Efnisyfirlit

Deila sögu ASÍ

Tímabilið fram til 1940

Verkafólk um borð í togara, líklega á leið á vertíð á Norðurlandi. Ef fólk vildi fá vinnu varð það að vera tilbúið til þess að flytja sig á milli staða eftir því hvar vinnan bauðst.

Atvinnuleysi og stéttaátök

Saga ASÍ: Í samtök › Tímabilið fram til 1940

Atvinnuleysi og stéttaátök

Á öndverðri 20. öld var fámennur sá hópur sem hafði fasta vinnu. Margir höfðu aðeins ígripavinnu og gengi fólks að þessu leyti fór eftir dugnaði, heilsu, áræði, aldri og samböndum, jafnvel heppni. Vinnan var árstíðabundin, yfirleitt nóg að gera á sumrin en lítið að gera á veturna.1 Væri atvinnuástand gott voru vitaskuld lítil vandkvæði, enda víluðu fæstir fyrir sér að sækja vinnuna þar sem hana var að hafa. Hjá langflestum var staða mála þannig að fólk var ráðið til tiltekinna verka, t.d. þegar þurfti að breiða fisk. Það var „vanalega ígripavinna fáar stundir á dag, og marga daga ekkert að gera, og oftast börn og gamalmenni sem í þetta hlaupa“.2 Vinnan var tímabundin, t.d. síldarvertíð, að byggja ákveðið hús eða aðstoða bónda við heyverkun í ákveðinn tíma. Verkafólk í Reykjavík flykktist því út um land þegar þar var vinnu að hafa. Það réð sig sem kaupafólk hjá bændum, fór á vertíð og verkaði síld. Hjá mörgum varð sumarvinnan að duga til framfærslu stóran hluta ársins, enda iðulega litla eða enga vinnu að hafa yfir veturinn. Það var því oft þröngt í búi hjá fólki.3

Sjá m.a. Jón Guðnason 1993, 69.
Alþt. B 1925, 2524.
ÞÞ A: 5946. kvk 1899, 17.

Á fyrstu starfsárum ASÍ var næg vinna en er leið á stríðið versnaði ástandið. Margt kom til. Allur rekstur varð mjög erfiður vegna dýrtíðar á innfluttum vörum, t.d. kolum, sem leiddi til þess að fjöldi skipa var bundinn við bryggju. Þá var fjöldi togara seldur úr landi. Fátækt fólk varð enn fátækara. Atvinnuleysi jókst vitanlega mikið og neyð varð á mörgum heimilum. Góðgerðasamtök komu líklega í veg fyrir hungursneyð. Eftir stríðið lagaðist ástandið í skamman tíma en þegar á árinu 1920 kreppti að nýju að vegna mikilla erfiðleika í viðskiptalöndum Íslendinga.4 Sumarið 1920 var þorri verkakarla í Reykjavík án vinnu og einnig var mikið atvinnuleysi meðal iðnaðarmanna. Í júlí var ástandið þannig að um

Þorgrímur Gestsson 2007, 21−24. − Guðjón Friðriksson 1994,
13−14.

Netagerðarfólk á Siglufirði á millistríðsárunum, trúlega flest aðkomufólk.

hvert handtak sem gera þarf sækja 5–6 menn, og um fastar stöður eða störf, sækja menn í tuga og hundraða tali. Á hverjum morgni í vinnubyrjun kemur allur þessi skari atvinnulausra manna niður að sjónum, á hafnarbakkann, til að vera til taks, ef eitthvað kynni að falla til að gera. En vonsviknir verða þeir að snúa frá flestallir.5

Alþýðublaðið 16. júlí 1921, 2.

Árið eftir var lítið eða ekkert skárra og þegar atvinnubótavinna bauðst haustið 1921 komu um 300 manns í leit að vinnu.6 Ástandið var slæmt næstu misserin, t.d. var fjöldi manna atvinnulaus árið 1923. Eftir það fór staðan að skána en enn á ný seig á ógæfuhliðina og fjöldi fólks var líka án vinnu árin 1926–1927.7 Á ofanverðum þriðja áratugnum batnaði í ári, en var erfitt á fjórða áratugi 20. aldar, eins og kom fram í Alþýðublaðinu árið 1931.

Alþýðublaðið 13. október 1921, 1−2.
Sjá m.a. Margrét Guðmundsdóttir 1983, 43−44.

Þegar kom skip með kol eða timbur þyrptust menn til hafnarinnar

mörgum hundruðum saman mörgum klukkustundum áður en vinnan átti að hefjast. Þegar verkstjórinn kom, færðist líf í fjöldann og nærri lá, að ryskingar yrðu. Hver tróðst um annan þveran nær verkstjóranum til þess að reyna að vekja athygli á sér, og það lá við að maður vorkenndi verkstjóranum meir en þessum atvinnulausu fórnum íhaldsskipulagsins …8

Alþýðublaðið 13. janúar 1931, 2. − Sjá einnig Tryggvi Emilsson
1977, 115.

Aðstaða þeirra sem ekki höfðu vinnu var mismunandi. Þeir sem ekki höfðu fyrir öðrum að sjá en sjálfum sér gátu kannski skrimt en það var erfiðara fyrir þá sem höfðu fjölskyldu á framfæri. Hefðu menn von um vinnu mátti reyna að fá lán til að brúa bilið, aðallega í verslunum. En við langvarandi atvinnuleysi þraut lánstraustið og vart um að ræða neina styrktarsjóði fyrir atvinnulausa sem hægt var að leita í.9 Afleiðingarnar urðu skortur og vannærð börn, köld og ill húsakynni og veikindi vegna slæms aðbúnaðar. Eitt versta úrræðið var að segja sig til sveitar en það gat haft í för með sér að fjölskyldan leystist upp. Þess utan þótti skömm að taka á móti slíkri aðstoð og sögur gengu um að þeim sem þörfnuðust slíkrar aðstoðar væri „sýnd frek lítilsvirðing og jafnvel ókurteisi. Það hefir kveðið svo ramt að þessu, að barnsmæður hafa farið þaðan grátandi og sagst heldur svelta heilu hungri en leita þangað aftur“.10 Atvinnuvandræðin gerðu alls staðar vart við sig, einnig í vel þekktum verstöðvum. Sumarið 1935 hafði t.d. mikill fjöldi aðkomufólks komið til Siglufjarðar í von um vinnu. En afli brást og er leið á sumarið varð neyðarástand hjá mörgum. Sagt var að sumt af aðkomufólkinu hefði verið orðið „hálfbrjálað af hungri, sögur hefðu gengið um söltunarstúlkur sem byðu karlmönnum að sænga hjá sér fyrir eitt fransbrauð og dögum oftar hefði mátt sjá stúlkur úr brökkunum dorga sér til matar þyrskling eða ufsa við bryggjurnar“.11

Alþýðublaðið 16. júlí 1921, 1−2.
Alþýðublaðið 10. janúar 1930, 2.
Benedikt Sigurðsson 1990, 42.

Tilkynning til verkafólks árið 1935 um ókeypis far frá Siglufirði eftir síldarvertíðina.

Verkalýðshreyfingin fór snemma að vinna að úrbótum fyrir þá sem ekki höfðu vinnu. Ef unnt átti að vera að grípa til aðgerða var mikilvægt að vita hvernig ástandið væri. Alþýðusamband Íslands beitti sér þess vegna fyrir því að koma á fót vinnumiðlun árið 1917 með stuðningi bæjar- og landsstjórnar. Var hún kölluð Ráðningaskrifstofa ASÍ og starfaði um nokkurra mánaða skeið árið 1918.12 Starfsmaður skrifstofunnar var Ottó N. Þorláksson. Starfsemin kom að miklu gagni fyrir atvinnulausa, mest karla en einnig nokkurn fjölda kvenna, og reyndist unnt að útvega fjölda manna vinnu. Framtakið var því líka álitsauki fyrir ASÍ.13 Og sumarið 1921 stóð sambandið fyrir því að farið var að skrá fjölda atvinnulausra. Skráningin var ekki fullkomin en gaf samt mikilvægar upplýsingar og var forboði ítarlegri skráningar. Þegar bærinn lét skrá atvinnulausa um mánaðamótin nóvember-desember árið 1923 voru yfir 600 manns atvinnulausir. Þar af voru 336 fjölskyldumenn en tæplega 200 einstaklingar, 83 voru „þurfalingar“. Helmingur atvinnulausra var „sveitfastur“ í Reykjavík.14 Þremur árum síðar, 1926, skráði atvinnuleysisnefnd Reykjavíkur yfir 400 karlmenn atvinnulausa en engin kona var skráð atvinnulaus. Á þessum tíma voru erfiðleikar í útgerð, m.a. vegna gengishækkunar stjórnvalda.15 Þessar tölur segja vitaskuld ekki alla söguna en ljóst má þó vera að atvinnuleysið var verulegt á þessum tíma.

Dagsbrún 20. apríl 1918, 47.
Stefán Hjartarson, handrit, 140−142.
Morgunblaðið 22. desember 1923, 2−3.
Alþýðublaðið 7. október 1926, 1.

Verkalýðurinn brýndur í Alþýðublaðinu árið 1932.

Regluleg atvinnuleysisskráning hófst svo í stærri bæjum í landinu árið 1929 í framhaldi af því að árið 1928 voru sett lög um atvinnuleysisskýrslur. Samkvæmt þeim var öllum bæjarstjórnum í landinu, fyrir milligöngu verkalýðsfélaganna, gert að safna upplýsingum um atvinnuleysi fjórum sinnum á ári í kaupstöðum og kauptúnum sem höfðu yfir 300 íbúa, enda væri svo gert í flestum „menningarlöndum“ eins og það var oft orðað þegar umræður voru á dagskrá Alþingis.16 Ekki voru þó allir á því að atvinnuleysisskráning væri til bóta. Til dæmis taldi Jón Ólafsson útgerðarmaður að engin þörf væri á að safna atvinnuleysisskýrslum.17 Þær mundu aðeins auka á

Alþt. A 1928, 344−345. − Einnig Þingtíðindi Alþýðusambands
Alþt. B 1928, 4171.

ýmsan hátt ómensku einstaklinganna; þegar þeir hafa látið skrásetja sig, bíða þeir von úr viti eftir þeim atvinnubótum, sem þeim hefir ef til vill verið sagt, að hið opinbera mundi og ætti að láta þeim í tje, og hætta þá um leið að bera sig sjálfir eftir þeirri björg, sem unt er að fá víðsvegar úti um land. Þessar vonir um atvinnubætur, ásamt fleiru, stuðla að því, að fólkið flytur úr sveitinni og sest að á mölinni við sjóinn.18

Alþt. B 1928, 4162.

Fulltrúum jafnaðarmanna, t.d. Héðni Valdimarssyni, fannst þessi andstaða sérkennileg og undarlegt væri að vilja ekki stuðla að því „að fengin sje áreiðanleg vitneskja um atvinnuhætti hjer á landi“. Og hann bætti við: „Hvað er það, sem getur frekar verið aðvörun gegn því að flytja í kaupstað en að sjá svart á hvítu, að fjöldi manna gangi þar atvinnulaus?“19Samkvæmt skráningum var atvinnuleysið á bilinu 500 til 800 manns að jafnaði í höfuðstaðnum yfir vetrarmánuðina á fjórða áratugnum.20 Magnús S. Magnússon telur að á bilinu 10%–20% atvinnuleysi hafi ríkt yfir vetrarmánuðina á millistríðsárunum í Reykjavík en mun minna á sumrin enda atvinna mjög árstíðabundin.21 Skráningin var þó mjög ónákvæm fyrstu árin, a.m.k. treysti Hagstofan sér ekki til að birta tölur um atvinnuleysi í skýrslum sínum nema takmarkað. Ástæður þess að skráningin var ekki nákvæm var sú að hún nýttist hinum atvinnulausu ekki; skráningunni fylgdu ekki réttindi eða stuðningur af neinu tagi.22 Staðhæft var á þessum tíma að hinir skráðu væru ekki „nema dálítill hluti þess fjölda fólks sem er atvinnulaus“.23 Alþýðu-blaðið fullyrti að verkamenn, sjómenn og iðnaðarmenn teldu „það til lítils, að mæta við skráningu, en þessum mönnum virðist ekki vera það fullljóst, að um leið og þeir eru að láta skrá sig, eru þeir að krefjast þess að fá að lifa, að fá atvinnu og lífsbjörg fyrir sig og sína“. Konur skráðu sig lítt eða ekki, enda var enn á þessum tíma vart litið á konur sem fullgilt vinnuafl. Þó var vitað að mikið atvinnuleysi væri meðal kvenna. Í febrúar árið 1935 voru um 600 skráðir atvinnulausir. Um þetta leyti var álitið að að minnsta kosti 500 manns til viðbótar væru atvinnulaus, bæði karlar og konur. 24Vinnumiðlunarskrifstofa tók til starfa í Reykjavík árið 1935 í samræmi við lög sem sett voru árið áður, en samkvæmt þeim var ætlast til að stofnaðar yrðu vinnumiðlunarskrifstofur í öllum kaupstöðum landsins sem þá voru átta talsins. Auk þess að sjá um vinnumiðlun var þessum stofnunum m.a. ætlað að sinna skráningu atvinnulausra og veita upplýsingar um atvinnuleysi.25 Þegar Vinnumiðlunarskrifstofan í Reykjavík tók til starfa voru þar fyrir þrjár stofnanir sem gegndu því hlutverki sem henni var ætlað að taka yfir, Ráðningarskrifstofa verkalýðsfélaganna, Vinnumiðstöð kvenna, sem síðar verður nánar rætt um, og Ráðningarstofa Reykjavíkur. Tvær hinar fyrrnefndu voru lagðar niður en sú síðastnefnda, sem var nýtekin til starfa, hélt áfram starfsemi sinni. Ráðningarstofa Reykjavíkur var undir stjórn bæjarins sem sjálfstæðismenn réðu og gengu á víxl ásakanir um hlutdrægni þessara stofnana þegar kæmi að mannaráðningum, enda stjórnaði þekktur alþýðuflokksmaður Vinnumiðlunarskrifstofunni en kunn ur sjálfstæðismaður Ráðningarskrifstofunni. Andstæðingar ríkisstjórnarinnar héldu því raunar fram að mark mið laga um ráðingarskrifstofur væri fyrst og fremst að knésetja Ráðningarskrifstofu Reykjavíkur sem rekin var á vegum borgarinnar.26

Alþt. B 1928, 4188−4190.
Hagskinna 1997, 245.
Magnús S. Magnússon 1985, 154−155.
Þorgrímur Gestsson 2007, 35−37.
Alþýðublaðið 27. ágúst 1932, 2.
Alþt. A 1934, 150−153.
Alþt. B 1934, 872. − Alþýðublaðið 6. maí 1935, 1. − Morgun-
1934, 869.

Niðurstöður í atvinnuleysisskráningu í Reykjavík árið 1931.

Verkalýðshreyfingin reyndi einnig að takmarka framboð á vinnuafli með því að hvetja sveitafólk til þess að sýna aðgæslu áður en það tæki sig upp og flytti til bæjanna. Það var gert af tveimur ástæðum. Annars vegar gat neyð blasað við fólki ef erfitt var að fá vinnu; hins vegar voru mörg dæmi þess að aðkomufólk samþykkti lægri launagreiðslur en umsamið var. Þetta málefni kom m.a. til tals í erindi frá Verkamannafélagi Húsavíkur til Alþýðusambandsins árið 1924:

Og þó það [verkafólk], máske, sé bundið föstum skipulagsböndum þar syðra um kaup, verður ekki vart við það þegar komið er norður fyrir land. Þá býður hver niður fyrir öðrum, og margir láta sér það um munn fara, að þeir séu ánægðir ef þeir eru matvinnungar yfir sumarið, því veturinn sé aðalatvinnutími þeirra (vetrarvertíðin á Suðurlandi).27

Hér eftir Stefán Hjartarson, handrit, 328. Byggt á skýrslu
Verkamannafélags Húsavíkur til ASÍ yfir starfsemina árið
1923.

Þetta viðfangsefni var þó ekki aðeins vandi sem verkalýðshreyfingin glímdi við. Bæjaryfirvöld í Reykjavík og á fleiri þéttbýlisstöðum á landinu höfðu einnig áhyggjur af aðstreymi fólks til bæjarins þar sem flest skorti til þess að taka á móti því. Aðstreymi fólks hafði einnig beinlínis áhrif á stöðu bæjarsjóðs Reykjavíkur, enda var árlega varið miklum fjármunum til fátækraframfæris. Árið 1930 og næstu ár á undan nam sú upphæð um fjórðungi álagðra gjalda í bænum.28 Bæjaryfirvöld birtu því hvað eftir annað auglýsingar í blöðum þar sem sveitafólk var varað við, einkum ef atvinnuástand var erfitt, að flytja til Reykjavíkur.29

Alþýðublaðið 9. janúar 1930, 2.
Þorleifur Friðriksson 2007, 218−219.

Verkalýðshreyfingin og bæjarstjórnir unnu að því að takmarka framboð á vinnuafli með því að reyna að draga úr tilflutningi fólks í þéttbýlið. En einnig var reynt að auka atvinnuna. Það var einkum gert með því að reyna að fá hið opinbera, bæi og kaupstaði, til þess að bjóða fram atvinnubótavinnu. Á erfiðleikaárunum í fyrri heimsstyrjöldinni stóð til boða atvinnubótavinna í Reykjavík frá hausti 1917, við grjóthögg, vegagerð og mótöku.30 Ekki voru þó allir á eitt sáttir við þessa aðferð og töldu hana óarðbæra, fólk væri látið vinna „eitthvert „óplanlagt“ verk, sem engan eða lítinn arð gefur“.31 En Alþýðusambandið og fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Reykjavík voru ekki á þeirri skoðun og beittu sér fyrir því að komið var á atvinnubótavinnu í Reykjavík. Veitti Reykjavíkurbær og stundum ríkisvaldið umtalsverðu fé til slíkra framkvæmda á þriðja og fjórða áratugnum.32

Guðjón Friðriksson 1994, 15−17.
Alþt. B 1928, 4163.
Alþýðublaðið 20. október 1932, 3.

Tilkynnt um atvinnubótavinnu í Reykjavík árið 1924.

Meðal annars náðist samkomulag við stjórnvöld um að unnið skyldi í atvinnubótavinnu við grjótnám í Öskjuhlíð og við lóð Landspítalans árið 1926. Þörfin var greinilega brýn. Fyrstu tvo dagana óskuðu 600 manns eftir vinnu og ljóst varð að færri kæmust að en vildu. Undir lok árs 1931 þegar atvinnubótavinnu lauk voru í henni 214 manns. Samtals höfðu þessir menn á framfæri sínu 606 börn innan 14 ára aldurs og var álitið að samtals væru á heimilum þeirra um 1500 manns. Langflestir voru fjölskyldumenn og þess vegna fengu þeir vinnu. Hinir tæplega 500 sem ekki höfðu vinnu á þessum tíma voru flestir „ómagalausir“, þ.e. höfðu ekki fyrir neinum að sjá, en þó alls ekki allir. Vinnu þessara manna var lýst svo:

Unnið er á 6 stöðum. Í Breiðholtsmýri vinna 85 að skurðgreftri, við Laugarnesveg 23 að því að grafa fyrir leiðslum, við Höfnina 40 við að hlaða til varnar landbroti framhald af Grandagarðinum. Af þessum mönnum eru 10 uppi í holti að rífa upp grjót í hleðsluna. Að undirbyggingu vega vinna 23 við Barónsstíg, 23 við Vitastíg og 20 við Ásvallagötu.33

Alþýðublaðið 18. desember 1931, 2.

Er komið var nokkuð fram á fjórða áratuginn og atvinnuleysi virtist vera orðið viðvarandi gerði verkalýðshreyfingin kröfu um að ráðist yrði í auknar opinberar framkvæmdir og meira fé lagt í atvinnubótavinnu. Milljónum króna var veitt til þessa verkefnis á árunum 1933–1940, bæði frá ríki og sveitarfélögum.34 Unnið var að margvíslegum verkefnum í Reykjavík og öðrum kaupstöðum landsins. Til dæmis var ríflega hálft annað hundrað manna við ýmis störf í Reykjavík í nóvember 1933 en ekki unnu þeir nema tvær vikur í senn. Að þeim loknum tók við annar hópur.35 Auk þessa var ráðist í umfangsmiklar framkvæmdir við að ræsa fram mýrar í Flóanum á Suðurlandsundirlendinu 1935−1938.36

Jón Blöndal 1942, 211−214. − Alþýðublaðið 20. október 1932, 3.
− Jens Hólmgeirsson 1941, 178−180. − Jón Gunnar Grjetarsson
1988, 79−81.
Alþýðublaðið 9. nóvember 1933, 3. − Sjá einnig Tryggvi Emils-
son 1977, 291.
Sjá Jón Gunnar Grjetarsson 1988. − Halldór Pétursson 1968,
72 og víðar.

Þrátt fyrir ítrekaðar hvatningar þess efnis stóð konum ekki til boða atvinnubótavinna að neinu marki, enda voru verkefnin, mest grjótvinna og mokstur, sem stofnað var til í þessu skyni, eingöngu ætluð karlmönnum. Tillögum þess efnis var tekið fremur fálega í bæjarstjórn Reykjavíkur.37 Sem fyrr segir var í raun ekki litið á konur sem fyrirvinnur þó að þess væru vitaskuld mörg dæmi að þær væru það. Til dæmis var álitið að á milli 300 og 400 konur væru einu fyrirvinnur á heimilum sínum í Reykjavík árið 1932. Þær voru í mörgum tilvikum einmitt þær fyrirvinnur sem voru „fátækastar allra“.38 Ekki vantaði þó tillögur um viðfangsefni fyrir atvinnulausar konur, til dæmis við að aðstoða á heimilum þar sem voru barnmargar fjölskyldur og jafnvel veikindi sem komu í veg fyrir að heimilisfaðir eða húsmóðir gæti sinnt störfum utan heimilis. Bæði Kvenréttindafélagið og Mæðrastyrksnefnd höfðu beitt sér í þessum efnum og var komið á fót Vinnumiðstöð kvenna árið 1931 að Þingholtsstræti 18 (heima hjá Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og Laufeyju Valdimarsdóttur) og starfaði hún í nokkur ár til þess að auðvelda konum atvinnuleit. Forstöðukona miðstöðvarinnar var Guðrún Ásmundsdóttir. Þegar á fyrstu dögum Vinnumiðstöðvarinnar skráðu sig milli 60 og 70 konur. Starf Vinnumiðstöðvarinnar reyndist árangursríkt. Á starfstíma sínum hafði hún milligöngu um mörg þúsund ráðningar til starfa.39 Óskað var eftir því við bæjaryfirvöld að Vinnumiðstöðin mætti taka upp formlega atvinnuleysisskráningu kvenna en beiðninni var hafnað. Engu að síður tók Vinnumiðstöðin saman skýrslu um atvinnulausar eða atvinnulitlar konur árið 1934 og reyndust þær þá 250 og höfðu um 600 börn á framfærslualdri á framfæri sínu. Þó var vitað að þær væru miklu fleiri.40 Hefði beiðni Vinnumiðstöðvarinnar verið samþykkt væri væntanlega meira að marka atvinnuleysistölur frá Reykjavík á þessum tíma. Rétt er þó að halda því til haga að borgin styrkti starfsemina eitthvað.41 Atvinnulausar konur voru enn verr settar en atvinnulausir karlar enda laun þeirra lægri en stéttarbræðra þeirra. Þeim var frekar ætlað að leita sér fátækrahjálpar sem hafði í för með sér mannréttindamissi og gat leitt til þess að fjölskyldan sem konan hafði forsjá fyrir væri leyst upp.42 Atvinnubótavinna fyrir konur og unglinga var þó tekin upp árið 1937 og voru þá 14–16 konur samtímis að störfum í hálfan mánuð í senn, aðallega við viðgerðir og breytingar á fötum sem borist höfðu til Vetrarhjálparinnar.43 Að mati Jóhönnu Egilsdóttur var þetta langt frá því að mæta þörfinni en „hjálpaði þeim sem voru verst settar, sérstaklega ekkjum og einstæðum mæðrum“. Vinnumiðstöðin starfaði til ársins 1935 þegar sett var á stofn opinber vinnumiðlun.44

Margrét Guðmundsdóttir 1983, 47−51.
Sjá m.a. Laufey Valdimarsdóttir 1932, 2. − Margrét R. Hall-
dórsdóttir 1962, 113−114.
Morgunblaðið 19. desember 1931, 5. − Sigríður Th. Erlends-
dóttir 1997, 282. − Kvenréttindafélag Íslands 40 ára 1947,
117−118.
Laufey Valdimarsdóttir 1934, 3. − Sjá einnig Alþýðublaðið 5.
október 1934, 1.
Kvenréttindafélag Íslands 40 ára 1947, 117.
Sjá einnig Margrét R. Halldórsdóttir 1962, 112−117.
Alþýðublaðið 22. febrúar 1937, 2.
Sigríður Th. Erlendsdóttir 1993, 178.

Grjótmulningi mokað á vörubíl á millistríðsárunum, ef til vill í atvinnubótavinnu, en m.a. var unnið við vegagerð í atvinnubótavinnu.

Oft urðu harðar deilur vegna atvinnuleysismála á fjórða áratugnum og meiri átök en dæmi voru til um áður. Stundum blönduðust þessi átök inn í deilur verkalýðsflokkanna tveggja, jafnaðarmanna og kommúnista. Í árslok 1930 varð til dæmis uppþot á bæjarstjórnarfundi þegar fjallað var um fjárhagsáætlun bæjarins. Lögregla var kölluð á staðinn en gat lítið viðnám veitt gegn mótmælendum, enda fámenn.45 Sagan endurtók sig ári síðar af sama tilefni og urðu slagsmál á milli mótmælenda og lögreglu. Einnig urðu hörð átök við „Gúttó“, Góðtemplarahúsið, í júlí 1932 þegar stóðu yfir umræður á bæjarstjórnarfundi um málefni atvinnulausra. Urðu slagsmál milli lögreglu og andófsmanna. Í kjölfar þess dundi grjóthríð á húsinu en bæjarfulltrúar komust heim til sín undir lögregluvernd. Að kvöldi 7. júlí gekk fjöldi verkamanna „um Reykjavíkurgötur undir blaktandi rauðum fánum; lögreglan sást hvergi; bílar véku alls staðar úr vegi; enginn borgari greip framm í fyrir neinum verkalýðssinna … Burgeisastéttin fékk ofurlítinn forsmekk af valdi lýðsins yfir strætunum, en verkalýðurinn fann til máttar síns“.46 Í kjölfar þessa atburðar voru nokkrir helstu leiðtogar kommúnista fangelsaðir. Síðar í sama mánuði voru haldnir fjölmennir útifundir í Reykjavík til þess að árétta kröfur hinna atvinnulausu.47 Eftir þessi átök tilkynntu kommúnistar, sem mest höfðu sig í frammi við þessi mótmæli, að stofnað yrði „Varnarlið verkalýðsins“ eða „Baráttulið verkalýðsins“. Morgun-blaðið taldi að þá þegar hefðu 100 manns skráð sig í liðssveitina. Stofnunin fór ekki leynt og var greint frá henni í útvarpinu.48 En fleiri vígbjuggust á þessum tíma. Landsmálafélagið Vörður kom sér upp „varnarliði“ sem var nefnt fánalið og urðu átök á þessum tíma tilefni til stofnunar þess. Var félaginu ætlað að „verja fundafrelsið“ og starfaði um nokkurra ára bil, og um inngöngu sóttu margfalt fleiri karlmenn en að komust. Meðlimirnir voru einkennisklæddir og stunduðu æfingar í leikfimihúsi sem útvegað var til þessara þarfa.49 Sams konar liði var einnig komið á fót á Siglufirði árið 1933. Nefndist það Skjöldur og voru stofnfélagar hvorki meira né minna en 72. Ekki er þó vitað til þess að félagið hafi beitt sér, enda dró úr hörku deiluaðila eftir þetta og árið eftir var Alþýðuflokkurinn kominn í ríkisstjórn og það hlaut að hafa áhrif.50

Sjá m.a. Morgunblaðið 31. desember 1930, 3, og 3. janúar
1931, 3.
Réttur 17. árg. (1932), 2. tbl., 124. − Morgunblaðið 8. júlí
1932, 3.
Jón Rafnsson 1957, 140−143.
Morgunblaðið 9. júlí, 2 og 13. júlí, 2, 1932.
Landsmálafélagið Vörður 25 ára, 56−57.
Benedikt Sigurðsson 1989, 385−387.

Í Straustofu Sæunnar Bjarnadóttur að Laufásvegi 4 í Reykjavík kringum 1920. Konur fengu miklu síður atvinnubótavinnu en karlar þó að þörfin væri oft ekki síðri og fáar konur skráðu sig atvinnulausar.

Þekktust eru þó átök í tengslum við bæjarstjórnarfund sem haldinn var 9. nóvember 1932, m.a. um mál efni atvinnulausra í Reykjavík, en atvinnulausir kröfðust aukinna aðgerða vegna atvinnuleysis og að atvinnu bótavinna yrði aukin.51 Héðinn Valdimarsson staðhæfir að kjarni deilunnar hafi verið sá að um langt skeið hefðu atvinnurekendur reynt að lækka kaupið hjá félagsmönnum Dags brúnar en ekki tekist vegna sterkrar stöðu félagsins. Ætlunin hefði verið að brjóta skarð í varnir Dagsbrúnar með því að lækka kaup í atvinnubótavinnunni svo að unnt yrði í kjölfarið að lækka kaupið almennt. Auk þess hefði legið fyrir að bæjarstjórnin hafði ekki viljað fjölga í atvinnubótavinnunni um þetta leyti eins og áður hefði verið gert. Því hefði Dagsbrún staðið fyrir fjölmennum útifundi fyrir bæjarstjórnarfundinn og kröfugöngu og boðað verkfall að morgni 9. nóvember.

Skúli Þórðarson 1966, 21−22. − Sjá einnig Morgunblaðið 8.
nóvember 1932, 3.

Um þessi átök hefur oft verið fjallað og verður þeirra því ekki getið ítarlega hér, en bæði Alþýðusambandið og Kommúnistaflokkurinn höfðu hvatt fólk til þess að vera fyrir utan fundarstað bæjarstjórnar og gátu þeir sem úti stóðu hlustað á ræður bæjarfulltrúa í hátölurum sem hafði verið komið upp. Heimildum ber ekki saman um atburðarásina en svo hitnaði í kolunum að árás var gerð á húsið með grjótkasti „svo að flestallir gluggar í húsinu brotnuðu“ og hörð átök urðu við lögregluna. Voru andófsmenn sakaðir um að hafa æst mannfjöldann til að gera árás á lögregluna. Jens Figved var til dæmis sakaður um að hafa haldið æsingaræðu. Hefði hann sagt frá högum manna í Rússlandi og lýst „ástandinu þar og hafi hann sagt, að þar væri ekkert atvinnuleysi, verkamennirnir mikils metnir, þar væru engir ríkir borgarar, því sumir væru reknir í útlegð en aðrir drepnir og kveður vitnið, að ákærði hafi lagt sérstaka áherzlu á niðurlagið“.52 Andófsmenn neituðu að hafa hafið átökin og Héðinn Valdimarsson hélt því fram að lögreglan hefði haft frumkvæðið; Héðinn tók virkan þátt í átökunum og rétti, ásamt fleirum, andófsmönnum brot úr borðum og stólum út um glugga fundarhússins.53 Enn aðrir hafa borið að átökin hafi verið vandlega undirbúin af andófsmönnum.54

Morgunblaðið 12. nóvember 1932, 3. − Héðinn Valdimarsson
1938, 44−48. − Hæstaréttardómar VI. bindi 1935, 398.
Sigurbjörn Þorkelsson 1971, 158−159.

Átökunum lauk þannig að 20 manna lögreglulið var sigrað og voru margir lögregluþjónanna sárir, sumir illa, og bornir burt meðvitundarlausir.55 Og „tólf bolsar leituðu læknisaðgerðar hjá Ólafi Þorsteinssyni lækni“. Hrakyrti Morgunblaðið Hermann Jónasson lögreglustjóra fyrir framgöngu hans í málinu, að hann hefði ekki sinnt aðvörunum, og auk þess brugðið sér af fundi. – Hermann var sjálfur bæjarfulltrúi – til þess að dæma Magnús Guðmundsson dómsmálaráðherra fyrir misfellur í starfi, sem hann var þó seinna sýknaður af í Hæstarétti!56 Þessi átök og fleiri sama eðlis leiddu í ljós hve illa yfirvöld voru í stakk búin þegar það gerðist ítrekað að lögreglan varð að lúta í lægra haldi, varð jafnvel óvíg. Forysta verkalýðshreyfingarinnar hefði getað tekið völdin í bænum hefði vilji verið til þess en ekkert bendir til að hugur þeirra hafi staðið til þess né að það hafi verið ætlunin þegar þessi afdrifaríki bæjarstjórnarfundur hófst.57 En það var kannski ekki að undra að upp kæmi ótti hjá yfirvöldum og yfirstéttinni við byltingu.

Morgunblaðið 5. júlí 1935, 4. − Hæstaréttardómar VI. bindi
1935, 378.
Morgunblaðið 11. nóvember 1932, 2.
Héðinn Valdimarsson 1938, 46−47. − Ólafur R. Einarsson;
Einar Karl Haraldsson 1977, 244−246.

Fundarsalurinn í Góðtemplarasalnum, Gúttó, eftir slaginn 9. nóvember 1932. Staðhæft var að Héðinn Valdimarsson og fleiri hefðu rétt þeim sem úti voru borðfætur og önnur barefli út um glugga hússins. Vel sést að búið er að brjóta fætur af borði vinstra megin á myndinni.

Þess má geta að 9. nóvember 1933 var haldinn skemmti fundur í Iðnó til að minnast þessara atburða og var þá m.a. sýnt leikrit í einum þætti sem fjallaði um þessa miklu deilu.58 Byltingarskáldið Jóhannes úr Kötlum orti einnig mikinn ljóðabálk um átökin: „Heill þér sól! Í austri eldar rísa,/ ákaft bláan morgunhimin lýsa“.59 Fjöldi manna var dæmdur eftir átökin. Lengstu dómarnir voru sex mánaða fangelsi og voru hinir dæmdu helstu forystumenn kommúnista en einnig nokkrir jafnaðarmenn. Einn var t.d. dæmdur fyrir að kasta salti í augu eins aðstoðarmanna lögreglunnar en annar fyrir að hafa „stokkið upp á herðar“ Jakobs Möller bæjarfulltrúa og fellt hann í götuna.60 En einnig voru menn dæmdir fyrir að „halda æsandi ræður og hvetja til árása á fundarhúsið“ og að brýna fyrir mönnum „að standa sem fastast saman um þá kröfu, að bætt verði 150 mönnum í atvinnubótavinnuna og sleppa engum bæjarfulltrúanna út fyrri en það væri samþykkt“.61 Allir hinir dæmdu voru þó náðaðir þremur árum síðar af þáverandi dómsmálaráðherra, Hermanni Jónassyni, eftir að fjölmargir höfðu undirritað náðunarbeiðni vegna þeirra.62

Morgunblaðið 9. nóvember 1933, 2.
Réttur 45. árg. (1962), 5.−6. hefti, 199.
Hæstaréttardómar VI. bindi 1935, 367−369.
Hæstaréttardómar VI. bindi 1935, 360−363.
Morgunblaðið 3. júlí 1935, 3. − Héðinn Valdimarsson 1938,
47−48. − Ólafur R. Einarsson; Einar Karl Haraldsson 1977,
254−255.

Þessir atburðir urðu til þess að ríkisstjórnin ákvað að stofna varalögreglu, enda óttuðust margir að bylting væri fram undan. Þegar eftir átökin 9. nóvember gekkst Ólafur Thors, sem þá var dómsmálaráðherra um stundar sakir, fyrir því að hafinn var undirbúningur að því að koma á fót ríkislögreglu.63 Jafnframt hóf „leyni þjónusta“ lögreglunnar að fylgjast með starfsemi kommúnista og hvar þeir hefðu „sellur“ starfandi, sérstaklega með það í huga að koma í veg fyrir svipaða atburði og urðu hinn 9. nóvember.64 Ríkislögreglunni var komið formlega á fót 1933 samkvæmt lögum frá sama ári og var hún skipuð 40 mönnum í Reykjavík. Héðinn Valdimarsson staðhæfir að þeir hafi verið 120 og gerir þá væntanlega ráð fyrir varaliði. Hann segir einnig að keypt hafi verið handa þeim skotvopn og táragas.65 Þessi skipan lögreglunnar varaði þó ekki lengi því að eftir að stjórn hinna vinnandi stétta var sest að völdum um mitt ár 1934 voru greiðslur til ríkislögreglunnar felldar niður í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.66

Sigurbjörn Þorkelsson 1971, 169. − Sjá einnig Morgunblaðið
23. desember 1932, 2.
Sigurbjörn Þorkelsson 1971, 172−173.
Jón Baldvinsson 1934, 3. − Héðinn Valdimarsson 1938, 47.
Morgunblaðið 10. ágúst 1934, 2. − Tryggvi Emilsson 1977,
287−288.− Guðmundur Magnússon 2004, 38.

Félagar í Varnarliði verkalýðsins í fullum skrúða, líklega á 1. maí um eða fyrir miðjan fjórða áratuginn.

Borði félaga úr Varnarliði verkalýðsins.

Verkalýðssamtökin deildu hart á stofnun ríkislögreglunnar og myndun varalögreglunnar og bannaði Dagsbrún félagsmönnum sínum að vinna með „hvítliðum“ eða ríkislögreglumönnum. Vinna var iðulega stöðvuð af þessum sökum en einstöku „meðlimir ríkislögreglunnar leituðu sátta við félagið og greiddu 50 kr. sektir í vinnudeilusjóð“. Í öðrum tilvikum mun ríkissjóður hafa greitt fyrir lögreglumennina eftir að dómur hafði fallið á þann veg að Dagsbrúnarmönnum væri heimilt að neita að vinna með mönnunum og þótti ýmsum hart aðgöngu en segir mikið um styrk Dagsbrúnar.67 Víðar á landinu neituðu verkamenn að vinna með „hvítliðum“, til dæmis á Akureyri, og komust yfirleitt upp með það.68

Alþýðublaðið 30. janúar 1934, 3. − Alþýðublaðið 3. febrúar 1935,
3. − Héðinn Valdimarsson 1938, 47.
Tryggvi Emilsson 1977, 294−296.

Vörður

  • 1917 ASÍ kom á fót vinnumiðlun.
  • 1921 Skráning atvinnulausra á vegum ASÍ.
  • 1928 Sett lög um atvinnuleysisskýrslur.
  • 1931 Vinnumiðstöð kvenna komið á fót.
  • 1932 Gúttóslagurinn 9. nóvember.
  • 1935 Vinnumiðlunarskrifstofa stofnuð í Reykjavík á vegum ríkisins.
  • 1935–1938 Ræstar fram mýrar í Flóanum í atvinnubótavinnu.

Næsti kafli

Félagsleg réttindi og samábyrgð