viðurkenna verkalýðsfélagið sem samningsaðila. Til dæmis hótaði hann öllu starfsfólki sínu uppsögn auk þess sem hann ætlaði að flytja atvinnurekstur sinn á brott úr bænum um miðjan áratuginn þegar félagið óskaði eftir því að gerðir yrðu nýir kjarasamningar. Ólafur lét þó ekki verða af hótun sinni en samdi fljótlega um svipaðan samning og gilt hafði.139 Viðbrögð íslenskra atvinnurekenda og stjórnvalda við stofnun verkalýðsfélaga voru ekki eins harkaleg og í mörgum nágrannalandanna. Langir fangelsisdómar yfir verka lýðsleiðtogum tíðkuðust ekki á Íslandi eins og þekkst hafði á hinum Norðurlöndunum á fyrsta skeiði verkalýðshreyfingarinnar þar.

138 Morgunblaðið 10. apríl 1921, 1.
139 Jón Guðnason 1993, 73−74.

Verkamenn á Hesteyri í Jökulfjörðum kringum 1930, líklega starfsmenn síldarbræðslu Kveldúlfs. Flestir þeirra hafa trúlega verið aðkomumenn en á Hesteyri var stofnað verkalýðsfélag árið 1930.

Andstaðan gat verið hörð. Sums staðar var ástandið svo að „ef einhver sagði meiningu sína var hann rekinn um leið“.140 Á öndverðum þriðja áratugnum var það t.d. svo á Ísafirði að sumir atvinnurekendur settu það sem skilyrði fyrir vinnu að verkamenn væru ekki í verkalýðsfélagi. Forysta verkalýðsfélagsins á staðnum brást þannig við að hætt var að birta félagalistann til að vernda félagsmenn.141 Sigurður Kr. Ólafsson í Hrísey kvartaði undan svipuðum aðstæðum í bréfi árið 1936:

140 ÞÞ A: 5945. kvk 1902.
Vinnan. Afmælishefti 1966, 49.

Jeg hef verið svo tungu langur upp á síðkastið við þessa atvinnu veitendur hjer, að þeir gera ábyggi lega það sem þeir geta, til þess að flæma meg í burtu, ef þeir mögu lega geta. … Jeg finn að það er gengið fram hja mjer eins og hækt er með þögninni, hjá útgerðar fjelags mönnum“.142

142 ÞÍ. Bréf Sigurðar Kr. Ólafssonar, sennilega til Jóns Sigurðs-
sonar, 28. júní 1936. Sögus. verkal. A01 20/2. Skrifstofa.
Bréfaskipti 1935−1939.

Mörg dæmi voru um aðgerðir af þessu tagi allt fram á fjórða áratug 20. aldar; menn fengu litla eða enga vinnu svo mánuðum eða jafnvel árum skipti vegna þess að þeir voru í verkalýðsfélagi, gegndu forystustarfi í hreyfingunni eða höfðu látið að sér kveða í stéttaátökum. Svo var til dæmis á Hvammstanga þar sem hópur manna stofnaði verkalýðsfélag árið 1925. Mætti það mikilli andstöðu og í kjölfarið var forystumönnum félagsins bægt frá vinnu um margra ára skeið.143 Stundum var jafnvel gengið svo langt að ættingjar voru einnig látnir gjalda og fólk varð að hrökklast burt af heimilum sínum, eins og Helgi Hannesson, forseti ASÍ 1948–1954, lýsti að hefði hent sig og móður sína í Hnífsdal á þriðja áratugnum.144 Ættu þessir menn fjölskyldu var ekki margra kosta völ ef félagsskapurinn gat ekki verndað viðkomandi. Víða á landinu var því sú leið farin að kalla til forystu fólk sem ekki átti atvinnumissi á hættu þó að það tæki að sér forystustörf af þessu tagi. Er þetta ein skýring þess að víða voru kennarar og ýmsir aðrir opinberir starfsmenn, jafnvel prestar, í forystu verkalýðsfélaga og stóðu sig prýðilega þó að þeir væru strangt til tekið ekki í hópi verkafólks. Önnur ástæða fyrir því að leitað var til þessa fólks var sú að það hafði oft og tíðum meiri reynslu af félagsstörfum en almennt verkafólk og var að auki ekki eins þjakað af vinnuþrælkun. Af þeirri ástæðu gat það fremur sinnt félagsstörfum, en þau tóku þá, ekkert síður en nú, mikinn tíma. Svo var margt af þessu fólki ákaft hugsjónafólk með skýra framtíðarsýn í verkalýðsbaráttunni. Þess voru mörg dæmi að þegar slíkt fólk hafði tekið að sér forystustörf kom mikill fjörkippur í starfsemi viðkomandi félags. Sú var til dæmis raunin á Ísafirði eftir að Finnur Jónsson, sem nýlega hafði tekið við stöðu póstmeistara á staðnum, var kosinn formaður Verkalýðsfélagsins Baldurs árið 1921.145

143 Alþýðublaðið 14. janúar 1935, 2.
144 Verkalýðsfélagið Baldur 70 ára. Afmælisrit, 17, 22.
145 Sigurður Pétursson 2011, 207 og áfram. − Jón Þ. Þór 1990,
220−221. − Verkalýðsfélagið Baldur 70 ára. Afmælisrit, 19.

Sjómenn á Akranesi um 1920, nýkomnir úr róðri á vélbátnum Kjartani Ólafssyni AK. Hörð átök einkenndu samband verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda á Akranesi á þriðja og fjórða áratugnum.

Á Akranesi máttu félagsmenn í verkalýðsfélaginu sitja undir hótunum um að verða útilokaðir frá vinnu. Auk þess neituðu atvinnurekendur að semja við félagið árið 1924 nema það gengi úr ASÍ jafnframt því sem forystumönnum félagsins var hótað brottrekstri „ef þeir héldu fast uppteknum hætti“. Morgunblaðið lýsti því svo að úrsagnarkrafan byggðist á þeirri viðleitni atvinnurekenda „þar efra“, þ.e. á Akranesi, að „vernda verkamennina fyrir ofbeldisverkum æsingamanna hjeðan úr Reykjavík og framar öllu vernda löglegt athafnafrelsi verkamanna“.146 Lauk deilunni svo að félagið varð að gefa eftir og segja sig úr sambandinu. Það gekk þó í það aftur árið 1927. Árið eftir skrifaði helsti atvinnurekandi staðarins, Haraldur Böðvarsson, grein í Morgunblaðið og skýrði sjónarmið sín. Koma þar vel fram viðhorf margra atvinnurekenda á þessum tíma til verkalýðshreyfingarinnar. Haraldur vitnar til þess að Alþýðublaðið hafi sagt að hann vildi eyðileggja verkalýðsfélagið:

146 Morgunblaðið 28. desember 1924, 3.

Þarna ratast þá blaðskömminni einu sinni rjett orð á munn. Mjer finst það siðferðileg skylda hvers manns, þegar einhvern voða ber að höndum í byggðarlagi hans, að hann hervæðist og berjist gegn honum. Nú sje jeg að það er verið að reyna að naga fæturnar undan máttarstoðum bygðarlags míns. Það er verið að reyna að spýta eitruðu blóði í þá, sem heilbrigðir eru og tæla þá til þess að fylkja liði, í þeim flokki sem óheillavænlegastur er allra flokka hjer á landi … Alþýðusambandið fjekk eins og kunnugt er, mörg hundruð þúsund krónur frá sósíalistum í Danmörku, til þess að hjálpa leiðtogunum hjer með útbreiðslustarfsemi sína hjer á landi, og maður gæti vel ímyndað sjer að þessir peningar væru í og með notaðir til þess að greiða leigu-predikurum út um land, fyrir ómak sitt við að standa fyrir og halda ræður í verkalýðsfjelögunum og svo aukapremiu þegar þeim tekst að koma fjelögunum í sambandið, því að þá mun víst vera fyrst álitið að atkvæðin við alþingis- og bæjarstjórnarkosningar muni vera nokkurnveginn trygð. Því að stóra hjólið í þessu öllu saman er að ráða yfir atkvæðunum, þegar kosið er, til þess að leiðtogarnir komist sem fyrst á þing, nái takmarkinu setta – sem er að þjóðnýta allt – reka öll fyrirtæki fyrir ríkissjóðs reikning o.s.frv. … Jeg vil skora á alla góða menn og konur, að vinna að því að þessi ósómi verði gerður burtrækur úr hverju einu bygðarlagi þessa lands.147

147 Haraldur Böðvarsson 1928 (Vitið og mannúðin á Akranesi), 5.

Finnur Jónsson, formaður Verkalýðsfélagsins Baldurs og síðar alþingismaður og ráðherra.

Sveinbjörn Oddsson, verkalýðsforingi á Skaganum.

Haraldur Böðvarsson áleit sig sjálfkjörinn föður byggðar lagsins. Hann bæri ábyrgð á eflingu atvinnulífsins og velferð fólks, enda væri Akranes „langbest stætt fjárhagslega af öllum bygðum þessa lands“. Hann „veitti“ fólki vinnu og hans væri að ákveða hverja hann hefði í vinnu og hverja ekki. Verkalýðsfélagið ynni gegn þessum markmiðum og reyndi að „leggja hjer alt í rústir“. Haraldur staðhæfði að verkalýðsfélagið á Akranesi og formaður þess, Sveinbjörn Oddsson, væru með starfsemi sinni að vinna „mesta níðingsverk sem hjer hefir verið unnið síðan Skaginn bygðist“.148 Hann fór líka hörðum orðum um formann verkalýðsfélagsins persónulega og sakaði hann um fjárdrátt og að vera „aumingja ræfill og vesalingur“.149 Hann hvatti því félagsmenn verkalýðsfélagsins til þess að segja sig úr félaginu, „segja skilið við voðann“.150

148 Haraldur Böðvarsson 1928 (Verkfallið á Akranesi og
afleiðingar þess), 2.
149 Haraldur Böðvarsson 1928 (Haraldur Böðvarsson talar), 6.
150 Haraldur Böðvarsson 1928 (Vitið og mannúðin á Akranesi), 5.

Þeir atvinnurekendur voru til sem hreinlega gengu sjálfir í verkalýðsfélögin og störfuðu þar með fullum réttindum til að hafa stjórn á málunum! Það gerðist til dæmis á Hornafirði á fjórða áratugnum að kaupfélagsstjórinn – kaupfélagið var helsti atvinnurekandinn á staðnum – gekk í verkalýðsfélagið þar þrátt fyrir að lagafyrirmæli kvæðu skýrt á um að þar ætti eingöngu að vera verkafólk. Svo virðist sem félagsmenn hafi ekki treyst sér til að standa uppi í hárinu á honum en innganga kaupfélagsstjórans varð til þess að félagsstarfið varð ekki svipur hjá sjón, enda aðstoðarmaður hans í stjórn félagsins og formaðurinn þeim handgenginn. Það lagðist á endanum af og nýtt félag var stofnað til að leysa hnútinn.151 Svo mátti líka reyna að kaupa menn til að hætta afskiptum af verkalýðsmálum með því að bjóða þeim tryggt starf eða „gull og græna skóga“ ef viðkomandi lofaði að láta af verkalýðsbaráttu. Jóhann J.E. Kúld staðhæfði að það hefði hent hann. Jóhann var í forsvari fyrir Sjómannafélag Norðurlands árið 1929 og einn helsti útgerðarmaðurinn á Akureyri átti að hafa gert honum tilboð af þessu tagi. Því hafnaði hann og fékk því á sig atvinnubann, líkt og fleiri félagar hans.152

Gísli Sverrir Árnason 1994, 98 og áfram. − Gísli Sverrir
Árnason 1999, 12. − Vinnan XLIV (1994), 4. tbl., 26.
Jón Hjaltason 2004, 169.

Verkamálaráð setur olíubann á báta úr Keflavík og Njarðvíkum vegna deilu útgerðarmanna við verkalýðsfélagið.

Útilokanir og önnur viðleitni í þessa veru var ekki bundin við fyrstu áratugi verkalýðshreyfingarinnar. Ýmis svipuð dæmi eru einnig kunn frá síðari hluta aldarinnar. Til dæmis var Benedikt Davíðssyni, sem lengi var í forystu verkalýðshreyfingarinnar á ofanverðri 20. öld, sagt upp störfum á öndverðum sjötta áratugnum vegna starfa sinna fyrir verkalýðshreyfinguna en hann vann um þetta leyti við byggingu Áburðarverksmiðjunnar.153

Benedikt Davíðsson, viðtal 2007.

Þrátt fyrir harða andstöðu fengu ýmis verkalýðsfélög tilverurétt sinn og samningsrétt snemma viðurkenndan. Það gerðist á þann hátt að þeim tókst að fá atvinnurekendur í viðkomandi grein til þess að gera kjarasamning eða að minnsta kosti að virða auglýsta taxta viðkomandi félags; viðurkenningu af þessu tagi náðu til dæmis Hið íslenska prentarafélag árið 1905 og Dagsbrún árið 1915. Einnig má segja að Verkakvennafélagið Framsókn hafi öðlast viðurkenningu þegar árið 1915 með því að flestir atvinnurekendur fóru eftir taxta félagsins. Formlega viðurkenningu fékk félagið þó ekki fyrr en síðar.154

154 Margrét Guðmundsdóttir 1983, 33, 58.

Öðru máli gegndi á sumum smærri stöðum úti um land, t.d. á Vestfjörðum, þar sem einn eða fáir atvinnurekendur höfðu nánast líf fólks í hendi sér.155 Sums staðar voru jafnvel hendur látnar skipta og þurfti harðar deilur til þess að ná fram viðurkenningu. Sérstaklega kunnar urðu deilur vegna þessa í Keflavík og Bolungarvík. Á fyrrnefnda staðnum var formaður verkalýðsfélagsins, Axel Björnsson, fluttur í böndum til Reykjavíkur í ársbyrjun 1932 og ráðist að heimilum þeirra sem voru framarlega í félagsskapnum.156 Jafnvel hreppstjórinn í Keflavík var í fararbroddi í flokki útvegsmanna sem stóðu fyrir brottnámi Axels. Það gerðist á þann hátt að 20–30 manna hópur ruddist óboðinn inn í hús þar sem Axel var gestkomandi, neyddi hann til að klæða sig og fara á brott með þeim í báti til Reykjavíkur. Verkalýðsfélagið leitaði þá til Alþýðusambandsins og bað það um að taka málið að sér og bannaði sambandið samstundis alla vinnu við báta frá Keflavík í Reykjavík. Meðal annars var stöðvuð útskipun á fiski úr bát frá Keflavík í enskan togara sem ætlaði að flytja aflann til Bretlands. Togaraskipstjóranum var hótað afgreiðslubanni í Englandi ef hann tæki við fiskinum.157 Staða Alþýðusambandsins var því afar sterk og deilan varð hörð, útvegsmenn kröfðust þess að verkalýðsfélagið yrði þegar í stað leyst upp og neyddu félagsmenn til að samþykkja það. Haft var í hótunum við félagsmenn sem margir hverjir voru farnir að óttast um líf sitt. Sumir gripu til þess ráðs að flýja úr bænum.158 En Morgunblaðið lýsti því yfir að flutningur Axels til Reykjavíkur hefði verið „nokkurs konar hreppaflutningur, og þótti landhreinsun í Keflavík“ og hefðu Keflvíkingar „sýnt einbeitni þá og festu sem rómuð er um landið“.159 Orð blaðsins um hreppaflutninga vísa til þess að Axel var með lögheimili í Reykjavík. Einnig greindi blaðið frá því að til hefði staðið að flytja annan forystumann félagsins brott og hefðu þetta verið eðlileg viðbrögð gegn „ofbeldi“ verkalýðsleiðtoganna.160 Leitað var til sáttasemjara um lausn deilunnar og einnig beitti Héðinn Valdimarsson sér fyrir því að samningar næðust. Í framhaldinu náðust samningar um kjör sjómanna og verkalýðsfélagið var viðurkennt sem samningsaðili vegna verkafólks á staðnum.161

Sjá t.d. Haukur Sigurðsson 2008, 52−53.
156 Vinnan XV (1958), 1.−2. tbl., 12.
Morgunblaðið 21. janúar 1932, 3.
Alþýðublaðið 20. −24. janúar 1932. − Alþýðublaðið 12. febrúar
1932, 1.
159 Morgunblaðið 11. febrúar 1932, 2.
160 Morgunblaðið 21. janúar 1932, 3.
Alþýðublaðið 12. febrúar 1932, 2.

Í Bolungarvík stóð yfir kjaradeila fyrri hluta árs 1932; þar deildi nýstofnað (1931) verkalýðsfélag við atvinnurekendur á staðnum um kjör og viðurkenningu á félaginu. Meðan á deilum stóð lögðu atvinnurekendur og útvegsmenn í Bolungarvík mikla áherslu á að verkalýðsfélagið segði sig úr Alþýðusambandinu og gerðu það að skilyrði fyrir samningum. Færi félagið hins vegar ekki að þeirri kröfu „þá neyðist þorpsbúar til að taka til sinna ráða, og skal Verkalýðsfélag Bolungarvíkur úr því bera ábyrgð á afleiðingunum“. Þessari kröfu hafnaði verkalýðsfélagið alfarið.162 Flestir atvinnurekendur undirrituðu þó samninga við félagið að undanskildu einu fyrirtæki, Gunnarsson og Fannberg.

162 Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, bréf I. Samantekt Jens
E. Níelssonar, mars 1932.

Það gerðist svo í lok maí 1932 að Hannibal Valdimarsson, þáverandi formaður verkalýðsfélagsins Baldurs á Ísafirði og varaforseti Verklýðssambands Vesturlands (Alþýðusambands Vestfirðinga), var tekinn höndum af andstæðingum sínum í Bolungarvík og fluttur nauðugur til baka til Ísafjarðar. Hannibal hafði áður látið til sín taka í vinnudeilu sem þá stóð yfir í bænum, sem einmitt laut að því hvort taka ætti verkalýðsfélagið alvarlega en félagið var að reyna að fá samningsrétt viðurkenndan. Deilan stóð einkum við fyrirtækið Gunnarsson og Fannberg. Forsvarsmenn þess stóðu fyrir því að láta flytja Hannibal í bát eftir harðar ryskingar og héldu með hann til Ísafjarðar. En för andstæðinga verkalýðsfélagsins með Hannibal til Ísafjarðar varð ekki til fjár og var þeim stungið í fangelsi við komuna þangað.163 Verkalýðsforinginn sneri aftur til Bolungarvíkur með flokki manna, hélt þar fjölmennan fund og hvatti verkafólk til dáða. Meðan á deilunni stóð naut verkalýðsfélagið stuðnings Alþýðusambands Vestfirðinga. Var m.a.

163 Alþýðublaðið 30. maí 1932, 3.

stofnaður flokkur 70–80 manna hér á Ísafirði, og var hann alltaf til taks, ef reynt kynni að verða að koma til þeirra Högna og Bjarna [sem voru helstu andstæðingar verkalýðsfélagsins í Bolungarvík] salti eða öðrum vörum, sem þeim voru nauðsynlegar. Voru ávalt hafðir vökumenn um nætur og höfð gát á öllum báta- og skipaferðum“.164

164 Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, ýmis gögn 1924−1939.
Skýrsla um starfsemi Alþýðusambands Vestfirðingafjórðungs
frá í janúar 1931 til í febrúar 1933.

Verkalýðsfélagið fékk líka mikla hjálp frá Alþýðusambandinu sem setti afgreiðslubann á viðkomandi atvinnurekendur vegna tregðu þeirra við að ganga til samninga við verkalýðsfélagið. Samningar tókust loks eftir tveggja mánaða þóf og var þá afgeiðslubanninu aflétt.165

165 Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, ýmis gögn 1924−1939.
Skýrsla um starfsemi Alþýðusambands Vestfirðingafjórðungs
frá í janúar 1931 til í febrúar 1933.

Sagan sýnir því ekki einungis fjandskap við verkalýðshreyfinguna heldur einnig styrk hreyfingarinnar, enda vann félagið sigur í deilunni, en þó ekki hjálparlaust. Þeir sem höfðu ekki farið að boðum verkalýðsfélagsins máttu líka sjá eftir þeirri ákvörðun sinni. Sumum var vikið úr félaginu og urðu eftir það, a.m.k. um tíma, „að mæta afgangi við alla vinnu“. Aðrir urðu að greiða sekt til félagsins til að fá að vera þar áfram.166

166 Jón Brynjólfsson 1943, 223−226. − ÞÍ. Bréf Pálínu Jensdóttur
til ASÍ, verkamálaráðs 18. september 1932. Sögus. verkal. A01:
33/7. Sambönd og félög á Vestfjörðum.

Þess má geta að andstæðingar verkalýðshreyfingarinnar voru ekki þeir einu sem fluttu menn „hreppaflutningum“. Það fékk Sveinn Benediktsson að reyna árið 1932 þegar forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar á Siglufirði létu taka Svein nauðugan og flytja í varðskip á Siglufirði, auk þess sem honum var bönnuð dvöl þar.167 Sveinn var stjórnarmaður í Síldarverksmiðjum ríkisins en fyrirtækið átti í kjaradeilu á Siglufirði og Sveinn hafði deilt hart á formann verkalýðsfélagsins á staðnum, Guðmund Skarphéðinsson, og sakað hann um margháttaða spillingu.168 Guðmundur fannst látinn skömmu síðar í höfninni á Siglufirði.169

167 Sjá m.a. Morgunblaðið 2. ágúst 1932, 3.
168 Sveinn Benediktsson 1932 (Forsprakki niðurrifsmanna. Hver
er Guðmundur Skarphéðinsson), 2. − Sveinn Benediktsson
1932 (Forsprakki niðurrifsmanna í Siglufirði. Guðmundur
Skarphéðinsson afhjúpaður), 5−6.
169 Benedikt Sigurðsson 1989, 316−354.

Nokkur stærstu félögin höfðu náð fram viðurkenningu á tilvist sinni, formlega eða óformlega fyrir og um 1930, t.d. Baldur á Ísafirði árið 1926.170 En þar með var baráttu fyrir viðurkenningu á samningsrétti einstakra verkalýðsfélaga þó ekki lokið. Þegar Iðja var stofnuð árið 1934 þrjóskuðust sumir atvinnurekendur við að viðurkenna félagið. Björn Bjarnason, sem lengi var í forystu Iðju, hefur lýst hvernig því var svarað:

170 Sigurður Pétursson 2011, 251.

Þessu var svarað þannig að við hreinlega tókum hús af fyrirtækinu. Bárum starfsfólkið út á götu og umkringdum húsið með góðri aðstoð atvinnulausra verkamanna, sem komu neðan úr Verkamannaskýli okkur til aðstoðar. Auk þess var rætt við Héðin Valdimarsson, sem þá var formaður Dagsbrúnar og hann kom því til leiðar að hafnarverkamenn neituðu að skipa út smjörlíki frá Svani. Þetta varð til þess að eigendur fyrirtækisins gengu til samninga við okkur strax eftir hádegi sama dag …171

Vinnan XXIX (1979), 1. tbl., 6.

Baráttan varð því víða árangursrík, t.d. á Hólmavík. Þegar Jón Sigurðsson, erindreki ASÍ, var þar í ársbyrjun 1937 aðstoðaði hann félagið við samningsgerð. Kaupið fékkst hækkað umtalsvert, „fyrir utan ýms aukin fríðindi og réttindi svo sem: ½ tíma tvisvar á dag til kaffidrykkju án frádráttar, það var ekkert áður og svo komst það inn í samninga að atvinnurekendur mega ekki taka ófélagsbundna verkamenn“.172 En sums staðar stóð í ströggli, jafnvel eftir setningu vinnulöggjafarinnar árið 1938, sem síðar verður rætt um. Í Vestmannaeyjum höfðu til dæmis verið gerðar ítrekaðar tilraunir til þess að stofna stéttarfélag verslunarmanna og varð það loks að veruleika árið 1944. En viðurkenning á samningsrétti félagsins fékkst ekki fyrr en eftir harðvítugt verkfall þar sem öll önnur verkalýðsfélög í Vestmannaeyjum hófu samúðarvinnustöðvun auk þess sem önnur stéttarfélög beittu sér. Heita mátti að hafnbann væri í Vestmannaeyjum í vikutíma.173

172 ÞÍ. Jón Sigurðsson til ASÍ 31. janúar 1937. Sögus. verkal. A01
20/2. Skrifstofa. Bréfaskipti 1935−1939.
Vinnan IV (1946), 199.

Frá útför Guðmundar Skarphéðinssonar, verkalýðsleiðtoga á Siglufirði, en hann fannst látinn í höfninni á Siglufirði eftir að Sveinn Benediktsson hafði borið hann þungum sökum í blaðagreinum.

Stærri verkalýðsfélögin höfðu náð því fram á þriðja áratugnum að atvinnurekendur viðurkenndu þau sem samningsaðila og þau knúðu fram forgangsrétt félaga sinna til vinnu. Dagsbrún reið á vaðið. Félagið samþykkti í febrúar 1929 að frá 18. þess mánaðar væri meðlimum félagsins óheimilt að vinna með utanfélagsmönnum. Félagið vann síðan að því næstu árin að knýja þá sem stóðu utan hreyfingarinnar til að ganga inn í hana og atvinnurekendur urðu að láta sér þetta lynda. En þar með var líka búið að marka verkalýðshreyfingunni nýjan farveg, hún var ekki aðeins fyrir stuðningsmenn jafnaðarmanna heldur allt verkafólk. Það hlaut fyrr eða síðar að hafa áhrif á grundvöll hreyfingarinnar. Viðbrögð létu ekki á sér standa. Félagið var sakað um að vilja kúga fólk sem hafði aðrar skoðanir en jafnaðarmenn til að ganga í félög „þeirra“. Verkstjórar og atvinnurekendur boðuðu til fundar þar sem ákvörðun Dagsbrúnar var mótmælt og Landsmálafélagið Vörður hélt einnig mótmælafund.174 En Dagsbrún stóð við ákvörðun sína. Í kjölfarið settu önnur félög fram sams konar kröfu og fengu sams konar rétt viðurkenndan á næstu árum. T.d. gerði Verkakvennafélagið Framtíðin í Hafnarfirði kjarasamning árið 1927 þar sem voru ákvæði um forgangsrétt til vinnu. Fram að því hafði það gert félaginu erfitt fyrir að ófélagsbundnar konur voru ekki bundnar af samþykktum félagsins; á þessum ákvæðum var svo skerpt árið 1931. Forgangsréttinn fengu félagsmenn Hlífar viðurkenndan um svipað leyti.175 Sams konar réttur var viðurkenndur hjá Verkamannafélagi Húsavíkur árið 1931 en á Hvammstanga sama ár voru félagsbundnir verkamenn í vandræðum því að þeir voru útilokaðir frá vinnu hjá helsta atvinnurekanda staðarins. Framsókn í Reykjavík samdi um forgangsréttinn formlega árið 1937. Í kjölfarið gekk í félagið fjöldi verkakvenna sem staðið hafði utan þess.176

174 Morgunblaðið 5. mars 1929, 2.
Ásgeir Guðmundsson 1983 III, 28. − Ásgeir Guðmundsson
1985, 21−22. − Ólafur Þ. Kristjánsson 1977, 38.
176 Margrét Guðmundsdóttir 1983, 31−32. − Guðmundur Vigfús-
son 1946, 100 (Frá verkalýðsfélögum úti um land). − Þór
Indriðason 1996 III, 15. − Sjá einnig Verkalýðsfélag Akraness 50

Svonefnd Krossanesdeila árið 1930 stóð um þetta mál auk þess sem þess var krafist að greidd væru sömu laun þar og á Akureyri og að norskir verkamenn hefðu sömu kjör og þeir íslensku.177 Verkalýðsfélag Glerárþorps krafðist þess að félagsmenn þess hefðu forgang til vinnu í verksmiðjunni í Krossanesi við Akureyri en framkvæmdastjórinn taldi sig ekki geta „gengið inn á neina takmörkun á sjálfsögðum rjetti sínum, til að ráða verkafólk án íhlutunar annara“. Hann varð þó að gefa sig eftir tæpra tveggja vikna verkfall.178

Jón Rafnsson 1957, 82−85.
178 Morgunblaðið 20. júlí 1930, 5.

Verkamenn í Reykjavík, trúlega félagar í Dagsbrún kringum 1930. Dagsbrún samþykkti árið 1929 að banna meðlimum sínum að vinna með utanfélagsfólki. Í baksýn eru Pólarnir, húsnæði á vegum Reykjavíkurbæjar sem ekki fór gott orð af.

Ein mikilvægasta krafa verkalýðshreyfingarinnar fyrsta aldarfjórðunginn var því að fá viðurkenningu á tilverurétti sínum: fá viðurkenndan rétt til að gera kjarasamninga, að kauptaxtar væru virtir og að fallist væri á forgangsrétt til vinnu. Að þessu vann Alþýðusambandið í samvinnu við einstök verkalýðsfélög, t.d. með samþykkt tillagna þessa efnis á þingum sínum. Þar var því beint til einstakra verkalýðsfélaga að þau gerðu kröfu um að fá forgangsrétt til allrar vinnu og jafnframt að félagsmenn í einstökum félögum neituðu að vinna með utanfélagsfólki.179 Jón Sigurðsson, erindreki ASÍ, staðhæfði í blaðagrein árið 1936 að sambandið hefði „pínt“ atvinnurekendur til þess að taka ekki aðra í vinnu en þá sem væru í „alþýðusamtökunum“, þ.e. í einhverju aðildarfélaga ASÍ í Reykjavík, Hafnarfirði, á Ísafirði, Akranesi, Blönduósi og enn víðar.180

179 Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 11. sambandsþing 1932, 14.
180 Benedikt Sigurðsson 1990, 60, 66−69.

Forgangsréttarákvæðið var afar mikilvægt af mörgum ástæðum og skipti sköpum fyrir tilverurétt hvers verkalýðsfélags og þar með ASÍ. Ef þetta ákvæði fékkst viðurkennt í kjarasamningi mátti ganga að því sem vísu að flest eða allt verkafólk á viðkomandi svæði gengi í félagið, enda gátu utanfélagsmenn þá átt erfitt með að fá starf. Mikil þátttaka í félaginu tryggði tilveru þess og tekjur frá félagsmönnum og þar með einnig grunn heildarsamtakanna. Ákvæði þessa efnis komu líka í veg fyrir að atvinnurekendur gætu ofsótt forystumenn viðkomandi félags eða almenna félagsmenn eins og mörg dæmi voru um, bæði hérlendis og erlendis.181 Einstök félög voru reiðubúin að leggja mikið í sölurnar til þess að fá forgangsréttinn viðurkenndan og þar með aukið atvinnuöryggi fyrir félagsmenn sína. Launalækkun kom jafnvel til greina ef þessi réttur fengist viðurkenndur, eins og dæmi voru um, til dæmis á Blönduósi árið 1932.182

Sjá m.a. Christensen, Lars K.; Kolstrup, Søren; Hansen,
Anette Eklund 2007, 61, um hvernig þessu var háttað í
Danmörku.
182 Stefán Hjartarson, handrit, 327−330.

Tilkynning frá Framtíðinni í Hafnarfirði um forgang félagskvenna til vinnu.

Þegar hreyfingin var komin á góðan rekspöl með að fá forgangsréttarkröfuna viðurkennda nýttu einstök félög sér þennan rétt til þess að knýja það fólk sem enn stóð utan félaganna til þess að ganga í félögin. Það var gert á ýmsan máta, m.a. með því að félagsbundið verkafólk neitaði að vinna með ófélagsbundnu fólki, svo sem þegar hefur verið getið. Verkamannafélag Akureyrar gekk nokkuð langt í þessa átt og hafði ákvæði í lögum sínum þess efnis að félagsmönnum væri óheimilt að hýsa nokkurn sem ætlaði sér að stunda vinnu í bænum, nema að viðkomandi gengi í Verkamannafélagið. Þessi ákvæði giltu jafnvel þó að um náin skyldmenni væri að ræða. Þá átti félagsmaður að hafa rétt til að ganga úr vinnu ef utanfélagsmaður var settur til vinnu á vinnustað hans. Þessi ákvæði leiddu til þess, að sögn Alþýðublaðsins, að „því nær allir verkamenn í bænum eru í félaginu“.183 Í Reykjavík var staða verkalýðshreyfingarinnar orðin svo sterk árið 1932 að félagar í Dagsbrún neituðu að vinna með þeim sem ekki voru „félagsskráðir“. Gat þá atvinnurekandinn valið um að láta viðkomandi fara eða að aðrir starfsmenn legðu niður vinnu.184

183 Alþýðublaðið 3. nóvember 1919, 1.
184 Alþýðublaðið 15. febrúar 1932, 2.

Á Siglufirði var á fjórða áratugnum sá háttur hafður á að þar var náið fylgst með aðkomufólki og stundum hafði Alþýðusambandið fulltrúa sinn þar. Með eftirlitinu var ætlunin að tryggja að ófélagsbundið fólk gengi í verkalýðsfélagið á staðnum og gerðist að minnsta kosti aukafélagar ef það var ekki heimafólk og ekki í verkalýðsfélagi annars staðar. Væri fólk hins vegar í verkalýðsfélagi annars staðar var vissara að hafa með sér félagsskírteini, enda féll „búsetuskilyrðið“ niður ef viðkomandi var „góður og gildur verklýðs- eða sjómannafélagi annarsstaðar … því stéttarfélagarétturinn er æðri staðar réttinum“.185 Þá gilti að vera í félagi sem tilheyrði Alþýðusambandinu; aðild að félagi utan þess var ekki tekin gild, enda ættu

Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, ýmis gögn 1924−1939.
Starfsemi verklýðsfélagsins „Baldur“ á Ísafirði 1934.

þeir, sem hallast á sameiningarsveifina … að fá rétt sinn betur tryggðan, en hinir sem sundrungu vilja og klofning. Á þetta og slík atriði því að fækka þeim mönnum sem klofningnum þjóna, fjölga þeim sem samtökin efla og flýta þannig fyrir vaxandi mætti alþýðusamtakanna.186

186 Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, ýmis gögn 1924−1939.
Starfsemi verklýðsfélagsins „Baldur“ á Ísafirði 1934.

Líka skyldi tryggja að farið væri eftir töxtum eins og Alþýðublaðið lýsti í grein árið 1929:

Það munu verða hafðar gætur á fyrir hvað fólk ræður sig hingað, og komi nú á daginn að menn finnist, sem svo lágt eru fallnir í net atvinnurekenda að þeir vinni fyrir neðan taxta verkamannafélagsins hér, þá mun þeim mönnum verða svarað á viðeigandi hátt, og gæti orðið spursmál um hvort að vinnukaupandi, sem þannig hagaði sér, myndi hafa þörf á fólki það sem eftir væri sumarsins.187

187 Alþýðublaðið 20. apríl 1929, 6−7.

Loks voru dæmi þess að einstök verkalýðsfélög færu fram á það við Alþýðusambandið að það kæmi í veg fyrir að tiltekið fólk fengi vinnu fjarri heimabyggð (í verstöðvum, ekki síst á Siglufirði) nema það gengi í verkalýðsfélag og þá helst það félag þar sem fólkið bjó að staðaldri.188 Sveinbjörn Oddsson, formaður Verkalýðsfélagsins á Akranesi, sendi til dæmis Jóni Sigurðssyni erindi til Siglufjarðar árið 1936:

188 M.a. Nikulás Ægisson 1996, 83.

Beykjar á Akureyri, líklega á fjórða áratugnum. Forgangsréttur til vinnu var eitt stærsta mál verkalýðshreyfingarinnar á þeim tíma.

Nokkrar konur og stúlkur fara héðan norður en eru ekki í félaginu hér; þar á meðal 2 dætur Þórðar Ásmundssonar og sagðist önnur ætla að ganga í félagið á Siglufirði. Kona Árna Sigurðssonar á „Frigg“ og 2 dætur hans fara líka og kona Árna hefur haft svipuð svör. Ég trúi ekki öðru en að koma megi við kaunin þeirra og ég treysti því að svo verði gert. Að þær komi ekki aftur án þess að vera komnar í félag.189

189 Hér eftir Stefán Hjartarson, handrit, 329−330. Úr bréfi til
Jóns Sigurðssonar frá Sveinbirni Oddssyni, Akranesi, 3. júlí
1936.

Á þennan hátt unnu Alþýðusambandið og einstök félög að því að tryggja sem mesta þátttöku í verkalýðshreyfingunni og var það gert bæði með góðu og illu, og þeim verkamönnum sem stóðu utan félags, og voru gjarnan utanbæjarmenn, vísað frá vinnu.190

190 Ólafur Þ. Kristjánsson 2007, 86.

Forgangsréttarkrafan og krafan um viðurkenningu á samningsrétti verkalýðsfélaganna var líka valdabarátta í þeim skilningi að hreyfingin var að vinna sér sess og viðurkenningu í samfélaginu sem einn af þeim samfélagslegu kröftum sem taka varð tillit til. Segja má að þessu skeiði hreyfingarinnar hafi „lokið“ um eða eftir miðjan fjórða áratuginn og þá taki við skeið þar sem verkalýðshreyfingin var tvímælalaust í valdaaðstöðu, var viðurkennd sem einn af aðalleikendunum og hafði mikil áhrif á gang samfélagsmála.191

Sjá m.a. umræðu um þetta hjá Bjørnhaug, Inger; Halvorsen,
Terje 2009, 98.

Að hjálpa sér sjálfur

Sem fyrr getur var frá öndverðu mikill áhugi á því innan verkalýðshreyfingarinnar að hreyfingin stuðlaði að sem mestri sjálfshjálp verkafólks: að það tæki málin í eigin hendur með því að stórauka garðrækt og annað það sem að gagni mætti koma í lífsbaráttunni.192 Fyrsta stig þessarar sjálfshjálpar var að stuðla að því að verkafólk gæti sjálft framleitt og útvegað sér mikilvægar lífsnauðsynjar. Liður í því gat verið að leigja land þar sem mátti stinga mó til eldsneytis. Sum verkalýðsfélög keyptu eða leigðu land til túnræktunar og garðræktar á öðrum, þriðja og fjórða áratugnum. Það gerði til dæmis Verkamannafélagið Dagsbrún í Reykjavík þegar árið 1913 þegar félagið fékk land í erfðafestu til ræktunar á Melunum í Reykjavík. Áhugi félagsmanna Dagsbrúnar á þessu framtaki reyndist þó ekki brennandi og lét félagið Félagsteiginn, eins og landið var nefnt, af hendi til borgarinnar árið 1932, gegn greiðslu.193 Miklu meiri áhugi var á starfsemi af þessu tagi úti um land. Verkalýðsfélagið á Akranesi keypti t.d. land til nota fyrir félagsmenn sína á fjórða áratugnum. Á Eskifirði hafði Verkamannafélagið Árvakur frumkvæði að því að hreppsnefndin fékk lán til þess að koma af stað garðrækt í þorpinu. Það varð til þess að „á nöktum melum [risu] stærstu samfelldu kartöflugarðar, sem sést hafa á Austfjörðum, og var að þeim bæjarprýði auk nytsemdarinnar“.194 Og á Stokkseyri stóð Verkamannafélagið Bjarmi fyrir því að útvega 30 hektara lands sem það lét girða og hafði til ræktunar fyrir félagsmenn sína.195

192 Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 13. sambandsþing 1936, 91.
193 Þorleifur Friðriksson 2007, 145−147.
194 Einar Bragi Sigurðsson 1983, 148.
195 Vinnan XIV (1974), 1.−2. tbl., 25.

Netagerðarmenn að störfum á millistríðsárunum; á vertíðinni var mikill fjöldi aðkomufólks á Siglufirði og þessir eru trúlega í þeim hópi.

Sumir keyptu sér jafnvel kú, kindur eða geitur. Stundum voru tvær fjölskyldur um eina kú og skiptu nytinni á milli sín, einkum í þorpum úti um land. Fjölskylda á Suðureyri við Súgandafjörð átti „í nokkur ár tvær geitur og var það eina mjólkin sem við fengum … Konan og krakkarnir sáu um búskapinn að öðru leyti, en því að ég sló heyið. Seinna átti ég hálfa kú og keypti ég hey handa henni, en meðeigandi sá um hirðingu og mjaltir“. Þannig lýsti alþýðumaður á Súgandafirði sínu bjargræði.196 Bjarnfríður Leósdóttir segir að á Skaganum hafi flestir á þessum tíma verið með „kýr, kindur og hænsni … og margir höfðu líka kartöflur sem aukabúgrein … Maturinn var þannig mikið heimafenginn á kreppuárunum“. Fullyrt var að þessi starfsemi hefði bjargað mörgum frá hungri á fjórða áratugnum.197 Þess voru líka dæmi að menn fengju sér bát til þess að fiska í soðið, t.d. verkamannafjölskylda á Akureyri. Þá var róið út á Pollinn og dorgað í matinn. Fiskurinn var síðan borðaður ferskur eða saltaður og geymdur til vetrarins. Sama fjölskylda hafði líka kindur: „Fjöldinn allur sem gerði þetta hér í bæ, það var ekki hægt að tóra öðru vísi“.198 Svo var tóvinnan mikilvæg, konur „unnu ullina og prjónuðu sjóvettlinga og leista fyrir sjómenn og til útflutnings“.199

196 ÞÞ A: 5946. kvk 1899.
197 Elísabet Þorgeirsdóttir 1986, 22−23. − Verkalýðsfélag Akraness
3. − Einnig Jón Sigurðsson 1939, 3−4.
198 ÞÞ A: 5949. kvk 1903, 34.
199 ÞÞ A: 5869. kk 1896.

Félagsskírteini Jóns Sigurðssonar frá 1935 og þar fylgja heilræði til félagsmanna.

Kýr á beit á Ísafirði. Á fyrri hluta aldarinnar reyndi margt alþýðufólk að halda búfé til þess að bæta afkomu sína.

Næsta skref þessarar sjálfshjálpar var að útvega sér neysluvörur með sem minnstum tilkostnaði, sérstaklega með því að fækka milliliðum og hafa yfirbyggingu viðskiptanna sem minnsta. Það gerðu mörg verkalýðsfélög með því að stofna pöntunarfélög, eins og annars staðar er getið um. Fyrirmyndir mátti víða fá. Samvinnuhreyfingin hér á landi var augljóst fordæmi þó að hérlendis tengdist hún einkum samtökum bænda. Svo voru fordæmi frá öðrum löndum, ekki síst frá Danmörku, sem var helsta fyrirmynd margra íslenskra verkalýðssinna. Þar voru byggð upp öflug samvinnufyrirtæki á vegum verkalýðshreyfingarinnar á mörgum sviðum, bæði neytendafélög og félagslegur atvinnurekstur. Mestum árangri á þessu sviði náðu samvinnufyrirtæki verkamanna í Danmörku í brauðgerð, mjólkurvinnslu og ölgerð. Og banki alþýðunnar varð að veruleika þar í landi árið 1919 (Arbejdernes Landsbank).200

200 Christiansen, Niels Finn 1990, 158−159. − Tørnehøj, Henning
1998, 139, 205. − Christensen, Lars K; Kolstrup, Søren;
Hansen, Anette Eklund 2007, 116−118.

Margs konar tilraunir voru einnig gerðar á þessu sviði hér á landi. Hér að framan hefur verið getið um nokkrar slíkar en fleiri fylgdu í kjölfarið. Til dæmis hafði Verkamannasambandið (stofnað 1907) frumkvæði að stofnun pöntunarfélags og Verkamannafélagið Dagsbrún eða skyldir aðilar stóðu einnig fyrir sameiginlegum innkaupum félagsmanna.201 Hið sama gerði Verkamannafélag Akureyrar sem stóð að stofnun Kaupfélags verkamanna árin 1915–1916.202 Sameiginleg innkaup eða stofnun pöntunarfélags varð síðan hluti af starfsemi margra verkalýðsfélaga í landinu. Rekstur þeirra gekk vitaskuld misjafnlega og oft urðu erfiðleikar í vegi þessara félaga sem leiddu til þess að starfsemi þeirra lagðist af, jafnvel að verkalýðsfélögin biðu hnekki af starfseminni. En sum félaganna döfnuðu vel.203 Þegar vel gekk var yfirleitt tekið annað skref með stofnun kaupfélags. Það var til dæmis gert í Reykjavík, á Akureyri og á Ísafirði; í Reykjavík var Kaupfélag alþýðu stofnað árið 1931 og opnaði sína fyrstu verslun í verkamannabústöðunum árið eftir, og síðar sama ár aðra verslun í Austurbænum í Reykjavík.204 Það varð síðar að Kaupfélagi Reykjavíkur. Nokkru síðar hófst starfsemi Kaupfélags alþýðu í Vestmannaeyjum.205

201 Pétur G. Guðmundsson 1930, 6. − Þorleifur Friðriksson
2007, 150−167.
202 Dagsbrún 20. nóvember 1915, 74. − Alþýðublaðið 1. nóvember
1919, 1.
203 Sjá m.a. Alþýðublaðið 3. janúar 1933, 3.
204 Alþýðublaðið 20. október 1933, 3.
205 Alþýðublaðið 1. júní 1934, 3.

Forsvarsmenn þessara félaga fylgdust með því sem var að gerast í nágrannalöndunum. Til dæmis gerði Jens Figved, forstjóri Pöntunarfélags verkamanna (stofnað 1934), sér ferð til Englands og Svíþjóðar árið 1937 „til þess að kynna sér rekstur nýtízku neytendafyrirtækja“ en líka til þess að undirbúa sameiningu félaga í Reykjavík og nágrenni þess.206 Af þeirri sameiningu varð árið 1937 er Kaupfélag Reykjavíkur, Pöntunarfélag verkamanna í Reykjavík, Pöntunarfélag Verkamannafélagsins Hlífar og pöntunarfélög í Keflavík og Sandgerði sameinuðust í Kaupfélagi Reykjavíkur og nágrennis, KRON.207 Það var stefna Alþýðuflokksins og ASÍ að mikilvægir þættir verslunar ættu að vera reknir af hinu opinbera og samvinnufélögum fremur en einkaaðilum. Þau félög sem hér er getið voru þó oftar en ekki undir stjórn kommúnista og róttækra jafnaðarmanna.

206 Nýtt land 2. árg., 3. tbl., maí−júní 1937, 66.
207 Sveinbjörn Guðlaugsson, 1938, 2−3. − Ólafur Þ. Kristjánsson
2007, 68.

Sett niður í kartöflugarð á Akureyri. Verkalýðshreyfingin hvatti fólk til þess að reyna að bjarga sér sjálft eftir getu, og víða um land vann hreyfingin að því að útvega fólki land fyrir garðana.

Sauðfé á Akranesi. Margt alþýðufólk átti kindur eða geitur og gat á þann hátt lagt mikilvægar afurðir til heimilisins, mjólk, kjöt og ull.

Jafnaðarmenn og forystufólk í verkalýðshreyfingunni víða um land gerðu einnig tilraunir til að stofna og reka fyrirtæki í margs konar framleiðslu á félagslegum grunni. Fyrirtækin voru þá annaðhvort í eigu bæjarfélaga sem jafnaðarmenn stjórnuðu eða verkalýðshreyfingarinnar. Dæmi þess voru m.a. kúabú og útgerðarfélög af ýmsu tagi víða um land, t.d. á Ísafirði, Siglufirði og Stykkishólmi. Helsta fyrirtækið á þessum grunni sem Alþýðusambandið tengdist var Alþýðubrauðgerðin. Hún var stofnuð árið 1917. Ágúst Jósefsson lýsti tildrögunum að stofnun bakarísins svo:

Í ársbyrjun 1917 hækkuðu bakarar brauðverðið, og kom það mjög tilfinnanlega við verkafólk og aðra láglaunamenn. … Hinn 22. marz var fundur haldinn í verkamannafélaginu Dagsbrún, og flutti þáverandi formaður félagsins, Jörundur Brynjólfsson, erindi um neyzlu bæjarbúa á brauði og fiski og verðlag á þessum fæðutegundum. Taldi hann nauðsynlegt, að alþýðufélögin reyndu að stofna sameiningarbrauðgerð, til þess að tryggja það, að verkafólk gæti fengið brauðvörur á sannvirði.208

208 Alþýðublaðið 28. október 1937, 2−3.

Ottó N. Þorláksson lagði svo fram tillögu á fundinum um að skora á stjórn Alþýðusambandsins að stuðla að stofnun brauðgerðar.209 Þar með voru lögð drög að langöflugasta fyrirtæki sem íslensk alþýðusamtök stóðu að.

209 Alþýðublaðið 28. október 1937, 2−3.

Verslun KRON í Keflavík á fjórða áratugnum, það er líklega sendill sem stendur við hjólið.

Fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Reykjavík hafði forgöngu um stofnun brauðgerðarinnar og var haldinn fundur þess efnis í október 1917. Fyrirtækið var í eigu þeirra félaga í Reykjavík sem voru í Alþýðusambandinu; er það „einn þáttur í starfsemi Sambandsins“, eins og sagði í lögum brauðgerðarinnar, og fyrsti forstjórinn varð einmitt forseti sambandsins, Jón Baldvinsson. Fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Reykjavík kaus stjórn fyrirtækisins en það var í eigu þess og Alþýðusambandsins. Jón gegndi starfi forstjóra frá 1918 til 1930 er hann hóf störf sem bankastjóri Útvegsbankans. Fjársöfnun fór fram til þess að koma fyrirtækinu á fót og urðu undirtektir ágætar.210

210 Alþýðublaðið 28. nóvember 1919, 1−2. − Alþýðublaðið 25.
nóvember 1940, 1−2.

Fyrirtækið dafnaði vel og varð meðal helstu brauðgerðarhúsa borgarinnar, og iðulega með lægsta brauðverðið. Það hóf reksturinn í Fischerssundi 3 í Reykjavík en sú aðstaða varð fljótt ófullnægjandi og var þá flutt að Laugavegi 61. Þá var Brauðgerðin með útibú í Verkamannabústöðunum við Hringbraut frá 1934. Á fjórða áratugnum stofnaði fyrirtækið útibú í Hafnarfirði, Keflavík og á Akranesi. Svo umfangsmikill var reksturinn orðinn á ofanverðum fjórða áratugnum að hátt í hundrað manns störfuðu hjá fyrirtækinu.211 En mikilvægi þess fólst ekki eingöngu í því að bjóða góð brauð á góðu verði. Fyrirtækið varð fljótlega einn helsti fjárhagslegi bakhjarl Alþýðusambandsins en fjárhagur þess, og sérstaklega Alþýðublaðsins, var löngum erfiður, sem fyrr getur. Háar fjárhæðir runnu frá brauðgerðinni til styrktar starfsemi flokks og sambands.

Alþýðublaðið 28. október 1937, 2.

Félagslíf

Þegar í árdaga verkalýðshreyfingarinnar gerðu menn sér ljóst að brýnt væri að sameina gaman og alvöru og að alþýðan ætti sér líka eigin menningu. Menningarstarfsemi varð því frá öndverðu mikilvægur þáttur í starfi margra verkalýðsfélaga á sama hátt og í nágrannalöndunum.212 Einstök félög stóðu fyrir skemmtunum og fyrirlestrum, sönghópum var komið á fót og kórastarf varð algengt. Ein slík skemmtun var t.d. haldin á vegum verkalýðsfélaganna í Reykjavík í júní 1922. Hún hófst með skrúðgöngu „frá Báruhúsinu og inn að Tungu“. Gestir voru boðnir velkomnir og þeim skýrt frá „þýðingu rauða fánans“ sem væri „tákn kærleika og bróðernis meðal mannanna“. Því næst var sungið lagið Ó, fögur er vor fósturjörð við lúðraþyt. Þá hélt Pétur G. Guðmundsson ræðu fyrir minni Alþýðuflokksins, Jón Jónatansson talaði um mátt samtakanna og Ólafur Friðriksson ræddi um örbirgð og auð. Því næst voru sungin lögin Hin ungborna tíð, Stríðssöngur jafnaðarmanna og Internasjónalinn. „Síðan skemtu menn sér við leiki, danz og lúðrahljóm, meðan veður leyfði“.213 Skemmtanir af þessu tagi urðu síðan fastur liður í starfi alþýðusamtakanna í Reykjavík og víða um land og áttu sér fyrirmyndir í öðrum félögum, bæði bindindishreyfingunni og ungmennafélagshreyfingunni, og svo voru fyrirmyndir mikið sóttar til jafnaðarmannahreyfinganna á Norðurlöndum.214

212 Varðandi yfirlit um þessi mál í Danmörku, sjá Christensen,
Lars K.; Kolstrup, Søren; Hansen, Anette Eklund 2007, 119.
Alþýðublaðið 26. júní 1922, 4.
214 Sjá m.a. Ragnheiður Kristjánsdóttir 2008, 127−128.

Eftir að verkalýðsfélögin í Reykjavík höfðu fengið fastan samastað í Alþýðuhúsinu í Iðnó við Reykjavíkurtjörn varð allt samkomuhald auðveldara. Samkomustaður félaganna í Rauðhólum í Reykjavík var einnig vinsæll yfir sumarmánuðina en fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Reykjavík hafði fengið landskika þar til umráða hjá bæjarstjórn Reykjavíkur árið 1933. Miklar áætlanir voru uppi um að gera Rauðhóla að griðastað alþýðunnar, fyrir fólkið „sem um eitt skeið varð að yfirgefa sveitina sína og „setjast upp á mölinni“ [og] hefir marga stundina mátt sakna gróanda vorsins og blómaanganar sumarsins“; já, söknuður eftir sveitinni birtist sannarlega í þessum orðum greinarhöfundar.215 Litið var á Rauðhólana sem nýtt landnám alþýðunnar. Rækta átti upp svæðið og það var girt. Lagst var í ýmiss konar framkvæmdir, t.d. var gerður pallur á botn eins gígsins og átti hann þannig að geta verið „tilbúið hringleikhús með skjóli í öllum veðrum“. Mikið var um að vera þegar útivistarstaður alþýðunnar var vígður í júní 1934. Svo var þar mikil skemmtun í ágúst sama sumar og var þá búið að koma upp danspalli „í botni dýpstu gjótunnar“, eins og það var orðað, og var dansað þar fram á nótt. Árið eftir var komið upp veitingaskála á svæðinu og var verkafólk hvatt til að nýta sér aðstöðuna, enda hvergi betra að liggja í sólbaði en í Rauðhólum „þegar sólin skín“.216 Rauðhólar voru nýttir sem samkomustaður um árabil og sóttu þangað þúsundir manna þegar flest var en hætt var að nýta staðinn fljótlega eftir síðari heimsstyrjöldina. Árið 1947 gaf fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Reykjavík Verkakvennafélaginu Framsókn, Þvottakvennafélaginu Freyju og Mæðrafélaginu skálann í Rauðhólum og var þar síðan rekið sumardvalarheimili fyrir börn alþýðufólks um langt árabil á vegum félagsskapar sem hét Vorboðinn og félögin stóðu að.217

Alþýðublaðið 25. ágúst 1934, 3.
216 Alþýðublaðið 22. júní 1933. − Alþýðublaðið 28. ágúst 1934, 3.
217 19. júní 1959, 28.

Í Pöntunarfélagi Norðfjarðar árið 1937. Þar mátti fá vörur af margvíslegu tagi, t.d. Corn Flakes og hafragrjón.

Annars var félagslíf hjá almennum verkalýðsfélögum yfirleitt svipað. Félagsfundir voru haldnir svona átta til tíu sinnum á ári. Sum félög höfðu þó fundi enn tíðar og ekki var óalgengt að tekin væru til umræðu málefni sem ekki höfðu beina skírskotun til kjarabaráttunnar. Á fundum Baldurs á Ísafirði voru t.d. flutt erindi um eftirfarandi mál árið 1932: Kirkjumál, bannmálið, atvinnubætur og byltingarhæfni, Björnstjerne Björnsson sem verkalýðssinna, minningu Saccos og Vanzettis. Öll þessi erindi flutti formaður Baldurs, Hannibal Valdimarsson, að undanskildu erindi um bannmálið. Svo flutti Gunnar Benediktsson erindi sem hann nefndi Skriftamál uppgjafaprests.218 Verkamannafélagið Dagsbrún hélt yfirleitt árshátíð, og jólatrésskemmtun fyrir börn var orðinn fastur liður á fjórða áratugnum. Skemmtiferðir á sumrin voru þá einnig farnar að tíðkast, eins konar undanfari orlofsferða síðar. Til dæmis var á vegum Dagsbrúnar farin skemmtiferð til Þingvalla í júní 1933 og fóru um 450 manns „í kassabílum frá Vörubílastöðinni“.

218 Lbs. Hdr., Hannibal Valdimarsson, ýmis gögn 1924−1939.
Skýrsla um starfsemi verkalýðsfélagsins „Baldur“ 1932.

Alþýðubrauðgerðin á Laugavegi í Reykjavík.

1. maí

Alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins, 1. maí, var haldinn hátíðlegur hér á landi í fyrsta sinn árið 1923 með kröfugöngu, en áður höfðu hinir róttækustu þó haldið „innisamkomur“ til þess að minnast þessa dags og rússneska byltingardagsins, 7. nóvember.219 Upphaf þess að 1. maí var gerður að alþjóðlegum baráttudegi verkafólks má rekja til Bandaríkjanna og var tilefnið krafan um átta stunda vinnudag sem American Federation of Labour hafði forgöngu um að setja á oddinn árið 1886, og varð 1. maí táknrænn fyrir þá baráttu. Á fyrsta þingi Annars alþjóðasambandsins sem haldið var í París 1889, á 100 ára afmæli frönsku byltingarinnar, var ákveðið að gera kröfuna um átta stunda vinnudag að helstu kröfu verkafólks á alþjóðlegum baráttudegi, 1. maí.220 Þegar árið eftir voru haldnar kröfugöngur 1. maí víða í Evrópu og Norður-Ameríku til þess að leggja áherslu á kröfuna um átta stunda vinnudag.

219 Hendrik Ottósson 1943, 62.
220 Bjørnson, Øvind 1990, 240−241. − Tørnehøj, Henning
1998, 104.

Árið 1889 var einnig ákveðið á þingi Annars alþjóðasambandsins að rauði fáninn skyldi verða tákn fyrir baráttu verkamanna og sameiningarmerki þeirra, en rauði fáninn hafði einmitt verið tákn byltingarsinna í febrúarbyltingunni í Frakklandi árið 1848 og síðar tákn Parísarkommúnunnar 1871.221 Á fyrri hluta þriðja áratugarins var farið að nota rauða fánann á fundum Alþýðusambandsins og þá varð einnig til fáni og merki sambandsins, rauður fáni með þremur örvum sem voru tákn frelsis, jafnréttis og bræðralags.

221 Bjørnson, Øvind 1990, 253.

Íslensk verkalýðshreyfing lét fyrst að sér kveða á 1. maí 1923. Hátíðahöldin í Reykjavík voru skipulögð af nefnd á vegum fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna. Formælendur þess munu m.a. hafa verið Ólafur Friðriksson og Hendrik Ottósson og voru þeir félagar skipaðir í undirbúningsnefnd auk Þuríðar Friðriksdóttur og fleiri félaga.222 Við ramman reip var að draga því að 1. maí 1923 var virkur dagur og fólk þurfti að taka sér frí úr vinnu ef það vildi taka þátt.223 Hendrik skrifaði brýningargrein í Alþýðublaðið og erindrekar fóru um til þess að safna saman fólki; tókst það „furðanlega … þrátt fyrir hótanir og illyrði sumra verkstjóra. … Nokkrir danskir og sænskir smiðir, sem unnu í Hamri neituðu afdráttarlaust að vinna 1. maí. Það væri ekki siður í löndum þeirra“.224 Einn „erindrekanna“ sem stóð í að fá fólk í gönguna var móðir Hendriks, Carolíne Siemsen, en hún fór um og skoraði á meðlimi verkakvennafélagsins að hætta að vinna á hádegi og taka þátt í kröfugöngunni.225

222 Pétur Pétursson 1996, 62−65.
223 Hendrik Ottósson 1923, 3−4.
224 Hendrik Ottósson 1943, 62−63.
225 Pálína Þorfinnsdóttir 1945, 15.

Sumar kröfurnar í göngunni 1923 eru gamalkunnar, t.d. krafan um að „þurftarlaun“ ættu að vera skattlaus. Aðrar kröfur voru tímanna tákn, t.d. krafan um algert áfengisbann. Þegar þessi ganga var farin var ár liðið frá því að heimilað var að selja Spánarvín í landinu eftir nokkurra ára algert áfengisbann en ASÍ vildi hafa algert bann áfram. Einnig var krafist réttlátrar kjördæmaskipunar, settar fram kröfur um bann við helgidagavinnu og næturvinnu, engar kjallarakompur samþykktar, bæjarlandið skyldi ræktað og atvinnubætur greiddar gegn atvinnuleysi. Kröfur voru um að framleiðslutæki ættu að verða þjóðareign en þó má ljóst vera að kröfurnar voru hvergi nærri eins róttækar og tíðkaðist í mörgum nágrannalöndum Íslands á þessum tíma. Hér voru engir byltingarseggir á ferð.226

226 Vinnan I (1943), 61. − Sigurður Pétursson 1990, 84−86.

Síðar áttu 1. maí-göngur eftir að verða margbrotnari. Auk rauðra fána báru fulltrúar einstakra stéttarfélaga merki sín og fána, til aðgreiningar frá öðrum hópum, og var metnaðarmál að sem flestir gengju undir merki viðkomandi félags. Á slíkum fánum voru yfirleitt tákn sem áttu að vera auðlæsileg og gefa til kynna hvers konar starfsstétt eða hópur fylkti sér um merkið, t.d. skófla, tannhjól, hamar, steðji eða annað slíkt. Þjóðfáninn var líka yfirleitt borinn í göngunni, a.m.k. á Akureyri að sögn Tryggva Emilssonar, og slíkt tíðkaðist líka í Reykjavík þar sem íslenski fáninn var borinn auk rauða fánans og ættjarðarlög sungin í bland við byltingarljóð.227

227 Tryggvi Emilsson 1977, 248. − Sjá einnig. Ragnheiður
Kristjánsdóttir 2008, 127−130.

Í fyrstu 1. maí-göngunni árið 1923.

Kröfuganga á 1. maí í Reykjavík á fjórða áratugnum; trúlega eru einkennisklæddir ungir jafnaðarmenn í fararbroddi.

„Töffarar“ í verkamannastétt, reykjandi með derhúfur. Á fyrri hluta 20. aldar efldist mjög vitund verkafólks um sjálft sig sem hóp með eigin menningu.

Í fyrstu 1. maí-göngunni í Reykjavík var gengið frá Vonarstræti og upp í Þingholt en síðan Laugaveginn niður í bæ. Rauður fáni var í fararbroddi, á eftir honum fylgdi lúðrasveit en síðan forysta ASÍ. Eftir gönguna var fundur á horni Ingólfsstrætis og Hverfisgötu en þar átti Alþýðusambandið lóð og þar reis síðar Alþýðuhúsið, sem fyrr getur. Á fundinum voru haldnar ræður og sungið og lúðrasveit lék verkamannasöngva. Ræðumenn stóðu á grjóthrúgu í grunninum. Blaðamaður Alþýðublaðsins var ánægður með gönguna, kvað um eða yfir 500 manns hafa tekið þátt í henni en 3000–4000 hefðu verið á útifundinum, „að börnum frátöldum“. En Morgunblaðið var á annarri skoðun og áleit að í göngunni hefðu verið 40–50 manns, svo að þarna bar nokkuð á milli.

Síðar var farið að halda upp á 1. maí með kröfugöngum og fundum víða um land, t.d. í fyrsta sinn á Siglufirði árið 1929.228 Það var einnig gert á Akureyri árið 1931 með kröfugöngu en áður höfðu verið haldnir þar fundir innanhúss. Tryggvi Emilsson lýsti síðar hughrifunum sem göngufólk varð fyrir, það „gekk uppréttara en nokkru sinni áður og lét engin aðhróp á sig fá“. Akureyri var lítill bær og allir vissu hverjir höfðu tekið þátt í kröfugöngunni. Sumir þeirra fengu að finna fyrir afleiðingunum, bæði þá og síðar.229 Þegar fólk kom út úr verkalýðshúsinu var iðulega mannfjöldi að fylgjast með þegar „skríllinn kom út“, eins og öldruð verkakona frá Akureyri lýsti því. Stundum var veist að göngumönnum. „Oddur apótekari gaf eitt sinn unglingum púðurkerlingar sem síðan var kastað að göngufólkinu og stundum var drullukökum og klaka kastað að þeim … Íhaldið réð öllu og leit niður á skrílinn sem hafði ekkert að lifa af“.230

228 Benedikt Sigurðsson 1990, 374−376.
229 Tryggvi Emilsson 1977, 247−250.
230 ÞÞ A: 5945. kvk 1902, 11.

Skáli verkalýðshreyfingarinnar í Reykjavík í Rauðhólum á fjórða áratugnum. Rauði fáninn dreginn að húni.

Ungir menn með áfengi á ofanverðum millistríðsárunum. Verkalýðshreyfingin beitti sér af hörku gegn áfengisneyslu um þetta leyti og var andstæð afnámi áfengisbannsins.

Síðar varð 1. maí ekki eingöngu vettvangur til þess að leggja áherslu á kröfur verkafólks, hann varð einnig „hersýningardagur verkalýðssamtakanna á opinberum vettvangi“, eins og Sigurjón Á. Ólafsson, þáverandi formaður Sjómannafélags Reykjavíkur, komst að orði árið 1943.231 Það eru orð að sönnu – á þessum degi sýndi verkalýðshreyfingin víðs vegar um hinn vestræna heim styrk sinn – eða veikleika. En 1. maí varð ekki eingöngu vettvangur sameinaðrar hreyfingar verkafólks til þess að sýna styrk sinn, heldur einnig hinna ýmsu hreyfinga, flokka og hópa innan verkalýðshreyfingarinnar. Þar sýndu þeir hvers þeir voru megnugir og hver styrkleikahlutföll hinna ýmsu hópa voru. Á fjórða áratugnum varð algengt að jafnaðarmenn og kommúnistar stæðu hvorir fyrir sinni göngunni og árið 1935 bættust þjóðernissinnar í hópinn. Árið 1939 efndi Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík svo til hátíðahalda á 1. maí og nokkur ár þar á eftir.232

Vinnan I (1943), 52−53.
232 Alþýðublaðið 1. maí 1939, 1. − Morgunblaðið 2. maí 1935, 3. −

Fyrsti maí varð lögskipaður frídagur árið 1966, löngu síðar en í ýmsum nágrannalöndum Íslands, t.d. varð 1. maí almennur frídagur í Svíþjóð árið 1938. Sú ákvörðun var eins konar viðurkenning eða gjöf ríkisstjórnarinnar til Alþýðusambandsins í tilefni af hálfrar aldar afmæli þess árið 1966.233 Áður hafði þó víða fengist samþykkt í kjarasamningum að gefið skyldi frí á 1. maí, að minnsta kosti hluta úr degi, t.d. bæði í Reykjavík og Hafnarfirði árið 1930, þó aðeins eftir hádegi. Heilsdagsfrí var þá á Siglufirði. Gefið var frí á öllum skrifstofum sem heyrðu undir atvinnumálaráðneytið 1. maí árið 1935, en þá var Haraldur Guðmundsson orðinn ráðherra fyrir hönd Alþýðuflokksins.234

233 Skýrsla forseta um störf miðstjórnarAlþýðusambands Íslands árin
234 Alþýðublaðið 1. maí 1935, 1. − Tryggvi Emilsson 1977, 247.

Bindindi

Verkalýðssamtökin lögðu mikla áherslu á menningu og menntun, samkomur, söngva og gleðskap. En fólk átti að gleðjast ódrukkið og ASÍ lét bindindismál mjög til sín taka, svipað og verkalýðshreyfingin í nágrannalöndunum.235 Það vildi ganga langt í þessum efnum og mótmælti harðlega Spánarsamningunum frá 1922 þegar leyft var að selja vín hérlendis eftir nokkurra ára algert áfengisbann og Áfengisverslun ríkisins var stofnuð.236 Aðeins tveir þingmenn greiddu atkvæði gegn þessari undanþágu frá áfengisbanninu, þeir Jón Baldvinsson og Jónas Jónsson, og orðaði sá fyrrnefndi það svo að það mundi hann gera „þótt svo jeg verði einn uppi“.237

235 Christensen, Lars K.; Kolstrup, Søren; Hansen, Anette
Eklund 2007, 121−122.
236 Alþýðublaðið 13. nóvember 1924, 3.
237 Alþt. B 1922, 844. − Alþýðublaðið 9. október 1923, 2−3.

Talkór Félags ungra jafnaðarmanna á fjórða áratugnum. Kórinn gegndi mikilvægu hlutverki á samkomum verkalýðshreyfingarinnar.

Hörðust voru átökin um áfengismálin á Ísafirði þar sem verkalýðshreyfingin var öflug og beitti sér af hörku í málinu. Verkalýðsfélagið Baldur setti uppskipunarbann á öll skip sem fluttu áfengi til Ísafjarðar árið 1930. Vart var fýsilegt að reyna að brjóta bannið því að félagið ákvað jafnframt að það skyldi ná til allra annarra skipa þess félags sem hugsanlega bryti það. Bannið var sett með velþóknun meirihluta bæjarstjórnar sem jafnframt hvatti til þess að áfengisútsalan í bænum yrði lögð niður. Vilmundur Jónsson, læknir í bænum, bæjarfulltrúi Alþýðuflokksins og síðar áhrifamikill þingmaður hans, lýsti því svo um þetta leyti að „áflog og ryskingar ölóðra manna [væru] daglegt brauð“.238 Eftir samningaumleitanir varð niðurstaðan sú að opnunartími útsölunnar var styttur mjög og átti hann ekki að vera nema þrír tímar á dag. Þessu til viðbótar fékk verkalýðsfélagið því til leiðar komið að ekki mætti flytja meira áfengi til Ísafjarðar en sem næmi þriðjungi þess magns sem selt hefði verið í bænum undanfarin þrjú ár. Samkvæmt samkomulaginu var einnig óheimilt að flytja áfengi eftir öðrum leiðum til Ísafjarðar, þar með talið að senda það í pósti.239 Verkalýðshreyfingin á þessum slóðum var því ákveðin í að gera allt sem í hennar valdi stóð til að koma í veg fyrir sölu og neyslu áfengis. Það átti einnig við um Verkalýðsfélag Bolungarvíkur sem gerði samþykkt um þessi efni árið 1933. Félagið kvaðst ákveðið í því að „verjast öllu áfengi, jafnt aðkomnu sem brugguðu heima. Erum við ákveðnir í því að gera allt sem við getum til að hrinda af okkur hverri tilraun sem gjörð kann að verða til vínveitingar hér eða vínflutnings hingað“.240

238 Alþýðublaðið 18. og 21. ágúst 1930. − ÞÍ. Skjalasafn landlæknis,
héraðslæknirinn á Ísafirði 1929.
239 ÞÍ. Stjórnarráð Íslands I, Db. 12, 769. Bréf útibússtjóra
áfengis verslunarinnar á Ísafirði til dómsmálaráðherra í
október 1932.
240 ÞÍ. Jens E. Níelsson til ASÍ 10. desember 1933. Sögus. verkal.
A01: 33/7. Sambönd og félög á Vestfjörðum.

Alþýðusambandið tók áfengismál upp á hverju einasta þingi sínu á millistríðsárunum. Til dæmis samþykkti þing ASÍ ályktun þess efnis árið 1936 að áfengissala og neysla áfengis væri „meðal hættulegustu hindrana gegn framþróun, þroska, samtakamætti og hvers konar baráttu verkalýðsins og allrar alþýðu til betra lífs og vaxandi áhrifa í þjóðfélaginu“. Auk þess væri fráleitt að berjast fyrir bættum kjörum og atvinnubótavinnu fyrir fólk sem sóaði fé sínu í áfengi. Þingið hvatti einnig til þess að trúnaðarmenn alþýðusamtakanna gengju á undan með góðu fordæmi og óskaði eftir að hertar væru reglur um meðferð áfengis, að einungis „reglumenn“ væru ráðnir í opinber störf og að komið yrði á fót sem fyrst drykkjumannahæli. Sambandið var einnig hlynnt því að bæjarstjórnum yrði heimilt að láta fara fram atkvæðagreiðslu um hvort leggja ætti niður áfengisútsölu á viðkomandi stað en áfengi var selt í sex kaupstöðum landsins og skarst oft í odda á þessum stöðum eftir að áfengisútsölurnar voru settar á fót.241 Þessi barátta stóð linnulítið fram um 1960 og reglulega ályktaði Alþýðusambandið um áfengis- og bindindismál á þingum sínum. Svo fór þó, áður en sjöunda áratugnum lauk, að Landssambandið gegn áfengisbölinu sá ástæðu til að víta Alþýðusambandið fyrir að veita áfengi í hálfrar aldar afmæli sambandsins árið 1966 og má e.t.v. segja að þar með hafi orðið tímamót. Umræður um áfengismál voru ekki fyrirferðarmiklar á þingum sambandsins um þetta leyti en þó tilnefndi ASÍ ævinlega fulltrúa sína á þing Landssambandsins gegn áfengisbölinu.242

241 Björn Blöndal Jónsson 1935, 3. − Þingtíðindi Alþýðusambands
242 Skýrsla forseta um störf miðstjórnarAlþýðusambands Íslands árin

Vörður

  • 1889 Á stofnþingi Annars alþjóðasambandsins var ákveðið að gera 1. maí að alþjóðlegum baráttudegi.
  • 1923 1. maí í Reykjavík, með kröfugöngu í fyrsta sinn.
  • 1929 Haldið upp á 1. maí á Siglufirði.
  • 1939 Hátíðahöld Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík á 1. maí.
  • 1966 1. maí lögskipaður frídagur.
  • 1894 Útgerðarmannafélagið við Faxaflóa stofnað.
  • 1916 Félag íslenskra botnvörpuskipaeigenda stofnað.
  • 1934 Vinnuveitendafélag Íslands stofnað.
  • 1910 8. mars tilefndur alþjóðlegur baráttudagur kvenna á þingi Annars alþjóðasambandsins í Kaupmannahöfn.
  • 1914 Verkakvennafélagið Framsókn í Reykjavík stofnað.
  • 1915 Verkakvennafélagið Eining á Akureyri stofnað.
  • 1925 Verkakvennafélagið Framtíðin í Hafnarfirði stofnað.
  • 1928 Mæðrastyrksnefnd stofnuð.
  • 1928 Jónína Jónatansdóttir, fyrst kvenna, kjörin í sambandsstjórn ASÍ.
  • 1933 Félag afgreiðslustúlkna í brauð- og mjólkurbúðum stofnað.
  • 1934 Starfsstúlknafélagið Sókn í Reykjavík stofnað.
  • 1934 Iðja, félag verksmiðjufólks í Reykjavík stofnað.
  • 1936 ASÍ-þing samþykkir tillögu um launajafnrétti karla og kvenna.
  • 1924 Verkalýðsfélagið á Akranesi segir sig úr ASÍ að kröfu atvinnurekenda.
  • 1929 Forgangsréttur til vinnu hjá Dagsbrún.
  • 1932 Bolungarvíkur- og Keflavíkurdeilan.
  • 1915 Kaupfélag verkamanna á Akureyri stofnað.
  • 1917 Alþýðubrauðgerðin stofnuð.
  • 1937 Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis, KRON stofnað.

Næsti kafli

Kjarabarátta og samningar