Efnisyfirlit

Deila sögu ASÍ

Tímabilið fram til 1940

Vegagerðarmenn á Seyðisfirði á millistríðsárunum, fyrir bílaöld. Megin þorri félaga innan ASÍ var erfiðisvinnufólk og karlar í meirihluta.

Skipulag ASÍ

Saga ASÍ: Í samtök › Tímabilið fram til 1940

Skipulag ASÍ

Sambandsstjórn Alþýðusambandsins var í fyrstu skipuð sjö mönnum sem kosnir voru á þingi sambandsins til tveggja ára í senn. Sambandsstjórnarmönnum var fjölgað í níu árið 1919 en þing sambandsins hafði æðsta vald í málefnum þess eins og almennt gildir um frjáls félagasamtök. Einn fulltrúi var valinn fyrir hvert hundrað eða hundraðsbrot meðlima í aðildarfélagi á þingi sambandsins sem átti að koma saman á tveggja ára fresti. Sambandsstjórnin var æðsta stofnun ASÍ á milli þinga, að minnsta kosti að forminu til, og kom hún saman a.m.k. einu sinni á ári eða oftar ef þörf krafði. Aðildarfélögum var skylt að hlíta fyrirmælum hennar. Mátti hún víkja einstökum félögum úr sambandinu ef hún taldi ástæðu til og þess voru dæmi að það væri gert. Öll verkalýðsfélög og jafnaðarmannafélög sem samþykktu stefnuskrá ASÍ gátu fengið aðild að sambandinu með samþykki sambandsstjórnar og staðfestingu þings ASÍ. Þó var tilskilinn aukinn meirihluti ef atvinnurekendur áttu aðild að viðkomandi félagi, sem nokkur dæmi voru um.1

Lög Alþýðusambands Íslands 1919.

Árið 1930 var skipan mála þannig breytt að í sambandsstjórn væru sautján menn, kosnir á þingi sambandsins, í stað níu áður. Voru forseti og varaforseti kosnir sérstaklega en auk þeirra fimmtán meðstjórnendur. Þar af voru sjö frá Reykjavík og Hafnarfirði en tveir frá hverjum fjórðunganna. Sá hluti sambandsstjórnar sem búsettur var í Reykjavík og Hafnarfirði myndaði miðstjórn. Voru þá hafðar í huga erfiðar samgöngur í landinu langt fram eftir 20. öld, en nauðsynlegt var að geta náð miðstjórninni saman með skömmum fyrirvara.2 Miðstjórnin (í fyrstu öll sambandsstjórnin) kom oft saman. Á fyrri hluta þriðja áratugarins hittist hún um það bil 20 sinnum á ári en frá 40 til 60 sinnum á ári á fjórða áratugnum eða um það bil vikulega.3 Sambandsstjórnarseta eða seta í miðstjórn var því meira en nafnið tómt. Henni fylgdi umtalsvert álag og oft margvísleg verkefni á milli funda. Þá höfðu þingmenn Alþýðuflokksins og ritstjóri Alþýðublaðsins rétt til þess að sitja fundi miðstjórnar og sambandsstjórnar meðan enn voru tengsl á milli flokks og sambands.4

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 10. sambandsþing 1930, 31.
Stefán Hjartarson, handrit, 176.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 15. sambandsþing 1938,
86−89.

Þessi yfirstjórn bar ekki einungis ábyrgð á starfsemi sambands stéttarfélaga heldur rak hún einnig Alþýðuflokkinn sem var pólitískur armur sambandsins. Enginn greinarmunur var gerður á þessu tvennu þar til árið 1926 að ákveðið var að stofna sérstakt verkamálaráð annars vegar og stjórnmálaráð hins vegar. Hið fyrrnefnda, sem í sátu þrír sambandsstjórnarmenn (fjórir frá 1930), átti að bera ábyrgð á öllu er varðaði kjaramálin og málefni stéttarfélaganna en stjórnmálaráðinu bar að sinna pólitískri baráttu flokksins. Þó átti öll sambandsstjórnin að taka ákvarðanir um stórmál.5

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 7. sambandsþing 1926,
17. − Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 10. sambandsþing

Árið 1938 var skipulaginu enn breytt þannig að í stjórn ASÍ og Alþýðuflokks var 31 maður. Kosnir voru sérstaklega forseti, varaforseti og ritari. Þá voru kosnir fjórir í verkamálaráð. Síðan voru kjörnir fjórir til viðbótar. Þar með var þá búið að kjósa 11 manns sem mynduðu miðstjórn ASÍ/Alþýðuflokks og voru einungis þeir kjörgengir til þessara embætta sem bjuggu í Reykjavík eða Hafnarfirði. Síðan voru kosnir 20 til viðbótar í sambandsstjórn, fimm frá Norðurlandi, fimm frá Vestfjörðum, fimm frá Austfjörðum og fimm frá Suður- og Suðvesturlandi, utan Reykjavíkur.

Kjörbréf Aðalheiðar S. Hólm, formanns Sóknar, frá 1940, þar sem hún lýsir yfir tryggð við ASÍ.

Enn var svo skipulagi sambandsins breytt árið 1940 en á þinginu þá var skilið á milli flokks og sambands eins og síðar verður fjallað um. Þá var fækkað niður í 17 manna sambandsstjórn en í miðstjórn voru níu manns og sem fyrr einungis þeir kjörgengir sem bjuggu í Reykjavík eða Hafnarfirði. Hinum átta í sambandsstjórninni var jafnt skipt á fjórðunga landsins og þá haft í huga að fólk úr öllum landshlutum gæti haft áhrif á stefnu sambandsins.6

Skúli Þórðarson 1966, 18−19. − Lög Alþýðusambands Íslands
1940, 18−19.

Þinghaldið

Þing Alþýðusambandsins voru haldin á tveggja ára fresti allt til 1968 en þá var kjörtímabilið lengt úr tveimur árum í fjögur. Fyrir kom að haldin væru aukaþing (a.m.k. 1921, 1929 og 1937) en ekki var það algengt. Þingin voru fámenn í fyrstu meðan aðildarfélög voru ekki mörg en sú regla gilti að einn fulltrúi var fyrir hvert hundrað félagsmanna. Árið 1922 voru fulltrúar komnir yfir 50 og vel á níunda tug áratug síðar. Félag sem hafði færri félagsmenn en eitt hundrað fékk einn fulltrúa en til þess að koma í veg fyrir að hin minni félög hefðu óeðlilega mikil áhrif voru ákvæði um allsherjaratkvæðagreiðslur og voru slíkar atkvæðagreiðslur jafnan viðhafðar um hin stærri mál, a.m.k. ef ágreiningur var um þau. Í allsherjaratkvæðagreiðslu gilti sú regla að hver fulltrúi hafði jafnmörg atkvæði á bak við sig og fjöldi félaga í viðkomandi stéttarfélagi sagði til um.7

Skúli Þórðarson 1966, 18. − Hannibal Valdimarsson 1956,
3.−4. tbl., 10. − Stefán Hjartarson, handrit, 173−174.

Þinghald hófst alltaf með ávarpi forseta og kórsöng. Gjarnan voru sungin nokkur lög og alltaf Internasjónalinn, alþjóðasöngur verkalýðsins. Þá voru starfsmenn þingsins kosnir og nefndir skipaðar. Um miðbik fjórða áratugarins voru hvorki meira né minna en 19 nefndir starfandi. Þing Alþýðusambandsins var haldið í fyrsta sinn í húsakynnum Alþýðuflokksins/sambandsins við Hverfisgötu árið 1936 en hafði áður m.a. verið haldið í húsakynnum alþýðusamtakanna í Iðnó. Þinghaldi var sannarlega ekki hespað af á þessum árum. Það tók tæpan hálfan mánuð árið 1936 og stóðu fundir í samtals 83 klukkustundir. Oftast stóðu þingin þó skemur, eða í eina viku, og var jafnvel við það miðað að þingfulltrúar utan af landi næðu strandferðaskipinu þegar það færi næsta hring. Stundum var þó fenginn einhver sem var búsettur í Reykjavík til þess að sitja þingið af hálfu sumra félaga, enda þurftu þau að horfa í kostnað vegna ferða þingfulltrúa. Undir þinglok var sambandsstjórn kosin. Forseti sleit síðan þingi og fundarmenn sungu Internasjónalinn.8

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 13. sambandsþing 1936,
5−16.

Þinghaldið var ekki eintóm alvara þó að oft væri tekist á, bæði um menn og málefni. Þingfulltrúar glöddust líka saman. Yfirleitt var boðið til samsætis. Árið 1936 var því svo fyrirkomið að boðið var upp á kaffi, ræður voru fluttar og sagðar gamansögur. Þá var sýnd kvikmynd frá 1. maí-hátíðahöldunum, kvenna- og karlakór alþýðu skemmtu með söng og Talkór Félags ungra jafnaðarmanna flutti nokkur kvæði. Loks var dansað fram á nótt. Meðan þingið stóð yfir var einnig sýnd kvikmynd í Gamla bíói um sögu norsku alþýðusamtakanna. Kvikmyndir og kvikmyndagerð áttu upp á pallborðið hjá Alþýðusambandinu um þetta leyti því að séð var til þess að þingfulltrúar væru kvikmyndaðir einn daginn þegar þeir yfirgáfu þingstaðinn.9 Aðalheiður Hólm, sem var fyrsti formaður Starfsstúlknafélagsins Sóknar, rifjaði síðar upp minningar sínar frá þingum ASÍ:

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 13. sambandsþing 1936,
14−15.

Alþýðusambandsþingin í þá daga voru mjög merkilegar samkomur og stóðu meira og minna óslitið í tvær vikur. Þá komu verkamenn og sjómenn af öllu landinu og héldu þessar dynjandi ræður með tilvitnunum í öll okkar bestu skáld og rithöfunda. Mér fannst óskaplega gaman á þessum þingum.10

Vinnan XXXV (1985) 6. tbl., 16.

Í Reykjavík og stærri kaupstöðum og í tilteknum kjördæmum gátu þau stéttarfélög sem voru í ASÍ myndað fulltrúaráð. Fór fulltrúaráðið þá með sameiginleg mál félaganna á viðkomandi svæði. Slík mál gátu til dæmis verið alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins, 1. maí, eða umsjón með sveitarstjórnar- og alþingiskosningum, en í því fólst m.a. að ákveða röð manna á lista og bera sjálfan listann fram (meðan ASÍ og Alþýðuflokkur voru enn skipulagslega ein heild). Fulltrúaráðin gátu því haft mikil áhrif og voru miðlæg í starfi Alþýðusambandsins allt til 1940. Að vísu var gert ráð fyrir (1938) að ef á viðkomandi stað var einnig Alþýðuflokksfélag ætti það að tilnefna tvo menn í nefnd á móti fimm mönnum frá fulltrúaráði.11

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 15. sambandsþing 1938,
91−95. − Einnig Stefán Hjartarson, handrit, 99.

Talkór Félags ungra jafnaðarmanna var starfandi um tíma á fjórða áratugnum og flutti verk á samkomum á vegum Alþýðuflokks og –sambands, ekki síst á þingum sambandsins. Hér sjást kórfélagar í fullum skrúða við eitt slíkt tækifæri.

Fjórðungssambönd

Aðildarfélög ASÍ gátu einnig myndað fjórðungssambönd. Tillaga þessa efnis var samþykkt á þingi sambandsins árið 1924. Á sambandsþingi tveimur árum síðar voru þessi mál til umræðu og velti forsetinn, Jón Baldvinsson, þeirri hugmynd fyrir sér hvort fjórðungssamböndin væru jafnvel

sjálfkjörin til að ljetta að miklu leyti yfirstjórn beinna verklýðsmála af sambandsstjórn, og bæta þannig úr þeim ágalla, er nokkrir telja vera á fyrirkomulagi okkar, að yfirstjórn stjórnmála og verklýðsmála skuli vera sameinuð hjá Alþýðusambandinu, í stað þess að hjá nágrannaþjóðum er þetta aðgreint. En ekki má gleyma því að samtökin eru styrkari hjá einni yfirstjórn, ef sæmilega tekst forustan. Og reynsla er vitanlega ekki fengin enn um það, að hvaða gagni fjórðungssamböndin geta komið.12

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 7. sambandsþing 1926, 15.

Hér viðrar forseti Alþýðusambandsins með öðrum orð um þá tilhögun að fjórðungssamböndin geti að mestu leyti séð um kjarabaráttuna en heildarsamtökin um stjórnmálin. Um þetta leyti voru stofnuð fjórðungssambönd á Norðurlandi, á Vestfjörðum og Austurlandi. Fyrstir urðu Norðlendingar árið 1925 þegar fjögur félög á Akureyri og Siglufirði stofnuðu Verklýðssamband Norðurlands (VSN). Sambandið beitti sér fyrir stofnun nýrra félaga á Norðurlandi en tengsl þess við ASÍ voru lengstum brösótt, enda yfirleitt róttækir menn sem þar voru við stjórnvölinn og kommúnistar náðu þar öllum völdum árið 1931. Árið 1926 voru aðildarfélögin orðin átta en aðeins þrjú þeirra voru þó í ASÍ. Eftir að kommúnistar höfðu náð völdum í sambandinu gerði Alþýðusambandið tilraun til að stofna nýtt fjórðungssamband á Norðurlandi árið eftir. Stofnfundur þess var haldinn á Akureyri 1932 en ekkert varð þó úr starfsemi þess.13 Eftir harða baráttu Alþýðusambandsins var svo komið eftir miðjan fjórða áratuginn að mjög hafði dregið úr starfsemi hjá Verklýðssambandinu, enda hafði aðildarfélögum þess fækkað verulega.14

Stefán Hjartarson, handrit, 505−506.
Alþýðublaðið 5. júní 1935, 3.

Verklýðssamband Austurlands var stofnað árið 1926 af félögum á Seyðisfirði, Neskaupstað og á Eskifirði og hélt sitt fyrsta þing um mitt sumar 1926. Þá voru innan þess öll aðildarfélag ASÍ fyrir austan, fjögur að tölu, auk eins jafnaðarmannafélags.15 Starfsemi Verklýðssambandsins lagðist af að mestu árið 1931 en það var endurvakið árið 1943 sem Alþýðusamband Austfjarða. Verklýðssamband Vesturlands var svo stofnsett árið 1927 og náði eingöngu til Vestfjarða.16 Þar réðu kommúnistar ríkjum í fyrstu eins og á Norðurlandi en jafnaðarmenn náðu þó undirtökum þar árið 1930 og héldu uppi öflugu starfi næstu áratugi; jafnaðarmenn réðu líka sambandinu á Austfjörðum.

Alþýðublaðið 14. júlí 1926, 3. − Smári Geirsson 1993, 58−61. −
Einar Bragi Sigurðsson 1983, 168−170. − Vinnan I (1943), 74.
− Gísli Sverrir Árnason 1999, 95.
Sverrir Kristjánsson 1946, 214.

Alþýðuhúsið á Ísafirði var eitt glæsilegasta alþýðuhús landsins á fjórða áratugnum og vitni um styrk alþýðuhreyfingarinnar þar í bænum á þessum tíma. Það var tekið í notkun árið 1935.

Það fór ekki svo að fjórðungssamböndin yrðu staðgenglar Alþýðusambandsins í kjaramálum þó að þau ættu eftir að gegna miklu hlutverki, mismiklu þó. Þau gátu brugðist skjótt við aðstæðum, enda oft nær vettvangi en stofnanir Alþýðusambandsins sem voru oft svifaseinni. En fjórðungssamböndin voru einnig opin félögum sem af ýmsum ástæðum vildu ekki vera innan ASÍ. Þær ástæður gátu verið pólitískar, einkum eftir 1930, en einnig af öðrum toga.17 Sum félög horfðu líka í kostnaðinn af því að vera í fleiri en einu sambandi, eða jafnvel að vera í sambandi yfirleitt. Starf fjórðungssambandanna gekk þó misjafnlega. Sums staðar voru einfaldlega svo fá félög, t.d. á Austfjörðum, að erfiðlega gekk að hafa samfellu í starfinu. Á þriðja þingi Verklýðssambands Austurlands árið 1929 mættu t.d. aðeins tvö félög.18 Þá gerði klofningur í hreyfingunni á fjórða áratugnum henni einnig erfitt um vik, t.d. á Norðurlandi. Alþýðusambandið var hlynnt því að hafa fjórðungssambönd, þau hefðu hlutverki að gegna við að samræma kjör í viðkomandi fjórðungum, auk þess sem samböndin efldu samstöðu og samvinnu á viðkomandi svæði.19 En Alþýðusambandið veitti þó fjórðungssamböndunum því aðeins stuðning að þau hefðu réttan pólitískan lit.

Sverrir Kristjánsson 1946, 214. − Sigurður Pétursson 1990,
68−70.
Sjá m.a. Alþýðublaðið 31. ágúst 1929, 3.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 13. sambandsþing 1936,
102. − Gísli Sverrir Árnason 1999, 97−99.

Húsnæði og skrifstofa ASÍ

Verkalýðsfélögin í Reykjavík höfðu á frumbýlingsárum sínum lengst af haldið fundi sína í svokölluðu Báruhúsi eða Bárubúð sem Bárufélögin höfðu látið byggja í miðborg Reykjavíkur. En félögin vantaði engu að síður samastað og eftir stofnun Alþýðusambandsins varð það æ brýnna. Alþýðusamtökin í Reykjavík fengu úthlutað lóð miðsvæðis í bænum, á horni Ingólfsstrætis og Hverfisgötu og keypti fulltrúaráð verkalýðsfélaganna lóðina árið 1917. Bið varð þó á að þar risi hús. Fyrst var byggt lítið hús úr timbri árið 1920 og þar var afgreiðsla Alþýðublaðsins til ársins 1925. Þar var líka lítill fundarsalur þar sem fulltrúaráðið gat haldið fundi sína. Árið 1925 var byggt lítið hús fyrir prentsmiðju Alþýðublaðsins og ritstjórn þess auk þess sem þar var fundarsalur.20 Árið 1929 var Iðnó keypt fyrir verkalýðsfélögin í Reykjavík en Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík hafði á sínum tíma látið reisa húsið. Hús alþýðunnar, Alþýðuhúsið við Hverfisgötu, reis svo á lóð sambandsins á árunum 1935–1936, samhliða því að eldri byggingar voru rifnar. Nýja húsið var mikil bygging, um 5500 fermetrar að stærð. Hún var fjármögnuð með samskotum, styrkjum frá samherjum á Norðurlöndum og svo með lántökum. Húsið var höll alþýðunnar, svipað og alþýðuhallirnar sem höfðu verið byggðar annars staðar á Norðurlöndunum á umliðnum áratugum.21 Í þessu húsi var aðsetur Alþýðusambandsins næsta aldarfjórðunginn og einnig Alþýðuflokksins.22 Við aðskilnað flokks og sambands urðu deilur um eignarhald húsinu sem síðar verður drepið á.

Alþýðublaðið 1. maí 1936, 1.
Um Folkets Hus í Ósló, sjá Olstad, Finn 2009, 131.
Alþýðublaðið 3. maí 1936, 3.

Þess má geta að víða um land voru byggð „alþýðuhús“ á milli stríða. Til dæmis reis eitt slíkt í Súðavík árið 1930, á Eskifirði árið 1934 og í Keflavík árið 1936.23 Þá var byggt glæsilegt hús á Ísafirði á fjórða áratugnum. Á Siglufirði lauk byggingu verkalýðshúss árið 1935. Því var komið upp með harðfylgi og atorku verkafólks á staðnum. Áður hafði m.a. verið notast við gömlu kirkjuna í bænum sem fundarstað en kommúnistar á Siglufirði höfðu keypt kirkjuna árið 1932 og tekið af henni turninn áður en hún varð alþýðuhús í stað guðshúss.24

Alþýðublaðið 21. nóvember 1936, 3. − Sigurður Pétursson 2011,
376−377.
Benedikt Sigurðsson 1990, 337−342.

Hús verkalýðsfélaganna á horni Hverfisgötu og Ingólfsstrætis en litla timburhúsið lengst til vinstri er fyrsta húsið sem verkalýðsfélögin í Reykjavík byggðu á þessum stað. Síðar reis þar Alþýðuhúsið. Myndin er tekin á 1. maí árið 1923. Þá var þar mikil grjóthrúga sem sýndi að þar átti að byggja stórt. Ólafur Friðriksson heldur ræðu undir rauðum fánum og kröfuspjöldum þar sem m.a. er krafist þjóðnýtingar á framleiðslutækjum.

Svava Jónsdóttir, starfsmaður ASÍ á fjórða áratugnum, annáluð fyrir störf sín hjá sambandinu.

Jón Axel Pétursson, fyrsti framkvæmdastjóri ASÍ.

Formlega skrifstofu hafði Alþýðusambandið enga fyrsta hálfan annan áratuginn. Hana var að finna á ritstjórn Dagsbrúnar og síðar Alþýðublaðsins, á heimilum forystumannanna og á skrifstofu Alþýðubrauðgerðarinnar. Fyrsta afgreiðsla blaðsins Dagsbrúnar var á Laugavegi 18 en ritstjórnarskrifstofan var heima hjá ritstjóranum, Ólafi Friðrikssyni.25 Formlega hafði flokkurinn heldur enga fasta starfsmenn, fyrir utan starfslið Alþýðublaðsins, fyrir 1930. Til dæmis var forsetinn, Jón Baldvinsson, ekki á launum hjá sambandinu og enginn framkvæmdastjóri í starfi þar heldur fyrr en árið 1936 að Jón Axel Pétursson var ráðinn til þess starfs fyrstur manna. Forsetinn fékk þó laun eftir að Alþýðubrauðgerðin var stofnuð því að þar var Jón Baldvinsson forstjóri. Og eftir að hann tók sæti á Alþingi árið 1921 fékk hann þingfararkaup um þingtímann.

Alþýðublaðið 1. maí 1936, 1.

Iðnó í Reykjavík til hægri á myndinni. Fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Reykjavík keypti húsið árið 1929 og þar var einn helsti fundarstaður verkalýðsfélaganna um árabil.

Skrifstofa ASÍ var stofnuð árið 1930 samkvæmt sérstakri samþykkt sambandsþings. Skyldi skrifstofan vera hvort tveggja í senn:

verkamálaskrifstofa og hagstofa fyrir sambandið. Sambandsfélög skulu á tilsettum tíma gefa skýrslur og upplýsingar þær, er skrifstofan óskar. Skrifstofan skal tilkynna öll verkföll og vinnudeilur og yfirleitt halda lifandi sambandi við öll sambandsfélög.26

Svava Jónsdóttir 1961, 3−4.

Í tilefni af opnun skrifstofunnar birti Alþýðublaðið viðtal við Stefán Jóhann Stefánsson, ritara Alþýðusambandsins, sem sagði að á skrifstofunni yrðu „ráðin á lögð og orrusturnar undirbúnar“.27 Fyrsti starfsmaðurinn þar var Svava Jónsdóttir og var skrifstofan í fyrstu í Aðalstræti 9B. Þar var hún þó ekki lengi og var starfsemin brátt flutt í svokallað Edinborgarhús í Hafnarstræti og þaðan svo yfir götuna í Hafnarstræti 5. Loks fór skrifstofan svo í Alþýðuhúsið við Hverfisgötu þar til keypt var efsta hæðin á Laugavegi 18 árið 1961.28

Alþýðublaðið 2. janúar 1931, 2.
Skýrsla forseta um störf miðstjórnar Alþýðusambands Íslands
1960−1962, 34.

Starfsmaðurinn var enginn nýgræðingur í verkalýðshreyfingunni. Svava hafði verið virk í Verkakvennafélaginu Framsókn og setið í stjórn Þvottakvennafélagsins Freyju. Þá hafði hún verið kjörin varamaður í sambandsstjórn Alþýðusambandsins árið 1930 og aftur árið 1932. Skrifstofunni og starfseminni þar á fyrri hluta fjórða áratugarins hefur verið lýst svo:

Svava hélt í marga þræði og sá um að þjónustan við stéttarfélög og jafnaðarmannafélög væri sem næst hnökralaus. … Svava hélt dagbók fyrir nýju skrifstofuna … frá janúar árið 1931 og má af henni skilja að í mörgu var að snúast. Ólafur Friðriksson aðstoðaði við að koma skrifstofunni í lag og Stefán Jóhann léði skrifstofunni ritvél. Það kom sér vel að útveguð var fjölritunarvél, – ljósritunarvél þess tíma – á skrifstofuna. Svava Jónsdóttir þurfti jafnan að gera afrit af fundagerðum sambandsstjórnar og senda þeim öllum tíu eintak af henni. … Skrifstofa Alþýðusambandsins var eftir einungis fimm mánuði flutt í Edinborgarhúsið þann 19. maí 1931. Hún var á 1. hæð (gólfhæð) til vinstri handar, tvö herbergi, annað þeirra var rúmt afgreiðslu- og vinnuherbergi, hitt herbergið var minna. Aftur var flutt tveimur árum síðar, í maí 1933, nú yfir götuna í Hafnarstræti 5. Starfsliðið var hið sama, Svava Jónsdóttir, Felix Guðmundsson ritari og Jón Axel Pétursson gjaldkeri.29

Stefán Hjartarson, handrit, 146−147.

Árið 1936 lýsti Jón Axel Pétursson því í hverju daglegt starf Alþýðusambandsins væri fólgið:

Að leiðbeina alþýðu manna um stofnun alþýðufélaga, um undirbúning að kaupsamningum, að veita aðstoð við að gera þá, ýmist með samningaumleitunum, þegar best gengur og svo með samúðarverkföllum, þegar deilurnar harðna. Auk þess leita félögin æ meir og meir til okkar um það t.d., að fá lönd til ræktunar fyrir meðlimi sína, fá óhagkvæmum leigumálum breytt, aðstoð og leiðbeiningar um byggingu alþýðuhúsa og leiðbeiningar um stofnun byggingarfélaga, o.fl. ofl. Á síðari árum er það ekki ótítt, að einstök verklýðsfélög spyrjist fyrir um atvinnuhorfur yfirleitt og lýsi raunum atvinnuleysisins á sínu félagssvæði. Félögin æskja einnig mjög oft upplýsinga um verðlag á nauðsynjum í Reykjavík, spyrja um söluhorfur og verðlag á íslenzkum útflutningsafurðum, og það hefir ekki ósjaldan komið fyrir, að Alþýðusambandið hefir orðið til þess að verkamenn hafa myndað með sér pöntunarfélög, sem mjög hafa bætt hag þeirra.30

Alþýðublaðið 12. mars 1936, 4.

Edinborgarhúsið í Hafnarstræti í Reykjavík. Þar var aðsetur ASÍ um tíma á fyrri hluta fjórða áratugarins.

Alþýðuhúsið við Hverfisgötu en þar var aðsetur ASÍ um langt skeið, allt til ársins 1961.

Auk Alþýðusambandsins gátu einungis stærstu verkalýðsfélögin rekið skrifstofu, t.d. Dagsbrún sem hafði skrifstofu sína opna þrjá tíma á dag á árunum eftir 1930.31 Hið sama gerði Verkalýðsfélag Akraness en félagið rak skrifstofu frá 1934 og annaðist starfsmaðurinn innheimtu félagsgjalda og vangoldinna vinnulauna, og atvinnuleysisskráningu og bréfaskriftir á vegum félagsins.32 Á ofanverðum fimmta áratugnum hafði Verkamannafélag Akureyrarkaupstaðar skrifstofu sína opna á milli fimm og sjö og var formaðurinn þar við störf, vitaskuld ólaunaður, flesta daga á þeim tíma, og mátti svo heita „að þarna væru daglegir fundir“.33 Á Siglufirði voru verkalýðsfélögin með opna skrifstofu hluta úr degi með starfsmann í hlutastarfi á fjórða áratugnum en árið 1944 var starfsmaður ráðinn í fullt starf á vegum Þróttar.

Alþýðublaðið 27. febrúar 1932, 3.
Alþýðublaðið 12. febrúar 1937, 3.
Tryggvi Emilsson 1977, 322.

Algengast var þó að starfið væri að mestu eða öllu leyti unnið í sjálfboðavinnu, eins og Aðalheiður Hólm, fyrsti formaður Sóknar, lýsti síðar:

Við höfðum aldrei skrifstofu. Fjárhagurinn var erfiður og fólk var svo láglaunað að maður gat ekki lagt mikil félagsgjöld á það. Við fengum heldur aldrei eyri fyrir okkar starf. Það kostaði okkur útgjöld en það var aldrei talað um það. Til að afla peninga hélt Sókn meðal annars skemmtanir. Við slógum upp balli í Iðnó. Þar tróðu upp Halldór Laxness og Brynjólfur Jóhannesson leikari. Þeir gerðu það fyrir ekki neitt og þetta var mikil skemmtun. Við bjuggum til lítinn leikþátt sem var fluttur þarna.34

Vinnan XLIV (1994), 8. tbl., 16−17.

Mikilvægur þáttur í því að byggja upp Alþýðusambandið var að tryggja fjárhag þess. Sambandið hafði fyrst og fremst skatttekjur frá aðildarfélögum sínum. Auk þess voru stöku sinnum fjársafnanir, einkum til þess að koma fótum undir tiltekna starfsemi, efla Alþýðublaðið, kaupa prentsmiðju, kaupa húsnæði eða annað slíkt. Þá studdi Alþýðubrauðgerðin rekstur flokks og blaðs og veitti lán.35 Hagur beggja, sambands og blaðs, var þó löngum erfiður, ekki síst blaðsins, enda var bakhjarlinn veikur fyrsta skeiðið, aðildarfélögin fá og fátæk.

ÞÍ. Sjá t.d. skuldaviðurkenningu ASÍ til Alþýðubrauðgerðar-
innar 1. október 1925. Sögus. verkal. A01: 24/21. Skrifstofa.
Bókhaldsgögn.

Á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness, líklega á ofanverðum fjórða áratugnum. Fyrir miðju við borðsendann er Sveinbjörn Oddsson, formaður á Akranesi, en við hlið hans til vinstri er Ragnar Guðleifsson, formaður Verkalýðs- og Sjómannafélags Keflavíkur, og hafa Skagamenn fengið gesti að sunnan í heimsókn. Takið eftir borðunum sem setið er við, þau geta ekki verið af mikið einfaldari gerð.

Þegar komið var fram á árið 1926 höfðu verulegar skuldir safnast og auknum útgjöldum var svarað með lántökum. Útgjöld sambandsins um þetta leyti voru um 28 þúsund kr. en ekki náðist samstaða á þingi ASÍ það ár um hvernig ætti að leysa peningavandræðin að öðru leyti en því að ákveðið var að hefja fjársöfnun. Samkvæmt áætlun fyrir 1931 var gert ráð fyrir að tekjur og gjöld væru í kringum 7.000 kr., enda var þá búið að taka kostnað vegna Alþýðublaðsins út úr rekstri sambandsins. Blaðið var sem fyrr stærsti kostnaðarliðurinn. Útgjöldin voru síðan breytileg næstu árin, einkum eftir því hvort um var að ræða kosningaár eða ekki. Kosningar til Alþingis hafa alltaf verið dýrar.36 Fyrir árið 1933 voru gjöld annars vegar og tekjur hins vegar áætlaðar um 15.700 kr. Mestur hluti teknanna var skattur á aðildarfélög, eða 12.700 kr., en það sem eftir stóð, 3.000 kr., var söfnunarfé.37 Auk þeirra tekna sem hér eru tilgreindar fékk Alþýðusambandið fjárhagslegan stuðning frá jafnaðarmönnum á Norðurlöndum, bæði styrki og lán, stundum verulegar upphæðir. Um þessi efni hefur Þorleifur Friðriksson sagnfræðingur fjallað í bókum sínum, Gullnu flugunni (1987) og Undirheimar íslenskra stjórnmála (1988) og verða þessi málefni því ekki rædd frekar hér.38

Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 10. sambandsþing 1930, 26.
Þingtíðindi Alþýðusambands Íslands. 11. sambandsþing 1932, 12.
Þorleifur Friðriksson 1987, m.a. 54−56 og 1988.

Vörður

  • 1925 Stofnun Verklýðssambands Norðurlands.
  • 1926 Verklýðssamband Austurlands stofnað.
  • 1927 Stofnun verkamálaráðs ASÍ.
  • 1927 Verklýðssamband Vesturlands stofnsett.
  • 1929 Iðnó keypt fyrir verkalýðsfélögin í Reykjavík.
  • 1930 Skrifstofa ASÍ sett á fót.
  • 1935–1937 Alþýðuhúsið við Hverfisgötu reist.
  • 1936 Ráðinn framkvæmdastjóri ASÍ.
  • 1940 Skilið á milli Alþýðuflokks og Alþýðusambands.

Næsti kafli

Verkalýðshreyfing byggð upp